Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Zeppelin framtíðarinnar

Tískan fer sem kunnugt er í hringi. Og kannski tíminn líka. Nú er Zeppelínið komið aftur!

Þetta er, held ég, fyrsta færsla Orkubloggsins sem ekki er tengd við neina frétt. Vegna þess að Mogginn virðist hreinlega ekki hafa uppgötvað þessa snilld. Og ég get bara ekki á mér setið að bíða lengur með að segja frá þessari framtíðarsýn.

Skyhook_2

Málið er, að nú er sjálft Boeing búið að tilkynna að þeir muni taka þátt í SkyHook-verkefninu. Það eru talsverð tíðindi.

SkyHook er kanadískt fyrirtæki sem hyggst byggja stór loftskip, sem munu nýtast við stórflutninga á svæðum sem eru erfið yfirferðar og hafa ekki almennilega flugvelli. T.d. á olíusvæðunum norðarlega í Kanada. Burðargetan á að vera 36 tonn og loftskipin að geta flogið 200 sjómílur á einni og sömu eldsneytishleðslunni. Hraðinn verður um 70 hnútar. Þar sem íslendingar eru sjómannsþjóð þarf ég auðvitað ekkert að vera að breyta þessum stærðum yfir í km eða km/klkst. Allir hljóta að vita hvað sjómílan er löng og hvað hnúturinn er mikill hraði. Og hananú.

skyhook

Burðargeta SkyHook er sögð verða um tvöfalt meiri en rússnesku ofurþyrlunnar "Mil Mi 26". Þeir hjá Boeing telja að þetta sé mjög áhugaverður kostur og að loftfarið muni hugsanlega geta flýtt stórkostlega fyrir ýmsum framkvæmdum á heimskautasvæðunum. Horfur séu á að fyrir tilstilli SkyHook geti ýmsar framkvæmdir, sem hingað til hafa verið áætlaðar eftir 15-20 ár, byrjað mjög fljótlega

Slogan þeirra SkyHook-manna er: "Taking industry beyond the last mile". Geisp. En Orkublogginu verður auðvitað hugsað til möguleika á uppbyggingu CSP-virkjana í Sahara (CSP stendur fyrir Consentrated Solar Power). Þar gæti SkyHook hugsanlega komið við sögu - því eitthvað er samgöngukerfið fátæklegt á þeim slóðum. Rétt eins og í norðanverðu Kanada. Gaman að þessu. 

 Hér má sjá fréttatilkynningu Boeing um þetta skemmtilega verkefni:  http://www.boeing.com/news/releases/2008/q3/080708c_nr.html

Og heimasíða SkyHook:  http://www.skyhookintl.com/ 


Norsk Hydro i ölduróti

Í morgun birtust fréttir um að hagnaður Norsk Hydro á 2. ársfjórðungi sé minni en var á þeim fyrsta. Ekki veit ég hvort þetta segir í reynd mikið - a.m.k. væri nauðsynlegt að bera þessa tvo ársfjórðunga saman við reksturinn á síðasta ári. Það gæti þó reynst snúið, því í millitíðinni sameinaðist olíuvinnsla Norsk Hydro nefnilega Statoil og fyrirtækið er því mikið breytt frá því sem var fyrir ári.

einar_ben

Norsk Hydro á sér langa og merkilega sögu. Fyrirtækið er stofnað um það leyti sem Íslendingar fengu heimastjórn. Ég held því oft fram að mest alla 20. öld hafi efnahagsþróun á Íslandi verið ca. 20 árum á eftir Norðurlöndunum. Og hroðaleg einhæfnin í íslenskum atvinnuvegi endurspeglar þetta enn þann dag í dag. Það er einhver skelfileg íhaldsemi í íslenskri þjóðarsál. Hér var lítt hlustað á hugmyndir manna eins og Einars Ben og framsóknarmönnum tókst að drepa Korpúlfsstaðabúið hjá Thor Jensen. Og litlu mátti muna að Íslensk erfðagreining yrði úthrópuð sem eitthvert viðbjóðslegt tilraunafyrirtæki, sem hygðist nýta sér Íslendinga sem líftæknileg tilraunadýr - nánast í anda Mengele. A.m.k. var ofstæki margra gegn Kára Stefánssyni með ólíkindum.

En aftur að Norsk Hydro. Það var stofnað 1905 sem Norska vatnsafls- og niturfélagið. Eins og nafnið gefur til kynna snerist þetta um áburðarframleiðslu. Þar sem slík framleiðsla var orkufrek var starfsemin staðsett í Noregi, en fjármagnið var sænskt (kom frá Wallenbergunum). Byggðar voru virkjanir við fossana Svelg og Rjukan í S-Noregi. Rjukan-virkjunin var fullkláruð 1911 og þessi 60 MW virkjun var um árabil aflmesta virkjun í heimi. 

telemark_heroes

Talsverð dramatík hefur oft ríkt í kringum Norsk Hydro. Hápunkturinn er líklega þegar norska andspyrnuhreyfingin náði að sprengja upp þungavatnsverksmiðju fyrirtækisins við Rjukan. Allt frá 1934 hafði þar verið framleitt þungavatn, en ekki er mér kunnugt um í hvaða tilgangi. Hugsanlega hafa menn einfaldlega verið framsýnir og séð að þungavatn yrði senn verðmæt afurð.

Bandamenn höfðu talsverðar áhyggjur þegar Þjóðverjar hernámu Noreg og komust þar með yfir þungavatnsverksmiðjuna. Jukust þá mjög líkur á þvi að Þjóðverjar gætu útbúið kjarnorkusprengju. Svo vel vildi þó til að skömmu fyrir innrás Þjóðverja í Noreg höfðu allar þungavatns-birgðirnar verið fluttar þaðan til Frakklands og svo til Bretlands. Til að koma í veg fyrir að Þjóðverjar gætu framleitt þungavatn í verksmiðjunni reyndu Bretar árangurslaust að sprengja hana í loft upp frá flugvélum. Það gekk ekki. En þá komu norskar andspyrnuhetjur til skjalanna og tókst að eyðileggja framleiðsluna og eyða þungavatnsbirgðunum sem til voru. Þetta er hugsanlega eitthvert mikilvægasta skemmdarverkið í Síðari heimsstyrjöldinni. Til að sjá dramatíska útfærslu á þessum atburðum, má benda á bíómyndina "Hetjurnar frá Telemark" (Heroes of Telemark) með jaxlinum Kirk Douglas í aðalhlutverki.

En þó svo Norðmenn hafi sýnt mikinn styrk í baráttunni gegn nasistum, léku sumir þeirra tveimur skjöldum. Óneitanlega var Norsk Hydro lengi vel mjög lipurt í samstarfi við Þjóðerja. En hvað um það. Til að gera langa sögu stutta, þá varð Norsk Hydro siðar þátttakandi í olíuvinnslu víða um heim og einnig í álbræðslu. Sem fyrr segir hefur Statoil nú tekið yfir olíuvinnslu Hydro.

Norsk_Hydro_Logo

Í dag er norska ríkið stærsti hluthafinn með yfir 40% og Norsk Hydro er eitt stærsta álfyrirtæki heims (og gamla heitið er ekki lengur notað heldur er það nú einfaldlega kallað Hydro).

Grunnurinn að stofnun fyrirtækisins, þ.e. áburðarframleiðslan, var fyrir nokkrum árum tekin út úr Hydro og nefnist nú Yara International. Og er auðvitað eitt stærsta fyrirtæki heims i áburðarframleiðslu. Norska ríkið er með um 43% eignarhlut. Einkavæðingaræðið hefur nefnilega ekki alveg heltekið Norðmenn. Eins og suma aðra. Hvort það er gott eða slæmt er önnur saga.

Hydro er auðvitað enn stórtækt í rekstri vatnsaflsvirkjana. Og Orkubloggið kemst auðvitað ekki hjá því að nefna eitt nýjasta venture þeirra hjá Hydro - öldurótið! Það er fjárfesting í skoska fyrirtækinu Pelamis, sem er að þróa tækni til að framleiða rafmagn með virkjun á ölduafli í sjó.

Wave_pelamis

Fyrsta Pelamis virkjunin hefur þegar verið sett upp utan við strönd Portúgal. Hún framleiðir rúm 2 MW með þremur "rörum", þar sem orkunni frá öldunum er breytt í rafmagn. Hvert "rör" er um 120 metra langt, 3,5 metrar í þvermál og framleiðir um 750 KW (0,75 MW). Markmiðið er að virkjunin þarna við Portúgal verði alls 40 "rör" sem framleiði samtals um 25-30 MW. Virkjunin nefnist Aqucadora og er utan við bæinn Povoa de Varzim í N-Portúgal. Enn eitt forvitnilegt orkuverkefni!

Á meðan Norsararnir taka þátt í nánast öllum tegundum af orkuframleiðslu, eru Íslendingar enn að einblína á vatn og jarðvarma. Sem er auðvitað prýðis auðlind - en þetta segir samt sína sögu. Fyrir utan vandræðaganginn með REI og allt það... 


mbl.is Bréf Norsk Hydro lækka eftir afkomuviðvörun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamlet í stinningskalda?

Hamlet_Laertes

"Þarna er efinn". Nú eru rétt tæp tvö ár liðin frá því ég setti fætur niður hér í Danaveldi. Landinu flata þar sem sjaldan sjást sex vindstig. En hýsir eitt öflugasta vindorkufyrirtæki heims.

Fyrstu mánuðina gat maður gengið um sem stjarna, enda voru Íslendingar að gjörsigra danskt viðskiptalíf. Það sögðu a.m.k. íslenskir fjölmiðlar. Fór í Magasin og heilsaði kumpánlega upp á afgreiðslufólkið - af því maður átti jú sjoppuna. Næstum því. Hló að varúðarröddum Danske Bank. En gramdist þær einnig - Danske Bank minnti mann á það þegar Laertes hafði rangt við í skylmingunum við Hamlet og notaði korða með eitri á oddinum. Þetta gat ekki verið annað en einhver fjárans öfund i Danskinum.

Maður hló reyndar ekki bara að Danske Bank, heldur að dönskum fyrirtækjum almennt. Sem aldrei virðast þora að taka neina almennilega áhættu. Og sitja því eftir, meðan íslenskir víkingar hirða gullið. Þess vegna var súrt þegar hlutirnir byrjuðu allt í einu að fara niður á við heima a Klakanum. En nú er von um að Danir fái líka að kenna smávegis á kreppu. Fasteignamarkaðurinn hér er gjörsamlega frosinn og líkur á danskri bankakreppu hafa aukist umtalsvert.

Ég efast þó um að einhver efnahagslegur harmleikur verði hér í Danmörku. Almennt virðast flest stóru fyrirtækin hér standa nokkuð sterk og vera vel í stakk búin að mæta erfiðleikum. Reyndar er eitt við dansk atvinnulíf sem er afar athyglisvert og nánast einstakt í heiminum. Hér eru nefnilega mörg stærstu og öflugustu fyrirtækin að miklu leyti í eigu sjálfseignarstofnana.

lenin_red

Þetta hafa góðir kapítalistar kallað "fé án hirðis". Hagnaðurinn af rekstri þessara fyrirtækja rennur nefnilega ekki til einstaklinga eða hefðbundinna hluthafa. Heldur fer hann í að styrkja reksturinn enn frekar - eða að greiddur sé út arður til eignarhaldsfélagsins sem er sjálfseignarstofnun. Minnir sumpart á það hvernig Mál og menning var hér Den!

En úr því að enginn hagnast sjálfkrafa af hagnaðinum, ef svo má segja, mætti spyrja hvort fyrirtækin skorti ekki þann hvata sem nauðsynlegur er til að spjara sig í samkeppni nútímans? Hafandi t.d. í huga geggjunina sem almennt ríkir í kringum 3ja mánaða uppgjörin heima á Íslandi og víða um heim. Hvaðan kemur dræfið til að gera vel, hjá fyrirtæki sem eiginlega enginn á? 

Sjálfseignarstofnuninni er stýrt af stjórn, sem ráðstafar peningunum (útgreiddum arði) til ýmissa góðra verka. Oft eru þeir gefnir í ýmis konar menningarstarfsemi eða til að styrkja rannsóknir í t.d. heilbrigðisvísindum eða fara í að byggja upp skóla eða sjúkrastofnanir. Ýmist í heimabyggð eða jafnvel í þriðja heiminum.

hamlet-to_be

Þessir sjóðir eru gjarnan afsprengi mikilla eldhuga, sem stofnuðu og byggðu upp viðkomandi fyrirtæki. En í stað þess að láta börnin eða aðra erfingja taka við, settu stofnendurnir upp sjálfseignarsjóð sem skyldi eiga viðkomandi fyrirtæki.

Sum þessara fyrirtækja eru skráð hér á hlutabréfamarkaðnum. Önnur ekki. Skráðu fyrirtækin eru auðvitað ekki að öllu leyti í eigu sjálfseignastofnunar, heldur er þá einhver hluti bréfanna sem gengur kaupum og sölum. Aftur á móti hefur sjálfseignarstofnunin tögl og haldir um það hverjir mynda meirihluta í stjórn viðkomandi fyrirtækis og ráða því sem þau vilja um stefnumótun fyrirtækisins. Um leið er fyrirtækið nánast skothelt gegn fjandsamlegum yfirtökum - sem kann stundum að gera stjórnendurna afar værukæra. Rannsóknir hafa þó sýnt að fyrirtæki í eigu sjálfseignarstofnana eru almennt mjög vel rekin - oftast betur en hefðbundin hlutafélög. Þetta er einfaldlega stórmerkileg og eiginlega illskiljanlegt.

Þetta fyrirkomulag er svona álíka og ef meirihlutinn í Landsbankanum eða Eimskipafélaginu væri i eigu félags sem við getum kallað Thors-sjóðinn. Bara til að nota eitthvað nafn.

Bthor

Þessi Thors-sjóður væri ekki í eigu neinna - hvorki einstaklinga né fyrirtækja. Hann væri algerlega sjálfstæður og starfaði skv. stofnsamningi, þar sem m.a. væri kveðið á um tilgang hans og hlutverk (að styrkja góð málefni). Í sjóðstjórninni sætu þeir sem upphaflegur eigandi hlutabréfanna i áðurnefndum félögum ákvað í upphafi. Líklega einhverjir úr hópi afkomenda hans, þekktir einstaklingar úr atvinnulífinu, prófessorar, fólk úr menningarlífinu o.s.frv. Í tímans rás væru hugsanlega einhverjir af þeim látnir eða hefðu dregið sig í hlé. Í stað þeirri hefði sjóðsstjórnin ákveðið að bjóða öðrum setu í stjórninni, t.d. Björk eða Kára Stefáns. Eða þér, lesandi góður. Sjóðurinn væri og yrði máttarstólpi í íslensku samfélagi um ókomin ár, áratugi og aldir. Þannig virkar þetta hér í Danmörku.

Eldhuginn sem ákvað að stofna sjálfseignarstofnun um eign sína í félaginu hefur um leið tekið einhvern hluta af eigin fé félagsins, eða smáræði af hlutabréfunum, og látið afkomendur sína fá þau. Til að tryggja þeim þokkalega öruggan fjárhag. Auðvitað er misjafnt hversu mikill hluti fyrirtækisins hefur verið skráður á sjálfseignarstofnunina og hversu mikið afkomendurinir fá. En oft er það stærstur hlutinn, sem rennur til sjálfseignarstofnunarinnar.

Ástæður þess að þetta form er svo algengt hér í Danmörku eru óljósar. Þetta þekkist líka t.d. í Svíþjóð, Noregi og Þýskalandi, en er miklu algengara hér í Danmörku. Leitt hefur verið líkum að því að ástæðurnar séu einkum tvær (eða þrjár). Annars vegar óhagstæðar skattareglur þegar hlutafé fer á milli kynslóða. Hins vegar (og að það sé meginástæðan) að það sé afar sterkt í danskri þjóðarsál að auðmenn láti gott af sér leiða. Og það almennilega  - en ekki bara einhvern tittlingaskít til einhverrar mæðrastyrksnefndar eða álíka. Þriðja ástæðan fyrir þessu gæti svo einfaldlega verið að koma í veg fyrir að afkomendurnir sólundi auðnum og sigli öllu í strand. Eins og stundum vill gerast.

Carlsberg_bottle2

Dæmi um svona sjóði er t.d. Mærsk-sjóðurinn frá 1946 (fer með meiruhlutann í risafyrirtækinu AP Möller Mærsk), Carlsbergsjóðurinn (á 51% í Carlsberg), Danfoss-sjóðurinn (á 85% í Danfoss), Grundfos-sjóðurinn (á um 85% í Grundfos) og Novo-sjóðurinn (á 26% í Novo Nordisk en fer með 71% atkvæðanna).

Loks vill Orkubloggið nefna þann danska sjóð sem er einn sá alsterkasti en reynar fáir vita af. Enda er sá sjóður hvað mest low profile af þeim öllum hér í Danaveldi. Það er VKR-sjóðurinn, kenndur við stofnandann; prestsoninn Villum Kann Rasmussen frá hinni vindbörðu vesturströnd Jótlands. VKR á m.a. Velux gluggafyrirtækið og fjölmörg fyrirtæki um allan heim, ekki síst í fyrirtæki sem framleiða sólarsellur. Danir eru nefnilega bæði stórir leikendur á sviði vindorku og sólarorku.

En nú er eg orðinn þyrstur og held ég fái mér einn ískaldan Carlsberg. Ekki verra að vita, að hagnaðurinn af flöskunni fer minnstur í lúxusjeppa hjá einhverjum hluthöfum. Heldur miklu fremur í lyfjarannsóknir og vatnsból í Afríku. Skál fyrir því!


mbl.is Eitthvað er rotið í Danaveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kill'em all!

Bara drepa þessa 70 milljón Írani. Með sígarettum. Eða sprengjum. Þetta eru allt brjálaðir villimenn hvort sem er. Álítur John McCain. Sbr. fréttin sem þessi færsla er tengd við.

john_mccain

Þetta er auðvitaða afar ógeðfellt. Þeir - vonandi fáu - sem héldu að John McCain væri ekki fífl, ættu nú loksins að vita betur.

En Bandaríkin eru auðvitað engu að síður frábært land. Þó svo mikið af fólkinu sem þar býr virðist vera með nokkuð sérkennilegar skoðanir - svo ekki sé fastar að orði kveðið. T.d. þorðu fæstir þeirra sem slógust um að verða forsetaefni Repúblíkana að viðurkenna að þeir teldu þróunarkenninguna rétta. Því svoleiðis villutrúarmenn fá ekki mikið af Repúblíkana-atkvæðum.

Hef alltaf átt erfitt með að skilja þegar sumir ungir og prýðilega vel gefnir íslenskir stjórnmálamenn, oftast úr Sjálfstæðisflokknum, tala vel um menn eins og Bush eða Nixon, en býsnast yfir Gore og Clinton. Af því þeir virðast flokka Demókrata sem einhverja vinstri menn og þá hljóti Repúblíkanar að vera meira svona eins og Framsókn eða Sjallar. Þetta er barrrasta út i hött. Til allrar hamingju eiga nær allir íslenskir stjórnmálamenn það sameiginlegt að aðhyllast fremur hugsjónir Demókrata en Repúblíkana. Sumir eru bara af einhverjum undarlegum ástæðum pínu feimnir að viðurkenna það.

Bill Clinton Kennedy

En Bandaríkin eru auðvitað snilld. Hvar annars staðar gæti fátækur stráklingur eins og William Jefferson Blythe komist til æðstu metorða. Þar sem hans eigin verðleikar réðu úrslitum en hvorki ætterni, klíka né auður. Já - Bill Clinton var flottastur.

Hér á myndinni til hliðar sést hann ungur heilsa upp á Jack Kennedy, þáverandi forseta. Þetta var í Washington DC 24. júlí 1963. Sem kunnugt er var JFK myrtur suður í Dallas aðeins 4 mánuðum síðar.

Ég hef einu sinni komist í návígi við Clinton. Það var hér í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum mánuðum. Kallinn geislaði af sjarma, en var reyndar nokkuð bláþústaður í framan. Kannski hefur flugið farið illa í hann. En það er einhver strengur á milli okkar Clinton's. Enda eigum við sama afmælisdag. Næg ástæða til að vera skoðanabræður!

Gore, aftur a móti, hefur mér alltaf þótt vera óttalegur drumbur. En John Kerry var cool. Það var auðvitað afleitt að hann skyldi ekki ná að sigra Bush. Og til að slá botn i þessa sleggjudóma er rétt að nefna að mér líst afskaplega vel á Obama. Í honum ættu Bandaríkin að sjá góða framtíð.

Samt sem áður verð ég að viðurkenna að sumir Repúblíkanar snerta í mér taug. T.d. virkar Ron Paul alltaf afskaplega vel á mig, þegar ég sé viðtöl við hann. Það er eitthvað þægilega föðurlegt við kallinn.

Kucinich

Man að ég tók einhvern tímann á liðnu ári eitt af þessum "skoðanaprófum" á Netinu, sem segja manni hver sé minn maður. Þetta var þegar fjöldi manna var enn að berjast um forsetaútnefningarnar.

Niðurstaðan sem ég fékk var einhver gaur sem ég hafði aldrei heyrt nefndan áður - sá heitir Dennis Kucinich og situr i fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Demókrata. Og ekki nóg með að hann sé Demókrati, heldur mun hann hafa verið frjálslyndasti frambjóðandinn í forkosningunum. Á móti dauðarefsingum, vill leyfa fóstureyðingar, vill efla almannatryggingakerfið, vill leyfa stofnfrumurannsóknir o.s.frv. Einnig má nefna að Kucinich greiddi atkvæði gegn Patriot-lögunum alræmdu og hefur gagnrýnt aggressíva stefnu Bush gagnvart Íran. En þarna fékk ég sem sagt að vita hvers konar voðalegar liberal skoðanir ég aðhyllist. Sem ég verð víst að gangast við. 

Samt held ég að þarna hafi undirmeðvitundin tekið völdin - ég hafi í reynd verið búinn að sjá mynd af frú Elísabetu Kucinich, en bara ekki munað eftir því meðvitað. Og undirmeðvitundin stýrt skoðununum í "prófinu" í átt að Kucinich. Af augljósum ástæðum. Nemlig! Hún Eísabet mætti a.m.k. alveg verða forsetafrú mín vegna. Kannski gætum við beðið Dennis að taka við af Ólafi Ragnari. Fyrst hann náði ekki að verða forsetaefni Demókrata í US. Eða bara að Elísabet sjálf verði forseti hér. Það væri albest.

Best að hætta þessu rugli. Samt verð ég að setja hér inn uppáhalds auglýsinguna mína úr síðustu forkosningum. Þó svo Mike Huckabee hafi ekki fengið hátt skor á "forsetaprófinu" sem ég tók á Netinu, eru þeir Huckabee og Chuck Norris auðvitað lang skemmtilegastir. "My plan to secure the border? Two words: Chuck Norris". Svona á pólitík að vera:

 


mbl.is Íranar gagnrýna ummæli McCain
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaldir vindar... og hlýir

Alltaf gaman þegar fólk talar í kross. Nú riða stærstu fasteignalánafyrirtæki Bandaríkjanna til falls. Á sama tíma segir Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn að fjármálakreppan sé að verða búin: "Dominique Strauss-Kahn, hinn franski yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, IMF, segir mestan hluta fjármálakreppunnar vera liðinn hjá", segir á mbl.is.

buffett

Ósamræmið milli þessara tveggja frétta er auðvitað eftirtektarvert. En ég hygg að betra sé að taka mark á Warren Buffet fremur en einhverjum ruglukollum hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Buffet telur að kreppan sem nú er að skella á, eða öllu heldur er skollin á, verði dýpri og lengri en flestir halda. Kannski er Buffet á gamals aldri barrrrasta orðinn Bölmóður spámaður. Ég held samt að svo sé ekki - hann er bara raunsær og skynsamur reynslubolti.

En Buffet sér samt alltaf tækifæri. Það geri ég líka. Kannski ekki alveg þau sömu og hann. Vegna þess að ég er yngri - og á þess vegna efni á að taka áhættu. He, he. Það blása sem sagt ekki bara kaldir vindar um efnahagslífið, heldur líka hlýir.

Offshore_wind

Myndin hér til hliðar er lýsandi fyrir þau tækifæri sem ég hallast að. Risavindtúrbína sem mun rísa djúpt útí Norðursjónum og framleiða rafmagn án nokkurrar kolefnislosunar eða mengunar. (Já - ég notaði sömu mynd nýlega í annarri færslu, en myndin er bara svo skollið flott...). Takið sérstaklega eftir þyrlunni, sem sýnir vel stærðarhlutföllin.

Það eru einmitt þessar vindtúrbínur á hafi úti, sem kunna að gera vindaflið að raunverulegum og mjög jákvæðum valkosti. Þó svo góðir möguleikar felist í að byggja vindtúrbínur á landi, taka þær óneitanlega mikið pláss og mörgum þykir þær spilla útsýni og umhverfi. Ég get skilið að fólki þyki þær yfirþyrmandi - eins og sjá má í þessu áhugaverða myndbroti frá vesturhluta Texas, um "the Winds of Change":

 

Orkubloggið hefur áður sagt frá því hvernig evrópsku fyrirtækin Vestas og Siemens eru leiðandi í framleiðslu á vindtúrbínum sem settar eru niður í sjó. Stærstu vindorkuverin í sjó er að finna utan við strendur Danmerkur.

Bandarísk fyrirtæki standa einnig framarlega í byggingu á vindtúrbínum. Þar fer General Electric fremst í flokki. En þó svo Bandaríkin séu öflug í að virkja vindinn og Boone Pickens byrjaður á stærsta vindorkuveri heims í norðanverðu Texas, eru þau samt langt á eftir Evrópu í að nýta vindorkuna úti á sjó.

OffshoreWindFarmDanmark3

Þetta gæti hugsanlega breyst hratt á næstu árum. Hátt olíuverð (í bandaríkjadölum a.m.k.) er að kaffæra Bandaríkin og nú eru snögglega margir farnir að tala um að senn muni 20% rafmagnsframleiðslunnar í Bandaríkjunum koma frá vindorkuverum.

Samkvæmt glænýjum tölum frá bandaríska vindorkuiðnaðinum (American Wind Energy Association) var rafmagnsframleiðsla í Bandaríkjunum frá vindorku, i lok 1. ársfjórðungs 2008, samtals 18.300 MW eða 18,3 GW. Frá meira en 25 þúsund túrbínum. Aukningin þennan fyrsta ársfjórðung var 995 nýjar vindtúrbínur sem framleiða 1.479 MW (það jafngildir rúmlega tveimur Kárahnjúkavirkjunum - bara í vindi á þremur mánuðum). Þessar tölur sýna líka vel hvernig túrbínurnar fara stækkandi.

Í dag framleiða vindtúrbínurnar í Bandaríkjunum þó einungis um 1% af rafmagninu þarna fyrir vestan. En 20% markmiðið er ekki út í bláinn. Þetta hlutfall (20%) er svipað og rafmagnsframleiðslan frá vindorku er í dag í Danmörku.

Líklega var fyrsta alvöru áætlunin um stórt bandarískt vindorkuver úti sjó, Cape Wind verið utan við strendur Þorskhöfða. Orkubloggið hefur áður sagt frá því hvernig Kennedyarnir hafa barist gegn verinu og náð að tefja framkvæmdina í mörg ár. En nú eru skyndilega komin mörg önnur sjóvindorkuver á teikniborðið. Í a.m.k sjö fylkjum.

Wind_Crowded

Utan við strönd Delaware áætlar Bluewater Wind að reisa a.m.k. 450 MW vindorkuver með um 150 túrbínum. Aðeins norðar, í New Jersey, í New York fylki og í Massachusetts, er verið að skoða möguleika á a.m.k. sjö orkuverum, en stærð flestra þeirra liggur enn ekki fyrir (Cape Wind er er reyndar eitt þeirra). Blue H Group er eitt þessara fyrirtækja og er að hanna 92 MW ver sem mun rísa 10-15 sjómílur utan við ströndina. Radial Wind er annað fyrirtæki með stór plön. Hyggst reisa tæplega 2.000 MW ver með allt að 600 túrbínum útí Michigan vatni. 

En eru þessar áætlanir bara blautir draumar? Það held ég ekki. Bandarísku fyrirtækin hafa þegar séð hvað hægt hefur verið að gera í Evrópu. Sérstaklega eru þau hrifin af dönsku vindorkuverunum. Og stjórnvöld virðast vera með á nótunum. T.d hefur fylkisstjórnin í Texas þegar boðið út og selt leyfi til að virkja vindorku fyrir utan ströndina. Það er svo sannarlega kominn bullandi hiti í vindinn þarna fyrir vestan.


mbl.is IndyMac gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutabréfasjóðurinn Geysir

Geysir Green Energy er um margt nokkuð athyglisvert fyrirtæki. Er í reynd sjóður, sem fjárfestir í fyrirtækjum í jarðhitaverkefnum. Nýjustu fréttirnar af GGE eru auðvitað aðkoma Ólafs Jóhanns Ólafssonar að eigendahópnum. Og svo þessi frétt frá því í dag um verkefni dótturfyrirtækis GGE á Filippseyjum. 

Samkvæmt ársskýrslu fyrir 2007 eru eignir GGE eftirfarandi:

 

Geo_binary_power

Enex. GGE á um 73% í Enex. Og skv. heimasíðu Enex er það hið alræmda Reykjavík Energy Invest (REI) sem á afgang hlutabréfanna í Enex (fyrir utan 0,4% sem eru í eigu ýmissa verkfræðifyrirtækja).

Enex varð til árið 2001 þegar fyrirtækin Virkir hf. og Jarðhiti hf. sameinuðust. Það býr yfir mikilli reynslu af jarðhitaverkefnum og vinnur nú m.a. að stækkun á virkjun í Berlin í El Salvador um 8 MW og byggingu virkjunar skammt suður af Munchen í Þýskalandi, sem er áætluð 8-10 MW. Báðar þessar virkjanir eru á lághitasvæðum og byggja því á varmaskiptatækni (binary cycle).

 

Enex_Xianyang

Enex China. Þetta er verkefni sem felst i hönnun, byggingu og rekstri hitaveitu fyrir borgina Xianyang í Shaanxi-héraði í Kína. GGE á 33,3% í Enex China en eitthvað er málum blandið hver á afganginn. Væntanlega er það Orkuveita Reykjavíkur eða REI.

Verkefnið nefnist Shaanxi Green Energy Geothermal Development og á Enex China 49% í þessu fyrirtæki. Afgangurinn er í eigu Kínverja, m.a. risafyrirtækisins Sinopec. Nýlega birtist einmitt sú frétt að Sinopec væri 16. stærsta fyrirtæki heims skv. Forbes og hefur færst upp um eitt sæti síðan í fyrra. Tekjur þess síðasta ár jafngiltu um 160 milljörðum USD (en hagnaðurinn reyndar aðeins 4 milljarðar dollara sem er arfa slappt). Fullkláruð gæti hitaveitan þarna í Xianyang orðið sú stærsta í heimi. Sem kunnugt er ber hitaveitan í Reykjavík nú þann virðulega titil.

 

Blue Lagoon

Hitaveita Suðurnesja. Alls á GGE 32% hlut í HS. Það var í maí 2007 sem GGE keypti hlut ríkisins í HS; rúmlega 15% hlut fyrir um 7,6 milljarða króna. Tilboð GGE í hlut ríkisins var hið langhæsta.

Í júni sama ár leit út fyrir að GGE myndi hugsanlega eignast meirihluta í Hitaveitunni og eflaust hefur það verið markmið fyrirtækisins. En það gekk ekki eftir. Í júlí varð niðurstaðan sú að GGE eignaðist samtals 32% í HS. Þess má geta að HS á um þriðjung í Bláa lóninu.

 

 

Exorka. GGE á nú allt hlutafé í Exorku (þó svo annað segi á vef Exorku). Exorka sérhæfir sig í ráðgjöf vegna s.k. Kalina-tækni. Það er orkuframleiðsla á lághitasvæðum, þar sem hitinn er notaður til að sjóða blöndu af ammoníaki og vatni. Þessi tækni er kennd við uppfinningamanninn Alexander Kalina. Um þá tækni má t.d. lesa í færslunni "Þýskt Heklugos";  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/522282/

Time_Ortega

Núverandi verkefni Exorku munu vera hönnun og bygging 5 MW orkuvers í  Molasse í Þýskaland og aðstoð við að auka orkuframleiðslu jarðvarmavers í Nikaragúa. Gert er ráð fyrir að Kalina tæknin frá Exorku geti aukið framleiðni orkuversins um allt að 25%. Verið er í eigu kanadíska fyrirtækisins Polaris Geothermal, sem er nokkuð umfangsmikið í jarðhitaverkefnum í Rómösku Ameríku. 

Þess má geta að fyrir sléttum mánuði bárust fréttir af því að þing Nikaragúa hefði samþykkt nýja löggjöf, sem gerir jarðvarmaorku enn samkeppnishæfari í landinu en verið hefur fram til þessa. Skyldi Ólafur Jóhann vita af því? Einnig er vert að nefna, að nú er gamli byltingarmaðurinn Daníel Ortega, sem eitt sinn var álitinn einn af höfuðóvinum Bandaríkjanna, aftur orðinn forseti Nikaragúa. Og leggur metnað í að minnka útgjöld til olíukaupa og virkja jarðhitann í landinu. Með hjálp Íslendinga auðvitað.

 

Jardboranir_map

Jarðboranir. GGE keypti Jarðboranir í ágúst 2007 og um leið kom Atorka inn í eigendahóp GGE og varð einn stærsti hluthafinn. Við þetta breyttist GGE umtalsvert, enda var þá hlutafé aukið verulega. Einu sinni átti ég reyndar lítinn hlut í Jarðborunum. Því miður seldi ég hann löngu áður en Jarðboranir urðu að því gríðarstóra fyrirtæki, sem það er í dag. Hagnaðist nú samt prýðilega. Innan Jarðborana eru reyndar fjölmörg fyrirtæki, eins og Iceland Drilling UK, Iceland Drilling Azores, Hekla Energy í Hollandi og í Þýskalandi og Eurothermal í Ungverjalandi. Velta Jarðborana 2007 mun hafa verið um 5 milljarðar og hagnaðurinn 700 milljónir. Góður bissness þar á ferð.

 

Western_Geopower

Western Geopower: GGE keypti 18% í þessu kanadíska jarðhitafyrirtæki í júlí 2007. Og í mars s.l. jók félagið eignarhlut sinn í 25%. Ég hef fylgst með Western Geopower i þó nokkurn tíma. Lengst af hefur verið talsverð óvissa um gang fyrirtækisins, enda verkefni þess flest á byrjunarstigi og ekki útséð um árangurinn af borunum. Á allra síðustu vikum hafa komið vísbendingar um að þessi fjárfesting GGE muni fremur borga sig en að brenna upp. En þarna tóku menn talsvert mikla áhættu. Það var kannski í anda þeirrar stemningar sem ríkti fram eftir öllu árinu 2007.

Virkjanirnar tvær sem Western Geopower er að byggja í Bandaríkjunum munu vera áætlaðar samtals hátt í 130-140 MW. En þetta er langtímaverkefni.  WG er skráð á hlutabréfamarkaðnum í Toronto - síðast þegar ég gáði var gengið 0,35 en það sveiflast talsvert eins og penny-stocks sæmir. GGE kemur líka að öðru jarðvarmaverkefni í Bandaríkjunum. Þar er á ferð fyrirtæki sem kallast því stirðbusalega nafni Iceland America Energy og mun það reyndar vera skráð í eigu Enex. Ekki veit ég í hvaða verkefnum þetta síðastnefnda fyrirtæki er, en grunar að þau séu afar stutt a veg komin. 

 

Envent: Snemma árs 2007 munu REI og GGE hafa komið á fót á Filippseyjum fyrirtækinu Envent Holding í því skyni að rannsaka og þróa jarðvarmavirkjanir í landinu. Þetta er tvímælalaust strategía sem gæti borgað sig því óvíða er meiri virkjanlegan jarðhita að finna en einmitt á Filippseyjum. Reyndar gat ég ekki séð staf um þetta fyrirtæki í ársskýrslu GGE fyrir 2007. Það er svolítið skrýtið.

 

geothermal-regions

PNOC Energy Develpment Corporation. GGE mun hafa eignast smá hlut (0,4 %) í þessu gríðarstóra Filippseyska orkufyrirtæki í júní á síðasta ári. PNOC-EDC var stofnað 1976 og hefur átt stóran þátt í að gera Filippseyjar að næststærsta jarðhitalandi heims, á eftir Bandaríkjunum.

Alls framleiðir fyrirtækið um 1.150 MW með jarðhitavirkjunum sínum, sem eru um 60% af öllu jarðhitaafli Filippseyja, sem er um 1.900 MW. Til samanburðar framleiða Bandaríkin nú u.þ.b. 2.900 MW með jarðhita og á Íslandi eru nú líklega framleidd um 450 MW. Þá er heita vatnið auðvitað ótalið - hér er átt við rafmagnsframleiðslu. Heimsframleiðsla rafmagns með jarðhita mun nú vera um 9 þúsund MW og nálgast hratt 10 þúsund MW. Möguleikarnir í jarðhitanum eru gríðarlegir. Og GGE ætlar sér stóra hluti þar.


mbl.is Fengu rannsóknarleyfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíu-Drake

_Oil_end_Heinberg

Flest í viðskiptalífinu á sér upphaf og endi. Frétt Morgunblaðsins um að BP telji að olían verði búin eftir rétt rúm 40 ár er athyglisverð. Fréttin er auðvitað villandi - einungis er verið að tala um þekktar olíubirgðir. Til samanburðar má geta þess að 1980 var sambærileg tala 29 ár. M.ö.o. var þá vitað um olíubirgðir sem myndu líklega endast til 2009. Í dag er búið að brenna 80% af öllum þessum þekktum birgðum frá árinu 1980. En það er líka búið að finna miklu meira af olíu. Þannig að þrátt fyrir notkunina eru þekktar olíubirgðir í dag 70% meiri en voru 1980.

Kannski verður olían búin 2050. Ég myndi þó fremur veðja á að 2050 verði til birgðir sem endist til a.m.k. næstu aldamóta. Mest af þeim mun líklega finnast á Norðurslóðum, í efnahagslögsögu Rússlands, Noregs, Kanada og Grænlands. Ef framleiðsla Sádanna hefur toppað nú þegar, er hugsanlegt að eftir svona 20-30 ár fari að draga úr þýðingu olíunnar frá OPEC. En allt eru þetta auðvitað getgátur.

drake

Annars er ástæða til að velta aðeins fyrir sér upphafi olíuvinnslu. Hana má rekja til Bandarikjamannsins Edwin Drake (1819-1880).

Um miðja 19. öld var orðið þekkt að olía gæti nýst sem eldsneyti á lampa. Eldsneytið nefndist kerosene (steinolía) og hafði áður verið unnið úr kolum. En nú höfðu menn fundið hagkvæma leið til að vinna þetta eldsneyti úr olíu. Og þar með varð olían að verðmæti.

Sumstaðar seitlaði olía upp úr jörðinni og þar var henni stundum safnað saman. Aftur á móti veltu framsýnir menn fyrir sér hvort ekki mætti ná olíunni upp í meira mæli, þar sem hún bersýnilega leyndist í eða undir jarðveginum. Slík vinnsla myndi mögulega skila verulegum arði, enda gæti olían að miklu leyti leyst hvallýsi af hólmi sem lampaeldsneyti. Borholur þekktust en þær fylltust jafnan aftur. Það var Drake sem byrjaði á því að setja pipur í borholurnar. Og sú aðferð er í raun enn grundvöllurinn í nútíma olíuborunum.

Seneca olíufélagið réð Drake og sendi til bæjarins Titusville i Pennsylvaníu til að reyna að finna olíu. Veturinn 1858-59 reyndi Drake hvaða hann gat að bora eftir olíunni og fóru bæjarbúar að kalla hann "brjálaða Drake". Þar sem boranirnar gengu brösuglega skrúfaði Seneca fyrir fjármagn til Drake. Þá hafði hann fengið sem í dag samsvarar rúmum 40 þúsund USD.

Drake_Titusville

Drake hélt þó ótrauður áfram sumarið 1859 ásamt nýjum aðstoðarmanni sínum, William H. Smith. Þeir Billy Smith byggðu borhús úr timbri og hugkvæmdist að setja rör í borholuna til að hún félli ekki saman. Og þann 28. ágúst 1859 fundu þeir félagarnir olíu á um 25 metra dýpi. Einfalt mál var að dæla olíunni upp og gaf holan um 20 tunnur á dag. Þar með hófst mikið olíuævintýri í Titusville og nágrenni. Sem stendur yfir enn þann dag í dag um allan heim.

Myndin hér til hliðar sýnir þá Drake og Billy Smith við fyrsta olíubrunninn í Titusville. Drake hefði líklega átt að verða ríkasti maður Bandaríkjanna. En hann kunni lítið á viðskipti og skráði aldrei einkaleyfi að olíubornum. Það þurfti annan mann til að gera sér alminnilegan pening úr bandarískri olíu. Sá nefndist John D. Rockefeller. Og um hann má lesa í færslunni "Ljóti kallinn";  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/576949/ 

 Já - sumir högnuðust gríðarlega á olíunni strax i árdaga olíuvinnslu. Drake aftur a móti tapaði öllu sparifé sínu á sveiflukenndum hlutabréfamarkaðnum. En Pennsylvanía varð fyrsta olíufylkið og 1873 ákvað fylkisstjórnin að styrkja Drake árlega um nokkra upphæð. Sem fyrr segir lést hann sjö árum síðar; 1880.

LukkuLaki_Titusville

Svo skemmtilega vill til að upprunaleg ástæða fyrir olíuáhuga Orkubloggsins má etv. rekja til Drake og fyrstu olívinnslunnar.

Þegar ég var 9 ára gutti eignaðist ég nefnilega fyrstu Lukku-Láka bókina mína. Ég var þá nýfluttur til Danmerkur, hvar fjölskyldan bjó næsta árið. Þetta var í agúst 1975. Og útí "kiosken" rak ég augun í spennandi teiknimyndasögu. Mamma lét undan rellinu og þar með eignaðist ég "I boretårnets skygge". Þar sem segir frá ævintýrum Lucky Luke, eins og hann kallast í dönsku útgáfunni, með Drake ofursta og Billy Smith í bænum Titusville vestur i Ameríku. Bókina leit ég nánast á sem helgan grip - svo óskaplega skemmtileg fannst mér hún vera. Þetta var upphafið að nokkuð löngu og góðu sambandi mín og Lukku Láka. Og mín og olíunnar. En ennþá hef ég ekki hugmynd um af hverju Edwin Drake er jafnan titlaður ofursti eða "colonel". Kannki var hann bara svona valdsmannslegur.


mbl.is Olíubirgðirnar duga í 41 ár að mati BP
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Zagros og svart gull Persa

iran-world-gas-reserves

Eins og stundum áður hefur Moggavefurinn lent í einhverjum þýðingarerfiðleikum. Fréttin um að Total hafi lagt á hilluna áform um olíuvinnslu í Íran er helst til ónákvæm. Því í reynd var um að ræða hugsanlega gasvinnslu, sem er auðvitað allt önnur ella en olían. Íran hefur yfir að ráða einhverjum mestu gasauðlindum í heimi. Einungis Rússar búa yfir meira gasi.

Mogginn ruglar sem sagt saman gasi og olíu. En reyndar er stundum sagt, að ekki sé munur á kúk og skít. Þannig að við hljótum að fyrirgefa Moggamönnum þetta smáræði. 

iran-world-Oil-Reserves

Víkjum frá gasinu. En stöldrum aðeins við olíubirgðirnar í Íran. Þær eru taldar vera hinar 3ju mestu í heiminum. Einungis Sádarnir og Kanadamenn búa yfir meiri birgðum. Og í kanadísku tölunum eru vel að merkja innifaldar olíuauðlindir þeirra sem er að finna í s.k. olíusandi. Sem enn er ekki farið að vinna í miklum mæli. Í dag er Íran einnig þriðji stærsti olíuframleiðandi heimsins (á eftir Saudi Arabíu, Rússlandi og Bandaríkjunum). Og það þrátt fyrir erfiðleika við uppbyggingu olíuiðnaðarins vegna lítils áhuga margra vestrænna olíufyrirtækja að koma inní þetta áhættusama land. Og Íran er fjórði stærsti olíuútflytjandinn (á eftir Saudi Arabíu, Rússlandi og Noregi). Þannig að segja má með réttu, að Íran sé eitt almikilvægasta olíuríki veraldar.

Zagros-mts-map

Mestur hluti af hinum gríðarlegu olíulindum Írana er að finna við rætur mikils fjallgarðar, sem kallast Zagros. Nafn sem hlýtur að vekja ævintýraþrá í hjörtum margra. Þessi gríðarlegi fjallgarður teygir sig allt frá Hormuz-sundi í suðri og 1.500 km norður eftir Persaflóa og meðfram landamærum Írans og Írak. Og reyndar allt norður til landamæra Tyrklands og Armeníu.

Hæstu tindarnir eru vel á fimmta þúsund metra (sá hæsti er rúmlega 4.500 m). Við rætur fjallanna, þar sem olíuna er að finna, byrjuðu menn að stunda landbúnað fyrir allt að 11 þúsund árum síðan. Þetta svæði er því svo sannarlega hluti af vöggu mannkyns.

Zagros_nature

Já - menning þekkist reyndar utan við ástkæran Klakann. Og það er víðar fallegt en í Skaftafelli. Örugglega gaman að tjalda sumstaðar við rætur Zagros.


mbl.is Hætta við olíuvinnslu í Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markaðstorg orkunnar

Alltaf gaman að eignast skoðanabræður. Sá nýjasti virðist vera Ólafur Jóhann Ólafsson. Sem segir í Viðskiptablaðinu í dag: "Ég er ósammála því að umherfisvæn orka sé bóla.". Þetta er auðvitað hárrétt - það hefur enn ekki myndast bóla í renewables. En mig grunar þó, að hlutabréf í þessum geira muni hækka mikið á allra næstu árum. Þá kann að myndast bóla í þessum bransa - og þá verður gott að hafa komið tiltölulega snemma inn í geirann! Og nú er Ólafur Jóhann kominn i hluthafahóp Geysi Green Energy.

Að vísu er varla lengur neitt sérstaklega frumlegt að fjárfesta i endurnýjanlegri orku. Í fyrradag sagði Orkubloggið frá ómældum framtíðarmöguleikum vindorku á hafi úti (sbr. færslan "Dularfullu markaðslögmálin"). Svo virðist sem þeir hjá ofurfjárfestingasjóðnum Blackstone hafi rekið haukfrá augu sín í þetta blogg. Því í dag birtist orðrómur um að Blackstone hyggist setja einn milljarð evra í vindtúrbínuver utan við strönd Þýskalands. Þessu verður að sjálfsögðu gerð nánari skil fljótlega hér á Orkublogginu.

Olafur_Johann

Reyndar virðist fjárfesting Ólafs Jóhanns í Geysi Green Energy hafa verið nokkuð erfið fæðing. Man vel eftir fréttum frá því i fyrrahaust um að viðræður Ólafs Jóhanns og Goldman Sachs um að kaupa 8,5% í GGE væru "á lokastigi". Nú 10 mánuðum síðar er Goldman Sacks dottin úr skaftinu. Og nýju fjárfestarnir með samtals 6,5%.

En þetta hljóta að teljast góðar fréttir fyrir hluthafa GGE. Ólafur Jóhann er tvímælalaust langfremsti og reyndasti íslenski stjórnandinn og með gríðarleg sambönd í bandarísku viðskiptalífi.

Í sjálfu sér virðist GGE vera lítið annað en hlutabréfasjóður, sem fjárfestir i fyrirtækjum á sviði endurnýjanlegrar orku. Það er af nógum slíkum sjóðum að taka, ekki síst vestur í Bandaríkjunum. En af einhverjum ástæðum sér Ólafur Jóhann góð tækifæri í hlutabréfasafni GGE.

GGE-logo

Kannski hefur liðkað fyrir samningunum að þessi penny-stocks, sem GGE á i Western Geopower, eiga hugsanlega framtíð fyrir sér. Í maí s.l. komu nefnilega loks jákvæðar fréttir frá Western Geopower. Þess efnis að Northern California Power Agency hafi samið við Western Geopower um orkukaup næstu 20 árin. Samningurinn ku hljóða upp á 520 milljónir USD. GGE er sagður eiga 25% hlut í Western Geopower.

Reyndar er Western Geopower skráð á hlutabréfamarkaðnum í Toronto i Kanada. Þannig að Ólafi Jóhanni hefði verið í lófa lagið að eignast í því félagi með hlutbréfakaupum þar á markaðnum. Maður hlýtur því að álykta, að hann sé fyrst og fremst að horfa til eignarhluta GGE í íslensku félögunum. Sem mun vera allt hlutafé í Jarðborunum, 2/3 í Exorku, 73% í Enex og 1/3 í Enex China. Svo er jú GGE einn af eigendum Hitaveitu Suðurnesja, með 32%. Þarna liggja ýmis tækifæri.

Held ég muni fyrst eftir Ólafi Jóhanni þegar Guðni rektor í MR útvegaði honum frægan skólastyrk við Brandeis University. Og þar nam Ólafur eðlisfræði. Auðvitað voru það hæfileikar hans sjálfs sem útveguðu honum styrkinn. En Guðni hafði ákveðin sambönd inní Brandeis.

Ólafi var lýst sem "absolutely brilliant" af einum fremsta prófessor Brandeis; Stephan Berko. Sem hljómar bara nokkuð vel. Og það hlýtur að hafa verið mjög áhugavert að kynnast Berko - hann lenti sem bráðungur maður í fangabúðum nasista og varð síðar þekktur eðlisfræðingur í Bandaríkjunum.

Svo var Ólafur fljótlega kominn til Sony og stjarna hans reis hratt. Ástæða þess að hann fór til Sony, mun hafa verið sú að Berko reyndi allt hvað hann gat að fá Ólaf í doktorsnám við eðlisfræðideildina. Þegar það gekk ekki benti Berko gömlum nemanda sínum, Michael Schulhof, á þennan bráðefnilega dreng. Schulhof var þá forstjóri Sony í Bandaríkjunum og réð Ólaf med det samme.

Maður hafði auðvitað lesið helstu bækur pabba hans, Ólafs Jóhanns Sigurðssonar. Og las líka fyrstu bók Ólafs Jóhanns jr. af áfergju. Sú nefndist "Markaðstorg guðanna" og var hálfgerð glæpasaga. Ágætlega heppnuð fannst mér. En ég náði aldrei almennilega sambandi við þær skáldsögur hans sem á eftir komu.

time_warner_logo

Ólafur Jóhann varð síðar einn af þýðingarmestu stjórnendum Time-Warner samsteypunnar. Þar mun hann til að mynda vera yfir stefnumótun þessa risa fyrirtækis og ábyrgur fyrir yfirtökum og kaupum Time-Warner á öðrum fyrirtækjum. Áhrif hans og völd í bandaríska fjölmiðlaheiminum eru því bersýnilega mikil og er þá vægt til orða tekið.

Einhvern veginn var sem Íslendingar og íslenskir fjölmiðlar föttuðu ekki hversu miklum frama Ólafur Jóhann náði í bandarísku viðskiptalífi. T.d. miðað við endalausan eltingaleik fjölmiðla við ævintýri Jóns Ásgeirs í Bretlandi. Þarna hefur sennilega miklu skipt hógværð Ólafs Jóhanns og hversu ógjarn hann var á að trana sér fram. Enda fór stór hluti þjóðarinnar fljótlega að líta á hann sem rithöfund fremur en kaupsýslumann. En mér þykir sérstaklega gaman að sjá Ólaf Jóhann fara út úr Árvakri og setja stefnuna á græna orkugeirann. Því þar er aðal-bisness framtíðarinnar. 


mbl.is Verkefni GGE munu verða færri og stærri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svaðilför í Surtsey

Surtsey er tvímælalaust einhver magnaðasti staður sem ég hef nokkru sinni komið til. Hef ég þó farið all víða. Heimsóknin í Surtsey var sannkölluð ævintýraferð og ég held ég hafi sjaldan orðið fyrir jafn sterkri upplifun frá náttúrunni. 

Þetta mun hafa verið sumarið 2002. Eftir að hafa fengið tilskilið leyfi Surtseyjarnefndar þáverandi, var brunað eldsnemma morguns á Land Rovernum austur að Bakkaflugvelli og skotist þaðan til Vestmannaeyja.

surtsey_loftmynd

Dagana næst á undan hafði maður fylgst spenntur með veðurspánni enda nánast útilokað að breyta áætlaðri dagsetningu fyrir ferðina. Búið að panta flugið og bóka bátinn. Og þvílík lukka. Upp rann þessi gullfallegi ágústdagur. Allt stóð eins og stafur á bók og fljótlega vorum við komin um borð í litla trillu í Vestmannaeyjahöfn, sem við höfðum leigt til fararinnar.

Mig minnir að frá Eyjum til Surtseyjar hafi verið 2ja tíma stím. Þetta var sannkölluð skemmtisigling í blíðskaparveðri. Við vorum þrjú saman; ég, Þórdís konan mín, sem þá gaf út Icelandic Geographic, og Daníel Bergmann, ljósmyndari. Tilefni ferðarinnar var raunar að Dan Hayes, hinn öflugi ritstjóri ferðatímaritsins frábæra CNN Traveller, hafði beðið Þórdísi að fara til Surtseyjar og skrifa grein um eyjuna í CNN Traveller. Daníel sá um myndatökuna og ég fékk að fljóta með. Grein þessi birtist svo í tímaritinu snemma árs 2003.

KetillSurtsey

Að stíga á land i Surtsey fyllti mann einhverri jómfrúartilfinningu. "First man on Mars kind of thing". Við rerum frá trillunni á litlum gúmmíbát og aldan fleygði okkur í sjóbarið stórgrýtið. Aldrei hefði maður trúað því að hnullungar gætu orðnir svo hnöttóttir og sæbarðir á rétt um 40 árum, eins og grjótið á strönd Surtseyjar.

Það var mögnuð tilfinning að standa hressandi sjóblautur þarna á rifinu og njóta ægifagurs umhverfisins. Uppaf fjörugrjótinu var ofurlítið sléttlendi með nokkrum þrjóskum plöntum í biksvörtum sandinum og svo tók við brött brekkan upp á toppinn, 170 metrum ofar.

Daníel lagði beint á brekkuna í átt að toppnum. En það var bersýnilega nokkuð torfær leið svo við Þórdís gengum þess í stað meðfram brekkunni, til suðurs. Eftir smá stund birtist hraunið upp úr sandinum og þar lúrir lítill kofi, sem Surtseyjarfélagið nýtir sem sæluhús. Eftir hressandi hádegisverð; flatkökur með hangikjöti, rúgbrauð og kókómjólk, var stefnan tekin á toppinn.

Surtsey_lora

Þarna á leiðinni upp var gott útsýni að suður- og suðvesturströnd eyjarinnar og við blasti græn vin í svartri auðninni. Þar mun mávurinn verpa og gúanóið var fljótt að skapa áburð og festu fyrir gróður. Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar. Hún og næstu tvær myndir fyrir neðan voru allar teknar af Daníel Bergmann í umræddri ferð. Um verk Daníels má sjá meira hér:  www.danielbergmann.com/

Nú var gengið upp nokkrar aflíðandi brekkur klæddar grófu hrauni og svo tók slétt móbergið við. Það var nokkuð bratt og sumstaðar stigu gufur upp um litlar sprungur í berginu. Þegar maður setti hendi við var hitinn þó ekki mikill.  

Surtsey5

Frá sjálfum toppi Surtseyjar er stórbrotið útsýni í allar áttir. Upplagður staður fyrir kaffipásu. Í norðri blasa Vestmannaeyjar við í allri sinni dýrð. Og þegar rýnt var í heiðan himinn til suðurs taldi ég mig geta grillt í Grænhöfðaeyjar... eða var það sjálft Suðurskautið? En að öllu gamni slepptu var þetta einhver sú fegursta sjón sem náttúran getur veitt.

Auðvitað klöngraðist ég líka upp vesturbrekkuna. Þar tekur við þverhnípt standberg beint niður í öldurótið. Maður fékk léttan fiðring í magann við að horfa þar niður í ægikraft Atlantshafsins.

Surtsey_solskr-1

Í eyjunni er talsvert fuglalíf og auðvitað mest sjófuglar. En við rákumst líka á syngjandi glaða sólskríkju, sem naut sín vel í góða veðrinu. Maður hafði reyndar gert ráð fyrir nokkrum kalsa þarna djúpt suður í sjó. Og þurfti því að burðast með peysur og úlpur, bullsveittur í hitanum. Ég hafði svo sannarlega ekki átt von á blankalogni og hita í Surtsey!

Meðan við dvöldum í eynni dólaði Hjálmar skipstjóri á bátnum í kring. Svo birtist líka falleg skúta, sem virtist koma úr átt Færeyja og stefndi bersýnilega til Vestmannaeyja. En þegar við snerum til baka til skips reyndist það nokkuð snúið, enda aldan talsvert meiri en um morguninn. Allt tókst þetta þó farsællega og áttum við frábæra heimferð. Hjálmar sigldi m.a. með okkur að eyjum sunnan við Heimaey með þvílíku súlugeri að ég hef aldrei upplifað annað eins. Hreint tignarleg sjón að sjá þær þekja himininn fyrir ofan okkur.

Ég er stundum spurður að því hver sé uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi. Þá svara ég jafnan Skaftafell. Því þangað get ég endalaust komið og veit að sá sem spyr mun einnig njóta þess. En með sjálfum mér hugsa ég "Surtsey". Hún er algerlega einstakur staður hér á jörð.

SurtseyTinni

Auðvitað fór Tinni til annarrar Surtseyjar. Ég gat bara ekki stillt mig um að nota myndina.


mbl.is Surtsey á heimsminjaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband