Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
27.6.2010 | 22:14
Vanmetinn jarðhiti?
Víða um heim er furðulítil ásókn í jarðhitann. Vindorka og sólarorka hafa náð að fanga athygli bæði pólitíkusa og fjárfesta beggja vegna Atlantshafsins, en jarðhitinn virðist hafa orðið útundan.

Jafnvel þó svo undanfarin ár hafi komið fram ýmsar nýjar og mjög athyglisverðar leiðir til að nýta jarðhita á lághitasvæðum, er mikil tregða hjá fjármagninu að veðja á jarðhitann. Þeir sem yfir því ráða eru m.ö.o. ófúsir að lána fé til jarðhitaverkefna. Fæstir vilja koma nálægt rannsóknum eða jarðhitaleit fyrr en töfraholan er fundin. Þá i raun ekkert annað eftir en að sækja sannreynda orku og áhættan nánast gufuð upp. Vandamálið er að rannsóknir og jarðhitaleit er gríðarleg stór hluti af heildarkostnaði jarðvarmavirkjana, þ.a. fjármagnstregðan hamlar því að jarðhitanotkun breiðist út sem skyldi.
Þetta er kannski skiljanlegt í ljósi þess að það er áhættuminna að setja pening í sólarsellur eða vindrafstöðvar, sem hvortveggja byggja á tiltölulega þekktum stærðum. Í huga Íslendingsins er þetta samt svolítið ósanngjarnt; jarðhiti sem orkugjafi hefur nefnilega gríðarlega kosti umfram vind og sól. Bæði vind- og sólarorka er afar óstöðug orkuframleiðsla og þarf alltaf á varafli að halda. Þó svo hugsunin með vind- sólarorkuverum sé að draga úr notkun kola og gass, þarf varaaflið að vera til staðar. En sá kostnaður er ekki reiknaður með þegar verið er að bera þessa grænu kosti saman við t.d. jarðvarma. Fyrir vikið getur samanburðurinn orðið nokkuð villandi og jarðhitanum mun óhagstæðari en efni standa til.
Það er auðvitað afleitt fyrir okkur Íslendinga að jarðhitinn skuli ekki njóta meira fylgis. Ef þeir sem stýra laga-, styrkja- og fjárfestingaumhverfinu í orkugeira veraldarinnar myndu átta sig til fulls á kostum jarðhitans myndum við hugsanlega eiga mun auðveldara með að flytja út jarðvarmaþekkingu.

Því miður eru litlar líkur á að umhverfið breytist á næstunni. Samt aldrei að vita. Nú er t.d. vaknaður áhugi hjá Aröbum á jarðhitanum. Það hefur ekki farið hátt að Guðmundur Oddsson, fyrrum forstjóri Orkuveitunnar, og félagar hans hjá Reykjavík Geothermal eru að bora eftir jarðhita í Abu Dhabi fyrir tilstilli fjármagns frá olíufurstunum þar.
Til að koma þeim netta díl á, hefur sennilega hjálpað til áhugi framámanna í Abu Dhabi á að landið verði ekki aðeins þekkt sem olíuríki, heldur einnig sem frumkvöðull í endurnýjanlegri orku. Þess vegna bauð Abu Dhabi einmitt best í að hýsa aðalstöðvar IREANA, sem verða staðsettar i furðuborginni Masdar. Og einn helsti fjárfestingasjóður olíufurstanna í Abu Dhabi, Masdar Initative, hefur fjárfest í endurnýjanlega orkuiðnaðinum víða um heim.

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort Reykjavík Geothermal takist að finna vinnanlegan jarðhita þarna suður í eyðimörkinni. Þeir eru komnir með bor á staðinn og þetta er vonandi skref í rétta átt fyrir útflutning á íslenskri jarðvarmaþekkingu. Kannski er jarðhitinn að braggast og umfjöllunin að færast til betra horfs. Jafnvel þó svo jarðhitaverkefni Google vestur í Kaliforníu hafi fengið slæmt umtal síðustu mánuðina, hafa nefnilega nokkrar mjög jákvæðar jarðhitafréttir komið fram á liðnum misserum.
Það var t.d. skemmtilegt þegar Credit Suisse birti skýrslu um jarðvarma, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að orkuframleiðsla með jarðhita sé ódýrasta leiðin til að framleiða raforku. Þessi vinna ljúflinganna í Zurich er reyndar ekki gallalaus; t.d. eru þeir sennilega að vanmeta fjármagnskostnað við jarðhitavirkjanir og sömuleiðis skauta þeir nokkuð frjálslega framhjá rannsókna- og þróunarkostnaði. En niðurstaðan er engu að síður líkleg til að verða vatn á myllu jarðhitans.
Það vekur reyndar nokkra furðu að ekkert virðist hafa verið fjallað um þessa skýrslu frá Credit Suisse í íslenskum fjölmiðlum. En menn hafa kannski lítinn áhuga á jákvæðum fréttum hér á hinu vonlausa verðtryggða skeri.

En þó svo fjölmiðlar þegi um þessa frétt, vita samt íslenskir sérfræðingar auðvitað af þessari skýrslu. Sbr. t.d. nýleg grein Odds Björnssonar hjá Verkís, þar sem hann bæði vitnar til Credit Sviss og annarrar nýlegrar skýrslu frá Alþjóðabankanum, sem einnig gefur jarðhitanum ágætiseinkunn. Einnig má benda lesendum Orkubloggsins á grein í Scientific American þar sem fjallað var um umrædda skýrslu Credit Suisse, sem er afar heit fyrir jarðvarmanum.
Til eru fleiri nýlegar erlendar skýrslur í ofurskjalasafni Orkubloggarans sem eru á sömu nótum; telja að jarðvarmi sé einhver álitlegasta og hagkvæmasta leiðin til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Það virðist því sem jarðhitinn sé hreinlega að verða funheitur og framtíð hans kunni að vera mjög björt.
Eftir klúðrið með REI og hrun Geysis Green Energy eru menn hér á Klakanum góða kannski svolítið hikandi að taka ný metnaðarfull skref með jarðhitaverkefni erlendis. Engu að síður er nú aftur að komast hreyfing á þessa hluti.
Íslandsbanki er t.d. að endurreisa bankaþjónustu sína við jarðhitann vestur í Bandaríkjunum, en eftir fall Glitnis var ráðgjafaþjónusta bankans í New York á sviði jarðhita og sjávarútvegs seld. Fyrir stuttu gerðu svo nokkur íslensk fyrirtæki á sviði jarðvarmans með sér samstarfssamning vegna verkefna erlendis. Þar voru á ferðinni verkfræðistofurnar Mannvit, Efla og Verkís, Orkuveita Reykjavíkur, Jarðboranir, ÍSOR og arkitektastofurnar T.ark og Landslag.
Loks má nefna að Kínverjarnir sem hér voru staddir um daginn munu hafa skrifað undir viljayfirlýsingu við Enex um frekari verkefni austur í Kína. Hverju þetta allt saman skilar verður auðvitað bara að koma í ljós. En það er a.m.k. svo að íslensk jarðvarmaþekking virðist aftur vera komin á hreyfingu og vonandi á það eftir að vinda upp á sig. Sjálfur er Orkubloggarinn á því, að íslensku jarðhitafyrirtækin eigi fyrst og fremst að fókusera á hitaveitur. Samkeppnin í raforkuframleiðslunni er alveg svakalega mikil, en í hitaveituþekkingunni hafa Íslendingar tvímælalaust forskot.
Eitt það athyglisverðasta í sambandi við mögulega vitundarvakningu gagnvart jarðhitanum er kannski ráðstefna sem til stendur að halda hér á Íslandi síðar á árinu. Þar verður fjallað um íslenska jarðhitaþekkingu og hvernig Íslendingar geta skapað ný tækifæri í jarðhitageiranum ef rétt verður haldið á spöðunum.
Að ráðstefnunni koma ekki minni spekingar en Christian Ketels 
frá Harvard og sjálfur Michael Porter, sem er flestum kunnur. Þeir koma báðir fjá Institute for Strategy and Competitiveness við Harvard Business School, sem er hluti af Harvard-háskólanum, og er væntanlega mikill fengur af því að þeir skuli sýna þessu verkefni áhuga.
Það er íslenska ráðgjafafyrirtækið Gekon sem á veg og vanda að skipulagningu þessarar ráðstefnu, sem mun eiga að fara fram í Reykjavík um það leyti sem vetur gengur í garð. Orkubloggarinn er vongóður um að þetta verði mikilvægt skref í átt að því að jarðhitaþekking Íslendinga skili okkur í framtíðinni mun meiri tækifærum en fram til þessa.
Það er Orkubloggaranum þó hulin ráðgáta af hverju Íslendingar hafa ekki löngu kynnt sig fyrir stærsta jarðhitafjárfesti heimsins. Sem er hið netta orkufyrirtæki Chevron. Chevron er með talsverða reynslu af jarðhita í Bandaríkjunum, en stærstur hluti af jarðvarmastarfsemi Chevron er í Asíu. T.a.m. eru jarðhitaverkefni á vegum fyrirtækis í eigu Chevron í Indónesíu upp á heil 630 MW. Og á Filippseyjum hefur annað fyrirtæki Chevron verið í álíka umsvifamiklum jarðhitaverkefnum (tæp 700 MW). Filippseyjar eru vel að merkja í öðru sæti yfir ríki heims með mest uppsett afl í jarðvarma, með tæp 2.000 MW og framleiða hátt í 20% allrar raforku sinnar með jarðhita (Bandaríkin tróna efst með um 3.000 MW - þessar tölur má sjá í glænýrri skýrslu samtaka jarðvarmafyrirtækja í Bandaríkjunum, útg. í maí s.l.).

Ráðgert er að á næstunni undirriti Chevron nýjan langtímasamning við filippseysk stjórnvöld um fleiri jarðhitaverkefni í landinu. Sem sagt fullt af spennandi jarðhitasulli framundan hjá Chevron. Hvort Chevron hefur einhvern áhuga á íslenskri jarðhitaþekkingu er önnur saga. En væntanlega hafa menn tengdir Geysi Green Energy og Íslandsbanka kynnt fyrirhugaða sölu á hlutabréfum GGE í HS Orku fyrir Chevron? Áður en hlaupið var til og samið við Magma.
---------------------------------------
PS: Vegna nokkurra anna hjá Orkubloggaranum nú um hábjargræðistímann verður þetta síðasta færslan hér að sinni. Þannig að lesendur bloggsins geta nú tekið sér sumarfrí frá Orkublogginu... eða þá barrrasta dúllað sér við það næstu vikurnar að glugga í eldri færslur. Er ekki af nógu að taka?
20.6.2010 | 00:32
Frá opíumökrum til grænlenskra fjalla
"Ofboðsleg verðmæti í jörðu í Afganistan." Þannig hljóðaði fréttafyrirsögn á vefnum mbl.is í nýliðinni viku.
Og sama dag birtist svipuð frétt í flestum þeim fjölmiðlum heimsins, sem telja sig fylgjast vel með því helsta sem er að gerast hverju sinni í veröldinni. Hundruð ef ekki þúsundir fjölmiðla átu þessa sömu frétt upp eftir hver öðrum. Uns öll heimsbyggðin var loksins orðin meðvituð um það að Afganistan er ekki bara ópíumrækt og ofsatrúarskæruliðar, heldur land þar sem allt flýtur í verðmætum málmum, gimsteinum og öðru slíku fíneríi.

Rótin að þessum stormsveip í fjölmiðlaheiminum um auðlindirnar í Afganistan var frétt sem birtist á vefsíðu New York Times s.l. sunnudag (13. júní) undir fyrirsögninni "U.S. Identifies Vast Mineral Riches in Afghanistan". Skyndilega virtist fjölmiðlafólk bæði á Íslandi og annars staðar í heiminum vakna upp við það, að Afganistan býr yfir ýmsum tækifærum. Og þar sé að finna "ofboðsleg verðmæti í jörðu".
Þegar Orkubloggarinn sá þessa frétt NYT kom einkum tvennt upp í hugann. Í fyrsta lagi eru þetta alls ekki ný tíðindi. Jarðfræðingar hafa í áratugi vitað af geggjuðum námavinnslu-möguleikunum í Afganistan. Allt frá árinu 2007 þegar United States Geological Survey (USGS) birti gögn um Afganistan hefur það verið almenn vitneskja að Afganistan búi yfir gríðarlegum náttúruauðlindum. Í öðru lagi er ennþá mjög mikil óvissa um það hversu mikið magn þarna er á ferðinni og allsendis óvíst hversu mikið af því er í reynd unnt að nálgast og vinna með viðeigandi tilkostnaði.

Upplýsingarnar frá 2007 hefðu ekki átt að fara fram hjá neinum sem kallar sig alvöru fjölmiðil. Þarna var um að ræða afrakstur af rannsóknum sem fóru fram á árunum 2004-07 og voru kynntar á sérstakri ráðstefnu í Washington DC fyrir um þremur árum. Umræddar upplýsingar hafa þar að auki verið öllum aðgengilegar á vef USGS. Jafnskjótt og þessar upplýsingar birtust 2007 var reyndar talsvert fjallað um þetta í ýmsum fjölmiðlum. En af einhverjum ástæðum fangaði fréttin um niðurstöður USGS bara ekki almennilega athygli umheimsins, fyrr en með umfjöllun NYT núna.
Þetta eru sem sagt kexgamlar fréttir. Og þar að auki er ennþá einungis um vísbendingar að ræða og alger óvissa um það hversu mikið magn þarna er á ferðinni. Jarðfræðingar hafa í áratugi vitað af náttúruauðlindunum í þessu stríðshrjáða landi, en þar eru allir innviðir samfélagsins í molum og sömuleiðis eru landfræðilegar aðstæður vægast sagt erfiðar. Bara það að sannreyna vinnanlegt magn náttúruauðlinda mun taka fjöldamörg ár - ef ekki áratugi - og langt í land með að umtalsverð vinnsla hefjist. Og það er ekki bara Orkubloggarinn sem sér augljósa veikleikana í frétt NYT, sbr. t.d. þessi grein í Indepenent.

Námavinnsla hefur lengi þekkst í Afganistan en verið mjög frumstæð. Hernám Rauða hersins og stríðið sem því fylgdi 1979-1989 og svo tímabil Talíbanastjórnarinnar fram til 2001 leiddi til mikillar stöðnunar í landinu. Fyrir vikið er Afganistan eitthvert verst farna land veraldar og fellur helst í flokk með löndum eins og Sómalíu og Sierra Leone.
Ekki er unnt að láta hér hjá líða að minnast einhverjar allra frægustu ljósmyndar í sögu tímaritsins National Geographic, af afgönsku stúlkunni með grænu augun, sem bandaríski ljósmyndarinn Steve McCurry tók í Nasir Bagh flóttamannabúðunum í Pakistan árið 1984. Þar höfðust um hundrað þúsund flóttamenn frá Afganistan við í fjölda ára, meðan Sovétmenn herjuðu í Afganistan á 9. áratugnum. Það reyndist sneypuför fyrir risaveldið CCCP en skaut afgönsku þjóðinni langt aftur á bak og skapaði jarðveginn fyrir valdatöku afganskra ofstækismanna.
Ekki hefur ástandið verið mikið skárra eftir innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra síðla árs 2001. En í kjölfar þess að Talíbanastjórninni var steypt af stóli hefur landið opnast á ný og nokkur alvöru fyrirtæki hafa byrjað að skoða Afganistan sem álitlegan kost til námavinnslu.

Þar eru Kínverjar í fararbroddi, rétt eins og Orkubloggarinn tæpti á í síðustu færslu, þar sem minnst var á koparvinnslu þeirra í Afganistan. Sú færsla var vel að merkja birt daginn áður en áðurnefnd frétt birtist í NYT, sem hlýtur að vera tákn um forspáhæfileika bloggarans (sic).
Það virðist hafa komið Bandaríkjastjórn á óvart þegar Kínverjarnir sömdu við afgönsk stjórnvöld á liðnu ári (2009). Um að fjárfesta fyrir allt að 4 milljarða USD í koparvinnslunni og þ.m.t. byggja raforkuver og leggja veg frá námunni til Kabúl. Þetta verður langstærsta fjárfestingin í Afganistan til þessa. En það kann að vera skammt í að það met verði slegið, því nú eru kínversk og einnig indversk fyrirtæki að sveima fyrir járnvinnslu í landinu.

Það er athyglisvert að núna þegar náttúruauðlindunum í Afganistan er slegið upp í NYT, er USGS ekki helsta heimildin, heldur menn innan bandaríska hersins og eitthvert minnisblað frá Pentagon (bandaríska varnarmálaráðuneytinu)! Það er líka athyglisvert að í umræddri frétt NYT segir að lítið teymi bandarískra jarðfræðinga og fulltrúa frá varnarmálaráðuneytinu hafi nýlega uppgötvað auðlindirnar. Svona líkt og þeir hafi rambað á námur Salómons konungs. En sem fyrr segir er nákvæmlega ekkert nýtt í fréttinni, heldur endurómar þetta annars vegar niðurstöður USGS frá 2007 og hins vegar eldgömul gögn um jarðfræði Afganistans sem unnin voru á tímabilinu 1950-1985.
Velta má fyrir sér hvort þessi fréttaflutningur núna sé ekki barrrasta liður í pólitískri áætlun um að efla stuðning heima í Bandaríkjunum fyrir áframhaldandi veru bandaríska hersins í Afganistan. Og að fá bandamenn Bandaríkjanna til að taka áfram þátt í hernaðinum gegn Talíbönum. Bandaríkjastjórn og einnig stjórnvöld ýmissa annara landa hafa augljóslega ríka ástæðu til að styrkja stöðu sína í Afganistan. Þeim er órótt vegna umrædds samnings Kínverjanna frá 2009 við afgönsk stjórnvöld og þurfa hugsanlega að gæta mun betur að hagsmunum sínum í Afganistan.

Það er eins og þetta samkomulag Kína og Afganistan hafi vakið bandarísk stjórnvöld upp af værum blundi. Um leið og fréttir bárust af samningnum við Kínverja kom upp kvittur um mútugreiðslur þeirra til ráðamanna í stjórn Afganistans. Þetta er allt ósannað - en væri kannski ekki beint í andstöðu við það hvernig kaupin ganga fyrir sig á þessari fjarlægu eyri. Bandaríkjamenn eru hreint ekki ánægðir með þróunina og er umhugað um að þarna verði ekki til afganskt ólígarkaveldi undir sterkum kínverskum áhrifum.
Umrædd koparnáma sem Kínverjarnir voru að semja um er vel að merkja á einhverju álitlegasta koparsvæði í veröldinni. Það er því ekki lítill fengur fyrir Kínverjana hjá ríkisfyrirtækinu China Metallurgical Group að tryggja sér þennan aðgang. Það sem er mest spennandi við Afganistan kann þó að vera allt annað en olía, gull, járn eða kopar. Afganistan er nefnilega álitið hafa að geyma einhver bestu svæði heimsins til að vinna sérstök frumefni, sem lengst af hafa verið lítt eftirsótt en eru gríðarlega mikilvæg í ýmsum efna- og hátækniiðnaði nútímans. Þessi efni er m.a. mikilvæg í framleiðslu á ofurleiðurum, nýju langlífu ljósaperurunum, endurhlaðanlegum rafhlöðum og síðast en ekki síst eru sum þessara efna afar þýðingarmikil í hátæknilegum hergagnaiðnaði. T.d. í búnað sem stjórnar flugskeytum.

Þarna er bæði um að ræða sjaldgæfa málma eins og liþíum (eða liþín), tantalum og niobín (niobium) og önnur frumefni sem á ensku eru flokkuð undir samheitinu Rare Earth Elements (REE). Með RRE er átt við öll frumefnin í s.k. lanþanröð eða lantanröð lotukerfisins (lanthanides), auk frumefnanna yttrín (yttrium) og skandín (scandium). Eins og heiti þessara tveggja síðastnefndu efna bera með sér eru þau kennd við sjálfan Skandinavíuskagann og sænska bæinn Ytterby. Ástæðan er einfaldlega sú að bæði þessi frumefni voru uppgötvuð í Svíþjóð (á 18. og 19. öld), en fremstu efnafræðingar heimsins á þeim tíma voru einmitt sænskir.

Með miklum framförum í tölvu- og fjarskiptatækni hefur eftirspurn eftir þessum efnum aukist hratt á síðustu árum og útlit fyrir að þar á verði áfram mikil aukning. Rúmlega 95% af allri heimsframleiðslunni af REE kemur í dag frá námum í Kína; mestallt frá Innri-Mongólíu sem er svæði í Kína sem liggur að Mongólíu. Kínverjar hafa viðrað hugmyndir um að draga úr framboðinu og horfur eru á að senn kunni að myndast umframeftirspurn. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu fyrir önnur lönd að fá framboð af REE annars staðar frá. Og í Afganistan eru einmitt svæði sem eru talin óvenju álitleg til að vinna þessi efni úr jörðu.

Það er sem sagt svo að þessi frumefni, sem eru nefnd samheitinu Rare Earth Elements, eru afar mikilvæg fyrir hagkerfi nútímans. En utan Kína hafa þau óvíða fundist í svo miklu magni nálægt yfirborði jarðar að unnt sé að vinna þau nema þá með æpandi miklum tilkostnaði. Þess vegna stendur nú yfir hljóðleg en hörð barátta milli stórveldanna um að tryggja sér aðgang að þeim stöðum sem eru fýsilegastir fyrir námavinnslu af þessu tagi utan Kína. Og það gæti farið svo að svæði í Afganistan verði meðal þeirra eftirsóttustu. Það eru a.m.k. vísbendingar um a slík svæði sé þar að finna og því ekki skrítið að Pentagon hafi síaukinn áhuga á Afganistan.

Þetta á jafnt við um alla lanþaníðana (efnin í lanþanröðinni) og um mjúkmálmana sjaldgæfu. Þar er liþíum gott dæmi. Fram til þessa hafa stærstu og bestu liþíumsvæðin verið talin vera í Suður-Ameríku (einkum í Chile og Bólivíu) og í Kína (bæði í gamla Kína og í Tíbet). Liþíum er mikilvægt efni í endurhlaðanlegar rafhlöður; t.d. í farsímum og í fartölvum og ekki síður undirstaða þess að rafbílavæðing verði að veruleika. Sumir óttast að ekki verði nóg framboð af liþíum til að standa undir rafbílavæðingu framtíðarinnar og/eða að Kína muni hafa þar full mikil áhrif.
Fram til þessa hefur veröldin að vísu ekki lent í vandræðum með að útvega sér liþíum og sama gildir um lanþanefnin. En það eru vissulega líkur á að þarna geti myndast mikil umframeftirspurn - jafnvel innan örfárra ára - og því er fullkomlega skiljanlegt að menn leiti eftir nýjum námum og vilji draga úr einokunarstöðu Kína
Þeir Mörlandar sem áhuga hafa á að komast í námavinnslu í Afganistan geta byrjað á því að bjalla í viðkomandi ráðuneyti þarna austur í Kabúl. En reyndar vill svo skemmtilega til að við eigum mun nærtækari kost. Það er nefnilega svo að í næsta nágrenni við okkur hér á Klakanum góða er að finna spennandi nýtt námavinnslusvæði, þar sem finna má mörg þau merku frumefni sem nú eru að gera allt vitlaust austur í Afganistan. Leitum ekki langt yfir skammt og höldum nú til grannans góða í vestri. Til Grænlands.

Á suðurodda Grænlands á sér nú stað verkefni sem kann að gjörbylta efnahag Grænlendinga. Þarna á Kvanefjeld hafa nefnilega fundist lanþanefni (lanþaníðar) í svo miklu magni að menn sjá fyrir sér að sú eina náma á Grænlandi muni í framtíðinni skaffa veröldinni stóran hluta af öllum þeim Rare Earth Elemets (REE) sem hátæknibransinn þarf svo mjög á að halda.
Og það er líklegt að finna megi fleiri slík svæði á Grænlandi. Þess vegna er kannski ekki skrítið að Kínverjar hafa verið í viðræðum við Grænlendinga um námarekstur í landinu og þarna eru hugsanlega að skapast ýmis tækifæri fyrir íslenska verktaka. Það er aftur á móti ástralskt fyrirtæki sem hefur tryggt sér aðganginn að umræddu svæði við Kvanefjeld syðst á Grænlandi, sem í dag er álitið hvað mest spennandi til lanþan-vinnslu utan Kína.

Sumir segja að innan nokkurra ára muni um fjórðungur heimsframboðsins af REE koma frá Suður-Grænlandi! Enn er þó engin vinnsla komin þar í gang, en fyrirtækið Greenland Minerals er á fullu að vinna í rannsóknum og undirbúningi vinnslunnar.
Þó svo nafn fyrirtækisins hljómi afar grænlenskt er fyrirtækið að meirihluta í eigu ástralsks námufyrirtækis (61%) með sama nafni, sem skráð er í kauphöllinni í Sydney. Afgangurinn af hlutabréfunum (39%) er svo í eigu breska fjárfestingasjóðsins Westrip Holdings.

Ef áætlanir Ástralanna ganga eftir er þarna hugsanlega á ferðinni eitthvert mest spennandi námuverkefni á Norðurhveli. Og það er sannarlega synd og skömm að íslenskir verktakar og aðrir athafnamenn skuli ekki hafa sýnt meira frumkvæði gagnvart mögulegum verkefnum á Grænlandi. Þarna gæti líka verið upplagt tækifæri fyrir íslensku lífeyrissjóðina að taka þátt í uppbyggingarverkefnum, sem bæði munu reynast efnahag Grænlendinga vel, en ekki síður gefa íslensku atvinnulífi ný og spennandi tækifæri.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.6.2010 | 19:14
Silkileiðin á 350 km hraða

Riding the Iron Rooster. Það var titillinn á frábærri ferðabók uppáhalds-rithöfundar Orkubloggarans; Paul's Theroux. Í henni segir frá ferðum Theroux þegar hann ferðaðist á sínum tíma með lestum um Kína og ennþá var langt í að þessi gamli dreki i austrinu yrði að efnahagsstórveldi.
Í dag er Kína ansið mikið breytt frá því sem var þegar nöldrarinn Theroux fór þar um í dásamlegri einsemd sinni fyrir aldarfjórðungi síðan. Nú fara kínversk stjórnvöld sem stormsveipur um heimsbyggðina með kistur fullar af bandarískum ríkisskuldabréfum og fjármagna olíuvinnslu í Suður-Ameríku, málmavinnslu í Afríku, íslenska Selabanka og annað eftir því.
Kínverjarnir hafa meira að segja boðið Arnold Schwarzenegger að sjá um að bæði byggja og fjármagna nýja ofurhraðlest, sem stendur til að byggja í Kaliforníu. Það stendur sko ekki í Kínverjum að reiða fram tugmilljarða dollara í það verkefni og að auki bjóða þeir bestu hraðlestatækni heims!
Jamm - í dag þurfa Kínverjar og aðrir þar í landi sko ekki að hjakka áfram með gömlum lestarskrjóðum. Meðal kínversku lestanna er nefnilega að finna flottasta hraðlestakerfi veraldarinnar. Þessi uppbygging er samt bara rétt að byrja. Kínversk stjórnvöld hyggjast á næstu fimm árum leggja 30 þúsund km af lestarteinum og mest af því verða ofurhraðlestar.

Það er ekki nóg með að kínverska þjóðin fái þarna hraðskreiðar og góðar lestar; það athyglisverðasta er sú staðreynd að það eru fyrst og fremst kínversk fyrirtæki sem standa að baki þessari tæknibyltingu. Það er einmitt þess vegna sem sjálf Kalifornía er á góðri leið með að semja við Kínverja um byggingu hraðlesta þar í sólarfylkinu sæla.
Þar er ekki um neina smá framkvæmd að ræða. Þetta er súperhraðlest sem liggja á milli San Francisco og LA og áætlaður kostnaður hvorki meira né minna en 43 milljarðar USD. En jafnvel metnaðarfullar áætlanir í Bandaríkjunum um bæði þessa hraðlest og aðra milli Chicago og Atlanta eru smámunir miðað við nýja lestakerfið sem nú rís með ægihraða austur í Landi Drekans. Bara á næstu þremur árum ætla Kínverjar að nota sem nemur 300 milljörðum USD í hraðlestarkerfið sitt og þar af fer stærstur hlutinn í glænýjar ofurhraðlestar.

Þarna er nú verið a ljúka við slíka hraðlest milli Shanghai og Beijing, sem styttir leiðina þar á milli megaborganna úr 10 klkst og í 4 klkst! Kínverjar eru einfaldlega orðnir fremstir í hraðlestatækninni og nú er á teikniborðinu sannkölluð ofurhraðlest; lest sem mun þjóta milli Kína og alla leið til Evrópu og fara gegnum um a.m.k. 15 ríki á leið sinni. Menn hafa freistast til að kalla þessar áætlanir Nýja Silkiveginn. Og þetta eru ekki bara draumórar. Kínverjar geta vel að merkja státað sig af nokkrum nútímalegustu hraðlestum heims og nú fullvissa þeir okkur efahyggjumennina í Vestrinu um að nýja hraðlestin milli Evrópu og Kína verði tilbúin eftir einungis 15 ár!

Já - Kínverjar lofa því að eftir hálfan annan áratug geti maður sest upp í lestina í miðborg London og svo þotið austur eftir í þægindum og notalegheitum og verið kominn til Beijing eftir tvo sólarhringa. Þetta yrðu meiri tímamót en flestir gera sér grein fyrir. Vegna stjórnmálaástandsins á tímum Sovétríkjanna og Kína Maós voru nánast engar nýjar lestartengingar byggðar milli ríkjanna í austanverðri Asíu í áratugi.
Kommúnistastjórnin í Sovét var þar að auki svo "snjöll" að einangra Rússland með því að hafa annað bil milli lestarteinanna þar en er í Evrópu og það eitt hefur verið meiriháttar hindrun fyrir gömlu Sovétríkin að tengjast nágrönnum sínum með hraðlestum. Það er reyndar svo að almennileg hraðlest hefur ekki verið byggð þarna í hinu risastóra Rússkí eða öðrum fyrrum héruðum Sovétsins, síðan Síberíuhraðlestin milli Moskvu og Vladivostok var opnuð árið 1916 - fyrir nærri hundrað árum!

Kínverjar eru nú í lestarframkvæmdum víða um heiminn, t.d. í Venesúela, Tyrklandi og Búrma. Þeir taka gjarnan að sér að fjármagna einnig framkvæmdirnar og t.a.m. greiðir Búrmastjórn herlegheitin með aðgangi Kínverja að liþíumnámum landsins. Enn eitt lestarverkefni Kínverja er bygging Pílagrímahraðlestarinnar svokölluðu milli Mekka og Medína í Saudi Arabíu. Kínverjar eru einfaldlega orðnir meistarar hraðlestanna.
Gert er ráð fyrir allt að þremur leiðum fyrir Silkihraðlestarkerfið, sem allar muni ná til Evrópu en fari þangað eftir mismunandi leiðum. Rétt eins og Silkivegurinn hér áður fyrr var ekki bara ein ákveðin leið, þá gera Kínverjar ráð fyrir að ofurhraðlestar tengi þá senn við velflest lönd milli Evrópu og Kína. Syðsta leiðin á að liggja um SA-Asíu og svo sveigja til Indlands og fara þaðan áfram í gegnum Íran og Írak, meðan sú nyrsta færi að hluta til gegnum Rússland og norður fyrir Svartahaf og þaðan til Evrópu. Loks færi þriðja hraðlestin beinustu leið gegnum Stan-ríkin og þ.á m. olíuríkin við Kaspíahaf og svo áfram til Evrópu um Tyrkland.

Það eru helst Rússar og Indverjar sem líta þessi áform hornauga. Stjórnvöldum í Moskvu þykir nóg um hvernig Kínverjar hafa seilst til áhrifa í fyrrum Sovétlýðveldunum austan við Kaspíahafið; lagt þangað olíuleiðslur og seilst til áhrifa. Reyndar segja sumir að Rússar hafi hreinlega sofnað á verðinum og eytt alltof miklum kröftum í deilur við Úkraínu og Georgíu. Á meðan hafi Kínverjar læðst vestur á bóginn og tryggt sér náin tengsl við lönd eins og Túrkmenistan, Úzbekistan og Kyrgysztan. Nú er t.a.m. byrjuð vinna við lagningu gríðarlegrar gasleiðslu milli allra þessara þriggja landa og Kína. Þessu umstangi öllu fylgja stórir samningar um orkukaup, en þar er um að ræða olíu og gas sem að óbreyttu hefði farið til Rússlands. Í staðinn aukast áhrif Kína hratt í Mið-Asíu og um leið dregur úr vægi Rússlands og Evrópu gagnvart þessum heimshluta.
Það eru ekki bara Rússar sem hafa áhyggjur af þessum tilþrifum Kínverja í Mið-Asíu. Indverjar sem eru hin megaþjóð veraldarinnar skynja einnig ýmsar meintar hættur tengdar því að Kína styrki stöðu sína gagnvart nágrönnum Indlands. Þessi hraðlestaáætlun Kínverja er m.ö.o. alls ekki óumdeild hugmynd.

Það má vel vera að Kínverjar stefni að því að tryggja pólitísk áhrif sín enn betur með þessum nýju hraðlestatengingum við nágranna sína í Asíu og alla leið til Evrópu. Einfaldasta skýringin á þessum metnaðarfullu áætlunum er samt auðvitað sú, að með þessu séu Kínverjar að að bæta aðgang sinn að orku- og öðrum hráefnisauðlindum. Hvort sem það er olía í Írak, gas frá Persíu og Kaspíahafi eða kopar frá Afganistan. Kínverjar eiga einungis aðgang að sjó í austurátt og ef þeir tryggja sér ekki betra samgöngukerfi til annarra átta og þá einkum til vesturs munu þeir seint verða stórveldi í líkingu við Bandaríkin. Greiðar samgöngur eru nefnilega einn helsti lykillinn að því að verða risaveldi sem getur staðið traustum fótum til langs tíma.

Öflugt hraðlestakerfi milli Kína og Mið-Asíu, ásamt gas- og olíuleiðslum, er eðlilegt skref fyrir Kína til að tryggja orkuöryggi sitt. Það væri nánast vítavert gáleysi ef þeir myndu ekki huga að slíku. Svo benda Kínverjar sjálfir á að þetta sé hárréttur tími fyrir ríki heims að ráðast í svona framkvæmdir; skapa þurfi ný störf nú í kreppunni og því henti afar vel að ráðast í risaverkefni af þessu tagi núna. Til hliðsjónar má nefna að meira en hundrað þúsund starfsmenn unnu við byggingu hraðlestarinnar milli Shanghai og Beijing, þ.a. Silkihraðlestin myndi augljóslega verða þokkalega atvinnuskapandi! Þar að auki segja Kínverjar verkefnið æpandi grænt, enda miklu minni kolefnislosun frá lestum heldur en farþegaþotum.

Sumir eru eitthvað að nöldra útí það að Kínverjar séu hér á Klakanum góða að gera viljayfirlýsingar við Seðlabankann og Landsvirkjun. Fyrir fáeinum misserum hefðu hinir sömu líklega fullyrt að Kínverjar væru að ásælast olíuna á Drekasvæðinu. En í þetta sinn er Drekinn í austri ekki tengdur við íslenska drekann í norðri, heldur sagt að Kínverjarnir séu áfjáðir í að tryggja sér áhrif á Íslandi sökum þess að landið verði mikilvæg umskipunarhöfn fyrir NA-siglingaleiðina. Í reynd hefur Kínastjórn í áratugi sýnt Íslendingum vinsemd og varla óeðlilegt að samband ríkjanna sé áfram á þeim nótum
Vonandi eru sem flestir Íslendingar til í að prófa Silkihraðlestina og sjá Kína með eigin augum. Hér á öldum áður voru kameldýr þarfasti þjónninn á stórum hluta Silkileiðarinnar. Það verður örugglega talsvert önnur upplifun að þjóta þessa sex þúsund km leið milli Kína og Evrópu á um 350 km hraða.
6.6.2010 | 00:14
Orkuveitan á tímamótum?
Orkubloggaranum þykir umræðan um Orkuveitu Reykjavíkur þessa dagana svolítið undarleg.
Bæði stjórnarmaður Samfylkingarinnar í Orkuveitunni og varaformaður flokksins segja að nýkomið svar við fyrirspurn frá því í janúar sé til marks um að borgarstjórinn fráfarandi og meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi viljað leyna sannleikanum um afleita stöðu Orkuveitunnar fram yfir kosningar. Á sama tíma fullyrðir stjórnarformaður Orkuveitunnar að fyrirtækið sé öfundsvert og afneitar allri gagnrýni á rekstur OR.

Báðar þessar skoðanir eru sérkennilegar. Sannleikurinn um alvarlega fjárhagsstöðu OR hefur nokkuð lengi verið öllum ljós og væntanlega ekki síst stjórnarmönnum fyrirtækisins. Upplýsingarnar sem nú voru að birtast ættu ekki að koma neinum á óvart.
Enn sérkennilegri er sú afkáralega fagra mynd sem stjórnarformaður Orkuveitunnar dregur upp af stöðu OR. Það er vel þekkt staðreynd að Orkuveita Reykjavíkur hefur tapað gríðarlegum fjármunum á stuttum tíma; fyrst og fremst vegna lánastefnu fyrirtækisins þar sem veðjað var villt og galið á styrk og stöðugleika íslensku krónunnar. Afleiðingin er sú að stór hluti eigin fjár fyrirtækisins hefur þurrkast út og litlar horfur eru á að Orkuveitan skili viðunandi arðsemi á næstunni. Þó svo Orkuveitan sé kannski ekki á leið í þrot, þá þrengir þessi staða auðvitað mjög að fyrirtækinu og almennir viðskiptavinir OR kunna að fá að finna rækilega fyrir því á næstu árum. Hugsanlega er stóriðjan eini kúnni Orkuveitunnar sem sleppur við högg frá fyrirtækinu, enda á sérkjörum.
Þær upplýsingar sem nú eru komnar fram - í framhaldi af áðurnefndri fyrirspurn stjórnarmanns Samfylkingarinnar í OR - um það hversu miklar hækkanir Orkuveitan þyrfti að grípa til EF hún ætlaði sér að ná arðsemismarkmiðum með því einungis að hækka gjaldskrá, eru auðvitað bara fyrst og fremst talnaleikur. Niðurstaðan kemur ekki á óvart. En það er vissulega sláandi hversu arðsemismarkmið Orkuveitunnar eru í órafjarlægð. Það hlýtur að sýna svart á hvítu að eitthvað hefur brugðist illilega hjá yfirstjórn fyrirtækisins.
En þó svo hækkanir á rafmagni og vatni til almennra viðskiptavina OR séu hugsanlega framundan, þá myndi Orkuveitan aldrei nokkru sinni grípa til svo gríðarlegra hækkana sem fram koma í svari OR. Slík ákvörðun fengi varla pólitískan stuðning. Til að Orkuveitan nái viðunandi arðsemi þarf m.ö.o. miklu fjölbreyttari ráðstafanir. Eflaust verða hækkanir á bæði rafmagni og heitu vatni til almennings þar á meðal, en væntanlega verða þær þó hógværar og annarra leiða leitað til að laga fjárhagslega stöðu Orkuveitunnar.
Það áhugaverða við umræddar reikningskúnstir er kannski fyrst og fremst það að niðurstaðan sýnir hvernig hreint ótrúlega illa getur farið fyrir sterku fyrirtæki þegar það lendir í klóm ringlaðra stjórnmálamanna, sem leggja meira upp úr pólítískum fangbrögðum heldur en fagmennsku. Orkubloggið ætlar í dag ekki að blanda sér í rifrildið eilífa um það hvort upphafið að niðurlægingu OR megi rekja til Alfreðs Þorsteinssonar, R-listans, Sjálfstæðisflokksins eða einhverja enn annarra. En Orkuveitan hlýtur að skulda borgarbúum skýr svör um framtíðarstefnu fyrirtækisins og hvernig það ætlar sér að endurheimta fjárhagslegan styrk sinn. Sem er alger forsenda þess að OR geti boðið þá þjónustu og það verð sem eigendur hennar - almenningur í Reykjavík og nágrenni - ætlast til.

Nú í vikunni var stjórnarformaður Orkuveitunnar í löngu einkaviðtali hjá dægurmálaútvarpi Rúv. Hann má eiga það að hann er kotroskinn, nú þegar hann skilar af sér stjórnarformennsku í fyrirtæki sem er með lánsmat í ruslflokki. Hann fullyrðir að lántökustefna OR hafi verið hárrétt af því vaxtakjörin á erlendu lánunum hafi verið miklu hagstæðari en ef lán hefðu verið tekin í íslenskum krónum. Mjög athyglisvert sjónarmið!
Það er vissulega svo að undanfarin ár hafa vextir á íslenskum krónum verið margfalt hærri en t.d. vextir á USD, evrum eða svissneskum frönkum. Að fá lánaðar óverðtryggðar íslenskar krónur hefur þýtt allt að tíu sinnum hærri vexti eða jafnvel rúmlega það, heldur en lán í nokkrum helstu erlendu gjaldmiðlunum. Þess vegna þótti sumum freistandi að fjármagna allt með erlendum gjaldeyrislánum.
En stjórnarformaðuri OR virðist alveg hafa gleymt þeirri einföldu staðreynd að þegar teknar eru t.d. 50 milljónir evra að láni þarf ekki bara að borga vextina til baka. Heldur vill svo leiðinlega til að OR þarf þá líka að standa skil á höfuðstólnum. Og það er þess vegna sem vaxtakjör eru einungis lítill hluti áhættunnar og/eða skuldbindingarinnar. Gengisáhættan vegna vaxtaafborgananna og þó ekki síður vegna höfuðstólsins er æpandi og sú staðreynd hlýtur að vera grundvallaratriði þegar verið er að meta kosti og galla lánsins. Það að fókusera bara á vextina, eins og stjórnarformaður OR gerir, er ekki boðlegur málflutningur. Nema fyrir þá sem telja að OR eigi að hegða sér eins og spilafíkill í Vegas. M.ö.o. þá er ekki heil brú í málflutningi stjórnarformanns OR og hálf glatað að starfsfólk Rúv hafi látið hann komast upp með það að stilla hlutunum svona upp.

Öllum ætti að vera augljóst hvernig Orkuveitan virti gengisáhættuna að vettugi með þeim afleiðingum sem nú blasa við í efnahagsreikningi OR. Það má vel vera að EF gengisþróun verður Orkuveitunni mjög hagstæð í framtíðinni, þá komi í ljós að ofsaleg lántaka OR í erlendri mynt hafi verið "rétt". En slík niðurstaða væri þá barrrasta sambærileg við það þegar maður skreppur westur til Vegas og leggur allt undir á töluna 13 - og vinnur! Þetta var gambling í anda góðærisblindu og hreinlegast að stjórnendur OR viðurkenni það.
Til samanburðar þá er kannski nærtækast að benda á hvernig Landsvirkjun er nú í miklu mun betri stöðu en OR. Þar á bæ eru menn varkárari og hafa ekki dottið í rúlletturuglið eins og OR og hafa skynbragð á það hvernig haga á áhættustjórnun gagnvart bæði fjármögnun og gagnvart orkusölu til álvera.
Hvernig ætlar OR að rífa sig upp úr núverandi stöðu? Væntanlega sitja menn þar á bæ ekki bara og bíða og vona að krónan styrkist um tugi prósenta í viðbót. Og stjórnendur OR hljóta að leita allra leiða til að velta sem allra minnstum bagga yfir á almenning.
Stjórnarformaðurinn talar fjálglega um dugnað OR við hagræðingu og minnkandi rekstrarkostnað. En það eru hreinir smámunir miðað við þá tugi milljarða af eigin fé sem OR hefur tapað. Það skortir illilega á að stjórnendur Orkuveitunnar kynni stöðu og framtíð fyrirtækisins í heildarsamhengi fyrir borgarbúum.

Nýlega benti forstjóri Landsvirkjunar á að mikilvægt sé að auka arðsemi af orkusölu til stóriðjunnar. Og að raunhæfasta leiðin til þess kunni að vera uppsetning sæstrengs til Evrópu.
Það er æpandi athyglisvert, að ekki hefur heyrst hósti né stuna frá Orkuveitu Reykjavíkur um þessi ummæli forstjóra Landsvirkjunar. Flest bendir til þess að Orkuveitan sitji uppi með að hafa gert ömurlegan raforkusölusamning við Norðurál og auðvitað væri hið eina rétta að fyrirtækið tæki heilshugar undir orð forstjóra Landsvirkjunar og þannig auka þrýsting á stóriðjuna um að sætta sig við hærra raforkuverð. En nei - Orkuveitan þegir þunnu hljóði um það að arðsemi af raforkusölu til stóriðjunnar sé of lág.
Að mati Orkubloggarans er tímabært að Orkuveita Reykjavíkur staldri nú aðeins við, viðurkenni staðreyndir og taki jafnvel upp alveg nýja stjórnarhætti í anda þess sem gerst hefur hjá Landsvirkjun. Sennilega væri lang skynsamlegast fyrir OR að leggja höfuðáherslu á að styrkja eiginfjárstöðu sína verulega, áður en lengra verður haldið í framkvæmda- og skuldsetningargleðinni. Að öðrum kosti væri í reynd áfram verið að byggja upp skuldabólu innan OR og hreinlega veðja á að meiri lán og framtíðartekjur af nýrri stóriðju muni koma fyrirtækinu yfir hjallann. Slík áhætta með þetta gríðarlega mikilvæga opinbera fyrirtæki er vart réttlætanleg. Það er kominn tími á alvöru vorhreingerningu hjá OR.
30.5.2010 | 00:09
Kjarnorkuolía
Fyrir stuttu sagði Orkubloggið frá því hvernig nú er farið að vinna olíu úr gasi. Það allra nýjasta í olíubransanum er þó sú hugmynd að vinna olíu með kjarnorku. Þessi kjarnorkuolía er efni dagsins á blogginu.

Bandaríkin hafa á síðustu árum orðið sífellt háðari olíunni úr Mexíkóflóanum. Þess vegna er mengunarslysið þar núna, þeim talsvert mikið áfall. Mexíkóflóinn og reyndar landgrunnið allt er nefnilega það svæði sem mestar vonir hafa verið bundnar við, til að Bandaríkin þurfi ekki að auka enn frekar á olíuinnflutning sinn.
Það er kaldhæðni örlaganna að einungis örfáum vikum áður en Deepwater Horizon brann og sökk, voru Obama og demókratarnir á Bandaríkjaþingi búnir að lýsa stuðningi við óskir olíufélaganna um olíuleit á landgrunninu út af austurströndinni. Þetta var tímamótaákvörðun, en þau áform eru nú í nokkru uppnámi vegna slyssins á Mexíkóflóa.
Bandaríkjamönnum er mikilvægt að losna undan ægivaldi olíunnar frá OPEC. Þess vegna er slæmt fyrir þá, ef fara þarf hægar í landgrunnsvinnsluna en ráðgert hefur verið. Ekki er síður vont fyrir Bandaríkin að flest bendir til þess að hnignandi olíuvinnsla Mexíkana verði til þess að brátt muni framboðið þaðan hrapa. Mexíkó-olían hefur verið afar þýðingamikil fyrir olíusvolgrarana þarna vestra og þessi þróun er því afleit fyrir Bandaríkjamenn.

En þó svo bæði Mexíkó og Flóinn kunni að skila Bandaríkjunum minni olíu en vonast hefur verið til, er staðan samt ekki alveg vonlaus. Til allrar hamingju fyrir Bandaríkjamenn eru gífurlegar olíulindir rétt norðan við þá. Í hinu stórkostlega landi Kanada.
Olíuuppsprettan þar hjá grannanum góða í norðri er að vísu mikið til bundin í s.k. olíusandi. Ofsahita þarf til að "bræða" olíuna úr sandklístrinu þarna norður á skógivöxnum sléttum Alberta-fylkis, en sá hiti er fenginn frá gasorkuverum.
Til að þurfa ekki að eyða dýrmætu gasinu í þessa óþverraiðju hafa menn gælt við þá hugmynd að reisa kjarnorkuver útí óbyggðum Alberta, sem framleiða muni hitann fyrir olíusandiðnaðinn sótsvarta. Hugsunin er fyrst og fremst sú að með þessu megi minnka verulega losun gróðurhúsalofttegunda.
Sumum kann að þykja það absúrd hugmynd að ætla sér að byggja kjarnorkuver lengst norður í óbyggðum Kanada. En nú lítur samt út fyrir að þessar hugmyndir geti orðið að veruleika. Og þarna er vel að merkja ekki verið að tala um eitt eða tvö nett kjarnorkuver. Heldur jafnvel tugi nýrra kjarnorkuvera - á svæði þar sem er nákvæmlega engin reynsla af slíkum orkuiðnaði.

Olíusandvinnslan er umdeild, enda veldur þessi tegund af olíuvinnslu hrikalegum náttúruskemmdum. En í heimi sem er háður olíu, er nánast óumflýjanlegt að þessi vinnsla er komin til að vera. Og hún mun að öllum líkindum vaxa hratt, sama hvað hver segir um umhverfisáhrifin.
Olíuvinnsla úr olíusandi er að vísu hressilega dýr. En hún borgar sig engu að síður almennt, svo lengi sem olíuverðið hangir yfir 70 USD tunnan. Olíuverð hefur einmitt verið í þeim hæðum undanfarið og þess vegna er nú horft með glampa í augum til þess að auka olíuvinnslu úr þessum undarlega jarðvegi, sem er gegnsósa af olíuklístri.
Það sýnir vel ásóknina í kanadíska olíusandinn að nú eru Kínverjar byrjaðir að kaupa sig inn í vinnsluna þar. Og setja í það milljarða dollara! Bandaríkjamenn sitja því svo sannarlega ekki einir að þessari drullupollaolíu og þeir munu þurfa að há harðan slag um kanadísku olíuna við aðra olíuþyrsta kaupendur.

Þróunin þarna hefur verið makalaust hröð. Það er ekki langt um liðið síðan barrskógarnir norður í Alberta voru að mestu ósnertir og utan seilingar manna. Helst að þar mætti rekast á fáeina síðskeggjaða og sérvitra veiðimenn í leit að pelsklæddum dýrum. En svo hækkaði olíuverðið - og á undraskömmum tíma voru stærstu skurðgrófur heimsins mættar í greniskóginn langt í norðri og byrjaðar að skófla upp olíusandinum, þar sem áður réðu ríkjum skógabirnir og elgir.
Til að kreista olíudrulluna úr jarðveginum spruttu upp eldspúandi gasorkuver inni í auðnunum þar sem bjórarnir höfðu svo lengi velt sér í ró skógarins og fljótunum sem þar renna í gegn. Á örskömmum tíma hefur þessi óþverravinnsla breiðst út um allan norðurhluta Alberta-fylkis. Fyrir vikið hafa íbúar fylkisins upplifað ævintýralegan vöxt í efnahagslífinu með óþrjótandi atvinnu og tilheyrandi sprengingu í húsnæðisverði. Blessaður hagvöxturinn!
Kannski mætti einfaldlega kalla olíu sem kreist er úr olíusandi með ægihita frá kjarnorkuveri, kjarnorkuolíu! Upphaf þessara hugmynda um kjarnorkuolíu má rekja til þess að fyrir fáeinum árum var stofnað sérstakt fyrirtæki, Energy Alberta Corporation, með þann tilgang að byggja kjarnorkuver í olíusandauðnum Alberta. Markmiðið er að orkuverið verði lítil 2.200 MW og rísi í nágrenni við lítið krummaskuð við Friðarána (Peace River) í Alberta. Jafnvel risaálver á Húsavík eru algerir smámunir miðað við slíka fjárfestingu, sem yrði um 10 milljarðar USD!

Þessi hugmynd varð til þess að byrjað var að fjalla um málið í kanadísku stjórnsýslunni. Stjórnvöld hrifust af því að með þessu gæti Kanada hugsanlega uppfyllt markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þrátt fyrir hratt vaxandi olíusandvinnslu. Gasorkuverin í olíusandvinnslunni losa mikið af slíkum lofttegundum, en kjarnorkuverin eru aftur á móti "hrein" að þessu leyti. Umræðan um loftslagsbreytingar hefur m.ö.o. gert geislavirkan kjarnorkuúrganginn "grænan", þrátt fyrir að frá honum stafi gríðarleg umhverfishætta í aldir og jafnvel árþúsundir. Þetta er skrítinn heimur.
Árið 2007 ákvað þingið í Alberta að unnin yrði sérstök skýrsla um málið. Hún hefur nú litið dagsins ljós og til að gera langa sögu stutta, þá er megin niðurstaðan sú að kostirnir við að nýta kjarnorku í þessum tilgangi séu miklu meiri en ókostirnir.

Þar með er björninn þó ekki unnin fyrir Energy Alberta Corp. Kjarnorkuandstæðingar eru æfir og þar að auki myndi uppbygging kjarnorkuvera í Alberta væntanlega kosta kanadíska skattborgara stórfé. Frá upphafi hefur verið augljóst að verkefnið þarf opinberan stuðning; að framleiða rafmagn með kjarnorku kostar um 70 mills á kílóvattstundina meðan gasorkuver geta skilað sama magni fyrir einungis þriðjunginn af þeirri upphæð. Að sjálfsögðu hafa hvorki orkufyrirtækin né olíusandvinnslan áhuga á að borga þann mismun. Þykir nærtækara að senda reikninginn til almennings.
Þar að auki er kostnaðurinn við að reisa þetta eina kjarnorkuver Energy Alberta áætlaður nettir 10 milljarðar USD - og það er ekki hlaupið að slíkri fjármögnun í kjarnorkuiðnaðinum nema með ríkisábyrgð af einhverju tagi. Draumurinn um kjarnorkuolíu verður m.ö.o. varla að veruleika nema Albertafylki eða kanadíska ríkið komi að málinu og taki fjárhagslegu áhættuna að verulegu leyti á sínar herðar.

Hafa má í huga að ef kjarnorka á að leysa gasorkuverin af hólmi á olíusandsvæðum Alberta er eitt "skitið" 2.200 MW kjarnorkuver til lítils; dugar rétt til að framleiða vesælar 500.000 olíutunnur á dag. Í dag skilar kanadíski olíusandurinn í Alberta um 1,3 milljón tunnum af olíu á dag, þ.a. byggja þyrfti þrjú slík risaver til að geta leyst gasið af hólmi miðað við núverandi framleiðslu.
Búist er við að einungis fáein ár séu í það að olíuframleiðslan þarna verði komin í um 3 milljón tunnur og svo fljótlega i 4 milljónir tunna. Ef þessar framleiðsluáætlanir ganga eftir mun þurfa ný kjarnorkuver upp á ca. 15.400 MW strax árið 2020! Þ.e.a.s. sjö kjarnorkuver, ef hvert upp á 2.200 MW. Og það þyrfti að byrja strax á öllu saman (það tekur einmitt um áratug að reisa kjarnorkuver með öllu tilheyrandi stjórnsýslustússi). Þetta yrði fjárfesting í kringum 70 milljarða USD - á tíu ára tímabili. Það væri svona álíka eins og byggðar yrðu þrjár Kárahnjúkavirkjanir OG þrjú Fjarðarál á Íslandi á einum áratug (m.v. per capita, en Alberta-fylki er um ellefu sinnum fjölmennara en Ísland). Sannkallaður blautur draumur verktakanna!

Það er reyndar svo að kannski verður orkuþörfin í olíusandiðnaðinum ennþá meiri. Til eru ennþá "bjartsýnni" spár sem segja að 2020-2025 muni koma allt að 6 milljón olíutunnur frá kanadíska olíusandinum á hverjum degi. Sú framleiðsla myndi þurfa gríðarlega orku. Enn aðrir láta sig dreyma ennþá villtari drauma og segja að Alberta muni senn verða ný Saudi Arabía, með framleiðslu upp á 8-9 milljónir tunna á dag! Þá værum við að tala um orkuþörf uppá 40 GW til að kreista olíuna úr sanddrullunni og erum nánast komin út fyrir mannlegan skilning. En þetta er fúlasta alvara; sumir Kanadamenn tala um að reisa verði tuttugu kjarnorkuver fyrir olíusandiðnaðinn í Alberta og það helst fyrir 2020.

Það er auðvitað langt í land með að þessi allsherjar kjarnorkuvæðing kanadíska olíusandiðnaðarins verði að veruleika. Og satt að segja er Orkubloggarinn afar vantrúaður á að það verði. Mun líklegra er að menn noti ódýrt gas og gefi skít í takmörk á losun gróðurhúsalofttegunda.
En það gæti samt verið stutt í að fyrsta kjarnorkuverið byrji að rísa þarna - og þá líklega við Peace River. Það verður aldeilis fjör þegar við sjáum einhver dýrustu orkuver heims rísa í óbyggðum Kanada til þess eins að kreista einhverja dýrustu olíudropa heims úr jarðvegi barrskóganna. Og skilja eftir sig þúsundir og aftur þúsundir ferkílómetra af gjöreyddu og olíumenguðu landi.

En við skulum ekkert vera að svekkja okkur á svona fallegu kosninga- og Júróvisjónkvöldi með því að vera eitthvað að velta vöngum yfir ömurlegum umhverfisáhrifum olíusandiðnaðarins. Það er reyndar svo að þeir sem tala fyrir þessum kjarnorkuverum benda á, að þau muni verða umhverfinu miklu betri heldur en að byggja þarna sífellt fleiri eldspúandi gasorkuver. Þetta er sem sagt ekki bara í nafni framfara og hagvaxtar - heldur er kjarnorkuolían líka beinhörð umhverfisvernd. Segja sumir.
23.5.2010 | 20:42
HS Orka, GGE, Magma Energy, Ísland og orkustefna ESB
Hlutabréf í HS Orku voru nýverið að skipta um eigendur. Þ.e.a.s. að því gefnu að allir skilmálar kaupsamningsins gangi upp.
Seljandinn er Geysir Green Energy (GGE), sem hefur nú síðast verið eigandi að rúmlega 55% hlut í HS Orku. Eigendur GGE eru skv. vef fyrirtækisins einkum þrír stórir hluthafar; Atorka með 41% hlut, sjóður á vegum Íslandsbanka sem kallast Glacier Renewable Energy Fund með 40% hlut, og loks verkfræðifyrirtækið Mannvit með 7% hlut. Hver á þau 12% sem eftir standa hefur Orkubloggarinn ekki vitneskju um, en kannski það séu starfsmenn GGE. En af þessum þremur stóru hluthöfum má líklega segja að Mannvit sé eini "raunverulegi beini eigandinn"; Íslandsbanki er í höndum einhverra lítt þekktra kröfuhafa og Atorka mun vera í álíka stöðu.
Hverjir eru kröfuhafar GGE er óljóst, en þar standa íslensku bankarnir væntanlega fremstir. Og það virðist augljóst að bæði Íslandsbanki og kröfuhafar Atorku vilja losna við eigur GGE og greiða úr þeirri ævintýralegu skuldflækju sem þar var búin til, meðan fyrirtækið var eitt af draumadjásnum FL Group þeirra Hannesar Smárasonar og Jóns Ásgeirs.
Reyndar er það svo að skv. nýlegri kynningu GGE virðist fyrirtækið vera í mesta blóma. Það þykir Orkubloggaranum svolítið bratt. Ársreikningur GGE vegna 2009 hefur að vísu enn ekki verið birtur, þ.a. að það liggja afskaplega litlar upplýsingar fyrir um stöðu GGE. Fyrirtækisins sem til skamms tíma var aðaleigandi þriðja stærsta orkuframleiðanda á Íslandi. Eftir fyrstu einkavæðingu íslensks orkufyrirtækis, sem átti sér stað árið 2007 eins og flestum ætti að vera kunnugt. Í reynd virðist GGE hafa verið lítið annað en enn eitt innleggið í fjármálabóluna sem blásin var upp á Íslandi. Sennilega má þjóðin þakka forsjóninni fyrir að loksins sé kominn alvöru bissness-maður að jarðvarmarekstrinum á Suðurnesjum.
Já - þá erum við komin að kanadíska jarðvarmafjárfestinum Magma Energy. Sem er kaupandinn að hlut GGE í HS Orku og verður þar með eigandi að 98,53% hlut í HS Orku. Formlega er það reyndar sænskur armur Magma, sem kaupir bréfin. Sumir vilja endilega nefna þetta sænska fyrirtæki skúffufyrirtæki - væntanlega í háðungarskyni eða til að gera kaupin tortryggileg - en þessi leið er í reynd nauðsynleg til að fyrirtæki utan EES geti keypt íslenskt orkufyrirtæki. Af hverju Magma vildi fremur stofna millilið í Svíþjóð fremur en í einhverju öðru landi innan EES eða ESB er svo önnur saga. Staðreyndin er engu að síður sú að enginn annar en Magma Energy treysti sér til að kaupa hlut GGE í HS Orku. Hvorki önnur orkufyrirtæki útí heimi, íslensku lífeyrissjóðirnir né aðrir höfðu áhuga. Það er reyndar sérstakt umhugsunarefni af hverju í ósköpunum langtímafjárfestar eins og lífeyrissjóðirnir, höfðu ekki áhuga. En það er önnur saga og verður ekki velt vöngum yfir því hér að þessu sinni.
Af einhverjum ástæðum er talsverður fjöldi fólks á Íslandi afskaplega mikið á móti þessum eigendaskiptum. Þar sem einn einkaaðili er að selja öðrum einkaaðila hlut i HS Orku. Og tala um að það "verði að stöðva þetta". Þeir hinir sömu vilja þá væntanlega frekar að einhverjir ótilgreindir kröfuhafar nái yfirráðum yfir HS Orku, fremur en fyrirtæki sem sérhæfir sig í jarðvarmafjárfestingum og þarf t.a.m. að lúta öllu reglum kanadísku kauphallarinnar i Toronto um upplýsingaskyldu og annað. En þar er Magma Energy skráð.
Jamm - þetta veldur miklu uppnámi hjá sumum íslenskum stjórnmálamönnum. Þeir hinir sömu ættu kannski að minnast þess að Ísland er aðili að innri markaði ESB & EES. Þar af leiðandi er fátt sem gæti komið í veg fyrir að aðilar utan Íslands - en innan ESB eða EES - kaupi upp ekki aðeins íslensk orkufyrirtæki heldur líka land þar sem orku er að finna. Þessi staðreynd hefur legið fyrir í fjölda ára og þess vegna er upphlaupið núna svolítið hlægilegt.
Þar að auki ættu íslenskir stjórnmálamenn að minnast þess er það opinber stefna af hálfu ESB að öll gömlu ríkisorkufyrirtækin verði skráð á hlutabréfamarkað og einkavædd. Þetta er einfaldlega þáttur í einni mikilvægustu stoð ESB; að innan sambandsins verði einn sameiginlegur innri orkumarkaður sem njóti mikils viðskiptafrelsis
Undanfarin ár hefur mikil vinna verið lögð í það hjá stofnunum ESB og stjórnvöldum aðildarríkjanna að koma á þessum sameiginlega orkumarkaði. Og þetta er vel á veg komið. Einn þáttur í orkustefnu ESB gengur út á skráningu og sölu á orkufyrirtækjum innan ESB, sem áður voru í ríkiseigu. Af fljótlegri yfirreið fær Orkubloggarinn ekki betur séð en að einungis fimm af 24 stærstu orkufyrirtækjum í Evrópu séu enn í ríkiseigu. Það er sem sagt svo að núna eiga einkaaðilar hlut í næstum öllum stærstu orkufyrirtækjunum innan ESB. Og þó svo sum þeirra séu enn að talsverðu leyti í eigu ríkisins, eru þarna á meðal orkufyrirtæki sem eru komin í 100% eigu einkaaðila.
Og af því Orkubloggarinn er nú staddur í henni Kóngsins Köben má nefna að flest bendir til þess að danska ríkisorkufyrirtækið Dong Energi verði tuttugasta stórorkufyrirtækið í Evrópu sem ríkið selur meirihlutann stóran hluta í. Ekki bara af því slík sala sé eitthvert metnaðarmál Venstre, sem hér ráða ríkjum í Folketinget. Heldur einfaldlega vegna þess að þetta er hluti af frelsisvæðingu orkugeirans, sem er grundvallaratriði í stefnu ESB.
Á Íslandi situr ríkisstjórn sem hefur tekið þá gríðarlega stóru ákvörðun að sækja um aðild Íslands að ESB. Orkubloggarinn hefur vel að merkja ávallt verið Evrópusinnaður - þó svo sú skoðun bloggarans hafi hikstað nokkuð hressilega vegna framkomu Breta, Hollendinga og ESB í Icesave-málinu. Orkubloggarinn er sem sagt fremur jákvæður í garð ESB - en skilur samt líka vel þá sem sjá hættur í slíkri aðild. Og þ.á m. þá sem telja það grundvallaratriði að orkufyrirtækin á Íslandi verði í eigu "þjóðarinnar"; þ.e.a.s. ríkisins. En hvað sem líður skoðunum bloggarans á ESB-aðild, þá er nokkuð augljóst að aðild Íslands að ESB og skilyrðislaus eign íslenska ríkisins á orkufyrirtækjunum mun varla geta farið saman. Það væri a.m.k. algerlega á skjön við yfirlýsta orkustefnu sambandsins.
Einkennilegast er þó æpandi stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í málinu. Skipan orkumála hlýtur að vera eitthvert allra þýðingarmesta atriðið hjá sérhverri ríkisstjórn. Hvernig getur það gengið upp, að íslenska ríkisstjórnin sendi inn umsókn í ESB - á sama tíma og annar ríkisstjórnarflokkurinn virðist algerlega andsnúinn því að útlendingar eða jafnvel einkaaðilar yfirleitt geti átt í íslensku orkufyrirtækjunum? Er líklegt að ESB taki umsókn frá slíkri ríkisstjórn alvarlega? Menn hljóta satt að segja að veltast um af hlátri á skrifstofum ESB - og veitir sennilega ekki af smákátínu þar í hinni hrútleiðinlegu Brussel.
Þetta upphlaup út af Magma er í besta falli kjánalegt - en sýnir því miður að landið okkar er í reynd stjórnlaust. Kannski er ekki skrítið að stór hluti þjóðarinnar lýsi frati á fjórflokkafúskið á Íslandi og halli sér að grínistum.
Viðskipti og fjármál | Breytt 24.5.2010 kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.5.2010 | 00:04
Svarta Perlan

Hollywood tók upp á því að nefna sjóræningjaskip Svörtu Perluna. Í huga Orkbloggarans eru það þó knattspyrnusnillingarnir Péle og Eusébio sem eru hinar einu sönnu svörtu perlur.
En nú er enn komin fram ný kolsvört perla - sem er sannkölluð risaperla. Perluverksmiðjan í Persaflóaríkinu Katar.
Þessi glænýja Svarta Perla er sko ekkert smáræði. Um er að ræða einhver stærstu framkvæmd í heiminum öllum. Og þá allra stærstu í gas- og olíuiðnaði nútímans. Versmiðjan kallast fullu nafni Pearl Gas to Liquids Plant og þar verður gasi frá stærstu gaslind heimsins umbreytt í ýmis konar olíuafurðir; ekki síst díselolíu og flugvélabensín.
GTL (gas to liquids) er að verða meiriháttar iðnaður. Jafnvel þó svo þetta sé mjög orkufrek framleiðsla og hafi lengst af þótt með ólíkindum dýr leið til að framleiða olíuafurðir - þegar miklu ódýrara var að stinga bara strái i sandinn og láta olíuna spýtast upp - er GTL orðið að veruleika.

Olía, gas og kol eiga það sammerkt að vera mislangar kolvetniskeðjur. Með efnafræði og orku að vopni er unnt að leika sér með þessi kolmónoxíð- og vetnissambönd og vinna hefðbundnar olíuafurðir úr bæði kolum og gasi.
Þekktasta aðferðin til þess er kölluð Fischer-Tropsch; kennd við þýsku efnafræðingana Franz Fischer og Hans Tropsch. Þeir þróuðu þessa aðferð strax á 3ja áratug 20. aldar og hernaðarvél Nasismans gekk að verulegu leyti fyrir díselolíu, sem unnin var með Fischer-Tropsch aðferð úr hinum miklu kolanámum Þriðja ríkisins. Fyrir vikið var þýski bærinn Pölitz (nú Police í Póllandi) sprengdur í tætlur af flugvélum Bandamanna, en þar var ein mikilvægasta verksmiðjan staðsett. Reyndar vill svo skemmtilega til að verksmiðjan sú var að mestu í eigu bandaríska Standard Oil; dótturfyrirtækið í Þýskalandi hét Deutsch-Amerikanische Petroleum Gesellschaft. En það er önnur saga.
Á ensku er samheitið synthetic fuel eða synfuel notað yfir fljótandi eldsneyti af þessu tagi, sem unnið er úr öðrum kolvetnisgjöfum en olíu. Lengst af var synfuel einungis unnið úr kolum og enn þann dag í dag eru kol algengasta hráefnið við að vinna olíuafurðir úr öðrum kolvetnisgjöfum en olíu. Er þá talað um CTL (coal-to-licuids).

Suður-Afríkumenn tóku snemma upp á því að vinna díselolíu með þessu móti, vegna mikilla kolaauðlinda þar í landi - og þó ekki síður sökum þess að viðskiptabannið vegna aðskilnaðarstefnu stjórnvalda hvíta minnihlutans olli þeim vandræðum við að útvega sér olíu. S-Afríska fyrirtækið Sasol náði að þróa svo árangursríka tækni að enn þann dag í dag er það stór og ábatasamur bransi hjá fyrirtækinu að umbreyta kolum í olíuafurðir. Jafnvel þó svo S-Afríka sé löngu aftur komin í samfélag þjóðanna og geti því keypt olíuafurðir hvar sem er. Og jafnvel þó svo þetta sé afar orkufrekur iðnaður sem losar mikið af gróðurhúsalofttegundum, þá er Sasol á blússandi ferð.
Í dag er nánast allri díselolíuþörf þessarar 50 milljóna manna þjóðar þarna syðst í Afríku mætt með CTL verksmiðjum. Og Sasol er komið í útrás til annarra landa, sem vilja nýta kolin sín með þessum hætti.
Það voru aftur á móti ljúflingarnir hjá Shell sem áttuðu sig manna fyrstir á því að það væri tóm vitleysa að láta kolin vera einu uppsprettu synfuel. Þeir Skeljungarnir töldu vel mögulegt að gera góðan bissness úr því að nýta venjulegt gas (náttúrugas; metan) til að framleiða olíuafurðir í stórum stíl með samskonar aðferð eins og notuð er í CTL-iðnaðinum. Og árið 1993 opnaði Shell fyrstu verksmiðjuna af þessu tagi í Bintulu á Malasíu-hluta eyjunnar Borneó, en þar utan við ströndina eru miklar gas- og olíulindir. Draumurinn um GTL (gas to liquids) var orðinn að veruleika.

Gasið sem fer í vinnsluna hjá Bintulu er m.a. notað til að framleiða fljótandi flugvélaeldsneyti. Sem er að flestu leyti samskonar eins og hefðbundið flugvélabensín úr hráolíu. Reyndar er "gasflugvélabensínið" með minna af ýmsum mengandi efnum og þykir því vera umhverfisvænna; t.d. er nær enginn brennisteinn í því.
Þetta flugvélaeldsneyti úr gasinu var notað í fyrsta sinn á farþegaþotu snemma árs 2008. Þar var á ferðinni risaþotan Airbus A380, sem flaug frá Bretlandi til Toulouse í S-Frakklandi, en það er álíka löng flugleið eins og milli Keflavíkur og Glasgow. Ofurbelgurinn A380 eru fjögurra hreyfla og var nýja eldsneytið einungis notað á einn hreyfilinn, en hinir þrír gengu fyrir venjulegu flugvélabensíni. Ferðin gekk að óskum og nú er gert ráð fyrir að stór hluti framleiðslunnar frá nýju Perluverksmiðjunni í Katar muni einmitt verða flugvélabensín.
Þróunin í gasbransanum síðustu árin hefur verið ævintýraleg. Gæti farið svo að gasáhuginn muni jafnvel þurrausa fjármagn sem hefur verið að horfa til endurnýjanlegrar orku. Ódýrt gas gæti valdið því að orkumarkaðurinn verði miklu fastheldnari á kolvetnisorkuna en margur hefur vonast til. Og hlutfall endurnýjanlegrar orku myndi þá etv. vaxa hægar en spáð hefur verið af mörgum spekingnum.

Ýmsir eru þó enn á því að þróunin verði sú að olía, kol og gas verði brátt á undanhaldi sem helstu orkugjafar mannkyns. Að "skítuga" orkan muni víkja fyrir grænni orku frá endurnýjanlegum auðlindum vatns, vinds og sólar. Hækkandi olíuverð, mikill vilji Vesturlandabúa til að verða a.m.k. minna háður arabísku olíunni og rússneska gasinu og viljinn til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, mun væntanlega auka eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku umtalsvert. En hin raunverulegu vatnaskil í orkubúskap heimsins kunna samt að verða allt önnur. Svo gæti farið að 21. öldin verði einfaldlega öld gassins. Gasöldin!
Olía úr gasi! Og þetta er sem fyrr segir ekki einu sinni ný tækni, heldur byggir á gamalli uppgötvun Þjóðverja. Það eru nýjar aðferðir við að ná gasi úr jörðu sem valda því að framboð af gasi hefur stóraukist á allra síðustu árum. Fyrir vikið hefur verð á gasi farið lækkandi miðað við olíuverð og nú er verðmunurinn orðinn svo mikill að það borgar sig að nota gasið til að búa til olíuafurðir eins og t.d. díselolíu. Gas er m.ö.o. orðið hagkvæm uppspretta að nýjum olíulindum.

Stærsta gaslind veraldar er undir Persaflóanum, örskammt út af strönd Katar. Íslandsvinirnir þar eru aftur á móti afar fjarri helstu gasmörkuðum heimsins og ekki mjög fýsilegt að flytja allt þetta gas um rör til t.d. Evrópu. Þess í stað hafa Arabarnir í Katar reist sérstakar verksmiðjur sem umbreyta gasinu í fljótandi form (LNG). Svo sigla sérhönnuð tankskip með fljótandi gasið til Japan, V-Evrópu og víðar. En þegar verð á olíu fór að hækka almennilega og var farið að nálgast 40 dollarana sáu Katararnir og Shell tækifæri til að nýta brautryðjendaþekkingu hinna síðarnefndu. Og einfaldlega umbreyta hræbillegu gasinu úr ofurlindunum innan lögsögu Katar yfir í rándýrar olíuafurðir.

Og nú er þetta að verða að veruleika þarna í eyðimörkinni. Hin risastóra Perluverskmiðja í Katar er risin og styttist í að framleiðslan fari í gang.
Kostnaðurinn hefur reyndar orðið margfaldur á við það sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Árið 2003 þegar ákveðið var að ráðast í verkefnið var kostnaðaráætlunin 5 milljarðar USD. En vegna gríðarlegra hækkana á stáli og fleiri hráefnum árin þar á eftir reyndist þetta gjörsamlega marklaus tala.
Árið 2007 var kostnaðaráætlunin leiðrétt og sögð vera 18 milljarðar dollar, en skv. nýjustu tölum verður heildarkostnaðurinn 22-24 milljarðar USD! En vegna þess að olíuverð er miklu hærra nú en var þegar fyrstu áætlanirnar voru gerðar, stefnir allt í að þetta verði dúndrandi bissness hjá Shell og Köturunum hjá Qatar Petroleum (sem er helsta orkufyrirtæki Katarska ríkisins). Í dag er olíuverðið u.þ.b. helmingi hærra en hið lauflétta break-even vegna Perlunnar, sem miðast við að olíutunnan sé í um 40 dollurum. Sem sagt barrrasta bjart framundan fyrir Perluna.

Perluverksmiðjan er með tífalda afkastagetu á við Bintulu í Malasíu og mun framleiða um 140 þúsund tunnur af olíuafurðum á degi hverjum; mest díselolíu og flugvélabensín. Þetta eldsneyti hefur ýmsa kosti umfram það þegar það er unnið úr olíu. Fyrir vikið má jafnvel búast við að unnt verði að selja það eitthvað dýrara en sullið úr olíunni.
Auk díselolíu og flugvélaeldsneytis mun Perluverksmiðjan framleiða verulegt magn af ýmsum gastegundum; t.d. etan (C2H6) sem er notað í efnaiðnaði ýmiss konar. Og til marks um stærðina má nefna að þessi eina GTL-verksmiðja í Katar mun skila af sér jafn miklum olíuafurðum eins og nemur allri olíuframleiðslu Shell í olíuríkinu Nígeríu! Enda kalla menn hjá Shell nú Perluna Nýju-Nígeríu.

Þó svo flugvélabensín úr gasi komi enn sem komið er einungis frá Shell-verksmiðjunni í Bintulu í Malasíu, eru Katararnir farnir að búa sig undir framtíðina. Í október á liðnu ári (2009) lét Qatar Airways fylla eina af Airbus A340-600 farþegaþotunum sínum af þessu nýja flugvélaeldsneyti og svo var flogið beinustu leið frá Gatwick til Doha. Þetta sex klukkustunda flug gekk auðvitað eins og í sögu og nú spá þeir hjá Airbus því að eftir tvo áratugi muni allt að 30% af öllu flugvélaeldsneyti verða unnið úr öðru en hráolíu. Líklegast er að það verði einmitt nýja GTL-þotueldsneytið sem verði þar sigurvegarinn.
Allt stefnir í að framleiðslan í Perlunni fari í gang seint á þessu ári (2010) og komist á fullt snemma 2011. Og þó svo Skeljungarnir viðurkenni að kostnaðurinn sé orðinn svimandi hár, þá bera þeir sig vel. Enda eru horfur á að Perlan skili þeim um 6 milljörðum dollara í tekjur á ári. Payback-tíminn verði sem sagt ekki nema 4-5 ár. Þær áætlanir miðast við að olíuverð haldist í um 70 dollurum tunnan.

En þrátt fyrir að eldsneytisframleiðsla Perlunnar muni jafngilda allri olíuframleiðslu Shell í Nígeríu og að herlegheitin kosti allt að 24 milljarða USD, átta lesendur sig kannski alls ekki á því hversu mikið risaverkefni þetta er. Nefna mætti að starfsmannafjöldinn við að reisa kvikyndið hefur verið yfir 50 þúsund. Já- fimmtíu þúsund bullsveittir mannlegir maurar hafa nú í rúm fjögur ár sveiflað skóflum sínum og hömrum þarna í eyðimörkinni á Ras Laffan iðnaðarsvæðinu um 80 km norður af Doha.
Perlan er ekki eina nýja stórframkvæmdin í Katar; þarna eru líka að rísa nokkrar nýjar LNG-verksmiðjur upp á tugi milljarða dollara. Og það er meira að segja nú þegar búið að setja þarna i gang eina nýja GTL-verksmiðju; i fyrra var ræst 34 þúsund tunna framleiðsla Oryx, sem er samstarfsverkefni S-Afríska Sasol og Qatar Petroleum.

Litlum sögum fer af áhyggjum Katara af þensluáhrifum þessara stórframkvæmda. Fjárfestingin í Perluverksmiðjunni einni jafngildir um tuttugu Kárahnjúkavirkjunum (en mannfjöldinn í Katar er einungis um fimm sinnum fleiri en á Ísland). Nánast allt hráfni í þessa gígantísku framkvæmd og sömuleiðis vinnuaflið (50 þúsund starfsmenn) er innflutt. Orkubloggið hefur þó engar spurnir af áhyggjum Katara um "mjúka eða harða lendingu" þegar framkvæmdunum líkur. Það er reyndar svo að riyalinn - myntin í Katar - hefur í áratugi verið tengdur við Bandaríkjadal. Og þar að auki eru kannski litlar líkur á öðru en að áframhaldandi fjárfestingar muni streyma til Katar, sem ræður yfir mestu gaslindum heimsins.
Ofboðslegar gaslindirnar í lögsögu Katar gera landið að ríkasta ríki heims (miðað við fólksfjölda). Og fyrir vikið er ríkisfyrirtækið Qatar Petroleum eitt það allra stærsta í gjörvöllum olíu- og gasiðnaðinum. Einungis Saudi Aramco í Saudi Arabíu og ríkisolíufélagið í Íran búa yfir ámóta kolvetnisauðlindum. Svarta Perlan hefur því augljóslega forsendur til að vera stærri framkvæmd en flest annað í heimi hér. En kannski er eftirfarandi myndband frá ljúflingunum hjá Shell, einfaldlega best til þess fallið að lýsa þessari risaframkvæmd, sem GTL-Perluversmiðjan er:
9.5.2010 | 00:24
Spennandi Valorka
Sjávarorka er grein á orkutrénu, sem Orkubloggarinn hefur séð sem áhugaverðan möguleika fyrir Íslendinga til að þróa nýjan iðnað, sem gæti orðið mikilvægur fyrir íslenskt efnahagslíf.

Það að beisla sjávarorkuna er ennþá tækni á fósturstigi. Rétt eins og var um vindorkuna fyrir rúmum 30 árum. Ef rétt yrði haldið á spöðunum hér, gæti Ísland mögulega orðið jafn heimsþekkt fyrir sjávarorkutækni, rétt eins og Danmörk er í vindorkunni.
Þarna er eftir talsverðu að slægjast. Til samanburðar þá var veltan í vindorkunni á síðasta ári um 40 milljarðar EUR (þ.e. árið 2008; tölurnar vegna 2009 liggja ekki enn fyrir). Á sultugengi kreppunnar jafngildir þetta næstum sjö þúsund milljörðum ISK.
Minnumst þess líka að danska Vestas er stærsta vindorkufyrirtæki veraldar, þýska Siemens Wind er með aðalstöðvar sínar á Jótlandi og rannsóknamiðstöð indverska Suzlon Wind Energy er í Danmörku. Þessi árangur Dana í vindorkunni er afspengi þolinmóðrar stefnu danskra stjórnvalda gagnvart vindorku. Með sama hætti gætu íslensk stjórnvöld skapað hér heimsins mest aðlaðandi umhverfi fyrir sjávarorkuiðnaðinn. En til að svo megi verða þarf framsyni og metnað.
Um sjávarorkutæknina má kannski segja að þar séu menn enn nánast á byrjunarreit. Meðan bæði vindorka og sólarorka hafa í áratugi þróast yfir í risastóran iðnað, er sjávarorkan að mestu ennþá bara hugmynd eða möguleiki. Möguleiki sem reyndar yrði einhver sá áhugaverðasti í endurnýjanlegri orku ef fram kæmi tækni sem byði upp á þann möguleika að virkja afl sjávar í stórum stíl með hagkvæmum hætti.

Það er margt að gerast á þessum vettvangi og mörg sjávarorkufyrirtæki eru komin fram með athyglisverðar prótótýpur. Sem þau auðvitað öll segja að hafi æðislega möguleika og verði brátt sannreynd og samkeppnishæf tækni í raforkuframleiðslu. Um þetta má t.d. lesa í fyrri færslum Orkubloggsins um sjávarorkuna.
Stundum virðist hugmyndaflugið á þessum vettvangi einkennast meira af kappi en forsjá. Enn sem komið er virðist hringurinn lítt vera farinn að þrengjast um hver besta lausnin verður. Menn bjástra m.a. við að nýta ölduhreyfingar sem þrýstiafl og eru líka með alls konar svolítið sérkennilegar hugmyndir um hvernig nýta megi sogkraft frá brimi sem skellur á klettaströnd til að knýja túrbínu. Þetta síðastnefnda er hugmynd sem hefur m.a. verið í skoðun við Færeyjar, en frændur okkar þar hafa hvorki jarðvarma né umtalsvert vatnsafl og langar mikið að reyna að beisla vindinn og/eða sjóinn til raforkuframleiðslu. Það hefur því miður enn ekki ræst.
Sem dæmi um aðra svolítið skrítna en skemmtilega hugmynd í sjávarorkunni má nefna apparat sem ástralska fyrirtækið BioPower hefur þróað. Og nú ætla Ástralirnir að prófa tækið í sjálfum San Francisco flóanum í samstarfi við borgayfirvöld í þeirri miklu hippa- og nýsköpunarborg. Þó svo nafnið BioPower minni kannski meira af fjósalykt (lífmassa) heldur en sjávarangan, er þetta hreinræktað sjávarorkufyrirtæki. Og nær Sílikondal komast menn varla í sjávarorkuiðnaðinum. Þetta er því kannski rakið vinningsdæmi?

Flest könnumst við við það hvernig þang sveiflast rólega til og frá í takti við hreyfingu sjávar. Það er einmitt sú hreyfiorka sjávar sem áströlsku ljúflingarnir hjá BioPower hyggjast nýta. Tæknin hjá BioPower felst í apparati sem kallast BioWave og er eins konar manngert þang sem mun hreyfast til í sjónum og sú hreyfing nýtt til að skapa vökvaþrýsting sem knýr túrbínu í landi. M.ö.o. þá er eins konar belgjum eða blöðkum komið fyrir á hafsbotni skammt utan við ströndina og þar hreyfast þær til og frá í sjónum og virka eins og pumpa sem gengur fyrir afli sjávar.
Fyrstu tækin í þessari tilraun í San Francosco-flóanum eiga hvert um sig að hafa aflgetu upp á 250kV, en stefnt er að 1 MW afli innan tíðar. BioPower vonast til að innan örfárra ára verði unnt að setja upp allt að hundrað slík samtengd tæki, sem verður þá 100 MW sjávarvirkjun! Sem myndi framleiða raforku fyrir góðan slatta af íbúum San Francisco.
Enn sem komið er, er þó allsendis óvíst að þessi veltikallatækni geti skilað því sem til er ætlast; stöðugri og tiltölulega ódýrri raforku. Þó svo apparatið líti vel út á teikningum er Orkubloggarinn meira trúaður á að einhvers konar samtvinnun og/eða útfærsla á hefðbundinni vatnsafls- og vindorkutækni sé hagkvæmasta og raunhæfasta leiðin til að beisla orku sjávar.
Takist mönnum t.d. að framleiða ódýrt tæki sem byggist á tiltölulega vel þekktri tækni en getur nýtt straumhraðann í sjónum mun betur en hingað til, gæti það orðið að alvöru stóriðnaði. Það skemmtilega er að hér á Íslandi er nú verið að smiða tæki, sem hugsanlega gæti orðið mikilvægur þáttur í að stuðla að slíkum tímamótum.
Mikill fjöldi fyrirtækja vinnur að alls konar útfærslum í að nýta sjávarorkuna; ekki síst á Bretlandseyjum og líka talsvert í Bandaríkjunum, Ástralíu og víðar. En íslenska straumhjólið hjá Valorku gæti hugsanlega skotið þeim öllum ref fyrir rass.

Eldhuginn að baki Valorku er maður að nafni Valdimar Össurarson. Valdimar er m.a. þekktur fyrir þróun viðvörunarbúnaðar vegna snjóflóða og sérstakrar líflínu fyrir smábátasjómenn og situr í stjórn Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna. Nú síðast hefur hann unnið að þróun tækis, sem gæti valdið þáttaskilum í sjávarorkuiðnaðinum. Þar er á ferðinni straumhjól, sem ætlað er að ná betri nýtingu en flest annað sem hefur komið fram á þeim vettvangi til þessa. Straumhjólið er túrbína (hverfill) sem á að geta nýtt hægstrauma, svo sem sjávarfallastrauma eða hægstreymandi fallvötn, en gæti mögulega líka nýst í vindrafstöðvar.
Valdimar hefur nú þegar smíðað nokkrar útgáfur af hverflinum og leggur áherslu á að hann verði sem einfaldastur en um leið sterkbyggður. Á vef Rannís segir m.a. "Hverfillinn er í 3 megingerðum sem allar byggja á þverstæðum ási við straumstefnu. Gerðir 1 og 2 eru með aðskildum hallandi öxlum og vélrænni opnun blaða, en gerð 3 er á heilum öxli; með straumopnun blaða og vinnur við gagnstæða straumstefnu án skiptibúnaðar". Framundan eru prófanir í straumkeri og mælingar á afköstum, en að því búnu er ráðgert að smíða frumgerð (prótotýpu) til prófunar í sjó. Það verður vonandi ekki síðar en á næsta ári (2011).

Í þessu sambandi er athyglisvert að ef marka má nýtt álit INSEAD viðskiptaháskólans fræga, þá er Ísland hvorki meira né minna en mesta nýsköpunarland veraldar! Í nýjustu skýrslu ljúflinganna hjá INSEAD rauk Ísland upp úr tuttugasta sætinu frá fyrra ári og felldi sjálfan frumkvöðlarisann Bandaríkin úr efsta sætinu (nálgast má skýrslu þeirra í heild hér; nokkuð þungt skjal). Og INSEAD er jú ekki aldeilis hver sem er. Þetta hljóta því að teljast talsverð tíðindi.
Flestir sem vinna að nýsköpun á Íslandi þekkja það hversu hroðalegur skortur er hér á áhættufjármagni. Hvort sem er lánsfé eða hlutafé. Frumkvöðlastarf án slíks bakhjarls hlýtur ávallt að eiga erfitt uppdráttar. Þess vegna er kannski ofurlítið sérkennilegt að Íslandi sé skipað í fyrsta sætið í þessara skýrslu INSEAD.
Hvað um það. Hér á Íslandi er vissulega ýmislegt athyglisvert að gerast í nýsköpun. En því miður er hætta á því að áhugaverð verkefni eins og straumhjólið hjá Valorku verði ekki fullunnin, vegna skorts á þolinmóðu áhættufjármagni. Orkubloggarinn er engu að síður bjartsýnn um að Valdimar nái að þróa hugmynd sína áfram - og í framhaldinu vonandi að vekja áhuga öflugra tæknifjárfesta.

Ef það gengur eftir er reyndar ekki ólíklegt að tækniþekkingin myndi samt hverfa úr landi; t.d. til Bretlands sem í dag hlúir miklu meira og betur að þessum geira endurnýjanlegrar orku en nokkur önnur stjórnvöld. Til að mögulegt sé að Ísland ávinni sér sess í sjávarorkuiðnaði þarf að grípa hér til sértækra aðgerða; t.d. skapa þessum geira sérstaklega hagstætt skattaumhverfi sem myndi laða fjárfestingar í sjávarorkutækni hingað til lands. Og það væri örugglega bara hið besta mál fyrir Valorku og þróun á íslensku hugviti, ef hingað kæmu erlend sjávarorkufyrirtæki.
Iðnaðarráðherra; taktu nú af skarið og komdu einhverju alvöru og áþreifanlegu í framkvæmd! Byrja strax á frumvarpi um fjárfestingaumhverfi sjávarorkufyrirtækja.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.5.2010 | 13:54
Deepwater Horizon
Það stefnir í mesta olíumengunarslys í Mexíkóflóa í þrjátíu ár.

Fyrir um tíu dögum kviknaði eldur á olíuborpallinum Deepwater Horizon og varð sprenging, sem olli því að nokkrir af áhöfninni fórust. Pallurinn stóð brátt í ljósum logum og sökk um sólarhring síðar.
Olían heldur áfram að streyma úr borholunni og er ófyrirséð hversu mikið tjónið verður. En ef illa fer gæti þetta mengunarslys jafnvel slagað í megamengunina, sem varð vegna bilunarinnar í Pemex-pallinum Ixtoc innan lögsögu Mexíkó árið 1979. Þá hreinlega gusaðist olía úr borholunni beint í sjóinn í heila tíu mánuði!
Það er BP sem er stærsti hluthafinn í verkefninu sem Deepwater Horizon var að stússa í og hefur félagið þegar fengið talsvert högg áhlutabréfamörkuðum vegna slyssins. Það er reyndar svo að pallurinn er leigður frá risaborunarfyrirtækinu Transocean og ekki útilokað að ábyrgð vegna slyssins muni að einhverju leyti leggjast á Transocean. Niðurstaða þar um mun þó varla liggja fyrir fyrr en eftir löng málaferli vestur í Bandaríkjunum.

Deepwater Horizon var að mörgu leyti dæmigerður flotpallur, sem hannaður er til olíuborunarverkefna á miklu dýpi. Þetta var nú samt enginn venjulegur pallur, því þarna var á ferðinni sannkallaður meistari djúpsins. Undanfarinn áratug hefur pallurinn verið á flakki um Mexíkóflóann og borað nokkra gríðarlega djúpa brunna fyrir olíufélögin, sem undanfarin ár hafa gert dauðaleit að olíu á djúpinu mikla - bæði utarlega í Flóanum og í gljúfrunum sem teygja sig inn eftir landgrunninu.
Þessi fljótandi borpallur á hvorki meira né minna en heiðurinn af dýpstu olíuborholu heimsins til þessa. Það var í september í fyrra (2009) að Deepwater Horizon boraði niður á rúmlega 10,5 km dýpi og þar af rétt rúmlega 9 km undir hafsbotninn! Umræddur ofurbrunnur er á svæði nefnist Tíber og er ein af þessum svakalegu olíulindum sem fundist hafa undir Mexíkóflóanum á allra síðustu árum. Vinnsla af svo miklu dýpi er þó gríðarlega erfið og flókin, enda er þarna komið niður í ofsalegan hita. Þess vegna má líka lítið út af bera til að illa fari - eins og nú hefur gerst.
Eftir glæsilegan árangur sinn við Tíber s.l. haust hélt Deepwater Horizon á vit nýrra ávintýra í Flóanum. Að reit nr. 252 í Mississippi-gljúfrinu, einungis um 40 sjómílur suður af strönd Louisiana. Svæðið þarna kallast Macondo og voru vonir bundnar við að þar mætti ná niður á enn eina risaolíulind. Og það þótti sterkur leikur hjá BP þá um haustið, að tryggja sér leigu á pallinum langt fram á árið 2013. Jafnvel þó svo dagsleigan sé hálf milljón dollarar!
En skjótt skipast veður í lofti. Nú er saga hins glæsta Deepwater Horizon skyndilega öll. Eftirmálinn gæti þó orðið ennþá lengri. Ellefu manns munu hafa farist við sprenginguna (áhöfnin á pallinum varsamtals 126 manns). Leifarnar af pallinum hvíla á hafsbotni og nú streymir olía upp úr borholunni af óradýpi án þess að neitt virðist við ráðið.

Menn eru jafnvel farnir að líkja þessu við mengunarslysið sem varð í Alaska þegar risaolíuskipið Exxon Valdez strandaði á rifinu kennt við hinn alræmda en bráðsnjalla skipstjóra William Bligh. Það var í mars 1989 og þó svo oft hafi miklu meiri olía lekið í sjóinn en frá Exxon Valdez eru afleiðingar mengunarinnar taldar gera slysið eitthvert alversta olíumengunarslys allra tíma. A.m.k. fram til dagsins í dag, þegar Deepwater Horizon kann að taka við þeim vafasama heiðri.
Til samanburðar má nefna að talið er að alls hafi lekið "skitnar" 250-260 þúsund tunnur af olíu frá Exxon Valdez. Olían sem fór í sjóinn frá Ixtoc-brunninum í alls tíu mánuði nam um 10-30 þúsund tunnum á dag! Sem sagt hugsanlega allt að 9 milljón tunnur af olíu í sjóinn þar - þó svo opinbera talan sé reyndar 3-4 milljón tunnur. Sennilega veit enginn fyrir víst hversu mikil olía þetta var, sem þá lak út í Flóann í lögsögu Mexíkó, en það má a.m.k. fullyrða að það hafi jafngilt nokkrum stútfullum risaolíuskipum. Ixtoc var sannkölluð martröð, en sökum þess að slysið var í lögsögu Mexíkó var lítið um hreinsunaraðgerðir - a.m.k. í samanburði við það sem nú er á seyði út af Suðurríkjum Bandaríkjanna.
Nú lítur út fyrir að á hverjum sólarhring leki á bilinu 5-25 þúsund tunnur af olíu frá borholunni sem kennd er við Deepwater Horizon (í fyrstu fullyrti BP reyndar að þetta væru einungis um eitt þúsund tunnur á sólarhring). Þarna kunna sem sagt nú þegar að vera komnar yfir 250 þúsund tunnur af olíu í sjóinn og allsendis óvíst hversu langur tími mun líða þar til tekst að stöðva lekann. Hafdýpið þarna er um hálfur annar km og ekki hlaupið að því að stinga tappa í mörg þúsund metra djúpa borholuna.

Deepwater Horizon var sannkallað tækniundur. Þessi flotpallur var smíðaður í S-Kóreu árið 2001 og var hannaður til að athafna sig á hafsvæðum þar sem dýpið er allt að 2.400 m. Hámarksbordýpt pallsins var rétt yfir 9 km niður undir hafsbotninn.
Í heimi þar sem eftirspurn olíuleitar-fyrirtækjanna eftir svona ofurborpöllum er langtum meiri en framleiðslugeta smíðastöðvanna, verður Deepwater Horizon sárt saknað. Og miðað við það að málaferlin vegna Exxon Valdez stóðu yfir í um tuttugu ár, er augljóslega óralangt í að niðurstaða muni liggja fyrir um bótaábyrgð vegna þessa nýjasta olíumengunarslyss. Jafnvel þó svo einungis tveimur dögum eftir atburðinn hafi fyrstu skaðabótamálin gegn BP verið þingfest! Þar var um að ræða dómsmál af hálfu aðstandenda einhverra þeirra starfsmanna á pallinum, sem er saknað og taldir af.

Sumir fjárfestar hafa kannski líka verið snöggir - og hlaupið til og sjortað BP um leið og fyrstu óljósu fréttirnar bárust af eldinum. Þeir gætu hafa hagnast vel. Þó varla eins vel eins og nokkrir ónefndir íslenskir snillingar, sem stukku til um leið og stóra gosið byrjaði í Eyjafjallajökli. Og sjortuðu evrópsk flugfélög áður en markaðurinn áttaði sig á yfirvofandi röskunum á flugi. Já - þetta er svo sannarlega ljúfur heimur. Það er alltaf hægt að finna matarholur sama hvaða óáran dynur yfir.
25.4.2010 | 09:15
Samtök álfyrirtækja til höfuðs Landsvirkjun?
"Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir athugun iðnaðarráðuneytis og Hagfræðistofnunar Háskólans, benda til að álfyrirtækin greiði meðalverð fyrir orkuna en ekki fjórðungi minna eins og kemur fram í nýlegri trúnaðarskýrslu fyrir Norðurál. Ráðuneytið hafi fylgst með því sem vitað er um álverð á Íslandi. Niðurstaða ráðuneytisins sé sú að meðalverð fáist fyrir orkuna. Hagfræðistofnun hafi gert skýrslu fyrir ráðuneytið þar sem fram kemur að verðið sé sambærilegt við meðalverð."
Þannig sagði í frétt Ríkisútvarpsins 10. mars s.l. (2010). Eins og lesendur Orkubloggsins kannski muna, dró Orkubloggarinn í efa að ráðherrann færi þarna með rétt mál. Bloggarinn taldi gögn benda til þess að skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ, sem ráðherrann m.a. vísaði í máli sínu til stuðnings, væri varla pappírsins virði. Því miður væri það líklega nær lagi að álverin hér væru að greiða umtalsvert lægra verð. A.m.k. 20% lægra verð en meðalverðið - og jafnvel allt að 30% lægra verð.
Og nú er komið í ljós að tilgáta Orkubloggarans var mjög nálægt hinu rétta. M.ö.o. þá var ofangreind yfirlýsing iðnaðarráðherra rugl. Eflaust var ráðherrann í góðri trú - en ætti kannski núna að hafa tilefni til að finna sér betri ráðgjafa en hún virðist hafa.

Það er því miður svo að íslensku orkufyrirtækin hafa lengst af selt raforkuna á afar lágu verði til álveranna. Þetta birtist okkur skýrt og greinilega í gögnum sem kynnt voru á stórmerkum fundi Landsvirkjunar fyrir um viku síðan.
Þar var þjóðinni loksins sýnt svart á hvítu að frá árinu 2002 hefur raforkuverð Landsvirkjunar til stóriðjunnar hér á Íslandi verið talsvert mikið lægra en sem nemur meðalraforkuverði til slíkra fyrirtækja í heiminum. Það er meira að segja svo, að Landsvirkjun hefur verið að fá minna fyrir raforkuna heldur en sum álver í svörtustu Afríku greiða fyrir vatnsaflið þar.
T.d. greiða bæði álver í Ghana og Kamerún nú hærra raforkuverð heldur en álbræðslurnar á Íslandi. Og það þrátt fyrir að Ísland bjóði upp á mjög traust og stöðugt raforkuframboð (öfugt við það sem gerist í Afríku). Og þrátt fyrir að hér ríki sterkt lýðræði og pólitískur stöðugleiki, sem álfyrirtækin meta mikils. Jamm - þrátt fyrir marga góða kosti við að staðsetja álver á Íslandi, þá hafa íslensku orkufyrirtækin fallist á að útvega álbræðslunum raforku á ennþá lægra verði en gengur og gerist víða í Afríku. Fyrir vikið eru álfyrirtækin á Íslandi einhver þau allra hagkvæmustu í veröldinni. Sennilega eru allt að 75% allra álfyrirtækja heimsins með lakari afkomu en íslensku álbræðslurnar - en lifa samt þokkalega góðu lífi!
Þetta er einfaldlega algerlega ólógískt og erfitt að átta sig á hvað veldur því að orkuverðið til álvera er svo lágt hér á Íslandi. Ekkert bendir til þess að vatnsaflsvirkjanirnar hér séu ódýrari en þær sem reistar hafa verið t.d. í Afríku. Framleiðslukostnaður raforkunnar hér á landi er m.ö.o. ekkert lægri. Kannski jafnvel þvert á móti hærri. Samt er raforkuverðið til álveranna hér svo lágt sem raun ber vitni. Og Orkubloggarinn er á því að innan Landsvirkjunar sé mjög hæft starfsfólk, sem hafi almennt sýnt mikla hæfni í framkvæmdum fyrirtækisins og áætlanagerð. En hver er þá skýringin á því hversu illa hefur tekist til að verðleggja söluvöruna til stóriðjunnar?
Eina skýringin sem virðist koma til greina er sú að stóriðju- og raforkustefna íslenskra stjórnvalda hafi einfaldlega ekki byggst á forsendum rekstrar og arðsemi. Heldur á einhverjum óáþreifanlegum pólitískum forsendum. Þar sem ríkisvaldið hefur fyrst og fremst horft til þess að koma á umfangsmiklum framkvæmdum; virkjanaframkvæmdum án tillits til þess hvaða arðsemiskröfu sé eðlilegt að gera til slíkra verkefna til lengri tíma litið.

Þó svo virkjanir Landsvirkjunar - og vonandi líka annarra orkufyrirtækja hér á landi - hafi almennt skilað hagnaði, er afar vafasamt að nota um þær frasann ferlega. Þann að virkjanirnar "mali okkur gull". Samanburðurinn sýnir að við höfum verið að undirverðleggja raforkuna til stóriðjunnar. Gott ef arðsemin hefði ekki orðið mun meiri ef einfaldlega hefði verið fjárfest í traustum erlendum ríkisskuldabréfum!
Það er vart ofsagt að virkjana- og stóriðjustefna íslenskra stjórnvalda síðustu áratugina hafi fyrst og fremst stjórnast af tilviljanakenndum draumum stjórnmálamanna, þar sem byggðastefna og verktakablöðruframkvæmdir hafa ráðið ríkjum. Kannski varla við öðru að búast, þegar haft er í huga að stjórn Landsvirkjunar er pólitísk, auk þess sem fyrirtækið var um árabil undir stjórn stjórnmálamanns, með nákvæmlega enga reynslu af rekstri stórra fyrirtækja.

Nú kveður aftur á móti við annan tón. Til Landsvirkjunar er kominn nýr forstjóri með æpandi mikla rekstrar- og fyrirtækjareynslu. En líklega er sumum stjórnmálamönnum hér á Íslandi um og ó, einmitt vegna þess að fagmaður er kominn þarna til starfa. Af því fókus á aukna arðsemi Landsvirkjunar gæti orðið til þess að pólitíkusarnir geti ekki lengur leikið sér með Landsvirkjun, í þeim tilgangi að búa til skammtíma efnahagsblöðrur og/ eða skapa sér vinsældir heima í héraði. Vinsældir sem virðast stundum hafa átt litla samleið með eðlilegum arðsemiskröfum.
Orkubloggarinn vonar svo sannarlega að sá tími sé liðinn að hér verði virkjað bara til að virkja. Og skorar á sitjandi iðnaðarráðherra, Katrínu Júlíusdóttur, að lýsa eindregnum stuðningi sínum við stefnu nýs forstjóra Landsvirkjunar. Og vera ekkert að bíða eftir áliti einhvers "stýrihóps". Kannski væri viðeigandi að ráðherrann myndi um leið útskýra furðulega yfirlýsingu sína um orkuverðið frá því í mars s.l., sem nefnd var hér í upphafi færslunnar. Var ráðherrann vísvitandi mataður á röngum upplýsingum?
En það eru ekki bara margir stjórnmálamenn sem eiga erfitt með að kyngja rekstraráherslum Harðar Arnarsonar. Álfyrirtækin telja þetta gefa tilefni til viðbragða. Þau hafa bersýnilega ákveðið að standa saman gegn þeirri ógnun sem þau sjá í hugmyndum Harðar um rafstreng frá Íslandi til Evrópu.

Samkvæmt nýlegri atvinnuauglýsingu er nefnilega búið að stofna Samtök álfyrirtækja og er verið að leita að einstaklingi til að gegna starfi framkvæmdastjóra þeirra samtaka. Smáfyrirtækin Rio Tinto Alcan, Alcoa og Glencore (Century Aluminum) ætla sér bersýnilega að standa saman gegn þeirri tilraun sem Landsvirkjun hefur nú boðað, um að hækka raforkuverð til álbræðslufyrirtækjanna á Íslandi. Það gætu orðið gríðarlega hörð átök. Baráttan um orkuauðlindir Íslands er rétt að byrja. Vonandi bera íslenskir stjórnmálamenn gæfu til að taka þar réttan pól í hæðina! Þó svo Orkabloggarinn sé eindreginn stuðningsmaður þess að hér starfi einhver álfyrirtæki - svo lengi sem þau borgi eðlilegt verð fyrir raforkuna - verðum við að gæta okkur á því að verða ekki um of háð þessum risastóru málma- og hrávörufyrirtækjum. Besta leiðin til þess er vafalítið sú að leggja héðan rafstreng til Evrópu.