Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
9.8.2008 | 09:02
Rauðá, indíánar og úran

Sko - stundum eru fréttir Moggans pínulítið skrítnar (eða ónákvæmar). Eins og t.d. þessi frétt, um að "Rio Tinto, eigandi Alcan á Íslandi, hyggst kanna möguleikann á því að selja burt kolanámuviðskipti sín í Norður-Ameríku til fyrirtækis að nafni Cloud Peak Energy".
Þetta er auðvitað tómt rugl hjá Mogganum. Það er nú einu sinni svo að Cloud Peak er alfarið í eigu Rio Tinto (sem er spænska og þýðir Rauðá - eða Red river á ensku - sem auðvitað leiðir hugann að hinum dásamlega Jóni Væna og Vestranum klassíska; Red River).
Þvert á móti stendur hugsanlega til að Rio Tinto selji Cloud Peak. Hver kaupandinn verður, er ekki vitað. Og reyndar alls ekki víst að allt fyrirtækið verði selt. Hið eina sem fótur er fyrir í þessari frétt Moggans er að hluti af kolavinnslu Rio Tinto í Bandaríkjunum, verður kannski seld.
Cloud Peak er sem sagt hinn bandaríski kola-armur Rio Tinto. Ég hygg að hið rétta i málinu sé að Rio Tinto hugleiði nú að skrá Cloud Peak á hlutabréfamarkað og þannig ná í pening. Kannski til að fjármagna kaupin á Alcan. Gæti verið. Orkubloggið myndi þó frekar veðja á, að stjórn Rio Tinto hyggist með þessu fyrst og fremst styrkja lausafjárstöðu sína, vegna yfirvofandi yfirtökutilraunar námurisans BHP Billiton.

En aftur að hugsanlegri sölu Cloud Peak. Hver muni kaupa bréfin í Cloud Peak er allsendis óvitað. Ef að olíuverðið heldur áfram niður á við, munu kolin nokkuð líklega fylgja í kjölfarið. Og þar með kannski ekki spennandi að setja mikinn pening í Cloud Peak. Í bili. Samt... Cloud Peak er nú einu sinni líklega annar stærsti kolaframleiðandi í US. Og á einmitt margar af stærstu kolanámunum á hinum geggjuðu kolasvæðum í Wyoming og nágrenni. Væntanlega er nafn fyrirtækisins dregið af hæsta tindinum í Wyoming-fylki; hinum rúmlega 4 þúsund metra háa Cloud Peak.

Fjallgarðurinn sem Cloud Peak eða Skýjatindur er í, kallast Big Horn Mountains eða Stórhyrnufjöll upp á íslensku (ég hreinlega elska þessi flottu bandarísku örnefni). Big Horn Mts. eru eins konar afleggjari frá Klettafjöllunum.
Mig hefur alltaf langað að komast á þessar slóðir. Allt síðan ég las Frumbyggja-bækurnar frábæru, sem Æskan gaf út hér í Den. Um norsku frumbyggjafjölskylduna, sem settist að við Stóra-Úlfsvatn. Og mátti berjast harðri baráttu við náttúruöflin, gráðuga glæpamenn og grimma indíána. En þau áttu líka sína bestu vini meðal indíánanna. Hvað hét aftur góði höfðinginn...? Litla Kráka minnir mig. Knútur var auðvitað uppáhaldspersónan mín. En Eyfi var líka fínn - sérstaklega þegar ég las fyrstu bókina og var þá á aldur við Eyfa.

Svo las maður auðvitað líka Hjartarbana, ásamt öðrum bókum J.F. Cooper's um síðasta móhíkanann. Og alla þessa gömlu frumbyggjaklassík eins og hún lagði sig. Skemmtilegar bækur og hreint ótrúlegt hvað margar af þeim voru til á íslensku. Hjá þeim félögum i fornbókaversluninni Bókinni. Fílaði líka Daniel Day-Lewis í "The Last of the Mohicans: "No matter how long it takes, no matter how far, I will find you!" Soldið rómó.
En gleymum okkur ekki alveg í nostalgíunni.
Sé það rétt og Rio Tinto sé í vandræðum með að finna pening til að borga fyrir Alcoa - eða verjast yfirtöku - þá er þarna etv. á ferð ansið gott tækifæri. Til að gera góð kaup. En ekki hef ég mikinn áhuga á kolaóþverranum hjá Cloud Peak Energy. Mætti ég þá frekar stinga upp á því við þá Rauðármenn, að selja mér annan hluta af sinni subbulega starfsemi. Nefnilega ástralska fyrirtækið sitt Energy Resources of Australia (ERA).

Ekki bara af því Ástralía er frábært land. Heldur miklu fremur sökum þess að ERA rekur einhverjar stærstu úrannámur heims. Í nágrenni Krókódílaár (Alligator River) í norðurhluta Ástralíu. Þar sem sól, hiti og flugur... og krókódílar ráða ríkjum. ERA er þriðji stærstu úranframleiðandi í heimi og með um 10% markaðshlutdeild. Og eins og dyggir lesendur Orkubloggsins vita, er bloggið dálítið skotið i úrani sem fjárfestingu, um þessar mundir.
![]() |
Losa fjármagn til að borga Alcan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2008 | 22:10
Rússnesk rúlletta og Olympíuleikar
Eins og sönnum karlmanni sæmir, er eitt upphaldskvikmyndaatriðið mitt úr Deer Hunter. Hvar þeir Mike (Robert De Niro) og Nick (Christopher Walken) spila rússneska rúllettu. Með skelfilegum afleiðingum.

Til allrar hamingju hefur það ekki alveg sömu afleiðingar að spila á olíurúllettuna. En eins og Orkubloggið hefur gjarnan minnst á, er nákvæmlega enginn sem hefur hugmynd um hvernig olíuverðið þróast. Það gæti rokið upp. Og það gæti steinfallið.
Þó svo bloggið hafi sýnt svo mikið innsæi og þekkingu (lesist: heppni) og hagnast um 25% á olíubraski frá áramótum (sem er rúmlega 40% ársávöxtun í dollurum og yfir 50% ársávöxtun m.v. IKR), er bloggið samt í fýlu.
Því gróðinn hefði geta orðið ennþá meiri. Ef bloggið hefði drullast til að lesa kristallskúluna betur þegar verðið fór yfir 140 USD. Mikið vill alltaf meira. Hvort sem er Orkublogg eða stjórnandi i íslenskum banka.
Orkubloggið hefur margoft ítrekað þá skoðun að olíuverð undir 150 USD pr. tunnu sé ekki hátt verð. Miðað við verðbólgu í heiminum undanfarna áratugi og efnahagsuppganginn síðustu árin. En það eru ekki endilega allir sammála manni. Og maður getur ekki unnið allt. Því miður.

Á hverjum einasta degi nota Bandaríkin um 25% allrar olíu, sem framleidd er í heiminum. Þó Bandaríkjamenn séu einungis innan við 5% af fólksfjölda veraldarinnar.
Ef olíuverðið helst eins og núna - eða fer jafnvel neðar - er það sterkt merki um eitt: Spákaupmennirnir eru almennt farnir að veðja á alvarlega kreppu í Bandaríkjunum. Mjög slæma kreppu. Sem muni draga verulega úr eftirspurn eftir olíu. Hvort þeir hafa rétt fyrir sér verður að koma í ljós. Og sama hvernig fer. Sádarnir geta áfram hlegið og strokið á sér bumbuna.
Sennilega eru spákaupmennirnir líka með annað i huga. Nefnilega þá gamalkunnu staðreynd, að þegar land sem upplifað hefur mikinn efahagsuppgang er gestgjafi olympíuleika, hafa eftirmálin oftast verið þau sömu. Gestgjafinn hefur lent í umtalsverðum efnahagssamdrætti í kjölfarið.

Og skemmtilega tilviljunin er, að þetta hefur gerst með nákvæmlega 20 ára fresti í löndum með einhvers konar semi-kapítalisma. Tvö dæmi um þetta eru þegar Mexíkó hélt leikana 1968 og Suður-Kórea 1988. Í báðum tilvikum höfðu þessu ríki átt afskaplega góðu gengi að fagna fyrir leikana. En svo hallaði undan fæti. Ef það sama gerist í Kína, nú 20 árum eftir leikana í Suður-Kóreu, mun olíueftirspurn hugsanlega minnka verulega. Eigum við að trúa á þetta trend?
![]() |
Olíuverð lækkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 9.8.2008 kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2008 | 10:08
Þrumuguðinn!

Þegar stráksi minn var 4ra ára spurði hann mig: "Pabbi - af hverju eru engar mörgæsir á Norðurpólnum". Ég svaraði að bragði: "Það skal ég segja þér, ef þú getur sagt mér af hverju það eru engir ísbirnir á Suðurpólnum?"
Sá litli hrukkaði ennið, hugsaði sig aðeins um. Og virtist svo fá hugmynd og sagði: "Af því að mörgæsirnar átu þá alla!"
Þá vitum við það. Og mér fannst þetta reyndar skemmtilegt svar. Það er líka svolítið fyndið, að nú segja menn að olía Norðmanna sé senn uppurin. Sem er auðvitað tómt rugl. Því Norðmenn eiga nánast örugglega eftir að finna miklu, miklu meiri olíu í norðurhluta lögsögu sinnar. Sú olía verður auðvitað því aðeins sótt, að verðið standi undir dýrri vinnslu á miklu dýpi. Eins og staðan er i dag, yrði vonlaust að keppa við 5 dollara kostnað pr. tunnu hjá t.d. Venesúela.

Það er staðreynd að eftirspurnin eftir olíu vex sífellt. Hversu hratt eftirspurnin eykst, fer eftir efnahagsástandinu. En líklega um ca. 2% árlega og jafnvel meira. Það þýðir að olíufélögin verða að geta fundið og unnið aukalega um 1,5 milljónir tunna á dag. Og reyndar talsvert mikið meira, því margar af olíulindunum sem eru nú í notkun fara þverrandi og vinnslan þar minnkar ár frá ári.
Ef framboðið frá nýjum olíulindum eykst ekki jafn hratt eins og eftirspurnin, mun verðið hækka. Og þá verður olíuvinnsla í íshafinu líklega hagkvæm.

Reyndar eiga Norðmenn annan ás í erminni, ef olían hættir að vera þeirra gullnáma. Sem er þórín (thorium). Enn er þó óvíst hversu ábatasöm þórínvinnsla yrði í Noregi. En margir líta á þórín sem kjarnorku-eldsneyti framtíðarinnar.
Fróðlegt er að skoða nýjar rannsóknir Norðmanna á því hvaða möguleikar kunna að felast í þóríni sem þar finnst. Í næstu færslum, ætlar Orkubloggið að beina athyglinni að þessu frumefni sjálfs þrumuguðsins. Þórs!
Stutt er síðan Orkubloggið var með nokkrar færslur um úran og hvernig það er nýtt i kjarnorkuverum. Eitt vandamálið við úran er að það finnst óvíða í vinnanlegu magni. Endurvinnsla á úrani leysir reyndar þann vanda að nokkru leyti. En skapar um leið mikla hættu. Af því hægt er að nota endurunnið úran í kjarnorkusprengjur. Þess vegna er t.d. Bandaríkjastjórn fremur andvíg endurvinnslu á úrani. Slíkt auðveldar vafasömum mönnum aðgang að auðguðu úrani og eykur líkur á misnotkun; að fleiri ríki geti búið til kjarnorkuvopn.

Þórín, aftur á móti, er annars konar og nánast útilokað að nýta það í kjarnavopn. Og svo er líka til miklu meira af þóríni heldur en úrani. Auk þess skal minnt á að einungis um 0,7% af úrani nýtist beinlínis til að framleiða eldsneyti fyrir kjarnaofna (þ.e. U 235 samsætan, eins og tryggir lesendur Orkubloggsins auðvitað vita frá eldri færslum um úran). Fyrir vikið er þórín hugsanlega mun álitlegri kostur en úran. Og því vel þess virði að spá aðeins betur í þetta frumefni þrumuguðsins.
Það fer alltaf smávegis í taugarnar á mér hvað Íslendingar hafa litið notað öll gömlu, flottu heitin frá þjóðveldistímanum. Eða öllu heldur úr goðafræðinni, vildi ég sagt hafa. Meðan Norðmenn hafa nánast náð einkarétti á Óðni og Þór, er Ísland enn fast í einhverri leiðinda uppáþvingaðri kristnitöku. Þórsnes urðu Jónsnes. Og man varla eftir einu einasta íslenska örnefni þar sem Óðinn kemur við sögu. Enda er það svo, að meðan www.odin.no ein af mikilvægustu heimasíðum norska ríkisins, er www.odinn.is heimasíða hjá sundfélagi. Hálf fúlt.

Nefni þetta bara af því þórín, er einmitt kennt við Þór (thorium - thor). Heitið kom þannig til að Norðmaður að nafni Jens Esmark, sem segja má að hafi verið einn fyrsti jöklafræðingurinn, fann sérkennilegt grjót heima í Noregi. Og sendi það til greiningar til Svía nokkurs; efnafræðingsins fræga, Berzelius. Og það var Berzelius hinn sænski sem greindi efnið í grjótinu sem frumefni- og nefndi það þórín. En til að sagan sé rétt er vert að nefna að það mun reyndar hafa verið sonur Esmark's sem fann grjótið og kom með það til pabba síns. Þetta var 1828.
Upp á íslensku mætti e.t.v. kalla grjót með þóríni, t.d. þórgrýti? Mynd af slíku þórgrýti er hér aðeins ofar í færslunni. Það liðu reyndar mörg ár þar til menn gerðu sér grein fyrir því að þórín væri óvenjulega merkilegt efni. Líklega má segja að einn af feðrum kjarneðlisfræðinnar, Ernest Rutherford, hafi verið sá fyrsti sem rannsakaði þórín almennilega. Þegar hann uppgötvaði geislavirkni í úrani og þóríni og hvernig kjarninn hrörnar - og gat þannig skilgreint helmingunartíma fyrstur manna. Ef ég man rétt.

En sem sagt: Þórín er efni sem gæti nýst vel í kjarnorkuvinnslu. Í reynd er það svo, að verði þórín nýtt til kjarnorkuframleiðslu gerist það með þeim hætti, að það tekur auðveldlega við nifteindum og umbreytist í úransamsætu. Nánar tiltekið samsætuna U 233. Sem er mjög kjarnakleyf.
Til að gera málið sáraeinfalt, er sem sagt unnt að nota þórín sem grunn að eldsneyti fyrir kjarnorkuver. Það er í fyrsta lagi áhugavert sökum þess mikla magns af þóríni sem finnst í náttúrunni. Í annan stað (eins og Jón Baldvin sagði svo oft!) yrði þá minni hætta af því að óvandaðir menn komist yfir efni í kjarnorkusprengju (samsætan U 233 nýtist illa sem efni í kjarnorkusprengju). Í þriðja lagi veldur tækniferillin við notkun þóríns í kjarnorkuver því að hætta á háskalegri og stjórnlausri keðjuverkun er hverfandi (eins og gerðist t.d. í Chernobyl). Loks eru líkur á að byggja megi þórín-kjarnaver með þeim hætti að kjarnorkueldsneytið frá þóríninu endist allan líftíma versins.

Enn sem komið er, er þessi tækni á rannsóknastigi. Sem fyrr segir er mikið af þóríni í Noregi. Og þar tala menn nú jafnvel um að reisa þórín-kjarnorkuver í Telemark. Þar sem Þjóðverjar komust yfir þungavatnið í heimsstyrjöldinni síðari. Og norska andspyrnan sprengdi upp vinnsluna þar og bjargaði því að Nasista-Þýskaland gæti orðið sér úti um kjarnorkusprengju. Góðir strákar, Norðmenn.
Næst mun Orkubloggið segja frá rannsóknum og hugmyndum Norðmanna um nýtingu þóríns, sem orkugjafa. Ásamt því, auðvitað, að nefna snillinginn Carlo Rubbia, sem er ítalskur eðlisfræðingur og Nóbelsverðlaunahafi. Rubbia er nefnilega bæði talsmaður þess að þórín verði notað til kjarnorkuframleiðslu - og að þjóðirnar við Miðjarðarhaf byggi upp orkuframleiðslu sem Orkubloggið hefur ítrekað snobbað fyrir: Concentrated Solar Power eða "brennipunkta-sólarorka".
![]() |
Noregur olíulaus árið 2030 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.8.2008 | 00:05
Barack og bráðnuðu leiðtogarnir
Krónan er að bráðna. Og Langjökull er líka að bráðna. Segja sumir.

Það er a.m.k. staðreynd að frá iðnbyltingunni hefur meðalhiti farið vaxandi víða um heim. Er mér sagt af vísu fólki, sem ég treysti fyllilega. Þanni að ég trúi því. Fremur en þeim Hannesi Hólmsteini og Agli Helgasyni, sem eru óþreytandi við að gera grín að græningjum og hæðast að Al Gore. Finnst þeir Hannes og Egill reyndar vera svolítið sérkennileg samsetning á skoðanapari um lofslagsmál. En líklega nær bræðralag þeirra ekki mikið lengra en það.
Sjálfur er ég ekki sannfærður um að hlýnunin stafi fyrst og fremst af bruna jarðefnaeldsneytis. Það er samt óneitanlega nokkuð lógískt. Gæti samt verið út af einhverju allt öðru. En það skiptir kannski ekki öllu máli hver orsökin er. Auðvitað er eina vitið að hverfa frá þeirri orkunýtingu, sem skapar mikla mengun og gerir Vesturlönd háð einræðis-olíuríkjum. Og það er bæði Bandaríkjunum og Evrópu fyrir bestu að finna hagkvæmar aðferðir til að nýta sína eigin orkugjafa. Hvort sem það er sól, vindur, jarðhiti eða annað.
Nú er mikið talað um það westur í US, að þjóðina hungri í alvöru leiðtoga. Sem geti hjálpað Bandaríkjamönnum að endurheimta sjálfstraust sitt. Gefi þeim eitthvað að trúa á. Endurheimti fullvissuna um að Bandarikin standi fremst.

Sumir vona að þessi endurreisn bandaríska sjálsöryggisins muni geta náðst ef nýr forseti og þingið nái að snúa bökum saman og gera Bandaríkin að leiðandi riki í endurnýjanlegri orku. Að Bandaríkin, enn á ný, nái að beina heiminum inn á góðar brautir með sinum frumkvöðlakrafti og yfirburðar tækniþekkingu. Og ég held að þeir séu fleiri sem sjá Obama í þessu hlutverki, fremur en McCain.
En hvað með Ísland? Er íslenska þjóðin með sannan leiðtoga? Eða vantar okkur líka einn slíkan? Sem gæti tekið af skarið og t.d. mótað raunhæfa, skynsama og heildstæða orkustefnu. Sem kæmi í staðinn fyrir þetta gamalkunna slökkvistarf og álversbútasaum.
Læt hér fylgja myndband, þar sem nokkrir kostir Obama eru raktir í söng. Kannski þyrfti Geir Haarde að fá eitthvað svona, til að vakna betur:
![]() |
Langjökull horfinn eftir öld? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.8.2008 | 17:38
Söknuður
Það var auðvitað með ákveðnum söknuði, þegar Orkublogguð kvaddi olíuna. Í bili. Við 120 dollara markið. En nú er bara að þurrka burt krókódílatárin og telja gróðann. Annars er blessaður kapítalisminn svo sniðugur, að auðvitað er lækkandi verð á olíu (eða öðru á mörkuðunum) engin ástæða til að hætta að braska. Þegar allt stefnir niður á við fara menn auðvitað bara yfir í þá skemmtilegu iðju, að sjorta hlutina. Og raka svo saman peningum þegar markaðirnir lækka. Já - kapítalisminn er mikið snilldarinnar fyrirbæri. Jafnvel skemmtilegri en Las Vegas.

Annað skemmtilegt, sem mér kemur í hug, er þegar bandaríski kjarnorkuiðnaðurinn var æstur í að komast í þann bisness að byggja kjarnorkuver í Íran. Sennilega mátti litlu muna, að það yrði gert. En valdataka klerkanna árið 1979 eyðilagði endanlega að hægt yrði að smjatta á þeim góða bita.
Orkubloggið hefur nokkrum sinnum nefnt olíuvinnslu Írana. Og kjarnorkuáætlun þeirra. Nú nýlega rifjaði bloggið upp hvernig BP var lengi nánast einrátt í olíuvinnslu í Íran. Og fékk aðstoð frá Eisenhower og CIA til að steypa þeirri stjórn, sem ekki þótti nægjanlega samvinnuþýð. En samt endaði ballið með þeim ósköpum að 1979 náðu klerkarnir völdum og BP og öðrum útlendum olíufyrirtækjum var fleygt út.
Í dag er það íranska ríkisolíufyrirtækið, sem sér um borinn og brúsann í Íran. Og þetta er ekki nein sjoppa úti á horni. Sem kunnugt er, er ExxonMobil stærsta olíufyrirtæki heims. Markaðsvirði þess í dag er vel yfir 400 milljarðar USD. En reyndar er þetta netta kompaní bara stærst af þeim sem eru á hlutabréfamarkaði. Ríkisolíufélögin í Arabíu og Persíu eru nefnilega mikið stærri.

Jamm - ef ríkisolíufyrirtækin eru talin með, er ExxonMobil bara peð. Olíufyrirtæki Sádanna, Saudi Aramco, er langstærst og verðmætast. Reyndar veit enginn okkar hér utan Arabíu fyrir víst, hversu miklar olíubirgðir Saudi Aramco eru. En sumir áætla að fyrirtækið sé a.m.k. tvöfalt verðmætara en ExxonMobil.
Og næst stærsta olíufyrirtæki í heiminum er National Iranian Oil Company (NIOC). Sem er alfarið í eigu íranska ríkisins. Tekjur þess á síðasta ári (2007) eru sagðar hafa numið jafnviði 50 milljarða USD - sem er kannski ekki jafn mikið og ætla mætti. Verðmæti fyrirtækisins felst fyrst og fremst í hinum gríðarlegu olíulindum, sem það ræður yfir. Oliulindum sem þeir hjá BP, franska Total, Shell og amerísku olíufyrirtækjunum hljóta að sakna mjög.

Staðreyndin er sú að þegar þeir kollegarnir Gholam Hossein Nozari og Ali Al-Naimi, olíumálaráðherrar Írans og Saudi Arabíu, skeggræða málin mega gömlu stórveldin sín ekki mikils. Gæfa Vesturlanda felst kannski aðallega í því að Íranar og Arabar eru ekki endilega neinir perluvinir. Enda af sitthvorri grein Íslam.
En tökum nokkur skref til baka. Og skoðum aðeins þá tíma meðan Bandaríkin voru á góðri leið með að gera Íran að kjarnorkuveldi. Þó svo rekja megi upphaf þess allt til ræðu Eisenhower's snemma á 6. áratugnum, um Atoms for Peace, var þessi samvinna ekki í hámarki fyrr en eftir 1970. Enda var mönnum þá orðið ljóst að líklega yrði olían ekki til staðar nema í takmarkaðan tíma og mikilvægt að tryggja uppbyggingu annarra orkugjafa.

Um 1970 fullgilti Íran Samninginn um bann gegn útbreiðslu kjarnavopna. Þar með var allt klárt til að aðstoða Írana við að byggja kjarnorkuver. Bandaríkin komu t.d. að uppbyggingu kjarnorku-rannsóknastöðvar við Teheran-háskóla og írönsk stjórnvöld fengu nokkur kíló af vel auðguðu úrani frá Bandaríkjunum. General Electric og fleiri stórfyrirtæki gerðu samninga um uppsetningu kjarnakljúfa í landinu. Einnig komu evrópsk fyrirtæki að málinu, t.d. Siemens.
Allt gekk þetta hvað hraðast á meðan þeir Nixon og Ford voru í Hvíta húsinu. Eftir að Carter varð forseti 1977 hægði aðeins á ferlinu. Kannski aðallega út af miklum mannabreytingum í Hvíta húsinu, eftir langa valdatíð repúblíkana. Engu að síður leit út fyrir, þegar upp rann árið 1979, að senn myndu rísa nokkur kjarnorkuver í Íran. En eins og stundum vill verða, ganga hlutirnir ekki alveg samkvæmt áætlun. Skyndilega og nánast á augabragði varð Íran einn versti óvinur Bandaríkjanna. Og / eða öfugt.

Íranskeisari hafði stjórnað landinu með harðri hendi í um aldarfjórðung. Eða allt frá því 1953, þegar olíuhagsmunir Breta urðu til þess að hann fékk alræðisvald og lýðræðislega kjörinni stjórn íranska þingsins var steypt af stóli. Einkum fyrir tilstilli bresku stjórnarinnar og með aðstoð Bandaríkjanna. Eins og lýst var í færslunni "Skákborð veraldarinnar": http://askja.blog.is/blog/askja/entry/606262/
Því miður var þessi leikur Bandaríkjanna í skák alþjóðastjórnmálanna, að styðja keisarann en ekki lýðræðið í Íran, í reynd afleikur. Sem löngu síðar sprakk illilega framan i andlitið á ráðamönnum i Washingtin DC.
Harðstjórn keisarans, andstyggð fólks á leynilögreglunni SAVAK, fátækt almennings í landinu og óheyrilegt bruðl keisarafjölskyldunnar, ýtti undir mikla óánægju meðal írönsku þjóðarinnar.

Árið 1979 var ókyrrðin í landinu orðin það mikil að keisarinn yfirgaf Íran. Og heim snéri öldungurinn, skáldið og heimspekingurinn Khomeni úr útlegð sinni.
Af einhverjum ástæðum, sem erfitt er að skilja eða útskýra, náði Khomeni eyrum fólksins - betur en lýðræðisöflin í landinu sem loks höfðu náð að fæla keisarann burt. Herinn snerist á sveif með Khomeni og svo fór að hann náði öllum valdataumum í sínar hendur. Og Bandaríkin horfðu aðgerðarlaus á fjörið í Teheran.
Þar með varð Íran það íslamska klerkaríki, sem við þekkjum enn þann dag í dag. Þar sem þjóðin sjálf fær litlu ráðið, rétt eins og fyrri daginn. Og nú er kjarnorkuáætlun Írana aftur kominn á fullt. En ekki með alveg jafn miklum velvilja Vesturlanda eins og var upp úr 1970.
Það hlýtur að teljast ein af helsi ráðgátum alþjóðastjórnmálanna, af hverju Bandaríkin gripu ekki inní atburðarásina. Þegar þeir sáu einn af sínum nánustu bandamönnum, steypt af stóli af svörnum óvinum vestrænnar menningar. Í ríki með einhverjar mestu olíubirgðir i heimi.

Sumir segja að Jimmy Carter hafi einfaldlega ekki skilið alvöru málsins. Eða verið of upptekinn af friðarviðræðum Israela og Egypta. Aðrir segja að þvert á móti hafi Bandaríkin stutt valdatöku klerkanna! Stjórnvöld í Washington hafi skynjað að tími keisarans var á enda og frekar viljað klerkana en að eiga hættu á að kommúnistar næðu völdum í Íran.
Ég veit - þetta hljómar frekar lygilega og jafnvel kjánalega. En margir þeirra ágætu, vel menntuðu og skemmtilegu Írana sem ég þekki, eru þess fullvissir að Khomeni og klerkarnir hafi fengið stuðning að vestan. Og meira að segja er manni sagt að núverandi stjórnendur í Íran njóti ennþá þessa leynistuðnings Bandaríkjastjórnar. Illindin í fjölmiðlum séu bara á yfirborðinu - Bandaríkin vilji frekar klerkana áfram við völd en eiga á hættu að t.d. rússneskt eða kínverskt fjármagn nái yfirráðum í írönskum olíuiðnaði. Maður verður barrrasta að segja eins og er; ég er ekki alveg að kaupa þessa samsæriskenningu.
![]() |
Fatið af hráolíu á 119 dali |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.8.2008 | 15:25
Drengur góður?
Nú þarf Orkubloggið smá hjálp. Ég kíkti á heimasíðu Actavis til að sjá mynd af nýja forstjóranum. Kannski ekki síst af því nafnið, Sigurður Óli, hringdi lítilli bjöllu í höfði mínu. Ég man nefnilega vel eftir því hér í Den, þegar maður átti nokkrar skemmtilegar vikur í Skákskólanum, sem hann Jón Hjartarson rak austur á Klaustri. Þar var auðvitað aðallega teflt, m.a. við gesti eins og Friðrik Ólafsson og Jóhann Hjartarson. Ég gerði jafntefli við Friðrik - bara svo þið vitið það. Monti, mont. Reyndar var það í fjöltefli. Man ekki alveg hvort það var ég sem var að tefla við 50 aðra. Eða hvort það var Friðrik. He, he.
Þess á milli var spilaður fótbolti útá túni, þar sem íþróttakennarinn okkar á Klaustri, hann Biggi Einars, stjórnaði hlutunum. Þetta var afskaplega skemmtilegt og við strákarnir á Klaustri kynnumst þarna mörgum ágætum piltum úr Reykjavíkursollinum og víðar af landinu.

Tveir þeirra eru mér sérstaklega minnisstæðir. Annar þeirra er Arnór heitinn Björnsson, sem var ákaflega flinkur en jafnframt nokkuð skapmikill skákmaður. Og skemmtilegur leikfélagi. Arnóri kynntist ég lítillega aftur löngu síðar, á djamminu i Reykjavík.
Hinn var líka nokkuð spes karakter og hét einmitt Sigurður Óli - rétt eins og hinn nýi forstjóri Actavis. Ég man að á tímabili þótti manni Sigurður þessi Óli vera helst til sérvitur. En svo kynnist ég honum betur og þá kom auðvitað í ljós að þetta var mikill öndvegisdrengur. Ég hef ekki hugmynd um hvort Sigurður Óli hjá Actavis er sá hinn sami. En myndin er satt að segja ekki ósvipuð stráknum, sem maður tefldi og lék sér við þessar vikur í sólskininu austur á Klaustri. Fyrir næstum 30 árum. En kannski er þetta allt annar Sigurður Óli. En fréttin um hann vakti a.m.k. skemmtilegar minningar um einstaka sumardaga austur á Klaustri.
![]() |
Róbert hættir hjá Actavis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.8.2008 | 01:37
Salthellarnir tæmdir?
Obama segist ætla að selja 70 milljón tunnur af olíubirgðum Bandaríkjanna. Les ég á mbl.is. Orkubloggið hefur áður fjallað um þessar birgðir Bandaríkjastjórnar. Það er saga sem minnir meira á X-files en raunveruleikann. Kannski ætti Obama barrrasta að moka öllu tunnudraslinu upp úr salthellunum, þar sem þetta er geymt. Reyndar er varla hægt að kalla þetta annað en hlægilega arfleifð frá þeim tímum þegar menn þóttust ætla að lifa af allsherjar kjarnorkustyrjöld við Rússa (Sovétríkin). Og svo skríða upp úr neðanjarðarbirgjunum og skreppa í salthellana sína í Suðurríkjunum, efir olíunni.

Ég lýg því ekki - leyndarhjúpurinn og annað i kringum þessar olíubirgðir Bandaríkjastjórnar slær út allar geimveru-bíómyndir sögunnar samanlagðar. Enn og aftur sannast það að raunveruleikinn er ótrúlegastur af öllu. Veit ekki til hvers menn eru alltaf að pára þessi skáldverk sín. Raunveruleikinn - þar er sko djúsinn!
Kannski er þetta bara hið besta mál. Að geyma 700 milljón tunnur af olíu þarna í hellunum undir Texas og Louisiana á 500-1.000 metra dýpi. Eins og búið er að gera meira og minna síðan 1975. Miðað við fólksfjölda væri þetta svipað og við hefðum falið 700 þúsund tunnur eða um 111 milljón lítra af olíu einhversstaðar djúpt í gjótum í Ódáðahrauni eða Guð má vita hvar. Sniðugt.

En Kananum er auðvitað vorkunn. Þeim brá svo svakalega þegar olíuframboðið skrapp saman hér í upphafi 8. áratugarins góða, að þeir fengu þessa hugdettu að eiga smá til vara þarna niðrí jörðinni. Í dag eru þetta verðmæti upp á ca. 80 milljarða USD sem þarna eru geymd í "iðrum Snæfellsjökuls". Miðað við oliunotkun Bandaríkjamanna í dag myndi þetta rétt slefa sem birgðir í tæpa tvo mánuði. Það er nú allt og sumt.
En um það leyti sem menn sáu fram á að kannski væri þetta tómt rugl að geyma öll þessi verðmæti þarna niðrí jörðinni tóku fjárans svartklæddu klerkarnir völdin í Íran - einu mesta olíuríki heims. Þá svitnuðu sumir vestanhafs - enda væri t.d. lítt spennandi ef eitthvað svipað myndi líka gerast hjá blessuðum Sádunum. Þá væri nú aldeilis gott að eiga nokkra olíutunnur i kjallaranum.

Bush er a.m.k. mjög fylgjandi þessum geymslum. Eitthvað voru birðirnar farnar að minnka undir aldamótin. En þegar flugvélarnar lentu á tvíburaturnunum í sept. 2001 var eitt það fyrsta sem Bush gerði, að æpa á sína undirsáta að fylla hellanna eins og skot og hananú. Og í janúar á liðnu ári (2007) stakk Bush upp á því við Bandaríkjaþing að birgðagetan yrði allt að tvöfölduð. Hækkandi olíverð síðan þá hefur líklega eitthvað haldið þinginu frá því að fylgja þessari brilljant tillögu eftir. Og nú þykist Obama ætla að minnka birgðirnar um 10% sisona. Meikar rosa diff, segi ég nú bara. Geisp.
Meira spennandi væri að vita hvort hífa eigi upp elstu tunnuröðina eða nýrri og gljáfægða 21. aldar brúsa. Reyndar myndi nú olíuverðið líklega lækka umtalsvert, verði af þessari hugmynd Obama. Í smá stund.
Umrædd eldri færsla um olíubirgðir Bandaríkjanna ber titilinn "Dularfullu salthellarnir" og hana má sjá hér: http://askja.blog.is/blog/askja/entry/527282/
------------
Annars var ég í síðustu færslu búinn að lofa að fjalla aðeins um kjarnorkusamvinnu Persa og Bandaríkjamanna hér í Den. En ég er svo skollið sybbinn núna, að ég verð að leggjast flatur. Heyrumst kannski á morgun.
![]() |
Obama vill selja olíubirgðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.8.2008 | 08:04
Skákborð veraldarinnar
Í fjölmiðlunum er heimurinn er oft málaður svart-hvítur. Íran gegn Bandaríkjunum er eitt dæmið. Í reynd á kjarnorkuþekking Írana rætur að rekja til þess þegar Bandaríkin studdu kjarnorkuuppbyggingu Írana á 6. og 7. áratug liðinnar aldar. Og reyndar lengur.

Upphaf þessa má rekja til frægrar ræðu Eisenhower's forseta, þar sem hann kynnti áætlun sem kölluð var "Atoms for Peace". Þetta var árið 1953 og Eisenhower var nýorðinn forseti Bandaríkjanna (tók við af Truman). Í hnotskurn má segja að þar með ákváðu Bandaríkin að hjálpa öðrum þjóðum að nýta kjarnorkuna í friðsamlegum tilgangi.
En áður en kjarnorkuaðstoð Bandaríkjanna við Íran verður lýst, er nauðsynlegt að skoða fyrst aðdraganda málsins. Segja má að ballið hafi byrjað í upphafi 6. áratugarins. Þegar Bandaríkin hjálpuðu Bretum að steypa af stóli lýðræðislega kjörnum forsætisráðherra Írana, lögfræðingnum Mohammed Mossaddeq. Þetta gerðist 1953. Og ástæðan var auðvitað olíuhagsmunir.
Reyndar var það svo, að á þessum tíma voru Bandaríkin ekki mikið að hugsa um Mið-Austurlönd. Það var ekki fyrr en eftir Súez-deiluna 1956, sem Bandaríkin ákváðu að styrkja hagsmuni sína í þessum heimshluta. Og trygga að þar næðu hvergi kommúnistar völdum.
Íranska þingið hafði kosið Mossaddeq sem forsætisráðherra árið 1951. Á þessum tíma ríkti mikil óánægja í landinu sökum þess að allur olíuiðnaðurinn var í höndum breskra fyrirtækja. Og þá fyrst og fremst Anglo-Iranian Oil Company. Sem var að mestu í eigu breska ríkisins - en heitir í dag örlítið kunnuglegra nafni; nefnilega British Petroleum eða BP.
Í öðru stóru olíuríki, Saudi Arabíu, höfðu stjórnvöld þegar fengið samning um að 50% af olíuhagnaðinum skyldi renna til ríkisins. En í Íran hafði BP einkaleyfi á mestu olíulindum landsins gegn föstu gjaldi, sem var ekkert annað en skítur á priki (BP bar reyndar annað heiti á þessum tíma, sem fyrr segir, en einfaldast að nota BP-nafnið). Að sjálfsögðu hafði BP engan áhuga á samningi í anda þess sem gerður hafði verið í Saudi Arabíu - enda eru 100% talsvert meira en 50%. Ekki síst þegar peningar eru í spilunum.

Mossaddeq ásamt íranska þinginu ákvað að þjóðnýta olíuiðnað landsins og gera eignarnám í öllum eignum BP í Íran. Þetta þótti BP auðvitað súrt i broti og breska heimsveldið brást ókvæða við. Bretar gerðu sér þó grein fyrir hinum mikla stuðningi sem Mossaddeq naut meðal landsmanna og taldi ekki séns að koma honum frá nema fá aðstoð Bandaríkjanna. Þess má geta að Mossaddeq var útnefndur maður ársins 1951 af tímaritinu Time.
Með því að búa til sögu um að Mossaddeq væri u.þ.b. að fallast í faðma með leiðtogum Sovétríkjanna tókst Bretum að sannfæra Eisenhower árið 1953, en hann var þá nýlega orðinn forseti. Truman mun hins vegar áður ítrekað hafa hafnað óskum Breta um slíka aðstoð. Á þessum tíma voru Bandaríkin enn nokkuð róleg um sinn hag, þó svo Sovétmenn ættu kjarnorkusprengju. En Kóreu-stríðið hafði samt skapað talsverða taugaveiklun og nú skipaði Eisenhower CIA að aðstoða við stjórnarbyltingu í Íran. Aðgerðin var kölluð Ajax.
Til að gera langa sögu stutta var Mossaddeq steypt af stóli og stungið í fangelsi (hann lést árið 1967). Íranskeisari afnam stjórnarskrána og tók sér alræðisvald. Árið 1954 tók breska olíufélagið upp nafnið BP og hélt hamingjusamt áfram að dæla olíunni upp i Íran og selja um heiminn.

En því miður fyrir ljúflingana hjá BP var írönsku þjóðinni ofboðið og BP neyddist til að láta undan þrýstingnum og ná einhverju samkomulagi. Niðurstaðan varð sú að nýtt félag var stofnað um reksturinn, National Iranian Oil Company,hvar BP átti 40%. Afganginum (60%) var skipt upp á milli sex annarra olíufélaga, sem þó ekkert var í eigu Írana. Heldur urðu nokkur bandarísk félög, auk Shell og Total (sem þá hét reyndar öðru nafni), hluthafar í nýja félaginu. Ástæða þess að Íranar féllust á þetta fyrirkomulag var sú, að um leið var gert sérstakt samkomulag um að írönsk stjórnvöld fengju 50% af hagnaði félagsins. Með þeim fyrirvara, reyndar, að þeir fengju engan aðgang að bókhaldinu. Þannig að við verðum barrrasta, f.h. Írana, að treysta á að menn hafi gefið upp réttar hagnaðartölur.
Um BP og framhaldið er það að segja að félagið hélt áfram starfsemi sinni í Íran í nær aldarfjórðung. Eða allt þar til íslamska byltingin var gerð 1979 og keisarinn flúði. Khomeni varð æðsti klerkur og erlendu olíufélögunum var fleygt úr landinu. Þar með lauk nærri 7 áratuga olíuvinnslu Breta í Íran.
Til allrar hamingju fyrir BP hafði félagið þá þegar byggt upp mikla olíuvinnslu bæði í Norðursjó og Alaska. Annars hefði þessi atburðarás hugsanlega riðið félaginu að fullu. Þrátt fyrir að verða af hinum geggjuðu olíuhagsmunum í Íran, er BP í dag eitt stærsta olíufélag heims.
Með byltingunni í Íran 1979 lauk einnig kjarnorkuaðstoð Bandaríkjanna við landið. Sem til stóð að segja frá hér. En bíður næstu færslu.
Já - svona er olían alls staðar sem eitthvað gerist. Og Íslendingar muna væntanlega hvernig þeir þurftu að berjast fyrir því að koma breskum fiskiskipum burt frá Íslandsmiðum. Það varð okkur líklega til happs að fiskur er ekki olía. Og því tæplega hægt að sannfæra Bandaríkin um að það þyrfti að stinga t.d. Lúðvík heitnum Jósepssyni og félögum í dýflissu. Þegar landhelgin var færð út.

En alltaf gaman að fabúlera smávegis. Hvað ef við hefðum ekki verið í NATO? Ætli það væru þá einhverjir aðrir en Samherji, Brim og Grandi, sem ættu kvótann? T.d... t.d barónessa Tatcher?
Engin hætta á því - hún hefði nefnilega einkavætt kvótann - rétt eins og BP. Svo hef ég reyndar heyrt að íslenskir stjórnmálamenn hafi farið létt með það sjálfir að losa þjóðina við kvótann og ekki þurft aðstoð breskra stjórnmálamanna til. En það er líklega allt önnur saga.
Ekki misskilja mig samt. Svo vill til, að ég styð kvótakerfið! Heilshugar. Samt smá ólykt af því hvernig framkvæmdin var. Hvað um það - næst mun Orkubloggið segja frá samvinnu Bandaríkjanna og Írana í kjarnorkumálum.
![]() |
Íranir reiðubúnir til viðræðna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.8.2008 | 08:15
Þrek og tár

Árans. Enn missir maður af verslunarmannahelgi. Sú besta var auðvitað 1991; við Þórdís tvö ein í íslensku kjarri í Borgarfirðinum. Síðan eru liðin 17 ár og tveir stubbar hafa bæst við í safnið. Og nú síðast kisi og líka hvutti.
Önnur eftirminnileg verslunarmannahelgi var sú í Þórsmörk hér í Den. Mun hafa verið 1988 held ég. Sem sagt 20 ára afmæli í dag! Það var gott stuð. Með þeim Braga, Ara, Jónasi, Ragga og fleiri góðum. Einhverjar skvísur voru eflaust þarna líka. En held það sé barrrasta horfið í þoku tímans.
Og árin líða. Hver gekk sína leið í sinni hamingjuleit. Og þó maður sé alltaf sami sokkurinn, breytist maður nú samt. T.d. hef ég orðið meyrari með árunum. Tárast auðveldlega við að heyra fallegt lag, eða lesa um sorglegan atburð. Afskaplega ólíkt mér frá því hér áður fyrr. Ég held að karakterinn manns breytist talsvert mikið þegar maður eignast börn og sér þau vaxa úr grasi. Þá fyrst skynjar maður lífið.

Sama má segja um tónlistarsmekkinn. Hann breytist líka. Þó svo ég haldi enn mikið uppá bæði David Bowie og Bruce Springsteen, rétt eins og í menntó. En meðan ég hef verið hér einn í MBA-náminu í Köben, hef ég mest hlustað á Vilhjálm Vilhjálmsson. Mikið óskaplega var hann góður söngvari. Svo vekur hann upp mikið af góðum minningum. Frá því þegar maður var snáði í stofunni heima á Klaustri. Og Vilhjálmur söng í Óskalögum sjúklinga.
Mér finnst gott að hlusta á tónlist þegar ég er að læra. Það truflar mig ekki. Þvert á móti. Ætli ég geti ekki tileinkað MBA-gráðuna minningu Vilhjálms. Hann hefur a.m.k. haldið mér við efnið marga nóttina. Yfir verkefnum og ritgerðum.
En þó svo Vilhjálmur hafi verið hreint frábær, er það alfallegasta auðvitað Þrek og tár. Tær snilld. Hvað er betra en smá nostalgía? Hlustum og skælum:
![]() |
Flogið stanslaust fram á kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.8.2008 | 10:41
Þórsmerkurhjartað slær

Klakinn góði. Er bestur - þrátt fyrir allt. Nú eru menn eitthvað að barma sér yfir verðbólgu. Ég segi nú barrrasta iss, piss. Allt sæmilega þroskað fólk man vel þá tíma, þegar maður var í sífelldu kappi við gengisfellingarnar. Að gera "góð kaup", rétt fyrir gengisfellingu var rjómi rjómans. Í þá daga þurfti útsjónasemi til að græða pening! T.d. þegar ég keypti AKAI-steríógræjurnar á tímum ríkisstjórnar Gunnars heitins Thoroddsen. Daginn fyrir gengisfellingu - lýg því ekki. Það voru góð kaup. He, he. En ég held að ég hafi aldrei fyrr né síðar á ævinni lent í jafn svakalega agressívum sölumönnum eins og í Akai-búðinni á Laugaveginum hér í Den. Þeir voru rosalegir!
Já - maður saknar Klakans góða héðan frá flatneskjunni í Köben. Engin Þórsmörk hér!
Þessi helgi verður tileinkuð íslenskri tónlist, hér á Orkublogginu. Hér kemur tómlistaratriði, sem ég held að sé hið hallærislegasta í sögu lýðveldisins. En samt... Samt finnst mér þetta hreint stórkostlegt lag og frábær flutningur. Hittir beint í mark. Íslenska Þórsmerkurhjartað kippist til. Kannski hið hallærislegasta - en líka hið dásamlegasta. Þetta er einfaldlega klassík. Rétt eins og Maríukvæðið (Þórsmerkurljóðið) hans Sigurðar Þórarinssonar. Dömur mínar og herrar; má ég kynna: Nína - með Stebba og Eyfa. Og er þetta ekki sjálfur Eyþór Arnalds sem snýr sellóinu svona lauflétt, í blálokin á laginu?:
Annað lag sem ég held mikið upp á kallast "Undir þínum áhrifum" með Stebba Hilmars. Börn geta verið skondin. Hann stráksi minn tók ástfóstri við þetta lag - líklega fyrst þegar hann var ca. 4 ára gamall. Var sísönglandi það og vildi alltaf hafa það á í bílnum. Og hefur haldið upp á það alla tíð síðan (hann er 7 ára núna). Og hrifning hans smitaði mig gjörsamlega. Þetta er frábært lag hjá Stebba.
Svo sagði ég stráksa mínum frá því, að einu sinni fyrir langa löngu hitti ég Stebba Hilmars og heilsaði honum. Var þá einhversstaðar niðrí bæ með vini mínum, sem þekkti Stebba. Held það hafi verið hann Bragi Þór, sem í dag er einn af forstjórum Eimskips.
Og ég verð barrrasta að segja, að Stebbi Hilmars var flottur og eðlilegur náungi. Líklega ekki nema 20 ár liðin síðan þá. Það gengur svona.
Sem sagt sagði ég stráksa mínum frá þessu. Og þið hefðuð átt að sjá þann stutta. "PABBI! Heilsaðirðu STEBBA HILMARS!" Virðing snáðans á föður sinum steig margfalt þann daginn. Stundum er lífið svo einfalt og skemmtilegt.
Og ég segi bara: Stebbi. Og Eyfi. Takk fyrir. Og hér kemur Stefán Hilmarsson, með þetta frábæra lag (og ég er strax kominn með tár í augun og góða tilfinningu í brjóstkassann):
![]() |
Hátíðir fóru vel fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)