Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Síðasti dropinn?

Eftirspurn eftir olíu og spákaupmennska eru að skapa mikið fjör í bransanum í dag. Og nú verður spennandi að sjá hvort kaupæðið geri fjölmiðlana snartjúllaða. Eins og hér um árið þegar Gísli Marteinn og félagar í Kastljósinu voru með vikulega keppni i hlutabréfakaupum. Það var skömmu áður en netbólan sprakk í kringum aldamótin. Af einhverjum ástæðum hvarf þetta sérkennilega sjónvarpsefni þegjandi og hljóðalaust af skjánum, þegar hlutabréfaveislan hikstaði. Líklega var þetta Kastljósefni hámark fáránleikans sem þá ríkti í þjóðfélaginu.

Í gær birtist undarleg fyrirsögn á Eyjunni (www.eyjan.is): "Ótti um að olía heims sé að klárast farinn að hafa áhrif á verðið." Þetta er kannski rétt - eða hvað? Í reynd hefur olíuframboðið sjaldan eða aldrei verið meira en í dag. Að segja að olían sé að klárast er auðvitað ekkert annað en arfavitleysa.

OilProductin_DOE

Vissulega hefur framboðið af olíu lítið aukist síðustu 3 árin eða svo, þrátt fyrir aukna eftirspurn. Þetta veldur því að olíufyrirtækin - og þá sérstaklega Saudarnir - hafa það svo gott, að þeir eru ekkert að hlaupa til að auka framboðið einhver ósköp. Að svo stöddu. Enda vitað, að ef t.d. kæmi efnahagssamdráttur í Kína, eru líkur á að olíuverðið myndi lækka hratt. Og þá væri ekki gott að sitja upp með stórfelldar nýjar fjárfestingar í bransanum. En svo er það vissulega rétt að i reynd veit enginn hversu mikil olía er í Saudi Arabíu. Og það gerir menn svolítið taugaveiklaða. Og þá er gaman að búa til heimsenda-fyrirsagnir.

Umrædd frétt af Eyjunni er hér: http://eyjan.is/blog/2008/05/21/otti-um-ad-olian-fari-ad-klarast-er-byrjadur-ad-hafa-ahrif-a-verdid/ 


mbl.is Verð á olíu yfir 133 dali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kol og hvalir

Tasmanía skipar sérstakan sess í mínum huga. Þar áttu sér stað hatrömm átök um vatnsaflsvirkjanir fyrir nokkrum árum. En íslensku tengslin eru náttúrulega þau, að Jörundur Hundadagakonungur endaði daga sína í þessari bresku fanganýlendu. 

Sydney

Það var mikið ævintýri að koma til Ástralíu. Þarna lentum við að vorkvöldi á Suðurhvelinu, seint í ágústmánuði 1998. Maður var þreyttur og slæptur eftir rúmlega 9 klkst flug frá Bangkok og trúði því ekki alveg að maður væri kominn á áfangastað. Fyrr en maður ók yfir sjálfa Harbour Bridge og Óperuhúsið blasti við.

Vegna vinnunnar (lögfræðistörf í Sydney) ferðaðist ég talsvert mikið um Nýju Suður-Wales. Og var hreint bergnuminn yfir því hversu náttúran og lífríkið var fjölbreytt. Fram til þessa hafði Ástralía í mínum huga verið rauð eyðimörk. En annað kom í ljós.

Newcastle_coal

En Ástralía var ekki eintómar dásamlegar strendur og stórfengleg náttúra. Eitt sinn átti ég erindi til hafnarborgarinnar Newcastle, ekki langt norður af Sydney. Mér var sagt að þar fyndi ég yndislegan gamlan bæ í enskum stíl. En þegar komið var á staðinn varð maður litt hrifinn. Utan við baðströndina lágu ryðgaðir dallar í röðum og biðu eftir að komast að höfninni. Til að lesta kol! Svæðið umhverfis Newcastle er nefnilega auðugt af kolum.

Og utan við borgina ók maður fram hjá risastórum kolahaugum, sem minntu reyndar stundum á kolafjöll.

Australia_Electricity

En þetta hefði svo sem ekki átt a koma á óvart. Auk þess að vera stór útflytjandi kola, er meirihluti rafmagns í Ástralíu framleiddur í kolaorkuverum. Eins og vel má sjá á skífunni hér til hliðar. Fyrir vikið stafar um 36% af allri losun CO2 í Ástralíu frá rafmagnsframleiðslu úr kolum. Reyndar eru áströlsku kolin óvenju "hrein". En samt...

Gaman að setja þessa subbulegu rafmagnsframleiðslu í annað samhengi. Sem kunnugt er, styðja flestir Ástralir hvalveiðibann og friðun hvala af mikilli eindrægni. Einu sinni fór ég með hreint ágætum áströlskum hjónum á veitingastað í Reykjavík. Maðurinn fékk sér girnilegan salatrétt með einhverju kjöti í. Hann spurði mig hvaða kjöt þetta væri. Fyrst hélt ég þetta vera lunda, sem olli þeim talsverðu uppnámi, en svo kom sannleikurinn í ljós.

Dolphin

Og sannleikurinn var enn svakalegri en sætur lundi. Þetta var kjöt af höfrungi. Hef ekki séð annan eins hryllingssvip eins og á eiginkonu þess ástralska þá. "Yo're eating dolphin!!" Fyrst varð hann svolítið forviða - en svo fannst honum þetta bara soldið kúl. Hann var orðinn hræðileg hvalaæta! Það yrði góð saga þegar heim væri komið.


mbl.is Tasmaníudjöfullinn að deyja út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrið gleymdist á hótelherberginu

tangshan_hotel

Hamfarirnar í Kína rifja upp sögu af gömlum vini fjölskyldunnar. Hann hét Sófus, var Færeyingur, fæddur ca. 1930 og var i borginni Tangshan í Kína þegar einhver ægilegasti jarðskjálfti sögunnar reið þar yfir.

Sófus var staddur á hótelherberginu sínu, á efri hæðum, um miðja nótt í júlí 1976. Hann vaknaði við að byggingin sveiflaðist til, stökk á fætur og hljóp niður stigana og út á götu. En fattaði þá að hann hafði gleymt nýja armbandsúrinu sínu uppi á herbergi. Í öllu fátinu rauk hann aftur inn og tók lyftuna upp, náði í úrið og dreif sig niður aftur!

Þetta er ekki nákvæmlega það sem á að gera þegar jarðskjálfti ríður yfir. Og með ólíkindum að rafmagn skuli enn hafa verið á hótelinu. Ringulreiðin var algjör og all svakalegt að hlusta á Sófus lýsa þessari lífsreynslu sinni; hvernig borgin hrundi og líkin lágu út um allt.

Tangshan3

Í skjálftanum í Tangshan, sem talinn er hafa verið um 8 á Richter-skala og stóð yfir í meira en 10 sekúndur, nánast hrundi borgin gjörsamlega til grunna. Nokkur hús stóðu þó eftir, jafnvel lítið skemmd, eins og hótelið hans Sófusar.

Upptök skjálftans voru rétt hjá borginni á 8-10 km dýpi, en skálftinn fannst langar leiðir. T.d. titraði land og nokkrar byggingar skemmdust í Peking, í nærri 150 km fjarlægð.

Afleiðingar skjálftans, og annars mjög öflugs eftirskjálfta rúmum hálfum sólarhring síðar, voru skelfilegar. Kínverskum og erlendum tölum um manntjón ber ekki saman, en áætlað er að 250-700 þúsund manns hafi látist í skjálftunum tveimur. Og hátt í 800 þúsund slasast, þar af 150 þúsund mjög mikið.

mao

Þetta voru erfiðir tímar í Kína. Landið var ennþá mjög lokað og Maó enn við völd (hann lést í september þetta sama ár). Kínversk stjórnvöld höfnuðu allri aðstoð erlendis frá. 

Af Sófusi er það annars að segja að hann bjó í Þórshöfn í Færeyjum og þangað heimsóttum við hann nokkrum sinnum meðan ég var ca. 11-14 ára, áður en hann lést.

Eftir smá hressingu fannst Sófusi gaman að fara í Maófötin, sem hann hafði keypt í Kína. Á þeim dögum gengu nánast allir Kínverjar í slíkum klæðum, húsin voru lágreist og götur borganna fullar af fólki á reiðhjólum. Margt hefur breyst í Kína síðan þá!


mbl.is Enn hækkar tala látinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrikalegt stefnuleysi

Bjarni_i_Holmi

Það er etv. ekki skrýtið þó mér þyki virkjun náttúruaflanna tær snilld. Ég er alinn upp austur í Skaftafellssýslu við arfleifð helstu frumerja Íslands í virkjun vatnsorkunnar. Manna eins og Bjarna í Hólmi og bræðranna Eiríks og Sigurjóns í Svínadal. Svo ég vitni í heimildamyndina "Það kom svolítið rafmagn":

"Bjarni Runólfsson og fleiri rafstöðvasmiðir í Vestur-Skaftafellssýslu raflýstu tvöhundruð og þrettán sveitaheimili á fimmtíu ára tímabili. Uppsett afl þessara stöðva var tvö megavött, sem er um fjórðungur þess sem Mjólkárvirkjun í Arnarfirði framleiðir. Bjarni í Hólmi var sjálfmenntaður smiður og rafvirki og hráefnið sem hann notaði í virkjanirnar var fengið úr ströndum á Meðallandssandi. Meðal nánustu samstarfsmanna Bjarna voru þeir bræður frá Svínadal í Skaftártungu, Sigurjón og Eiríkur Björnssynir. Skaftfellingar voru frumkvöðlar í raftækni á Íslandi og fóru í alla landsfjórðunga að koma upp rafstöðvum. Fjölmargar þessara stöðva ganga  enn..."

Systrafoss2

Ein af þessum stöðvum, rafstöð sem gengur enn fyrir vatni ofan af Klausturfjalli, framleiddi allt rafmagn fyrir æskuheimili mitt, undir árvökulum augum rafstöðvarstjórans Jóns Björnssonar, bróður Eiríks og Sigurjóns í Svínadal. Jón var líka nágranni okkar og minnist ég margra ljúfra stunda sem snáði hjá honum og Imbu (Ingibjörgu), konu hans. Þar fékk ég saltfisk og hrísgrjónagraut í hádeginu á laugardögum og horfði á Stundina okkar í svarthvíta sjónvarpinu þeirra á sunnudögum. Þar leið mér vel og man enn dillandi hláturinn í Imbu þegar ég veltist um með köttinn hennar.

Hljóp svo heim í myrkrinu, yfir túnið, og fann stundum andardrátt huldufólksins fyrir aftan mig. Og herti á sprettinum í tunglsljósinu.

Og ég man vel eftir Eiríki þegar hann kom skröltandi að Klaustri á gamla Víponinum sínum með skráningarnúmerið Z-2. Þetta var á þeim yndislega tíma þegar maður hafði fyrst og fremst tvö áhugamál; að sparka bolta og skrifa flott bílnúmer í stílabók! Önnur eftirminnileg númer eru Z-22 á rauða Reinsinum hans Jóns Björnssonar, nágranna okkar. Og auðvitað númerið okkar; Z-226. Á græna Reinsinum. En það er önnur saga.

Svolitid_rafmagn

Já - það er þetta með virkjanirnar. Ég hef lengi undrast að í reynd virðist aldrei  hafa ríkt nein stefna í orkumálum Íslands. Þetta hefur allt frá 7. áratugnum meira og minna snúist um örvæntingafulla leit að stóriðjufyrirtækjum, til að koma og fá hér orku á afslætti. Orkufyrirtækin eru í eigu ríkisins og sveitarfélaganna, en eru samt hulin leyndarhjúp. Pólitíkusar skipa sjálfa sig í stjórnir fyrirtækjanna og almenningur hefur engin raunveruleg tækifæri til að leggja mat á hvort þessi fyrirtæki eru vel rekin eður ei.

Og af hverju þarf að vera leynd um orkuverð til stóriðju? Svörin eru jafnan á þá leið að það sé til að ná hagstæðum samningum um sölu á orku. Allt er þetta ávísun á sukk og tortryggni. Ef orkuverðið hefur verið að skila eðlilegri ávöxtun af fjárfestingum i virkjunum, er engin ástæða til að hafa þessa leynd. Íslensk orka til stóriðju - eða annarrar starfsemi - á að hafa markaðsverð. En ekki vera hluti af einhverjum leynileik.

Af hverju er ekki skýr og opin orkustefna á Íslandi? Þetta er hið furðulegasta mál. Ekki síst þegar haft er í huga að orkan er einhver mesta auðlind landsins. Hvað er iðnaðarráðherra alltaf að gera í einhverjum afkimum veraldarinnar? Mér finnst stórskemmtilegt að lesa pistlana hans þaðan. En væri ekki nær að taka til hendinni hér heima?

Það er löngu orðið tímabært að taka til í íslenska orkugeiranum. Sennilega gerist það ekki nema með einkavæðingu. Það getur vel farið saman við hagsmuni ríkisins og þjóðarinnar. Fyrirtæki eins og Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavikur yrðu áfram meðal leikenda á því sviði að byggja og reka virkjanir. Til að byrja með væri skynsamlegast að einkavæða fyrirtækin smám saman. Á svipaðan hátt og senn verður gert í Danmörku með risaorkufyrirtækið Dong Energy. 

foss_sidu

Sérstakur sjóður ætti að hafa umsjón með leigu á réttindum til að nýta sameiginlegar auðlindir. Hann gæti bæði séð um fiskveiðikvótakerfið og orkulindir á svæðum utan eignarlanda. Til að tryggja eðlilega samkeppni ættu öll gögn hans að vera opinber og aðgengileg eins og kostur er. Annar sjóður myndi hafa það hlutverk að ávaxta tekjurnar.

Við uppsetningu á slíku kerfi mætti hafa hliðsjón af því hvernig staðið hefur verið að sambærilegum málum í tengslum við gas- og olíuauðlindir Norðmanna. Og um leið forðast annmarka á norska kerfinu. Þar er mikil reynsla sem hægt er að læra af.

Þetta þarf að gera áður en farið er að semja um aðild að EB.

Myndirnar sem fylgja þessar færslu eru í virðingarskyni við nokkra helstu frumherja í orkunýtingu á Íslandi.


mbl.is Engir orkusamningar á næstunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnaskapur í Bananalýðveldi?

Bitruvirkjun

Nú hefur Skipulagsstofnun lagst gegn Bitruvirkjun. Sumir fagna meðan aðrir harma.

Sjálfur þekki ég ekki málið í þaula og hef í raun enga skoðun á virkjuninni. Nema hvað ég er almennt hlynntur því að nýta endurnýjanlegar auðlindir til að skapa orku. Svo lengi sem fjárfestingin er arðbær og skynsamleg virðing er borin fyrir náttúrunni og öðrum hagsmunum, sem á kann að reyna. Jafnframt dáist ég að þrautseigju fólks sem berst við kerfið, eins og hún Lára Hanna hefur verið að gera.

En í mínum huga skiptir þetta álit Skipulagsstofnunar litlu máli. Því miður. Reynslan er sú að stjórnsýsla umhverfismála á Íslandi er brandari. Þegar kemur að virkjanaframkvæmdum hefur hinn pólítíski vilji farið sínu fram. Sama hvaða niðurstöðu opinberar stofnanir, sem hafa það hlutverk að framfylgja lögum, komast að. Man t.d. einhver eftir þessum úrskurði Skipulagsstofnunar:

"Með vísan til niðurstöðu Skipulagsstofnunar sem gerð er grein fyrir í 5. kafla þessa úrskurðar er lagst gegn Kárahnjúkavirkjun ... vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar." 

 

Umrædd virkjun er nú risin og byrjuð að framleiða rafmagn fyrir álver á Reyðarfirði. Það er nefnilega svo að þegar kemur að stóru málunum skiptir álit opinberra eftirlitsstofnana engu máli. Þetta er mikill galli á íslenskri stjórnskipan og ber vott um skort á lýðræðishefð. En kannski er Bitruvirkjun ekki nógu stór framkvæmd til að valdníðslu verði beitt vegna hennar. A.m.k. er virkjunin úti af borðinu... "í bili". 

Sept_11_Liberty

Rétt að taka það fram að þó ég telji að Kárahnjúkavirkjun hafi verið þvinguð í gegn með valdníðslu, var ég sjálfur ekki andstæðingur virkjunarinnar. Það ætti gestabók skálans við Snæfell að geta staðfest. Þar kom ég nefnilega í friðsældinni 11. september 2001 og skrifaði nokkrar hugleiðingar um að líklega væri virkjun við Kárahnjúka skynsamlegur kostur.

sneafell

Kveikti svo á útvarpinu í bílnum til að heyra kvöldfréttirnar. En sambandið var slitrótt. Þó var ljóst að eitthvað mikið hafði skeð í New York. En ég gafst upp á að hlusta á brestina og naut þess í stað haustkyrrðarinnar við Snæfell.

-----------------------

 

Fyrir þá sem ekki muna glögglega eftir afdrifum ákvörðunar Skipulagsstofnunar, þá er úrskurð umhverfisráðherra að finna hér:  www.karahnjukar.is/files/2002_9_27_urskurdur_ur_heild.pdf


mbl.is Bitruvirkjun út af borðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallegasta hönnunin?

Porsche eða Range Rover? Í tilefni þess að Íslendingar eru komnir í Formúlu 3 og að Okubloggið er mánaðargamalt, ætla ég að nota tækifærið og nefna annað afmæli og heimsins fallegustu bíla.

Nú í maí var fagnað 60 ára afmæli Land Rover. Hef alltaf haldið uppá Land Rover - og þó sérstaklega Range Rover. Enda alinn upp með einum slíkum. Pabbi keypti einn fyrsta Reinsinn á Íslandi - jafnvel þann allra fyrsta. Þannig var að pabbi hafði lent í bílveltu og Skátinn var ónýtur (það var gulur International Harvester Scout 800). Þá sýndu þeir hjá Heklu honum bækling með mynd af þessum nýja, breska jeppa, sem var væntanlegur. Og það varð ekki aftur snúið.

RangeRoverGreen2

Ég minnist enn haustkvöldsins 1971, þá 5 ára patti, þegar pabbi renndi upp heimreiðina á flotta, nýja græna jeppanum (eins og sá á myndinni). Sem alltaf var kallaður "Reinsinn". Og átti eftir að fylgja fjölskyldunni í meira en 25 ár og hátt í 500 þúsund km. Alla tíð með sömu upprunalegu kraftmiklu 3,5 lítra Buick vélinni og sama gírkassanum (sem er magnað, því fyrstu árin voru þessir bílar plagaðir af gírkassavandamálum). Hann var nánast eins og einn úr fjölskyldunni. Og öll þau 37 ár sem liðin eru síðan þá, hef ég haft sterkar taugar til Reins.

Segja má að þetta hafi verið gullaldarár í breskum samgönguiðnaði. Bretar kynntu Reinsinn til sögunnar, sem átti eftir að verða fyrirmynd nýrrar kynslóðar jeppa, eins og t.d. hins nýja Toyota Land Cruiser. Og í flugvélaiðnaðinum áttu þeir, á sama tíma, stóran þátt í hönnun og byggingu Concorde þotunnar.

RangeRoverOriginal

Reinsinn var tímamótabíll. Að einhverju leyti byggði hann a velgengni Bronco og Wagoneer vestan hafs. Ég minnist sérstaklega ýmissa sérkenna eða smáatriða. Eins og speglanna fremst á húddinu, hvernig felgurnar voru og hurðarhandföngin. Og sérkennilegt áklæðið á sætunum - held það hafi verið einhverskonar plast. En auðvitað er heildarúrlitið og frábær fjöðrunin það sem gerði Reinsinn einstakan bíl. Og notkun áls í yfirbyggingu og vél.

RRPrototype67

Strax á fyrstu prótó-týpunum má sjá sterkt Range Rover lúkkið, sem æ síðan hefur fylgt bílnum (mynd). Mér fannst fyrsta útgáfan fallegust (kynntur 1970). Og sérstaklega 2ja dyra bíllinn. Önnur kynslóðin fannst mér líka vel heppnuð. En eftir að bíllinn varð sá sem við þekkjum í dag, hef ég ekki verið jafn hrifinn. Línurnar eru orðnar full mjúkar fyrir minn smekk.

LandRover-Discovery-II

Já - Reinsinn er ekki lengur sá sem hann var. En aftur á móti þykir mér hafa tekist mjög vel með hönnunina á Discovery. Sérstaklega er ég hrifinn af series II (mynd). Og á einn slíkan. Finnst sá bíll vera hinn raunverulegi arftaki Range Rover Classic. Með sama sterka karakterinn - sannur jeppi með frábæra aksturseiginleika og flott útlit.

Er svolítið svekktur yfir því að bílnum skuli nú hafa verið breytt. Discovery 3 vinnur samt á eftir því sem maður horfir lengur á hann. En það þarf stærri dekk undir hann og líklega smá upphækkun, til að gera hann virðulegan. Er ekki alveg sáttur við það. Bílar frá Land Rover eiga að vera flottastir óbreyttir! Vonandi laga Indverjarnir bílinn (sem kunnugt er komst Land Rover nýlega í indverska eigu).

Porsche911

En þó ég sé jeppakall er það samt sportbíll sem ásamt Reins skipar sérstakan sess í mínum huga. Það er Porsche 911.

Enda fór það svo að mér fannst ég þurfa að eignast eintak af þessum gullfallega, klassíska eðalbíl. Sá er 911 Carrera 3.0 (sjá mynd). Held að þetta hljóti að vera fallegasti hlutur sem menn hafa smíðað.

En nú er stefnan sett á nýjan Discovery 3. Þannig að Porsinn er til sölu!

 


mbl.is Kristján Einar varð þriðji í Monza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Mundu mig, ég man þig"

BushArabiaCartoon

Fyrir stuttu síðan gerðist það ótrúlega að olíufatið fór yfir 120 USD. Nú stefnir það hraðbyri í 130 dollara. Goldman Sachs spáði í dag að verðið færi í 141 USD nú á 2. ársfjórðungi. Og Bush æðir af stað til Arabíu til að grátbiðja þá Abdúlla og Alí að auka framleiðsluna.

Og honum tókst reyndar að sjarmera þá félaga. Saudarnir tóku barrrasta vel í að auka framleiðsluna um 300 þúsund tunnur á dag. Sem er skitin 3% aukning og samsvarar u.þ.b. olíuframleiðslu Dana. Þetta slær varla mikið á verðið - vart nóg til að hræða spákaupmennina í burtu. Þeir - eða ætti ég að segja "við" - eru(m) hugsanlega farnir að trúa á 200 dollara olíufat fyrir árslok.

Ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart að Saudarnir skyldu koma með þessa yfirlýsingu núna. Þeir eru nýbúnir að fastsetja framleiðslumarkmið innan OPEC. Og satt að segja efast ég um að þeir nái að auka framleiðsluna hratt, einfaldlega vegna takmarkaðrar afkastagetu olíuhreinsunarstöðvana.

Bush_Abdulla_2005

En sem sagt; Saudarnir segjast nú hugsanlega tilbúnir að auka framleiðsluna í 9,45 milljón tunnur á dag - ef eftirspurnin kallar á það. Skoðað í samhengi við fyrri yfirlýsingar þeirra hljómar þetta svolítið undarlega. Fyrir aðeins þremur árum sögðust Saudarnir léttilega geta aukið framleiðsluna í 12-15 milljónir tunna.

Þetta fannst Bush gott að heyra árið 2005 og þeir Abdúlla, konungur Saudi Arabíu, leiddust hamingjusamir um garða Hvíta hússins. Og þá sögðu Saudarnir líka að ef eftirspurnin ykist að marki væri þeim unnt að framleiða 23 milljón tunnur daglega. Ekkert mál.

Ali_S_Arabiajpg

En ég bara spyr; er eitthvað vandamál með eftirspurnina núna? Hún hefur aldrei verið meiri. Hm - þó svo olíuráðherrann Ali al-Naim sé grásprengdur og næstum jafn flottur og Jock Ewing var á sínum tíma í Dallas, finnst mér Ali hættur að vera trúverðugur.

Verð auðvitað að minna á þessa færslu, fyrir tveimur dögum:

"Alí - spámaður olíuguðsins";  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/538702/  

 

Já - samband Bandaríkjanna og Saudi Arabíu er vissulega einstakt. Og hefur lengi verið svo. Það var snillingurinn Roosevelt forseti sem átti upphafið að vinsamlegum samskiptum USA við arabísku konungsfjölskylduna.

RooseveltArabia

Það fer vel á að enda þessa færslu með mynd frá þeim sögulega viðburði, þegar Roosevelt fundaði með þáverandi konungi, Abdul Aziz, skömmu fyrir andlát sitt í lok heimsstyrjaldarinnar síðari.

Þetta var strax eftir Jalta-ráðstefnua í febrúar 1945. Þá höfðu bandarísk stjórnvöld gert sér grein fyrir því hversu olían í Saudi Arabíu myndi verða þeim gríðarlega mikilvæg næstu áratugina. Og um ókomna framtíð.


mbl.is Olíuverð setti nýtt met
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar í Atlantshafsflugi

Alfred

Hef alltaf haft áhuga á flugmálum. Næstum jafn mikinn og á orkumálum. Held að það eigi sér djúpar rætur. Þegar ég var strákur austur á Klaustri lék maður sér stundum í kringum nokkra gamla, stóra trésleða, sem þar lágu og grotnuðu í reiðuleysi. Sagt var að þetta væru sleðarnir sem Alfreð Elíasson og félagar hefðu notað í leiðangrinum fræga á Vatnajökul 1951. Þegar þeir grófu upp amerísku skíðaflugvélina, sem þar sat föst eftir Geysisslysið, og flugu henni af jöklinum. Það fannst manni flott ævintýri.

Síðar lærði ég að fljúga hjá Helga Jónssyni og fylgdist einnig af aðdáun með uppgangi gamals leikfélaga úr æsku, Hafþórs Hafsteinssonar, sem byggði Air Atlanta upp með Arngrími Jóhannessyni. Hafþór er alveg einstakur öðlingur. Sjálfur fann ég að flugið hentaði mér ekki nógu vel til að gera það að atvinnu - fannst sjarmann vanta sem var í gamla daga.

Sótti þó um inngöngu í atvinnuflugnám eftir fyrsta árið í lagadeild, og fékk inni, en ákvað svo að halda áfram í lögfræðinni. Auðvitað tóm vitleysa. Hefði örugglega unað mér vel sem t.d. flugmaður á sjóflugvélum í Alaska eða jafnvel á þyrlu. En "skynsemin" varð yfirsterkari.

Plane_sunset

Undanfarið hef ég verið hugsi yfir stöðu Icelandair. Nýlega tók gildi breyting á reglum um flug milli Evrópu og Bandaríkjanna. Sem heimilar t.d. British Airways að fljúga til US ekki bara frá Bretlandseyjum, heldur hvaðan sem er beint á milli Bandaríkjanna og Evrópu (EB). Afleiðingin verður hugsanlega stóraukin samkeppni í Atlantshafsfluginu.

Það kann að koma illa við Icelandair. Eða hvað? Um þetta segir m.a. hér á vef BBC:

http://news.bbc.co.uk/2/hi/business/7322233.stm 


mbl.is Hagnaður British Airways eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trilljón dollarar í tankinn

US oil imports_1960-2005

Bandaríkin eru sögð samkeppnishæfasta land í heimi. Gott fyrir þá. En er þetta risi á brauðfótum? Risinn hefur a.m.k. æ meira orðið háður innfluttri olíu.

Það er forvitnilegt að skoða nokkrar tölur og setja þær í samhengi. Bandaríkin þurfa á hverju ári að kaupa og flytja inn olíu fyrir um 500 milljarða dollara. Miðað við að verðið sé "einungis" 100 USD fyrir fatið. Spurningin er hversu illa þetta háa verð kemur við Bandaríkin?

GDP_Energy

Þetta er slatti af pening. Og einnig afar mikið m.v. höfðatölu, eitthvert hæsta hlutfall á Vesturlöndum (þó svo olíuinnflutningur til Íslands sé reyndar sambærilegur m.v. höfðatöluregluna góðu).

Innan Bandaríkjanna vex nú mjög þrýstingur um að breyta skattaumhverfinu til að hvetja enn frekar til fjárfestinga í öðrum orkugjöfum innanlands. Til að þurfa ekki að eyða þessum gífurlegu fjármunum í innflutning á olíu. Þar að auki rennur stór hluti upphæðarinnar beint í vasa Arabíulanda, sem eru ekki endilega sá heimshluti sem er vinsamlegastur Bandaríkjunum.

Skoðum t.d. Abu Dhabi. Sem er stærsti olíuframleiðandi Sameinuðu Arabísku furstadæmanna (sem samtals framleiða um 3 milljónir tunna á dag eða svipað og Noregur). Olíusjóður Abu Dhabi er þokkalega öflugur og mun nú jafngilda um 900 milljörðum dollara; nær tvöfalt meira en aurarnir sem Bandaríkin þurfa til kaupa á olíu erlendis á heilu ári. Já - þetta eru góðir dagar fyrir stærstu olíuútflutningsríkin. Hví erum við eigi hluti af Noregi?

US_oil_gdp_70-07

En þetta er allt afstætt. Miðað við þjóðarframleiðslu og verð á bandaríkjadal er olíuverðið núna vissulega hátt í Bandaríkjunum. En kannski ekki neitt til að örvænta yfir.

Og spárnar eru auðvitað margar og mismunandi. Haldi olíuverðið áfram að hækka fer mörgum Bandaríkjamönnum kannski að verða ansið órótt.


mbl.is Bandaríkin samkeppnishæfust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræddir... og glaðir Bandaríkjamenn

Þó svo fjöldi kaþólikka í US sé hlutfallslega ekki mikill, verður þessi frétt um hugsanlegt líf á öðrum hnöttum vart til að gleðja Bandaríkjamenn. Allt frá því Orson Welles stóð fyrir útvarpsleikritinu Innrásinni frá Mars, árið 1938, hafa þeir vestur í Ameríku horft áhyggjufullir til himins. Og ekki varð það betra eftir að Rússar skutu Spútnik á loft tæpum tveimur áratugum síðar. "Watch the skies!" Og undarlegheitin halda áfram. Sbr. færslan "Dularfullu salthellarnir";  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/527282/

War-Of-The-Worlds

Já - ég hef áður nefnt sérkennilega olíubirgðasöfnun Bush-stjórnarinnar í neðanjarðarhellum Suðurríkjanna. Af einhverjum ástæðum hafa Bandaríkin undanfarið verið að hamstra olíu af mikilli áfergju og auka við neyðarbirgðir sínar, þrátt fyrir óljós markmið og gríðarlegan kostað. Bæði er þetta afar dýrt fyrir ríkissjóð Bandaríkjanna og þrýstir olíuverði upp, almenningi til armæðu. Menn voru farnir að velta fyrir sér hvort þetta þýddi að árás í Íran væri að bresta á. Eða e.t.v. bardagi við geimverur? 

OilWarPeace

Þetta var sem sagt hin undalegasta stefna hjá Bush og mönnum hans. En loks vökunuðu menn þar á bæ upp. Telja nú nóg komið og vilja stöðva þessu fáránlegu stefnu Bush. Í gær ákvað öldungadeildin, með 97 atkvæðum gegn 1, að hætt yrði að bæta í neyðarbirgðirnar þar til olíuverð færi undir 75 USD. Bæði Hillary Clinton og Obama greiddu atkvæði með tillögunni, en John McCain "missti af" atkvæðagreiðslunni.

Áður hafði fulltrúadeildin samþykkt tillöguna með 385 atkvæðum gegn 25. Nú er bara eftir að sjá hvort Bush skrifi undir lögin eða beiti neitunarvaldi (sem í reynd reynir vart á við þessar aðstæður - þegar meira en 2/3 öldungadeildarinnar hafa greitt atkvæði með frumvarpi er neitunarvaldi almennt aldrei beitt, vegna tiltekinna stjórnskipunarreglna í Bandaríkjunum).

En um leið og þessir atburðir gerðust, skeði nokkuð annað sem etv. skiptir miklu meira máli fyrir þróun olíuverðs næstu árin og framgang umhverfisverndar: Öldungadeildin samþykkti nefnilega á sama tíma að henda út tillögu Bush stjórnarinnar og repúblíkana um að leyfa olíuborun innan friðaðra heimskautasvæða í Alaska. Já, það lítur út fyrir að 13. maí 2008 sé sigurdagur fyrir umhverfisvernd í Ameríku. Og jafnvel ennþá meira fagnaðarefni fyrir þá sem veðja á enn hækkandi olíuverð. Enda stökk ég út í fiskbúð og keypti humar - þann stærsta og dýrasta sem í boði var. Svo sannarlega tvöföld ástæða til að fagna.

ArcticNoDrilling

Á myndinni hér til hliðar fagna öldungadeildarþingmenn úrslitunum og má þarna m.a. þekkja John Kerry. (Myndin er reyndar frá eldri atkvæðagreiðslu um sama málefni, þar sem tókst að tefja fyrir áformum Bush í Alaska).


mbl.is Vatíkanið segir ekki hægt að útiloka líf á öðrum hnöttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband