Hywind

Osmosis_Statkraft_Tofte_NorwayÞað eru merkilegir hlutir að gerast í Noregi þessa dagana.

Nú í vikunni sem leið voru Norsararnir að ræsa aðra af tveimur fyrstu osmósuvirkjunum heimsins (eða fyrstu, allt eftir því hvar skilin liggja á milli hreinna tilrauna og raunveruleikans). Virkjunin er reyndar enn á algeru tilraunastigi og langt í að þarna hefjist raunveruleg og umfangsmikil raforkuframleiðsla. Orkubloggaranum þykir sumir hérlendis hafa verið heldur hástemmdir um gríðarlega möguleika slíkra virkjana hér á Íslandi. En vissulega er þetta mjög áhugavert verkefni hjá Norsurunum. 

Norðmenn horfa ótrauðir til framtíðar og eru svo sannarlega ekki hræddir við að reyna nýja hluti. Nú í haust var t.a.m. fyrstu fljótandi vindrafstöð veraldar komið fyrir utan við norsku ströndina. Hún er umfjöllunarefni Orkubloggsins í dag.

Það er nýorkuteymi StatoilHydro sem stendur að baki þeirri brautryðjendatilraun, í samstarfi við þýska Siemens. Verkefnið felst í því að taka flotpall eins og nýttir eru í olíuvinnslunni og festa við hann turn með vindrafstöð. Vindurinn á hafi úti er almennt mun sterkari og stöðugri en á landi og þess vegna er heppilegt að geta staðsett vindrafstöðvar utan við ströndina. Að auki sparar það landrými, sem ella færi undir turnana, og veldur líka minni sjón- og hávaðmengun vegna fjarlægðar frá landi.

wind_horns_rev_3Það er vissulega búið að reisa nokkur stór vindorkuver útí sjó. Slík offshore vinorkuver þekkjast t.d. utan við strendur Danmerkur og víðar við strendur nokkurra ríkja í N-Evrópu. Bandaríkjamenn hafa einnig verið spenntir fyrir slíkum vindorkuverum, en eru skemmra á veg komnir en Evrópuþjóðirnar við Norðursjóinn.

Öll eiga þessi vindorkuver það sameiginlegt að turnarnir standa á hafsbotni, skammt utan við ströndina. Til að þetta verði ekki alltof dýrt má dýpið ekki vera of mikið. Þess vegna hafa framsæknir menn nú horft til þess möguleika að nýta flotpallatæknina til að staðsetja  stórar vindrafstöðvar djúpt útaf ströndinni, þar sem vindurinn er mun sterkari og stöðugri. Slík fljótandi vindorkuver gætu mögulega verið mun hagkvæmari heldur en þau sem við þekkjum í dag og opnað nýja og umfangsmikla möguleika í framleiðslu á umhverfisvænni raforku.

StatoilHydro er með meira en þriggja áratuga reynslu af því að athafna sig með olíuborpalla á norska landgrunninu. Smám saman færðist olíuleitin á dýpri svæði og tækniframfarirnar birtust m.a. í fljótandi borpöllum. Statoil varð meðal fremstu fyrirtækja heimi í að hanna slíka flotpalla og nú hyggst fyrirtækið nýta sér þessa þekkingu til að setja upp fljótandi vindrafstöðvar.

Hywind_diagram_1Norðmenn skortir ekki raforku. En öfugt við íslensku orkufyrirtækin telja hin norsku sjálfsagt að horfa út fyrir boxið. Þess vegna eru Norðmenn t.d. mjög framarlega í að gera sólarsellur fyrir sólarorkuver. Og þeir eru heldur ekki feimnir við að flytja út raforku. Þeir vita sem er, að það er miklu betri bissness í því að selja orkuna á góðum prís, fremur en að gefa hana til álvera. Og nú telja Norðmenn tímabært að skoða betur þann möguleika að nýta afl vindsins, sem nóg er af við vesturströnd Noregs.

Til eru þeir sem sjá rafmagnsútflutningi allt til foráttu og telja slíkt einkennast af nýlenduarðráni. En í reynd er útflutningur á endurnýjanlegri raforku allt annað mál en útflutningur á hrávöru, eins og t.d. silfri eða banönum. Í endurnýjanlegri orku fara saman uppbygging á verðmætri hátækniþekkingu og sköpun nýrra arðsamra útflutningsgreina. Norðmenn gera sér grein fyrir því að í framtíðinni mun verðmæti endurnýjanlegrar raforku verða ennþá meira en er í dag. Útflutningur á slíkri raforku er líklegur til að efla margs konar tækni- og verkþekkingu í landinu og skapa grunn að enn fleiri hugbúnaðarfyrirtækjum og þjónustu af ýmsu tagi.

Þess vegna eru Norsararnir nú að skoða ýmsa nýja möguleika í að flytja út rafmagn. Þ.á m. er samstarfið við vindorkuarm þýska iðnaðarrisans Siemens, um að hanna fljótandi vindorkuver, í því skyni að kanna hvort slík raforkuframleiðsla til útflutnings sé raunhæfur kostur. Hér á Íslandi fæst aftur á móti ekki einu sinni pólitískur stuðningur til að mæla vindinn í nauðsynlegri hæð, til að meta hagkvæmni vindrafstöðva á Íslandi. Status quo eða jafnvel afturhvarf til fátæktar virðist vera helsta áhugamál íslenskra stjórnvalda nú um stundir. Eins og Spaugstofan lýsti svo skemmtilega nú á laugardaginn.

Þessi fljótandi vindrafstöð þeirra StatoilHydro og Siemens, sem nefnd er Hywind, er hugsuð sem fyrsta skrefið í því að framleiða þúsundir MWh af rafmagni fyrir meginland Evrópu. Orkustefna ESB mun skapa síaukna eftirspurn efir raforku frá endurnýjanlegum auðlindum og ríki sem eiga tækifæri til að framleiða mikið af slíku rafmagni munu njóta góðs af.

Hywind_installing_2Fyrsta vindrafstöð Hywind felst í nettri 2,3 MW vindtúrbínu frá Siemens, sem stendur á tiltölulega hefðbundnum sívölum flotpalli sem lengi hafa þekkst í olíuvinnslunni í norsku lögsögunni. Flotpallurinn er frá franska risaverkfræðifyrirtækinu Technip, sem einmitt nýverið hóf samstarf á sviði jarðhitatækni við íslensku verkfræðistofuna Mannvit. Herlegheitin voru sett saman í Åmøyfirðinum nágrenni olíubæjarins Stavanger í sumar sem leið og þaðan var dótið dregið út á sjó. Þar skoppaði dollan í öldunum í nokkra mánuði meðan á endanlegum frágangi stóð.

Þarna  er sjávardýpið um 220 m og halda þrjú þung og mikil akkeri sívalningnum á sínum stað, en hann nær um 100 metra undir yfirborðið. Sjálfir spaðarnir eru um 80 m í þvermál

Raflínan í land kemur frá öðrum frönskum iðnaðarrisa; fyrirtækinu Nexans, en það er raforkufyrirtækið Haugaland Kraft  sem tekur rafmagnið inn á kerfið sitt. Þess er vænst að þessi 2,3 MW virkjun geti skilað 9 GWh árlega gegnum þann ágæta rafmagnskapal. Það gerir 3,9 GWh á hvert uppsett MW, sem væru svo sannarlega mjög viðunandi afköst hjá vindrafstöð.

Almennt er nýting vindrafstöðva (m.v. uppsett afl) ca. 1/3 af því sem gerist hjá hagkvæmum vatnsaflsvirkjunum. En skv. áætlunum Hywind virðist gert ráð fyrir nærri helmingi betri nýtingu en gerist og gengur í vindorkunni! Ef það gengur eftir mun þetta hugsanlega marka talsverð tímamót.

En hvað með kostnaðinn? Fjárfestingin í Hywind mun vera um 400 milljónir norskra króna, sem samsvarar u.þ.b. 10 milljörðum ISK á núverandi gengi. Það gera nokkurn veginn 1,1 milljarð íslenskra króna pr. GWh á ári (Hywind á að skila 9 GWh árlega). Það þætti óneitanlega nokkuð hressilega mikið í íslenska orkugeiranum og fær Orkubloggarann gjörsamlega til að tapa þræðinum. En minnumst þess að hér er tilraunastarfsemi á ferðinni. Þar að auki er íslenska krónan jú í algerum skít, en sú norska firnasterk þessa dagana. Þannig að samanburður þarna á milli á núverandi gengi er eiginlega alveg útí hött.

Hywind_installing_1Já - Hywind er enn á tilraunastigi og eflaust nokkuð langt í að hagkvæmar fljótandi vindrafstöðvar verði að veruleika. Markmið Norsaranna er að upplýsingar um hagkvæmni þessa ævintýris liggi fyrir eftir tvö ár og þá verður hægt að taka ákvörðun um framhaldið. Draumur Statoil er að í framtíðinni muni þeir geta framleitt þúsundir ef ekki tugþúsundir kílóvattstunda af hreinni og tiltölulega ódýrri vindorku úti á sjó og flutt hana um sæstreng til raforkuþyrstra Evrópubúa.

Vert er að minnast þess að Norðmenn eru löngu orðnir stórútflytjendur á rafmagni.  Í Noregi eru nú framleiddar um 143 þúsund GWh á ári og þar af fara um 17 þúsund GWh til útlanda (sem er nánast sama magn af rafmagni eins og framleitt var á Íslandi þetta sama ár; 2008 framleiddu allar íslensku virkjanirnar samtals 16.467 GWh).

Norðmenn flytja sem sagt út gríðarlega mikið rafmagn. Og leita leiða til að geta boðið Evrópusambandinu ennþá meira grænt rafmagn í framtíðinni. Hywind er einn þáttur í því.  Þetta ætti að gefa Íslendingum tilefni til huga betur að slíkum tækifærum. Á síðustu árum hafa nefnilega orðið straumhvörf í rafmagnsflutningum um kapla eftir hafsbotni. Meira um það í næstu færslu Orkubloggsins.

 


Óskalandið?

Orkuboltinn Kanada er að gera allt vitlaust í einhverri alsóðalegustu olíuvinnslu heims. Olíuvinnslu úr olíusandinum í kringum Athabasca-fljótið, á mörkum hins byggilega heims norður í Alberta.

FM_Athabasca_Icelandair_2Orkubloggarinn var svo heppinn fyrir örfáum dögum að fljúga beint yfir miðpunkt kanadíska olíusandævintýrisins í björtu og fögru veðri. Yfir krummaskuðið Fort McMurray, hvar friðsæld barrskógana hefur heldur betur verið rofin af stærstu skurðgröfum heims, sem skófla upp jarðveginum til að kreista megi olíuna úr þessu undarlega sandklístri. Þettanýjasta olíuævintýri veraldarinnar hefur skapað einhverja mestu dýrtíð sem sögur fara af. Maður þorir varla að hugsa til þess hvað kaffibolli og kleinuhringur kostar á Bills Inn í Fort McMurray þessa dagana. Hvað þá húsaleiga fyrir rottuholu í kjallara. Sem sagt land tækifæranna - eða ofþenslunnar?

Bloggaranum til mikillar ánægju var nánast heiðskýrt þegar þota Icelandair flaug beint yfir Fort McMurray. Og auðvitað hlýnaði Orkubloggaranum um hjartarætur þegar sjá mátti Athabaska-fljótið í öllu sínu veldi liðast um gjöreyddan greiniskóginn. Varla hægt að fá skýrari og táknrænni sýn um kolsvarta framtíð olíuvinnslu. Myndin hér að ofan var einmitt tekin af bloggaranum við þetta tækifæri. Úr 30 þúsund feta hæð! Ef hún birtist sæmilega skýr eiga lesendur að geta séð Athabasca ána nokkuð greinilega.

Allt útlit er fyrir að kanadíski olíusandurinn geymi stærstu óunnu olíulindir veraldar. Á sama tíma og efasemdarraddirnar um að Sádarnir eigi enn jafn mikla olíu í jörðu eins og þeir sjálfir segja verða æ háværari, eru sífellt fleiri sem telja að kanadíski olíusandurinn eigi eftir að skila tugum og jafnvel hundruðum milljarða tunna af olíu úr jörðu. Þar með er Kanada einfaldlega mesta olíuveldi heimsins. Enda vart ofsagt að það ríki algjört gullæði í kanadísku olíusandveislunni í óbyggðum Alberta.

Canada_electricity_generation_2008En Kanadamenn eru ekki aðeins sigurvegarar orkugeirans þegar talað er um olíu. Kanada er nefnilega líka það land sem hefur náð hvað lengst í að nýta endurnýjanlega orku. Þar kemur til gríðarlegt afl kanadísku fallvatnanna. Lengi vel framleiddu Kanadamenn um 75% af öllu rafmagni sínu með vatnsafli. Síðustu árin hefur þetta hlutfall lækkað eilítið eða í um 60%. Afgangurinn (um 40% rafmagnsins) er nánast allur framleiddur með kjarnorku, kolum og gasi. Nýju kanadísku vindrafstöðvarnar eru enn algert smáræði í heildarsamhenginu - þó svo vinorkan sé vissulega sá hluti orkugeirans sem hefur vaxið hlutfallslega mest í Kanada síðasta áratugina (uppsett afl nú hátt í 3 þúsund MW).

Kanada var lengi það land sem stóð fremst í virkjun vatnsaflsins. Þ.e. hafði virkjað flest MW. Í dag hafa Kínverjarnir yfirtekið þann sess, en Kanada er þó enn með sterka stöðu í öðru sætinu. Samkvæmt tölfræðiteyminu frábæra hjá BP er uppsett vatnsafl í Kína nú 170 þúsund MW, Kanada er með u.þ.b. 90 þúsund MW og í þriðja sæti koma Bandaríkin með 80 þúsund MW (Brasilíumenn framleiða reyndar meira rafmagn með vatnsafli en Bandaríkin, en eru í fjórða sæti m.v. uppsett afl með „einungis" 69 þúsund MW).

Kanadamenn byrjuðu snemma að reisa vatnsaflsvirkjanir og náðu strax afar góðum tökum á tækninni. Fyrstu umtalsverðu vatnsaflsvirkjanirnar risu þar fyrir aldamótin 1900 og fljótlega urðu borgir og bæir víðsvegar um Kanada upplýstar með rafmagni. Rafmagnið nýttist einnig til að knýja sögunarmyllur og alla tíð síðan hefur vatnsaflið verið mikilvægasti raforkugjafi Kanadamanna og varð undirstaða gríðarlegs áliðnaðar í landinu.

Canada_electricity_2006Í dag eru kanadísku vatnsaflsvirkjanirnar hátt í fimm hundruð talsins og uppsett afl þeirra samtals um 90 þúsund MW, sem fyrr segir. Það samsvarar um 120 stykkjum af Kárahnjúkavirkjun. Ársframleiðsla kanadísku vatnsaflsvirkjananna árið 2008 var um 370 teravattstundir (TWh). Til samanburðar þá framleiddu íslensku vatnsaflsvirkjanirnar 11.866 GWst (11,9 TWH) árið 2008. Orkustofnun telur að miklu meira rafmagn megi framleiða með íslenska vatnsaflinu; að líklega megi ná þar 35-40 TWh með hagkvæmum hætti og 25-30 TWh þegar litið er til þess að vegna náttúruverndarsjónarmiða verða ekki allir fjárhagslega hagkvæmir kostir hér nýttir.

Þó svo Kanada búi yfir gnægð af gasi, sem er jafnvel ennþá ódýrari raforkugjafi en vatnsaflið, hefur það sýnt sig að kanadísku vatnsaflsvirkjanirnar eru flestar afskaplega hagkvæmar. Kanadamenn geta því með góðri samvisku notað gasið í að kreista olíuna úr olíusandklístrinu norður í Alberta og þannig framleitt einhverja viðurstyggilegustu olíu í heimi til handa nágrannanum í suðri.

Canada_Hydro_decew-fallsSaga kanadíska vatnsaflsins er heillandi og þó sérstaklega áhugavert hvernig uppbyggingin var nátengd lagningu járnbrautanna. Orkuvinir hljóta að fyllast lotningu við að heyra nöfn eins og t.d. DeCew  (virkjun í Ontario frá 1898 sem enn er í gangi), Pointe de Bois (virkjun í Manitoba frá 1911) eða Shawinigan  (virkjun reist í Saint-Maurice fljótinu skömmu eftir 1900). Síðast nefnda virkjunin gerði borgina Shawinigan í Quebec einhverja nútímalegustu borg heims og um skeið var hún jafnan kölluð Borg ljósanna.

Í dag má finna vatnsaflsvirkjanir í öllum fylkjum Kanada, en eðlilega síst á sléttunum. En það sem er allra best: Talið er að enn hafi ekki verið nýttur nema um helmingurinn af hagkvæmu virkjanlegu vatnsafli í Kanada! Núna er kanadísk jarðhitafyrirtæki komið í rafmagnsframleiðslu á Íslandi. Kannski væri þá upplagt að íslensk raforkufyrirtæki skelltu sér í vatnsaflið í Kanada.

Canada_Annapolis_marine_hydroKanadíska vatnsaflið hefur þar að auki einn spennandi aukamöguleika, sem óvíða er að finna. Það er nefnilega svo, að á nokkrum stöðum við strönd Kanada er gríðarlegur munur flóðs og fjöru. Fyrir vikið er unnt að virkja sjávarföllin með sæmilega hagkvæmum hætti. Þar er auðvitað þekktust sjávarfallavirkjunin kennd við Annapolis, sem nýtir sjávarfallastrauminn í Fundyflóa.

Uppgangur vatnsaflsins í Kanada varð til þess að þar liggja að hluta til rætur margra af stærstu iðnfyrirtækjum heimsins. Virkjunin í Shawinigan dró t.d. fljótlega að sér Northern Aluminum Company, sem nú er hluti af risasamsteypunni Rio Tinto Alcan. Áliðnaðurinn varð óvíða öflugri en í Kanada. En svo breyttust tímarnir og alfyrirtækin hófu undanhald frá hækkandi raforkuverði til iðnaðar sem treystir sér til að greiða hærra verð. Samskonar þróun hefur einmitt orðið í Noregi. Þróunin varð sú að áliðnaðurinn tók að leita uppi fjarlæg furðulönd sem helst vildu gefa þeim raforkuna, meðan Kanadamenn, Norðmenn og aðrar siðaðar þjóðir tóku að selja raforkuna til arðbærari iðnaðar. Þess vegna þurfa álfyrirtækin að leita uppi afkima veraldarinnar, þar sem enginn alvöru bissness vill vera. Af einhverjum undarlegum ástæðum hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að Ísland eigi sérstaklega vel heima í þessum útnárahópi - og eigi að vera þar áfram.

Í dag áætla Kanadamenn að raforkuþörf landsins muni aukast um rúmlega 1% á ári næstu ár og áratugi. Þetta mun geta haft slæm umhverfisáhrif, þ.e. ef reisa þarf fleiri raforkuver sem nýta gas eða kol. Til að losun gróðurhúsalofttegunda aukist ekki um of líta Kanadamenn vongóðir til þess að stórauka uppbyggingu vatnsaflsvirkjana. Þó svo vindorkugeirinn sé orðinn nokkuð öflugur í Kanada, bendir margt til þess að kanadíska vatnsaflið dragi að sér mestu fjárfestinguna á næstu árum. Bjartsýnir telja jafnvel að bæti megi við 100 þúsund MW í kanadíska vatnsaflinu og þar af eru a.m.k. tveir kostir sem verða sannkallaðar risavirkjanir; yfir 3 þúsund MW hvor um sig!.

Ottawa_Rideau_Canal_WinterJá - Kanadamenn verða sigurvegararnir í orkugeiranum til framtíðar. Það er næsta víst, eins og Bjarni Fel myndi væntanlega orða það. Kannski ætti eyþjóðin sérkennilega, sem virðist sífellt helst vilja kyssa vöndinn þar sem hún velkist um norður Dumbshafi, að sækjast eftir nánum tengslum við Kanada. Í stað þess að vera að snobba fyrir orkumögrum öldrunarsjúklingnum ESB. Orkubloggarinn getur a.m.k. fullyrt af eigin reynslu að Ottawa, hin tvítyngda höfuðborg Kanada, er mun skemmtilegri staður heldur en fullkomlega óspennandi Brussel. Og Montreal miklu notalegri heldur en París. Kanada er einfaldlega snilldarland. Og ætti kannski að vera Óskalandið.

Þó svo öllu gamni fylgi nokkur alvara, gerir Orkubloggarinn sér engar vonir um að Ísland tengist Kanada. Og styður aðild Íslands að ESB. Enda kunna gríðarleg tækifæri að felast í því að flytja raforku frá endurnýjanlegum auðlindum okkar um sæstreng til Evrópu. Rétt eins og Kanadamenn flytja mikið af sinni raforku til nágrannans í suðri. Orkuþyrst og kolefnissjúkt Evrópusamband mun örugglega taka Íslandi vel. Nánast sem óskalandi!

Grín? Alls ekki, heldur rammasta alvara. Málið er bara að íslensk stjórnvöld haldi rétt á spöðunum. Sem virðist reyndar ekki alveg vera að gerast þessa dagana.


AC DC

Went down the highway
Broke the limit, we hit the town
Went through to Texas, yeah Texas

Eitt það skemmtilegasta sem Orkubloggarinn lék sér að sem snáði, var að fikta með skrúfjárni í rafmagnstækjum ýmiss konar. Svo sem að rífa í sundur gömul útvarpstæki og skoða innihaldið gaumgæfilega.

AC_posterOg það var ekki bara spekúlerað í tækjunum eða rafmagnsklóm. Innstungurnar í gamla húsinu austur á Klaustri voru líka spennandi viðfangsefni, en rafmagnið þar kom beint ofan af Systravatni. Þetta fikt olli auðvitað stundum tilheyrandi "straumköstum" af og til. Það að fá 230 volta straum var alltaf jafn undarleg og óþægileg tilfinning. Þó svo afleiðingarnar hafi aldrei orðið alvarlegri en stutt dofakennd tilfinning í puttunum, skýra þessar rafstraums-tilraunir bloggarans kannski ýmislegt í síðari tíma hegðun hans?

Nema þá að persónuleiki Orkubloggarans hafi meira mótast af því, að sofa alla sína barnæsku í litla herberginu beint ofan við miðstöðvarkompuna. Þar sofnaði bloggarinn jafnan undir notalegu muldrinu í olíukynntri miðstöðinni. Hér skal þó tekið fram að sá sem síðastur gekk til náða í fjölskyldunni, hafði það verkefni að slökkva á miðstöðinni. Enda sú gamla til alls vís ef hún fengi að malla yfir nóttina. Slíkar miðstöðvar áttu það nefnilega til að springa í loft upp og gátu þá tekið hálft húsið með sér.

shell_logoOlían sem kynnti miðstöðina kom úr olíugeyminum sem grafinn var handan við vegginn, rétt um metra frá rúmi Orkubloggarans. Einu sinni í mánuði eða svo renndi Finnur úr Vík á Shell-tankbílnum upp heimreiðina, tengdi leiðsluna við olíugeyminn og fyllti á. Those where the days. Kannski ekki skrýtið þó bloggarann langi að bjóða í Skeljung.

Ósléttur veggurinn milli olíugeymisins og næturfleti bloggarans var lengst af prýddur stóru plakati með mynd af spænsku nautaati. Frá fyrstu sólarlandaferð bloggarans til Torremolinos og Malaga með Guðna í Sunnu. Síðar voru þar myndir af ungum Bubba Morthens, Utangarðsmönnum og fleiri slíkum snillingum unglingsáranna. Þ.á m. voru auðvitað stuttbuxnastrákurinn fíngerði Angus Young og félagar hans í AC DC!

Sem kunnugt er stendur AC DC fyrir Alternating Current og Direct Current. Eða riðstraum og jafnstraum upp á ástkæra ylhýra. Það er svolítið athyglisvert að "feður rafmagnsins", þeir Thomas Edison og Nikola Tesla, háðu það sem stundum hefur verið nefnt Straumstríðið. Edison er sagður hafa hallast að því að jafnstraumur (DC) væri skynsamlegasta leiðin til raforkuflutninga, meðan Tesla aðhylltist aftur á móti riðstraum (AC).

Það varð fljótt ljóst að straumtap varð meira þegar notast var við jafnstraum heldur en riðstraum. En Edison taldi heppilegast að framleiða raforkuna nálægt notendum og þá myndi rafmagnstap ekki verða vandræði. Hann hafði sjálfur varið miklu fé í að þróa jafnstraums-flutningskerfi og kann það að hafa verið ein ástæða þess að hann barðist svo hatrammlega gegn riðstraumnum. Fræg er sagan af því þegar Edison kom að smíði fyrsta rafmagnsstólsins, til þess m.a. að sýna fram á hversu riðstraumur væri hættulegur. Það verk var unnið fyrir New York ríki til að framkvæma dauðarefsingu með mannúðlegri hætti en hengingu. Og svo sannarlega reyndist þetta riðstraumstæki banvænt. Þúsund volta riðstraumurinn náði reyndar ekki að deyða fangann, hinn þrítuga William Kemmler, en svo hækkuðu menn í 2.000 volt og steiktu Kemmler.

Tesla_Nikola_3Þetta varð samt ekki til þess að almenningur eða stjórnvöld tækju að óttast riðstraum, eins og sumir segja að Edison hafi gert sér vonir um. Þó svo við öll þekkjum til Edison's en Tesla sé flestum (að ósekju) gleymdur, fór svo að riðstraumurinn hans Tesla varð ofaná.

Ástæðan var sú að riðstraumurinn gaf möguleika á því að flytja rafmagnið lengri leiðir í formi háspennu. Með spennubreytum var einfalt að lækka spennuna fyrir neytendatækin og þetta var einfaldlega hagkvæmasta leiðin til að flytja rafmagn.

Riðstraumur þótti sem sagt miklu skynsamlegri kostur. Og sá sannleikur breiddist út með rafvæðingu veraldarinnar. Löngu síðar tókst Svíunum hjá Allmänna Svenska Elektriska Aktiebolaget (ASEA) að þróa nýja jafnstraumstækni, sem gerir jafnstraum að afar hagkvæmri flutningsaðferð þegar flytja þarf mikið rafmagn langar leiðir.

Sú tækni varð þó ekki til fyrr en eftir seinna stríð og enn um sinn var riðstraumstæknin yfirgnæfandi í öllum rafmagnsflutningum. Og er enn. En undanfarin ár hafa orðið miklar framfarir í jafnstraumstækninni. Svo virðist sem þessi tækni sé að skapa nýja og spennandi möguleika í rafmagnsflutningum. Kannski má segja að kenning Edison hafi einkennst af framsýni og að hugmynd hans sé sigurvegarinn þegar upp er staðið.

Nýju jafnstraumstengingarnar þykja henta sérstaklega vel þegar rafstrengir eru lagðir langar leiðir eftir hafsbotni. Þarna er m.ö.o. komin fram tækni, sem kann að vera áhugaverð fyrir okkur Íslendinga í því skyni að selja rafmagn frá Íslandi til annarra landa. Kannski væri besta og skynsamasta leiðin til að leysa þetta leiðinda Icesave-mál, að semja við Breta um slíka rafmagnssölu. Orkubloggarinn er á því að Alþingi eigi að hætta þessu Icesave-rugli þegar í stað og þess í stað setjast niður með Bretum, Hollendingum og Þjóðverjum og semja um að leysa málið af skynsemi. Allar þessar þjóðir eru hungraðar í endurnýjanlega raforku og þetta myndi um leið geta orðið besta sóknin gegn atvinnuleysi og kreppu. Slíkt risaverkefni myndi þar að auki líklega hafa hér mikil og jákvæð ruðningsáhrif og stórefla bæði íslenskan tækniiðnað og hugbúnaðarfyrirtæki.

Já - rafmagnsflutningar eru svo sannarlega spennandi viðfangsefni. En þetta er kannski alltof mikið alvörumál til að velta vöngum yfir á svona funheitum föstudegi. Nær að koma sér í stuð með einu góðu myndbandi: Thunder Struck!

 

 

 


Vangaveltur um W

Orkubloggið hefur um nokkurt skeið lýst þeirri skoðun sinni að tvöfalt-waffið  sé líklegt. Að enn eigi eftir að koma djúp dýfa í efnahagslíf veraldar, sem muni gera kreppuna enn verri, áður en raunverulegur bati hefst. Svo gæti þetta auðvitað orðið enn flóknara; þrefalt-U eða fjórfalt WW!

Recovery_Triple-UEn hvernig og hvenær mun þessi seinni dýfa þá koma? Ef þessi spá rætist, er allsendis óvíst hvar fyrstu merki seinni dýfunnar munu sjást. Það mun ekki sýna sig fyrr en eftir á, hvort táknin verði lækkun á dollar, lækkun á hlutabréfum eða lækkun á olíuverði.

Þessi svartsýni spádómur byggist aðallega á því að uppsveiflan síðustu mánuðina sé í reynd fölsk. Að hún sé fyrst og fremst drifin áfram af sértækum en ósjálfbærum efnahagsaðgerðum Kína, ESB og þó fyrst og fremst Bandaríkjanna. Hvorki það að veita fólki styrki til að leggja gamla skrjóðnum og kaupa nýjan bíl eða sérstakan skattaafslátt vegna húsnæðiskaupa, er nóg til að byggja upp og viðhalda efnahagsbata. Þegar draga fer úr áhrifum slíkra aðgerða og ríki leggja ekki í fleiri rándýr úrræði, kemur nýr skellur. Líklega.

Oil_tradersOrkubloggið veltir eðlilega mest fyrir sér, hvaða áhrif þetta muni hafa á olíuverð. Bloggarinn hefur séð vísa en varkára menn vera að spá ca. 20% verðlækkun á hlutabréfum og 30% verðlækkun á olíu vegna seinni dýfunnar. Sem myndi þýða að olíuverðið færi niður í u.þ.b. 50-55 dollara tunnan. Orkubloggarinn yrði þó ekki hissa þó verðið færi tímabundið ennþá lægra. Birgðastöðvar virðast víðast ennþá vera yfirfullar af olíu og ekki þarf mikinn hiksta til að menn fari í paník við að losa sig út úr olíusamningum. Þá gæti steininn fallið.

En ef þetta gerist, hvenær verður það? Snemma árs 2010 segja sumir. Að þá muni botn kreppunnar líta dagsins ljós. Þetta gæti þó auðveldlega dregist talsvert lengur. Hér er auðvitað verið að tala um hina alþjóðlegu kreppu með fókusinn á Bandaríkin. Ísland aftur á móti, með ofurskuldir, ónýtan gjaldmiðil og afborganir af Icesave á sér auðvitað ekki viðreisnar von. Fyrr en eftir mörg ár.

Recovery_mickey_mouseNú eru sumir farnir að tala um þann möguleika að Neyðarlögunum verði hnekkt fyrir dómstólum. Með þeim afleiðingum að skuldabyrði ríkissjóðs verði ennþá meiri en áætlað hefur verið. En kannski munu Hæstaréttardómararnir sem hafa verið svo duglegir við að sýkna Jón Ásgeir og lækka sektir í samkeppnismálum, loksins taka af skarið og koma í veg fyrir að Weimar-lýðveldi 21. aldarinnar muni fæðast hér í norðri.

Þá er ótalið hvað EES-dómstóllinn myndi segja. Það er stjórnskipulega hæpið að hann geti breytt einhverju um niðurstöðu Hæstaréttar; yfirþjóðlegt vald skv. EES-samningnum er mjög takmarkað. En hvað sem því líður, þá bendir allt til þess að hér séu að skapast Paradísarskilyrði fyrir okkur lögfræðingana.

 


Óveðursský yfir Bæjarhálsinum

Hver var helsta orsökin fyrir falli fjármálakerfisins og hruni bankanna?

lehman-brothers_signMenn eru eflaust með mörg og mismunandi svör við því. En eitt svarið hlýtur að vera að bankarnir hafi smám saman misst alla tilfinningu fyrir áhættu og fjármagnað langtímaskuldbindingar um of með skammtímalánum. Það er kannski einfaldasta skýringin- pent orðað.

Vítavert virðingarleysi fyrir áhættu var a.m.k. helsta orsökin fyrir falli Lehman Brothers- og margra annarra bandarískra banka og fjármálastofnana. Jafnskjótt og loftið tók að leka úr húsnæðisblöðrunni kom í ljós að efnahagsreikningur Lehman var byggður á sandi. Og engin veð lengur fyrir hendi til að viðhalda fjármögnunarrúllettunni, sem gekk út á uppblásinn efnahagsreikning og nánast óheftan aðgang að skammtímalánum.

Þetta kemur upp í hugann núna þegar fréttir berast af því að Orkuveita Reykjavíkur hafi tekið upp viðskiptahætti ekki alveg ósvipaða eins og bandarísku fjárfestingabankarnir. Að fjármagna jarðhitaverkefni sín með skammtímalánum. Þetta veldur Orkubloggaranum talsverðum áhyggjum. Þessi litla frétt um skammtímafjármögnun Orkuveitunnar til að fjármagna framkvæmdir sínar gæti verið slæmur fyrirboði.

Jardhiti_gufuaflJarðhitavirkjanir eru þess eðlis að fjármögnunarþörfin í upphafi er gríðarleg. Þær einkennast sem sagt af miklum föstum kostnaði, sem svo þarf að greiða upp á löngum tíma með tekjunum af raforkusölunni. Sé ekki unnt að fjármagna slíkar framkvæmdir með hagstæðum langtímalánum myndi oftast vera skynsamlegast að doka við með slíkar framkvæmdir. Nema menn sækist eftir mikilli áhættu og skelli´sér í skammtímafjármögnun. Það getur skapað talsvert vesen, því sífellt þarf að vera að endurfjármagna með nýjum skammtímalánin. Þá er eins gott að keðjan rofni ekki - eins og gerðist í tilviki Lehman.

Skammtímafjármögnun í íslenska jarðhitageiranum kann þó að vera í besta lagi. Ef úr rætist á fjármálamörkuðum og bankar verði brátt á ný fúsir til að lána íslenskum fyrirtækjum peninga á þokkalegum kjörum. En ef það dregst umtalsvert, þá er sú fjármögnunaraðferð að taka dýr skammtímalán nú hreint út sagt háskaleg.

Hverahlid_hola53Með þessu er bersýnilega verið að auka áhættuna hjá OR. Þarna virðist skilja á milli Orkuveitunnar og Landsvirkjunar. Þegar íslensku bankarnir féllu og fárviðrið skall á, tók Landsvirkjun strax þá stefnu að hægja á öllum áætlunum um nýjar virkjanir. Orkuveita Reykjavíkur heldur aftur á móti ótrauð áfram.

En það sem er kannski sérstaklega skuggalegt við afkomu Orkuveitunnar, er að reksturinn virðist ekki að vera að skila neinum hagnaði þessa dagana. Gróflega sagt þá hefur Orkuveitan verið með þetta 4-4,5 milljarða króna í rekstrarhagnað á ári hverju síðustu árin. En nú bregður svo við að rekstrarhagnaðurinn fyrstu sex mánuðina 2009 var einungis tæplega einn milljarður. Og þar af einungis um 29 milljónir  króna á 2. ársfjórðungi! Nú bíður Orkubloggið milli vonar og ótta eftir 3ja árshlutauppgjöri OR. Á síðasta ári var það dagsett 21. nóvember, þ.a. það hlýtur að vera að bresta á.

En gluggum aðeins í þær tölur sem liggja fyrir um afkomu OR. Þetta ágæta fyrirtækið, sem var með eigið fé upp á 48 milljarða króna um síðustu áramót og 37 milljarða í lok júní s.l., skilaði 29 milljónum króna í rekstrarhagnað í síðasta 3ja mánaða uppgjöri. Maður þorir nú barrrasta ekki að reikna út hvaða ávöxtun á eigin fé það reynist vera. Og hér er vel að merkja einungis verið að tala um rekstrarhagnaðinn. Fjármagnsliðirnir eru þessu óviðkomandi!

hellisheidarvirkjun_2Skv. upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur eru ástæður versnandi rekstrar á 2. ársfjórðungi af ýmsum toga. M.a. hafi kostnaður vegna orkukaupa OR frá Landsvirkjun hækkað mikið (sem er þá væntanlega ekki að skila sér til baka með hækkun á orkuverði frá OR). Einnig hefur OR nefnt að umtalsverð hækkun rekstrarútgjalda sé vegna hækkunar á tryggingu virkjana, auk nokkurra fleiri orsaka. Í fljótu bragði virðist sem sagt að ýmislegt hafi orðið til þess að þrengja að hagnaði af rekstri OR og  kostnaðarhækkunum hafi ekki verið velt út í raforkuverðið frá Orkuveitunni.

Hvað sem þessu líður, þá er bersýnilegt að rekstur OR hefur alls ekki verið viðunandi síðustu misserin. Og fjármagnsliðirnir gera stöðu Orkuveitunnar ennþá svartari, en ef bara er litið til rekstrarafkomunnar. Þetta sést berlega  á því hvernig u.þ.b. 11 milljarðar af eigin fé fyrirtækisins brunnu upp fyrstu sex mánuði ársins. Það er væntanlega fyrst og fremst tilkomið vegna gengisbreytinga.

Það er kannski eins gott að Orkuveitan sé ekki hlutafélag skráð á markaði. Bréfin væru væntanlega í frjálsu falli þessa dagana með tilheyrandi áhrifum á lánasamninga og ekkert annað en gjaldþrot myndi blasa við. Til allrar hamingju fyrir OR og eigendur þess er fyrirtækið ekki leiksoppur fjárhættuspilara hlutabréfamarkaðarins. En Orkuveitan er engu að síður í veseni. Og enn eru lánakjör fyrirtækisins að versna. Þetta er einfaldlega grafalvarlegt mál.

Það er líka sérkennilegt að stjórnarformaður Orkuveitunnar virðist ekki skilja alvöru málsins. Sbr. þessi frétt Viðskiptablaðsins:

Orkuveituhusid_3"Í Morgunblaðinu í morgun er haft eftir Guðlaugi G. Sverrissyni, stjórnarformanni Orkuveitunnar, að fyrirtækið hefði fengið þær upplýsingar að opinber fyrirtæki væru alltaf einum matsflokki fyrir neðan það ríki sem þau tilheyrðu. „Við áttum aldrei séns,“ segir Guðlaugur."

En þetta stenst bara ekki, eins og réttilega er bent á í fréttinni: "Miðað við lánshæfismatseinkunn Landsvirkjunar og Íbúðalánasjóðs þá er það ekki rétt fullyrðing hjá Guðlaugi að opinber fyrirtæki séu alltaf einum lánshæfisflokki neðar en viðkomandi ríki."  Það var nefnilega svo að Moody's setti Landsvirkjun og Íbúðalánasjóð í sama flokk eins og íslenska ríkið, en OR var ein um að fara í ruslflokkinn.

Orkuveitan átti víst "séns". En þarna er því miður einfaldlega á ferðinni fyrirtæki sem er nánast búið að glata öllu eigin fé og skuldirnar að draga það á kaf. Sennilega bjargaði innkoma Ross Beaty HS Orku; kröfuhafarnir virðast nú treysta á að HS Orka geti unnið sig út úr vandræðunum og ætla ekki að yfirtaka fyrirtækið. En hver á að bjarga Orkuveitu Reykjavíkur undan hrammi kröfuhafanna?

Kannski er það bara smámál að formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur átti sig ekki á lánsfjármati á alþjóðlegum mörkuðum og þýðingu þess. Það vita hvort eð er allir að stjórnarformennska í OR er bara þægilegur pólitískur bitlingur og ekki nokkur ástæða til að fólk sem situr í stjórn Orkuveitunnar hafi víðtæka þekkingu á orkumálum né því  sem snýr að fjármögnun virkjana eða áhættusamri stefnumótun. Og þetta kunna vissulega bara að vera tímabundin vandræði hjá Orkuveitunni - ef allt fer á besta veg og lánsfjármarkaðir opnast íslenskum fyrirtækjum á ný. Og Orkuveitan er jú nýbúin að tryggja sér lán frá Evrópska fjárfestingabankanum og vonast til að íslenskir lífeyrissjóðir fjárfesti í skuldabréfum  Orkuveitunnar - jafnvel þó svo skuldabréf fyrirtækisins séu komin í ruslflokk. En það er satt að segja varla sjálfgefið að þeir sem eiga peningana í lífeyrissjóðunum vilji endilega lána þá til OR. Á aðeins 4,65% vöxtum. Er eitthvað vit í því fyrir eigendur lífeyrissparnaðar að veita fyrirtæki í þessari stöðu lán á slíkum kjörum?

Orkuveitan virðist bera sig vel. En að mati Orkubloggsins er það engu að síður raunhæft áhyggjuefni hvort rekstur OR næstu misserin standi undir afborgunum lána - jafnvel þó svo hlutfall skammtímaskulda fyrirtækisins sé kannski ekkert svo óskaplega hátt. Þegar ofan á slaka rekstrarafkomu bætist, að Orkuveitan stendur líka frammi fyrir fjárþörf vegna umtalsverðra framkvæmda, er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að dökk óveðursský hafi hrannast upp yfir Bæjarhálsinum.

Orka_blikurStóra spurningin í huga Reykvíkinga hlýtur að vera þessi: Hvernig gat það skeð að þetta fjöregg borgarbúa, undir stjórn kjörinna fulltrúa sem hljóta að hafa að leiðarljósi að forðast að OR ráðist í of áhættusama skuldsetningu, er komið í þessari skuggalegu stöðu?

Og Íslendingar almennt ættu kannski að hugleiða hvort það sé áhættunnar virði að gera efnahagslíf þjóðarinnar ennþá háðara alþjóðlegum álmörkuðum en orðið er. Sjálfur telur Orkubloggarinn ástæðu til að staldra við með ný álver og leggja alla áherslu á meiri fjölbreytni í atvinnulífinu.


Búðarhálsbólga

Umræðan um virkjanamál á Íslandi hefur verið svolítið sérstök undanfarið. Sumir tala á þeim nótum að orkan sé nánast uppurin. Aðrir vilja keyra í nýjar virkjanir til að mæta þörf álvera og/eða annarrar nýrrar stóriðju.

Titan_FossafelagidRaunveruleikinn er aftur á móti sá, að vegna erfiðra aðstæðna í efnahagslífi bæði Íslands og umheimsins síðustu 12 mánuðina eða svo, þá hefur allt verið í strandi í fjármögnun íslensku orkufyrirtækjanna. Nú berast reyndar fréttir  um að OR sé að fá lán frá Evrópska fjárfestingabankanum til að ljúka við Hellisheiðarvirkjun og komast áleiðis með Hverahlíðarvirkjun á Hellisheiði. Orkan þaðan mun eiga að fara til Norðuráls.

Ekkert hefur aftur á móti heyrst af fjármögnun næstu verkefna Landsvirkjunar. Það hefur reyndar verið svolítill hringlandaháttur með það hvar Landsvirkjun hyggst reisa næstu virkjun. Á tímabili leit út fyrir að það yrðu virkjanir í neðri hluta Þjórsár; Hvammsvirkjun (82 MW), Holtavirkjun (53 MW) og Urriðafossvirkjun (130 MW). Undirbúningur að þessum virkjunum hefur staðið lengi yfir og unnið var umhverfismat á þessum kostum fyrir nokkrum árum. Muni Orkubloggarinn rétt féllst umhverfisráðherra á framkvæmdirnar með einhverjum minniháttar skilyrðum. Og bæði hönnun og gerð útboðsgagna munu vera löngu tilbúin.

Thjorsa_nedri_virkjanirÞað eina sem er eftir í undirbúningsferlinu er að fá sveitarfélögin til að afgreiða skipulagið og að semja við landeigendur og aðra vatnsréttarhafa. Skipulagsmálin eru reyndar komin mjög vel áleiðis. Nokkuð er um liðið síðan þessar virkjanir komust inn á aðalskipulag Ásahrepps og Rangárþings Ytra og málið mun líka hafa verið afgreitt af hálfu í Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Aftur á móti mun það enn vera óafgreitt í Flóahreppi, en það mál snertir Urriðafossvirkjun.

Það er athyglisvert að nú eru liðnir um átta áratugir síðan Einar Benediktsson og Fossafélagið Títan voru u.þ.b. byrjuð á því að virkja Urriðafoss. Framkvæmdirnar þarna hafa sem sagt tafist eilítið, ef svo má segja. Það magnaðasta er að þá, rétt eins og nú, strandaði allt á skorti á lánsfé. Eftirfarandi frásögn er af vefnum Thjorsa.is:

Urridafoss_1"Í frumvarpi sem varð að lögum 31. maí 1927 var Títan gefið leyfi til að virkja Urriðafoss í Þjórsá. Fól það leyfi í sér heimild til að gera uppistöðu í ánni ofan við fossinn, hækka eða lækka vatnsborð eða farveg og gera vatnsrásir ofanjarðar eða neðan eftir þörfum. Ráðgert var að hin fyrirhugaða virkjun yrði allt að 160.000 hestöfl, en það jafngildir um 117 MW. Þess ber að geta að þarna var reiknað með mun meira vatnsrennsli en nú fer um farveg Þjórsár, eða um 500 m3/s í stað 360 m3/s sem nú er að jafnaði. Sakir fjárskorts varð ekkert úr þessum virkjunaráformum og lognaðist Fossafélagið Títan að mestu útaf uns félaginu var formlega slitið árið 1951."

Myndin hér efst í færslunni er einmitt at einni útfærslunni á hugmyndum Fossafélagsins Títan á stöðvarhúsi Urriðafossvirkjunar. Og enn er tekist á um Urriðafossvirkjun og aðra virkjunarmöguleika í neðri hluta Þjórsár. Í byrjun september s.l. (2009) kom svo upp úr dúrnum að greiðslur frá Landsvirkjun til sveitarfélaganna og/eða beint til sveitarstjórnafólks vegna skipulagsvinnu sveitarfélaganna, kunni að vera óeðlilegar og jafnvel ólögmætar. Það mál er einn angi af miklum deilum manna um hvort yfirleitt eigi að virkja í neðri hluta Þjórsár. Sá ágreiningur verður ekki rakinn hér.

Auk þess sem skipulagsmálin eru enn ekki endanlega frágengin vegna allra þriggja virkjananna í neðri hluta Þjórsár, hafa viðræður Landsvirkjunar við landeigendur á svæðinu gengið eitthvað brösuglega. Þetta virtist reyndar lengst af ekki valda Landsvirkjun miklum áhyggjum. Möguleikarnir virtust óþrjótandi þrátt fyrir eitthvert vesen með landeigendur.

Eftirminnilegt er þegar stjórn Landsvirkjunar boðaði nokkuð óvænta áherslubreyting hjá fyrirtækinu haustið 2007. Nú skyldu nýir orkusölusamningar við stóriðju á Suður- eða Vesturlandi ekki lengur njóta forgangs, heldur yrði áherslan lögð á fjölbreytni. Það væri lang skynsamlegast; þannig mætti bæði dreifa áhættunni og líka væri þetta góð leið til að fá sem allra hæst raforkuverð.

Já - Landsvirkjun var í miklu stuði draumaárið mikla 2007, þegar Ísland virtist algerlega ósigrandi fjármálaveldi. Í árslok 2007 voru Landvirkjunarmenn greinilega mjög vongóðir um að það myndi ganga nokkuð hratt að hnýta lausa enda vegna neðri hluta Þjórsár. Sögðust ætla að að sækja um formlegt virkjunarleyfi vegna virkjananna þar strax á árinu 2008 og fullyrtu að raforkan þaðan færi til nýrrar tegundar af stórnotendum. M.a. væri verið að semja við kísilverksmiðju Becromal og netþjónabú Verne Holding eða Verne Global eða hvað það nú heitir þetta fyrirtæki Björgólfs Thors og félaga.

budarhals_yfirlitsmyndAllt í einu var sem álver væru barrrasta orðin púkó. Og yfirlýsingar Landsvirkjunar gáfu eiginlega nokkuð sterklega í skyn að orkuverðið til álveranna væri heldur snautlegt. En þrátt fyrir boðaða stefnubreytingu, var enn ekki öllum hindrunum rutt úr vegi. Samningar við landeigendur á Þjórsársvæðinu gengu afleitlega og í ágúst 2008 urðu enn á ný straumhvörf í virkjunaráætlunum Landsvirkjunar. Þá ákvað fyrirtækið, líkt og hendi væri veifað, að setja Búðarhálsvirkjun í forgang. Þannig mætti hraða hlutunum úr því svona hægt gekk á Þjórsársvæðinu.

Búðarhálsvirkjun  hljómaði kunnuglega í eyrum, en margir þurftu þó smá upprifjun. Sá kostur að virkja við Búðarháls hafði mikið verið til skoðunar upp úr aldamótunum. Öll leyfi munu hafa verið til staðar, en af einhverjum ástæðum ákvað Landsvirkjun árið 2003 að leggja Búðarhálsinn í salt. Kannski af því menn hafa talið virkjanir í neðri hluta Þjórsár arðsamari? Orkubloggaranum þykir þó líklegra að hjá Landsvirkjun hafi þótt skynsamlegt að geyma Búðarhálsvirkjun aðeins og eiga hana í handraðanum. Það hefði a.m.k. ekki verið galið plan, að mati Orkubloggarans.

Ákvörðunina um að setja Búðarhálsvirkjun aftur í forgang þarna síðsumars 2008 má væntanlega skýra með því, að farið var að liggja á að mæta aukinni orkuþörf álversins í Straumsvík. Þó svo Hafnfirðingar hafi verið á móti stækkun álversins þarf Straumsvíkurverið að fá 75 MW í viðbót. Vegna 40 þúsund tonna aukaframleiðslu sem unnt verður að fá með endurnýjun á tæknibúnaði í álverinu.

budarhals_landsnetVegna tafa á að ljúka undirbúningsferli virkjana í neðri hluta Þjórsár var sem sagt ákveðið í ágúst 2008 að drífa í Búðarhálsvirkjun, enda sú virkjun komin lengst áleiðis í undirbúningi. Búðarhálsvirkjun var aftur komin á dagskrá, fimm árum eftir að hún var sett í geymslu.

Virkjunin nýtir vatn af Tungnaársvæðinu og er í reynd afar lógísk framkvæmd. Reist verður tveggja km löng og allt að 24 m há stífla skammt ofan við ármót Köldukvíslar og Tungnaár, neðan við Hrauneyjafossstöð. Lónið sem þannig myndast hefur verið kallað Sporðöldulón  og á að verða um 7 ferkm. Stöðvarhúsið verður svo í í hlíð Búðarhálsins við Sultartangalón.

Frá Sporðöldulóni verður aðrennslisskurður inn að Búðarhálsi og þaðan fer vatnið að stöðvarhúsinu eftir 4 km löngum aðrennslisgöngum. Frá stöðvarhúsinu þarna rétt við Sultartangalón mun svo verða rúmlega 300 m frárennslisskurður út í lónið. Loks verður 17 km löng háspennulína lögð frá Búðarhálsstöð að tengivirki við Sultarstangastöð og þar með verður rafmagnið frá þessari nýju virkjun komið inn á landskerfið.

Langisjor_3Einfalt og örugglega mjög hagkvæm virkjun. Að því gefnu að menn ætli sér ekki að gefa rafmagnið. Svo gælir Landsvirkjun eflaust við það að auka afköstin í framtíðinni með því að veita vatni úr Skaftá yfir í Tungnaá. Orkubloggarinn vonar þó innilega að náttúruundrinu Langasjó verði þar hlíft. Til að svo megi vera þarf væntanlega að taka Skaftá vestur eftir, norðan við Langasjó. Það yrðu óneitanlega nokkur viðbrigði ef hin fornfræga jökulá Skaftá umbreyttist í lauflétta bergvatnsá niður með Skaftárdal, Síðu og Landbroti. Stóra spurningin hlýtur að vera hvaða áhrif það myndi hafa fyrir blessaðan sjóbirtinginn? En það er allt önnur saga.

Næsta skref er sem sagt Búðarhálsvirkjun. Sem af einhverjum ástæðum er enn í strandi, þó svo Landsvirkjun segist hafa nóg laust fé til að byggja tvær slíkar virkjanir. Af hverju drífa þeir þá ekki barrrasta í þessu? Þetta átti jú að gerast hratt. Af hálfu Landsvirkjunar var þarna síðsumars 2008 stefnt að því að fara eins og skot í útboð vegna vélbúnaðar í virkjunina. Þetta verður reyndar einungis 80 MW virkjun og jafnast því ekki á við allar þrjár nýju Þjórsárvirkjanirnar (sem eiga að vera með uppsett afl yfir 260 MW!). Til að ná meiri hagkvæmni við kaup á búnaði í Búðarhálsvirkjun planaði Landsvirkjun að bjóða út allt heila gumsið í einum pakka; Búðarhálsvirkjun OG um leið búnaðinn fyrir virkjanirnar þrjár í neðri hluta Þjórsár (með valrétti). Þannig myndu fást enn betri verð. Og allar þessar virkjanir yrðu hvort eð er örugglega reistar innan örfárra ára.

Budarhals_stodvarhus_stadurJá - menn voru ennþá æpandi bjartsýnir í virkjanabransanum þarna síðsumars 2008. Virtust trúa því að lítið mál yrði að koma Búðarhálsinum og öllum þremur virkjununum í neðri hluta Þjórsár í útboð. Þetta var jú á sama tíma og horfur voru á að Glitnir og Geysir Green Energy myndu brátt stjórna jarðhitageira heimsins eins og hann legði sig. Menn voru meira að segja líka farnir að tala um Bjallavirkjun. Þetta var í ágúst 2008 og hvorki Landsvirkjun né iðnaðarráðuneytið virtust telja minnsta tilefni til að staldra við. Héldu menn í alvöru að allt væri í stakasta lagi og íslenskt efnahagslíf væri enn á blússandi sigurbraut? Svolítið sérkennilegt, svona eftir á að hyggja.

Draumurinn um hraðútboð fjögurra nýrra virkjana Landsvirkjunar upp á meira en þrjú hundruð MW gekk því miður ekki eftir. Höggið reið yfir. Íslenska efnahagsundrið reyndist einhver mesta blaðra sem sögur fara af og íslenska fjármálakerfið hrundi. Eins og spilaborg - og sá frasi hefur líklega sjaldan átt betur við. Hrunið olli því að möguleikar Landsvirkjunar til að fjármagna nýjar virkjanir gufuðu upp. Í bili. Og örskömmu eftir hrunið - á haustdögum 2008 - birtist lítil frétt þess efnis að Landsvirkjun hefði ákveðið að fresta því um þrjá mánuði að opna útboð við virkjun við Búðarháls.

Tungnaa_ofan_sigolduSíðan er liðið ár og ekkert bólar á útboði. Reyndar á Landsvirkjun sjálf að eigin sögn nógan pening til að rífa þessa virkjun upp. Ekki bara einu sinni, heldur tvisvar: "Landsvirkjun á laust fé að fjárhæð um 340 milljónir dollara eða sem nemur ríflega 40 milljörðum króna. Þetta fé dugar til að byggja tæplega tvær Búðarhálsvirkjanir. Erlendir lánsfjármarkaðir eru hins vegar lokaðir íslenskum aðilum vegna sérstakra aðstæðna sem snúa að íslenska ríkinu. Á meðan ástandið er með þeim hætti er óábyrgt af hálfu Landsvirkjunar að ráðast í nýjar framkvæmdir nema að fyrirtækið hafi fjármagnað þær að fullu með nýjum langtímalánum. Að því er unnið." Af þessari fréttatilkynningu Landsvirkjunar má draga þá ályktun að fyrirtækinu sé nauðsynlegt að hafa umrætt lausafé tiltækt til að geta greitt af lánum sínum á næstu misserum.

En í dag vill sem sagt enginn lána Landsvirkjun né íslenska ríkinu pening til að reisa Búðarhálsvirkjun. A.m.k. ekki á viðráðanlegum kjörum. Til að leysa þann vanda hafa stjórnmálamenn sett fram ýmsar hugmyndir um fjármögnun. Sumir vilja að lífeyrissjóðirnir reddi málunum, aðrir að krónubréfaeigendur sjái um að skaffa fjármagnið. Enn aðrir stungu upp á því að erlendu verktakarnir sæju sjálfir um fjármögnunina - eða jafnvel að álverið í Straumsvík útvegaði þessa aura.

Rannveig_Rist_FVÞað var ekki síst þáverandi iðnaðarráðherra - Össur Skarphéðinsson - sem talaði fyrir þeirri hugmynd að Straumsvíkurverið eða móðurfélag þess kæmi að fjármögnuninni. En svo virðist sem ekki einu sinni RioTintoAlcan vilji hafa milligöngu um að útvega þessar 400 milljónir dollara sem þessi bráðódýra virkjun kostar. Undarlegt. Treysta þau Rannveig Rist og félagar sér kannski ekki til að taka veð í virkjuninni - af því rafmagnið sé selt á svo hlægilega lágu verði?

Nýjustu fréttir af fjármögnun Búðarhálsvirkjunar eru að íslenskir lífeyrissjóðir séu nú í samningaviðræðum við Landsvirkjun (þetta kom fram á ráðstefnu Capacent Glacier fyrir um tveimur vikum). Ísland er sniðugt land. Ríkið á Landsvirkjun, en þjóin má ekki vita á hvaða verði Landsvirkjun selur rafmagnið til stærstu kaupendanna. Launþegarnir eiga peninginn í lífeyrissjóðunum, en hafa í reynd ekkert um það að segja hvernig lífeyrissjóðirnir starfa eða ráðstafa fjármunum launþeganna. Var einhver að tala um Nýja Ísland?


Bonneville

Flestir þekkja Mt. Rainier líklega best af myndum sem sýna Seattle í forgrunni og þetta mikla fjall rísa tignarlega sunnan borgarinnar.

seattle_rainierOrkubloggarinn skaust einmitt upp slyddublautan veginn á Mt. Rainier í morgun. Upp að Paradise, en lengra komast ökutæki ekki á þessum árstíma.

Þrátt fyrir dimm snjóél þóttumst við feðginin auðvitað grilla bæði í svartbjörn og fjallaljón þarna í snarbröttum skógivöxnum brekkunum í um 1.600 m hæð. Einhvers staðar yfir okkur gnæfði tindurinn, nærri 4.400 metra hár, í dimmum skýjabökkum. Einstaka sinnum sást glitta í draugalegar snævi þaktar greinibrekkurnar, en svo hvarf allt á ný í snæhvítt kófið.

En nú er komið kvöld hér í Washington-fylki. Og auðvitað var stefnan frá Rainier NP tekin beint suður í átt að Portland. Eftir nokkurra tíma stífa keyrslu, suður Freeway No. 5 á traustum amerískum Suburban, með einungis einu sjeikstoppi hjá McDonalds, var komið að drottningunni sjálfri; Columbiafljótinu. Og til að geta sagst hafa komið til Oregon var auðvitað skotist yfir brúna, en svo tekin U-beygja aftur yfir og stefnt austur eftir þröngum sveitaveginum í átt að Bonneville.

bonneville_dam_powerhouseBonneville-stíflan er eitt af þessum stórvirkjum, sem ráðist var í á tímum kreppunnar miklu í Bandaríkjunum. Því miður lítur ekki út fyrir að við Íslendingar eignumst okkar Roosevelt, en það er sama hvar maður fer hér í norðvesturhorni Bandaríkjanna; Roosevelt virðist hreinlega hafa verið heilinn að baki öllu sem hér var gert fyrir daga Microsoft. 

Þegar framkvæmdunum við Bonneville lauk árið 1938 var þarna risið mesta stíflumannvirki veraldar og virkjun með uppsett afl upp á um 500 MW. Fjórum áratugum síðar var virkjunin stækkuð um annað eins og er nú með framleiðslugetu upp á lítil 1.100 MW.  Við stífluna kútveltast sæljón og laxar, en styrjan kemst ekki upp laxastigann og missti því hrygningarstöðvar sínar ofar í fljótinu.

bonneville_dam_powerhouse_turbinesOfar í Columbia-fljótinu eru í dag margar ennþá stærri virkjanir. Þar er Grand Coulee  stærst; 6.800 MW og þar með fimmta stærsta vatnsaflsvirkjun heims! Þó svo Columbia sé mikið fljót er satt að segja svolítið erfitt að ímynda sér að allt þetta afl skuli leynist í þessum lygna straumi. 

Rétt að ljúka þessari stuttu færslu á ljóðlínum sveitasöngvarans ástsæla; Woody Guthrie:

At Bonneville now there are ships in the locks
The waters have risen and cleared all the rocks,
Shiploads of plenty will steam past the docks,
So roll on, Columbia, roll on.

Með góðum kveðjum frá bökkum Columbia.


Biocrude: Orkusjálfstætt Ísland

Það er athyglisvert að öll íslensku olíudreifingarfyrirtækin hafa "valið" sér framtíðareldsneyti. Skeljungur tók þátt í vetnisverkefni, OLÍS ætlar að vinna með CRI að metanóleldsneyti  og N1 er bæði í metanævintýrinu og að vinna með fyrirtæki í Sandgerði að því að umbreyta fiskúrgangi í lífdísil.

Þetta er allt saman afskaplega áhugavert. Enda myndi skipta miklu máli ef Ísland gæti leyst innflutt eldsneyti af hólmi með íslensku eldsneyti.

World_Oil_Consumption_pr_CapitaEins og sjá má á á myndinni frá tölfræðiteymi BP, hér til hliðar, er notkun á olíuafurðum (m.v. fólksfjölda) mest í þremur nokkuð svo ólíkum löndum. Sem eru Saudi Arabía, Kanada og Ísland. Íslendingar eru sem sagt meðal þeirra þjóða sem nota allra mest af olíuafurðum.

Það er auðvitað ljúft að vera í hópi með blessuðum Sádunum og kanadísku ljúflingunum.  En það sem verra er fyrir Ísland: Saudi Arabía og Kanada búa yfir mestu olíuauðæfum veraldar. Öll bensín- og olíukaup Íslendinga - hver einasti dropi - eru aftur á móti í formi innflutnings. Þessi gríðarlegu eldsneytiskaup Íslands eru ekkert annað en gapandi gjaldeyrishít og varla nokkur þjóð jafn illa stödd að þessu leyti eins og við.

Það sem bjargar orkubúskap okkar Íslendinga er að við framleiðum eigið rafmagn. Og þar erum við alveg á hinum vængnum; engin önnur þjóð á viðlíka möguleika í framleiðslu á endurnýjanlegri raforku m.v. fólksfjölda. Það breytir því ekki að skorturinn á íslensku eldsneyti fyrir samgöngutækin er hið versta mál.

En nú vinna sem sagt nokkur metnaðarfull íslensk fyrirtæki í samstarfi við íslensku olíudreifingarfyrirtækin, að framleiðslu ýmissa tegunda af eldsneyti, sem ætlað er að minnka þörfina á hefðbundnu innfluttu eldsneyti. Þetta er auðvitað hið besta mál. Vandinn er bara sá að vetnisvæðing er ennþá í órafjarlægð, metanól er ekki unnt að nota nema í mjög lágu blöndunarhlutfalli (veldur annars tæringu) og mikil óvissa er um að íslenskt metan eða lífdísilframleiðsla geti nokkru sinni náð því umfangi og þ.m.t. þeirri hagkvæmni að geta keppt við olíu - nema með umtalsverðum niðurgreiðslum eða styrkjum.

Þetta á eflaust eftir að koma betur í ljós á næstu árum. En það sem er eftirtektarvert, er að hér á landi virðist enginn vera að skoða einn allra forvitnilegasta möguleikann í eldsneytisiðnaðinum. Sem er að framleiða hér lífhráolíu  (biocrude).

biocrude_coverSá möguleiki felst í því að byggja upp íslenskan lífhráolíuiðnað á grundvelli endurnýjanlegrar orku og nýta sér um leið sömu hagkvæmni og gerist í hinum hefðbundna og vel þekkta hráolíuiðnaði. Já - Íslendingar eiga raunhæfan möguleika á að framleiða allt sitt eldsneyti sjálfir; eldsneyti sem er algerlega sambærilegt við olíuafurðirnar sem við eyðum milljörðum króna og dýrmætum gjaldeyri í að kaupa frá útlöndum.

Slík tækifæri virðist nákvæmlega ekkert hafa verið skoðuð á Íslandi. A.m.k. ekki af hálfu stjórnvalda eða þeirra fyrirtækja sem sérhæfa sig í framleiðslu á raforku eða leita möguleika í íslenskri eldsneytisframleiðslu. Snögg athugun bendir til þess að hugtakið lífhráolía hafi einungis verið nefnt einu sinni á íslenskum netsíðum - að undanskildu Orkublogginu - en það var á vef Viðskiptablaðsins árið 2007).

Í dag ætlar Orkubloggið að beina sjónum að þessum tækifærum Íslands. Að Íslendingar framleiði lífhráolíu og verði þar með nánast algerlega orkusjálfstæð þjóð - ekki aðeins í raforkuframleiðslu heldur einnig í eldsneytisgeiranum. Það besta er auðvitað að þetta orkusjálfstæði myndi byggjast á 100% endurnýjanlegri orku og afurðirnar (sjálft eldsneytið) eru jafn orkuríkar og praktískar eins og hefðbundið bensín, díselolía og aðrar olíuafurðir.

Of gott til að vera satt? Kannski - kannski ekki. Þetta er vissulega iðnaður sem er ennþá á tilraunastigi. Það sker engu að síður í augu að áhugaleysið á þessum möguleika virðist algert hér á Íslandi, meðan íslensk  fyrirtæki og fjárfestar hella sér í dýrar eða takmarkaðar lausnir eins og framleiðslu á lífdísil eða óraunsæja framtíðardrauma um vetnissamfélag.

Vissulega er um að gera að skoða vel alla möguleika - hvort sem er íslenskt vetni, lífdísill, etanól, metan eða metanól. En fyrir land með svo mikla endurnýjanlega orku, er framleiðsla á lífhráolíu hugsanlega miklu áhugaverðari kostur. Það er staðreynd að hækkandi olíuverð, aukin áhersla margra ríkja á innlenda orku og umhverfishvatar hafa skapað grundvöll að nýjum eldsneytisiðnaði; lífhráolíuiðnaði. Þar er um að ræða orkuríkt, hagkvæmt og samkeppnishæft fljótandi eldsneyti - hefðbundið bensín og díselolíu úr lífhráolíu.

Bæði í Bandaríkjunum og Evrópu hefur lífhráolía fengið aukna athygli á síðustu árum. Og þetta er iðnaður sem myndi líklega henta Íslandi afskaplega vel. Hér eru í gangi ýmis verkefni í eldsneytisiðnaði, t.d. verkefni með styrkjum upp á nokkrar milljónir frá Rannís, um að framleiða etanól úr lúpínu. Sniðugur möguleiki - en allir sem hafa kynnt sér slíka eldsneytisvinnslu vita að langlíklegast er að þetta sé vitavonlaust peningalega.
 
Lífhráolía hefur aftur á móti margvíslega yfirburði gagnvart öllu öðru tilbúnu fljótandi lífrænu eldsneyti. Lífhráolía hefur nefnilega alla sömu eiginleika eins og hefðbundið bensín, díselolía og flugvélaeldsneyti. Þar að auki hentar slíkur iðnaður ákaflega vel fyrir þjóð sem býr yfir miklum endurnýjanlegum orkuauðlindum. Þetta er mögulega besta og áhugaverðasta tækifæri Íslands í orkumálum.


Eftirfarandi eru tíu áherslupunktar sem lýsa hugmyndinni í hnotskurn:
 
1. Í framleiðsluna er notaður lífmassi og endurnýjanleg orka.
 
2. Unnt er að nota hvaða lífmassa sem er í þessa framleiðslu (hvaða plöntur sem er og þ.á m. sellulósa, lífrænt sorp og annan lífrænan úrgang). Þetta skapar aukna möguleika á að nálgast ódýr hráefni í lífhráolíuvinnsluna og er snjall valkostur til að minnka þörf á innfluttu eldsneyti umtalsvert.
 
3. Framleiðslan skiptist í tvö meginstig:
Annars vegar yrðu litlar vinnslustöðvar víða um land þar sem lífmassi er unnin í fljótandi lífmassaþykkni. Hins vegar er stór olíuhreinsunarstöð  (biorefinery) sem vinnur olíuafurðir úr lífmassaþykkninu.
 
4. Þetta tvískipta ferli sparar flutningskostnað á lífmassanum umtalsvert og eykur þannig hagkvæmnina (tankbílar flytja fljótandi lífmassaþykknið í hreinsunarstöðina).
 
5. Lokaafurðirnar eru hefðbundnar olíuafurðir, þ.m.t. bensín, díselolía, svartolía, flugvélabensín og aðrar verðmætar olíuafurðir. Afurðir lífhráolíu hafa reyndar að nokkru leyti reynst mun betri að gæðum en afurðir út jarðolíu og eru því orkuríkasta fljótandi eldsneyti sem fáanlegt er m.v. rúmmál. Þetta er því bæði orkuríkara og væntanlega hagkvæmara eldsneyti en t.d. etanól, lífmetan, metanól eða DME.
 
6. Afurðirnar flokkast sem endurnýjanlegar vegna þess að þær byggja á endurnýjanlegri orku og lífmassa - og ferlið er kolefnishlutlaust.
 
7. Ekki þarf að gera neinar breytingar á vélbúnaði samgöngutækjanna, núverandi skattkerfi né dreifikerfi eldsneytis.
 
8. Þetta er eldsneyti sem hentar neytendum mjög vel og kallar ekki á niðurgreiðslur né skattaafslætti af hálfu ríkissjóðs.
 
9. Afurðirnar eru samkeppnishæfar við hefðbundið jarðefnaeldsneyti svo lengi sem verð á hráolíu er yfir tiltekinni viðmiðun (sem er mun lægra olíuverð en nú er). Flestir sérfræðingar í orkumálum telja líklegt að meðalverð á olíu næstu áratugina verði mun hærra, þ.a. áhættan af lækkandi olíuverði virðist ekki mikil.
 
10. Þetta er bæði fjárhagslega hagkvæm og tæknilega raunhæf leið til minnka verulega þörfina á innfluttu eldsneyti, spara gjaldeyri, byggja upp nýja og mikilvæga stoð í íslenskum iðnaði, auka tækifæri í landbúnaði, auka fjölbreytni í orkugeiranum, minnka kolefnislosun, skapa mörg ný störf á Íslandi og verða þýðingarmikill þáttur í íslensku efnahagslífi.
 
 
 
Hvatar:
 
Hátt olíuverð, umhverfishvatar, síaukin þörf á innfluttu eldsneyti og hagsmunir tengdir auknu orkusjálfstæði hafa á örfáum árum skapað ný og mjög áhugaverð tækifæri í eldsneytisiðnaði bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.
 
Orkusjalfstaett_Ísland_slide_02Sökum þess að lífefnaeldsneyti eins og t.d. etanól eða lífdísill er með mun minna orkuinnihald pr. rúmmálseiningu en hefðbundið jarðefnaeldsneyti, þarf beina fjárhagslega hvata til að slíkur eldsneytisiðnaður geti borið sig. Þetta á aftur á móti ekki við um lífhráolíu. Hún er jafn orkurík eins og hefðbundið eldsneyti og er reyndar að eilítið meiri gæðum og oktanríkari.
 
Afurðir lífhráolíu geta því keppt við hefðbundið jarðefnaeldsneyti án tillits til umhverfishvata - að því gefnu að meðalverð á hráolíu úr jörðu sé yfir tilteknu lágmarksverði. En þar að auki gera umhverfishvatar lífhráolíuna eftirsóknarverða lausn í eldsneytismálum. Lífhráolíuafurðir eru unnar úr lífmassa og fyrir tilstilli endurnýjanlegrar orku og eru því skilgreindar sem kolefnishlutlaust eldsneyti og endurnýjanlegur orkugjafi.
 
 
 
Markaðurinn og samkeppni:
 
Afurðir úr lífhráolíu og reyndar allt annað eldsneyti keppir við bensín, díselolíu og annað hefðbundið eldsneyti. Þó svo margvíslegir hvatar eins og t.d. umhverfishvatar og orkusjálfstæði kalli á nýjar lausnir í eldsneytisiðnaðinum, er hækkandi olíuverð meginástæðan fyrir því að lífhráolíuiðnaður er að líta dagsins ljós nú. Undanfarin 3-4 ár hafa orðið verulegar kostnaðarhækkanir í olíuvinnslu og vaxandi líkur eru á að meðalverð á hráolíu til langframa komi til með að vera talsvert hærra en þekkst hefur lengst af. Gangi slíkar spár eftir þýðir það gjörbreytingu í olíuiðnaðinum frá því sem var fyrir einungis nokkrum árum og gerir lífhráolíu samkeppnishæfa til frambúðar án nokkurra styrkja né umhverfishvata. 
 
Orkusjalfstaett_Ísland_slide_03Og þar sem lífhráolía er orkuríkari en bæði metanól, DME og hefðbundið lífefnaeldsneyti eins og t.d. etanól eða lífdísill - og býður upp á meiri möguleika til umfangsmikillar eldsneytisframleiðslu sem getur nýtt hefðbundnar olíuhreinsunarstöðvar - hefur lífhráolíuiðnaður óneitanlega talsvert forskot á allt þetta lífefnaeldsneyti.
 
Sem hráefni (kolefnisgjafa) í lífhráolíuþykkni má nota hvaða tegund lífmassa sem er (öfugt við það sem gerist í lífeldsneytisiðnaði, þar sem annars vegar er byggt á sykrum og hins vegar á olíuríkum plöntum eins og t.d. repju eða dýraslógi). Fyrir vikið keppir lífhráolíuiðnaður ekki við fæðuframboð og framleiðandinn getur einfaldlega valið ódýrasta lífmassa sem býðst (þ.á m. grös og hvaða lífræna úrgang sem er, svo dæmi sé tekið). Þetta skiptir miklu til að draga úr kostnaði - og getur einnig orðið til þess að forðast megi samkeppni við matvælaframleiðslu.
 
Öfugt við annað lífrænt eldsneyti eins og t.d. etanól eða lífdísil, má nota afurðir lífhráolíu í hvaða blöndunarhlutfalli sem er með venjulegu bensíni eða díselolíu og nota óblandað ef vill. Ekki þarf að gera neinar breytingar á vélbúnaði samgöngutækjanna. Lífhráolíuiðnaður er þess vegna hagkvæmasti, einfaldasti og raunhæfasti kosturinn sem getur komið í stað eldsneytis úr hefðbundinni hráolíu úr jörðu.
 
Orkusjalfstaett_Ísland_slide_04Að auki er vert að hafa í huga að ennþá er tæknilega langt í að vetni verði nothæfur orkugjafi og einnig munu líða margir áratugir þar til rafmagnsbílar verða mjög útbreiddir. Önnur leið er að framleiða hefðbundið fljótandi eldsneyti úr kolum eða gasi (s.k. synfuel). Sú tækni er mjög vel þekkt, en þeirri framleiðslu fylgir því miður mikil kolefnislosun og hún hefur því afar neikvæð umhverfisáhrif.
 
Það eru m.ö.o. heldur litlar líkur á að vetni, rafmagn, hefðbundið lífefnaeldsneyti (biofuel) eða synfuel komi til með að hafa víðtæk áhrif í eldsneytisiðnaði veraldarinnar næstu áratugina. Nærtækasta lausnin virðist allt önnur. Lausnin er lífhráolía (biocrude).
 
 
 
Styrkur og sérstaða:
 
Þessi framleiðsla byggir í grunninn á vel þekktri tækni og kallar ekki á neinar breytingar á núverandi samgöngukerfi, nýtir sama dreifingarkerfi og stendur undir sama verðuppbyggingarkerfi á eldsneyti sem er afar mikilvæg tekjulind fyrir ríkissjóð.
 
Orkusjalfstaett_Ísland_slide_05Enn er ónefndur einn stærsti hvatinn til að þessu verði komið í framkvæmd hér á Íslandi. Engin þjóð í heiminum á jafn góða möguleika í þessum iðnaði eins og Íslendingar. Hvergi annars staðar er jafn mikið af vinnanlegri endurnýjanlegrar orku m.v. fólksfjölda. Og þar er um að ræða ódýrustu tegundir endurnýjanlegrar orku; vatnsafl og jarðvarma. Erlendis er þessi iðnaður að verða til þrátt fyrir að þar verði notuð margfalt dýrari orka frá sólarorkuverum.
 
Í þeim löndum þar sem mest vinna hefur verið lögð í þróun og framleiðslu á lífhráolíu hefur gas verið nýtt sem orkugjafi í framleiðsluferlinu - en horft til þess að í framtíðinni verði sólarorka nýtt í þessu skyni. Sólarorkan er allt að fimm sinnum dýrari orkuframleiðsla en t.d. jarðvarmi. Þess vegna er augljóslega skynsamlegt að nýta þessa tækni fyrst á jarðvarmasvæðum.
 
Orkusjalfstaett_Ísland_slide_06Þetta veitir Íslandi tækifæri á því að stytta sér leið. Að sækjast eftir samstarfi við þau fyrirtæki sem eru komin með bestu og hagkvæmustu tæknina til þessarar eldsneytisframleiðslu. Slíkt samstarf er líklegt til að flýta fyrir tækniframförum í þessum iðnaði og veita viðkomandi fyrirtæki / fyrirtækjum samkeppnisforskot á keppinauta sína.

Til að styrkja stöðu okkar er þó um að gera að nýta sér þekkinguna sem fyrir hendi er hér á Íslandi. Og smíða íslenska frumgerð (prótótýpu) sem sannar bæði tæknina og fyrirliggjandi þekkingu hér á landi.
 
Þetta myndi verða nýr, samkeppnishæfur og öflugur íslenskur iðnaður, sem bæði myndi auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi, skapa ný störf og draga úr áhættu sem einhæf stóriðja skapar. Þetta myndi ekki aðeins verða til auka fjölbreytni í stóriðju (olíuhreinsunarstöð) og byggja upp nýjan iðnað víða um land (forvinnslustöðvar). Heldur líka skapa ný tækifæri í íslenskum landbúnaði, sökum þess að  nýta má hvaða tegund lífmassa sem (þ.m.t. hvaða gróður sem er) er í framleiðsluna.
 
Orkusjalfstaett_Ísland_slide_07Síðast en ekki síst myndi þetta íslenska eldsneyti bæði leysa af hólmi innflutt eldsneyti (hefðbundið bensín, díselolíu og flugvélabensín, auk annarra verðmætra olíafurða) og verða til útflutnings. Þar með bæði sparar þessi leið gjaldeyri og gæti jafnframt skapað nýjar gjaldeyristekjur.
 
Þetta er leiðin sem getur gert Ísland nánast 100% orkusjálfstætt og er einfaldlega einhver áhugaverðasti kosturinn í orkumálum Íslendinga. 
 
 


Veikleikar:
 
Það sem helst gæti ógnað iðnaði af þessu tagi er eftirfarandi:
- Annars vegar mikil og langvarandi lækkun á olíuverði. Skammvinn veruleg olíuverðlækkun getur orðið en langvinn lækkun er ólíkleg.
- Hins vegar er tæknin ekki fullþroska! Það skapar reyndar einnig eitt mesta tækifærið til vaxtar. Þetta er engu að síður helsti veikleiki hugmyndarinnar. Lífhráolíuiðnaður er m.ö.o. ennþá á tilraunastigi og þó svo mörg athyglisverð frumkvöðlafyrirtæki hafi sprottið upp á þessu sviði eru ennþá nokkur ár í að lífhráolíuframleiðsla hefjist í stórum stíl. En tæknin hefur þróast hratt á síðustu árum og ódýr endurnýjanleg orka á Íslandi er sérstaklega vel til þess falllin að vekja áhuga þeirra sem fremst standa í þessari tækni.
 
 
 
Tæknin og framkvæmdin:
 
Þetta er iðnaður sem byggir á sömu innviðum og sömu grunnhugmynd eins og hefðbundið eldsneyti unnið úr hráolíu úr jörðu. Lífhráolíu (biocrude) má, sem fyrr segir, vinna úr hvaða lífrænum efnum sem er og hana má hreinsa í venjulegum olíuhreinsunarstöðvum. 
 
Orkusjalfstaett_Ísland_slide_08Í dag þekkjum við hráolíu fyrst og fremst sem jarðolíu sem myndast hefur í jörðu á milljónum ára. Vinnsluaðferð lífhráolíuiðnaðar felst einmitt í því að nýta orku til að búa til samskonar kolefniskeðjur eins og orðið hafa til djúpt í jörðu vegna mikils þrýstings og hita. Þetta má orða sem express-vinnslu á olíu úr lífrænum efnum. 
 
Minnt skal á að það að umbreyta lífmassa í fljótandi eldsneyti eru engar töfrakúnstir, heldur þvert á móti afar vel þekkt tækni . Fischer-Tropsch aðferðin hefur lengi verið nýtt í þessu skyni, en þá er gösun (gasification) t.d. notuð til að vinna díselolíu úr kolum eða lífdísil úr lífmassa. Gallinn við þessa vinnslu er að hún nýtir fremur lítinn hluta af lífmassanum. Á síðustu árum hafa aftur á móti verið þróaðar aðrar aðferðir þar sem unnt er að nota nánast allan lífmassann. Þannig hefur náðst mun meiri hagkvæmni í eldsneytisvinnslunni og það er einmitt þessi nýja tækni sem kallast lífhráolíuvinnsla (biocrude process).
 
Þá er s.k. hraðhitasundrun (flash pyrolysis) notuð til framleiða orkuríkt fljótandi lífmassaþykkni úr hvaða lífmassa sem er. Sú aðferð er vel þekkt efnafræðilega og ekki dýrari eða flóknari en svo að hafa mætti slíkar forvinnslustöðvar dreifðar um landið. Þar sem flutningur á lífmassa er einn helsti kostnaðarliðurinn í framleiðslu á eldsneyti úr lífmassa, er forvinnslan lykilatriði til að ná fram hagkvæmni. Lífmassaþykkninu er svo safnað saman í stóra olíuhreinsunarstöð. Þessi lífhráolíuvinnsluaðferð er líklega raunhæfasta aðferðin til að framleiða fljótandi eldsneyti sem jafnast á við olíuafurðir úr jarðolíu að orkuinnihaldi og hagkvæmni.
 
Biomass_Processing_UOPLífhráolíuvinnsla með hraðhitasundrun er raunhæfur kostur til að framleiða umhverfisvænt fljótandi eldsneyti sem nýta má með nákvæmlega sama hætti eins og eldsneyti unnið úr jarðolíu. Lífhráolía er eina fljótandi eldsneytið sem mun geta keppt við bensín, díselolíu eða flugvélaeldsneyti og/eða leyst slíkt eldsneyti af hólmi, án styrkja eða annarra sértækra efnahagslegra stuðningsaðgerða.

Hvorki etanól, lífmetan, metanól né DME eiga slíka möguleika nema með umtalsverðum niðurgreiðslum, styrkjum eða skattaafslætti. Þar að auki skilar lífhráolíuframleiðsla mörgum öðrum verðmætum efnasamböndum, sem nýtt eru í margvíslegum iðnaði. Með slíkri eldsneytisvinnslu verða því til verðmæti og virðisauki umfram það sem þekkist í annarri lífrænni eldsneytisframleiðslu.
 
Sökum þess að lífhráolíuvinnsla krefst umtalsverðrar orku er hún ekki álitleg fyrir tilstilli hefðbundinna kolvetnisorkugjafa (hvort sem er kol eða gas). Þess vegna hafa rannsóknir einkum beinst að því að nýta sólarorku til þessarar framleiðslu. Ísland er aftur á móti í þeirri einstöku aðstöðu að búa yfir mikilli endurnýjanlegri orku - meira að segja umtalsverðri afgangsorku á næturnar án nýrra virkjana. Þess vegna er lífhráolíuframleiðsla óvíða raunhæfari en einmitt á Íslandi.
 
Lífhráolíuiðnaður getur nýtt sér sömu stærðarhagkvæmni eins og þekkist svo vel í jarðolíuiðnaðinum. Meginmunurinn felst í því að í stað þess að safna saman olíu úr borholum og í olíuhreinsistöðvar, er safnað saman lífrænum efnum (eins og plöntuafurðum eða lífrænu sorpi), þau forunnin í kolvetnisþykkni sem síðan eru unnar olíuafurðir úr í olíuhreinsunarstöð, eins og áður var lýst.
 
Til að koma þessu í framkvæmd hér á landi er hugsanlega skynsamlegast að leita samstarfs við fyrirtæki sem standa fremst í þessari tækni nú þegar og eru með nokkra fremstu frumkvöðla heims sem bakhjarla. Í þessu sambandi er unnt að kynna Ísland sem áhugaverðan kost til að nýta þessa tækni fyrir tilstilli hagkvæmrar endurnýjanlegrar orku og laða þannig öflugustu fyrirtækin í lífhráolíuiðnaðinum til Íslands. Aðkoma slíkra fyrirtækja að því að gera Ísland 100% orkusjálfstætt væri mikilvæg auglýsing fyrir viðkomandi fyrirtæki og gæti hjálpað því á þessum markaði heima fyrir, hvort sem er í Bandríkjunum eða Evrópu. 
 
biocrude_total-refinery_gasolinu_ethyl_tertiary_butyl_ether-etbe_2Þannig má nýta sérstöðu Íslands í endurnýjanlega orkugeiranum til að hraða uppbyggingu þessa iðnaðar á Íslandi. Um leið yrði stuðlað að tugmilljarða króna erlendri fjárfestingu á Íslandi og fjöldi nýrra starfa myndu skapast.

Engu að síður er æskilegt að sýna fram á hversu vel tæknin virkar hér á landi. Það yrði gert með því að smíða og setja upp frumgerð (prótótýpu) að slíkri vinnslu. Tekið skal fram að þekking til að framkvæma þetta er fyrir hendi hér á Íslandi - vilji og fjármagn er allt sem þarf.
 
Í tengslum við uppbyggingu á íslenskum lífhráolíuiðnaði mætti t.d. horfa til orkunnar á Þeistareykjum. Um erlendan samstarfsaðila verður ekki fjallað hér. Þó skal tekið fram að Orkubloggarinn hefur að sjálfsögðu skýra mynd af því hvaða tækni hefur þarna reynst best og hvaða fyrirtæki eru þar áhugaverðust. Er einnig með tölur á hraðbergi um fjárfestingarþörfina, mannafla og orkuþörfina - en vill halda því út af fyrir sig að svo stöddu.
 
 
 
Að grípa tækifærið:
 
Rétt eins og farsímatækni Nokia hefur orðið táknmynd fyrir Finnland og vindorkutækni Vestas táknmynd fyrir Danmörku, gæti lífhráolía (bicrude) orðið táknmynd fyrir Ísland. Ísland yrði nánast 100% orkusjálfstætt og ynni alla sína orku úr endurnýjanlegum auðlindum. Og með því að íslenskt fyrirtæki einbeitti sér að þessari tegund eldsneytisframleiðslu, eru líkur á að viðkomandi fyrirtæki myndi ná forskoti í þessari ungu iðngrein, sem hefur mikil vaxtartækifæri.
 
Jafnvel án tillits til ímyndarinnar er augljóst að það hefði mikla efnahagslega þýðingu ef hér myndi byggjast upp nýr og umfangsmikill iðnaður. Tækifærið hefur sjaldan verið betra en núna þegar heiminn hungrar í endurnýjanlega orku og jafnvel hörðustu talsmenn jarðolíunnar eru farnir að tala um að dagar hinnar ódýru hráolíu úr jörðu séu senn taldir (end of cheap oil).

 
 
 
Af hverju hefur þetta ekki löngu verið framkvæmt?
 
Sem fyrr segir hefur olíuverð lengst af ekki verið nægilega hátt til að framleiðsla af þessu tagi gæti borgað sig. Síðustu 3-4 ár hafa aftur á móti orðið vatnaskil í olíuiðnaðinum, sem gera þennan kost nú í fyrsta sinn fjárhagslega hagkvæman. 
 
Biocrude_pyrolysisÞó svo tæknin sé þekkt í flestum grundvallaratriðum er framleiðsla af þessu tagi enn á tilraunastigi. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að einungis örfá ár eru síðan fjárfestar tóku að laðast að þessum möguleika. Horfur eru á að fyrstu lífhráolíustöðvarnar muni skila af sér afurðum á næstu 2-4 árum.
 
Næsta skref mun verða að þróa tækni til að vetnisbæta lífmassann og ná þannig enn meiri hagkvæmni. Slíkar rannsóknir eru þegar byrjaðar en árangur ennþá óljós. Þó svo vetnisbæting sé ekki forsenda þess að þessi iðnaður verði hagkvæmur, mun það styrkja mjög samkeppnisstöðu lífhráolíufyrirtækja og minnka áhættuna ef hráolíuverð úr jörðu lækkar umtalsvert. Vegna lægri nýtingar á íslenskum raforkuverum yfir nóttina yrði sáraeinfalt að stunda þessa vetnisframleiðslu hér án mikils tilkostnaðar (einnig væri mögulegt að nýta vindorku í vetnisframleiðsluna ef orkuþörfin yrði mikil).
 
Það eru sem sagt efnahagsleg skilyrði sem fyrst og fremst valda því að þessi iðnaður er fyrst að fara af stað nú. Réttu hvatarnir hafa ekki verið til staðar fyrr en á allra síðustu árum.
 
Með þeim vaxandi áhuga sem nú er þessum iðnaði er líklegt að kostnaðarlækkanir munu verða nokkuð örar á næstu árum - og mikilvægt að vera snemma á ferðinni til að ná tæknilegu forskoti. Þar með gæti íslensk þekking á þessum iðnaði orðið mikilvæg útflutningsþjónusta.

Orkusjalfstaett_Ísland_slide_10Að mati Orkubloggarans er þarna á ferðinni tækifæri sem kann að reynast mjög áhugavert fyrir Íslendinga og íslenskt atvinnulíf. Vegna hroðalegrar íhaldssemi í íslensku stjórnkerfi og skorts á áhættufjármagni, er því miður líklegast að ekki nóg verði gert til að láta það rætast að Ísland verði orkusjálfstætt og framleiði eigið eldsneyti fyrir samgöngutækin. Heldur mun orka Íslands halda áfram að fara í fleiri álver, íslenskt atvinnulíf þar með verða ennþá einhæfara en nú er, og dýrmætur gjaldeyrir halda áfram að fara í stórfelldan innflutning á bensíni og olíu. Nema einhver duglegur maður eða kona taki að sér að vinna þessari hugmynd brautargengi.


Olía næstu áratuga: Herðist kverkatak OPEC?

Stutt er síðan Orkubloggið boðaði þá miklu og djúpu speki að farið sé að þrengja að olíuauðlindum Vesturlanda. Og að smám saman muni OPEC geta hert snöruna og gert Vestrið sér æ háðara um olíuframboð.

Þessi ábending bloggsins var gerð af því tilefni að nú er svo komið að OPEC ásamt Rússum framleiða meira en helming allrar olíu í heiminum. Eru nú með um 55% framleiðslunnar og Vestrið líklega endanlega búið að tapa getu sinni til að viðhalda hlutfalli sínu í olíuframleiðslunni. Vegna hnignandi auðlinda og hægagangs í að finna nýjar stórar lindir.

Oil_Reserves_01Aukið hlutfall OPEC í olíuframleiðslu framtíðarinnar verður ennþá augljósara þegar litið er til þess hvar þá olíu er að finna sem enn er í jörðu. Þá er miðað við s.k proven reserves. Sem eru olíulindir sem hafa verið staðreyndar og  fremur lítil óvissa er um hversu mikilli olíu þær munu skila. Um proven reserves gildir líka að unnt er að ná þeirri olíu upp með viðunandi tilkostnaði. Eftir því sem tækninni fleygir fram og/eða olía hækkar í verði, verður efnahagslega hagkvæmt að vinna olíu á sífellt erfiðari svæðum. Þess vegna hafa sannreyndar, vinnanlegar olíubirgðir smám saman farið hækkandi. Og það stundum í risastórum stökkum.

Skammt er síðan proven reserves höfðu vaxið hvert einasta ár í heilan áratug, þrátt fyrir sívaxandi spádóma Bölmóðanna um að Peak Oil væri brostið á. Sem dæmi má nefna, að á síðustu tveimur áratugum hefur talan um sannreyndar olíuauðlindir Saudi Arabíu haldist nánast alveg óbreytt. Allan tímann - á næstum 20 ár - hafa olíulindir Sádanna verið álitnar hafa að geyma nálægt 270 milljörðum tunna. Samt hafa Sádarnir dælt upp u.þ.b. 60 milljörðum tunna á þessu tímabili. Þannig að fyrir hverja tunnu sem hefur komið upp, telja Sádarnir sig hafa fundið aðra vinnanlega tunnu. 

Árið 2008 kom loks að því að proven reserves minnkaði á milli ára. Það stafar af því að nýjar sannreyndar olíulindir náðu ekki að mæta hratt hnignandi lindum utan OPEC, þ.e. innan lögsögu Noregs, Kína og Rússlands. Sem sagt; sannreyndar olíubirgðir veraldar minnkuðu milli 2007 og 2008. En hafa ber í huga að aldrei nokkru sinni hefur jafn mikilli olíu verið dælt upp áeinu ári eins og einmitt 2008. 

Í reynd veit þó enginn fyrir víst hversu mikil olía er enn í jörðu. Tölurnar byggja að mestu á upplýsingum frá ríkjunum skjálfum. Vegna mikils vægis landa eins og Saudi Arabíu og Írans, sem eru utan vakandi auga Vesturlanda, eru uppi miklar efasemdir hvort trúa eigi tölunum frá OPEC. Bölsýnismenn í olíubransanum eru margir handvissir um að það sé hreinlega ekkert að marka tölur OPEC-ríkjanna; segja OPEC hafi tilhneigingu til að ýkja tölurnar stórlega í pólitískum tilgangi. Aðrir benda á að þessi krítík standist ekki, af því skynsamara væri fyrir OPEC-ríkin að gefa upp sem allra lægstar tölur, því þá myndi olíuverð samstundis hækka og þau fá meira fyrir sinn snúð.

Í olíuveröldinni er sem sagt ekki algjör samstaða! En bandaríska olíumálaráðuneytið áætlar að proven reserves nemi nú um 1.360 milljörðum tunna af olíu. Sem er nokkru meira en öll sú olía sem hefur verið dælt upp allt til þessa dags. Þeir ljúflingarnir á þurrlegum skrifstofum EIA í Washington DC trúa sem sagt alls ekki að peak oil hafi verið náð. Nefna má að talan þeirra um vinnanlega olíu, er nokkurn veginn sama tala og OPEC ber á borð (þeir tilgreina að birgðirnar séu samtals 1.300 milljarðar tunna).

OPEC_statesEn hvar er alla þessa olíu að finna? A.m.k. ekki á Drekasvæðinu né undir hafsbotni Norðurskautsins. Sú mögulega olía er ennþá bara getgátur og hefur ekki öðlast þá virðingu að teljast sannreynd. Langt frá því. Svarið við því hvar olía næstu áratuga er, er satt að segja fremur einfalt: Olían er við Persaflóann. Öll önnur olía er bara eitthvert afgangsgums.

Flestir eru sammála um að næstum 80% af þessum 1.360 olíutunnum séu innan lögsögu OPEC-ríkjanna. Þ.á.m. eru Arabaríkin, Íran og Venesúela. Nánar tiltekið segir bandaríska orkumálaráðuneytið að sannreyndar olíubirgðir OPEC nemi 940 milljörðum tunna, en sjálf segjast OPEC-ríkin ráða yfir rúmlega 1.000 milljörðum tunna. Sem fyrr segir er þetta nálægt 80% allrar olíu heimsins, sama hvor talan er notuð. Þau 20% olíunnar sem þá eru afgangs - smotteríið - eru að hluta til innan lögsögu Vesturlanda, en einnig innan landa eins og Kína og Rússlands.

OPEC-ríkin ráða sem sagt yfir hvorki meira né minna en 80% af þeirri olíu sem sótt verður úr jörðu næstu áratugina. Yfirgnæfandi hluti af þeirri olíu er í lögsögu Persaflóaríkjanna - á mjög afmörkuðu svæði undir Flóanum sjálfum og landsvæðum þar í kring. Hátt í 75% allrar vinnanlegrar olíu sem eftir er í veröldinni er á þessu órólega svæði við Persaflóann. Þau smávægilegu 5% sem eftir standa af 80 prósentunum í lögsögu OPEC, eru innan OPEC-ríkja utan Flóans. Eins og t.d. Venesúela og Nígeríu.

Oil_Reserves_16_Saudi-ArabiaÞað er athyglisvert að þrátt fyrir að mestöll olían sé innan lögsögu OPEC-ríkjanna, kemur "einungis" um 40% heimsframleiðslunnar frá OPEC í dag. Sé litið til olíulindanna sem eru sannreyndar í dag og ennþá er eftir að nýta, virðist augljóst að hlutfall OPEC í olíuframleiðslunni hljóti að eiga eftir að hækka verulega. OPEC er þekkt fyrir að reyna að pressa upp verðið. Það kann að verða enn auðveldara innan örfárra áratuga. Þess vegna snúast heimsmálin í reynd einungis um eitt atriði; yfirráð yfir olíuauðlindum. Að skapa mótvægi við OPEC - og þar að auki hrista Vesturlönd vopnabúr sín af og til, til að minna OPEC-ríkin á að ganga ekki of langt í að græða á olíufíkn Vesturlanda. Framboðið frá OPEC má ekki verða svo lítið að almenningur í Vestrinu ráði ekki við verðið og framboðið frá OPEC má ekki verða svo mikið að vestræni olíuiðnaðurinn skili tapi (olíuvinnsla Vesturlanda er miklu dýrari en hin hræódýra olía við Persaf´lóann).

Þarna er á ferðinni geggjaður línudans, sem hefur meiri áhrif á alþjóðastjórnmálin og efnahagslíf veraldarinnar en flesta grunar. Það skemmtilega er að æpandi skuldsetning Sádanna og fleiri OPEC-ríkja veldur því að þau þurfa helst að fá 60-70 dollara fyrir tunnuna til að lenda ekki í alvarlegum fjárlagahalla (þó svo sjálf olíuframleiðsla þeirra sé miklu ódýrari). Þetta er einmitt sama verð og hentar vestrænu olíufyrirtækjunum prýðilega og almenningur og fyrirtæki virðast þola. Þannig að í dag eru allir bara sæmilega ánægðir.

Reyndar teja margir, sem fyrr sagði, að OPEC-ríkin ofmeti birgðir sínar stórlega. Og það sé m.a. til að koma í veg fyrir að Vesturlönd setji allt á fullt í að finna orkugjafa sem geti leyst olíuna af hólmi. Sumir segja að í reynd séu sannreyndar olíubirgðir OPEC-ríkjanna einungis þriðjungur af því sem þau segja sjálf. Að mörg OPEC-ríkjanna hafi stórlega ofmetið auðlindir sínar og ekkert réttlæti massífa aukningu uppgefinna sannreyndra olíubirgða landa eins og t.d. Írans og nú síðast Venesúela.

Ef þessir efasemdarmenn hafa rétt fyrir sér, gæti það þýtt að meiriháttar olíukreppa sé á næsta leyti. En þetta eru getgátur og enginn getur fullyrt hvað sé rétt og rangt í þessu efni. Ekki einu sinni Orkubloggarinn! Sem er reyndar lítill aðdáandi samsæriskenninga. Hér verða tölurnar frá bandaríska orkumálaráðuneytinu matreiddar sem hinn ljúfi sannleikur. Þær ríma að langmestu leyti við tölur OPEC, með smávægilegum undantekningum. Listinn yfir þau ríki sem ráða yfir mestum olíubirgðum er þá sem hér segir:

1.  Saudi Arabía (aðili að OPEC).
Að sjálfsögðu eru Sádarnir í fyrsta sæti eins og allir lesendur Orkubloggsins auðvitað vita. Með birgðir upp á 267 milljarða tunna. Til samanburðar þá notaði heimurinn samtals um 31 milljarð tunna af olíu á liðnu ári (2008).

Oil_Reserves_15_Canada2.  Kanada.
Lof sé almættinu fyrir olíusanddrulluna  vestur í Alberta. Það er a.m.k. skoðun Bandaríkjamanna. Þegar olíuverð fór almennilega yfir 30 dollara varð ljóst að tímabært væri að ryðja friðsæla barrskógana norður af Calgary, skófla upp olíublönduðum jarðveginum, sulla yfir ógrynni af vatni þar yfir og kreista svo olíuna úr klístrinu með ofurhita frá gasorkuverum. Fyrir vikið rauk Kanada eins og hendi væri veifað í annað sæti yfir ríki með mestu sannreyndu, vinnanlegu olíubirgðir í heimi. Þær eru nú áætlaðar 178 milljarðar tunna. Olíusandurinn hefur stóraukið olíuframleiðslu Kanadamanna, sem nú sjá Bandaríkjunum fyrir um 20% af allri olíunni sem þessi mesti olíusvolgrari heimsins notar.

3.  Íran (aðili að OPEC).
Í þriðja sæti eru bestu vinir Orkubloggarans; Persarnir. Með 138 milljarða tunna  af þekktum vinnanlegum olíubirgðum. Í dag fá Bandaríkjamenn ekkert af þessari olíu. En eru aftur á móti búnir að tryggja sér sæmilegan aðgang að olíulindum nágrannana; Írakanna:

Oil_Reserves_14_Iran4.  Írak (aðili að OPEC).
Í dag eru olíulindir Íraks taldar nema 115 milljörðum tunna. Í reynd hefur bæði olíuiðnaðar Íraks og Íran lengi þjáðst af miklum fjármagns- og tækniskorti. Það er því ekki ólíklegt, nú þegar menn fara á ný að koma góðum skikk á olíuleit í Írak, að proven reserves þar hækki brátt umtalsvert. Bjartsýnir telja að Írak lumi jafnvel á meiri olíu en Saudi Arabía. Persaflóastríðin tvö - stríðið við Íran og innrásin í Kuwait - höfðu skelfilegar afleiðingar fyrir íraska olíuiðnaðinn. Hugsanlega verður brátt búið að staðreyna allt að 100 milljarða tunna í viðbóta af olíu í Írak. Það myndi gera Írak að næstmesta olíuveldi veraldar - og kannski finnst þar jafnvel enn meiri olía en í sjálfri Saudi Arabíu. En auðvitað hafði ákvörðun Bush um innrás í Írak ekkert með olíu að gera. Geisp.

5.  Kuwait (aðili að OPEC).
Sem kunnugt er vakti það litla hrifningu í Vestrinu þegar Saddam Hussein réðst inní Kuwait. Sannreyndar olíubirgðir Kúveita eru 104 milljarðar tunna. Say no more.

Masdar_City_016.  Sameinuðu arabísku furstadæmin (UAE) (aðili að OPEC).
Sameinuðu arabísku furstadæmin eru bandalag sjö smárra furstadæma sunnan Kuwait. Þekktar olíuauðlindir þar í jörðu nema um 98 milljörðum tunna. Þar af er langmest af þessu svarta gulli UAE í furstadæminu Abu Dhabi. Sem kunnugt er ætlar Abu Dhabi ekki að láta sér nægja að vera eitt mesta olíuveldi heimsins, heldur hafa ljúflingarnir þar mikil plön á sviði endurnýjanlegrar orku. Þar er sólarorkan eðlilega mest spennandi, en Arabarnir í Abu Dhabi eru einnig mjög áhugasamir um vindorku og munu einnig eiga góða möguleika í jarðvarma. Það virðist ekki hafa farið hátt hér á landi að nú í haust var Guðmundur Þóroddsson, fyrrum forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, að gera laufléttan jarðhitadíl þarna suður í eyðimörkinni ásamt félögum sínum í fyrirtækinu Reykjavík Geothermal. Og fyrr á þessu ári var ákveðið að aðalstöðvar hinna nýstofnuðu alþjóðasamtaka um endurnýjanlega orku (IRENA) verði staðsett í Abu Dhabi. Sem sagt mikið að gerast hjá furstanum í Abu Dhabi.

7.  Venesúela (aðili að OPEC).
Annar mikilvægasti olíunágranni Bandaríkjamanna er ekki alveg jafn vinsamlegur eins og Kanada. Í Venesúela eru þekktar, vinnanlegar olíulindir upp á 99 milljarða tunna. Þarna mun olíueðjan við Orinoco-fljótið  skipta öllu máli til framtíðar. Olíusandurinn þar hefur hugsanlega að geyma meira en 100 milljarða tunna í viðbót! Enn sem komið er, telst þetta ekki sannreynd auðlind, en hafa má í huga að til eru ennþá bjartsýnni spár sem hljóða upp á næstum 300 milljarða tunna af olíusandi við Orinoco. Með nútíma tækni og olíuverði dagsins í dag, verður þess vart langt að bíða, að þarna bætist miklar olíubirgðir við auðlindir Venesúela og þar með í olíubókhald OPEC-ríkjanna.

Oil_Reserves_09_ Russia8.  Rússland.
Rússland er mesti olíuframleiðandi heims í dag. En þó aðeins í áttunda sætinu yfir þau ríki sem búa yfir mestum þekktum olíuauðlindum. Þó svo Rússland sé ekki í OPEC eru ýmsir á Vesturlöndum sem sjá Rússana ekki beint sem sína bandamenn í olíuveröldinni. Enda hefur verið til tals að Rússarnir gangi inn í OPEC. Hvort sem það rætist eður ei, þá eru sannreyndar olíulindir Rússa metnar sem nemur 60 milljörðum tunna.

9.  Líbýa (aðili að OPEC).
Gaddafi hershöfðingi ræður yfir 44 milljörðum tunna af olíu í jörðu. Þarna er á ferðinni enn ein risaolíuþjóðin, sem hefur um langt skeið nánast ekki flutt einn einasta olíudropa til Bandaríkjanna. Og það virðast helst vera evrópsk olíufélög, sem þess dagana ná að komast með puttana í líbýsku olíulindirnar. Eins og Orkubloggið greindi einmitt nýlega frá.

Oil_Reserves_07_Nigeria10.  Nígería (aðili að OPEC).
Þó svo Angóla sé helsti olíuspútnik Afríku þessa dagana, eru mestu þekktu olíuauðlindir álfunnar svörtu í lögsögu Nígeríu. Þær eru metnar sem 36 milljarðar tunna.

11.  Kazakhstan.
Í stærsta landlukta ríki heims ræður Nursultan nokkur Nazarbayev ríkjum. Eitthvað hefur gengið rólega hjá Nazarbayev að berjast gegn æpandi spillingu í landinu, enda erfitt við að eiga þegar 30 milljarðar olíutunna  eru annars vegar. Þ.á m. eru einhverjar mestu olíulindir veraldar; Tengiz-lindirnar á votlendissvæðum við norðausturströnd Kaspíahafsins. Sem aðdáendur George Clooney kvikmyndarinnar Syriana kannski kannast við.

12.  Bandaríkin.
Loksins, loksins. Sannreyndar olíubirgðir í lögsögu Bandaríkjanna eru metnar rúmlega 21 milljarður tunna. Það er talsvert, en stærsta vandamál Bandaríkjanna er kannski það að þar búa einungis 5% jarðarbúa en þeir nota 25% allrar olíunnar. Ellefu ríki búa yfir meiri olíubirgðum en Bandaríkin og af þessum ellefu ríkjum er einungis eitt sem getur talist almennilega trúr bandamaður Bandaríkjamanna. Þar er auðvitað átt við Kanada. Þetta þykir Bandaríkjamönnum auðvitað súrt - fíkillinn vill síður að allir dílerarnir séu óvinir hans. Þetta er tvímælalaust stærsta vandamálið sem Bandaríkjamenn standa frammi fyrir. Ef Orinoco-svæðið í Venesúela reynist hafa að geyma jafn mikið af vinnanlegum olíusandi, eins og sumir gæla við, er líklegt að Bandaríkjamenn horfi ekki þegjandi upp á það að Chavez hleypi Kínverjunum endalaust inn á svæðið. Kannski tímabært að endurvekja Monroe-kenninguna?

Oil_Reserves_04_China13.  Kína.
Kína ræður nú yfir 16 milljörðum tunna af olíu innan sinnar lögsögu, en þrátt fyrir miklar olíulindir þarf Kína að flytja inn stóran hluta af allri olíunni. Framtíð olíuiðnaðarins mun að miklu leyti ráðast af því hversu hratt eftirspurnin eykst frá Kína. Þrátt fyrir gríðarlegan efnahagsvöxt notar kínverska þjóðin enn miklu minni olíu miðað við fólksfjölda en gengur og gerist á Vesturlöndum. Ef ekki hægist á eftirspurninni frá Kína gæti olíukreppa skollið á innan fárra ára. Þ.e. að framboðið nái ekki að mæta eftirspurninni. Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá.

14. Katar (aðili að OPEC).
Katar er kolvetnisauðugasta ríki veraldar. Það eru aðallega risastórar gaslindir sem skapa Katörum þennan mikla auð. Engu að síður er líka gríðarlega mikið af olíu í lögsögu Katar. Rúmlega 15 milljarðar tunna. Það gefur kuflklæddum íbúum leiðindaborgarinnar Doha 14. sætið yfir mestu olíulindir veraldar.

15.  Alsír (aðili að OPEC).
Bandaríska orkumálaráðuneytið setur Alsír í 15. sætið yfir þau lönd sem búa yfir mestum þekktum olíuauðlindum. Með um 12 milljarða tunna. Á þessum sömu slóðum er annað OPEC-ríki; Angóla. Svo eru bæði Brasilía og Mexíkó með svipað magn af þekktum vinnanlegum olíulindum. Mexíkó er þó á hraðri niðurleið í sinni framleiðslu. En það er a.m.k. næsta víst að öll þessi ríki eru nálægt því að búa yfir 12 milljörðum tunna af sannreyndum vinnanlegum olíulindum.

En þar með eru upptalin öll lönd sem geta talist eiga eftir að vinna meira en 10 milljarða tunna af olíu úr jörðu, m.v. þekkta tækni og líklegt olíuverð næstu árin og áratugina. Að vísu mætti rifja hér upp að norsk skotthúfa hefur sagt að það séu 10 milljarða tunna af olíu í íslenskri lögsögu - reyndar að íslenska Drekasvæðið eitt og sér geti skilað því magni. Þá eru væntanlega svona 20-30 milljarar tunna í viðbót á Keilisdjúpi og víðar undir landgrunni Íslands. Þar með yrði Drekasvæðið eitthvert mesta olíusvæði veraldarinnar og Ísland myndi sökkva undan öllum peningunum. Sniðugt.

World_Oil_Reserves_MapHér hafa verið nefnd þau 15 lönd sem ráða yfir mestu olíuauðlindum heimsins. Það er athyglisvert að ekki eitt einasta Evrópuríki kemst hér á blað (Rússland telst hér Evrasíu ríki). Samtals eru t.d. allar sannreyndar olíulindir ESB-ríkjanna samanlagt taldar vel innan við 6 milljarðar tunna. Sem er náttlega barrrasta ekki í nös á ketti. Innan ESB búa 500 milljónir manna, sem gerir bandalagið að næst fjölmennasta efnahagskerfi heimsins (á eftir Kína). Er nema von að sumir segi Evrópu dæmda til glötunar í orkuveröld framtíðarinnar?

Í Speglinum nú í kvöld var vitnað í sænskar efasemdir um að ekkert sé að marka olíuspár IEA og að spár þeirra séu alltof háar vegna pólitísks þrýstings frá Bandaríkjunum. Þar með er í raun verið að segja, að ekkert sé heldur að marka tölurnar frá bandaríska orkumálaráðuneytinu. Í huga Orkubloggarans er þetta svona álíka gáfulegt kenning eins og ruglið skemmtilega í X-files þáttunum. Af hverju í ósköpunum ættu Bandaríkjamenn eða aðrir íbúar Vesturlanda ekki að þora að horfast í augu við það, ef miklu minni olía er í jörðu en haldið hefur verið fram? Olían sem eftir er, er hvort sem er nánast öll á Persaflóasvæðinu og hjá ljúflingum eins og Pútín og Chavez. Eins og það sé eitthvað sérstaklega gott fyrir Bandaríkin að ýkja þessar tölur! Nebb.

Oil_Rig_flare_NGOrkubloggið leyfir sér að endurtaka það sem sagði hér að ofan: Í reynd veit enginn fyrir víst hversu mikil olía er enn í jörðu. Og enginn veit hvernig olíuverð mun þróast. Ef það helst hátt verður hagkvæmt að vinna olíusandinn við Orinoco-fljótið. Og þá verður líka hagkvæmt fyrir Bandaríkjamenn og Kínverja að vinna olíu úr kolunum sínum, sem nóg er af. Orkugeirinn er ein allsherjar óvissa og það þarf engar samsæriskenningar til að varpa dulúð á þennan gljáandi svarta iðnað. Þar er þokan hvort eð er alls ráðandi. Málið er hlusta vel á þokulúðrana, sem óma úr öllum áttum og reyna átta sig á hver besta stefnan er. Í huga Orkubloggarans væri það hugsanlega skynsamlegasti kúrsinn fyrir okkur Íslendinga, að nota orkuna úr iðrum jarðar til að framleiða sjálf olíuna sem við þurfum. Meira um það í næstu færslu.

 


Beaty, HS Orka og ESB

Það var að koma út skýrsla um erlendar fjárfestingar á Íslandi.

Capacent_glacier_logoÞað er Capacent Glacier  sem stendur að útgáfunni og þykir Orkubloggaranum þarna hafa tekist nokkuð vel til. Hér ætlar bloggarinn þó að láta nægja að vekja sérstaklega athygli á því sem kemur fram á bls. 5 í umræddri skýrslu, um afstöðu Íslendinga gagnvart erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi og orkuframleiðslu (skv. könnun Capacent Gallup í september s.l.). Þar kemur fram að um 56% svarenda eru hlynntir erlendri fjárfestingu í orkuframleiðslu á Íslandi og 58% hlynntir erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi.

Tekið skal fram að líklega er þarna eingöngu litið til þeirra sem töku afstöðu í könnuninni. Og Orkubloggarinn gat í fljótu bragði ekki séð á skýrslunni hvert svarhlutfallið var, né úrtakið. En satt að segja varð bloggarinn nokkuð undrandi að sjá hversu margir Íslendingar virðast hlynntir fjárfestingu útlendinga í þessum grunnstoðum efnahagslífsins. Miðað við þessar niðurstöður ætti leiðin að ESB að verða tiltölulega greið. Enda er það líklega eina vitið fyrir Íslendinga.

Samt sýna skoðanakannanir nú mikla andstöðu við ESB-aðild Íslands. Auðvitað væri gaman ef Ísland gæti staðið á eigin fótum, þyrfti aldrei að hlusta á útlendinga og samt notið alls þess besta sem frá útlöndum kann að koma og átt fullan aðgang að t.d. menntun erlendis og að selja þangað vörur og þjónustu. Slík hugmyndafræði er bara dálítið absúrd. Og satt að segja veit Orkubloggarinn ekki til þess að erlendar fjárfestingar hafi valdið okkur tjóni. Þvert á móti var það lánsfé sem Íslendingar sjálfir sóttu sér, sem gerði okkur mestan grikk.

Ross_Beaty_rockUmrædd skýrsla var kynnt á ráðstefnu Capacent fyrr í dag. Meðal ræðumanna var einn af þessum voðalegu mönnum, sem vilja leggja fjármagn inn í íslenskt atvinnulíf: Kanadíski jarðfræðingurinn Ross Beaty, sem nýverið stóð að kaupum Magma Energy á stórum hlut í HS Orku. Þó svo hann reyndist ekki sami töffarinn og Orkubloggarinn hafði ímyndað sér af ljósmyndum og eyddi kannski óþarflega mörgum orðum í að smjaðra fyrir dugnaði Íslendinga, verður að segjast eins og er: Það er erfitt að ímynda sér af hverju í ósköpunum fjármálaráðherra vor hafi beinlínis lagst gegn því að Magma eignist HS Orku.

Vissulega geta menn haldið því fram að Magma, sem lagði út 30% kaupverðsins og greiddi 70% með skuldabréfi, hafi fengið góðan díl. En hafa ber í huga að Magma hefur líka skuldbundið sig til að leggja fram verulegt fjármagn í tengslum við nýjar framkvæmdir á vegum HS Orku. Ekkert bendir til annars en þarna sé á ferðinni einlægur langtímafjárfestir, sem vill veg HS Orku sem mestan og um leið að fyrirtækið verði að sem allra mestu gagni fyrir samfélagið.

Til eru þeir sem botna hreinlega ekkert í því hversu rausnarlegur Ross Beaty var í þessum viðskiptum, m.v. helstu kennitölur í reikningum HS Orku. Hrista t.d. höfuðið yfir því að hann skuli hafa greitt vel yfir tuttugufalt EBITDA. Fyrir hlut í fyrirtæki sem líklega sé ennþá rekstrarlega blindað af áður auðfengnum tekjum frá bandaríska hernum og var orðið nánast á framfæri kröfuhafanna. Þegar upp verði staðið megi Beaty þakka fyrir ef Magma nær 3% arðsemi af þessari fjárfestingu sinni. Þetta sé svo fáránleg fjárfesting að það eina sem geti vakað fyrir Beaty, sé að eignarhlutur í íslensku jarðhitafyrirtæki sé góð leið til að opna meiri möguleika í alþjóðlega jarðhitageiranum. Þetta sé sem sagt frekar snjöll taktík hjá Beaty, heldur en að þetta sé hugsað sem arðbær leikur. Segja sumir.

svartsengi_steamSjálfur telur Orkubloggarinn reyndar að sjálft verðið sem Magma greiddi fyrir HS Orku hafi verið lágt. Án þess að ætla að rökstyðja þá skoðun hér og nú. Hreinlega reyfarakaup. En að vera á móti því að Beaty og Magma eignist stóran eða jafnvel ráðandi hlut HS Orku - bara af því hann er ekki með íslenskt ríkisfang og Magma útlenskt fyrirtæki - er algerlega útí hött.

Slík pólitík er einungis til þess fallin að verða enn eitt lóðið á einhverja misskilda og skemmandi þjóðernisrembu. Sem virðist því miður þjaka alltof marga Íslendinga og mun sennilega koma í veg fyrir að við getum nýtt okkur náið og vinsamlegt samstarf flestra annarra ríkja Evrópu. Þó svo Orkubloggarinn sé æpandi reiður hollenskum og breskum stjórnvöldum vegna framkomu þeirra í Icesave-málinu, mun raunsæi stýra atkvæði bloggarans. Þegar og ef til þess kemur að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Stóra vandamálið í viðræðunum verður líklega sjávarútvegsstefnan. ESB mun vonandi skilja rök þess efnis að fiskveiðilögsaga Íslands snertir hvergi lögsögu annarra ESB ríkja og því algerlega útí hött að láta sér detta í hug að færa ákvarðanir um kvóta á Íslandsmiðum til stofnana ESB. Við eigum að geta náð réttri niðurstöðu um fiskveiðistjórnunina. Aftur á móti verðum við að gefa eftir sérreglur um fjárfestingar í sjávarútvegi. Og það yrði auðvitað súrt að kyngja því t.d. að Ísland missi umboð til að gera sjálft viðskiptasamninga við ríki utan ESB. En eins og í öllum samskiptum milli þjóða byggist raunhæfur samningur á því að litið sé til hagsmuna beggja aðila.

globe-europeÞó svo sjálfstæðisdraumur Bjarts í Sumarhúsum búi í brjósti bloggarans, telur hann yfirgnæfandi líkur á því að aðild Íslands að ESB myndi einfaldlega skapa börnum okkar betri framtíðarmöguleika og enn meiri tækifæri. Það hlýtur að vera lykilatriðið. Þess vegna mun bloggarinn segja já við aðild.

Það breytir því þó ekki að Orkubloggarinn á von á því að meirihluti íslenskra kjósenda muni hafna aðild. Og er óhræddur að takast á við það - með hinum ævintýralegu dýfum á krónunni og ofsfengnu sveiflum í íslensku efnahagslífi. Innst inni hefur bloggarinn alltaf haft svolítið gaman af þessum fáránlega óstöðugleika, sem hefur einkennt íslenskt efnahagslíf allt frá fæðingu hans - og auðvitað miklu lengur. Það er nefnilega einhver dularfullur sjarmi yfir þessari þrjósku og þrautseigu þjóð hér í norðri. Sem kannski gerir það þess virði að við berjumst áfram ein á báti við bæði náttúruöflin og alþjóðasamfélagið - með krónuna að vopni. Sama hver niðurstaðan gagnvart ESB verður, mun Orkubloggarinn horfa bjartsýnn fram á veginn.


Landsvirkjun laus úr tröllasal?

I.

Þegar Orkubloggarinn var snáði var einn föstu liðanna á dagskránni svohljóðandi: Alltaf á lokasprettinum þegar ég var á leið heim að Kirkjubæjarklaustri með foreldrum mínum úr kaupstaðnum (Reykjavík) þurfti ég að fá að heyra sömu frásögnina. Söguna um tröllskessuna í Holtsborginni sem fór að heimsækja vinkonu sína sem bjó austur í Orrustuhól. Skessuna sem sat of lengi yfir næturkaffinu hjá hinni ófrýnilegu vinkonu og varð að steini á heimleiðinni þegar fyrstu geislar sólarinnar birtust yfir Öræfajökli.

eldhraun_3Alltaf var þessi saga jafn skemmtileg og spennandi. Það var föst venja þegar komið var austur í Eldhraun og Holtsborgin kom í ljós, að þá minnti ég mömmu á tröllskessurnar og fékk söguna. Það stytti síðustu kílómetrana á grófum og seinförnum malarveginum uns Systrastapi blasti við rétt vestan við Klaustur. Og alltaf leið mér jafn vel að koma heim og vorkenndi vesalings börnunum sem bjuggu í kaupstaðnum!

Á þessari leið áður en komið er að Klaustri var ekið framhjá merkum raforkuslóðum. Vegna þess að bæði lá leiðin þá framhjá afleggjaranum að Svínadal vestan við Eldvatn og svo auðvitað framhjá Hólmi   í Landbroti. Á báðum þessum bæjum átti sér stað stórmerkilegt framtak, sem var þýðingarmikið skref á leið Íslendinga til nútímans og eins konar undanfari í rafvæðingu Íslands.

Þarna austur í núverandi Skaftárhreppi voru í áratugi smíðaðar túrbínur (hverflar) fyrir heimarafstöðvar bænda. Þetta ævintýri byrjaði löngu áður en íslensk stjórnvöld hófu af alvöru að reisa virkjanir. Lengi vel var Elliðaárstöð eina umtalsverða íslenska virkjunin (byggð 1920-21, með aflgetu upp á u.þ.b. 1 MW). Það var svo ekki fyrr en 1937 að Ljósafossstöð kom í gagnið (með tæplega 9 MW framleiðslugetu). Rafmagnið frá báðum þessum virkjunum var fyrst og fremst ætlað Reykvíkingum. Rafvæðingin á landsbyggðinni byggðist aftur á móti á framtaki hugvitsmanna í héraði, sem reistu heimarafstöðvar með skaftfellskum túrbínum víða um land. Það var svo loks á 6. áratugnum að almennileg hreyfing komst á virkjanaframkvæmdir stjórnvalda, þegar Írafossstöð og fleiri virkjanir voru reistar.

Svolitid_rafmagnVið byggingu heimarafstöðvanna fóru fremstir í flokki þeir Bjarni Runólfsson í Hólmi og Svínadalsbræðurnir Eiríkur og Sigurjón Björnssynir. Þetta voru miklir hagleiksmenn og nánast með ólíkindum hversu vel þeir náðu tökum á þeirri verklist að smíða túrbínur og setja upp virkjanir við jafnvel ótrúlega litla bæjarlæki.

Í dag er óneitanlega rólegra yfir þessum tveimur sveitabæjum heldur en var hér á árum áður þegar þetta voru sannkölluð tæknisetur. Svínadalur er kominn í eyði og í Hólmi er líkt og tíminn hafi staðið í stað í áratugi. Enn má þó sjá minjar frá þessum merku tímum bæði í Svínadal og Hólmi.

Svinadalur_jardbor_01Í Svíndal má líka ennþá sjá gamla jarðborinn í litla gilinu ofan við bæinn. Hvar Orkubloggarinn tók meðfylgjandi ljósmynd af bornum fyrir fáeinum dögum. Þessi heimasmíðaði jarðbor þeirra Svínadalsbræðra mun hafa verið notaður til að bora eftir vatni, en minnir mest á olíuborana frá fyrstu kynslóð olíualdarinnar vestur í Bandaríkjunum. Þeir Eiríkur og Sigurjón hefðu eflaust orðið olíubarónar, hefðu þeir fæðst vestur í Texas!

Margar af gömlu heimarafstöðvunum eru ennþá starfandi - aðrar hafa lokið hlutverki sínu. Stærri virkjanir þykja almennt hagkvæmari kostur í dag. Nefna má að þarna eystra er nú á dagskrá virkjun í Hverfisfljóti. Upphaflega var hún hugsuð sem nett rennslisvirkjun upp á örfá MW. En svo var gerð krafa um umhverfismat, sem er ansið kostnaðarsamt fyrir ekki stærri virkjun, og í framhaldinu var ákveðið að virkjunin yrði mun öflugri. Byrjað var að vinna út frá hugmynd um 15 MW virkjun, en á allra síðustu vikum hefur verið til skoðunar ennþá aflmeiri virkjun á vatnsaflinu í Hverfisfljóti. Þarna eru hugsanlega á ferðinni metnaðarfyllstu virkjanaáform einstaklinga á Íslandi. A.m.k. síðan Einar Ben og Fossafélagið Títan var og hét.

 

II.

Menn bíða enn eftir hvaða plön Landsvirkjun hefur vegna Skaftár. Eða eins og einn landeigandi í Skaftártungu orðaði það við mig nýlega: „Ef Landsvirkjun ákveður að virkja þá bara kemur hún og tekur landið sem hún vill af fólki og virkjar. Við fáum engu ráðið". Sennilega ekki óalgengt viðhorf gagnvart þessu mikilvæga fyrirtæki, sem hefur ekki beinlínis náð að starfa í sátt við umhverfi sitt. 

Thorolfur_ungurÞað verður spennandi að sjá hvernig nýr forstjóri mun móta ásýnd Landsvirkjunar. Þegar forstjórastaðan var auglýst um daginn, var Orkubloggarinn reyndar að vona að einhver alflinkasti, heiðarlegasti og mest sjarmerandi stjórnandinn úr verkfræðingahópi Íslands myndi sækja um starfið. Sem auðvitað er Þórólfur Árnason.

Orkubloggarinn minnist þess þegar Þórólfur - þá kornungur verkfræðinemi- dvaldi um skeið austur á Klaustri og var þar að skoða gömlu vatnsaflsvirkjanirnar sem hugvitsmenn í héraðinu smíðuðu á fyrstu áratugum 20. aldar. Þó svo skemmtilegast væri að sparka fótbolta með Þórólfi úti á túni (hann var ofboðslega flinkur með boltann) var samt líka gaman að lesa það sem hann skrifaði um muninn á Francistúrbínum, Kaplantúrbínum og Peltontúrbínum. Sem Skaftfellingarnir smíðuðu löngu áður en íslenska ríkið fór að huga að virkjun vatnsaflsins.

Í huga Orkubloggarans lauk þessum þætti eldhuganna í virkjanasögu Íslands að sumu leyti nú í sumar. Þegar minn gamli nágranni Jón Björnsson úr Svínadal lést í hárri elli, en hann bjó alla mína barnæsku ásamt Ingibjörgu konu sinni örstutt vestan við okkur; hinum megin við túnið. Þarna átti ég lengi heima undir hlíðinni á Kirkjubæjarklaustri - þar sem ilmurinn frá birkiskóginum er hvað sterkastur og hamingjusamur tjaldurinn vakti mann um bjartar sumarnætur með gleðiköllum sínum í ánamaðkaveislu á nýslegnu túni.

Klausturvirkjun_inntakslonJón var einmitt bróðir áðurnefndra Eiríks og Sigurjóns Björnssona úr Svínadal og var um áratugaskeið frystihússtjóri og umsjónarmaður heimarafstöðvarinnar á Klaustri. Vatnið í rafstöðina er tekið ofan af heiðinni úr Systravatni, en lítið inntakslón er þar við vatnið. Rörið liggur svo frá inntakslóninu og niður hlíðina á þeim slóðum sem göngustígurinn sveigist milli trjánna upp á fjallsbrúnina.

Fallhæðin er tæpir 80 metrar og lengd rörsins mun vera um 170 metrar. Þegar ég var lítill var skúrinn þar sem rörið kemur upp hjá inntakinu stundum ólæstur (hengilásinn brotinn). Þá freistaðist maður til að kíkja inn og horfa í sogandi hringiðuna, þar sem vatnið svolgraðast ofan í rörið. Og einstaka sinnum jafnvel feta sig eftir örmjórri steyptri bríkinni í kringum hringiðuna. Það var í senn dáleiðandi og ógnvekjandi.  "Hvað ef maður dettur!" Svo var hlaupið að sjálfu Systravatni og sullað þar í endalausri blíðu bernskuáranna.

Systrafoss_2Margir ferðamenn ganga á sumri hverju eftir stígnum í gegnum birkiskóginn og upp á fjallsbrúnina á þeim slóðum sem rörið liggur niður hlíðina. Þarna má í dag sjá glitta í hálfs metra breitt ryðlitt rörið undir mosanum efst í brekkunni ef vel er gáð. Þessar virkjunarframkvæmdir fóru fram á stríðsárunum - í upphafi 5. áratugarins. Mannvirkin eru sem sagt orðin hátt í sjö áratuga gömul. Sjálf túrbínan var smíðuð af Sigurjóni, bróður Jóns, og hefur snúist allan þennan tíma nánast viðhaldsfrí. Stöðin getur framleitt um 110 kW, en túrbínan mun vera ein sú stærsta sem smíðuð hefur verið á Íslandi. Sem sagt mikill merkisgripur.

Sjálft stöðvarhúsið liggur í gömlu húsaþyrpingunni sem sjá má við malarplanið vestast á Kirkjubæjarklaustri. Þar var jafnan mikill hávaði þegar maður leit við hjá Jóni og smurolíuangan í loftinu. Þaðan fengum við alla tíð rafmagnið heima hjá okkur. Jón var með litla afstúkaða skrifstofuaðstöðu inni í stöðvarhúsinu og ekki man ég betur en að þar hafi hann oft lumað á góðgæti handa okkur krökkunum. Og ég minnist margra ljúfra stunda sem smápatti heima hjá þeim Jóni og Imbu, hvar ég var svo oft í saltfiski í hádeginu á laugardögum og horfði á Stundina okkar á sunnudögunum. Alltaf notalegt að rifja upp þessar hlýju minningar.

 

III.

En aftur að Landsvirkjun. Orkubloggarinn hefur ekki hugmynd um hvort Þórólfur Árnason hafði áhuga á starfi forstjóra Landsvirkjunar. Enda var ekki gefið upp hverjir umsækjendurnir voru. En nú er alla vega búið að ganga frá ráðningu Harðar Arnarsonar  í starfið. Hann er líklega kunnastur fyrir það að hafa verið forstjóri Marel og nú síðast önnum kafinn við að bjarga því sem bjargað varð hjá sukkfyrirtækinu Sjóvá.

Holmur_taekiRifja má upp að í árslok 2006 varaði Hörður við peningastefnu Seðlabankans og stjórnvalda, sem hann sagði misheppnaða. Og þarna í desemberlok 2006 hafði Hörður einnig á orði, að íslenskir stjórnmálaflokkar og hagsmunasamtök þurfi að taka upp málefnalega umræðu um mögulega aðild Íslendinga að ESB og upptöku evru. Þessar varfærnu ábendingar Harðar um að ekki væri allt í stakasta lagi í íslensku efnahagslífi, í hinu alræmda áramótablaði Markaðarins við árslok 2006, eru athyglisverðar í ljósi þess sem nú hefur gerst. Orð hans voru óneitanlega nokkuð á skjön við hástemmdar yfirlýsingar og hlægilegt froðusnakk nánast allra annarra viðmælenda blaðsins um styrkar stoðir íslensks efnahagslífs og einstaka meðfædda ákvarðanasnilld Íslendinga. Vonandi mun Hörður áfram lesa glöggt í framtíðina og ná að stýra Landsvirkjun í farsæla höfn.

Systravatn_hvonnÞað sem er sérstaklega athyglisvert í sambandi við ráðningu Harðar sem forstjóra Landsvirkjunar, er að hann vann með Framtíðarlandinu. Sem fær suma virkjunarsinna til að sjá rautt. Þetta hlýtur að boða nokkuð afgerandi tímamót í sögu Landsvirkjunar. Að þar komi forstjóri, sem tengist þeim sem harðast hafa gagnrýnt Kárahnjúkavirkjun og ýmislegt annað í starfsemi Landsvirkjunar. T.d. hvernig fyrirtækið lét markaðssetja Ísland sem Álparadís með orkuútsölu, eins og lýst er í bók Andra Snæs.

Miðað við þann farsæla rekstur sem oft er sagður hafa einkennt flestar virkjanir Landsvirkjunar gegnum tíðina, er fjárhagsstaða fyrirtækisins í dag heldur nöturleg. Nú er svo komið að skuldir Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar gætu komið fyrirtækinu í veruleg vandræði. Reyndar ætti ríkið að hætta þessari vitleysu að gefa stóriðju afslátt  á grundvelli ríkisábyrgðar á virkjanaframkvæmdir. Ef raforkuframleiðsla fyrir stóriðju getur ekki staðið undir sér án slíkrar ábyrgðar, þá er eitthvað athugavert við bissness-módelið. Það er ekkert flóknara.

Hordur_Arnarson_4En hvað sem því líður, þá boðar aðkoma Harðar Arnarsonar vonandi bjarta tíma hjá Landsvirkjun. Og að fyrirtækið verði til framtíðar í ríkara mæli rekið í takt við bæði samfélagið og eðlileg viðskiptasjónarmið. Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld líka að hætta með ríkisábyrgðina og láta Landsvirkjun að standa á eigin fótum.

 


Frjálsa olían á niðurleið

Þegar rætt er um olíuuppsprettur heimsins er þeim gjarnan skipt gróflega í tvennt: Um 40% heimsframleiðslunnar kemur frá OPEC-ríkjunum og um 60% frá ríkjunum utan OPEC. Þetta hlutfall hefur haldist furðufast síðustu 20-25 árin eða svo.

OPEC_Oil_BarrelsInnan OPEC  eru nokkrir af stærstu olíuframleiðendum heims. Eins og t.d. Alsír, Angóla, Íran, Írak, Katar, Kuwait, Líbýa, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Saudi Arabía og Venesúela. Sannarlega glæsilegur hópur.

Ríkin utan OPEC, sem lengi vel hafa framleitt u.þ.b. 60% olíunnar, eru afar mislit hjörð. En þarna eru t.a.m. allir olíuframleiðendurnir á Vesturlöndum; t.d. Bandaríkin, Kanada, Mexíkó, Noregur og Bretland. Og líka Kína og Brasilía. Og auðvitað Rússland!

Þegar aftur á móti er litið til þess hvaða ríki eru mestu olíuinnflytjendurnir annars vegar og olíuútflytjendurnir hins vegar, kemur eftirfarandi í ljós: Þeir sem flytja inn olíu eru nær öll OECD-ríkin, ásamt Kína og Indlandi. Og þeir sem eru helstu olíuútflytjendurnir eru OPEC-ríkin, auk vestrænu olíuveldanna Noregs og Mexíkó. Og auðvitað Rússland!

OPEC_russia-g8Það má því segja að veröld olíunnar hvíli á tveimur stoðum. Önnur stoðin er OPEC. Hin er Rússland. Þetta eru stóru aðilarnir í framleiðslu OG útflutningi á olíu. Okkur hinum er þar af leiðandi afar mikilvægt að fá olíu frá þessum tveimur stoðum - helst á sem bestu verði.

Hlutfall OPEC í olíuframleiðslunni hefur í grófum dráttum haldist lítið breytt síðustu tvo áratugi. OPEC-ríkin leitast við að stýra framboðinu, meðan ríkin utan OPEC aðhyllast aftur á móti (flest) frjálsan markaðsbúskap. Sökum þess að olíuverð hefur nánast alltaf haldist mun hærra en sem nemur kostnaði í olíuvinnslu, hafa olíufyrirtækin á Vesturlöndum lengst af reynt að framleiða eins mikið af olíu og mögulegt er. OPEC hefur aftur á móti verið í því hlutverki að reyna að bremsa framboðið af, til að fá sem allra hæst verð fyrir olíuna sína.

Það er óneitanlega mjög athyglisvert að skoða valdabaráttuna í olíuiðnaðinum. Þar virðist lengi vel hafa ríkt ákveðið valdajafnvægi. Þar sem OPEC hefur "leyft" Vesturlöndum og öðrum ríkjum utan OPEC að vera með u.þ.b. 60% af olíuframleiðslunni. Þetta jafnvægi hefur um leið komið í veg fyrir of mikið kverkatak OPEC á olíumörkuðunum. Þar með hafa OPEC-ríkin líka að mestu fengið að vera í friði fyrir hernaðarmaskínu Vesturlanda. Allt þar til Bandaríkin réðust á Írak.

En allt er breytingum háð. Miðað við þá miklu aukningu sem orðið hefur í eftirspurn eftir olíu síðustu tvo áratugina, er í reynd með ólíkindum að ríkin utan OPEC hafi náð að geta framleitt 60% olíunnar. Ástæður þess að þau náðu að auka framleiðslu sína, jafnframt aukinni eftirspurn, eru augljóslega ekki hinar hnignandi olíulindir í Alaska eða Norðursjó. Nei - aukninguna má fyrst og fremst þakka miklum vexti í rússneska olíuiðnaðinum!

Russia_geopoliticsHlutfall Rússa í olíuframleiðslu ríkjanna utan OPEC er svo sannarlega ekkert smáræði. Um ¼ allrar olíunnar utan OPEC kemur frá Rússunum.

En nú eru uppi vísbendingar um að olíuframleiðsla Rússa hafi náð toppi. Og þar að auki er Rússland ekki beinlínis á sömu nótum eins og almennt gerist um olíuiðnaðinn í OECD. Öllum helstu olíufyrirtækjunum í Rússlandi er stjórnað af ríkisvaldinu og rússnesku olíufélögin eiga í reynd miklu meira sameiginlegt með ríkisolíufélögunum í Arabíu, Venesúela og öðrum ríkjum innan OPEC, heldur en með einkareknu vestrænu olíufélögunum.

Þetta er farið að valda Bandaríkjamönnum, Evrópubúum og öðrum OECD-ríkjum nokkrum ugg. Olíuframleiðsla Vesturlanda er að dragast hratt saman og jafnvel þó svo Rússarnir nái að kreista upp ennþá meiri olíu, er útlit fyrir að ríkin utan OPEC nái samt ekki að viðhalda hlutfalli sínu í olíuframleiðslu heimsins. Flest þessi sömu ríki eru einmitt líka mestu olíuinnflytjendurnir, svo þetta er ekkert gamanmál. Þar að auki eru Rússar ekkert sérstaklega traustir bandamenn og gætu einn daginn verið komnir inn í OPEC.

Í stað þess að tala um OPEC-ríki annars vegar og ríki utan OPEC hins vegar, er hugsanlega skynsamlegast að skipta olíuiðnaðinum í ófrjálsa olíu og frjálsa olíu. Frjáls olía er þá olíuframleiðsla utan OPEC og utan Rússlands. Sé þessi póll tekin í hæðina blasir við sú staðreynd að hin frjálsa olíuframleiðsla hefur minnkað um 5% á örfáum árum. Og er nú innan við 45% af heildarframleiðslunni.

Oil_Non-OPEC-ex-Russia_2004-2009Vesturlönd (utan Rússlands) virðast m.ö.o. nú í fyrsta sinn í langan tíma eiga í erfiðleikum með að halda hlutfalli sínu í heimsframleiðslunni. Síðustu fimm árin hefur dagsframleiðsla þeirra dregist saman um heilar 2 milljón tunnur. Þetta segir eiginlega allt sem segja þarf. Þrátt fyrir vaxandi eftirspurn eftir olíu hefur framleiðsla á frjálsri olíu minnkað. Fyrir vikið eru OPEC og Rússland nú með meirihlutann í olíuiðnaði veraldarinnar. Þetta er líklega ein alvarlegasta ógnunin sem Vesturlönd standa frammi fyrir. Ekki aðeins efnahagslega, heldur er líka næsta víst að þessi þróun verður ekki beinlínis til að efla heimsfriðinn.

Eini ljósi punkturinn er sá að nú eru komnar fram vísbendingar um að olíuþörf Vesturlanda kunni að hafa náð hámarki. Það er fyrst og fremst aukinn áhugi á sparneytnari bílum sem því veldur.

Oil_future-production-2Um þetta er þó enn algjör óvissa. IEA og margir fleiri spá þvert á móti aukinni olíueftirspurn frá Vesturlöndum a.m.k. næstu 20 árin. En EF notkun Vesturlanda á olíu nær að dragast saman - jafn hratt eins og framleiðsla á frjálsri olíu minnkar - skapast kannski ekki stórvandamál. Ef aftur á móti myndast gat - ef olíuframleiðsla Vesturlanda mun áfram dragast hraðar saman en sem nemur olíunotkun þeirra - þá er voðinn vís.

Þau eru mörg EFin. Það er einmitt þess vegna sem stjórnvöld víðsvegar um Vesturlönd leita nú logandi ljósi að nýjum möguleikum til að knýja samgöngukerfið. Hinn hraði samdráttur í olíuframleiðslu Vesturlanda mun ekki aðeins hafa mikil áhrif í heimspólitíkinni, heldur verða einhver allra mikilvægasti hvatinn í þróun atvinnulífs, vísinda og tækni.

Varla er ofsagt að í reynd hafi nýlega orðið vatnaskil í orkumálum veraldarinnar. Þetta eiga Íslendingar að nýta sér. Og leggja höfuðáherslu á að að mennta ungt fólk um orkumál. Það væri farsæl leið til að efla íslenskt atvinnulíf og skapa hér ný tækifæri til framtíðar.

Háskólarnir hérna ættu að einbeita sér að orkugeiranum. Og að sama skapi eiga stjórnvöld að setja olíuleit á oddinn og hvetja fyrirtæki sem eru að þróa nýja orkutækni til að koma til Íslands - með því að skapa þeim hagkvæmt starfsumhverfi hér. Finnar veðjuðu á farsímatæknina. Við ættum að veðja á orkutæknina.

 


Mikilvægi tölfræðinnar

Ross Beaty og Magma Energy virðast í góðum málum. Voru að fá styrk uppá 10 milljónir dollar í jarðhitaverkefni vestur í Bandaríkjunum.

Geothermal_SodaUmrætt framlag kom úr bandaríska efnahagspakkanum  (sbr. American Recovery and Reinvestment Act). Upphæðin sem þarna rann til Magma Energy fer til tveggja jarðhitavirkjana Magma í Nevada; Soda Lake og McCoy. Fjárhæðin er sögð nema u.þ.b. helmingi af þeim kostnaði sem til stendur að leggja í þessi verkefni næstu tvö árin. Sem sagt umtalsvert.

Magma var ekki eina jarðhitafyrirtækið sem fékk slíkan glaðning nú rétt fyrir mánaðarmótin síðustu. Alls var þá veitt 338 milljónum USD í jarðhitastyrki, en verkefnin  eiga það flest sameiginlegt að stuðla að nýrri eða bættri jarðhitatækni. Þessum jarðhitaverkefnum er ekki aðeins ætlað að auka afköst jarðhitavirkjana þar vestra, finna betri tækni eða leita nýrra laghitasvæða, heldur einnig skapa þúsundir starfa og þar með draga úr áhrifum kreppunnar.

Hér heima virðast AGS og ríkisstjórnin aftur á móti ætla að vinna gegn kreppunni með því að dregið verði úr öllum framkvæmdum af þessu tagi. Og Alþingi ætlar meira að segja að auka skattlagningu á fyrirtæki; þ.m.t. fyrirtæki sem hyggja á ný verkefni eða vinna í þróun nýrra tæknilausna. Nánast eins og tilgangurinn sé beinlínis að vernda hið gamla og rotna atvinnulíf og bregða fæti fyrir snjöll sprotafyrirtæki.

Í Bandaríkjunum skynja stjórnvöld vel að besta leiðin út úr efnahagsógöngunum er að leita nýrra möguleika. Ekki síst með því að styðja við þróun nýrrar tækni og gefa nýjum hugmyndum tækifæri og svigrúm til að þroskast og dafna.

Mögulegt er að ofangreind stefna Bandaríkjastjórnar eigi eftir að auka hlutfall jarðhitans umtalsvert í orkugeiranum þar vestra. T.a.m. er ekki óalgengt að olíubrunnar hafa skilað margfalt meiru af heitu vatni, heldur en olíu. Hingað til hafa menn hvorki haft áhuga né tæknilega getu til að nýta þetta mikla jarðhitavatn. En núna var einmitt m.a. verið að styrkja rannsóknir á möguleikum þess að nýta þennan jarðvarma úr þúsundum olíubrunna víðsvegar um Bandaríkin. Einnig fengu mörg lághitaverkefni styrki. Það sem Magma fékk mun þó hvort tveggja vera vegna hefðbundnari háhitaverkefna. Kannski munu þeir sækja þar þekkingu til HS Orku?

DataMarket_logoLoks er athyglisvert að um 25 milljónir dollara fóru til verkefna sem horfa í að afla betri tölfræði  um jarðhita í Bandaríkjunum. Orkubloggaranum hefur einmitt þótt það eftirtektarvert hversu léleg eða óaðgengileg tölfræðin er, þegar kemur að endurnýjanlegri orku. Bæði upplýsingaskrifstofa bandaríska orkumálaráðuneytisins (EIA), BP og fleiri bjóða upp gríðarlega ítarleg og fróðleg gögn um jarðefnaeldsneytisiðnaðinn. Alveg hreint frábær gögn - þó þau séu reyndar stundum heldur klúðurslega fram sett (kannski EIA og BP ættu að hóa í hann Hjalla hjá DataMarket til að gera þessa upplýsingavefi aðeins meira djúsí og til ennþá meira gagns).

IRENA__Logo_largeEn þegar komið er út fyrir olíu, gas, kol... og kjarnorku, er upplýsingaflæðið vægast sagt heldur brotakennt og óáreiðanlegt. Úr þessu þarf að bæta. Kannski verður það eitt af mikilvægustu fyrstu verkefnum IRENA. Nýju alþjóðastofnunarinnar  um endurnýjanlega orku, sem verður staðsett í sólbrenndri framtíðarborginni Masdar í furstadæminu Abu Dhabi. Sú tölfræðivinna ætti auðvitað ekki að takmarkast við jarðhitann. Heldur verða besti og aðgengilegasti gagnagrunnur heims um endurnýjanlega orku. Góð tölfræði um endurnýjanlega orkugeirann er tvímælalaust mikilvæg forsenda þess að flýta fyrir tækniþróun og aukinni hagkvæmni í þessari hratt vaxandi atvinnustarfsemi, sem á að verða einn mikilvægasti lykillinn að því að draga úr kolefnislosun í heiminum.

steve-chu_2Þetta skilur hann Steven Chu, bandaríski orkumálaráðherrann, sem er hugmyndafræðingurinn að baki orkustefnu Obama-stjórnarinnar. Vonandi munu fleiri sem standa að baki fjármagni sem veitt er til þróunar og nýsköpunar komast á sömu skoðun. Orkubloggarinn trúir á mátt tölfræðinnar. Ekki síst þegar hún er aðgengileg og öllum opin. Free the data!


Er Miðjarðarhafsævintýrðið að rætast?

Nú er meira en ár liðið frá því Orkubloggarinn viðraði fyrst hugmyndir sínar um eitthvert áhugaverðasta tækifærið í endurnýjanlegri orku. Sem er iðnaðurinn að baki sólarspeglaorkuverunum.

CSP_Spiegel_1Sólarspeglaorkuver byggjast á þeirri tækni að spegla sólarljósinu í brennipunkt og nýta þannig ofsalegan hitann til að umbreyta vatni í gufuafl og framleiða rafmagn. Á ensku er þetta nefnt Consentrated Solar Power eða CSP.

CSP hefur það umfram sólarsellutæknina (PV) að vera miklu mun einfaldari tækni og getur þar að auki nýst til að framleiða rafmagn eftir sólarlag. Byrjað var að nýta sólarspeglatæknina í Bandaríkjunum upp úr 1980 í kjölfar þess að olíuverð rauk upp úr öllu valdi. Þegar til kom lækkaði olía og gas fljótlega aftur og þar með varð ljóst að CSP væri ennþá alltof dýr raforkuframleiðsla.

Þegar olíuverð fór að hækka umtalsvert á ný - upp úr aldamótunum - komust hugmyndir um CSP aftur á dagskrá. Og nú sáu fyrirtæki möguleika í að hefja fjöldaframleiðslu á speglunum sem notaðir eru í sólarspeglaorkuverunum. Það varð til þess að kostnaðurinn fór hratt lækkandi. Einnig voru nú komin miklu betri hitaþolin rör, en í þeim er olía sem sólargeislunum er beint að til að hita hana. CSP-tækni dagsins í dag er þar af leiðandi komin miklu lengra en var í árdaga tækninnar fyrir um aldarfjórðungi.

CSP_Spiegel_4Enn sem komið er, eru einungis tvö einkarekin sólarspeglaver starfandi, en nokkur slík CSP-orkuver eru í byggingu og fjöldamörg á teikniborðinu. Einkum á Spáni og í Bandaríkjunum, en einnig er verið að byrja á a.m.k. tveimur slíkum sólarspeglaorkuverum í Miðjarðarhafslöndum utan Evrópu.

Það eru einkum stórar spænskar iðnaðarsamsteypur sem hafa ráðist í að byggja þessi sérkennilegu raforkuver. Eitt ríkasta olíuríki veraldar - furstadæmið Abu Dhabi - hefur einnig sýnt þessum fjárfestingakosti mikinn áhuga. Og nú eru horfur á að mikill gangur sé að komast í þessum merkilega iðnaði og vöxturinn þar verði jafnvel örari en í nokkurri annarri tegund orkunýtingar.

CSP_Spiegel_5Í  júlí s.l. (2009) var stigið nýtt og mikilvægt skref í þá átt sem Orkubloggið hefur verið að tala fyrir. Að ESB taki höndum saman við önnur ríki kringum Miðjarðarhafið, í því skyni að byggja upp umfangsmikla raforkuframleiðslu með neti af nýjum CSP-sólarorkuverum. Já - í sumar gerðist það nefnilega að nokkur af öflugustu fyrirtækum Evrópu komu saman og ýttu af stokkunum áætlun um að innan fjörutíu ára muni keðja af sólarspeglaorkuverum frá Marokkó og alla leið austur til Saudi Arabíu framleiða rafmagn, sem muni mæta 15% af allri raforkuþörf ESB.

Þetta yrði sannkallað risskref í að breyta orkumynstrinu í Evrópu. Og Afríkulöndin og önnur ríki utan Evrópu sem verða með í þessum ljúfa sólarleik, munu að sjálfsögðu einnig að njóta góðs af. Raforkan frá CSP-verunum verður nefnilega líka notuð til að framleiða ferskvatn úr sjó (desalination). Ferskvatnið verður bæði nýtt sem drykkjarvatn og notað í áveitur - og svo vill til að umrædd lönd búa einmitt mörg við umtalsverðan skort á vatn. Svo verður vatnið auðvitað líka notað til að kæla og hreinsa búnaðinn í CSP-orkuverunum og er grunnur að gufuaflinu sem framleitt er í þessum gljáandi og glæsilegu raforkuverum.

CSP_Spiegel_11_Med_RadiationVegna örrar fólksfjölgunar í ríkjum N-Afríku og þar austur af og rangsælis kringum Miðjarðarhaf, þurfa þessi lönd nauðsynlega að huga að möguleikum til meiri matvælaframleiðslu og tryggja sér nægt vatn. Einmitt þess vegna ætti þeim að þykja CSP áhugaverður kostur, enda sólgeislun óvíða sterkari en einmitt í þessum löndum.

Þetta yrði reyndar ekki aðeins mikilvægt efnahaglegt skref fyrir bæði ESB og N-Afríku, heldur til þess fallið að færa þungamiðju Evrópu mun sunnar en nú er. Verkefnið hefur verið nefnt Desertec  og hefur fram til þessa aðallega verið áhugamál nokkurra ofurlítið sérviturra evrópskra vísindamanna - ekki síst innan þýsku Flug- og geimferðarstofnunarinnar (Deutsches Zentrum für Luft- und Raumfahrt.). Sbr. t.d. þetta ágrip af athugunum manna þar á bæ.

Nú í sumar gerðist það svo að nokkur fyrirtæki ákváðu að ganga til liðs við Desertec. Og það ekki smærri kompaní en Siemens, orkufyrirtækin E ON og RWE, sænsk-svissneski tæknirisinn ABB, Deutsche Bank og þýska Munich Re Group (Münchener Rück).

MunchenRe_Münchener_Rück_logoTekið skal fram að Munich Re  er ekki togari gerður út frá Reykjavík, heldur einfaldlega stærsta endurtryggingafyrirtæki veraldar. Þarna í hópnum eru sem sagt á ferðinni nokkur af öflugustu orku-, tækni- og fjármálafyrirtækjum Evrópu. Það er reyndar sérstaklega athyglisvert að fjármálarisinn Munich Re veðjar þessa dagana ekki aðeins á sólarorku sem helstu framtíðarlausnina í orkugeiranum. Þessir öflugu og áhættufælnu tölfræði-ljúflingar hafa nefnilega einnig mikla trú á jarðvarmanum. Mjög athyglisvert fyrir Íslendinga. Þarna gæti kannski verið kominn samstarfsaðili að endurvöktum útrásarhugmyndum í íslenska orkugeiranum. En það er önnur saga.

CSP_Spiegel_3_NevadaÞað eru ekki einungis evrópsk fyrirtæki  sem hrífast af Desertec. Altalað er í CSP-bransanum að bæði þýsk stjórnvöld og framkvæmdastjórn ESB styðji Desertec-áætlunina af heilum hug - þó svo engin slík opinber stefna sé reyndar enn fyrir hendi. Hvað sem því líður hyggjast áðurnefnd fyrirtæki á næstu áratugum fjármagna fjölda CSP-orkuvera og rafmagnskapla milli Afríku og S-Evrópu. Horft er til þess að þetta verði fjárfesting upp á samtals 400 milljarða evra, skili 100 þúsund MW í uppsettu afli (100 GW) og a.m.k. tuttugu stórum rafmagnsköplum eftir Miðjarðarhafinu og skapi um leið tvær milljónir nýrra starfa.

Við fyrstu sýn kann sumum að þykja nokkuð dýrt að hver þúsund MW af uppsettu afli í CSP kosti 4 milljarða evra. En hafa ber í huga að innifalið í kostnaðartölunni er allur nauðsynlegur tengibúnaður og þ.m.t. einir tuttugu rafmagnskaplar milli Evrópu og Afríku. Þannig að kannski er þetta barrrasta mjög bærilegt verð.

CSP_Spiegel_12_energy-linkedReyndar er erfitt að gera sér grein fyrir hagkvæmninni nema vita hversu stór hluti fjárhæðarinnar fer í flutningskerfið. Orkubloggaranum þykir jafnvel líklegt að hjá Desertec hafi menn vanmetið kostnaðinn - eða byggja áætlunina á hressilega bjartsýnni spá um miklar tækniframfarir og kostnaðarlækkanir í bæði CSP og rafköplum.

Hjá Siemens fullyrða menn reyndar að nýjasta háspennutæknin þeirra muni tryggja það að raforkutapið á leiðinni eftir botni Miðjarðarhafsins verði miklu minna en nú þekkist. Menn hjá Landsvirkjun ættu kannski að taka upp símtólið og bjalla í Siemens? Gleymum því ekki að á kortum Desertec er Ísland alls ekki gleymt og beinlínis gert ráð fyrir að hluti af grænni raforku meginlands Evrópu muni í framtíðinni ekki aðeins koma frá vindinum og sólinni í Afríku og Arabíu heldur líka frá grænum orkulindum Íslands. Og að þar verði ekki aðeins um að ræða raforku frá íslenskum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum, heldur einnig frá vindrafstöðvum. Já - kannski er tímabært að iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun fari að huga að byggingu risastórra vindrafstöðva við strendur Íslands! Og vegna stjórnmálaaðstæðna væri bersýnilega einfaldast fyrir Munich Re og félaga að byrja á því að setja upp tengingu við Ísland.

CSP_Spiegel_9_AfricaÁætlunin gerir ráð fyrir að fyrstu CSP-orkuverin í Desertec-áætluninni rísi við strendur Miðjarðarhafsríkjanna Afríkumegin. Vegna stjórnmálaástands horfa menn til þess að byrjað verði í Marokkó og Túnis, en einnig í löndum eins og Jórdaníu og Tyrklandi. Síðan muni verkefnið færa sig til annarra ríkja eins og t.d. Alsír og jafnframt innar í Sahara-eyðimörkina, þar sem sólgeislunin er hvað mest og nánast alltaf heiðskýrt. Þar er eðlilega lítil landnotkun nú um stundir og því endalausar víðáttur til að reisa sólarspeglaverin. Menn hafa reyndar reiknað það út, að einungis þurfi að nota 0,3% af Sahara til að fullnægja allri raforkuþörf meginlands Evrópu. Tölfræði gerir hlutina stundum svo skemmtilega einfalda. 

CSP_abengoa-troughJá - það virðist hreinlega sem spá Orkubloggsins um bjarta framtíð CSP við Miðjarðarhafið sé að rætast. Síðast í gær, 30. október 2009, var gengið frá stofnun sérstaks hlutafélags sem nefnist D II  og hyggst koma hugmyndum Desertec í framkvæmd. Þarna var á ferðinni sami fyrirtækjahópurinn og sagt var frá hér að ofan, en sá góði hópur hefur þó eflst umtalsvert frá því í sumar. Auk áðurnefndra Siemens, E ON, RWE, ABB, Deutsche Bank og Münchener Rück, hafa eftirfarandi ljúflingar nú bæst í hópinn: Sólararmur spænsku iðnaðarsamsteypunnar Abengoa, þýski bankinn HSH Nordbank, þýska sólarspeglafyrirtækið MAN Solar Millennium, alsírska matvælafyrirtækið Cevital, þýski hátæknispeglaframleiðandinn Schott og síðast en ekki síst þýski verkfræðirisinn M+W Zander.

Það er sem sagt talsvert mikið að gerast þessa dagana í kringum Desertec. Eiginlega barrrasta hægt að segja, að björtustu vonir Orkubloggarans og annarra talsmanna CSP séu að ganga eftir. Ef einhver lesandi Orkubloggsins vill rifja upp hvernig þessi tækni virkar í hnotskurn, má t.d. vísa á þessa færslu  bloggsins frá því sumarið 2008.

sahara-desert_sunEnn er auðvitað of snemmt að fullyrða hvort þessum hugmyndum Desertec verður raunverulega komið í framkvæmd. En viljinn fer a.m.k. vaxandi; bæði hjá alvöru fyrirtækjum og hjá stjórnvöldum. Með aukinni fjöldaframleiðslu á parabóluspeglum hefur kostnaðurinn á þessari rafmagnsframleiðslu farið lækkandi og nú binda menn vonir við að brátt verði búið að þróa nýjan vökva fyrir móttökurörin, sem verði miklu hagkvæmari en olían sem notuð er í rörin í dag. Þar með verði þetta einfaldlega ekki aðeins umhverfisvæn heldur einnig afar hagkvæm raforkuframleiðsla. CSP gæti átt bjarta framtíð í auðnum Norður-Afríku og Arabíu. En það er ennþá langt í land.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband