Fáfnir Viking í reiðuleysi

Íslenska fyrirtækið Fáfnir Offshore gerir út þjónustuskipið Polarsyssel. Sem hefur verið á sex mánaða samningi hjá Sýslumanninum á Svalbarða, en er að öðru leyti verkefnalaust. Enda staðan í þjónustuskipaútgerð af þessu tagi afar erfið þessa dagana - vegna þess hversu fyrirtæki í olíubransanum eru að draga saman seglin.

Fáfnir Offshore er með annað svona skip í smíðum, sem er Fáfnir Viking. Það er norska skipasmíðastöðin Havyard sem smíðar bæði skipin. Fyrirkomulagið er reyndar þannig að skrokkurinn er smíðaður hjá skipasmiðastöðvum úti í heimi, þar sem vinnuaflið er ódýrt, en skipin svo fullgerð heima í Noregi. Sérstök lánastofnun í eigu norska ríkisins, Exportkreditt, lánar svo kaupendum skipanna gjarnan stóran hluta kaupverðsins. Þannig liðkar norska ríkið fyrir því að viðhalda skipasmíði í Noregi.

Havyard-share-price-Jan-2016Havyard er skráð á hlutabréfamarkaðnum í Osló (þar sem hlutabréfaverð félagsins hefur fallið mikið og er enn á niðurleið). Í grunninn er Havyard þó fjölskyldufyrirtæki, þar sem Per Sævik og fjölskylda á meirihluta í félaginu. Sævik er einnig meirihlutaeigandi í skipaútgerðinni Havila, sem á og gerir út fjölmörg þjónustuskip af þessu tagi. Hann kemur einnig víðar að í svona útgerð og er t.a.m. stór hluthafi í færeysku skipaútgerðinni Skansi Offshore.

Fyrir um tveimur árum ákváðu íslenskir bankar að gerast bæði lánveitendur og fjárfestar í þessari þjónustuskipaútgerð. Tímasetningin hjá bönkunum íslensku gat vart verið óheppilegri. Því með fallandi olíuverði hefur stór hluti af verðmæti bæði Havila og Havyard á hlutabréfamarkaði gufað upp. Havyard er í verulegum vandræðum og Havila er á barmi gjaldþrots.

Polarsyssel-Havyard-design-PSVAugljóst er að helsta ástæða þess að skipaútgerð Sævik nálgaðist fé hjá íslenskum bönkum er að þeir bankar voru tilbúnir í meiri áhættu en norskir bankar. Íslenskir bankar komu einnig að fjármögnun Fáfnis Offshore. Þar er skipið Polarsyssel með ónóg verkefni og engin verkefni hafa verið tryggð fyrir hitt skipið; Fáfni Viking. Sem Fáfnir Offshore á að fá afhent frá Havyard á næsta ári; 2017.

Bæði þessi skip eru hönnuð sem Platform Supply Vessels (PSV), þ.e. þjónustuskip fyrir olíuborpalla. Þar er nú geysilegt offramboð af skipum og sáralitlar líkur á að þar verði unnt að finna verkefni fyrir skipin á næstu misserum. Og ef lágt olíuverð dregst á langinn, eru yfirgnæfandi líkur á að Fáfnir Offshore að óbreyttu stefni beint í gjaldþrot.

Þarna er þó tækifæri til að bjarga verðmætum. Þar skiptir miklu að félagið gæti sín á því að uppfylla skilyrði í samningi sínum við Sýslumanninn á Svalbarða, en þar hefur stjórn fyrirtækisins undanfarið verið á mjög hálum ís. Ekki síður skiptir miklu að fyrirtækið nái að finna farsæla lausn vegna Fáfnis Viking. Þar er sennilega besta tækifærið fólgið í því að nýta eftirspurn vindorkuiðnaðarins eftir þjónustuskipum.

Havyard-SOV-WindÍ Norðursjó, þ.e. við strönd landa eins og Bretlands, Danmerkur og Hollands, hefur verið góður vöxtur í byggingu stórra vindrafstöðva. Þessi vindorkuver í hafinu þurfa talsverða þjónustu og til þess eru smíðuð sérstök þjónustuskip sem kallast Service Operation Vessels (SOV). Það væri vafalítið skynsamlegast fyrir Fáfni Offshore að breyta hönnun Fáfnis Viking úr PSV í SOV og um leið tryggja skipinu samning í vindorkuiðnaðinum í Norðursjó. Þar er t.a.m. þýska Siemens umsvifamikið og hefur undanfarin misseri verið að leita eftir aukinni þjónustu SOV í tengslum við sinn rekstur. 

Helsti ókosturinn við að breyta hönnum Fáfnis Viking úr PSV í SOV er sá að það væri nokkuð kostnaðarsamt. Á móti kemur að skipasmíðar sem flokkast undir SOV eiga mun greiðari aðgang að fjármögnun, þar sem lánatíminn er lengri en ef um er að ræða PSV. Þar að auki bjóðast svona skipum mjög langir þjónustusamningar. Þess vegna er rekstur slíkra skipa augljóslega áhættuminni en gerist í PSV-bransanum. Þetta væri því farsælasta leiðin fyrir Fáfni Offshore vegna Fáfnis Viking.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband