Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Alí: Spámaður Olíuguðsins

Stundum þarf að taka ákvörðun. Eins í dag þegar búið var að velta vöngum í heila viku um hvað hvolpurinn, sem kominn er á heimilið, eigi að heita. Frosta, Hekla, Katla, Úa, Saga, Lotta, Askja... Hvað passar best við fallega tík af íslensku eðalkyni? Og í dag var tekin ákvörðun. Askja heitir hún.

En ég er ekki tilbúinn að taka ákvörðun um það hvort ég telji að peak-oil sé náð. Enda er það lítilfjörlegt mál miðað við mikilvægi þess að nefna hund! Það er reyndar ósköp auðvelt að setja sig í gáfulegar stellingar og segja eins og margir aðrir gera nú um stundir: "Allt bendir til þess að við höfum séð endann á easy oil - héðan í frá liggur leiðin að 200 dollara olíu!" A.m.k. er fátt sem bendir til þess að olían taki upp á því að renna sér niður í góðu gömlu 50 dollarana. En gætum okkar samt - það getur verið vafasamt að fylgja fjöldanum. Stundum er farsælast að skera sig úr hópnum.

OilGodjpg

Muniði eftir Arjun Murti? Örugglega sumir. Murti var (og er) starfsmaður Goldman Sachs og lét það út úr sér árið 2005 að olían myndi innan ekki mjög langs tíma fara yfir 100 USD og jafnvel Í allt að 105 USD. Það varð hreinlega allt vitlaust. Verðið á fatinu var þá um 50 USD og menn töldu Murti einfaldlega galinn og hlógu að fíflinu. Þeir hinir sömu hlæja víst minna þessa dagana. En Murti sjálfur er ekki að hreykja sér, heldur bendir á að hann hafi líklega átt að láta menn hlæja ennþá hærra - spá hans hafi jú reynst full varfærin.

En Murti viðurkennir líka fúslega að kannski hafi hann eftir allt rangt fyrir sér. Kannski sé þetta verð bara fyrst og fremst vegna spákaupmennsku. Og ef svo sé, fari olíuverðið líklega niður í 35 USD á árabilinu 2010-2014. En hann bætir því við að sjálfur telji hann líklegast að við sjáum senn olíuverðið í 150-200 USD. Og miðað við reynsluna af spádómum Murti's er kannski ekki skrýtið að nú vilji menn taka mark á honum og kaupa, kaupa, kaupa...

Ali al-Naimi

Já - það er gaman að þessu. En í reynd snýst þetta allt um óvissuna í Arabíu. Enginn veit hversu miklar olíubirgðirnar þar eru - en á því veltur nánast öll framtíð og þróun orkugjafa. Ekki furða þó menn sperri eyrun þegar Ali al-Naimi talar (olíumálaráðherra Saudanna, sbr. myndin hér til hliðar). Þetta er svo sannarlega efni í góða Tinnabók.

Rétt að bæta því við að Alí, þessi helsti spámaður olíuguðsins, var nýlega valinn einn af 100 áhrifamestu einstaklingum heims af Time Magazine. Enda í reynd maðurinn sem stjórnar krananum. Vona að hann hvísli að mér í draumi hvort hann hyggist skrúfa meira frá.


mbl.is Olíuverð setur nýtt met
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OlíuBóla?

PaulKrugman

Nú er mér nóg boðið. Sjálfur Paul Krugman farinn að taka undir að Peak-Oil sé náð. Hann skrifar í New York Times í gær, að ekki sé hægt að kenna spákaupmennsku um olíuverðið nú. Hátt verð sé einfaldlega vegna þess hversu illa gangi að finna nýjar olíulindir og vegna eftirspurnar frá Kína og fleiri ríkjum sem nú séu að upplifa mikinn efnahagsvöxt:

"...the rise in oil prices isn’t the result of runaway speculation; it’s the result of fundamental factors, mainly the growing difficulty of finding oil and the rapid growth of emerging economies like China." 

Greinina má sjá hér: http://www.nytimes.com/2008/05/12/opinion/12krugman.html?_r=1&oref=slogin

Mér fer alltaf að líða hálf undarlega þegar margir byrja að vera sammála mér. Enda vanur öðru; menn hvöttu mig bæði til að kaupa í Oz og Decode hér um árið og FL Group var mér líka sagt að væri skothelt dæmi. En ég var eitthvað efins - einn fýlupoki útí horni sem ekki vildi leika með. Og í vetur þegar ég trúði á að olíuverð myndi hækka í 120 USD fyrir vorið, töldu aðrir það auðvitað firru. Það gengur svona.

En það er greinilega allt i einu komið í tísku að afneita möguleikum á því að olíuverðið nú sé bóla. Hér er t.d. nýtt innlegg frá CNBC:

http://www.cnbc.com/id/15840232?video=738851849&play=1


mbl.is Gríðarlegur hagnaður hjá StatoilHydro
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðarorkan

Í athugasemd við síðustu færslu spyr ónafngreindur mig að því hvaða orkugjafar ég telji að muni leysa olíuna af hólmi. Mér er ljúft að svara því og segja mína skoðun á þessu.

1. Enginn orkugjafi mun á okkar tímum leysa olíuna af hólmi. Enda er nú meira af henni en nokkru sinni fyrr. Og þó svo verðið hækki verður olían áfram til staðar og áfram notuð rétt eins og nú.

2. Hátt olíuverð mun gera aðra orkugjafa samkeppnishæfari. Það mun hvetja til fjárfestinga í öðrum orkugjöfum og meira fjármagn mun leiða til hraðari tækniframfara, sem bæði munu stuðla að betri orkunýtingu og t.d. ódýrari vindorku og ódýrari sólarorku. En olía, gas og kol verða áfram mikilvægustu orkugjafarnir.

3. Til skemmri tíma litið mun lítil breyting verða. Notkun endurnýjanlegrar orku mun aukast hlutfallslega hraðar, en þó áfram einungis vera lítið brot af allri orkunotkuninni. Líklegt er að ef olíuverð helst áfram mjög hátt, muni notkun kola aukast umtalsvert til að framleiða raforku og einnig hlýtur að verða meiri notkun á kjarnorku.

4. Til lengri tíma finnst mér líklegt að bílar muni ganga fyrir rafmagni. En ég sé ekki annað fyrir mér en að bæði flugvélar og skip muni um langa framtíð nota sömu orkugjafa og nú. Smám saman munu iðnaður og heimili fá meira af orkunni frá öðrum orkugjöfum en í dag (þá er ég að tala um útlönd). En eins og er, er ekki að sjá neinar meiri háttar hraðar breytingar. Þetta mun gerast hægt og sígandi.

5. En hvaðan á "nýja" orkan að koma? Til lengri tíma litið gæti ég trúað því að rafmagnsframleiðsla með sólarorku eigi eftir að aukast mikið. Þá mun þörfin fyrir olíu, gas, kol og kjarnorku hugsanlega minnka umtalsvert. Þetta er jafnvel ekki bara draumsýn. Allra síðustu ár hefur orðið hröð þróun í framleiðslu rafmagns með ódýrari sólarorkutækni en þekkst hefur til þessa. Sú tækni felst í að safna sólarorkunni með sérstökum speglum, í brennipunkt, þar sem gríðarlegur hiti myndast og er hann nýttur til að búa til öflugan gufuþrýsting sem knýr túrbínu og framleiðir rafmagn (reyndar eru til nokkrar mismunandi aðferðir við rafmagnsframleiðsluna). Enn fremur er nú hægt að geyma rafmagnið sem framleitt er með sólarorku. Tæknin er ekki glæný en er nú orðin ódýrari og hagkvæmari en áður.

6. Fyrsta einkarekna orkuverið af þessu tagi (Nevada Solar One) tók til starfa í Nevada í Bandaríkjunum á liðnu ári og framleiðir um 64 MW. Það eru svo sem engin ósköp - líklega svipað og Kröfluvirkjun. En til samanburðar má nefna að menn álíta að bara í Nevada einu sé unnt að framleiða 600.000 MW með þessari tækni (og nú er verið að skoða enn stærri möguleika á svona orkuframleiðslu í Sahara, í samstarfi Evrópusambandsins og Norður-Afríkuríkja). Hér má sjá verið í Nevada:

http://www.nevadasolarone.net/newsroom/videos

Og sama myndskeið á að vera hér á YouTube, en hlekkurinn virðist reyndar ekki alltaf virkur:

 

 

 


mbl.is Hræringar á olíuverði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vondorka í Bandaríkjunum

Tornado_US

Ýmsir hafa bent á möguleika þess að beisla vindorkuna í Bandaríkjunum. Tala menn þá jafnan um tvö "vindbelti", sem annars vegar nær frá Texas í suðri og allt norður til landamæra Kanada, og hins vegar belti frá Texas og vestur til Kaliforníu. Þetta gæti orðið gríðarleg rafmagnsframleiðsla og t.d. leyst af hólmi fjölda kolaorkuvera í landinu.

En maður veltir þó fyrir sér hvernig þetta fer saman við hættu á skýstrokkum, a.m.k. á sumum þessara svæða. Sbr. kortið hér fyrir ofan sem sýnir tíðni skýstrokka í Bandaríkjunum.

WindTurbineIllustr

Reyndar eru vindtúrbínur með búnaði, sem slekkur á spöðunum þegar vindstyrkur fer yfir ákveðið hámark. Þannig að kannski er þetta alls ekkert vandamal.

Oft er miðað við að líftími vindtúrbínu, þ.e. turnsins og spaðanna, sé um 20 ár. En þegar tækin fara að eldast getur farið að bera á veikleikum. Og þá er eins gott að vera ekki of nálægt. Eins og sjá má á vídeóinu hér að neðan: 

 

 

Og hér er annað myndskeið. Þarna mun sjálfvirkur slökkvibúnaður hafa brugðist. Þetta var smá spæling fyrir Vestas. En til allrar hamingju fyrir þá var þetta gamall búnaður og ekki urðu nein slys á fólki:

 


mbl.is 21 lést í óveðri í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tinni og kolafarmurinn

Væntanlega könnumst við flest við fréttir af átökunum í Súdan; þjóðarmorðinu í Darfúr. Þó svo áratugalöng þurrkatímabil, hungursneyðir og mikil fólksfjölgun, séu meginástæðan fyrir upphafi þessa borgarastríðs, er vart ofsagt að stríðið snúist fyrst og fremst um yfirráð yfir olíulindum landsins. 

Kolafarmurinn

Þegar ég heyri Súdan nefnt verður mér af einhverjum ástæðum alltaf hugsað til einnar af Tinnabókunum frábæru; Kolafarmurinn. Sú góða bók segir, eins og alþjóð veit, frá ævintýrum Tinna á Rauðahafi og baráttu hans við glæpagengi sem stundar þrælaverslun með svertingja frá múslimasvæðum á austurströnd Afríku.

Ég minnist líka myndanna úr æsku af hungruðum börnum í Afríku með uppblásin maga. Á áttunda áratugnum geisuðu hroðalegir þurrkar og hungur víða í löndum Afríku, einkum suðaustan Sahara. Þetta olli fæðuskorti en þrátt fyrir langvarandi hungursneyðir hefur orðið gríðarlega fólksfjölgun á þessum svæðum. Fyrir vikið hefur spenna magnast á milli ólíkra þjóðarbrota, t.d. milli svartra og Núbíumanna í Súdan. Hinir síðarnefndu teljast Arabar (en eru engu að síður afar frábrugðnir Aröbum í N-Afríku og Mið-Austurlöndum).

sudanmap

Súdan er risaland; 2,5 milljón ferkílómetrar og með um 40 milljón íbúa. Þó svo margt liggi að baki hörmungunum í Darfúr í V-Súdan, verður ekki litið fram hjá einni helstu ástæðunni; mikla olíu er að finna í suðurhluta Darfúr. Yfirráð í Darfúr hafa því mikla efnahagslega þýðingu. Enn fremur er síaukin olíuvinnsla í Súdan helsta uppspretta fjármagns fyrir vopnakaup, sprengjuflugvélar o.þ.h. tól., sem kyndir undir stríðið sem geysar í landinu.

AfricaOilReserves

Súdan framleiðir nú meira en 500 þúsund tunnur af olíu daglega. Það eru kannski engin ósköp. En þó 10 sinnum meira en framleiðslan var fyrir tæpum áratug! Þar að auki er talið að olíuauðlindir landsins séu um 5 milljarðar tunna, sem þýðir að Súdan býr yfir 5. stærstu olíubirgðum í Afríku og þeim 3. mestu af löndunum sunnan Sahara. Dágóður biti það.

Og enn og aftur koma peningar afrísku olíuríkjanna fyrst og fremst frá Kína. Allt að 70% af olíuframleiðslu í Súdan fer nú til Kína, sem fjármagnar stóran hluta framleiðslunnar. Hægt og fremur hljótt hefur Kína í reynd náð yfirburðarstöðu á olíumarkaði Afríkuríkja. Og nú eru Vesturlönd að vakna upp við vondan draum; ætli þau að fá meiri olíu frá Afríku verða þau að yfirbjóða Kína. Og það er ekki bara dýrt - Kína er einfaldlega komið með svo sterk áhrif víða í Afríku að þessari þróun verður etv. ekki snúið við. Enn ein ástæðan fyrir því að sífellt fleiri Bandaríkjamenn og Evrópubúar horfa nú til möguleika á nýjum orkugjöfum.


mbl.is Barist í Súdan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennedy er Íslandsvinur

VanityFairGreen2008

Aðferðir Íslands við orkunýtingu eru eitt aðalmálið hjá Robert Kennedy Junior. Ég var að fara í flug í dag. Og á Kastrup var ég svo ljónheppinn að reka augun í nýjasta Vanity Fair. Sem reyndist vera "the annual green issue 2008". Reyndar var forsíðan ekki alveg jafn "græn" og stundum áður. En Madonna klikkar auðvitað ekki. Svo blaðið var keypt og lesið í vélinni á leið yfir Atlantshafið. Auðvitað út af greinunum en ekki forsíðumyndinni.

Og sem sagt; þarna skrifar Robert Kennedy um nauðsyn þess að næsti forseti Bandaríkjanna taki til hendinni og komi á skynsamlegri orkustefnu.

Í reynd endurómar greinin ábendingar Boone Pickens um að stór hluti Bandaríkjanna henti mjög vel fyrir stórfellda virkjun vind- og sólarorku. Og þeir Bobby og Boone eru einnig sammála um mikilvægi þess að Bandaríkin verði minna háð orku erlendis frá, en nú er.

RobertKennedys

Ég hef alltaf verið svolítið veikur fyrir Kennedyunum. Svalir töffarar. Minnist Jack Jr. sem reri á kajak um Hornstrandir. Þannig að mér hlýnaði við að sjá Robert Jr. fara fögrum orðum, í grein sinni, um orkunýtingu Íslendinga. Samt kannski ekki hárnákvæmt hjá honum að segja Ísland vera "100% energy independent". Við þurfum jú smáræði af innfluttri olíu og bensíni fyrir t.d. bíla- og skipaflotann. En líklega á Kennedy við húshitun. Sem reyndar er heldur ekki alveg nákvæmt, því olíukynding þekkist jú sumstaðar ennþá hér á landinu bláa. (Myndin hér til hliðar er af Robert Jr. með Bobby pabba)

Robert Kennedy Jr. er lögfræðingur að mennt og hefur helgað sig umhverfisvernd og baráttu gegn kolefnislosun. En það getur verið erfitt að sameina það að vera harður baráttumaður fyrir bættu umhverfi og þekktur fyrirlesari. T.d. hefur kallinn verið gagnrýndur fyrir að þeytast milli fyrirlestra á einkaþotu. Alltaf einhverjir sem þurfa að vera með leiðindi.

Og þó svo hann sé harður stuðningsmaður vindorku, þýðir það ekki endilega að hann vilji turna með vindtúrbínum "in his back yard", ef svo má segja. Kennedy hefur t.d. skrifað gegn stóru vindorkuveri sem stóð til að reisa út af Þorskhöfða; Cape Cod. Rök Kennedy gegn verkefninu eru m.a. stórfelld skerðing á útsýni frá Martha's Vineyard og mikið fugladráp sem risastórir spaðarnir gætu valdið.

KennedyWind

Og Ted frændi hefur einnig barist með kjafti og klóm gegn þessu vindorkuveri í öldungadeild Bandaríkjaþings. Hann á reyndar líka glæsivillu á Cape Cod. Já - það er stundum vandlifað. Og enn er óvíst hver verða örlög þessa metnaðarfulla vindorkuvers.

 

 

Sjá má eldri færslu um Vanity Fair Green Issues hér: http://askja.blog.is/blog/askja/entry/519954/

Grein Roberts Kennedy í Vanity Fair er hér: www.vanityfair.com/politics/features/2008/05/rfk_manifesto200805

Upplýsingur um vindorkuverið út af Cape Cod eru hér: www.capewind.org/article24.htm 

Grein eftir Robert Kennedy gegn vindorkuverinu, í New York Times: www.nytimes.com/2005/12/16/opinion/16kennedy.html 


mbl.is Vilja stækka Kröfluvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihlutinn spáir 25% lækkun

NigeriaOilBurn

Gaman að "sérfræðingunum". Goldman Sachs spáir að olíufatið muni kosta 150-200 USD innan 2ja ára. Meðan aðrir spá að verðið fari niður í 40-50 USD!

Samt athyglisvert að í skoðanakönnun KPMG spáðu 55% að verðið færi undir 100 USD. Nú er bara bíða og sjá... og halda spákaupmennskunni áfram. Hver þarf að fara til Vegas þegar svona spennuveisla er í boði gegnum tölvubankann?

Það er ekki síður athyglisvert að enginn í könnuninni spáir að verðið fari að einhverju marki yfir 120 USD. Reyndar sló olíuverðið enn eitt metið í dag og fór í 126 USD á NYMEX. Hreint magnað.

Menn eru auðvitað með skýringar þessari síðustu hækkun á reiðum höndum. Nú er það óróleiki í Nígeríu sem veldur óvissu um framboðið þaðan. Nígería er vissulega mikilvægur framleiðandi; sá stærsti í Afríku, með yfir 2 milljón tunnur á dag. En það nær engri átt hvað markaðurinn er stressaður. Menn virðast í alvöru vera farnir að trúa því að peak-oil sé náð og að Sádarnir geti ekki bætt í púkkið. 

AfricaOilTime

En stöldrum aðeins við Afríku. Á eftir Nígeríu koma auðvitað Lýbía og Alsír með mestu olíuframleiðsluna - ekki satt? Nebb - þetta hefur breyst. Gríðarleg framleiðsluaukning í Angóla hefur skotið þessari gömlu portúgölsku nýlendu í 2. sætið á örstuttum tíma, nú með um 1,7 milljón tunnur á dag (svipað og Lýbía, sem er í 3. sæti - Alsír er nú í 4. sæti Afríkuríkja með um 1,4, milljón tunnur og svo koma Egyptaland, Súdan o.fl. með umtalsvert minni framleiðslu).

En þetta er magnað með Angóla. Nú að lokinni meira en aldarfjórðungs borgarastyrjöld er olíuframleiðsla komin á fullt í þessu hrjáða landi, með um 16 milljón íbúa. Og olían hefur valdið því að Angóla upplifir nú einhvern mesta efnahagsuppgang allra Afríkuríkja - a.m.k. valdhafarnir í höfuðborginni Luanda. Flestir þræðir olíuiðnaðarins eru í höndum ríkisfyrirtækisins Sonangol og fjármagnið kemur að miklu leyti frá Kína. Í staðinn fá Kínverjar að kaupa mikinn hluta framleiðslunnar - og veitir þeim ekki af. Talið er að spilling sé óvíða meiri í heiminum, en Kínverjum er nokk sama um það. Enda Angóla nú líklega orðinn stærsti olíubirgir Kína. Eitthvað segir mér að Afríka eigi eftir að verða helsti hráefnavígvöllur framtíðarinnar.

-------------

cnbc_images

Loks er hér umrædd frétt af CNBC, sem vitnað er í hér að ofan: "Fifty-five percent of 372 petroleum industry executives surveyed by KPMG said they think the price of a barrel of crude will drop below $100 by the end of the year. Twenty-one percent of respondents predicted a barrel of oil will end the year between $101 and $110, while 15 percent forecast the year-end price to be between $111 and $120 a barrel. Nine percent said they expect the price to close the year where it's been this week -- above $120 a barrel" (http://www.cnbc.com/id/24540234). 


mbl.is Verð á olíu yfir 126 dali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindur í seglin?

Það getur skipt talsverðu máli fyrir Ísland hver vinnur forsetakosningarnar vestra. Síðasta hálfa árið hefur verið mikill slagur á Bandaríkjaþingi um orkustefnu landsins. Undanfarin ár hafa þar verið í gildi lög sem kveða á um stuðning við orkugeirann. Einna mestur hefur stuðningurinn verið við olíuiðnaðinn. En endurnýjanleg orka hefur einnig notið góðs af, m.a. vegna hagkvæmra skattareglna. Um þetta vísast t.d. til US Energy Policy Act frá 2005.

En vandamálið er að skattaumhverfið hefur í reynd einungis gilt eitt til tvö ár í senn og því ávallt verið mikil óvissa um framhaldið. Af þeim sökum hafa margir fjárfestar verið ragir við að leggja í stórar fjárfestingar í endurnýjanlegri orku og bíða margir á hliðarlinunni. Áhættan hefur einfaldlega verið of mikil þar sem ómögulegt hefur verið að spá fyrir um skattaumhverfi fyrirtækja í þessum geira. Þetta er líklega meginástæða þess að fyrirtæki í endurnýjanlegri orku hafa ekki verið að hækka í takt við hækkandi olíuverð. Þrátt fyrir að hið háa olíuverð geri þau flest samkeppnishæfari en áður. Hlutabréf i sumum þeirra hafa meira að segja lækkað umtalsvert í vetur.

Pelosi

Það voru mikil vonbrigði fyrir fyrirtæki í t.d. vind og sólarorku, þegar Bush undirritaði nýja orkulöggjöf í desember s.l. Lögin drógu mjög úr stuðningi við þennan iðnað og fókuseruðu á reglur hagstæðar olíuiðnaðinum. Santiago Seage, forstjóri spænska sólarorku-fyrirtækisins Abengoa Solar, benti á að líklega myndu öll framsæknustu orkufyrirtækin nú missa áhuga á Bandaríkjamarkaðinum og horfa annað.

En demókratar gáfust ekki upp. Undir forystu Nancy Pelosi (sjá mynd) var á ný lagt til atlögu. Eftir að frumvarp um áframhaldandi stuðning við endurnýjanlega orku flaug í gegnum fulltrúadeildina, bjuggust flestir við því að frumvarpið myndi stoppa í öldungadeildinni. Eins og svo oft áður. Enda hafði Bush margsinnis gefið í skyn að hann myndi beita neitunarvaldi. En hið ótrúlega óvænta gerðist; í miðjum apríl s.l. samþykkti öldungadeildin frumvarpið (Clean Energy Tax Stimulus ACt). Það var ekki síst sólarorkugeirinn sem fagnaði þessu, enda framlengja lögin stuðning við þann iðnað í 8 ár, sem er mikil breyting frá því sem verið hefur. Enn er þó eftir að ákveða fjármögnunina. Pelosi og félagar ætluðu að taka peningana úr þeim sjóðum sem runnuð hafa til olíu- og kolaiðnaðarins, en til að koma frumvarpinu í gegnum öldungadeildina var horfið frá því. Að svo stöddu.

CSP

Og Wall Street var ekki lengi að taka við sér. Samstundis var verðmat á mörgum skráðum fyrirtækjum i endurnýjanlegri orku hækkað. Misjafnt er hversu hratt þetta hefur skilað sér út i hlutabréfaverð fyrirtækjanna, enda er rekstraumhverfi þeirra enn um margt óöruggt. En líklegt er að ef Obama eða Clinton vinna kosningarnar, munu Bandaríkin taka mikilvæg skref í átt að auknu hlutfalli endurnýjanlegrar orku. Þar á meðal er jarðhitinn. Þ.a. kosningarnar geta haft veruleg áhrif á tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í jarðhitavinnslu. Fylgjumst spennt með!

Myndin hér að ofan er frá CSP-sólarorkuveri í Mojave-eyðimörkinni. CSP-tæknin (Consentrated Solar Power) er að öðru ólöstuðu einhver allra áhugaverðasti geirinn í endurnýjanlegri orku.


mbl.is Clinton heldur baráttunni áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þúsund og ein nótt

BushkissEnn á ný fer Bush til Arabíu til að kyssa góðan vin. Sem heitir Abdúlla. Og biðja hann um að auka olíuframleiðsluna.

En risastóra spurningin er; getur Abdullah bin Abdul Aziz Al Saud og Saudi Arabía yfirleitt aukið framleiðsluna svo einhverju nemi? Þó svo olían sé vissulega fyrir hendi þar í jörðu, er þægilegt að bara casha-inn á núverandi framleiðslumagni. Þar að auki er OPEC nýbúið að setja sér framleiðslumarkmið til næstu ára og fara varla að hlaupa frá þeim sisvona.

NYT_OIL_GRAPHIC

Athyglisvert er að skoða þróun olíuframleiðslunnar síðustu árin. Í reynd hafa OPEC ríkin hægt og bítandi verið að auka framleiðsluna, allt frá miðjum 9. áratugnum. Margir álíta að í reynd sé framleiðslugeta OPEC ríkjanna nú þegar mjög nærri hámarki. Og að það vanti líka stærri og fleiri olíuhreinsunarstöðvar. Því sé ólíklegt að umtalsverð aukning verði á ólíuframboði.

bush_hands

En samt er aldrei að vita. Kannski bæði vill hann og getur. A.m.k. ætti Abdúlla að vera í þakkarskuld við Bush, fyrir að tryggja hann sem valdamesta manninn í olíuiðnaðinum. Írak er úr leik sem stórveldi í Mið-Austurlöndum. Og flest bendir til þess að Bandaríkin ætli líka að kæfa Íran. Þegar það gerist verður gaman að hafa keypt slatta af futures í olíu! Kannski ætti fjármálaráðherrann okkar blessaður að spá í það? Hressa upp á ríkiskassann.

En Guð hjálpi almenningi í Íran og vinum mínum í Teheran. Held reyndar að Persar séu eitthvert alúðlegasta og ágætasta fólk sem ég hef kynnst. Auðvitað undanskil ég Ahmadinejad og klíkuna hans, sem heldur þjóðinni í heljargreipum. En það er önnur saga. 


mbl.is Verð á olíu nálgast 124 dali tunnan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef, ef, ef...

Það er hárrétt að "olíukreppan" núna snýst ekki um að framboðið hafi snögglega dregist saman. Hátt olíuverð nú er vegna mikillar eftirspurnar. En það er vafasamt að kalla þetta "kreppu". Olíuframboðið er tiltölulega stöðugt, olíuframleiðslan hefur aldrei verið meiri en síðustu árin og þó svo mikil eftirspurn valdi hækkunum, þarf það ekki að merkja kreppu.

OilCartoon

Það sem hátt verð orsakar er einfaldlega að framþróun í notkun annarra orkugjafa verður hraðari. Lágt olíuverð var mesti dragbíturinn á uppbyggingu í t.d. sólarorku og vindorku. Og ekki síst dró það úr áhuga á nýtingu kjarnorkunnar.

Í reynd veit enginn hvort peak-oil sé náð. Og fáránlegt ef starfsmenn Alþjóðabankans fullyrða annað. Leyndardómurinn um peak-oil er vel varðveittur í lampa Aladíns, þ.e.a.s. risastóra spurningin um það hversu miklar olíubirgðir eru í Saudi Arabíu. Sem enginn veit fyrir víst. Sbr. færslan "Á valdi óttans: http://askja.blog.is/blog/askja/entry/514178/



mbl.is Þriðja olíukreppan komin til að vera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband