Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Spákerlingar bankanna

Hlaut að koma að þessu. Nú eru komnar fram vísbendingar um að menn hafi með óeðlilegum hætti haft áhrif á olíuverð, skv. bandarískum reglum sem um þessi viðskipti gilda. Þetta hefur reyndar ekkert með olíuverðshækkanirnar undanfarna mánuði að gera. Né lækkunina í vikunni sem leið. Heldur er verið að skoða nokkur viðskipti frá því í mars 2007.

Rétt eins og Páll Magnússon sagði hér i auglýsingunni um árið, þá hefur Orkubloggið mjög einfaldan smekk. Eða öllu heldur mjög einfalda sýn á markaðina: Að versla á Nymex er engu skárra eða öruggara en að spila rúllettu í Las Vegas. Á báðum stöðum ráða tilviljanir nánast öllu. Á báðum stöðum eru menn, sem reyna að svindla. Og á báðum stöðum er aðalatriðið að vera með kerfi. Og fara eftir kerfinu.

oil-july08

Ef neikvæðar fréttir halda áfram að berast frá bandarísku og evrópsku efnahagslífi, kann að vera hugsanlegt að olían lækki enn frekar í verði. Af því markaðurin er fullur af kjánum, sem taka órökréttar ákvarðanir. Hér til hliðar er ein spáin, frá ónefndum sérvitringi eða sérfræðingi, sem gerir ráð fyrir að senn muni verðið vera á bilinu 107-115 USD tunnan. Spáir sem sagt lækkun. En spáir einnig að eftirspurnin frá Asíu, t.d. Kína og Indlandi, muni koma í veg fyrir enn meiri lækkanir.

Svo gæti dollarinn lækkað - sem myndi þrýsta olíuverðinu aftur upp. Svo er Íransmálið langt frá því að vera úr sögunni. Jamm. Sjáum til hvað gerist.

Eftir áramótin síðustu veðjaði Orkubloggið á að verðið á ólíutunnunni færi í 120 dollara. Það gerðist í maí. Bloggið mun halda sig við þá strategíu og fara alveg útaf markaðnum ef verðið fer undir 120 dollara. Þar til næsta góða kauptækifæri kemur.

cartoon_Oil_Fortune_Teller

Það skemmtilegasta við þetta allt er að það er ekki nokkur einasta sála þarna úti, sem veit hvað næsta vika ber í skauti sér. Olíumarkaðurinn er orðinn svo margslunginn og hefur í reynd meira með sálfræði að gera en raunverulegt framboð eða eftirspurn.

Sama á auðvitað við um flest ef ekki allt annað á fjármálamörkuðunum. Þess vegna er barrrasta ómögulegt að skilja til hvers bankarnir eru að eyða peningum í þessar blessuðu greiningardeildir, eins og þær eru kallaðar. A.m.k. væri nær að hafa þar sálfræðinga fremur en fólk með reiknivélar. Þarna situr fjöldi prýðilega vel gefins fólks og spáir fyrir um verðróun á markaði. Gætu eins verið að dúlla sér uppá Snæfellsjökli og spá hvenær geimskipið lendir. Sem væri sennilega miklu skemmtilegra djobb.

Myndin hér að ofan sýnir auðvitað nýstofnaða orkugreiningardeild Orkubloggsins að störfum

 


mbl.is Sakaðir um markaðsmisnotkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólgumarkmiðið er 2,5%

Bara svona rétt til að minna á þetta smáræði. Verðbólgan á Klakanum góða ku nú vera 13,6%. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er sagt vera 2,5 %. Það er nefnilega það.

Geir+Ingibjorg

Annars er hálf óhugnarlegt að fylgjast með umræðu um efnahagsmál á Íslandi þessa dagana. Það er eins og enginn hafi minnstu hugmynd um hvernig bregðast eigi við tvíhöfðanum, sem nú herjar á landið. Gengislækkun, sem myndi líklega leysa úr læðingi nýja "franska byltingu" í Evrópu. Og verðbólgu, sem er gjörsamlega úr takti við öll önnur ríki innan EB og EES.

En maður er nú einu sinni Íslendingur og kippir sér þar af leiðandi ekki upp við svona smáræði. Enda alinn upp á hinum ljúfu verðbólgutímum. Þegar maður "græddi" fullt af pening með því að kaupa sér plötuspilara rétt fyrir gengisfellingu. Þá var nú aldeilis gaman að lifa.

Svona var það, svona er það og svona verður það. And I dont wanna change a thing!  F... off Europe. Ísland er auðvitað laaaangbest. Sama hvað hver segir. Þetta er fullkomið líf!

 

 

Ég á reyndar svona jakka, eins og Friðrik Ómar er í. Nema hvað minn er jafnvel enn flottari - því hann er bleikur. Frá hinum gömlu góðu dögum þegar maður las lögfræði í Bretaveldi í upphafi 10. áratugarins.

Iceland_melting

Held að ég hafi keypt jakkann þann með góðri aðstoð Ásgeirs nokkurs Einarssonar. Sem nú er helsti varðhundur samkeppninnar á Íslandi (aðstoðarforstjóri Samkeppniseftirlitsins). Og svo var farið á dansleik í Camden. Þetta voru skemmtilegir tímar. Verst hvað bresku stelpurnar voru herfilega ófríðar. Ætti kannski að dusta rykið af þeim bleika og máta hann, nú fyrir helgina. Og skreppa á diskó. Meðan "Róm brennur". Eða bráðnar.


mbl.is Verðbólgan mælist nú 13,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eike Batista

Í dag græddu sumir. Aðrir töpuðu. Eins og gengur á mörkuðunum.

Björgólfur Thor var einn af þeim sem töpuðu í dag. Siðferðislega. Ég held nefnilega að aðeins hafi skafist af aðdáun margra á Bjögga, við að lesa um að hann mæti í snobbboð á Bessastöðum. Með einhverri amerískri kerlingu, sem ætlaði að verða sér útum pening á innherjasvikum. Það er langt fyrir neðan virðingu Bögga að mæta í svoleiðis hóf. Finnst mér.

batista_rio

Hvað um það. Bjöggi er auðvitað einn af áhugaverðustu ungu milljarðamæringum heimsins. Ég verð að viðurkenna það. Þó ég sé auðvitað drullu öfundsjúkur.

Aðeins eldri, en ekki síður áhugaverður billjóner, er Brasilíumaður að nafni Eike Batista. Ekki veit ég hvort þeir Björgólfur Thor þekkjast. En Eike er einn af þeim sem ég hef fylgst með, síðan ég eyddi nokkrum dögum suður í Ríó hér um árið. 

Forbes álítur auðæfi Batista vera um 6,6 milljarða USD. Meðan aðrir skjóta á allt að 17 milljarða dollara. Batista er nokkuð skrautlegur karakter. Og afar metnaðarfullur. Hann segist ætla að gera Brasilíu að númer eitt. Það getur svo sem þýtt margt. En það sem Batista á við, er að Brasilía hafi alla burði til að verða eitt alöflugasta efnahagskerfi heimsins. Sjálfur segist Batista ætla að verða ríkari en Bill Gates. Sem sagt nokkuð yfirlýsingaglaður náungi.

Powerboat

Batista er sagður "self made". Rétt eins og Bjöggi. Auðæfi sín skapaði Batista upphaflega í námubissness, þar sem gull og járn kom aðallega við sögu. Í þá daga var hann einkum þekktur fyrir kvennafar og að keppa í spíttbátasiglingum.

Krúnudjásnið hans hlýtur að teljast vera námufyrirtækið MMX Mineracao, hvar Eike er stjórnarformaður. Það má vel vera að hann sé self made - en óneitanlega fékk hann þó hugsanlega smá forskot. Faðir Eike, Eliezer Batista var nefnilega ráðherra orku- og námumála í Brasilíu og forstjóri hins risastóra brasilíska námufyrirtækis Vale do Rio Doce, sem var einkavætt 1997.

En hvað um það. Eike Batista byggði sem sagt upp sitt eigið námufyrirtæki og var einnig öflugur fjárfestir í vatnsréttindum. En nú er stráksi kominn á kaf í olíuna. Eins og allir alvöru menn. Sjálfur segir Batista, að hann nenni ekki lengur að standa í einhverjum tittlingaskít. Maður þurfi að fara í olíu og gas til að komast í alvöru pening. Þetta er eins talað úr hjarta Orkubloggsins - ég verð nú barrrasta hrærður að heyra svona lagað.

Varla er mánuður síðan Batista halaði inn vel á sjöunda milljarð dollara í stærsta hlutafjárútboði í sögu Brasilíu. Þegar nýja olíufélagið hans, sem nefnist OGX Petroleo e Gas Participacoes,  var skráð á Bovespa. Það var nokkuð vel af sér vikið. Ekki síst þegar haft er i huga, að OGX hefur aldrei dælt upp einum einasta olíudropa.  

Oil_Deep

Félagið, sem er aðeins tæplega ársgamalt, var stofnað í þeim tilgangi að bjóða í vinnsluleyfi á landgrunninu utan við strönd Brasilíu. Þar keppir OGX auðvitað m.a. við brasilíska risann Petrobras. Þar kepptu einnig frændur okkar í StatoilHydro og Mærsk Oil, en þeim gekk heldur brösulega greyjunum. OGX var hæstbjóðandi í mörg leyfin, þó svo risinn Petrobras fengi enn fleiri. Reyndar ná þessi leyfi til olíuvinnslu á svo svakalegu dýpi að maður fer hálfpartinn hjá sér.

Eins og Orkubloggið hefur áður sagt frá, hefur kreppuskömmin af einhverjum ástæðum sveigt duglega fram hjá Brasilíu. Enda væri ljótt að styggja ofurbomburnar í Ríó. Og nú eru bundnar miklar vonir við olíulindirnar þarna utan við ströndina. Sjá t.d færsluna um strákana í Brasilíu;  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/514678/

Dýpið þarna á olíusvæðinu utan við Rio de Janeiro er um 3.000 m. Og þó svo vísbendingar séu um að þar séu einhverjar mestu olíulindir, sem fundist hafa í heiminum, gæti þurft að bora ansið djúpt til að ná gumsinu upp. Vonandi veit Batista hvað hann er að gera. Spurning hvort maður ætti að fara að undirbúa tilboð í vinnslu á Drekasvæðinu íslenska?

Luma de Oliveira_Playboy

Það er reyndar skammt stórra högga milli hjá Batista þessa dagana. Fyrir um hálfum mánuði réðst löggan inn á heimili og skrifstofur Batista, í leit að einhverju pappírsdóti. Það mál snýst um járnbrautarfyrirtæki, sem Batista á hlut í. Örugglega bara smotterí og einhver misskilningur. Kannski brasilískt Baugsmál?

Reyndar má ég til að nefna, að strákgreyið lenti dáldið illa í einni brasilískri ofurbombunni. Viku áður en hann ætlaði að giftast ástinni sinni, fyrir nokkrum árum, kom karnivaldrottningin og Playboy-módelið Luma de Oliveira til sögunnar. Þau hlupust á brott, giftu sig og eignuðust saman tvo stráka. Áður en ballið endaði. Luma var stöðugt á djamminu og sú hamingja endaði með látum. Það gengur svona. En nú er Eike sem sagt tilbúinn í slaginn á ný - ákveðnari en nokkru sinni.

Einhvern tímann las ég viðtal við Bjögga, þar sem hann var m.a. spurður um fjárfestingastefnu sína. Af hverju hann væri t.d. ekki neitt í smásölunni? Hann svaraði þessu að bragði með því að tæma vasana. Úr veskinu komu kreditkort (bankastarfsemi) og magnyltöflur (lyfjastarfsemi). Og úr brjóstvasanum kom gemsinn (gsm þjónusta). Grunnþarfir nútímamannsins í daglega lífinu. En Orkubloggið hlýtur að spyrja: Þurfti Bjöggi ekki einmitt að fylla á tankinn þegar hann ók burt? Hvar eru orkufjárfestingarnar?

BThor2007

Já - ef Björgólfur Thor bætir orkunni við, þori ég að veðja tuttugu tunnum á að hann komist á topp100 á Forbes innan örfárra ára. Þess má geta að Eike Batista var í 142. sæti á síðasta lista Forbes (í mai s.l.). Bjöggi var þar u.þ.b. í 300. sæti? Ef ég man rétt.


mbl.is Hækkanir á Wall Street
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíusinfónían sló feilnótu

Þetta hefur verið skrítin vika. Olíuverðið steinlá. Af engri sýnilegri ástæðu. Annarri en þeirra að það hefur hækkað mikið undanfarið.

Var þetta bólan að springa? Það veit enginn. En allir vita auðvitað að það hlaut að koma að þessari lækkun. Undanfarið hafa ýmsar aðrar hrávörur, sem einnig hækkuðu hratt, nefnilega fallið í verði. Það var því orðið nokkuð augljóst að slatti af fjármagni var byrjað að leka úr hrávörupokanum. Olían hlaut að verða með í því.

Notur_jolasveinar

Ég er samt undrandi á að þetta hafi gerst akkúrat núna. Líklega enn eitt merkið um að markaðurinn er fullur af kjánum. Sem fyrr. Óttalegir jólasveinar. Það ætti að rassskella þá alla sem einn. Þá, sem nú eru að losa sig við olíu.

Það er mikil kúnst að halda takti. Og feilnóturnar skera í eyrun. Er ekki augljóst að það er enn of snemmt að fara úr olíunni og byrja t.d. aftur að veðja á banka? Auðvitað kemur að því að kaup í bankabréfum á útsölu verða góður kostur. En ekki strax. Svo er líka að styttast í hámark fellibyljatímans. Þegar olíupallarnir á Mexíkóflóa fá skellinn. Maður sleikir út um, við tilhugsunina.

En kannski er olíubólan að springa. Ég held þó að ástæðan fyrir lækkununum undanfarna viku sé önnur. Braskararnir (úps - ég meina fínu vogunarsjóðirnir), sem sjortuðu fjármálageirann og voru long á olíu, lentu barrrrasta í smá veseni. Þurftu líklega að losa sig úr olíustöðunum til að kaupa hlutabréf í þessu bankadrasli. Gengur vonandi fljótt yfir.

jolasveinn

Annars hefur þessi strategía braskaranna, að veðja á olíu og gegn bankageiranum, skilað þokkalega góðu. Hefur líklega gefið mönnum u.þ.b. 150% hagnað frá áramótum (hátt í 300% ársávöxtun). Og þó svo við sem enn erum með olíutunnurnar undir koddanum höfum "tapað" slatta síðustu vikuna, verður ástandið að teljast nokkuð gott. Hagnaðurinn er enn svimandi. Þannig að maður sefur bara vel og slefar áfram í koddann. Þó svo mikið vilji auðvitað alltaf meira!


mbl.is Bensínverð úr takti við heimsmarkaðsverð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Orkubloggið spyr…"

Hér kemur þriðja færsla Orkubloggsins í röð, frá Netsteinaldarsambandi. Og þar sem bloggormurinn er undir mikilli tímapressu í dag, er þetta hraðsoðið. En vonandi samt sæmilega hnitmiðað. Horfur eru á að færslur komist í eðlilegra horf annað kvöld.

Annars er afskaplega ljúft að sitja hér störfum hlaðinn á hinni snotru sandströnd Falster, syðst í Danmörku, og rýna suður í átt til Þýskalands. Hér rétt handan við hálsinn er… sæluhús. Nei - reyndar gríðarstórt vindorkuver off-shore. Það er flott.

Í dag ætla ég að nefna heldur dapurlega staðreynd. Það hefur nefnilega komið í ljós að Orkubloggið hefur fallið í sama forarpytt og Morgunblaðið. Hér á ég við sið, sem orðið hefur æ algengari á blogginu. Þann sið að sá sem þetta skrifar komist svo að orði: “Orkubloggið telur…”, “Orkubloggið álítur…”, “Að mati Orkubloggsins…” o.s.frv. 

Málið er að mér hefur alltaf þótt það afspyrnu óviðkunnanlegt og hofmóðugt hjá hinum annars ágætu ritstjórum Morgunblaðsins í gegnum tíðina, að nota einmitt þennan stíl í leiðurum eða Reykjavíkurbréfi: “Morgunblaðið er þeirrar skoðunar…” eða “Morgunblaðið hefur ávallt stutt…” eða “Eins og Morgunblaðið benti á…”.

mbl_logo

Auk þess sem mér finnst þetta sumpart hrokafullt orðalag hjá ritstjórum Moggans, er staðreyndin auðvitað sú að Morgunblaðið er ekki einstaklingur og fólkið að baki blaðinu hefur væntanlega sjaldnast alveg sömu skoðun og hinn nafnlausi ritstjóri – hvorki allir starfsmenn né allir hluthafar. Morgunblaðið hefur hvorki eina sameiginlega vísitölurödd né eina sameiginlega skoðun. Því er útí hött að tala um “skoðun Morgunblaðsins”.

Já - þetta er óneitanlega nokkuð sjálfumglatt díki að falla í sjálfur. Sjálfum mér til varnar má þó a.m.k. vera augljóst að “Orkubloggið” er sama og Ketill. Þannig að þetta er líklega sami sjúkdómurinn hjá mér eins og hefur hrjáð borgarstjórann núverandi. Að tala um sig í þriðju persónu.

En ég verð að viðurkenna að nú skil ég loksins vel, þá ritstjóra Moggans, sem beitt hafa þessu stílbragði. Það er nefnilega afskaplega þægilegt að “fela” persónu sína með þessari aðferð. Því miður er það meira að segja svo þægilegt, að allar líkur eru á að ég muni nota umrætt orðalag áfram. Það er a.m.k. mat og álit Orkubloggsins!

Líklega er þetta orðalag reyndar fyrst og fremst vitnisburður um annað hvort merkilegheit eða heigulshátt – nema hvort tveggja sé. Líklega eru hinir tíu fingur að baki “Orkublogginu” bara tákn um hrokafullan heigulshátt. Og hið sama að segja um nafnlaus skrif Morgunblaðsins gegnum tíðina um það hverjar séu skoðanir og álit “Blaðsins”.  

Til allrar hamingju er yfirstjórn Moggans í dag það þroskuð að ég fæ sennilega enga yfirhalningu þrátt fyrir að birta þessa athugasemd mína hér á Moggablogginu. Tímarnir eru breyttir. Frá því þegar ritstjórar Moggans, oft undir nafnleynd, nánast ofsóttu einstaklinga sem þeim var í nöp við.

  MBL_rirtstjorar

Já - tímarnir breytast. Mikill ávinningur fyrir eigendur, starfsfólk og lesendur Moggans, að fá jafn vandaðan ritstjóra og Ólaf Stephensen. Þar fer prýðilegur maður sem sameinar framsýni og góð þjóðernisleg gildi.

 

En mér finnst engu að síður að leiðararnir, Reykjavíkurbréfið og óhroðinn í Staksteinum Moggans eigi allt að vera undir nafni. Nafnleysið er eitthvað svo hallærislegt – og stundum heigulslegt. Kannski eru reyndar öll þessi skrif í Mogganum nú undir nafni. Ég hef ekki séð blaðið í nokkrar vikur. Enda á enginn heigull heima á Mogganum lengur - er það nokkuð?


Íslenskt orkustefnuleysi

Sökum þess að Orkubloggið er enn statt utan almennilegs netsambands, er pistil dagsins lítt fræðandi og án skýringarmynda. Í staðinn kemur smá hugleiðing um orkunotkun á Íslandi framtíðarinnar. Og vonandi er í lagi að tengja þetta við frétt úr efnahagslífinu.

Eins og allir vita kemur nánast allt rafmagnið á Íslandi frá endurnýjanlegum orkugjöfum – m.ö.o. vatnsorku og jarðvarma. Og mikill hluti húshitunar er jú með hitaveituvatni. Þetta veldur því að flest önnur lönd virðast óttalegir umhverfissóðar í samanburði við Ísland.

Fyrir vikið segja íslensk stjórnvöld að við séum betri en hinir og að við eigum að fá undanþágur frá losunarmarkmiðum. Að það sé í lagi að skíta á hreina stéttina hér heima, af því hinir eru enn að bisast við að þrífa gamla kúkinn af sinni stétt. Eða rökin um að Ísland eigi að bjarga heiminum. Ef ekki verði leyft að drita í garðinn okkar, verði sannkallaður fíladellir settur á erlenda grund. Hydro versus Coal. Og það sé vont fyrir blessaða jörðina. Mér hálfleiðast þessar kjánalegu röksemdir um að stóriðja á Ísland muni bjarga lífríki jarðarinnar.

Hvað um það. Við notum sem sagt endurnýjanlega orku til rafmagnsframleiðslu og húshitunar. Eftir stendur sú orka sem knýr, bíla, skip og flugvélar. Innflutt orka, sem gott væri að losna við að spreða gjaldeyrinum okkar í. Orka sem etv. væri hægt að framleiða innanlands. Með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Sennilega er Ísland það land í heiminum sem hvað auðveldast gæti nær alfarið byggt á endurnýjanlegri orku. Að svo stöddu er slíkt varla raunhæft í fluginu. Fiskveiðiflotinn gæti hugsanlega nýtt vetni? En vegna kostnaðar við slíka umbreytingu á flotanum er kannski rétt að bíða aðeins með svoleiðis plön. Kannski væri sniðugast að ganga í EB, selja útlendingunum kvótann og svo setja reglur um bann við veiðum á íslensku hafsvæði nema með endurnýjanlegum orkugjöfum. Láta aðra borga brúsann. Nú er blogginu reyndar ekki alvara – nema hvað það hefur í 15 ár stutt inngöngu í EB.

Stick to the point. Við erum hér að tala um að öll orkunotkun á Íslandi verði frá endurnýjanlegum innlendum orkugjöfum. Flugvélar og skip eru útúr myndinni í bili. En bílaflotinn aftur á móti. Þar eru líklega bestu tækifærin.

Þrír bestu möguleikarnir á nýjum orkugjafa fyrir bíla eru líklega rafmagn, vetni og metanól. Ég er ekki sérstaklega vel upplýstur um hver þessara tæknimöguleika er bestur, hagkvæmastur eða lengst á veg kominn tæknilega. En svo virðist sem hægt gangi að smíða hagkvæma rafbíla. Vetnisverkefnið sem framkvæmt hefur verið hjá strætó í Reykjavík virðist hafa tekist nokkuð vel. Um metanólið er það að segja, að það hefur þann kost að við framleiðsluna er notað koldíoxíð. Við metanólframleiðslu væri t.d. hægt að nýta koldíoxíðlosunina frá stóriðju og þar með minnka heildarlosun Íslands á sk. gróðurhúsalofttegundum. Tvær flugur í einu höggi. Kannski má ímynda sér að smærri bílar gengju fyrir rafmagni, en vetni eða metanól væri notað á hina stærri?

Sama hvaða leið er farin, þá þarf auðvitað innlenda orku til að framleiða viðkomandi orkugjafa. Stóra spurningin er hvort samstæða næðist um að ná í þá orku. Illa gengur að ná sátt um nýjar virkjanir, hvort sem er vatnsafl eða jarðvarmi. Kannski verðum við að bíða uns fyrir liggur hvaða niðurstöður djúpboranir gefa. Kannski yrði sátt um slíka orkuframleiðslu?

Orkublogginu þykir þó sorglegast algert metnaðarleysi stjórnvalda. Í stað þess að liggja alltaf á hnjánum og biðja um undanþágur frá losunarmarkmiðum, væri kannski nær að Össur, Þórunn og félagar í ríkisstjórn landsins, tækju sig til og kæmu fram með alvöru áætlun og framtíðarsýn í íslenskum orkumálum. Og myndu um leið skilja eftir sig jákvæða arfleifð.

Því miður mun það líklega ekki gerast. Margtugginni forgangsröðun virkjanakosta er t.d. enn ólokið. Og verður sennilega orðin úrelt loks þegar loks sér fyrir endann á því verkefni, sem staðið hefur yfir í fjölda ára.

ossurhaus

Þess vegna vill Orkubloggið nú skora á orkumálaráðherrann að hætta að eltast við einhver jarðhitaþróunarverkefni í krummaskuðum veraldarinnar. Og þess í stað einbeita sér að því að koma á íslenskri orkustefnu. Orkustefnu sem á að vera grundvöllur framtíðarþróunar og uppbyggingar landsins. Orkustefnu sem stóriðjustefna mun byggjast á. En ekki öfugt og umsnúið, eins og verið hefur hingað til. Já – koma á skynsamlegri og raunhæfri orkustefnu, en um leið metnaðarfullri stefnu.

Og leggja skammtímahagsmunina til hliðar í bili. Þó svo vissulega sé alltaf stutt í næstu kosningar.

PS: Myndinni hér að ofan var bætt inn eftirá. 

 


mbl.is Þungur róður í efnahagslífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Póstmódernísk orkustefna

Er heimurinn gjörbreyttur frá því fyrir nokkrum árum? Kannski - a.m.k. streymir olían nú æ meira frá ríkjunum í vestanverðri Asíu til risans í austri. Risans sem þjáist af nútímasjúkdómnum síþorsta. Olíueftirspurnin frá Kína vex með ógnvekjandi hraða. Meðan síþreyta hrjáir Vestrið.

  CASPIANMAP

Stórir olíuframleiðendur eins og Kazakstan og Azerbaijan, dæla sífellt meiri olíu í austurátt. Eftir leiðslum sem byggðar eru með kínversku fjármagni.

 

Meðan Bandaríkin og Evrópa voru enn gapandi af undrun yfir skyndilegu hruni Sovétríkjanna, gripu Kínverjar tækifærið. Og sömdu við mörg hin nýfrjálsu ríki um að kaupa af þeim olíuna - og hjálpa þeim að finna ennþá meiri olíu. Á meðan eyddu pólitíkusar í Washington kröftum sínum í að þefa uppi úldið sæði í grænum kjól. Og Evrópumegin fór nánast allt í þrot við að yfirtaka úr sér brætt Austur-Þýskaland.

 

Sumir segja að samdrátturinn núna vestur í Ameríku muni draga úr efnahagsvexti um allan heim. Þess vegna muni verð á olíu brátt lækka. Ef olíueftirspurnin þaðan minnki hljóti spákaupmennirnir að flýja og verðið að lækka hratt.

 

Einnig segja sumir að samdrátturinn þarna fyrir vestan muni valda enn meiri lækkun á hlutabréfum um allan heim. Rökin eru m.a. þau að lönd eins og Kína, Indland og Brasilía séu fyrst og fremst framleiðendur fyrir bandaríska neytendasukkara. Samdráttur í neyslu í Bandaríkjunum hljóti að hafa þau áhrif, að erfiðara verði fyrir fyrirtæki í löndum eins og Kína, Indlandi og Brasilíu að selja vörur sínar og bisnessinn þeirra einfaldlega minnki.

  G8leadersSmoke

Aðrir segja grundvallarbreytingu hafa orðið á efnahagskerfi veraldar á síðustu árum. G8-hópurinn (Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Kanada, Japan, Rússland, og Þýskaland) hafi í reynd tapað vægi sínu. Í löndunum, sem stundum eru nefnd G5 (Brasilía, Indland, Kína, Mexíkó og Suður-Afríka), sé komin upp gríðarlega fjölmenn millistétt. Sem með hratt vaxandi neyslu sinni sé fullfær um að tryggja áframhaldandi efnahagsvöxt þessara ríkja. Það skipti litlu fyrir þessi ríki þótt Bandaríkin og Evrópa lendi í lægð.

 

Reyndar er líklegt að aukinn styrkur Kína skipti miklu til að bjarga því sem bjargað verður í Bandaríkjunum. Lengi vel hefur hvað stærsta erlenda fjárfestingin þar fyrir vestan komið frá olíuríkjunum við Persaflóa. Nú eru það líka kínverskir peningar, sem streyma inní Bandaríkin (og fleiri lönd). Það er a.m.k. eins gott fyrir Bandaríkin að Kína dragi ekki snögglega úr fjárfestingum sínum þar. Ekki væri heldur gæfulegt ef kínversk stjórnvöld tækju upp á því að selja slatta af geggjuðum dollaraforða sínum. Þá fyrst myndi dollarinn falla almennilega.

  G5

Staðan í dag kann að vera orðin sú að efnahagskerfi Asíuveldanna geti staðið sjálfstætt, ef svo má að orði komast. En í þessu felst samt mótsögn. Um leið og efnahagsuppgangurinn í Asíu hefur búið til öflugan neytendamarkað heima fyrir, hafa Asíulöndin fjárfest umtalsvert bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Í reynd hlýtur efnahagslægð á Vesturlöndum líka að hafa neikvæð áhrif í Asíu. Af þrenns konar ásæðum. Í fyrsta lagi minnkar þá útflutningur frá Asíu til Vesturlanda. “Í annan stað”, eins og Jón Baldvin sagði jafnan, verður fjárfesting Vesturlanda í Asíu minni en ella. Og í þriðja lagi minnka umsvif hjá fyrirtækjum á Vesturlöndum, sem eru í eigu Asíufyrirtækja. Afleiðingin ætti að vera sú að samdráttur í Bandaríkjunum breiðist út til Asíu.

 

Í lokin eru það alltaf Arabaríkin sem vinna. Olíuríkin. Heimurinn er svo gjörsamlega háður olíunni. Í huga Orkubloggsins er olían einfaldlega það sem stjórnar veröld okkar. Til að breyta þessu þarf olía að verða minni háttar orkugjafi. Það er væntanlega mikið langtímaverkefni.

 

Hún er þokkalega metnaðarfull, hugmyndin sem Al Gore hefur nú kastað fram. Um að Bandaríkin verði sjálfbær um orku eftir einungis 10 ár! Og ekki bara sjálfbær um orku – heldur að öll orkan komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Er kallinn orðinn galinn?

  gore-emissions

Það magnaða er að þessi hugmynd Gore kann að vera tæknilega möguleg. Tæknilega! Ekki endilega fjárhagslega skynsöm og ekki alveg í takt við ofurvald bandaríska olíuiðnaðarins – en kannski tæknilega möguleg. Kannski. Kannski samt ekki

 

Auðvitað er þessi hugmynd gjörsamlega óraunhæf og varla hægt að kalla þetta annað en lýðskrum. Skemmtileg hugmynd engu að síður. En hlýtur að vekja upp mikilvæga spurningu: Er þessi hugmynd kannski afturhvarf frá opnum alþjóðaviðskiptum og til marks um einhvers konar póstmóderníska græna einangrunarstefnu Bandaríkjanna?

 

Hér má lesa um áætlun Gore:  http://www.msnbc.msn.com/id/25718230/

 

PS: Vegna veru Orkubloggsins í dönsku krummaskuði varð smá bið á myndskreytingu með blogginu. Steinaldarnettenging!
mbl.is Lækkun á Wall Street
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sprenging í kjarnorkuiðnaðinum

Hér kemur síðasti kaflinn í þríleik Orkubloggsins um úranið. Nú verður athyglinni beint að því hvernig kjarnorkuiðnaðurinn muni þróast á næstu árum. Sennilega verður kjarnorkuáætlun Írana stöðvuð með hervaldi. Takist þeim að svara með því að loka Hormuz-sundi verður sprenging í olíuverði. Tímabundið. Líklega myndi mesta verðhækkunin verða rétt áður eða í þann mynd sem atburðirnir brystu á. Og olíuverðið svo lækka snögglega á ný - en samt etv. haldast nokkuð hátt. "Buy on the rumour and sell on the fact" eru a.m.k. góð og gömul sannindi.

Það mun enn frekar hvetja Vesturlönd til að auka fjárfestingar í nýjum kjarnorkuverum. En satt að segja þarf enga árás á Íran til þess. Nánast daglega aukast líkur á því að ný og enn fleiri kjarnorkuver verði byggð í Bandaríkjunum og í Kína og á Indlandi. Og í S-Kóreu. O.s.frv!

Nuclear_china

Á þessu andartaki er verið að byggja sex ný kjarnorkuver í Kína. Kínverjar voru seinir til að byggja kjarnorkuver. Byrjuðu ekki fyrr en um miðjan 9. áratuginn. Og fyrstu verin voru loks tilbúin eftir 1990; fyrst Qinshan-verið í Zhejiang-héraðinu í lok árs 1991 og svo tvö kjarnorkuver við Daya-flóann í SA-Kína 1993 og 1994. En síðan þá hafa hlutirnir gerst hratt. Og kunna að verða enn hraðari.

Já - í Kína eru nú 11 kjarnorkuver starfandi sem framleiða skitin 9.000 MW. Sem jafngildir rúmlega 1% af rafmagnsframleiðslunni í Kína í dag (er nú alls um 700 þúsund MW og eykst hratt). Sem fyrr segir eru Kínverjar að byggja 6 ný ver (athugið að heildartalan á kortinu hér til hliðar er nokkru hærri, því hún nær til Kína og Taiwan samtals). Þar að auki eru um 50 önnur kjarnorkuver a teikniborði Kínverjanna! Af þessum verum á um helmingurinn að vera risin árið 2020.

Uranium_july2008

Og Kínverjar eru á fullu að fylgja eftir þessari stefnu sinni. Ekki er langt síðan kínversk stjórnvöld gerðu langtíma samninga við bæði Ástralíu og Níger um kaup á úrani. Þeir samningar áttu tvímælalaust stóran þátt í því að úranverðið rauk upp um mitt ár 2007. Og fór í um 135 USD pundið. Síðan þá hefur verðið lækkað aftur. Um 50%! Og það þrátt fyrir gengislækkun bandaríkjadals. Það er mikil lækkun. Til að fræðast um verðmyndun og kaup á úrani, bendi ég á færsluna "Úran" hér þarnæst á undan þessari hér.

Kjarnorkuáætlun Kínverja fram til ársins 2020 var birt 2006. Þar er stefnt að því að 2020 verði framleidd 40.000 MW með kjarnorku. Þá var framleiðslan rétt um 7.000 MW og er í dag um 9.000 MW. Vegna stóraukinnar orkunotkunar í Kína er gert ráð fyrir, í umræddri áætlun frá 2006, að þessi 40.000 MW verði aðeins 4% rafmagnsframleiðslunnar í Kína 2020. Til samanburðar framleiða Bandaríkin nú 100.000 MW með kjarnorku, sem eru 20% rafmagnsins þar í landi. Kínverska kjarnorkuáætlunin er byrjunin á sannkallaðri sprengingu í kjarnorkunni.

China_Tianwan_nuclear

Reyndar eru Kínverjar nú að hækka takmark sitt enn meira. Í mars s.l. hækkuðu þeir nefnilega kjarnorkumarkmið sitt úr 4% í 5% af rafmagnsframleiðslu, m.v. árið 2020. Og það þýðir 60.000 MW - því markmið um heildar rafmagnsframleiðslu hefur einnig hækkað. Til að takmarkið náist þarf að meðaltali að bæta við kjarnorkuverum á hverju ári, sem framleiða rúm 5.000 MW. Já - það er allt stór i Kína. Minna má á að Þriggja gljúfra orkuverið á fullreist að framleiða yfir 20.000 MW. Best gæti ég trúað að Kínverjum þyki 60.000 MW frá kjarnorku fljótlega full lítið. Og að enn fleiri ver verði smíðuð. Minni aftur á að bandarísku kjarnorkuverin hafa 100.000 MW framleiðslugetu. Og þau eru öll meira en 30 ára gömul.

Svo virðist sem þessi nýlega ákvörðun Kínverja um að hraða enn frekar uppbyggingu kjarnorkuiðnaðarins, sé enn ekki farin að endurspeglast í verði á úrani. Kannski trúa menn þessu hreinlega ekki - þetta eru of stórar tölur til að geta gleypt þær. En Orkubloggið skilur þetta alveg prýðilega. Enda lærði ég að telja upp að skrilljón-gilljónir, bara 6 ára gamall.

Menn gera ekki aðeins ráð fyrir mikilli fjárfestingi Kínverja í nýjum kjarnorkuverum. Það er einnig búist við því að þeir setji óhemjufé í erlendan kjarnorkuiðnað. Önnur Asíuríki sem treysta mjög á kjarnorkuna, hafa af þessu talsverðar áhyggjur. T.d. Japan og S-Kórea. Þetta er t.d. ein helsta ástæða þess að japanska fyrirtækið Toshiba keypti bandaríska kjarnorkurisann Westinghouse Electric árið 2006. Og síðan þá hefur WE keypt nokkur kjarnorkuver víða um heim. Menn vita sem er, að það verður mikil barátta um úranið og nauðsynlegt að tryggja sér sterka stöðu á kjarnorkumarkaðnum.

Nuclear_plants_world

En af hverju eru Kínverjar svo stórtækir í kjarnorkunni? Og eru áætlanir þeirra kannski bara blautir draumar? Ég held ekki. Minnumst þess að í dag framleiðir kjarnorkan 17% af allri raforku í heiminum. Sambærileg tala er 20% í Bandaríkjunum og a.m.k. níu ríki framleiða meira en 40% rafmagnsnotkunar sinnar með kjarnorku. Kína aftur á móti framleiðir nú einungis innan við 2% rafmagnsins með kjarnorku, eins og áður var nefnt. Þessu ætla Kínverjar að breyta.

Og umhverfismálin standa ekki í Kínverjum. Þeir eru reyndar með skýra stefnu í úrgangsmálum vegna kjarnorkunnar. Til stendur að nota hálfan milljarð dollara til að útbúa geymslu fyrir kínverska kjarnorkuúrganginn í fjalllendi á strjálbýlu svæði langt inní Mið-Asíu. Þetta er svona svipuð áætlun og Bandaríkjastjórn hefur haft uppi um að grafa kjarnorkuúrgang í Yukka-fjöllum í Nevada. Munurinn er bara sá að þarna fyrir vestan varð allt vitlaust út af þessu plani og óvíst að það nái fram að ganga. Hlutirnir eru aðeins öðruvísi austur í Kína. Þar er bara ákvörðun tekin og svo gengið í verkið. Ekkert lýðræðiskjaftæði. Minnir mig á það þegar Kátir piltar sungu "Ég vil fá'ana strax og ekkert ástarkjaftæði eða rómantík hér". Ég er reyndar ekki þessi röff týpa, þannig að kínverska leiðin er ekki alveg mín.

Nuclear_reactors_world_under-construction-ww

En það eru fleiri ríki en Kína með kjarnorkuver í pípunum. Sérstaklega er vert að hafa í huga annað "smáríki". Indland er t.d. líka með stör plön um ný kjarnorkuver. Indverjar hafa langa kjarnorkusögu og mikla þekkingu, enda opnuðu þeir fyrsta kjarnorkuverið sitt 1969. Á Indlandi eru nú 17 kjarnorkuver, sem líklega framleiða um 4-5.000 MW, og önnur 8 í byggingu sem munu hugsanlega allt að tvöfalda framleiðslugetuna.

Rafmagnsframleiðsla frá kjarnorkuverum á Indlandi er einungis u.þ.b. 3% af heildinni. Stefna indverskra stjórnvalda er að þetta hlutfall verði 25% árið 2050 - og jafnvel fyrr. Það mun kalla á mikla uppbyggingu í kjarnorkuiðnaði Indverja. Og af því Indverjar eru mjög háðir innflutningi á úrani, hafa þeir lagt mikla áherslu á að þróa kjarnorkutækni sem mun byggja á öðrum kjarnakleyfum frumefnum.

Ekkert virðist geta komið í veg fyrir að mega sprenging verði í eftirspurn eftir úrani. Þó er hugsanlegt að tækniframfarir leiði til þess að menn fari að nýta önnur efni í kjarnorkuiðnaðinum. Þar er einkum litið til þóríums. Ef og þegar af því verður, kann kjarnorkan að verða mun umhverfisvænni orkugjafi en er í dag. Þetta er samt enn framtíðarmúsík. Annars er vert að hafa í huga að það mun finnast heilmikið þóríum í Noregi. Ætli það verði ekki gull Norðmanna um það leyti sem þeir dæla upp síðustu olíudropunum? Það væri a.m.k. alveg dæmigert fyrir lukku Norðmanna.


mbl.is Annar fundur í ágúst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framhaldssagan um kjarnorkuna

Í morgin fleygði ég hér inn færslu um úran. Og lofaði framhaldi um hvernig úran er notað í kjarnorkuverum. Moggamenn hljóta að hafa rekið augun í færsluna. A.m.k. kom þessi frétt um úranvinnslu Írana eins og skv. pöntun. Til að tengja færsluna við. Takk fyrir það. Sannleikurinn er auðvitað annar; Orkubloggið er bara svo gjörsamlega meðvitað um hvar hjartað slær og tækifærin liggja. Right?

Nuclear_global_production

Í dag framleiða um 440 kjarnorkuver í 31 landi rúmlega 17% af öllu rafmagni í heiminum.  Bandaríkin eru stórtækust í þessum hluta orkuiðnaðarins, með um 100 þúsund MW framleiðslugetu frá kjarnorku (20% rafmagnsnotkunarinnar). En langhæsta hlutfall rafmagnsframleiðslu með kjarnorku er í Frakklandi (80%) og Litháen (70%).

Athugið að hlutfallstölurnar á myndinni eru heldur lægri, enda frá 2005. Af Norðurlöndunum eru það Svíþjóð og Finnland sem framleiða rafmagn með kjarnorku. Þó svo mikil umræða sé um að loka kjarnorkuverum, sérstaklega í Svíþjóð, er ekki ólíklegt að bæði þessi lönd muni veðja enn frekar á kjarnorkuna. Þau hafa fáa aðra góða kosti í orkumálum. Í Finnlandi er einmitt verið að smíða stærsta kjarnorkuver í heimi þessa dagana (þ.e. stærsta kjarnakljúf sem nú er í smíðum). Það rís á eyjunni Olkiluoto við suðvesturhorn landsins og á að vera tilbúið 2011. Verið mun framleiða 1.600-1.700 MW. Það eru vel rúmar tvær Kárahnjúkavirkjanir.

Nuclear_Finland_olkiluoto

Hér til hliðar er mynd af því hvernig verið í Olkiluoto mun líta út. Finnar fengu fyrsta kjarnorkuverið sitt snemma á 8. áratugnum. Sennilega er Finnland eina ríkið í Evrópu þar sem þokkaleg sátt er um að rafmagnið skuli koma frá kjarnorku. Enda myndi annað þýða gífurleg útgjöld vegna innfluttrar orku eða kola.

 

Nuclear_World_History

Í Bandaríkjunum er nú mikið talað um að koma upp nýjum kjarnorkuverum. Þrátt fyrir að orkulöggjöfin þar fyrir vestan sé afar hliðholl kjarnorkuiðnaðinum, gengur "endurreisn" kjarnorkunnar þar þó hægt. Eins og myndin hér til hliðar sýnir vel, hefur dregið mjög úr byggingu nýrra kjarnorkuvera síðustu 20 árin. Ástæður þess eru einkum þrjár; lágt olíuverð lengst af, slysið á Þriggja mílna eyju (og slysið í Chernobyl) og einfaldlega andstaða við kjarnorkuver sem var sterk á tímum vígbúnaðakapphlaupsins. Í Bandaríkjunum hefur ekki verið reist nýtt kjarnorkuver í þrjá áratugi!

Í síðustu færslu Orkubloggsins var fjallað um úrangrýti. Bandaríkin nota nú u.þ.b. 24 þúsund tonn af úrangrýti árlega og þar af er um 90% innflutt. Ef áætlanir um stækkun bandaríska kjarnorkuiðnaðarins ganga eftir þýðir það einfallega aukna heimseftirspurn eftir úrani. Á sama tíma eru Kínverjar með stórtækar áætlanir um byggingu kjarnorkuvera.

periodic table

Úran - þetta makalausa frumefni - er að finna nánast út um allt. Úran er t.d.talið vera 40 sinnum algengara frumefni en silfur og 500 sinnum algengara en gull. En er fremur óvíða í vinnanlegu magni.

Stærstu framleiðendur úrangrýtis eru Ástralía, Kanada og Kazakhstan með samtals um 50% allrar framleiðslunnar. Hvað bestu úrannámurnar er að finna í Kanada. Nánast allt úranið kemur frá um tug landa og meðal annarra framleiðenda má t.d. nefna Rússland, Namibíu, Níger og Uzbekistan.

Til að unnt sé að nota úranið til rafmagnsframleiðslu í kjarnorkuverum, þarf að auðga það. Kannski rétt að útskýra þetta stuttlega - frá sjónarhóli leikmanns í fræðunum sem er aðeins farinn að ryðga í eðlis- og efnafræðinni. Þótt þau hafi, ásamt stærðfræðinni, verið uppáhaldsfögin mín í MH hér í Den. En síðan eru liðin rúm 20 ár. Til allrar hamingju hef ég alltaf haft afskaplega gott minni. Í alvöru. Sem er að sumu leyti galli - því ég er nokkuð langrækinn. Rétt eins og Dabbi. Oddsson. 

Í úrangrýtinu er ekki allt úranið alveg eins. Heldur samanstendur það af tveimur mismunandi samsætum. Annars vegar er  U235 (einungis ca. 0,7%) og hins vegar U238 (99,3%). Munurinn á þessum samsætum er eftirfarandi. U238 hefur 92 róteindir í kjarnanum og 146 nifteindir. U235, sem miklu minna er af, hefur einnig 92 róteindir en aftur á móti einungis 143 nifteindir. Það er í sjálfu sér enginn munur á kúk og skít - m.ö.o. er þetta sama frumefnið og að mestu með sömu eiginleika. En samt er stór munur á - það eru nefnilega miklu meiri líkur á því að U235 (sjaldæfa samsætan) klofni. Og það er einmitt kjarnaklofnunin sem skapar hina gríðarlegu orku - kjarnorkuna - sem veldur miklum hita og er nýtt til að framleiða rafmagn.

Nuclear_U235_fission_cycle

Klofnunin verður þegar einmana nifteind rekst á kjarna U235 samsætunnar. Og þegar klofnunin skeður losna yfirleitt nokkrar nifteindir, sem svo rekast á kjarna annarra U235 samsæta og valda fleiri kjarnaklofnunum og keðjuverkun myndast. Rekist nifteind á hina samsætuna, þ.e. U238 sem er jú langmest af, gerist hins vegar sjaldan nokkur skapaðan hlutur. Sem sagt er U235 beib, en ekki U238. Svona frá sjónarhóli lögfræðings, sem kann vel að meta fallegar stelpur. Kannski væri betri samlíking að segja, að U235 samsætan sé laus, liðug og til í tuskið. En U238 samsætan hamingjusamlega gift og lítur ekki við nifteindum sem blikka hana.

Til að flækja ekki málið, sleppi ég því að lýsa mismunandi tegundum kjarnakljúfa sem til eru. En til að auka líkur á að nifteindir nái að kljúfa úrankjarnana, er úranið auðgað, eins og fyrr segir. Auðgun úrans felst í því að fjölga U235 samsætunum. Sem fyrr segir er um 0.7% af U235 í úrani, en með auðgunarferlinu eykst þetta hlutfall í allt að 3-5%. Fleiri U235 samsætur auka líkur á árekstrum nifteinda við slíkar samsætur og því verður meira um kjarnaklofnanir.

Uran_enrichment-process

En hvernig fer þessi auðgun á U235 fram? Sáraeinfalt - og það vita Íranar rétt eins Orkubloggið. Sökum þess að U235 er léttari samsæta en U238, er hægt að aðskilja samsæturnar. Það er gert með sérstakri "skilvindu" (ég hef alla vega ekki betra íslenskt orð yfir þessa tækni). Fyrst er þó úraninu (eða úranoxíði, sbr. lýsing í færslunni hér á undan um úrangrýti) breytt í s.k. úranflúoríð. Þessa lofttegund með úrani, er tiltölulega einfalt að nota til að framleiða auðgað úran. Íranar eru sagðir hafa framleitt 300 tonn af úranflúoríði og eru þar af leiðandi á þröskuldi þess að geta framleitt auðgað úran. Sem er mikilvægt til að geta rekið kjarnorkuver.

En vandamálið er að auðgað úran má einnig nota í kjarnorkusprengju (sprengja með venjulegu úrani myndi aftur á móti aldrei koma af stað þeirri kjarnaklofnun, sem nauðsynleg er). Til að geta smíðað kjarnorkusprengju þarf nokkra tugi kílóa af vel auðguðu úrani. Líklegt er að Íranar þurfi all nokkur ár til að geta náð að auðga svo mikið úran. En spurningin er hvað Bandaríkjastjórn og Ísrael munu bíða lengi...

Nuclear_Power_Station

En til að klára þetta um kjarnorkuframleiðsluna. Þegar hlutfall U235 í úranflúoríðinu er komið yfir 3% er því breytt í úrandíoxíð. Sem er tiltölulega einföld efnafræði. Það efni er eldsneytið sem notað er í kjarnaofninn (eða kjarnakljúfinn). Auðgaða úranið í úrandíoxíðinu klofnar, þegar nifteindir rekast á kjarna þess, og við það losnar gríðarlegur hiti. Um leið losna nifteindir, sem rekast á aðra úrankjarna, sem klofna o.s.frv. Hitinn er notaður til að mynda gufukraft sem knýr túrbínu og framleiðir rafmagn. Nokkuð snjallt ferli.

nuclear_power_plant

Því miður er þar með ekki öll sagan sögð. Gæta þarf þess að halda keðjuverkuninni í kjarnakljúfnum innan hóflegra marka - annars getur t.d. myndast óstjórnlegur hiti sem ekki verður við ráðið. En það er önnur saga. Í næstu færslu verður reynt að spá um úran-eftirspurnina eftir nokkur ár. Þar verður að finna sterka peningalykt. Mjög sterka!


mbl.is Segir Írana ekki ætla að hætta að auðga úran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úran!

Upp og niður. Þannig gengur það á mörkuðunum. Svona rétt eins og þegar krakkarnir á leikskólanum syngja "inn og útum gluggann...".  En hvernig á að græða almennilega slummu í svona leiðinda árferði? Varla með því að kaupa í Exista.

Uranium_Ore

Auðvitað er þá mest spennandi að halla sér að tvíeykinu góða; svívirðilegum tækifærum og dúndrandi áhættu. Með það í huga gæti Orkubloggið vel hugsað sér að veðja á úran. Þar gæti orðið mikil uppsveifla á næstunni. Hugsanlega. 

Spáum aðeins betur í þetta. Hvað er úran og af hverju eru talsverðar líkur á að það hækki mjög í verði? Í fyrsta lagi er þetta vel kortlagður markaður. Við vitum hversu mörg kjarnorkuverin eru og hversu mörg ný ver er verið að byggja eða á að fara að byggja. Við vitum um allar úrannámur heimsins og nokkurn veginn hversu mikið úran þær framleiða eða geta framleitt. Málið er bara að nenna að safna þessum upplýsingum saman og sjá hver útkoman úr dæminu er. Reyndar er eitt hundfúlt. Þ.e. að geta ekki með góðu móti plöggað sig inn á Netið og hreinlega verslað beint með úranið þar. Það er nefnilega enginn hrávörumarkaður, sem býður upp á viðskipti með úran. Kannski eins gott - við viljum jú ekki að hver sem er geti skroppið útí sjoppu og keypt úran. Úran, Árans, Óróans, Íran!

VanEck

En auðvitað hefur blessaður kapítalisminn fundið þokkalega lausn á þessu eins og öðru. Maður getur t.d. sett aura í sérstaka sjóði sem taka þátt í úranviðskiptum og þannig notið góðs (eða ills) af verðsveiflum á úrani. Áhugasamir geta t.d. haft samband við Van Eck Associates og fjárfest þar í Market Vectors Nuclear Energy. Ljúflingarnir hjá Van Eck skráðu þennan sjóð í kauphöllinni i New York fyrir um ári síðan og fengu af því tilefni að hringja bjöllunni. Það finnst mér alltaf afskaplega bjánaleg athöfn - lítið skárra en íslenskur ráðherra með skæri einhversstaðar útí móa. Eini sénsinn að lóan bjargi athöfninni með sínu yndislega dirrindí. En þeir hjá Van Eck hafa gaman að þessu bjölluglingri. Myndin er frá því þegar þeir settu sérstakan fjárfestingasjóð á NYSE, sem sérhæfir sig í endurnýjanlegri orku. Þarna má m.a. sjá John Thaine, forsjóra NYSE og Keith Carlson, forstjora Van Eck. Auðvitað allir fjarska glaðir.

Uranium_uxc_u3o8_2yr

Einfalt er að fylgjast með verðbreytingum á úrani. T.d. eru góðar upplýsingar um þetta á heimasíðu UX Consulting (www.uxc.com). Og þannig háttar núna að úranverð hefur undanfarið lækkað mjög. Ástæður þess eru ekki augljósar. Kannski hafa bankar í vandræðum þurft að losa um fé. Þessi mikla verðlækkun á úrani er a.m.k. nokkuð á skjön við vaxandi líkur á mörgum nýjum kjarnorkuverum og þar með meiri eftirspurn eftir úrani.

Grafið að ofan sýnir verðþróunina á úrani u.þ.b. 2 ár aftur í tímann. Do I need to say more? Verðið núna er um 64 USD fyrir pundið (sem jafngildir um 10 þúsund íslenskum krónum fyrir kílóið - er það ekki svipað og nautalundin í Nóatúni - ef maður kippir einu oststykki með?). Þá er átt við verð þegar keypt eru meira en 100.000 pund af úrani til afhendingar innan 3ja mánaða. Verð á úrani miðast stundum við annan afhendingartíma og annað magn, þ.a. ýmis verð eru í gangi hverju sinni. En trendið hefur verið verðlækkun undanfarna mánuði. Verðið hefur þó verið að skríða örlítið upp á við síðustu vikurnar. Þ.e. frá miðjum júní.

hiroshima_bomb

En hvað er úran? Eins og menn vita er úran eitt af frumefnunum sem finnst í náttúrunni. Það efni sem hér hefur verið lýst sem úrani, er í reynd s.k. úranoxíð. Stundum líka kallað úrangrjót eða úrangrýti á íslensku, hygg ég. Úr þessu er svo unnið úran, sem notað er í kjarnorkuverum og í kjarnorkusprengjur. "Litli strákurinn" (Little Boy) sem kastað var á Hiroshima var einmitt úransprengja. En á Nagasaki fór plútonsprengjan "Feiti kallinn" (Fat man).

En nú er sólin að brjótast fram úr skýjunum hér í Köben. Best að fara út í Frederiksberg have og skokka nokkra km. Og kíkja á fílana í leiðinni. Þeir eru svo skemmtilega hamingjusamir með nýju aðstöðuna sína í Zoo. Í næstu færslu hyggst Orkubloggið fjalla um nýtingu kjarnorkunnar í orkuiðnaðinum. Og af hverju eftirspurnin eftir úrani kann að aukast mikið á næstu árum.

PS: Ef einhvern vantar góða íbúð til leigu í Kaupmannahöfn næsta vetur, þá ætti viðkomandi endilega að hafa samband:  ketillsigurjonsson@gmail.com 


mbl.is Styrkingar í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband