Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
18.12.2009 | 00:20
Nú er það svart!
Veröldin er kolsvört. Þrátt fyrir allt talið um stórkostlega aukningu vindorkuvera og sólarorkuvera eru kol sá orkugjafi sem vaxið hefur hraðast í heiminum undanfarin ár. M.ö.o. þá sýnir reynsla síðustu ára, að heimurinn veðjar á kolin. Þrátt fyrir aðvaranir og dómsdagsspár um hlýnun jarðar. Þetta fer bara ekki mjög hátt.
Það að nýta varma frá kolabruna til að framleiða raforku, hefur í áratugi verið ódýrasta tegundin af rafmagnsframleiðslu víðast hvar um heiminn. Fyrir vikið hafa kolin lengi verið mikilvægasti orkugjafi mannkyns. Í dag er um 40% allrar raforku heimsins framleiddur með kolabruna og þetta hlutfall hefur ekkert verið að minnka. Þvert á móti gera flestar spár um orkunotkun fram til ársins 2030, að hlutfall kolaorkunnar fari heldur vaxandi!
Ástæðan er einföld. Kol eru ekki aðeins ódýrasti orkugjafinn, heldur líka sú tegund jarðefnaeldsneytis sem ennþá er óumdeilanlega gnótt af. Mannkyninu er ennþá að fjölga og nokkur af stærstu efnahagskerfunum eiga enn eftir að upplifa mikinn efnahagsvöxt.
Þess vegna á raforkuþörfin eftir að vaxa mikið á næstu áratugum og stór hluti af þeirri raforku mun að öllum líkindum koma frá fjölda nýrra kolaorkuver. Undanfarin ár munu hafa verið byggð um hundrað ný kolaorkuver í Kína á ári hverju - sem þýðir að þar í Austrinu góða rísa tvö ný kolaorkuver í viku hverri! Hljómar gæfulega í baráttunni gegn losun koldíoxíðs - eða hittó.
Sem fyrr segir er til nóg af kolum í heiminum. Þar að auki vill svo "skemmtilega" til, að þetta er sú auðlind sem risahagkerfin eiga einmitt mikið af. Þau fjögur lönd sem búa yfir mestu kolabirgðum veraldar eru nefnilega Bandaríkin, Kína, Rússland og Indland. Þarna á meðal eru þrjú fjölmennustu ríki heims (Kína, Indland og Bandaríkin), stærsta hagkerfi veraldar (Bandaríkin) og tvö af hraðast vaxandi hagkerfum heimsins (Kína og Indland).
Samtals eru íbúar þessara fjögurra kolsvörtu kolaríkja næstum 45% af öllum jarðarbúum. Að auki er vert að hafa í huga að ESB, sem í dag er fjölmennasta vestræna hagkerfið, byggir raforkuframleiðslu sína líka hvað mest á kolum. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að kol skuli vera svo gríðarlega mikið notuð til raforkuframleiðslu.
Þessi fjölmennu lönd - Bandaríkin og þó sérstaklega Kína og Indland - eiga ekkert alltof mikið af olíu. En þau búa aftur á móti yfir miklu af kolum. Og munu því ekki svo glatt draga umtalsvert úr kolanotkun sinni. Þvert á móti er þess að vænta að raforkuframleiðsla með kolabruna eigi á næstu árum og áratugum eftir að verða nokkuð stöðug í Bandaríkjunum og aukast mjög í Kína, á Indlandi og víðar.
Vissulega horfa þessi stóru og fjölmennu ríki til bæði endurnýjanlegrar orku og einnig til gassins (sem losar um helmingi minna af gróðurhúsalofttegundum en kolin gera). En í þessari óvissu veröld er orkusjálfstæði að verða sífellt mikilvægara. Hvorki bandarísku olíusvolgrararnir, né hratt vaxandi iðnveldi Kína og Indlands eru spennt fyrir því að þurfa að auka innflutning á orku.
Þau þurfa þvert á móti að nýta sínar eigin orkulindir. Og þá eru kolin hvað nærtækust. Þess vegna eru það einungis draumóramenn sem trúa því að veröldin munu að einhverju marki draga úr losun gróðurhúsalofttegunda næstu áratugina. Líkurnar á að sá draumur rætist eru svona álíka miklar eins og Vímuefnalaust Ísland árið 2000 eða markmiðið um að útrýma fátækt í heiminum.
Auðvitað á maður að vera bjartsýnn. Og metnaðarfullur. Og vonast til þess að með samstilltu átaki þjóða heimsins verði unnt að takmaka og minnka losun gróðurhúsalofttegunda umtalsvert. En það er nákvæmlega engin skynsemi í því að horfa fram hjá staðreyndum eða leggjast í afneitun. Það eina sem getur snúið okkur af braut síaukinnar kolefnislosunar, er að Bandaríkin, Kína, Indland, Rússland og ESB setjist niður og komi sér saman um raunverulega lausn og leiðir. En af því kol eru einhver mikilvægasti, aðgengilegasti og ódýrasti orkugjafi allra áðurnefndra fjögurra ríkja og líka Evrópusambandsins, er nánast vonlaust að búast við raunverulegu og árangursríku samkomulagi um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.
Það má vel vera að Kaupmannahafnarráðstefnan skili "glæsilegri" niðurstöðu. Samkomulagi um 15%, 20% eða jafnvel 50% samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda. En að búast við því að slíkar "skuldbindingar" muni nást eða ganga eftir, er nánast barnaskapur. Um þetta eru flestar ef ekki allar þær stofnanir sem reyna að spá sæmilega raunsætt um framtíðarorkunotkun Jarðarbúa almennt sammála. Það er ekki nóg með að eftirspurn eftir rafmagni eigi eftir að aukast mikið á næstu áratugum - þar að auki er nefnilega barrrasta talið afar ólíklegt að hlutfall kola í raforkuframleiðslunni eigi eftir að minnka. Því miður.
Af hverju? Jú - segjum nú svo að kolarisarnir nái að koma sér saman um mikinn og hraðan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Því yrði einungis unnt að ná fram með byltingarkenndum breytingum á orkubúskap veraldarinnar. Einn mikilvægur þáttur í því væri t.d. að gera rafmagnsbíla miklu samkeppnishæfari - sem yrði mjög dýrt fyrir skattgreiðendur og/eða ríkissjóð. Betra húsnæði (bætt einangrun) og ýmsar aðrar orkusparandi aðgerðir myndu einnig vera þýðingamiklar. En lykilatriðið hlýtur alltaf að vera að losna við útblásturinn frá kolaorkuverunum.
Menn gæla við að dæla koldíoxíðinu niður í jörðina. Það er tær framtíðarmúsík og verður í besta falli mjög dýrt og í versta falli tæknilega ómögulegt. Þess vegna verður að finna valkost sem getur leyst kolaorkuver af hólmi. Ný gasorkuver gætu þar skipt verulegu máli. Fjölmörg ný gasorkuver eru samt varla besti eða skynsamlegasti kosturinn til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, þó svo þau losi almennt miklu minna en kolaorkuverin. Jarðefnaeldsneyti mun varla leysa vandann!
Ein lausnin verður að leggja stóraukna áherslu á endurnýjanlega orku. En hvorki vindorka, sólarorka né jarðhiti munu geta haft þá þýðingu á næstu áratugum að draga stórkostlega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Eini raunhæfi kosturinn til að leysa kolaorkuverin af hólmi og um leið mæta síaukinni raforkuþörf, er endurreisn kjarnorkunnar.
Kjarnorkan er auðvitað mjög umdeild vegna ýmissar hættu sem henni fylgir. Í dag eru þeir þó að verða sífellt fleiri, sem eru farnir að líta á kjarnorku sem grænan orkukost. Af þeirri ástæðu einni að slík raforkuvinnsla losar ekki gróðurhúsalofttegundir. Vandamálið er bara að kjarnorkan er ekkert endilega mjög spennandi lausn. A.m.k. hvorki fyrir Bandaríkin, Kína, Indland né ESB. Af þeirri einföldu ástæðu að mestur hluti úranbirgða veraldarinnar er ekki innan lögsögu þessara ríkja og ekkert sérstaklega aðlaðandi að byggja framtíðarorkubúskap sinn á erlendu hráefni - oft frá óvinveittum eða vafasömum ríkjum. Ný kjarnorkuver munu þó vafalaust líta dagsins ljós í öllum þessum löndum og líka í ESB. En bygging þeirra mun taka langan tíma og verður varla lausn á "loftslagsvandanum".
Það er einmitt þessi skortur á framtíðarsýn, sem Orkubloggaranum finnst vanta svo sárlega þarna í Borginni við Sundin. Þar situr mikill sérfræðingahópur og reynir að komast að sameiginlegri niðurstöðu um að draga mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda. Vandamálið er bara að það virðist alveg hafa gleymst að spá í það hvernig ná eigi markmiðunum.
Ef ekki liggur fyrir skýr, tæknilega raunhæf og þokkalega fjárhagslega hagkvæm áætlun um það hvernig Bandaríkin, Kína, Rússland, Indland og ESB ætla að loka kolaorkuverunum sínum, er vandséð að eitthvert samkomulag um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda muni nokkru sinni skila þeim markmiðum sem að er stefnt. Niðurstaðan væri innistæðulaus - líkt og eigið fé hjá glæsilegum íslenskum spútnikbanka. Geisp.
Menn ættu a.m.k. að fara að horfa raunsætt á hlutina. Og hér gildir því miður ekkert annað en kolsvart raunsæi. Vissulega er mögulegt að samkomulag í Kaupmannahöfn geti orðið mikilvægt skref. Og að í framhaldinu verði unnt að móta leiðirnar að markmiðunum. En þegar litið er til staðreyndanna í orkumálum heimsins er það því miður barrrasta heldur ólíklegt.
Alfíflalegust er þó framkoman gagnvart Afríkulöndunum og fleiri þróunarríkjum, sem eiga nákvæmlega enga sök á stóraukinni losun gróðurhúsalofttegunda síðustu áratugina eða aldirnar. Þessar þjóðir munu aldrei nokkru sinni ná að nútímavæðast og byggja upp heilbrigð og mannvæn samfélög, nema að um leið verði umtalsverð aukning í losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim. Í stað þess að eyða tímanum á Loftslagsráðstefnunni í að finna einhverja styrkjaleið til að Afríka taki á sig skyldur um að takmarka losun, væri nær að kolaveldin myndu líta í eigin barm. Og lýsa yfir bindandi markmiðum sínum og útlista nákvæmlega hvernir þau ætli að hætta að reiða sig á kolaorku. Þá yrði kannski kominn raunverulegur hvati fyrir önnur ríki að leggja sitt af mörkum.
En nú ætla Lars Lökke og félagar að taka enn einn þróunarsnúninginn á þriðja heiminn. Og kaupa þessi ríki til að halda að sér í eðlilegri uppbyggingu atvinnulífs. Þó svo hún Connie Hedegaard sé harðdugleg, er hún eitthvað að höndla þetta vitlaust. Danir eru líklega ekki ennþá lausir við gamla góða fílinginn af því að vera nýlenduþjóð. Enda umhugað um að geta áfram mætt mestallri raforkuþörf sinni með kolaorkuverum. Þetta er svo gjörsamlega fáránleg stefna þarna á Loftslagsráðstefnunni að Orkubloggarinn á eiginlega barrrasta ekki eitt aukatekið orð.
14.12.2009 | 22:49
Antonio Benjamin á Litla-Hrauni
Eitt af mörgum svolítið sérviskulegum verkefnum sem Orkubloggarinn hefur tekið sér fyrir hendur, er þátttaka í lögfræðinganefnd Alþjóða náttúruverndarsambandsins (IUCN's Commission on Environmetal Law; skammstafað CEL).
Það kom til af því, að um árabil vann bloggarinn talsvert á sviði umhverfisréttar og hafréttar og kynntist þá m.a. tveimur áströlskum lögfræðingum, sem hafa mikið unnið á sviði alþjóðlegs umhverfisréttar. Þeir heita Ben Boer og Ian Hannam og eru gamlir vinir frá þeim dögum þegar Orkubloggarinn vann nokkra mánuði suður í Sydney. Var þá m.a. fyrirlesari í lögfræðikúrsum við Háskólann þar í borg (University of Sydney), hvar Ben er prófessor, en dags daglega starfaði bloggarinn með Ian í ráðuneyti sem nefndist NSW Department of Land and Water Conservation. Í framhaldi af Sydneyjar-dvölinni fékk bloggarinn svo boð um að taka þátt í þessu athyglisverða lögfæðingasamstarfi á vegum IUCN, en Ben Boer hefur einmitt lengi verið ein helsta driffjöðrin í CEL. Annars má sjá tæmandi lista yfir meðlimi CEL hér á vef IUCN.
Innan CEL hefur bloggarinn átt sæti í sérfæðinganefnd um samningu sérstaks alþjóðlegs jarðvegsverndarsamnings, sem er ennþá í vinnslu. Þannig háttar til að nokkrir af mikilvægustu þjóðréttarsamningum heimsins á vettvangi umhverfisréttar eiga einmitt upphaf sitt í vinnunni innan IUCN. Til að samningur verði að veruleika þarf hann þó auðvitað að komast inn á borð Sameinuðu þjóðanna og fá afgreiðslu þar. Auk jarðvegsverndarsamningsins, sem enn er bara draft, hefur bloggarinn líka tekið þátt í starfi hafréttarnefndar CEL og komið að samstarfi um náttúruvernd og auðlindanýtingu á Norðurslóðum.
Þetta hefur verið fróðlegt ferli. En það allra skemmtilegast við þessi verkefni hefur verið að kynnast nokkrum af þekktustu umhverfislögfræðingum heimsins. Af því sumir þeirra eru óneitanlega ansið sterkir og litríkir karakterar.
Meðal þeirra er brasilískur ljúflingur að nafni Antonio Herman Benjamin. Þó svo bloggarinn hafi upphaflega kynnst Antonio í gegnum CEL voru þau kynni þó afar yfirborðsleg, allt þar til hann kom til Íslands haustið 2005. Tilefnið var alþjóðleg ráðstefna um jarðvegsvernd, sem haldin var á Selfossi undir forystu Landgræðslunnar, Landbúnaðarháskólans og evrópsku stofnunarinnar Scape (Soil conservation and protection strategies for Europe).
Antonio hafði þá starfað í tvo áratugi hjá saksóknaranum í megaborginni Sao Paulo og þar verið yfir umhverfisbrotadeildinni í 4 ár. Hann taldist á þeim tíma einn helsti lagasérfræðingur Rómönsku Ameríku í umhverfisrétti og hafði lengi starfað á þeim vettvangi innan IUCN og CEL.
Skömmu eftir ráðstefnuna bárust svo þær ánægjulegu fréttir að Lula Brasilíuforseti hefði tilnefnt Antonio sem dómara við sjálfan Hæstarétt Brasilíu. Sú tilnefning var svo staðfest um mitt ár 2006 og síðan þá hefur Antonio væntanlega m.a. verið í því hlutverki að senda delíkventa í hin alræmdu brasilísku fangelsi. Hann er þó ennþá mjög virkur í samstarfinu á vettvangi CEL. Og virðist ekki ætla að láta Hæstaréttardómaraembættið koma í veg fyrir að hann geti áfram unnið að því að styrkja og efla alþjóðlegan umhverfisrétt.
Hæstiréttur í Brasilíu er í raun tvær stofnanir. Annars vegar er ellefu manna stjórnskipunardómstóll, sem nefnist Supremo Tribunal Federal og hins vegar er svo æðsti dómstóll í öðrum áfrýjunarmálum og nefnist sá Superior Tribunal de Justiça. Þar sitja um þrjátíu dómarar og einn þeirra er sem sagt Antonio Benjamin.
Þessa ljúfu haustdaga um miðjan september 2005 vissi enginn okkar að Antonio væri um það bil að forframast svo mjög í hinu risastóra og fjölmenna heimalandi sínu. En það kom svo sannarlega ekki á óvart að þessi litlu kubbur skyldi hljóta þetta mikla embætti. Sjaldan hefur Orkubloggarinn hitt mann sem sameinar jafn vel greind, hæfileika í mannlegum samskiptum, ákveðni og alúðleika. Hrein perla.
Það er ekki alltaf gaman á ráðstefnum. Eins og sjá má af myndinni hér til hliðar, sem tekin er af Antonio á einu af allsherjarþingum IUCN. En það voru allir í góðu stuði þarna á Selfossi haustið 2005.
Við þetta tækifæri fór Orkubloggarinn í smá bíltúr á Land Rovernum í nágrenni Selfoss, með Antonio ásamt þremur öðrum gestum af umræddri ráðstefnu. Með okkur í för voru áðurnefndur Ástrali - Ben Boer frá Sydney - ásamt konu hans og síðast en ekki síst Sheila Abed, þrautreyndur lögfræðingur frá Paraguay, en hún er í fararbroddi þeirra sem sinna málefnum náttúruauðlinda í Suður-Ameríku.
Þar er svo sannarlega af nógu að taka, með einhverja mestu frumskóga og fjallgarða veraldar, stærstu sléttur heimsins og nokkur mestu vatnsföllin. Það má líka nefna að það var talsvert dramatískt þegar þau Sheila og Suður-Ameríkumennirnir náðu völdum innan CEL og losuðu nefndina undan gömlu klíkunni, en það er önnur saga. Sheila er núna stjórnarformaður CEL.
Veðrið þennan dag var milt og óhemju fallegt; miðseptemberdagur eins og þeir gerast bestir. Ég byrjaði á því að renna með þennan góða hóp vestur fyrir Selfoss og stoppa í Kömbunum. Þar lagðist allur hópurinn í mjúkan haustmosann og gæddi sér á ógrynni krækiberja úr lynginu. Antonio kunni vel að meta að liggja þarna í grámosanum og horfa upp í heiðan íslenskan himin. Líklega talsvert ólíkt hversdeginum suður í milljónaþvögunni í Sao Paulo. Eftir nokkra stund var svo haldið til baka niður brekkurnar og beygt suður á Þorlákshafnarveginn. Og ekið þaðan yfir á Eyrarbakka og loks endað "heima" á Hótel Selfossi eftir góðan síðdegistúr.
Þegar við vorum í þann mund að aka framhjá afgirtu fangelsinu á Litla Hrauni spurði Antonio hvað í ósköpunum þessi bygging hefði að geyma. Það stóð auðvitað ekki á svari frá Orkubloggaranum, sem freistaðist til að dramatísera: "Þetta er fangelsi. Þarna geyma íslensk stjórnvöld alla hættulegustu glæpamenn landsins".
Antonio horfði á mig nokkrar sekúndur forviða á svip, en sprakk svo úr hlátri. Enda staða fangelsismála suður í Brasilíu eilítið önnur og ógnvænlegri en á Íslandi. Helstu fangelsin þar margvíggirt og minna mest á hervirki, enda eru fangauppreisnir og blóðug átök þar nánast daglegt brauð. Svo hringdi gemsinn hjá Antonio og þar var sjálfur Lula Brasilíuforseti, sem bauð honum sæti í Hæstarétti landsins. Svona til að færa í stílinn! En hvað sem því líður, þá mun Orkubloggarinn aldrei gleyma einlægum undrunarsvipum á Antonio Benjamin, núverandi Hæstaréttardómara suður í Brasilíu, þarna í græna Land Rovernum við Litla-Hraun haustið 2005.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2009 | 05:35
E15
Alltaf gaman að upplifa eitthvað nýtt og skemmtilegt.
Orkubloggarinn var í fyrsta sinn á bíl vestur í Bandaríkjunum núna um daginn. Og kynntist því þá af eigin reynslu hversu etanól hefur mikla þýðingu þar vestra. Hver einasta bensíndæla bauð upp á ýmsar tegundir af eldsneyti og þ.á m. var venjulega einn kosturinn E10. Bensínblanda þar sem etanól er 10%.
Í Bandaríkjunum eiga allar bílvélar að geta notað E10 og langflestar þeirra kunna reyndar ráða við mun hærra blöndunarhlutfall af etanóli. Þess vegna yrði hugsanlega einfalt mál að hækka blöndunarhlutfallið um a.m.k. helming og bjóða upp á E15 og jafnvel E20. Enda hefur bandaríski etanóliðnaðurinn lobbíað massíft fyrir því í Washington DC að fá a.m.k. E15 samþykkt sem standard. Það myndi augljóslega hafa gríðarlega þýðingu fyrir etanóliðnaðinn.
Lífmassaiðnaðurinn bandaríski hefur gengið í gegnum miklar sveiflur síðustu misserin. Enda er etanólið í raun fyrst og fremst að keppa við heimsmarkaðsverð á olíu, sem hefur sveiflast hreint svakalega. Etanóliðnaðurinn hefur notið áherslunnar á lífmassaeldsneyti, sem finna má í Energy Independence and Security Actfrá 2007. Engu að síður hafa etanólmenn viljað ganga skref lengra. Og bundið vonir við að þingið samþykki E15 sem standardblöndu; að bandarískt etanól-bensín muni innan tíðar innihalda 15% af etanóli í stað 10% eins og nú er.
Með kjöri Obama og áherslu hans á endurnýjanlega orku jókst bjartsýni margra um að brátt verði E15 lögbundin blanda. En það hefur enn ekki gengið eftir. Ekki vegna andstöðu Obama, heldur vegna efasemda um að bílvélarnar almennt þoli svo háa blöndu. Til samanburðar þá hafa Brasilíumenn nokkuð lengi notað blöndur eins og E20 og E25, en þar hafa bílarnir sérhannaðar vélar fyrir slíka blöndu. Að mati Orkubloggarans eru góðar líkur á því að bílvélarnar í Bandaríkjunum, sem allar eru hannaðar með E10 í huga, þoli vel a.m.k. E15. En í þessari paradís skaðabótamálann ráðast stjórnvöld þar vestra auðvitað ekki í að lögbinda E15 nema að vera algerlega fullviss um að slíkt eldsneyti henti bílaflotanum.
Ástæða þess að mikill áhugi er á því Bandaríkjunum að auka notkun etanóls er einföld: Þar vestra er mjög öflugur etanóliðnaður og hærra hlutfall etanóls myndi einfaldlega bæði efla þann innlenda iðnað enn frekar OG um leið draga úr þörfinni á innfluttu eldsneyti. Etanólið hefur löngu sannað sig og ekki skrýtið að menn hafi áhuga á að auka notkun þess enn meira.
Margir gagnrýna reyndar að etanólið keppi við matvælaframleiðslu. En á móti kemur að öll fremstu etanólfyrirtækin vinna á fullu í því að þróa annarrar kynslóðar etanóleldsneyti. Þar sem ekki er notast við fæðuhráefni, eins og t.d. maís, til að búa til etanólið. Margt bendir til þess að brátt takist að framleiða slíkt annarrar kynslóðar lífmassaeldsneyti með þokkalega ódýrum hætti. Og því full ástæða til að gefa etanólinu séns.
Þeir sem eru tilbúnir að veðja á að E15 standard líti brátt dagsins ljós í Bandaríkjunum hljóta að nota tækifærið núna og festa sér hlutabréf í einhverjum af álitlegustu etanólfyrirtækjunum. Það almagnaðasta hlýtur að vera sú staðreynd að af þeim fyrirtækjum sem myndu hagnast hvað allra mest af aukinni áherslu Bandaríkjanna á etanól, eru dönsk fyrirtæki hvað fremst i flokki. Þar má sérstaklega nefna Novozymes og Danisco, sem eru afskaplega áberandi í etanólbransanum víða um heim.
Það eru m.ö.o. horfur á því að stefna Bandaríkjanna í eldsneytismálum verði vatn á myllu dansks hugvits og tækniþekkingar. Danir eru svo sannarlega seigir. En þetta leiðir huga Orkubloggarans að þeirri svolítið broslega stefnu íslenskra stjórnvalda að ætla að draga stórlega úr losun CO2 hér, með því að koma fiskiskipaflotanum á jurtaolíu. Það væri kannski betra að einhver tengsl væri milli slíkra markmiða og stöðunnar í íslenskum eldsneytisiðnaði. En hver veit; kannski verða Íslendingar e.h.t. jafn öflugir í að framleiða og nota biodiesel eins og Danir eru stórir í etanóliðnaðinum.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 05:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2009 | 00:05
Svona var það... og er það enn
Raforkuútflutningur um sæstreng gæti orðið eitt stærsta hagsmunamál Íslendinga í framtíðinni. Eftirspurn eftir umhverfisvænni orku, sem kemur frá endurnýjanlegum auðlindum, fer í vöxt á meginlandi Evrópu. Margt bendir til, að verkefnið sé framkvæmanlegt og íslenzk raforka geti orðið samkeppnishæf á markaði í Evrópu. Umsvif við virkjanir myndu stóraukast, ef útflutningur raforku hæfist, og því er spáð, að hagvöxtur gæti aukizt hér um 2% á ári, ef af lagningu sæstrengs yrði. Atvinna myndi aukast og ný leið væri fundin til að breyta orkunni í fallvötnum Íslendinga í útflutningstekjur.
Nei - þetta er ekki innlegg frá Orkubloggaranum. Þetta er aftur á móti orðrétt úr ritstjórnargrein Morgunblaðsins þann 19. nóvember. Árið 1992! Hvað eru margar zetur þarna á ferðinni?
Í áratugi hafa menn hér á Klakanum góða velt fyrir sér þeirri hugmynd að selja rafmagn um sæstreng frá Íslandi til Evrópu. Og virðast strax fyrir um 15 árum hafa vera orðnir afar trúaðir á þessa hugmynd og hagkvæmni þess að koma henni í framkvæmd.
Upp úr 1990 var hugmyndin kölluð ICENET. Þetta var samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og hollenskra fyrirtækja, sem sögð voru heita PGEM, EPON og NKF Kabel. Ef Orkubloggarinn man rétt var þetta á svipuðum tíma og fréttatímar voru uppfullir af fréttum um stórt álverkefni, sem kallað var Atlantal og átti held ég rætur sínar hjá hollensku álfyrirtæki sem nefnist Hoogovens. Þetta er náttlega allt í þoku fortíðar. Var það ekki örugglega Jón eðalkrati Sigurðsson, helsta vonarstjarna Jóns Baldvins, sem þá var iðnaðarráðherra?
Á þeim tíma rifust menn eins og alltaf um ál - en þeir rifust líka um ágæti þeirrar hugmyndar að flytja út raforku um sæstreng. Þá, rétt eins og nú, var álverð lágt og þess vegna var það svolítið þungur róður fyrir Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra, að laða álfyrirtæki að Íslandi. Atlantal vildi bara borga skít og kanil fyrir rafmagnið og ekkert varð úr stórhuga áætlunum um risaálver á Íslendi - að sinni. Þrátt fyrir mikinn vilja. Kannski var það þess vegna sem menn fóru að vinna í hugmyndinni um sæstreng.
Álversmálið virtist komið í strand. Þess vegna kann raforkusala til Evrópu hafa þótt upplagður kostur. Nú skyldi ekki lengur bara veðjað á álið, heldur einfaldlega opna leið að evrópska raforkumarkaðnum.
Inn í þetta blönduðust líka hörð pólitísk átök í borgarstjórn Reykjavíkur. Borgarfulltrúar meirihlutans (Sjálfstæðismenn) sáu m.a. tækifæri í því að reist yrði sæstrengsverksmiðja við Reykjavík. Ekki er Orkubloggarinn viss um hvort sjálf orkan sem átti að fara um strenginn hafi átt að koma frá jarðhitavirkjunum í lögsögu Reykvíkinga. Sennilega var fremur horft til þess að nýjar vatnsaflsvirkjanir á vegum Landsvirkjunar á Austurlandi myndu framleiða raforkuna í sæstrenginn. Á þessum tíma var orðinn mikill spenningur fyrir því að virkja norðan Vatnajökuls, þó svo enn væri langt í að Kárahnjúkadraumurinn yrði að veruleika. Í þá daga var Reykjavík vel að merkja stór hluthafi í Landsvirkjun, þannig að sala á raforku frá Landsvirkjun hentaði hagsmunum Reykjavíkur prýðilega.
En menn voru svo sannarlega ekki á einu máli um ágæti þessarar hugmyndar. Rétt eins og nú logaði allt í illdeilum milli meirihluta og minnihluta (hvernig nenna menn að taka þátt í þessara íslensku stjórnmálavitleysu?). Hinni leiðigjörnu en raunsönnu klisju eggin mega ekki öll vera í sömu körfunni, var mikið haldið á lofti af þeim sem horfðu til raforkuútflutningsins. Aðrir sáu þessari hugmynd allt til foráttu og töldu okkur þar með fara í sama flokk og aumir hrávörubændur í þriðja heiminum.
Já - þarna tókust á stálin stinn og fullyrti hvor hópur fyrir sig að heimurinn væri hvítur... eða svartur. Þegar raunin er auðvitað sú að veröldin er bara undursamlega grásprengd og langflestir hafa einfaldlega pínulítið rangt fyrir sér en líka svolítið rétt fyrir sér. Þessi leiðindavenja hér á Klakanum og víðar, að trúa í blindni á tiltekna forystumenn eða flokka, er satt að segja frekar kjánaleg.
En höldum aftur til daganna góðu um og upp úr 1992. Þegar Orkubloggarinn var hættur að vera með jafnsítt" og Casablanca og Tunglið höfðu tekið við aðalhlutverkinu af Hollywoodinu hans Óla Laufdal. Í Casa dansaði Nilli flottasta Moonwalk á Íslandi. Og hefur haldið áfram að dansa í gegnum lífið og er nú að ég hygg einn af rafmagnsverkfræðingunum sem sjá til þess að Landsnetið streymi sem skyldi um raforkuæðar Íslands. Bragi beib var jafnan tilbúinn að kíkja á bíó á Lancernum og taka svo einn snúning á Glaumbær á eftir. Alltaf hægt að treysta á Braga, enda hefur hann slegið út alla stjórnendur Íslands og stýrt Eimskipum gegnum hvern brimgarðinn á fætur öðrum. Og væri maður heppinn gat maður jafnvel lent í skemmtilegu eftirpartýi hjá Grjóna á hlýlegu hæðinni hans í gamla húsinu við Bjarnastíg. En maður var sossem ekkert að velta fyrir sér hvað hann Sigurjón Þ. Árnason ætti eftir að afreka. Lífið var hér og nú", við Þórdís ofurástfangin og dúndrandi danstaktur þeirra Dr. Alban, C&C Music Factory og Dee Lite hljómaði undir gleðinni: "Its my life...!"
Þetta var barrrasta ansið góður tími. Orkubloggarinn nýbúinn að kaupa sér glimmerjakka í Camden, Sharon Stone dró Michael Douglas á tálar í Basic Instinct og úti bæ sátu menn og plönuðu rafstreng til Evrópu. Og notuðu undarleg orð eins og bakskautsvirki og afriðilsmannvirki. Í fúlustu alvöru og án þess að roðna hið minnsta. Enda óþarfi að skammast sín; það blautlegast við þessi sérkennilegu hugtök var að rafstrengurinn myndi liggja á hafsbotninum milli Íslands og Evrópu. Gagnkaupaviðskipti þótti líka nokkuð fínt orð í þessu sambandi. Vissara að leggja þessi ofursvölu hugtök á minnið til að geta aftur orðið gjaldgengur í ofurræðu nútímans um sæstreng.
Þetta var, sem fyrr segir, löngu fyrir daga Kárahnjúkavirkjunar og 300 þúsund tonna álvera. Gott ef Finnur Ingólfsson var ekki bara enn búðargutti í Kaupfélaginu í Vík. Menn þóttust metnaðarfullir og rætt var um að að útflutningur m.v. uppsett afl yrði 1-2 þúsund MW og rafmagnið myndi geta farið að streyma til Evrópu um aldamótin. Árið 2000 virtist ennþá í órafjarlægð og nægur tími til stefnu.
Til marks um metnaðinn, þá var lengsti rafsæstrengur heims á þessum tíma rafmagnsstrengur milli Vancouver-eyju og meginlands Kanada (ca. 240 km). Og lengsti jafnstraumsstrengur heimsins var þá smáspotti sem lá yfir Eystrasaltið milli Svíþjóðar og Finnlands. Hérlendis ætluðu menn aftur á móti að fara með strenginn frá Austfjörðum og alla leið til hins flata Hollands! Eða a.m.k. til Skotlands.
Þetta var skoðað af fullri alvöru. Ef af þessu hefði orðið hefðu Íslendingar komið að einu mesta tækniundri heims á þeim tíma. Þá var sko almennilegur metnaður hjá þjóðinni og ekki verið að væla yfir einhverju bankakvefi. Embættismenn Reykjavíkurborgar og erlendir samstarfsaðilar fullyrtu að hagkvæmnisathugun sýndi að þetta væri mjög arðbært. Þrátt fyrir að allir vissu að í reynd væri alger óvissa um að þetta væri tæknilega unnt og enginn raunverulegur samanburður fyrir hendi.
Þessi tími var einfaldlega frábær. Og menn hugsuðu í einhverju áþreifanlegu og voru ekki komnir útí þetta innihaldslausa froðukennda verðbréfarugl, sem svo heltók þjóðina.
Þó svo ekkert yrði úr þessu sæstrengsverkefni þarna á tímum Viðeyjarstjórnarinnar viðkunnanlegu, héldu menn áfram lífi í hugmyndinni. Næstu árin var nokkrum sinnum dustað rykið af sæstrengsmöppunni og allt reiknað upp á nýtt. Sú saga bíður betri tíma.
En nú er tímabært að taka upp þráðinn enn á ný. Nú er loksins runnin upp sá tími að þetta sé bæði tæknilega og pólitískt mögulegt (sleppum því að fullyrða nokkuð um fjárhagslega hagkvæmni). Ef bara stjórnmálamennirnir nenna að vinna heimavinnuna sína og stuðla að samstarfi við erlendar ríkisstjórnir og erlend orkufyrirtæki. ESB hungrar í endurnýjanlega orku. Notum tækifærið og komum þessu í framkvæmd. Það skemmtilega akkúrat núna er að hugsanlega mætti nýta þetta sem hluta af skynsamlegri lausn á Icesave.
Og ef það tekst ekki, þá getur kannski einhver annar bloggari - eftir önnur 15 ár - rifjað upp þessa ofurbjartsýnu færslu og boðað þann sannleika að NÚ sé rétti tíminn kominn fyrir sæstrenginn. Við sjáum til. Höfum þetta í huga 2024. Kannski verður bleyjustrákurinn á myndinni þá loksins laus við Icesave-hlekkina frá Bjögga frænda og Alþingi Íslendinga.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.12.2009 | 00:46
Orku- og loftslagsstefna stjórnvalda
Þegar litið er til fólksfjölda einstakra ríkja og orkuframleiðslu, kemur svolítið athyglisvert í ljós: Ísland er mesti orkuframleiðandi veraldar.
Já - jafnvel þó svo miðað sé við alla orku, bæði græna og svarta og þar með talin öll kolavinnsla ásamt allri olíu- og gasvinnslu, þá er Ísland nefnilega einhver allramesti orkuframleiðandi og orkunotandi veraldar. Miðað við stærð þjóðarinnar að sjálfsögðu; höfðatölu.
Það þykir kannski ekki par fínt að framleiða og nota svo svakalega mikla orku, eins og Íslendingar gera. Gæti verið túlkað sem bruðl og óhóf. En þegar dýpra er kafað kemur jú upp sú stórkostlega staðreynd, að öll þessi mikla orkuframleiðsla Íslands byggist á grænni orku. Og þessi staðreynd skapar okkur Íslendingum mikla sérstöðu; þegar eingöngu er litið til grænu orkunnar verður Ísland líkt og fögur stjarna á svörtum himni.
Ástæðan fyrir því að Orkubloggið vill vekja athygli á þessari staðreynd, er að nú standa yfir í Kaupmannahöfn samningaviðræður um markmið og skuldbindingar um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, eftir að s.k. Kyoto-tímabili lýkur 2012. Í því sambandi er nauðsynlegt að spá svolítið í þróun orkunotkunar og hvernig sum ríki heims, eins og flest Evrópuríkin, Bandaríkin og Kína, byggja efnahags sinn á kolvetnisbruna meðan önnur ríki nýta fyrst og fremst endurnýjanlegar náttúruauðlindir.
Eins og við öll vitum olli iðnbyltingin straumhvörfum í efnahagslífi heimsins. Grundvöllurinn að þeirri velmegun sem við þekkjum í dag, byggist á iðnvæðingu. Framan af voru kol undirstaða iðnbyltingarinnar. Á 20. öld tók svo olían við sem undirstaða iðnþróunar. Samfara þessu urðu miklar tækniframfarir, framfarir í matvælaframleiðslu, framfarir í læknisfræði o.s.frv. Framfarir sem þó allar byggðust á einum grundvallarþætti: Ódýrri orku.
En þessu fylgdi leiðinda fylgifiskur. Sem er stórfelld losun kolefnis vegna bruna á kolvetniseldsneyti. Menn deila að vísu um það hvort og hvaða áhrif kolefnislosunin hafi. Seint verður algerlega fullsannað að hún valdi umtalsverðri hlýnun og/eða neikvæðum veðurfarsbreytingum. Skynsamt fólk hlýtur þó að setja á sig öryggisbeltið þegar það sest upp í bíl; það er ekkert vit í öðru en að sporna gegn mögulegum alvarlegum loftslagsbreytingum af völdum manna. Annað væri alger einfeldni og fáheyrt fyrirhyggjuleysi.
Þess vegna er Orkubloggarinn einlægur stuðningsmaður þess að lönd heimsins reyni að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. En Orkubloggarinn álítur engu að síður mikilvægt að skynsemi og raunsæi ráði för í loftslagsstefnu Íslands. Og er afar hugsi yfir þeirri "metnaðarfullu" stefnu íslenska umhverfisráðherrans og sitjandi ríkisstjórnar að Ísland eigi að vera í fararbroddi í þessari baráttu.
Lang mikilvægasta atriðið í að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda felst í því að minnka hlutfall jarðefnaeldsneytis í orkunotkun. Flestar og nánast allar iðnvæddar þjóðir veraldarinnar fá orku sína að langstærstu leyti frá kolvetnisauðlindum í jörðu (kolum, olíu og gasi). Þessar þjóðir eiga tæknilega tiltölulega auðvelt með að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku, t.d. með því að byggja fleiri vindorkuver, sólarorkuver, lághitavirkjanir og síðast en ekki síst kjarnorkuver.
Svo skiptir líka miklu að spara orku með því t.d. að framleiða sparneytnari bíla og einangra hús betur, en flestir Íslendingar sem hafa ferðast erlendis þekkja það hversu ömurlega illa einangruð hús í útlöndum eru.
Ísland er mesta orkuveldi veraldar. Engin þjóð framleiðir og notar jafn mikla orku eins og Íslendingar, m.v. fólksfjölda. Nema þá kannski olíuríkin við Persaflóa, auk þess sem olíuveldin Kanada og Noregur eru líka risaframleiðendur á orku.
Að einu leyti sker Ísland sig algerlega úr í þessum ofurorkuhópi: Allt rafmagn á Íslandi kemur nefnilega frá endurnýjanlegum orkulindum - þveröfugt við Persaflóaríkin sem byggja sína orkuframleiðslu og notkun eingöngu á olíu og gasi. Og þó svo bæði Noregur og Kanada framleiði mikið af grænni orku (með vatnsafli) er orkubúskapur þessara landa líka allt annar og svartari en Íslendinga. Af því bæði þessi lönd eru stórframleiðendur og útflytjendur á olíu og gasi.
Ísland er eitt örfárra dæma um vestrænt land þar sem raforkubúskapurinn byggir alfarið á endurnýjanlegri orku. Einungis Noregur kemst með tærnar þar sem Ísland hefur sína grænu hæla í raforkuframleiðslu og talsvert langt þar á eftir koma lönd eins og Nýja Sjáland og Kanada. Og sem fyrr segir eru bæði Noregur og Kanada stórtæk í olíuframleiðslu og olíuútflutningi. Og Kanadamenn þar að auki á kafi í einhverri sóðalegustu olíuframleiðslu heims (úr olíusandi). Það er þess vegna í meira lagi skrítið þegar því er haldið fram að Ísland þurfi að "bæta orðspor sitt" í tengslum við losun gróðurhúsalofttegunda.
Sérstaða Íslands í orkugeiranum er mikil. Og að sumu leyti bæði góð og slæm. Góð að því leyti að við eigum auðvelt með að fullnægja raforkuþörf okkar með endurnýjanlegri orku. En slæm að því leyti að við eigum nánast enga möguleika til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í raforkubúskapnum.
Sumir kunna að segja að þetta sé ekki kjarni málsins. Að við eigum margvíslega möguleika til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, algerlega án tillits til þess hvernig staðið er hér að raforkuframleiðslu. Með nýrri og betri tækni gætum við t.d. minnkað losun frá fiskiskipaflotanum, við gætum sett strangari losunarkröfur á stóriðjuna og við gætum líka minnkað losun frá bílaflotanum með því að nota t.d. meira lífmassaeldsneyti og/eða rafbíla.
Þetta er allt satt og rétt. Íslenski bílaflotinn losar t.a.m. mikið af gróðurhúsalofttegundum og Íslendingar eiga ansið marga bíla. Og margt smátt getur vissulega gert eitt stórt.
Nú liggur loksins sæmilega ljóst fyrir hver er afstaða íslenskra stjórnvalda á Loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Af fyrstu drögum að aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum, sem birt var á vef umhverfisráðuneytisins í gær 9. desember, virðist sem íslensk stjórnvöld miði að því að við verðum að mestu leyti samstíga Evrópusambandinu í því hversu mikið eigi hér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Í grófum dráttum virðist stefnan gera ráð fyrir því að Ísland verði að fullu bundið að losunartakmörkunum ESB gagnvart bæði stóriðju og flugi. Einnig virðist gert ráð fyrir að losun frá annarri starfsemi verði minnkuð í takt við markmið ESB. Þetta er þó enn óljóst; í áðurnefndri aðgerðaráætlun frá því í gær er talað um 19-32% minni losun árið 2020 en var árið 2005 og í viðtölum hefur umhverfisráðherra ítrekað talað um 15% samdrátt í losun 2020 m.v. það sem var 1990. Það er þó a.m.k. ljóst að gert er ráð fyrir mjög miklum samdrætti í losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum á næstu tíu árum. Og þar að auki má nefna að í aðgerðaráætluninni segir að íslensk stjórnvöld hafi sett sér það markmið að draga úr nettólosun (kolefnisbinding innifalin) um 50-75% fram til 2050. Hvort viðmiðunarárið þarna er 1990, 2005 eða eitthvað annað er ekki augljóst. Enda er í reynd einungis um drög að aðgerðaráætlun að ræða en raunveruleg loftslagsstefna íslenskra stjórnvalda ennþá óljós.
Það sem aftur á móti liggur fyrir er alger stefnubreyting frá því sem var í aðdraganda Kyoto-bókunarinnar. Þá var niðurstaðan sú að Ísland fékk mestu losunarheimildina; 10% umfram losunina viðmiðunarárið 1990. Þar að baki voru veigamikil rök og afar villandi þegar núverandi umhverfisráðherra lýsir þeirri losunarheimild Íslands í Kyoto-bókuninni sem "undanþágu". Þetta var einfaldlega talin sanngjörn niðurstaða.
Í Kyoto-viðræðunum mótuðust samningsmarkmið Íslands af þeirri staðreynd að við framleiðum allt okkar rafmagn frá endurnýjanlegum auðlindum en ekki með kolvetniseldsneyti. Og þar var mjög litið til þess að ef Ísland ætti að taka á sig skuldbindingar um að draga úr losun, yrði útilokað að hér yrði byggð ný stóriðja á skuldbindingartímabilinu. Nú stendur aftur á móti til að Ísland - sem er eyja þúsundir km frá meginlandi Evrópu (mjög háð flugsamgöngum) og framleiðir allt sitt rafmagn með endurnýjanlegum orkulindum - ætli að taka á sig sambærilegar skuldbindingar í loftslagsmálum eins og eitthvert iðnvæddasta og mest mengandi ríkjabandalag heimsins.
Velta má fyrir sér hvað ráði þessum samningsmarkmiðum Íslands? Því er reyndar svarað í aðgerðaráætluninni, því þar segir berum orðum að eitt helsta leiðarljósið að baki henni sé "metnaður". Að Ísland eigi að vera "í fararbroddi í viðleitni við að draga úr losun". Þetta er athyglisvert. Samkvæmt þessu ætlar Ísland sér forystuhlutverk í að minnka kolefnislosun í veröldinni og tekur þess vegna á sig samsvarandi skyldur eins og einhverjir mestu kolvetnissóðar heimsins.
Hugsjónin er falleg. En er þetta rökrétt stefna? Er einhver sanngirni eða rökvísi í því að lífræni bóndinn sem hefur varla notað eitt einasta korn af tilbúnum áburð í áratugi, svo dregin sé upp myndlíking, taki á sig skuldbindingu um að minnka áburðarnotkun sína til jafns á við verksmiðjubændurna. Væri ekki nær að Ísland legði fremur áherslu á að kynna sig sem einn af mikilvægum leikendunum í því að hjálpa versmiðjulandbúnaðinum - þ.e.a.s. þjóðunum sem eru ennþá nær algerlega háðar kolvetniseldsneyti - til að minnka þessa fíkn sína í kolvetniseldsneyti?
Við búum meira að segja svo vel að útí Evrópu eru nokkrir fremstu vísindamenn álfunnar og einhver öflugustu stórfyrirtækin búin að undirbúa jarðveginn fyrir okkur. Orkubloggarinn hefur áður nefnt Desertec-verkefnið, sem ætlað er að verða mikilvægur þáttur í því að breyta orkubúskap Evrópu. Þar er m.a. horft til möguleikans á að Evrópa kaupi græna orku frá Íslandi. Það ætti að vera einn af grunnvallarþáttunum í orku- og loftslagsstefnu íslenskra stjórnvalda. Bloggarinn hefur reyndar líka talað fyrir því að við eigum að brjótast útúr þessari þröngu og arfavitleysu Icesave-deilu og þess í stað bjóða breskum stjórnvöldum og ESB í viðræður um víðtæka samvinnu í orkumálum.
Hvergi í Evrópu er ónýtt endurnýjanleg orka aðgengilegri en á Íslandi. Sé miðað við fólksfjölda, þá á Ísland einfaldlega mestu og bestu tækifæri heimsins í endurnýjanlegri orku. Það skapar okkur einstaka möguleika.
En þetta virðast íslensk stjórnvöld ekki skynja. Telja framtíð Íslands og hinnar örsmáu íslensku þjóðar aftur á móti best borgið með því að við stimplum okkur í flokk með þeim ríkjum sem byggja orkubúskap sinn nánast alfarið á kolvetnisbruna. Að mati Orkubloggarans er einfaldlega ekki heil brú í þeirri stefnu.
Það er enginn vandi fyrir umhverfisráðherra og flokksmenn hennar að vera stórhuga í umhverfismálum, þó svo þau myndu draga aðeins úr metnaði sínum gagnvart losun gróðurhúsalofttegunda. Alþingi getur vel varið meira fjármagni í að sporna gegn jarðvegseyðingu og ofbeit og/eða í endurheimt votlendis, án þess að múlbinda þjóðina til að taka þátt í kostnaði vegna nauðsynlegra breytinga á orkubúskap Evrópu. Ísland er einfaldlega grænasta raforkuland í heimi og á enga mengunarskuld að gjalda í alþjóðlegu samhengi.
Orkubloggið leyfir sér að minna á athyglisvert erindi Halldórs Þorgeirssonar frá Orkuþingi árið 2001. Halldór var lykilmaður í að semja um hver yrði skuldbinding Íslands skv. Kyoto-bókuninni og er sennilega sá Íslendingur sem best þekkir til Loftslagssamningsins. Hann starfar nú á skrifstofu Loftslagssamningsins í Bonn og gegnir þar einni æðstu stöðunni innan þessarar mikilvægu stofnunar. Það er auðvitað engan veginn víst að Halldór sé sammála því sem Orkubloggarinn hefur hér haldið fram. En í áðurnefndu erindi sagði Halldór m.a.:
"Ísland stendur mjög vel í loftslagsmálunum. Miklu skiptir að litið sé til réttra mælikvarða þegar mat er lagt á stöðu ríkja á þessu sviði. 96% losunar gróðurhúsalofttegunda frá iðnríkjunum kemur frá bruna jarðefnaeldsneytis. Notkun jarðefnaeldsneytis er því rót þess vanda sem jarðarbúar standa nú frammi fyrir gagnvart loftslagsbreytingum af manna völdum. Baráttan við loftslagsvandann snýst því öðru fremur um það að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og að nota endurnýjanlega orkugjafa annað hvort beint eða til þess að framleiða eldsneyti s.s. vetni.
Eins og staðan er í dag þá kemur 99,9 % af raforkuframleiðslunni hér á landi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. 70% af frumorkuþörfinni er mætt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta hlutfall er hæst hjá okkur af þeim ríkjum sem við berum okkur almennt saman við. Þetta hlutfall verður ekki hækkað enn frekar nema með því að draga úr olíunotkun í samgöngum og sjávarútvegi eða með því að auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa t.d. með vetni sem millilið.
Það má því segja að loftslagsmálin snúist öðru fremur um orkubúskap mannkynsins. Ekki verður haldið áfram á þeirri braut að auka sífellt orkunotkunina og að mæta aukinni orkuþörf hvort sem er á heimilunum, í samgöngum eða í atvinnulífinu með jarðefnaeldsneyti. Áhugi hefur þegar aukist á nýtingu kjarnorku til raforkuframleiðslu með þeim úrgangs- og öryggisvandamálum sem því tengjast. Nýting endurnýjanlegrar orku leysir ekki allan vanda en hún getur skipt miklu máli á vissum svæðum.
Mikilvægt er að aukning orkunotkunar í þróunarríkjunum verði mætt með endurnýjanlegum orkulindum þar sem kostur er. Þar eru víða ónýttir möguleikar. Skortur á þekkingu takmarkar hins vegar möguleika þróunarríkjanna til þess að nýta eigin orkulindir en litla þekkingu þarf hins vegar til þess að auka notkun á jarðefnaeldsneyti til raforkuframleiðslu. Það er því ljóst að þörfin fyrir þá þekkingu sem byggst hefur upp hér á landi við beislun orku náttúrunnar mun aukast og við Íslendingar getum miðlað öðrum af okkar reynslu."
Nákvæmlega! Miðlum öðrum af okkar reynslu. Bjóðum fram okkar þekkingu og leitum eftir samstarfi um að nýta orku Íslands með skynsamlegum hætti og til hagsbóta fyrir bæði Íslendinga og aðra sem vilja kaupa og nýta sér þessa orku. En skipum okkur ekki í ruslflokk orkugeirans á grundvelli einhvers misskilins metnaðar um að Ísland þurfi að standa fremst í flokki þeirra sem draga úr losun.
Einhverjum kann að finnast þetta hálf undarlegt tuð hjá Orkubloggaranum. Er ekki barrrasta fínt að Ísland sýni "metnað" í loftslagsmálum? Þar að auki virðist nokkuð almenn samstaða um málið. Ekki einu sinni krónískir nöldrarar eins og Samtök atvinnulífsins hafa gert athugasemd við málatilbúnað umhverfisráðherra.
Í reynd snýst þetta samt allt um peninga. Af aðgerðaráætluninni er augljóst að losunarmarkmiðunum er ætlað að réttlæta auknar álögur á t.d. eldsneyti og líklega einnig á bifreiðar. Það mun koma niður á kaupmætti almennings, hækka verðtryggð lán o.s.frv. Ennþá verra er, að ein af grunnforsendunum fyrir þessari losunarstefnu virðast vera einhver þokukennd tækifæri að koma fiskiskipaflotanum á "jurtaolíu" eða annað lífmassaeldsneyti. Repjan er vissulega spennandi - en miðað við þau smáu verkefni sem eru í gangi hér með tilraunir af því tagi, er þetta vægast sagt vafsöm forsenda fyrir svo mikilvægri pólitískri ákvörðun sem loftslagsstefna stjórnvalda er.
Til að gera langa sögu stutta er satt að segja mikil óvissa um að unnt verði að standa við þau markmið að minnka losun hér verulega innan tíu ára eða svo. Nema þá a.m.k. með mjög umtalsverðum auknum skattaálögum. Þar að auki er vert að minnast þess að losunarheimildir hafa fjárhagslegt verðmæti. Íslands hefur þá sérstöðu að nota ekkert kolvetniseldsneyti til rafmagnsframleiðslu, meðan flest önnur ríki eru að framleiða 70-90% af rafmagninu sínu með kolvetnisbruna. Það er sérkennilegt að nýta ekki þessa sérstöðu og setja okkur þess í stað í sama flokk eins og kolsvartar kolaþjóðir Evrópu. Þó svo Íslendingar aki um á bílum og geri út fiskiskip er varla réttlætanlegt að við eigum að sætta okkur við jafn takmarkaðar losunarheimildir eins og þjóðir sem byggja velmegun sína og kolvetnisbruna.
Fyrir vikið er líklega best fyrir íslensku þjóðina að Kaupmannahafnar-ráðstefnan skili engri endanlegri niðurstöðu og íslensk stjórnvöld fái tækifæri til að endurmeta samningsmarkmið sín og kynna þau. Bara verst að nú er hann Halldór líklega ekki í samninganefnd Íslands.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.12.2009 | 06:53
Siemens 3-MW Direct-Drive
Í síðasta Silfri spjallaði Egill Helgason við breskan blaðamann, Roger Boyes, sem er höfundur bókar sem nefnist Meltdown Iceland.
Þá bók hefur Orkubloggarinn enn ekki lesið. En mikið afskaplega þótti bloggaranum þetta hressandi viðtal. Svo var líka ágætt að heyra Boyes leggja áherslu á að Íslendingar geri sér verðmæti úr skuldum sínum. Svaðalegur skuldari getur nefnilega átt ýmis tækifæri gagnvart lánadrottnum sínum.
Hvort þessi skoðun rímar við það sem Orkubloggið hefur verið að tala fyrir, um að umsnúa Icesave-deilunni yfir í víðtækan samning um uppbyggingarstarf í endurnýjanlegri orku og útflutning á grænni raforku til Evrópu, er kannski vafamál. En hvort sem þarna er samhljómur á milli eður ei, þá er Orkubloggarinn áhugasamur um að komið verði á fót fjölþjóðlegu tæknifyrirtæki, með aðalstöðvar sínar hér á landi, sem ráðist í það verkefni að leggja rafstreng frá Íslandi til Evrópu.
Reyndar virðist sú trú nokkuð útbreidd á Íslandi, að vindorka sé svo rándýr að þetta sé tóm tjara. Það er vissulega miklu hagkvæmara að virkja mikla fallhæð vatns eða virkja háhitann. Og raforka frá kolum eða jarðgasi, jafnvel með einhverjum kolefnissköttum, er líka talsvert ódýrari en frá vindorkuverum. En í Evrópu verður pólitískum markmiðum um að stórauka hlutfall endurnýjanlegrar orku ekki náð nema með því að horfa til dýrari kosta en kola og jarðgass. Og þar í sveit eru hvorki fyrir hendi möguleikar í anda Kárahnjúka né Hellisheiðar.
Þess vegna horfir ESB langmest til sólarorku annars vegar og vindorku hins vegar. Og til að ljúka þessum alltof langa inngangi, þá leyfir Orkubloggarinn sér að fullyrða að vegna landþrengsla í Evrópu og langvarandi logntímabila, séu góðar líkur á að það sé bæði rökrétt og fjárhagslega framkvæmanlegt, að að reisa stór vindorkuver á Íslandi og flytja raforkuna til Evrópu um sæstreng.
Vindorkuiðnaðinum er oftast lýst sem þroskuðum" iðnaði. Sem er í reynd eiginlega tóm tjara. Framfarirnar í vindorkunni hafa verið talsverðar á síðustu 10-15 árum, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Hagkvæmnin hefur stóraukist vegna tækniframfara og nú eru horfur á að enn eitt stökkið verði tekið. Töfraorðin í vindorkunni þessa dagana eru mörg - en eitt það mest spennandi er örugglega Siemens 3-MW Direct-Drive.
Þess nýjasta tækniuppfinning verkfræðisnillinganna hjá Siemens er afrakstur fimm ára þrotlausrar vinnu. Það þarf auðvitað ekki að kynna Siemens fyrir lesendum Orkubloggsins. Siemens hefur í marga áratugi starfað í orkutækninni og selur búnað í bæði vindrafstöðvar, sólarorkuver og jarðvarmavirkjanir. Svo fátt eitt sé talið. Þar á bæ eru menn alls ekki sáttir við að vera einungis 6. stærsti framleiðandi vindrafstöðva í heiminum. Og hafa sett sér það markmið að þeir nái fyrsta sætinu í alþjóðlega vindorkugeiranum strax árið 2012!
Til að svo megi verða þarf Siemens helst að geta boðið upp á byltingakennda nýjung. Vindrafstöð sem verður mun hagkvæmari en þær sem þekkjast í dag. Og þar sem hvert eitt og einasta af stóru vindorkufyrirtækjunum er á fullu að bæta túrbínurnar sínar, spaðana og annað sem lýtur að þessari tækni, þarf sprettur Siemens að verða ansið hressilegur til að fyrirtækið nái forystunni á þessum hratt vaxandi og spennandi markaði.
Baráttan stendur ekki aðeins við þekkt nöfn eins og Vestas, GE eða Gamesa. Harðasta keppnin kemur ekki síst frá Kínverjunum, hvar vindorka er á blússandi siglingu og gríðarmikil og hröð þróunarvinna er í gangi. Bæði vind- og sólarorka njóta ríkulegs stuðnings frá kínverskum stjórnvöldum og það munar um minna fyrir kínversku vindorkufyrirtækin.
En nú eru ýmsir sem spá því að Siemens kunni að takast ætlunarverk sitt um að verða stærstir. Lykilatriðið í því verði ný tegund vindrafstöðva frá Siemens, þar sem búið er að losa sig við gírbúnaðinn. Það vill nefnilega svo til að það sem hefur valdið vindorkufyrirtækjunum hvað mestum höfuðverk eru bilanir í gírbúnaði. Og sökum þess að vindrafstöðvar eru almennt ekki að skila nema um eða innan við 30% nýtingu, mega þær illa við dýru rekstrarstoppi af þessu tagi.
Þessi vandræði voru orðin svo stórfelld að árið 2007 hugleiddi meira að segja danska Vestas að draga sig út af markaðnum fyrir offshore-vinrafstöðvar. Endalaust vesen með gírana í dönsku vindrafstöðvunum þar utan við ströndina, þótti benda til þess að þar yrði nægjanlegri hagkvæmni hugsanlega aldrei náð. Árið 2008 sáu þó engillinn hann Ditlev Engel og hinir ljúflingarnir hjá Vestas að sér. Og hafa nú á ný sett allt á fullt að leita tæknilausna í því skyni að leysa gírkassavandamálin í stóru vindrafstöðvunum.
En þessi ársseinkun gæti orðið Vestas dýrkeypt. Siemens hefur nefnilega í laumi unnið í heil fimm ár að lausn þar á. Og fyrr á þessu ári (2009) kynnti Siemens svo nýja túrbínu, sem er eins konar frumgerð (prótótýpa) að stórri gírkassalausri vinrafstöð.
Þetta hafa Siemensararnir verið að dunda sér við í skógarrjóðrunum við hátæknisetrið sitt í Brande á Jótlandi. Og þeir byrja sko ekki smátt. Fyrsta gerðin sem þetta leyniteymi verðfræðipælaranna hjá Siemens kynna, með hinum nýja búnaði, er 3 MW gírkassalaus rafstöð. Sem er einfaldlega nefnd Siemens 3MW Direct Drive Turbine.
Búnaðurinn á svo að vera kominn í sölu á næsta ári undir heitinu SWT-3.0-101. Og í dúndrandi fjöldaframleiðslu skömmu síðar. Fyrstu kaupendurnir eru auðvitað strax orðnir óþolinmóðir að prufa herlegheitin. Þetta er einfaldlega mjög spennandi.
Til marks um það hversu mikil nýjung þarna er á ferðinni, þá hefur nær allur vindorkuiðnaðurinn verið á einu máli um það s.l. þrjá áratugi að gírbúnaður sé algerlega nauðsynlegur til að ná sem mestri hagkvæmni. En nú er Siemens sem sagt búið að snúa við blaðinu. Og segja a framtíðarþróunin í vindorkunni muni byggjast á einu grundvallarhugtaki: Einfaldleika.
Það eru satt að segja engin smátíðindi þegar reynslubolti eins og risafyrirtækið Siemens tilkynnir að það sé búið á ná tökum á nýrri og ódýrri tækni, sem fækki hreyfanlegum hlutum í vindrafstöð um 50%. Markmiðið er að framleiða risastórar gírlausar vinrafstöðvar innan fárra ár; stöðvar upp á 5-10 MW. Það liggur við að Orkubloggarinn kaupi sér strax flugmiða til Billund til að kíkja á þessa frumgerð að vindrafstöðvum framtíðarinnar; þennan 90 metra háa turn við aðalstöðvar Siemens Wind í jóska smábænum Brande, með spaða sem eru 101 metri í þvermál. Og ENGIR gírar!
Það er líka athyglisvert hvernig áherslur danskra stjórnvalda á vindorku hafa dregið til sín stóran hluta af alþjóðlega vindorkuiðnaðinum. Sem lengi vel einblíndi á dönsku skattareglurnar, sem svo lengi gerðu vel við vindorkuna. En í dag eru öll þessi "dönsku" fyrirtæki í því að framleiða risastórar vindrafstöðvar fyrir allan heiminn. Hvort sem er Vestas, Siemens eða Suzlon (sem er að vísu auðvitað með aðalskrifstofu sína á Indlandi en skipuleggur sölu um allan heim frá Árósum).
Þetta er árangur framsýnnar og metnaðarfullrar orkustefnu Dana. Ætli við fáum einhvern tímann að sjá eitthvað svoleiðis hjá íslenskum stjórnvöldum? Eða er álið bara málið hér á Klakanum góða?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.12.2009 | 00:32
Theroux
5.12.2009 | 19:23
Flugumferð
Orkubloggarinn átti sér eitt sinn þann draum að verða flugmaður. Eins og lesa má um hér.
Fyrir vikið er bloggarinn nokkuð meðvitaður um hvernig flugumferð er háttað og umferðarstjórnun í nágrenni flugvalla. Og verður stundum hugsað til þeirrar geggjuðu umferðar sem er við fjölförnustu flugvelli heimsins. Eins og t.d. Heathrow við London eða flugvöllinn við Frankfurt í Þýskalandi, svo dæmi séu tekin um stóra evrópska flugvelli.
Eru þá ótaldir fjölförnustu flugvellirnir í N-Ameríku og Asíu, eins og t.d. í Los Angeles, Chicago, Tokyo og Hong Kong. Reyndar mun fjölfarnasti flugvöllur veraldar vera HartsfieldJacksonvið Atlanta í Georgíufylki í Bandaríkjunum. Um hann fóru 90 milljónir farþega árið 2008 og næstum milljón flugvélar.
Þessi gríðarlega umferð um Atlanta-flugvöll stafar af því að hann er einhver mikilvægast miðstöð innanlandsflugsins í Bandaríkjunum. Sem er kannski táknrænt fyrir það hvernig Bandaríkjamenn nota flugvélar nánast sem almenningsfarartæki. Sennilega er floti Delta-flugfélagsins með um 500 farþegaþotur stærsti notandi HartsfieldJackson og eflaust einhverjir Íslendingarnir sem hafa notað Delta í innanlandsflugi vestra.
Myndina að ofan, þar sem hver flugvél er ljós punktur, má sjá hér með hreyfingu. Sams konar mynd í meiri slow motion sést á myndbandinu hér að neðan. Gott að hugsa til þessa t.d. rétt fyrir lendingu á dásamlega tómum Keflavíkurflugvelli.
Það er líka athyglisvert að sjá hversu sáralítil flugumferð er um Suðurhluta Kyrrahafs. Sem skýrir t.d. af hverju hann Chuck "FedEX" Noland átti ekki séns á að finnast, í kvikmyndinni Cast Away. Sama má segja um flug yfir sunnanvert Atlantshaf og yfir Indlandshaf; þetta virðast fáfarnar slóðir farþegaflugvéla.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2009 | 11:39
Tækifæri í rokinu
Í síðustu færslu fjallaði Orkubloggið um útflutning á raforku um sæstreng. Og fékk óvenju mikil viðbrögð. Þetta er bersýnilega talsvert hitamál og fólk með afar ólíkar skoðanir á því hvort slíkur útflutningur sé mögulegur og jafnvel hvort hann sé réttlætanlegur. Sumir tala um að slíkt væri hráefnisútflutningur án nokkurs virðisauka - og eru þá líklega að vísa í það sem algengt er í þriðja heiminum. Aðrir telja þetta snilldarleið til að efla íslenskan iðnað og muni hafa mjög jákvæð áhrif á margvíslegar þjónustugreinar hér. Eitt er víst; jafnvel þó slíkur raforkuútflutningur myndi geta borið sig yrði þetta pólitískt hitamál.
Tæknilega og pólitískt séð hefur raforkuútflutningur aldrei verið jafn raunhæfur eins og núna. Og líka fjárhagslega. A.m.k. að mati Orkubloggarans. Ætlar bloggarinn að leyfa sér að hnykkja á þessu, með því að setja hér inn nokkur atriði sem hann lét fljóta inn á athugasemdir með síðustu færslu. Sem sagt í reynd endurtekið efni!
Orkumál Evrópu eru í dag gjörólík því sem nokkru sinni hefur verið. Olíuframleiðslan innan ESB-ríkjanna minnkar hratt, ESB er orðið mjög háð innflutningi á rússnesku gasi og þar að auki er ríkur vilji innan ESB að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Allt er þetta sem vindur í segl endurnýjanlegrar orku og nýtist þeim sem geta boðið ESB slíka orku. Það er sem sagt einfaldlega þannig að orkustefna ESB er til þess fallin t.d. að auka áhuga fjárfesta á verkefnum af því tagi sem lýst var í síðustu færslu Orkubloggsins; að flytja raforku til ESB um sæstreng frá Íslandi.
Þó svo Orkubloggarinn líti ekki síst til raforku úr iðrum jarðar í þessu sambandi, eru möguleikarnir í vindorkunni kannski ennþá áhugaverðari. A.m.k. svona fyrst í stað til að auka orkufjölbreytnina hér á Íslandi. Raforkuframleiðsla vindorkuvera er mjög sveiflukennd og hentar illa í raforkusamfélagi eins og hér á Íslandi. Raforkusamfélag sem byggir svo svakalega á stóriðju, þarf mjög stöðugt raforkuframboð.
Um þetta fjallaði Orkubloggarinn lítillega í skýrslunni sem bloggarinn vann í vor fyrir þáverandi iðnaðarráðherra. Þar var sett fram sú viðmiðun að vegna þess hversu stóriðjan notar mikinn hluta íslenskrar raforku, verði raforka frá íslenskum vindorkuverum vart nokkru sinni umfram 5% af heildar-raforkuframleiðslunni á Íslandi. Er þá vel að merkja miðað við innanlandsmarkað, enda er nú ekki um neinn útflutning að ræða.
Vindorkuver á Íslandi gætu hins vegar mallað endalaust inn á hið stóra raforkukerfi Evrópu; t.a.m. Bretlands. Nefna má að vindorkuver upp á nokkur hundruð MW þekkjast víða í dag og nokkur vindorkuver með uppsett afl upp á ca. 4 þúsund MW hvert eru í bígerð. Það er alveg tímabært að framkvæma raunverulega athugun á því að reisa stór vindorkuver á Íslandi. Og beina íslensku vindorkunni inn í rafstreng til Evrópu. Tær snilld - ef þetta væri fjárhagslega framkvæmanlegt.
Kannski er þetta útópía. Eða dystópía! En að mati Orkubloggsins er full ástæða til að skoða slíka möguleika. Dönsk dagblöð tala nánast aldrei um Ísland nema að hnýta "den vindforblæste klippeö" í textann. Tökum þá á orðinu. Við borgum Icesave einfaldlega með rokinu - sem varla telst endanleg auðlind! Það væri fjarska einkennilegt ef evrópskir pólitíkusar myndu hafna slíkri leið - jafn viljugir og þeir eru til að dásama endurnýjanlega orku og mikilvægi þess að verða óháðari kolum og innfluttu gasi.
Væri ekki gaman að sjá t.d. rokið á Miðnesheiði streyma niður í nýja, fína rafstrenginn til Skotlands og þaðan áfram um Bretlandseyjar? Og horfa yfir turnana þegar maður kæmi til lendingar á nýja alþjóðaflugvellinum við Reykjavík. Sem líka var borgaður með vindi til Bretlands.
Bretar horfa fram á að þurfa að loka fjölmörgum kolaorkuverum til að geta mætt skuldbindingum ESB um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Þeir nota nú um 350 TWh á ári - og þar af koma einungis rúmlega 5% frá endurnýjanlegum orkulindum. Til samanburðar framleiða Íslendingar nú um 17 TWh árlega. Það að Íslendingar myndu auka rafmagnsframleiðslu sína um 100% myndi því einungis mæta tæplega 5% af allri rafmagnsnotkun Breta. Það væri mikill bissniss fyrir Ísland en varla stórmál fyrir Breta.
Allra leiða er nú leitað í Bretlandi til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Þess vegna er Bretland t.d. Mekka sjávarfallavirkjanaiðnaðarins. Þrátt fyrir að sú tækni sé ennþá almennt mjög dýr og í reynd nánast á byrjunarreit. Reyndar er varla ofsagt að Bretar standi frammi fyrir gífurlegri áskorun í orkumálum. Það virðist hreinlega vonlaust verkefni fyrir Breta að ætla að ná markmiðum um að losa sig frá kolarafmagninu nema að byggja fjölmörg ný kjarnorkuver. Til að vega upp á móti gangrýni á kjarnorkuna munu þeir líka fjárfesta mjög í endurnýjanlegri orku og grípa tækifæri á að flytja inn slíka orku.
Þarna kunna að vera áhugaverðir möguleikar fyrir Íslendinga að flytja út græna orku. T.d. íslenska vindorku. Og hugsanlega einnig rafmagn frá jarðvarma, t.d. eftir því sem djúpboranatækni fleygir fram. Það að flytja út hreinustu raforku sem þekkist hefur nákvæmlega ekkert með þriðja heims hráefnisútflutning að gera. Þvert á móti væri þetta leið til að auka bæði hagsæld og virðingu Íslands. Góða helgi!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2009 | 00:18
Renewable Deal
Norðmenn flytja út jafn mikið rafmagn eins og öll sú raforka sem framleidd er á Íslandi í dag. Um 17 þúsund GWh.
Lengst af fór raforkan frá Noregi til Evrópu, um raflínur gegnum Svíþjóð og kapla sem liggja eftir hafsbotninum milli Noregs og Danmerkur. En nú er búið að leggja nýjan rafmagnskapal neðansjávar frá Noregi og alla leið til Hollands. Hann er í dag lengsti neðansjávarrafstrengur í heimi. Og kallast NorNed.
NorNed er um 580 km langur og liggur eftir botni Norðursjávar frá smábænum Feda á suðurströnd Noregs og til hollenska bæjarins Eemshaven. Hann var lagður á árunum 2005-07 og í maí 2008 byrjuðu formleg viðskipti með rafmagn um kapalinn.
Það eru norska Statnett og holenska TenneT sem reka kapalinn, en hann var smíðaður af sænsk-svissneska iðnaðarrisanum ABB. Skv. fréttum um rekstur kapalsins virðist hann vera að skila mun meiri tekjum en áætlað var og þau tæknivandamál sem komið hafa upp hafa reynst óveruleg. Enda eru menn farnir að plana ýmsar fleiri nýjar raftengingar með slíkum köplum hingað og þangað um bæði Norðursjó, Eystrasalt og Miðjarðarhaf.
Auk NorNed eru nú uppi áætlanir af hálfu Norðmanna um að leggja fleiri rafstrengi frá Noregi til bæði meginlands Evrópu og Bretlands. Það eru nýju jafnstraums-háspennustrengirnir (HVDC) sem gera þennan möguleika raunhæfari en nokkru sinni. Rafmagnsflutningar langar leiðir eftir hafsbotni eru sem sagt orðnir að veruleika. Og þó svo leiðin frá Íslandi til Evrópu sé öllu lengri en milli Noregs og Hollands og dýpið miklu meira, sýnir þessi magnaði rafmagnskapall NorNed að Ísland á sennilega prýðilegan möguleika á að verða rafmagnsútflytjandi.
Þetta vita framsýnir menn. Það er athyglisvert að hjá Desertec-verkefninu, sem rekið er af einhverjum alklárustu verkfræðingum Evrópu og á rætur sínar hjá evrópsku geimferðastofnuninni, er t.a.m. gert ráð fyrir því að í framtíðinni muni rafmagn frá íslenskum vindorkuverum streyma um neðansjávarkapla til Evrópu. Það kann jafnvel að vera bæði raunhæfari og skynsamlegri möguleiki en að Evrópa verði háð sólarorku frá heldur vafasömum stjórnvöldum á Arabíuskaganum og í N-Afríku, eins og Desertec-verkefnið horfir hvað mest til. Það er a.m.k. augljóst að innan ESB ætti að vera mikill áhugi á íslenskri raforku.
Að baki Desertec standa nokkur af öflugustu stórfyrirtækjum álfunnar. Einnig er framkvæmdastjórn ESB áhugasöm um verkefnið og það nýtur pólitísks stuðning margra stærstu aðildarríkja sambandsins.
Fyrirtækin sem hyggjast koma Desertec í framkvæmd hafa stofnað til þess sérstakt félag (D II). Þ.á m. eru áðurnefnt ABB, orkufyrirtækin E ON og RWE, Deutsche Bank, þýska Munich Re Group (Münchener Rück, sem er stærsta endurtryggingafyrirtæki heims), spænska iðnaðarsamsteypan Abengoa, þýski bankinn HSH Nordbank, og þýski verkfræðirisinn M+W Zander. Það er einfaldlega borðleggjandi að kynna þessum glæsta hópi Ísland sem áhugasaman þátttakanda í mótun orkustefnu Evrópu.
Menn eiga ekki að óttast þá hugmynd að selja íslenskt rafmagn til annarra landa. Þvert á móti er skynsamlegt að nýta sér tækifærin sem skapast vegna orkuþorsta ESB og stefnu sambandsins um að auka hlutfall endurnýjanlegrar raforku í orkuneyslu ESB-ríkjanna. Framleiðsla og sala á raforku af þessu tagi til ESB yrði lykill að meiriháttar nýjum íslenskum hátækni-iðnaði.
Nú er tækifæri fyrir forsætisráðherra Íslands, ríkisstjórnina og Alþingismenn að taka af skarið. Og sýna Evrópuþjóðunum að þrátt fyrir glórulausa og óafsakanlega áhættufíkn íslenskra útrásarsukkara, er gott samband við íslenska sérþekkingu og íslenskar auðlindir miklu verðmætara en að fá borgaða þessa Icesave-aura í beinhörðu.
Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga gæti hér líka tekið frumkvæðið. Forræði á skipulagsmálum er á hendi sveitarfélaganna og þau hafa því miklu hlutverki að gegna um hvernig nýta eigi orkuauðlindirnar innan lögsögu þeirra. Þar sem verulegur hluti af þeim auðlindum eru innan þjóðlendna er þó bersýnilega mikilvægt að eiga gott samstarf við ríkið. Varla ástæða til að vænta áhugaleysis þaðan; uppbygging á nýrri stoð í íslenska orkugeiranum yrði jú allra hagur.
Umbreytum Icesave-málinu yfir í öflugan endurreisnarsamning! Bjóðum Evrópusambandinu til viðræðna um umfangsmikla uppbyggingu nýrra jarðhitavirkjana og vindorkuvera í þágu bæði Íslands og Evrópu. Og að slíkar framkvæmdir verði hluti af því að leysa deiluna um Icesave. Innst inni vill ESB örugglega leysa Icesave-málið í góðu og sá pakki er bara smámunir þegar byrjað er að tala um möguleikana sem felast í endurnýjanlegri íslenskri orku.
ESB vill draga úr þörf sinni á rússnesku gasi og minnka bruna á kolvetniseldsneyti. Ísland vill fjölbreyttara og styrkara atvinnulíf. Uppbyggilegt samkomulag af þessu tagi er rétta leiðin, í stað þess að þvinga skuldum einkafyrirtækis ofan í kokið á þjóðinni.
Einu sinni sköpuðu menn New Deal. Nú er rétti tíminn til að ýta af stokkunum ekki síður merkilegu verkefni; Renewable Deal!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)