Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Mjög langsótt tenging...

NEI! Það er auðvitað alls ekki langsótt að tengja jarðskjálftana við breytingar á hegðun borhola á Hengilssvæðinu. Og sannarlega gott ef aflið hefur aukist - í stað þess að minnka eins og hugsanlega hefði getað gerst.

Ég er reyndar einn af þeim sem finnst fátt fallegra en að sjá gufustrókana rísa upp af Hellisheiði í góðviðri. Og koma út á björtum, stilltum morgni og anda djúpt að mér brennisteinsilminum sem stundum berst þaðan. Já - mér finnst sú lykt í alvöru góð. Hef ekki hugmynd um hvort þetta er "einstakur hæfileiki" eða hvort fleira fólk hefur þennan smekk á lykt.

Mér finnst reyndar fjósalykt líka góð. Líklega þó mest vegna samhengisins. Það var svo gaman að leika sér með Nirði í fjósinu hjá pabba hans, austur á Klaustri. Fíflast í heyinu (þegar Lárus, pabbi hans Njarðar, sá ekki til). Og stundum stríða kúnum aðeins. Og þó meira bolanum, sem alltaf var bundinn við básinn. Og sérstaklega minnist ég Víga; hundsins sem svo lengi var þar á bænum og óx upp með okkur krökkunum. Hann var sannur prýðis sveitahundur. Með gott skap, ekki alltof mannblendinn og sætti sig við það hlutskipti að sofa i þvottahúsinu og fá ekki að koma inn. Þó man ég að í eitt eða tvö skipti, þegar við strákarnir vorum aðeins farnir að stækka, leyfði Njörður Víga að koma inn i eldhús. En þá var mamma hans, hún Ólöf, heldur ekki heima! Já, þetta voru sannarlega skemmtilegir dagar.

Shaybah_sands

Langsótta tengingin hér er mín eigin. Þessi frétt þar sem forstjóri Orkuveitunnar veitir okkur glænýjar upplýsingar um borholurnar í Henglinum, leiddi huga minn nefnilega að Arabíu. Langsótt en satt.

Ég fór nefnilega af einhverjum ástæðum strax að hugsa um olíulindirnar í Arabíu og hvernig staðið er að upplýsingaöflun þar. Sem í raun er engin. Fyrir vikið reyna menn, með aðstoð gervitungla, að fylgjast með mannaferðum í eyðimörkinni. Til að geta gert sér grein fyrir hvort hegðunin bendi til þess að framleiðsla tiltekinna olíulinda sé að aukast eða minnka. Þetta er nefnilega eitthvert mesta hagsmunamál heimsins alls. Og Saudarnir passa svo sannarlega upp á að engar upplýsingar leki út. Jafnvel saklausar ljósmyndir, eins og þessi hér að ofan frá Shaybah svæðinu, eru fremur fátíðar.

saudi-arabia-ghawar-oil-fields-2007-s

Og jafnvel enn betur varðveitt leyndarmál er þróunin á Ghawar svæðinu. Þaðan, djúpt inní sandeyðimörkinni, kemur u.þ.b. helmingurinn af allri olíu Saudanna. Þegar Hubbert-peak verður náð í Ghawar er hætt við að olíuverðhækkanirnar síðustu mánuðina verði hreint grín, miðað við hvað gerist þá. Framleiðslan þarna er nú um 5 milljón tunnur á dag. M.ö.o. skilar þetta eina svæði um 6% af allri olíuframleiðslu heims.

Já - við erum í reynd öll að þræla daglangt vegna svarta gullsins sem kemur þarna upp úr gulum sandinum. Þetta er reyndar örlítið stærra svæði en Laugardagsvöllurinn. Alls um 8.500 ferkílómetrar (mest á lengdina, eins og sjá má myndinni). Það er óneitanlega heillandi að frá þessum eina sandhól, ef svo má segja, skuli meira en 1/20 af allri olíuframleiðslu heimsins koma.

Saudi_Arabia_Haradh-III_satellite_top

Eftir að Saudarnir endanlega yfirtóku olíuiðnaðinn í landinu, árið 1980, hefur ríkisolíufélagið Saudi Aramco setið eitt að svæðinu. Það eina sem við hin fáum að vita, er fengið með nettu iðnaðarnjósnunum okkar. Og reyna að draga ályktanir af myndum eins og hér til hliðar (sem er frá enn öðru olíusvæði Saudanna; Haradh kallast það). "Put or call"?


mbl.is Vísbendingar um að afl borhola á Hengilssvæðinu hafi aukist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelkaðir Danir

Jardskjalfti

Það eina sem hægt er að pára um í kvöld er auðvitað jarðskjálftinn. Alltaf sérkennilegt þegar maður er minntur á ofurstyrk náttúraflanna á Landinu Bláa.

Hér í Danmörku var skjálftinn vart yfirstaðinn heima þegar fréttin var komin í fjölmiðlana hér og danskir kunningjar fóru að hafa samband. Forvitnir að heyra hvort maður ætti enn þak yfir höfuðið heima á Íslandi. Dönum finnst alveg ægilega svakaleg þessi voðalegu náttúruöfl á Íslandi.

En þetta er svo sannarlega ekkert gamanmál. Minnist þeirra jarðskjálfta sem ég hef upplifað á Íslandi. Hvernig maður finnur algeran vanmátt sinn. Mjög sérkennileg og óþægileg tilfinning.  

En Hrafninn var flottur:

 


mbl.is Afar öflugur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árás á Persa yfirvofandi?

Bandarísk stjórnvöld munu líklega seint fyrirgefa Carter forseta það hvernig Bandaríkin misstu öll formleg áhrif sín í Íran. Þegar harðstjórinn Reza Pahlavi Íranskeisari, flúði landið og Khomeni erkiklerkur tók völdin.

Iranskeisari

En málið var að Ameríka var enn að jafna sig eftir klúðrið i Víetnam. Þess vegna var enginn alvöru vilji til að beita hervaldi gegn klerkastjórninni í Íran. Þar að auki var þetta á tímum kalda stríðsins, þ.a. menn urðu að fara varlega til að styggja ekki Sovétmenn um of.

Og það var ekki góðan málstað að verja. Reza Pahlavi, sem kallaði sig ýmist Ljós Aríanna eða Konung konunganna, var bersýnileg sturlaður og með nánast alla írönsku þjóðina gegn sér. Þannig að það voru engir góðir valkostir í stöðunni.

Top_Oil_Producing_Counties

En það væri gaman að hafa verið fluga á vegg í lokuðum herbergjum Washington þessa daga í lok 1978 og fram eftir 1979. Menn hljóta að hafa verið á nálum við tilhugsunina að missa af olíulindunum í Íran. Og svo horfa upp á framboðið þaðan hrynja. Reyndar segir sagan að hnetubóndinn frá Georgiu, Jimmy Carter, hafi hreinlega ekki skilið mikilvægi olíubirgðanna í Íran. Og þess vegna hafi Bandaríkin ekki beitt sér meira en reyndin varð.

En dveljum ekki við fortíðina. Bandaríkjamenn ætla bersýnilega ekki að gera þessi mistök aftur. Haldist hátt oliuverð hlýtur þetta að enda með innrás á Íran. Nema að reynslan frá Írak fæli.

Annars er erfitt að átta sig á stöðunni. Íranskir vinir mínir fullyrða að það sé í reynd Bandaríkjastjórn sem með leynd veita klerkunum í Íran stuðning, svo þeir geti haldið völdum. Þrátt fyrir að 90% þjóðarinnar vilji breytingar. Ástæðan á að vera sú að bandarisk stjórnvöld óttist ringulreið i landinu og séu ánægð með þann stöugleika sem harðstjórn klerkanna og gott samkomulag þeirra við Íransher tryggir. Ég á bágt með að trúa svona X-Files kenningum. Og sýnist allt stefna í innrás.

TehranSnow

Þannig að maður ætti kannski að fara að drífa sig að láta gamlan draum rætast. Mig hefur nefnilega lengi langað til Teheran. Bæði er saga Íran heillandi, fólkið fallegt og íranskir vinir mínir einstaklega þægilegir og skemmtilegir. Og svo eru víst frábær skíðasvæði þarna lika!

 


mbl.is Rice á leið til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagnaðarefni eða stefnuleysi?

Ég geri ráð fyrir því að ef orkufrumvarpið verður að lögum og opnar á einkavæðingu, sé það bara hið besta mál. Vissulega er fullt tilefni til að ræða þetta nánar hér. En vegna tímaskorts læt ég að svo stöddu nægja að minna á þessa færslu frá því fyrr í maí (sbr. linkinn hér að neðan):

Landsvirkjun_Logo

"Það er löngu orðið tímabært að taka til í íslenska orkugeiranum. Sennilega gerist það ekki nema með einkavæðingu. Það getur vel farið saman við hagsmuni ríkisins og þjóðarinnar. Fyrirtæki eins og Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavikur yrðu áfram meðal leikenda á því sviði að byggja og reka virkjanir. Til að byrja með væri skynsamlegast að einkavæða fyrirtækin smám saman. Á svipaðan hátt og senn verður gert í Danmörku með risaorkufyrirtækið Dong Energy."

Sbr. nánar "Hrikalegt stefnuleysi"; http://askja.blog.is/blog/askja/entry/545419/ 

PS: Vafrarinn minn er eitthvað að stríða mér og leyfir mér ekki að búa til "link" eða tengil. 


mbl.is Orkufrumvarp opnar á einkavæðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjósalykt á þingi

Þjóðþing heimsins flippa skemmtilega þessa dagana. Alþingi hyggst styrkja krónuræfilinn, með því að leyfa Seðló að taka að láni jafngildi allt að 500 milljarða ISK. Til að geta keypt krónur þegar eftirspurnin eftir þeim minnkar. Af hverju hef ég á tilfinningunni að þetta muni koma að litlu gagni?

Þetta er þó smávægilegt miðað við megaflippið sem Bandaríkjaþing er á þessa dagana. Ég held að einhver hafi laumað hassi í kökudegið á kaffistofu fulltrúadeildarinnar. Fyrir viku síðan samþykktu þingmenn þar á bæ nefnilega frumvarp, sem bannar samráð OPEC-ríkjanna um kvóta á olíuframleiðslu. Í fúlustu alvöru. Frumvarpið var samþykkt með 324 atkvæðum gegn 84 og kveður á um að lögsækja megi OPEC-ríkin fyrir brot á bandariskri samkeppnislöggjöf, vegna samráðs þeirra. 

steve_kagen_listens

Haft var eftir einum helsta stuðningmanni frumvarpsins, Steve Kagen frá Búkollufylkinu Wisconsin, að frumvarpið "...guarantees that oil prices will reflect supply and demand economic rules, instead of wildly speculative and perhaps illegal activities".

Þetta lyktar af fjósaskít - sem er reyndar heldur slöpp samlíking hjá mér, því satt að segja þykir mér fjósalykt barrrasta góð. En það sem ég vildi sagt hafa; hvernig dettur mönnum önnur eins vitleysa í hug. Þá væri nær að stinga amerísku bröskurunum á Wall Street í steininn. Það eru þeir sem eru að flýja með peningana frá fallandi hlutabréfamarkaði og dæla þeim í hrávöru. Sem er að valda ekki bara háu olíuverði, heldur líka stórhækkandi verði á t.d. hveiti, maís og öðrum matvælum. Íbúum fátækra þróunarríkja til mikils tjóns.

Oil_World_Map

Við Steve og félaga segi ég: Maður, líttu þér nær! En það er soddan kosningaskjálfti þarna fyrir Westan núna, að það er eins víst að öldungadeildin samþykki ruglið líka. Því þeir þingmennirnir vita jú að einn frægasti frasi Íslandssögunnar, "fólk er fífl", er ekki tilkominn af ástæðulausu. 

Og það sorglegasta er kannski að þó svo hægt væri að framfylgja þessu gagnvart OPEC, skiptir það í raun engu máli. Saudarnir einir og Íran geta án nokkurs formlegs samráðs ráðið olíuframboðinu. Eins og kortið hér að ofan skýrir svo skemmtilega.

SaudiIran

Eitt er víst; bæði Shíar í Íran og Súnníar í Arabíu munu halda áfram að skokka hlæjandi alla leið í bankann. Jafnvel hönd í hönd. En ef frumvarpið verður að lögum og Sádarnir fara í fýlu og beina peningunum sínum annað, vildi ég helst vera búinn að selja amerísku hlutabréfin mín. Nema kannski bréfin í olíufélögunum...


mbl.is Heimild til að taka 500 milljarða lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsta flugfélag heims gjaldþrota?

OilTsunami

Örstutt er síðan olíutunnan kostaði 50-60 USD. En svo fór olíuverðið skyndilega að hækka hratt á síðari hluta ársins 2007. Og í upphafi þessa árs (19. febrúar 2008) gerðist hið ótrúlega; olíutunnan rauf 100 dollara múrinn í fyrsta sinn í sögunni. Og þegar þetta er skrifað er verðið yfir 133 USD.

Stóra spurningin er hvort þetta háa verð nú kæfi bandarískt efnahagslíf?

OilDrowning

Til samanburðar má nefna að fyrir tæpum 10 árum gerðist það að olíutunnan fór undir 11 USD (desember 1998). Þá varð auðvitað voða smart að spá lækkandi olíuverði. Snemma árs 1999 spáði Economist því í frægri forsíðugrein, að olíuframboðið væri að drekkja okkur og að verðið færi senn undir 10 USD og jafnvel undir 5 USD. Það fór reyndar á annan veg; olíuverð tók þvert á móti upp á því að hækka á ný... og hækka... og hækka.

En hátt olíuverð er ekki nein glæný saga. Þó svo 100 dollara þröskuldurinn sé auðvitað afskaplega spes, er þetta verð í raun svipað (að teknu tilliti til verðbólgu) eins og 1980. Þegar gíslatakan í Íran stóð yfir og stríðið hófst á milli Íran og Írak. Munurinn er sá að þá var það ekki vaxandi eftirspurn, sem olli verðhækkununum, heldur samdráttur í olíuframboði og ennþá tvísýnna ástand í Mið-Austurlöndum en nú ríkir.

stealth_fighter_plane

En að spurningunni; "verður stærsta flugfélag heims gjaldþrota" vegna olíuverðsins? Tæplega - því að baki þessu ágæta flugfélagi stendur ríkissjóður Bandaríkjanna. Hvaða félag þetta er? Auðvitað bandaríski flugherinn. Sem rekur u.þ.b. 5.700 flugvélar og er með 19 þúsund flugmenn.

Skv. nýlegri frétt CNBC eyddi flugherinn 6 milljörðum USD í eldsneyti á síðasta ári (2007). Kannski hljómar þetta ekkert svo voðalega há upphæð. En þetta er samt slatti; t.d. helmingi meira en eldsneytiskostnaðurinn var 2001.

wynne

Og hver 10 dollara hækkun á olíutunnunni eykur eldsneytiskostnað flughersins um 610 milljónir dollara. Það eru líka peningar. Við skulum a.m.k. vona að sparibaukur flughersins sé stærri en sá, sem Michael Wynne heldur á á myndinni hér til hliðar.

Wynne er, sem kunnugt er, yfirmaður bandaríska flughersins.


mbl.is Olíuverð nálgast 133 dali á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurkoma víkinganna?

Azer_Elnur

Hvað er meira viðeigandi á svona fallegum sunnudegi hér í Köben, en að spá aðeins í Júróvisjón úrslitin og umræðuna sem orðin er fastur liður eftir keppnina. Kannski vert að hafa í huga kenningu, sem ég hygg að rekja megi til norska ævintýramannsins Thor Heyerdahl, að ættfeður víkinga hafi verið Azearar. Og þaðan sé hugtakið "Æsir" eða "Ásar" komið frá. Kannski er orðið tímabært að víkingarnir í austri nái aftir völdum í Evrópu?

gobustan_boats

Heyerdahl var m.ö.o. sannfærður um að forfeður víkinganna á Norðurlöndunum hefðu komið frá Azerbaijan við Kaspíahaf. Frá svæði sem kallast því skemmtilega nafni Gobustan. Sem í mínum huga þýðir í reynd Langt-í-burtistan. Þarna austur í Gobustan hafa fundist ævafornar hellamyndir, sem sýna skip, ekki ósvipuð víkingaskipunum. Og skv. kenningu Heyerdahl sigldu menn þaðan til Skandinavíu ca. árið 100 eftir Krist.

Heyerdahl er vissulega ýmist hataður eða fyrirlitinn af fornleifafræðingum. En allt frá því ég svolgraði í mig bókina hans um Kon Tiki leiðangurinn frábæra, hef ég haft afskaplega gaman af kenningum hans. 

En aftur að Eurovision. Fátt er sterkara en hroki Vestur-Evrópuríkja. Kannski ekki síst gamalla stórvelda eins og Bretlands og Frakklands. Kannski tímabært að þessar þjóðir átti sig á breyttri heimsmynd. En það er auðvitað afskaplega erfitt fyrir bæði gamla risaveldið Bretland og síðasta nýlenduveldið Frakkland, sem t.d. enn drottnar yfir fjölmörgum eyþjóðum í Kyrrahafi. Þessi ríki bara skilja alls ekki, að þau eru einfaldlega ekki lengur þungamiðjan í Evrópu. Ef ekki væri vegna stöðu London sem fjármálamiðstöðvar, myndi Bretland líklega bara teljast sérviturt og gamaldags jaðarríki í Evrópu.

Staða flestra Vestur-Evrópuríkja í dag er ekki alltof góð. Vegna lækkandi fæðingartíðni eru horfur á að velverðarkerfin munu ekki geta staðið til lengdar. A.m.k. verður það erfitt þegar þjóðirnar eldast jafn hratt og nú er að gerast. Þetta er raunar líka mikið vandamál í A-Evrópu. En þar hafa menn aftur á móti ekki lifað við velferðarkerfi að hætti V-Evrópu - og þess vegna ekki um að ræða samskonar hnignun frá því sem verið hefur.

azer-oil

Enn alvarlegri ógn við V-Evrópu er þó hækkandi orkuverð. Smám saman er reyndar öll Evrópa meira eða minna að verða háð Rússlandi um orku. Og fleiri löndum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum, eins og t.d. Kazakstan og Azerbaijan. Hið síðast nefna er auðvitað alveg sérstaklega áhugavert fyrir okkur, afkomendur víkinganna!

Já - gömlu víkingarnir í Azerbaijan, sem eru reyndar löngu orðnir múslímar (95%) eru í dag mikilsvirtir olíuframleiðendur. Í reynd eru fá ríki sem standa jafn vel að þessu leyti, eins og Azerbaijan.

Azer_Oil_platform

Stærstur hluti olíunnar þeirra kemur frá borpöllum í Kaspíahafi. Sem í dag er reyndar álitið eitt áhugaverðasta og hagkvæmasta nýja olíuvinnslusvæðið í heiminum. Myndin hér til hliðar er af einum pallinum þeirra.

Olíubirgðir Azeara eru taldar vera um 1,2 milljarðar tunna. Og framleiðslan, sem vex hratt, er nú um 800.000 tunnur á dag. Sem er umtalsvert! Og það sem meira er; áætlanir gera ráð fyrir að framleiðslan fari í 1,5 milljón tunnur árið 2010 og í 2 milljón tunnur fyrir 2020. Æsir horfa því fram á bjarta tíma. En V-Evrópa situr eftir með sárt ennið. Og fá stig í Eurovision.

Auðvitað notaði ég danska farsímann mínn til að kjósa Júróbandið okkar. Mörgum sinnum, skv. sérstakri skipan frá dóttur minni. En þó svo mér hafi auðvitað fundist Finnarnir langflottastir í gærkvöldi og verið æstur í sænsku ofurbombuna Sjarlottu, verð ég að segja að Æsir nútímans voru barrrrasta nokkuð svalir líka:

 


mbl.is Söngvakeppnin gekk fram af Sir Terry
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt mannvirki

Statfjord

Statfjord olíusvæðið var uppgötvað 1974 og vinnsla frá fyrsta borpallinum á svæðinu, Statfjord-A, hófst 1979. Það er einmitt pallurinn sem leki kom að nú.

Á kortinu hér til hliðar má sjá svæðið, sem liggur vestur af Bergen. Á þessum slóðum er fjöldi borpalla, bæði hefðbundnir ofansjávar olíupallar og fjarstýrðir pallar sem liggja á hafsbotninum. Kortið að neðan sýnir svæðið nánar, ásamt aðliggjandi olíuvinnslusvæðum.

Statfjord_area

Nú eru tveir aðrir pallar á Statfjord-svæðinu, Statfjorb-B frá 1982 og Statfjord-C frá 1985. Áætlanir gera ráð fyrir að olían á svæðinu, sem liggur í 150 milljón ára gömlum setlögum á um 2.500 - 3.000 metra dýpi, dugi ca. til ársins 2019-2020. Hafdýpið á svæðinu er um 300 metrar. Pallurinn Statfjord-A er um 600.000 tonn og nær rúmlega 200 metra yfir sjávarmál. 

StatfjordA_photo

Já - þetta eru stórbrotin mannvirki. Alls starfa um 200 manns á Stafjord-A á 12 tíma vöktum og úthaldið hverju sinni er 14 dagar. Þess á milli eiga starfsmenn mánaðarfrí.

Olían sem er dælt upp er geymd í tönkum og alls geta verið um 1,3 milljónir tunna í geymum Statfjord-A hverju sinni.

Samtals framleiða Statfjord pallarnir þrír um 150 þúsund tunnur af olíu daglega. Sem t.d. jafngildir næstum helmingi af olíuframleiðslu Dana, en er innan við 5% af olíuframleiðslu Norðmanna.

STATFJORD_oliusvaedid

Með neðansjávarpöllunum á Statfjord-svæðinu er framleiðslan þarna reyndar nærri 500 þúsund tunnur á dag. Metið er rúmlega 850 þúsund tunnur. Það var sett 16. janúar 1987. En nú er olían á svæðinu farin að minnka og þróunin er nánast dæmigerð Hubbert-kúrfa.

Að auki eru framleidd um 6 milljón rúmmetrar af gasi daglega á Statfjord-svæðinu.

Fyrir tveimur dögum var ég reyndar með færslu um olíuævintýri Norðmanna og beindi þá augum að Snorra-svæðinu;  "Svart gull Norðmanna":

http://askja.blog.is/blog/askja/entry/548366/ 

 


mbl.is Búið að stöðva olíuleka í borpalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í klóm efans

VatnajokullSatellite

Að hafa búið fyrstu 20 ár ævinnar í nágrenni Vatnajökuls og Mýrdalsjökuls og í 20 ár að auki verið með annan fótinn á svæðinu, gerir mann hálfgerðan jöklasérfræðing. A.m.k. þykist ég hafa obbolítið vit á s.k. jöklabúskap og tel mig líka þekkja nokkuð vel sögu íslenskra jökla síðustu aldirnar. Hef einfaldlega lengi haft áhuga á þessu efni og fræðst um jöklarannsóknir annarra.

Jöklarnir okkar hafa verið á sífelldri hreyfingu fram og aftur. Þetta er eins og hlutabréfamarkaðurinn; framskrið á einum tíma segir ekkert um hugsanlegt hop eða framrás í framtíðinni. Og hop jökla núna er ekki endilega stóri sannleikur um að þeir byrji ekki á ný að skríða fram. Ég held að sömu sjónarmið hljóti að eiga við um íshellu Norðurskautsins.

Skaftafell

M.ö.o. er ég svolítið efins um það að sú hlýnun eða veðurfarsbreytingar, sem við erum etv. að upplifa nú á okkar tímum, sé að rekja til okkar mannfólksins. En það er vissulega staðreynd að frá iðnbyltingu höfum við losað geysilegt magn CO2 í andrúmsloftið.

Kenningar um afleiðingar þessa, þ.e. að bruni manna á jarðefnaeldsneyti og losun gróðurhúsalofttegunda af manna völdum, valdi hlýnun og/ eða óæskilegum veðurfarsbreytingum, kunna hugsanlega að vera réttar. Mér finnst a.m.k. sjálfsagt að bergðast við og vera ekki að taka óþarfa áhættu. Þar að auki skilar baráttan um takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda sér í minni mengun og margskonar nýrri og betri tækni. Það er auðvitaða barrrrasta mjög jákvætt.

Ótti Hannesar Hólmsteins við að þetta verði svo dýrt, held ég að sé tóm vitleysa. Þvert á móti mun þetta stuðla að bættu umhverfi, nýjum fjárfestingatækifærum og aukinni velsæld. Ég er m.ö.o. einn af þeim vandræðagemsum sem sjá spennandi tækifæri í baráttunnu gegn losun gróðurhúsalofttegunda.

Smog

Því miður munu það líklega einungis vera Vesturlönd sem njóta ávaxtanna af minni mengun. Efnahagsuppgangurinn í Asíu nú og uppgangurinn sem örugglega á eftir að verða í Afríku, á eftir að skapa massíf neyslusamfélög sem gera neyslu Bandaríkjanna að smotteríi. Og mengunin í nýju markaðshagkerfunum á eftir að verða hroðaleg.

En það er einmitt þessi þróun sem skapar stórfengleg tækifæri, t.d. í orkufjárfestingum. Og ef lönd eins og Kína, Indland, Brasilía, Mexíkó og S-Afríka eiga eftir að verða aðilar að samkomulagi um bindandi takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda, skapast enn stærri og áhugaverðari markaður með viðskipti með losunarheimildir.

CCX_logo

Nú þegar eru slík viðskipti stunduð innan Evrópu, á European Climate Exchange (ECX) í London. Og í Bandaríkjunum er einnig slíkt viðskiptakerfi, jafnvel þótt Bandaríkin hafi ekki staðfest Kyoto bókunina. Þar fara viðskipti með kolefniskvóta fram bæði á Chicago Climate Exchange (CCX) og á NYMEX i New Yotk. Kauphöllin í Montreal opnaði nýlega fyrir viðskipti af þessu tagi (Montreal Exchange; MX) og í kauphöllum í Tokyo, Singapore og Sydney er verið að skoða slíka möguleika. Og eflaust víðar.

Það er því mikið að gerast í þessum bransa og tækifærin blasa við. Markaðurinn er gríðarlega stór. Menn hafa áætlað að viðskiptin í Bandaríkjunum einum með slíka kvóta geti orðið allt að 1.000 milljarðar USD. Innan 10 ára! International Herald Tribune hefur lýst þessu með orðunum "Where Greed is Green".

Enn þetta eru ennþá mjög áhættusöm viðskipti. Framtíð kerfisins mun hugsanlega að miklu leyti ráðast af niðurstöðu fundar, sem haldin verður í Kaupmannahöfn síðla á næsta ári (2009). Þá mun væntanlega koma í ljós hvernig kerfið með losunarviðskipti mun líta út næstu árin. Spennandi!


mbl.is Ný sprungusvæði finnast á norðurheimsskautssvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svart gull Norðmanna

SnorriOliupallur2

"Norski olíusjóðurinn skreppur saman". Já - það er stundum erfitt að eiga mikinn pening. Ekki er hægt að geyma allt svarta gullið sitt undir koddanum. Og þegar að kreppir útí heimi, síga hlutabréfin. Sælir eru fátækir. Þeir sem í mesta lagi eiga norskan skógarkött.

 

Snorri_bordekk2

En Norðmenn geta huggað sig við það að þeir hafa aldrei getað selt olíudropana sína jafn dýrt og nú. Það er reyndar vel þess virði að staldra aðeins við norska olíuiðnaðinn. Ævintýrið sem gert hefur Norðmenn einhverja ríkustu þjóð í heimi.

Á norska landgrunninu er að finna fjölda borpalla, hvaðan olían og gasið er sótt úr setlögum neðansjávar. Svæðin bera flest norræn nöfn, eins og Snorri, Vigdís, Þórdís, Sleipnir, Heimdallur og Hvítabjörn. Á hverju svæði er einn eða fleiri borpallar. Ýmist þessir "hefðbundnu" eins og maður þekkir af myndum og/ eða aðrir sem liggja á sjálfum hafsbotninum og er fjarstýrt frá stjórnstöðvum ofansjávar.

Snorri_oil_felt2

Skoðum Snorra-svæðið sem dæmi (sbr. Snorri Sturluson - Norðmenn eru duglegir við að rækta arfleifðina og hafa jú löngum þóst eiga mikið í Snorra). Snorrasvæðið liggur á s.k. Tampensvæði út af Bergen. Þarna er dýpið um 300-350 metrar. Pallarnir eru tveir (Snorri A og B) og auk þess er meira en tugur vinnslustöðva neðansjávar, sem eru tengdar pallinum Snorra A.

Statfjord_skyring

Olíunni (og gasinu) er dælt upp úr setlögunum og þaðan fer hún eftir leiðslum til birgðageymslunnar á Statfjord-svæðinu og þaðan  til vinnslustöðvar sem nefnist Kaarstö og er í Tysvær í Haugalöndum. Áður gerðist flutningurinn í land með tankskipum, en nú er komin olíuleiðsla á milli.

Fjárfestingin á Snorrasvæðinu einu var upp á meira en 85 milljarða norskra króna. Það er StatOil sem rekur pallana á Snorrasvæðinu, en eignarhaldið er þó í höndum fleiri aðila. Það er mjög forvitnilegt að kynnast þessu kerfi og tækninni við gas- og olíuvinnsluna. Kannski gefst hér síðar tækifæri til að segja nánar frá norska kerfinu og hvernig staðið er að eignarhaldi, leyfisveitingum o.þ.h. vegna svæðanna í Norðursjó.

 


mbl.is Norski olíusjóðurinn skreppur saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband