Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

"Get the nuclear started!"

Því miður mun vind- og sólarorka ekki leysa olíuna af hólmi. Og menn skulu varast að bíða of lengi: "You dont ever have a tree if you dont get it in the ground... get the nuclear started". Djúp speki hjá Boone Pickens - og hann er íðilfagur Texas-hreimurinn:

 

PS: Af athugasemd sem borist hefur má sjá að ég er ekki eini sérvitringurinn hér í Netheimum. Tesla er einn af þessum gleymdu snillingum, sem allt of fáir minnast. Meðan Edison er auðvitað ódauðlegur sem faðir ljósaperunnar og grammófónsins, og upphafsmaður eins stærsta fyrirtækis heims (General Electric) er Tesla flestum gleymdur. Það gengur svona. 


mbl.is Spáir verulegri hækkun á olíuverði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama er Íslandsvinur

Eftirfarandi er yfirlit um stefnu forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum m.t.t. endurnýjanlegrar orku. Við hljótum að halda með Obama:

hillary-clintonbarack-obamajohn-mccain

 

 

 

 

 

 

Hillary Clinton: Markmiðið að árið 2025 verði 25% af rafmagnsframleiðslu í Bandaríkjunum frá endurnýjanlegum auðlindum. Leggur til að komið verði á 50 milljarða dollara sjóði sem á 10 ára tímabili verði nýttur til að fjárfesta í fyrirtækjum sem framleiða endurnýjanlega orku.

Barack Obama: Sams konar markmið og Clinton, en nefnir sérstaklega sólarorku, vindorku og jarðvarma (strax orðinn "Íslandsvinur"?). Vill að a.m.k. 30% af allri rafmagnsnotkun alríkisstofnana komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2020. Vill stofna 150 milljarða dollara sjóð sem í 10 ár styðji rannsóknir og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum.

John McCain mun ekki hafa sett fram nein ákveðin markmið, en segist styðja endurnýjanlega orkugjafa.

Sjá: 

www.hillaryclinton.com/issues/energy/

www.barackobama.com/issues/energy/ 

www.johnmccain.com/Informing/News/Speeches/13bc1d97-4ca5-49dd-9805-1297872571ed.htm 


mbl.is Clinton dregur í land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pickens was wrong - en er samt svalur gæi

PickensCartoon

Jæja - þar kom að því. Olíufatið fór yfir 120 USD í dag. Það er alltaf gaman að hafa rétt fyrir sér. Um miðjan febrúar s.l. spáði ég því að dollan myndi jafnvel rjúfa 120 dollara múrinn fyrir vorið (þá var fatið á slétta 100 dollara). Og í mínum huga eru fyrstu vordagarnir einmitt núna.

Já - mig grunaði að gamli olíurefurinn T. Boone Pickens væri full hógvær þegar hann spáði olíunni í kringum 100 dollarana - og hann byrjaði meira að segja að sjorta olíuna!: "Pickens Expects Oil, Natural Gas Prices to Fall"; www.cnbc.com/id/23272368

Hvort olían á eftir að lafa yfir 120 dollurunum verður að koma í ljós (NYMEX lokaði í kvöld í 119,97 USD). En haftið er rofið - og það er eitthvað heillandi við það. Ekki síst þar sem ástæðan er ekki bara lækkun dollars. Heldur kannski fyrst og fremst óttinn við að framboðið sé einfaldlega of lítið. Ein smá sprenging í Afríku - og verðið rýkur upp.

Ewings

Þó svo ég hafi outsmartað Pickens í þetta sinn, er samt full ástæða til að staldra aðeins við þennan magnaða karakter. T. Boone Pickens er nánast goðsögn í lifanda lífi og fyrirmyndin að JR Ewing úr Dallas þáttunum yndislegu. Hann er jafnaldri foreldra minna, fæddur í olíufylkinu Oklahoma i maí 1928 og á því stórafmæli síðar í mánuðinum. Alinn upp í kreppunni miklu kynntist Pickens peningaleysi í æsku, en þegar kom að framhaldsnámi valdi hann jarðfræði. Vegna dapurs ástands í bandaríska olíuiðnaðinum upp úr 1950 var lítið að gera fyrir nýútskrifaða jarðfræðinga. Svo fór að um miðjan 6. áratuginn stofnaði Pickens eigið fyrirtæki, Mesa Petroleum, með 2.500 dollara í hlutafé. Sem smám saman varð stærsta sjálfstæða olíuframleiðslufyrirtæki Bandaríkjanna. Sannkallað "Ewing Oil".

PickensTimeCover

Fyrirtækið með tvo starfsmenn í upphafi, óx hratt í milljarðaveltu. Og til að gera langa sögu stutta varð T. Boone Pickens frægur að endemum fyrir yfirtökur á fjölda fyrirtækja í olíuiðnaðinum - oft fjandsamlegar og afar arðsamar. Fyrir vikið varð hann einn efnaðasti og umdeildasti bissnessmaður í Bandaríkjunum- harður nagli sem sagður var svífast einskis í viðskiptum. Frægð hans reis hvað hæst á geggjaða 9. áratugnum og þá var Pickens m.a. á forsíðu Time.

Pickens hefur gefið talsvert af fé til ýmissa góðra málefna, ekki síst til Oklahomaháskóla í bænum Stillwater. Af sinni einstöku "hógværð" samþykkti Pickens að íþróttavöllur skólans yrði einmitt nefndur "Boone Pickens Stadium". Svo er Pickens einn af heitustu stuðningsmönnum Bush núverandi forseta, enda báðir úr olíuiðnaðinum. Og í síðustu kosningabaráttu varði Pickens gríðarmiklu fé til þeirra sem drógu mannorð John Kerry í svaðið, sem þótti heldur subbulegur leikur. En hann varð fyrir vonbrigðum með stefnu Bush í orkumálum; finnst vanta ríkari áherslu á endurnýjanlega orkugjafa. Pickens mun þó væntanlega seint taka upp á því að styðja demókrata til forseta.

windytexas

En hann veit hvar peningarnir eru. Og þrátt fyrir aldurinn er kallinn enn á fullu. Í dag er Pickens farinn út úr Mesa Petroleum og fjárfestir nú grimmt í endurnýjanlegri orku; sérstaklega í vindorku. Á teikniborðinu er hvorki meira né minna en stærsta vindorkuver í heimi. Þetta 4.000 MW orkuver mun rísa á sléttunum vestur af Dallas - fjárfesting upp á litla 10 milljarða USD með hátt í 3.000 vindtúrbínum. Orkan mun nægja u.þ.b. milljón heimilum og áætlað er að fjárfestingin skili 25% arði. Einnig hefur Pickens undanfarið verið stórtækur í uppkaupum á vatnsréttindum. T. Boone Pickens veit nefnilega að í framtíðinni mun mestur arður liggja í náttúruauðlindum og hreinni orku.

Á gamals aldri hefur hann enn fremur draum um að Bandaríkin verði sjálfum sér næg um orku. En sem dæmi má nefna, að olíuframleiðsla í Texas er nú aðeins helmingur þess sem var a gullaldarárunum í kringum 1970.

Sjálfur vonast ég til þess að heimsækja vini í Texas fljótlega (Austin). Þá væri ekki amalegt að geta droppað við hjá Pickens á búgarðinum hans í "uppsveitum" Texas, Mesa Vista Ranch, rétt við fylkismörkin að Nýju-Mexíkó: www.mesavistaranch.com/


mbl.is Olíuverð í hæstu hæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beggja skauta byr

Það væri óskandi að hátt olíuverð væri jafn mikið fagnaðarefni á Íslandi eins og t.d. í Noregi og Danmörku. Fyrir Norðmenn þýðir þetta háa verð á olíu enn meiri tekjur í þjóðarkassann. Og það sem meira er; Norðmenn nýta þennan arð af skynsemi til að fjárfesta til framtíðar í gegnum olíusjóð norska ríkisins.

gse_multipart64216

Danir eru líka olíuveldi. Í danska hluta Norðursjávarins eru nú framleiddar um 340 þúsund tunnur á dag, sem er helmingi meira en öll olíunotkun landsins (það er Mærsk sem að mestu sér um olíuvinnsluna). Vinnanlegt magn (birgðir) eru taldar vera um 1,3 milljarðar tunna. Sama er að segja um gasið - þar búa Danir líka að miklum auðæfum.

Og vindurinn blæs ekki aðeins með Dönum í olíuvinnslunni. Á sama tíma er eitt stærsta vindtúrbínufyrirtæki heims einmitt danskt; það er Vestas. Og með hækkandi olíuverði eykst salan á vindtúrbínum um allan heim. Þannig að Danir ættu að geta horft til bjartrar framtíðar.

Vestas2yrs

Grafið hér til hliðar sýnir þróun hlutabréfaverðs Vestas s.l. 24 mánuði. Við þetta má bæta að eitt af öflugustu fyrirtækjum Evrópu í sólarorkuiðnaðinum, er danskt. Það er eitt af þessu rótgrónu dönsku fjölskyldufyrirtækjum, sem svo mjög einkenna danskt atvinnulíf. Danir eru ekki alltaf skemmtilegastir manna... en þeir eru seigir og með afar fjölbreytt atvinnulíf.

 


mbl.is Verð á olíu yfir 116 dali tunnan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur árangur Marel

Ég er svag fyrir tæknifyrirtækjum, sem byggja á hugviti í stað hráefna. Þegar maður veltir fyrir sér hvernig Ísland maður vill að börnin manns fái í arf, eru olíuhreinsunarstöðvar eða fleiri álver ekki á mínum lista. Við Íslendingar þurfum meira af fyrirtækjum eins og Marel og Actavis. Það er ekki auðvelt að byggja upp slík fyrirtæki. Vonandi nær Decode að komast á skrið fljótlega og vonandi hefur Marel ekki lagt út i of miklar og hraðar fjárfestingar.

GlcialRiverPattern

Við eigum að skapa reglu- og skattaumhverfi sem laðar enn meiri fjárfestingar af þessu tagi til landsins. Í staðinn hefur ríkið stundað atvinnustefnu í sovét-stíl, sem leggur alla áherslu á að niðurgreiða orku til stóriðju. Þessi stefna gengur út frá því að náttúra sé einskis virði, land utan hefðbundinna eignarlanda sé einskis virði og að fyrirtæki þurfi ekki að greiða neitt fyrir notkun á takmarkaðri sameiginlegri auðlind þjóðarinnar (þ.e. losunarkvótanum sem Ísland hefur skv. Kyoto-samningnum). Þetta er óeðlileg og óheilbrigð stefna.

Í sjálfu sér er áliðnaðurinn um margt vissulega afar þörf starfsemi. En stóriðjustefnan hefur beinlínis stuðlað að því að íslenskt atvinnulíf er nú einhæfara en nokkru sinni fyrr í nútíma-hagsögu Íslands og álútflutningur orðinn óeðlilega stór hluti útflutningstekna. Maður vonar að ný kynslóð stjórnmálamanna komi okkur á betra og nútímalegra spor.

PS: Myndin hér að ofan af jökulsánni að leika listir sínar á söndum Íslands, er ein af frábærum ljósmyndum Daníels Bergmann: www.danielbergmann.com


mbl.is Marel: Fimm milljarðar í rannsóknir og þróun á hverju ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kína þarf miklu meira

WEO

Í leikskólanum syngja krakkarnir "bílarnir aka yfir brúna, yfir brúna... allan daginn". Og það á svo sannarlega við um Kína. Ég hef verið svo gæfusamur að kynnast vel nokkrum kínverskum "uppum", sem útskýra fyrir manni hreint ævintýralegan uppgang kínverska efnahagslífsins. Líklega má segja að í Kína sé nú að sumu leyti það sama að gerast eins og í Bandaríkjunum seint á 19. öld. Undir allt öðrum pólitískum öflum þó. En það sem er sameiginlegt eru sögulega miklar fjárfestingar og mikil eftirspurn eftir orku.

Það sem er jafnvel enn magnaðra, er að flest þetta vel menntaða og unga fólk frá Kína virðist sannfært um að merkasti maður sem uppi hefur verið sé fjöldamorðinginn Maó. Ástæðan er að vísu nokkuð lógísk - margir Kínverjar óttast að án stjórnar kommúnistaflokksins muni upplausnarástand verða i landinu með skelfilegum afleiðingum.

Chinaimports

Þegar Bandaríkin urðu efnahagslegt stórveldi var landið að mestu sjálfu sér nægt um mikilvægustu auðlindir. Þetta á ekki við um Kína. T.d. er Kína þegar orðið háð innfluttri olíu (allt síðan 1993 sbr. stöplaritið hér til hliðar). Og umræða um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda verður nánast hlægileg þegar litið er til þess hversu mjög orkunotkun á eftir að aukast í Kína á næstu árum. Og mest aukningin mun koma frá kolum og olíu. Til allrar hamingju hefur sjaldan verið framleitt meira af olíu en í dag og við skulum rétt vona að enn sé langt í peak-oil. Því Kínverjar munu þurfa meira - miklu meira.

0508china_imports

Einmitt þess vegna hafa kínversk stjórnvöld verið iðin við það undanfarið, að tryggja sér æ betri aðgang að olíu, ekki síst frá Afríkulöndunum. Sbr. myndin hér til hliðar. Takið eftir Angóla - einungis eitt Afríkuríki framleiðir meiri olíu en Angóla (Nígería) og hvergi í álfunni er hraðari efnahagsvöxtur. Og spillingin í landinu er hroðaleg.

Shanghai_Freeway

En þó svo aukin eftirspurn frá Kína eigi þátt í háu olíuverði, er vert að hafa líka annað i huga. Ekki þarf mikinn hiksta i Kína til að olíuverð lækki snögglega. Og alveg sama hvað ljósin skína skært í Shanghai nú - Kína á eftir að lenda í samdráttartímabili. Stóra spurningin er bara hvenær það verður? Þess vegna er og verður spákaupmennska með olíu alltaf áhættusöm. En líka oft þess virði!


mbl.is Ein lengsta brú í heimi opnuð í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dularfullu salthellarnir

iraq_soldiers

Hvað er betra til að koma hjólum efnahagslífsins á stað en nett stríðsátök? Hér kemur ein létt samsæriskenning. Hún gæti kallast "Dularfullu hellarnir" - en er reyndar ekki ein af bókum Enid Blyton heldur rammasta alvara:

Þið kannist við Strategic Petroleum Reserve (SPR)? Undanfarið hafa bandarísk stjórnvöld markvisst verið að auka þessar olíubirgðir, sem eru í raun neyðarbirgðir eða birgðir til að nota á neyðartímum. Hvað veldur þessari birgðaaukningu nú - líkt og eitthvað meiriháttar sé í undirbúningi?

x-files

Ég ætla ekki að spá fyrir um það. Þó maður kannski hallist að því að þetta sé hluti að undirbúningi árásar á Íran. Í staðinn ætla ég að fara örfáum orðum um þessar neyðarbirgðir Bandaríkjastjórnar af olíu. Sumpart minnir þetta meira á þátt úr X-files, fremur en raunveruleikann. Birgðir þessar eru að mestu geymdar neðanjarðar í gömlum salthellum undir suðurhluta fylkjanna Texas og Louisiana. SPR-olían eru mestu olíubirgðir sem nokkur ríkisstjórn í heiminum ræður yfir. Og það er Bandaríkjaforseti sem tekur ákvarðanir um þessar birgðir. Upphaflega var þeim komið á fót í kjölfar olíukreppunnar upp úr 1970. Um þetta segir nánar t.d. á vef bandaríska orkumálaráðuneytisins (www.fe.doe.gov/programs/reserves/index.html) og sérstökum vef um SPR (www.spr.doe.gov).

Opr_Desert_Storm

Glöggir menn hafa nú tekið eftir því að undanfarið hefur bandaríkjastjórn verið að bæta hátt í 70 þús. tunnum við birgðirnar á degi hverjum. Skv. lögunum um þessar birgðir (Energy Policy Act frá 2005) geta þær orðið allt að 1 milljarður tunna.

Fyrir 11. sept 2001 (árásina á World Trade Center) námu birgðirnar um 545 milljón tunnum, en eftir þá atburði fyrirskipaði Bush að auka birgðirnar í allt að 700 milljón tunnur. Í dag eru birgðirnar yfir 700 milljón tunnur og hafa aldrei í sögunni verið meiri! Og nú hefur bandaríska orkumálaráðuneytið þá opinberu stefnu að auka birgðirnar í nærri 730 milljón tunnur innan fárra mánaða. Enn fremur er lagabreyting núna til umfjöllunar hjá Bandaríkjaþingi þess efnis að auka birgðirnar í allt að 1,5 milljarða tunna. En af hverju þessi mikla aukning nú - og það þegar olíverðið er svo hátt?

Scully_and_Mulder

Þetta hefur vakið athygli, enda kostar slík aukning ca. 5 milljarða dollara (kaupa þarf olíuna og byggja upp nýjar geymslur fyrir allt magnið). Enn fremur eykur þetta þrýsting á að olía hækki enn meira. Og sú staðreynd er ekki beint til þess fallin að fá almenna Bandaríkjamenn til að brosa. Því eru þeir nú sífellt fleiri sem velta fyrir sér hvaða plön Bush og félagar séu að brugga. Hvað ætli Scully og Mulder myndu segja um þetta?


mbl.is Atvinnuleysi 5% í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lula!

Ástandið er ekki beisið í Ameríku þessa dagana. Né heldur á Íslandi. Hálf slappt líka í Evrópu. Og meira að segja á nýmörkuðunum í Kína og Indlandi hafa hlutbréf lækkað gríðarlega. Td. hefur SSE-vísitalan í Shanghai fallið nærri 50% á rétt um hálfu ári og Sensex í Bombay hefur líka lækkað hressilega.

BovespaIndex05_03_05_08

Annað er uppi á teningnum í Brasilíu. Aðalvísitala kauphallarinnar í Sao Paulo (Bovespa) hefur vissulega sveiflast talsvert undanfarna mánuði, en sló í dag engu að síður enn eitt metið og fór yfir 68.000 stig. Í reynd hefur verðmæti hlutabréfa í Brasilíu nánast vaxið sleitulaust allt frá því vinstrimaðurinn Lula tók við forsetaembættinu fyrir um 5 árum (sbr. grafið). Undir stjórn Lula hefur Brasilía orðið eitt helsta efnahagskerfi heims og öðlast stöðu sem öflugt olíuríki.

LulaBrazil

Lula er um margt afar sérstakur náungi. Þessi fyrrum verkalýðsleiðtogi fæddist inní stóra fjölskyldu, þar sem lífsbaráttan var hörð og lítið um skólagöngu. Hann mun ekki hafa lært að lesa fyrr en 10 ára gamall og vann sem skóburstari frá 12 ára aldri. Síðar varð hann áhrifamaður í verkalýðshreyfingunni og þaðan lá leiðin í stjórnmálin.

Ég var í Brasilíuborg um mitt ár 2004. Þá hefði maður átt að setja fáeinar krónur í brasilísk hlutabréf. En hvað um það. Hótelið sem ég gisti á stóð við vatnið, sem er í jaðri borgarinnar og þaðan horfði maður beint yfir til forsetahallarinnar örskammt frá. Einn daginn birtist Lula á hótelinu til að hrista spaðana á okkur, sem þarna sátum á fundi (þar á meðal voru nokkrir hátt settir Brasilíumenn). Og þá fann maður þetta óútskýranlega afl og gríðarlega sjarma, sem sagður er fylgja sumu fólki. Hef heyrt þetta sama sagt um Bill Clinton, frá fólki sem hefur hitt hann í eigin persónu. 

BrasiliaCity

Brasilíuborg er engri lík, enda var hún beinlínis skipulögð og byggð upp sem höfuðborg landsins, langt inni á brasilísku hásléttunni. Hér til hliðar er mynd af þinghúsinu; byggingarnar með hvolfþakinu og skálinni eru aðsetur neðri og efri deilda þingsins. Í háhýsunum að baki eru svo skrifstofur.

Myndin hér að neðan er aftur á móti af dómkirkjunni, sem mér finnst mjög flott. Næst fallegasta guðshús heims á eftir kapellunni austur á Kirkjubæjarklaustri.

BrasiliaDomkirkjan

Brasilíuborg hlýtur að vera skylduáfangastaður fyrir arkitekta  - þó hún sé ekki endilega besta fyrirmynd nútímaborga. En einstök er þessi borg svo sannarlega og með margar afskaplega fallegar byggingar.


mbl.is Lækkun á hlutabréfum vestanhafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vor í Danaveldi

Hér í Danmörku er mikið umrót á fjölmiðlamarkaðnum. Minni dagblaðalestur knýr gömlu blöðin til margs konar breytinga og finna hvað það er sem lesendur hafa mestan áhuga á. Meðal þess sem æ meira sést er umfjöllun um loftslagsmál. Enda er það svo að á næsta ári (2009) fer fram hér í Köben afar stór og mikilvæg ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar: www.cop15.dk/en

VestasWT

Ráðstefnunni er ætlað að samþykkja ný alþjóðlegt markmið um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda eftir 2012 (þegar Kyoto-tímabilinu lýkur). Þess er vænst að lönd eins og t.d. Kína og Indland verði meðal þeirra sem samþykkja ný bindandi markmið, en fram til þessa hafa það einungis verið hin hefðbundnu þróuðu ríki sem skuldbindingar hafa hvílt á. Danir eru afskaplega spenntir fyrir ráðstefnuninni, enda hafa augu heimsins nú beinst að Köben. Vindtúrbínu-fyrirtækið Vestas hefur notið góðs af athyglinni, en það er í dag þekktasta fyrirtæki Danmerkur á sviði endurnýjanlegrar orku. Einnig má nefna danska fyrirtækið Arcon, sem er framarlega í sólarorkuiðnaðinum.

Nokkuð er síðan dagblaðið Börsen byrjaði með vikulegan kálf um loftslagsmálefni. Og i gær kynnti yfirritstjóri Berlingske Tidende nýjan vef þess prýðilega fjölmiðils um loftslagsmál: www.berlingske.dk/section/klima/

Þetta er hið besta mál. En mér þykir samt stundum heldur mikill heimsenda- eða svartsýnistónn í skrifum þessara ágætu dagblaða um umrædd málefni.


mbl.is Nýr ritstjóri Jyllands-Posten
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æsispennandi miðvikudagar!

OilEarthjpg

Á morgun upplifum við enn einn spennandi miðvikudag. Ástæðan? Auðvitað sú að á hverjum einasta miðvikudagsmorgni, þegar klukkan er nákvæmlega 9:00 í Washington DC, birtir bandaríska olíuviðskiptastofnunin tölur um birgðastöðu olíu í Bandaríkjunum. Stofnunin nefnist American Petrolium Institite (oftast kölluð American Oil Industry; skammstafað AOI).

Að AOI standa u.þ.b. fjögur hundruð fyrirtæki í bandaríska olíuiðnaðinum. Þar á meðal eru t.d. dreifingarfyrirtæki, fyrirtæki sem reka olíuhreinsunarstöðvar og auðvitað framleiðendurnir, þ.e. fyrirtækin sem sækja svarta gullið í jörðu. 

Og á miðvikudögum eru einnig birtar vikulegar tölur frá bandaríska Orkumálaráðuneytinu (US Department of Energy) um þróun olíueftirspurnar í landinu.

Reynist birgðastaðan meiri en fjárfestar höfðu gert ráð fyrir, er algengast að olíuverð lækki. Ef birgðirnar eru minni en búast var við, myndast þrýstingur á hækkun olíuverðs.

PS (skrifað síðdegis á miðvikudegi, 30. apríl): Miðvikudagsskýrslan frá því í morgun sagði olíubirgðir í Bandaríkjunum hafa aukist um 3,8 milljón tunnur; "far more than the 300,000-barrel increase expected in a Reuters poll of analysts" (http://www.cnbc.com/id/24375721). Og olíuverð byrjaði samstundis að lækka.


mbl.is Olíuverð á niðurleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband