Úr öskustónni...

Þetta er óneitanlega búin að vera mikil dramatík síðustu dagana í islenska fjármálakerfinu. Nú er bara að sjá hvort þessir 84 milljarðar ISK, sem ríkið setur í Glitni, brenni líka upp. Því fjármálakreppan er langt í frá búin. Rétt í þessu var Bandaríkjaþing að fella frumvarpið um innspýtingu ríkisins þar. Úff, úff.

En hvað tekur við á Klakanum góða? Áttum við ekki að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð? Verðum við nú barrrasta að halda áfram í álinu og slorinu? Hver skollinn.

Dimethyl-ether

Orkubloggið er að sjálfsögðu með svarið. Hér á blogginu hefur mikið verið fjallað um vöxtinn sem á eftir að verða næstu árin um allan heim í endurnýjanlegri orku. Orkubloggið hefur einnig minnt á að þessi gríðarlegi vöxtur í t.d. vindorku og sólarorku er bara hreinir smámunir í heildarorkudæminu. Það sem máli skiptir næstu áratugina er sem fyrr; olía, gas og kol. Og kjarnorka. Hitt stöffið er bara peanuts.

Staðan er einfaldlega þessi: Það sem þarf að gera er að brúa bilið milli núverandi orkugjafa og orkugjafa framtíðarinnar. Umbreytingin frá brennslu jarðefnaeldsneytis yfir í græna orku verður bæði tímafrek og kostnaðarsöm. Brúin þarna á milli gæti falist í því að nýta kolefnislosunina til að framleiða eldsneyti. Í dag er nefnilega til staðar tækni til að umbreyta koldíoxíði yfir í fljótandi eldsneyti, sem hentar t.d. skipum og bílaflotanum. Og í dag er unnt að nýta þessa tækni til að framleiða slíkt eldsneyti á samkeppnishæfu verði. Svo sem með framleiðslu á metanóli eða DME (dimethyl ether). 

Carbon_Recycle

Þetta er engin framtíðarmúsík. Heldur raunverulegur valkostur.  Auðvitað hljóta menn að spyrja af hverju í ósköpunum þetta hefur þá ekki löngu verið gert? Svarið er einfaldlega það að til að fyrirtæki fjárfesti í framleiðslu á þessu eldsneyti, þarf ríkisvaldið fyrst að huga að öllu skatta- og rekstrarumhverfinu. Allur orkugeiri heimsins er í viðjum ríkisafskipta. Flest ríki t.d. í Asíu eyða svimandi fjárhæðum til að niðurgreiða bensín og olíu til almennings og fyrirtækja. Í Bandaríkjunum, mesta orkubruðlara heimsins, nýtur olíugeirinn sérstaks velvilja. Meðan endurnýjanlegi orkugeirinn þarf ár eftir ár að berjast fyrir smávægilegum skattalækkunum sér til hagsbóta.

Þetta snýst sem sagt allt um pólítiskan vilja. Nú er einstakt tækifæri fyrir íslenska stjórnmálamenn að gera eitthvað af viti. Og setja löggjöf sem hvetur til fjárfestinga í metanólframleiðslu. Bæði Hitaveita Suðurnesja og Century Aluminum eru að skoða þessa möguleika. Nú ætti Össur iðnaðarráðherra vor að taka af skarið og smella fram frumvarpi, sem fær Ísland til að rísa úr öskustó efnahagshruns. Og gera Ísland nánast óháð innfluttum orkugjöfum. Það er nánast öruggt að ESB myndi hrífast með. En þar á bæ þurfa menn góða fyrirmynd. Svo þeir trúi að hugmyndin sé framkvæmanleg. Ísland getur orðið sú fyrirmynd.


mbl.is Baksvið: Gömlu einkabankarnir ríkisvæðingu að bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband