Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Þó fyrr hefði verið

KetillEB

Fyrir um 15 árum lauk ég laganáminu í HÍ, með lokaritgerð um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Þetta var á þeim tíma sem Ísland var að verða aðili að EES, sem í raun leiddi til nútímavæðingar landsins frá gamla haftabúskapnum. Um leið varð Ísland í reynd áskrifandi að mest allri löggjöf EB, án þess að hafa nokkuð um hana að segja.

En þegar kom að hugmyndum um fulla aðild Íslands að EB var viðkvæði andstæðinganna oftast að það mætti ekki, því þá myndum við ekki lengur ráða yfir fiskimiðunum. Þetta var hræðsluáróður - um þetta var í raun engin vissa. Og niðurstaðan hefði einfaldlega eingöngu fengist með samningaviðræðum. En það mátti ekki skoða málið.

Það er í raun grátbroslegt að íslenskir stjórnmálamenn skuli ekki hafa gengið í það á tíunda áratugnum að kanna raunverulega möguleika Íslands, með því að fara í formlegar aðildarviðræður. Hin mikla stækkun EB til austurs og minnkandi hernaðarvægi N-Atlantshafs, hefur að minnsta kosti ekki styrkt samningsstöðu okkar.


mbl.is Tímabært að sækja um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýskt Heklugos

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu verkefni Heklu Energy í Þýskalandi. Þar í landi er lítil hefð fyrir jarðhitavirkjunum, enda einungis um lághitasvæði að ræða. En rík áhersla er lögð á að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í landinu. Þýska risafyrirtækið Siemens er t.d. leiðandi í byggingu á vindtúrbínum.

Sem kunnugt er er nú komin fram ný tækni við að framleiða rafmagn úr jarðhita á lághitasvæðum. Orkuverið á Húsavík var eitt hið fyrsta sem nýtti þessa tækni, sem kennd er við rússneskan verkfræðing; Alexander Kalina. Í hnotskurn felst tæknin í blöndun á heitu vatni og ammoníaki, en nánari uppl. um hvernig rafmagn er framleitt með þessum hætti má t.d. lesa á vef Orkuveitu Húsavíkur: www.oh.is

GeoThermalItaly

Fyrsta jarðhitavirkjunin í Þýskalandi mun hafa verið byggð 2003. Myndin hér til hliðar er aftur á móti frá  Larderello á Ítalíu, í nágrenni við skakka turninn í Pisa, en þar var í fyrsta sinn í heiminum framleitt rafmagn með jarðhita (1904). Reyndar dugði rafmagnið í fyrstu einungis fyrir fáeinar ljósaperur. En það er önnur saga.


mbl.is Hekla Energy hálfnuð með fyrstu holuna í Bæjaralandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Self made man

BthorÞað sem er kúl við árangur Björgólfs Thors er að hann er self made. Fáir sem geta leikið eftir ævintýrið í Skt. Pétursborg og uppganginn hjá Pharmaco og Actavis.

Eina kuskið er salan á Landsbankanum - maður hefur alltaf á tilfinningunni að þeir Samsonmenn hafi fengið bankann á slikk.

En Íslendingurinn í manni samgleðst yfir árangri Bjögga. Ég man þegar ég bjó í London fyrir um 15 árum Þá fannst manni skrítið að sjá alla Arabana sem rúntuðu um Chelsea-hverfið á gullslegnum Kádiljákum og virtust eiga allt sem máli skipti í borginni. Maður fann olíuþefinn langar leiðir. Þetta hefur breyst; nú eru Rússarnir líklega mest áberandi. Og hvaðan kemur auður þeirra? Að sjálfsögðu hvað mest frá rússneska orkuiðnaðinum.

nonni

En talandi um breytingar. Ég man eftir sæluspenningar-hrollinum sem hríslaðist um mann þegar pabbi las fyrir mig ævintýri Nonna á Skipalóni og um bardagann við ísbirnina. Nýlega var ég að lesa sömu bók fyrir snáðann minn. Jú - honum þótti þetta rosa spennandi. En var samt dálítið forviða yfir grimmdinni að drepa ísbirnina.

Smá nútímafirring sem barnið hefur orðið fyrir, býst ég við. 

Reyndar á maður auðvitað ekki að tala um ísbirni. Hvítabirnir er miklu flottara orð!


mbl.is Björgólfur Thor á lista yfir þá ríkustu í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært!

dettifoss12

Það er mikið fagnaðarefni hversu álverstæknin breytist ört og til hins betra. Engu að síður vakna margar spurningar um hvort orku- og iðnaðarstefna íslenskra stjórnvalda er farsæl.

Það voru settir rúmlega 130 milljarðar í Kárahnjúkavirkjun. Þetta er risastór ríkisframkvæmd í anda New deal - framkvæmd sem etv. er réttlætanleg á tímum kreppu og stórfellds atvinnuleysis. En kannski síður viðeigandi á velferðartímum. Á móti koma rök um að nýta beri náttúruauðlindir. T.d. væri hæpið fyrir Norðmenn að hætta að dæla upp olíu og gasi, af því efnahagsástandið í Noregi kalli ekki á þá vinnslu.

Engu að síður er hér stór munur á. Meðan Norðmenn nýta orkuvinnslu sína til að byggja upp einhverja sterkustu fjárfestingasjóði í heimi, sér íslenska þjóðin lítið til arðsins af virkjununum. Þessir aurar einhvern veginn hverfa bara í botnlausa hít ríkissjóðs. Það er alls ekki nógu gott.


mbl.is Minni mengun frá álverum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjart framundan

wind_energy

Ætlaði að lesa fréttina á vef Economist um íslensku skuldasúpuna. En endaði auðvitað inni á vef Suez Energy, sem eru með auglýsingu á Economist-vefnum: www.energiesofprogress.com/home.php?lang=en

Enn og aftur er endurnýjanleg orka í sviðsljósinu. Og prufið að fara t.d. inn á vef General Electric (www.ge.com). Þarna er um að ræða eitt stærsta fyrirtæki heims, en af vefnum þeirra má helst ráða að hið eina sem þeir telji einhverja framtíð í sé endurnýjanleg orka og þá fyrst og fremst vindorka. Jæja - kannski má segja að þeir sjái líka einhverja möguleika í heilbrigðisgeiranum. En megináherslan er á vindorkuna.

GE-logo

Og þegar litið er á síðustu ársskýrslu GE er hið sama uppi á teningnum. Á forsíðunni er "vindmylla" eða öllu heldur stoltur turn með vindtúrbínu. Og í ávarpi Jeff Immelt, forstjóra og stjórnarformanns GE, virðist uppbygging fyrirtækisins í endurnýjanlegri orku í Asíu vera aðalmálið (ekki síst í Kína).

Sama er uppi á teningnum í sólarorkunni. Fjármagnið streymir í þennan geira. Því miður virðist jarðhitinn ekki njóta jafn mikils velvilja. En ég er engu að síður bjartsýnn um að Íslendingar eigi eftir að gera það gott á því sviði. Og það að hanna og byggja jarðhitavirkjanir er alvöru. Eitthvað annað en þetta leiðinda bankahlutabréfafyllerí, sem heltók þjóðina síðustu árin. Held að við ættum að vera þakklát fyrir fyrirtæki eins og Marel, Össur, Bakkavör, Actavis, Eimskip, Samherja og Decode. 

Læt að lokum fylgja link á forvitnilegt viðtal við Vinod Khosla og félaga í Ausra, sem er með afar framsækna og spennandi tækni (vel þess virði að hlusta á þessa frétt, þó ekki væri nema til að heyra yndislegan ástralskan hreim fréttamannsins). G'day mates!: 

 


mbl.is Súpa seyðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Iceland should be Greenland..."

GreenIssue2Maður fer næstum hjá sér þegar gefið er í skyn að Íslendingar séu umhverfisvænir. Vissulega erum við svo gæfusöm að eiga endurnýjanlegar orkulindir. En óvíða er meira sukkað með t.d. jeppa og rusl.

Enda fær fólk af Klakanum gjarnan hálfgert menningarsjokk þegar það flytur t.d. til Hollands eða Danmerkur og dagblöð, matarleifar og flöskur þurfa allt í einu að fara í sitt hverja tunnuna. Sukkið situr djúpt í manni. Held að mér myndi hreinlega líða illa ef ég vissi ekki af öflugum jeppa í heimkeyrslunni, helst 300 hestöfl. Hvernig varð maður svona?

Þá sjaldan ég kaupi tímarit í flugstöðvum, verður Vanity Fair gjarnan fyrir valinu (ef CNN Traveller er ekki til). Held sérstaklega upp á "grænu" útgáfurnar þeirra sem koma út tvisvar á ári, að ég held. Síðast var forsíðan með Leonardo DiCapricio.  Og hvar var myndin tekin; auðvitað á Íslandi. Og það af ekki verri ljósmyndara en Annie Leibovitz. Svo var Berlínarísbjörninn Knútur photosjoppaður þarna inn á myndina frá Jökulsárlóninu - það var svolítið cheap fannst mér.

GreenIssue1

Önnur Green Issue af Vanity Fair sem ég man eftir, var m.a. með snillingnum Vinod Khosla (stofnanda Sun Microsystems). Hann er núna að setja fullt af pening í virkjun sólarorku, þar sem nýrri tækni er beitt. Á forsíðu blaðsins eru svo dúllur eins og George Clooney og Julia Roberts, sem eru örugglega bæði voða meðvituð um að vera græn.


mbl.is Vistvænn lífsstíll Reykvíkinga kannaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi tímar

OilEuros1971-2007Olíuviðskipti fara að mestu fram í dollurum. Þegar dollar styrkist eru auðvitað allar líkur á að olíuverð í dollurum lækki eitthvað. Fyrirsagnir eins og "Olíuverð á niðurleið" geta aftur á móti verið kolrangar ef verðið er reiknað í öðrum gjaldmiðli, en dollurum. Hér til hliðar er graf sem sýnir þróun olíuverðs síðustu áratugi í dollurum og evrum.

Jamm - verðið er ansið hátt þessa dagana. Og ekki bara út af því hversu dollarinn er ódýr. Eftirspurnin er mikil. T.d. er fróðlegt að velta fyrir sér hvaða áhrif síaukin eftirspurn frá Kína kemur til með að hafa á olíuverðið.


mbl.is Olíuverð á niðurleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OLÍAN sökudólgurinn?

Því hefur verið haldið fram að hátt olíuverð leiði óumflýjanlega til hækkandi matvælaverðs. Ekki ætla ég að ræða þá kenningu hér. Aftur á móti er athyglisvert að kannski hafði King Hubbert rétt fyrir sér, sem þýðir að olíuframleiðsla hefur nú þegar náð hámarki. Ef satt reynist, mun olíuverð væntanlega ekki lækka heldur jafnvel fara hratt hækkandi. Og hugsanlega fylgir matvælaverð í kjölfarið. Ég er reyndar mjög tortrygginn á svona "dómsdagsspár". Og er sannfærður um að tækniþróun mun á ný lækka orkuverð - og þá líka matvælaverð.

Hubbertyoung

Hubbert-kenningin dregur nafn sitt af jarðfræðingnum Marion King Hubbert, sem starfaði m.a. fyrir Shell. Hubbert (1903-1989) setti kenningu sína fyrst fram um miðjan 6. áratuginn og spáði þá að olíuframleiðsla Bandaríkjanna myndi ná toppi einhvern tímann á árabilinu 1965-70. Í einföldustu mynd segir kenning hans að olíuframleiðsla á sérhverju svæði fylgi tiltekinni kúrfu; framleiðslan vaxi í ákveðnu hlutfalli, nái toppi og minnki síðan uns svæðið er tæmt af olíu.

Þessi spá gekk furðu vel eftir, en hefðbundin olíuframleiðsla náði hámarki í Bandaríkjunum rétt eftir 1970, þ.e. í hinum 48 ríkjum meginlandsins. Bandaríkin náðu þó að auka framleiðslu sína á ný vegna olíufunda í Mexíkóflóa og Alaska og gagnrýnendur Hubbert's nýttu það til að vefengja kenningu hans.

US_Oil_Supply

En þó svo Alaska-olían kroppaði svolítið í kúrfuna, reyndist spáin um samdrátt vera rétt. Eins og vel má sjá á grafinu hér til hliðar. Rauða línan sýnir olíuframleiðslu Bandaríkjanna, en sú bláa er innflutningur þeirra á olíu.

Og í dag rétt slefar olíuframleiðsla Bandaríkjanna í að vera helmingur þess sem hún var um 1970. Og dregst ört saman. Það sem er þó jafnvel enn magnaðra er að Bandaríkin voru ekki einu sinni sjálfbær um olíu, þegar framleiðslan var í hámarki um 1970. Ameríka er svo sannarlega "addicted to oil":

BushUnion

"Keeping America competitive requires affordable energy. And here we have a serious problem: America is addicted to oil, which is often imported from unstable parts of the world. The best way to break this addiction is through technology. ... May God bless America." (Bush ávarpar Bandaríkjaþing, 30. janúar 2006 - alltaf jafn greindarlegur á svipinn).

 

Þegar kenning Hubbert's er yfirfærð á öll olíusvæði jarðar er niðurstaðan sú að heimsframleiðslan muni líka fylgja kúrfu, sem nái hámarki og eftir það minnki framleiðslan óumflýjanlega. Þetta er oft kallað "peak oil theory". 

HubbertCurve

Kenning þessi er umdeild, en stuðningur við hana hefur aukist mjög eftir að sést hefur hversu vel hún fellur t.d. að olíuframleiðslu í Norðursjó - og víðar. En auðvitað eru alltaf að finnast nýjar olíulindir og menn eru einfaldlega afar ósammála um það hvort og hvenær peak-oil verði náð. Til eru þeir sem álíta að þessum punkti hafi þegar verið náð og héðan í frá muni olíuframleiðsla heimsins fara minnkandi. Staðreyndin er sú að við getum aldrei vitað hvar peak-oil punkturinn liggur. Fyrr en nokkuð löngu eftirá.


mbl.is Verð á hrísgrjónum í sögulegu hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki panta metanól á barnum!

Metanol

Þetta er athyglisverð frétt. Í síðustu færslu, í gær, benti ég á hversu Íslendingar virðast eiga erfitt með að átta sig á verðmætinu sem felst í því að mega losa CO2 og aðrar gróðurhúsalofttegundir. Þessi frétt um metanól-framleiðsluna sýnir aftur á móti hvernig eigendur CO2 geta nýtt það til verðmætasköpunar. 

Hafa ber í huga að metanól sem eldsneyti er ekki hið sama og etanól, sem t.d. Brasilíumenn hafa lengi notað á bíla. Sjálfur ruglaði ég þessum eldsneytistegundum saman, uns mér fróðari maður í efnafræði vísaði mér veginn. Til allrar hamingju hef ég aldrei rekist á strandgóss, með tunnum fullum af meintu alkóhóli - sem svo reynist alls ekki vera göfugar veigar heldur tréspíri. Hræðileg slys hafa orðið af þessum sökum, þar sem menn hafa blindast eða jafnvel látist.

OilPrice94_08

Á heimasíðu Carbon Recycling Intl. segir að orkan sem fengin er með þessari tækni sé samkeppnishæf við olíu ef olíufatið er dýrara en 50 USD. Þ.a. menn fara vart í þessa fjárfestingu nema gera ráð fyrir því að olíuverðið eigi eftir að haldast mun hærra en 50 dollarar, til lengri tíma litið.

Við höfum upplifað miklar hækkanir á olíuverði undanfarna mánuði. Síðustu daga hefur olíufatið verið að gæla við 120 dollara múrinn. Þeim fer ört fækkandi sem trúa því að við eigum eftir að sjá olíufatið fara aftur í 50 dollara. Samt er ekki lengra síðan en 2005 að olíuverðið var einmitt 50 USD og meira að segja snemma árs 2007 dansaði verðið í kringum 50 dollarana.

Þannig að ég býst við að KC Tran, Eyjólfur Árni og félagar trúi að peak-oil sé þegar náð. Og það er alls ekki verri trú en aðrar trúr. Sbr. http://askja.blog.is/blog/askja/entry/515362/


mbl.is Mannvit hannar metanólverksmiðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar loft varð að peningum

Fjardaral1

Úti í hinum stóra heimi hafa menn uppgötvað að rétturinn til að losa gróðurhúsalofttegundir eru fjárhagsleg verðmæti. Mjög mikil verðmæti. En á Íslandi - landinu sem telur sig hafa fundið upp hið fullkomna kvótakerfi - er þessu öðruvísi farið.

Með Kyoto-þjóðréttarsamningnum skuldbundu flest vestræn ríki sig til að sporna gegn magni koltvíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. T.d. skuldbatt Evrópusambandið sig til að minnka losunina um 8% miðað við það sem hún var 1992, Japan á að minnka heildarlosun sína um 5% og Ísland skuldbatt sig til að auka losunina ekki um meira en 10%. Viðmiðunarpunkturinn er losun eins og hún var 1992 og markmiðunum skal náð ekki síðar en 2012. Síðar á þessu ári er stefnt að því að semja um losunartakmörk fyrir næsta tímabil eftir 2012.

Rétt eins og fiskveiðikvótakerfið olli því að rétturinn til að mega veiða fisk eru fjárhagsleg verðmæti, eru losunarkvótar vegna gróðurhúsalofttegunda fjárhagsleg verðmæti. Innan Evrópusambandsins hefur verið komið á sérstöku viðskiptakerfi með slíka kvóta. Viðskiptin fara fram á European Climate Exchange; ECX. Og sama hefur verið gert í Bandaríkjunum - þó svo bandarísk stjórnvöld hafi ekki staðfest Kyoto-bókunina (í US er nefnilega til nokkuð sem kallast Corporate Social Responsibility). Þarna í Ameríku hafa viðskiptin gerst á Chicago Climate Exchange; CCX. Og í mars s.l. hófust slík viðskipti með losunarheimildir á NYMEX. Sama þróun er að byrja á verðbréfamörkuðum í t.d. Japan og Hong Kong.

nymexlogo2

Á síðasta ári var verslað með slíka kvóta (heimildir til að losa CO2 og aðrar gróðurhúsalofttegundir) fyrir 60 milljarða USD. Og þessi viðskipti fara hratt vaxandi. Þau voru til að mynda 33 milljarðar USD árið 2006. Og það sem af er þessu áru er veltan með kolefniskvóta á CCX þegar orðin meiri en allt árið 2007! Og það þrátt fyrir krepputal í Bandaríkjunum. Fyrir fólk í fjárfestingahugleiðingum má nefna að allir geta verslað með kolefniskvóta.

Á Íslandi fær stóriðjan losunarheimildirnar sínar ókeypis. Og það er hið opinbera sem byggir orkuver fyrir áliðnaðinn. Þetta er óneitanlega nokkuð athyglisvert markaðshagkerfi hér norður í Atlantshafi...


mbl.is Losun gróðurhúsalofttegunda jókst um 14%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband