Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
10.10.2008 | 23:16
Flugnahöfðinginn
Athyglisvert að lesa athugasemdir lesanda við greinina í Guardian. Her er smá "best of":
You sold your fishing rights. You sold your rivers. You even sold your DNA. Now you've got nothing left that anyone wants.
Iceland is a country which got rich on other peoples money. Wealth was created from nothing. Iceland produces nothing. Manufactures nothing. Contributes virtually nothing to the real economy. Most people in Iceland sit around and pushing paper all day. Icelandics don't know the meaning of hard work.
Bjork, and her music that she inflicted on the world. If she comes to the UK gordon shoudl arrest her and send her to Guantanmo Bay. I bet she would not look cute in a orange jumpsuit or second thoughts maybe she would (file under icelandic pixie fantasy).
How could a small country in the North Atlantic that had no manufacturing base, exported nothing, and imported everything it needed have a standard of living like this?
If it wasn't for the one maybe two good tracks on each of her albums, i'd throw away my Bjork collection in disgust.
Oh, I forgot to mention their perverse status as one of the three nations on earth to persist with whaling. Bastards.
Kicking Iceland is great fun for those of us who have actually met Icelandic people in recent years. It is difficult to think of any people who are smugger - constantly going on about how wonderful their little island is, how green, how prosperous.
Hey Pharma! but Iceland have no army said Iceland 007. Now, if they have no army how could have engaged in mass murder alongside the Brits in Iraq?

Við erum sem sagt fjöldamorðingjar sem ekki framleiðum nokkurn skapaðan hlut, erum með engan útflutning og seldum erfðaefni okkar. Hvaladráparar og letingjar sem aldrei hafa nennt að vinna.
Gott að sjá hvernig greindin leiftrar af þessari "vinaþjóð" okkar. Frábær landkynning. Í boði Gordon Brown og Icesave.
![]() |
Sparkað í liggjandi (Ís)land" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.10.2008 | 00:09
Nótt í Moskvu
Stundum er sagt að neyðin kenni naktri konu að spinna. Sú björgunaraðgerð sem helst hefur verið horft til síðustu dagana er að fá lán frá Rússum. En aðrir vilja heldur ganga bónveg til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Sem er dáldið eins og segja sig á hreppinn - og því kannski í anda þjóðar í fjötrum.

Orkubloggið gælir þó við aðra leið. Mig hefur nefnilega lengi dreymt um endurreist Kalmarsamband. Tóm vitleysa að Norðurlöndin séu að pukra þetta sitt í hvoru horni. Með sinn hvern gjaldmiðilinn og meira að segja klofin í Evrópusambandsaðildinni. Fjölskyldan þarf að sameinast - og nú er svo sannarlega ekki versti tíminn til þess.
Sem kunnugt er varð Kalmarsambandið til sem sameinað ríki Norðurlandanna, undir henni Margréti Valdimarsdóttur, drottningu. Sem stundum er líka kölluð Margrét fyrsta - og nú ríkir einmitt Margrét önnur í Danaveldi. Hvar íslenskir útrásarvíkingar hafa gert mikið strandhögg, en kunna senn að verða hraktir til hafs á ný. Vonum bara að það kosti ekki blóði drifið Kóngsins Nýja Torg.
Danir hafa átt ofurlítið erfitt með að skilja hvernig "við" gátum hirt bæði Magasin og Hotel d'Angleterre - þessar tvær glæsibyggingar sem setja hvað mestan svip á þetta flottasta torg Kaupmannahafnar. Kannski ekki að undra þó aðeins hlakki í fjárans Danskinum þessa dagana.

Ekki ætla ég að hætta mér í miklar skilgreiningar á Kalmarsabandinu. En læt nægja að minna á að sambandið var myndað seint á 14. öld og tórði fram á 16. öld. Það lifði m.ö.o. einungis í rúma eina öld. En meðal afleiðinga þessarar ríkjasamvinnu var að Ísland færðist úr yfirráðum Noregs og til Danmerkur. Sem er auðvitað mesta ógæfa okkar - því annars sætum við hér smjattandi á krásum góðum með guðaveigar í glasi og banka fulla af norskum krónum.
Jamm. Íslands óhamingju verður allt að vopni. En ég bind ennþá vonir við nýtt Kalmarsamband. Þar sem núverandi þjóðþing verða eins konar fylkisþing með sjálfræði í flestum málum líkt og fullvalda ríki. Nema hvað aðeins verður ein utanríkisstefna, ein mynt og einn Seðlabanki. Þetta yrði evrópskt stórveldi með öflugasta sjávarútveg í heimi, háþróaðan iðnað, heilbrigðan og öflugan landbúnað og glæsilega hönnun og hugvit. Og um 25 milljón íbúa - því auðvitað yrðu öll Norðurlöndin með. Ekki má heldur gleyma að þarna færi eitthvert sterkasta olíu- og orkuveldi í hinum vestræna heimi.
Sjálft alríkisþingið - Althinget - yrði auðvitað í Kalmar (vinsamlegast sendið landráðakærur beint til ljúflingsins Ríkislögreglustjóra). Reyndar litist mér betur á að hafa það í Noregi. En Svíarnir myndu aldrei fallast a það, enda langfjölmennasta þjóð Norðurlandanna.
Því miður verður þetta líklega aldrei af veruleika. Af sams konar ástæðum og það hversu erfiðlega gengur að sameina hreppa á Íslandi. Og fyrir vikið endar Ísland líklega í faðmi Rússa. Sem kannski er reyndar alls ekki svo slæmur kostur. A.m.k. hafa Rússar lengst af sýnt okkur meiri velvild en t.d. Bretar. Voru ávallt reiðubúnir að kaupa af okkur nánast hvað sem var hér í Den. Ekki síst s.k. gaffalbita, sem var varla matur. Í staðinn fengum við t.d. olíu á miklu hagstæðari kjörum en okkur bauðst annars staðar. Og aldrei voru Rússarnir neitt að bögga okkur - fyrir utan að hafa kannski beint að okkur nokkrum kjarnaflaugum svona just in case.

En svona til að segja eitthvað af alvöru: Ég satt að segja botna ekkert í frændþjóðum okkar að sitja aðgerðarlausar og horfa á íslensku efnahagslífi blæða út. Og Norðmenn munu naga sig í handarbökin þegar Rússar verða búnir að ná hér áhrifum í skjóli peninganna sinna. Og mynda ógnvænlegan hálhring um Noreg.
Þó svo ég hafi notið þess að standa einn á Rauða torginu eina ískalda nóvembernótt og dáðst að furðulegri dómkirkjunni þarna gegnt Kreml, líst mér ekki alveg á það hvernig málin eru að þróast. Kannski gerist hið ómögulega. Þegar Skandinavísku bankarnir byrja líka að hrynja. Og nýtt Kalmarsamband mun rísa úr öskustó nýfrjálshyggjunnar.
![]() |
Vill fá aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.10.2008 | 22:07
Rússajepparnir koma
Í fréttum af Rússaláninu segir að þreifingar þar um hafi byrjað í sumar. Í dag kom fram á heimasíðu RÚV að tveir ríkustu auðjöfrar Rússlands standi að baki því að lánið verði veitt. Heimildin fyrir þeirri frétt er sögð vera "hin virta" sjónvarpsstöð Ekho Moskvy.
Stöðin sú er að mestu í eigu fyrirtækis sem nefnist Gazprom Media. Og eins og nafnið gefur til kynna er þetta dótturfyrirtæki orkurisans Gazprom. Þar sem Pútín og fylgismenn hans ráða ríkjum. Það kemur því kannski sumum á óvart að RÚV kalli umrædda stöð "virta". Þegar hafðar eru í huga sögur um hvernig rússnesk stjórnvöld hafa leikið frjálsa fjölmiðlun í Rússlandi.

Hvað um það. Samkvæmt fréttinni eru þessir tveir ljúflingar, sem hafa komið því til leiðar að rússnesk stjórnvöld eru tilbúin til að skoða lán til Íslands, þeir Roman Abramovich og Oleg Deripaska (sem RÚV reyndar misritar Derepaska og gefur honum hinn hógværa titil "annar ungur milljarðamæringur").
Abramovich er Íslendingum auðvitað að góðu kunnur; eigandi Chelsea og hefur komið nokkrum sinnum hingað til Íslands. Hann hefur lengi verið talinn efnaðasti Rússinn. En með uppgangi og geysihröðum vexti rússneska álrisans Rusal kann Oleg Deripaska að hafa komist frammúr Abramovich á peningalistanum. Orkubloggið hefur áður nefnt þá fögru staðreynd að Rusal er stærsta álfyrirtæki heims. Ekki er lengra síðan en í gær að bloggið birti einmitt lógó þeirra Rusalmanna hér á Orkublogginu, í tengslum við Rússalánið. Þó svo á þeim tímapunkti hefði bloggið ekki minnstu hugmynd um að aðaleigandi Rusal stæði að baki láninu til Íslands. Nema kannski ómeðvitað! Því er nú ærið tilefni til að beina athyglinni að aðaleiganda Rusal; Oleg Deripaska. Sem kannski er nýjasti Íslandsvinurinn.

Í geggjuðu eignasafni Deripaska er meirihlutaeign hans í Rusal auðvitað kórónan. En hann á einnig ýmis önnur leikföng. Og eflaust hefðu Íslendingar gaman að tengjast sumum af þeim. Á ný. Þar stendur hjarta Orkubloggsins næst bílaframleiðandinn GAZ - eða Gorkí-bílaverksmiðjurnar dásamlegu. Sem á sínum tíma framleiddu bæði Rússajeppa og Volgu. Síðar tóku UAZ-verksmiðjurnar við framleiðslu Rússajeppanna, sem lengi sáust víða hér um landið. Ekki síst á 8. áratugnum. Já - ég verð bara hrærður við þá tilhugsun að eigandi GAZ láni okkur pening. Og reisi kannski Rússajeppaverksmiðju, t.d. við Gljúfrastein. Eða í Ketildölum?
Deripaska hefur verið "verðlagður" á um 30 milljarða USD af Forbes. Kannski hefur sú upphæð lækkað eitthvað nú þegar álverðið er á rússíbanareið niður á við. Sem er enn eitt lóðið á óhamingjuvog Íslands. Því raforkuverðið til álveranna hér mun vera tengt heimsmarkaðsverði á áli.
Líklega veit enginn nema Deripaska nákvæmlega hversu þykkt veskið hans er eða hvernig hann auðgaðist svo ofsalega. En hann veit allt um hina nýju íslensku landvætti; orku og ál.

En hver er þessi maður, sem bæði á stærsta álfyrirtæki heims og nokkrar af stærstu vatnsaflsvirkjunum Rússlands?Deripaska, sem er aðeins fertugur að aldri, var mikill námsmaður og útskrifaðist með eðlisfræðigráðu frá Moskvuháskóla skömmu eftir að kommúnisminn féll. Hann hóf störf í áliðnaðinum og varð fyrst stjórnandi í Sayanogorsk álverinu og síðar forstjóri í hjá iðnaðarfyrirtæki sem hét Sibirsky. Það varð á skömmum tíma eitt af tíu stærstu álfyrirtækjum heims - og sameinaðist fljótlega fleiri rússneskum álfyrirtækjum og varð þungamiðjan í Rusal. Þetta var á tímum rússnesku einkavæðingarinnar og einhvern veginn æxluðust málin þannig að Deripaska varð aðaleigandi fyrirtækisins. Sem varð kjölfestan í fjárfestingafyrirtæki hans; Basic Element. Viðskiptafélagi Deripaska við myndun Rusal var... já, auðvitað Íslandsvinurinn Abramovich.
Basic Element er ekki bara umbúðir um mest öll hlutabréfin í Rusal. Heldur einnig ýmis fleiri dágóð rússnesk fyrirtæki. T.d. stærsta tryggingafyrirtæki Rússlands, banka og eitt stærsta verktakafyrirtækið í Moskvu. Þeirri dásamlegu borg.
Best að fara að slútta þessu. T.d. með smáræði um Rusal. Sem er stærsta álfyrirtæki heims, eigandi gríðarlegra báxítnáma, starfar í 19 löndum og er með 100 þúsund manns í vinnu. Ársframleiðslan er meira en 11 milljón tonn af áli. Deripaska á góðan meirihluta í þessum iðnaðarrisa í gegnum Basic Element, En+Group og fleiri eignarhaldsfélög sín. Ljúft að fá þessa stráka til Íslands.
Sumir segja að þeir Abramovich og Deripaska hafi reyndar ekkert með mögulega lánveitingu til Íslands að gera. Heldur sé það tilkomið vegna persónulegra tengsla Björgólfs Thors við Pútín. En hann mun hafa verið háttsettur embættismaður hjá Skt. Pétursborg þegar Björgólfur var að byggja upp bjórveldið þar. Og borgarstjóri um skeið. Hvað svo sem satt er um áhrif Bjögga, verður spennandi að fylgjast með framhaldi þessa máls. Reyndar er Oleg Deripaska sjálfur nátengdur Pútín - og mig satt að segja grunar að þau tengsl séu mun sterkari en hugsanleg vinátta Björgólfs!

Já - Orkubloggið á eflaust fljótlega aftur eftir að velta upp steinum, sem tengjast Oleg Deripaska. Enda bæði skarpgreindur maður og sterkur karakter. Samt verður bloggið að viðurkenna að skvísan hans er ennþá áhugaverðari.
Seinna verður t.d. kannski sagt frá því hvernig Deripaska hefur verið í fararbroddi iðnjöfra, sem vilja stórtækar aðgerðir til að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum. Hann er nefnilega ekki bara gáfaður heldur líka hugsjónamaður. Því miður hafa yfirvöld bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi verið með tóm leiðindi við þennan ljúfling. Svipt hann vegabréfi og jafnvel vænt hann um glæpi. Tóm öfund segi ég bara - öfund skriffinna sem ekki ná í gellur eins og hana Polinu.
-------------------------------
PS: Frétt RÚV um rússneska lánið og Deripaska: http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item230255/
![]() |
Fundur um rússneskt lán á þriðjudag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.10.2008 | 09:13
Orkuboltinn Ísland
Aftur a byrjunarreit? Í kjölfar bankahrunsins heyrast nú ýmsir segja að Ísland hafi hrokkið 25 ár aftur í tímann. Og nú muni íslenskt efnahagslíf á ný byggjast a fiski. Það hefur jafnvel heyrst talað um uppbyggingu i landbúnaði. Geisp. Og auðvitað hljómar söngurinn um fleiri álver.

The wonderful eighties! Já - þá átti Orkubloggið góða daga. Þannig að kannski er þetta stökk aftur í tímann bara hið besta mál. En auðvitað er tóm della að setja málið svona fram. Tækninni hefur fleygt fram og olíuframleiðsla kann að hafa náð hámarki. Umhverfisvitund almennings hefur gjörbreyst frá því fyrir 25 árum.
Nú liggja stóru tækifærin í endurnýjanlegri orku. Eins og Orkubloggið hefur oft áður sagt frá, rísa nú stór vindorkuver og sólarorkuver víða um heim. Sem framleiða rafmagn. En ennþá vantar nýjan orkugjafa í samgöngugeirann. Þar kunna að verða miklar breytingar á tiltölulega stuttum tíma.
Ennþá er nokkuð langt í að rafmagnsbílar verði raunhæfur kostur. Líklega nokkrir áratugir. Vetnistæknin er heldur ekki að bresta á. Ennþá langt á það.
Í millitíðinni þurfum við samt ekki að sitja uppi með að vera háð innfluttu bensíni og díselolíu. Til eru íslensk fyrirtæki sem búa yfir tækniþekkingu og mannviti til að framleiða eldsneyti, sem má nýta á hefðbundnar bensínvélar. Metanól.
Í upphafi yrði hlutfall metanóls i eldsneytinu ekki ýkja hátt. En engu að síður yrði það lykilatriði í að ná að minnka bensíninnflutning um t.d. 10% á stuttum tíma. Og metanólið er framleitt úr koltvíoxíði, svo metanólframleiðslan leiðir til minni kolefnislosunar. Þetta eldsneyti er því mikilvægur hlekkur í að ná skuldbindingum Kyoto-bókunarinnar. Útlit er fyrir að hlutfall metanóls á móti bensíni geti hækkað mjög á fáeinum árum. Einnig er líklegt að fljótlega megi nýta metanóltæknina til að framleiða eldsneyti á díselvélar. Skip og flutningabíla. Loks eru hraðar framfarir í því að nýta metanól í efnarafala, þ.a. metanólið verður líka mikilvægur orkugjafi þegar rafbílatæknin þroskast.

Nei - Ísland er ekki komið á byrjunarreit. Við erum miklu fremur á spennandi krossgötum. Ef stjórnvöld skynja tækifærin. Nú ættu stjórnvöld að setja í forgang að íslensk orka verði nýtt til að framleiða eldsneyti, sem minnkar þörfina á innfluttu bensíni og olíu og minnkar kolefnislosun. Um leið ykist fjölbreytnin í íslensku atvinnulífi. Erlent fjármagn kæmi inn í landið - og myndi ekki sitja eitt að kökunni heldur vinna með skynsömum og þolinmóðum íslenskum fjárfestum (en ekki fjárglæframönnum) Og ný störf yrðu til. Rétt eins og þegar álver er byggt - nema hvað þessi fjárfesting og þessi störf munu vekja hrifningu alþjóðasamfélagsins og gera Ísland að hinni fullkomnu fyrirmynd í orkumálum framtíðarinnar.
![]() |
Helstu spár: Evrópa hlýnar hraðar en meðaltal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.10.2008 | 08:52
Rússagullið
Á ýmsu átti maður von. En að Rússar myndu verða þeir sem bjarga Íslandi frá algeru hruni...!

Er þá ekki bara tímaspursmál hvenær ljúflingarnir í Rusal byrja að byggja álverksmiðjur á Íslandi. Svo þætti Íslendingum eflaust gott að fá aftur herstöð. Fátt jafnast á við hermangið. Skiptir varla miklu hvort það er amerískur eða rússneskur her. Eða hvað?
Eins og Orkubloggið hefur sagt frá er Moskva tvímælalaust magnaðasta stórborg heimsins. A.m.k. af þeim borgum sem bloggið hefur heimsótt fram til þessa. Kannski maður ætti að drífa sig og ganga í MÍR. Einhvern tímann heyrði ég að það væri enn til - ku reyndar nú heita Félag um menningartengsl Íslands og Rússlands. Í stað Ráðstjórnarríkjanna.

Ég kom einu sinni í húsakynni hins gamla MÍR. Mætti þangað sem unglingur að tefla við Mikhail Tal. Þann mikla skáksnilling. Hann stútaði mér í ca. 22 leikjum. Það gengur svona. Man hvað Rússarnir reyktu svakalega.
Svo verð ég líka nefna að ekkert vodka jafnast á við rússnesk gæðavodka. Uppáhaldið er auðvitað Russian Standard, sem jaxlinn hann Roustam Tariko framleiðir. Hann er svalur.
PS: Kannski er þetta bara útsmogin strategía hjá Dabba og Seðlabankanum. Með tilkynningunni er pikkað í báðar lufsurnar sitt hvoru megin Atlantshafsins. Yfirlýsingin segir "vinum" okkar á meginlandinu að koma með gott lán strax - eða skammast sín ella um alla framtíð. Og "vinir" vorir vestanhafs fá áminningu um að þeir ættu kannski að bregðast vel við vandræðum Íslands. Ef þeir vilja ekki sjá rússneskan base á Miðnesheiði. Já - alltaf gaman að samsæriskenningunum.
![]() |
Seðlabankinn fær lán frá Rússlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.10.2008 | 17:28
Hamar, sigð og dramatík
Nú hef ég verið að hlusta á Alþingismenn í 1. umræðu um hið dramatíska frumvarp, sem virðist stefnt að algerri ríkisvæðingu íslenska bankakerfisins. Og minnist "Glitnislógósins", sem ég notaði hér með færslu fyrr í morgun.

Annars er þetta líklega versta PR sem ég hef nokkru sinni kynnst. Forsætisráðherra flytur ræðu, sem gefur það eitt í skyn að Ísland kunni að standa frammi fyrir algeru efnahagslegu hruni. Og boðar einhverjir loðnar og ótilteknar aðgerðir ríkisins.
Svo er loks hálftíma síðar kynnt frumvarp, sem segir allt og um leið ekkert. Stendur til að ríkið eignist allar íslenskar fjármálastofnanir strax á morgun og hlutafé í þeim sé orðið verðlaust? Mjög einkennilegt að ekki sé jafnhliða kynnt hvað nákvæmlega standi til.
Á bloggi Egils Helgasonar sá ég þessa athugasemd nú áðan: "Þeir fengu bankana fyrir lítið. Og það tók þá fimm ár að eyðileggja þá."

Annars er nokkuð sérkennilegt þegar menn segja að enginn hafi getað séð fyrir þessar aðstæður. Í viðtali í sjónvarpinu áðan sagði viðskiptaráðherrann nánast orðrétt að enginn maður hefði ímydað sér að þessi staða gæti komið upp. Þetta er hreinasta rugl. Um það væri hægt að skrifa langa ritgerð - og verður eflaust gert í framtíðinni. Ég læt hér nægja að minna á varnaðarorð hagfræðingsins Nouriel Roubini. Það sem gerst hefur undanfarna daga er einfaldlega það sem Roubini spáði afdráttarlaust fyrir löngu. Og lýsti t.d. nokkuð vel í plagginu "The Rising Risk of a System Financial Meltdown - the 12 Steps to Financial Disaster".
Eini munurinn er sá að hér á landi var fjármálakerfið enn verr búið til að takast á við vandann. Vanda sem var fyrirséður. En bæði Seðlabankinn og bankarnir lokuðu augunum.
Lesa má um þróunina, sem Roubini sá fyrir, víða á Netinu. Sjá t.d. hér: http://media.rgemonitor.com/papers/0/12_steps_NR
PS: Orkublogginu hefur borist til eyrna að stofnuð hafi verið samtökin "Málverkin heim".
![]() |
Gengi krónunnar veiktist um 11,65% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.10.2008 | 22:16
Billjón tonn hjá Billiton?
Nú stefnir í að álverið í Straumsvík skipti enn einu sinni um eiganda. Þ.e. að ofurfyrirtækið BHP Billiton eignist Rio Tinto - og þar með Straumsvíkurverið. Ásamt dálitlu fleiru, sem er í hinu geggjaða eignasafni Rauðármanna.

Í þá góðu gömlu daga var eitt álver á Íslandi. Álverið! Sem byrjað var að reisa draumaárið 1966 - fæðingarár þess sem hér párar. Ekki skrítið þó ég sé alltaf soldið skotinn í áli. Verið var staðsett í Straumsvík og í eigu svissneska fyrirtækisins og "auðhringsins" Alusuisse. Um leið rættust loks gamlir orkudraumar Einars Benediktssonar, með stofnun Landsvirkjunar og virkjun Þjórsár (Búrfellsvirkjun).
Hér heima var álverið rekið undir fyrirtækjanafninu Íslenska álfélagið. Upphaflega álverið í Straumsvík þætti ekki merkilegt í dag. Fyrsti áfanginn mun hafa verið skitin 30 þúsund tonn eða svo. Og framleiðslugetan rúmlega helmingi meiri eftir annan áfanga. Á árunum 1980-1997 var framleiðslugetan um 100 þúsund tonn. Sem kunnugt er getur álverið nú framleitt um 185 þúsund tonn árlega.
Eftir nokkrar breytingar á eignarhaldi komst Alusuisse í eigu kanadíska álfyrirtækisins Alcan árið 2000. Saga Alcan er löng og merkileg. Auk þess að reka álver stundar Alcan báxítvinnslu víða um heim.

Seint á síðasta ári (2007) var Alcan keypt af risafyrirtækinu Rio Tinto Group. Fyir litla 38 milljarða USD, sem mörgum þótti all hressilegt. Alcoa vildi reyndar líka eignast Alcan, en bauð "einungis" 28 milljarða dollara. Því fór svo að til varð Rio Tinto Alcan, sem er álarmur þessa námu- og iðnaðarrisa. Annars hefði kannski orðið til Alcoalcan.
Spurning hvort Rio Tinto hafi hugsanlega greitt full mikið fyrir bitann? Svona í upphafi niðursveiflu, sem gæti dregið úr eftirspurn eftir málmum. Og sé hugsanlega að lenda í fjárhagskröggum vegna kaupanna?
Rio Tinto Alcan er með aðalstöðvar sínar í Montreal í Kanada og er eitt af þremur stærstu álfyrirtækjum í heimi. Hin tvö eru auðvitað annars vegar Íslandsvinirnir í Alcoa og hins vegar ljúflingarnir hjá rússneska kvikyndinu Rusal. Rusal er rússneski risinn, sem hann Chelsea-Abramovich átti m.a. þátt í að stofna. Í rússnesku einkavinavæðingunni á síðasta áratug liðinnar aldar. Fjárans klúður að íslenska ríkið skyldi hvorki eiga Straumsvíkurverið né Norðurál í Hvalfirði. Hefði geta orðið skemmtileg einkavæðing! Ekki annað hægt en að sleika út um við tilhugsunina.

Já - Rio Tinto og Alcoa kepptust um Alcan. Og Alcoa tapaði þeim bardaga. En það skemmtilegasta er auðvitað það að eitt sinn í árdaga voru Alcan og Alcoa eitt og sama fyrirtækið. Þannig að Straumsvík og Reyðarál eru í reynd fjarskyldir ættingjar. Þó svo þau séu væntanlega svarnir óvinir í dag.
Þessi tvö af þremur stærstu álfyrirtækjum heimsins eru sem sagt bæði afsprengi sama snillingsins. Sá er bandaríski uppfinningamaðurinn og frumkvöðullinn Charles Martin Hall. Hall (1863-1914) var einn af tveimur mönnum, sem á nánast sama tíma fundu upp samskonar aðferð til að vinna ál úr málmblöndu (súráli) með hjálp rafmagns. Hinn var Frakkinn Paul Héroult (1863-1914).

Þessir tveir snillingar fæddust sama ár - og létust líka sama ár. Svolitið dularfullt og kannski hugmynd að Arnaldur Indriðason noti það í næsta þrillerinn sinn. Álvinnsluaðferðin er kennd við þá báða; Hall-Héroult aðferðin. Uppfinning þeirra er enn sá grunnur sem notaður er við álframleiðslu í dag. Myndin hér til hliðar er af Hall, sem er sagður hafa verið kominn á kaf í efnafræðitilraunir strax á barnsaldri.
Hall stofnaði Pittsburgh Reduction Company og hóf fyrirtækið álframleiðslu árið 1888. Viðskiptafélagi Hall var framsýnn, bandarískur bissnessmaður. Sá hét Alfred Hunt (1855-1899) og hefði líklega orðið einn að helstu iðnjöfrum heimsins ef hann hefði ekki látist langt um aldur fram.
Fyrirtæki þeirra félaganna byggði nokkrar álverksmiðjur í Pennsylvaníu og víðar. Og skömmu eftir aldamótin var nafninu breytt í Aluminum Corporation of America - og síðar stytt sem Alcoa.

Eitt af dótturfyrirtækjum Alcoa nefndist Alcan. Það má rekja til þess að Alcoa stofnaði Aluminum Company of Canada. Sbr. hlutabréfið hér til hliðar. Alcan var sem sagt Kanada-armur Alcoa.
Allan fyrri hluta 20. aldar hafði Alcoa 100% markaðshlutdeild á bandaríska álmarkaðnum. Sem leiddi til einhvers frægasta samkeppnismáls þar í landi. Álmarkaðurinn óx hratt og að því kom að bandarískum stjórnvöldum ofbauð einokunarstaða Alcoa. Skömmu fyrir upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari var fyrirtækið kært fyrir ólögmæta einokun. Dómsmálið tók mörg ár og var afar umdeilt. Margir töldu Alcoa fórnarlamb eigin velgengni - fyrirtækið gæti ekki að því gert að ekkert annað álfyrirtæki gæti keppt við þá tæknilega séð. Þetta minnir kannski svolítið á stöðu Microsoft í dag.
Réttarhöldin urðu bæði löng og ströng. Stóðu yfir í meira en hálfan áratug og lengi vel leit út fyrir sigur Alcoa. En lokaorðið hafði dómari að nafni Learned Hand (mætti etv. útleggjast sem Lærða Hönd!). Þetta er einhver þekktasti og jafnframt umdeildasti dómurinn í bandarísku samkeppnismáli.

Málið kom til kasta Learned Hand eftir að flestir dómarar í Hæstarétti Bandaríkjanna höfðu lýst sig vanhæfa. Hand byggði niðurstöðu sína á því að hann taldi Alcoa hafa beitt sér í því skyni að koma í veg fyrir mögulega framtíðarsamkeppni. Margir hafa gagnrýnt niðurstöðuna. Það er staðreynd að ný álfyrirtæki voru að koma fram á sjónarsviðið og ekki varð séð að Alcoa hefði aðhafst neitt gegn þeim. Nýju álverin voru reyndar einkavædd álver, sem stjórnvöld höfðu byggt í stríðinu, og Alcoa fékk ekki að kaupa þrátt fyrir að tæknin kæmi frá þeim.
Kannski stóð mat Hand's á veikum grunni. Orkubloggið ætlar ekki að kveða upp úr með það. En hann Learned Hand þykir engu að síður einn merkasti dómari sem Bandaríkin hafa átt. Þó svo aldrei yrði hann hæstaréttardómari. Í kjölfar dómsins varð Alcan sjálfstætt fyrirtæki árið 1950 og ekki lengur í eigu Alcoa. Tækniframfarir á 6. áratugnum urðu svo til þess að ný álfyrirtæki náðu að vaxa og skapa nýja samkeppni i áliðnaðinum.
Enn sem fyrr eru Alcoa og Alcan meðal stærstu álrisanna. Reyndar mátti litlu muna, að árið 2007 væri saga Alcoa og Alcan komin í hring. Þá gerði Alcoa tilraun til að eignast Alcan á ný og ætlaði sér þannig að koma á fót stærsta álfyrirtæki í heimi. En Rio Tinto hafði betur, eins og lýst var hér að ofan. Og eignaðist Alcan - og álverið í Straumsvík. Skemmtilegt.

Og þá er komið að ofurrisanum; BHP Billiton. Nú vill BHP Billiton eignast Rio Tinto. Með húð og hári. Og þar með Alcan. Og Straumsvík. Þetta yrði reyndar gert með hlutabréfaskiptum.
BHP Billiton er einfaldlega eitthvert stærsta námafyrirtæki í heimi. Þar ræður ríkjum ljúflingurinn Marius Kloppers, sem var skipaður forstjóri fyrirtækisins á síðasta ári, aðeins 44 ára. Gaman að segja frá því að áður var Kloppers í vinnu hjá Suður-Afríska fyrirtækinu Sasol. Sem Orkubloggið hefur áður sagt frá og er eitt af þeim fyrirtækjum, sem eru að skoða nýja möguleika í eldsneytisframleiðslu.
Enn er ekki útséð um það hvort BHP Billiton eignist Rio Tinto Group. Stjórn Rio Tinto hefur staðið gegn sameiningunni, en engu að síður hafa samkeppnisyfirvöld í Ástralíu og Evrópusambandinu skoðað málið. Menn hafa ekki síst áhyggjur af því að sameining þessara tveggja námurisa gefi þeim samkeppnishamlandi aðstöðu í járngrýtisiðnaðinum.

Í dag eru þrjú fyrirtæki lang stærst í þeim bransa. Og eru samtals með um 70-75% markaðshlutdeild. Þetta eru BHP Billiton með 15%, Rio Tinto með 25% og brasilíska námatröllið Vale do Rio Doce með 30-35% (glöggir lesendur Orkubloggsins kannast við þetta brasilíska kompaní, frá eldri færslu).
Horngrýtis járngrýtið. Vandamál samkeppnisyfirvalda er að ákveða hvort það sé betra eða verra fyrir samkeppnina að einn eða tveir járnrisar berjist við snaróða Brasilíumennina. Sem sagt; tveir stórir eða þrír stórir - hvort er betra?
Reyndar er verið að hvísla að manni núna, að á morgun verði bara tveir bankar á Íslandi. Skyldi Samkeppnisstofnun vera með á næturfundum í Ráðherrabústaðnum? Á meðan við bíðum eftir fréttum þaðan, bíða stálframleiðendur um allan heim skjálfandi á beinunum eftir því hvort samkeppni járnframleiðenda eigi enn eftir að minnka. Það er svo sannarlega vandlifað víðar en á Klakanum góða nú um stundir.
![]() |
Heimila samruna BHP Billitons og Rio Tinto |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 10.10.2008 kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.10.2008 | 09:52
Mikil gleði í Mosdalnum

Rétt eins og forstjóra kjarnorkuversins fallega í Springfield, Mr. Burns, gleður það mitt svarta hjarta að álverin á Íslandi skulu nú hafa fengið þennan góða ríkisstyrk. Ókeypis losunarheimildir upp á rúm 700 þúsund kolefniskredit. Enda vart hægt að ætlast til þess að smásjoppur eins og Alcoa, Century Aluminum eða Rio Tinto þurfi að borga fyrir koldíoxíðlosunina. Svona til samanburðar má sjá hvað kolefniskreditin hafa verið seld á annars staðar í Evrópu síðustu vikurnar. Á grafinu hér til hliðar. Verðið er i evrum pr. tonn.

Rio Tinto er stærsti álframleiðandi heims og Alcoa er í þriðja sæti (Rusal er þarna á milli). Og CO2 er nú einu sinni lífsnauðsynlegt fyrir ljóstillífun. Sem endar svo á súrefnisframleiðslu til handa okkur og öðrum dýrum náttúrunnar. Eiginlega ættum við að borga þeim fyrir þessi góðverk, að losa svona mikið koltvíildi lífríkinu til handa.
Hluthafar Alcoa, Rio Tinto og Century Aluminum ættu nú samt að hafa eitt í huga. Og um leið jafnvel hugsa hlýlega til okkar Íslendinga. Á markaðnum er verðmæti þessara losunarheimilda, sem fyrirtækin hafa nú fengið afhentar, rúmar 16 milljón evrur. Miðað við gengi gærdagsins á evrópska kolefnismarkaðnum í London.
Það jafngildir um 2,4 milljörðum af íslenskum krónuræflum. Þar af fékk Norðurál sem samsvarar verðmæti 1,8 milljarða króna. Býst við að þeir setji eitthvað af þeim fjármunum í... t.d. uppbyggingu á metanólframleiðslu á Íslandi. Og hananú. Þá væri kerfið a.m.k. að gefa eitthvað vitrænt af sér.

Já - þetta var fallega gert af henni Siggu bekkjarsystur minni úr lagadeild og öðrum í Úthlutunarnefnd losunarheimilda. Og það er aldeilis fínn bisness að byggja álver á Íslandi. Ókeypis losunarheimildir og ríkisstyrkt orkuframleiðsla. Mér er sagt að þetta kallist íslenskur kapítalismi. Og nú síðast höfum við á ný fengið okkar eigin ríkisbanka. Marteinn Mosdal hlýtur að vera himinlifandi. Jafnvel enn glaðari en Mr. Burns.
Svona til gamans má nefna að í Bandaríkjunum - landinu sem ekki er aðili að Kyoto-bókuninni og ber þar af leiðandi engar lagalegar skuldbindingar til að stýra losun á CO2 eða öðrum s.k. gróðurhúsalofttegundum - var einmitt verið að halda fyrsta uppboðið á losunarheimildum.
Þar á uppboðinu á vegum Regional Greenhouse Gas Initiative, voru í síðustu viku seld 12,5 milljón kolefniskredit á samtals 38,5 milljón USD. Sem gera um 3 dollara fyrir tonnið. Það er auðvitað miklu lægra verð en er í Evrópu (úps - ég meina í Evrópu utan Íslands). Enda um að ræða markað sem ekki er háður alþjóðlegum reglum. Samt enn betra að vera á Íslandi. Þar sem stöffið fæst frítt.

PS: Lesa má um bandariska kolefnislosunarkerfið og uppboðið hér: www.rggi.org
![]() |
Þrjú fyrirtæki fá losunarheimildir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.9.2008 | 20:23
Kviksyndi

Orkubloggið hefur auðvitað alltaf rétt fyrir sér. Eins og þegar bloggið hafnaði því að olíuverðið gæti farið undir 100 USD tunnan. Með þeim ljúfa fyrirvara, að ef það myndi gerast, þýddi það einungis eitt: Að djúp kreppa væri að skella á Bandaríkjunum.
Tunnan var undir hundraðinu í morgun. En er nú... að slefa í 101 dollar. Fáránlega lágt verð. Enda allt að fara fjandans til þarna fyrir westan. Skemmtilegast væri auðvitað ef Bandaríkjamenn kjósa Alaskabeibið fyrir forseta (McCain tórir varla lengi). Þá myndu villtustu blautu draumar olíufyrirtækjanna loksins rætast. Hún Sarah Palin frá krummaskuðinu Wasilla, vill nefnilega láta bora sem allra víðast í Alaska. Og ekkert náttúruverndarkjaftæði. God bless America.
Nú reynir á hvort Bandaríkjaþingi takist að henda út björgunarhringnum. Sem mun líklega tryggja að olían fari aftur vel yfir 100 dollara múrinn. Svo olíufyrirtækin geti fagnað á ný. En allt er þetta auðvitað gert til að vernda almenning. Rétt eins og björgun Glitnis.
Svo virðist sem íslenski fjármálageirinn sé jafnvel lentur i enn verra kviksyndi en sá bandaríski. Og kviksyndin leynast víða. Ef olían sekkur, mun endurnýjanlega orkan líka sökkva. Því það verður einfaldlega vonlaust fyrir vindorku eða sólarorku að keppa við 50 dollara olíutunnu.
Og reyndar eru ölduvirkjanirnar strax byrjaðar að sökkva. Í orðsins fyllstu merkingu. Það fór nefnilega svo að flotta risabaujan þeirra hjá Finavera Renewables barrrasta sökk eins og steinn. Niður a botn Kyrrahafsins. Þar fóru 2 milljónir dollara í súginn. Soldið spælandi.

Reyndar er þetta kannski heldur kjánaleg tenging hjá Orkublogginu. Því óhappið hjá Finavera hefur nákvæmlega ekkert með kreppu að gera. Og gerðist þar að auki í september... fyrir ári!
Fyrirtækið Finavera Renewables í Vancouver í Kanada hefur gert það nokkuð gott í vindorkunni. Og hefur einnig verið að þreifa fyrir sér með þróun ölduvirkjana. Nú síðast hafa þeir verið að hanna ölduvirkjun, sem á að samanstanda af nokkrum risastórum hólkum í sjónum. Sem stinga kollinum upp úr, eins og sjá má á myndinni.
Það er súrt í broti að horfa á hina yfirþyrmandi orku hafsins fara í súginn. Í stað þess að virkja hana. Menn hafa auðvitað reynt það með ýmsu móti. Bæði með sjávarfallavirkjunum og virkjunum sem nýta ölduorkuna eða öllu heldur orkuna í hreyfingu hafsins.

Hjá Finavera hafa þeir hannað þennan hólk, sem er um 25 m langur og flýtur lóðréttur í sjónum. Í hólknum er sjór og þegar hólkurinn hreyfist upp og niður vegna hreyfingar hafsins, myndast þrýstingur. Þegar hann nær ákveðnu marki spýtist sjórinn eftir röri og knýr túrbínu.
Það er eitthvað við þessar ölduvirkjanir sem mér finnst ekki alveg nógu traustvekjandi. En aðrir trúa á þessa tækni. Enda orkan þarna óþrjótandi og gjörsamlega laus við mengun eða neikvæð umhverfisáhrif. Markmiðið er að hver "orkubauja" geti framleitt 250 kW (0,25 MW). Til stendur að virkjun samanstandi af slatta af svona orkubaujum, sem kallaðar eru Aquabuoy, og verði samtengdar.

Orkudreifingarfyrirtækið Pacific Gas & Electric í Kaliforníu hefur samið við snillingana hjá Finavera um að kaupa orkuna frá þeim. Og virkjunin á að vera tilbúin 2012. Í fyrrasumar var tilraunabauju komið fyrir út af strönd Oregon. En þvi miður fór það svo að þessi 40 tonna baujuskratti einfaldlega sökk eftir aðeins tvo mánuði. Líklega út af bilun í flotholtum. Og þá hafði enn ekki náðst 250kW framleiðsla.
Lítið hefur heyrst af Aquabuoy síðan þá. En ef menn vilja vera með í þessu, þá má kaupa hlutabréf í Finavera í kauphöllinni í Toronto. Eins og sjá má eru bréfin nánast ókeypis þessa dagana. Grafið hér að ofan sýnir verðþróunina siðustu 12 mánuðina.
Hér er loks kynningarmyndband um þetta ævintýri. Sem vonandi rætist:
![]() |
Fréttaskýring: Klúður í kappi við tímann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2008 | 18:35
Úr öskustónni...
Þetta er óneitanlega búin að vera mikil dramatík síðustu dagana í islenska fjármálakerfinu. Nú er bara að sjá hvort þessir 84 milljarðar ISK, sem ríkið setur í Glitni, brenni líka upp. Því fjármálakreppan er langt í frá búin. Rétt í þessu var Bandaríkjaþing að fella frumvarpið um innspýtingu ríkisins þar. Úff, úff.
En hvað tekur við á Klakanum góða? Áttum við ekki að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð? Verðum við nú barrrasta að halda áfram í álinu og slorinu? Hver skollinn.

Orkubloggið er að sjálfsögðu með svarið. Hér á blogginu hefur mikið verið fjallað um vöxtinn sem á eftir að verða næstu árin um allan heim í endurnýjanlegri orku. Orkubloggið hefur einnig minnt á að þessi gríðarlegi vöxtur í t.d. vindorku og sólarorku er bara hreinir smámunir í heildarorkudæminu. Það sem máli skiptir næstu áratugina er sem fyrr; olía, gas og kol. Og kjarnorka. Hitt stöffið er bara peanuts.
Staðan er einfaldlega þessi: Það sem þarf að gera er að brúa bilið milli núverandi orkugjafa og orkugjafa framtíðarinnar. Umbreytingin frá brennslu jarðefnaeldsneytis yfir í græna orku verður bæði tímafrek og kostnaðarsöm. Brúin þarna á milli gæti falist í því að nýta kolefnislosunina til að framleiða eldsneyti. Í dag er nefnilega til staðar tækni til að umbreyta koldíoxíði yfir í fljótandi eldsneyti, sem hentar t.d. skipum og bílaflotanum. Og í dag er unnt að nýta þessa tækni til að framleiða slíkt eldsneyti á samkeppnishæfu verði. Svo sem með framleiðslu á metanóli eða DME (dimethyl ether).

Þetta er engin framtíðarmúsík. Heldur raunverulegur valkostur. Auðvitað hljóta menn að spyrja af hverju í ósköpunum þetta hefur þá ekki löngu verið gert? Svarið er einfaldlega það að til að fyrirtæki fjárfesti í framleiðslu á þessu eldsneyti, þarf ríkisvaldið fyrst að huga að öllu skatta- og rekstrarumhverfinu. Allur orkugeiri heimsins er í viðjum ríkisafskipta. Flest ríki t.d. í Asíu eyða svimandi fjárhæðum til að niðurgreiða bensín og olíu til almennings og fyrirtækja. Í Bandaríkjunum, mesta orkubruðlara heimsins, nýtur olíugeirinn sérstaks velvilja. Meðan endurnýjanlegi orkugeirinn þarf ár eftir ár að berjast fyrir smávægilegum skattalækkunum sér til hagsbóta.
Þetta snýst sem sagt allt um pólítiskan vilja. Nú er einstakt tækifæri fyrir íslenska stjórnmálamenn að gera eitthvað af viti. Og setja löggjöf sem hvetur til fjárfestinga í metanólframleiðslu. Bæði Hitaveita Suðurnesja og Century Aluminum eru að skoða þessa möguleika. Nú ætti Össur iðnaðarráðherra vor að taka af skarið og smella fram frumvarpi, sem fær Ísland til að rísa úr öskustó efnahagshruns. Og gera Ísland nánast óháð innfluttum orkugjöfum. Það er nánast öruggt að ESB myndi hrífast með. En þar á bæ þurfa menn góða fyrirmynd. Svo þeir trúi að hugmyndin sé framkvæmanleg. Ísland getur orðið sú fyrirmynd.
![]() |
Baksvið: Gömlu einkabankarnir ríkisvæðingu að bráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)