Íslensk raforkukauphöll

Nú síðsumars 2012 munu hefjast kauphallarviðskipti með íslenska raforku.

Þetta eru talsverð tímamót. Raforkumarkaðurinn hérlendis hefur í nokkur ár verið frjáls, þ.e. frjáls verðlagning á raforku og kaupendum verið frjálst að velja hvaðan þeir kaupa rafmagnið. Þetta fyrirkomulag er sjálfsagt öllum kunnugt. Sum ef ekki flest raforkusölufyrirtækjanna hafa reynt að nýta sér þetta viðskiptafrelsi til að laða að sér nýja viðskiptavini og auka viðskipti sín. Sbr. t.d. sjónvarpsauglýsingar Orkusölunnar um að kaupa rafmagnið þaðan. Og fá það sem þau hjá Orkusölunni kalla "nýtt og ferskt rafmagn".

ISBAS-slide-5

Þessu fyrirkomulagi, sem felur í sér að neytendur velja sér hvaðan þeir kaupa rafmagnið, var komið á í tengslum við aðild Íslands að EES-samningnum. Tilgangurinn er m.a. sá að auka samkeppni milli raforkuframleiðenda.

Það er sem sagt frjáls samkeppni á íslenska raforkumarkaðnum. Engu að síður er þessi samkeppni vissum takmörkunum háð. Framleiðendum og öðrum seljendum raforku hefur t.a.m. verið sniðinn þröngur stakkur gagnvart því að eiga viðskipti sín á milli (heildsöluviðskipti).

Seljendur raforku hafa fyrst og fremst haft úr eigin framleiðslu að moða. Og t.d. haft litla möguleika til að koma til móts við aukna eftirspurn, svo sem vegna nýrra viðskiptavina, nema þá með því að auka eigin framleiðslugetu (sem getur kallað á nýja virkjun). Vissulega eru raforkuviðskipti frjáls og þ. á m. milli raforkuframleiðenda, þ.a. að sjálfsögðu er ávallt mögulegt að raforkuframleiðendur eigi heildsöluviðskipti sín á milli. Engu að síður hafa slík viðskipti verið háð fremur gamaldags og þunglamalegu fyrirkomulagi. Þau eru að mestu ef ekki öllu leyti bundin við langtímasamninga og raforkufyrirtækin hafa haft takmarkaða möguleika til að kaupa raforku með skemmri fyrirvara.

Í tilvikum þar sem raforkufyrirtæki hefur áhuga á heildsöluviðskiptum með skömmum fyrirvara (t.d. til að selja áfram til viðskiptavina sinna) hefur starfsfólkið þurft að hringja eða senda öðrum framleiðanda tölvupóst með fyrirspurnum um það hversu margar kWst verði til reiðu á þeim tíma sem áhugi er á viðskiptum. Og síðan hafa samband við næsta raforkuframleiðandi til að kanna hvort betri kjör bjóðist þar.

Að sumu leyti líkist þetta því að sá sem vilji kaupa sér nokkra hrúta þurfi að ráfa milli fjárhúsa. Núverandi fyrirkomulag á heildsölumarkaði með raforku skapar ýmsar hindranirnar og hefur óhjákvæmilega þær afleiðingar að samkeppni á raforkumarkaðnum verður lítt virk. Ekki aðeins er framkvæmdin á heildsöluviðskiptunum þunglamaleg, heldur veldur fyrirkomulagið því að verðmyndunin verður fremur óljós.

ISBAS-slide-6

Almennt séð er núverandi fyrirkomulag raforkuviðskipta í heildsölu líklegt til að halda aftur af samkeppni. Ef aftur á móti raforkuviðskipti færu fram í kauphöll lægi ávallt fyrir hvaða verð væru í boði og ávallt væri a.m.k. tiltekið lágmarksframboð af rafmagni til taks (vegna viðskiptavakakerfis líkt og gerist t.d. á hlutabréfamarkaði). Þá myndu allir viðskiptaaðilar sitja við sama borð og auknar líkur verða á því að best reknu fyrirtækin njóti ávaxtanna og nái að vaxa enn frekar.

Einnig gætu þá raforkuframleiðendur með einföldum hætti keypt raforkuna af öðrum, fremur en að framleiða hana sjálfir, þegar þeim hentar svo. Og raforkukauphöll myndi skapa þann möguleika að til kæmu milliliðir sem sérhæfa sig í kaupum og sölu á raforku. Þar er vel að merkja ekki átt við markað með hreina fjármálagjörninga; í raforkukauphöllinni yrði einungis boðið upp á viðskipti með beinharða raforku (það sem á ensku kallast physical electricy excgange).

Núverandi fyrirkomulag raforkumarkaðarins hefur sennilega einkum verið óheppilegt fyrir minni vatnsaflsfyrirtæki, sem hafa yfirleitt úr lítilli miðlun að spila og eru mjög háð sveiflum í framleiðslu sinni. Norðlenska fyrrtækið Fallorka er dæmi um slíkt fyrirtæki, þar sem framleiðslan sveiflast verulega eftir árstíðum og veðrinu almennt. Vilji fyrirtækið selja meiri raforku til neytenda en sem nemur lágmarksframleiðslugetu fyrirtækisins, þarf Fallorka oft að eiga aðgang að raforku annars staðar frá. Og þá er mikilvægt að framboð sé fyrir hendi og verðmyndun sé skýr.

Fallorka gæti auðvitað að einhvejrju leiti leyst málið með hefðbundnum langtímasamningum við t.d. Landsvirkjun. En til að mæta sveiflum og geta uppfyllt skyldur sínar gagnvart viðskiptavinum sínum væri væntanlega mjög æskilegt fyrir fyrirtækið að eiga aðgang að skipulögðum heildsölumarkaði. Þá er átt við markað þar sem sem flestir og helst allir kaupendur og seljendur raforku í heildsölu á Íslandi mætast nafnlaust á jafnræðisgrundvelli, rétt eins gerist á t.d. hlutabréfa- eða skuldabréfamarkaði í kauphöll - og setja þar inn kaup- og/eða sölutilboð á rafmagn.

ISBAS-slide-3

Slíkt kauphallarfyrirkomulag með raforku hefur ýmsa kosti. Með skipulögðum heildsöluraforkumarkaði í kauphöll verður verðmyndun á raforku miklu gleggri, fyrirtækjum yrði gert auðveldara að mæta óvæntum sveiflum og allir myndu sitja við sama borð. Þar að auki tryggir kauphallarfyrirkomulagið öruggt uppgjör á öllum samningum.

Kauphallarfyrirkomulagið er líklegt til að auka samkeppni og verða til hagsbóta bæði fyrir raforkunotendurna og vonandi flest raforkufyrtækin. Kauphöllin ætti að hafa þau áhrif að best reknu raforkufyrirtækin spjari sig best og þar með aukist möguleikar þeirra til vaxtar. Það þyrfti ekki að gerast með byggingu nýrra virkjana, heldur einfaldlega með því að viðkomandi fyrirtæki verða stærri viðskiptaaðili á raforkumarkaðnum.

Þarna kunna t.a.m. að vera umtalsverð tækifæri fyrir vel rekin minni raforkufyrirtæki, sem ættu sum hver að geta aukið markaðshlutdeild sína umtalsvert. Og þar með styrkt samkeppni á raforkumarkaðnum. Slíkt hefði augljósa kosti fyrir neytendur t.d. núna þegar Orkuveita Reykjavíkur hefur verið að stórhækka raforkuverð sitt (vegna mislukkaðra fjárfestinga og undarlegrar fjármögnunarstefnu fyrirtækisins á árunum fyrir efnahagshrunið).

landsnet-logo

Almennt séð eykur raforkukauphöll sveigjanleika í raforkuviðskiptum. En það eru ekki bara skynsamir raforkuframleiðendur og neytendur sem geta notið góðs af kauphöll með raforku. Flutningsfyrirtækið Landsnet hefur einnig tækifæri til að nýta sér slíkan skipulagðan heildsölumarkað. Vegna mögulegra bilana og flutningstapa í raforkukerfinu þarf Landsnet ætíð að eiga aðgang að umtalsverðu aukamagni af raforku. Fram til þessa hefur aðgangur að þeirri orku verið tryggður með samningum til eins árs i senn. En með tilkomu kauphallar með raforku opnast sú leið fyrir Landsnet að kaupa a.m.k. hluta þeirrar orku á markaði kauphallarinnar með miklu skemmri fyrirvara.

Auðvitað er ekki öruggt að þar með þurfi Landsnet að greiða lægra verð en ella fyrir raforkuna sem þarf til að mæta flutningstapi eða bilunum. En með þessu eykst svigrúm Landnets til að halda slíkum kaupum í lágmarki. Og þar með skapast tækifæri til að ná fram meiri hagkvæmni í rekstri, sem ætti að geta skilað sér í lægri útgjöldum neytenda.

Íslenska raforkukauphöllinn fer af stað nú í lok sumars. Til að byrja með verður þar einungis um að ræða viðskipti innan dagsins (intra day trading) og þá talað um ISBAS. Það mun ekki standa til að bjóða upp á spot-viðskipti; a.m.k. ekki til að byrja með. Slík viðskipti eiga sér stað daginn áður (þ.e. raforkan er afhent daginn eftir viðskiptin) og myndast þá markaðsverð fyrir hvern klukkutíma fyrir sig. Til að slíkur spot-markaður sé raunhæfur er þörf á mjög tíðum viðskiptum og talsvert mikilli veltu. Þær upplýsingar sem hafa komið fram um íslensku raforkukauphöllina fram til þessa, benda til þess að beðið verði með að koma á fót spot-markaði uns reynsla er komin á ISBAS.

Nord-Pool-Spot-logo

Fyrirkomulagið á ISBAS styðst einkum við fyrirmyndir frá norræna raforkumarkaðnum; Nord Pool Spot. Þar er boðið upp á tvær megingerðir samninga; annars vegar s.k. Elspot-samninga og hins vegar Elbas-samninga. Elspot er uppboðsmarkaður með raforku sem er til afhendingar daginn eftir, þar sem fram kemur markaðsverð fyrir hvern klukkutíma fyrir sig. Elbas er aftur á móti raforkumarkaður sem líkist meira staðgreiðsluviðskiptum, þar sem unnt er að kaupa raforku í gegnum kauphöllina til afhendingar allt niður í klukkutíma fyrirvara. ISBAS mun einmitt verða ámóta markaðsfyrirkomulag eins og Elbas.

Íslenska raforkukauphöllin hefur verið i undirbúningi í mörg ár og má líklega rekja þá vinnu allt aftur til ársins 2005. Það var a.m.k. allt tilbúið í sumarlok 2008 og búið var að ákveða opnun ISBAS þá um haustið. En þá skall bankahrunið á, sem skapaði mikla óvissu í efnahagsmálum og Landsnet tók þá skynsamlegu afstöðu að fresta ISBAS.

isbas_logo

Það er auðvitað óvíst hvernig takast mun til með þessa íslensku raforkukauphöll. Íslenski raforkumarkaðurinn utan hinna umfangsmiklu stóriðjusamninga er afar lítill (einungis um 3 TWst). Til að markaðurinn virki eðlilega, er algerlega nauðsynlegt að raforkuframleiðendurnir hérna sinni þessu verkefni af skyldurækni og áhuga. Og ekki má búast við of miklu svona fyrst í stað.

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að það tók norræna raforkumarkaðinn Nord Pool Spot þó nokkur ár að ná þroska. Hann á rætur sínar að rekja til aukins frelsis í raforkuviðskiptum sem tekið var upp í Noregi um 1990 . Fyrstu árin óx þessi skipulagði raforkumarkaður rólega og ýmisr spáðu þvi jafnvel að þetta myndi aldrei ganga upp. 

En reynslan varð góð og og í dag fara rúmlega 70% af öllum raforkuviðskiptum viðkomandi markaðssvæðis í gegnum Nord Pool Spot! Nord Pool Spot er hvorki meira né minna en stærsta raforkukauphöll heims og er reyndar fyrirmynd flestra nýrra kauphalla þessu sviði. Þar má nefna bæði raforkukauphallir í Bretlandi, á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Norðmennirnir hjá Statnett, sem fyrstir komu að uppbyggingu þessa kerfis, geta því verið afar stoltir af árangrinum.

Rétt eins og Nord Pool Spot er í eigu norrænu raforkudreifingarfyrirtækjanna, þá verður íslenska raforkukauphöllinn sérstakt fyrirtæki í eigu Landsnets. Viðskiptin munu öll eiga sér stað rafrænt í gegnum heimasíðu markaðarins (sem væntanlega verður www.isbas.is).

Island-raforkuframleidsla-storidja-almenn-notkun-2010

Sumir hafa eflaust efasemdir um að svona markaður geti gengið hér á landi, einfaldlega vegna þess hversu stór hluti allrar raforkuframleiðslunnar hér er bundinn í langtímasamningum (við stóriðjufyrirtækin). Hér verður líka að hafa í huga hversu gríðarstórt hlutfall af raforkuframleiðslunni hérlendis er í höndum einungis eins fyrirtækis. Samtals framleiðir Landsvirkjun hátt í ¾ hluta allrar raforku í landinu. Og meira að segja þó að stóriðjunotkunin sé undanskilin, er markaðshlutdeild Landsvirkjunar mjög mikil eða á bilinu 60-65% af allri almennri notkun.

Til samanburðar má nefna að á Nord Pool Spot er enginn einn aðili með meira en 20% markaðshlutdeild. Stofnun ISBAS er því veruleg áskorun. En ef vel tekst til gæti svo farið að smám saman muni hluti af raforkuviðskiptum stóriðjunnar hér á landi færast yfir í kauphöllina. Þá gæti jafnvel myndast grundvöllur fyrir spot-markað. 

Það eru a.m.k. spennandi tímar í vændum á íslenskum raforkumarkaði - og þá ekki aðeins vegna Rammaáætlunar og hugmynda um sæstreng. Og það er með ólíkindum að íslenskir fjölmiðlar skuli ekki hafa sýnt tilvonandi ISBAS markaði meiri athygli. Vonandi verður þetta hádegis-innlegg Orkubloggsins þennan milda mánudag til þess að a.m.k. einhverjir lesendur átti sig betur á því hvernig raforkumarkaðurinn hér mun mögulega þróast á næstu misserum og árum.

--------------- 

[Myndirnar hér í færslunni eru fengnar úr kynningum sem aðgengilegar eru á vef Landsnets og vef Orkustofnunar, en NPS-lógóið er að sjálfsögu fengið af vef NordPoolSpot].


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mætti öruggglega koma á stórkostlegum heimsviðskiptum með þessi 700 megavött sem við íslendingar gætum átt aflögu á næstu áratugum. Það er bara spurning um hvaða útnárahverfi í Evrópskri stórborg vantar meiri hita á baðvatnið sitt!!!!"!

Hafþór (IP-tala skráð) 30.4.2012 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband