29.8.2011 | 07:44
Sólveig & Gassled
Í færslu Orkubloggsins fyrr í sumar um norsku gullgerðarvélina var fjallað um æpandi hagnað Norðmanna af gassölu sinni - og um kvartanir franskra og þýskra orkufyrirtækja vegna verðsins sem þau þurfa að punga út fyrir norska gasið.
Í umræddri færslu um norska gasið, var einnig minnst á það hvernig olíusjóður arabanna í Abu Dhabi (Abu Dhabi Investment Authority) mátti gefa eftir efsta sætið á listanum yfir stærstu fjárfestingasjóði veraldar. Þegar norski Olíusjóðurinn, Statens Pensjonsfond Utland (SPU) komst í efsta sætið með verðmæti upp á 3.100 milljarða norskra króna.
Í þessu sambandi er skemmtilegt að umræddur fjárfestingasjóður olíuljúflinganna í Abu Dhabi átti nýlega stórviðskipti við Norðmenn. Þ.e. við norska olíufyrirtækið Statoil. Þau viðskipti fólust í því að Abu Dhabi Investment Authority keypti stóran hlut í norsku gasleiðslunum í Norðursjó. Og það eru einmitt þessar gríðarlegu gaslagnir sem eru umfjöllunarefni Orkubloggsins í dag:
I. Gasleiðslurnar í Norðursjó.
Sala Norðmanna á gasi hefur aukist mjög í síðustu árum. Alls kemur nú um 15% af öllu því gasi sem notað er í Evrópu frá Noregi. Í sumum löndum í V-Evrópu er hlutfall norska gassins allt að 35%!
Næstum allt þetta óhemjumikla gas frá vinnslusvæðunum á norska landgrunninu er flutt til meginlands Evrópu um neðansjávarlagnir sem liggja eftir botni Norðursjávar. Og norskar gasleiðslur ná ekki aðeins til meginlandsins, heldur teygja þær sig líka til Bretlandseyja (sbr. kortið hér til hliðar).
Norska olíufélagið Statoil var nýverið að skrifa undir enn einn gassölusamninginn og í þetta sinn við eitt helsta orkufyrirtækið í Skotlandi. Þetta er athyglisvert þegar haft er í huga að öll helstu kolvetnissvæði Breta eru í Norðursjó skammt utan strönd Skotlands. Þetta er til marks um hversu gasvinnslu Breta fer nú hratt hnignandi og þeir, rétt eins og flest ríkin á meginlandi Evrópu, eru að verða sífellt háðari innfluttu gasi. Norsku, rússnesku og alsírsku gasi.
II. Gassled & Gassco.
Lengi vel var þetta æðakerfi gasframleiðslu Noregs rekið af vinnslufyrirtækjunum sjálfum. En árið 2001 voru allar gaslagnirnar á norska landgrunninu settar inn í nýtt fyrirtæki, sem kallað var Gassled.
Þetta var gert að kröfu (eða skv. "tilmælum") norska ríkisins. Í dag er Gassled eigandi að öllum gaslögnum sem liggja frá norska landgrunninu og flytja gas til viðskiptavina gasvinnslufyrirtækjanna í Evrópu. Gassled er vel að merkja eingöngu eignarhaldsfélag - og eignirnar eru viðkomandi gasleiðslur. Til þess að sjá um reksturinn á gasleiðslukerfi Gassled var svo stofnað annað fyrirtæki. Það fyrirtæki er alfarið í eigu norska ríkisins og heitir Gassco.
Þegar Gassled var stofnað fyrir sléttum áratug síðan urðu öll þau fyrirtæki sem stunduðu gasvinnslu á norska landgrunninu einfaldlega hluthafar í hinu nýja fyrirtæki (í samræmi við það sem viðkomandi fyrirtæki höfðu lagt til uppbyggingar á eigin gasleiðslum). Þar var norska ríkið langstærst með samtals u.þ.b. 75% hlut; annars vegar í gegnum Statoil (tæplega 30% hluti) og hins vegar í gegnum Petoro (með um 45% hlut - en um Petoro var einmitt fjallað í einni færslu Orkubloggsins fyrr í sumar).
III. Arabarnir kaupa í Gassled - Sólveig verður til.
Lengst af hefur Gassled sem sagt verið í um 75% eigu Statoil og Petoro samanlagt. Afgangur hlutabréfanna hefur svo verið í eigu ýmissa annarra fyrirtækja sem koma að gasvinnslu í lögsögu Norðmanna. Þar má nefn franska Total, sem á um 6% í gaslagnakerfinu, bresk-hollenska Shell á um 5% og ítalska Eni á um 1,5% - auk nokkurra annarra norskra og útlendra fyrirtækja sem eru með minni hlut.
Gasflutningakerfi Norðmanna hefur því að stærstu leyti verið í eigu þeirra sjálfra (um 75%). En fyrir um tveimur mánuðum - einmitt þegar Orkubloggarinn var að spóka sig í Noregi - urðu þau tíðindi að Statoil seldi mestallan hlut sinn í Gassled! Og kaupandinn var enginn annar en áðurnefndur olíusjóður arabanna í furstadæminu Abu Dhabi; Abu Dhabi Investment Authority.
Þarna er eftir talsverðu að slægjast. Um leiðslur þessa tíu ára gamla gaslagnafyrirtækis fer nú, sem fyrr segir, u.þ.b. 15% af öllu því gasi sem notað er í Evrópu. Á síðasta ári (2010) var velta Gassled rúmir 27 milljarðar NOK (um 570 milljarðar ISK). Sem er vel að merkja einungis flutningskostnaður vegna gassins sem streymir frá Noregi. Sjálfir álíta Norðmenn að flutningar á vegum Gassled muni aukast um allt að 25-30% ánæstu tíu árum og verði þá um 130 milljarðar rúmmetra af gasi á ári.
Nú kunna einhverjir að spyrja sig hvort Norðmenn séu orðnir alveg spinnegal að selja einhverjum dularfullum aröbum svo stóran hluta í þessu æðakerfi norska efnahagslífsins? Minnumst þess þegar aðrir arabískir aurar, nefnilega fjárfestingasjóður frá öðru furstadæmi í UAE (Dubai) ætlaði að kaupa nokkrar hafnir í Bandaríkjunum fyrir fáeinum árum. Þá varð hreinlega allt vitlaust þar vestra og það endaði með því að Dúbæjarnir hröktust burt. Það var svo bandaríski trygginga- og fjármálarisinn AIG sem hirti hafnargóssið - áður en hann sjálfur reyndar féll með braki og brestum eins og alræmt er.
Norðmenn virðast ekki vera alveg eins viðkvæmir fyrir arabískri fjárfestingu eins og Bandaríkjamenn og sjá barrrasta sölu Statoil á hlut sínum í Gassled sem nokkuð góðan díl. Það er líka vel að merkja svo að meirihluti Gassled verður áfram í norskum höndum. Af því Statoil heldur eftir um 5% hlut (selur sem sagt um 25% en átti um 30%). Með þessum eignarhlut Statoil ásamt hlut Petoro ráða Norðmenn því áfram rétt rúmlega 50% í Gassled. Og sökum þess að Petoro er alfarið í eigu norska ríkisins og norska ríkið á um 70% i Statoil, er augljóst að Norðmenn munu áfram ráða því sem þeir vilja í sambandi við Gassled.
Kaupandinn að þessum 25% eignarhluti í gaslögnum Gassled í Norðursjó er sérstakt nýstofnað fyrirtæki, sem nefnist hinu notalega norræna nafni Sólveig. Eða réttara sagt Solveig Gas Norway. Þó svo Arabarnir frá Abu Dhabi séu stór eignaraðili í Sólveigu er hún samt alls ekki hreinræktuð Arabastúlka. Fjárfestingasjóðurinn frá Abu Dhabi er nefnilega einungis fjórðungseigandi í Solveig Gas Norway.
Meðeigendur Arabanna að fyrirtækinu eru tveir aðrir "útlendingar"; annars vegar risastór kanadískur eftirlaunasjóður sem kallast Canada Pension Plan Investment Board (30%) og hins vegar þýski tryggingarisinn Allianz (30%). Abu Dhabi Investment Authority eða olísjóður arabanna í Abu Dhabi er því í reynd bara fylgisveinn vestrænna lífeyris- og tryggingapeninga í þessum kaupum Sólveigar á 25% hlut í Gassled.
Það er sjeikinn geðþekki Ahmed bin Zayed Al Nahyan sem er í forsvari fyrir fjárfestingu Arabanna frá Abu Dhabi í Gassled. Margir búast reyndar við því að arabarnir horfi til þess að kaupa brátt meira í þessu mikilvæga gasflutningafyrirtæki - hvort svo sem það yrði þá af Total eða öðrum minni hluthöfum. Slík kaup gætu líka orðið með aðkomu Sólveigar.
Það virðist a.m.k. vera mikill áhugi meðal fjárfestingasjóða víða um heim á gasæðakerfinu sem Gassled rekur í Norðursjó. Abu Dhabi & félagar eru nefnilega ekki fyrstu fjárfestingasjóðirinir sem kaupa í Gassled. Í fyrra (2010) seldi ExxonMobil sinn hluta í fyrirtækinu (um 8%) til tveggja stórra fjárfestingasjóða; annars vegar sjóðs í eigu svissneska UBS og hins vegar til franska CDC Infrastructure. Þetta er væntanlega vísbending um að menn sjái gasleiðslur sem flytja norskt gas til Evrópu sem eitthvert hundtryggasta og öruggasta brownfield sem fyrirfinnst í heimi hér. En um leið að þetta sé fjárfesting sem kannski síður henti orkufyrirtækjum sem eru skráð á markaði - fyrirtækja sem eru væntanlega mun áhættusæknari heldur en stórir fjárfestingasjóðir í eigu ríkja, lífeyrissjóða eða tryggingafélaga.
Með kaupum Solveig Gas Norway á 25% hlut í Gassled verður hátt í þriðjungur af hlutabréfunum í fyrirtækinu komin í hendur erlendra fjárfestingasjóða. Öll viðskipti með eignarhluti í Gassled eru vel að merkja háð blessun norskra stjórnvalda. Auk þess er öll umsýslan með eignir Gassled, sem fyrr segir, í höndum norska ríkisfyrirtækisins Gassco. Og öll verð á gasflutningunum um leiðslur Gassled eru háð samþykki norskra stjórnvalda. Norðmenn eru því langt í frá búnir afsala sér yfirráðum yfir gaslagnakerfinu, þó svo þeir leyfi útlendingum að ávaxta þar sitt pund. Skemmtilegt viðskiptamódel sem Norsararnir hafa þarna komið á fót.
Og hvað sem líður eignarhaldi á Gassled, þá mun norskt gas áfram streyma hindrunarlaust um neðansjávarlagnirnar í Norðursjó um langa framtíð. Nú er reyndar svo komið að æ fleiri spá því að 21. öldin verði ekki öld endurnýjanlegrar orku, heldur öldin sem gas verði helsti orkugjafi mannkyns. Nú er bara að krossa fingur og vona að með í þeim ljúfa leik verði líka alveg glás af gasi frá íslenska Drekasvæðinu. Vonandi tekst loks að ná þokkalegum árangri af útboði leitarleyfa þar á bæ.
21.8.2011 | 10:05
Rammaáætlunin
Rammaáætlun um vernd og nýtungu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði mjakast vel áfram þessa dagana. Nú eru komin fram drög að þingsályktun þar sem samtals 69 virkjunarkostir eru flokkaðir í þrjá mismunandi flokka; nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Að auki eru þar nefndir nokkrir virkjunarkostir innan svæða sem þegar eru friðlýst og má segja að þeir kostir séu nú þegar komnir í verndunarflokk.
Í þessari færslu Orkubloggsins er þessari flokkun Rammaáætlunarinnar lýst í grófum dráttum. Athugið að númerin framan við hvern virkjunarkost hér í upptalningunni er einkennistala sem notuð er í Rammaáætluninni. Þessi númer eru t.a.m. þægileg til að átta sig á hvar viðkomandi virkjunarkostur er á landakorti (sbr. kortið hér að ofan sem birt var í Fréttablaðinu s.l. föstudag).
1. NÝTINGARFLOKKUR.
Samkvæmt þingsályktunartillögunni koma 22 virkjunarkostir í nýtingarflokk. Sú flokkun merkir að álitið er að ráðast megi í umræddar virkjanir - að uppfylltum ýmsum skilyrðum (sem t.d. koma til vegna laga um mat á umhverfisáhrifum). Gera má ráð fyrir að virkjunarkostirnir sem settir eru í þennan flokk verði þær virkjanir sem við sjáum rísa hér á landi á næstu árum. Þetta eru 6 vatnsaflsvirkjanir (þar af þrjár í Þjórsá) og 14 jarðhitavirkjanir:
- Vatnsafl:
4 Hvalárvirkjun (Hvalá, Ófeigsfirði á Vestfjörðum).
5 Blönduveita (Blanda).
26 Skrokkölduvirkjun (Kaldakvísl - þ.e. útfallið úr Hágöngulóni).
29 Hvammsvirkjun (Þjórsá).
30 Holtavirkjun (Þjórsá).
31 Urriðafossvirkjun (Þjórsá).
- Jarðhiti:
61 Reykjanes (stækkun Reykjanesvirkjunar).
62 Stóra-Sandvík (Reykjanesi).
63 Eldvörp (Svartsengi).
64 Sandfell (Krýsuvík).
66 Sveifluháls (Krýsuvík).
69 Meitillinn (Hengill).
70 Gráuhnúkar (Hengill).
71 Hverahlíð (Hengill).
91 Hágönguvirkjun, 1. áfangi (við Hágöngulón).
104 Hágönguvirkjun, 2. áfangi (við Hágöngulón).
97 Bjarnarflag.
98 Krafla I (stækkun Kröfluvirkjunar).
99 Krafla II, 1. áfangi.
103 Krafla II, 2. áfangi.
102 Þeistareykir.
101 Þeistareykir, vestursvæði.
Samkvæmt þessu eru allir þeir kostir sem Landsvirkjun hefur litið til í sinni stefnumótun afar raunhæfir - að undanskildri virkjun í Hólmsá sem sett er í biðflokk (sjá um biðflokkinn hér neðar í færslunni). Þarna í nýtingarflokknum er einnig að finna marga virkjunarkosti á Reykjanesi og í Henglinum, sem eru hin hefðbundnu virkjunarsvæði HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur. Það er því líklegt að niðurstaðan sé viðunandi fyrir öll þrjú stóru orkufyrirtækin.
Að vísu fer Bitruvirkjun í verndarflokk, en þar hefur OR horft til byggingar á jarðvarmavirkjun og lagt verulega fjármuni í rannsóknir. Og Búlandsvirkjun í Skaftá er sett í biðflokk, en þar á HS Orka hagsmuna að gæta (fyrirtækið er stór hluthafi í Suðurorku sem hefur samið við flesta vatnsréttarhafa á svæðinu). Engu að síður hljóta öll stóru orkufyrirtækin þrjú að vera þokkalega sátt við þennan nýtingarflokk - þó eflaust hefðu þau strax viljað fá enn fleiri kosti í þennan flokk.
Að mati Orkubloggarans hefði aftur á móti mátt fara þarna aðeins varlegar í sakirnar. Og t.d. íhuga að friða þann hluta Þjórsár þar sem áin og umhverfi hennar er hvað fegurst - og setja Hvammsvirkjun í verndarflokk eða a.m.k. í biðflokk. En það er einmitt biðflokkurinn sem er stóra spurningin. Þangað eru flestir virkjunarkostirnir settir - og þar með er í reynd ekki tekin afstaða til þess hvort viðkomandi svæði eigi að fara í nýtingarflokk eða verndarflokk. Biðflokkurinn er svohljóðandi:
2. BIÐFLOKKUR.
- Vatnsafl:
1 Kljáfossvirkjun (Hvítá, Borgarfirði).
2 Glámuvirkjun (Vestfjarðarhálendi).
3 Skúfnavatnavirkjun (Þverá, Langadalsströnd, Vestfjörðum).
6 Skatastaðavirkjun B (Jökulárnar í Skagafirði).
7 Skatastaðavirkjun C (Jökulárnar í Skagafirði).
8 Villinganesvirkjun (Jökulárnar í Skagafirði).
9 Fljótshnúksvirkjun (Skjálfandafljót).
10 Hrafnabjargavirkjun A (Skjálfandafljót).
11 Eyjadalsárvirkjun (Skjálfandafljót).
15 Hverfisfljótsvirkjun (Hverfisfljót).
40 Búlandsvirkjun (Skaftá).
19 Hólmsárvirkjun við Einhyrning, án miðlunar (Hólmsá).
21 Hólmsárvirkjun neðri við Atley (Hólmsá).
39 Hagavatnsvirkjun (Farið við Hagavatn).
34 Búðartunguvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).
35 Haukholtsvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).
36 Vörðufellsvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).
37 Hestvatnsvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).
38 Selfossvirkjun (Ölfusá).
- Jarðhiti:
65 Trölladyngja (Krýsuvík).
67 Austurengjar (Krýsuvík).
73 Innstidalur (Hengill).
75 Þverárdalur (Hengill).
76 Ölfusdalur (Hengill).
83 Hveravellir.
95 Hrúthálsar (NA-landi; í nágrenni Herðubreiðar).
96 Fremrinámar (NA-landi; suðaustur af Mývatni).
Í biðflokknum er að finna marga umdeilda virkjunarkosti. Þarna eru t.d. bæði Skjálfandafljót og Austari- og Vestari-Jökulsá í Skagafirði. Þarna eru líka margir virkjunarkostir í jarðhita á SV-horni landsins. Og hver vill sjá háspennulínur í nágrenni Herðubreiðar? Í þessum biðflokki er augljóslega að finna mörg átakamál framtíðarinnar. Þetta minnir okkur á að Rammáætlunin er í reynd einungis eitt hógvært skref - og langt í frá að hún skapi einhverja allsherjar sátt um virkjunarstefnu framtíðarinnar.
-------------------------------------------
Þá er komið að verndarflokknum. Þar hefur náttúruverndarfólk einkum fagnað því að fallið er frá Norðlingaölduveitu og þar með eru Þjórsárver vernduð í núverandi mynd. Að mati Orkubloggarans er líka vel að Kerlingarfjöll og Jökulkvísl suður af Hofsjökli fái að vera í friði. Og ekki er síður ánægjulegt að sjá Hómsá við Einhyrning í þessum flokki. Þar er um að ræða svæði sem ekki ætti að hvarfla að nokkrum manni að hrófla við. Og það yrði ennfremur góð niðurstaða ef við geymum Jökulsá á Fjöllum óspjallaða fyrir kynslóðir framtíðarinnar.
Fyrir orkufyrirtækin er kannski svolítið súrt að sjá fáeina virkjunarkosti á Reykjanesi og í Henglinum lenda í þessum flokki. Og mögulega líka eilítið óvænt að Gjástykki skuli skipað í þennan flokk - í stað þess að fara í biðflokk. En verndarflokkurinn hljóðar þannig:
3. VERNDARFLOKKUR.
- Vatnsafl:
12 Arnardalsvirkjun (Jökulsá á Fjöllum).
13 Helmingsvirkjun (Jökulsá á Fjöllum).
14 Djúpárvirkjun (Djúpá í Fljótshverfi).
20 Hólmsárvirkjun við Einhyrning, með miðlun.
22 Markarfljótsvirkjun A.
23 Markarfljótsvirkjun B.
24 Tungnaárlón (Tungnaá).
25 Bjallavirkjun (Tungnaá).
27 Norðlingaölduveita, 566-567,5 m.y.s. (Þjórsá).
32 Gýgjarfossvirkjun (Jökulfall/Jökulkvísl í nágrenni Kerlingarfjalla; fellur í Hvítá í Árnessýslu).
33 Bláfellsvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).
- Jarðhiti:
68 Brennisteinsfjöll (Reykjanesi).
74 Bitra (Hengill).
77 Grændalur (Hengill).
78 Geysir.
79 Hverabotn (Kerlingarfjöll)
80 Neðri-Hveradalir (Kerlingarfjöll).
81 Kisubotnar (Kerlingarfjöll).
82 Þverfell (Kerlingarfjöll).
100 Gjástykki.
-----------------------------------
Í Rammáætluninni eru ekki flokkaðar þeir virkjunarkostir (né veitur) sem yrðu innan svæða sem nú þegar eru friðlýst. Eins og t.d. Vonarskarð og Askja innan Vatnajökulsþjóðgarðs og virkjunarkostir innan Friðlandsins að Fjallabaki (þ.á m. er Torfajökulssvæðið og Landmannalaugar). Þessi svæði eru jú þegar friðlýst.
Orkubloggarinn er reyndar ekki viss um að það sé endilega skynsamlegt að horfið verði frá þeirri hugmynd að veita Skaftá inn á vatnasvið Tungnaár. Ef unnt er að taka Skaftá þarna vestur eftir - án þess að hrófla við Langasjó - gæti það verið mjög góður kostur. Og er varla til þess fallið að skerða gildi Vatnajökulsþjóðgarðs.
UTAN FLOKKA (SVÆÐI SEM ÞEGAR NJÓTA FRIÐLÝSINGAR):
- Vatnsafl innan Vatnajökulsþjóðgarðs:
16 Skaftárveita með miðlun í Langasjó
17 Skaftárveitu án miðlunar í Langasjó
18 Skaftárvirkjun (ofarlega í Skaftá; ekki Búlandsvirkjun).
- Jarðhiti innan Vatnajökulsþjóðgarðs:
92 Vonarskarð.
93 Kverkfjöll.
94 Askja.
- Svæði innan Friðlands að Fjallabaki (jarðhiti):
84 Blautakvísl.
85 Vestur-Reykjadalir.
86 Austur-Reykjadalir.
87 Ljósártungur.
88 Jökultungur.
89 Kaldaklof.
90 Landmannalaugar.
---------------------------------
Þegar litið er til Rammaáætlunarinnar eins og hún er sett fram í drögum til þingsályktunar, skiptir mestu hvaða svæði lenda annars vegar í nýtingarflokknum og hins vegar í verndarflokknum. Ef sæmileg pólítísk sátt næst um þingsályktunina er ólíklegt að hróflað verði að marki við þeirri flokkun í framtíðinni. Líklegt er að á næstu árum verði ráðist í að virkja marga ef ekki flesta virkjunarkostina sem lenda í nýtingarflokknum. Og þau svæði sem fara í verndarflokkinn verða sjálfsagt öll friðlýst. Þó svo vel sé unnt að aflétta friðlýsingu er samt líklegast að hún komi til með að standa. Þess vegna skiptir miklu hvaða virkjunarkostir fara í þessa tvo flokka. En í reynd eru allir virkjunarkostirnir sem fara í biðflokk ennþá galopnir.
Í umræðunni um virkjunarmál er algengt að tala um virkjunarsinna og náttúruverndarsinna - eins og að þjóðin skiptist í þessar tvær andstæðu fylkingar. En Orkubloggarinn sér sjálfan sig alls ekki í öðrum þessara hópa - heldur báðum. Og grunar reyndar að sama eigi við um flesta Íslendinga; að við viljum flest nýta orkulindirnar af skynsemi en jafnframt vernda náttúruperlur og ekki ganga of gróflega að hinni einstæðu náttúru Íslands. Þetta er kannski líka sá stóri hópur sem oft horfir bara þögull á harða virkjunarsinna og forsvarsmenn náttúrverndarsamtaka takast á. Það er algerlega óviðunandi að standa þannig til hliðar. Hér er um að ræða stórmál. Og vonandi að sem flestir gefi sér tíma til að kynna sér þessi drög að þingsályktunartillögu vel og vandlega - og komi sjónarmiðum sínum og athugasemdum á framfæri - núna meðan drögin eru til umsagnar.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.8.2011 | 09:25
Orkufyrirtækið Google og Atlantic Wind
Fjárfestingafyrirtækið Google Energy, sem er í eigu hins heimsþekkta Google, virðist hafa mikinn áhuga á endurnýjanlegri orku. Og verkefnin þar verða sífellt stærri.
Ekki veitir af, því Google hefur sett sér afar metnaðarfullt markmið í orkumálum: RE<C. Með fjárfestingum sínum í vel völdum orkuverkefnum hyggst Google sem sagt ná því fram að ódýrara verði að framleiða endurnýjanlega orku (Renewable Energy) heldur en með kolum (Coal).
Þessu markmiði segist Google Energy ætla að ná innan einungis nokkurra ára! Þetta markmið fyrirtækisins miðast við brátt verði unnt að ná kostnaði við að beisla vindorku mjög mikið niður. En þarna er mikið bil að brúa. Víðast hvar í heiminum er kolaorkan miklu ódýrari kostur til að knýja orkuver - og vindorkuverin eru einnig talsvert mikið dýrari en gasorkuver.
Þar að auki er verð á raforku í Bandaríkjunum almennt mikið lægra en það sem vindorkuverin þurfa að fá fyrir raforkuna til að rekstur þeirra geti borið sig. Algengt raforkuverð þar vestra er um 40-55 USD pr. MWst í heildsölu, en skv. Google þurfa ný vindorkuver a.m.k. 73 USD pr. MWst og þau sem eru á hafi úti þurfa miklu meira eða 196 USD.
Þess vegna eiga vindorkuverin enn sem komið er ekki raunhæfan rekstrargrundvöll nema þau njóti fjárhagslegrar aðstoðar í einhverju formi. Þar er ýmist um að ræða beina styrki af ýmsu tagi, skattaafslætti og/eða að aukagjöld séu lögð á kolvetnisorkuna (kolefnisskattur á útblásturinn eða skylda til að kaupa losunarkvóta).
En hjá Google Energy eru menn handvissir um að innan einungis eins áratugar verði hagkvæmni vindorkuvera orðin miklu meiri en er í dag. Og þá muni vindorkuverunum nægja raforkuverð sem nemur 47-60 USD pr. MWst (að núvirði) til að geta staðið á eigin fótum - og þá verða samkeppnishæf við kolaorkuverin. Í samræmi við þetta álítur Google Energy að markmiðið RE<C sé ekkert grín heldur þvert á móti fyllilega raunhæft og það jafnvel fyrir árið 2020.
Það eru reyndar nokkur ár síðan Google hóf að sýna endurnýjanlegri orku áhuga. Fyrirtækið hefur t.a.m. sett talsvert fé í jarðvarmaverkefni vestur í Kaliforníu. Fram til þessa hafa verkefni Google Energy á sviði orku þó verið fremur smá í sniðum. En núna álítur Google orðið tímabært að hugsa stórt. Og að þar sé vindorkan heppilegust. Í þessu skyni hefur fyrirtækið ákveðið að taka þátt í gríðarstóru vindorkuverkefni, sem áformað utan við austurströnd Bandaríkjanna.
Þetta risastóra vindorkuverkefni nefnist Atlantic Wind. Gert er ráð fyrir að fullbyggt verði Atlantic Wind með uppsett afl upp á 6.000 MW. Þarna er vel að merkja verið að tala um vinorkuver sem á að vera úti í sjó - langt utan við ströndina og jafnvel tugi km úti á landgrunninu. Tilgangurinn með því að reisa turnana fjarri landi er bæði að fá stöðugri vind og að forðast neikvæð sjónræn áhrif frá landi. Svona vindorkuver við strendur hafa einmitt mætt mikilli andstöðu vegna meintrar sjónmengunar og mikilvægt að forðast slíka árekstra.
Samtals eiga turnarnir sem bera þessa samtals 6.000 MW hverfla að verða á bilinu 1.200-2.000 talsins. Endanlegur fjöldi mun auðvitað ráðast af afli hverflanna. Í dag er sjaldgæft að vindhverflar séu stærri en 3 MW, en horfur eru á að senn verði nokkrir framleiðendur komnir með 5 MW túrbínur í fjöldaframleiðslu - og brátt jafnvel ennþá stærri. Þ.a. talan 1.200 turnar gæti senn orðið raunhæf.
Það er til marks um hversu stórhuga þessar áætlanir eru, að enn hefur ekki eitt einasta vindorkuver risið í sjó innan bandarískrar lögsögu. Nokkur vindorkuver eru í sjó við strendur N-Evrópu, en í Bandaríkjunum eru þau öll á landi enn sem komið er. Stutt er síðan leyfi fékkst til að reisa fyrsta bandaríska vindorkuverið í sjó, sem er u.þ.b. 450 MW Cape Wind utan við Þorskhöfða (Cape Cod) milli Boston og New York. Ennþá berjast þó eigendur margra glæsihýsa á strönd Þorskhöfða og aðrir andstæðingar Cape Wind gegn verkefninu fyrir dómstólum. Það er því ekki endanlega útséð um hvort Cape Wind verði að veruleika.
Bæði Cape Wind og ýmis önnur áformuð vindorkuverkefni við strendur Bandaríkjanna eru algerir smámunir þegar þau eru borin saman við Atlantic Wind. Enn er á huldu hvað þessi herlegheit - samtals 6.000 MW vindrafstöðvar langt útí sjó - munu koma til með að kosta. Til samanburðar má nefna að stærsta vindorkuver Dana á hafi úti, sem er fyrirhugað 400 MW vindorkuver Dong Energi við eyjuna Anholt langt úti í Kattegat, á að kosta um 10 milljarða DKK. Það jafngildir rétt tæpum 2 milljörðum USD eða um 5 milljónum USD pr. MW. Og kostnaðaráætlunin vegna Cape Wind við Þorskhöfða virðist vera á svipuðum nótum.
Eflaust þykir sumum sem þekkja til kostnaðar við byggingu og rekstur raforkuvera, að þessi kostnaður nálgist brjálæði. T.d. þegar haft er í huga að vindorkuver af þessu tagi munu vart skila meiri nýtingu en max. 35-40%. Hér má líka minnast þess að kostnaður við nýtt kjarnorkuver í Bandaríkjunum er talinn myndi verða um eða jafnvel innan við 4,5 milljónir USD. pr. MW. Er þó nýtingin þar miklu hærri en í vindorkunni.
Sé miðað við umrædda tölu danska vindorkuversins við Anholt, myndi Atlantic Wind (6 þúsund MW sinnum 5 milljónir USD pr. MW) kosta samtals um 30 milljarða USD! Þetta er rosaleg fjárfesting. En mikill kostnaður er einfaldlega sá raunveruleiki sem blasir við þegar menn fara í óhefðbundinn orkuiðnað, eins og vindorku á hafi úti.
Það skemmtilega er að Google Energy er ekki einu sinni farið að spekúlera í þessum kostnaði. Áður en að því kemur að byrja að reisa turna þarna langt úti í sjó, hyggst Google Energy nefnilega einbeita sér að því að byggja upp öflugt orkuflutningskerfi utan við austurströnd Bandaríkjanna.
Hugsunin er sú að slík háspennutenging sé alger forsenda þess að nokkru sinni verði hagvæmt að byggja vindorkuver utan við strönd Bandaríkjanna. Þessi hluti verkefnisins sem felst í háspennulínum meðfram ströndinni kallast Atlantic Wind Conncetion. Þetta á að verða um 400 km löng, tvöföld háspennulína, sem á að liggja eftir hafsbotninum ca. 15-30 km út af ströndinni, allt frá Norfolk í suðurhluta Virginíu og norður til New Jersey. Tengivirki í land verður svo reist á svona 4-5 stöðum og þaðan dreifist raforkan hefðbundnar leiðir til þéttbýlissvæðanna á austurströndinni.
Þetta nýja háspennukerfi á sem sagt að geta tekið við raforkunni frá gríðarlegum fjölda vindturbína og flutt hana langar leiðir til einhverra mestu þéttbýlissvæða Bandaríkjanna. Hjá Google Energy segja menn að þessi útfærsla muni gera orkuflutninga miklu hagkvæmari heldur en þegar byggðar eru tengingar í land fyrir hvert einasta vindorkuver af hefðbundinni stærð (líkt og gert hefur verið við Danmörku og annars staðar þar sem vindorkuver hafa verið byggð við strendur Evrópu). Fullyrt er þetta fyrirkomulag lækki kostnað við vindorkuver á hafi úti um u.þ.b. 20% og þar með muni vindorkan fyrr geta veitt kolaorkunni raunverulega samkeppni.
Þetta er eiginlega nýtt bisnessmódel í vindorkunni. Enda er Google þekkt fyrir að hugsa öðruvísi en flestir aðrir. Kostnaðaráætlunin vegna þessara rafmagnskapla hljóðar upp á litla 5-6 milljarða USD. Bara háspennulínurnar einar og sér (ásamt tengivirkjum og spennistöðvum) kosta sem sagt meira en eitt stykki kjarnorkuver upp á 1.000 MW. Og kostnaðurinn við þetta flutningskerfi er rúmlega 150% meiri en að reisa danska vindorkuverið við Anholt - sem þó þykir með metnaðarfyllri vindorkuverkefnum dagsins í dag. Þá er eftir allur kostnaður vegna sjálfra vindrafstöðvanna; 1.200-2.000 turnar með spöðum og hverflum; samtals 6.000 MW. Allur sá risapakki er eftir - og hann mun væntanlega kosta tugi milljarða dollara, eins og nefnt var hér að ofan.
Áætlað er að Atlantic Wind Connection verði reist í fimm skrefum. Fyrsti áfanginn á að vera nettur 200 km spotti milli New Jersey og Rehboth í Delaware. Kostnaðaráætlunin þar hljóðar upp á 1,8 milljarð USD og aðstandendur verkefnisins segja að þessum áfanga eigi að geta verið lokið snemma árs 2016. Allar háspennulínurnar í þessu risaverkefni yrðu aftur á móti í fyrsta lagi tilbúnar 2021.
Þessir háspennukaplar eiga að liggja í sjónum nokkuð langt útaf strönd fjögurra fylkja; New Jersey, Delaware, Maryland og Virginíu (og þar með í lögsögu alríkisins en ekki fylkjanna). Sjálfar vindrafstöðvarnar eiga að verða í álíka fjarlægð frá landi. Þarna út af austurströnd Bandaríkjanna er vel að merkja fremur hógvært dýpi.
Ríkisstjórar viðkomandi fylkja hafa keppst við að dásama verkefnið, enda er það til þess fallið að hjálpa þeim við að ná markmiðum um að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Ríkisstjórarnir hafa sömuleiðis sumir lýst sig andvíga áætlunuum þess efnis, að lagðar verði háspennulínur vestur á bóginn til að tengjast vindorkuverum þar á sléttunum miklu. Engu að síður er það staðreynd að þar langt í vestri eru náttúrulegar aðstæður hvað bestar og ódýrastar til nýtingar á vindorku í Bandaríkjunum. Vindorkuverin á sléttunum eru sennilega vel innan við helmingi ódýrari en að fara svona útí sjó. En svona er nú innanlandspólítíkin í Bandaríkjunum svolítið skrítin - rétt eins og kjördæmapotið á Íslandi.
Google er 37,5% hluthafi í Atlantic Wind Connection. Aðrir hluthafar eru svissneskt fjárfestingafyrirtæki sem nefnist Good Energies, stórt japanskt fjármálafyrirtæki sem kallast Marubeni og raforkuflutningsfyrirtækin Trans-Elect Development og Elia.
Hugmyndin að Atlantic Wind á sér nokkuð sérkennilegan aðdraganda. Þessi humynd mun nefnilega hafa fæðst í skíðalyftu í Vail í Colorado, þar sem forstjóri Trans-Elect lenti við hliðina á forstjóra Good Energies. Í kjölfarið á laufléttu lyftuspjalli þeirra upp fjallið var svo hóað í Google. Enda hafa menn þar á bæ bæði talað fjálglega um RE<C og líka um að Google stefni að því að verða kolefnishlutlaust. Google var því líklega ekki stætt á öðru en að segjast vilja vera með og fljótlega var Atlantic Wind komið á koppinn
Verkefni Google á sviði orkumála hafa fengið gríðarlega fjölmiðlaathygli, enda líklega fá fyrirtæki sem eiga jafn greiðan aðgang að fjölmiðlum heimsins. Staðreyndin er nú samt sú, að enn sem komið er hefur Google sett sáralítinn pening í þessi orkuverkefni. Ef Google Energy ætlar sér í alvöru að verða brautryðjandi í endurnýjanlegri orku þarf fyrirtækið að verða miklu stórtækara á orkusviðinu en verið hefur. Kannski er Atlantic Wind Connection eitt skref í þá átt.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.8.2011 | 00:18
Nýtt landnám á Nýfundnalandi
Í ímyndaðri Íslandssögu mætti leika sér með þá hugmynd að íslenska landnámið á Vínlandi hinu góða hafi tekist vel. Og að þetta gjöfula landsvæði væri hluti af íslenska ríkinu. En sem kunnugt er voru Íslendingar því miður fljótir að týna bæði Vínlandi og Marklandi; Nýfundnalandi og Labrador. Löngu seinna urðu þessi landsvæði svo hluti af sambandsríkinu Kanada. Í dag ætlar Orkubloggið að líta til þessara merku svæða austast í Kanada:
I. Fiskveiðisamfélag lendir í hremmingum.
Framan af 20. öldinni upplifðu íbúar Nýfundnalands erfiða tíma. Þetta landsvæði var þá eins konar sjálfstjórnarsvæði undir bresku krúnunni og átti m.a. í landamæradeilum við Kanada um hvar landamærin í Labrador skyldu liggja. Í fyrri heimsstyrjöldinni börðust ungir menn frá Nýfundnalandi fyrir breska heimsveldið á blóðvöllum Evrópu og þar var hersveit þeirra þurrkuð út í slátruninni skelfilegu á fyrsta degi orrustunnar við Somme. Svo þegar Kreppan mikla skall á fór hún afar illa með efnahaginn á Nýfundnalandi. Og það bætti ekki ur skák að stjórnmálamennirnir og yfirvöldin í þessu hart leikna sjálfstjórnarsvæði, hugsuðu margir um það eitt að skara eld að eigin köku.
Þegar kom fram undir 1940 hafði sem sagt lengi árað heldur illa fyrir óbreyttan almúgann þarna austast í því landi, sem við í dag þekkjum sem Kanada. En þá kom blessaður Kaninn með tyggjóið sitt og herflugvélar. Herinn kom sér fyrir við flugvöllinn í Gander á Nýfundnalandi og tók til við að byggja annan stóran herflugvöll við Gæsaflóa; Goose Bay. Það er einmitt við Gæsaflóa sem hið gríðarlanga Churchill-fljót endar ferð sina ofan af hálendi og hásléttum Labrador, en Churchill-fljótið er eiginlega kjarninn í þessari færslu Orkubloggsins.
Rétt eins og koma hersins til Íslands og framkvæmdir á hans vegum á Miðnesheiði og víðar um land höfðu mikil áhrif á efnahag Íslendinga, olli stríðið straumhvörfum í efnahagslífi Nýfundnalands. Um þetta leyti voru Nýfundnalendingar álíka margir eins og Íslendingar eru í dag (rúmlega 300 þúsund sálir). Samskipti þeirra við Bandaríkin á þessum tíma urðu mikil og margir íbúar Nýfundnalands tóku að aðhyllast náið samband við Washington DC.
Þegar stríðinu lauk kom að því að Nýfundnalendingar skyldu ákveða stjórnskipulega framtíð sína. Stofnun lýðveldis eða algerlega sjálfstæðs ríkis virðist samt ekki hafa komið til álita. Ýmsir stjórnmála- og athafnamenn á eyjunni sáu sér gott til glóðarinnar vegna samstarfsins við bandaríska herinn og töluðu fyrir ennþá nánari tengslum við Bandaríkin. Svo fór þó að naumur meirihluti samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1948 að Nýfundnaland skyldi verða hluti af Kanada.
Næstu áratugina fjölgaði íbúum hins kanadíska Nýfundnalands verulega. Fiskveiðar urðu afar mikilvægar fyrir efnahagslífið og lengi vel voru fiskimiðin út af Nýfundnalandi einhver þau gjöfulustu í heimi. En svo stækkuðu togararnir, verksmiðjuskip komu til sögunnar og ásókn útlendinga á fiskimiðin góðu á Miklabanka óx hratt. Afleiðingin varð langvarandi ofveiði sem leiddi til algers hruns hjá þorskinum við Nýfundnaland og fleiri fiskistofnum. Hvarf þorsksins þarna í lok 20. aldar mun vera eitt versta dæmi heims um hrun í sjávarútvegi. Afleiðingin var djúp kreppa í fylkinu með tilheyrandi bölmóði og brottflutningi.
Þegar líða tók á tíunda áratuginn var brottflutningurinn orðinn það mikill að fólki á Nýfundnalandi og Labrador (eins og fylkið nefnist fullu nafni) tók að fækka. Íbúafjöldinn hafði hæst náð um 580 þúsundum árið 1992, en aldamótaárið 2000 var fjöldinn kominn undir 530 þúsund. Og árið 2008 voru íbúar Nýfundnlands einungis um 506 þúsund. Hafði þeim þá sem sagt fækkað um næstum því 15% á 15 árum.
II. Jákvæður viðsnúningur þrátt fyrir heimskreppu.
Það blés sem sagt ekki byrlega í efnahagslífi Nýfundnalands í upphafi 21. aldarinnar. En núna á þessum undarlegu alheimskrepputímum hefur efnahagslífið á Nýfundnalandi þvert á móti verið í blóma. Og það þrátt fyrir að þorskurinn sé ennþá fjarri góðu gamni. Síðustu tvö árin hefur íbúum Nýfundnalands sem sagt fjölgað á ný og eru nú orðnir um 510 þúsund. Þar af búa um 100 þúsund í stærstu borginni, sem heitir St. Johns. Þessar tölur minna óneitanlega svolítið á íbúafjölda Íslands og Reykjavíkur. En munurinn er sá að hér ríkir kreppa en á Nýfundnalandi er í gangi mikil uppsveifla.
Efnahagsbatinn á Nýfundnalandi er meira að segja svo mikill og hraður nú um stundir, að þar er farið að tala um ofhitnun. Húsnæðisverð æðir upp og verktakarnir ráðast í sífellt stærri byggngaframkvæmdir í höfuðborginni St. Johns og víðar um fylkið.
Helsta skýringin á jakvæðum viðsnúningnum á efnahag Nýfundnalands er hreint æpandi fjárfesting, sem þar hefur átt sér stað í hrávöruiðnaði síðustu 2-3 árin. Í fyrra námu nýjar fjárfestingar í fylkinu rúmum 3 milljörðum USD og höfðu þá aukist um næstum helming frá árinu áður. Og í ár (2011) er gert ráð fyrir að nýfjárfestingar á Nýfundnalandi verði rúmir 6 milljarðar USD! Íbúar fylkisins eru vel að merkja einungis um hálf milljón, þ.a. þetta hefur skapað mikinn hagvöxt og gríðarlega eftirspurn eftir vinnuafli.
Skýringin að baki þessum fjárfestingum á Nýfundnalandi liggur einkum í hækkandi hrávöruverði í heiminum. Fylkið er stór framleiðandi á járni og nikkel og útflutningur á málmum stendur í blóma. Að auki er landgrunn Nýfundnalands nú vettvangur mikilla framkvæmda og fjárfestinga í olíuvinnslu.
Það er ekki langt síðan olívinnsla hófst á landgrunni Nýfundnalands - eftir nokkuð langt tímabil olíuleitar. Og nú er svo komið að í höfuðborginni St. John's er fjöldi olíufyrirtækja með starfstöðvar. Sem dæmi má nefna kanadísku olíufyrirtækin Husky Energy og Suncor. Og líka þekktari félög eins og Statoil og Chevron - og ExxonMobil hefur meira að segja staðsett aðalstöðvar sínar í Kanada þarna í borginni.
Þetta er gott dæmi um hvað líklegt er að gerist hér á Klakanum góða, ef menn verða varir á Drekasvæðinu. Það virðist reyndar sem glöggir Íslendingar í stjórnendateymi Eimskips hafi ekki látið uppsveifluna á Nýfundnalandi framhjá sér fara. Ef litið er yfir upplýsingar á heimasíðu þessa fyrrum óskabarns þjóðarinnar, verður ekki betur séð en að Eimskip hafi upp á síðkastið snarfjölgað ferðum um hafnir á Nýfundnalandi. Enda er væntanlega hressilega mikil eftirspurn eftir skipaflutningum bæði frá og til Nýfundnalands þessa dagana.
III. Risaframkvæmdir í vatnsafli framundan.
Það sem Orkublogginu þykir ekki síður athyglisvert er að á Nýfundnalandi eru nú í farvatninu nýjar stórframkvæmdir í virkjun vatnsafls. Á sínum tíma var vatnsaflið í Kanada grundvöllur þess að áliðnaður þróaðist einna fyrst og hraðast þar í landi. Það mætti því ætla að það væri löngu búið að virkja alla helstu vatnsaflskostina á þessu svæði. En þrátt fyrir langa sögu orkufreks iðnaðar í suðausturhluta Kanada er þar ennþá að finna stóra og hagkvæma virkjunarkosti.
Fyrirhugaðar stórvirkjanir á Nýfundnalandi gera jafnvel Kárahnjúkavirkjun dvergvaxna. Því afl umræddrar virkjunar, sem brátt mun rísa langt útí óbyggðum Labrador, verður samtals næstum 3.100 MW og mun virkjunin framleiða um 17 TWst á ári. Raforkuframleiðsla þessarar einu virkjunar jafngildir því vel rúmlega þrisvar sinnum meiru en Kárahnjúkavirkjun skilar (4,6 TWst). Og er nánast jafn mikil eins og öll samanlögð raforkuframleiðsla á Íslandi (sem er u.þ.b. 17-17,5 TWst árlega). Þarna er sem sagt um að ræða miklar framkvæmdir.
Fólk getur ímyndað sér hvernig efnahagslífið á Nýfundnalandi mun hreinlega ganga af göflunum þegar þessar miklu virkjanaframkvæmdir bætast við uppganginn í málma- og olíuiðnaðinum. Og með CAD'inn sinn, þurfa Nýfundnalendingar litlar áhyggjur að hafa af snöggum gjaldmiðilssveiflum af völdum þenslunnar. Og enn síður að vextir eða verðtrygging æði upp. Enda brosa menn út að eyrum þessa dagana í St. Johns og annars staðar á Nýfundalandi - þó vissulega sé líklegt að eitthvað hægi þarna á ef enn frekari efnahagssamdráttur verður t.a.m. í Bandaríkjunum.
Umrædd virkjun er kennd við Muskrat-fossa í Labrador (Muskrat Falls), sbr. myndin hér að ofan. Virkjunin verður einmitt í áðurnefndu í Churchill-fljóti, sem er ein af lengstu ám í Kanada og rennur þvert gegnum Labrador.
Þetta virkjunarverkefni er líka stundum kallað The Lower Churchill Project, sem kemur til af því að þarna ofar í ánni (Upper Churchill) er nú þegar önnur mjög stór virkjun. Hún er hvorki meira né minna en 5.400 MW og er næststræsta vatnsaflsvirkjun í Kanada og sú þriðja stærsta í N-Ameríku allri.
Churchill-fljótið er gríðarlega langt eða um 850 km og vatnasvæði þess um 80 þúsund ferkm! Virkjunin sem var reist þarna á árunum í kringum 1970 (Upper Churchill) nýtir fallhæðina við s.k. Churchill-fossa. Fyrir tíma virkjunarinnar voru þessir fossar afar tilkomumikil sjón, en þarna steyptist fljótið eftir þröngum flúðum og fossum. Vegna virkjunarinnar þornuðu fossarnir nánast alveg upp. Ljósmyndin hér til hliðar sýnir einmitt aðalfossinn fyrir daga virkjunarinnar. Aftur á móti sýnir myndin hér fyrir neðan nánast uppþornaða Churchill-fossana eins og þeir eru í dag.
Gamla virkjunin í Upper-Churchill fær vatn frá gríðarstóru uppistöðulóni, sem var myndað á endalausu blautlendinu á hálendi Labrador. Lónið kallast Smallwood Reservoir og liggur u.þ.b. miðja vegu milli Hudsonflóa og gömlu víkingabyggðarinnar við L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi. Það er hvorki meira né minna en rúmir 6.500 ferkílómetrar - sem er t.a.m. eins og rúmlega 80% af flatarmáli Vatnajökuls. Vegna þess hversu lónið er stórt sést það vel á gervihnattamyndum, en sjá má ljósmynd frá risavöxnu lóninu hér neðarlega í færslunni.
Hér til vinstri eru nánast uppþornaðir Churchill-fossarnir. Og nú stendur sem sagt til að bæta 3.100 MW við þær 5.400 MW túrbínur sem Churchill-fljótið hefur knúið síðustu fjóra aratugina. Gaman er að minnast þess, að bæði Smallwood-lónið, gamla virkjunin í Churchill-fljóti og fyrirhugað framkvæmdasvæði vegna neðri virkjunarinnar, eru á hálendi hins forna Marklands. Já - Marklands þeirra Bjarna Herjólfssonar, Leifs heppna og Þorfinns karlsefnis. Þarna er sem sagt smávegis íslensk tenging!
Muskrat-fossarnir þar sem neðri virkjunin í fljótinu er nú áformuð, eru ekkert í líkingu við það sem Churchill-fossar voru. En þetta er vissulega engu að síður umdeild framkvæmd, sem hafa mun veruleg umhverfisáhrif.
Framkvæmdir við nýju virkjunina við Muskrat-fossa hafa lengi verið í undirbúningi. Eftir áratugapælingar komst verkefnið loks á bullandi skrið upp úr aldamótunum síðustu, þegar orku- og olíuverð tók að hækka hratt. Þar að auki nýtur þessi nýja virkjun mikils pólitísks stuðnings bæði á Nýfundnalandi og í Nova Scotia.
Í nóvember á liðnu ári (2010) var gengið frá formlegu samkomulagi um verkefnið við tvö öflug orkufyrirtæki. Þau eru annars vegar Nalcor Energy og hins vegar Emera. Nalcor er fylkis-orkufyrirtækið á Nýfundnalandi og er bæði í vatnsafli og olíuvinnslu (í Kanada eru flest stóru orkufyrirtækin í eigu fylkjanna). Nalcor er einmitt meirihlutaeigandi að stóru "gömlu" virkjuninni við Churchill-fossa. Til samanburðar má nefna, að Nalcor er u.þ.b. helmingi stærra fyrirtæki en Landsvirkjun þegar miðað er við veltu. Í dag eru vatnsaflsvirkjanir Nalcor samtals um 1.600 MW, sem er örlítið minna en allar vatnsaflsvirkjanir Landsvirkjunar. Nalcor er einnig nokkuð umsvifamikið í olíuiðnaðinum á landgrunni Nýfundnalands. Hitt fyrirtækið sem kemur að virkjuninni við Muskrat-fossa, Emera, er stærsta orkufyrirtækið í Nova Scotia. Velta Emera er um helmingi meiri en hjá Nalcor, en fyrirtækið er bæði raforkuframleiðandi og rekur raforkudreifikerfi. Það er skráð í kauphöllinni í Toronto.
Samkomulag stjórnvalda á Nýfundnalandi við þessi tvö orkufyrirtæki miðast við að nýja virkjunin kennd við Muskrat-fossa verði reist í tveimur áföngum. Byrjað verður á rúmlega 800 MW virkjun og framkvæmdum henni tengdri, en sú virkjun á að framleiða um 5 TWst árlega (sem er um 10% meira en Kárahnjúkavirkjun). Hún verður alfarið í eigu Nalcor. Uppistöðulónið sem myndað verður vegna þessa fyrri áfanga, verður nokkuð stórt en þó eilítið minna en Hálslón. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við síðari áfanga virkjunarinnar hefjist svo þegar þessum fyrri áfanga verður lokið, sem vænst er að verði árið 2016 eða 2017.
Þarna er um að ræða framkvæmdir lengst útí óbyggðum, þar sem óravegur er frá virkjun til notenda. Til að flytja rafmagnið til byggða verður reist 1.100 km ofurháspennulínu frá virkjuninni og að austurströndinni. Þar verður um að ræða jafnstraums-háspennulínu (HVDC) í anda þeirra kapla sem lagðir hafa verið þvers og kruss um Kína síðustu árin. Þegar komið er að ströndinni mun rafmagnið fara um neðansjávarkapal yfir til sjálfrar Nýfundnalandseyjarinnar, þar sem flestir íbúar fylkisins eru búsettir. Frá þeirri stóru eyju við austurströnd Kanada verður svo lagður annar neðansjávarkapall yfir til Nova Scotia, sem einnig mun njóta góðs af þessari miklu endurnýjanlegu raforku.
Háspennulínurnar frá virkjuninni og neðansjávarkapallinn yfir til Nýfundnalands verða í eigu bæði Nalcor (71%) og Emera (29%). Emera mun aftur á móti alfarið eiga neðansjávarkapalinn frá Nýfundnalandi yfir til Nova Scotia. Með sama hætti má hugsa sér að Landsvirkjun yrði mögulega hluthafi í neðansjávarkapli milli Íslands og Evrópu, en að stærsti hluthafinn yrði t.d. þýskt raforkudreifingarfyrirtæki.
Ein mikilvægasta ástæðan fyrir þessum framkvæmdum er ósk stjórnvalda á Nýfundnalandi um að þróast í átt til orkusjálfstæðis. Til þessa hefur fylkið verið háð nágrannanum í vestri um raforku; þ.e. Québec - vegna þess að orkan frá "gömlu" virkjuninni í Churchill-fljóti fer ekki til íbúa Nýfundnalands, heldur til Québec! Sá orkusölusamningur gildir til 2041, þ.a. það er ennþá langt þangað til Nýfundnalendingar geta sjálfir notað þá raforku (um svipað leyti rennur einmitt út samningur Alcoa við Landsvirkjun).
Þar að auki mun virkjunin við Muskrat-fossa leiða til þess að unnt verður að loka 500 MW olíuvirkjun í smábænum Holyrood austast á Nýfundnalandi - og þar með draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Framkvæmdin byggir því bæði á atvinnusjónarmiðum, "þjóðernislegum" sjónarmiðum, arðsemissjónarmiðum og umhverfissjónarmiðum. Á móti kemur auðvitað að framkvæmdirnar munu hafa veruleg neikvæð umhverfisáhrif, en líklega þykir það dropi í hafið í óravíðáttum Labrador.
Þegar framkvæmdum við þennan fyrri áfanga lýkur er þess vænst, sem fyrr segir, að ráðist verði í aðra ennþá stærri virkjun (rúmlega 2.200 MW) í nágrenni Muskrat-fossa. Ráðgert er að verulegur eða jafnvel mestur hluti raforkunnar frá síðari áfanganum verði fluttur áfram suður a bóginn. Þannig að hún fari áfram frá Nova Scotia og þaðan til fylkisins New Brunswick og loks jafnvel yfir til Nýja Englands í Bandaríkjunum. Þetta er þó ekki endanlega ákveðið, enda er líka verulegur áhugi fyrir því hjá orkufyrirtækjunum að selja raforkuna vestur á bóginn (jafnvel alla leið til Ontario) .
Þarna er sem sagt verið að tala um raforkuflutninga eftir leið sem yrði jafnvel mörg þúsund km. Á leiðinni verða a.m.k. tveir neðansjávarkaplar og ljóst að þetta veður talsvert dýr framkvæmd. Þessi þróun í orkuiðnaðinum er í reynd prýðileg vísbending um að senn hljóta menn af mikilli alvöru fara að skoða möguleika á raforkukapli milli Íslands og Evrópu.
Kostnaðaráætlunin vegna fyrri áfangans við virkjunina við Muskrat-fossa hljóðar uppá rúma 6 milljarða CAD. Þar af er helmingurinn (3 milljarðar CAD) vegna 824 MW virkjunar og HVDC-háspennulínu yfir Labrador og að ströndinni. Það kostar svo aðra 3 milljarða CAD að tengja þetta við sjálfa Nýfundnalandseyjuna, byggja þar nýjar háspennulínur til að dreifa raforkunni og loks leggja neðansjávakapal yfir til Nova Scotia.
Til gamans má nefna að Muskrat, sem áðurnefndir fossar eru kenndir við, er kafloðið spendýr með afar þykkan og fínan feld. Þetta ljúfa dýr á einmitt heimaslóðir sínar í Kanada og víðar í N-Ameríku, á svæðum þar sem mikið er um votlendi. Núorðið má reyndar finna kvikyndið víða annars staðar í veröldinni. Og gott ef hin heimspekilega þenkjandi finnska Bísamrotta í Múmínálfunum, var ekki einmitt af þessari ágætu tegund spendýra! Skemmtilegt.
Áður fyrr var þessi merka rotta (sem er alls engin rotta heldur skyldari t.d. bjórum eða minkum) ein helsta ástæða þess að ævintýramenn settu stefnu á Labrador. Þetta afskekkta landsvæði var nefnilega lengi vel fyrst og fremst vettvangur einmana skinnaveiðimanna. Og feldurinn af Muskrottunum lék þar stórt hlutverk. En í dag er það vatnsaflið sem menn veiða í Labrador.
Það er kannski orðið tímabært að við Íslendingar fórum að huga betur að góðum og meiri tengslum við hinar kanadísku bísamrottur og vini þeirra. Þó svo að Nýfundaland kunni að þykja útnári í augum margra, þá er þetta svo sannarlega land tækifæranna nú um stundir. Og það á ekki bara við um Nýfundnaland, heldur ekki síður um æðisgengin uppgangssvæðin vestur í Alberta og víðar í Kanada.
Kanada er yndislegt land og Kanadamenn miklir ljúflingar heim að sækja. Svo eru þessi landsvæði á Nýfundnalandi að auki hálfgerðar heimaslóðir okkar Íslendinga - sem erum jú flest afkomendur Vínlandsfaranna og heiðurshjónanna Guðríðar Þorbjarnardóttur og Þorfinns Karlsefnis. Ekki lýgur Íslendingabók! Og vert að minnast þess líka, að nú munu afkomendur íslensku Vesturfaranna í Manitoba og annars staðar i Kanada vera orðnir rúmlega 200 þúsund.
Kannski er það ekki algalin hugmynd að Ísland leiti eftir nánara viðskiptasambandi við Kanada. Þó svo Orkubloggarinn sé eindreginn stuðningsmaður þess að ljúka aðildarviðræðum við ESB og sjá hverskonar samningur kemur út úr því ferli, væri afar vanhugsað að kasta öðrum möguleikum frá okkur. Vegna óhemju náttúruauðlinda og tiltölulega öflugs velferðarþjóðfélags, er Kanada sennilega einhver besti kostur sem hægt er að hugsa sér sem náinn samstarfsaðila. Er ekki ráð að spá aðeins betur í þennan möguleika - og jafnvel stefna að upptöku Kanadadollars?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.8.2011 | 20:43
"...Pamela í Dallas"
"Son, this is personal." Nú þegar Landinn hefur baðað sig almennilega í sumarregninu er tímabært að Orkubloggið snúi á ný á stafrænar síður veraldarvefsins. Og bloggarinn ætlar að leyfa sér að byrja þennan síðsumar-season á léttum nótum. Enda er ennþá Verslunarmannahelgi!
"Ég vildi ég væri Pamela í Dallas!", sungu Dúkkulísurnar hér í Den. Einhverjar ánægjulegustu fréttir sumarsins til þessa eru auðvitað þær að senn fáum við aftur Dallas á skjáinn. Þ.e.a.s. ljúflingana í Ewing-olíufjölskyldunni westur í Texas. Þetta er alveg sérstaklega skemmtilegt þegar haft er í huga hvað stóð í færslu Orkubloggsins þann 13. september 2009, undir fyrirsögninni Þyrnirós vakin upp í Texas:
"Það er sem sagt kominn tími á Dallas Revisited, þar sem hinn ungi, útsmogni og harðsvíraði John Ross Ewing II hefur byggt upp nýtt veldi; Ewing Gas! Og keppir þar auðvitað hvað harðast við hina gullfallegu frænku sína Pamelu Cliffie Barnes."
Já - þau hjá sjónvarpsstöðinni TNT tóku Orkubloggarann á orðinu. Reyndar hefur bloggarinn ekki hugmynd um hvernig plottið er í þessari nýju Dallasþáttaröð, sem kemur á skjáinn á næsta ári (2012). En af fréttum og trailernum sem TNT hefur birt má ráða að innan Ewing Oil standi stríðið nú á milli sonar JR og fóstursonar Bobby's; þeirra John Ross og Christopher.
Kemur kannski ekki á óvart. Sumir sem spáð hafa í þættina virðast reyndar álíta að Ewing Oil hljóti nú að hafa skipt um heiti og kallist í dag Ewing Solar eða Ewing Wind. Orkubloggarinn er samt fullviss um að olían streymi enn um æðar Ewing'anna. Mögulega er fjölskyldan komin út á meira dýpi á Mexíkóflóanum; jafnvel með fljótandi tækniundur úti á endimörkum landgrunnsins. Þó er ennþá líklegra að Ewing'arnir séu orðnir brautryðjendur í shale-gasvinnslu. Og stundi slíka vinnslu jafnvel beint undir hraðbrautaslaufunum kringum Dallas.
Eins og lesendur Orkubloggsins vita, ríkir nú í raunveruleikanum mikið gasæði þarna suður í Texas og víðar um Bandaríkin. Ný vinnslutækni hefur opnað leið að óhemju miklu af gasi, sem áður var talið ómögulegt að nálgast og vinna á hagkvæman hátt. Fyrir vikið lítur út fyrir að Bandaríkin eigi nægar gasbirgðir út alla þessa öld. Og verði jafnvel brátt útflytjendur á gasi.
Nýja vinnslutæknin er oftast þökkuð manni sem á gamals aldri tókst það sem öllum stóru olíufélögunum hafði mistekist. Manni sem er kannski síðasta táknmyndin um það hvernig olíuiðnaðurinn í Bandaríkjunum varð til og byggðist upp.
Sá heitir Gerorge P. Mitchell og fæddist í Galveston í Texas á því herrans ári 1919. Mitchell var kominn á níræðisaldur þegar honum í lok 20. aldar tókst það ætlunarverk sitt að ná upp miklu af gasi úr þunnum gaslögum, sem finna má innilokuð djúpt í grjóthörðum sandsteininum undir Texas. Lykillinn að lausninni var að beita láréttri bortækni og svo sprengja upp bergið með efnablönduðu háþrýstivatni og losa þannig um innikróað gasið. Og um leið og gasið byrjað að streyma upp á yfirborðið runnu stóru olíufélögin á peningalyktina. Árið 2001 var Mitchell Energy keypt á 3,5 milljarða USD, sem sannaði að ævintýrin gerast enn vestur í Texas.
Þó svo Mitchell, sem nú er kominn á tíræðisaldur, sé ekki meðal allra þekktustu manna úr bandaríska olíu- eða orkuiðnaðinum, er hann prýðilegt dæmi um þá kynslóð sem af eigin rammleik byggði upp sjálfstætt og öflugt bandarískt orkufyrirtæki. Að því leyti gæti hann allt eins verið gamli Jock Ewing - eða litli bróðir hans (Jock á að vera fæddur 1909 - Mitchell fæddist 1919) .
M.ö.o. þá er Jock Ewing í reynd bara lauflétt spegilmynd af ýmsum mönnum sem gerðu það gott í olíuleitinni þarna vestra snemma á olíuöldinni. Harðjöxlum sem byggðu upp sitt eigið olíuvinnslufyrirtæki í fylkjum eins og Oklahóma og Texas. Sumir þessara manna hittu beint í mark og urðu meðal ríkustu auðkýfinga heimsins, eins og t.d. þeir J. Paul Getty og HL Hunt. Margir aðrir gerðu það einnig nokkuð gott - og gamli Jock Ewing er ein slík sögupersóna.
Stóru olíufélögin hafa i gegnum tíðina stundað það að stækka og efla markaðshlutdeild sína með því að kaupa upp þessi litlu en öflugu fyrirtæki. Á síðustu árum hefur einnig borið nokkuð á því að orkurisarnir hafa haslað sér völl í endurnýjanlegri orku, með kaupum á fyrirtækjum sem sérhæfa sig í sólarorku, vindorka eða jarðvarma. Við getum ímyndað okkur að ágreiningurinn milli ungu frændanna innan Ewing Oil snúist núna einmitt um það hvort fyrirtækið eigi að einbeita sér áfram að olíuleit og -vinnslu eða fara í grænni áttir. Texas hefur jú verið vettvangur stórhuga áætlana um uppbyggingu nýrra vindorkuvera og vel má vera að Christopher Bobbyson dreymi í þá átt. Kynningarstiklan sem TNT hefur sett á netið bendir einmitt til þess að ágreiningur sé milli þeirra John's Ross og Christopher's um hvort framtíðin liggi í olíu eða öðrum orkugjöfum.
Orkubloggaranum þætti samt ennþá meira spennandi og viðeigandi að Ewing Oil sé komið í gasið. Annar strákanna gæti hafa verið framsýnn í anda George Mitchell og Ewing Oil orðið stór player í shale-gasvinnslu. Þá væri fyrirtækið núna eflaust vaðandi í tilboðum frá stóru orkufyrirtækjunum - rétt eins og gerðist hjá Mitchell Energy. Sama var uppi á teningnum nú nýlega þegar bæði Chesapeake Energy og Petrohawk Energy voru keypt háu verði af ástralska orku- og námurisanum BHP Billiton. Salan á XTO Energy til ExxonMobil seint á árinu 2009 er þó líklega þekktasta dæmið um þorsta stóru orkurisanna í þunnildisgasið.
Samkvæmt fréttum af nýju Dallasþáttunum, þá verða bæði JR og Bobby á svæðinu. Þarna mun grásprengdur og glæsilegur Bobby Ewing sjást hvæsa milli tannanna eins og honum er einum lagið: "No drilling on my ranch!". Þetta gæti einmitt bent til þess að a.m.k. annar stráklinganna vilji ólmur sækja shale-gas í sandsteinslögin djúpt undir Southfork.
Skemmtilegt! Þeir John Ross og Christopher virðast reyndar vera óttaleg ungbörn. Og dömurnar þeirra hálfgerðar smástelpur. En það er líklega bara tíðarandinn; alvöru skutlur eins og Pam eru kannski ekki "in" þessa dagana?
Af gömlu persónunum verða þarna einnig ljóskan Lucy, tyggjó-töffarinn Ray Krebbs og sjálf on-the-rocks-drottningin Sue Ellen. Hvort sjóðandi heit Victoria Principal í hlutverki Pam verður líka mætt til leiks, er Orkubloggaranum ókunnugt um. En það er hæpið (eins og sannir Dallas aðdáendur hljóta að muna). Sennilega verður sveitaskutlan Donna Krebbs líka fjarri góðu gamni, þ.a. nostalgían mun ekki fá allar sínar villtustu væntingar uppfylltar. Eftir stendur svo risastóra spurningin: Á hvers konar pallbíl verður Ray Krebbs? Freistandi að veðja á nýjustu útgáfuna af Jeep Gladiator!
Það var reyndar svo að í Dallasþáttunum sást jafnan lítið til hinnar eiginlegu olíustarfsemi Ewing Oil. Helst að menn í kúrekaklæðum væru einstöku sinnum eitthvað að brölta úti á túni með verkfæratösku, að skipta um legu í einmana olíuasna (oil donkey). En til að þessi fyrsta færsla Orkubloggsins eftir sumarleyfi sé ekki bara tóm froða, er einmitt vert að minna á að þessi gamla tegund af olíuvinnslu í Texas og annars staðar í Bandaríkjunum er ennþá afar mikilvæg, þó hnignandi sé. Það eru hundruðir þúsunda af svona gömlum olíubrunnum þar vestra og samtals skila þeir meira en 15% af allri olíuframleiðslu í Bandaríkjunum!
Og í þeim tilvikum sem ekki er lengur hægt að kreista olíudropa upp úr sléttunni, er hægt að snúa sér að nýja gasævintýrinu. Kolvetnisauðlindirnar djúpt undir Texas duga mögulega í margar Dallas-seríur í viðbót. Lýkur þar með þessu sjónvarps-sápu-þvaðri Orkubloggsins. Með loforði um að strax í næstu færslu snúum við okkur að alvarlegri málum.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)