Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Sólarorkan sigrar

Ég missi yfirleitt alltaf af spennandi atburðum á Íslandi. Hvort sem eru sólmyrkvar eða jarðskjálftar. Líklega of mikið á flækingi í útlöndum. Verð að fara að venja mig af því. Enda er alltaf best á Klakanum góða. Til allrar hamingju fer að styttast í heimkomu. Og fátt er yndislegra en september á Íslandi. Svo ég er farinn að hlakka til. Og ekki er ólíklegt að þá verði slökkt á Orkublogginu. Sjáum til.

CSP_plan

Orkubloggið hefur undanfarið gefið því undir fótinn að Evrópa eigi að bindast nánu samstarfi við ríkin við norðanvert Miðjarðarhaf. N-Afríku. Þar sem sólin skín sterkar en víðast hvar annars staðar - og þar sem eyðimörkin breiðir úr sér. Eyðimörkin sem mun bjarga orkumálum Evrópu.

Ég held að ég hafi áður birt þessa mynd hér til hliðar, einmitt hér á Orkublogginu. Þar er lýst hugmynd TREC um að Evrópa tengist öðrum löndum við Miðjarðarhaf, í gegnum nýtt raforkunet með vind- og sólarorkuverum allt i kringum Mare Nostrum.

TREC stendur fyri Trans-Mediterranean  Renewable Energy Cooperation og verkefnið er kallað Desertec (um þetta má t.d. lesa á  www.desertec.org, www.trec-eumena.org og  www.trec-uk.org). 

Menn halda kannski að þetta sé einhver vísindaskáldskapur. En það er langt í frá. Nær að segja að þetta sé í anda sænsks realisma! Hvað svo sem verður um draum Sarkozy's Frakklandsforseta um nýtt Miðjarðarhafsbandalag, þá eru Miðjarðarhafslöndin utan Evrópu mál dagsins. Og hananú.

M.ö.o. þá eru óvíða í heiminum meiri fjárfestingar nú um stundir, eins og í Miðjarðarhafslöndunum utan Evrópu. Slagar hátt í Kína. Kannski meira um það síðar. Í dag ætla ég aftur á móti að beina sjónum að sólarorkutækninni, sem þarna mun hugsanlega ryðja sér til rúms.

Energy_Costs_Renewables

Sem kunnugt er hefur Orkubloggið lengi (a.m.k. miðað við líftíma bloggsins fram að þessu!) trúað á þá hugmynd að í N-Afríku verði reist orkuver, sem byggi á s.k. CSP-tækni (Concentrated Solar Power). Sem mætti kalla "brennipunkta-orkuver" a íslensku. Og nú hefur málflutningur Orkubloggsins náð eyrum fleiri. Líklega í gegnum Moggabloggið! T.d. var grein um þetta í Guardian fyrir sléttri viku. Blessaðir kjánarnir hjá Guardian hafa reyndar ekki alveg skilið málið. Því skv. greininni mun þessi uppbygging aðallega felast í orkuverum sem nýta sólarsellutæknina (photovoltaic cells). Eins og allir vita, er það barrrasta bull. Þó svo sólarsellutæknin sé mjög sniðug, þá verður hún ekki stóra málið í rafmagnsframleiðslu fyrir Evrópu. Slíkt yrði alltof, alltof dýrt.

Til allrar hamingju eru Íslendingar betur upplýstir um endurnýjanlega orkugjafa, en breskir blaðasnápar. En reyndar er CSP enn líka nokkuð dýr tækni. Enda einungis eitt einkarekið CSP-orkuver starfrækt í heiminum í dag. Það er í Nevada í Bandaríkjunum. Nú eru aftur á móti horfur á að senn muni þessi tækni t.d. verða samkeppnisfær við vindorku. Þar að auki hefur CSP-tæknin eitt, sem gefur henni mikið forskot á t.d. vindorku.

CSP_drawing

Það er að geta geymt orkuna. CSP tæknin byggir nefnilega á því að safna geislum sólar í brennipunkt og mynda mikinn hita. Þessi hiti er auðvitað notaður til að búa til gufuþrýsting, sem knýr túrbínu og framleiðir rafmagn. En hitinn er líka notaður til að bræða sérstaka saltlausn og þar er hægt að "geyma" mikla hitaorku í umtalsverðan tíma. Og sækja þann hita þegar t.d. sólin sest og halda rafmagnsframleiðslunni áfram í marga klukkutíma eftir sólsetur. Þessi möguleiki er afar hagstæður þarna suður við Miðjarðarhaf. Því rafmagnsnotkunin er mikil þar á kvöldin - eftir að dimmt er orðið. Auk þess sem sólargeislunin þarna er mjög stöðug og útreiknanleg - öfugt við vindinn sem er síbreytilegur. Allt leggst þetta á eitt og gerir CSP að góðum valkosti.

Reyndar verður líklega hagkvæmast að "blanda saman" raforkuframleiðslu frá CSP og vindorku. Slík orkuver gætu gefið af sér mjög stöðugt framboð af raforku allan sólarhringinn. Þess vegna gerir TREC einmitt ráð fyrir miklum vindorkuverum á strönd Marokkó, svo dæmi sé tekið.

En er þetta raunhæft? Jafnvel þó að kostnaðurinn af þessari rafmagnsframleiðslu verði etv. ekki meiri en við þekkjum i jarðhitanum eða í vindorku? Af hverju ættu olíuríki eins og Egyptaland, Lýbía eða Alsír að vilja taka þátt í orkuvinnslu, sem myndi etv. draga úr eftirspurn eftir olíu? Er Orkubloggið alveg útá þekju?

CSP_schott_parabolic_trough

Má vera. En bloggið er fullvisst um að þetta er framtíðin. Ef ESB klúðrar þessu ekki pólítískt. CSP er nefnilega upplögð tækni til að framleiða drykkjarvatn úr sjó! Í það ferli þarf gríðarmikla raforku. Og ekki er gæfulegt að nota kolefnislosandi orkugjafa í slíkt. Því hentar CSP löndunum við Miðjarðarhaf ákaflega vel. Þetta mun einnig vekja áhuga landanna á Arabíuskaganum. Þ.á m. olíuríkjanna.

Þar að auki þyrstir N-Afríkulöndin í meira efnahagssamstarf við ESB. Að enn meira fjármagn frá ríkjunum innan ESB komi inní þessi lönd. Rétt eins og erlendar fjárfestingar eru eftirsóttar á Íslandi. CSP er m.ö.o. snilldar tækni fyrir bæði Evrópu og N-Afríku. Og þetta eru menn nú að uppgötva - ekki síst nokkur af öflugustu fyrirtækjum Spánar.

Nefna má að senn munu taka til starfa nokkur CSP raforkuver, sem nú eru í byggingu á Spáni, í Flórída í Bandaríkjunum og í Egyptalandi (mynd frá einu þeirra hér að ofan). Og það eru sko engir bjánar, sem standa að baki þessum fjárfestingum. Fremst í flokki eru líklega spænsku iðnaðarrisarnir Abengoa og Acciona. Nefna mætii enn eitt spænskt fyrirtæki; Torresol. Að baki því standa spænska fyrirtækið Sener og olíupeningar frá Sameinuðu Arabísku furstadæmunum; fyrirtæki sem nefnist Masdar og hefur þann tilgang að fjárfesta í endurnýjanlegri orku víða um heim. Vantar kannski erlent fjármagn í REI?

BjorgolfurThor

Já - CSP er í alvörunni alvöru bisness! Satt að segja er ég hálf hissa á að jafn súperklár náungi og BTB, skuli nú vera að horfa til fjárfestinga á Indlandi og í Kína. Eins og maður hefur heyrt af. Í mínum huga er Brasilía meira spennandi - ef maður ætti svona glás af pening. Og miklu nærtækara og meiri möguleikar eru t.d. í Tyrklandi og löndunum sunnan megin við Miðjarðarhaf. Where the sun always shines.


mbl.is Nærmyndir af sólmyrkva
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóðalegt?

enron_skilling-lay_bars

Sóðalegt? Ég veit satt að segja ekki hvort það er viðeigandi að birta myndbönd, eins og það hér að neðan.

Þar sem gefið er í skyn að æðstu menn íslenskra banka, í þessu tilviki Kaupþings, séu á sama plani og yfirmenn Enron voru. Sem nú sitja í bandarískum fangelsum með margra ára dóma á bakinu. Reyndar "slapp" Ken Lay undan réttvísinni og lenti þess í stað í gröfinni. En Skilling þarf að dúlla sér við að spila tennis næstu áratugina. Sbr. færslan "Fucking smart":   http://askja.blog.is/blog/askja/entry/577795/

En samt horfir maður auðvitað á þetta... 


mbl.is Hagnaður bankanna dregst saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trillion dollars!

Enn einu sinni! Enn einu sinni ætlar Orkubloggið að minna á þá skoðun sína, að olíutunna undir 150 USD er bara skítbilleg. Þetta er reyndar mikið öfugmæli þegar litið er til þess, hvað það kostar miklu, miklu minna að framleiða olíuna sem er í tunnuræflinum.

Orkubloggið hefur áður sagt frá því að olíufélögin dæla svarta gullinu upp fyrir allt frá 5 dollurum pr. tunnu. Þá er allur kostnaður við vinnsluna innifalinn - líka kostnaður við að leita og finna olíuna! Af einhverjum ástæðum geta þau svo selt olíuna örlítið dýrari. Af því ekkert skárra er í boði.

Auðvitað kostar sumstaðar talsvert meira en 5 dollara að finna svarta gumsið og dæla því upp á yfirborðið. T.d. er meðaltalskostnaðurinn í þessum bransa víða um heim í kringum 10-15 dollara pr. tunnu. Svo kostar ca. 5 dollara í viðbót að hreinsa sullið, svo það verði nothæft. Þannig að algengur framleiðslukostnaður á olíutunnunni er ca. 15-20 USD. Líklega um 30 USD hjá Sádunum, sem eru þeir stærstu í bransanum. En það er nú allt og sumt.

Carton_oil_excuses

Í kvöld var lokaverðið á NYMEX 124,07 USD. Þó svo verðmunurinn þarna segi ekki alla söguna, er þetta í reynd prýðileg vísbending um það af hverju olíufyrirtækin eru að græða talsvert þessa dagana.

Hafa ber í huga að það er talsvert mikið dýrara að vinna t.d. Norðursjávarolíuna. En þetta er engu að síður mjög algengur kostnaður í olíuvinnslu víða um heim; 15-20 USD pr. tunnu. Stundum aðeins meira og stundum jafnvel aðeins minna. Það kostar sem sagt svona ca. 1.200-1.600 íslenskar krónur víðast hvar fyrir olíufélögin að framleiða ca. 160 lítra af olíu (ein olíutunna inniheldur nákvæmlega 158,9873 lítra).

Ef við miðum við hærri töluna (1.600 kr) er algengur framleiðslukostnaður pr. líter af olíu ca. tíkall. Tíu íslenskar krónur fyrir að framleiða einn lítra af olíu. Ég verð að segja alveg eins og er - þetta er náttttlega barrrrast hræbillegt stöff.

Stóra spurningin er hvort sætir og grænir orkugjafar eins og sól, gufa eða vindur geti keppt við olíusullið af einhverju viti? Hverjum dettur í hug að setja milljarða í t.d. vindorkuver, þegar Sádarnir geta kaffært mann í einni svipan. Með því að lækka verðið hjá sér í svona ca. 40 USD tunnuna. Og græða samt vel á framleiðslunni.

Al Gore og fleiri góðir spámenn tala nú um að það þurfi að stórauka rafmagnsframleiðslu frá endurnýjanlegum orkulindum. Þær góðu lindir þurfa ekki aðeins að keppa við olíuna í verði. Heldur líka keppa við gas. Og kol. Og kjarnorku.

Endurnýjanleg orka verður því aðeins samkeppnisfær, að þannig sé búið um hnútana af pólitíkusunum. Eins og við þekkjum, hefur t.d. bensínverð á Íslandi ekkert með raunverulegt framleiðsluverð að gera. Það stjórnast fyrst og fremst af skattlagningu ríkisins. Eina leiðin til að eitthvað komi í stað olíu á næstu áratugum, er að skattkerfinu eða kvótum verði beitt til að gera það hagkvæmt að nota aðra tegund orku.

WindRainbow

Forstjóri vindtúrbínufyrirtækisins Vestas, hér í Danmörku, hefur sagt að vindtúrbínurnar geti keppt við olíuna svo lengi sem verðið á henni sé yfir 50 USD.

En áhættan af því að fjárfesta í endurnýjanlegri orkuframleiðslu er veruleg. Fari olíuverðið niður í 50 dollara er hætt við að fjörið verði snarlega búið hjá fyrirtækjum eins og Vestas. Í bili. 

Fyrirsögn færslunnar (Trillion dollars) vísar til þeirrar upphæðar sem Bandaríkjamen munu líklega eyða á þessu ári í að kaupa og flytja inn oliu frá útlöndum. Þetta eru 1.000 milljarðar dollara. Sem Bandaríkin borga til olíu-sheikanna í Mið-Austurlöndum og fleiri olíuríkja.

Hvað seljendurnir gera við þennan pening er önnur saga. En þeir hafa m.a. notað aurana til að kaupa upp mörg af ábatasömustu fyrirtækjum Bandaríkjanna. Þar að auki er stór hluti af olíukaupum Bandaríkjanna fjármagnaður með lánum - ekki síst frá Kína. Þess vegna hrannast upp skuldir Bandaríkjanna við útlönd. Loks stefnir flest í, að þar á bæ ætli menn að stöðva hrunið á húsnæðismarkaðnum með því að ríkið komi bönkunum til bjargar. Sem þýðir líklega ekkert annað en ennþá meiri dollaraprentun, meiri verðbólgu og enn frekari lækkun dollars. Og af því að nánast öll olía heimsins er seld í dollurum, mun verðið á henni varla lækka í bili. Ekki ef dollarinn lækkar enn meira. Þetta eru ekki beint bestu ár Bandaríkjanna. En Orkubloggið geislar af hamingju, enda allt að gerast á orkumarkaðnum.

Hvað um það. Það er reyndar vel þess virði að hlusta á Al Gore lýsa framtíðarsýn sinni. Um það að innan tíu ára komi öll rafmagnsnotkun í Bandaríkjunum frá endurnýjanlegum orkulindum (þetta er stytt "best-of" útgáfa af ræðunni):

 

Svo er hér comic-relief útgáfa til stuðnings Gore. Með þeim David Letterman og ljúflingnum Billy Crystal úr gamla góða Löðrinu. 

 


mbl.is 118.000 króna gróði á sekúndu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Tímabundið verðbólguskot..."

Í gær var það Landsbankinn, sem tilkynnti um 12 milljarða króna hagnað á 2. ársfjórðungi (vel að merkja eftir skatta). Sá hagnaður munað verulegu leyti til kominn vegna gengisvarna. Eins og sumir kalla það, þegar veðjað er gegn krónunni.

Og nú í dag fáum við þær góðu fréttir að Kaupþing hafi líka hagnast vel á 2. ársfjórðungi. Ekki síst af því "að bankanum hafi tekist að "verja eiginfjár- og lausafjárstöðu sína. Gengisvörn bankans og verðtryggðar eignir í eignasafni hans hafi varið bankann fyrir óróa í hagkerfi Íslands". Eins og Hreiðar Már orðar það.

Og ég sem hélt að það hefðu bara verið vondir útlendir ofurbraskarar og andstyggilegir krónusjortararar, sem högnuðust á gengisfalli krónuræfilsins. Var ekki alltaf verið að tala um árás útlendinga á krónuna? Það er nú aldeilis gott að fá að vita, að íslensku bankarnir skuli a.m.k. vera með í þeim hópi sem högnuðust vel á gengisfallinu.

Og bara svo þið vitið það: Ástandið sem nú ríkir á Íslandi er hvorki kreppa né hrun. Það heitir aftur móti því fína og sæta nafni að endurheimta jafnvægi. Sbr. fréttatilkynning frá Halldóri J. Kristjánssyni, bankastjóra Landsbankans  (www.landsbanki.is/umlandsbankann/frettirogutgafuefni/frettir?GroupID=294&NewsID=12660&y=0&p=1): 

Landsbankastjorar

"Íslenska hagkerfið er nú að endurheimta jafnvægi aftur eftir mikinn og áralangan vöxt. Þróunin fyrri hluta ársins endurspeglar þessa breytingu, sér í lagi endurmat á krónunni og tímabundið verðbólguskot. Þökk sé jákvæðum gjaldeyris- og verðtryggingarjöfnuði hefur Landsbankanum tekist að halda neikvæðum áhrifum gengislækkunarinnar á eiginfjárhlutfall og efnahagsreikning í lágmarki."

Ég hef reyndar alltaf átt erfitt með að skilja þetta orðalag "tímabundið verðbólguskot". Hélt að maður kallaði svoleiðis "lélega efnahagsstjórnun". En kannski er efnahagsstjórnun aldrei léleg nema verðbólga fari yfir t.d. 20% á ári í a.m.k. 5 ár. Eða er það kannski líka "tímabundið verðbólguskot"?

Reyndar hefur niðursveiflan núna (réttara sagt "endurheimt jafnvægis") auðvitað engin áhrif á almenning. Svo ég aftur vitni í Halldór: 

"Íslensk heimili eru að hluta varin gegn skammtímaáhrifum verðbólgu þar sem hefðbundin húsnæðislán bera fasta raunvexti." 

Það gæti nefnilega verið verra; bæði verðbólga og hækkun á vöxtum, ef þeir væru breytilegir. Reyndar mætti kannski benda Halldóri á að fjölmörg íslensk heimili eru reyndar með húsnæðislán á breytilegum vöxtum. En kannski er Halldór ekki með þannig lán á íbúðinni sinni.

En auðvitað ættu allir að geta verið kátir yfir því hvað ástandið hjá Landbankanum er gott. Svo mun þetta bráðum verða enn betra, þegar nýju álverksmiðjurnar verða komnar á fulllt, eins og Halldór bendir á:

"Nýlegar stóriðjuframkvæmdir hafa aukið framleiðslugetu í útflutningsgreinum sem auðveldar aðlögun hagkerfisins að nýju jafnvægi. Aukin arðsemi af nýtingu hinna fjölmörgu orkulinda landsins mun ýta undir beinar erlendar fjárfestingar í orkufrekum iðnaði. Aukin orkuframleiðsla getur aukið landsframleiðsluna um 4% sem svarar til um 0,8% hagvaxtarauka á ári næstu 5 árin."

Eins og lesa má mun reyndar þurfa fleiri álverksmiðjur til að skapa þennan hagvöxt. Sem væntanlega mun þýða nýtt ójafnvægi. Sem er barrrasta hið besta mál; því þá verður aftur hægt að "endurheimta jafnvægi". Og allan tímann hagnast auðvitað bankarnir.

Og hagnist þeir ekki alveg nóg, mun ríkið auðvitað hjálpa þeim með að fá ódýrara lánsfé, en önnur fyrirtæki eiga kost á. Reyndar eru alltaf einhverjir sem þurfa að borga vaxtamuninn, sem bankarnir fá gefins frá ríkinu. Varla hægt að líta fram hjá því. En það skiptir engu - bara eitthvert nafnlaust fólk sem kallast skattborgarar. Þetta er sérstök útgáfa af ríkisstyrktum bankakapítalisma, sem þeir fundu upp í Bandaríkjunum. Mjög sniðugt fyrirbæri. Eins og sagt er frá hér:

 


mbl.is 15,4 milljarða hagnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

شكيب خليل ... og olíuvandræði Evrópu

Eins og við John Bogle hjá Vanguard höfum alltaf sagt: "Nobody knows nuthin!"

OPEC_Chakib_Khelil

Í dag birtust fréttir um að Alsírmaðurinn Chakib Khelil spáir því að olían fari niður i 80 USD tunnan. Skemmtilegt. Því varla er mánuður siðan þessi sami ljúflingur spáði olíuverðinu i 150-170 USD. T.d. sagði Bloomberg fréttaveitan svona frá þessu þann 29. júlí:

"President Chakib Khelil predicted that the price of oil will climb to $170 a barrel before the end of the year".

Þetta er óneitanlega athyglisvert. Því Khelil er hvorki Ketill né hver sem er. Ekki aldeilis. Og svo heitir hann reyndar ekki Chakib Khelil, heldur شكيب خليل !

Khelil er forseti OPEC og því nánast æðsti páfinn í olíubransanum. Þetta væri svona álíka og hinn hreini sveinn suður í Vatíkaninu í Róm, breytti um skoðun á ágæti aflátsbréfa á ca. mánaðarfresti. En svona er nú olíumarkaðurinn bara skemmtilega óútreiknanlegur. 80 dollarar eða 160 dollarar? Who cares? And nobody knows nuthin!

EU_OIL_2

Undanfarið hefur Orkubloggið beint athyglinni að orkuvandræðum Evrópu. Í dag ætlar bloggið aðeins að skoða hvaðan Evrópa fær olíuna sína.

Sem fyrr, segir mynd meira en 1000 orð. Og myndin hér til hliðar skýrir sig sjálf (smella á hana til að fá stærri). Aðalatriði er að olíubirgðir innan lögsögu Evrópusambandsins fara hratt minnkandi. Þannig að innflutningur frá löndum utan ESB eykst.

Það getur verið svolítið ruglingslegt að skoða þróun á olíuneyslu ESB. Vegna þess að bandalagið hefur t.d. verið að stækka. Einnig ber að hafa í huga að þegar talað er um olíunotkun og olíuframleiðslu ESB, er Noregur stundum talinn þar með. Þó svo Noregur sé jú ekki í sambandinu - frekar en Ísland. Í reynd er aðeins einn stór olíuframleiðandi innan ESB. Það er Bretland, sem framleiðir u.þ.b. 1,8 milljón tunnur á dag (meðan Norðmenn framleiða hátt i 3 milljón tunnur). Olíuframleiðsla Breta fer hratt minnkandi. Norðmenn kunna að geta aukið framleiðslu sýna á ný, með því að flytja vinnsluna norðar. En Bretland er einfaldlega hnignandi sem olíuframleiðsluríki.

Önnur helstu  olíuframleiðsluríki innan EB eru Danmörk (ca. 300 þúsund tunnur á dag), Ítalía (ca. 150 þúsund), Þýskaland (ca. 150 þúsund), Rúmenía (ca. 120 þúsund tunnur) og Holland og Frakkland (hvort um sig með ca. 75 þúsund tunnur). Nokkur önnur Evrópuríki framleiða olíu, en í það litlu magni að það skiptir litlu, eða öllu heldur engu máli, í heildar samhenginu.

EU AND USA SELF SUFFICIENCY-3

Orkubloggið hefur áður nefnt hversu ESB er háð Rússum um gas. Um helmingur af gasinnflutningi ESB kemur frá Rússlandi (hinn helmingurinn að mestu frá Noregi og Alsír). Aftur á móti fær ESB stærstan hluta af olíunni frá Mið-Austurlöndum.

Í dag nota þjóðirnar innan ESB (EES löndin meðtalinn) um 15 milljónir tunna af olíu á dag (til samanburðar má nefna að Bandaríkin nota rúmlega 20 milljón tunnur á dag). Eins og sjá má af tölunum hér ofar, um olíuframleiðsluna innan Evrópu, er framleiðslan þar sáralítil miðað við notkunina eða einungis um 15-20%. Álfan er því mjög háð innflutningi á olíu.

Af þessum 15 milljón tunnum sem ESB notar, flytur sambandið um 85% inn. Eftir ca. 20 ár verður þetta hlutfall líklega 90%. M.ö.o. þarf Evrópa bráðum að flytja inn nánast alla olíuna sem íbúar þar nota.

Hátt hlutfall innfluttar olíu hefur hrjáð Evrópu talsvert lengi. Þetta ástand hefur hvatt Evrópuríkin til þess að nýta aðra orkugjafa. Þessi þróun mun halda áfram. En þrátt fyrir það hversu Evrópa er háð innfluttri olíu, held ég að það sé ekki stórkostlegt áhyggjuefni. Það eru ýmis tækifæri fyrir hendi.

Romanempiremap

Engu að síður er nú komið að ákveðnum vatnaskilum. Evrópa þarf að gera það upp við sig, hvort hún vill kasta sér í orkufaðm Rússa eða horfa til N-Afríku. Auðvitað verður reynt að halda sem flestum leiðum opnum og nýta alla möguleika í einu. En stóra spurningin er samt: Hvor kosturinn er álitlegri?

Ég veðja á að innan fárra áratuga muni umtalsverður hluti af allri rafmagnsnotkun Evrópu koma frá sólarorkuverum í ríkjunum allt í kringum Miðjarðarhaf. Ekki síst frá N-Afríku. Sólarorkuverin taka nefnilega talsvert pláss og landverðið er miklu lægra sunnan Miðjarðarhafs, heldur en Evrópumegin. Þess vegna er N-Afríka góður kostur fyrir sólarorkuver.

Já - orkuveldi framtíðarinnar mun rísa á rústum Rómaveldis. Enn á ný verða löndin kringum Miðjarðarhaf í brennidepli. Og í þetta sinn í orðsins fyllstu merkingu. Meira um sólarorkuna og brennidepilstæknina síðar.

PS:  Batnandi manni er best að lifa.  Nú er Orkubloggið búið að hrista af sér smávegis af sjálfsánægjuklístrinu.  Og opna á Bloggvinakerfið.  Þ.a. ef einhverjir tilvonandi Bloggvinir eru out there...


mbl.is Olíuverð hækkaði skyndilega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur og Össur

Eins og áður hefur verið nefnt hér á Orkublogginu, hef ég ætíð haldið upp á hann Sigurjón Þ. Árnason. Sem nú er annar af bankastjórum Landsbankans. Og það er líklega til marks um snilld þeirra Landsbankamanna að geta grætt fullt af pening í svona lufsuárferði, eins og núna ríkir. Ég held ég verði að fara að færa mig yfir í Landsbankann. Áður en Exista & Co. dregur Kaupþingsbankann minn alveg í svaðið.

Fyrst hélt eg reyndar að þeir Landsbankamenn hefðu gert svona vel á 2. ársfjórðungi, af því þeir hefðu hlýtt ráðum Orkubloggsins og farið massíft yfir í olíuna í apríl og maí. Þess vegna varð ég smá spældur að sjá frétt á visir.is um að þetta sé bara gengishagnaður. Eða eins og þar segir orðrétt: "Hagnað Landsbankans á öðrum ársfjórðungi má að stórum hluta rekja til jákvæðrar afkomu af gengisvörnum eiginfjár á tímabilinu."

Skemmtilega að orði komist. "Gengisvarnir eigin fjár". Á mæltu máli þýðir þetta líklega að Landsbankinn veðjaði á gengisfall krónunnar. Sem þýðir að þeir hafa keypt erlendan gjaldeyri i stórum stíl og losað sig við krónuræfla. Gott hjá þeim. Ég vildi óska að ég hefði sjálfur gert miklu meira af slíku - að "gengisverja" mitt eigið fé í stórum stíl. En maður getur ekki alltaf unnið.

ossur_bloggari

Hvað um það. Fyrirsögnin að þessari færslu er reyndar út af allt öðru. Mig nefnilega dreymdi hann Össur s.l. nótt. Að hann væri mér reiður fyrir að tala um það hér á Orkublogginu, að hann eigi að skammast til að móta skynsamlega framtíðarstefnu í orkumálum. Sbr. færslan "Íslenskt orkustefnuleysi";  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/597513/

Draumurinn gekk sem sagt út á það, að þetta hafi verið ómakleg aðför hjá mér. Í reynd hafi hann (Össur) tekið eitt stærsta skrefið að slíkri stefnumótun, með breytingunum á orkulöggjöfinni frá því i vor. Hann orðaði það reyndar aðeins öðruvísi í draumnum. En það ætla ég ekki að hafa eftir hér.

Ég hrökk auðvitað upp í svitakófi. Með nagandi samviskubit. Því í reynd fila ég Össur oftast mjög vel. Hver veit nema þetta framtak Össurar og Alþingis verði fyrsta skrefið að hinni heilstæðu og skynsömu orkustefnu, sem ég lýsti eftir.

Samt verð ég að segja að álversumræðan í kringum Helguvík og Húsavík finnst mér enn einkennast af gamla bútasaumshættinum. Og að Össur leiki stórt hlutverk í þeim bútasaumi. Í stað þess að taka næsta skref - og íslenska ríkið og þjóðin taki upp skýra langtímastefnu í orkumálum. Og í stóriðjumálum. En kannski er til of mikils mælst. Hjá þjóð sem fram til þessa hefur sjaldnast getað horft lengra fram en að næsta sauðburði eða næstu vertíð.

Lamb

Ég barrrasta skil það vel. Enda man ég sem það hafi gerst í gær, þegar ég var í sauðburðinum hjá honum Steina í Hörgslandskoti harðindavorið 1979. Og gul lambaskitan rann niður regnkápuna, þar sem maður burðaðist með tvílembinga ofan af heiðarbrúninni. Til að bjarga þeim frá að krókna í slyddunni. Já - þá komst maður líklega næst frelsaranum. Og var lítt að hugsa um langtíma orkustefnu.

Nóg um Össur í bili. Og þess í stað að Össuri. Gott að sjá hlutabréfin þar mjakast upp á við. Í dag sá ég nokkuð, sem snart mig. Þar sem ég var á hjólinu í nágrenni við Strikið hér í Köben, rak ég augun í stúlku í stuttbuxum með afskaplega granna fætur. Fyrst hryllti ég mig við anorexíunni. En svo áttaði ég mig á raunveruleikanum. Þarna stóð hún, þessi stúlka eða öllu heldur unga kona, í stuttbuxum og stuttermabol og hallaði sér upp að vegg í hitasvækjunni. Við hliðina á henni stóð talsvert eldri kona, hugsanlega mamma hennar, og var að taka peninga úr hraðbanka.

Stúlkan var ekki með anorexíuleggi. Hún var einfaldlega með gervifætur. Og svo sá ég að handleggirnir hennar enduðu báðir sem stubbar, rétt fyrir neðan olnboga. Engar hendur. Engir úlnliðir. Mig minnir að svona vansköpun geti verið afleiðing lyfjaneyslu móður á meðgöngu. Eða kannski út af einhverju allt öðru.

Ossur_Oscar_Pistorius

Svo gengu þær mæðgur (eða vinkonur) af stað yfir Nytorv og að Strikinu. Stúlkan líkt og haltraði örlítið. En gekk að öðru leyti eðlilega. Á gervifótunum sínum. Með handleggjastubbana. Það er á svona stundum, sem maður fyllist einhverri hlýju til fyrirtækja eins og Össurar. Fyrirtækja sem eru í þeim bissness að hjálpa fólki. Og skipta í alvöru miklu máli. Á svona stundum finnst mér menn leggjast lágt, sem dreymir um það eitt að Ísland verði "fjármálamiðstöð". Líklega er sá draumur reyndar orðinn martröð. Rétt eins og þegar Össur (hinn Össur, sko) skammaði mig í mínum draumi.

Eflaust eru fyrirtæki eins og t.d. FL Group, Straumur, Baugur, Glitnir og Landsbankinn, líka með mikinn metnað og vel þenkjandi eigendur. Rétt eins og Össur. En ég verð að segja alveg eins og er. Ég ber meiri virðingu fyrir fólkinu að baki Össuri. Miklu meiri.


mbl.is Össur og Landsbanki hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BP í ævintýraleit

Í þessaru færslu ætla ég að fylgja eftir umfjöllun um orkuveldið Rússland. Og beina athyglinni að fyrirtækinu TNK-BP og baráttu BP við Gazprom, Kremlverja og rússneska ólígarka.

Gazprom_BP_death

Þessi ógeðfellda mynd hér til hliðar, er tilvísun til þeirra vandræða sem BP hefur lent í vegna olíu- og gasvinnslu sinnar í Rússlandi. Þar hefur BP í nokkur ár verið þátttakandi í dramatísku ævintýri, sem óljóst er hvort muni enda vel eða illa. Sennilega þó illa.

Fyrirmynd þessarar teikningar, með lógói BP í bakgrunninum, er augljóslega ljósmyndin óhugnanlega, þegar Nguyen Ngoc Loan, sem var lögreglustjóri í Saigon, skýtur stríðsfanga frá N-Víetnam í höfuðið. Myndin sú er einhver frægasta fréttamynd allra tíma og var tekin snemma árs 1968 af ljósmyndaranum Eddie Adams. Á sama sekúndubrotinu og byssukúlan þýtur úr skammbyssuhlaupinu. Upprunalegu myndina má sjá hér neðar.

Kannski ekki beint smekkleg samlíking við ógnanir Rússa gagnvart BP. En þó svo BP sé eitt af stærstu orkufyrirtækjum heims, má það sín lítils í baráttu sinni við rússneska orkurisann Gazprom og þá sem þar ráða ríkjum.

Vietnam_kill

Þó svo grimmdin í Víetnamstríðinu hafi verið mikil á báða bóga, ætla ég að sjálfsögðu ekki að halda því fram að sambærilegt ástand ríki á rússneska orkumarkaðnum. En yfirburðastaða Gazprom er hreint ótrúleg. Maður veit varla hvar maður á að byrja, þegar maður ætlar að lýsa Gazprom í stuttu máli.

Í fyrsta lagi er Gazprom stærsta fyrirtæki Rússlands. Í öðru lagi er Gazprom stærsti gasframleiðandi i heimi. Fyrirtækið framleiðir rúmlega 85% af öllu gasi í Rússlandi - og Rússland er einmitt það land sem býr yfir langmestu gasbirgðum í heiminum.

Og í þriðja lagi (og þetta finnst mér alltaf skemmtilegasta viðmiðunin); ef Gazprom væri sjálfstætt ríki, væri Gazprom í öðru sæti yfir þau ríki sem eiga mestu samanlögðu olíu- og gasbirgðir í heiminum. Það er m.ö.o. aðeins eitt ríki sem býr yfir meiri gas- og olíubirgðum en Gazprom. Og það er Saudi Arabía. Í þriðja sæti kemur svo Íran. Þetta er náttúrlega bara fyndið. En svona er raunveruleikinn alltaf miklu dramatískari en skáldskapur eða einhverjar hasarmyndir frá Hollywood.

Cartoon_Russia_Gas_Bear

Og það er þessi litli sæti bangsi sem BP stendur nú í stappi við. Eða kannski öllu heldur bestu vinir bangsans.  Og rússneski Bangsímoninn skaffar nú löndunum innan EB gríðarstóran hluta af því gasi, sem íbúar Evrópu-sambandsins nota (um helmingur af öllu innfluttu gasi EB kemur frá Rússlandi).

Svo þykist Evrópa vera eitthvað! Ætli "hnignandi útkjálki veraldarinnar" væri ekki betri lýsing á gömlu stórveldunum; Bretlandi og Frakklandi. Satt að segja held ég að það eina sem geti bjargað efnahag Evrópu - og þar með þeim pólitíska styrk sem álfan ennþá hefur - sé að taka upp náið samstarf við olíu- og sólarorkuríkin í N-Afríku. Og hananú. Þannig myndi Evrópusambandið fá aðgang að nýjum og hratt vaxandi mörkuðum og um leið minnka áhættuna sem felst í því að vera svo háð Rússum um orku.

BP_old_logo

En aftur að BP. British Petroleum! Hljómar svo virðulega.

Að mati Orkubloggsins er BP eitt af athyglisverðustu fyrirtækjum heims. Kannski aðallega vegna þess að mér fannst hann Ólí i Olís svo fjandi flottur þegar hann keypti gamla BPið á Íslandi. Og stökk sjálfur út að dæla þegar Dagsbrúnarverkfall skall á. Þá vorum við Óli báðir í sama djobbinu - bensínguttar.

Önnur ástæða fyrir því að ég fíla BP er forstjórinn. Hann er eitthvað svo skolli geðfelldur náungi. Sá heitir Anthony Hayward og er svo sannarlega ekki þessi venjulega forstjóratýpa. Allra síst þegar litið er til hrokagikkana hjá mörgum af stóru olíufélögunum.

BP_Tony_Hayward

Tony er jarðfræðingur, rétt eins og vinur minn T. Boone Pickens. Hann byrjaði hjá BP aðeins 25 ára gamall (það var 1982) og vann þá aðallega fyrir olíuborpallana utan við Aberdeen í Skotlandi.

Þarna var Tony búinn að vinna í nærri áratug þegar þáverandi forstjóri BP, John Brown (afsakið... Barón Brown), heillaðist af þessum sjarmerandi náunga. Eftir það kleif Tony Hayward hratt upp metorðastigann hjá BP. Varð m.a. yfirmaður olíuvinnslu BP i Venesúela 1995 og fjármálastjóri samsteypunnar árið 2000. Á liðnu ár (2007) varð hann svo forstjóri BP. Og ekki er verra að Tony mun vera harður stuðningsmaður Íslendingaliðsins. West Ham! Hvernig væri að bjóða honum embætti orkumalaráðherra i ríkisstjórn Geirs Haarde?

En að kjarna málsins - sem er ævintýri BP í Rússlandi (eins og stundum áður hefur Orkubloggið gleymt sér í aukaatriðunum). Til að gera langa sögu stutta, þá er málum þannig háttað að BP á í fyrirtækinu TNK-BP, sem er eitt af stærstu olíuvinnslufyrirtækum í Rússlandi. BP á sem sagt helminginn í TKN-BP, en hinn helminginn eiga fjórir ljúflingar; Mikhail Fridman, Leonard Blavatnik, German Khan og Viktor Vekselberg. Auður þessara fjögurra snillinga er metinn á ca. 20-25 milljarða dollara, en þar fer Fridman auðvitað fremstur. Nefna má að stór hluti af auðæfum hans kom einmitt til, þegar BP keypti sig inn í olíufyrirtæki Fridman's. Það var 2003 að Fridman og BP féllust í faðma og BP borgaði rúma 6 milljarða dollara fyrir hlut Fridman's í olíufélaginu Tyumen. Sem var aðgangsmiði BP að rússneska gas- og olíuiðnaðinum.

mikhail-fridman

Svo skemmtilega vill til að TNK-BP er nú eina stóra olíufélagið í Rússlandi, sem útlendingar eiga tök í. Það var, eins og fyrr segir, árið 2003 sem BP kom þarna inní rússneska orkuiðnaðinn við hátíðlega athöfn í Moskvu. Þar sem bæði Pútín og Tony Blair voru viðstaddir. Og allir voru fjarska góðir vinir. Tilgangur Rússanna var að fá tækniþekkingu BP inní landið, enda miklir reynsluboltar þar á ferð. En fljótlega urðu blikur á lofti. Fridman, stjórnarformaður TNK-BP, vildi stærri bita af kökunni og mikil valdabarátta upphófst. Fridman segir stjórnun Bretanna á fyrirtækinu fyrir neðan allar hellur. Og að hann vilji reka fyrirtækið sem "öflugt sjálfstætt olíufyrirtæki". I love this guy.

Það eru smávegis hagsmunir í húfi. Rekja má fjórðung allrar olíuframleiðslu BP til TNK-BP. Og verðmæti eignarhlutarins er áætlað 25-50 milljarðar USD (lægra matið er miðað við "óróann" sem þar ríkir nú - en hærra matið miðað við hvað væri ef friður ríkti innan stjórnar fyrirtækisins). Gaman að þessu.

Möguleikinn er að BP þurfi að láta af hendi eign sína í TNK-BP. Jafnvel langt undir raunvirði. Það eitt og sér er kannski aukaatriði. En það að missa svo stóran hluta af olíubirgðum sínum í einu vettvangi, gæti aftur á móti stórskaðað BP. Og útlitið er ekki allt of gott fyrir Tony Hayward og félaga, þarna austur í Rússkí. TNK-BP er i raun eini olíurisinn í Rússlandi, sem ekki er undir stjórn Kremlarmanna. Nefna má að síðustu mánuðina hefur hitnað þokkalega í kolunum. Í mars s.l. réðust menn frá "rússneska FBI-inu" inn á skrifstofur TNK-BP og skrifstofur BP í Moskvu og handtóku BP-starfsmenn fyrir "iðnaðarnjósnir" (rússneska alríkislögreglan nefnist Federalnaya Sluzhba Bezopasnosti eða FSB og er í raun arftaki bæði KGB og rússnesku leynilögreglunnar NKVD - svona rétt til að skýra málið fyrir gömlum aðdéndum James Bond, John Le Carré og annarra snillinga fortíðarinnar).

BP_Bob_Dudley

Sagt er að síðustu vikurnar hafi forstjóri TNK-BP, Bandaríkjamaðurinn Bob Dudley, læðst með veggjum um Moskvu og einungis hringt úr gemsanum því allt annað var örugglega hlerað - helst læstur inni á klósetti með alla krana a fullu. Reyndar flúði Dudley frá Rússlandi i vikunni sem leið - en það er reyndar ekkert minnst á svoleiðis smáræði á vef TNK-BP. Sýnist mér. Hann er þó enn starfandi forstjóri TNK-BP!

Síðustu fréttirnar sem ég sá um þetta ævintýri BP, var á CNBC í dag. Þar er haft eftir Tony Hayward, forstjóra BP, að öllum yfirtökutilraunum rússnesku fjórmenninganna verði mætt af fullri hörku og fyrir dómstólum, ef þörf krefji. Úúúúúhhh. Ætli þeir Kremlverjar og vinir þeirra skjálfi ekki örugglega á beinunum núna, eftir svona hörð ummæli?

Hver þarf að borga sig inn á James Bond myndir, þegar svona fjör ríkir í raunveruleikanum!

PS: Tóm vitleysa. Auðvitað er sagt frá brotthvarfi Dudley's á vef TNK-BP:     www.tnk-bp.com/press/releases/2008/7/90/


mbl.is Olíuverð hækkar töluvert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"From Russia with love..."

Þá kemur loks framhald um orkuvandræði Evrópu. Fyrst verð ég þó að nefna þessa frétt, um að Norsarar séu eitthvað spældir yfir því að olíusjóðurinn þeirra tútnar ekki endalaust út. Þrátt fyrir hækkandi olíuverð undanfarið ár. Ég held nú barrrrasta að blaðamennirnir hjá Aftenposten stígi ekki í vitið. Olíusjóðurinn norski fjárfestir i flestu öðru en olíu. Miðað við ástandið á mörkuðunum er ekki að undra þó eitthvað skreppi þar saman nú um stundir. Aftenposten og aðrir Norsarar geta kannski huggað sig við það, að gróðinn hjá StatOilHydro hefur líklega aldrei verið meiri en einmitt nú.

EU_NAT_GAS_2

En þá að orkumálum EB. Til að kæfa ekki lesendur Orkubloggsins, er rétt að taka eitt í einu. Í dag ætla ég að einblína á gasið.

Myndir segja meira en þúsund orð. Þessi mynd hér til hliðar er byggð á upplýsingum frá BP, sem er með einhvern albesta gagnabankann um orkumál. Græna svæðið sýnir gasnotkun EB. Gasnotkunin hefur aukist jafn og þétt, en þó verið nokkuð stöðug allra síðustu árin og jafnvel minnkað. Sá samdráttur er ekki talinn endurspegla þróunina; búist er við verulega aukinni notkun á gasi í Evrópu. Rauða svæðið sýnir hversu mikið af gasinu er innflutt. Innflutningurinn hefur vaxið hratt. Ástæðan er einfaldlega sú að gasframleiðsla innan EB hefur nánast staðið í stað mjög lengi (gul-doppótta línan sýnir gasframleiðslu EB og rauð-doppótta línan sýnir gasframleiðslu EB þegar framleiðsla Noregs er meðtalinn). Gasframleiðsla Evrópusambandsins stendur sem sagt nokkurn veginn í stað.

En þá kemur að alvörunni. Sem eru gula línan og svarta línan. Svarta línan sýnir gasbirgðir EB og Noregs samtals. Þ.e. gas sem líkur eru taldar á að vinna megi innan lögsögu EB og Noregs. Gula línan sýnir gasbigðir EB (þ.e. án Noregs). Þessar birgðir minnka nokkuð hratt. Ástæðan er sú að ekki eru að finnast nýjar gaslindir innan lögsögu EB, svo neinu nemur. Þetta mun væntanlega þýða sífellt meiiri þörf fyrir að kaupa gas utan EB og flytja það inn. Og eins og staðan er i dag er gasið aðallega keypt frá Rússlandi.

Ein áætlunin gerir ráð fyrir að EB þurfi um 40%% meira af gasi árið 2030, en í dag. Líklega þarf öll þessi aukning að koma sem innflutt gas. Og meira til, því gasframleiðslan innan EB minnkar hratt. Sjálft miðar bandalagið t.d. við að innflutningur á gasi þurfi að aukast um 85% innan 2030.

EU_Gas_Pipelines

Og hvaðan á allt þetta gas að koma? Þar er einkum horft til Rússlands og ríkja í Mið-Asíu. Og þar sem ekki er hagkvæmt að flytja gas með t.d. tankskipum, hafa verið gerðar miklar áætlanir um byggingu á nýjum gasleiðslum, sem flytji gasið að austan og til EB-landanna (málið er að til að flytja náttúrulegt gas með skipum þarf að kæla það fyrst í mínus 160-170 gráður á celsius svo það verði fljótandi - fljótandi gasið tekur 600falt minna rúmmal en loftkennt náttúrulegt gas).

Nú er horft til þriggja stórra, nýrra gasleiðsla. Í fyrsta lagi Norðurleiðslan (Nord Stream), sem á að liggja frá Rússlandi og eftir botni Eystrasalts til Þýskalands. Í annan stað (eins og Jón Baldvin sagði svo oft!) Suðurleiðslan eða South Stream. Hún á að liggja frá Svartahafsströnd Rússlands og eftir botni Svartahafs og þaðan til Búlgaríu og svo áfram til Ítalíu. Þriðja leiðslan nefnist Nabucco og á að liggja frá austustu héruðum Tyrklands og alla leið vestur til Austurríkis.

GAS_MAP_SouthStream_Nabucco

Nabucco línan hefur mikla stategíska þýðingu. Gasið sem mun fara eftir bæði Norður- og Suðurleiðslunni verður rússneskt gas. Eftir Nabucco-leiðslunni mun aftur á móti Evrópa fá gas frá löndum eins og Azerbaijan, Kazakstan og Turkmenistan. Síðar gæti leiðslan einnig flutt gas frá Írak og Íran.

M.ö.o. gerir Nabucco það að verkum að Evrópa verður ekki jafn háð Rússum um gas, eins og ella væri. Hugsanlega mun Nabucco-leiðslan reyndar einnig flytja rússneskt gas til Evrópu. Vegna þess að það er komin leiðsla sem flytur gas frá Rússlandi til Tyrklands (s.k. Bluestream leiðsla). En Nabucco gerir EB kleyft að kaupa gas af öðrum líka. Við sem lifum í fákeppninni á Íslandi ættum að skilja mikilvægi þess. Þess vegna held ég að EB muni setja Nabucco í forgang, fremur en South Stream. Samt er vel mögulegt að báðar leiðslurnar verði lagðar. En Orkubloggið veðjar aurunum frekar á fyrirtækin sem standa að Nabucco, fremur en ítölsku sulturnar sem taka þátt í Suðurleiðslunni. 

Gas_nordstream

Þarna eru hreint geggjaðir hagsmunir á ferð. Enda bauð Gazprom Gerhard Schöder, fyrrum kanslara Þýskalands, stjórnarformennsku í Nord Stream. Og meðan Romano Prodi var forsætisráðherra Ítalíu buðu þeir ljúflingarnir i Gazprom honum stjórnarformennskuna í South Stream.

Rússar eru ekki beint spenntir fyrir því að sjá Nabucco rísa. Og vilja gjarnan tryggja stuðning við gasleiðslur, sem eingöngu treysta á rússneskt gas. Gazprom er, sem kunnugt er, stærsta gasvinnslufyrirtæki í heimi. Sjálfur John Rockefeller og Standard Oil hefðu mátt vera stolt af annarri eins einokun, eins og Gazprom hefur. En bandarísk samkeppnislög gilda ekki í Rússlandi. Heldur rússnesk lög. Og hananú.

Einu sinni kom ég til Moskvu. Það er einfaldlega stórbrotnasta borg í heimi. Held ég hljóti að vera. Þar lenti ég m.a. auðvitað i útistöðum við mútuþægna lögregluna; tvo valdmannslega gaura sem hótuðu mér dýflissu vegna "ólöglegs vegabréfs". Ef ég borgaði ekki sektina. Íslenska þrjóskan sigraði rússnesku peningagræðgina í það sinn.

bogi_russia

Leitaði líka uppi tjörnina i sögu Búlgakov's um Meistarann og Margarítu, stóð aleinn á miðju Rauða torginu í ískulda nóvembernæturinnar kl. 3 um nótt og lenti á stórum útimarkaði einhversstaðar í úthverfunum. Og keypti þar bæði Lenin-styttu og húfu, sem stráksa mínum finnst gaman að leika sér með. Loks bjargaði rússnesk skvísa mér úr glæsilegu, en illskiljanlegu neðanjarðarlestakerfinu djúpt undir borginni. Svo sannarlega einstök borg. Washington DC var eins og hvert annað syfjulegt krummaskuð eftir þessa heimsókn.

James-Bond-From-Russia-With-Love

Og æ síðan hef ég verið á bömmer yfir því að kunna ekki rússnesku. Með rússnesku að vopni er nokkuð víst að maður gæti enn betur notið peninga-ilmsins þarna fyrir austan. Spælandi. Held ég skreppi útí búð í fyrramálið og kaupi mér bók með rússneska stafrófinu. It could be the start of a beautiful friendship.


mbl.is Norskir olíupeningar gufa upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra er Drekagull en Rússagull

Dreki_sildarsmuga"I watched a snail crawl along the edge of a straight razor. That's my dream. That's my nightmare."

Já - stundum er erfitt að vita hvort maður þekkir sjálfan sig. Ég hef alltaf verið mikill Evrópumaður í mér. Einn af þessum sérvitringum sem t.d. elskar evrópskar kvikmyndir, en þolir ekki ameríska hasardraslið. Og eindreginn stuðningsmaður EB.

En hlutirnir eru því miður sjaldnast svarthvítir. T.d. eru flestar uppáhalds bíómyndirnar mínar í reynd amerískur hasar. Auðvitað gáfumannahasar! En amerískur hasar engu að síður. 

Apocalypse_Kilgore

Þar get ég t.d. nefnt Deer Hunter og Apocalypse Now (hrifnari af orígínal-útgáfunni fremur en þeirri sem Coppola gaf út síðar og er ennþá lengri). "I love the smell of napalm in the morning!" Maður er af þeirri kynslóð, sem kann þessa frasa betur en gullmola úr bókum Laxness. "The smell you know that gasoline smell. The whole hill... smelled like... victory!"

Rétt eins og Kilgore hefur mér alltaf fundist bensínlykt góð. Allt frá því hér um árið, þegar ég var nokkur sumur bensíngutti austur á Klaustri. Anda líka djúpt þegar ég finn yndislega útblásturslyktina frá flugvélabensíni -  vekur upp góðar minningar. Minnir mig nefnilega á það, þegar maður nánast bjó niður á Reykjavíkurflugvelli hér í Den, fljúgandi 2ja sæta Cessnurellum. Það var ákaflega skemmtilegt.

Og nú er maður byrjaður að finna bensínlyktina berast frá Drekasvæðinu. Það er hið besta mál. Kannski fáum við íslensku búálfarnir loks Drekagull. Og nýtt ævintýri um þau Benedikt, Dídí og Daða dreka.

putin_fishing

En víkjum að öðru gulli. Rússagullinu. Eða öllu heldur rússnesku gasi. Sem ég ætlaði að skrifa um. En got carried away. Reyndar er nærri 30 stiga hiti hér utan við gluggann á Friðriksbergi núna. Best að koma sér út að hjóla. Svo að Rússagasið verður aðeins að bíða. Á meðan geta lesendur Orkubloggsins, ef einhverjir eru, velt fyrir sér hvor sé svalari gæi; Kilgore eða Pútín?

--------------- 

PS: Tilvitnanirnar hér að ofan eru vel að merkja allar úr kvikmyndinni Apocalypse Now. Annars var þetta fínn hjólatúr, m.a. út á Amager strandpark. Þar taldi ég 20 vindtúrbínur utan við baðströndina. Líklega 40-50 MW framleiðslugeta þar á ferð. Eins og svo oft áður fór ég líka gegnum æskustöðvarnar á Austurbrú. Þar hjólaði ég í flasið á hópi uppstrílaðra Íslendinga i Skt. Paulsgade. Reyndist vera íslenskt brúðkaup í Skt. Pálskirkjunni. Brúðurin var afskaplega kjút íslensk stelpa. En gumann sá ég ekki, enda hefur hann líklega verið kominn í kirkju og beðið þar í svitabaði.

Loks bremsaði Evrópusnobbarinn að baki Orkublogginu við Seven/eleven, keypti stóra flösku af ísköldu kóka kóla, stökk svo inní McDonalds beint á móti og greip þar tvo skammta af hinu alþjóðlega rónafæði; McCheeseburgers. Úff hvað þetta var góður hádegisverður!

Svo er hér atriðið með Kilgore og "napalm in the morning": 

 


mbl.is Benda holurnar á olíu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vesenið í Evrópu

Það er gaman að sjá að nú skuli árangurinn af aðstoð Íslendinga við Afgana að vera að koma fram. Sbr. fréttin sem þessi færsla er tengd við. Auðvitað eru ýmis önnur lönd, sem hafa stutt byggingu virkjana í Afganistan. M.a. lítil vindorkuver. En Ísland styður auðvitað uppbyggingu á vatnsafli.

EU_25_energy-consumption

Það er alltaf notalegt til þess að hugsa, að við á Íslandi erum okkur næg um rafmagn og hita. Og sökum þess að nú er mikið rætt um nánara samstarf Íslands við Evrópusambandið, er ekki úr vegi að skoða hvaðan orkan þar á bæ kemur.

Er ekki alltaf gaman að smá tölfræði? Eins og sjá má hér á myndinni að ofan kemur stærstur hluti orkunnar, sem EB-löndin nota, frá olíu og gasi. Eins og víðast hvar annars staðar i heiminum. Hjá EB er þetta mest innflutt orka. Orkubloggið hyggst í næstu færslum beina athyglinni að Evrópusambandinu og því hversu gjörsamlega varnarlaust EB er í orkumálum. Þessi færsla er eins konar inngangur að því.

Í Bandaríkjunum er varla talað um nema eitt þessa dagana (fyrir utan Evrópureisu Obama, auðvitað). Nefnilega mikilvægi þess að landið snúi af þeirri braut að vera í spennitreyju innfluttrar orku.

Aldrin_Apollo_11_2

Gamli olíurefurinn Boone Pickens er t.d. nýbúinn að hrinda af stað áætlun sinni um stórfellda aukningu á virkjun vindorku. Og Al Gore gerðist ennþá stórtækari fyrir nokkrum dögum. Þegar hann lýsti hugmyndum sínum um að innan 10 ára komi öll orka í Bandaríkjunum frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Gore notaði tækifærið til að minna á, að á sínum tíma setti Jack Kennedy tunglgöngu Bandaríkjanna líka á dagskrá með aðeins 10 ára fyrirvara.

Bandaríkjamenn komust til tunglsins vel innan umræddra 10 ára. Og kannski tekst þeim líka að gjörbreyta þjóðfélaginu, þannig að það nýti einungis endurnýjanlega orku innan 10 ára. Því trúir Orkubloggið reyndar tæplega. En alltaf gaman þegar menn hafa metnaðarfull markmið.

En hvað um Evrópu? Jú - þar á bæ eru líka uppi stórar áætlanir. Framkvæmdastjórn EB kynnti snemma á þessu ári áætlun um að árið 2020 muni 20% orkunotkunar í EB koma frá endurnýjanlegum orkulindum. Þannig að hinar glænýju hugmyndir Gore eru óneitanlega metnaðarfyllri. Segja má að hann hafi steinrotað framkvæmdastjórn EB eins og hún leggur sig.

EU AND USA SELF SUFFICIENCY-3

Þetta er svolítið athyglisvert. Hvatinn fyrir Evrópu að sýna metnað i uppbyggingu endurnýjanlegrar orku er nefnilega miklu meiri en hjá Bandaríkjunum. Málið er að Evrópa á nánast enga orku. Kannski svolítið sterkt að orði komist. En innan EB er t.d. sáralítið af olíu og gasi. Evrópa er tvöfalt háðari innfluttri orku, en Bandaríkin eru. Meira að segja þó olíuauður Norðmanna sé talinn með (en þeir eru jú utan EB). Vissulega er slatti af olíu hjá t.d. Bretum og Dönum í Norðursjó og gasi líka. En engan veginn nóg fyrir EB. Þess vegna verður Evrópa í framtíðinni ennþá háðari olíu og gasi frá Rússum. Það er sem sagt Evrópa sem er í sannkölluðum orkuvandræðum - miklu fremur en Bandaríkin.

Þetta er satt að segja ekkert gamanmál. En menn eru á fullu að leita lausna. Ef fólk heldur að Miðjarðarhafsfundurinn, sem Sarkozy boðaði til nýlega, sé bara tilkominn vegna mikilmennskubrjálæðis Frakklandsforseta, then think again.

sarkozy_france

Þessi hugmynd að Miðjaraðarhafs-bandalagi snýst aðallega um eitt: Að Evrópa geti tryggt sér öruggari og meiri aðgang að orku frá löndunum í Norður-Afríku. Þess vegna er ástæða til að fagna frumkvæði Sarkozy's. Og ekki skrýtið að Sarkozy breiði faðminn á móti olíunni og sólarorkunni frá Afríku. Meira um þetta síðar.


mbl.is Borga tuttugu smávirkjanir í Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband