Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Ný heimsmynd

Bandaríkin standa frammi fyrir miklum vanda. Bush hefur sjálfur orðað þetta vel: "We are addicted to oil". Í forsetatíð hans hafa olíufyrirtækin notið mikils velvilja. Á meðan hafa fyrirtæki í óhefðbundnari orku þurft að sætta sig við mjög óreglulegan lagaramma, sem hefur spornað gegn fjárfestingum í t.d. sólarorkuverum.

Svæðið allt frá Texas og vestur eftir til Kaliforníu hentar mjög vel fyrir stór sólarorkuver. Því væri lógískt að sólarorkufyrirtæki í Bandaríkjunum byggju við hagstætt skattaumhverfi, til að hvetja til fjárfestinga í greininni. En repúblíkanar hafa staðið gegn því og einblínt á að styrkja olíuiðnaðinn.

Orkubloggið hefur all oft bent á gagnrýni Boone Pickens á bandarísk stjórnvöld. Þessi gamli olíurefur og gallharði repúblíkani hefur verið óþreytandi að benda á nauðsyn þess að Bandaríkin fjárfesti í vind- og sólarorku. Og stórefli kjarnorkuiðnaðinn.

Hirsch

Annar náungi (að vísu ekki jafn skemmtilega litríkur karakter og Pickens) talar á svipuðum nótum. Sá er Bob Hirsch, sem hefur verið álitsgjafi fyrir bandarísk stjórnvöld í orkumálum og stýrði m.a. umtalaðri skýrslu um þessi mál. Skýrslan sú var birt 2005 og kallast Hirsch-report. Það er ekki gæfuleg lesning fyrir Ameríku.

Og Robert Hirsch hefur jafnvel orðið enn svartsýnni á allra síðustu misserum. Nú er hann farinn að spá því að olíutunnan geti farið í 500 USD innan 3-5 ára. Það ótrúlega er að Hirsch verður vart flokkaður meðal hefðbundinna dómsdagsspámanna. Hann er maður með talsvert mikla vigt og þekkingu á málinu. Og setur sjónarmið sín fram með skýrum og einföldum hætti. Hér er eitt af viðtölunum við Hirsch:

 

Ekki er þar með sagt að Orkubloggið sé að öllu leyti sammála Bob Hirsch. En hann er góður "talsmaður" fyrir þá sem telja olíu-futures góða fjárfestingu.

Og hér er annað nýlegt viðtal við Hirsch. Hvar hann bendir m.a. á að það taki einn til tvo áratugi að finna lausnir á vandanum og það verði að bregðast við strax. Takið eftir lokaorðunum hjá Hirsch, þegar fréttakonan sáir fræum efa um að Hirsch hafi rétt fyrir sér:

 

Hér má sjá samantekt eða útdrátt úr skýrslu Hirsch's og félaga, sem unnin var fyrir bandaríska orkumálaráðuneytið:

http://www.acus.org/docs/051007-Hirsch_World_Oil_Production.pdf 

 


mbl.is Obama vill aukaskatt á olíufélög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sápukúlur í eyðimörkinni

Ali al-Naimi_8

Fundurinn í Jeddha fólst í því að Sádarnir blésu upp stóra og flotta sápukúlu. Sápukúlu sem fjölmiðlatuskurnar gleypa gagnrýnislaust, þrátt fyrir óbragðið. Sápukúlu sem mun springa beint í augun á Vesturlöndum. Og þá getur svíðið bæði fljótt og mikið!

Já - er ekki nánast skylda að færsla dagsins fjalli um olíufundinn stóra í Jeddah, sem haldinn var  um helgina? Það eru margar skemmtilegar fréttir í dag um þennan fund. Td. á Visir.is: "Sádí Arabía og fleiri OPEC ríki ætla að auka olíuframleiðslu til að mæta eftirspurn... Sádí Arabía mun auka framleiðslu um 9,7 milljónir tunnur á dag í júlí. 

Þetta er pínu vandræðaleg frétt hjá Vísi. Ef Sádarnir myndu ætla að auka framleiðsluna um 9,7 milljón tunnur á dag væri það nett 105% aukning! En Vísismenn hafa líklega lent í vandræðum með að þýða fréttaskeytið. Og það sem er kannski enn vandræðalegra, er að í annarri frétt á visir.is um fundinn í Jeddah er sama vitleysan aftur: "Sádí Arabar lýstu því yfir fyrir skömmu að þeir hefðu áhyggjur af þróuninni og því ákveðið að auka framleiðslu sína um níu komma sjö milljón tunnur á dag".

Hið sanna  í málinu er eilítið öðruvísi. Sádarnir ætla nú hugsanlega að auka framleiðsluna pínu pons. Kannski svona 200-300.000 tunnur. Og þar með framleiða samtals 9,7 milljón tunnur daglega. Það er EF þeir sannfærast um að framboðið sé ekki að anna eftirspurn. Allt mjög loðið.

Sjálfir segja þeir verðhækkanirnar fyrst og fremst að rekja til spákaupmennsku. Framboðið anni í reynd eftirspurninni. Og ef þeir trúa þessu sjálfir, sem þeir eru að segja, er eðlilega ekki spennandi í þeirra augum að dæla pening í ný olíusvæði og hugsanlega valda offramboði.

En hættum þessum hártogunum og fýlupokastælum. Og spáum í staðinn aðeins i það hvaða framleiðslumarkmið Sádarnir hafa - og hvað þeir hugsanlega munu geta framleitt. Flestir æðstu prestar í olíubransanum telja, að ef Sádarnir setja allt á fullt i olíuiðnaðinum hjá sér, geti þeir mögulega aukið framleiðsluna um allt að 1 milljón tunnur á frekar skömmum tíma. Svona max 11 milljón tunnur eða svo. En það er líka alkunna að framleiðslumarkmið Saudi Arabíu eru 12 milljón tunnur á dag, ekki síðar en á næsta ári (2009). Það þarf sem sagt mikið meiri pening í olíuiðnaðinn til að geta náð framleiðslumarkmiði næsta árs.

Ali al-Naimi_6

Stóru tíðindin af fundi helgarinnar eru þau, að nú er farið að tala um að Sádarnir hyggist setja stefnuna á allt að 12,5 milljón tunnur fyrir árslok 2009. Og hyggist fara af stað með stórfelldar nýjar fjárfestingar, sem muni skila heildarframleiðslu upp á allt að 13-15 milljón tunnur daglega innan tíu ára.

En þetta er ennþá bara orðrómur á markaðnum. Í annan stað, eins og Jón Baldvin sagði gjarnan og tók um löngutöng, er allsendis óvíst að Sádarnir geti fundið svo mikla olíu í víðbót. Í þriðja lagi eykst olíunotkunin a.m.k. um 800.000 tunnur pr. dag á ári hverju og jafnvel allt að tvöfalt meira en það þegar efnahagsvöxturinn er á góðu blússi.

Þetta þýðir einfaldlega að innan 10 ára þarf olíuframleiðslan að hafa aukist í a.m.k. 94 milljón tunnur pr. dag (úr núverandi 86 milljón tunnum). Þetta er miðað við lægstu spár! Sem er 1% aukning á ári. Ég myndi frekar veðja á að veruleikinn þýði að olíunotkunin aukist að meðaltali um ekki minna en 1,5% á ári næsta áratuginn.

Ali al-Naimi_9

M.ö.o. - eins og sagði hér í upphafi: Fundurinn í Jeddha fólst í því að Sádarnir blésu upp stóra og flotta sápukúlu. Sápukúlu sem fjölmiðlarnir gleypa þrátt fyrir óbragðið. Sápukúlu sem springur beint í augun á Vesturlöndum.

Ekki furða þótt olíumálaráðherra Sádanna, vinur minn hann Ali al-Naimi, klóri sér svolítið í höfðinu yfir þvi hvað það er auðvelt að leika sér með Vesturlönd. Og brosi svo út að eyrum. Alltaf flottur.

En nú er leikurinn byrjaður. Áfram Spánn!

------------ 

PS: Sweet. Nú eru Spanjólarnir glaðir. Loksins tókst þeim að vinna Ítali í alvöru leik. Ljótt af þeim að leggja þessa spennu á mann! Vítaspyrnukeppnir eru eitt það versta sem til er. Fyrir heilbrigði magans.


mbl.is Deilt um ástæðu verðhækkana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horft í sólarátt

Orkubloggið er heldur snubbótt þessa síðustu dagana vegna stífra funda suður á Spáni. En nefna má að tilefnið snertir einmitt land eins og Jórdaníu, sem á mikla möguleika í að nýta sólarorku í stórum stíl.  Með aðferð sem kallast Concentrated Solar Power.

Spánverjar eru að fjárfesta í þessari tækni í stórum stíl. Meðal aðalleikarana á þeim vettvangi er Abengoa Solar. Sem er hluti af risafyrirtækinu Abengoa. Í bili læt ég nægja a að benda áhugasömum á heimasíðuna þeirra:

http://www.abengoa.com/sites/abengoa/en/acerca_de_nosotros/organizacion/abengoa_solar/


mbl.is Verðbólga 12,7% í Jórdaníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í leit að sparibauk

"Helsta skýring lækkunar í gær er ákvörðun kínverskra stjórnvalda að hækka verð á eldsneyti", segir í fréttinni.

"Helsta skýringin" er kannski ekki hárrétt orðalag. Of mikið af peningum í leit að of litlu af hráefni. Það er staðan á markaðnum í dag. Fall dollarans og flótti af hlutabréfamarkaði er a.m.k. ein megin skýringin á hækkandi olíuverði. Þegar fjármagninu líst hvorki á hlutabréf né skuldabréf, hvað er þá til bragðs? Hrávaran getur þá reynst eini raunhæfi sparibaukurinn. Það er ástæðan fyrir olíuverðinu í dag. Smásveiflurnar verða svo vegna ýmiss konar taugaveiklunar. T.d. vegna hækkunarinnar í Kína.

En hrávaran er takmarkaður pakki. Og verður ekki aukin með "hrávöru-aukningu" eins og hægt er að gera á hlutabréfamarkaðnum með endalausum nýjum hlutafjárútboðum. Þess vegna getur orðið smá vesen þegar allir stökkva í einu yfir i hrávörubaukinnn.

Þegar fjármagnið streymir út af hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðunum og yfir i olíu og aðra hrávöru, eins og gerst hefur í kjölfar lausafjárkrísunnar, blæs verðið auðvitað upp. Ofan á þetta bætist svo aukin olíueftirspurn meðan framboðið stendur nánast í stað. Þetta er ekki mjög flókið.

En stóri efinn er hvort bóla hefur myndast eður ei. Ég er sallarólegur meðan verðið á olíutunnuninni er undir 150 USD. En ef það fer að skríða þar yfir kann að verða tímabært að fara út af markaðnum. Og telja fáheyrðan gróðann.

En freistast maður kannski til að vera afram inni? Hver vill missa af enn meiri gróða? Fer olíufatið kannski í alvöru í 200 dollara? Mikið vill jú meira.

Gott að afi átti Trabant hér í Den. Minnir mann á að "skynsemin ræður"! 


mbl.is Olíuverð hækkar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólarstud á Spáni!

Spánverjarnir hér í Madrid eru barrrasta sallartólegir yfir leiknum! En ég má til með að benda á uppháldshljómsveitina mína með lag úr uppáhaldskvikmyndinni minni: Ay que dolor" med Los chunguitos. Ó, að maður hefði svona hárgreiðslu!

http://youtube.com/watch?v=xNQPbFwk8xA&feature=related

Og sýnishorn úr myndinni. Deprisa Deprisa eftir Carlos Saura:

http://youtube.com/watch?v=uGUellrSyAw

Þessi einfalda, skemmtilega og sorglega mynd Carlos Saura frá 1980, er tvímælalaust hans langbesta. Hvað ætli hafi orðið um stelpuna sem lék aðalhlutverkið? Hún heitir Berta Socuéllamos. Hún var beib! 

DepDep2


mbl.is Fabregas: Erum tæknilega betri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bissness fyrir Björgun!

Það er soddan fjárans barlómur núna á Klakanum! Úr því verktakabransinn heima á Fróni er í einhverri leiðinda lægð þessa dagana, er kannski rétt að benda mönnum á möguleikana. Ég hef áður vitnað til þess að áhættufíklar geta hugsanlega grætt mikinn pening í Sómalíu, þar sem nú er loks að fara í gang olíuleit (sjá færsluna "Puntland - land tækifæranna";  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/563314).

Fyrir þá sem eru ekki alveg jafn áhættusæknir, mæli ég frekar með verktakasamningum á hefðbundnari svæðum. Þar sem viðsemjandinn er barrasta fremur líklegur til að borga. Þá kemur auðvitað upp í hugann langstærsta og öflugasta olíufyrirtæki heims; Saudi Aramco í Arabíu.

Khursaniyah_Manifa_Field_2

T.d. fékk belgískt fyrirtæki nýlega samning við Sádana vegna undirbúningsframkvæmda við olíuvinnslu á s.k. Manifa-svæði. Þetta er samningur upp á nettan 1 milljarð USD.

Belgíska fyrirtækið er eins konar risaútgáfa af barninu hans Kidda Guðbrands, Björgun hf. Fyrirtækið, sem heitir Jan De Nul, mun sjá um dæluverkefni, þar sem m.a. verða búnar til eyjar og landtengingar til að nota við olíuborunina þarna utan við ströndina.

Sem fyrr segir er verkefnið upp á 1 milljarð dollara.  En heildarfjárfestingin vegna Manifa olíusvæðisins mun vera tíföld sú upphæð; 10 milljarðar USD. Í þessum fyrsta áfanga. Skemmtilegt.

Tungulaekur

Minnir mig á það að nú er Björgun hf. orðin hluti af Jarðborunum. Og Tungulækurinn austur í Landbroti er ekki lengur griðastaður þeirra Kidda Guðbrands, Eyjólfs Konráðs og Jóhannesar Nordal. Það var stæll á þeim félögum austur á Klaustri á sumrin hér í Den. Þegar þrenningin renndi á karrýgula Reinsinum hans Kidda að Skaftárskála. Hvar ég var bensínsgutti í nokkur sumur. Alltaf fannst mér Kiddi Guðbrands glaðlyndur og passlega hress. Kúl töffari. Og þeir Eykon og Nordal líka ævinlega í góðu skapi. Það er svona þegar maður kemur í Landbrotið eða á Síðuna. Þar er hreinlega ekki annað hægt en að vera í góðu skapi.

KiddiGudbrands

En nú eru þeir Kiddi og Eykon farnir yfir móðuna miklu. Og Tungulækur kominn í leigu - eins og hver önnur venjuleg veiðiá. Það finnst mér miður - það var eitthvað alveg sérstaklega sjarmerandi við það meðan sjóbirtingurinn í læknum fékk að mestu að vera í friði. Og nú er Björgun kominn undir hatt Geysi Green Energy. Hvað ætli Kiddi segði um það? Ég labba stundum eftir "læknum" og rýni eftir fallegum, skaftfellskum sjóbirtingi. Og hugsa um Kidda og leitina að Gullskipinu. Það voru góðir dagar.

Að vísu hef ég ávallt verið andstæðingur þess sem kalla má ofur-álvers-stefnu Eykons (sem var eins konar "álver-í-hvern-fjörð", svipað og Norðmenn gerðu á sínum tíma). En þetta voru skemmtilegir kallar. Þegar þeir komu í sjoppuna og keyptu sér pilsner og prins pólo. Á karrýgula Reinsinum. 

Svona geta nú Arabía og Landbrotið verið nátengd. Ég olíuleit í Arabíu leitt hugann að skaftfellskum sjóbirting. Sem er besti matur í heimi. En nú þarf ég að hlaupa og ná flugi til Madrid...

--------------------- 

PS: Orkublogginu hefur verið bent á, að í reynd sé það Þorsteinn Vilhelmsson sem fer með eignarhaldið á Björgun hf. Líklegt er að Þorsteinn sé maður að skapi Kidda Guðbrands.


mbl.is Forsætisráðherra bjartsýnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The nuke!

Það er auðvitað athyglisvert að olíuverðið hafi haldið áfram að hækka þrátt fyrir að Sádarnir ætli að auka framleiðsluna. Og þrátt fyrir að horfur séu á samdrætti í bandarísku efnahagslífi. Eftir síðustu færslu um orkudrauma framtíðarinnar, er rétt að koma sér aftur niður á jörðina og horfast í augu við veruleikann.

En eins og Orkubloggið hefur ítrekað bent á eru nýlegar ákvarðanir Arabanna um 300.000 tunna aukningu í mars og nú aukning um 500.000 tunnur, bara ekki nóg til að rétta olíuskútuna af. Heimsframboðið núna er liklega rétt um 86 B en þörfin a.m.k. 87 B og jafnvel meiri.

"B" merkir hér auðvitað "million Barrels pr. day" eða milljón Tunnur á dag. Og enn og aftur verð ég að hamra á því, að verð undir 150 dollurum á tunnu er bara alls ekki neitt sérstaklega hátt. Olíuverðið var orðið kjánalega lágt í sögulegu samhengi og tímabært að "leiðrétting" yrði.

figure_8

En hvað skal gera? Ef heimsbyggðin þarf meiri olíu en framleidd er. En Sádarnir geta ekki eða vilja ekki auka framleiðsluna?

Og þetta á ekki bara við um olíuna. Orkunotkun er sífellt að aukast. Ef olíuframleiðslan er nálægt toppi núna verður þörfin fyrir aukningu annarra orkugjafa ennþá meiri en verið hefur.

Þetta merkir einfaldlega að við þurfum fullt  af nýjum kjarnorkuverum. Og það strax. Orkubloggið leyfir sér enn á ný að vitna í Boone Pickens: "Get the Nuke started!" Þó svo vind- og sólarorka séu í miklum vexti mun sú orka ekki leysa olíuna af hólmi - fyrr en kannski eftir óratíma.

Í dag er kjarnorkan eini raunhæfi valkosturinn. En það tekur langan tíma að byggja kjarnorkuver. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að t.d. Bandaríkin og ekki síður Evrópa taki sig til og byggi fleiri kjarnorkuver án tafar.

Nuclear

68 kynslóðin var útá þekju. Mótmæli gegn kjarnorkuverum leiddu t.d. til þess að hætt var að byggja slík orkuver í Bretlandi og víðar um heim. Þetta stoppaði auðvitað ekki kjarnorkuvopnaframleiðslu og viðbúnaðarkapphlaupið æddi áfram. En þetta olli því að nú vofir orkuskortur yfir heiminum.

Bretland og meginland Evrópu eiga eftir að súpa seyðið af þessari strategíu. Og verða um langan tíma háð Rússum og öðrum enn vafasamari stjórnvöldum langt í austri, um gas og aðra orku þaðan. Má þakka fyrir ef þetta táknar ekki stórkostlega efnahagslega hnignun Vestur-Evrópuríkja. Við sjáum nú þegar mótmælin í Frakklandi og víðar í Evrópu vegna hækkandi olíuverðs. Hvað ætli gerist þegar Rússar byrja að leika sér með að skrúfa af og til fyrir gasið til Þýskalands?

Nuclear_reactors_age

En hvað er að gerast í kjarnorkunni? Í dag eru starfrækt u.þ.b. 440 kjarnorkuver í heiminum (nákvæmlega 439 ver í 31 landi). Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar var uppgangur kjarnorkunnar hvað mestur fyrir um 25 árum. Kjarnorkuslysin í Chernobyl 1986 og á Þriggja mílna eyju (Three mile Island) 1979 voru mikil áföll fyrir þennan iðnað. En eftir að gróðurhúsaáhrif komust í tísku er mögulegt að kjarnorkan hljóti uppreist æru. Enda tala menn nú um "endurreisn kjarnorkunnar".

Nuclear_World_Future

Um 30 ver eru í byggingu. Og önnur  200-300 ver eru á teikniborðinu. Þar af er Kína nú að byggja 4-5 ný ver og fyrirhugar að byggja yfir 100 kjarnorkuver að auki! En í Bandaríkjunum er ekki eitt einasta ver í byggingu! Hvað er eiginlega í gangi þarna fyrir vestan? Augljóslega hugsaði Bush um það eitt að hlaða undir olíu- og hergagnaiðnaðinn. Ekki furða þó margur horfi löngunaraugum til Obama. Enda glæsilegur og bráðskýr náungi.

 


mbl.is Hráolíuverð setur nýtt met
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðin runnin upp?

PolarBearÞá vitum við það. Gróðurhúsaáhrifin eru komin fram á Íslandi. Með nokkuð öðrum hætti en spáð var. Héðan í frá verðum við líklega að venjast því að a.m.k. helmingurinn í 17. júní hátíðargöngunum verði... ekki skátar heldur hvítabirnir! Brilljant.

Af þessu tilefni vill Orkubloggið benda á aðra skemmtilega sögu. Þar sem framtíðin er kannski að bresta á í formi sem enginn átti von á. Í hnotskurn felst það í því að bráðum þurfum við ekki lengur að hafa áhyggjur af einhverju olíusulli frá Arabíu. Vegna þess að við höfum... pöddur!

Það ótrúlega er að ég er ekki að grínast. Og þetta er ekki vísindaskáldskapur. Menn eru í fúlustu alvöru að fjárfesta í tækni þar sem erfðabreytt skordýr éta rusl og gefa frá sér olíu! Og fjárfestirinn er ekki minni maður en Vinod Khosla, stofnandi Sun Microsystems og maðurinn á bak við fjármagnið í Ausra. Sem kunnugt er, þá er Ausra einn af aðalleikendunum í þróun CSP-tækninnar (concentrated solar power). Al Gore er líka fjárfestir í Ausra.

khosla5

Framtíðin er sem sagt þessi: CSP mun sjá heiminum fyrir rafmagni. Pödduolían mun leyfa okkur að nota áfram tækni sem byggir á olíubrennslu. Og það sem er enn betra; pöddukvikindin taka meira kolefni úr andrúmsloftinu en þau láta frá sér. Þannig að þau eru ekki bara lifandi olíuverksmiðja, heldur líka kolefnisætur sem minnka þannig gróðurhúsaáhrif. Málið er leyst!

Padda

Fyrsta pödduolíuverksmiðjan á að opna strax 2011. Ég er bjartsýnn að eðlisfari. Og tek sjaldnast trú á "heimsendaspám". En þetta er næstum of gott til að vera satt!

Hér má lesa meira um CSP:   http://askja.blog.is/blog/askja/entry/566905/

Og líka hér:  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/537664/

Og um bug crude er t.d. ágæt umfjöllun í The Times fyrr í þessari viku:  http://www.timesonline.co.uk/tol/news/environment/article4133668.ece

Skemmtilegt! 


mbl.is Reynt að ná birninum lifandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóri hikstinn

china-oil_2Menn nota gjarnan gröf eins og það, sem er hér til hliðar, til að skýra hækkandi olíuverð. Það er auðvitað augljóst að eftirspurn Kína eftir olíu hefur aukist hratt síðustu árin. Og margir horfa á svona sætar myndir og segja sem svo: "Augljós fylgni. Það er eftirspurnin í Kína sem hækkar verðið". Með gáfulegum svip og af miklum alvöruþunga. Ég meðtalinn.

En þá má eins spyrja á mót. Af hverju í ósköpunum hélst verðið hóflegt og þokkalega stabílt þar til allt í einu seint á síðasta ári? Og af hverju hefur olíuverðið undanfarið hækkað hraðar en vöxturinn í Kína?

china_oil_1980-2006

Hér er líka stöplarit sem sýnir síaukna olíunotkun Kínverja. Barrrasta 400% aukning á 10 árum. Þetta er náttúrulega bara bilun. En í reynd er þetta smotterí. Kína notar ekki nema rúm 9% af olíunni (um 8 milljón tunnur). Meðan Bandaríkjamenn nota 20 milljón tunnur á dag eða 25% af allri olíuframleiðslunni.

Ergo: Vöxturinn í Kína skýrir ekki einn og sér verðhækkanirnar. Þetta er samsull af aukinni eftirspurn, spákaupmennsku, fallandi dollar, markaðsstreitu o.s.frv. Og þó svo olíunotkun Kínverja muni aukast um 50% fram til 2025, eins og margir spá, er það "aðeins" aukning upp á ca. 4 milljón tunnur. Ég held að þær muni finnast. T.d. á íslenska landgrunninu! En vissulega getur orðið nokkuð dýrt að ná þessari olíu upp á yfirborðið. "We have reached the end of easy oil" er líklega nokkuð réttur frasi.

chinaimage008

Hér til hliðar er enn ein myndin. Sem sýnir hvernig menn sjá fyrir sér síaukna eftirspurn frá Kína. Þetta er kannski besta skýringin á aukinni spákaupmennsku. Því gangi þetta eftir mun olían væntanlega áfram hækka í verði. Sem gerir olíu freistandi fyrir spákaupmenn. En þessi mynd er reyndar hálfgert bull að því leyti að hún gerir ekki ráð fyrir neinum efnahagslegum skakkaföllum.

Ef myndin er óskýr má smella á hana til að fá hana stærri. Hún sýnir hvernig innflutningur Kínverja á olíu eykst en framleiðsla þeirra stendur nánast í stað. M.ö.o. þurfa þeir að kaupa meiri olíu í útlandinu. Og þar með keppa við aðra, t.d. Bandaríkin. Þetta þrýstir verðinu upp.

Cartoon_Bye_to_cheap_oiljpg

Ein mikilvægasta regla fjárfesta er auðvitað "what goes up will come down". Maður bíður spenntur eftir því að kínverska undrið hiksti rækilega. Og eftirspurnin minnki. Tímabundið. Samt sem áður eru það enn Bandaríkin sem eru langstærsti olíuneytandinn og olíuinnflytjandinn. Og það er fyrst og fremst eftirspurnin þaðan og ástandið í bandaríska efanahagslífinu, sem er hinn raunverulegi áhrifavaldur á olíuverðið.


mbl.is Drekahagkerfið glatar samkeppnisforskotinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brýr!

golden-gate-bridge

Brýr eru snilld. Þess vegna er ég alltaf að vona að þessi leiðindagöng verði blásin af vegna Sundabrautar. Og byggð flott brú... og dýr brú. Sem verði eitt af einkennum Reykjavíkur. Þó svo sú brú myndi kannski ekki alveg ná að jafna hafnarbrúna í Sydney eða Golden Gate í San Francisco, gæti hún orðið glæsilegt mannvirki. Menn segja reyndar að stundum yrði að loka brúnni vegna hvassviðris. Kannski rétt. En skiptir engu. Vil samt fá brú.

Hvaðan ætli þessi brúarástríða komi? Þegar ég kem að flottri brú breytist ég í pottorm. Stoppa, dáist, keyri yfir og aftur til baka. Kann mér ekki læti af tómri kæti.

Gigja

Kannski má rekja þetta til þess þegar maður lék sér með legókubbana hér í Den í gömlu stofunni austur á Klaustri. Og byggði brýr - allar upp á lengdina í anda Skeiðarárbrúar. Sem þá var að rísa austur á Skeiðarársandi. Þangað var stundum ekið með pabba og mömmu, fyrst þjóðveginn að Núpsstað og svo slóðann sem endaði við Lómagnúp. Til að fylgjast með brúarsmíðinni við Núpsvötn / Súlu og yfir Gígjukvísl (síðar nefnda brúin fór í hlaupinu 1996 eftir gosið í Gjálp).

Þetta hefur líklega verið sumarið 1973. Svo varð hægt að bruna yfir nýju glæsibrýrnar tvær, sem manni fannst nánast óendanlega skemmtilega langar. Og mæta bílum á brúnni! Eða stoppa í útskotunum og vappa eftir timburgólfi brúnna. Það var ekki leiðinlegt! Mun aldrei gleyma hljóðinu þegar græni Reinsinn rann í fyrsta sinn eftir þessu mjúka brúargólfi. Til allrar hamingju má enn heyra þetta góða nostalgiuhljóð. Ekki síst þegar ekið er eftir brúnni yfir Núpsvötn og Súlu. Nýja brúin yfir Gígjukvísl er aftur a móti með hefðbundið leiðinda steypugólf.

Skeidarárbrú_smidi

Og svo var skrönglast austur að Skeiðará og horft á vatnadrekann ösla yfir gráa og straumharða ána. Og ekki minni hrifningu ollu risastórir Scania-bílarnir að sturta hnullungum í varnargarðana. Þá var draumurinn að verða trukkabílstjóri. Sem var jafnvel enn betra en verða rútubílstjóri eða flugmaður.

Út úr bílnum. Dýfa Nokia- og hosuklæddum tánum ofaní fljótið til að finna strauminn rífa í. Og horfa á Skeiðarárbrú smám saman lengjast... og lengjast.

Breidamerkurbru

Ég bara spyr: Hver eru fallegustu mannvirki á Íslandi? Hallgrímskirkja? Perlan? Hótel Grand? Afsakið að ég skuli nefna þessa hryllingsþrennu. Nei  - auðvitað eru það brýrnar sem bera af. Gamla Þjórsárbrúin. Brúin yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi, með falinni blindhæð. Og margar gamlar smærri brýr. Og auðvitað drottningin sjálf; Skeiðarárbrú!


mbl.is Þjórsárbrúin verðlaunuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband