Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
8.7.2008 | 00:06
Íslenska vatnssullið
Undanfarið hefur Orkubloggið m.a. fjallað um það hvernig sumir fjárfestar í Bandaríkjunum eru farnir að veðja á vatn og kaupa upp vatnsréttindi þar í landi. Sbr. færslurnar "Blautagull" (http://askja.blog.is/blog/askja/entry/582459/) og "Bláa gullið" (http://askja.blog.is/blog/askja/entry/584060/).

En mér varð um og ó þegar ég sá sjónvarpsfréttir RÚV nú um helgina. Og fyrsta fréttin var um það, að Össur iðnaðarráðherra telur að íslenskt vatn verði brátt útflutningsvara upp á tugi malljarða króna. Maður fyllist hálgerðum kjánahrolli að heyra svona. Íslenskir pólítíkusar hafa sjaldan verið næmir á peningalykt. Þannig að þetta finnst mér nánast gera það skothelt að vatnsútflutningur "frumkvöðla" héðan verði dæmdur til að mistakast.
Það er ekkert nýtt að menn fái þá hugmynd að flytja út íslenskt vatn. Og það er svona álíka frumlegt að ætla að selja vatn, eins og t.d. að ætla að framleiða og selja nýjan kóladrykk. Að markaðssetja vatn er fyrst og fremst barátta um að búa til vörumerki og sýna markaðssnilld. Auðvitað óska ég Jóni Ólafssyni alls hins besta í vatnsútflutningi sínum. En vona að menn fari gætilega og hlusti t.d. á ráðleggingar Davíðs Scheving Thortseinssonar, þess gamalreynda athafnamanns. Í útvarpsviðtali í gær kom Davíð Scheving einmitt með skynsamleg sjónarmið um hvernig standa beri að vatnsútflutningi. Þessir gömlu jálkar eru alltof sjaldan spurðir álits á nútíma bisness. Það er miður. Því fátt er dýrmætara en reynslan.

Það er líklega til marks um kynslóðaskiptin í íslensku viðskiptalífi, að í fljótu bragði fann ég enga mynd á Netinu af Davíð Scheving. Þannig að myndin af Sól Cola hér til hliðar verður að duga. Það fannst mér reyndar aldrei sérlega góður drykkur. En það er önnur saga.
![]() |
Ný vatnsleiðsla til Eyja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.7.2008 | 14:27
Dularfullu markaðslögmálin

Dularfullubækurnar hennar Enid Blyton voru ekkert sérstakar. Ævintýrabækurnar, með páfagauknum honum Kíki, voru t.d. miklu meira spennandi. Og Fimmbækurnar voru auðvitað uppáhaldið. Með þeim Georg(ínu), Önnu, Júlla, Jonna og hundinum Tomma. Svo langaði mig lengi að verða "vísindamaður". Eins og Kjartan, pabbi Georgínu.
Nú virðist vera komin ný Dularfullubók. Titillinn er sagður vera annað hvort Dularfullu hráefnisverðin eða Dularfullu markaðslögmálin. Ekki man ég fyrir vist hvað persónurnar í Dularfullubókunum hennar Enid Blyton voru margar. Gott ef þær voru ekki átta. Rétt eins og G8. En ef G8 ætlar að leysa málið og ná fram lækkun á olíu og matvælum, gæti það reynst snúið. Það veit nefnilega enginn fyrir víst hvað veldur hækkandi verði. Eða öllu heldur; þetta er flókið sambland margra þátta og lausnin engan veginn augljós.
Talað er um að eftirspurnin sé meiri en framboðið. Samt er nóg af öllu. Það eru t.d. engar biðraðir neins staðar við bensínstöðvar. Eins og var i orkukreppunni í upphafi 8. áratugarins. Verðið hefur bara hækkað. Kannski aðallega af því það var orðið kjánalega lágt. Það er líka nóg af korni. Það er sem sagt ekki skollin á nein olíukreppa né matvælakreppa. Vissulega kann hækkandi verð að vera undanfari slíkrar kreppu. Það er þó engann veginn víst að svo sé.

Að mörgu leyti er hækkandi hrávöruverð hið besta mál. Það fær t.d. fólk til að átta sig á hvar hin raunverulegu verðmæti liggja. Og það stuðlar að mörgum jákvæðum breytingum. Fyrir vikið verða t.d. fleiri tilbúnir að setja pening í matvælaþróun. Við lifum nefnilega ekki endalaust á vísindaafrekunum hans Norman Borlaug. Einhver þarf að taka við kyndlinum.
Og hátt olíuverð gerir fjárfesta spennta fyrir óhefðbundinni orkuframleiðslu. Hér á Orkublogginu í gær benti ég á öra þróun sem orðið hefur í vindorkunni síðustu árin. Nú eru horfur á, að brátt munum við upplifa nýtt risaskref í vindorkugeiranum.

Áhugi á vindorku er ekki ný tíðindi. En það sem er hvað mest spennandi við þennan geira í dag, eru möguleikar á eins konar úthafsvirkjunum (þó svo innan efnahagslögsögu sé). Í dag eru um 98% vindorkunnar framleidd á landi. Í framtíðinni kann þetta hlutfall að breytast. Þá verða hugsanlega risastórar vindtúrbínur staðsettar djúpt útá sjó og "fljóta" þar fyrir akkerum. Myndin hér nokkru ofar er einmitt teikning af þessari hugmynd. Og eins og sjá má af stöplaritinu er búist við miklum vexti í vindorku á sjó.

Fyrir okkur Mörlanda er kannski áhugaverðast það sem Norðmenn eru að fara að gera. Með því að nýta sér tækniþekkingu úr olíuiðnaðinum, ætlar Statoil að koma stórri vindtúrbínu fyrir, um 5,5 sjómílur vestur af Rogalandi (suðvesturodda Noregs).
Þessi tilraun er unnin í samstarfi við Siemens, sem er eitt af fremstu fyrirtækjum heims í vindtúrbínum. Einnig kemur norski sjóðurinn Enova að þessu, en hann styður verkefni á sviði vistvænnar orku. Nú er verið að gera prófanir á módeli af vindtúrbínunni, sem sjálf mun framleiða um 2,3 MW og sjálf blöðin jafnast á við breiðþotuvængi. Allt verður þetta fest við hafsbotninn með þremur akkerum. Miðað hefur verið við að hafdýpið megi vera allt að 700 metrar! Ef vel tekst til mun þetta hugsanlega valda byltingu í vindorkuiðnaðinum.
En kannski ætti maður ekkert að vera að þessu vindorkuröfli. Ég held satt að segja, að í huga margra Íslendinga sé vindorka bara eitthvert pjatt. Þess vegna vil ég sérstaklega benda efahyggnum á, að maður nánast fyllist lotningu í mikilli nálægð við stærstu vindtúrbínurnar. Sannkallað verkfræðiundur.
Vissulega verður vindorkan aldrei í þeim mæli að hún leysi olíuna af hólmi. En hún getur engu að síður orðið einn af mikilvægustu orkugjöfum á tilteknum svæðum.
![]() |
Verðlag rætt á fundi G-8 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 8.7.2008 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.7.2008 | 22:20
Kíkóti og vindurinn

Fólk getur verið afskaplega skemmtilegt. Eins og í Mogganum í dag: "Stemningin verði eins og í Nýhöfn í Kaupmannahöfn".
Það er fyrirsögn á umfjöllun Sunnudagsmoggans um nýja skipulagið vestur á Kársnesi. Frábært spaug. En kannski soldið ljótt af Mogganum að gera grín að Karsnesskipulaginu, með því að nota þessa fyrirsögn.
Kársnesið er eitt uppáhaldssvæðið mitt hér í borginni. Ekki síst þar sem ég lærði að sigla hjá þeim Ýmismönnum og sigldi nokkur sumur frá höfninni yst útá Kársnesi. Og það var afskaplega skemmtilegt að sigla inn í Fossvog og um Skerjafjörðinn og þaðan fyrir Gróttu. En eitt er alveg öruggt. Kársnesið mun aldrei nokkru sinni bjóða upp á stemningu eins og er í Nyhavnen í Köben. Sem er bara hið besta mál. Mér hundleiðist Nýhöfnin með alla sína hlandlykt og hálffullu Dani.

En að allt öðru. En þó nátengdu (right!). Öll þekkjum við söguna um Don Kíkóta, sem barðist við vindmyllur. Sem hann hélt vera ægileg tröll. En sumir berjast í alvöru við slíka spaða. Undanfarin ár hefur Kennedy-fjölskyldan barist hatrammlega gegn skipulagstillögu, sem gerir ráð fyrir að reistar verði gríðarstórar vindtúrbínur utan við strönd Þorskhöfða og Martha's Vineyard. Kennedyarnir eru reyndar afskaplega mikið fyrir umhverfisvernd. Þannig að þessi barátta þeirra gegn vindorkunni er svona týpískt NIMBY ("Not in My Back Yard"). Enn er ekki útséð með hvort Kennedyarnir fara með sigur af hólmi í þessari baráttu gegn fyrirtækinu Cape Wind. Líkurnar á því hljóta þó að fara minnkandi, því mikill almennur stuðningur er við þetta verkefni.

Þetta vindorkuver yrði fjárfesting upp á nærri milljarð dollara. Alls myndu rísa þarna 130 gríðarstórir turnar með vindtúrbínum, 6-17 km utan við ströndina. Hæð þeirra er áætluð um 135 metrar. Til samanburðar, þá er Hallgrímskirkja um 75 m há.
Orkuframleiðslan gæti orðið um 420 MW, sem er nærri 2/3 þess sem Kárahnjúkavirkjun framleiðir. Í dag kemur rafmagnið á þessu svæði að mestu frá olíu- og gasorkuverum, með tilheyrandi kolefnislosun.

Enn sem komið er, hafa mjög fá vindorkuver verið byggð í sjó (þ.e. utan við ströndina). Þau eru m.ö.o. nánast öll á landi, sem bæði hefur umtalsverð áhrif á útsýni og kallar einnig á mikla landþörf. Í framtíðinni er afar líklegt að vindorka verði í meira mæli virkjuð útí sjó, enda er vindur þar almennt miklu stöðugri. Sem hentar vindtúrbínum afskaplega vel. Það eru Danir sem standa hvað fremst í því að virkja vind utan við ströndina. Þeir eiga m.a. nokkur stærstu vindorkuverin af þessu tagi. Eitt þeirra er Horns Rev og er úti Norðursjó, 14-20 km út af Esbjerg. Verið framleiðir um 160 MW (með 80 túrbínum frá Vestas).
Myndin hér að ofan er einmitt frá Horns Rev vindorkuverinu. Danir eru stundum seigir. A.m.k. er Vestas í alvöru bisness. Meðan REI og Orkuveitan virðast aðallega vera að eltast við einhver þróunarverkefni í fátækustu löndum heims, kostuð að alþjóðastofnunum. Virðast helst hafa þann tilgang að Össur geti þotist um heiminn og skoðað sig um. Væri ekki nær að íslensk jarðhitaútrás væri í höndum einkaaðila?

Stærsta vindorkuverið, sem nú er í undirbúningi útí sjó, er 500 MW ver um 25 km utan við Suffolk á austurströnd Englands. Þetta er fjárfesting upp á 1,8 milljarð USD og samanstendur af 140 vindtúrbínum, sem hver og ein mun framleiða um 3,6 MW. Framkvæmdirnar munu hefjast á næsta ári (2009) og túrbínurnar koma frá Siemens. Það er hörð samkeppni í þessum bransa.
En það er líka mikið að gerast. T.d. hóf nýtt vindorkuver, rúmlega 20 km utan við strönd Hollands, starfsemi fyrir um einum mánuði. Þar framleiða 60 Vestas-túrbínur 120 MW. Kannki meira um þennan vindbisness á Orkublogginu á morgun.
![]() |
Hafnsækin starfsemi víkur fyrir blandaðri byggð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2008 | 00:16
Bölmóður spámaður

Það er helgarstemning á Orkublogginu. Og gaman að fréttinni í Mogganum, um að Bölmóður spámaður hafi mjög rangt fyrir sér um íslenskt efnahagslíf. Ekki "rangt". Heldur "mjög rangt"!
En hverjum á að trúa í sambandi við ástand íslenskra efnahagsmála? Eitt hefur reynslan kennt mér. Aldrei að taka mark á bölsýnisfólki. Þar að auki hef ég meiri trú á honum Frissa frænda mínum, heldur en þessum Robert Wade. Sem er bara ruglukollur.
Já, Friðrik Már veit hvað hann syngur - enda af góðu fólki kominn! Held hann yrði fínn ráðherra í utanþingsstjórn. Sem væri öruggega besti kosturinn í stöðunni í dag.
Wade er bara enn einn misheppnaður bölsýnismaðurinn. En hinn eini sanni Bölmóður er auðvitað geggjaði heimsendaspámaðurinn í Tinnabókinni yndislegu; Dularfulla stjarnan.

Það er reyndar alveg magnað hvað Bölmóðar heimsins geta bullað. Nýjasta bullið sem ég man eftir, tengist hraðlinum sem þeir hjá CERN eru að smíða í Sviss. Prýðilega málsmetandi eðlisfræðingar hafa nefnilega látið í ljós þá skoðun að hraðallinn geti hugsanlega verið stórhættulegur og valdið gjöreyðingu jarðarinnar. Fólk er stundum ekki með öllum mjalla.
Þessa skemmtilegu frétt um hraðalinn og "hugsanleg Ragnarök" af hans völdum, má sjá hér á Moggavefnum. Svona bull hlýtur að koma mönnum í gott skap:
http://mbl.is/mm/frettir/taekni/2008/06/29/ekki_haetta_a_ragnarokum/
![]() |
Segja prófessor hafa mjög rangt fyrir sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.7.2008 | 10:40
Sá hlær best...
Líklega hafa allir séð þetta frábæra atriði. En þetta er bara svo svakalega fyndið að maður verður að rifja þetta upp reglulega. Helst vikulega eða svo:
Þetta grín hittir beint í mark. Til að bjarga sér frá eigin klúðri fá nú bankar víða um hinn vestræna heim lán á sérkjörum frá seðlabönkunum sínum. Meðan lífeyrissjóðunum blæðir.
![]() |
Fasteignasala dróst saman um 80% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.7.2008 | 20:47
Bláa gullið
Baugsmálið er búið. Og Jónsmálið að byrja. Gott að þeir hjá Ríkislögreglustjóra hafi eitthvað nýtt að dunda sér við. Annars mun aðalbisnessinn hjá Jóni Ólafssyni þessa dagana vera plön um sölu drykkjarvatns vestur í Ameríku. Kannski er vatn bláa gullið. Mér finnst að Skífu-Jón ætti að gera þetta af alvöru. Og verða stærsti einkaeigandi vatns á Íslandi.

Þá myndi Jón eignast flottan vatnsbróður. Westur í Bandaríkjunum. Stærsti einkaeigandi vatns þar heitir nefnilega... T. Boone Pickens. Auðvitað!
Eins og ég gat nýlega um, í færslunni "Blautagull", byrjaði vindtúrbínuævintýri Pickens á því að hann keypti upp gríðarleg vatnsréttindi í Texas.
Business Week fjallaði um þetta ævintýri Pickens um miðjan júni s.l. Undir fyrirsögninni "There Will Be Water". Þetta blessaða tölublað var svo sannarlega guðsgjöf fyrir mig, þar sem ég var staddur á Kastrup og á leið til Munchen. Ég get nefnilega ómögulega fest blund í flugvélum og þarf helst eitthvað uppbyggilegt að lesa. Eins og nærri má geta varð ég því afskaplega glaður þegar ég rak augun í myndina hér að ofan. Sem prýddi þessa forsíðu Business Week. Pickens fær hjartað alltaf til að slá örar - hann er bara svo fjandi skemmtileg og sjarmerandi týpa.

Þessi viðskiptahugmynd Boone Pickens er ekki ýkja flókin: "There are people who will buy the water when they need it. And the people who have the water want to sell it. That's the blood, guts, and feathers of the thing." Segir Pickens.
Og hann er nú þegar búinn að spreða meira en 100 milljónum dollara í kaup á vatnsréttindum s.l. áratug eða svo. Öllu vandasamara hefur reynst að finna kaupanda að vatninu. En Boone Pickens hefur ekki miklar áhyggjur af því. Þetta er ekki fyrsta vandasama verkefnið, sem litli blaðasöludrengurinn frá Holdenville í Oklahóma hefur þurft að takast á við. Og þó hann hafi orðið áttræður í maí s.l. er engan bilbug á Pickens að finna.
Vatnsréttindin sem Pickens hefur eignast eru á tæplega þúsund ferkílómetra svæði í s.k. Roberts-sýslu nyrst á hinum víðáttumiklu sléttum Texas. Þau gætu gefið af sér nokkur hundruð milljarða lítra á ári og vel yfir 150 milljónir USD í tekjur árlega.

En jafnvel bjartsýnismaðurinn ég verð að viðurkenna að þetta gæti reynst nokkuð snúið mál. Hugmyndin er að dæla vatninu um 400 km leið til Dallas og annarra borga (eins og El Paso og San Antonio). Það er auðvitað lítið mál að henda upp einhverri vatnsleiðslu. Smámál fyrir fáeina menn með nokkrar skóflur og hamra. Og samhliða vatnsleiðslunni vill Pickens reisa rafmagnsleiðslu, fyrir orkuna frá stærsta vindorkuveri heims, sem mun rísa þarna á sama svæði á næstu árum. Tvær flugur í einu höggi.
Aftur á móti þarf leiðslan að fara gegnum hundruð landareigna í einkaeigu og fjölmargar sýslur. Það er ekki einfalt mál. Og þetta er reyndar orðið hápólítískt mál þarna í landi einkaframtaksins. Það eru nefnilega ýmsir, meira að segja í Bandaríkjunum, sem segja að nú sé nóg komið. Það nái ekki nokkurri átt að einkaaðilar geti eignast vatnið eins og hverja aðra vöru - vatnið sé undirstaða lífs og þarna verði að draga mörkin.
Aðrir telja sýn Pickens einfaldlega eðlilega framsýni i veröld þar sem vatn muni verða æ verðmætara. Kallinum hefur verið líkt við Rockefeller, sem eignaðist á sínum tíma mestalla olíuvinnslu í Bandaríkjunum. Pickens sé Rockefeller vatnsins. En reyndar var Rockefeller stöðvaður. Með því að brjóta upp Standard Oil. Nú tala sumir fyrir því að það verði að stöðva Mesa Water; fyrirtæki Pickens.

Pickens hefur líka verið gagnrýndur fyrir það að áhersla hans á vindorkuna sé bara blöff. Til að styrkja stöðu sína gagnvart þeim sem gagnrýnt hafa uppkaup hans á vatnsréttindum. Hann sjái vindinn sem strategíu til að auðvelda sér að ná samningum um flutning og sölu vatnsins.
Það verður spennandi að fylgjast með framvindunni. Ennþá hefur Pickens ekki náð að finna kaupanda að vatninu. En hann er fullviss um að Dallas og fleiri borgir muni senn þurfa á vatninu hans að halda. Og þá muni hann græða mikinn pening. Og hann virðist sjaldan hafi verið ánægðari og bjartsýnni en nú, kominn á níræðisaldurinn. Til hamingju með afmælið, hr. Pickens!
![]() |
Ákærður fyrir skattalagabrot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 5.7.2008 kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2008 | 10:40
Enron og Enone

Athyglisverð frétt á Moggavefnum í dag. Hlýtur að vera einhver sterkasta vísbending sem lengi hefur komið fram, um að olíuverðið hækki líklega ekki mikið meira. Eða hvað?
Nú geta menn fyrir westan hver um sig gerst eins konar vogunarsjóður í olíuviðskiptum. Það er óneitanlega minna vesen að fá sér svona semi-oilfutures, en að standa í einhverju stússi á Nymex.
Kannski rétt að bjóða upp á þetta með fleira. Væri fínt að geta rölt útí Bakarameistara og keypt sér brauðfutures nokkur ár fram í tímann. Eða skreppa í Bónus og tryggja sér skyr á tilteknu verði út árið. Ætli þetta sé ekki barrrasta framtíðin?

Annars er athyglisvert ef olíudreifingin í US er tilbúin að selja fólki bensín fram í tímann á verði dagsins í dag. Bendir ekki beint til þess að búist sé við miklum olíuhækkunum í viðbót. Nema kannski Chevron og félagar séu orðin svo ósköp góðir að vilja gefa fólki pening.
Staðreyndin er auðvitað sú að ef þessi frétt er sönn, er þetta í reynd bara markaðsblöff. Fyrirtæki eru einfaldlega að tryggja sér viðskiptavini fram í tímann. Og þegar fólk kemur að leysa út "skömmtunarmiðana" sína kaupa margir eitthvað annað um leið. T.d. gos eða kleinuhring. Sem skapar seljandanum aukna veltu. Þar að auki er auðvitað sáraeinfalt fyrir olíufyrirtækin að tryggja sig gegn tapi á svona viðskiptum.

Fyrir íslensku olíufélögin yrði þetta pínulítið flóknara. Af því við erum með krónuvesalinginn en ekki dollar. Og kannski ekki hægt að ætlast til þess að menn þar á bæ treysti sér til að reikna svona dæmi með tveimur breytum. Segir líka sina sögu um metnað íslensku olíufélaganna að eitt þeirra skuli hafa breytt nafninu sínu í Enone. Rímar skemmtilega við Enron.
![]() |
Bensín keypt fram í tímann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.7.2008 | 22:17
Dauðadaður

Talsvert mikið um daður þessa dagana. Olían daðrar við 145 dollarana. Svo daðrar fólk líka við að allt sé gjörbreytt. Við séum á síðustu olíudropunum og heimurinn verði aldrei sem fyrr. Það er auðvitað firra. Nær væri að segja að ástandið undanfarin ár hafi verið meira en lítið brenglað og tími til kominn að jafnvægi kæmist á að nýju.
Um skeið fóru vextir niður i hreina vitleysu og fjármálageirinn æddi áfram. Ekki síst í Bandaríkjunum undir dapurlegri stjórn Greenspan á bandaríska seðlabankanum. Kallinn var svo skíthræddur um að hryðjuverkaárásirnar 2001 myndu snarbremsa efnahagslífið og bjó til einhverja mestu fasteignabólu allra tíma. Þess vegna fór sem fór. Og nú daðrar kapítalisminn við að hið opinbera komi honum til bjargar með enn meira af afsláttarfjármagni. Því annars liggi hann í dauðateygjunum. Er annað hægt en að hlæja að þessari vitleysu?

Fyrir tilstilli Greenspan varð fjármagn nær frítt og menn með góðan bankaaðgang gátu skóflað til sín hagnaði. Annars eigum við, ég og Greenspan, reyndar samleið að einu leyti. Ég er nefnilega, rétt eins og hann, veikur fyrir objektivismanum hennar Ayn Rand. Sem er reyndar nokkuð á skjön við þær lífsskoðanir, sem ég hélt að ég aðhylltist. En svona gengur það. Maður þekkir sjálfan sig líklega aldrei of vel. Né nógu vel.
Undanfarið hef ég notið "The Fountainhead", sem er líka snilldarbók. Ætti að vera skyldulesning í skólakerfinu. En um þetta eru eflaust margir ósammála mér. Enda er Rand ekki allra.
Nei - olíuverðið er ekki mjög hátt í sögulegu samhengi. Hið slæma er hvað olían var lengi allt of ódýr (af því Sádarnir skilja ekki efnahagsmál - ekki frekar en íslenskir stjórnmálamenn). Það varð til þess að fjárfestingar í olíuiðnaðinum urðu lítt áhugaverðar. Fyrir vikið er stífla í bransanum. Nú æpa allir á aukið olíuframboð, en virðast ekki skilja að til að framleiða, þá þarf fyrst að fjárfesta í tækjum og tækni. Og leita og finna og vinna og hreinsa. Þetta gerist ekki bara si sona.

Í þokkabót hefur allt þetta klúður orðið til þess að skapa vítahring í orkumálum. Nú vilja menn verða óháðari olíu, en um leið er nánast útilokað að nokkur sjái sér hag í að byggja t.d. ný kjarnorkuver. Kjarnorkuver kalla nefnilega á svakalegar fjárfestingar og fastur kostnaður í orkuiðnaðinum er óvíða meiri. Þar á bæ hryllir mönnum við fjármagnskostnaði nútímans og naga sig í handarbökin fyrir að hafa ekki farið af stað meðan fjármagnið var frítt. Enda heimtar bandaríski kjarnorkuiðnaðurinn nú milljarða dollara í ríkisstyrki til að geta farið af stað með uppbyggingu a nýjum kjarnaverum. Hreint kostuleg staða.
Myndin hér að ofan er af þeim Gary Cooper og Patricia Neal. Úr myndinni "The Fountainhead" frá 1949. Eftir bók Ayn Rand. Þetta er frá þeim tímum þegar menn kunnu að búa til bíó.
![]() |
Verð á olíu daðrar við 145 dali tunnan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 5.7.2008 kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2008 | 07:05
Blautagull
Vatnið er gull framtíðarinnar telja sumir. Stundum er talað um blátt gull í þessu sambandi. Og vatn er ekki bara mikilvægt fyrir Ejamenn, sbr. fréttina um nýju vatnsleiðsluna til Vestmannaeyja, heldur einnig ýmsa fleiri. Af því tilefni ætlar Orkubloggið (eina ferðina enn!) að ræða gamlan vin: T. Boone Pickens og ævintýri hans í Texas.

Ég hef áður, hér á Orkublogginu, nöldrað smá útí Pickens fyrir að vera að dæla pening í vindorku. Í stað þess að veðja á sólarorku, eins og alvöru menn. Eins og Vinod Khosla til dæmis. Og náungarnir hjá Kleiner, Perkins, Caufield & Buyers í Sílikondal. Ég segi að það að fjárfesta í "thermal solar" í dag (CSP) er eins og að fara í vindinn fyrir 10-15 árum. Sem hefur skilað mikilli ávöxtun. Vandinn er að flestir bestu bitarnir í CSP eru einkafyrirtæki, sem ekki eru á hlutabréfamarkaði. En nóg um það.
Boone Pickens er sem sagt nýbúinn að henda inn pöntun hjá GE um nærri 700 vindtúrbínur. Þær ætlar hann að nota til að reisa stærsta vindorkuver heims. Nánar tiltekið hljóðar samningurinn við General Electric upp á 667 túrbínur. Sem munu framleiða um eitt þúsund MW.

Þetta er reyndar bara byrjunin. Pickens ætlar sér að reisa alls 2.500 túrbínur, sem munu skila hátt í 4.000 MW og duga 1,3 milljón heimilum. Heildar fjárfestingin er áætluð 8-10 milljarðar USD. Fyrsti áfanginn mun rísa á árunum 2010-2011 í nágrenni við bæinn Pampa í norðurhluta Texas. Ekki langt frá búgarði Pickens, þar sem hann dundar sér við að skjóta einhvers konar villihænsni (nefnast Bobwhite Quail; má kannski kalla þetta fiðurfé Texas-rjúpu?).
En í reynd er Pickens ekki allur þar sem hann er séður. Málið er að það hangir fleira á spýtunni hjá þeim gamla olíuref en bara vindorka. Hann er einfaldlega að slá tvær flugur í einu höggi. Og þær flugur eru vindur annars vegar og vatn hins vegar. Ævintýrið byrjaði nefnilega fyrir nokkrum árum þegar Pickens hóf í stórum stíl að kaupa upp vatnsréttindi í Texas. Þarna mega landeigendur nefnilega selja vatnsréttindin frá jörðunum. Svo fékk Pickens þá hugmynd að bæta vindinum við og semja við landeigendurna um að reisa vindtúrbínur á landinu.

Margir hafa klórað sér í höfðinu yfir þeirri hugdettu Pickens að kaupa upp vatnsréttindi í Texas. Þar hefur jafnan verið gnótt vatns og ekki augljóst að sjá góðan bisness í því, að kaupa upp vatn í stórum stíl. Það er nefnilega svo að einhverjar mestu neðanjarðar-vatnsbirgðir í heimi er að finna undir miðríkjum Bandaríkjanna. Á svæði sem nær allt frá Texas í suðri og norður til Nebraska og Suður-Dakóta. Þetta er kallað Ogallala Aquifer. Og dregur nafn sitt af bænum Ogallala í Nebraska. Líklega væri bærinn sá, með sína 5 þúsund drottinssauði, ekki ýkja vel þekktur nema fyrir þetta nafn á vatnsbirgðunum miklu. Í mínum huga er þó toppurinn á Ogallala, bæjarmerkið. Sem er eitt það alflottasta (sjá hér að neðan).

En aftur að vatnsréttindunum og verðmæti þeirra. Sem fyrr er Pickens líklega framsýnni en flestir aðrir. Undanfarið hefur nefnilega farið að bera á vatnsskorti á nokkrum svæðum Bandaríkjanna. T.d. í Arizona, Nevada og í Georgíu. Og Pickens veit líka að gríðarlegri fólksfjölgun er spáð í Texas. Horfur eru á að íbúafjöldinn þar allt að tvöfaldist fram til 2020. Og fólkið í Dallas og Houston mun hugsanlega þurfa vatn!
![]() |
Ný vatnsleiðsla komin til Eyja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 4.7.2008 kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2008 | 09:07
Fjórði þríburinn

Var ekki einhvern tímann skrifuð bók, sem hér "Þriðji tvíburinn"? Hér kemur aftur á móti "Fjórði þríburinn"!
Þríburarnir sem hafa ýtt olíuverðinu upp á við, eru auðvitað í fyrsta lagi lágur dollar, í öðru lagi aukin eftirspurn (ekki síst frá Kína) og í þriðja lagi stress á markaðnum og spákaupmennska (vegna lækkandi hlutabréfaverðs).
En þessi þrenning er hreint smámál miðað við fjórða þríburann. Sem er hugsanleg sprengjuárás á Íran. Orkubloggið hefur áður imprað á því, að ef slík árás verður gerð, muni olíutunnan þjóta upp í a.m.k. 190 USD tunnan.

Auk þess að valda ofurspennu á markaðnum gæti slík árás haft mikil áhrif á siglangar olíuskipa um Persaflóa. Og ekki síst um Hormuz-sund. Sem sést a myndinni hér að ofan - en myndin sú er frá sjónarhorninu sem sýnt er hér til hliðar. Þetta er augljóslega varsöm siglingaleið fyrir stór olíuskip.
Fyrir um mánuði kom í ljós að Ísraelsher var á fullu með óvenjulegar flugæfingar. Menn rennur í grun að þær séu undirbúningur að því að sprengja upp kjarnorkurannsóknastöðvar Írana. Ísraelar eru þekktir fyrir að grípa til slíkra aðgerða, þegar þeir telja sér alvarlega ógnað. Og nú hefur Íransstjórn svarað; geri Ísrael árás muni Íran takmarka siglingar um Hormuz-sund.
Alsírmaðurinn Chakib Khelil, sem er forseti OPEC, var heldur ekkert að róa markaðinn um of. Því hann bætti því við þessi tíðindi, að OPEC myndi ekki hafa tök á að bæta í olíugrautinn ef framboðið frá Íran drægist snögglega saman. Það gæti þýtt 2 milljónum færri tunnur á dag á markaðinn eða samdrátt upp á 2,5%. Og það munar um minna.

En aftur að Hormuz. Þetta 20 sjómílna breiða sund er einhver mikilvægasta siglingaleið í heimi. Sundið tilheyrir landhelgi tveggja ríkja sitt hvoru megin; Oman og Íran. Á degi hverjum sigla olíuskip frá Persaflóa út úr sundinu með meira en 15 milljón tunnur af olíu. Það samsvarar um 20% af öllu olíuframboði í heiminum!
Í samræmi við alþjóðalög er öllum skipum heimilt að sigla þarna í gegn með friðsamlegum hætti. En í reynd er fátt friðsamlegt við Hormuz. Sundið er tilefni fyrir endalausum smáskærum og stundum alvarlegri atburða.

Eins og fyrir nákvæmlega 20 árum, þegar bandaríska herskipið Vincennes skaut þar niður íranska farþegaþotu með flugskeytum. Þotan var að skjótast yfir sundið til Dubai og líklega flestir um borð á leið í innkaupaferð.
Þessi hörmulegi atburður varð vegna þess að skipstjórinn á Vincennes, Will Rogers, var eitthvað nervös og hélt að Airbus þotan væri írönsk herflugvél að búast til árásar. Þarna fórust 290 farþegar og áhöfn þegar þotan sprakk í tætlur 14 þúsund fet yfir Hormuz-sundi. Um borð voru 60-70 börn. Rogers til varnar skal tekið fram, að fyrr um morguninn höfðu íranskir varðbátar skotið á þyrlu frá Vincennes innan landhelgi Íran. En reyndar var Rogers líka þekktur fyrir að vera aðgangsharðari en flestir aðrir skipstjórar bandarísku herskipanna á Persaflóa. Það er mislangt, eða kannski öllu heldur misstutt, í "Dr. Strangelove syndrómið".

Já - ekki er ólíklegt að bráðum ráðist ísraelskar herþotur á skotmörk í Íran. Og hver veit nema Hormuz lokist í einhvern tíma. Þá væri nú aldeilis fínt að eiga nokkra netta olíu-futures. NYMEX ku opna eftir fáeina klukkutíma. Eins dauði er annars brauð. Sem fyrr.
![]() |
Árás Ísraela á Íran yfirvofandi? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)