Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Olíuhásléttan

Eins og lesendur Orkubloggsins vita eru það bara rugludallar sem segja að olían sé senn á þrotum.

Oil_production_forecast_CERA

Olíuframleiðsla hefur aldrei verið meiri en síðustu árin. Nú á þessu herrans ári 2009, er álitið að frá upphafi olíunotkunar hafi samtals verið sóttar rúmar eitt þúsund milljarður tunna af olíu úr iðrum jarðar. Líklega um 1.200 milljarðar tunna.

Svartsýnar spár gera ráð fyrir að einungis álíka magn sé enn að finna. Rúman milljarð tunna. Þannig að við séum nú u.þ.b. hálfnuð með framleiðsluna og héðan í frá fari olíuframleiðslan minnkandi.

Þar að auki verði miklu mun dýrara að sækja þennan síðari helming af olíu heimsins. Sem vegna stóraukinnar olíunotkunar miðað við það sem áður var, muni einungis endast í örfáa áratugi.

Aðrir spámenn eru heldur bjartsýnni um tilvist olíu. Og segja að enn séu a.m.k. 1,5-2 þúsund milljarðar tunna í jörðu - og jafnvel miklu meira. Orkubloggið minnist t.d. skýrslu frá árinu 2006, frá ljúflingunum hjá CERA (Cambridge Energy Research Asscociates). Þar var sett fram talan 3,74 trilljónir tunna. Þ.e. að enn megi vinna 3.740 milljarða tunna af olíu. Sem er um þrefalt það magn sem unnið hefur verið til þessa dags. Svo sannarlega engir fjárans peak-oil-Bölmóðar þarna hjá CERA.

ng_june04_endofcheapoil

En vissulega er ekki hægt að útiloka að olíuframleiðslan hafi þegar náð toppi. Þó svo Orkubloggið sé sannfært um að tæknilega sé vel unnt að auka vinnsluna verulega, er nokkuð augljóst að sú vinnsla verður dýr. Til að viðhalda olíuframboði og mæta eftirspurninni, þarf æ meira af olíunni að koma af meira dýpi en áður hefur þekkst. Þess vegna verður vinnslan dýrari. Break-even yfir 70 dollara tunnan verður sífellt algengara. Það á t.d. almennt við um djúpvinnsluna og stóran hluta af bandaríska Bakken-svæðinu í Monatana og Norður-Dakóta. Og heimskautaolían verður ekki ódýrari!

Meðalvinnslukostnaðurinn fer sem sagt hækkandi. Þess vegna mun olíuverð líka óumflýjanlega hækka frá því sem er núna. Þ.e. meðalverðið til lengri tíma litið. Verðið núna stendur ekki undir stórum hluta vinnslunnar.

Og það er öruggt að olíueftirspurn mun halda áfram að vaxa, enn um sinn. Fyrst og fremst vegna efnahagsuppgangs og bættra lífskjara utan hinna hefðbundnu Vesturlanda. Auðvitað verður olíuverðið ekki stöðugt - við eigum eftir að upplifa ýktar sveiflur inn á milli; bæði fáránlega miklar uppsveiflur og hlægilega miklar niðursveiflur. En meðalverðið til framtíðar á eftir að verða mun hærra en hingað til hefur verið.

oil-consumption_growth_2012

Þrátt fyrir að olíuverð eigi í framtíðinni örugglega eftir að hækka umtalsvert, er fremur ólíklegt að dómsdagsspár um olíuverð um eða yfir 200 dollurum til langframa, rætist. Olían getur nefnilega aldrei lengi orðið dýrari en önnur orka, sem getur leyst hana af hólmi.

Líklega mun peak-oil því ekki beinlínis koma til vegna minnkandi olíuframboðs. Heldur mun eftirspurnin einfaldlega minnka, þegar vinnslukostnaðurinn verður orðinn "of" mikill. Þá mun eftirspurn eftir olíu ná hámarki og eftir það fara minnkandi.

Þegar kemur að því að olía verður á svipuðu verði og aðrir góðir orkugjafar, mun olíueftirspurnin sem sagt minnka. Og þá mun draga úr olíuframleiðslu. Þó svo tæknilega séð verði ennþá unnt að auka framleiðsluna. Framleiðslan mun m.ö.o. minnka jafn óðum og önnur orkuframleiðsla verður hagkvæmari. Þetta ferli mun væntanlega taka talsverðan tíma. Og eftir á munum við geta séð hvernig toppurinn á framleiðslukúrfunni var nokkuð jafn og sléttur - líklega í nokkur ár. Hér mætti etv. tala um hásléttuna í olíuframleiðslu heimsins.

OilProductionWorld

Það er óneitanlega athyglisvert að nú hefur olíuframleiðslan verið nokkuð stöðug í um fimm ár. Þess vegna er svo sem ekki skrýtið þó ýmsir vilji meina að nú séum við einmitt stödd á hásléttunni sjálfri. Orkubloggið telur þó að enn sé hásléttunni ekki náð. Þegar kreppunni lýkur mun eftirspurn eftir olíu aukast hratt. Og framleiðslan aukast. 

Tímabundin stífla gæti þó orðið í framleiðslunni. Vegna lítilla nýfjárfestina nú um stundir. Olía framtíðarinnar verður ekki tilbúin til sölu tímanlega, ef slík stífla myndast. Það gæti leitt til mikilla tímabundinna verðhækkana á olíuverði. Áður en jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar kæmist á að nýju.

Oil_future-production-2

Sökum þess að verulegur hluti "nýju" olíunnar verður mjög dýr í vinnslu, mun notkun annarra orkugjafa smám saman aukast. Loks kemur að því, að eftirspurn eftir olíu mun byrja að lækka til langframa. Það verður upphafið að hægfara endalokum olíualdar.

Hvort þessi vatnaskil renna upp 2010, 2050 eða seinna er risastóra spurningin. Sá sem getur rambað á rétta spálíkanið um þetta verður auðfundinn. Það hlýtur nefnilega að vera náunginn sem mun liggja í demantsslegnum sólstólnum sínum útí garði með ískaldan öl í hendi. Og horfa á grásprengda garðyrkjumanninn sinn, Bill Gates, mása og blása við að slá grasið. Meðan öldungurinn Warren Buffet snyrtir runnana og þurrkar svitann af andlitinu. Nei - það er ekki nokkur lifandi sála sem getur lesið rétt í olíukristallskúluna. Nema auðvitað Orkubloggið.

Wind_US_Development

Þau ríki sem taka mest tillit til umhverfisins, munu verða fyrst til að snúa sér að öðrum orkugjöfum. Af því þar mun umhverfiskostnaðurinn leggjast ofan á olíuverðið. Hvort sem það verður í formi mengunarvarnagjalda, kolefnisskatta eða annarra þess háttar kostnaðarliða.

Evrópa hefur verið leiðandi í þessari þróun. En líklega munu Bandaríkin nú setja ofurkraft í þetta og jafnvel ná forystunni í uppbyggingu endurnýjanlegrar orku. 

Þegar eftirspurn eftir olíu nær toppi mun martröð Sádanna verða að veruleika. Vesturlönd eru langstærsti olíukaupandinn. Þegar við í Vestrinu höfum beislað nægjanlega mikið af nýjum orkugjöfum til að geta dregið umtalsvert úr olíuþörf okkar, mun olíueftirspurnin fara minnkandi. Og verðið lækka og smám saman nálgast raunverulegan framleiðslukostnað. Þá munu Sádarnir ekki lengur geta rekið allt sitt þjóðfélag á olíugróðanum einum saman. Stóra spurningin er bara hversu langan - eða stuttan tíma - þessi aðlögun eða breytingar munu taka?

SAUDI_Oil

Sádarnir eru vel meðvitaðir um þessa "miklu hættu". Þess vegna eru þeir t.d. á fullu við að byggja upp nýjan iðnað. Svo sem plastverksmiðjur og annan iðnað sem mun nýta olíuna, sem ekki verður lengur hægt að selja Vesturlandabúum háu verði. Sádarnir standa bullsveittir þarna í sandinum, við að undirbúa heimflutning virðisaukans af olíunotkun. Annars gætu þeir lent í vondum málum og orðið gjaldþrota á augabragði, þegar eftirspurn Vesturlanda eftir olíu minnkar.

Þannig getur veröldin náð jafnvægi, án þess að peak-oil (peak-oil-demand!) valdi einhverri hádramatískri eða langvarandi alheimskreppu. Auðvitað mun efnahagskerfið hiksta svolítið vegna umbreytinganna. En sá hiksti getur vel orðið til góðs. Ekki síst fyrir Vesturlönd, þar sem almenningur hefur í áratugi sent stóran hluta af laununum sínum til olíuríkja Mið-Austurlanda. Í stað þess að sá aur sé nýttur heima fyrir.


Recovery.gov

Í gær var merkisdagur. Fyrir Bandaríkjamenn, Orkubloggið og okkur öll.
 
Obama_Reinvestment_Act_of_2009_2Upp úr hádeginu þriðjudaginn 17. febrúar 2009, settist Barack Obama við skrifborð í Náttúrufræða- og vísindasafninu vestur í Denver, Kólóradó. Tók svo upp gljáandi pennann og undirritaði nýsamþykkta löggjöf Bandaríkjaþings, sem kveður á um rífleg fjárframlög til endurreisnar efnahagslífsins (American Recovery and Reinvestment Act). Þetta var á sama tíma og draugalegt Þorramyrkrið var að færast yfir okkur í rigningunni hér á Klakanum góða.

Að baki stóð varaforsetinn Joe Biden og horfði ábúðamikill á. Mér finnst þó eitthvað annkannalegt við það hvernig Joe stendur yfir forsetanum með krosslagðar hendur. Ekki viss um að þetta sé hin eina rétta PR-stelling!

Vel þess virði að staldra við það sem menn sögðu við þetta tækifæri. Það var varaforsetinn sem hóf athöfnina. Með nokkrum fimmaura-bröndurum og stuttri kynningu. Svo tók sjálfur snillingurinn Obama við. Og vék í orðum sínum m.a. að þeim hluta pakkans, sem snýr að fjárfestingum í orkugeiranum:
 
obama-signatureBecause we know we can't power America's future on energy that's controlled by foreign dictators, we are taking big steps down the road to energy independence, laying the groundwork for new green energy economies that can create countless well-paying jobs.  It's an investment that will double the amount of renewable energy produced over the next three years.  Think about that - double the amount of renewable energy in three years.  (Klappað)  Provide tax credits and loan guarantees to companies like Namaste, a company that will be expanding, instead of laying people off, as a result of the plan that I'm about to sign.”
 
Namaste_logoÞess skal getið að fyrirtækið sem þarna fékk þann heiður að vera nefnt sérstaklega (Namasté)er ungt fyrirtæki í sólarselluiðnaðinum og er með aðalstöðvar sínar í Boulder í Kólóradó. Orkubloggarann hefur einmitt lengi langað að heimsækja þessar slóðir og horfa vestur til Klettafjallanna.

Namasté er reyndar bara lítill player í bransanum, en á athyglisverðan bakgrunn. Stofnandi þess heitir Blake Jones, er verkfræðingur og vann í olíuiðnaðinum; nánar tiltekið hjá risanum Haliburton.

Einn daginn stóð Blake Jones upp og yfirgaf þessa miklu ímynd kapítalismans og stórfyrirtækjanna. Og hélt til Nepal til að aðstoða afskekkt þorp þar við að koma sér upp rafvirkjunum. Þar stýrði hann uppsetningu á litlum sólarselluvirkjunum fyrir nepalskt fyrirtæki, sem heitir því ljúfa nafni Lotus Energy. Jones hélt aftur á heimaslóðirnar í Ameríku árið 2005 og stofnaði þá Namasté Solar. Fyrirtækið sem við þetta tækifæri, þegar Obama undirritaði Viðreisnarlögin, var nefnt sem táknmynd um þá möguleika, sem fjárveitingunni er ætlað að styðja við.  

denver-skylineLögin sem undirrituð voru í gær þarna vestur í Kólóradó, voru afgreidd frá Bandaríkjaþingi þann örlagaríka dag, föstudaginn 13. febrúar s.l. Ekki beint fýsilegt fyrir hjátrúarfulla kjána.

Lögin hljóða upp á samtals 787 milljarða dollara fjárveitingu til hinna ýmsu málaflokka. Eins og t.d. í vegaframkvæmdir, viðgerðir á járnbrautum og uppbyggingu nýrra hraðlesta, uppbyggingu nýrra raforkudreifikerfa, öflugri heilbrigðismál og betri menntastofnanir. En auðvitað eru stærstu tíðindin að umtalsverður hluti þessara peninga fer í orkumál, m.a. uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuframleiðslu.

boeing_787_dreamliner2

787 milljarðar dollara eru barrrasta nokkuð flott tala. Rímar skemmtilega við nýjasta tækniundur heimsins; Boeing 787 Dreamliner.

Sett í samhengi við fólksfjölda, jafngildir þessi fjárhæð því að Alþingi setti nú 850 milljónir dollara í uppbyggingu íslenska efnahagslífsins. Á gengi dagsins væru það tæplega 100 milljarðar íslenskra króna. Er kannski komið fram frumvarp þess efnis niðri á þingi? Eða eru þeir Birgir Ármannsson og félagar að rífast um eitthvað annað "stórmál"?

Sambærilegur pakki á Íslandi væri, sem fyrr segir, u.þ.b. 100 milljarðar ISK. Þokkaleg upphæð. En samt hreinn skítur á priki miðað við Sovétframkvæmdir ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Því þetta slefar ekki einu sinni í það sem Kárahnjúkavirkjun kostaði. Þar að auki var Kárahnjúkavirkjun byggð á tímum þegar efnahagslífið var í þokkalegum gír. En íslenskir stjórnmálamenn hafa aldrei verið sleipir í að stýra efnahagsmálum eða að skilja hagfræði.

Við þetta má bæta, að í dag mátti lesa eftirfarandi á vef Viðskiptablaðsins: "Uppsafnaðar fjárfestingar Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar á tímabilinu 1995 til 2008 eru komnar yfir 300 milljarða króna á verðlagi í janúar 2009". Athyglisvert. Our Money at Work?

Recovery_money_at_workVilji lesendur Orkubloggsins fylgjast með því, í hvað þessir 787 milljarðar dollara fara, á að verða hægt að skoða það á sérstöku vefsetri: www.recovery.gov
 
Fyrir okkur orkuþyrsta Íslendinga, er áhugavert að af þessari fjárhæð fara um 40 milljarðar dollara í orkutengd málefni. Þar af eru um 17 milljarðar dollarar eyrnamerktir þeirri deild bandaríska orkumálaráðuneytisins, sem fer með endurnýjanlega orku (Office of Energy Efficiency and Renewable Energy; EERE).

Settir eru 2,5 milljarðar dollara í þróun á rafbílatækni og nýrra rafgeyma . Í rannsóknir á loftslagsbreytingum fer 1 milljarður dollara. Og 2 milljarðar dollara fara til NASA, til rannsókna á kjarnsamrunatækni. Ef einhver alvöru grundvallarbreyting á að verða á orkuframleiðslu í heiminum, þarf miklu meira að koma til en aukin virkjun endurnýjanlegrar orku. Kjarnasamruni er sú lausn sem margir vonast eftir. En það er önnur saga.

Recovery_money_chart

Loks er vert að nefna, að af öllum milljónaþúsundunum, sem lögin kveða á um, fara 400 milljónir dollarar í jarðhitaverkefni. Kannski ekki nein ósköp - en eru þó rúmir 45 milljarðar íslenskra króna á núverandi gengi. Þarna gætu verið að skapast ný og áhugaverð tækifæri fyrir útflutning á íslenskri jarðhitaþekkingu.


Var 30 - er nú 70

Undanfarið hafa dunið á okkur fréttir um metnaðarfullar áætlanir bæði ESB og Obama um stórfellda uppbyggingu í endurnýjanlegri orkuframleiðslu.

Oil_!

En nú óttast sumir að lækkandi olíuverð síðustu mánuðina muni hægja mjög á þessum fyrirætlunum. Slíkar framkvæmdir eru dýrar og eru varla samkeppnishæfar við olíu á svo lágu verði sem nú er. Eða eins og einn lesandi Orkubloggsins orðaði það í athugasemd við síðustu færslu bloggsins:

"Það er tómt mál að tala um aðra orku en af lágum stuðli þegar olían er USD 34,50 tunnan eins og núna!" Þetta er auðvitað staðan í hnotskurn. Enginn kaupir rafmagn fá vindorkuveri, þegar rafmagn frá gasi kostar helmingi minna! Þess vegna eru margir svartsýnir á endurnýjanlega orkugeirann þessa dagana.

Og sporin hræða. Í kjölfar olíukreppunnar snemma á 8. áratugnum settu bandarísk stjórnvöld í gang metnaðarfullar áætlanir um nýjar sólarorkuvirkjanir og ætluðu einnig að vinna fljótandi eldsneyti úr kolum og gasi (s.k. synfuel). Bæði Nixon, Ford og Carter var umhugað um að Bandaríkin þyrftu ekki að flytja inn stórfellt magn af olíu frá Mið-Austurlöndum. Miklu fjármagni var varið í þessa nýju tækni. Sólarsellum var komið fyrir á Hvíta húsinu og ný sólarorkuver risu í Mojave-eyðimörkinni. Fyrstu CSP-orkuverin.

csp_tower_mojave

Allt endaði þetta nýorkuævintýri með ósköpum. Það kom nefnilega lægð í efnahagslífið upp úr 1980 með tilheyrandi lækkunum á olíuverði. Og verðið hélst lágt allt fram yfir aldamótin. Afleiðingarnar voru gjaldþrotahrina meðal fyrirtækja í hinni nýju orkutækni og fjárfestar flúðu greinina eins og rottur sökkvandi skip. Loks með hækkandi olíuverði upp úr aldamótunum, tóku menn aftur að fjárfesta í stórum stíl í græna orkugeiranum.

Nú kunna ýmsir að ætla, að kreppan núna muni hafa svipuð áhrif og niðursveiflan á 9. áratugnum. Kreppan muni valda því að olíuverð haldist lengi lágt og mikill skellur sé yfirvofandi hjá fyrirtækjum sem t.d. starfa í sólarorku- eða vindorkuiðnaði. Öll framþróun í þessum atvinnugreinum komi til með að staðna í mörg ár og jafnvel áratugi.

Alaska_Oil_Pipeline_2

Orkubloggið hefur litlar áhyggjur af þessu og álítur hæpið að kreppan nú muni fara mjög illa með endurnýjanlega orkugeirann. Til þess eru aðstæðurnar of ólíkar því sem var áður fyrr.

Mikil lækkun olíuverðs um og upp úr miðjum 9. áratugnum kom ekki bara til vegna efnahagslægðar. Á sama tíma streymdi nefnilega upp olía frá nýjum olíulindum í Alaska og þó einkum Norðursjó. Olíuleiðslan mikla norðan frá Prudhoe-flóa í Alaska, eldspúandi borpallar í Norðursjónum og glampandi ný kjarnorkuver voru táknmyndir um sterka orkustöðu gömlu Vesturveldanna. Olíuframboðið var mikið og OPEC gat ekki haldið verðinu háu, bæði vegna innbyrðis ágreinings og þó ekki síður vegna þess að Vesturlönd voru búin að opna nýja olíukrana heima fyrir.

Oil_US_Alaska_North_Sea_Production

Í dag er staðan allt önnur. Ekkert bendir til þess að Vesturlönd geti aukið olíuframleiðslu sína. Þvert á móti fer framleiðslan þar hratt minnkandi. Bæði framleiðslan í Bandaríkjunum (þ.m.t. Alaska) og í Norðursjó er að dragast saman. Og fáar nýjar olíulindir að finnast hér í Vestrinu. Bæði Bandaríkin og Evrópu eru háð innflutningi á olíu - og sú ógæfulega staða mun ekki skána fyrr en bílaflotinn kemst á annað eldsneyti.

Svo eru líka komnar fram vísbendingar um að gasframleiðsla Vesturlanda muni senn fara minnkandi. Gasframleiðsla í Bretlandi náði toppi fyrir nokkrum árum, sbr. grafið hér að neðan. Og það lítur út fyrir að hinar gríðarlegu gaslindir Hollendinga séu einnig komnar yfir toppinn - og muni héðan í frá fara hratt hnignandi.

UK_Gas_balance

Norðmenn munu enn um sinn geta aukið gasframleiðslu sína. En þó engan veginn nóg til að mæta eftirspurn Evrópu. Þess vegna er Evrópa að verða æ háðari Rússum og ríkjum í Mið-Asíu um gas. Sá baggi leggst ofan á olíuþörf Evrópu.

Óljóst er hvort Bandaríkin geta aukið gasframleiðslu sína (hún hefur verið nokkuð stöðug þar síðustu árin). En a.m.k. stendur gasframleiðsla Bandaríkjanna betur en innan ESB. Bandaríkjamenn eru í þokkalegum málum. Þar má búast við að sífellt hærra hlutfall af gasinu fari í samgöngugeirann. Og að endurnýjanleg orka muni að hluta til leysa það gas af hólmi í rafmagnsframleiðslunni.

Við þetta má bæta, að á nýliðnu ári gerðist það í fyrsta sinn í langan tíma, að gasframleiðsla Rússa minnkaði! Sem gæti þýtt að ESB lendi brátt í harðri samkeppni við Rússa um gas frá Mið-Asíuríkjunum.

Staða Evrópu og Bandaríkjanna nú er sem sagt allt önnur nú en var í síðustu stóru efnahagslægðinni. Í næstu efnahagsuppsveiflu munu þessir gömlu vinir ekki geta gengið að nýjum olíu- og gaslindum. Það er enginn nýr Norðursjór í sjónmáli og ekki heldur nýr Prudhoe-flói. Meira að segja olíuvinnslan nýja á djúpi Mexíkóflóans nægir ekki til að viðhalda olíuframleiðslu flóans alls. Þannig að Mexíkóflói er líka á niðurleið.

Arctic_Oil_USGS

Barentshafið og heimskautasvæðin munu eflaust skila verulegu magni af olíu og gasi. En þær auðlindir eru ennþá að mestu langt utan sjóndeildarhringsins - munu ekki byrja að mjatlast inn á markaðinn fyrr en eftir einn til tvo áratugi.

Nei - Evrópa hefur því miður enga raunverulega möguleika til að auka olíu- eða gasframleiðslu sína á næstu árum. Bandaríkin eru sömuleiðis með hnignandi olíuframleiðslu. Síðast þegar djúp kreppa reið yfir þessa tvo gömlu vini – um og upp úr 1980 – stóðu þeir vel að vígi með gas- og olíulindir. Svo er ekki í dag. Í því liggur munurinn. Og þess vegna mun lágt olíuverð þessa dagana ekki stöðva uppbyggingu nýrra orkulinda.

Varla eru meira en 3-4 ár síðan flestir í olíubransanum litu á 30 dollara pr. tunnu sem eðlilegt meðalverð á olíu. Þetta var upphæð sem Norðursjávar-fyrirtækin voru sátt við, þetta var upphæð sem fékk Sádana til að brosa og þetta var upphæð sem hentaði bandarísku olíufyrirtækjunum prýðilega.

Cartoon_economy_jaws

Í dag er viðhorfið gjörbreytt. Menn voru of værukærir. Áttuðu sig ekki á því að heimurinn breytist stundum hratt. Kostnaður við að viðhalda olíuframboði hefur reynst miklu meiri en menn spáðu fyrir örfáum árum. Og auðvitað sáu fæstir fyrir, hvernig stór hluti fjármagnsins í veröldinni var blekking ein og auðveldur aðgangur að lánsfé ekki kominn til að vera. Menn voru sem sagt full fljótir að gleyma því að flestar stærstu olíulindir heimsins fara hnignandi - og til að finna nýjar lindir þarf góðan tíma og rúman aðgang að viljugu fjármagni.

Það verður ekkert vandamál tæknilega séð að skaffa heiminum olíu næstu áratugina. En það veður mun dýrara en við höfum þekkt til þessa. Þess vegna talar enginn lengur um 30 dollara sem ásættanlegt verð fyrir olíu. Ekki einu sinni 40 eða 50 dollara. Í dag þurfa flestir þeir sem vinna olíu að fá hátt í 70 dollara fyrir tunnuna. Annars verða þeir að láta nægja að tappa hressilega af þeim lindum sem þeir hafa nú þegar. Og geta ekki leyft sér að ráðast í þá olíuleit og -vinnslu, sem er bæði eðlileg og ekki síður nauðsynleg til að mæta eftirspurn í framtíðinni.

Energy_Earth_Opportunities

Þannig er olíuiðnaðurinn núna í eins konar spennitreyju. Sem gæti valdið mikilli stíflu í bransanum. Með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. En þetta óvissuástand skapar ekki síður afar spennandi tækifæri. M.a. í endurnýjanlegri orku. Nú er bara að íhuga hvar bestu tækifærin liggja...


Ódýrasta rafmagnið

Kannski er framtíðin kolsvört. En fátt þykir Orkublogginu skemmtilegra svona rétt undir svefninn, en að reikna stærðir eins og NPV og ROI í orkugeiranum. Ekki síst þegar um er að ræða kostnað við rafmagnsframleiðslu frá hinum mismunandi orkugjöfum. Í kvöld ætlar bloggið að henda fram nokkrum tölum um það hvað raforkuframleiðsla frá mismunandi orkugjöfum kostar.

Energy_investment_return

Gas eða vindorka? Líklega myndu flestir frekar vilja vindorkuna. Því hún er óþrjótandi og mengar ekki. Og veldur ekki kolefnislosun.

En samt velja flestir frekar gasið. Einfaldlega af því vindorka er talsvert dýrari í framleiðslu en raforka frá gasi. Þó svo hagkvæmni hafi aukist gríðarlega í orkuframleiðslu vindtúrbína síðustu árin, er rafmagn frá vindorkuverum ennþá oft 40-60% dýrara en að framleiða rafmagn með gasi. Þess vegna er vindorkuiðnaðurinn ennþá háður styrkjum, kvótum eða skattaívilnunum af einhverju tagi. Í framtíðinni lítur þó út fyrir að kolefnisskattar muni gera vindorkuna fyllilega samkeppnishæfa við rafmagnsframleiðslu með gasi eða kolum. Um leið og gasverðið hækkar aftur, munu fyrirtæki eins og Vestas og Siemens Wind því væntanlega blómstra á ný.

Desert_sailing

Kannski er til lítils að liggja uppí bóli á síðkvöldum og bera saman hvað rafmagnsframleiðsla kostar frá mismunandi orkugjöfum. Svona álíka og ætla að sigla seglskipi um sandhóla Saudi Arabíu í svartamyrkri. Óvissuþættirnir eru það margir að niðurstaðan hlýtur ætíð að enda í strandi - eða a.m.k. verða mjög gróf nálgun. T.d. er kostnaður við framleiðslu rafmagns frá sólarorku bersýnileg miklu meiri á Norðurslóðum en t.d. í S-Evrópu. Einfaldlega vegna minni sólgeislunar.

Svona samanburður getur jafnvel verið villandi. Er t.d. eðlilegt að sleppa því að reikna kostnað vegna umhverfisspjalla eða heilsutjóns, þegar verið er að bera saman brúnkolaorkuver annars vegar og vindorkuver hins vegar? Og hver væri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar ef Landsvirkjun hefði þurft að greiða fyrir öll vatnsréttindin?

Almennur samanburður á kostnaði mismunandi orkugjafa verður seint mjög nákvæmur. Til þess eru aðstæður of mismunandi frá einum stað til annars. Hvað um það. Vonandi gefa þessar línur hér að neðan sæmilega raunhæfa mynd af því hvað rafmagnsframleiðsla frá mismunandi orkugjöfum kostar hlutfallslega úti í hinum stóra heimi.

Hafa ber í huga að stærð einstakra virkjana, líftími og breytingar á vaxtaprósentu (fjármagnskostnaði) hefur að sjálfsögðu allt mikil áhrif á niðurstöðuna. Auk fjölmargra annarra atriða. Þess vegna eru niðurstöður í svona samanburði síbreytilegar og ber að taka þeim með miklum fyrirvara.

Coal_Poewer_plant

Kol: Rafmagnið er víðast hvar ódýrast ef það er framleitt í kolaorkuverum. Til að einfalda samanburðinn ætlar Orkubloggið að gefa meðaltalskostnaði raforku frá kolum, gildið 1.

Þá er vel að merkja um að ræða ódýrustu kolaorkuna - og þá sóðalegustu. Og hér er einungis tekið tillit til þess hvað kostar að byggja og starfrækja slíkt kolaorkuver. Hugsanlegt heilsutjón eða umhverfistjón vegna útblásturs frá verinu er látið liggja milli hluta og ekki metið sem beinn kostnaðarþáttur.

Kol eru af mismunandi gæðum og oft myndi kolaorkuver fá gildi nær 1,5, heldur en 1. Um kol almennt mætti því tilgreina gildið 1-1,5

"Hrein"kolaorkuver þar sem nær engum gróðurhúsalofttegundunum er sleppt útí andrúmsloftið, eru umtalsvert dýrari en hefðbundin kolaver. Við getum með góðri samvisku gefið slíku "hreinu" veri gildið 2 eða jafnvel örlítið hærra. Segjum 2-2,5. Sem sagt þá er hreina kolaorkan oft u.þ.b. helmingi dýrara rafmagn en það ódýrasta í bransanum. En það er spáð hröðum tækniframförum í þessum s.k. hreina kolaiðnaði, sem gæti aukið kolanotkunina mikið. T.d. er danska ríkisorkufyrirtækið Dong Energi á fullu að byggja ný kolaorkuver víða um Evrópu - ver sem losa mjög lítið af s.k. gróðurhúsalofttegundum.

Gas_plant_Scotland

Gas: Hinn ljúfi orkugjafi gasið fær gildið 1,5. Rafmagnsframleiðsla gasorkuvera og kolaorkuvera er m.ö.o. oft í svipuðum verðflokki. Þó ber að hafa í huga, að til eru nokkrar mismunandi aðferðir við nýtingu á gasi til rafmagnsframleiðslu. Sem eru mishreinar og misdýrar. Ef við ætlum að hafa gasorkuverið okkar sérlega umhverfisvænt og takmarka mjög kolefnislosunina, fengi verið okkar gildið 2-2.5. Almennt má segja að gasorkuver séu hagkvæmur raforkuframleiðandi, sem eigi bjarta framtíð víða um heim.

Kjarnorkan hefur mátt þola miklar verðsveiflur. En þetta er ekki dýr orka. Líklega er ekki fjarri lagi að gefa kjarnorkunni svipað gildi og gasið fær; 1,5. Óvissumörkin eru þó veruleg og hugsanlega er þetta full lágt. Hér verða einstök gildi látin hlaupa á hálfum. Orkubloggið er á því að flest hagkvæmustu kjarnorkuverin standi nálægt gildinu 1,5, en að einnig séu mörg kjarnaver í kringum gildið 2.

nuclear_wind

Það er vissulega auðvelt að réttlæta mun hærra gildi fyrir kjarnorkuna, þ.e. að hún sé ennþá dýrari. Ef allur kostnaður vegna förgunar og geymslu kjarnorku-úrgangs er talinn með. Á móti kemur, að í dag er kjarnorkan allt í einu eiginlega orðin semi-græn! Sökum þess að frá henni stafar nánast engin kolefnislosun. Þannig hefur gróðurhúsaumræðan, sem skyndilega er að kaffæra heiminn, veitt kjarnorkunni uppreist æru. Eftir sem áður er kjarnorkuúrgangurinn samt fyrir hendi. Með tilheyrandi geislavirkni og hættunni á að hann komist í hendur óvandaðra manna.

Vert er líka að hafa í huga, að stofnkostnaður kjarnorkuvera er hreint gríðarlegur (þ.e. fasti kostnaðurinn). Það eitt gerir fjárfestingu í kjarnorku mjög frábrugðna bæði gasi og kolum, þar sem mun stærra hlutfall kostnaðarins er breytilegur kostnaður.

Olía: Olíuna notum við mest í samgöngum, svo hún fær ekkert gildi hér í umfjöllun Orkubloggsins um kostnað við rafmagnsframleiðslu. Olían er til annars brúks! En vissulega er til í dæminu að olía sé notuð til að framleiða rafmagn.

Þá er næst að vinda sér í "grænu" orkuna. Sól, vatn og vind - ásamt jarðhita auðvitað. Og líklega megum við hvorki skilja sjávarorku né lífmassa útundan.

algae-oil-farm

Lífmassi: Orkubloggið er reyndar lítt hrifið af notkun lífmassa til rafmagnsframleiðslu. Það er kannski ekki alveg sanngjarnt. T.d. er réttlætanlegt að nota sorp sem orkugjafa - það er praktísk endurvinnsla sem víða fær gildið 2.

Bloggið er aftur á móti tortryggið á að nota ræktunarland til að framleiða lífmassa til raforkuvera eða sem eldsneyti í stað bensíns. Samt á lífmassi hugsanlega eftir að verða meiriháttar eldsneyti. Það er nefnilega mögulegt að rækta lífmassa til orkuframleiðslu, án þess að það bitni á fæðuframboði. Þá er bloggið að vísa til s.k. þriðju kynslóðar lífefnaeldsneytis, sem felst einkum í því að vinna fljótandi eldsneyti úr þörungum. Framtíðin verður að leiða í ljós hvort þetta er raunhæfur möguleiki.

wave_finavera-buoys

Orka sjávar: Bæði virkjun sjávarfalla og ölduorka er líka þvílík framtíðarmúsík, að ég barrrasta nenni varla að eyða orðum í kostnaðinn þar. Þó svo t.d. litlar sjávarfallavirkjanir hafi verið nokkuð lengi við líði, hér og þar um heiminn.

Jæja; sjávarföllin fá gildið 6+ og öldurokan talsvert hærra gildi. Minni á, að grunnviðmiðunin er rafmagnsframleiðsla frá kolum. Sem lægst fær gildið 1. Rafmagn frá sjávarfallavirkjun er sem sagt a.m.k. sex sinnum dýrara í framleiðslu en rafmagn frá kolaorkuveri og frá ölduorkuveri er rafmagnið a.m.k. sjö sinnum dýrara. Og oftast ennþá kostnaðarsamara.

Kostnaðargildi "sjávarrafmagnsins" kunna reyndar að lækka umtalsvert á næstu árum. Nú er víða verið að gera margvíslegar tilraunir með rafmagnsframleiðslu af þessu tagi.  Orkubloggið sagði einmitt frá nokkrum þeirra í sumar sem leið. Og þar ræður hugmyndaflugið svo sannarlega ríkjum. Það væri auðvitað tær snilld ef tækist með hagkvæmum hættu að virkja orku sjávar. En það er ennþá langt i land með að þetta verði umtalsverð rafmagnsframleiðsla og kostnaðurinn er enn hrikalegur.

WindFarmChina

Vatnsorka og vindorka: Bæði vatnsorkan og vindorkan fá meðalgildi sem dansar í kringum 2. Almennt nokkuð dýrari raforka en frá gasinu, en samt mjög hagkvæm orkuframleiðsla og er alvöru bissness. Í sumum tilvikum er verðið á vatnsorkunni meira að segja alveg sambærilegt við gas og kol og nálgast þá gildið 1,5 eða jafnvel lægra.

Og allt stefnir í að vindtúrbínur á hagstæðustu svæðunum geti gefið svipað gildi. Almennt er þó rafmagn frá stórum vatnsaflsvirkjunum talsvert ódýrara en vindorkan. Þannig að vatnsorkan gæti fengið kostnaðarstuðul rétt undir 2 meðan vindorkan fengi yfir 2. Svona til áhersluauka.

Wind_Snow

Ekki má gleymast að þó svo vindorkan sé snilld og hafi verið í gríðarlegri uppsveiflu síðustu árin, hefur hún nokkra ókosti. Hún er óstöðug og ekki eins áreiðanlegur orkugjafi eins og vatnsafl eða jarðefnaeldsneyti. Vindorka hentar best þar sem er stöðugur og nokkuð jafn vindur. Ef það verður mjög hvasst þarf að slökkva á vindtúrbínunum til að forða þeim frá skemmdum. Ísing getur safnast á spaðana á veturna svo þeir skemmast. Loks eru vindorkuver nokkuð landfrek. Og sumum þykja þau valda mikilli sjónmengun - skemma umhverfið. Þess vegna er áhugavert að koma vindorkuverum af landi og út í sjó.

Wind_China

Vindorka á sjó: Með uppsetningu vindtúrbína utan við ströndina fæst miklu áreiðanlegri rafmagnsframleiðsla, en hjá vindtúrbínum á landi. Þar er vindurinn stöðugri og ekki verið að fórna landsvæðum undir orkuverin.

Því miður eru vindtúrbínur útí sjó ennþá talsvert dýrar og má þar væntanlega miða við gildið 3 og jafnvel hærra. Til að vindorka verði alvöru kostur í framleiðslu rafmagns fyrir heimsbyggðina, þurfa vindtúrbínur í sjó að verða mun ódýrari en nú er. Það mun eflaust taka nokkuð mörg ár að ná því markmiði.

Svona rétt til að minna lesendur Orkubloggsins á tækifæri vindorkunnar, þá skal bent á að Kínverjar hafa lagt mikla áherslu á uppbyggingu vindorku. Fyrirtæki eins og t.d. Vestas og GE Wind hafa notið góðs af þeirri stefnu kínverskra stjórnvalda.

Ef góðar framfarir verða í sólarorkuiðnaðinum, gæti orðið erfitt fyrir vindorkuna að keppa við sólina. Menn sjá þó fyrir sér, að praktískt kunni að vera að "blanda saman" þessum tveimur orkulindum; sól og vindi. Bæði sólarorkuna og vindorkuna má nýta yfir daginn, en vindorkan kemur sérstaklega til góða á álagstímum og á þeim tíma sólarhringsins, sem sólar nýtur ekki (á kvöldin eftir sólsetur).

solar-energy_7071Sólarorkan er sú tegund rafmagnsframleiðslu sem Orkubloggið er hvað spenntast fyrir. Vegna þess hversu óþrjótandi sú orkulind er og býður upp á mjög stór orkuver. En því miður er þetta ennþá dýr raforka. Óþolandi dýr.

Sólarsellur: Rafmagnsframleiðsla með sólarorku skiptist í tvennt. Annars vegar eru sólarsellur (photovoltaics - PV) og hins vegar speglaver eða s.k. brennipunktatækni (CSP).

Sólarsellutæknin hefur verið fyrir hendi í áratugi, en lengst af þótt hroðalega dýr rafmagnsframleiðsla. Og hefur af þeim sökum helst verið notadrjúg á svæðum, sem ekki hafa aðgang að raforkudreifikerfi.

Verulegar framfarir hafa orðið síðustu árin í PV-tækninni. Með stórbættri orkunýtingu nýrra sólarsella, hefur þessi tækni orðið raunhæfur kostur fyrir rafmagnsframleiðslu í stórum stíl. Það eru t.d. risin mörg PV-raforkuver sem einfaldlega selja rafmagn inn á dreifikerfið. Og það lítur út fyrir að raforkan fyrir framtíðarborgina Masdar í Abu Dhabi muni að verulegu leyti koma frá PV-raforkuveri. Í janúar s.l. (2009) var tilkynnt um samning Masdar við First Solar um sólarsellur fyrir 10 MW raforkuver. Rafmagnið fyrir Masdar á líka að koma frá vindorkuverum, sem reist verða utan við borgina og einnig er talað um orkuframleiðslu frá jarðhita. Samgöngukerfi borgarinnar á aftur á móti að ganga fyrir vetni. 

masdar_interior

Orkubloggið er reyndar ekkert yfir sig hrifið af þessari kolefnishlutlausu hugmynd um Masdar City. Ætli raunin verði ekki sú, að borgin fái mestan hluta raforkunnar frá gasorkuverum? Og bloggið hefur efasemdir um þessa vetnisdrauma í samgönguiðnaðinum. En það er önnur saga.

PV á einfaldlega enn of langt í land, til að geta keppt í stórum stíl við rafmagnsframleiðslu frá gasi eða kolum. Þó svo orkunýting sólarsella hafi batnað stórkostlega á síðustu árum, getum við ekki leyft okkur að setja lægra gildi en 6 á PV. Sem sagt a.m.k. 6x dýrara rafmagn en frá kolum og a.m.k. 4x dýrara en frá gasi.

Þarna er þó um mikla óvissu að ræða. Orkunýting sólarsella virðist vera að aukast hratt þessa dagana. Spurningin er bara hvort unnt sé að treysta loforðum framleiðendanna, sem eru í gríðarlegum söluham eftir að hafa lagt út í hreint svakalegar fjárfestingar í þessum iðnaði síðustu árin.

PV_Europe

Þar að auki er að sjálfsögðu afar hæpið að setja einungis einn stuðul fyrir allar PV-sólarsellur. Því þær eru úr mismunandi og misdýru hráefni og hafa misjafna eiginleika. Þá er líka mishagkvæmt að nýta PV eftir því hversu sólgeislunin er sterk. Lesendur Orkubloggsins eru beðnir um að hafa í huga, að í vissum tilvikum kann framleiðslukostnaður vegna PV að fara undir 6, en stuðullinn í PV-iðnaðinum er þó oftast talsvert hærri en 6. Oft einhvers staðar á bilinu 5-10.

Sem sagt mjög mismunandi kostnaður og PV-iðnaðurinn allur ennþá háður kvótum, styrkjum eða niðurgreiðslum af einhverju tagi. Með bættri orkunýtingu sólarsella mun PV þó stefna að gildi sem verður nær t.d. vindorku og sífellt verða álitlegri kostur. Þessi iðnaður hefur gríðarlega vaxtarmöguleika, bæði vegna óþrjótandi orku frá blessaðri sólinni og ekki síður vegna þess að senn kunna sólarsellur að vera komnar bæði í klæðningu á byggingum og í glerrúðurnar. Þarna eru m.ö.o. mikil tækifæri, en líka óvíst hvernig til tekst.

Ef Orkubloggið ætti að nefna áhugaverðustu framtíðarfyrirtækin í sólarselluiðnaðinum, kemur Nanosolar fyrst upp í hugann. Og kannski líka Konarka, en bæði þessi fyrirtæki vinna að framleiðslu sólarsella með miklu meiri hagkvæmni en þekkst hefur til þessa. Reyndar eru til enn athyglisverðari fyrirtæki í PV-iðnaðinum, að mati bloggsins, en best að láta þau liggja milli hluta.

CSP_solartower_seville

CSP: Hin tegundin af sólar-rafmagni er brennipunktatæknin (Concentrated Solar Power).

CSP er óþroskaðri tækni en PV. En á móti kemur, að CSP-sólarorkuverin eru ekki jafn tæknilega flókin og búa yfir miklum hagkvæmnismöguleikum. Bæði geta þetta verið mjög stór raforkuver (nú með margra tuga MW framleiðslugetu og í framtíðinni margfalt stærri) og hafa einnig þann möguleika að geyma orkuna með því að hita upp saltlausn (eins og Orkubloggið hefur lýst í fyrri færslum). Sá geymslumáti gefur CSP mikla sérstöðu í "græna" orkuiðnaðinum.

Sterling_solar_dish

Náskyldur CSP-tækninni er s.k. Sterling-diskur. Í báðum tilvikum er sólargeislunum beint í brennipunkt. En Sterlingurinn er þannig gerður, að sólarhitinn knýr sérstaka gastúrbínu og framleiðir rafmagnið þannig "beint". Í stað þess að hita fyrst vökva eins og almennt er gert í CSP-tækninni, og láta gufuþrýstinginn frá vökvanum knýja túrbínu.

Orkubloggið ætlar að sleppa því að setja kostnaðarígildi á raforkuna frá Sterlingnum, enda verður hann líklega seint nýttur í stórtæka rafmagnsframleiðslu. Sniðugt apparat engu að síður.

CSP fær aftur á móti gildið 4. Sem er vissulega hálfgert bjartsýnisskot í myrkri. Einungis tvö einkarekin CSP-orkuver hafa tekið til starfa, enn sem komið er. Og fyrirtækin fara auðvitað með kostnaðarupplýsingarnar sem algert hernaðarleyndarmál. Sá eiginleiki CSP-orkuveranna að geta geymt hitann í saltlausn langt fram á kvöld, er eitt af þeim atriðum sem réttlæta bjartsýni Orkubloggsins gagnvart CSP. Og bloggið leyfir sér þar að auki að fullyrða, að innan áratugar verði CSP komið með gildið 2!

Öll sólarorkutæknin á það auðvitað sameiginlegt að byggja á langstærsta orkugjafa okkar; sólinni. Þess vegna er freistandi að binda miklar vonir við þessa tækni, hvort sem það er PV eða CSP.

CSP_flat_ausra2

Kostnaðurinn við CSP-orkuver virðist nokkuð stöðugur. En þó má gera ráð fyrir að kostnaðinn fari senn lækkandi. T.d. með notkun flatra spegla í stað íhvolfra. Þá rís þó vandamálið að flötu speglarnir nýta minna af sólarorkunni, heldur en íhvolfu speglarnir. Þannig að það er óvíst að flatir speglar séu lausnin í CSP-iðnaðinum.

Notkun annarra vökva en olíu í rörin sem flytja hitann, er önnur leið til að minnka kostnað í CSP-tækninni. Spænsku og þýsku sólarorkufyrirtækin eru á fullu að leita leiða til að finna nýja og hagkvæma vökva, en ennþá er ekki fundin betri lausn en olían. Mestu kostnaðarlækkanirnar munu þó líklega felast í nýjum efnum í rörin og samskeytin á þeim, en þau þurfa að þola gríðarlegan hita og miklar hitasveiflur.

solar-cells-thin-film_CdTeÞað er erfitt að spá um PV framtíðarinnar. Þó svo orkunýtingin hjá sólarsellunum verði sífellt betri, er hætt við að hráefnishækkanir muni hægja á bættri hagkvæmni þessarar tækni. T.d. gæti síaukin eftirspurn eftir sílikoni valdið vandræðum.

En þó er aldrei að vita. Sífellt eru að koma fram nýjar sólarsellur. Úr nýjum efnum, sem auka nýtingarmöguleika PV-orkunnar. Sumar þeirra eru örþunnar og það býður upp á margvísleg ný tækifæri til að nýta PV. Líklega verður bráðum unnt að setja sólarsellur í glerrúður. Það eitt gæti valdið byltingu í PV-iðnaðinum. Fyrir vikið er þetta afar spennandi tækni og verðlækkanir þar munu hafa mikil áhrif á þróun orkuiðnaðarins alls.

Þegar fólk rennur augum yfir þessar tölur hér að ofan, kann margan að undra jákvæð orð Orkubloggsins um PV. PV er jú með hátt gildi (6; eða öllu heldur 5-10) - þetta er mjög dýr raforka. 

En Orkubloggið trúir engu að síður á framtíð PV. Það skýrist m.a. af því að samþjöppun (sameiningar) í geiranum ætti að geta aukið hagkvæmnina umtalsvert. Sameiningarbylgja mun skila nokkrum afar öflugum sólarsellufyrirtækjum. Rétt eins og gerst hefur hjá fyrirtækjum sem smíða vindtúrbínur. Sá sem getur hitt á hvaða PV-fyrirtæki muni standa sterkari eftir tímabundinn hiksta í iðnaðinum, getur hugsanlega hagnast mikið með innkomu á markaðinn nú.

pv_production_world_1980-2007Og ýmislegt bendir til bæði aukinnar orkunýtingar nýrra sólarsella og margvíslegra nýrra nýtingarmöguleika. Ekki síst er s.k. Thin-Film tækni mjög athyglisverð. Sem bloggið hefur stuttlega minnst á í eldri færslum, ef ég man rétt.

Veröldin er samt ekki svart-hvít. Það er t.d. líklegt að síðustu árin hafi orðið offjárfesting í sólarselluiðnaðinum. Með þeim afleiðingum að offramboð verði á sólarsellum næstu árin. Það mun þýða tímabundna versnandi afkomu hjá PV-fyrirtækjum.

Það er þó möguleiki að sum PV-fyrirtækin séu nú jafnvel búin að taka út mestu lækkanirnar. Embættistaka Obama kann nefnilega að snúa lækkunum á þeim við. T.d. hefur First Solar hækkað um 50% frá því í nóvember! Orkubloggið hefur einmitt dásamað Thin-Film tæknina hjá First Solar.

Geoplant

Jarðhiti: En hvað með draum Geysis Green Energy og gamla Glitnis? Sem boðuðu heiminum dýrð jarðvarmans. Ef litið er til útreikninga Alþjóða orkustofnunarinnar (IEA) er framleiðslukostnaðar rafmagns frá jarðvarma á háhitasvæðum oft svipaður og í vindorkunni. Stuðull jarðvarmans á háhitasvæðum er m.ö.o. nálægt 2. Og getur í vissum tilvikum jafnast á við hagkvæmni gasorkuvera, þ.e. nálgast stuðulinn 1,5.

Á lághitasvæðum er beitt annarri tækni en á háhitasvæðunum. Eins og Íslendingar vita auðvitað manna best. Sú tækni býður upp á tækifæri til að virkja jarðhita mjög víða. Spurningin er bara hvað menn vilja kosta miklu til. Í löndum eins og Þýskalandi, sem nú leggja mjög mikla áherslu á endurnýjanlega orku, má gera ráð fyrir að jarðvarmi sé raunhæfur þótt hann fari upp í kostnaðargildið 3.

GeoThermalItaly

Jarðhitavirkjanir eiga langa sögu, en einnig þar er framþróun og sífellt að koma fram nýir möguleikar. Þetta á ekki síst við um lághitann og kannski sjáum við bráðum lægra og hagstæðara gildi þar. Svo er æsispennandi að fylgjast með djúpborunum. Kannski nær að tala um hvenær slíkar boranir munu skila meiriháttar árangri, heldur en hvort?

Miðað við vind- og sólarorku-umræðuna sem nú tröllríður Bandaríkjunum, er óneitanlega svolítið athyglisvert að jarðhitageirinn þar vestra er þrátt fyrir allt mun stærri en PV-iðnaðurinn. Og jarðhitinn er vel hálfdrættingur á við bandaríska vindorku-iðnaðinn. En af einhverjum ástæðum er jarðhiti ekki beint í tísku í orkuumræðunni þar vestra. Því miður. Jarðhitinn á skilið miklu meiri athygli. Og íslenskir jarðfræðingar eiga allir skilið að verða milljónamæringar. Jarðvarminn þarf að fá jafn öfluga lobbýista á Bandaríkjaþingi eins og sólarorkan og vindorkan hafa.

Rafmagnsverd_Askja_2009

Niðurstaða:  Það er sem sagt svo, að kol og gas eru yfirleitt ódýrasti kosturinn til rafmagnsframleiðslu. Ef litið er til umhverfisþátta hefur gasið yfirhöndina; er mun þrifalegra en hefðbundin kolaorka og er talsvert ódýrara en clean-coal tæknin. En ef litið er algerlega fram hjá kolefnislosun og mengun, eru kolin ódýrust.

Í kjölfar kola og gass koma jarðvarmi, vatnsafl og vindorka, ásamt "hreinum" kolum. Sólarorkan er nokkuð dýrari og enn hefur ekki tekist að virkja sjávaraflið að marki.

Yfirburðir jarðefnaeldsneytisins m.t.t. kostnaðar hafa einfaldar afleiðingar. Um 70% rafmagnsframleiðslu í Bandaríkjunum kemur frá jarðefnaeldsneyti (um 50% frá kolum og um 20% frá gasi). Í Bretlandi er þetta hlutfall ennþá hærra; tæp 75% og skiptist sú rafmagnsframleiðsla nokkuð jafnt á milli gassins og kolaorkuveranna.

US_Fossil Fuels - Electric Energy Consumption

Þetta hljómar auðvitað fáránlega í huga Íslendinga, sem framleiða nánast allt sitt rafmagn með vatnsafli og jarðgufu. En þar erum við gjörólík flestum öðrum þjóðum.

Bæði vatnsaflið og jarðvarminn hafa auðvitað fyrir löngu sannað sig víða um heim, sem hagkvæmur og góður kostur til rafmagnsframleiðslu. Margar vatnsaflsvirkjanir framleiða rafmagn með svipuðum tilkostnaði og gasorkuverin gera. Þess vegna er vatnsaflið ennþá með yfirburði í endurnýjanlega orkugeiranum. Vandinn er bara sá að stór hluti þess vatnsafls sem unnt er að virkja án mjög neikvæðra umhverfisáhrifa, hefur þegar verið virkjað. Til að auka hlut endurnýjanlegrar raforku, þarf því að leita annað.

Vindorkan er raunhæfur möguleiki til að stórauka framleiðslu á endurnýjanlegri raforku. Og vegna örra tækniframfara er sólarorkan afar áhugaverð. Þar eru vaxtartækifærin líklega langmest.

Wind_US_Tax_Credits

En bæði sólarorkan og stór hluti vindorkunnar þarf styrki, skattaívilnanir eða framlög af öðru tagi til að geta keppt við rafmagn frá jarðefnaeldsneyti. Um leið og slíkar ívilnanir eru skertar, hrynur fjárfestingaáhuginn í þessum góða iðnaði.

Þannig hafa t.d. miklar sveiflur í bandaríska styrkjakerfinu, gert bæði vindorkunni og sólarorkunni erfitt fyrir þar í landi. Og leitt til þess að fyrirtæki í þessum bransa hafa litið á Evrópu sem áhættuminni markað. Bush og repúblíkönum á Bandaríkjaþingi tókst að tefja uppbygginguna í endurnýjanlegri orku þar í landi um mörg ár. En nú má vænta betri tíðar með blómum í haga vestur í Bandaríkjunum. 

PV_panels

Stórar vatnsaflsvirkjanir og jarðhitaorka frá háhitasvæðum er sú rafmagnsframleiðsla sem oftast getur keppt við jarðefnaeldsneytið án sérstakra styrkja. Að þessu leyti standa vatnsorka og gufuafl betur að vígi en sól og vindur. En á móti kemur að sól og vindur eru í tísku og kostnaðurinn þar hefur farið hratt lækkandi.

Allt er þetta þó háð alls konar fyrirvörum og óvissuþáttum. Kostnaðurinn innan hverrar einustu tegundar af rafmagnsframleiðslu er talsvert mismunandi frá einum stað til annars. Þannig að í reynd er aldrei hægt að gefa hverri tegund eitt ákveðið gildi. 

Þess vegna er auðvelt að finna greiningar, sem sýna aðra og ólíka mynd en þá sem Orkubloggið setur hér fram. Lesendur bloggsins eru m.ö.o. beðnir um að muna, að óvissumörkin eru mikil. Og ekki síður að minnast þess, að orkumarkaðurinn er háður gríðarlegum sveiflum. Þannig hefur t.d. gasverð lækkað um nærri 70% á innan við ári!

Loks ber að taka fram að þessi framsetning bloggsins er nánast alfarið byggð á upplýsingum frá vestrænum löndum, þ.e. frá Evrópu, N-Ameríku og Ástralíu. Auk upplýsinga frá Kína, sem þó eru ekki mjög áreiðanlegar. Það er sem sagt ekkert skoðað hvað kostnaðurinn er t.d.í Asíu almennt, né í S-Ameríku eða Afríku.

WorldCrudeOilGDP

Í reynd er það olían sem öllu stýrir. Gasvinnsla er svo nátengd olíuframleiðslu að olíuverðið hefur bein áhrif á gasverð. Og um leið og olía- og gas lækkar í verði byrja hinir hlutar raforkugeirans að finna til og jafnvel þjást. Af því þá vilja færri kaupa dýru "grænu" raforkuna - þrátt fyrir kvóta, kolefnisskuldbindingar, skattaívilnanir eða hvað það nú allt heitir.

Ef Sádarnir fá þá dillu í höfuðið að ganga af endurnýjanlegri orku dauðri, þurfa þeir einungis að auka framleiðsluna hjá sér smávegis. Þá steinfellur olíuverðið og enginn vil sjá endurnýjanlegu orkuna. Á móti kemur að Sádarnir hafa bætt svo hressilega í við ríkisútgjöldin síðust árin, að þeir eiga líklega sjálfir ekki lengur efni á slíkum leikfléttum til lengri tíma litið. Eins gott.

wind_turbines_timer

Rafmagnsmarkaðnum er stýrt af ríkinu í vel flestum löndum. Það er því í raun pólitísk ákvörðun hvaða raforkugjafi er ódýrastur og hagkvæmastur. Það ræðst af þeim markmiðum sem orkustefna stjórnvalda hefur. Þess vegna skiptir raunkostnaður að baki einstökum orkugjöfum ekki öllu máli. Það sem fjárfestar horfa til er heildarpakkinn; kostnaðurinn ásamt allri tekjuflækjunni, skattkerfinu, kolefniskvótunum o.s.frv.

Um síðustu áramót tóku t.d. ný lög gildi í Þýskalandi, sem kveða á um að allar nýjar byggingar þar í landi skuli nota tiltekið lágmarkshlutfall af endurnýjanlegri orku. Sem gæti t.d. þýtt mikla uppsveiflu í byggingu lághita jarðvarmavirkjana í Þýskalandi. Jarðboranir og fleiri fyrirtæki innan Geysis Green ættu að njóta góðs af þeirri löggjöf.

Og beinar niðurgreiðslur eru helsta ástæðan að baki byggingu CSP-orkuvera á Spáni þessa dagana. Þannig er uppbygging endurnýjanlegrar orku víðast hvar gjörsamlega háð pólitíkusunum.

Energy_independence_Jay_Hakes

Flest stærstu iðnríki heims leggja nú mikla áherslu á minni mengun og minni losun kolefnis. Og aukið orkusjálfstæði! Einmitt þess vegna á endurnýjanlegi orkugeirinn bjarta framtíð fyrir sér. Jafnvel þó svo þetta sé almennt ennþá talsvert dýrari raforka í framleiðslu, en sú sem hægt er að fá frá kolum og gasi.

Líklega verður árið 2009 samt frekar erfitt fyrir endurnýjanlega orku. En til framtíðar er þetta heimur tækifæranna.


Drekaskatturinn og Gullni þríhyrningurinn

Tilefni þessarar færslu er frétt sem ég heyrði nú undir kvöld í útvarpinu. Um verulegan áhuga erlendra olíufyrirtækja á Drekasvæðinu. Nú bíðum við nefnilega öll spennt eftir því, hversu mikill áhugi verður meðal olíufyrirtækjanna að ráðast í olíuleit á Drekasvæðinu.

Dreki_sildarsmuga

Sem kunnugt er hófst olíuleitarútboðið - the first licensing round on the ICS, eins og það er kallað í útlöndum – þann 22. janúar s.l. Og áhugasöm fyrirtæki eiga að gefa sig fram ekki síðar en kl. 4 síðdegis þann 15. maí n.k.

Miðað við spár íslensk/ norska fyrirtækisins Sagex Petroleum um gríðarlegt olíumagn á svæðinu, ætti Orkubloggið að leyfa sér bjartsýni. En reyndar er bloggið á því, að Drekasvæðið sé bæði erfitt, dýrt og áhættusamt. M.a. vegna mikils dýpis og basaltsins, sem gæti gert olíudrauminn að martröð.

Svo hefur olíuverð lækkað mikið undanfarið. Verðið núna er langt fyrir neðan það sem þarf til að vinnsla á svo miklu dýpi geti skilað hagnaði. Á móti kemur, að til framtíðar búast flestir við verulegum hækkunum á olíuverði. Þess vegna er mikilvægt fyrir olíufyrirtækin að finna nýjar lindir, til að geta makað krókinn þegar verðið hækkar. Lágt olíuverð núna er m.ö.o. ekki afgerandi þegar fyrirtæki velta Drekasvæðinu fyrir sér.

oil-rig-dollars

Um það leyti sem Drekaolían ímyndaða kemst á markaðinn - kannski eftir svona 10-15 ár - er líklegt að olíuverð verði langt umfram vinnslukostnað. Svæðið gæti skilað miklum hagnaði, ef þar finnst mikið af olíu og/eða gasi.

Engu að síður er hætt við að áhugi olíufyrirtækja á Drekasvæðinu kunni að vera lítill nú um stundir. Kannski aðallega sökum þess að fyrirtækin eiga í veseni með að fjármagna ný og áhættusöm verkefni. Fjármálageirinn er ekki beint í langtímagírnum þessa dagana.

Þar að auki hafa útlendir menn úr olíubransanum bent Orkublogginu á að skattareglurnar, sem samþykktar voru á Alþingi skömmu fyrir jól, séu verulega íþyngjandi fyrir olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Lögin leggi t.a.m. gjald á vinnsluna án tillits til þess hvort hún skilar hagnaði eða tapi - og reglurnar séu þar að auki óþarflega flóknar. Þessar reglur muni draga úr áhuga á Drekasvæðinu.

FPSO_diagram

Synd ef satt er. Óneitanlega varð Orkubloggið nokkuð undrandi á að heyra þetta sjónarmið. Þegar skattareglurnar eru skoðaðar (sjá lög nr. 170/2008 um skattlagningu kolvetnisvinnslu) virðast þær í fljótu bragði ekki ósanngjarnar. A.m.k. ekkert yfirgengilega verri en t.d. norsku reglurnar. En kannski má segja að íslensku reglurnar séu öllu flóknari en þær norsku.

Þarna spila saman annars vegar vinnslugjald og hins vegar hár olíutekjuskattur. Ekki reynir á olíuskattinn fyrr en hagnaður af vinnslunni er orðinn a.m.k. 20% m.v. skattskyldar rekstrartekjur ársins (í lögunum kallað hagnaðarhlutfall). Fram að þeim tíma leggst vinnslugjald á - og það án tillits til þess hvort vinnslan skilar hagnaði eða tapi. Kannski rétt að útskýra þetta aðeins nánar:

Oil_platform_Gas_flare

Vinnslugjaldið er eins konar gjald fyrir að fá að stunda olíuvinnslu á íslenska landgrunninu. Vinnslugjaldið er tiltekið hlutfall af olíuverði af allri framleiðslu umfram 10 milljón tunnur. Það leggst á alla olíu sem unnin er, umfram þessar 10 milljón tunnur, allt þar til hagnaður fyrirtækisins hefur náð 20% markinu, sem fyrr segir. Þá tekur olíuskatturinn við.

Það er sem sagt ekkert vinnslugjald greitt af fyrstu 10 milljón tunnunum. Fari framleiðslan lítið yfir 10 milljón tunnur yfir árið er vinnslugjaldið sáralítið, en fer svo sighækkandi með aukinni framleiðslu. Nær t.d. 95% fari vinnslan í 200 milljón tunnur yfir árið!

Orkubloggið veltir fyrir sér hvort þetta vinnslugjald sé sanngjarnt. Hugsunin að baki vinnslugjaldinu er sögð vera sú, að gjaldið sé hvatning fyrir fyrirtækin að skila hagnaði. Kannski spurning að taka þetta kerfi upp í atvinnurekstri yfirleitt? T.d. í sjávarútveginum. Tíkall pr. fisk! Þangað til útgerðin fer að græða þokkalega. Hvernig ætli kvótaeigendum myndi lítast á það?

OIL_PLATFORM_SEMI_SUB

Það virðist sem sagt svo, að íslensk stjórnvöld treysti ekki olíufyrirtækjunum til að vilja skila hagnaði. Það þurfi svipu á þau til að þau nenni að hagnast. Svolítið sérkennilegt sjónarmið. En kannski er þetta vinnslugjald barrrasta sanngjarnt. Í stað þess að láta einfaldan olíutekjuskatt nægja.

En til að menn hafi áhuga á Drekanum þarf svæðið að vera skattalega aðlaðandi. Svo einfalt er það. Það á eftir að koma í ljós hvort olíufyrirtækin telji það áhættunnar virði að setja pening í rannsóknir og leit á Drekasvæðinu - þessu nánast ókannaða og óvissa svæði. Eða hvort þau vilji frekar setja þá aura í önnur svæði með minni eða álíka áhættu – þar sem vinnslan er gjaldfrjáls þar til hún skilar hagnaði.

Orkubloggið er á því að setja megi spurningamerki við vinnslugjaldið á Drekasvæðinu. Hugsanlega er ekkert sérstaklega spennandi fyrir olíufyrirtæki í núverandi árferði, að leggja útí mikinn kostnað við olíuleit á nýju og lítt þekktu svæði. Og þurfa svo strax að fara að greiða vinnslugjald - nánast um leið og olía finnst. Og það jafnvel þó svo vinnslan verði rekin með tapi.

Svona vinnslugjald án tillits til hagnaðar er til þess fallið að kæfa fjárfestingaáhuga. Það er alþekkt í bransanum að olíufyrirtækjunum er alveg meinilla við gjald af þessu tagi.

ThunderHorse_damaged

Í versta falli gæti þetta orðið til þess að útboð á leitarleyfum vegna Drekasvæðisins floppi. Allt út af nánast kjánalega háu vinnslugjaldi, sem lagt er á olíuvinnslu þó svo hún verði rekin með tapi.

Fyrstu 10 milljón tunnurnar (m.v. ársvinnslu) eru reyndar "ókeypis", eins og áður var nefnt. Ekkert vinnslugjald vegna þeirra. Það magn - 10 milljón tunnur - jafngildir vinnslu upp á um 27 þúsund tunnur á dag ef þeim er dreif á heilt ár. Til samanburðar mætti nefna að Perdido-pallurinn í Mexíkóflóanum, sem Orkubloggið hefur áður sagt frá, mun framleiða um 130 þúsund tunnur á dag. M.ö.o. þá er þessi dúsa upp á gjaldfríar 10 milljón tunnur, eitthvað sem hætt er við að skipti litlu máli í djúpvinnslunni og sé ekki ekki nóg til að gera Drekasvæðið sexí.

Auditor_at_work

Sjálfur olíutekjuskatturinn, sem kemur til þegar vinnslan er farin að skila a.m.k. 20% hagnaði miðað við heildartekjur ársins, er stighækkandi. Við 20% hagnaðarhlutfall er olíuskatturinn 5,5% - og að auki þurfa fyrirtækin að greiða hefðbundinn tekjuskatt fyrirtækja.

Vegna þess hversu gríðarlega dýr djúpvinnsla er, er kannski hæpið að hagnaðarhlutfall fyrirtækja á Drekasvæðinu fari nokkru sinni mikið hærra en sem nemur 20-30%. En ef það gerist fer olíuskatturinn hækkandi eftir því sem hagnaðarhlutfallið eykst. Verði hagnaðarhlutfallið 50% er olíuskatturinn 22% og ef hagnaðarhlutfallið fer i 70% verður olíuskatturinn 33%. Sem fyrr er olíuskatturinn viðbót við almennan tekjuskatt - sá hefðbundni tekjuskattur leggst ætíð á hagnað fyrirtækjanna.

thunder-horse-transport

Fyrirtæki í olíuvinnslu á Drekasvæðinu, sem er með 19% hagnaðarhlutfall, greiðir því bæði vinnslugjald og almennan tekjuskatt, en ekki sérstakan olíutekjuskatt. Um leið og hagnaðarhlutfallið er orðið 20% byrjar olíuskatturinn að bætast við - en þá fellur aftur á móti vinnslugjaldið brott. Olíuskatturinn leysir þá m.ö.o. vinnslugjaldið af hólmi.

Orkubloggið hefur ekki gefið sér tíma hér í kvöld til að reikna og bera saman hvernig það kæmi út fyrir olíuvinnslu á Drekasvæðinu, að vera með t.d. 15% hagnaðarhlutfall eða 25% hagnaðarhlutfall. Þ.e. sitt hvoru megin við 20% markið. Enda er slíkur samanburður nánast ómögulegur - af því vinnslugjaldið miðast við unnið magn og olíuverð á hverjum tíma. Fyrir vikið er líka nánast ógjörningur fyrir olíufyrirtækin að meta hvað skattareglurnar gætu haft í för með sér fyrir rekstur þeirra. En það á svo sem alltaf við um olíuvinnslu - því enginn veit hvert olíuverðið verður í framtíðinni.

Kannski er hárrétt að skattalegt óbragð sé af Drekasvæðinu. Kannski... kannski ekki. Orkubloggið ætlar ekki að kveða upp úr með það.

Atlantis_Semi_Sub

En íslensk stjórnvöld verða að sýna smá raunsæi - ef þau vilja í alvöru trekkja bestu og öflugustu olíufyrirtæki heims að Drekanum. Vísbendingar eru um að slíkt raunsæi hafi ekki verið fyrir hendi, þegar skattareglurnar voru samdar.

Það mun líklega seint finnast olía á Drekanum ef hvorki Chevron, Shell eða BP skjóta hér upp kollinum. Það væri a.m.k. mikil heppni - það eru ekki mörg önnur félög sem ráða við slíkt þolinmæðisverk sem djúpvinnslan er. Orkubloggið veit t.d. að snillingarnir hjá Anadarko Petroleum, sem eru framarlega í djúpi Mexíkóflóans, eru ekki að spá í Drekann. Það á við um fleiri félög - og þau bera fyrst og fremst við efnahagsástandinu og lánaþurrðinni. Hafa ekki einu sinni skoðað útboðs-skilmálana. En norska Statoil hlýtur þó að slá til, for fanden.

Stjórnvöld unnu Drekaáætlunina á þeim tíma þegar olíuverðið æddi upp. Af gögnum iðnaðarráðuneytisins má þó ráða, að þar á bæ hafi menn ekki látið glepjast af spám um hækkandi olíuverð til eilífðarnóns. Í ráðuneytinu virðist fólk hafa unnið sína vinnu af skynsemi og vandvirkni. En kannski verið helst til bjartsýnt - enda var kreppa þá ekki í spilunum

Deepwater_offshore_Oil

Fyrir vikið er etv. eðlilegt að menn hafi haldið að öll helstu olíufélög heimsins kæmu æðandi um leið og fréttist af opnun Drekans. Þrátt fyrir þrönga útboðsskilmála. En svo steinféll verðið. Og einhver mesta kreppa nútímans skall á. Íslands óhamingju verður allt að vopni.

Djúpvinnslan er helsta vonin til að viðhalda og auka olíuframleiðslu í heiminum. En munum það að Drekasvæðið er ekki eina olíusvæði heimsins. Menn hafa úr mörgum öðrum kostum að velja, þegar þeir meta hvar þeir vilja ráðast í óhemju fjárfestingar i olíuleit.

Drekasvæðið er t.d. í samkeppni við megasvæði eins og landgrunn Angóla og hið dásamlega landgrunnsdýpi Sambaríkisins Brasilíu. Og nýju olíusvæðin djúpt útí Mexíkóflóanum.

Deepwater_Triangle

Þessi þrju djúpsvæði eru stundum nefnd hinn gullni djúpolíu-þríhyrningur (sbr. gula, fjólubláa og ljósbláa svæðið á myndinni hér til hliðar). Sem sagt ekki Þingvallahringurinn via Gullfoss og Geysi!

Nú á eftir að koma í ljós hvort djúpvinnslan fari líka vaxandi hér í Norðrinu. Samkvæmt fréttum RÚV í kvöld hefur "hópur olíufyrirtækja" nú þegar verið í sambandi við Orkustofnun og sýnt olíuleit á Drekasvæðinu áhuga. Við verðum bara að bíða og sjá hvaða raunverulegi áhugi verður á Drekasvæðinu. Það ætti að koma í ljós eftir rétt rúma þrjá mánuði.

-------------------------------- 

PS: Myndarnar sem fylgja þessari færslu eru m.a. af nokkrum uppáhalds borpöllum Orkubloggsins. Þ.á m. hinum glæsilegu flotpöllum Atlantis og Thunder Horse.

Og teiknaða myndin ofarlega í færslunni sýnir dæmigert FPSO-olíuvinnslukerfi. Sem yrði hugsanlega notað á Drekasvæðinu ef þar verður einhvern tíma unnin olía.

Loks skal nefnt að sjá má umrædda frétt RÚV hér:  http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item249735/ 


Vatnaskil í Vestrinu

Í dag líður Bandaríkjamönnum líklega ekki ósvipað eins og Íslendingum. Þegar við hugsum til þess hvernig þorsk- og síldveiðar hafa hrunið á Íslandi, frá því sem var þegar best lét.

Síld!

Kannski er svolítið hæpið af Orkublogginu að líkja saman fiskveiðum og olíuvinnslu. En það er samt athyglisvert að Íslandsmið gáfu einu sinni af sér meira en 500 þúsund tonn af þorski árlega. Í dag eru þorskveiðarnar varla þriðjungur af því. Og allir sæmilega þroskaðir Íslendingar muna líka eftir síldarævintýrinu mikla.

Þetta minnir svolítið á olíuframleiðslu Bandaríkjamanna. Hún var einu sinni 3,5 milljarðar tunna á ári. En er nú einungis um 1,8 milljarður tunna.

Rétt eins og Íslendingar "skiptu" yfir í aðra fiskstofna þurfa Bandaríkin nú að ganga rösklega til verks við að skipta yfir í aðra orkugjafa.

Fisheries_Iceland_Total-catch

Á sjöunda áratugnum var uppistaðan í afla Íslendinga þorskur og síld. En þorskveiðarnar fóru minnkandi og svo hrundi síldin. Til að þetta ylli ekki langvarandi efnahagshruni tóku Íslendingar upp á því að veiða loðnu og ýmsa aðra stofna. Þannig var hægt að auka fiskaflann á Íslandsmiðum verulega, þrátt fyrir samdráttinn í þorsk- og síldveiðum. Nýjasta æðið er svo kolmunni. Þannig hafa nýjar fisktegundir komið í stað þeirra gömlu, ef svo má segja.

US_Oil_Gap_WasPost

Þetta þurfa Bandaríkjamenn nú að gera. Að finna nýjar orkulindir til að standa undir vaxandi orkunotkun og minnkandi olíuframleiðslu innanlands. Að öðrum kosti þurfa þeir að eyða alltof miklum fjármunum í innflutta olíu.

Í dag öll er öll framleiðsla Bandaríkjamanna á olíu og fljótandi gasi nánast nákvæmlega sú sama eins og var fyrir rúmum 50 árum síðan. Og sé einungis litið til hráolíunnar, þarf að fara 60 ár aftur í tímann til að finna sambærilega olíuframleiðslu vestan hafs. Þ.e. skömmu eftir seinna stríð.

Olíuframleiðsla Bandaríkjanna óx hratt fyrstu 70 ár 20. aldar. Náði hámarki árið 1970 í um 3,5 milljörðum tunna eða 9,6 milljón tunnur á dag.

US_Oil_Gap_4

Síðan framleiðslu-toppnum var náð í upphafi 8. áratugarins hefur framleiðslan minnkað jafn og þétt. Ársframleiðslan nú er einungis 1,8 milljarður tunna eða um 5 milljón tunnur á dag. Þetta er nánast nákvæmlega jafn mikil olíuframleiðsla og var í Bandaríkjunum árið 1948 og einungis um helmingur þess þegar framleiðslan var í toppi um 1970.

Samdrátturinn í olíuframleiðslu Bandaríkjanna hefur því verið um 50% á innan við 40 árum. Á sama tíma hefur olíunotkun þeirra aukist jafnt og þétt. Upp úr 1970 notuðu Bandaríkin um 17 milljón tunnur af hráolíu á dag en nú er notkunin tæplega 21 milljón tunnur á dag. Afleiðingin er einfaldlega æ meiri olíuinnflutningur. Um 1970 fluttu Bandaríkjamenn inn u.þ.b. 40% allrar olíunotkunarinnar en nú er þetta hlutfall komið í um 70%. 

Og þó svo stór hluti af innfluttri olíu Bandaríkjanna komi frá vininum í norðri - Kanada - eru Bandaríkin einnig háð olíu frá "vinum" sínum í Venesúela, Mið-Austurlöndum o.s.frv. Það eru því bæði mjög sterk efnahagsleg og pólitísk rök að baki því að Bandaríkin leggi nú höfuðáherslu á að framleiða orku með öðrum orkugjöfum. Orkugjöfum sem geta tæknilega leyst umtalsverðan hluta olíunnar af hólmi og keppt við olíuna í verði.

US_oil_imports_1970-2007

Það sem hefur bjargað Bandaríkjunum frá algeru olíuframleiðsluhruni síðustu 30 árin eru lindirnar miklu við Prudhoe-flóa í Alaska. Sem fundust árið 1968 og byrjuðu að skila olíu á markaðinn 1977. Sú nýja framleiðsla kom reyndar um svipað leyti og samdráttur varð i bandarísku efnahagslífi upp úr 1980. Þetta eru tvær helstu ástæður þess að á þessum tíma dró mjög úr olíueftirspurn í Bandaríkjunum. Og þess vegna minnkaði líka olíuinnflutningurinn um skeið.

Olíulindirnar við Prudhoe-flóa eru langstærstu olíulindir Bandaríkjanna með allt að 25 milljarða tunna af olíu. Þó verður líklega reyndar einungis unnt að vinna um 13 milljarða tunna af því magni.

Prudhoe_Bay_Oil

Nú er þegar búið að dæla upp u.þ.b. 11 milljörðum tunna þarna við Prudhoe-flóann. Framleiðslan þar minnkar hratt, þannig að líklega er Prudhoe bráðum búið spil. Það mun hafa afgerandi þýðingu fyrir Bandaríkin, enda hefur Prudhoe t.d. jafnast á við helminginn af allri olíuframleiðslu Norðmanna. Sem sagt gríðarlegt magn.

Það eru sem sagt horfur á að ævintýrið í Prudhoe verði bráðum fyrir bí. Þess vegna hefur sprottið upp mikil umræðan um að aflétta olíuborunarbanninu af friðuðu svæðunum austan við Prudhoe. Í Arctic National Wildlife Refuge eða ANWR.

anwar-bear

Eins og útlitið er núna, verður ekkert af slíku. Breið pólitísk samstaða virðist vera meðal bæði demókrata og repúblíkana um að hreyfa ekki við friðuðu svæðunum. Fyrir vikið munu olíufélögin leggja enn meiri pressu á olíuboranir á djúpi Mexíkóflóans og annars staðar á bandaríska landgrunninu. Og á svæðum eins og Bakken í Montana og Norður-Dakóta, sem Orkubloggið sagði frá nýlega.

Olíuframleiðsla á bandaríska landgrunninu mun fresta því eitthvað að olía Bandaríkjamanna hreinlega klárist. En það tekur mörg ár og jafnvel meira en áratug að hefja vinnslu á nýju olíusvæði. Leitin, rannsóknirnar og undirbúningurinn allur er einfaldlega mjög tímafrekur.

Það skuggalegasta er kannski sú staðreynd, að jafnvel þó olíuvillidýrunum hjá ExxonMobil og ConocoPhillips yrði sleppt lausum í ANWR, yrði það einungis skammtímalausn. Hefði sáralítil áhrif á olíubúskap Bandaríkjanna til lengri tíma litið. Kannski má segja að Bandaríkin séu einfaldlega komin fram af olíuhengifluginu. Það verði ekki aftur snúið - stórveldið mun lenda á fallandi fæti ef ekki koma til nýjar stórar orkulindir. Helst sem allra fyrst.

Pickens_biggest_ever2

Besti vinur Orkubloggsins – Boone Pickens – hefur nú a gamals aldri orðið óþreytandi boðberi þessara válegu tíðinda. Fýlupokarnir segja að Pickens sé bara að hugsa um eigin hag, í baráttu sinni fyrir vindorkuvæðingu Bandaríkjanna. Vegna þess að hann er sjálfur búinn að setja stórfé í að kaupa upp land undir vindtúrbínur.

Þetta kann að vera réttmæt gagnrýni á Pickens. Hann er enginn engill, sá gamli bragðarefur. En þegar Pickens minnir menn á þær brjálæðislegu upphæðir sem bandaríska þjóðin eyðir í innflutta olíu, er hann einungis að benda á staðreyndir. Til að koma skilaboðunum áleiðis tók hann nýlega upp á því að birta regluleg upplýsingar um olíuinnflutninginn og dollarana sem í þetta ævintýri fara: www.pickensplan.com/oilimports/

SoundBarrier

Það er varla ofsagt að Bandaríkin séu olíufíkill. Sem verður að taka sig á, áður en illa fer. En Orkubloggið er sannfært um að Bandaríkin munu standast prófið. Ekkert annað ríki býr yfir jafn mikilli tækniþekkingu. Og Bandaríkin draga ennþá að sér flesta ofurheila heimsins.

Bush seinkaði því reyndar um nokkur ár að ríkisvaldið skapaði grunn að átaki, sem nauðsynlegt er til að hvetja til fjárfestinga í nýjum orkulindum. En nú leika nýir og ferskir vindar um Washington DC.

Sennilega vanmeta flestir hvað mun gerast í Bandaríkjunum á næstu misserum og árum. Líklega gera fæstir sér grein fyrir þeim gríðarlegu fjármunum, sem senn munu streyma til rannsókna og uppbyggingar í orkuframleiðslu. Orku, sem ekki byggir á olíu og mengar eins lítið og mögulegt er.

obama_pres_2

Það verður hin nýja efnahagsuppsveifla, sem mun festa Bandaríkin í sessi sem mesta og ótvíræðasta heimsveldi veraldar. Um það leyti sem þau hafa endurbyggt orkuframleiðslukerfið sitt, munu lönd eins og Kína og Rússland vakna upp við vondan draum. Sitjandi í mengunarskítnum og langt á eftir Bandaríkjunum í virkjun nýrra orkulinda. Mesta óvissan er kannski um það hvernig fer fyrir Evrópu. Þar á bæ kann ósamstaða að gera Evrópusambandið ennþá háðara innfluttu gasi, en nú er.

Já - þó svo Orkubloggarinn sé mikill Evrópusinni innst inni, trúir bloggið á mátt Bandaríkjanna. En til að svo megi verða, þurfa að verða gríðarlegar breytingar. Og eins gott fyrir bandaríska kjósendur að standa þétt að baki Obama og demókrötum á þingi. Orkubloggið vonar líka að yfirvofandi fall dollarans og verðbólga þarna fyrir vestan, muni einfaldlega styrkja samkeppnisstöðu Bandaríkjanna. Áfram Obama!


Álið, orkan og Roubini

alcoa_chart_2008

Þetta er komið útí algera vitleysu. Hlutabréfaverð Alcoa fór undir 10 dollara á markaðnum í New York um miðjan janúar s.l. Og steinliggur þar ennþá.

Hlutabréfin í Reyðarálfyrirtækinu Alcoa hafa sem sagt misst um 80% af verðmæti sínu frá því s.l. vor (sbr. garfið hér til hliðar). Ekki er ástandið skárra hjá risasamsteypunni Rio Tinto, sem er eigandi Alcan í Straumsvík. Einnig þar hafa hlutabréfin hreinlega hrapað og er verð þeirra nú einungis um 1/5 af því sem það var s.l. vor. 

Rannveig_Rist_FV

Útlitið virðist ekki beint bjart þessa dagana fyrir álfyrirtækin. Og líklega er lítið sem þau Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi eða Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, geta gert til að bæta þar úr. Ætli bæði Rio Tinto og Alcoa séu á leið í þrot? Því á Orkubloggið erfitt með að trúa. En þetta eru vissulega óvenjulegur tímar þar sem kannski allt getur gerst.

Viðskiptablaðið Frjáls verslun valdi einmitt nýverið Rannveigu mann ársins 2008 í íslensku atvinnulífi. Þeim Bensa og félögum hjá Frjálsri verslun hefur, svona í ljósi sögunnar, oft tekist þokkalega upp við þessa útnefningu. Völdu reyndar Kaupþingsforstjórana Sigurð og Hreiðar Má einhvern tíma sem menn ársins. En Rannveig er örugglega vel að þessu komin. Minnist pabba hennar þegar hann kom austur að Klaustri hér í Den að mæla Skaftárhlaupin.  Hann Sigurjón Rist.

Ennþá skuggalegra en fallandi hlutabréfaverð álfyrirtækjanna, er verðlækkunin á áli. Sú verðlækkun snertir alla Íslendinga. Því tekjur Landsvirkjunar eru að miklu leyti tengdar álverði og því hafa tekjur Landsvirkjunar minnkað gríðarlega í dollurum.

Aluminum_price_2008

Verð á áli er nú einungis um 1/3 af því sem var fyrir ca. ári síðan. Eins og grafið hér að neðan sýnir. Það þarf reyndar líklega að fara ein sex ár aftur í tímann til að finna jafn lágt álverð og nú er.

Fróðlegt væri að vita hvað þetta þýðir fyrir afkomu Landsvirkjunar. Landsvirkjun er ríkisfyrirtæki. Þannig að það verður ekki hægt að sakast við aðra en blessaða pólitíkusana um gjaldþrot þess. Þeir munu ekki geta skellt skuldinni á gráðuga bankastjóra og ráða sjálfir hverjir stjórna fyrirtækinu.

Skyldi vera búið að semja vitræna viðbragðsáætlun, ef lán Landsvirkjunar gjaldfalla á ríkissjóð? Eða ætla menn barrrasta að bíða og vona það besta? Eins og gert var með bankana.

karahnjukastifla

Í síðustu ársskýrslu Landsvirkjunar voru skuldirnar sagðar vera litlir 220 milljarðar (í árslok 2007). Og eigið fé um 99 milljarðar. Miðað við gengislækkun krónunnar frá áramótunum 2007/08 virðist ekki fjarri lagi að eigið fé Landsvirkjunar sé nú að mestu gufað upp. Er það kannski orðið neikvætt?

Þetta eru vissulega einungis vangaveltur. Því Orkubloggið veit auðvitað ekki frekar en aðrir vesælir almúgamenn á Íslandi, hversu mikið af skuldum leynifyrirtækisins Landsvirkjunar eru í erlendum gjaldmiðli. En bloggið hlýtur að velta því fyrir sér hvort Landsvirkjun geti staðið við afborganir sínar, nú þegar álverðið hefur verið steinrotað svona svakalega.

En aftur að hlutabréfum álfyrirtækjanna. Svona niðursveifla kann að skapa gríðarleg tækifæri fyrir menn með laust fé.

Orkuverd_utsala

Hér er væntanlega um annað af tvennu að ræða. Annað hvort erum við lent í einhverri verstu og lengstu kreppu sem um getur. Eða hitt, að markaðurinn einkennist af skelfingu og þeir sem nú hafa taugar til að stökkva inn, eigi eftir að hagnast gríðarlega. Þegar efnahagsskútan rís upp úr brimlöðrinu og álverðið kemst aftur í eðlilegar hæðir.

Spurningin er bara: Hrökkva eða stökkva á álbréfin? Fyrr í dag birtust fréttir um að hinn nýskapaði fjármálagúrú Nouriel Roubini spáir nú 20% lækkun til viðbótar á hlutabréfamörkuðum vestan hafs. Roubini er einn örfárra manna sem spáði rétt fyrir um bankahrunið. Svo það er kannski vissara að taka mark á honum og doka við með hlutabréfakaup. Etv. nær að sjorta allt þetta drasl.

Roubini fullyrðir reyndar að allt bankakerfi bæði Bandaríkjanna og Evrópu sé gjaldþrota eins og það leggur sig. Hljómar ekki beint gæfulega. Roubini segir líka að eina vitið sé að ríkið yfirtaki gjaldþrota banka. Í stað þess að leggja þeim til lánsfé eða nýtt hlutafé, sem bara muni brenna upp.

Roubini_sml

Samkvæmt þessu er freistandi að álykta sem svo, að íslenska leiðin í október hafi verið sú eina rétta. Eða öllu heldur kolröng - því samkvæmt kenningu Roubini var Glitnisaðgerðin baneitruð. En auðvitað hljóta bæði Seðlabankastjórarnir og nýfallin ríkisstjórn að vita betur. Geisp.


Bændaolían á Bakken

Olíuævintýrið á Bakken er líklega besta dæmið um nútíma-gullæði í Bandaríkjunum.

Bakken_BasinEf orkuþyrstir Íslendingar nenna ekki að bíða eftir árangri af olíuleit á Drekasvæðinu, er etv. réttast að skella sér þarna vestur til Dakóta. Þar geta menn keypt sér slatta af hekturum á sléttunni, sett upp glás af vindtúrbínum og svo farið að bora eftir svarta gullinu.

Því nú er orðið nokkuð ljóst að einhverjar stærstu olíulindir Bandaríkjanna leynast þarna á sléttunum. Undir fótum vísundanna. Fylkið sem stundum hefur verið kallað "Saudi Arabía vindsins" - Norður Dakóta - er þessa dagana að breytast í eina mestu olíuvon Bandaríkjanna.

Þetta nýjasta gullæði hefur nefnilega alls ekki reynst tálsýn. Sumir segja að síðustu árin hafi bæst við einn nýr dollara-milljarðamæringur á hverjum degiþarna westur í Montana og ekki síst á sléttum Norður-Dakóta. Sjaldan hafa jafn margir staurblankir bandarískir smábændur orðið jafn ríkir á jafn stuttum tíma.

Drake_Titusville

Já - þökk sé olíunni á Bakken hefur áratuga hnignun byggðanna í Noður-Dakóta nú skyndilega stöðvast. Og varla hægt að fá barn skírt, því pastorinn er einhversstaðar úti á sléttunni að grafa eftir olíu. Og líklega útfararstjórinn og kráareigandinn líka. Rétt eins og gerðist í Titusville i Pennsylavníu, þegar "brjálaði" Drake fann olíuna þar árið 1859 og allt varð vitlaust.

Bakken er gríðarstórt svæði, sem liggur innan bandarísku fylkjanna Montana og Norður-Dakóta og teygir sig þaðan norður til Saskatchewan í Kanada. Nafnið "Bakken" er dregið af Henry nokkrum Bakken, en hann átti landið þar sem fyrsta olían fannst á þessu svæði. Það var árið 1953. Og þá vissu menn strax að þarna væri mikið magn af olíu. Mjög mikið.

Já - það er meira en hálf öld liðin frá því olía uppgötvaðist á Bakken. Samt eru einungis fáein ár síðan olíuvinnsla fór þar af stað fyrir alvöru. Nú er skyndilega allt hreinlega orðið brjálað þarna á sléttunum góðu. Þar sem Síouxarnir og frændur þeirra réðu áður ríkjum.

Sioux Chief

Alls er Bakken-svæðið rúmlega 500 þúsund ferkm eða fimm sinnum stærra en Ísland. Ef þarna er mikil olía, verður hún augljóslega ekki sótt gegnum eina eða tvær nettar borholur, heldur þarf þúsundir brunna.

Til eru margar og mismunandi spár um það hversu mikið af svarta gullinu Bakken hafi að geyma. Til að gera langa sögu stutta, skal látið nægja að segja, að nefndar hafa verið tölur frá 500 milljón tunnum og allt upp í 500 milljarða tunna.

Það magnaða er að kannski er síðastnefnda talan alls ekki útí hött! Kannski eru 500 milljarðar tunna af olíu í Bakken. Það væri auðvitað alveg stórkostlegt og einhver stærsti happdrættisvinningur Bandaríkjamanna á síðari tímum. Hér talar Orkubloggið í fullri alvöru og einlægni - og leggur alla kaldhæðni til hliðar. Þetta er kannski ólíklegt - en mögulegt. Og þótt óvissan sé mikil hefur straumur olíufyrirtækja undanfarið legið sunnan frá Texas og öðrum hefðbundnum olíufylkjum, norður til Bakken.

Bakken_layers

Já - hugsanlega er þetta einhver allrastærsta olíu-uppgötvun í Bandaríkjunum. En fögnum ekki of snemma. Því olían í Bakken hefur mikla sérstöðu.

Hún liggur nefnilega í mjög þunnum jarðlögumá nokkurra km dýpi. Þetta er samt olía! En hvorki olíusandur (oil sands) né tjörugrýti (oil shale); það er annar og sóðalegri iðnaður sem vonandi verður aldrei stór í sniðum.

Þessar olíulindir þarna á Bakken eru ekki nema u.þ.b. 50 m að  þykkt - og sumstaðar þynnri. Segja má að þær hlykkist eins og breiður örþunnur snákur eða risastór skata á um 1,5-3,5 km dýpi. Já - þetta eru mjög óvenjulegar olíulindir þarna á Bakken og oft mikið vesen að ná að kreista svarta gullið þarna upp. Fyrir vikið hentar hefðbundin bortækni, þar sem borað er beint niður, afar illa til vinnslu olíunnar á Bakken.

US_Oil_Reserves_BAKKEN

Einmitt þess vegna hefur olían í Bakken að mestu legið óhreyfð, þó svo meira en hálf öld sé liðin síðan olía fannst fyrst á svæðinu. Það var einfaldlega alltof dýrt að sækja hana. Það var ekki fyrr en bylting varð í láréttri bortækniá 9. og 10. áratugnum, að menn fóru af alvöru að renna hýru auga til Bakken.

Og þá liðu ekki mörg ár þar til borinn hitti beint í mark. Aldamótaárið 2000 uppgötvaðist stór olíulind á Bakken-svæðinu í Montana. Lindin sú kallast Elm Coulee. Og hún mun vera hvorki meira né minna en stærsta olíulind sem fundist hefur á bandarísku landi s.l. 60 ár (utan Alaska að sjálfsögðu, sbr. Prudhoe!).

Bakken_production_2

Þessi "risalind" - Elm Coulee í Montana - framleiðir nú u.þ.b. 50 þúsund olíutunnur á dagfrá nokkur hundruð brunnum. Þar upp hafa nú skilað sér um 50 milljón tunnur af olíu og um 115 milljón tunnur á Bakken-svæðinu öllu. Áætlað er að á líftíma sínum muni Elm Coulee skila allt að 270 milljón tunnum. Sumir eru reyndar enn bjartsýnni um framleiðslugetuna í Elm Coulee og giska á að 500 milljón tunnur sé nær lagi. Í dag er heildarframleiðsla Bakken-svæðisins um 100 þúsund tunnur af olíu á dag.

En eins og Orkubloggið nefndi hér ofar, þá er ekki beint sáraeinfalt að ná þessu Bakken-stöffi upp á yfirborðið. Olían í Elm Coulee liggur t.d. í jarðlagi, sem er einungis um 15 m að þykkt. Eina raunhæfa leiðin til að nálgast þessa olíu er að bora niður og svo taka 90 gráðu beygju og reyna að komast vel inn í lindina. Og svo líka beita vatnsdælingu til að hrekja olíuna að borholunni. Sannkallaður línudans.

Flestir brunnar í Montana skiluðu reyndar fremur litlu - nema Elm Coulee. Það sem flestir leita að á Bakken, er einmitt að finna aðrar lindir af sambærilegri stærð og Elm Coulee. Það er stóri draumurinn.

vesturfarar_sydow

Orkubloggið hefur einmitt núna - eftir að í ljós kom að íslenski kapítalisminn reyndist byggður á botnlausri sandbleytu - verið að velta fyrir sér að gerast dreifbýlistútta þarna vestur á sléttunum. Feta í fótspor íslensku Vesturfaranna, sem höfðu ekki áhuga á kuldabolanum við Winnipeg-vatn og héldu þess í stað vestur til Dakóta.

Mig hefur hvort sem er alltaf langað að sjá forsetafésin á Rushmore-fjalli - og ein uppáhalds bíómyndin mín er einmitt klassíkin dásamlega North by Northwest! Já - þá kunnu menn sko að búa til bíó. En reyndar skilst blogginu að Rushmorið sé í Suður-Dakóta. Kannski fínn sunnudagsbíltúr þangað frá krummaskuðinu Fargo?

north-by-northwest-cary-grant

Í nokkur ár hefur Montana verið langmest spennandi svæðið á Bakken. Og olíu-kapphlaupið á Bakken því að mestu beinst þangað. En eftir því sem olíuverðið hækkaði fóru menn að bora víðar um Bakken. Og skyndilega rauk jarðaverðið á Bakken upp - ekki síst í Norður-Dakóta.

Ástæða þess að Norður-Dakóta hefur nú náð athyglinni frá Montana er einföld. Árið 2007 fannst nefnilega afar myndarleg olíulind Dakótamegin á Bakken-svæðinu. Rétt við smábæinn Parshall í norðvesturhluta fylkisins. Lindin sú er talin geta skilað allt að 700 þúsund tunnum. Allt í einu varð Elm Coulee bara litli kallinn á Bakken og hreint geggjað gullæði greip um sig í Norður-Dakóta.

Bakken_millioner

Smábændur, sem lengst af höfðu varla séð pening nema sem innlögn í bókum kaupmannsins við vegamótin - svona í anda Óðals feðranna- fengu nú óvænt tilboð í olíuréttindin á jörðinni sinni. Og gátu sumir trítlað í smábæjarbankann sinn og lagt milljón dollara inn á gamla sparireikninginn! Ef menn aka um sveitir Norður-Dakóta þessa dagana, má víða sjá brosandi gamlingja sitja á veröndinni og njóta kvöldsólarinnar. Gæti verið að maður eigi þarna fjarskylda ættingja?

En hvað þýða þessar miklu olíulindir Bakken fyrir Bandaríkin í heild? Nú halda lesendur Orkubloggsins kannski að ef 500 milljarðar tunna af olíu séu hugsanlega á Bakken, sé einfaldlega hægt að segja að olíubirgðir Bandaríkjanna hafi þar með aukist úr 21 milljarði tunna í rúmlega 520 milljarða tunna í einu vetfangi. En þetta er örlítið flóknara en svo. Því það verður líklega aldrei hægt að ná upp nema broti af allri þessari olíu þarna á Bakken.

Oftast nær er ekki unnt að vinna nema ca. 50% af þeirri olíu, sem olíulind hefur að geyma. Og stundum minna. Þegar þrýstingurinn í lindinni er orðinn of lítill verður oftast alltof dýrt að ná afganginum upp. Og þá halda menn annað. Sádarnir og fleiri hafa með vatnsdælingu náð að hækka þetta hlutfall verulega - sumir segja í allt að 75%.

Bakken_oil_rig_snow

En þunnildin á Bakken bjóða því miður ekki upp á hlutfall í líkingu við þetta. Þar mega menn teljast góðir ef þeir geta náð kannski svona 3-10% af olíunni upp á yfirborðið. Það kann jafnvel að vera, að einungis um 1% olíunnar á Bakken sé vinnanleg olía. Og 1% af 500 milljörðum tunna eru bara 5 milljarðar tunna. Smá spæling. En jafnvel bara 5 milljarðar tunna þykir mikið - meira að segja í Bandaríkjunum.

En hvað er raunhæft að ætla að Bakken geti gefið mikið af sér? Til samanburðar má hafa í huga að á 35 árum hefur norska landgrunnið samtals gefið af sér u.þ.b. 21 milljarð tunna af olíu (og að auki um 8 milljarða tunna af gasi, mælt í ígildum olíutunna). 

Orkubloggið er svo ljónheppið að bandaríska jarðfræðistofnunin (USGS) er nýbúin að senda frá sér uppfært álit um Bakken. Reyndar hefur skýrslan öll af einhverjum ástæðum ekki enn verið birt, heldur einungis stutt ágrip með helstu niðurstöðum. Þar segir að gera megi ráð fyrir að á Bakkensvæðinu öllu megi líklega vinna nákvæmlega 3,65 milljarða tunna af olíu. Það er nú allt og sumt.

Bakken_reserves

Já - það er sem sagt svo að nýjasta og stærsta olíuuppgötvunin á bandarísku landi í meira en hálfa öld (utan Alaska) kann að skila vel innan við 4 milljörðum tunna af olíu. Og dýpi Mexíkóflóans gæti kannski skilað 9 milljörðum tunna (eða öllu heldur 3-15 milljörðum) ef spá Chevron reynist rétt.

Bandaríkjamenn brosa breitt þessa dagana yfir bæði Mexíkóflóanum og Bakken. En Orkubloggið rekur nú barrrasta upp hæðnishlátur. Það tekur því varla fyrir Kanana að vera að eltast við þetta smotterí.

bakken-oil_plains

Af því viðmiðun Orkubloggsins er auðvitað spáin góða, um að Íslandsmegin á Drekasvæðinu séu 10 milljarðar tunna af olíu. Sem skiptast á milli þjóðar með 330 þúsund íbúa. Það væri sambærilegt eins og Bandaríkjamenn myndu finna nýja olíulind með 10.000 milljörðum tunna af olíu. Miðað við fólksfjölda!

Sú góða tala - 10.000 milljarðar - er líka stundum orðuð sem 10 trilljónir. Stórhuga Íslendingar, sem hafa lifað í milljarðaheimi síðustu árin, ættu kannski að gleyma öllu krepputali og aðeins tjá sig í trilljónum héðan í frá. En blessaðir Kanarnir eru nægjusamari - og kætast yfir einungis örfáum milljörðum tunna af nýrri bandarískri olíu.

Það sem við getum lært af umræðunni um Bakken, er kannski helst eftirfarandi: Ef einhver fótur er fyrir því að 10 milljarðar tunna af vinnanlegri olíu og gasi finnist á íslenska Drekasvæðinu, hljóta menn í bandaríska orkumálaráðuneytinu að vera komnir á lyktina. Og tilbúnir að greiða Íslendingum milljarða dollara á borðið fyrir að fá exclusive nýtingarétt á svæðinu. Þar með getum við barrrasta hlegið að einhverju bresku icesave-væli og öðru krepputali. Jafnvel keypt Jómfrúreyjar af Könunum og öll komið okkur fyrir þar í sólarsælunni.

dallas

A goldmine is a whole in the ground with a liar on top! Að fullyrða að Drekasvæðið íslenska búi yfir 10 miljörðum olíutunna er auðvitað barrrasta eins og hvert annað grín. Taki menn mark á slíkum spádómum hljóta olíufélög eins og t.d. Chevron, ExxonMobil, Marathon Oil - og kannski líka Ewing Oil - öll að koma æðandi og skríða fyrir fótum iðnaðarráðherra. Eins og rakki að biðja eiganda sinn um fyrirgefningu.

Nú bara bíðum við og sjáum hvað setur. Vonandi kemur að því að Orkubloggið þurfi að éta ofan í sig allt þetta nöldur útí olíuspár Drekasvæðisins. Vonandi verður Ísland eitt mesta olíuframleiðsluríki heims, eins og hinar villtu og blautu spár Norsaranna hjá Sagex Petroleum gefa til kynna. Svo við fáum hina raunverulegu Ewinga hingað norður á Klakann góða til að dæla stöffinu upp. Úff, hvað ég er orðinn spenntur.


Bakken til bjargar?

Er ekki Tívolí örugglega miklu stærra en Bakken?

Bakken_Shale_Map

Sumir segja að Bakken geymi allt að 500 milljarða olíutunna. Og svæðið komi til með að bjarga olíuframleiðslunni í Bandaríkjunum. Í dag ætlar Orkubloggið að halda brott frá Tívolíi Drekasvæðisins - og bregða sér yfir á Bakken. Í norðvestur-ríkjum Bandaríkjanna.

Bakken gæti nefnilega haft að geyma eina stærstu olíulind í Bandaríkjunum. Bjartsýnisblöffarar tala um allt að 500 milljarða tunna! En áður en bloggið fer að snuðra um Bakken, er vert að staldra við og fara nokkrum orðum um olíubirgðir Bandaríkjanna.

Bandaríkjamenn horfa fram á það, að allar núverandi olíulindir þeirra verði þurrausnar innan fárra ára. Þekktar olíubirgðir þeirra eru um 21 milljarður tunna og að auki líklega um 35-40 milljarðar tunna af gasi, umreiknað í olíutunnuígildi (vegna mikilla gasbirgða vill gamli olíurefurinn Boone Pickens einmitt að Bandaríkin komi öllum flutningabílaflota sínum á gas í stað díselolíu).

Dakota_Rushmore_Moonlight

Olíuframleiðslan í Bandaríkjunum er nú rétt innan við 3 milljarðar tunna á ári, en ársnotkunin er um 8 milljarðar tunna. Þess vegna þurfa Bandaríkin að flytja inn um 5 milljarða tunna af olíu árlega. Og kaupa stóran hluta þeirrar olíu frá "vinaþjóðum" eins og Venesúela og Arabaríkjum í Mið-Austurlöndum.

Þetta þykir mörgum Bandaríkjamanninum frekar óþægileg staða. Ekki aðeins það að viðskiptavinirnir eru fremur ótraustir vinir, heldur kostar þetta líka þjóðina slatta af pening. Sem mestur endar sem dúnfylling í sænginni hans Húgó Chavez í Venesúela, Abdúlla Sádakonungs og hjá öðrum þess háttar gæðingum. Það er óneitanleg heldur skítt fyrir bandarískan almenning að þurfa að halda slíkum pótintátum uppi.

Bakken_plains_twilight

Miðað við olíuframleiðslu og þekktar olíubirgðir Bandaríkjamanna, mun olían þar klárast innan tíu ára. En að sjálfsögðu mun olíuframleiðsla vara miklu lengur í Bandaríkjunum. Því það eru alltaf að finnast nýjar olíulindir, sem þá bætast við núverandi birgðir.

Bandarísk stjórnvöld halda nákvæmt "bókhald" um þessar ófundnu olíu. Olíubirgðirnar sem ekki hafa enn fundist, en þokkalegar líkur eru á að finnist. Á ensku kallast þetta oftast "undiscovered, technically recoverable oil reserves" eða óuppgötvaðar, vinnanlegar olíubirgðir. Einhverjar stærstu slíkar ófundnu olíulindir í heimi eru taldar geta leynst í Írak, sem sumpart útskýrir umtalsverðan áhuga Bandaríkjamanna á því stríðshrjáða landi.

Óuppgötvaðar olíubirgðir í Bandaríkjunum eru nú taldar nema allt að 120 milljörðum tunna. Í þeirri tölu eru náttúruverndarsvæðin í Alaska ekki meðtalin. Þau svæði eru talin geta búið yfir u.þ.b. 11 milljörðum tunna í viðbót (eins og vikið verður að hér síðar).

cartoon_bush_Iraq_OIL

Til samanburðar má nefna að menn gæla við að óuppgötvaðar olíubirgðir í Írak séu hugsanlega 350 milljarðar tunna. Og að heimskautasvæðin hafi að geyma hátt í 100 milljarða tunna. Þessum birgðum er stundum lýst sem olíu framtíðarinnar.

Þetta eru vel að merkja óuppgötvaðar birgðir (rétt eins og meint olía á Drekasvæðinu eða íslenska landgrunninu yfirleitt). Flestar eru þessar ófundnu lindir í Bandaríkjunum taldar vera fremur litlar. Og munu því einungis bæta mjög hægt við vinnanlegar, þekktar birgðir (proven reserves). Þar liggur einn stærsti vandi bandarísku þjóðarinnar. Það vantar nýjar risalindir.

Þar að auki er auðvitað alger óvissa um það, hversu mikið af þessum 120 milljörðum tunna af olíu munu yfirleitt finnast. Það eina sem er nokkurn veginn öruggt, er að Bandaríkjamenn eiga með all góðri vissu um 21 milljarða tunna af olíu í jörðu. Og það gengur hratt á þessar proven reserves. Til að Bandaríkin þurfi ekki innan fáeinna ára að flytja inn 80-90% af allri olíuneyslu sinni, þurfa að finnast nýjar risalindir. Og það sem allra, allra fyrst.

oil_rig_dark

Menn eru að gæla við að úti á regindjúpi Mexíkóflóans sé að finna 3-15 milljarða tunna af olíu. Og náttúruverndarsvæðin í Alaska (ANWR; friðuðu svæðin í Alaska) eru sögð geyma annað eins eða jafnvel örlítið meira. Bandaríska jarðfræðistofnunin (USGS) hefur skotið á að ANWR kunni að geyma 6-16 milljarða tunna af vinnanlegri olíu.

Þegar metið er hvort þessi olía muni finnast og skila sér upp á yfirborðið, er oftast miðað við meðaltalið. Sem er um 11 milljarðar tunna í ANWR og um 9 milljarðar tunna á djúpi Mexíkóflóans. Þessi tvö svæði gætu m.ö.o. hugsanlega gefið af sér allt að 20 milljarða tunna af olíu - og í besta falli 31 milljarð tunna. Allt eru þetta þó einungis spár - óvissumörkin eru mikil.

Sennilega verður reyndar aldrei farið í það, að vinna olíu innan ANWR. Því Obama og margir aðrir vilja alls ekki heimila olíuleit- eða vinnslu á náttúruverndarsvæðunum í Alaska. Ekki einu sinni John McCain vildi heimila slíkt, þ.a. nokkuð breið sátt ríkir um það vestan hafs að stúta ekki Alaska. Jafnvel ekki í nafni olíunnar.

Í dag er Mexíkóflóinn því bjartasta vonin um að auka megi proven oil reserves í Bandaríkjunum, svo einhverju nemi. Sem fyrr segir er talið að það svæði geti skilað allt að 15 milljörðum tunna... en kannski samt ekki nema 3 milljörðum tunna. Og eins og áður var nefnt, er kannski líklegast að Mexíkódýpið gefi af sér tölu þarna mitt á milli; ca. 9 milljarða tunna. Þessar tölur sýna nokkuð vel að spá bandarískra stjórnvalda um meintar ófundnar olíubirgðir Bandaríkjanna upp á 120 milljarða tunna, er í reynd afar óviss, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Bakken_How_Big?

Annað svæði sem miklar vonir eru bundnar við í Bandaríkjunum er Bakken. Á MonDa-svæðinu; Montana og Norður-Dakóta.

Bakken virðist reyndar vera eina vonin um almennilega stóra, nýja olíulindin í Bandaríkjunum fyrir utan Mexíkóflóann og Alaska. Sumir segja að þar séu 500 milljarðar tunna af olíu! Aðrir telja að Bakken muni aldrei geta staðið undir meiri framleiðslu en samtals 500 milljónum tunna. Þarna munar aðeins þúsundfalt í ágiskununum!

En hvort sem Bakken hefur að geyma 500 milljarða tunna af olíu eða einungis 1/þúsundasta af því (500 milljón tunnur), þá eru flestir sammála um að olíulindirnar í Bakken séu stórar. Mjög stórar.

Til samanburðar má nefna að um Drekasvæðið hafa menn haft uppi hugmyndir að þar séu um 2-10 milljarðar tunna Íslandsmegin í lögsögunni. Sem Orkublogginu þykir óréttlætanlega háar spár. Meðan ekkert hefur verið borað í æðar Drekans ættu menn ekki að vera að nefna svona rosalega háar tölur.

mark_twain

Kannski er vert að hafa í huga, að þegar menn segjast hafa fundið gullnámu er oft ástæða til að efast. Vestur í Ameríku er stundum sagt að slíkir menn séu jafnan lygarar. A goldmine is a whole in the ground with a liar on top! Sumir segja reyndar að þessi tilvitnun sé höfð eftir sjálfum Mark Twain - föður Stikilsberja-Finns. En það er önnur saga.

En hvað er Bakken stórt dæmi? Er þetta fölsk gullnáma eða er Bakken bjargvættur Bandaríkjanna? Munu finnast þar 500 milljarðar af olíutunnum... eða kannski bara hálfur milljarður tunna?

Og spurningin sem er ekki síður mikilvæg; hversu hátt hlutfall af Bakken-olíunni verður unnt að ná upp? Verða það 70% eins og Sádarnir eru byrjaðir að grobba sig af? Eða á bilinu 30-50% eins og algengast er? Eða kannski bara 1% eins og sumir vilja halda fram - vegna þess að gumsið á Bakken er óaðgengilegra en mestöll önnur olía í heiminum? 

Kannski örlítið meira um það æsispennandi álitamál síðar, hér á Orkublogginu.


Manstu...

NostalgicFamily

Hugleiðingar af öðrum toga:

http://manstu.blog.is/

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband