Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
14.11.2011 | 09:17
Evrópa versus Gazprom
Evrópusambandið hefur á síðustu árum lagt mikla áherslu á græna orkustefnu. Í grófum dráttum felst stefnan í því að draga beri úr notkun á kolvetniseldsneyti (olíu, gasi og kolum), auka hlutfall endurnýjanlegrar orku, spara orku og minnka kolefnislosun.

ESB hefur náð talsverðum árangri að koma þessari stefnu í framkvæmd. Hlutfall grænnar orku hefur farið vaxandi og ESB- ríkin eru í fararbroddi við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Í reynd snýst þó meginatriðið í orkustefnu ESB um allt annað en græna orku. Því langmikilvægasta hagsmunamál ESB-ríkjanna felst í því að tryggja sér betri, fjölbreyttari og öruggari aðgang að orkulindum utan sambandsins.
Evrópusamabandið er gríðarlega háð innfluttri orku. Eða öllu heldur flest aðildarríki þess. Af öllum aðildarríkjunum 27 er einungis eitt ríki innan ESB sem framleiðir meiri orku en það notar (sem er Danmörk, en það geta Danir þakkað olíuvinnslu sinni í Norðursjó). Þar að auki fer olíu- og gasframleiðsla innan ESB hratt hnignandi. Þess vegna stendur ESB mun verr að vigi í orkumálum en t.a.m Bandaríkin. Þar vestra hefur gasframleiðsla aukist mikið á undanförnum árum og í Bandaríkjunum eru jafnvel líka góðar líkur á að unnt verði að auka olíuframleiðsluna.

Það er sem sagt svo að með hverjum degi sem líður verður ESB sífellt háðara innfluttum orkugjöfum (þó svo efnahagssamdráttur geti snúið þessu við tímabundið). Þetta er sennilega mesti veikleiki ESB. Enda fagna evrópskir stjórnmálamenn og leiðtogar sambandsins mjög, þegar áfangi næst í því að efla orkuöryggi ESB.
Slík fagnaðarlæti hafa reyndar orðið í tvígang núna í haust (2011). Þar var annars vegar um að ræða þau tímamót þegar fyrsti áfangi Nord Stream gasleiðslunnar var tekinn í notkun. Þar með byrjaði gas að streyma frá Rússlandi til Þýskalands, eftir 1.200 km langri gasleiðslunni sem nú liggur eftir endilöngum botni Eystrasaltsins. Gasið sem núna streymir um verkfræðiundrið Nord Steam er fyrsta gasið sem berst Þjóðverjum frá Rússum, án þess að þurfa að fara eftir gasleiðslum um lönd eins og Úkraínu eða Hvíta-Rússland. Þetta bætir afhendingaröryggi til muna, sem er fagnaðarefni fyrir bæði seljandann (Gazprom) og neytandann (í Þýskalandi og fleiri ESB-ríkjum).

Hitt tilefnið til að skála nú í haust af hálfu ESB var þegar aðildarríki sambandsins (utanríkisráðherraráðið) veittu framkvæmastjórn ESB umboð til að semja við stjórnvöld í Azerbaijan og Túrkmenistan um lagningu mikillar gasleiðslu eftir botni Kaspíahafsins. Leiðslan sú er oftast er kölluð Trans-Caspian Gas Pipeline, en um hana á að flytja gas þvert vestur yfir Kaspíahafið. Frá Túrkmenistan til Bakú í Azerbaijan og þaðan áfram eftir gasleiðslum gegnum orkubrúna Tyrkland og alla leið til Evrópusambandsins.
Náist samningar um þessa rosalegu Kaspíahafs-gasleiðslu aukast líkur á að ráðist verði í lagningu á hinni mikilvægu Nabucco-gasleiðslu (sem áður hefur verið fjallað um hér á Orkublogginu). Enda má segja að þessar tvær gasleiðslur séu svo nátengdar að annað hvort hljóti þær báðar að verða lagðar eða þá hvorug. Svo eru menn líka farnir að tala um að Kaspíahafsleiðslan muni ekki aðeins opna ESB aðgang að hinum gríðarlegu gaslindum í Túrkemistan, heldur einnig að miklu gasi norður í Kazakhstan.

Það eru þessir hagsmunir um framtíðaraðgang að orkulindum Mið-Asíuríkjanna sem valda því að þeir José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Günther Oettinger, framkvæmdastjóri orkumála, hafa undanfarið verið á ferðinni bæði í Bakú í Azerbaijan og handan Kaspíhafsins í Ashgabat, höfuðborg Túrkmenistans. Þar hafa þeir félagarnir f.h. ESB faðmað forsetana báða; þá Ilham Aliyev í Azerbaijan og Gurbanguly Berdimuhamedow í Túrkmenistan. Og komið heim til Brussel með glansandi viljayfirlýsingar um að þessi Mið-Asíuríki bæði séu æst í að selja gas til Evrópu.

Vandamálið er bara að bæði Kínverjar og rússneska Gazprom sækja líka mjög í risavaxnar gaslindirnar í Mið-Asíu. Stóra spurningin er hver verður á undan að byggja gasleiðslur til þessara landa?
Það eru risavaxnir hagsmunir af þessu tagi sem nú hafa orðið til þess að innan ESB eru menn byrjaðir að tala um það að framkvæmdastjórnin þurfi að fá allsherjarumboð til að semja um og höndla með öll orkumál sem snerta aðildarríkin. Þar með yrði til ein sameiginleg orkustefna ESB þar sem framkvæmdastjórnin fengi mikil völd í sínar hendur. Þetta yrði meiriháttar stefnubreyting af hálfu aðildarríkja ESB, en kann að vera nauðsynlegt til að tryggja aðgang þeirra að öruggri orku til framtíðar. Við eigum eflaust eftir að heyra meira af þessum tillögum síðar hér á Orkublogginu - þetta snertir jú beinlínis hagsmuni Íslands sökum þess að við erum umsóknarríki um aðild að ESB.

Það er sem sagt svo að það eru tvær neðansjávar-gasleiðslur sem eru mál málanna í orkustefnu ESB-ríkjanna þessa dagana. Leiðslur sem flytja munu gas til ESB frá löndum í austri; ríkjum sem búa yfir miklum gasauðlindum.
Önnur af þessum gasleiðslum er nú orðin að raunveruleika. Það er engu að síður augljóst að gasið frá Nord Sream mun ekki losa Þýskaland eða önnur Evrópuríki undan gashrammi Rússlands. Reyndar virðist Gerhard Schröder nokk sama um það. Þegar Schröder lét af embætti kanslara Þýskalands tók hann fagnandi boði Rússa um að setjast í stól stjórnarformanns Nord Stream. Þar er rússneski gasrisinn Gazprom vel að merkja langstærsti hluthafinn með 51% hlut (afgangurinn skiptist á milla nokkurra þýskra og fleiri evrópskra fyrirtækja). Hlutverk þessa fyrrum kanslara Þýskalands og formanns þýskra jafnaðarmanna sem stjórnarformanns Gazprom, er væntanlega fyrst og fremst að gæta hagsmuna hluthafa Gazprom. Sem að stærstu leyti er rússneska ríkið! Skemmtilegt evrópskt bræðraþel þarna á ferð.

Það var gaman að sjá hversu vel fór á með þeim ljúflingunum Schröder og Pútín þar sem þeir voru staddir austur í Skt. Pétursborg núna í september sem leið (2011). Tilefnið var að þá var byrjað að prófa hvernig gengi að láta gasið streyma eftir glænýrri Nord Stream leiðslunni. Frá rússnesku borginni með sænska nafnið (Vyborg, sem er skammt frá Pétursborg) og til þýska þorpsins Lubmin, sem er skammt vestan pólsku landamæranna.
Það var svo núna í vikunni sem leið (s.l. þriðjudag) að hin formlega opnunarathöfn Nord Stream fór fram - í þýska þorpinu Lubmin. Þar voru saman komnar margar helstu silkihúfur evrópskra stjórnmálamanna. Sem í sameiningu skrúfuða frá gríðarstórum krana til marks um vígslu á þessari tíu milljarða dollara gasleiðslu (sbr. myndin hér að neðan). Í fremstu röð voru þau Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, en meðal gestanna mátti einnig sjá forsætisráðherra Frakklands, Hollands og fleira mektarfólk. Þarna fengu stjórnmálamennirnir að njóta sín, en rússneski gasrisinn Gazprom hélt sig til hlés.

Þvi miður var lítill púki sem truflaði gleðina. Nefnilega sjálfur efinn. Það er því miður allt eins líklegt að vígsla Nord Stream sé fyrst og fremst skýr táknmynd um að ESB muni í framtíðinni þurfa sífellt meira gas frá Rússum og Gazprom. Jafnvel að Evrópa þurfi að kaupa gas frá Mið-Asíuríkjunum í gegnum Gazprom!
Það er nefnilega svo að hljóðleg en gríðarlega hörð barátta stendur nú yfir um aðgang að gaslindum Mið-Asíuríkjanna. Kína er á góðri leið með að tryggja sér þarna væna sneið af kökunni. Og Rússar ætla sér svo sannarlega að koma í veg fyrir að þessi fyrrum Sovétlýðveldi selji gasið beint vestur til Evrópu. Þess í stað vilja þeir að gasið fari fyrst til Rússlands og þaðan til Evrópu - um lagnir Gazprom! Þar með fengju Rússar ekki aðeins væn flutningsgjöld, heldur líka sterkan pólítískan ávinning með því að geta hvenær sem er lokað á gasstreymið til Evrópu.

Kapphlaupið um beinan aðang að gaslindum Mið-Asíuríkjanna er eitthvert hljóðlátasta en um leið mikilvægasta hagsmunamálið í gjörvöllum orkugeiranum um þessar mundir. EF Evrópusambandsríkin tapa þessu kapphlaupi mun það gera ESB svakalega háð gasflutningum um Rússland. Vegna bæði landfræðilegra, sögulegra og pólítískra aðstæðna er óneitanlega líklegt að þarna muni Gazprom hafa betur en ESB. Og þess vegna lítur út fyrir að þrátt fyrir að North Stream sé komin í gagnið, þá kunni Evrópusambandið að vera í arfaslæmum málum.
En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Á síðustu misserum hafa nefnilega orðið merkilegir atburðir í evrópska orkugeiranum, sem gætu hreinlega gjörbreytt aðgangi ESB að orku til langrar framtíðar - til hagbóta fyrir sambandið og á kostnað Gazprom! Það magnaða ævintýri snýst um hreint ótrúlegar gaslindir sem kann að vera að finna í austur í Póllandi, Búlgaríu og Úkraínu. Meira um þá dramatík síðar hér á Orkublogginu.
7.11.2011 | 09:00
Tímamót í íslenskum orkumálum?
Stýrihópur um orkustefnu (Orkustefnunefnd) hefur lokið starfi sínu. Og birt skýrslu sem nú fer fyrir ríkisstjórn og verður svo væntanlega lögð fram sem þingsályktunartillaga á Alþingi

Iðnaðarráðherra segir stefnuna marka tímamót. Það er nú kannski ofmælt - þó vissulega sé gott að íslensk stjórnvöld marki sér skýra stefnu í orkumálum. Í reynd er umrædd stefna yfirleitt mjög almennt orðuð. Og þar að auki látið vera að taka á sumum mikilvægum álitamálum.
Þarna er t.d. nær ekkert fjallað um eignarhald á virkjunum eða orkufyrirtækjum. Samt var nefndinni beinlínis falið að taka eignarhald á orkufyrirtækjum til umfjöllunar og fara yfir helstu "leiðir varðandi eignarhald í orkuframleiðslu". Í þessu sambandi skyldi nefndin meta kosti og galla mismunandi eignarhalds og lýsa því hvaða leiðir séu þar vænlegastar.
Þess vegna bjóst Orkubloggarinn jafnvel við því að skýrslan myndi innihalda skýra stefnumörkun um eignarhald að orkufyrirtækjum og/eða stærri virkjunum. En svo er ekki. Þarna er því t.d. ekkert minnst á hugmyndir sem hafa komið fram um að allar stærri virkjanir á Íslandi skuli að meirihluta vera í opinberri eigu, en að einkaaðilar geti eignast í þeim allt að þriðjung.

Því má kannski segja að með orkustefnunni séu einfaldlega engar breytingar lagðar til á því fyrirkomulagi sem er í gildi um fjárfestingar í virkjunum á Íslandi. Þ.e. að slíkar fjárfestingar skuli heimilar öllum lögaðilum, hvort sem þeir séu opinberir eða einkaaðilar, og það eigi við um öll fyrirtæki innan EES-svæðisins. Og þar með leggi stýrihópurinn t.d. blessun sína yfir fjárfestingar eins og þegar Magma Energy Sweden keypti stóran hlut í HS Orku. Þetta eitt og sér er athyglisvert, þegar haft er í huga að VG átti væntanlega fulltrúa í stýrihópnum.
Eitt af þeim mikilvægu atriðum sem stýrihópurinn fjallaði um er hvort stytta eigi þann hámarksafnotatíma sem fyrirtæki geta skv. gildandi lögum haft að orkulindum í eigu hins opinbera. Í dag er hámarkstíminn þarna 65 ár í senn og framlengjanlegur. Meirihluti stýrihópsins álítur að stytta beri þennan hámarkstíma umtalsvert. Í skýrslunni er talað um "hóflegan tíma" og 25-30 ár nefnd í því sambandi.

Stýrihópurinn var þó ekki einhuga um þetta mikilvæga atriði. Einn nefndarmanna skilaði séráliti þess efnis að þetta þurfi að skoða mun betur áður en lögð verði fram tillaga um svo mikla styttingu á nýtingartímanum. Þetta er sennilega skynsamlegt sjónarmið.
Þó svo Orkubloggarinn álíti að eðlilegt geti verið að hafa afnotatímann almennt mun styttri en 65 ár, þá er svolítið hæpið af stýrihópnum að leggja til svona mikla styttingu - án þess að leggja fram ítarlegan rökstuðning fyrir slíkum styttri afnotatíma. Þarna hefði líka gjarnan mátt setja fram samanburð við önnur ríki. Vatnsaflsvirkjanir eru einmitt víða um heim byggðar á sjónarmiðinu um BOT (build - operate - transfer) og þar eru því mýmörg dæmi um hver afnotatíminn er. Í skýrslunni er því miður engan slíkan samanburð að finna. Og ennþá síður fjallað um hugsanlegt transfer eða leiðir í anda norsku hjemfall-reglunnar (þ.e. að virkjun skuli í lok afnotatímabils afhent ríkinu endurgjaldslaust).
Nefndin leggur ríka áherslu á að orkunýting skuli stuðla að hámarksarðsemi opinberu orkufyrirtækjanna og að raforkuverð hér eigi að færast nær því sem gerist á "meginlandsmörkuðum Evrópu". Í þessu sambandi veltir stýrihópurinn fyrir sér hversu mikið orkuverð hér geti mögulega hækkað og þar með arður opinberu orkufyrirtækjanna aukist (og þá auðvitað líka arður orkufyrirtækja í einkaeigu). Um þetta lætur nefndin nægja að vísa til kynninga Landsvirkjunar um þessi efni. Og bætir þar litlu sem engu við.

Þarna hefði nefndin hugsanlega átt að sýna örlítið meira sjálfstæði - og leita eftir fleiri sjónarmiðum um framtíðarþróun raforkuverðs í Evrópu. Það er nefnilega svo að talsvert mismunandi álit er uppi um það hvernig raforkuverð í Evrópu muni þróast á næstu árum.
Stýrihópurinn fjallaði einnig um það hvernig skuli standa að töku endurgjalds vegna nýtingu orkulinda í eigu hins opinbera. Bæði um leigu vegna auðlindanýtingar og um skattlagningu arðs af nýtingunni. Leggur nefndin til að stofnaður verði sérstakur Auðlindasjóður sem sjái um útleigu orkuauðlindanna og fái til sín endurgjald vegna nýtingarinnar.
Þó svo raforkuverðið hér hafi fram til þessa verið lágt og arður orkufyrirtækjanna því sáralítill er bæði forvitnilegt og nauðsynlegt að velta fyrir sér hvernig skynsamlegast sé að arðinum verði ráðstafað - þegar/ef hann myndast (þ.e. auðlindarentan). Í skýrslunni er lögð almenn áherslu á að í tilvikum sem hið opinbera er eigandi auðlindanna, skuli eigandinn njóta sem mest af auðlindarentunni þegar hún myndast. Í þessu sambandi eru nefnd nokkur dæmi um hvernig þetta megi gera, án þess að það sé nákvæmlega útfært. Að mati Orkubloggarans væri kannski nærtækt að fara þarna svipaða leiðir eins og gert er í Noregi. Vandinn er bara sá að arðsemin í orkuvinnslunni hér er sáralítil - og þar á verður vart mikil breyting í bráð vegna langtímasamninganna við stóriðjuna.

Það er vel að stjórnvöld hugi að þessum málum. Þær breytingar sem eru raunhæfastar og nærtækastar á íslenskum orkumarkaði í nánustu framtíð, eru þó sennilega af öðrum toga. Þar mætti nefna álitaefnið hvort hér skuli tekinn upp spot-markaður með raforku. Í huga Orkubloggarans er nánast borðleggjandi að taka upp slík markaðsviðskipti hér á landi, en um þetta er lítt fjallað í umræddri skýrslu stýrihópsins. Vonandi er þó Landsnet á fullu að huga að slíkum málum.
Eflaust má segja að þessi skýrsla sé prýðilegt innlegg í umræðu um íslensk orkumál. Og skýrslan gæti reyndar markað tímamót - ef henni verður fylgt eftir af krafti. Það sem Orkubloggaranum þótti athyglisverðast við skýrsluna eru þær áherslur skýrsluhöfunda að afnema skuli ríkisábyrgð af virkjanaframkvæmdum ríkisfyrirtækja fyrir stóriðju, að auka skuli fjölbreytni í orkunýtingu (bæði í hópi viðskiptavina og með því að kanna með nýtingu fleiri orkugjafa) og að skoða skuli ítarlega þann möguleika að tengja Ísland evrópskum orkumarkaði með sæstreng. Áherslur af þessu tagi gætu breytt miklu í íslenska orkugeiranum. Að því gefnu að hugmyndir af þessu tagi séu raunhæfar.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.11.2011 | 07:37
Keisarasprengjan
Nýlega rakst Orkubloggarinn á athyglisvert myndband, sem sýnir allar kjarnorkusprengingar sem hafa átt sér stað á jörðu hér. Þarna er um að ræða allar þær kjarnorkusprengjur sem sprengdar hafa verið í tilraunaskyni og auðvitað líka sprengjurnar sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945.

Umrætt myndband er ansið áhrifaríkt. Og maður veltir fyrir sér hvort mannkynið hafi algerlega gengið af göflunum í kjarnorkukapphlaupinu.
Til "gamans" má geta þess að stærsta kjarnorkusprengjan sem nokkru sinni hefur verið sprengd, var rússneska Keisarasprengjan (Tsar Bomba). Sprengjan sú var reyndar einungis helmingurinn af því sem til stóð. Þessi svakalega vetnissprengja átti upphaflega að vera 100 megatonn, en var á endanum höfð 50 megatonn til að forðast of mikla geislavirkni. Til samanburðar má nefna að sameiginlega voru sprengjurnar sem sprungu yfir Hiroshima og Nagasaki innan við 40 kílótonn.
Keisarasprengjan var sprengd fyrir nánast nákvæmlega hálfri öld. Það var þann 30. október 1961 að ofboðsleg eldkúlan og kjarnorkusveppurinn breiddi úr sér yfir rússnesku eyjunni Novaya Zemlaya. Það er einmitt ekki síður óhugnarlegt hversu mikið af kjarnorkutilraununum áttu sér stað hér á Norðurslóðum.
Í tilefni af stórafmæli Keisarasprengjunnar er viðeigandi að birta hér á Orkublogginu umrætt myndband af kjarnorkusprengingum hins viti borna manns. Fyrir óþolinmóða skal þess getið að myndbandið fer rólega af stað. En svo færist fjör í leikinn og allt verður hreinlega snarvitlaust. Uns þetta furðutímabil kjarnorkualdarinnar fjarar út, enda eru nú flest kjarnorkuríkin hætt að gera slíkar tilraunir:
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2011 | 18:30
Olían við Grænland
Nú er nánast slétt ár liðið frá því skoska Cairn Energy tilkynnti um að hafa fundið vísbendingar um olíu á landgrunni Grænalands. Nánar tiltekið um 4 km undir botni Baffinsflóa milli Grænlands og Kanada, um 400 km norðan við heimskautsbaug.
Þetta vakti vonir um að grænlenska olíævintýrið væri að hefjast fyrir alvöru. Í reynd skilaði þó umrædd borhola Cairn, frá sumrinu 2010, einungis óljósum vísbendingum um mögulega olíu. Og þær holur sem Cairn boraði í sumar sem leið (2011) reyndust allar vera skraufþurrar. Staðreyndin er því sú að enn hefur engin vinnanleg olía fundist við Grænland.
Upphaf olíuleitar við Grænland má rekja til þess þegar nokkrar rannsóknaholur voru boraðar á grænlenska landgrunninu fyrir meira en þremur áratugum, á vegum danskra rannsóknastofnana. Svo boraði norska Statoil eina lauflétta tilraunaholu árið 2001. Þetta átti sér allt stað á hafsbotninum vestan Grænlands.

Þó svo engin olía fyndist í þessum rannsóknum var útkoman sú að þarna gæti mögulega verið talsvert af kolvetni (olíu og/eða gas) að finna. Væntingar manna þar um jukust svo enn frekar þegar bandaríska landfræðistofnunin (US Geological Survey eða USGS) tilkynnti árið 2001, að landgrunnið milli Grænlands og Kanada hefði mögulega að geyma allt að 17 milljarða tunna af olíu. Sem er geysimikið.
Til samanburðar þá er í dag álitið að landgrunn Noregs hafi að geyma um 7 milljarða tunna af vinnanlegri oliu (hafa ber í huga að miklu meiri líkur eru á að sú olía sé fyrir hendi, heldur en gildir um grænlensku olíuna - enn sem komið er). Niðurstöður USGS gáfu sem sagt vonir um að mjög mikla olíu sé að finna í lögsögu Grænlands, en engu að síður er mikil óvissa fyrir hendi um það hversu mikil olía þarna reynist vera.
Það vor svo árið 2007 að ráðist var í fyrsta formlega olíuleitarútboðið á grænlenska landgrunninu. Áhuginn var talsverður. Og ekki var amalegt þegar USGS birti endurskoðaða spá sína um olíu á Norðurskautssvæðunum öllum árið eftir (2008). Enn og aftur voru tölurnar nánast svimandi háar. Landgrunnið út af V-Grænlandi fékk þarna að halda sínum 17 milljörðum tunna. Og að auki sagði USGS að landgrunnið við NA-Grænland væri eitthvert áhugaverðasta olíusvæði framtíðarinnar - jafnvel með um 34 milljarða tunna af vinnanlegri olíu. Samtals hefði lögsaga Grænlands því mögulega að geyma rúmlega 50 milljarða tunna af vinnanlegri olíu!
Reynist þetta rétt gæti Grænland orðið eitt af stærstu olíuríkjum veraldar. Eða með svipað magn af olíu í jörðu eins og í dag er talið að sé að finna í Rússlandi - eða Lýbíu (þau ríki bæði eru meðal mestu olíuframleiðenda heimsins). Munurinn er bara sá, að til að það borgi sig að bora eftir olíu í lögsögu Grænlands þarf olíuverð að vera a.m.k. á bilinu 50-70 USD tunnan. Meðan gumsið spýtist upp t.d. í Líbýu fyrir minna en 5 dollara á tunnuna. Þar að auki er olían við Grænland enn ekki sannreynd.
En hvað sem því líður þá er lögsaga Grænlands hugsanlega eitt af mikilvægari olíuvinnslusvæðum framtíðarinnar. Mat USGS er að um 13% af allri vinnanlegri olíu á heimskautasvæðunum (þ.e. norðan heimskautsbaugs) sé að finna í grænlenskri lögsögu. Og þá ekki síst á svæðum við NA-Grænland. Þetta er sérstaklega athyglisvert fyrir okkur Íslendinga. Vinnsla við NA-Grænland myndi augljóslega skapa Íslandi ýmsa möguleika; við erum jú næsta raunhæfa þjónustusvæðið við olíuiðnað á þessum norðlægu slóðum.
Enn sem komið er er þó engin olíuleit hafin við NA-Grænland. Athygli olíufyrirtækja hefur fram til þessa beinst að vesturhlutanum, enda er hann mun aðgengilegri. Þar hefur áðurnefnt Cairn Energy verið í fararbroddi, en fyrirtækið fékk úthlutað um 50 þúsund ferkm leitarsvæði vestur af Grænlandi í fyrsta formlega olíuleitarútboði Grænlands . Árið 2009 bætti Cairn svo við sig leitaheimild á 20 þúsund ferkm til viðbótar. Stærstu svæðin þeirra eru vestur af Diskóeyju í Baffinsflóa, en sjávardýpið þarna er víðast á bilinu 400-1500 m (sem sagt víða miklu minna dýpi en á Drekasvæðinu milli Íslands og Jan Mayen).
Cairn hefur nú verið að stússa á grænlenska landgrunninu í þrjú ár og borað einhverjar 6-7 holur. Fram til þessa hefur fyrirtækið líklega eytt sem nemur um 75 milljörðum ISK í boranirnar þar. Hver einasta hola kostar jú um 100 milljónir USD, sem jafngildir 11-12 milljörðum ISK. Hjá Cairn voru menn ansið brattir og sögðu að svæðin þeirra hefðu mögulega að geyma 4 milljarða tunna af olíu! Svo var bara að byrja að spreða. Holan sem var sögð bera merki um kolvetni var hola nefnd Alpha-1S1 og er á s.k. Sigguk-svæði (sjá kortið hér að ofan). Hún var þá rúmlega 4 km djúp. Nánari athuganir nú í sumar sem leið (2011) skiluðu engum viðbótarárangri og þegar allt kemur til alls virðist holan vera þurr.
Áður en boranirnar hófust gaf Cairn Energy það upp að fyrirtækið teldi 10-20% líkur á að hitta í mark. Því miður hefur árangur Cairn við Grænland enn sem komið er verið lítill sem enginn. Og því eins gott að fyrirtækið skuli hafa af nógu taka eftir gríðarlega vel heppnað olíuævintýri sitt í Rajasthan á Indlandi undanfarin ár. Þar gekk Cairn á brott með hátt í tug milljarð dollara!
Það er ábyrgðarhluti að bora eftir olíu - ekki síst á heimskautasvæðunum unaðslegu. Greenpeace hefur verið að gera Cairn lífið leitt með mótmælum á svæðinu og hafa truflað boranirnar. Hjá Greenpeace kalla menn olíuboranir við Grænland cowboy-drilling og segja áhættuna af olíumengun þarna skelfilegar. En áfram var borað og svo verður einnig næsta sumar (2012).
Alls segjast þau hjá Cairn ætla að setja um einn milljarð dollara í grænlenska verkefnið og hyggjast bora einhverjar holur í viðbót næsta sumar (2012). Kannski hitta þeir þá í mark - kannski ekki. Þarna þarf mikla þolinmæði og langtímasýn. Og ef ekkert gengur hjá Cairn, er vert að hafa í huga að brátt munu ExxonMobil, Chevron og Shell líka byrja olíuleit á svæðinu. Öll hafa þessi félög tryggt sér leitarsvæði vestur af Grænlandi (BP ætlaði líka að vera með í grænlenska ævintýrinu, en bökkuðu út eftir slysið á Mexíkóflóa). Olíuleitin við Grænland er rétt að byrja og ekki ólíklegt að a.m.k. 5-10 ár líði í viðbót uns menn verða almennilega varir þarna í þokunni á Baffinsflóa.
Það skemmtilegasta við þetta allt er kannski sú tilhugsun, að varla þarf nema einn eða í mesta lagi tvo vel heppnaða olíubrunna til að efnahagur Grænlands umsnúist á svipstundu. Í dag fá Grænlendingar u.þ.b. helminginn af öllum tekjum heimastjórnarinnar sem styrk frá Dönum. Eru m.ö.o. algerlega háðir dönskum peningum. En þetta eru ekki mjög háar fjárhæðir og ekki þarf að finnast mikil olía til að umsnúa efnahag Grænlendinga
Árlegi styrkurinn frá Danmörku er um 3,5 milljarðar DKK, en grænlensku fjárlögin eru alls u.þ.b. 7 milljarðar DKK eða rúmlega það. Samningar við olíufyrirtækin eru sagðir miðast við að um 60% af öllum olíuhagnaðinum renni til Grænlendinga. Grænlensk stjórnvöld hafa reiknað út að ein góð hola geti skilað Grænlendingum ca. 10 milljörðum DKK í hreinar tekjur - á hverju ári í fjöldamörg ár! Ein hola myndi skv. þessu samstundis veita Grænlendingum fjárhagslegt sjálfstæði og gott betur.
Þessi tala um áætlaðar olíutekjur er ansið há - en kannski ekki fráleit ef olíuverð verður hátt og framleiðslukostnaður í hófi. Og hvað ef þarna verða brátt komnir svona eins og 2-3 brunnar í fulla vinnslu?! Það er kannski ekki furða að Grænlendingar séu sumir svolítið spenntir þessa dagana.
Olíuleit tekur oft fjöldamörg ár uns hún skilar árangri. Og skynsamlegast að stilla væntingum í hóf - hvað svo sem verður. En vonandi kemur að því að við Mörlandar getum samglaðst þessum góðu grönnum okkar í vestri vegna efnahagslegrar velgengni þeirra.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.10.2011 | 10:27
Таван толгой
Ef einhver hefur áhuga á risatækifæri í orkuiðnaðinum getur Orkubloggarinn hvíslað eins og einni ábendingu að viðkomandi: Sem er sú kolsvarta tillaga að taka næstu flugvél til Ulan Bator, höfuðborgar Mongólíu. Og halda þaðan á traustum jeppa beint suður í Góbí-eyðimörkina - í átt að einhverju svakalegasta kolaævintýri veraldarinnar nú um stundir.

Já, í dag heldur Orkubloggið með lesendur sína á fjarlægar slóðir. Við förum alla leið austur til kolasvæðanna geggjuðu í Mongólíu, sem kennd eru við Tavan Tolgoi (sem á frummálinu er ritað Таван толгой). Fyrst skulum við þó líta aðeins um öxl.
Það var í upphafi 13. aldar að mongólski stríðsherrann Genghis Khan lagði grunninn að stærsta heimsveldi allra tíma. Útþensla þessa mikla ríkis Mongóla náði hámarki um og upp úr miðri 13. öld, en þá voru Mongólar komnir djúpt inní Evrópu. Þar sigruðu mongólsku hersveitirnar m.a. bæði Pólverja og Ungverja og mongólska keisaradæmið þá orðið mesta stórveldi heims. Og jafnvel það víðfeðmasta í mannkynssögunni allri - allt til þessa dags.

Hersveitir Gengis Khan ollu mikilli skelfingu, enda höfðu sögurnar af skefjalausri grimmd þeirra borist hratt vestur á bóginn. En þegar kom fram á 14. öld tók stórveldi Mongóla að hnigna - undir dökku skýi Svartadauða sem þá herjaði á fólk bæði í Asíu og Evrópu. Her Mongóla var smám saman hrakinn til baka og loks alla leið inn á grasslétturnar heima í Mongólíu.
Næstu sex aldirnar þótti Mongólía heldur ómerkur afkimi þessa heims - að margra mati utan Mongólíu. En nú hafa augu heimsins á ný beinst að Mongólum og Mongólíu. Eða öllu heldur að ofboðslegum málma- og náttúrauðlindum sem þar er að finna og liggja ennþá að mestu óhreyfðar. Í Mongólíu eru t.a.m. einhver allra stærstu kolasvæði heimsins. Og þó svo okkur hér í vestrinu þyki kol ekki beint "fínn pappír", þá er staðreyndin sú að kolaiðnaður heimsins er sá hluti orkugeirans sem vaxið hefur hvað hraðast undanfarin ár. Ástæða þess er fyrst og fremst efnahagsuppgangurinn í Kína og víðar í Asíu; eftirspurn frá Kína og mörgum fleiri ríkjum eftir kolum hefur stóraukist (sbr. grafið hér að neðan).

Kolanotkun Asíuþjóðanna hvorki meira né minna en tvöfaldast á einungis einum áratug! Það er sem sagt kolsvört staðreynd að kolaiðnaður er ekki bara áhugaverð sagnfræði, heldur eru kol ennþá bæði mikilvægasta stoð orkugeirans og helsti orkugjafinn i efnahagsuppgangi Kína og margra annarra ríkja. Þess vegna er kolavinnsla og -bruni nú um stundir meiri en nokkru sinni hefur verið í veröldarsögunni. Og það eru horfur á að eftirspurn eftir kolum eigi enn eftir að aukast mikið. Enda horfa nú helstu iðnríki heimsins, ásamt orku- og hrávörufyrirtækjunum, hungruðum augum til kolaauðlinda Mongólíu. Nánar tiltekið til kolasvæðanna í Tavan Tolgoi.
Og nú vex spennan vegna kolaauðlinda Mongólíu með degi hverjum. Því nýlega ákvað ríkisstjórn Mongólíu að bjóða út vinnsluréttinn að stórum hluta svæðisins kennt við Tavan Tolgoi. Þegar fréttist af þessum áformum Mongólanna, ætlaði hreinlega allt að verða vitlaust í alþjóðlega orku- og hrávöruiðnaðinum. Enda ekki á hverjum degi sem þvílíkt risatækifæri býðst í þessum orkuþyrsta heimi.

Meðal fyrirtækja sem hugsuðu sér gott til glóðarinnar og fengu kolsvartan glampa í augun, þegar fréttirnar bárust af áformum Mongólíustjórnar, má t.d. nefna hrávörufyrirtækið og fóstbróður Glencore International, þ.e. svissneska Xstrata. Og líka brasílíska orku- og námurisann Vale, stál- og hrávörursamsteypuna hans Lakshmi Mittal, þ.e. ArcelorMittal, og síðast en ekki síst hið fornfræga bandaríska kolafyrirtæki Peabody Energy (sem er þekkt fyrir að hafa umstaflað heilu fjallgörðunum í Appalachia-fjöllum og víðar um Bandaríkin). Að auki hafa stórfyrirtæki frá Rússlandi, Kína, Suður-Kóreu og Japan sýnt mikinn áhuga á að komast í kolafjöllin í Tavan Tolgoi. Þar á meðal eru hrávörusnillingar eins og sjálfur Rusal-konungurinn Oleg Deripaska.

Síðustu mánuðina hafa stjórnvöld í Mongólíu rætt við alla þessa áhugasömu aðila og leitast við að þrengja hópinn. Og nú í júlí sem leið (2011) tilkynntu þau að einungis þrír aðilar myndu koma til greina sem tilboðsgjafar i Tavan Tolgoi. Þar er um að ræða bandaríska Peabody og að auki tvær fyrirtækjasamsteypur; annars vegar rússneska og hins vegar kínverska.
Stjórnvöld í bæði Japan og Suður-Kóreu gengu hreinlega af göflunum við þessar fréttir. Enda töldu þau augljóst að þarna væru Mongólarnir að hygla rússnesku og kínversku fyrirtækjunum. Rússland og Kína eru jú næstu nágrannar Mongóla. Þarna eru geggjaðir hagsmunir á ferðinni; aðgangur að meira en milljarði tonna af kolum. Og það er kunn staðreynd að stjórnvöldum i Mongólíu er mjög í mun að halda góðu sambandi við báða þessa nágranna sína; Rússa og Kínverja. Þess vegna ætti engum að koma á óvart að rússnesk og kínversk fyrirtæki hafi fremur hlotið náð fyrir augum mongólskra stjórnvalda, fremur en fyrirtæki frá Japan eða Suður-Kóreu.

Það fór reyndar svo að Rússarnir sem þarna komust að, eru í samkrulli við bæði japönsk og kóreönsk fyrirtæki. Og Kínverjarnir eru í samstarfi við japanska fjármála- og hrávörurisann Mitsui & Co. Þannig að kannski má segja að það hafi allar nágrannaþjóðir Mongóla, ásamt vinum þeirra í Bandaríkjunum, fengið smá sneið af kökunni.
Stóru sigurvegararnir í kapphlaupinu um mongólsku kolaauðlindina eru engu að síður bandarísk, rússnesk og kínversk fyrirtæki. Það bendir sem sagt allt til þess að það verði tvær fyrirtækjasamsteypur auk Peabody Energy sem munu taka lokaslaginn um mongólsku kolanámurnar á austursvæði Tavan Tolgoi. Og þó svo Japan og S-Kórea hefðu viljað stærri skerf, þá eru það einkum fyrirtækin Vale, Xstrata og ArcelorMittal sem sitja með sárt ennið.

Rússnesku olígarkarnir Oleg Deripaska og Victor Vekselberg eru líka sársvekktir. Mongólskum stjórnvöldum þótti þeir félagarnir vera full vafasamir pappírar til að fá að vera með í lokaslagnum um þessar miklu náttúruauðlindir. Eða að mongólska forsetanum, honum Tsakhiagiin Elbegdorj, hafi bara ekki þótt þeir Deripaska og Vekselberg vera nógu stórir kallar til að taka þátt í svona risaævintýri.
Þetta sýnir okkur að jafnvel stærstu fyrirtæki heimsins og mestu auðmenn samtímans vinna ekki alltaf. En þeir vesalingar sem urðu útundan í þetta sinn, mega samt ekki missa móðinn. Því þó svo umrædd risafyrirtæki og ólígarkar hafi þarna misst af einhverjum allra stærstu kolasvæðum veraldarinnar, er ennþá af nógu að taka í Mongólíu. Landið hefur nefnilega líka að geyma mestu ónýttu gullsvæði heimsins og sömuleiðis er þar að finna nokkrar stærstu úrannámur veraldarinnar - sem flestar eru ennþá nær ósnertar.

Peabody og félagar sigruðu þessa mikilvægu lotu. Það merkir þó ekki að endanlegir samningar séu í höfn. Þar að auki munu þessir risar, þó stórir séu, ekki stille og roligt geta tiplað inní Mongólíu og drifið sig í að skafa gróðann burt. Því þótt vitað sé að umræddur hluti Tavan Tolgoi hafi að geyma meira en milljarð tonna af kolum, sem munu standa undir margra áratuga vinnslu, er langt í land með að þessi ofurvinnsla fari af stað.
Svæðið liggur djúpt inni í suðurhluta Góbí-eyðimerkurinnar og svo til engir innviðir eru fyrir hendi. Þarna vantar bæði vegi, járnbrautir, rafmagn, vatnsveitur og annað sem nauðsynlegt er til að hlutirnir komist í gang. Og frá vinnslusvæðunum eru meira en 1.500 km í næstu höfn (sem er í Kína, en frá Tavan Tolgoi eru 4.500 km í rússneska höfn). Þarna verður því þörf á sannkölluðum risafjárfestingum áður en kolamolarnir fara að hreyfast.

Samningarnir um þetta eina svæði innan Tavan Tolgoi munu þýða gríðarlega fjárfestingu í Mongólíu. Álitið er að allt að 7 milljarða USD þurfi bara í vegi, járnbrautir, háspennulínur o.þ.h. til að sjálf kolavinnslan geti hafist. Fyrirtækin eru sem sagt að taka þátt í risaveðmáli um þróun kolaverðs í framtíðinni. Áhættan er veruleg - en sömuleiðis er ávinningsvonin mikil.
Nefna mætti fyrirtækið Ivanhoe Mines sem dæmi um hvað getur gerst þegar fyrirtæki fær vinnsluleyfi í Mongólíu. Fyrir örfáum árum fékk Ivanhoe leyfi til að vinna gull og kopar í landinu - og á tveimur árum rúmlega fimmfaldaðist hlutabréfaverð fyrirtækisins. Aðgangur að náttúruauðlindum Mongólíu getur sem sagt jafngilt einhverjum stærsta lottóvinningi sem hægt er að hugsa sér.

Kolasvæðin sem nú er verið að úthluta eru einungis lítill hluta af öllum kolaauðlindunum í Tavan Tolgoi. Samtals er þetta rosalega kolasvæði allt talið hafa að geyma á bilinu 6-7,5 milljarða tonna af kolum. Sem geti skilað árlegri framleiðslu upp á tugi milljóna tonna í meira en 150 ár. Samhliða samningunum við stóru erlendu orku- og hrávörufyrirtækin, eru mongólsk stjörnvöld að undirbúa kolavinnslu á öðru svæði þarna í grenndinni, sem verður í höndum ríkisfyrirtækisins Erdenes Tavan Tolgoi. Þar er nú stefnt að hlutafjárútboði sem áætlað er að skili allt að 10 milljörðum USD!

Það er sem sagt allt að gerast þarna í mongólsku eyðimörkunum þessa dagana. Og það er gaman að sjá að bandaríska Peabody ætlar sér aldeilis ekki að láta sér þetta tækifæri sér úr greipum renna. Og vegna bandaríska Peabody skal tekið fram, að síðan kommúnistastjórnin i Mongólíu missti völdin i kjölfar falls Sovétríkjanna, hefur Bandarikjastjórn verið í afar nánu sambandi við mongólsk stjórnvöld. Það er því kannski ekkert skrítið að Peabody Energy hafi hlotið náð fyrir augum Mongólanna.
Það er líka greinilegt að Peabody nýtur góðs stuðnings frá bandarískum stjórnvöldum, enda fá fyrirtæki jafn öflug í lobbýismanum í Washington DC. Til marks um þetta má nefna að sjálfur varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, var nýverið mættur til Mongólíu að hrista spaðann á ráðamönnum þar. Og fékk í staðinn fallegan mongólskan hest að gjöf.

Þar með er loks komin íslensk tenging við Tavan Tolgoi. Því mongólski hesturinn er ekki svo ósvipaður þeim íslenska. Enda munu vera uppi kenningar um að hann sé einmitt forfaðir íslenska hestsins og hafi á sínum tíma borist frá Mongólíu til Noregs í gegnum Rússland. Skemmtilegt.
En nú verða lesendur Orkubloggsins bara að bíða spenntir og sjá hvort og hvenær mongólska þingið samþykki samningana við Peabody og félaga. Upplýsingar þar um hljóta að birtast jafnskjótt á hinum leiftrandi skemmtilega vef Tavan Tolgoi. Alveg þess virði að kíkja þar inn á hverjum einasta morgni.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2011 | 08:04
Kolaiðnaður í Paradís

Manni nánast vöknar um augu. Þegar gamli sveitasöngvarann John Prine minnist óspjallaðrar sveitasælunnar við Grænuá í Kentucky. Gömlu paradísarinnar sem bandaríski kolaiðnaðurinn og kolanámur Peabody Energy eru fyrir löngu búin að eyðileggja:
And daddy won't you take me back to Muhlenberg County,
down by the Green River where Paradise lay?
Well, I'm sorry my son, but you're too late in asking,
Mister Peabody's coal train has hauled it away.

Já; Orkubloggarinn verður ansið meyr þegar kántrý-smellurinn Paradise hljómar úr spilaranum. Smábærinn Paradise við Green River í Muhlenberg-sýslu í Kentucky er löngu horfinn af yfirborði jarðar. Þar er ekkert eftir. Nema fáeinir gamlir legsteinar, þar sem kirkjugarður bæjarins var.
Síðustu íbúar Paradísar hurfu á braut þegar bandarísk yfirvöld létu jafna bæinn við jörðu árið 1967. Það var gert vegna hrikalegrar mengunar frá kolaorkuveri þar í nágrenninu; Paradise Fossil Plant. Dag og nótt jós orkuverið, sem kennt var við sjálfa Paradís, brennisteinsmenguðum útblæstri sínum yfir bæinn. Þarna brunnu endalausir kolahaugarnir, sem lestirnar báru frá námum kolavinnslufyrirtækisins Peabody í Appalachiafjöllum og nágrenni.

Og kolunum er ennþá brennt á fullu í Paradise Fossil Plant. Þvi þó svo bærinn Paradise sé nú löngu horfinn, þá lifir orkuverið góðu lífi. Þetta risastóra kolaorkuver er í dag um 2.300 MW og framleiðir litlar 14 TWst af rafmagni árlega. Sem er nokkru meira en öll raforkuver Landsvirkjunar til samans. Eða álíka mikið eins og þrjár Kárahnjúkavirkjanir. Nema hvað Kárahnjúkavirkjun og önnur íslensk raforkuver brenna jú ekki kolum. Og eru því óneitanlega talsvert betri kostur en bandarísku kolaorkuverin!
Paradise Fossil Plant er stærsta orkuverið í Kentucky-fylki. Kentucky er vel að merkja víðfrægt kolavinnslusvæði. Um 95% af öllu rafmagni fylkisins kemur frá kolabruna. Samtals framleiða kolaorkuverin bara í Kentucky einu um 90 TWst á ári. Sem er vel rúmlega fimmfalt meiri raforkuframleiðsla en öll orkuverin á Íslandi skila af sér.

Í gegnum tíðina hafa gamalgróin kolavinnslufyrirtæki eins og Peabody Energy jafnt og þétt skóflað upp kolunum og um leið slátrað friðsælum skógivöxnum hæðunum og fjalllendinu eftir endilöngum eystri hluta Bandaríkjanna. Þar má nefna svæði í fylkjum eins og Kentucky, Pennsylvaníu og síðast en ekki síst í Vestur-Virginíu.
"Almost heaven, West Virginia... mountain mama, take me home, country roads". Það verður ekki mikið fallegra en þetta dásamlega gæsahúðarlag ljúflingsins og náttúru-unnandans John's Denver. En þessi óður Denver's heitins til náttúrunnar í Vestur-Virginíu er sjálfsagt Peabody lítt að skapi. Því einhver mestu kolasvæði Bandaríkjanna er jú að finna innan Vestur-Virginíu, rétt eins og í Kentucky. Og kolaiðnaður og náttúruvernd eiga litla samleið.

Samtals standa kol nú undir hvorki meira né minna en u.þ.b. 48% af allri raforkuframleiðslu í Bandaríkjunum. Og áfram halda ofvaxnar risaskurðgröfur kolafyrirtækjanna að skafa burtu skóginn og fjöllin. Og moka upp kolahaugunum, sem knýja stóran hluta af efnahagskerfinu þar vestra. Frá kolasvæðunum liggur stanslaus straumur járnbrautalesta, hver með tugi vagna smekkfulla af kolum. Jafnvel á okkar grænu tímum er kolaiðnaðurinn áfram á fullri ferð, rétt eins og ekkert hafi í skorist. Þrátt fyrir að kol séu langversti orkugjafinn út frá bæði umhverfis- og heilsusjónarmiðum, bendir flest til þess að kol verði áfram helsti orkugjafi mannkyns. Ekki aðeins alla þessa öld heldur jafnvel einnig þá næstu!

Það vill jú svo til að kol eru ódýrasti raforkugjafinn í veröld okkar. A.m.k. ef umhverfis- og heilsutjón sem fylgir kolagreftri, -vinnslu og kolabruna er ekki tekið með í reikninginn. Og það er ennþá til ofboðslega mikið af kolum út um veröld víða. Þess vegna gerir t.a.m. upplýsingaskrifstofa bandaríska orkumálaráðuneytisins (EIA) ráð fyrir því að kol verði enn um langa framtíð mikilvægasti orkugjafi mannkyns. Meira að segja stóraukin gasvinnsla, sem hefur skilað sér í verulegum verðlækkunum á gasi, er ekki talin ógna yfirburðastöðu kolaiðnaðarins.
Í dag er hlutdeild kolanna í raforkuframleiðslu heimsins um 40%. Og í nýjustu orkuspá EIA er gert ráð fyrir að árið 2035 verði hlutfallið nánast óbreytt; hafi einungis lækkað um örfá prósent og nemi þá 37% allrar raforkuframleiðslu heimsins. Og að kol verði áfram þýðingarmesti raforkugjafinn, jafnvel þó svo bæði gas og endurnýjanleg orka klípi aðeins af kolunum.

Raforkunotkunin í heiminum öllum er nú samtals um 19.100 TWst á ári, en því er spáð að árið 2035 verði hún 35.200 TWst. Þetta er 84% aukning. Mestöll sú aukning verður, skv. spá EIA, utan Vesturlanda og þá sérstaklega í Kína. En þó svo Kínverjar leggi mikla áherslu á t.a.m. bæði vindorku og sólarorku, þá eru það blessuð kolin sem munu standa undir stærstum hluta aukinnar raforkuframleiðslu í Kína.
Í sjálfum Bandaríkjunum mun notkun á kolum aftur á móti fara heldur minnkandi hlutfallslega séð. Skv. spám EIA munu kolin í raforkumengi USA minnka úr núverandi 48% og niður í 43% sem hlutfall af raforkuframleiðslu viðmiðunarárin 2008 og 2035. Í spánni er gert ráð fyrir að sá orkugjafi sem fylli þetta skarð verði aðallega gas, en einnig vindorka. Kol verða þó enn sem fyrr mikilvægasti raforkugjafinn i Bandaríkjunum.

Svona spár eru auðvitað mjög óvissar. En vert er að hafa huga að bandaríski kolaiðnaðurinn er með eitthvert öflugasta lobbýistagengið í Washington DC. Fyrir vikið tala pólítíkusarnir þar vestra lítt um neikvæð umhverfisáhrif kolaiðnaðarins. En þeim mun meira um tækifærin i clean coal og að brátt verði kolaorkan nánast orðin skærgræn!
Þetta er sérstaklega skemmtilegt þegar haft er í huga að í gegnum tíðina hefur Peabody jafnan barist með kjafti og klóm gegn sérhverri nýrri umhverfislögjöf sem komið hefur til tals westur í Washington DC. Tímamótalöggjöf um að draga úr brennisteinsmengun frá kolaorkuverum (Clean Air Act) náði nú reyndar samt í gegn. Þrátt fyrir all svakalega andstöðu Peabody. Þeir vinna ekki alltaf, blessaðir.

Það er annars af Peabody Energy að frétta, að í dag er fyrirtækið stærsta einkarekna kolavinnslufyrirtæki veraldar. Kolin frá Peabody knýja nú u.þ.b. 10% af allri raforkuframleiðslu í Bandaríkjunum. Og þegar litið er til heimsins alls nemur raforkan frá kolum Peabody um 2% af allri raforku sem framleidd er á jörðu hér.
Í fyrra voru tekjur Peabody rétt um 7 milljarðar USD og hagnaðurinn hvorki meira né minna en rúmlega 1,8 milljarðar dollara. Fyrirtækið beitir nú öllum sínum áhrifum til að sannfæra bandaríska þingmenn og stjórnvöld um að samþykkja nýja orkustefnu, sem leggi megináherslu á að nýta bandarísk kol í enn meira mæli en hingað til hefur verið gert. Og að stefnt skuli að því að kolanotkun í Bandaríkjunum tvöfaldist fyrir árið 2025.

Í reynd verður þó vöxtur Peabody næstu árin sennilega mestur lengst austur í Asíu. Auk Bandaríkjanna er Peabody löngu orðið umsvifamikið í Ástralíu og fer hratt vaxandi í Kína. Að auki stendur nú til að fyrirtækið opni brátt einhverja allra stærstu kolanámu heims austur í Mongólíu. Þar er nefnilega að fara í gang ofsalegasta kolaævintýra allra tíma! Þar munu Peabody og félagar brátt geta sönglað "Almost heaven, South Mongolia!". Kannski meira um það magnaða Mongólíu-verkefni síðar hér á Orkublogginu.
Höfum hugfast að kol eru langmikilvægasti raforkugjafinn. Og að svo verður að öllum líkindum um langa framtíð. Það má því segja, að það sé svo sannarlega langt í frá að kolaiðnaðurinn sé á leið úr Paradís. Og varla ástæða til annars en að kolavinnslurisinn Peabody eigi bjarta framtíð fyrir höndum. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr.
3.10.2011 | 00:19
Gullæði í Yukon
Hver man ekki eftir þeirri frábæru Chaplin-mynd Gullæðinu! Þegar Big Jim, hinn frjálslega vaxni vinur litla flakkarans, sturlaðist af hungri. Og ætlaði að slátra Chaplin og éta hann í hrörlegum kofanum úti í óbyggðum Klondike.

Til allrar hamingju náði litli flakkarinn að koma vitinu fyrir langhungraðan félaga sinn. Og svo loksins bar gullleitin árangur. Þeir félagarnir fundu heilt gullfjall; "GOLD, GOLD, a mountain of gold!"
Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að i þessu geggjaða gullæði lengst norður í Klondike í Kanada í lok 19. aldar, mun aldrei hafa fundist nein almennileg gullæð. Og auðvitað ennþá síður heilt gullfjall. Heldur bara smámolar og agnir á víð og dreif. Þetta er engu að síður eitthvert frægasta gullæðið sem um getur. Og Klondike löngu orðið samnefnari yfir það þegar æðisgengin ágóðavon myndast hjá hópi fólks.
Gullæðið í Klondike fyrir rúmum hundrað árum, í nágrenni við bæinn Dawson í Yukon á mörkum Alaska og Kanada, var svo sannarlega æðisgengið. Jafnskjótt og fréttist af gullmolunum sem fundist höfðu í s.k. Kanínulæk (Rabbit Creek) í Yukon síðsumars árið 1896, tóku vongóðir gullgrafarar að streyma á svæðið. Rabbit Creek var í snarhasti umskírður Bonanza Creek. Og á örskömmum tíma óx íbúafjöldi Dawson úr nokkrum vesælum drottinssauðum í um 40 þúsund manna gullgrafaraborg!

Þar með varð Dawson nánast á svipstundu stærsta borgin í vesturhluta Kanada. Og t.a.m. fjölmennari en sjálf Vancouver. Það furðulegasta er að Dawson og Klondike urðu þó alls ekki villta norðrið. Kanadísku riddaralögreglunni tókst nefnilega á einhvern ótrúlega farsælan hátt að halda uppi lögum og reglu í þessu nýja og gríðarlega fjölmenna samfélagi gullgrafaranna.
Gullæðið þarna í Klondike fyrir meira en öld síðan varð á tímum mikils atvinnuleysis í Bandaríkjunum. Árið 1893 hafði hlutabréfabóla í járnbrautarfyrirtækjum sprungið með tilheyrandi risaafskriftum og bankagjaldþrotum (svoleiðis áföll af völdum gáleysilegra lána banka til braskara eru nefnilega engin nýlunda í blessuðum kapítalismanum!). Þessari bankakreppu fylgdi verðfall á hrávörum eins og hveiti og baðmull, en verðfallið hafði þá keðjuverkun að fjöldagjaldþrot urðu meðal bandarískra bænda. Loks varð stórfelld en misheppnuð spákaupmennska með silfur á þessum sama tíma, til að auka enn á kreppuna. Sjaldan er ein báran stök.
Álitið er að þessi djúpa efnahagslægð í Bandaríkjunum í lok 19. aldar hafi valdið hátt í 20% atvinnuleysi þegar mest varð! Enda fór svo að um leið og fréttist af gullfundinum í Klondike árið 1896 streymdu þúsundir og aftur þúsundir Bandaríkjamanna af stað þarna óralangt í norður. Í von um að bjarga bágum fjárhagnum.

Einnig komu hópar ævintýramanna frá Evrópu og bættust þeir í fjöldann á leið sinni til Yukon. Sumir gullgrafararnir fóru sjóleiðina til Alaska og svo upp með Yukon-ánni. Aðrir fóru landleiðina og um hið fræga Chilkoot-skarð. Skarðið sem Chaplin gerði ódauðlegt í áðurnefndri kvikmynd sinni; The Gold Rush frá 1925.
Og svo sannarlega var gull í Klondike. Og uppsveiflan sem það olli í Bandaríkjunum nægði til að fleyta landinu áfram - um skeið. Eða fram að næstu efnahagsdýfu, sem varð árið 1907. En þá sprakk koparbóla í andlitið á fjölmörgum bandarískum bönkum, sem lánað höfðu gáleysislega í spákaupmennsku með hlutabréf í koparfyrirtækinu United Copper. Jamm; svona gengur blessaður kapítalisminn í hringi og virðist aldrei geta haldið sig lengi innan skynsamlegra marka. Og ennþá síður lært af reynslunni. En það er allt önnur saga. Í dag horfum við til gullsins í Klondike.

Gullæðinu í Klondike var að mestu lokið árið 1899; einungis þremur árum eftir að það hófst. Aldamótaárið 1900 var íbúafjöldinn í Dawson kominn niður í um 5 þúsund manns og þar fækkaði áfram jafnt og þétt. Svæðið var að vísu áfram að einhverju leyti vettvangur gullleitar og -vinnslu. En í nútímanum er Dawson einungis um 1.200 manna bær. Sem síðustu árin og áratugina hefur fyrst og fremst verið þekktur sem ferðamannabær fólks í sumrafríi. Og einskonar safn um þennan furðulega tíma gullæðisins í Klondike fyrir meira en hundrað árum.
Gullæðið í Klondike er sem sagt löngu liðið. Eða hvað? Nú meira en öld eftir að gullgrafararnir héldu svo tugþúsundum skipti aftur heim frá Klondike, eru undarlegir atburðir að gerast þarna lengst norður í rassgati. Á allra síðustu árum hafa augu gullnámuiðnaðarins skyndilega á ný beinst að svæðunum í nágrenni Yukon-árinnar. Það virðist hreinlega sem nýtt gullæði sé byrjað í Klondike!
Til marks um hvað þetta svæði er afskekkt, þá er það t.d. óralangt norðan við barrskógana sem nú er verið að ryðja í Kanada til að skófla upp olíusandinum sem þar er að finna. En það magnaðasta í þessari enduruppgötvun á gullinu í Yukon er að hana virðist nær alfarið mega rekja til tveggja sveppatínslumanna. Sem eru kanadísk hjón á fimmtugsaldri; þau Shawn Ryan og Cathy Wood.

Til skamms tíma bjuggu þau hjónakornin Shawn og Cathy ásamt ungum börnum sínum í hálfgerðum skógarkofa í fjalllendinu á mörkum Alaska og Kanada. Þar framfleyttu þau sér með því að tína eftirsótta matarsveppi, sem þau gátu selt til fínustu veitingahúsa suður í "menningunni". Shawn Ryan er sonur námuverkamanns frá Ontario-fylki í Kanada. Strákurinn tók snemma stefnuna á afskekkta staði þar sem grípa má í námavinnu eða önnur tilfallandi störf. Ævintýraleit Ryan's bar hann loks til Dawson í Yukon á tíunda áratugnum. Þar kynntist hann Kötu sinni og saman lifðu þau hálfgerðu villimannalífi þarna norður í auðninni og framfleyttu sér m.a. á sveppatínslunni.
En jafnvel sveppir eru háðir markaðslögmálunum. Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í New York og Washington DC í september 2001 snarféll eftirspurnin eftir þessum stórfínu matarsveppum. Fyrir vikið steyptust nú blankheitin yfir fjölskylduna. Sem var ekki beinlínis það besta sem skeður, þegar vetur var að ganga í garð á slóðum þar sem frostið fer niður í allt að -50 gráður á celsius.

Ryan hafði þá um skeið velt fyrir sér þeim möguleika hvort finna mætti einhverjar leifar af gulli á svæðinu. Þrátt fyrir lágmarksmenntun virðist sem hann hafi haft góðan sans fyrir jarðfræði og sé glöggur á að átta sig á því hvar gull sé helst að finna. Ryan var hugsi yfir því að gullæðið í Klondike hafði aðallega falist í gamaldags gulleit, þar sem menn sigta gullagnir og -mola úr árfarvegum. Þangað hefur gullið dreifst frá sjálfum gullæðunum í berginu, en í Klondike höfðu sjaldnast fundist neinar slíkar æðar. Ryan taldi að þarna hlyti ennþá að vera unnt að finna leifar af gulli og jafnvel einhverjar óraskaðar gullæðar - ef maður bara leitaði á réttum stöðum.

Shawn Ryan lagðist nú yfir bunka af gömlum skýrslum um gullleitina fyrir meira en öld síðan. Og jafnskjótt og frost fór úr jörðu byrjaði hann, með þrjósku og útsjónarsemi að vopni, markvisst að leita að gulli á svæðinu. Þetta var sem fyrr segir uppúr aldamótunum síðustu - fyrir um áratug síðan. Ryan gerði uppdrátt af svæðinu og byrjaða að safna grjóti og jarðvegssýnum með afar skipulögðum hætti. Þessu öllu hlóð hann svo á pallbílinn í vandlega merktum pokum. Og skrölti svo með sýnishornin í rannsókn til bæjarins Whitehorse, sem er höfuðstaður Yukon og liggur langt suður af Dawson.
Og þá gerðist hið óvænta. Sum sýnishornanna höfðu að geyma svo mikið af gulli að grundvöllur gæti verið fyrir námavinnslu! Shawn Ryan hafði kortlagt sýnatökuna af nákvæmni og eyddi nú síðustu dollurunum sem til voru á heimilinu til að kaupa námuréttindi á nokkrum reitum. Þessi réttindi selja kanadísk stjórnvöld gegn vægu gjaldi. Það fyrirkomulag er í reynd hluti af byggðastefnu gagnvart þessum fámennu og hnignandi svæðum í norðanverðu Kanada. Hver reitur er venjulega 25 hektarar (500 metrar á kant). Menn hafa svo ákveðinn tíma til að nýta svæðið, en verða ella að skila leyfinu til baka.

Nú er það vissulega svo að risafyrirtæki eins og Barrick Gold eða BHP Billiton eru auðvitað þau sem stjórna gullnámuiðnaðinum. Engu að síður er ennþá til það sem kannski mætti kalla venjulega old fashioned gullleitarmenn. Beri leit slíkra gullgrafara árangur er algengt að gullvinnslufyrirtækin eða spákaupmenn kaupi af þeim viðkomandi námuréttindi (þ.e. vinnsluréttindin á viðkomandi reit). Gegn mishárri greiðslu.
Slíkir samningar hljóða gjarnan þannig, að viðkomandi gullgrafari fái tilteknar prósentur af framtíðartekjum svæðisins. Reynist um góða gullnámu að ræða getur seljandinn (upphaflegi rétthafinn) orðið vellauðugur í fyllingu tímans. Oftast er árangur námuvinnslunnar og hagnaðurinn þó auðvitað ekkert óskaplegur og oft jafnvel enginn.

Námufyrirtækin kaupa auðvitað ekki hvað sem er. Og það er löng leið frá því að einmana sérvitringur finni merki um gull, þar til vinnsla fari í gang. Þarna í millitíðinni koma oft ýmis fyrirtæki og fjárfestar að verkefnunum í því skyni að sannreyna hverju svæðið kann að geta skilað. Og Shawn Ryan tókst einmitt að vekja athygli slíks fyrirtækis á einum reitnum og selja hlutdeild i honum fyrir dágóða upphæð. Þá peninga nýtti hann til að festa sér ennþá fleiri reiti. Að auki keypti hann hugbúnað til að geta kortlagt svæðið í tölvunni hjá sér, sem hjálpaði honum að átta sig betur á því hvaða svæði væru þau álitlegustu.
Fljótlega tókst Ryan að finna fleiri áhugaverð svæði. Og það eru jafnvel vísbendingar um að hann hafi fundið stóra gullæð í nágrenni við Yukon-fljótið. Samhliða þessum góða árangri fór gullverð jafnt og þétt upp á við, þ.a. að áhugi námufyrirtækja og fjárfesta á vænlegum gullvinnslusvæðum óx hratt. Með sölu á hlutdeild í fleiri reitum til námufyrirtækja eru þau hjónakornin nú skyndilega orðin milljónamæringar í dollurum talið. Og reynist einhver náman almennilega ábatasöm, munu samningar um hagnaðarhlutdeild hugsanlega gera þau að milljarðamæringum!

Nýlega fluttu þau Shawn Ryan og spúsa hans með krakkana suður til Whitehorse. Þar hafa þau nú stofnað fyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf við gullleit, með þátttöku nokkurra fjárfesta. Ekki virðist ofmælt að Shawn Ryan sé nánast orðin lifandi goðsögn í Yukon-fylki. Og hann getur leift sér að brosa í kampinn þegar hann er minntur á að samanlagðir reitirnir sem þau hjónin hafa tryggt sér, eru nú orðnir stærri að flatarmáli en Luxembourg. Mörg af þeim svæðum eru talin hafa að geyma talsvert af vinnanlegu gulli. Enda streymir nú fjöldi fyrirtækja inn á svæðin í nágrenni Yukon-árinnar. Og mörg þeirra fyrirtækja hafa sóst eftir samstarfi við Ryan og þau hjón.
Já - það lítur hreinlega út fyrir að nýtt gullæði sé skollið á í Klondike. Fjölmörg námufyrirtæku eru komin á svæðið og stjórnvöld hafa vart undan við að stimpla leyfi um námuréttindi. Shawn Ryan er í dag forstjóri og stór hluthafi í Ryan Gold, sem skráð er í TSXV kauphöllinni í Calgary. Að auki eiga þau hjónin hlut í fjölmörgum gullleitar- og vinnsluleyfum, sem ýmis námufyrirtæki og/eða spekúlantar hafa keypt hlutdeild í.

Ennþá er þó ekki útséð um hvort þetta ævintýri norður í Yukon verði bara nýtt 3ja ára Klondike eða varanleg alvöru námuvinnsla. Hækkandi gullverð síðustu árin hefur eðlilega ýtt undir áhuga gullnámuiðnaðarins. Ómögulegt er að segja hvað gerist ef/þegar gullverð fellur verulega á ný. Kannski á nýja gullæðið í nágrenni Klondike eftir að skila Kanada fjölmörgum nýjum milljarðamæringum - en kannski fjarar það bara hægt og rólega út. Enn sem komið er byggir ævintýrið þarna í auðnum Kanada fyrst og fremst á væntingum og engan veginn víst hvað verður.
Til eru þeir sem eru tortryggnir á þetta nýja gullæði og segja það einkennast af alltof mikilli bjartsýni. En Shawn Ryan þykir engu að síður vera afbragðsgott dæmi um hvernig gamla góða Vestrið (eða Norðrið!) býður enn þann dag í dag upp á tækifæri fyrir harðduglegt fólk. Fólk sem með þolinmæði, þekkingu og þrautsegju sína að vopni getur náð hreint mögnuðum árangri.

Íbúar Dawson og fleiri bæja í Yukon upplifa nú óvænta veltuaukningu og eftirspurn eftir bæði húsnæði og vinnuafli. Það eru sem sagt lítil merki um kreppu þarna norður í strjálbýlustu en einhverjum sumarfegurstu héruðum Kanada. Hafi lesendur Orkubloggsins hug á því að freista gæfunnar sem gullgrafarar í Yukon, er þó vert að hafa í huga að þarna er skelfilega mikill kuldaboli á veturna. Og því eins gott að taka með sér bæði almennilega þykka íslenska dúnsæng og lopapeysu! Eða einfaldlega bíða næsta vors.
1.10.2011 | 12:20
Sólsetur á Vesturlöndum enn á ný?
Orkubloggið hóf göngu sína snemma árs 2008.
Þá voru miklir uppgangstímar í endurnýjanlegri orku. Svo um haustið kom efnahagsskellurinn í Bandaríkjunum; olíuverð snarféll og dró allan græna orkugeirann með sér í svaðið. Svo varð Obama forseti í Bandaríkjunum, bandarísk stjórnvöld hófu að dæla peningum í endurnýjanlega orku og á sama tíma byrjuðu hlutabréfamarkaðir að rétta úr sér.

Nú virðist aftur á móti sem allt sé aftur að fara niður á við. Spár um double-dip kreppu gætu gengið eftir. Vantrú á efnahagslífinu er byrjuð að valda verðfalli á olíu og um leið fær endurnýjanlegi orkugeirinn högg. Við þetta bætast svo raðgjaldþrot í bandaríska sólarorkuiðnaðinum - og sólarorkufyrirtæki í Evrópu eiga líka sum í verulegum vandræðum. Kínversk sólarsellufyrirtæki hafa síðustu misserin og árin undirboðið vestrænu fyrirtækin all svakalega og svo virðist sem kínverski sólarselluiðnaðurinn sé hreinlega að gleypa heimsmarkaðinn.
Sem dæmi um nýleg gjaldþrot má nefna hrun Solyndra og Sterling Energy Systems vestra. Meira að segja norska spútnikfyrirtækið REC virðist í vandræðum. Og það er ekki nóg með að þetta þýði skell á verðbréfamörkuðum. Sjálft Hvíta húsið nötrar nú vegna gagnrýni á framkvæmd orkustefnu Obama-stjórnarinnar. Mörg sólarorkufyrirtæki og önnur fyrirtæki í endurnýjanlega orkugeiranum nýttu sér ríflegar skuldatryggingar í boði stjórnvalda. Og náðu þannig að fjármagna verkefni sem annars hefðu orðið ansið þung. Gjaldþorot Solyndra gæti þýtt að um 530 milljóna USD ábyrgð falli á bandaríska ríkið. Ef þetta er bara toppurinn á ísjakanum - eða upphafið að dómínófalli í græna orkugeiranum - er mikil dramatík framundan.

Það er svolítið sérstakt að ríkisafskipti af orkugeiranum eru óvíða meiri en í vöggu einkaframtaksins; Bandaríkjunum. Og þarna kunna menn að hafa farið full geyst. Sjálfur hefur Orkubloggarinn hér á blogginu ítrekað minnst á þann möguleika að hrunið sem varð í bandarískra orkugeiranum upp úr 1980 geti endurtekið sig. Þá var opinberu fé einmitt líka dælt í sólarorkutækni og margs konar önnur frumkvöðlaverkefni í orkumálum. Sólarsellur voru settar á Hvíta húsið, risastór speglasólarorkuver voru reist með aðstoð hins opinbera útí Mojave-eyðimörkinni og nú skyldu Bandaríkin hrista af sér fíkn sína í innflutta olíu. Þetta fór allt um koll um leið og þrengdi að í efnahagslífinu og olíuverð lækkaði.

Það er þetta stef sem virðist vera að endurtaka sig nú þremur áratugum síðar. Enda virðast menn aldrei geta lært af fyrri mistökum. Spurningin er bara hversu fallið verður mikið í þetta sinn? Eitt er þó nokkuð víst. Græni orkugeirinn mun rísa upp á ný - og verða blómlegri sem aldrei fyrr. Þar til bólan springur aftur. Það eru einmitt þessar miklu sveiflur í endurnýjanlega orkugeiranum sem gera hann alveg sérstaklega spennandi og skemmtilegan viðfangs.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.9.2011 | 11:04
ExxonMobil í gersku ævintýri?

Rússneska ríkisolíufélagið Rosneft hefur vaxið með ævintýralegum hraða síðustu árin.
Rosneft er í dag langstærsta olíufélagið í Rússlandi. En fyrir einungis örfáum árum var Rosneft nánast bara eins og hvert annað smápeð innan um einkareknu hákarlana; orkufyrirtæki rússnesku olígarkanna.
Á tímum Sovétríkjanna og fyrstu árin eftir hrun þeirra var olíuiðnaðurinn þar eystra allur á hendi ríkisins. Þetta gjörbreyttist á tímum ofurhraðrar einkavæðingarinnar í Rússlandi á 10. áratugnum. Fljótlega eftir að Boris Jeltsín varð forseti hins nýja rússneska ríkis um mitt ár 1991, réðust Jeltsín og menn hans í víðtæka endurskipulagning á efnahagslífinu. Þar hafði ríkið verið allt i öllu, en nú hófst hröð einkavæðing og þ.m.t. voru nær öll helstu orkufyrirtæki landsins. Brátt var svo komið að hin einkareknu Yukos, Sibneft, Lukoil og TNK réðu mestu í rússneska oliuiðnaðinum.

Eflaust var það þungavigtarmaðurinn Viktor Chernomyrdin sem var helsti arkitektinn að einkavæðingu rússneska orkugeirans. Chernomyrdin hafði verið ráðherra gasmála í sovéska stjórnarráðinui frá 1985. Og hann varð stjórnarformaður gasfyrirtækisins Gazprom þegar það var tekið út úr orkumálaráðuneytinu árið 1989 og gert að hlutafélagi í eigu ríkisins. Við fall Sovétríkjanna var Chernomyrdin því einhver valdamesti maðurinn í sovéska orkuiðnaðinum.
Fljótlega eftir valdatöku Jeltsin's var Chernomyrdin gerður að aðstoðarforsætisráðherra, með ábyrgð á orkumálum. Hann gjörþekkti rússneska orkugeirann og svo fór að það voru einmitt nokkrir samstarfsmenn Chernomyrdin's sem urðu hvað mest áberandi í einkavæðingu orkufyrirtækjanna.

Ferli Chernomyrdin's lauk aftur á móti snarlega við valdatöku Vladimir Pútín's um aldamótin 1999/2000. Pútín setti þá Chernomyrdin af sem stjórnarformann Gazprom og skipaði í hans stað lítt þekktan mann; Dmitry nokkurn Medvedev. Medvedev átti fljótlega eftir að verða lykilmaður í rússneskum stjórnmálum; varð forsætisráðherra Rússlands og er nú forseti landsins. Skemmtilegt. Nokkrum árum síðar átti hann svo eftir að hengja heiðursmerki á Chernomyrdin fyrir vel unnin störf fyrir Rússland. Engu að síður var frávikningin úr stóli stjórnarformanns Gazprom niðurlægjandi fyrir Chernomyrdin, sem lauk ferli sínum sem sendiherra Rússlands í Úkraínu. Kannski var það huggun harmi gegn að hann hafði þá önglað saman yfir einum milljarði dollara í sinn eigin vasa - í gegnum hlutabréf í Gazprom.

En höldum okkur við einkavæðinguna á rússnesku orkufyrirtækjunum. Sem fór fram í stjórnartíð Jeltsín's - og Chernomyrdin's. Í fyrstu var einkavæðingin framkvæmd með því móti, að hver ríkisborgari fékk hlut eða kauprétt í viðkomandi fyrirtækjum. Í framhaldinu gerðist það, að menn með góðan aðgang að fjármagni keyptu þessa litlu hluti í stórum stíl. Og eignuðust þannig brátt ráðandi hlut í mörgum fyrirtækjanna.
Þegar leið fram á miðjan 10. áratuginn var tekin upp ný aðferð við einkavæðinguna. Forsetakosningar nálguðust (2006), en rússneska ríkið var illilega fjárvana og rekið með miklum halla. Þá var gripið til þess ráðs að ríkið óskaði eftir lánum gegn veðum í hlutabréfum í útvöldum ríkisfyrirtækjum (á ensku var þetta nefnt loans for shares program). Á þessum tímapunkti hafði tiltölulega lítill hópur manna náð sterkum tökum á rússnesku efnahagslífi og ekki síst fjármálalífinu. Flestir voru þeir fyrrum embættismenn í lykilstöðum og/eða í innsta hring samstarfsmanna Jeltsin's. Þeir sáu sér nú leik á borði að nýta sér ráðandi stöðu sína innan hins einkavædda bankakerfis og tengsl sín við erlenda banka, til að fjármagna lánveitingar sínar til rússneska ríkisins gegn veðum í nokkrum mikilvægustu ríkisfyrirtækjum landsins. Þ.á m. voru flest stærstu orkufyrirtækin.
Að vísu höfðu stjórnvöld sett reglur í tengslum við lánaútboðið, sem áttu að tryggja að þessi fjármögnunarleið myndi ekki leiða til of mikillar samþjöppunar valds í efnahagslífinu. Reglurnar voru tvenns konar. Annars vegar skyldi tilboðsferlið vera opið og gagnsætt, þ.a. að allir áhugasamir kæmust þar að. Hins vegar var sett hámark á hversu stóran hlut í ríkisfyrirtækjunum hver lánveitandi gæti fengið veð í. Þetta síðastnefnda átti að koma í veg fyrir samþjöppun eignarhalds, ef lánin gjaldféllu og gengið yrði að veðunum.

Þegar á reyndi héldu þessi skilyrði auðvitað ekki vatni. Því í fyrsta lagi gátu menn stofnað mörg félög og látið hvert og eitt þeirra bjóða lánsfé gegn hámarksveði - og þannig safnað fjölda veða í sama ríkisfyrirtækinu á eina og sömu hendi. Í öðru lagi reyndist nánast engin samkeppni vera um að bjóða ríkinu lánsfé! Það var líklega þarna sem spillingin varð hvað mest áberandi. Einstakir menn eða hópar samstarfsmanna einbeittu sér að mismunandi fyrirtækjum og virtist jafnvel sem sú klíkustarfsemi ætti sér stað með þegjandi samþykki ríkisins.
Niðurstaðan varð sú að mörg helstu fyrirtæki Rússlands, þ.á m. flest stærstu og mikilvægustu orkufyrirtækin, urðu brátt alfarið á valdi örfárra manna. Þeir hinir sömu urðu svo fljótlega hinir formlegu eigendur orkufyrirtækjanna, því í flestum tilvikum gjaldféllu lánin og þá runnu fyrirtækin til lánveitandanna. Sem sjálfir höfðu útvegað lánsféð með aðgangi sínum að rússneskum einkabönkum og erlendum bönkum.

Eitthvert besta dæmið um þetta er hvernig tveir menn eignuðust þáverandi annað stærsta olíufélag Rússlands; Sibneft. Þrátt fyrir reglur um gagnsætt útboðsferli og markmið um dreifða veðhafa, náðu þeir tilvonandi Íslandsvinurinn Roman Abramovich og viðskiptafélagi hans Boris Berezovsky að eignast meirihluta í Sibneft. Bæði Abramovich og Berezovsky voru vel að merkja nánir samstarfsmenn Jeltsin's. Og verðið fyrir þennan rúmlega helmingshlut í Sibneft var einungis um 100 milljónir USD, þó svo fyrirtækið væri þá af flestum álitið nokkurra milljarða dollara virði. Þeir félagarnir þáverandi voru sem sagt með besta boðið um lán til ríkisins gegn veði í hlutabréfum í Sibnef; lán upp á einungis um 100 milljónir USD gegn veði í um helmingshlut í þessu risafyrirtæki. Af einhverjum dularfullum ástæðum bauð þar enginn betur.
Svipað gerðist með annað ennþá frægara rússneskt olíufélag, Yukos. Einnig komst Lukoil í einkaeigu. Það var hinn bráðungi Mikhail Khodorkovsky sem eignaðist Yukos og Vagit Alekperov varð stærsti eigandi Lukoil. Þeir voru báðir fyrrum aðstoðar-orkumálaráðherrar í ríkisstjórnum Rússlands og því nánir samstarfsmenn áðurnefnds Viktors Chernomyrdin. Loks náðu Mikhail Fridman og viðskiptafélagar hans í Alfa Group olíufélaginu TNK í sínar hendur. Fridman hafði þá um skeið verið í ýmsu samkrulli með nokkrum ráðherrum í ríkisstjórn Jeltsin's.

Þar með var rússneska ríkið búið að láta af hendi stærstan hluti rússneska olíuiðnaðarins til örfárra manna. Þeir áttu það flestir ef ekki allir sammerkt að hafa annað hvort verið hátt settir stjórnendur hjá sovéska framkvæmdavaldinu eða í innsta hring samstarfsmanna Borisar Jeltsín. Segja má að eina krúnudjásn orkugeirans sem var enn í höndum rússneska ríkisins hafi verið gasfyrirtækið Gazprom. Þar var rússneska ríkið ennþá stærsti hluthafinn, en var þó reyndar líka búið að selja meirihluta hlutabréfanna í Gazprom (hlutur ríkisins þar var á þessum tíma kominn undir 40%).
Sitt sýnist hverjum um það hversu mikil spillingin hafi verið í rússneska útboðsferlinu. Til eru þeir sem segja að þetta hafi reynst farsæl leið til að koma illa reknum félögum í lag. Það er vissulega staðreynd að einkavæðingin varð til þess að mörg rússnesku ríkisfyrirtækjanna sem höfðu verið að þroti komin, náðu nú að blómstra. Það er til marks um velgengnina að einungis örfáum árum síðar (2001) keypti Abramovich Berezovsky út úr Sibneft fyrir um 1,3 milljarða USD. Á þeim tíma var Berezovsky lentur illilega upp á kant við Pútín og var kominn í sjálfskipaða útlegð í London. Þar með varð lýðnum ljóst að Roman Abramovich var á örfáum árum orðinn einhver ríkasti maður veraldar. Rétt eins og Mikhail Khodorkovsky, aðaleigandi Yukos.

Það er kannski ekki hlaupið að því að einkavæða helstu ríkisfyrirtæki lands án þess að upp komi gagnrýni. Þetta gildir sjálfsagt bæði um Rússland og Ísland og eflaust fleiri lönd. En hvort sem rúsneska einkavæðingin var góð eða slæm, þá varð afleiðingin sú að á örskömmum tíma urðu örfáir menn handhafar að stórum hluta allra olíu- og gaslinda í Rússlandi. Nánast á augabragði varð til hin nýja stétt ofurauðugra manna í Rússlandi; s.k. ólígarkar.
Eftir stóð rússneska ríkið allsbert með sitt litla Rosneft. Meira að segja meirihlutinn í gasrisanum Gazprom hafði verið einkavæddur og þar var rússneska ríkið orðið minnihlutaeigandi. Og það var eiginlega bara tilviljun að Rosneft hafði ekki lika verið selt. Á tímabili virtist vera ríkur vilji til að koma Rosneft úr höndum ríkisins, en einnig voru uppi áætlanir um að sameina fyrirtækið Gazprom. Á endanum varð ekkert úr þessu og rússneska rikið var því áfram eigandi að Rosneft. Félagið skipti hvort sem er litlu; það samanstóð af nokkrum lélegustu eignunum sem verið höfðu innan sovéska orkumálaraðuneytisins. Þarna var einungis um að ræða tvær úr sér gengnar olíuhreinsistöðvar og fáeinar hnignandi olíulindir.

Skömmu fyrir aldamótin var sem sagt svo komið að örfáir menn höfðu stærstan hluta rússneska orkugeirans í sínum vösum. Árið 1998 fóru þar að auki að heyrast sögur um að þeir Abramovich og Khodorkovsky væru spenntir fyrir að sameina Sobneft og Yukos og búa þannig til langstærsta olíufélag Rússlands. Af þessu varð þó ekki, en þessar fyrirætlanir voru áfram í umræðunni. En þá gerðist það um áramótin 1999/2000 að ólíkindatólið Boris Jeltsín sagði skyndilega af sér sem forseti Rússlands. Og inn á sviðið steig fyrrum KGB-foringinn Vladimir Putin.
Pútín tók strax að vinna að því markmiði að Kreml yrði á ný ráðandi í olíuiðnaði landsins. Fyrstu árin gekk þetta hægt. Khodorkovski, aðaleigandi og forstjóri Yukos, þráaðist við og fór meira að segja að skipta sér af stjórnmálum og gagnrýndi Pútín af talsverðri hörku. Þegar svo hreyfing komst á ný á sameiningu Yukos og Sibneft var Kremlverjunum orðið nóg boðið. Þarna hefði orðið til rosalegur olíurisi, sem hefði haft tögl og haldir í rússneska olíuiðnaðinum - og alfarið verið í höndum einkaaðila. En þessar fyrirætlanir þeirra Khodorkovsky og Abramovich, sem þá voru tveir auðugustu menn Rússlands og þó víða væri leitað, gengu aldrei eftir.

Nú fór í gang hröð atburðarás, sem líktist um margt mera skáldsögu en raunveruleikanum. Khodorkovski var handtekinn með dramatískum hætti síðla árs 2003, dæmdur í langa fangelsisvist og Yukos fór í gjaldþrot í kjölfar meintra stórfelldra skattsvika. Um sama leyti féllust nokkrir aðrir ólígarkar snarlega á að selja 12% hlut sinn í Gazprom til rússneska ríkisfyrirtækisins Rosneftgaz. Þar með var rússneska ríkið komið með yfirráð yfir meira en helmingshlut í Gazprom (fyrir þessa sölu hafði ríkið verið minnihlutaeigandi í Gazprom með rétt tæp 39%). Þarna urðu Gazprom og rússneska ríkið nánast eitt - og síðan þá hefur fyrirtækið verið eitthvert mesta valdatækið í öllum evrópska orkugeiranum.
Um sama leyti féllst Abramovich á að selja Sibneft til ríkisins. Hann fór vellauðugur frá þeim viðskiptum; fékk rúmlega 13 milljarða USD fyrir liðlegheitin. Sibneft var látið renna inní Gazprom og varð olíuarmur þessa mikilvægasta orkufyrirækis Rússlands (nafni Sibneft var breytt í Gazprom Neft).

Eftir gjaldþrot Yukos voru risaeignir þrotabúsins seldar og flestar fóru þær til Rosneft. Skyndilega var þetta netta rússneska ríkisolíufélag orðið stærsta olíufyrirtækið í Rússlandi! Þar með voru bæði Yukos og Sibneft komin í umráð Kremlar og að auki hafði rússneska ríkið tryggt sér meirihluta í Gazprom. Eignarhaldið á rússneska orkugeiranum hafði nánast umturnast í einni svipan og Pútin komin með öll orkuspilin á hendi.
Þetta er líklega einhver dramatískasta ríkisvæðing í orkugeiranum sem um getur í veraldarsögunni. Sumir hafa reyndar kallað yfirtöku Rosneft á eignum Yukos mesta rán sögunnar. Því verðlagningin á eignum þrotabús Yukos þótti meira en lítið vafasöm. Þessir gjörningar voru hart gagnrýndir - ekki bara af andstæðingum Pútín's heldur af fjölmörgum þekktum erlendum orkusérfæðingum. En hvað svo sem til kann að vera í þeim ásökunum, þá er rússneska ríkið nú aftur orðið höfuðpaurinn í olíuiðnaði Rússlands.

Auk þess að ráða nú bæði Gazprom, gamla Sibneft og Rosneft, þá á rússneska ríkið einnig Transneft, en það fyrirtæki er eigandi að svo til öllum olíuleiðslum innan Rússlands. Og þó svo Lukoil og TNK (sem nú heitir TNK-BP) hafi fengið að vera í friði, er ljóst að Kremlverjar hafa náð yfirburðarstöðu í rússneska olíuiðnaðinum.
En jafnvel þó svo Rosneft sé orðið stærsta rússneska olíufélagið stendur það talsvert langt að baki alþjóðlegu risunum í orkuiðnaðinum; félögum eins og BP, ExxonMobil, Chevron eða Shell. Um skeið hefur ýmislegt bent til þess að í Kreml stefni menn að því að Rosneft vaxi áfram hratt, þ.a. félagið komist í hóp stærstu olíu- og orkufyrirtækja heimsins. Á tímabili var áætlunin bersýnlega að byggja upp náin tengsl við BP og jafnvel sameina Rosneft breska olíurisanum. En samstarfið við BP reyndist brösótt og að auki komu lagaflækjur í veg fyrir að BP gæti fjárfest í olíuvinnslu í Rússlandi í samstarfi við Rosneft.
Í vor varð svo endanlega ljóst að áætlanir um samstarf Rosneft og BP væru úr sögunni. Sumir töldu að þetta væri meiriháttar klúður af hálfu Rosneft, sem myndi kalla á hörð viðbrögð Kremlar. Á Vesturlöndum bjuggust menn jafnvel við því að nú myndu rússnesk stjórnvöld stokka upp spilin hjá Rosneft. Það var jafnvel farið að tala um að nýi orkukeisarinn Igor Sechin yrði settur af sem stjórnarformaður þessa rússneska olíurisa.
Þetta var orðið æsispennandi. Igor Sechin er vel að merkja ekki hver sem er. Líklega eru fáir ef þá nokkur í rússneska stjórnkerfinu sem hefur verið nánari Pútín. Sechin varð stjórnarformaður Rosneft árið 2004, nokkrum mánuðum eftir handtökuna á Khodorkovsky og skömmu áður en Rosneft keypti eignir Yukos. Hann hafði þá verið æðsti skrifstustjóri rússneska stjórnarráðsins allt frá þeim degi sem Pútin varð forseti (á gamlársdag 1999). Auk þess að vera stjórnarformaður Rosneft hefur Sechin líka verið aðstoðarforsætisráðherra í rússnesku ríkisstjórninni frá árinu 2008.
Samstarf Igor's Sechin við Pútín á sér reyndar ennþá lengri sögu. Sechin var háttsettur í St. Pétursborg á tíunda áratugnum þegar Pútín kleif þar upp metorðastigann, en þar varð Pútín meira að segja borgarstjóri um skeið. Þetta var einmitt á þeim tíma sem Björgólfur Thor og félagar hans voru að byggja upp bjórveldi í sömu borg. Þ.a. eflaust hefur Björgólfur Thor orðið var við þetta tvíeyki; tilvonandi forseta Rússlands annars vegar og tilvonandi stjórnarformann stærsta olíufélags landsins hins vegar.

Segja má að alla tíð síðan hafi þeir félagarnir Pútín og Sechin gengið í takt og hönd í hönd upp allt rússneska stjórnkerfið. Síðustu árin hefur Sechin oft verið kallaður þriðji maðurinn í rússneskum stjórnmálum, en líka nefndur Svarthöfði eða Orkukeisarinn. Hann er sagður hafa gríðarleg völd og áhrif. Sechin er af mörgum talinn vera helsti arkitektinn að baki því hvernig Kreml náði undir sig eignum bæði Yukos og Sibneft. Það má svo sem vel vera að Igor Sechin muni senn víkja úr stjórnarformannssæti Rosneft. En enginn skal halda að það þýði að hann sé að missa raunveruleg völd. Þeir Pútin munu vafalítið áfram ráða öllu því sem gerist í rússsneska orkugeiranum. Ekki síst þegar hafðar eru í huga síðustu fréttir um að Pútín stefni nú aftur á forsetaembættið í Rússlandi.
Það er til marks um styrk þeirra félaganna að varla hafði BP dottið úr skaftinu sem tilvonandi samstarfsaðili Rosneft, að Rosneft var komið á fullt í viðræður við ennþá stærri olíufyrirtæki. Eftir leynilegar viðræður nú sumar gerðist það nefnilega á síðustu dögum ágústmánaðar (2011), að þeir félagarnir lönduðu einhverjum mest spennandi díl sem hægt var að hugsa sér fyrir Rosneft. Því hinn nýi vinur og félagi rússneska ríkisolíufélagsins er enginn annar en mikilvægasta afkvæmi Standard Oil hans John's D: Rockefeller; sjálfur höfuðpaur kapítalismans: ExxonMobil.
Það að ExxonMobil með Texas-manninn Rex Tillerson í fararbroddi yrði helsti samstarfsaðili Rosneft kom mörgum mjög á óvart. Félögin hafa áður unnið saman, en langt í frá að það hafi verið í bróðerni. ExxonMobil og Rosneft hafa nefnilega síðustu 15 árin unnið að einhverju metnaðarfyllsta olíu- og gasverkefni veraldar við Sakhalin-eyju, austast í Rússlandi. Þar hafa fyrirtækin borað dýpstu brunna sem sögur fara af; allt að 12 km undir hafsbotninn. En þegar hlutirnir voru loks komnir á góðan skrið lentu þessi risafélög í miklum átökum um hvert selja eigi gasið og yrir vikið hefur logað í illdeilum milli Rosneft og ExxonMobil. Því þótti ýmsum það með miklum ólíkindum að félögin skyldu nú með svo skömmum fyrirvara gera nýjan risasamning um víðtækt samstarf á sviði orkumála.
Það er ekki nóg með að ExxonMobil hafi þarna samið við Rosneft um rúmlega 3 milljarða USD fjárfestingu í olíuleit og -vinnslu bæði suður í Svartahafi og norður í Karahafi. Heldur gengur samkomulagið líka út á að Rosneft fái hlutdeild í olíuvinnslu ExxonMobil innan Bandaríkjanna! Bandarískur almenningur hefur sem sagt loksins fullt tilefni til að skrækja: "The Russians are coming!". Þó svo það sé ekki alveg að gerast með þeim hætti sem fólkið óttaðist mest hér í Den, þegar sovéski kjarnorkusveppurinn vofði yfir.
Það eru svo auðvitað líka mikil tíðindi að menn ætli að fara af stað norður í kuldabola Karahafsins. Segja má að þetta sé táknmynd um það, að leiðin að heimsskautaolíunni utan Alaska sé loks að opnast. En þó svo Karahafið þyki eitthvert mest spennandi olíusvæði Norðurskautsins, verður vinnsla á þessum slóðum enginn barnaleikur.
Hvað um það; í framtíðinni munum við hér á landinu bláa hugsanlega sjá risaolíuskip í fjarska koma siglandi á leið sinni með svarta gullið frá Karahafi til Bandaríkjanna. Það hlýtur reyndar að vera sérkennilegt fyrir evrópsku olíufélögin og evrópska stjórnmálmenn að horfa upp á hinn ríkisvædda rússneska olíuiðnað og stærsta olíurisa Bandaríkjanna tengjast svona nánum böndum. Sumir eru verulega áhyggjufullir yfir þessari þróun mála og taka svo djúpt í árinni að segja að þarna sé Roxxon Energy raunveruleikans að fæðast. En kannski er þetta þvert á móti bara eðlilegt skref í framþróun orkugeirans. Eitt er víst; það er svo sannarlega aldrei nein lognmolla í olíuiðnaði veraldarinnar.
19.9.2011 | 00:12
Gullregn

Blessuð rigningin. Henni er misskipt. Í sumar gerðist það, að þurrkar og kjarreldar hrjáðu Texasbúa óvenju mikið og lengi. Á sama tíma rigndi oft svakalega í Noregi.
Úrkoma og þurrkar hafa mikil áhrif á raforkubúskapinn í báðum þessum tveimur fjarlægu löndum; Noregi og Bandaríkjunum. Og það jafnvel þó svo einungis annað landið (Noregur) byggi nær alfarið á vatnsafli, en hitt (Bandaríkin) byggi raforkuframleiðslu sína að mestu á kola- og gasbruna.
Svo til 100% af raforkuframleiðslunni í Noregi kemur frá vatnsaflsvirkjunum. Þegar mikið rignir á hálendi Noregs segja fjölmiðlar þar í landi ekki endilega frá því hversu mikil úrkoman var í millimetrum. Heldur er þess í stað stundum notuð mælieiningin gígawattstundir - eða jafnvel terawattstundir!

Rigningin er þá sem sagt mæld sem tilvonandi raforkuframleiðsla og framtíðarverðmæti. Enda er rigningin gulls ígíldi - sannkallað gullregn.
Fyrir viðskiptavini raforkufyrirtækjanna felst ábatinn í því að mikil úrkoma veldur yfirleitt einhverri skammtímalækkun á raforkuverði á norræna raforkumarkaðnum Nordpool Spot. Fyrir norsku raforkufyrirtækin er rigningin góð viðbót í miðlunarlónin á hálendi Noregs. Þýðir að þar verður af meiru að taka þegar mikil eftirspurn er eftir raforku og verðið hátt. Sökum þess að norska raforkukerfið er tengt nágrannalöndunum merkir rigning í Noregi oft meiri útflutning á raforku - inn á markað þar sem raforkuverð er gjarnan mjög hátt.
Rétt eins og í Noregi, þykir það fréttnæmt hér á Íslandi ef mikil úrkoma eða jökulbráðnum vegna hlýinda fyllir miðlunarlón óvenju hratt. Hér á landi getur þetta líka gerst vegna aukinnar jarðhitavirkni. Snemma í sumar sem leið, varð einmitt sá atburður að óvænt jökulhlaup kom úr vestanverðum Vatnajökli og niður ána Sveðju og þaðan í Hágöngulón. Þar með mun lónið nánast hafa fyllst á svipstundu, en Hágöngulón er efsta lónið í miðlunar- og veitukerfi virkjana Landsvirkjunar í Þjórsá og Tungnaá.

Það er líklega vissara að muna eftir því að kíkja upp eftir Sveðju áður en haldið er útí ána (á myndinni hér til hliðar er Orkubloggarinn einmitt við stýrið útí Sveðju - reyndar ekki nú í sumar heldur í nóvemberkrapa og skammdegi). Vert er einnig að muna að ef Ísland væri tengt Evrópu með rafkapli gæti svona flóð mögulega þýtt óvæntan og myndarlegan glaðning fyrir Landsvirkjun - og þar með fyrir ríkissjóð og þjóðina alla. Einfaldlega vegna þess að á meginlandinu er raforkuverðið margfalt hærra en hér á landi og unnt yrði að selja alla umframframleiðslu á háu verði inn á evrópska spot-markaðinn. Þess í stað takmarkast gleðin af svona óvæntu rennsli í Hágöngulón, við meiri líkur á góðri stöðu miðlunarlóna á Þjórsársvæðinu fyrir veturinn.

Hér í upphafi færslunnar var minnst á Bandaríkin. Og Texas -þar sem hvert hitametið á fætur öðru var slegið nú í sumar. Hitinn og þurrkurinn var sérstaklega mikill í ágúst. Texasbúar voru hreinlega að bráðna í kæfandi hitanum.
Þetta veðurfar varð til þess að geggjað rafmagnsverð skall á neytendum bæði í Texas og fleiri fykjum Bandaríkjanna. Kannski þykir Íslendingum skrítið að sumarhitar valdi hækkunum á raforkuverði. Enda erum við vanari því að nota lítið rafmagn á sumrin en þurfa mikið rafmagn þegar vetrarstormar geysa og skammdegismyrkrið hellist yfir. En þarna vestra eru hitabylgjur og miklir þurrkar uppskrift að miklu álagi á raforkukerfið - bæði vegna mikillar notkunar á loftkælingu og vegna þess að langvarandi þurrkar valda því að ryk sest á raflínur. Og það var einmitt raunin í sumar - bæði í Texas og víðar um landið.

Hitabylgjan var afar þaulsetin og leiddi til þess að sumstaðar var hitastigið þarna westra um eða yfir 40 gráður á celsius í margar vikur samfleytt. Og ekki kom deigur dropi úr lofti svo mánuðum skipti.
Þetta óvenju heita og þurra veður olli því að mikið ryk og sandur settist á raflínur, með þeim afleiðingum að rafmagnið sló víða út. Við þessu var lítið hægt að gera, en menn leituðu auðvitað úrræða. Reyndu jafnvel að nota þyrlur til að þrífa háspennulínurnar, en með litlum árangri (myndin hér að ofan sýnir einmitt þyrlu við þetta verk í Texas nú í ágúst sem leið).

Þetta ástand leiddi til víðtækra bilana og truflana í raforkukerfinu. Og þá rauk verðið upp. Það voru sérstaklega raforkunotendur í risafylkinu Texas sem fengu að kenna á þessu ástandi, sem ítrekað kom upp þar og víðar í Bandaríkjunum í sumar.
Á þessum slóðum er algengt heildsöluverð á rafmagni í kringum 40 USD pr. MWst (til samanburðar má nefna að hér á Íslandi er mestur hluti raforkunnar líklega seldur á u.þ.b. 25 USD pr. MWst nú um stundir, þ.e. til stóriðjunnar). Við sérstakar aðstæður getur raforkuverðið í Texas hækkað verulega og þá jafnvel farið í 80-90 USD eða jafnvel eitthvað hærra tímabundið. En snemma ágúst fór raforkuverðið i Texas út yfir allan þjófabálk. Meðalverðið fór yfir 2.500 USD pr. MWst og náði meira að segja að skríða yfir 3.000 USD - og var þá orðið meira en sextíu sinnum hærra en venjulegt er!

Raforkuverðið hélst hátt í margar vikur, en reyndar ekki svona brjálæðislega hátt nema í fáeina stundarfjórðunga. En þetta ætti að minna okkur á hvílík ofsaleg verðmæti felast í orkulindum Íslands. Ekki síst ef unnt verður að tengjast orkumarkaði þar sem raforkuverðið er oft margfalt á við það sem gerist hér á landi. Þá gæti íslenska úrkoman loks orðið sannkallað gullregn.