Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
14.8.2008 | 12:27
Snjófriðun og olían í Alaska
Olíuverðið hækkar nú á ný. Þrátt fyrir heldur slappar efnahagsfréttir frá Bandaríkjunum. Og þrátt fyrir að dollarinn hafi styrkst. Og þrátt fyrir að hægi á Evrópu. Það fer að verða nokkuð augljóst að Bandaríkjamenn verða að auka framleiðsluna. Og þá horfa menn annars vegar til þess að leyfa meiri boranir utan við ströndina. Og hins vegar til Alaska.

Hvort tveggja er mjög umdeilt þarna fyrir vestan. Í Alaska eru það náttúruverndarsjónarmið sem eru gegn olíuvinnslu. Og við strendurnar á "meginlandinu" hafa menn áhyggjur af mengun við mjög þéttbýl svæði. Í dag ætlar Orkubloggið að horfa til Alaska.
Núverandi forsetaframbjóðendur, þeir Obama og McCain, virðast eiga það sameiginlegt að hvorugur vill leyfa boranir innan náttúruverndarsvæðanna i Alaska. Til að svo verði mun þurfa nýjan Reagan í Hvíta húsið. Mann sem segir "America's economy first whatever it takes". En vonandi verður löng bið í að nýtt Reagan-Bush par komi fram í dagsljósið. Þar að auki er allsendis óvíst að einhver smá framleiðsluaukning í Alaska myndi hafa umtalsverð áhrif á verðið. "Hátt" olíuverð kann að vera komið til að vera - einfaldlega vegna þess að peak-oil sé náð.

Hverju gæti olíuvinnsla á þessu náttúruverndarsvæði skilað? Og hvaða svæði eru þetta? Í stuttu máli er þetta landsvæði nyrst í Alaska. Byrjað var að ræða um það á 6. áratugnum að vernda svæðið, sem þykir að mörgu leyti vera einstakt, ekki síst vegna fjölbreytts dýralífs og er einnig afar viðkvæmt fyrir t.d. mengun.
Fyrsta löggjöfin um verndun þess var samþykkt af Bandaríkjaþingi um 1960. Tuttugu árum síðar voru sett ný lög, sem stækkuðu friðlandið. Þar með varð þetta að stærsta verndaða víðerni innan Bandaríkjanna. Og þetta er svo sannarlega ósnortið svæði. Þarna eru t.d. engir vegir. Og einungis hægt að komast að svæðinu eftir Daltonveginum, sem liggur meðfram vesturhluta svæðisins og norður til Prudhoe-flóa.

Alls er náttúruverndarsvæðið um 80 þúsund ferkílómetrar. Sem samsvarar 80% af stærð Íslands. Landsvæðið sem rætt er um vegna olíuvinnslu er þó ekki nema hluti meðfram ströndinni - og er um 6.000 ferkílómetrar. Lögin frá 1980 heimiluðu tilteknar rannsóknir á því afmarkaða svæði, en eigi að hefja vinnslu þarf að fá samþykki Bandaríkjaþings. Þingið treysti m.ö.o. ekki forsetanum til að fá slíkt vald í hendur.
En jafnvel þó farið yrði á fullt í olíuvinnslu þarna norður við Beauforthaf, myndi það ekki hafa nein veruleg langtímaáhrif til lækkunar á verði. Né gera Bandaríkin óháðari innfluttri olíu svo nokkru næmi.

Bandaríska Orkumálaráðuneytið hefur áætlað að hámarksframleiðsla þarna myndi smám saman ná um 800 þúsund tunnum á dag. Og að það myndi taka 10 ár að ná því marki. Og eftir það myndi framleiðslan á svæðinu minnka á ný. Á myndinni hér til hliðar eru gefin þrjú mismunandi dæmi, eftir því hvort þarna myndi finnast lítið magn, meðal eða mikil olía.
Þessi vinnsla er álitin geta lækkað verðið á olíutunnunni um c.a. 1-2% eða svo. Jafnvel ekki nema hálft prósent. M.ö.o. að það sé varla þess virði að fara út í olíuvinnslu á þessu einstaka og viðkvæma svæði.
Einmitt þess vegna hvetja nú margir til þess að byggð verði ný kjarnorkuver í Bandaríkjunum. Vandinn með kjarnorkuverin, er að það tekur soddan óratíma að byggja þau. En það flýtir ekki fyrir að bíða með að fara af stað. Var þetta ekki mikil speki!
Ég er óttalegur virkjanakall. Get barrrasta ekki að því gert. Líklega arfleifð af því þegar maður stóð sveittur í gúmmístígvélunum með strákunum og stíflaði bæjarlækinn á Klaustri. Eftir úrhellisrigningar. Það var alltaf rosalega skemmtilegt. Og síðan þá hefur mér þótt vatnsaflsvirkjanir snilld. Því stærri - því flottari.

En eitt verð ég að viðurkenna. Alltaf þegar ég skoða myndir frá náttúruverndarsvæðunum í Alaska - þessu stórkostlega ósnortna víðerni - fer ég að skammast mín. Fyrir það að hafa verið sáttur við byggingu Kárahnjúkavirkjunar.
Eftir á að hyggja finnst mér nefnilega að við hefðum átt að nota tækifærið. Friða öll öræfin norðan Vatnajökuls. Það tækifæri kemur aldrei aftur. Því miður. Og mér finnst heldur lúið þegar menn skreyta sig með þeim fjöðrum að hafa átt þátt í að stofna stærsta þjóðgarð í Evrópu - sem aðallega er jökull. Frosinn snjór. Menn sem köstuðu á glæ einstöku tækifæri til að skapa einhvern glæsilegasta þjóðgarð i heimi. Og siguðu þess í stað skurðgröfunum á landið. Og friðuðu snjó.
![]() |
Hráolíuverð hækkar annan daginn í röð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 15.8.2008 kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2008 | 08:31
Prins Póló
Ólíkt höfumst við að. Meðan á Íslandi er talað um að taka upp evru þegar krónan hefur fallið, tala Pólverjar um að gjaldmiðillinn þeirra sé orðinn allt of sterkur og því best að taka upp evru.

Það eru líklega fyrst og fremst landbúnaðarstyrkirnir frá EB til Póllands, sem valda þessu. Ég held að í báðum þessum tilvikum sé umræðan jafn vitlaus. Menn eiga ekki að láta tímabundnar gengissveiflur ráða öllu um það hvort taka eigi upp evru. Það mál snýst um önnur og stærri grundvallaratriði, sem skoða verður í heildarsamhengi.
Vegna Prins Pólósins hef ég alltaf fundið til smá skyldleika við Pólverja. Þó svo stundum gleymi ég því að Prins sé pólskt - en ekki íslenskt! Hef aðeins einu sinni komið til Póllands og var þá viku í Varsjá. Og líkar ákaflega vel við Pólverja - einna best af öllum Evrópuþjóðunum satt að segja.

Það er reyndar svo að í Evrópu kann ég langbest við þjóðirnar í Austur-Evrópu. Eins og t.d. Tékka, Búlgara og auðvitað Pólverja. Og er sérstaklega minnisstætt hvernig kristin kirkja, moska og sýnagóga - allt mjög gamlar byggingar - standa í hnapp í sátt og samlyndi í miðborg Sófíu í Búlgaríu.
En aftur að Póllandi. Úr því að Orkubloggið minntist á Prins Pólo, verður auðvitað ekki hjá því komist að skoða hvaðan Pólverjar fá orkuna sína.
Rétt eins og Ísland þarf Pólland að flytja inn allt eldsneyti vegna samgangna. Eða nánast allt; það er örlítil olíuvinnsla í landinu. En þegar kemur að rafmagninu skilja leiðir Íslands og Póllands. Meðan rafmagnsframleiðsla á Íslandi er þekkt fyrir að koma svo til öll frá endurnýjanlegri orku, er allt annað upp á teningnum í Póllandi. Um 95% rafmagnsframleiðslu Pólverja kemur frá jarðefnaeldsneyti og lang mest frá kolaorkuverum. Enda mikið af kolanámum í Póllandi. En þetta er fjölmenn þjóð og þrátt fyrir alla kolavinnsluna þarf Pólland að flytja inn eldsneyti til rafmagnsframleiðslu.

Það litla hlutfall af pólska rafmagninu sem kemur frá öðru en kolum, er mest allt frá vatnsafli. Talsvert stórar vatnsaflsvirkjanir eru í landinu, enda þokkalega góðar virkjanaaðstæður í t.d. Karpatafjöllum og víðar í Póllandi. Líklega er framleiðslugeta vatnsaflsvirkjananna vel á þriðja þúsund MW. Sem samsvarar u.þ.b. þremur Karahnjúkavirkjunum.
Til framtíðar horfa Pólverjar til þess að auka notkun á jarðgasi. En um leið kæra þeir sig ekki um að verða háðir Rússum um orku. Þannig að kannski kemur að því að í Póllandi rísi kjarnorkuver. Sú umræða blossaði upp fyrir um tveimur árum. Og athyglisvert er að þar hefur ekki síst verið rætt um byggingu á veri, sem nýti þórín. Sem Orkubloggið hefur áður fjallað um.
Loks er vert að vekja athygli á því, að eitt stærsta fyrirtæki í Mið-Evrópu er einmitt pólskt olíufyrirtæki. Það heitir PKN Orlen og rekur olíuhreinsunarstöðvar og selur einnig olíu og bensín. Þannig að Íslendingar sem ferðast hafa um Pólland kannast væntanlega vel við bensínstöðvarnar þeirra og lógóið.

Orlen var auðvitað upphaflega í ríkiseigu, en var einkavætt eftir fall kommúnismans í Póllandi. Í dag starfar félagið líka í Þýskalandi, Tékklandi og Litháen.
![]() |
Vilja upptöku evru sem fyrst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2008 | 19:21
Hafið bláa

Fyrir all mörgum árum kynntist ég siglingum. Og viti menn - ég snarféll fyrir þessari frábæru íþrótt og útiveru. Þó svo ég sé alger aumingi á sjó (hlægilega sjóveikur!). En reyndar er það svo, að einmitt þess vegna henta siglingar mér prýðilega - því sjóveikin er víðs fjarri meðan ekki er farið "undir þilfar".
En ég er hræddur um að draumurinn um langsiglingar í Suðurhöfum - í anda Kríunnar og hinnar frábæru vinkonu minnar hennar Unnar Jökulsdóttur - rætist því miður aldrei. Ég finn til ógleði, bara við tilhugsunina að vera ofaní káetu!
Reyndar varð siglingaáhuginn til þess að ég var, ásamt fleirum, einu sinni nærri búinn að kaupa eitt fremsta skútufyrirtæki í Skandinavíu. Ef ég man rétt hljóðaði tilboðið upp á u.þ.b. 50 milljón evrur. Á tímabili var þekktur íslenskur fjárfestir inní þessu dæmi. En guggnaði á þessu, svo við neyddumst til að leita annað. En því miður - eða kannski til allrar hamingju - vorum við yfirboðnir. Líklegt er að þessi starfsemi hafi átt afskaplega erfitt síðasta árið. En það hefði samt verið stuð.
En nú ætlar Orkubloggið að kíkja undir skúturnar. Og ofaní öldurnar. Og segja frá hreint magnaðri ölduvirkjanatækni, sem bloggið hefur ekki áður greint frá. Um aðrar tegundir af ölduvirkjunum má t.d. lesa hér: http://askja.blog.is/blog/askja/entry/590699/ Og hér er önnur færsla um dönsk ölduorkufyrirtæki: http://askja.blog.is/blog/askja/entry/592937/

Í dag ætlar Orkublogguð að beina sjónum að skoska fyrirtækinu Aquamarine Power. Og hinu magnaða tæki þeirra, sem kallað er Ostran (the Oyster).
Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar, er þetta eins konar samloka sem stendur á hafsbotninum nálægt landi (á um 10 m dýpi). Hæðin er um 12 m og breiddin um 18 m. Og tæknin felst í því að hreyfing hafsins hreyfir vængina eða flapsana fram og til baka. Þessi hreyfing knýr eins konar pumpu sem pumpar sjó af afli inn í rör. Rörið liggur frá tækinu og í land. Þangað kemur bunan af miklu afli og knýr túrbínu.

Framleiðandinn fullyrðir að þetta sé áreiðanlegt og viðhaldslítið apparat. Hvert þeirra á að geta framleitt um 2,5 MW og heppileg heildarstærð svona orkuvers er talin vera ca. 25 MW. Sem gera u.þ.b. 10 tæki. Kannski upplagt að setja svona niður utan við Seltjarnarnes?
Til stóð að reyna þessa tækni nú í sumar við Orkneyjar. Því miður verður Orkubloggið að lúta í gras og viðurkenna að bloggið hefur ekki fengið staðfestingu á því að byrjað sé að láta reyna á prótótýpuna. En það var a.m.k. verið á fullu að smíða þetta snilldar apparat í vetur. Ölduorkufyrirtækin fullyrða að þessi tegund orku muni í framtíðinni skila allt að 10% af allri rafmagnsframleiðslu i heiminum. Þar er ansið langt í land. En alltaf gott að vera bjartsýnn.

Breska fjárfestingafyrirtækið Sigma Capital setti 1,5 milljón bresk pund í þetta öldurót og "ostruævintýri" í fyrra. Þar kemur til sjóður þeirra Sigma-manna, sem fjárfestir í endurnýjanlegri orku. Alltaf gaman þegar flott venture er tilbúið í svoleiðis. Rétt eins og allir áhættufjárfestarnir íslensku. Geisp.
![]() |
Poppstjarna sigldi til sigurs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 14.8.2008 kl. 06:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.8.2008 | 11:33
Norskt þórín
Olían hækkaði í gær. En ég get lofað því að staða mála í Georgíu hefur þar engin áhrif. Þeir atburðir eru löngu komnir inní verðið. Líklega er hin raunverulega ástæða verðhækkunarinnar, grunur um að birgðastaðan í Bandaríkjunum hafi lækkað. Kemur í ljós eftir nokkra klukkutíma.
En í dag ætlar Orkubloggið að loks að ljúka umfjöllun um ráðagerðir í Noregi um að reisa þórín-kjarnorkuver.
Eins og allir vita eiga Norðmenn ógrynni af olíu, gasi og vatnsafi. Sönn orkuþjóð. Það sem kannski færri vita er að Norðmenn standa líka framarlega í kjarnorkurannsóknum. Þeir voru í fararbroddi í framleiðslu á þungavatni, sem síðar varð einn af lykilþáttunum í kjarnorkuvinnslu. Hér gæti Orkubloggið auðveldlega gleymt sér í því að lýsa dásemdum þess hvernig þungavatn er notað. En forðumst það í bili. Þess í stað skulum við beina athyglinni að því, að hugsanlega verða Norðmenn í fararbroddi nýrrar kjarnorkutækni. Sem mun byggja á þóríni í stað úrans. Tækni sem hefur marga jákvæða kosti, eins og t.d. var lýst í færslunni "Þrumuguðinn"; http://askja.blog.is/blog/askja/entry/608681/

Í nærri 60 ár hefur nú verið rekin alþjóðleg kjarnorku-rannsóknastöð í Noregi. Í nágrenni við Lilleström. Og þar hefur verið byggður kjarnakljúfur, sem senn kann að verða notaður til að gera tilraunir með nýtt eldsneyti: Þórín.
Einnig var nýlega lokið við yfirgripsmikla athugun, á vegum norskra stjórnvalda, á því hvort Norðmenn eigi að setja enn meiri kraft í kjarnorkurannsóknir sínar. Og hreinlega byggja sérstakt þórín-kjarnorkuver. Niðurstaðan, sem birt var í febrúar s.l. (2008), var að enn væri of mikil óvissa um framtíðarmöguleika þóríns, sem kjarnorkueldsneytis. Þess í stað sé rétt að hefja vinnu við að kortleggja nákvæmlega þórínsvæðin í Noregi. Þórínbirgðir í Noregi eru áætlaðar með hinum mestu í heiminum og fyrsta skrefið sé að afla nákvæmari upplýsinga þar um.

Þannig að enn er nokkuð langt í að kjarnorkudraumurinn rætist í Noregi. En ekki er unnt að segja bless við norska þórínið, nema fyrst minnast á Norðmanninn Egil Lillestöl. Lærifaðir hans er einmitt ítalski eðlisfræðingurinn Carlo Rubbia. Sem Orkubloggið hefur áður minnst á. Egill þessi er einn harðasti talsmaður þess að Norðmenn eigi að verða frumkvöðlar í nýtingu þórín-tækninnar. Þetta sé eina tæknin sem að einhverju marki geti leyst af hólmi rafmagnsframleiðslu með olíu og kolum - með tiltölulega öruggum hætti. Og ekki sé eftir neinu að bíða!
Lillestöl er eðlisfræðiprófessor við Háskólann í Bergen og sérfræðingur hjá átómrannsóknastöðinni í CERN. Vísindamennirnir í CERN munu einmitt brátt setja af stað nýja hraðalinn sinn. Sbr. þetta alræmda myndband - sem sýnir hvernig hraðallinn kunni að valda heimsenda og gera jörðina að svartholi. Alltaf gaman að frumlegum heimsendaspám:
![]() |
Hráolían í tæpum 114 dölum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2008 | 20:57
Indversk fullorðinsleikföng
Nú er Baugur á leið með Hamleys til Indlands. Snilld ef íslenskt fyrirtæki getur náð í aura út á það að selja leikföng á Indlandi. Ekki síður sniðugt eru indversku fullorðinsleikföng framtíðarinnar. Þau eru, séð frá sjónarhóli Orkubloggsins, annars vegar vindtúrbínur og hins vegar ný tegund af kjarnorkuverum. Indverjar eiga nefnilega eitt öflugasta vindtúrbínu-fyrirtæki í heimi. Og standa hvað fremst allra þjóða í rannsóknum á betri kjarnorkutækni. Í dag ætlar Orkubloggið að beina athyglinni að því nýjasta í indverska kjarnorkuiðnaðinum.

Þegar talað er um efnahagsuppganginn á Indlandi er Kína gjarnan nefnt í sömu andrá. Þess vegna er athyglisvert að bera saman orkunotkun Kínverja og Indverja. Þá kemur í ljós að ef miðað er við höfðatölu notar Indverjinn miklu minni orku en Kínverjinn. Sem gæti bent til þess að orkunotkun Indverja eigi eftir að aukast mun hraðar en orkunotkunin í Kína.
Kínverjar hafa uppfyllt orkuþörf sína með því t.d. að reisa all mörg kolaorkuver, kaupa upp olíu víða um heim og eru nú að ljúka við stærstu vatnsaflsvirkjun í heimi. Sem veldur gríðarlegum umhverfisáhrifum. Aftur á móti byrjaði Kína seint að reisa kjarnorkuver - en Kinverjar eru nú með plön um mikinn fjölda nýrra kjarnorkuvera.
Rétt eins og Kína, þá framleiða Indverjar stærstan hluta raforku sinnar með kolaorkuverum (um 70%!). Indverjar eru að vísu rótgróin kjarnorkuþjóð og hafa lengi nýtt kjarnorku til rafmagnsframleiðslu. Með mjög góðum árangri. Í dag kemur um 3% rafmagnsframleiðslu Indverja frá kjarnorkuverum, sem er reyndar ekki mikið hærra hlutfall en í Kína (um 2%).

En Indverjar setja markið hátt. Þrátt fyrir stór plön um kjarnorkuuppbyggingu í Kína mun hlutfall kjarnorkunnar þar í rafmagnsframleiðslu varla verða meira en 4% eftir um áratug. Plön Indverja um rafmagnsframleiðslu með kjarnorku eru miklu metnaðarfyllri. Stefnt er að því að árið 2050 komi hvorki meira né minna en 25% raforkuframleiðslunnar á Indlandi frá kjarnorkuverum. Það er nánast óskiljanlegt hvernig Indverjum dettur í hug að þeir geti náð slíku markmiði. Í reynd mun það vart gerast nema Indverjum takist að þróa ný kjarnorkuver, sem nýta frumefnið þórín sem kjarnorkueldsneyti.
Orkubloggið hefur áður lýst því hvernig unnt kann að vera að nýta þórín í kjarnorkuver. Og hvernig það myndi gerbreyta kjarnorkuiðnaðinum. Indverjar stefna að því að fyrsta þórínverið, sem byggt er í tilraunaskyni, verði tilbúið 2010 og muni framleiða 500 MW. Og árið 2020 verði fjögur slík ver fullsmíðuð.
Ástæða fyrir áhuga Orkubloggsins á þessu sviði kjarnorkuiðnaðarins er einföld. Það er sú staðreynd að í næsta nágrenni okkar, í Noregi, er talið að mikið þórín sé að finna. Og að Noregur verði eitt allra stærsta útflutningsríki þóríns. Sem myndi að miklu leyti leysa úran af hólmi.

En er þetta raunveruleiki? Mun þórín geta leyst úran af hólmi. Ítalski eðlisfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Carlo Rubbia virðist sannfærður um að svo sé. Rubbia hefur verið lýst sem manni með jafn frjóan huga eins og hin sexí og frjóa (kjarnakleyfa) úransamsæta U 235. Og hann hefur trú á því að þóríntæknin verði senn nothæf, hagkvæm og útbreidd. Reyndar er Rubbia líklega einn af þeim fyrstu sem sá fyrir sér möguleikann á þessari tækni.
Og núna eru Norðmenn búnir að taka við þórín-keflinu. Og eru nýbúnir að gera mikla úttekt á því hvor þeir eigi hugsanlega að hefja bygging á kjarnorkuveri, sem nýti þórín. Kjarnorkuver eru ekki beint ódýrustu kvikindin að byggja. Og enn síður þegar menn eru að þróa nýja kjarnorkutækni. Þannig að þetta yrði dýrt og áhættusamt verkefni. En bara sú staðreynd að þórínið gefur 250sinnum meiri orku en sama magn af úrani, hljómar vel. Nú reynir á Norðmenn. Meira um þetta í næstu færslu.
![]() |
Baugur selur leikföng til Indlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 16.9.2008 kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2008 | 16:40
Herða orkusnöruna?
Orkubloggið hefur ítrekað minnst á alvarleika þess hversu Vesturlönd eru orðin háð innfluttri orku. Bráðum mun Rússland geta farið öllu sinu fram, án tillits til Evrópu. Og einfaldlega hótað því að skrúfa fyrir gasið, ef EB er með eitthvert múður.

Og ástandið kann að fara versnandi. Orkusnaran kann að herðast enn frekar að hálsi Vesturlanda. Nú eru Íranar, Alsírmenn og Rússar farnir að tala um að stofna eins konar gasOPEC.
Til eru ríkjasamtök gasseljenda, sem kallast GECT (Gas Exporting Countries Forum). Þau samtök eru gerólík OPEC og hafa ekkert samstarf um verð eða framboð á gasi. En nú vilja Íran og Alsír styrkja þessi samtök. Og það sem kannski er mest scary, er að Rússar hafa boðað til fundar í haust, í því skyni að láta þennan draum rætast.
Til að gefa hugmynd um ástandið á gasmarkaðnum er vert að nefna að fjórir stærstu gasútflytjendurnir eru Rússland, Kanada, Noregur og Alsír. Þessi fjögur ríki eru með rúmlega þriðjung af öllum gasútflutningi í heiminum. Hið fimmta í röðinni er svo einveldið Túrkmenistan.
Auðvitað er gott til þess að hugsa að Kanada og Noregur eigi mikið af gasi til útflutnings. Bandaríkin eru einnig meðal stærstu gasframleiðendanna, en nota stóran hluta þess sjálfir. Og þó svo Íranar séu eitt stærsta gasframleiðsluríki heims, þurfa þeir til allrar hamingju sjálfir að nota mestan hluta af þeirri framleiðslu sinni. Því þjóðin er afar fjölmenn (um 70 milljónir). Þannig að áhrif Írana á alþjóðlegum gasmarkaði eru ekki stórvægileg.
Annað gildir um Rússland, Túrkmenistan og Alsír. Öll þessi ríki flytja gríðarlega mikið gas til erlendra kaupenda (langstærsti kaupandinn að gasinu frá Túrkmenistan er reyndar rússneski gasrisinn Gazprom). Sameiginlegir framleiðslukvótar þessara þriggja ríkja, etv. ásamt nokkrum fleirum, gætu haft mjög veruleg áhrif til hækkunar a gasverði. Og ekki síður pólitísk áhrif í alþjóðastjórnmálunum.

Þessi hugmynd um gasbandalag í anda OPEC, mun fyrst hafa verið sett fram af Pútín fyrir um fimm árum. Nú á að fylgja hugmyndinni eftir - og því fagna bæði Alsír og Íran. Meðan Bandaríkin og EB hafa talað harðlega gegn því að slík samtök verði mynduð. En menn geta látið sig dreyma um að lönd eins og Rússland og Íran hlusti á EB!.
Kannski örlítið meiri von um að Alsír muni láta til leiðast að fallast á rök Evrópu gegn slíku gasbandalagi. Gegn því að fá enn meiri fjárfestingar til sín frá EB-löndunum. Það myndi skipta talsvert miklu máli ef Alsír væri hliðhollt Evrópu í gasmálunum. Alsír er með um 5% af öllum gasútflutningi í heiminum. Og er einn mikilvægasta gasbirgir EB.

Eins og staðan er í dag fá löndin í EB um helming af öllu innfluttu gasi sínu frá Rússlandi og líklega hátt í 25% frá Alsír (og mest af afgangnum frá Noregi). Þess vegna skiptir augljóslega gríðarmiklu máli að halda góðu sambandi við Alsír.
Þar að auki eykst þörf EB á innfluttu gasi hratt, aðallega vegna hnignandi gasframleiðslu í Norðursjó. Ef Alsír leggst undir gassæng með Rússum er ástandið orðið svart.
Ég er nokkuð bjartsýnn á að tengsl Evrópu og Alsír eigi eftir að styrkjast. Það er nefnilega líka mikilvægt fyrir Alsír að vera í nánum tengslum við EB. Þegar upp er staðið, er ekki ólíklegt að Alsír velji sjónarmið Evrópu fram yfir það að bindast nánari viðskiptasamböndum við Íran og Rússland. Síðustu ár hafa viðskipti á milli EB og landanna í N-Afríku vaxið nokkuð hratt og tengslin þarna á milli aukist.
Þar að auki er gas ólíkt olíu - menn fara nefnilega ekki létt með að geyma mikið af gasi til lengri tíma. Þegar búið er að ná gasinu upp verður seljandinn að losna við það, ef svo má segja. Þannig að vandasamara er að stjórna verði á gasi, heldur en á olíu. Og kaupi Evrópa ekki gasið af Alsír, er um nokkuð langan veg að fara til að koma því til annarra kaupenda.

Rússagasið er erfiðara viðureignar - t.d. gætu Rússar brátt farið að selja meira gas til Kína. A.m.k. er nokkuð líklegt að gasið frá hinni risastóru gaslind, sem hefur fundist í Síberíu, muni fara til Kína fremur en Evrópu. Umrætt gassvæði kallast Kovykta og er einmitt einn angi af hatrömmum deilum sem BP hefur átt við andstæðinga sina í Rússlandi. Deilur sem áður hefir verið minnst á hér á Orkublogginu.
En hvað um það. Beinum athyglinni frá Rússlandi og Kína og þess í stað að Alsír. Og N-Afríku almennt. Hvað hefur undanfarið verið að gerast i samskiptum þeirra landa við Evrópu?

Af einhverjum ástæðum eru vestrænir fjölmiðlar almennt ekki með mikinn áhuga á N-Afríku. Og þá sjaldan það skeður, er umfjöllunin jafnan klisjukennd og kjánaleg.
Sú mynd sem líklega flest okkar hafa af þessum heimshluta er fátækt, spillt stjórnvöld og hryðjuverk. Vissulega eru þetta allt raunveruleg vandamál í þessum hluta heimsins. Engu að síður skiptir meira máli, að mörg ríkjanna við sunnanvert Miðjarðarhaf eru nú að upplifa gríðarlegan vöxt í efnahagslífinu.
Tökum Egyptaland sem dæmi. Þetta stóra og fjölmenna land (um 75 milljónir íbúar - sem langflestir búa á þröngu belti meðfram Níl) er t.d. einn stærsti olíuframleiðandi i Afríku. Framleiðslan núna er um 650 þúsund tunnur á dag. Olíuauðlindir landsins eru áætlaðar um 3,7 milljarðar tunna. Mestur hluti olíunnar fer reyndar til notkunar innan lands, en nú eru horfur á að gasframleiðsla Egypta aukist hratt á næstu árum. Gott bæði fyrir Egyptaland og Evrópu.

Á síðustu 10-15 árum hefur orðið gjörbreyting á egypsku efnahagslífi. Stjórnvöld hafa innleitt frjálsræði í viðskiptum, lækkað tolla og einkavætt fjölda ríkisfyrirtækja. Sem leitt hefur af sér mikinn hagvöxt. Einnig hefur verið slakað á ríkisafskiptum í landbúnaðargeiranum - eitthvað sem Evrópa vonandi bráðum tekur til við að gera. Svo er egypskt popp að auki afskaplega skemmtilegt! Eins og Orkubloggið benti á fyrir stuttu síðan.
Líbýa og Alsír eru enn stærri olíuframleiðendur en Egyptar, með samtals meira en 3 milljónir tunna á dag. Á tímum Rómaveldis var Alsír stundum nefnt forðabúrið mikla. Í stuttu máli er þetta svæði veraldarinnar einfaldlega gríðarlega auðugt af margs konar auðlindum - m.a. er mikla námuvinnsla þarna að finna.
En eðlilega vilja þessi lönd ekki verða hið dæmigerða afríska hrávörubúr Vesturlanda. Þess vegna eru mörg þeirra nú í óða önn að draga til sín fjárfestingar í t.d. þjónustugreinum. Það er þeim ákaflega mikilvægt, því gríðarlegt atvinnuleysi er víða í þessum ríkjum.

Nefna má t.d. að í Tangier, rétt við landamæri Marokkó, rís nú höfn sem verður einhver stærsta gámahöfn Evrópu (Tangier tilheyrir Spáni). Aðeins höfnin í Rotterdam verður stærri. Og það sem meira er; svipaðar hafnir eru nú í byggingu t.d. í Túnis, Alsír og Egyptalandi.
Hafa ber í huga að um þriðjungur allra gámaflutninga heimsins fara um Miðjarðarhaf. Þannig að umskipunarhafnir á þessu svæði kunna að henta mörgum mun betur en að sigla alla leið til Hollands, svo dæmi sé tekið. Ég er reyndar ekki frá því, að Eimskip hefði betur beint fjármagni að N-Afríku, fremur en að vera að þessu stússi sínu í Kína. Ég segi nú bara - væri ekki ráð að horfa til þeirra landa sem eru aðeins nær gömlu Evrópu? Mare Nostrum!
En aftur að fjárfestingum í N-Afríku. Það er athyglisvert að nú þegar er samanlögð erlend fjárfesting í Miðjarðarhafssvæðinu utan Evrópu búin að slá út öll önnur efnahagssvæði. Nema Kína. Enn sem komið er, eru það þó fyrst og fremst þrjú lönd á svæðinu, Egyptaland, Ísrael og Tyrkland, sem eru vinsælust af fjárfestum. En búist er við að þetta breytist hratt á næstu árum og önnur ríki í N-Afríku muni líka draga til sín meira fjármagn. Nú er t.d. evrópski bílaiðnaðurinn, sem að verulega leyti hefur flutt verksmiðjur sínar til Tyrklands, farinn að horfa til landanna við sunnanvert Miðjarðarhaf. Og þá sérstaklega til Marokkó. Þarna er einfaldlega mikið að gerast þessa dagana. Meðan fjölmiðlar virðast helteknir af fjárfestingum í Kína og Indlandi.

Best að fara að ljúka þessari langloku. Við hæfi að minnast á eina af skemmtilegri bíómyndum, sem ég hef séð. Sú gerðist einmitt á þessu svæði - nánar tiltekið í Túnis. Myndin sú fjallar um þrjár vinkonur, sem eru ca. 17 ára og telja orðið tímabært að leika sér aðeins með hinu kyninu. Svo vill til að fjölskyldur þeirra eru eilítið mismunandi; ein kaþólsk, ein múslímsk og ein gyðingafjölskylda. Myndin gerist 1967 og á sama tíma og ástin blómstrar skellur á sex-daga-stríðið. Sem gjörbreytti öllu í samskiptum trúarbragðanna við Miðjarðarhaf. Segi ekki meir. En hreint frábær mynd. Titillinn er Sumarið í La Goulette og leikstjórinn hét Férid Boughedir.
![]() |
Methagnaður hjá OPEC ríkjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.8.2008 | 07:21
Skjölin í Flórens
Er Ísland í OECD? Reyndar hálf bjánaleg spurning. Því Ísland er ekki bara í OECD. Heldur var Ísland meira að segja eitt af stofnríkjum þessa alþjóðasamstarfs, sem hófst 1961. Og ekki nóg með það. Ísland var líka einn af stofnaðilum OEEC; undanfara OECD. Sem var sett upp þegar árið 1948, í framhaldi af Marshall-aðstoðinni. Í hnotskurn hefur þessi efnahagssamvinna það takmark, að auka viðskipti milli þjóða á grundvelli lýðræðis.

Ísland er sem sagt eitt af þeim ríkjum, sem einna lengst hafa tekið þátt í alþjóðasamstarfi, sem miðar að því að ýta úr vegi gjaldeyrishindrunum og höftum á vöruviðskipti milli landa. Svolítið hlægilegt þegar haft er í huga, að lengst af var Ísland niðurnjörvað í haftabúskap, gjaldeyrisskömmtun og umlukið tollmúrum.
Þó þetta skánaði eitthvað með inngöngunni í EFTA 1970 breyttist ástandið hér ekki af viti fyrr en með EES-samningnum. Samningnum sem tryggði víðtkækt viðskiptafrelsi Íslendinga við Evrópu. Ég er hræddur um að íslenskir stjórnmálamenn hefðu seint komið sér saman um að taka upp allan þann pakka, ef það hefði allt átt að gerast með frumvarpa-maraþoni Alþingis. Til allrar hamingju var þessi aðild í formi netts samnings, sem var lögfestur, ásamt tilheyrandi bókunum og viðaukum. Þar sem vísað er til hinnar ýmsu löggjafar EB.

Líklega hefði verið eðlilegast að Ísland gerðist fullur aðili að EB í framhaldinu af EES. Rétt eins og t.d. Svíþjóð og Finnland. Á þeim tíma hafði Ísland ennþá mikilvæga strategíska stöðu hernaðarlega og naut ríkrar velvildar flestra þáverandi aðildarríkja sambandsins. Sú staða kann að vera breytt núna og því væntanlega erfiðara að fá hagstæðan aðildarsamning nú.
Það var forvitnilegt, þegar ég hér í Den fékk aðgang að nokkrum pappakassahrúgum í hálfgerðu vöruhúsi austur í bæ. Sem var kallað "skjalageymsla" utanríkisráðuneytisins. Þetta var líklega 1994. Þarna rakst maður á ýmislegt athyglisvert. Ég var þó fyrst og fremst á höttunum eftir skjölum frá fundum í stjórn OEEC, í tengslum við landhelgisdeilurnar á 6. áratugnum. Og hótanir Breta um viðskiptahindranir á Ísland (löndunarbann á íslensk skip í breskum höfnum).

Það er varla ofsagt að aðildin að OEEC (og að NATO) hafi á þeim tíma bjargað okkur frá því að einangrast frá Evrópu. Það var ýmislegt athyglisvert að finna í skýrslum Pétur heitins Benediktssonar, sem þá var sendiherra og kom fram fyrir Íslands hönd hjá OEEC. Greinilega flinkur samningamaður og diplómat. Mig grunar að Hans G. Andersen, sem þá var ungur maður í utanríkisþjónustunni, hafi lært margt af Pétri. Sem kom sér vel þegar Hans varð aðalsamningamaður Íslendinga á Hafréttarráðstefnunni. En það er önnur saga.
Ritvélarblekið á þessum gömlu skjölum frá tímum OEEC var nokkuð farið að dofna og líklega verða þessir pappírar bráðum ólæsilegir. Ef það er ekki einfaldlega búið að keyra þessum pappakössum á haugana nú.
Þess skal getið að skjalaleitin bar mig einnig til Flórens á Ítalíu. Þar uppí fögrum hæðunum ofan við þessa fallegu borg, hvar heitir Feisole, er staðsett sam-evrópskt skjalasafn, sem hefur að geyma gulnaða pappíra frá þessum fyrstu dögum nútímasamvinnu Evrópuríkja. Myndin hér ofar í færslunnin er einmitt frá Fiesole, og sér þaðan yfir Flórens. Tekin frá hótelinu, sem ég gisti á.

Sérstök ástæða er til að rifja þetta upp núna. Því þessar rannsóknir mínar tengdust skrifum Einar Benediktssonar, þáverandi sendiherra Íslands í Washington og áður í París. Þessi vinna okkar Einars kom síðar út í bók hjá Háskólanum. Einar var einmitt starfsmaður hjá OEEC í París árin 1956-60. Hann hefur nýverið átt athyglisvert come-back í íslenska efnahagsumræðu. Þar sem hann ásamt Jónasi Haralz mælir með aðildarumsókn að EB. Ég held að forkólfar ríkisstjórnarinnar ættu að lesa greinar þeirra vandlega og taka góðum ráðum.
Það var athyglisvert að kynnast Einari Benediktssyni. Þar fékk maður beint í æð ýmsan fróðleik frá því þegar íslensk utanríkissamvinna var að mótast. Það var ekki sjálfgefið að Ísland fengi svo greiðan aðgang að samstarfi þjóðanna á meginlandi Evrópu. Fyrir því þurfti mikið að hafa. Því miður tók samt langan tíma að Ísland nútímavæddist fyrir alvöru. Það gerðist í raun fyrst með aðildinni að EES - þó svo aðildin að OEEC og EFTA-aðildin hafi líka skipt miklu máli.

Ekki get ég skilið við þessa færslu, án þess að nefna þriðja manninn í samstarfinu við Einar Benediktsson. Sá er Sturla Pálsson, nú hagfræðingur í Seðlabankanum. Skemmtilegur náungi - með pínu grófan húmor eins og ég sjálfur. Stulla kynntist ég fyrst í gegnum kærustuna hans, hana Helgu sem var með mér í lagadeild. Nú heyri ég sagt að Stulli sé besti vinur "Aðal" í Seðlabankanum. Kæmi mér ekki á óvart að satt sé. Get vel ímyndað mér að þeir fái hvorn annan til að brosa í kaffitímunum.
![]() |
Enn mun hægja á efnahagsumsvifum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 07:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2008 | 16:20
Been there...
Þessi fyrirsögn Moggans af fjöri helgarinnar - "Stunginn í hálsinn með brotinni flösku" - vekur upp ljúfar endurminningar. Munurinn var þó sá að úr mér blæddi lítið. Þ.a. ég lét nægja að trítla niður að sjó og skola sárið. Þremur reölum fátækari en var (sem þá jafngiltu einum dollar). Og svo fara í apótek og fá mér sótthreinsandi og plástur. En óneitanlega var manni nokkuð brugðið.
Þetta gerðist reyndar ekki um nótt. Heldur kl. 11 á fimmtudagsmorgni. Og það var heldur ekki í miðbæ Reykjavíkur. Heldur á öðrum talsvert suðrænni stað. Sem sjá má hér á myndbandinu (birtist eftir nákvæmlega 32 sekúndur). Og þetta er satt að segja einhver fallegasti staður sem ég hef komið til:
![]() |
Stunginn í hálsinn með brotinni flösku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.8.2008 | 00:21
Paris Hilton er tæknilegt vandamál
Pistill þessa sunnudags verður um sitt lítið af hverju, þar sem athyglinni er aðallega beint að íslensku bönkunum. Fyrst er þó rétt að geta þess, að vegna átaka Rússa og Georgíu er hugsanlegt að olíuflutningar frá georgískum höfnum við Svartahaf stöðvist. Gæti þýtt kauptækifæri!

En að umfjöllunarefni dagsins. Nú hljóta íslenskir bankamenn að gleðjast. Royal Bank of Scotland hefur nefnilega komist að því, að gríðarlega hátt skuldatryggingaálag vegna íslensku bankanna, hljóti barrrasta að vera einhver misskilningur.
Þessi frétt Moggans um að Skotlandsbanki telji tryggingaálagið "tæknilegt vandamál" er reyndar einhver undarlegasta frétt úr fjármálalífinu, sem Orkubloggið hefur séð lengi. Kannski ekki við mikilli speki að búast frá Skotlandsbanka - þótt hann sé einn stærsti banki Bretlandseyja. Svo vill til að þetta er sá evrópski banki sem hvað mest hefur skitið í buxurnar síðasta árið. Enda hafa hlutabréfin í bankanum fallið um 60% á tiltölulega stuttu tíma. Það þykir ansið hressilegt í Bretaveldi. En eins og mig minni að Skotlandsbanki hafi nokkrum sinnum verið í samstarfi með einhverjum íslensku bankanna. Kannski er það bara misminni.
Annars er ég orðinn hundleiður á allri þessari þvælu um skuldatryggingaálag. Ég er líka orðinn hundleiður á evruþvælunni á Íslandi. Eins og kollsteypan heima sé krónunni að kenna. Þegar sökudólgarnir eru í reynd lélegir stjórnmálamenn og gráðugir bankastjórnendur.

Ég er líka hundleiður Paris Hilton, sem hefur tröllriðið fjölmiðlum hér í Danmörku síðustu vikuna (hún kom hingað að kynna einhverjar veskistuskur).
Hún er mjög djúpvitur, blessunin. "I love Copenhagen - everyone is so blond and beautiful". Er þetta heilbrigt? Ég verð líka bráðum hundleiður á Kína og Ólympíuþvælunni. Hálf pirraður núna.
Eina sem ég er ekki leiður á er Brasilía og N-Afríka. Þaðan kemur mesta peningalyktin um þessar mundir. Og í samræmi við þetta dansar maður auðvitað annað hvort við samba eða skemmtilegt Arabapopp um þessa helgina. T.d. þetta stuðlag með egypska snillingnum Amr Diab. Þarna gengur sko allt útá eitt; habibi! Sem er vinakveðja, en merkir líka ástin mín. Hlustið og njótið:
Og hér er sama lag með ísraelsku söngkonunni Ishtar Alabina:
![]() |
Tryggingaálagið tæknilegt vandamál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.8.2008 | 13:33
Ísland talað i þrot?

Þetta er satt að segja afskaplega óheppileg frétt á Bloomberg. Ráðherrann virðist nánast segja að Íslandi séu allar bjargir bannaðar. Eru menn ekki alveg heilbrigðir?
Annars er margt skrítið á Íslandi þessa dagana. T.d. hlutabréfamarkaðurinn íslenski. Virðist oft lúta öðrum lögmálum en slíkir markaðir í öðrum löndum kapítalismans. Nýlega birtust t.d. tölur um að Landsbankinn er að hagnast um ekki ósvipaða upphæð og Kaupþing. Samt sýnist mér, í fljóti bragði, að markaðurinn telji Kaupþing vera helmingi verðmætara fyrirtæki en Landsbankinn.
Það má vel vera rétt metið hjá hinum andlitslausa markaði. Finnst samt sérkennilegt að gengi Kaupþings skuli enn hanga yfir 700. Eru kannski stórir hluthafar í bankanum að verja verðmæti og veðhæfi sinna bréfa? Með því að kaupa smáræði af bréfum á degi hverjum og halda genginu uppi? Og lengja þannig í ólinni, ef svo má segja, og koma í veg fyrir veðköll frá erlendum lánadrottnum?

Þetta háa verðmat markaðarins á Kaupþingi er meira að segja þrátt fyrir þá staðreynd, að skuldatryggingaálag vegna Landsbankans sé miklu lægra en vegna Kaupþings. M.ö.o. virðist skuldatryggingamarkaðurinn álíta Kaupþing miklu líklegri til að verða gjaldþrota en Landsbankann. Nú segja sumir reyndar að það sé ekkert að marka þetta skuldatryggingaálag, af því markaðurinn með þá pappíra sé lítill og óskilvirkur. Má vel vera.

Auðvitað eru þetta bara dylgjur og tóm vitleysa hjá Orkublogginu. Auðvitað veit íslenski markaðurinn betur en bæði Orkubloggið og útlendingarnir. Enda islenski markaðurinn liklega hvorki lítill né óskilvirkur. Og ljótt ef Orkubloggið ætlar að taka þátt í því með fjármálaráðherranum að tala Ísland í þrot.
Og auðvitað vona ég að Kaupþing standi vel. Enda minn viðskiptabanki. En þetta kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir.
------------------------------------------
Frétt Bloomberg má sjá hér:
http://www.bloomberg.com/apps/news?pid=newsarchive&sid=a4xJpqNIZzvU
![]() |
Of dýrt að efla gjaldeyrisforðann nú |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)