Hvað kostar að framleiða rafmagn?

Kannski hefði mátt afgreiða þessa færslu með því einfaldlega að vísa í þetta Orkublogg hér.

rafmagnsverd_askja_2009

Hér verður fjallað í stuttu máli um það hvort raforkuframleiðsla frá vindrafstöð eða sjávarvirkjunum gæti mögulega borgað sig á Íslandi. Tilgangurinn er að gefa lesendum vísbendingar um það hvort slíkir virkjunarkostir kunni að vera fjárhagslega hagkvæmir hér á landi og til hvaða atriða þurfi helst að líta við slíkt hagkvæmnismat. Hér er þó ekki um að ræða nákvæma samantekt, né neina arðsemisútreikninga. 

Hagkvæmni hefur aukist hratt í mörgum greinum endurnýjanlegrar orku á síðustu árum vegna mikilla rannsókna og þróunarvinnu. Nú er svo komið að ekki aðeins rafmagns-framleiðsla frá vatnsaflsvirkjunum og jarðvarma, heldur einnig frá hagkvæmustu vindrafstöðvunum, fer mjög nálægt því að vera jafn ódýr og rafmagnsframleiðsla með kolaorku og gasi. Hafa ber í huga að um leið og olía hækkar í verði fylgir gasverðið og kolaverðið gjarnan í kjölfarið og þess vegna er hátt olíuverð vatn á myllu endurnýjanlegrar orku í þeim löndum sem byggja rafmagnsframleiðslu sína mikið á jarðefnaeldsneyti.

Framleiðslukostnaður raforku fer auðvitað eftir aðstæðum á hverjum stað fyrir sig. Vindorkuver eða vatnsaflsvirkjun á einum stað kostar ekki nákvæmlega það sama á öðrum stað, þó svo að framleiðslugetan sé sú sama. Ekki eru til neinir nákvæmir fastar yfir framleiðslukostnaðinn – eða öllu heldur er varasamt að miða við slík verð sem stundum eru gefin upp af hagsmunaaðilum. Engu að síður gefa slíkar viðmiðunartölur mögulega vísbendingu og eru auðvitað meðal þeirra gagna sem höfð eru til hliðsjónar þegar samanburður er gerður á virkjunarkostum.

blue-energy_2

Þó svo að bæði vatnsafl og jarðvarmi séu taldir mjög góðir kostir á Íslandi eru þetta misdýrir kostir. Almennt er stofnkostnaður jarðhitavirkjana lægri en vatnsaflsvirkjana en á móti kemur að rekstrarkostnaður jarðhitavirkjananna er hærri. Hvor kosturinn er betri ræðst því mjög af fjármagnskostnaðinum á hverjum tíma.

Þessar tvær tegundir endurnýjanlegrar rafmagnsframleiðslu eru líka mjög ólíkar þegar nýtingin er skoðuð. Raforkuframleiðslan frá jarðvarmavirkjunum er jafnari yfir árið en frá íslensku vatnsorkuverunum. Aftur á móti hafa vatnsaflsvirkjanirnar miklu styttri viðbragðstíma til að auka eða minnka álag í raforkukerfinu. Þess vegna hefur reynst vel að reka jarðgufuvirkjanir og vatnsaflsvirkjanir saman. Jarðgufuvirkjanir sjá kerfinu fyrir grunnafli en vatnsaflinu er beitt við álagsstýringu og það getur annað álagstoppum yfir daginn.

Þessi atriði er vert að hafa í huga þegar t.d. kostir og gallar vindorkuvera eru metnir í samanburði við vatnsafl eða jarðvarma. Vindorkuverin eru óstöðug, en gætu verið góð búbót og nýst vel til að spara miðlunarlón. Einnig er auðvelt að staðsetja vindorkuver þannig að jarðfræðileg áhætta sé nánast engin. Slík áhætta er aftur á móti umtalsverð þegar reistar eru jarðvarmavirkjanir og skapast oft líka þar sem hagkvæmast þykir að byggja vatnsaflsvirkjanir (þ.e. á eldvirkum eða skjálftavirkum svæðum). Fjölmörg önnur atriði skipta hér máli, t.d. það að unnt er að byggja vindorkuver með litlu jarðraski. Fyrir vikið má líklega segja að vindorkan sé mun umhverfisvænni kostur en bæði jarðvarmavirkjun og vatnsaflsvirkjun. Á móti kemur sjónmengun vegna vindorkuveranna.

Þegar fjallað er um rafmagnskostnað frá vindorkuverum og sjávarorkuvirkjunum, er annars vegar um að ræða vel þroskaðan iðnað (vindorku) þar sem all nákvæmar kostnaðartölur liggja fyrir, en hins vegar er sjávarorkan sem enn er nánast á fósturstigi. Það er m.ö.o. ennþá mjög dýrt að framleiða rafmagn með sjávarorku. En ekki er útilokað að a.m.k. einhver tegund sjávarorku muni innan tíðar verða jafn ódýr raforkuframleiðsla og nú þekkist frá vatnsaflsvirkjunum eða vindorkuverum.

Hvað kostar að framleiða rafmagn með vindrafstöð?

Til eru margar og mismunandi upplýsingar um kostnað við að setja upp vindrafstöðvar. Hér verður ekki farið út í beinar kostnaðartölur, en látið nægja að benda á helstu þættina sem taka þarf tillit til við samanburð á slíkum kostnaði. Í því sambandi má nefna að kostnaður við að setja vindrafstöð út í sjó er oft um 50–70% hærri en það sem gerist á landi. Þá er miðað við sambærilega framleiðslugetu.

Wind_Offshore_Germany

Kostir þess að setja vindrafstöðvar upp úti í sjó eru aðallega að fá stöðugri og öflugri vind, ásamt því að slík vindorkuver þykja valda minni sjónmengun. Í reynd er kostnaðarmunurinn talsvert minni en nefnt var, sökum þess að rafmagnsframleiðsla vindrafstöðva í sjó er yfirleitt mun jafnari en þeirra sem eru á landi. Þó svo að uppsetningarkostnaðurinn sé mun lægri á landi, getur heildarkostnaður á líftíma virkjunarinnar því verið nokkuð jafn.

Vegna flókinna reglna um verðlagningu á rafmagni, mismunandi skattareglna í hinum ýmsu löndum og styrkjakerfa, er samanburður af þessu tagi erfiður. Erlendur samanburður segir oftast að vindorkan sé heldur dýrari en vatnsaflið. Í sumum tilvikum er framleiðslukostnaður rafmagns frá hagkvæmustu vindrafstöðvum þó svipaður og hjá vatnsaflsvirkjunum.

Karahnjukar_PowerHouse

Í samtölum við starfsfólk íslensku orkufyrirtækjanna og fleiri kom fram að líklega sé kostnaður við raforkuframleiðslu hér á landi heldur lægri en sambærileg raforkuframleiðsla erlendis. Samkvæmt þessu er raforka frá íslenskum orkuverum ódýrari í framleiðslu en t.d. raforka framleidd í bandarískum vatnsaflsvirkjunum. Um þetta er þó í reynd óvissa; það eru litlar upplýsingar fyrir hendi þegar meta skal framleiðslukostnað rafmagns á Íslandi og bera hann saman við kostnaðinn erlendis.

Líklega er ekki skynsamlegt að byggja mikið á erlendum samanburðar-rannsóknum um rafmagnsverð þegar meta skal hagkvæmni vindrafstöðva á Íslandi. Til að komast að þessu þyrfti að gera hér meiri vindmælingar og eiga samstarf við orkufyrirtækin til að geta metið hagkvæmnina miðað við vatnsafl og jarðvarma. Þar að auki má nefna að í reynd eru ekki til neinar nýlegar marktækar samanburðartölur um það hvað kostar að framleiða rafmagn á Íslandi miðað við önnur lönd.

orkuveitumerki

Sem dæmi fengust eftirfarandi upplýsingar frá Orkuveitu Reykjavíkur: „Við höfum ekki neinar upplýsingar um kostnað við framleiðslu á rafmagni utan Íslands. Við getum því ekki gert neinn samanburð við önnur lönd“ (tölvupóstur frá OR, 3. apríl 2009). Ekki bjó Landsvirkjun heldur yfir slíkum samanburði og fylgdi sögunni að slíkar samanburðartölur væru í reynd óaðgengilegar. Ekki er heldur hægt að nota hér samanburðartölur um raforkuverð sem Samorka hefur birt. Þær taka ekki tillit til þess frá hvaða orkugjöfum rafmagnið kemur og einungis er litið til söluverðsins, en ekki þess hver framleiðslukostnaðurinn er í raun.

Líta þarf til fleiri þátta en bara stofn- og rekstrarkostnaðar.

Þegar lagt er mat á það hvað kostar að framleiða rafmagn, er ónákvæmt að líta einungis til beins kostnaðar við uppsetningu virkjunarinnar og rekstrarkostnaðar. T.d. má hafa hliðsjón af því hversu mikla orku þarf að eyða til að afla orkunnar, þ.e. hversu mikil orka fer í smíði, uppsetningu og framleiðslu virkjunarinnar. Þetta er stundum nefnt endurheimtustuðull eða endurheimtuhlutfall. 

Cartoon_Oz_Oil_Cartoon

Það skiptir sem sagt verulegu máli til hvaða atriða er litið þegar gerður er samanburður á hagkvæmni mismunandi tegunda af virkjunum. Erlendis er mjög horft til ytri kostnaðar við samanburð á framleiðslukostnaði rafmagns. Þá eru t.d. kolefnisskattar teknir inn í dæmið. En hér á landi er nánast öll raforka frá endurnýjanlegum orkugjöfum og þess vegna kemur slíkur ytri kostnaður ekki til með að vera hagstæður vindorku eða sjávarorku á Íslandi.

Aftur á móti mætti hér taka tillit til mismunandi landnotkunar þegar gerður er samanburður á t.d. hagkvæmni vindorkuvers og vatnsaflsvirkjunar. Orkubloggið fékk í hendur prýðilegt yfirlit frá Landsvirkjun, með samanburði á hinum ýmsu tegundum virkjana (samantekt eftir Agnar Olsen hjá Landsvirkjun frá því í júní 2008). Þar var m.a. borið saman hversu mismikla landnotkun hver virkjanategund kallar á og einnig hvert endurheimtuhlutfallið er, þ.e. hversu mikla raforku þarf til að framleiða rafmagnið. Landnotkunarstuðullinn er mjög óhagstæður vatnsaflinu vegna stórra miðlunarlóna - en þar kemur vindorkan vel út og auðvitað ekki síður sjávarorkan. Endurheimtuhlutfallið er aftur á móti mun betra hjá vatnsaflsvirkjununum heldur en hjá vindrafstöðvum - það skýrist fyrst og fremst af mjög löngum líftíma vatnsorkuvera. 

Sjávarvirkjanir eru enn of óþroskaðar til að unnt sé meta hagkvæmni þeirra.

Á Orkuþingi 2006 kom fram að það kostar u.þ.b. fjórum sinnum meira að framleiða rafmagn frá sjávarfalla- og straumvirkjunum en frá íslenskum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. Þá er miðað við að hámarksstraumhraðinn sé á bilinu 2,5–5 m/s og dregin sú ályktun að sjávarvirkjanir borgi sig ekki hér nema hámarksstraumhraðinn sé 8–10 m/s. Það þýðir að einungis fáeinir staðir í Breiðafirði koma raunverulega til álita fyrir svona virkjanir hér á landi – miðað við kostnaðinn eins og hann er nú og verður í allra nánustu framtíð.

Tidal_seagen_many

Sumir telja að önnur sjávarorka en orka sjávarfallavirkjana geti hugsanlega nýst þar sem sjávarstraumar eru heldur veikari. Sú tækni öll er jafnvel ennþá óþroskaðri en nýju sjávarfallavirkjanirnar og enn fer því fjarri að ljóst sé hver framleiðslukostnaður raforkunnar kemur til með að verða.

Eins og staðan er nú er ekki líklegt að sjávarorkuvirkjun verði byggð við Ísland í nánustu framtíð. Þá eru undanskildar sjávarfallavirkjanir sem hugsanlega kunna að verða byggðar í Breiðafirði eins og áður hefur verið greint frá. Engu að síður kann að koma til greina að byggja sjávarvirkjun t.d. í Reykjanesröstinni eða jafnvel enn frekar við Vestfirði vegna þess hversu óáreiðanlegt framboð af rafmagni er þar. Í samtölum við íslenska vísindamenn kom fram að Hrútafjörður gæti verið sérstaklega áhugaverður kostur. Einnig var röstin utan við Látrabjarg nefnd.  


Seltuvirkjanir

Þar sem ferskvatn og sjór mætast koma saman miklir kraftar vegna mismunandi efnasamsetningar (seltu). Með því að nota s.k. osmósuhimnur myndast þrýstingur (sogkraftur) sem unnt er að virkja til rafmagnsframleiðslu. Þarna er á ferðinni athyglisverð tækni sem gerir það hugsanlega mögulegt að framleiða um eða yfir 1 MW á hvern rúmmetra á sekúndu af streymi ferskvatns.

Þeir staðir sem henta fyrir þessar virkjanir eru helst við árósa. Einnig má hugsa sér að virkjanir af þessu tagi gætu verið settar upp þar sem mikill ís bráðnar við ströndina, eins og við strendur Grænlands.

Osmotic_Statkraft_norway

Nú er unnið að byggingu osmósuvirkjunar í Noregi og einnig er verið að þróa aðra seltuvirkjanatækni í Hollandi. Virkjunin sem verið er að undirbúa í Noregi er á vegum norska orkufyrirtækisins Statkraft.

Fyrirtækið bindur miklar vonir við þessa virkjun og álítur að osmósuvirkjanir eigi sér bjarta framtíð víða um heim. Þetta sé mun jafnari og áreiðanlegri raforkuframleiðsla en t.d. vindorka og hafi lítil umhverfisáhrif. Þrýstingurinn sem myndast (sogkrafturinn) er mjög sterkur og gætu svona osmósuvirkjanir hugsanlega haft framleiðslugetu (uppsett hámarksafl) upp á tugi eða hundruð MW.

Statkraft_logo

Þó svo að osmósutæknin sé ný þegar kemur að raforkuframleiðslu, er þetta þekkt tækni við að framleiða ferskvatn úr sjó. Tæknin byggir því á nokkuð sterkum grunni, þó svo þessi aðferð við ferskvatnsframleiðslu sé enn í mikilli þróun. Við mat á hagkvæmni raforkuframleiðslunnar er venjulega miðað við hversu mikið afl fæst á hvern fermetra af himnunni sem er sett á milli sjávarins og ferskvatnsins. Hjá Statkraft segjast menn vera komnir í 4W á fermetrann og að bæta þurfi nýtinguna um 25% til að þetta borgi sig.

Osmosis_rivers

Hollenska fyrirtækið Redstack, sem er einnig að vinna að þróun seltuvirkjunar, notar aðra tækni en Statkraft og ekki liggja fyrir aðgengilegar upplýsingar um árangurinn hjá Hollendingunum.

Hugsanlega gætu virkjanir af þessu tagi risið við nokkra árósa hér á landi. Upp hefur komið sú hugmynd að seltuvirkjanir gætu hentað sérstaklega vel á Vestfjörðum, með hliðsjón af því hversu óáreiðanlegt raforkuframboðið er víða á því svæði. Hugsanleg virkjun Hvalár í Ófeigsfirði kann að vera dýr kostur og hæpið er að vindorkuver rísi á Vestfjörðum, m.a. vegna lítils undirlendis. Því eru sjávarvirkjanir e.t.v. sérstaklega áhugaverðar fyrir Vestfirðinga og kannski ekki síst osmósuvirkjun.

Isafjordur

Undanfarið hefur Nýsköpunarmiðstöð Íslands skoðað slíka möguleika í samstarfi við Vestfirðinga. Nýsköpunarmiðstöðin vinnur nú að osmósu-tilraunaverkefni, sem afar athyglisvert verður að fylgjast með. Ýmsir þættir koma til sérstakrar skoðunar vegna mögulegra seltuvirkjana á Íslandi, svo sem hvort grugg eða aurburður í jökulvatni myndi hafa slæm áhrif á virkjun af þessu tagi.

Sama óvissan á við um seltuvirkjanir og flestar aðrar sjávarvirkjanir; þetta er á tilraunastigi og óvíst hvernig til tekst. En í fljótu bragði virðist sem osmósutæknin gæti verið áhugaverð fyrir Ísland, með sitt mikla vatn sem rennur til sjávar.

------------

Varmamismunarvirkjanir.

Enn er ónefnd ein tegund sjávarvirkjana, en það eru virkjanir sem byggja á varmamismun í hafinu (Ocean Thermal Energy Conversion; OTEC). Til að sú sjávarvirkjunartækni sé hagkvæm þarf að vera til staðar hitamunur í sjónum sem er a.m.k. 20 gráður á Celsius og jafnvel meira. Slíkur hitamunur þekkist ekki við Ísland og því kemur þessi tækni ekki til álita hér á landi. Af þeim sökum verður ekki fjallað nánar um þessa tækni hér. En kannski mun Orkubloggið fjalla um OTEC'ið síðar, svona til gamans.

----------------------------------------

Í næstu færslu verður fjallað um það hvað kostar að framleiða rafmagn frá mismunandi tegundum virkjana.


Ölduvirkjanir

Wave_Oyster_3

Ölduvirkjanatæknin byggist á að virkja aflið í ölduhreyfingu sjávar. Þetta er því talsvert ólíkt sjávarstrauma- og sjávarfallatækninni.

Unnið er að hönnun og byggingu fjölda ölduvirkjana, m.a. í Danmörku, á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum. Þar prófa menn sig áfram með margvíslegar tækniútfærslur, en öldungis er óvíst hvaða aðferð mun sigra í þeirri samkeppni. Virkja má öldukraftinn á hafi úti, þ.e. all langt utan við ströndina, eða að aldan sé virkjuð með tæknibúnaði sem stendur á hafsbotninum nánast í fjöruborðinu. Einnig má virkja öldukraftinn þar sem aldan skellur á ströndinni. Útfærslurnar eru afar margar og mismunandi.

Wave_pelamis

Enn sem komið er hafa líklega einungis þrjár ölduvirkjanir verið settar upp í á sjó. Þar er  Pelamisvirkjunin við strendur Portúgal hvað þekktust (sbr. myndin hér til hliðar). Annað dæmi er virkjun WaveGen við skosku eyjuna Islay.

Báðar eru þessar ölduvirkjanir þó ennþá á tilraunastigi - og Pelamisvirkjunin liggur nú í portúgalskri höfn vegna bilana. Vert er einnig að nefna að síðustu ár hefur staðið yfir þróun á ölduvirkjun við Færeyjar, en þar eru Færeyingarnir eimitt í samstarfi við áðurnefnt fyrirtæki WaveGen.

Eitt af þeim fyrirtækjum sem nú vinnur að byggingu ölduvirkjana er Ocean Power Technologies í Bandaríkjunum. Það fyrirtæki er skráð á Nasdaq (OPPT) og er til marks um verulegan áhuga fjárfesta á þessum iðnaði.

Er ölduvirkjun vænlegur kostur við Ísland?

Wave_1

Ölduorka er óvíða meiri í heiminum en við suðurströnd Íslands. Reyndar kann aldan þar að vera of kraftmikil fyrir ölduvirkjanir, svo mannvirkin ráði hreinlega ekki við þann ægikraft náttúrunnar. Raunhæfara kann að vera að virkja ölduorkuna við Ísland innan fjarða eða í annars konar skjóli, þ.e. þar sem aldan er viðráðanleg.

Til eru nokkuð góðar upplýsingar um ölduhæð á hafsvæðinu umhverfis Ísland. Þær eru uppfærðar mjög reglulega á vef Siglingastofnunar og þar er einnig birt ölduspá - sem fyrst og fremst er ætluð sjófarendum. Gera þarf mun nákvæmari öldumælingar, t.d. inni á fjörðum eða nálægt landi, til að unnt sé að fullyrða nokkuð um hagkvæmni ölduvirkjana við Ísland.

M.ö.o. verður ekki hægt að leggja mat á hagkvæmni þess að setja upp ölduvirkjun við Ísland, nema að undangengnum ítarlegri rannsóknum og mælingum á ölduhæð á þeim stöðum sem kunna að vera álitlegir.

Wavegen-Islay_photo

Í samtölum við starfsfólk Siglingastofnunar kom fram að sérstaklega gæti verið áhugavert að kanna möguleika á ölduvirkjun við höfnina í Höfn í Hornafirði og einnig við höfnina sem nú er verið að gera við Bakkafjöru í Landeyjum.

Eflaust koma margir fleiri staðir til greina. T.d. þar sem klettar ná í sjó fram, sbr. ölduvirkjunartækni skoska fyrirtækisins WaveGen (sbr. myndin hér að ofan frá vesturströnd Skotlands). Þetta er einmitt fyrirtækið sem hefur verið í samstarfi við Færeyinga um uppsetningu ölduvirkjunar þar. WaveGen er nú að mestu í eigu Siemens.

Wave_Pelamis_Part

Þessi tækni er í reynd á algeru frumstigi, þótt svo eigi að heita að kannski tvær ölduvirkjanir hafi tekið til starfa. Áðurnefnd Pelamisvirkjun við strendur Portúgal er líklega eina ölduvirkjunin sem reynd hefur verið á hafi úti. Ölduvirkjun WaveGen við Islay í Skotlandi er hönnuð til að virkja ölduorkuna þegar aldan skellur á ströndinni. Það eru sem sagt til ýmsar útfærslur af ölduvirkjunum sem kortleggja þyrfti nákvæmlega til að átta sig á hvaða tækni er lengst komin.

Sagt hefur verið um þennan iðnað, að þar virðist mönnum einkar lagið að læra ekki af mistökum annarra. Kannski hefur þetta einkennst meira af kappi en forsjá, en með því að safna saman öllum upplýsingum og t.d. erindum sem flutt hafa verið á ráðstefnum um þessa sjávarvirkjunartækni, ætti að vera hægt að átta sig á hvar bestu tækifærin liggja.

wave_oyster

Tækniútfærslur ölduvirkjana eru, sem fyrr segir, afar fjölbreytilegar. Myndin hér til hliðar sýnir útfærslu skoska fyrirtækisins Aquamarine Power þar sem orkan í yfirborðshreyfingum sjávar rétt við ströndina er beisluð (sbr. einnig teikningin hér efst í færslunni).

Pelamis-virkjunin flýtur aftur á móti á yfirborðinu og minnir á langan snák sem samsettur er úr nokkrum einingum. Ölduhreyfingin veldur því að liðamótin milli einstakra eininga hreyfast og sú hreyfing er notuð til að framleiða rafmagnið.

WaveDragonDiagram

Einnig mætti t.d. nefna danska tækni, sbr. myndin hér til hliðar, þar sem aldan kastast upp í eins konar miðlunarlón. Þaðan streymir sjórinn niður eftir rennu og knýr þar hverfilinn. Fyrirtækið sem vinnur að þessari tækniútfærslu heitir Wave Dragon.

Til eru ýmsar aðrar útfærslur af ölduvirkjunum. Einhverjum þeirra verða eflaust gerð skil hér á Orkublogginu síðar.

-----------------------------------------------

Næsta færsla verður um seltuvirkjanir.


Sjávarfalla- og hafstraumsvirkjanir við Ísland

Straumar_kringum_Island

Straumar við Ísland koma upp að landinu við suðvesturhornið og halda svo að mestu áfram réttsælis í kringum landið, nema hvað tunga klofnar frá Golfstraumnum sunnan við landið og fer austur með suðurströndinni.

Sjávarfallastraumarnir við Ísland fylgja í megindráttum stefnu hafstraumanna og fara réttsælis kringum landið. Um strauma inni á fjörðum Íslands gildir aftur á móti að þar virðist straumurinn almennt fara rangsælis (uppl. frá Hafró). Um þetta eru þó ekki til nákvæmar mælingar nema í fáeinum fjörðum. 

Kortið hér að neðan  sýnir sjávarfallastrauma í Arnarfirði. Það er birt með góðfúslegu leyfi Hafrannsóknastofnunar og sama gildir um kortið hér að og ofan, svo og Íslandskortið hér lítið eitt neðar í færslunni.

Straumar_ArnarfjordurÁ Orkuþingi 2006 kom fram að ekki væri hagkvæmt að ráðast í sjávarfallavirkjun hér við land nema þar sem sjávarstraumarnir eru a.m.k. 8–10 m/s (sbr. erindi Geirs Guðmundssonar; „Sjávarorka og möguleg virkjun sjávarfalla við Ísland“). Sú niðurstaða er byggð á lauslegum útreikningum á líklegum kostnaði við síkar virkjanir miðað við hefðbundnar virkjanir á Íslandi.

Ýmsar straummælingar hafa verið gerðar við Ísland í gegnum tíðina. Siglingastofnun hefur í samstarfi við íslenskar verkfræðistofur þróað sjávarfalla- og sjávarstraumalíkan og með því er hægt að áætla straumhraða við strendur landsins.

Sjávarfallalíkanið nýtist  vel til að fá upplýsingar um strauma, straumrastir og sjávarflóð. Það nær yfir allt hafsvæðið umhverfis Ísland, en þó ekki langt inn í firði. Þar þarf því að gera sérstakar straummælingar til að fá nákvæmari vitneskju um straumana.

Straumar_vid_Island

Fram til þessa hafa slíkar straummælingar takmarkast við svæði sem þurft hefur að rannsaka vegna sérstakra framkvæmda. Þar má t.d. nefna straummælingar í Héraðsflóa vegna umhverfismats tengt Kárahnjúkavirkjun og mælinga í Reyðarfirði vegna fyrirhugaðs álvers og siglinga flutningaskipa þangað.

Styrkur sjávarfallastrauma við Ísland er mjög mismikill. Hraðinn ræðst af landslaginu, svo sem grynningum, þrengingum o.fl. Langsterkust eru sjávarföllin i Breiðafirði. Á nokkrum stöðum er að finna nokkuð öflugar straumrastir, svo sem við Reykjanes og Látrabjarg. Þá hefur veður mjög mikil áhrif á strauma inni á fjörðum.

Hvammsfjordur

Til þessa hefur sjávarfallavirkjun við Breiðafjörð yfirleitt verið talin besti og jafnvel eini raunhæfi möguleikinn á sjávarvirkjun við Ísland. Í Breiðafirðinum er hátt í 5 m munur á stórstraumsflóði og -fjöru og straumhraðinn í Röst við mynni Hvammsfjarðar hefur verið talinn geta farið yfir 10 m/s við bestu aðstæður (þessi tala kann þó að vera ofáætluð). Þarna gæti verið tækifæri til að framleiða talsvert mikla raforku með hagkvæmum hætti og virkjunina mætti byggja í áföngum og t.d. byrja fremur smátt. 

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á styrk sjávarfallanna á svæðinu og straumunum þar. Árið 2001 var stofnað fyrirtækið Sjávarorka ehf. til að rannsaka möguleika á virkjun sjávarfalla í Breiðafirði og hafa forystu um slíka virkjun. Unnið hefur verið að dýptar- og straummælingum og kortlagningu svæðisins. Einnig hafa verið skoðaðar mismunandi tegundir af hverflum, en engin ákvörðun mun hafa verið tekin um framhaldið.

Breidafjordur_kort

Helsti kostur þessa staðar fyrir sjávarfallavirkjun gæti reyndar einnig skapað vandkvæði. Hugsanlega er straumurinn þarna svo sterkur að hann mundi valda erfiðleikum við viðhald virkjunarinnar. Þá er óvíst um umhverfisáhrif virkjunarinnar og einnig má hafa í huga að langt er í næsta stórnotanda (stóriðjuna á Grundartanga í Hvalfirði). Þarna eru sem sagt fyrir hendi margir óvissuþættir sem kanna þarf miklu betur áður en unnt verður að meta hagkvæmni svona sjávarfallavirkjunar.

Skylt er að nefna að fyrr á tíð var starfrækt lítil sjávarfallavirkjun við Brokey á Breiðafirði, sem var notuð til að mala korn en ekki framleiða rafmagn (sem sagt e.k. sjávarmylla). Gríðarleg orka er í sjávarföllunum á Breiðafirði og harla óskynsamlegt væri að veita henni ekki meiri athygli; mikilvægt er að skoða þessa möguleika enn betur. 

reykjanes_1

Sama má segja um aðra virkjunarmöguleika af þessu tagi við Ísland, t.d. þann fræðilega möguleika að seta upp straumvirkjun í Reykjanesröstinni. Athyglisvert er að í nágrenni við það svæði eru einnig grynningar (Hraun út af Garðskaga) sem gætu reynst góð staðsetning fyrir stóra vindrafstöð. Allt er þetta þó órannsakað ennþá.

Loks má nefna að nokkrir viðmælendur Orkubloggarans úr hópi fagfólks, nefndu þann möguleika að Hrútafjörður  gæti verið áhugaverður staður fyrir sjávarfallavirkjun.

Almennt má reyndar segja að Vestfirðir kynnu að henta vel fyrir sjávarvirkjun. Þar er  raforkuframboð ótryggt og sérstaklega mikilvægt að skoða alla virkjunarkosti. Þar koma kannski enn frekar til skoðunar ölduvirkjun eða osmósuvirkjun, heldur en sjávarfallavirkjun. Að þessu verður vikið nánar í næstu tveimur færslum.

---------------------------------------------------------

Í næstu færslu verður fjallað um ölduvirkjanir.


Draumurinn um hafstraumavirkjanir

Sjávarfallavirkjanir byggja á mikilli fallhæð og/eða að sjávarfallastraumarnir séu sem sterkastir. Sjálfir hafstraumarnir eru miklu hægari og fram til þessa hafa almennt verið taldar litlar líkur á því að unnt verði að framleiða rafmagn með hagkvæmum hætti með því að virkja hafstrauma. Rétt eins og vindorkuver er óhagkvæmt ef það er byggt þar sem að jafnaði er nánast logn eða mjög lítill vindur.

Gulf-Stream2

Undanfarin ár hafa þó ýmsir kannað möguleika á hafstraumavirkjunum. Ein hugmyndin gengur út á að virkja Golfstrauminn við strendur Florida (myndin hér til hliðar sýnir Golfstrauminn - þennan góða vin Íslands).

Sökum þess hversu straumhraði í hafinu er almennt lítill er orka á rúmmálseiningu ekki mikil. Til að vinna upp á móti litlum straumi gæti lausnin falist í því að hanna mjög ódýra hverfla og þá gæti ein virkjun hugsanlega nýtt mikinn fjölda hverfla og náð nægjanlegri hagkvæmni.

Þær nýju sjávarfallavirkjanir sem nú eru á hönnunarstigi og sagt var frá í færslunni hér á undan, miðast flestar við að straumhraðinn sé a.m.k. á bilinu 2,5–5,0  m/s og helst mun meiri. Venjulegir hafstraumar eru aftur á móti hægari; við Ísland er straumhraðinn t.d. oftast 0,25-0,5 m/s (skv. upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun).

Ástæða þess að nú er byrjað að skoða möguleika á því að virkja hafstrauma, er áhugi margra ríkja á að auka hlutfall endurnýjanlegrar raforkuframleiðslu og draga þannig úr þörf sinni fyrir jarðefnaeldsneyti. Gífurleg orka er fólgin í hafstraumunum og freistandi að leita leiða til að virkja hana. En það er þó miklu líklegra að framfarir í sjávarorkuiðnaðinum muni verða í þróun sjávarfallavirkjana eða ölduvirkjana, fremur en að hafstraumavirkjanir verði raunverulegur kostur. Það er m.ö.o. afar hæpið, að mati Orkubloggsins, að hafstraumavirkjanir verði einhvern tímann áhugaverður kostur í rafmagnsframleiðslu á svæðum þar sem hafstraumurinn er u.þ.b. 2,5 m/s eða jafnvel enn minni.

messina_strait

Samt er ekki ástæða til að útiloka hafstraumavirkjanir. Nýir fjárhagslegir hvatar (styrkir, skattahagræði o.fl.) gera það að verkum að fjárfestar eru tilbúnir að setja fjármuni í þróun ýmissa tegunda af nýjum virkjunum í von um að unnt verði að þróa búnaðinn og lækka kostnað. Að því kann að koma að slíkar virkjanir geti í framtíðinni keppt við raforku frá öðrum orkuverum.

Vert er að minna á að á síðustu árum hefur verið unnið að hugmyndum um virkjun í Messinasundi milli Ítalíu og Sikileyjar, en þar er meðalstraumhraðinn einungis um 2,5 m/s. Einnig eru uppi hugmyndir um að setja upp gríðarmiklar straumvirkjanir út af ströndum Florida, þar sem hraði Golfstraumsins er um 2 m/s. Önnur róttæk hugmynd um að virkja venjulega hafstrauma er sú sem gerir ráð fyrir því að beita svokallaðri hringiðutækni:

Hringiðutæknin.

Það er þekkt fyrirbæri hvernig hringiður eða hvirflar geta myndast í hafinu af náttúrulegum orsökum. Hreyfiorkan í hringiðunum kveikti þá hugmynd hjá mönnum að skoða möguleika á því að búa til hringiður nálægt landi, virkja þá orku og framleiða þannig rafmagn. Aðferðin felst í því að koma mannvirkjum fyrir á hafsbotni sem trufla strauma svo hvirflar myndist. Þessa orku kann að verða hægt að virkja til rafmagnsframleiðslu.

Hringiðuvirkjanir eru í raun ein tegund af straumvirkjunum, en sérstaða þeirra felst í því að geta hugsanlega framleitt rafmagn þar sem meðalstraumur er mjög lítill. Ef tæknin reynist virka sem skyldi, mun þessi tegund sjávarvirkjana hugsanlega verða áhugaverð. En þróun hringiðuvirkjana er á algeru frumstigi og mun e.t.v. aldrei skila neinu.

vortex_marine_energy

Bandaríska fyrirtækið Vortex Hydro Energy er líklega þekktast á þessu sviði í dag. Það var stofnað 2004 og hefur því unnið að þróun hringiðuvirkjunar í nokkur ár. Stefnt er að því að hver framleiðslueining virkjunarinnar geti skilað um 50 kW og setja megi fjölmargar einingar saman svo slík virkjun geti framleitt tugi og jafnvel hundruð MW!

Hugmyndin á rætur að rekja til manna hjá Michigan-háskóla og hafrannsóknadeild bandaríska sjóhersins. Að þeirra sögn eru nú einungis um 5 ár þar til að unnt verður að hefja framleiðslu á þessum virkjunum.

Á móti koma efasemdir um að þessi tækni verði nokkru sinni raunhæf. Hjá bandaríska fyrirtækinu Hydro Volts, sem býr yfir talsverðri þekkingu á virkjun sjávarorkunnar, fullyrða menn að slíkt sé útilokað nema straumhraðinn sé a.m.k. 3 m/s (skv. samtali Orkubloggsins við starfsfólk Hydro Volts í liðinni viku). Þar með muni venjulegur hafstraumur aldrei nýtast til að framleiða rafmagn.

Gulf_Stream_Sunrise

Þessi straumhraði (3 m/s) er í raun svipuð þeirri lágmarksviðmiðun sem sjá má hjá flestum þeirra fyrirtækja, sem nú eru að vinna að hönnun nýrra sjávarfalla- eða straumvirkjana. Það virðist því sem háskólafólkið frá MIT og félagar þeirra hjá Vortex Hydro Energy standi dálítið einmana í sjávarvirkjanaiðnaðinum. Hvað svo sem síðar á eftir að verða.

---------------------------------------------

Í næstu færslu verður sagt frá aðstæðum við Ísland með hliðsjón af mögulegum sjávarfallavirkjunum og hafstraumavirkjunum.


Sjávarfallavirkjanir

Hér í fyrri færslu var minnst á helstu náttúruauðlindir Íslands; orkuna og auðlindir hafsins. Þegar Íslendingar tala um auðlindir hafsins eiga þeir jafnan við hinar lífrænu auðlindir – fiskinn og annað sjávarfang. En alkunnugt er að hafið býr yfir gríðarlegri orku, sem freistandi er að reyna að virkja.

Sjávarvirkjanir. 

Í grófum dráttum má skipta virkjunum sem byggja á orku sjávar í sex mismunandi flokka (þessi flokkun er þó ekki einhlít og er stundum sett fram á annan hátt):

1.         Sjávarfallavirkjanir sem byggjast á stíflu.
2.         Nýjar tegundir sjávarfallavirkjana.
3.         Aðrar hafstraumavirkjanir, þ.m.t. hringiðuvirkjanir.
4.         Ölduvirkjanir.
5.         Seltuvirkjanir.
6.         Varmamismunarvirkjanir.

Í þessar færslu verður eingöngu fjallað um sjávarfallavirkjanir (sbr. flokkar 1 og 2  hér að ofan). Í næstu færslu verður litið sérstaklega til möguleika sjávarfallavirkjana á Íslandi. Og í framhaldi af því verður skoðuð önnur sjávarvirkjanatækni (sbr. flokkar 3-6). 

 

Sjávarfallavirkjanir.

Sjávarfallavirkjanir sem bygga á einhvers konar stíflu eða þverun er sú tækni sem er þróuðust í virkjun á afli sjávar. Þess konar virkjanir má nefna hefðbundnar sjávarfallavirkjanir, en þeim svipar að mörgu leyti til venjulegra vatnsaflsvirkjana með miðlunarlóni.

Útbúin er stífla, t.d. fyrir fjörð eða sund, og fyrir tilverknað stíflunnar og sjávarfallanna verður yfirborð sjávar öðru megin stíflunnar hærra en hinum megin og þannig má nýta fallorkuna þegar sjórann streymir þar á milli. Til að slíkar virkjanir séu hagkvæmar þarf straumurinn sem myndast að vera mjög sterkur, þ.e. mikill munur þarf að vera á flóði og fjöru. Auk þess þurfa landfræðilegar aðstæður auðvitað að vera þannig að hægt sé með þokkalega góðu móti að stífa viðkomandi fjörð eða árósa. 


Ný tegund sjávarfallavirkjana.

Undanfarin ár hefur víða verið unnið að nýjum tegundum sjávarfallavirkjana sem munu hugsanlega geta orðið hagkvæmar þó svo að straumurinn sé ekki eins sterkur og þar sem notast er við stíflur. Með tækniframförum og aukinni áherslu á að forðast neikvæð umhverfisáhrif virkjana, hafa myndast hvatar sem eru líklegir til að flýta þróun slíkra virkjana og þær gætu orðið hagkvæmur kostur innan nokkurra ára eða áratuga.

Tidal_seagen_8

Þetta hefur leitt til þess að þróuð hefur verið ný tækni við að virkja afl sjávarfallanna. Þá er hreyfiorkan í sjávarfallastraumnum virkjuð þar sem hinn náttúrulegi straumur er hvað stríðastur, án nokkurrar stíflu eða annarra slíkra mannvirkja. Hagstæðustu staðirnir fyrir slíkar virkjanir eru þar sem landfræðilegar aðstæður valda stríðum sjávarfallastraumum.

Þó nokkru fjármagni hefur verið varið til að þróa þessa nýju tækni í sjávarfallavirkjunum, einkum á Bretlandseyjum. Einnig eru nokkuð mörg fyrirtæki af þessu tagi í Bandaríkjunum, en þau eru flest mjög lítil. Hverflarnir og hönnunin er mismunandi og rannsóknir standa yfir á mörgum og ólíkum útfærslum. Einnig er t.d. leitað hagkvæmra lausna á því hvers kona rafalar henta best og hvernig einfaldast og hagkvæmast er að koma rafmagninu yfir í dreifikerfið.

Slíkar sjávarfallavirkjanir eru afar mismunandi. Virkjanir af þessu tagi minna stundum á vatnsaflsvirkun án miðlunarlóns, þ.e. rennslisvirkjanir, en önnur útfærsla felst í því að turni með spöðum er komið fyrir ofan í sjónum og sjávarfallastraumurinn veldur því að spaðarnir snúast. Eins má nefna s.k. skötur (á ensku nefnt stingray technology), sem eru eins konar vængir sem færast upp og niður og pumpa þannig vökva sem drífur vökvamótor er knýr rafalinn, og sogtækni (á ensku nefnt venturi) sem byggist á því að framkalla sog sem dregur sjó eða loft í gegnum hverfil uppi á landi. Til eru ýmsar aðrar útfærslur.

Helstu kostir og gallar sjávarfallavirkjana.

Sjávarfallavirkjunum sem byggja á því að nýta hæðarmun sjávarfalla með stíflu fylgja mikil umhverfisáhrif. Og þessar hefðbundnu sjávarfallavirkjanir teljast þar að auki ekki hagkvæmar nema þar sem flóðhæð í stórstreymi  er 8–10 m eða meiri. Fáa slíka staði er að finna í heiminum.

Tidal_seagen_6

Raforkuframleiðsla sjávarfallavirkjunar sveiflast í takt við sjávarfallabylgjuna og er því ójöfn, rétt eins og hjá vindrafstöð. Aftur á móti veldur fyrirsjáanleiki sjávarfallanna því að tiltölulega auðvelt er að reikna út breytingar á afli og orkuframleiðslu sjávarfallavirkjunar. Afl vindorkuversins er á hinn bóginn algerlega háð duttlungum vindsins hverju sinni. Að þessu leyti eru sjávarfallavirkjanir áreiðanlegri kostur.

Hinar nýju tegundir sjávarfallavirkjana skera sig mjög frá þeim eldri sem þurfa stíflu. Nýju sjávarfallavirkjanirnar eru margar nánast ósýnilegar ofansjávar og þeim fylgja ekki dýrar stífluframkvæmdir. Þær eru almennt sagðar hafa lítil umhverfisáhrif, en slíkum virkjunum geta þó fylgt einhver neikvæð áhrif á lífríkið. Þetta þarf að rannsaka betur. Þessum virkjunum fylgja talsverðar rafmagnsleiðslur á botni og viðhald getur verið erfiðleikum bundið. Þær þurfa líka nokkuð mikinn straumhraða, eins og nú verður vikið að.

Hversu miklu máli skiptir straumhraðinn?

Hinar nýju sjávarfallavirkjanir eru sagðar geta verið hagkvæmar þar sem hámarksstraumurinn er um 2,5 m/s eða meira. Hafa ber í huga að þetta er talsvert mikill straumhraði; sjávarfallastraumar eru víðast hvar mun hægari en sem þessu nemur.

Tidal_Seagen-2

Eins og gefur að skilja eykst hagkvæmni svona sjávarfallavirkjunar eftir því sem straumurinn er meiri. Afköst sjávarfallavirkjana og annarra straumvirkjana (og líka vindorkuvera) aukast í þriðja veldi miðað við aukinn straumhraða (vindhraða). Til að skýra þetta betur skal tekið fram að aflið og orkuframleiðslan áttfaldast við það að straumhraðinn tvöfaldast (2x2x2=8).

Eftir því sem straumurinn er meiri þarf virkjunin að vera sterkari og því eykst kostnaður við virkjunina. Kostnaðurinn eykst þó ekki nærri jafn mikið og afkastageta virkjunarinnar. Tvöföldun í straumhraða þýðir 3–4 sinnum meiri fjárfestingu, en aftur á móti áttfaldast aflið, eins og áður segir. Þess vegna er mikil hagkvæmni fólgin í því að virka þær straumrastir þar sem straumur verður hvað hraðastur.

Straumurinn ræðst af landfræðilegum aðstæðum við ströndina, svo sem ef þrengingar skapa umtalsverðan straumhraða, eða þar sem grynningar valda því að sjávarfallastraumar verða stríðir. Hinar nýju sjávarfallavirkjanir sem nú eru á hönnunarstigi miðast flestar við að hámarksstraumhraðinn sé a.m.k. á bilinu 2,5–5,0  m/s.

tidal_power_lunar

Til samanburðar er straumhraðinn í sjávarföllum á Breiðafirði hugsanlega allt að 10-12 m/s, en hæðarmunur flóðs og fjöru við Ísland er einmitt mestur við Vesturland. Þess vegna kann Breiðafjörður að henta vel fyrir sjávarfallavirkjun (samkvæmt upplýsingum frá starfsfólki Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands var lengi vel talið að hámarksstraumurinn þarna væri um 12 m/s, en nú hefur  komið í ljós að líklega sé hraðinn mun minni; vísbendingar eru um að yfirborðsstraumhraðinn sé um 6,5 m/s, en það þarf að gera ítarlegi rannsóknir til að fá þetta á hreint). Aftur á móti eru hafstraumar við Ísland oftast einungis u.þ.b. 0,25–0,5 m/s.

Eru til sjávarvirkjanir sem ekki þurfa mikinn straumhraða?

Ef unnt væri með hagkvæmum hætti að virkja veika sjávarfallastrauma eða jafnvel venjulega hafstrauma, þ.e. straum sem er talsvert minni en 2,5 m/s og jafnvel allt niður í 0,5 m/s, ylli það væntanlega straumhvörfum í orkumálum veraldar. Um slíkar virkjanir verður fjallað í næstu færslu.

Hvar má finna starfandi sjávarfallavirkanir?

Þekktasta sjávarfallavirkjun í heimi er Rance-virkjunin í Frakklandi. Hún var byggð við ósa árinnar la Rance á Bretagneskaga og hóf starfsemi árið 1966 (sbr. myndin hér að neðan). Virkjunin byggir á stíflu (þverun) og hafði mikil áhrif á lífríkið á svæðinu. Til eru örfáar aðrar sambærilegar sjávarfallavirkjanir í heiminum, t.d. við Fundyflóa við austurströnd Kanada, en þær eru mun smærri í sniðum en sú franska.

Rance-tidal-power-plant

Sem fyrr segir hafa virkjanir af þessu tagi þótt valda miklum umhverfisáhrifum og þess vegna þykja þær yfirleitt ekki góður virkjanakostur nú á dögum. T.d. hefur lengi verið til skoðunar að byggja stóra sjávarfallavirkjun með því að þvera ósa lengstu ár Bretlandseyja, árinnar Severn, sem rennur til sjávar á mótum Englands og Wales, en þar er munur flóðs og fjöru hvað mestur í heiminum utan Fundyflóa í Kanada. Hugmyndirnar um að virkja Severn hafa mætt verulegri andstöðu vegna neikvæðra umhverfisáhrifa virkjunarinnar og ennþá er óvíst hvort af þessum áformum verður.

Margar tilraunir standa yfir með hinar nýju tegundir sjávarfallavirkjana (og með straumvirkjanir). Í fyrstu eru smækkaðar frumgerðir prófaðar í streymistönkum hjá rannsóknastofum eða prófaðar í vatnsföllum á landi. Nokkur dæmi eru um að frumgerðir af búnaðinum hafi verið settur upp úti í sjó og í örfáum tilvikum hafa fyrirtækin sagt að þau séu byrjuð að framleiða rafmagn frá slíkum virkjunum inn á dreifikerfið.

Tidal_deltaStream

Tilraunir með virkjun af þessu tagi hafa t.d. verið gerðar í Kanada frá árinu 2006 (Race Rocks Tidal Power Demonstration Project). Önnur dæmi eru hugmyndir fyrirtækisins Tidal Energy í Wales (Delta Stream) og breska fyrirtækisins Lunar Energy, sem nú vinnur að uppsetningu virkjana bæði utan við strönd Suður-Kóreu og Wales. Lengst komin eru þó breska fyrirtækið Marine Current Turbines með svo kallaða SeaGen-tækni og írska fyrirtækið Open Hydro, en þau hafa bæði sett upp tilraunavirkjanir og eru sögð hafa tengt þær við raforkukerfi.

Tidal_seagen_operation

Nú er liðið um ár frá því fyrstu SeaGen-sjávarfallarafstöðinni var komið fyrir í Straumfirði (Strangford) á Írlandi. SeaGen-tæknin byggist á n.k. turni sem rís upp af hafsbotninum og á honum neðansjávar eru spaðar eða vængir – ekki ósvipaðir og á vindrafstöð – sem snúa rafölum. Framleiðslugeta (uppsett hámarksafl) eins svona turns er sögð vera um 1,2 MW. Virkjunin nýtir bæði aðfallið og útfallið og að sögn Marine Current Turbines framleiðir stöðin rafmagn í um 18–20 klst á dag.

Meðalhraði sjávarfalla í Strangford er talsverður (um 3,7 m/s en fer upp í 4,8 m/s). Það er þó langt frá því sem gerist t.d. í Röstinni í mynni Hvammsfjarðar, en þar nær straumurinn því hugsanlega að verða allt að 10 m/s (sem fyrr segir kann þetta þó að vera ofáætlað; straumhraðinn í Röstinni kann að vera nær 6,5 m/s). Athyglisvert verður að fylgjast með þessari virkjun þarna við Írlandsstrendur. E.t.v. gæti þessi tækni hentað á einhverjum stöðum hér við land.

Open_Hydro_2

Hitt fyrirtækið sem vinnur að þessari nýju tegund sjávarfallavirkjana og hefur hafið raforkuframleiðslu, er írska fyrirtækið Open Hydro. Það kom sinni stöð einnig fyrir s.l. sumar (2008), en hún er staðsett utan við Evrópsku haforkurannsóknarmiðstöðina á Orkneyjum (European Marine Energy Centre; EMEC).

Rannsóknarstöðin sérhæfir sig m.a. í prófunum á tilraunavirkjunum og að meta umhverfisáhrif sjávarvirkjana, svo sem á fiska, fugla og sjávarspendýr. Framleiðslugeta (hámarksafl) hverrar einingar hjá Open Hydro er 250 kW, en nú er í undirbúningi uppsetning á 1 MW Open Hydro-virkjun í Fundyflóa í Kanada og einnig við Alderney á bresku Ermarsundseyjunum.

Þetta eru einungis fáein dæmi um það sem nú er að gerast á þessu sviði í heiminum. Fjöldi annarra tilrauna er í gangi. Ekki eru forsendur fyrir hendi til að meta hagkvæmni sjávarfallavirkjana og bera þær saman við aðrar tegundir af endurnýjanlegri orkuframleiðslu; til þess er tæknin enn of ung og óþroska.

wave_finavera-buoys

Þær nýju sjávarfallavirkjanir sem til eru í dag eru aðeins tilraunavirkjanir og enn er ekki komin reynsla á hver rekstrarkostnaður slíkra virkjana er eða kemur til með að verða. Fjöldaframleiðsla á búnaði í slíkar virkjanir er ekki hafin og ómögulegt að leggja mat á hver fjárfestingarkostnaðurinn kemur til með að verða. En af viðbrögðum t.d. breskra stjórnvalda og bandarískra fjárfesta má ráða að tæknin sé áhugaverð og geti til framtíðar orðið raunverulegur og jafnvel mjög mikilvægur kostur í framleiðslu á rafmagni.

Hvað Ísland snertir, hefur undanfarin ár verið unnið að hugsanlegri sjávarfallavirkjun í mynni Hvammsfjarðar. Það er líklega sá staður á Íslandi sem best hentar fyrir sjávarfallavirkjun. Vissulega eru hér fleiri áhugaverðir staðir, t.d. Reykjanesröstin. Um þetta verður nánar fjallað síðar hér á Orkublogginu, þar sem sérstaklega verður spáð í möguleika Íslands á sjávarvirkjunum.

Loks er hér fréttamyndband, sem sýnir SeaGen-tæknina:

 


Vindorka framtíðarinnar

Áður en við skiljum við vindorkuna og víkjum að sjávarorkunni er rétt að fara nokkrum orðum um hugmyndir manna um það hvernig vindorka kann að verða nýtt í ennþá meira mæli í framtíðinni. Í þessu sambandi verður sérstaklega horft til Noregs, en þar eru nú uppi miklar áætlanir um slíka orkuframleiðslu.

Hér að framan sagði frá stærstu vindorkuverum heims sem einmitt hafa verið byggð úti í sjó, þar sem vindur er mun stöðugri og virkjanirnar skila oft meiri afköstum en á landi. Nú verður stuttlega vikið að þeim framtíðarmöguleikum sem taldir eru geta gert vindorkuver ennþá hagkvæmari og stóraukið hlutfall vindorku í rafmagnsframleiðslu.

Wind_Turbine_Floating_2

Þau fyrirtæki sem nú eru líklega lengst komin í að þróa þessa nýju tækni eru norsku fyrirtækin Sway og orkurisinn StatoilHydro. Ástæðan fyrir því að Norðmenn eru svona áhugasamir um þessa úthafsvindrafstöðvatækni er að þarna geta þeir nýtt þekkingu sína úr olíuiðnaðinum.

Norðmenn standa framarlega í smíði á fljótandi olíuborpöllum og hyggjast nýta þá reynslu til að smíða stórar fljótandi vindrafstöðvar, sem staðsettar verða í Norðursjó djúpt út af vesturströnd Noregs. Þessum hugmyndum Norðmanna um stóraukna orkuframleiðslu og raforkuútflutning til Evrópu er stundum lýst með þeim orðum að Noregur stefni að því að verða rafhlaða Evrópu.

Til marks um þá fjármuni sem nú er varið í þróun á þessari tækni, skal þess getið að árið 2007 tryggði Sway sér hlutafé upp á 150 milljónir NKK. Hitt verkefnið, sem StatoilHydro kemur einnig að, er unnið í samstarfi við vindorkuarm þýska fyrirtækisins Siemens. Myndin hér að ofan er teikning sem sýnir hvernig svona vindrafstöð mun líta út - til að átta sig á stærðinni hefur þyrlu verið bætt inn á myndina. 

Wind-deepwater-offshore

Það sem hvetur Norðmenn til að leggja fjármagn í að auka framleiðslu sína á vindorku er fyrst og fremst stefna Evrópusambandsins um að stórauka hlutfall endurnýjanlegrar orku í raforkunotkun innan sambandsins. Þó svo að bæði vindorka og sólarorka vaxi hratt innan ESB, er ekki víst að sambandið nái markmiðum sínum um „hreinni“ orku og minnkun gróðurhúsalofttegunda nema með miklum innflutningi á rafmagni frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

Þessi kostur - að framleiða rafmagn með risastórum vindrafstöðvum og flytja til Evrópusambandsins - kæmi líklega seint til skoðunar á Íslandi. Þó er aldrei að vita nema í framtíðinni verði unnt að selja raforkuna um sæstreng. Það yrði þá væntanlega helst til Skotlands, vegna nálægðarinnar. Óvíst er hvort slíkar úthafsvindrafstöðvar við strendur Íslands gætu keppt við sambærilega raforkuframleiðslu í t.d. Norðursjó. Það er þó ekki útilokað; vegna þess hversu sterkur vindur er hér gæti hagkvæmni stórra og öflugra vindrafstöðva hugsanlega orðið mun meiri við strendur Íslands en út af Bretlandseyjum eða Noregi og verðið samkeppnishæft. Þetta eru auðvitað einungis vangaveltur sem hafa litla praktíska þýðingu í dag.

Wind_Magenn-2

Í lok þessarar umfjöllunar um vindorku, er viðeigandi að nefna hugmyndir um miklu stærri og öflugri vindrafstöðvar en tíðkast hafa fram til þessa. Þar er um að ræða hugmyndir kanadíska fyrirtækisins Magenn Power um eins konar loftskip, sem eru útbúin með gríðarstóra spaða og er haldið föstum við jörðu með löngum köplum.

Annað fyrirtæki sem er að þróa sambærilega tækni er Kite Gen á Ítalíu. Þessi tækni er kynnt sem mun ódýrari kostur en að byggja turna, auk þess sem tiltölulega einfalt á að verða að færa stöðvarnar til.

Framtíðin ein mun leiða í ljós hvort þetta sé raunhæfur möguleiki. En hæpið er að slíkar loftskips-vindrafstöðvar verði nokkru sinni settar upp hér á Íslandi; til þess eru stórviðri of tíð. Það veðravíti sem stundum ríkir á Íslandi hlýtur sem sagt að útiloka vindorkuver af þessu tagi hér á landi – þótt þau verði hugsanlega að veruleika einhvers staðar annars staðar í heiminum.

---------------------------------------------------------------------

Í næstu færslu verður sjónum beint að sjávarvirkjunum.


Vindrafstöðvar á Íslandi

Hefur vindorka verið notuð til rafmagnsframleiðslu á Íslandi?

Vindmylla_gomul_fareajar

Áður fyrr var nokkuð um að reistar væru litlar vindrafstöðvar við sveitabæi á Íslandi. Þær lögðust af með rafvæðingu landsins eftir miðja öldina og á tímabili munu Rafmagnsveitur ríkisins meira að segja hafa gert þá kröfu að slíkum heimarafstöðvum væri lokað.

Orkubloggaranum er það reyndar minnisstætt þegar pápi vildi sko ekki sjá að fá "nýja rafmagnið" inní húsið austur á Klaustri. Við fengum rafmagnið frá gömlu heimarafstöðinni, sem fær afl sitt ofan af Systravatni. En svo kom sem sagt að því að "ríkisrafmagnið" barst vestan frá Sigöldu og vildi komast inn á hvern bæ og í hvert hús. Í þetta skipti þurfti Rarik að lúffa fyrir pabba, en nú mun aftur á móti vera búið að koma prestsetrinu á Landsnetið. Það er reyndar svo að Skaftfellingar voru hér i Den í fararbroddi i byggingu heimarafstöðva og byggðu slíkar vatnsaflsvirkjanir víða um landið. En það er önnur saga.

En víkjum aftur að vindorku nútímans. Á Íslandi hefur aldrei risið neitt vindorkuver í þeim stærðarflokki sem nú þekkist víða um heim. Hér er einungis að finna mjög litlar vindrafstöðvar sem t.d. Vegagerðin mun hafa nýtt sér. Ekki er kunnugt um að almennar hagkvæmnisathuganir hafi verið gerðar um að reisa vindorkuver hér á landi, en einhverjar staðbundnar athuganir í tengslum við vindmælingar hafa verið gerðar, svo sem í Grímsey og Vestmannaeyjum.

Fyrir fáeinum árum voru lögð drög að uppsetningu á vindrafstöð í Grímsey. Stöðin átti að koma frá danska fyrirtækinu Vestas og átti að geta framleitt mun meira en sem nam allri orkuþörf eyjarskeggja, en díselstöð skyldi nýtt sem varaafl. Í skýrslu nefndar iðnaðarráðuneytisins um Grímseyjarverkefnið, sem kom út snemma árs 2003, var lagt til „að nú þegar verði ráðist í tæknilega úttekt á samkeyrslu dísilrafstöðva og rekstri vindmyllu í Grímsey og er eðlilegt að fela sérfræðingum í beislun vindafls það verkefni. Nærtækast er að leita til sérfræðinga dönsku vindrannsóknastöðvarinnar á Risö“. Svo virðist sem þetta verkefni hafi lognast út af og þess í stað verið lögð áhersla á að leita að jarðhita á eyjunni og bíða með ákvarðanir um að setja þar upp vindrafstöð.

Fyrir nokkrum árum starfaði hér íslenskt vindorkufyrirtæki, Vindorka ehf., sem hugðist þróa nýja, hagkvæmari og hljóðlátari vindrafstöðvar en þekkst hafa. Hugvitsmaðurinn að baki því verkefni heitir Nils Gíslason. Skráð var einkaleyfi að hugmyndinni og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins lagði til 35 milljónir króna í hlutafé, en alls var hlutafé rúmlega 93 milljónir króna. Ekki gekk þetta eftir sem skyldi og fyrirtækið hætti starfsemi 2004.

Af þessu tilefni er rétt að minna á að vindorka getur gegnt veigamiklu hlutverki í efnahagslífi þjóðar jafnvel án þess að settar séu upp neinar stórar vindrafstöðvar. Þó svo að mikil raforkuframleiðsla sé frá vindorkuverum í Danmörku hafa nær engar stórar, nýjar vindrafstöðvar verið settar þar upp um árabil. Engu að síður hefur danska fyrirtækið Vestas verið í örum vexti vegna mikillar söluaukningar erlendis.

Sudurland_vestur

Árið 1999 var gerð könnun á vegum opinbers starfshóps á hagkvæmi rafmagns-framleiðslu með vindorku á Íslandi og á því hvar helstu möguleikar væru til þess með tilliti til veðurfars. Niðurstaðan mun hafa verið sú að hagkvæmt gæti verið að reisa vindorkuver á Suðurlandsundirlendinu og jafnvel í Bláfjöllum.

Nýlega samdi sveitarfélagið Hornafjörður við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um sérstakt verkefni þar sem m.a. verða skoðaðir möguleikar á virkjun sjávarorku og vindorku. Í frétt um verkefnið kemur fram að stefnt sé að „samstarfi við aðila í Skotlandi sem hafa náð góðum árangri í virkjun vind- og sjávarorku“. Loks er að geta þess að nú er unnið að uppsetningu vindrafstöðvar í Belgsholti í Melasveit.

Er raunhæft að setja upp stórar vindrafstöðvar á Íslandi?

Tæknilega séð er ekkert því til fyrirstöðu að vindorka verði nýtt í einhverjum mæli á Íslandi. Aftur á móti er óvíst hvort eitthvert fjárhagslegt vit er í slíku, þ.e. erfitt er að fullyrða hvor íslenskt vindorkuver gæti keppt við rafmagn frá vatnsafls- eða jarðvarmavirkjunum. Vindorka gæti mögulega reynst hagkvæm á Íslandi, en um þetta ríkir óvissa vegna skorts á ítarlegri rannsóknum, vindmælingum og tilraunum.

Wind-power_SEA

Þó er vitað að vindur á Íslandi er almennt mjög óstöðugur og stundum afar hvass. Það eitt gerir vindrafstöðvar hér ekki eins fýsilegan kost og víða annars staðar. Þetta útilokar þó alls ekki að hér geti verið hagkvæmt að nýta vindorku til raforkuframleiðslu að einhverju marki.

Á síðustu árum hafa t.d. verið hannaðir hverflar af nýrri tegund sem eru ólíkir þeim sem almennt hafa verið notaðir í vindorkuiðnaðinum til þessa. Hinir hefðbundnu hverflar framleiða mismikið rafmagn eftir því hvað vindurinn er sterkur og eru hannaðir til að skila mestu afli við ákveðinn vindstyrk, t.d. 15 m/s. Þó svo að einstakar tæknilegar útfærslur séu ekki umfjöllunarefni þessarar skýrslu, er nauðsynlegt að vekja athygli á því að til eru hverflar sem miðast við það að skila stöðugu afli, sama hver vindurinn er. Þessir hverflar geta bæði nýst í vindorkuver og líka í sjávarvirkjanir, þar sem orkan er breytileg rétt eins og gerist með vind. Vindorkuver með slíkum hverflum gæti verið áhugaverður kostur á Íslandi.

Vegna óstöðugleika vindorkunnar mun hún þó hugsanlega aldrei verða mjög stór hluti af rafmagnsframleiðslu á Íslandi jafnvel þótt framleiðslan væri það hagkvæm að hún gæti keppt við rafmagn frá vatnsafls- eða jarðvarmavirkjunum. Ísland er í þeirri sérstöku stöðu að stóriðjan hér notar óvenju hátt hlutfall af heildarraforkuframleiðslu í landinu.  Til samanburðar má ítreka að hlutfall vindorku er nú nærri 20% í Danmörku. Þar er jafnframt greiður aðgangur að rafmagni erlendis frá ef á þarf að halda. Vegna hás hlutfalls stóriðjunnar í raforkunotkun hér á landi, sem verður að eiga aðgang að mjög stöðugu raforkuframboði, er vart raunhæft að hlutfall vindorku inn á raforkukerfið hér verði nálægt því svo hátt. Líklega er raunhæft að miða við hlutfall einhvers staðar á bilinu 5–10% og þá jafnvel nær lægri viðmiðuninni.

Í þessu sambandi má geta þess að í erindi á Orkuþingi 2001 var sett fram það sjónarmið að hugsa megi sér að uppsett afl frá vindrafstöðvum á Íslandi verði „5–6% af heildar aflgetu virkjana eða um 75MW“ og að „um 60–70% þessarar framleiðslu félli til yfir vetrarmánuðina“. Hafa ber í huga að nú myndi þetta sama hlutfall (5–6%) þýða mun meiri framleiðslugetu en 75 MW sökum þess að nýjar virkjanir hafa bæst við frá 2001. Það er þó ekki hægt að fullyrða hvert hlutfall vindorku gæti verið fræðilega séð; gera þyrfti sérstaka fræðilega úttekt á þessu.

wind-power-offshore

Auk framleiðslu frá vindorkuveri inn á raforkukerfið má hugsa sér að vindorka á Íslandi geti nýst utan við dreifikerfið. Svo sem að einhver sveitarfélög komi sér upp sínu eigin vindorkuveri, auk aðgangs að rafmagni frá Landsnetinu. Þetta kann þó að vera langsóttur möguleiki; slíkur kostur kann að vera óhagkvæmur nema líka sé unnt að selja raforku frá vindorkuverinu inn á Landsnetið. Reglur um dreifikostnað kunna reyndar að takmarka möguleika á slíkum heimarafstöðvum. Þetta þarf þó að skoða mun betur.

Vegna hagkvæmni vatnsafls og jarðvarma og mikillar þekkingar á Íslandi á slíkri raforkuframleiðslu, eru talsverðar líkur á að það sé sú orka sem best sé til þess fallin að mæta aukinni raforkunotkun almennings og fyrirtækja á Íslandi. Í samtölum við starfsfólk Orkustofnunar kom fram að þeirri auknu orkunotkun megi jafnvel mæta án nýrra virkjana með því t.d. að skipta út túrbínum og setja upp nýjar og hagkvæmari túrbínur. Þar með komi vindorka líklega almennt til með að verða óþörf fyrir einstaklinga og fyrirtæki, en stóriðjan geti ekki byggt starfsemi sína á svo óstöðugri raforkuframleiðslu sem vindorkan er.

Að þessu leyti virðast vindorkuver því ónauðsynleg og jafnvel óheppileg á Íslandi. Smærri vindrafstöðvar gætu þó hugsanlega nýst litlum notendum til að minnka þörf sína á aðkeyptu rafmagni sem er talsvert dýrt vegna dreifingarkostnaðarins. Þá er ónefndur sá möguleiki að nýta vindorku á Íslandi til annars en beinnar rafmagnsframleiðslu, svo sem að auka framleiðni miðlunarlóna. Sá möguleiki er hvað líklegastur til að vekja áhuga á vindorku hér á landi, þ.e. að hún verði notuð til að spara miðlunarlón. Rétt er að víkja aðeins nánar að þessum möguleika:

Gæti vindorka nýst á annan hátt á Íslandi, en með sölu á raforkunni?

HALSLON_batur

Nýta mætti vindrafstöðvar á Íslandi til að auka nýtni miðlunarlóna eða spara miðlunarlón, t.d. á haustin og/eða veturna. Þá er framleiðslugeta vindorkuvera mest vegna sterkari vinda, en um leið getur veðurfar á veturna orðið til þess að hratt gangi á forðann í miðlunarlónum. Vindorkuver geta þannig aukið orkuöryggi og sparað orkuna í miðlunarlóninu, sem í reynd er eins konar risastór geymir fyrir orku.

Slík nýting vindorkunnar, þ.e. samspil vindorku og vatnsaflsvirkjana, þekkist nú þegar á nokkrum stöðum í heiminum. Sem dæmi hafa vindorkuver verið nýtt í þessu skyni bæði í Noregi og í Quebec í Kanada. Þetta kann að vera einn besti kosturinn fyrir vindorkuver á Íslandi. Þá skiptir óstöðugur vindur litlu máli og enn fremur myndi þarna nýtast vel bæði vindur yfir daginn og líka vindurinn á næturnar.

Wind_Snow

Vindrafstöðvar má einnig nota til að dæla lekavatni aftur í miðlunarlón og/eða dæla vatni annars staðar frá yfir í lónið. Þá er í raun verið að beisla vindorkuna og geyma hana í miðlunarlóninu. Við slíka dælingu skipta sveiflur í vindi í raun engu máli. Með þessari tækni mætti hugsanlega minnka neikvæð umhverfisáhrif við byggingu vatnsaflsvirkjana, t.d. forðast gerð skurða. Vindorkuver mætti jafnvel nota til að koma vatni af öðru vatnasvæði yfir í miðlunarlónið eða til að dæla vatni aftur upp í miðlunarlón fyrir ofan virkjunina, til að endurnýta vatnið. Dæling af þessu tagi þekkist t.d. í Ölpunum, en hæpið er að hún sé hagkvæm hér á Íslandi vegna þess að mikil orka tapast við slíka dælingu. Annað sem þarf að hafa í huga er að ísing kynni að ógna vindrafstöðvum í nágrenni við virkjunarsvæði hálendisins.

Þarf miklar rannsóknir áður en hægt er að reisa vindrafstöðvar á Íslandi?

Þó svo að ítarlegar og góðar vindmælingar séu til á Íslandi, myndi þurfa mun umfangsmeiri vindmælingar hér á landi til að meta hagkvæmni vindorkuvera. Hér hafa reglubundnar vindmælingar mest farið fram í 10 m hæð og reiknilíkani hefur verið beitt til að áætla vindstyrkinn í meiri hæð. Þessi aðferð er þó ekki nógu nákvæm til að réttlæta svo mikla fjárfestingu sem stór vindrafstöð er. Áður en til staðarvals kæmi, þyrfti því að mæla vind í 80 m og jafnvel 200 m hæð á fáeinum stöðum á landinu. Slíkt kallar á að reist verði möstur, en nú þegar er t.d. mastur á Gufuskálum sem nota mætti í þessum tilgangi. Mikilvægt væri að geta gert slíkar vindmælingar á fleiri stöðum á landinu og e.t.v. mætti hér nýta möstur sem eru á Eiðum á Fljótsdalshéraði og á Mýrum á Vesturlandi.

Eins og áður hefur komið fram, þarf að líta til fleiri atriða en vindstyrks þegar meta skal hagkvæmni vindrafstöðva. Sérstaklega er mikilvægt að vindurinn sé fremur jafn og stöðugur. Undanfarin ár hefur verið unnið að því að setja saman vindatlas fyrir Ísland í samtarfi Orkustofnunar og Veðurstofunnar og til eru miklar upplýsingar um vindafar mjög víða á landinu.

Vindatlas

Vindatlasinn er í raun kortlagning á vindorku landsins og hann gefur prýðilega vísbendingu um vindafarið svo nú ætti að vera tiltölulega einfalt að finna út hvaða staðir eru heppilegastir fyrir vindorkuver hér á landi. En eins og áður sagði, yrði ekki ákveðið að reisa vindorkuver nema að undangengnum nákvæmari mælingum á fyrirhuguðum uppsetningarstað (a.m.k. ársmæling).

Vindatlasinn er aðgengilegur a Internetinu, gegnum vef Orkustofnunar (s.k. Gagnavefsjá). Á kortinu hér að ofan má sjá þær stöðvar sem gagnavefsjáin sýnir auk annarra sjálfvirkra vindmælingastöðva. Atlasinn gefur upplýsingar um vindorkuna í mismunandi hæð og er tiltekin Vestas-vindrafstöð notuð sem viðmiðun til að sýna afköstin sem vindurinn á viðkomandi stað getur skilað.

Sérstakt forrit reiknar út framleiðslugetuna. Er þá tekið tillit til meðalvindhraða, tíðni vindátta, áhrifa hindrana og þess sem kallað er þéttleiki vindsins (W pr. rúmmetra). Þéttleikinn er gefinn upp fyrir mismunandi hæð:10 m, 25 m, 50 m, 100 m og 200 m. Þannig fæst yfirlit yfir nýtanlega vindorku í ólíkri hæð. Sem fyrr segir byggja allar íslenskar tölur á vindi í meira en 10 m hæð á útreikningum skv. ákveðnu reiknilíkani, en ekki á raunverulegri vindmælingu í þeirri hæð.

Hvaða staðir eru áhugaverðastir fyrir vindrafstöðvar á Íslandi?

Eins og áður segir mun þurfa meiri rannsóknir til að svara þessari spurningu af einhverri nákvæmni. En sé litið til fyrirliggjandi vindmælinga, má gera ráð fyrir að Suðurlandsundirlendið henti hvað best til að reisa vindrafstöð með góðri nýtingu. Þar gæti verið sérstaklega áhugavert að líta til Landeyjanna og Mýrdalssands. Ef nefna ætti stað, sem áhugavert væri að skoða fyrir vindorkuver í sjó, koma Hraun í Faxaflóa upp í hugann; þar eru grynningar og vindsveipa frá fjalllendi gætir þar minna en víða annars staðar.

Loks ber að nefna að Norðurlöndin eiga nú í samstarfi um að kortleggja betur vindskilyrðin í þessum löndum, þar sem horft er til langtíma skilyrða í 100 m hæð. Þetta samstarf miðar einnig að því að spá fyrir um þróun raforkumarkaðarins á Norðurlöndunum næstu 20-30 árin. Á þessum vettvangi á sér margvíslegt annað samstarf sem er til þess fallið að auka möguleika Íslands á þátttöku í samstarfsverkefnum á sviði vindorku.

Nokkrar ályktanir.

Eins og fram hefur komið eru ýmsir möguleikar fyrir hendi í virkjun vindorku á Íslandi, en um leið fjölmargir áhættuþættir sem þyrfti að skoða mun nánar til að leggja raunsætt mat á hagkvæmnina. Skynsamlegasti kosturinn varðandi stórar vindrafstöðvar virðist sá að vindorka verði einfaldlega notuð til að spara miðlunarlón eða minnka þörf á mjög stóru lóni. Einnig kann að vera skynsamlegt fyrir einhverja notendur að framleiða sitt eigið rafmagn með vindorku og kaupa af Landsnetinu þegar vindinn þrýtur.

Eyjafjoll

Ef miðað er við að hér yrðu byggð vindorkuver sem tengd yrðu Landsnetinu og framleiddu um 5% af öllu rafmagni á landinu, þyrftu þau að geta framleitt u.þ.b. 100 MW (framleiðslugeta allra virkjana landsins er nú um 2 þúsund MW).

Þá má hugsa sér að meðalstærð hvers turns yrði um 2,5 MW og þá yrðu alls reistir u.þ.b. 40 turnar. Vegna þess hversu nýting vindrafstöðva er lág er þó líklegra að byggja þyrfti allt að 100 slíka turna til að standa undir raforkuframleiðslu sem næmi 5% af heildarframleiðslunni. Hér yrði þá vindorkuiðnaður með um 250 MW framleiðslugetu. Þessar tölur ættu að gefa vísbendingu um það hvaða markmið íslensk stjórnvöld gætu sett sér í virkjun vindorku.

Til eru ítarlegar upplýsingar um vindstyrk og -stefnu á fjölmörgum mælistöðvum á Íslandi. Þær sýna að meðalvindur hér á landi er víða mjög hentugur fyrir vindorkuver. Aftur á móti er hér afar misvindasamt og óveður miklu tíðari en gengur og gerist þar sem mest er um vindorkuver í heiminum. Hönnun og þróun orkuvera af þessu tagi hefur einkum miðast við aðstæður þar sem vindur er fremur stöðugur og stórviðri óalgeng. Þess vegna hefur vindorkuiðnaðurinn almennt síður góðar lausnir á boðstólum fyrir svæði þar sem stórviðri eru jafn tíð og hér á Íslandi.

wind_power_coast

Í reynd er ekki unnt að fullyrða neitt um hvort vindorkuver séu hagkvæmur kostur á Íslandi eða ekki, meðan ekki hafa verið gerðar nákvæmari mælingar á vindi og jafnvel tilraunir með uppsetta, stóra vindrafstöð hér á landi. Slíkar mælingar eru m.ö.o. forsenda þess að unnt sé að bera nákvæmlega saman hagkvæmni íslenskrar vindorku og raforkuframleiðslu frá vatnsaflsstöð eða jarðvarmaorkuveri.

Sú mynd sem hér hefur verið dregin upp af möguleikum vindorku á Íslandi myndi þar að auki gjörbreytast ef Ísland gæti selt raforku beint úr landi,  þ.e. um sæstreng. Slíkt gæti kallað á stórfellda aukningu í raforkuframleiðslu og þá yrði vindorka hugsanlega góður kostur til að selja endurnýjanlega íslenska orku (um áætlanir Norðmanna af þessu tagi segir í næstu færslu). Sama er að segja um það ef vetni yrði mikilvægur orkugjafi á Íslandi; þá myndu aukast líkur á því að rafmagnsframleiðsla (til vetnisframleiðslu) með vindorku yrði fýsilegur kostur.

Fullt tilefni er til að nánar verði könnuð hagkvæmni þess að virkja vindorku á Íslandi. Slík hagkvæmnisathugun þyrfti m.a. að beinast að því að finna bestu tæknina sem í boði er, finna hagkvæmustu stærðina og staðsetninguna fyrir slíkt raforkuver hér á landi og læra af þeim þjóðum sem hafa mesta reynslu af slíkum virkjunum.

Wind_workers

Einnig má hugsa sér að vindorkuiðnaður gæti orðið til á Íslandi – jafnvel þó svo hér yrði ekki reistar margar vindrafstöðvar, þ.e. að hér yrðu þróaðar og byggðar vindrafstöðvar til útflutnings. Þetta er þó langsóttur möguleiki. Nú á þróun og nýsköpun í vindorku sér fyrst og fremst stað hjá reynslumiklum vindorkufyrirtækjum og að ætla að ná sneið af vindorkuiðnaðinum kallar á miklar fjárfestingar. Ef hér ætti að byggjast upp slíkur iðnaður þyrfti hann að njóta mikils velvilja stjórnvalda og eiga aðgang að afar þolinmóðum og sterkum fjárfestum. Hér á landi kynni að verða erfitt að koma á fót slíkum iðnaði sem þyrfti að geta keppt við heimsþekkt vindorkufyrirtæki sem sum hver eru hluti af risastórum iðnaðarsamsteypum, eins og t.d. Siemens og General Electric.

-------------------------------------------------------------------

Í næstu færslu verður horft til þess hvernig vindorkuiðnaðurinn kann að þróast í framtíðinni.


Um vindorku

Það eitt hversu vindasamt Ísland er gefur tilefni til að huga að möguleikum á að virkja vindorkuna. Talsmenn vindorku eru óþreytandi við að benda á kosti hennar og mikla möguleika, enda er sjálf auðlindin (vindurinn) ókeypis og vindorkuvirkjanir nánast lausar við mengun. Á móti koma t.d. sjónarmið um að raforkuframleiðsla vindorkuvera sé óstöðug, turnarnir skemmi útsýni og að þetta sé þar að auki dýr leið til að framleiða rafmagn.

Hverjir eru helstu kostir vindorkuvera?

Sá kostur vindorkuvera sem fyrstur kemur upp í hugann er að vindurinn er ókeypis auðlind og starfsemi vindrafstöðva veldur takmörkuðum umhverfisáhrifum, nánast engri mengun og losar nær engar gróðurhúsalofttegundir.

Rekstrarkostnaður vindraforkuvera er lítill miðað við ýmsar aðrar virkjanir, en stofnkostnaðurinn aftur á móti verulegur. Vindorkuver kallar sem sagt á mikinn fastan kostnað, rétt eins og vatnsaflsvirkjanir með uppistöðulóni, en lítinn rekstrarkostnað. Hvort þetta telst kostur eða galli ræðst fyrst og fremst af fjármagnskostnaði á hverjum tíma.

wind_energy

Vindorkuver má setja upp á skömmum tíma og þó svo turnarnir með hinum risastóru spöðum séu afar áberandi eru varanleg umhverfisáhrif vindorkuvera lítil. Þau má auðveldlega fjarlægja og þá er landið nær óspillt. Sé land fyrir hendi er einfalt að stækka vindorkuver ef á þarf að halda og bæta við fleiri turnum. Þar að auki má oft halda hefðbundinni landnotkun áfram. Ekki er t.d. óalgengt að vindorkuverum sé komið fyrir á landbúnaðarsvæðum sem eru samt áfram nýtt til landbúnaðar.

Á vef Orkustofnunar er að finna stutt yfirlit um endurnýjanlega orkugjafa, aðra en fallvötn og jarðhita. Upplýsingarnar þar um afl og kostnað vegna vindorku eru orðnar nokkurra ára gamlar (frá 2002) og því að mestu úreltar. Aftur á móti er rétt að taka undir þau orð Orkustofnunar að allur búnaður vindorkuveranna hefur „tekið miklum stakkaskiptum, og gæði rafmagns frá þeim hefur aukist“. Kostir vindorkuvera eru því mun meiri nú en voru fyrir nokkrum árum. Gera má ráð fyrir að hagkvæmni vindrafstöðva muni halda áfram að aukast og að þetta verði sífellt betri kostur.

Hverjir eru helstu gallar vindorkuvera?

Það þykir ókostur við stórar vindrafstöðvar að þeim fylgir nokkur hávaði – svo og sjónmengun sem sumum finnst bagaleg. Forðast má þessar hliðarverkanir vindorkuvera með því að vanda staðarvalið og þessir gallar hverfa nær alveg þegar vindorkan er virkjuð utan við ströndina. Slíkar vindrafstöðvar eru talsvert dýrari í uppsetningu en þær sem eru reistar á landi, en jafnari og betri/stöðugri vindur bætir þann mismun að nokkru upp.

WindFarmChina

Helsta galla vindorkuvera er ekki að rekja til mannvirkjanna, heldur þess hversu óstöðug raforkuframleiðslan er. Vindur er síbreytilegur og ógjörningur að spá nákvæmlega fyrir um hvernig hann verður til lengri tíma litið. Fyrir vikið er „erfitt að sjá fyrir hvenær vindrafstöðvar munu skila raforku eða hvenær þurfi að keyra varaaflsstöðvar. Raforkuframleiðslan getur einnig verið óstöðug vegna flökts í vindstyrk“. M.ö.o. fela vindrafstöðvar ekki í sér sömu framleiðslugæði eða orkuöryggi og t.d. vatnsaflsvirkjanir. Þess vegna þurfa þeir sem nýta raforku frá vindorkuveri jafnan að hafa aðgang að varaafli. Sé slíkt varaafl fyrir hendi getur verið áhugavert að nýta vindorkuna í stórum stíl.

Sem dæmi má nefna að í Danmörku, þar sem vindorkuver standa undir hátt í 20% raforkunotkunarinnar á góðum degi, framleiða vindorkuverin nánast ekkert rafmagn í rúmlega 50 daga sum árin. Ástæða þess að Danir ráða við slíkar sveiflur eru góðar raforkutengingar við nágrannaríkin. Danir geta samstundis keypt rafmagn þaðan ef innlenda framleiðslan er ekki nægjanleg. Þetta er prýðilegt dæmi um það að Íslendingar gætu seint látið vindorku standa undir eins háu hlutfalli raforkuframleiðslu sinnar og Danir.

Þess má geta að dæmi eru um að vindorkuver trufli fjarskipti í næsta nágrenni, en á því eru til ódýrar lausnir og því telst þetta ekki stórvægilegt vandamál. Spaðarnir hafa valdið nokkrum fugladauða; t.d. hafa nokkrir ernir drepist í Noregi. Rannsóknir benda þó til þess að þessi áhætta sé hverfandi, sérstaklega ef forðast er að koma upp vindrafstöðvum á svæðum sem eru þekkt fyrir óvenju mikið fuglalíf.

Hvernig vind þarf til að framleiða rafmagn?

Venjulega byrja vindrafstöðvar að framleiða rafmagn um leið og vindurinn nær 3–5 m/s. Eftir því sem vindurinn eykst skilar stöðin meiri afköstum. Það eru þó takmörk á því hversu sterkur vindurinn má vera; hætta er á tjóni ef hann verður of mikill. Þess vegna eru vindrafstöðvar jafnan með sérstakan búnað sem slekkur á framleiðslunni ef vindurinn fer yfir tiltekið mark. Spaðarnir fara svo sjálfkrafa aftur að snúast þegar vindstyrkurinn minnkar á ný.

Þó svo að vindorkuver byrji að framleiða rafmagn þegar vindhraðinn fer í ca. 3–5 m/s er fleira sem þarf að huga að þegar meta skal hagkvæmni vindrafstöðva. Í fyrsta lagi er æskilegt að vindhraðinn sé að jafnaði mun meiri (afköst vindrafstöðvar aukast í þriðja veldi í hlutfalli við aukinn vindstyrk). Afköst vindrafstöðva nú á dögum eru oftast  hvað mest við 14–20 m/s vind., en þær geta almennt verið í gangi allt þar til vindhraðinn fer í 25 m/s. Þessar tölur eru reyndar misjafnar eftir framleiðendum.

Wind_workers_tower

Búast má við að umrædd hámarkstala (25 m/s) kunni að hækka eitthvað á komandi árum, t.d. vegna betri hönnunar á spöðunum, þ.e. að í framtíðinni geti slíkar vindrafstöðvar starfað í mun meiri vindi. Vindstyrkurinn er þó ekki það eina sem máli skiptir; miklu skiptir að vindurinn sé stöðugur svo rafmagnsframleiðsla frá vindrafstöðinni geti verið þokkalega jöfn. Við staðarval vindrafstöðva á Íslandi myndi því m.a. verða litið til vindstyrks, vindstöðugleika og tíðni stórviðra.

Er þetta fullþroskuð tækni eða má vænta framfara í vindorkuiðnaðinum á næstu árum?

Mikil reynsla hefur fengist af virkjun vindorkunnar; þetta er þroskuð tækni sem hefur þróast mjög á síðustu áratugum og hefur sannað sig sem hagkvæm raforkuframleiðsla og ábatasamur iðnaður. Sem dæmi um hve þróunin er gríðarlega ör má nefna að árið 1995 setti Evrópusambandið sér markmið um að sextánfalda rafmagnsframleiðslu frá vindrafstöðvum fyrir árið 2010 (sem þýddi að framleiðslugetan skyldi verða 40 GW). Því marki var þó náð miklu fyrr, eða fljótlega upp úr aldamótunum.

Samkvæmt nýjustu ársskýrslu Alþjóða vindorkusambandsins (World Wind Energy Association) var framleiðslugeta uppsettra vindrafstöðva í árslok 2008 samtals rúmlega 121 GW (hugtakið framleiðslugeta er hér í skýrslunni notað í sömu merkingu og uppsett afl). Það merkir að framleiðslugeta vindorkuiðnaðarins hefur tvöfaldast á tímabilinu 2005-08. Vindorkugeirinn mun vera sá hluti orkugeirans sem vaxið hefur hvað hraðast undanfarna tvo áratugi eða svo og nú er svo komið bæði í Bandaríkjunum og Evrópu að engin tegund endurnýjanlegrar orkuframleiðslu vex jafn hratt og vindorkan (sólarorkuiðnaðurinn getur að vísu stundum eignað sér þennan titil, allt eftir því hvaða viðmiðunartímabil er valið).

Wind_turbine_open

Vindorkuver virðast ekki mjög flókin tæknilega séð. Það sem blasir við augum manna eru turninn og spaðarnir sem vindurinn snýr. Rafallinn og sérstakur búnaður breytir svo þeirri hreyfiorku í rafmagn, en rafallinn er oftast í sérstöku húsi efst á turninum (það er ekki algilt). Miklu skiptir að hanna spaðana þannig að þeir nýti afl vindsins sem best og æskilegt er að þeir geti skilað góðum afköstum hvort sem vindur er lítill eða mikill.

Auk turnsins, spaðanna, rafalsins og vélarhúss eru helstu einingarnar í vindrafstöð tengibúnaður, gírbúnaður og fleira (reyndar eru til útfærslur þar sem gírbúnaðinum er sleppt). Nú er algengast að þrír spaðar séu á vindrafstöðvunum, þó svo að það sé ekki alltaf svo. Spaðarnir eru langoftast smíðaðir úr trefjagleri, en smærri spaðar þó stundum úr áli. Turninn er alla jafna úr stáli, en vegna þess hversu verð á stáli hefur hækkað undanfarin ár hafa komið fram hugmyndir um að nota frekar steinsteypu í turninn.

Veruleg samþjöppun hefur orðið í vindorkuiðnaðinum og í dag eru örfá fyrirtæki ráðandi á markaðnum. Þar eru stærst danska fyrirtækið Vestas, hið spænska Gamesa, þýsku fyrirtækin Enercon og Siemens Wind, indverska fyrirtækið Suzlon og hið bandaríska GE Wind. Þarna eru líka fjöldi annarra smærri fyrirtækja sem sífellt bjóða fram nýjar og athyglisverðar lausnir. Samkeppnin er veruleg og mikil barátta um að bjóða æ hagkvæmari vindrafstöðvar. Það má því gera ráð fyrir að framleiðslukostnaðurinn fari eitthvað minnkandi á næstu árum, þó svo að um þetta ríki vissulega mikil óvissa.

Hver er stærð og framleiðslugeta vindorkuvera?

Vindrafstöðvar eru mjög misstórar, en turninn getur verið hátt í 100 m hár og spaðarnir þá oft um 35–45 m langir. Margar útfærslur eru þó mun minni, en stærstu vindrafstöðvarnar eru enn hærri og með ennþá stærri spaða.

Þróun þessarar tækni hefur nánast verið ævintýraleg síðustu 20–25 árin. Á 8. áratugnum voru vindrafstöðvarnar oft með framleiðslugetu á bilinu 50–100 kW, en í dag er algeng framleiðslugeta einnar vindrafstöðvar um 2 MW og til eru vindrafstöðvar sem geta framleitt allt upp í 5 MW. Á 9. áratugnum var algengt að þvermál vindspaðanna væri um 20 m, en nú er þvermálið allt að 90 m.

Ein mikilvægasta ástæðan fyrir sífellt stækkandi vindrafstöðvum er sú að í þeim felst betri nýting og þar með meiri hagkvæmni. Framleiðslu- og rekstrarkostnaður stórra vindrafstöðva er einfaldlega hlutfallslega minni en margra smærri sem þarf til að framleiða jafn mikið af rafmagni.

wind_speed_importance

Tekið skal fram að varast ber að leggja of mikið upp úr tölum um framleiðslugetu virkjana, sérstaklega raforkuvera sem hafa mjög óstöðuga framleiðslu eins og vindrafstöðva. Meira máli skiptir hversu mikla raforku virkjunin framleiðir í raun og veru (kWh). Tölur um framleiðslugetu einstakra turna eða heilla vindorkuvera gefa þó þokkalega vísbendingu um það hvaða virkjanir framleiða meira rafmagn en aðrar. En fara verður sérstaklega varlega þegar framleiðslugeta vindorkuvers er borin saman við aðrar tegundir raforkuvera, t.d. vatnsaflsvirkjana sem almennt skila miklu betri nýtingu en vindrafstöðvar (þ.e. miðað við uppsett afl).

Nýting vindorkuvera (capacity) er oft á bilinu 20–40% og líklega er nýtingin mun oftar nær lægra gildinu. Það þýðir að til lengri tíma litið framleiða þau langt innan við helming og jafnvel einungis fimmtung af þeirri raforku sem þau gætu framleitt við bestu aðstæður. Það er því oft verulegt bil á milli uppgefinnar framleiðslugetu og raunverulegrar framleiðslu. Það þykir gott ef nýtingin fer yfir 30%; viðmiðun fyrir það sem teljast góðar aðstæður er oft nýting á bilinu 30–35%. Vindorkuverin nýta aftur á móti að jafnaði mjög vel þá orku sem í vindinum býr hverju sinni (efficiency).

Til skýringar má taka vindrafstöð með 1 MW framleiðslugetu og 30% nýtingu. Hún myndi þá framleiða sem nemur 2.628 MWh á ári. Til samanburðar notar venjulegt íslenskt fjögurra manna heimili 3.600–4.200 kWh á ári (húshitunin ekki talin með). Hafa ber í huga að ekki myndi öll raforkan frá vindorkuverinu verða notuð – framleiðslugetan á næturnar færi líklega að verulegu leyti til spillis (nema hún væri t.d. notuð til að dæla vatni í miðlunarlón).

Stærstu vindorkuverin er að finna úti í sjó. Þau eru kölluð offshore wind turbines á enskri tungu (hins vegar onshore á landi). Framan af var algengt að setja upp fáar eða jafnvel einungis eina vindrafstöð, en á síðari árum hefur orðið æ algengara að setja upp marga turna og jafnvel tugi á sama stað (á ensku er þá talað um wind parks).

Til skamms tíma voru tvö stærstu vindorkuver heims bæði utan við strendur Danmerkur; hvort um sig með um 80 turna og um 160 MW framleiðslugetu. Þessi vindorkuver eru kennd við Nysted á Lálandi og Horns Rev við Jótland. Eigendur þeirra eru danska fyrirtækið Dong Energi, sænska fyrirtækið Vattenfall og sænski hluti stórfyrirtækisins E.On. Það eru aftur á móti Vestas og Siemens sem eiga heiðurinn af tæknibúnaði þessara tveggja stóru vindraforkuvera.

Wind_China

Seint á síðasta ári tók mun stærra vindorkuver til starfa við strendur Bretlands, svokallað Lynd og Inner Dowsing-orkuver, tæpar 3 sjómílur út af strönd Lincolnskíris á austurströnd Englands. Framleiðslugeta þess er 194 MW og samanstendur af 50 vindrafstöðvum frá Siemens sem hver um sig getur framleitt rúmlega 3,5 MW.

Nú er verið að vinna að a.m.k. einu vindorkuveri sem verður 500 MW og á teikniborðinu eru vindorkuver sem áætlað er að verði með 1.000-1.500 MW framleiðslugetu. Það eru Evrópuríki og Bandaríkin sem einkum hafa uppi svo umfangsmiklar áætlanir um beislun vindorkunnar, en einnig eru uppi afar metnaðarfullar áætlanir í Kína. Bráðum verður sem sagt líklega til vindorkuver sem er með rúmlega tvöfalt meira uppsett afl en Kárahnjúka- og Fljótsdalsvirkjun. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort eða hvenær þær áætlanir ganga eftir.

Er raforka frá vindorkuverum á samkeppnishæfu verði?

Fyrir um aldarfjórðungi, þ.e. upp úr 1980, var ennþá langt í land með að vindorka gæti keppt við þáverandi hefðbundna rafmagnsframleiðslu, nema með rausnarlegum styrkjum. Í kjölfar olíukreppunnar 1973–74 og aftur í kjölfar Íransdeilunnar 1979–80 jókst áhugi á vindorku mikið vegna verðhækkana á olíu og sveiflna í olíuverði. Fyrir vikið var allt kapp lagt á þróunarstarf og kostnaðurinn við raforkuframleiðslu með vindrafstöð lækkaði stórkostlega á fáeinum árum.

Nýjasti hvatinn fyrir ríki heims til að leggja ríka áherslu á vindorku eru skilyrði um að minnka losun kolefnis (þ.e. draga úr losun gróðurhúsalofttegunda). Þá er vindorkan auðvitað ekki eina lausnin; lykilatriðið er að stórauka hlutfall allrar endurnýjanlegrar orku til að draga úr þörf á brennslu jarðefnaeldsneytis. Bæði í Bandaríkjunum og hjá Evrópusambandinu virðist það einkum vera sólarorka og vindorka, sem njóta góðs af þessari stefnu.

Wind_Power_Sea_Sunset

Á síðustu tuttugu árum hefur kostnaður við að framleiða rafmagn frá vindorku minnkað um heil 90%. Í skýrslu bandaríska orkumálaráðuneytisins er heildarkostnaður vegna vindorkuvera, þ.e. uppsetningar og rekstrar, nú sagður vera mjög nálægt því sem gerist hjá raforkuverum sem knúin eru olíu eða gasi (kolaorkuverin eru aftur á móti ódýrust).

Forsvarsmenn vindorkuiðnaðarins eru iðnir við að benda á að ef kostnaður vegna umhverfistjóns og heilsutjóns sé reiknaður með, sé vindorka nú orðin ódýrari en nokkur önnur rafmagnsframleiðsla. Þessi munur er þó síbreytilegur vegna mikilla verðsveiflna á jarðefnaeldsneyti. Sem fyrr segir er búist við að tækniframfarir í vindorkuiðnaðinum muni áfram leiða til kostnaðarlækkana og ef olíuverð hækkar umtalsvert verður vindorkan ennþá samkeppnishæfari en nú er.

Almennt yrði vindorka á Íslandi líklega dýrari en t.d. orka frá stórum vatnsaflsvirkjunum. Um þetta liggja þó ekki fyrir neinar haldgóðar upplýsingar og svona fullyrðing því í reynd afar vafasöm. Þegar litið er til erlends samanburðar á kostnaði vindorku og annarra tegunda endurnýjanlegrar rafmagnsframleiðslu, kemur vindorka jafnan mjög vel út. Um þetta er nánar fjallað í 5. kafla skýrslunnar og hann verður að sjálfsögðu birtur fljótlega hér á Orkublogginu. Loks skal þess getið að árið 2020 er búist við að kostnaður við vindorkuver á landi hafi lækkað um 20-25% miðað við það sem nú er og lækkunin vegna vindorkuvera í sjó verði hvorki meira né minna en 40%.

Hverjir nýta vindorku?

Á síðustu árum og áratugum hefur virkjun vindorku verið sú tegund endurnýjanlegrar orku sem hefur vaxið hvað hraðast í heiminum og búist er við miklum vexti næstu árin. Fram til þessa hefur hinn hraði vöxtur orðið í ólíkum efnahagskerfum og í löndum með ólíkar náttúrulegar aðstæður. Lönd innan ESB eru þar í fararbroddi, en einnig Bandaríkin.  Nú síðast hafa kínversk stjórnvöld lagt mikla áherslu á að auka rafmagnsframleiðslu af þesu tagi og búist er við að á næstu árum vaxi vindorkumarkaðurinn hraðast í Kína. Í fljótu bragði virðist því augljóst að vindorka sé orðin hagkvæmur kostur víða um heim til að framleiða rafmagn í stórum stíl.

Vestas_logo_web

Danmörk er meðal þeirra ríkja sem hafa lagt hvað mesta áherslu á vindorkuiðnaðinn og danska vindorkufyrirtækið Vestas er með stærstu markaðshlutdeildina af öllum vindorkufyrirtækjum heims. Samkeppnin er þó mikil og ýmis stórfyrirtæki hafa náð sterkri stöðu á þessum markaði. Nefna mætti hér annað land (sem oft kynnir sig sem vindasamasta land Evrópu!), sem bindur gríðarlegar vonir við þessa tegund rafmagnsframleiðslu. Þar er um að ræða Bretland, en ekki eru nema um 18 ár síðan fyrsta vindorkuverið var reist á Bretlandseyjum. Fram til 2007 var vatnsafl stærsta grein endurnýjanlegrar orku í Bretlandi, en það ár fór vindorkan fram úr vatnsaflinu. Samkvæmt orkustefnu breskra stjórnvalda er stefnt að því að árið 2020 verði hlutfall vindorku í rafmagnsframleiðslunni yfir 15% (er nú rétt rúm 2%).

Vindorka er ekki bara nýtt í þeim löndum sem byggja fyrst og fremst á jarðefnaeldsneyti – þ.e. búa ekki yfir endurnýjanlegri orku í formi jarðvarma eða vatnsafls. Þó svo vatnsafl og jarðvarmi hafi löngum verið talin ein ódýrasta og hagkvæmasta leiðin til að framleiða rafmagn, þykja vindrafstöðvar henta vel innan sumra ríkja sem einnig eiga hefðbundnar orkuauðlindir af því tagi sem við þekkjum á Íslandi. Nefna má Nýja Sjáland sem dæmi og kannski enn frekar Noreg. Í báðum þessum löndum er verulegt vatnsafl fyrir hendi (og líka jarðvarmi á Nýja Sjálandi) en þar er engu að síður líka mikil áhersla lögð á uppbyggingu vindrafstöðva.

wind_turbines_timer

Sé Noregur tekinn sem dæmi, þá búa Norðmenn bæði yfir miklu vatnsafli og ógrynni af olíu og gasi. Þeir hafa engu að síður líka beislað vindorkuna til rafmagnsframleiðslu. Aftur á móti eru einungis til mjög litlar vindrafstöðvar á Íslandi; hér hefur ekki risið vindorkuver í líkingu við þau sem t.d. þekkjast í Danmörku, Noregi, Hollandi, Bretlandi, á Nýja Sjálandi, í Kína, Kanada, Bandaríkjunum og fjölmörgum öðrum löndum.

Hæst er hlutfall vindorkunnar í Danmörku, með um 19% framleiðslugetu alls raforkukerfisins. Þar á eftir koma Spánn og Portúgal með um 11% og Þýskaland og Írland með um 7%. Það land sem nú er með mestu framleiðslugetuna miðað við virkjað vindorkuafl eru Bandaríkin með rúmlega 25 þúsund MW. Þau tíðindi urðu á liðnu ári að Bandaríkin fóru fram úr Þýskalandi sem nú er með tæplega 24 þúsund MW framleiðslugetu í vindorku. Í þriðja sæti kemur svo Spánn með tæplega 17 þúsund MW framleiðslugetu.

Vatnsafls- og jarðvarmalandið Nýja Sjáland hefur byggt upp talsvert af vindorkuverum og er nú með 325 MW framleiðslugetu í vindorku – sem jafngildir u.þ.b. hálfri Kárahnjúkavirkjun (nýting Kárahnjúkavirkjunar á sínu uppsetta afli er þó mikið betri en hjá vindrafstöð). Vatnsafls- og olíuríkið Noregur hefur staðið sig enn betur að þessu leyti og var í árslok 2008 með 428 MW framleiðslugetu í vindorku.

Uppi eru áætlanir i Noregi að stórauka byggingu vindrafstöðva. Vangaveltur Norðmanna um að beisla vindorkuna svo hressilega eru ekki komnar til vegna aukinnar raforkunotkunar þeirra sjálfra. Ástæðan er fyrst og fremst markmið ESB um að stórauka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Norðmenn sjá tækifæri til að geta mætt hluta af þeirri gríðarlegu eftirspurn með útflutningi á rafmagni framleiddu í vindrafstöðvum.

-------------------------------------------------------

Í næstu færslu verður sérstaklega litið til möguleika þess að reisa vindorkuver á Íslandi. 


Virkjun vindorku og sjávarorku á Íslandi - Inngangur

Áhugaverð leið til að efla íslenskt efnahagslíf og auka fjölbreytni á orkumarkaðnum?

Í næstu færslum ætlar Orkubloggið að beina sjónum sínum að möguleikum Íslands á að virkja vindorku og/eða sjávarorku. Þessar færslur byggja á úttekt sem Orkubloggarinn vann fyrir iðnaðarráðuneytið, að ósk Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra.

Wind_Crowded

Skýrsluna má nálgast á vef ráðuneytisins. Gætið þess að þetta er nokkuð þungt skjal í niðurhali.

Sökum þess að þessi færsla og nokkrar komandi færslur byggja á umræddri skýrslu, er texti þeirra eðli málsins samkvæmt kannski alvörugefnari en gerist og gengur hér á Orkublogginu. Til að einfalda framsetninguna verður hér sleppt öllum tilvísunum til heimilda, sem er að finna í sjálfri skýrslunni. Einnig er efnisröðunin ekki alveg sú sama og ekki nákvæmlega eins staðið að myndskreytingu. Og hér ætlar Orkubloggið að leyfa sér að byrja inngangskaflann á þessari ljúfu færeysku tilvitnun:

----------------------------------------------

Umhvørvi okkara, svinnandi orkukeldur og trupulleikar hesum viðvíkjandi mynda eitt átrokandi mál í dagsins samfelagi.“ Þannig segir á vefsíðu færeyska fyrirtækisins SeWave sem nú vinnur að þróun ölduvirkjana í samstarfi við þýska stórfyrirtækið Siemens. Bæði vindorka og sjávarorka eru auðlindir sem vekja athygli margra öflugustu fyrirtækja heims. Þau eru tilbúin að leggja verulega fjármuni í að þróa þessa tækni og gera tilraunir á þeim svæðum sem henta hvað best vegna náttúrulegra aðstæðna.

Orkan og auðlindir hafsins.

Af einhverjum ástæðum hefur Ísland nánast sniðgengið bæði vindorku og sjávarorku. Þetta er sérstaklega athyglisvert, þegar haft er í huga að hagkvæmni vindrafstöðva hefur aukist gríðarlega á stuttum tíma. Ekki er unnt að benda á skýrar eða óumdeildar ástæður fyrir því að þessi iðnaður hefur ekki hlotið mikla athygli hér á landi. Vafalaust ræður þar þó mestu sú staðreynd að hér er gnægð vatnsorku og jarðvarma og mikil þekking fyrir hendi á þessum orkugjöfum.

Allt frá því Íslendingar byrjuðu að nýta orkulindir sínar hafa vatnsorka og jarðhiti verið langmikilvægustu orkulindir þjóðarinnar. Hvorar tveggja eru endurnýjanlegar orkulindir og hafa gert Íslendingum kleift að hita hús sín og framleiða nánast allt sitt rafmagn með endurnýjanlegri orku. Sérstaða Íslands er mikil að þessu leyti. Flestar aðrar þjóðir byggja rafmagnsframleiðslu sína og húshitun að langmestu leyti á jarðefnaeldsneyti (kolum og jarðgasi) og einnig er kjarnorka umtalsverður þáttur í rafmagnsframleiðslu heimsins.

Wave_4

Auk jarðvarmans og orkunnar í fallvötnunum er einhverjar mestu náttúruauðlindir okkar að finna í hafinu. Þá hugsa líklega flestir til fiskistofnanna, en síður til orkunnar sem býr óbeisluð í hafinu. Á hinu vindasama Íslandi sem er umflotið hafi hefur hvorki vind- né sjávarorkan verið nýtt svo orð sé á gerandi. Hér er ekki að finna eina einustu rafvirkjun sem framleiðir rafmagn úr afli sjávar og hér hefur vindorkan einungis verið nýtt í mýflugumynd. Fyrir því eru vissulega tilteknar ástæður. Enn er mikið af virkjanlegu vatnsafli og jarðvarma á Íslandi og fram til þessa hefur þetta verið bæði ódýrari og áreiðanlegri raforka en vindorkuver. Og virkjun sjávarorku hefur a.m.k. allt fram á allra síðustu ár ekki verið raunhæfur möguleiki og þess vegna kannski eðlilegt að henni hafi ekki verið sýndur mikill áhugi hér, enn sem komið er.

Er einhver ástæða til að skoða nýja möguleika í raforkuframleiðslu á Íslandi?

Sökum þess að vatnsaflið og jarðhitinn hafa verið svo hagkvæmir kostir og enn eru margir ónýttir virkjunarkostir af þessu tagi hér á landi, má spyrja hvort einhver ástæða sé til að skoða aðra orkugjafa? Er nokkur þörf eða skynsemi í því fyrir Íslendinga að velta fyrir sér möguleikum sem kunna að felast í t.d. lífmassa, sólarorku, sjávarorku eða vindorku?

Tidal_Blue_Energy

Því má e.t.v. svara þannig að á síðustu árum hafa orðið mjög miklar framfarir og ör þróun í hönnun og byggingu vindorkuvera. Nýjar tegundir sjávarvirkjana eru nú í fyrsta sinn taldar raunhæfur kostur til umtalsverðrar raforkuframleiðslu innan einhverra ára eða áratuga. Þarna eru tækifæri sem Íslendingar hljóta að skoða; vindorka og sjávarorka eru auðlindir sem eðlilegt er að gefa meiri gaum og hefja faglega og ítarlega vinnu til að meta hvort nýta beri þessar auðlindir og þau tækifæri sem þær kunna að skapa okkur. Þar skiptir hvað mestu að meta hagkvæmnina; svo sem að kanna framleiðsluverð mismunandi tegundar af endurnýjanlegri orku og hvers konar raforkuframleiðsla hentar hinum mismunandi svæðum landsins.

Önnur atriði sem hafa ber í huga eru t.d. gæði ólíkra tegunda raforkuframleiðslu, hvernig best er að standa að orkudreifingu og hvaða umhverfisáhrif mismunandi virkjunarkostir hafa í för með sér. Loks kunna þarna að vera tækifæri til fjölbreyttari iðnaðaruppbyggingar á Íslandi.

Ekki hefur mikið verið ritað um möguleika Íslands til að beisla vindorku eða sjávarorku. Þó hafa verið haldin ýmis erindi og gerðar stuttar samantektir um þetta efni, ásamt fáeinum námsritgerðum. Árið 2004 fór fram ráðstefna á vegum Orkustofnunar um nýja og óhefðbundna orkukosti á Íslandi og þar voru m.a. flutt erindi um vindorku á Íslandi og um virkjun sjávarfalla og ölduvirkjana. Frá þeim tíma hefur orðið talsverð framþróun í þessum tegundum raforkuframleiðslu og rekstrarumhverfi þessara iðngreina hefur tekið miklum breytingum, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu. Fyrir vikið kann áhugi fjárfesta á vindorku og sjávarorku senn að aukast til muna. Íslendingar hafa m.ö.o. ýmsar ástæður til að huga betur að þessum möguleikum.

Geta nýir kostir í raforkumálum skapað víðtækari sátt um orkustefnu landsins?

Alkunna er að ýmsar þær virkjanir sem hér hafa verið byggðar undanfarin ár, eru og hafa verið umdeildar. Þær hafa kostað náttúrufórnir, en hafa m.a. verið réttlættar með vísan til þess að þær fórnir séu þess virði til að hér megi byggja upp meira og styrkara atvinnulíf og efla hagvöxt. Þetta kann að vera umdeilt sjónarmið, en ekkert eitt rétt svar er til við því.

Hafa má í huga að í nútíma samfélagi er orka líklega einhver mikilvægasta undirstaða efnahagslífsins og aukinn hagvöxtur og velferð er mjög háð meira eða betra aðgengi að orku. Það þýðir þó ekki endilega að meiri orkunotkun sé algert skilyrði efnahagsvaxtar. T.d. hefur verulega dregið saman í olíunotkun sumra ríkja þrátt fyrir góðan hagvöxt (gott dæmi er Danmörk, en þetta gerðist einnig í Bandaríkjunum nú í upphafi 21. aldar).

Karahnjukastifla_2

Annað virðist gilda um raforkunotkunina. Þannig hefur raforkunotkun í heiminum t.d. aukist hvert einasta ár frá 1980, þrátt fyrir nokkrar niðursveiflur í efnahaghlífnu á þessum tíma. M.ö.o. má álykta sem svo að raforkunotkun muni halda áfram að aukast jafnt og þétt og að sífellt verði þörf fyrir meiri rafmagnsframleiðslu. Þetta á jafnvel enn frekar við um Ísland en mörg önnur ríki vegna þess hversu landið er fámennt og sérhver ný stóriðja hefur því mikil áhrif til aukinnar raforkunotkunar og kallar á meiri raforkuframleiðslu.

Auðvitað er óvissa um hvernig rafmagnsframleiðsla á Íslandi muni þróast næstu ár og áratugi. Vöxturinn hefur verið hraður undanfarið, fyrst og fremst vegna nýrrar stóriðju. Fyrir vikið hefur hlutfall stóriðjunnar í heildarrafmagnsnotkun á Íslandi farið hratt vaxandi. Ef hér mun rísa ný stóriðja, gerist það ekki nema með miklum virkjunarframkvæmdum.

Jafnvel þó svo að enginn nýr stórnotandi rafmagns kæmi til á Íslandi á næstu árum, er samt líklegt að rafmagnsnotkun þjóðarinnar muni aukast og kalla á meiri raforkuframleiðslu. Þjóðinni fjölgar og fátt bendir til þess að Íslendingar taki upp á því, þegar til lengri tíma er litið, að draga mjög úr rafmagnsnotkun sinni. A.m.k. hljóta að teljast mun meiri líkur en minni á því að eftirspurn eftir rafmagni haldi áfram að vaxa hér á landi. Að hluta til er unnt að mæta slíkum vexti með því að endurnýja búnað í þeim virkjunum sem fyrir eru til að auka afköst þeirra. Fljótlega kann þó að þurfa nýjar virkjanir – hvort sem það verða eingöngu vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir eða að hér komi einnig til virkjunar á vindorku og jafnvel líka sjávarorku.

Erfitt er að meta hvaða náttúrufórnir eru réttlætanlegar í því skyni að framleiða meira rafmagn. Um það eru mjög skiptar skoðanir. En til að skapa meiri sátt í samfélaginu kann að vera skynsamlegt að minnka þörf á nýjum vatnsafls- og/eða jarðvarmavirkjunum. Þetta væri unnt að gera með því að horfa til annarra virkjunarkosta sem gætu haft síður neikvæð umhverfisáhrif í för með sér. Slíkir kostir hljóta að vera áhugaverðir, a.m.k. ef kostnaðurinn við þá er sambærilegur eða litlu meiri en við hefðbundnar íslenskar virkjanir. M.ö.o. skipta umhverfisþættir verulegu máli þegar lagt er mat á mismunandi virkjunarkosti.

Hvernig á að meta hagkvæmni virkjana?

Við ákvörðun um byggingu virkjana skiptir eðlilega mestu að hún sé ódýr og hagkvæm. Hin beina fjárhagslega hagkvæmni er lykilatriðið þegar lagt er mat á mismunandi virkjunarkosti. En einnig þarf að hyggja að ýmsu öðru en bara uppsetningar- og rekstrarkostnaði.

Geo_iceland_Svartsengi

Auk áðurnefndra umhverfisáhrifa er t.d. mikilvægt að ofnýta ekki jarðvarmasvæði. Undanfarið hefur borið nokkuð á umræðu um að einhver háhitasæði landsins kunni að vera u.þ.b. fullnýtt. Enn fremur er vert að hafa í huga að orkuframleiðsla og orkuverð lýtur ekki lögmálum markaðarins, nema að hluta. Stefna stjórnvalda í skattlagningu og verðstýringu er afgerandi þáttur þegar kemur að orkunotkun. Þegar upp er staðið ræðst kostnaður raforku ekki bara af raunkostnaðinum við framleiðsluna, heldur líka af orkustefnu stjórnvalda.

Í orkumálum blandast mjög saman bein fjárhagsleg hagkvæmni og samfélagsleg sjónarmið. Fyrir vikið er ekki með einföldum hætti unnt að setja nákvæman verðmiða á hina mismunandi orkugjafa. Þannig er t.d. dreifingarkostnaðurinn stór þáttur í orkuverði og til að jafna raforkuverð á Íslandi hefur verið komið á ákveðu fyrirkomulagi. Fyrir vikið greiða landsmenn og fyrirtæki á hverjum stað yfirleitt ekki sannvirði fyrir framleiðslu og dreifingu orkunnar til sín. Sumir borga minna, en aðrir meira. Það kann því að vera hagkvæmt fyrir fólk eða fyrirtæki að reisa sitt eigið raforkuver, t.d. vindorkuver, og vera utan við Landsnetið.  Þetta er einn af þeim þáttum sem taka ber tillit  til þegar lagt er mat á hagkvæmni nýrra virkjunarkosta.

Hagkvæmni virkjana getur sem sagt ráðist af fleiri atriðum en bara beinum kostnaði við bygginguna og reksturinn. Þar að auki er samanburður á kostnaði vegna mismunandi orkugjafa ætíð háður margvíslegum óvissuþáttum og í reynd er ekki til neitt eitt rétt kostnaðarmat. Það er t.d. mikill kostnaðarmunur á hinum mismunandi vatnsaflsvirkjunum; sumar þeirra eru bersýnilega óhagkvæmari en aðrar og þá er fyllsta ástæða til að skoða aðra möguleika til raforkuframleiðslu, t.d. vindorku.

Um vindorku og sjávarorku.

Miklu gæti skipt ef vindorka eða sjávarorka gæti að einhverju leyti mætt orkuþörf Íslands. Ef t.d. vindorkuver er talið álíka kostnaðarsamt og jarðhitavirkjun, er ástæða til að skoða vindorkuverið af fullri alvöru. Ekki síst ef jarðvarmavirkjunin myndi rísa á svæði sem telst vera náttúruperla eða af öðrum ástæðum sérstakt svæði sem æskilegt sé að vernda. Sams konar sjónarmið gilda um virkjun sjávarfalla, ölduorku og aðrar sjávarvirkjanir.

wind_horns_rev_3

Hafa ber í huga að bæði vindorka og sjávarorka er iðnaður í örri þróun og jafnvel bestu upplýsingar á þessu sviði eru fljótar að úreldast. T.d. hafa kostnaðarlækkanir í vindorkugeiranum verið nánast ævintýralegar síðustu árin og hagkvæmni slíkra raforkuvera aukist umtalsvert á stuttum tíma. Þessari þróun er hvergi nærri lokið.

Þó svo að hér sé í sömu andrá talað um vindorku og sjávarorku, ber að leggja áherslu á að þessar tvær greinar endurnýjanlegrar raforkuframleiðslu eru mjög misjafnlega langt komnar. Virkjun sjávarorku er enn nánast á fósturstigi og reyndar þykir iðnaðurinn um margt minna á stöðu vindorkuiðnaðarins fyrir um aldarfjórðungi. Miklar kostnaðarlækkanir gætu orðið í sjávarorkuiðnaðinum á næstu árum og áratugum. Að nokkru leyti gildir hér hið sama um vindorkuver á landi og vindrafstöðvar á hafi úti (þ.e. skammt utan við ströndina). Síðarnefndi virkjunarkosturinn er ennþá talsvert dýrari og er líka mun yngi tækni og vanþróaðri en vindrafstöðvar á landi. Þróunin í bæði vindorku og sjávarorku mun vafalítið leiða til þess að fljótlega verður nauðsynlegt að uppfæra ýmsar upplýsingar sem koma fram í þessari skýrslu – bæði um tæknina og um kostnaðinn.

Umfjöllunarefni þessarar skýrslu.

Hér er engan veginn um tæmandi úttekt að ræða, enda var þessi skýrsla tekin saman á rétt rúmum hálfum mánuði. Þessi vinna var hugsuð sem skref í þá átt að kortleggja betur möguleika Íslands í orkumálum, þ.e. í vindorku og sjávarorku. Þess er vænst að skýrslan nýtist til þess að draga athyglina að nokkrum kostum sem eru líklegir til reynast Íslendingum hagkvæmir til framtíðar.

Efni þessarar skýrslu er raðað þannig að byrjað er á því að fjalla um virkjun vindorkunnar. Að því búnu er athyglinni beint að sjávarfallavirkjunum og öðrum möguleikum á að virkja afl sjávar til rafmagnsframleiðslu.

Hér er ekki að finna nákvæmar tæknilegar, eðlisfræðilegar eða hagfræðilegar upplýsingar um þá virkjunarkosti sem fjallað er um. Umfjöllunin beinist að því að gera stuttlega grein fyrir tækninni; hvernig hún er nú og hvernig líklegt er að hún þróist á komandi árum. Áhersla er lögð á að reyna að meta tækifæri Íslands til að taka þátt í þeim iðnaði og tækniþróun sem virkjun vind- og sjávarorku byggist á. Þar er bæði litið til virkjunarmöguleika og einnig til þess hvort Íslendingar og íslensk fyrirtæki gætu orðið þátttakendur í þessum iðnaði. Loks er stuttur kafli þar sem gerð er grein fyrir helstu niðurstöðum.

-------------------------------

Næsta færsla mun fókusera á vindorkuna.


Í hlutverki leiðtogans

Hann stráksi minn, 8 ára, gerði mig stoltan föður um helgina.

Við skruppum á bensínstöð með nokkra fótbolta og hjól, að pumpa lofti í. Líklega hefur einhver klaufast með bensíndæluna; a.m.k. var óvenjulega sterk bensínlykt þarna á planinu. "Ummmm, hvað þetta er góð lykt!", sagði stubburinn af mikilli einlægni þegar við stigum út úr Land Rovernum. Svei mér þá - þessi drengur veit hvað máli skiptir í heiminum!

Khomeni_Time_1979

Ég held ég hafi verið 13 ára þegar ég komst að þeirri niðurstöðu að veröldin snýst aðeins um eitt. Olíu! Þetta var á þeim tímum þegar klerkabyltingin varð í Íran. Keisarinn flúði og Khomeini erkiklerkur sneri heim úr útlegð frá París. Þessu öllu fylgdi gíslatakan í bandaríska sendiráðinu í Tehran, ævintýralegur björgunarleiðangur bandaríska hersins sem endaði með skelfingu í miðri eyðimörkinni og háðuleg útreið Carter's í keppninni við Reagan. 

Khomeini var ekkert venjulegur. Maður skynjaði einhverja undarlega ógn frá þessum kuflklædda, hvítskeggjaða öldungi. Og feistaðist til að halda að Íranir væru allir snarbrjálaðir.

Löngu síðar átti ég eftir að kynnast nokkrum Persum, bæði búsettum í Tehran og landflótta Írönum. Allir virtust þeir eiga eitt sameiginlegt; sjaldan hef ég hitt gjörvilegra og ágætara fólk. Rétt að taka fram, til að forðast misskilning, að aldrei hitti ég Khomeini!

Einhvers staðar las Orkubloggarinn að aldrei hafi viðlíka mannfjöldi komið saman i sögu veraldarinnar, eins og við útför Khomeini's í Theran í júní 1989. Alls 10 milljón manns! Athyglisverð geggjun.

Khomeni_funeral

Nú virðist þó almennt viðurkennt að mannfjöldinn hafi "aðeins" verið tvær milljónir. En jafnvel það hlýtur að teljast þokkalegt.  Í múgæsingunni munaði reyndar minnstu að fólkið hrifsaði líkið úr kistunni í öllu brjálæðinu, sbr. myndin hér til hliðar.

Það óskiljanlega í þessu öllu saman, var að Bandaríkin skyldu þegjandi og hljóðalaust horfa upp á Íran lenda undir stjórn klerkanna. Landið með einhverjar mestu olíulindir heims, var látið sleppa undan áhrifavaldi Bandaríkjanna, rétt eins og þetta væri Belgía, Timbúktu eða annað álíka krummaskuð.

Þó svo ljúflingurinn Jimmy Carter snerti alltaf einhvern notalegan streng í brjósti Orkubloggarans, skal viðurkennt að líklega hefur bandaríska þjóðin sjaldan fengið slakari forseta. Hnetubóndinn frá Georgíu barrrasta skyldi ekki alþjóðamál og allra síst mikilvægi olíunnar.

Það er reyndar makalaust hvernig jafn öflugri þjóð eins og Bandaríkjamenn eru, virðist einkar lagið að kjósa hálfvita yfir sig. Í huga Orkubloggsins verðskuldar t.d. Geoge W. Bush ekkert skárra lýsingarorð en fábjáni. Og líklega var faðir hans lítið skárri.

Living_US_Presidents_2009

En inn á milli koma svo snillingar. Orkubloggarinn er þar hvað heitastur fyrir bleikfésanum Bill Clinton.

Því miður þurfti Clinton sífellt að vera að berjast við Bandaríkjaþing með repúblíkana í traustum meirihluta og fékk því litlu framgengt. Það væri betur komið fyrir Bandaríkjamönnum, ef Clinton hefði fengið meiru ráðið.

Kannski er þetta bull; kannski er ástæðuna fyrir hrifningu Orkubloggarans á Clinton barrrasta að rekja til þess að bloggarinn rakst eitt sinn á Clinton á Kaupmangaranum í Köben. Og kallinn geislaði svo af sjarma að maður hefur aldrei upplifað annað eins.

Obama_Chavez

En nú hvílir ábyrgðin á Obama. Það sýnir mikilvægi karaktersins, hvernig Obama virðist með áru sinni og hlýju brosinu, ná að bræða frosin hjörtu eins og hjá Hugo Chavez. Nú reynir á hvort Obama hafi nægjanlega persónutöfra til að skapa líka þýðu milli Bandaríkjanna og Íran. Það væri svo sannarlega óskandi.


Texas á Jótlandi?

Vonandi mun ekki koma styggð að ljónunum.

givskud_zoo

Það gæti nefnilega verið að olíuboranirnar þarna í nágrenni ljónadýragarðsins við Givskud á Jótlandi, muni valda titringi í jörðu - og sum dýr eru afar viðkvæm fyrir því þegar jörðin byrjar að hreyfast. Og nú fer að styttast í að fyrsti ameríski olíuborinn byrji að bora sig í gegnum jóskan leirinn, í leit að svarta gullinu sem talið er að leynist þar á 2,5 km dýpi.

Það eru ljúflingarnir frá GMT Exploration frá Denver í Kólórado, sem fengið hafa leyfi til að hefja olíuleitina. Þeir eru búnir að velja borstað úti á akri einum, rétt utan við þorpið Givskud, sem liggur skammt frá hinum fallega Vejlefirði á Jótlandi.

Givskud_Oil

Akurinn er auðvitað hluti af bújörð, en ekki mun bóndinn þar á bæ hafa hoppað hæð sína í loft upp við komu tyggjójaplandi Kólóradó-búanna. Í Danmörku er það nefnilega ríkið, sem er eigandi allra náttúruauðlinda djúpt í jörðu. Baunarnir hafa komið á þeirri leiðinda skipan mála, að eignarétturinn þar sætir meiri takmörkunum en gerist í Mekka einstaklingshyggjunnar; Íslandi. Meðan Orkubloggarinn bjó í Danmörku átti hann alltaf erfitt með að skilja þessa sterku samfélagshugsjón Baunanna. En þetta kerfi ku reyndar bara virka nokkuð vel - en það er önnur saga.

Íbúar Givskud, sem eru um sex hundruð drottinssauðir, héldu spenntir á borgarafund sem boðað var til í ráðhúsinu kl. 19, þann 19. ágúst s.l. (2008). Dagsetningin hefur væntanlega verið valin með hliðsjón af því að þetta er einmitt afmælisdagur Orkubloggarans! Þar var kynnt hvernig staðið yrði að leitinni; um 20-30 manna teymi rá GMT mun nú n.k. sumar verja nokkrum vikum í tilraunaboranir, sem gert er ráð fyrir að muni kosta skitnar 40 miljónir danskra króna eða svo.

jotland5

Það verður spennandi að fylgjast með því, hvort senn rigni svörtu gulli yfir ljónin við Givskud. Reyndar hafa nýjar vísbendingar komið fram um að olía kunni að leynast víða undir hinum danska leir. T.d. er Dong Energi nú að hefja nákvæmar rannsóknir á öðru afskaplega fallegu svæði í Danmörku; við bæinn Thisted við Limafjörðin.

Bændurnir við Limafjörðinn byrjuðu snemma að setja upp vindrafstöðvar og þær eru þarna hreinlega út um allt. Reyndar þótti Orkubloggaranum nóg um, þegar hann ók um þessar slóðir með börnum sínum og vinkonu þeirra nýlega (sbr. myndin hér að ofan af þeim Boga og Berghildi). Þarna við Limafjörðinn hafa turnarnir risið afskaplega tilviljanakennt í gegnum árum. Fyrir vikið eru þeir á víð og dreif og trufla augað verulega á þessum fallegu slóðum.

Oil_donkey

Nú er bara að bíða og sjá hvort s.k. olíuasnar muni senn líka bætast við á ökrum bændanna við Limafjörðinn. Mun Jótland senn verða Texas Evrópu?


Sandhóla-Pétur

Eru einhverjir aðrir out-there, sem muna eftir bókunum skemmtilegu um Sandhóla-Pétur og ævintýri hans á hinni vindbörðu vesturströnd Jótlands? 

Reyndar hefur Jótland aldrei þótt vera sérstaklega hot staður í huga Orkubloggsins. Enda verður manni helst hugsað til hákristinna hóglífismanna, þegar Jótland er nefnt. Svona nægjusamra ljúflinga, eins og okkur voru sýndir í skáldsögunni og myndinni frábæru; Babettes gæstebud.

VKR_malverk

En Jótarnir hógværu leyna á sér. Munum t.d prestsoninn fátæka; Villum Kann Rasmussen. Sem sagði eitt sinn í viðtali á gamals aldri "Jeg er daarlig til alt andet end at faa ideer". Og svo sannarlega fékk hann nokkrar góðar hugmyndir í gegnum tíðina.

Hann VKR- eins og Rasmussen var jafnan kallaður - fæddist í útnárabrauðinu Mandö árið 1909. Á þessum tíma var ólíklegt að slíkir piltar ættu efni á því að brjótast til mennta, nema þá helst að fara í prestaskólann. En fyrir tilstilli góðra manna gat VKR haldið til náms í Kaupmannahöfn og þar lauk hann verkfræðiprófi 1932.

Að því búnu var að reyna að vinna sér fyrir salti í grautinn þarna í kreppunni og síðar hernumdu landinu - og þá fékk VKR fyrstu góðu hugmyndina sína. Sem lagði grunninn að einhverum mesta auði, sem sögur fara af í Danaveldi.

Það er nefnilega svo að hógværð og auður geta vel farið saman. Fæstir Danir kveikja á perunni þegar hann VKR er nefndur. VKR-fjölskyldan er sem sagt það sem gjarnan er kallað svakalega low-profile. Samt er arfleifð VKR í dönsku viðskiptalífi jafnvel miklu meiri en sjálfs JR Ewingí sögu sápuóperanna. Í dag eru afkomendur hans VKR líklega næstefnaðasta fjölskylda í Danaveldi á eftir snillingnum Mærsk McKinney Möller og hans slekti.

Velux

Hugmyndin sem VKR fékk, var að hanna þakglugga til að gera lífið bærilegra fyrir fólk sem hírðist í rökkrinu undir húsþökum Kaupmannahafnar. Og þetta reyndist brilljant hugmynd. Í æpandi húsnæðisskortinum varð upplagt að innrétta íbúðir á þakhæðunum og setja þar upp Velux-glugga frá VKR. Það sem áður höfðu einungis verið myrkar kytrur fátækra vinnukvenna, urðu nú prýðilegar íbúðir fyrir áður húsnæðislausar fjölskyldur. Smám saman varð Veluxrisi á þakgluggamarkaði heimsins og ófáar lúxus-penthouse íbúðirnar eru prýddar gluggum frá Velux eða Velfac. Og ágóðinn af öllum þeim úrvalsgluggum rennur stille og roligt í digra sjóði VKR.

Ef maður rýnir í nýjustu ársskýrslu VKR Holdingkemur í jós að eigið fé fyrirtækisins var í árslok 2007 um 12,7 milljarðar DKK. Á núverandi fíflagengi reiknast það til að vera hátt í 290 milljarðar ISK. Dágott. Slær eigið fé Landsvirkjunar út og er reyndar meira en 150% af því sem LV segist eiga.

VKR_Velux

Og fólkið hjá VKR lifir sko ekki aldeilis fyrir það a gíra sig upp. Enginn útrásavíkinga-hugsanaháttur þar á ferð. Þarna er lífsfílósófían miklu heldur sú, að latir peningar séu góðir peningar. Eða kannski að einn fugl í hendi séu betri en tveir i skógi.

Þegar kíkt er á tölurnar hjá VKR kemur nefnilega í ljós að langtímaskuldir fyrirtækisins eru almennt... nálægt því að vera núll! Þarna fjármagna menn sig sjálfir og láta 290 milljarða ISK malla rólega eins og jóskan hafragraut á lágri suðu. Íslenskir útrásarvíkingar hefðu sjálfsagt þegið að komast í þennan "varasjóð VKR-sparisjóðsins".

Það er reyndar útí hött að Orkubloggarinn sé að leggja honum hr. VKR orð í munn og búa til einhver mottó fyrir þetta ofuröfluga danska fyrirtæki. Því hann VKR var sjálfur óspar á að boða lífsviðhorf sitt hverjum þeim sem vidi við hann ræða: "Den der lever stille, lever godt!" Það er ekkert flóknara.

Og það má svo sannarlega segja að hr. VKR og afkomendur hans hafi lifað eftir þessu ágæta rólyndis-mottói. Þó svo fjölskyldan stjórni sjóðum, sem eru feitari en bæði Lego, Grundfos og Novo Nordisk, er hún álíka áberandi í dönsku þjóðlífi eins og keldusvín í íslensku mýrlendi.

VKR_logo

En nú kannski spyr einhver hvern fjárann Orkubloggið sé að eyða tíma í þetta Baunasnobb og gluggarugl? VKR-Holding er jú aðallega þekkt fyrir framleiðslu á þakgluggum, sem kannski kemur orku lítið við. En bíðið við. Fyrir nokkrum árum tók fyrirtækið upp á því að skoða aðra möguleika, sem tengjast kjarnastarfseminni. Sem hefur verið skilgreind svo, að færa ferskt loft og ljós í híbýli fólks (þessi stefna á einmitt að endurspeglast í lógói fyrirtækisins, sem sést hér á myndinni).

Þess vegna var nærtækt hvert VKR ætti að líta næst; auðvitað til sólarorku. Á allra síðustu árum hefur fyrirtækið varið ágóða sínum í að kaupa upp mörg af helstu fyrirtækjum Evrópu og víðar, sem sérhæfa sig í sólarhitakerfum. Og nú verður spennandi að sjá hvort VKR muni líka færa sig yfir í þann hluta sólarorku-iðnaðarins, sem felst í því að framleiða rafmagn úr sólarorkunni.

bakken-oil_plains

Já - Jótarnir eru orðnir stórtækir í sólarorku. En það makalausa er að brátt kann að vera, að á jóskum engjum megi senn sjá olíupumpur - rétt eins og svo víða á sléttum Texas. Nú eru nefnilega taldar góðar líkur á að undir hinum danska Jótlandsleir, megi finna myndarlegar olíulindir! Sem þar að auki verður líklega skítbillegt að bora eftir.

Skyldi Jótland verða hið Evrópska Texas? Með notalega "olíuasna" kinkandi kolli úti á túni? Kannski meira um það í næstu færslu Orkubloggsins. 


Bettino, prendi anche queste!

Í dag ætlar Orkubloggið að leyfa sér að endurtaka færslu frá því í fyrra og birta hana hér, eilítið breytta.

Eni_logo_3

Ítalska ofurfyrirtækið Eni er eitt stærsta orkufyrirtæki í heimi. Afkvæmið hans Enrico Mattei – sem margir telja að CIA eða leigumorðingjar hafi komið fyrir kattanef. Af því hann keypti olíu af Sovétmönnum og virtist jafnvel ætla að komast fram fyrir bandarísku olíufélögin í keppninni um olíuna frá bæði Írak og Persíu (Íran). En hér ætlar Orkubloggið ekki að fjalla um Mattei, heldur beina athyglinni að niðurlægingu Eni í upphafi 10. áratugarins.

Stundum er sagt að vald spilli. Og eftir því sem Eni varð valdameira jókst spilling innan fyrirtækisins. En hún fór hljótt - þó svo kannski hafi öll ítalska þjóðin vitað að eitthvað gruggugt hlyti þarna að eiga sér stað.

Árið 1992 hófst rannsókn á fjármálaóreiðu, sem tengdist heldur ómerkilegum ítölskum stjórnmálamanni. Um sama leyti var Eni í nokkrum kröggum vegna geggjaðrar skuldsetningar. Og viti menn - þá kom í ljós að Eni og ítalskir stjórnmálamenn voru tengdir með svolítið ógeðfelldari hætti en nokkur hafði látið sér til hugar koma. Nú opnuðust skyndilega rotþrær einhverjar mestu spillingar og mútugreiðslna sem sögur fara af í Vestur-Evrópu og þótt víðar væri leitað. Og spilaborgin hrundi. 

Antonio Di Pietro

Það má líklega segja að ítalski rannsóknadómarinn Antonio Di Pietro eigi mesta heiðurinn af því að fletta ofan af hinni ömurlegu pólitísku spillingu sem ítalska valdakerfið var gegnsósa af. Þessi fátæki bóndasonur skaust þarna upp á stjörnuhiminn réttlætisins og átti síðar eftir að hella sér útí stjórnmál.

Þar hefur hann verið mikill boðberi þess hversu varasamt sé að stjórnmálamenn geti sífellt sóst eftir endurkjöri og þannig orðið fastir á jötunni. Það leiði í besta falli til þess að þeir verði værukærir, en í versta falli gjörspilltir. Á síðustu árum hefur Di Pietro átt í miklum útistöðum við nýja yfirskíthælinn í ítölskum stjórnmálum- Silvio Berlusconi - en það er önnur saga.

Rannsókn Di Pietro upp úr 1990 opnaði flóðgáttir og leiddi til þess að flestir æðstu stjórnendur Eni voru handteknir. Síðar kom í ljós að mútuþægnin, hagsmunapotið og spillingin teygði sig meira og minna um allt valdakerfið og stóran hluta viðskiptalífsins á Ítalíu.

Di Pietro þrengdi fljótlega hring sinn um höfuðpaurana og nú fóru menn að ókyrrast verulega. Þegar ekki tókst að þagga málið niður og handtökur hófust, greip um sig örvænting í ormagryfjunni. Afleiðingarnar urðu hörmulegar; margir auðugustu og valdamestu manna á Ítalíu kusu að láta sig hverfa endanlega af þessu tilverusviði. Segja má að alda sjálfsmorða hafi gengið yfir æðstu klíku ítalskra embættismanna og viðskiptajöfra.  

Í júlí 1993 fannst Gabriele Cagliari, fyrrum forstjóri Eni, kafnaður í fangaklefa sínum - með plastpoka um höfuðið. Cagliari sætti þá ákærum um stórfelldar mútur og hafði setið í varðhaldi í nokkra mánuði.

gardini

Og örfáum dögum seinna skaut Raul Gardini höfuðið af sér í 18. aldar höllinni sinni í Mílanó. Það sjálfsmorð vakti smávegis athygli, enda var Gardini yfir næststærstu iðnaðarsamsteypu á Ítalíu - Ferruzzi Group. Fyrirtæki Gardini's var einfaldlega allt í öllu í ítölskum iðnaði (einungis Fiat-samsteypan hans Gianni Agnelli's var stærri en viðskiptaveldi Gardini - og enginn meiriháttar sóðaskapur sannaðist á Agnelli).

Þetta var auðvitað sorglegur endir á ævi mikils merkismanns. Fáeinum mánuðum áður hafði Gardini baðað sig í dýrðarljóma, þegar risaskútan hans - Il Moro di Venezia – náði frábærum árangri í America's Cup. Já – mikil veisla fyrir Orkubloggið sem bæði dýrkar siglingar og olíu.

Allt var þetta angi af hinni algjöru pólitísku spillingu á Ítalíu – Tangentopoli - sem náði bæði til kristilegra demókrata og sósíalista. Auk margslunginna mútumála, stórra sem smárra, snerist kjarni þessa máls í raun um greiðslur frá fyrirtækjum til stærstu stjórnmálaflokkanna.

Kannski má segja að hrun þessarar gjörspilltu klíku hafi náð hámarki þegar Bettino Craxi, sem verið hafði forsætisráðherra Ítalíu 1983-87, var tekinn til yfirheyrslu og ákærður.

craxi_coins

"Dentro Bettino, fuori il bottino!Inn með Bettino, út með þýfið, hrópaði ítalskur almenningur um leið og fólkið lét smápeningum rigna yfir Craxi. Hvar hann skaust milli húsa með frakkann á öxlunum. Ítalir eru ýmsu vanir en viðurstyggilegt siðleysi Craxi's varð til að þjóðinni ofbauð. Og þegar smápeningarnir skullu á skallanum á Craxi, söng fólkið "prendi anche queste!". Hirtu þessa líka!

Craxi flúði land - slapp undan réttvísinni til Túnis 1994. Hann snéri aldrei heim aftur, enda beið hans þar 10 ára fangelsisdómur. Það ótrúlega er nefnilega, að þrátt fyrir allt er til réttlæti á Íslandi... á Ítalíu vildi ég sagt hafa. En það má kannski segja að það hafi einmitt verið öll þessi upplausn sem kom Berlusconi til valda á Ítalíu. Sem var kannski ekki besta þróunin.

craxi_dead

Craxi lést í sjálfskipaðri útlegð sinni í Túnis, í janúar árið 2000. Hann viðurkenndi aldrei neina sök; sagði greiðslurnar hafa verið hluta af hinum pólitíska veruleika og hann ekki verið neitt verri í því sambandi en aðrir ítalskir stjórnmálamenn.

Enda eru mútur þess eðlis, að oft er auðvelt að horfa fram hjá raunveruleikanum. Greiðslurnar verða hluti af venjubundinni vinsemd eða jafnvel sjálfsagður hluti af áratugalangri venju í samskiptum viðskiptalífs og stjórnmálamanna.

Svo þegar aðrir komast yfir upplýsingar um greiðslur af þessu tagi, er svarið jafnan hið sama: "Jamm, kannski var þetta óheppilegt. En þetta hafði auðvitað engin áhrif á ákvarðanir flokksins eða stjórnmálamannanna!"

craxi_berlusconi_2

Bettino Craxi fannst hann ekki hafa gert neitt rangt. En ítalska þjóðin var nokkuð einhuga í sinn afstöðu og Craxi uppskar það að verða einhver fyrirlitnasti sonur Ítalíu.

Ítalir þráðu breytingar og í stað Craxi fékk þjóðin gamlan viðhlæjanda hans; Silvio Berlusconi. Forza Italia! Kannski var þarna bara farið úr öskunni í eldinn?


Hverjum klukkan glymur

Mikið er nú lífið stundum undursamlegt.

Nasdaq_Gylfi_Akureyringur

Eins og t.d. fyrir örfáum dögum þegar Akureyringur sá um að loka Nasdaq-markaðnum í New York. Reyndar sá Akureyringurinn ekki alveg einn um þetta, heldur fékk smá aðstoð frá fleiri "þekktum aðilum úr viðskiptalífi heimsins". Þ.á m. var viðskiptaráðherranna okkar, Gylfi Magnússon:

8.4.2009 - 23:30:00 | ÖHÖ
Akureyringur lokar NASDAQ markaðnum í New York

Akureyringurinn Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, lokaði í gær hinum þekkta Bandaríska verðbréfamarkaði NASDAQ í New York, ásamt Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra. Að því er blaðamaður Akureyri.net komst næst er þetta í fyrsta skipti sem Akureyringur lokar markaðnum, en í lok hvers viðskiptadags eru þekktir aðilar úr viðskiptalífi heimsins fengnir til að hringja lokunarbjöllunni.  (Frétt af vefnum Akureyri.net).

Geir_Nasdaq

Nú er bara að vona að þetta sé ekki illur fyrirboði. Hvorki fyrir Akureyri, Icelandair né viðskiptaráðherra. Óneitanlega verður manni hugsað til þess þegar fráfarandi forsætisráðherra tók þátt í þessu bráðskemmtilega bjölluglingri á Nasdaq, síðla í september árið sem leið.

Já - það var 24. september s.l. sem brosandi og áhyggjulaus Geir Haarde fékk að hringla með Nasdaq-bjölluna. Þá var Orkubloggarinn og jafnvel öll íslenska þjóðin ennþá i skýjunum eftir Ólympíusilfur handboltalandsliðsins og horfði grunlaus fram á góða haustdaga.

Bankastjorar

Enda var gjörsamlega útilokað að lesa það út úr brosi Geirs á Nasdaq, að í reynd væri Seðlabankinn búinn afgreiða íslensku bankana sem fallnar spýtur. Hvað þá að nokkurn gæti grunað, að þessa fallegu síðsumardaga stæðu stjórnendur bankanna sveittir við að skófla út fé til einkahlutafélaga í eigu þeirra sjálfra, vina eða kunningja og voru í þann mund að krassa með feitum túss yfir allar sínar eigin persónulegu sjálfsskuldaábyrgðir.

En því miður sáu stjórnendur bankanna ekkert nema eigið rassfar og gleymdu því að maður á líka að gleðja náungann. Hefðu auðvitað líka átt að fella niður veð og persónulegar ábyrgðir húnæðislántakenda og máske einnig strika yfir bílalán til blankra viðskiptavina. Gera þetta með stæl áður en þeir hentu leifunum af þessu bévítans bankarusli í ryðgaða tunnuna hjá ríkissjóði.

DecodeNasdaq

Og auðvitað hefðum við öll átt að sjá þetta allt fyrir. Við hefðum átt að vita það, að þetta árans bjölluglamur hans Geirs þarna á Nasdaq, var illur fyrirboði.

Hvernig fór ekki með Decode-ævintýrið? Kári Stefánsson mætti á sínum tíma á Nasdaq og hringdi örugglega bjöllunni af mikilli list. Því miður virðist Decode nú vera að syngja sinn svanasöng - a.m.k. í núverandi mynd. Það þykir Orkubloggaranum þyngra en tárum taki. Og það er barrrasta eins og fjárans hringlið í bjöllunni á Nasdaq hreinlega leggi bölvun á íslenskt viðskiptalíf. Bloggarinn hélt að hjátrú væri nokkuð rík í íslenskri þjóðarsál - og botnar eiginlega ekkert í því að nokkur Íslendingur skuli yfirleitt þora að snerta á þessum bjölluviðbjóði!

glitnir_smart_banking

Þetta er svo sannarlega hverfull heimur. Hér hegðuðu bankastjórnendur sér eins og enginn morgundagur kæmi. Efnahagsuppgangurinn væri allt í einu orðinn eilífur og áhættufíknin það eina sem vert væri að lifa fyrir. Icelandic Banking a la James Dean; djæfa hátt og hratt og deyja ungur! Þetta var svo sannarlega Smart Banking.

Hemingway_for-whom-the-bell-tolls

Svo fór sem fór. Lífið er ekki alltaf dans á rósum. Nú sé ég í fréttum að Nýja-Kaupþing sé farið að herja á Björgólfsfeðga vegna vanskila á einhverjum aurum sem þeir fengu að láni hjá Búnaðarbankanum eða Kaupþingi; láni sem mun hafa farið í að borga kaupin á Landsbankanum á sínum tíma. Hvaða fjárans baunatalning er þetta? Látið þessa snillinga í friði. Never send to know for whom the bell tolls - it tolls for thee!"


Hver á skuldir HS Orku?

"Án þess að gera fyrirvara við álit okkar viljum við vekja athygli á skýringu 25 í ársreikningnum þar sem greint er frá því að félagið uppfyllir ekki ákvæði lánasamninga við lánastofnanir þar sem kveðið er á um að fari eiginfjárhlutfall og rekstrarhlutföll niður fyrir tiltekin viðmið sé lánveitendum heimilt að gjaldfella lánin."

HS_Orka_Stjorn

"Stjórnendur félagsins eru í viðræðum við lánastofnanir en þeim viðræðum er ekki lokið. Verði lánin gjaldfelld og ekki semst um endurfjármögnun þeirra ríkir óvissa um áframhaldandi rekstrarhæfi
félagsins
."

Já - nú á þessum fallega Skírdagsmorgni hefur Orkubloggið stungið sér i ársskýrslu Hitaveitu Suðurnesja. Eða öllu heldur hins nýja fyrirtækis; HS Orku. Og ekki verður hjá því komist að vekja sérstaka athygli á ofangreindri umsögn endurskoðendanna. HS Orka er sem sagt með svo lágt eiginfjárhlutfall að hætta er á að lánin til fyrirtækisins verði gjaldfelld. Örlög fyrirtækisins eru m.ö.o. alfarið í höndum kröfuhafanna.

GGE-Olafur_johann

Nú hlýtur að reyna á hversu góð sambönd Ólafur Jóhann Ólafsson hefur í fjármálageiranum. Ólafur Jóhann er vel að merkja stjórnarformaður Geysis Green Energy, sem er annar stærstu hluthafanna í HS Orku (hlutur GGE í fyrirtækinu er sagður vera 32%). 

Þar er enginn aukvisi á ferð. Úr því HS Orka þarf nú að endurfjármagna sig eða endursemja við kröfuhafa, er vart hægt að hugsa sér betri hluthafa í eigendahópi fyrirtækisins, en Ólaf Jóhann. Ísland er rúið trausti, en vafalítið hefur Ólafur Jóhann talsverða vigt í fjármálaheiminum vestra. Orkubloggarinn er reyndar á því að Ólafur Jóhann sé einn  vanmetnasti Íslendingur nútímans, en það er önnur saga.

En víkjum aftur að ársreikningi HS Orku. Umrædd skýring nr. 25 í ársreikningnum 2008 er svohljóðandi:

HS-orka-logo

"Á árinu 2008 veiktist gengi íslensku krónunnar umtalsvert sem leiddi til þess að skuldir félagsins tengdar erlendum gjaldmiðlum hækkuðu um 9.226 millj. kr. Ein af afleiðingum þessa er að félagið uppfyllir ekki lengur skilyrði í lánasamningum við lánveitendur sem kveða á um að eiginfjárhlutfall og að rekstrarhlutföll séu yfir ákveðnu lágmarki. Skipting á félaginu að kröfu laga getur valdið því að forsendur lánasamninga séu brostnar og veiti lánveitendum heimild til að gjaldfella lánin. Stjórn og stjórnendur vinna nú að því með lánveitendum sínum að endursemja um fjármögnun félagsins og telja að unnt verði að ljúka viðræðum innan skamms og að niðurstaða þeirra verði félaginu hagfelld".

Hér koma svo nokkrar tölur úr ársreikningnum: Niðurstaða ársins var nærri 12 milljarða króna tap. Rekstrarhagnaður nam nærri 2 milljörðum króna, en samt sem áður rýrnaði eigið fé fyrirtækisins um u.þ.b. 70%. Fór úr tæpum 20 milljörðum í árslok 2007 og niður í tæpa  6 milljarða í árslok 2008.

Gufuhverir

Rétt eins og hjá Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur voru það fjármagnsliðirnir sem fóru svo illa með fyrirtækið á liðnu ári. Hjá HS Orku varð geggjaður fjármagnskostnaðurinn til að skila þessum lið neikvæðum um alls 15,5 milljarða króna. Og fyrir vikið er eiginfjárhlutfallið komið undir lágmarksviðmiðunina í lánasamningum fyrirtækisins.

Niðurstaðan af þessu hlýtur að vera sú, að ef lánadrottnar HS Orku vilja eignast öflugt orkufyrirtæki á Íslandi, geta þeir nú notað tækifærið. Aðrir sem áhuga hafa geta sett sig í samband við kröfuhafana og boðið í skuldirnar. Sá sem á skuldir HS Orku á HS Orku. Óneitanlega væri forvitnilegt að vita hverjir stærstu kröfuhafarnir eru. Ætli einhverjir hrægammar séu þegar komnir á svæðið?

Kannski eru Suðurnesjamenn og þeir hjá GGE svo heppnir að enginn hefur áhuga á fyrirtækinu. Þ.a. kröfuhafarnir verða að gefa eitthvað eftir. En þetta er nú ljóta ástandið; það er bágt þegar vonin ein er eftir.

Margeir-87

Undarlegast þykir Orkubloggaranum þó að hann - fölur gleraugnaglámur sem finnst fátt notalegra en að að liggja í volgri sinu og tyggja strá - virðist síðustu árin hafa sýnt meira innsæi og þekkingu á fjármálum heldur en flestallir "hæfustu" forstjórar landsins.

Kannski hefur það hjálpað, að bloggarinn hefur alltaf verið svolítið hrifinn af skákstíl Margeirs Péturssonar...?


Orkuveitan: "Ég er fullur tilhlökkunar"

"Horfur eru góðar um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2008. Umsvif fara vaxandi og fjárfestingar eru miklar."

Orkuveituhusid

Þannig segir orðrétt í tilkynningu Orkuveitu Reykjavíkur, sem dagsett er 29. ágúst 2008. Reyndar er þetta tilkynning frá fyrirtæki, sem tapaði litlum 73 milljörðum króna þegar upp var staðið eftir 2008. Þannig að þessi tilvitnun er líklega eitthvert mesta öfugmæli í allri íslenskri fyrirtækjasögu.

Umrædd tilkynning OR birtist í tengslum við 6 mánaða uppgjör félagsins 2008. Kannski var þessi mikla bjartsýni OR í ágústlok sl. til marks um þann jákvæða viðsnúning, sem orðið hafði á 2. ársfjórðungi - eftir hroðalegan 1. ársfjórðung. Óneitanlega voru mánuðirnir þrír, apríl-júní, ansið mikið skárri í bókhaldi OR heldur en fyrstu þrír mánuðir ársins. En samt áttar Orkubloggið sig ekki alveg á því af hverju Orkuveitumenn urðu þarna í ágúst allt í einu svona hressilega bjartsýnir.

Það er eins og Orkubloggið rámi í, að horfurnar í efnahagsmálunum almennt hafi ekki verið alltof góðar þarna síðla í ágúst s.l. En kannski er það bara misminni; kannski leit þetta allt voða vel út. A.m.k. séð frá glæsihúsnæði Orkuveitunnar. Síðsumarútsýnið þaðan var örugglega yndislegt. Dýrðlegur blámi yfir borginni og framtíðin björt þátt fyrir nokkur gulnandi lauf.

En stundum er skynsamlegast að fagna ekki of snemma. Eftir að Orkuveitan birti umrædda bjartsýnis-tilkynningu sína um "góðar horfur 2008", varð íslenskt þjóðfélag fyrir örlitlu áfalli, sem kunnugt er. Þegar spilaborgin hrundi í einni svipan.

Niðurstaða ársins 2008 hjá Orkuveitunni varð allt annað en góð. Á síðasta ári var OR rekin með 73 milljarða króna tapi. Það er hátt í helmingi meira tap en Landsvirkjun varð fyrir sama ár. Reyndar varð ofurlítill rekstrarhagnaður hjá OR 2008; 4,7 milljarðar króna. En segja verður að heildarafkoma ársins hafi hreinlega verið skelfileg. Fjármagnsliðirnir voru neikvæðir um hvorki meira né minna en 92,5 milljarða króna. Og niðurstaðan varð sem sagt 73 milljarða króna tap!

orkuveitumerki

Þetta risatap OR fær líklega bronsið í keppninni um mesta tap fyrirtækis í Íslandssögunni. Þá eru auðvitað undanskildir bankarnir og aðrir risar á brauðfótum, sem fóru beint í þrot. Og Orkubloggið hefur ekki enn séð subbulegar afkomutölur fyrirtækja eins og t.d. Exista vegna 2008. En í dag er OR með þungt bronsið um hálsinn.

Aðeins Straumur og Eimskip hafa náð að toppa þetta risatap OR. Meira að segja hið gígantíska tap FL Group árið 1997, upp á 67 miljarða króna, hverfur í skuggann af tapi Orkuveitu Reykjavíkur á liðnu ári. M.ö.o. er vart unnt að mótmæla því, að fjármögnunarstefna OR hafi reynst ennþá ömurlegri en glapræðisstefna Hannesar Smárasonar og félaga í fjárfestingum FL Group.

Í síðustu færslu var Orkubloggið með smá áhyggjur vegna 380 milljarða króna skuldar Landsvirkjunar. OR nær ekki að toppa það; skuldir OR um síðustu áramót voru "einungis" 211 milljarðar króna. Samt lítur reyndar út fyrir að OR sé jafnvel í ennþá verri málum en Landsvirkjun. Yfir árið 2008 rýrnaði nefnilega eigið fé Orkuveitunnar úr 89 milljörðum króna í 48 milljarðar króna. M.ö.o. þá myndi annað ámóta annus horribilis eins og 2008 hreinlega gjörþurrka út allt eigið fé Orkuveitu Reykjavíkur.

hellisheidarvirkjun

Þegar litið er til þessara tveggja orkufyrirtækja, Landsvirkjunar og OR, er freistandi að draga eftirfarandi ályktun:

Landsvirkjun hefur þrátt fyrir allt staðið sig ótrúlega vel í að verja sig á þessum erfiðu tímum. Orkubloggarinn getur ekki annað en tekið ofan fyrir starfsfólki LV að þessu leyti. Það má ekki gleyma því sem vel er gert - þó svo LV sé vissulega í erfiðum málum, eins og áður hefur verið minnst á hér á Orkublogginu.

Aftur á móti virðist fjármálastjórn Orkuveitu Reykjavíkur ekki hafa einkennst af viðlíka varkárni. Meðan óveðursskýin hrönnuðust upp í efnahagslífi bæði heimsins og Íslands fram eftir árinu 2008, lýstu Orkuveitumenn yfir bjartsýni og virtust fullir stolts yfir árangri sínum.

Guðlaugur Gylfi Sverrisson_1

Hvað um það. Þegar meirihlutinn í Reykjavík gerði Guðlaug Gylfa Sverrisson, verkefnisstjóra hjá Úrvinnslusjóði, að stjórnarformanni Orkuveitunnar í ágúst s.l. var haft eftir Guðlaugi: "Ég er fullur tilhlökkunar að taka við stjórnarformennsku í OR og veit að það er mikil ábyrgð".

Það er auðvitað stuð að verða stjórnarformaður í svona flottu fyrirtæki. Ekki síst um sama leyti og fyrirtækið býður glás af fólki á Clapton-tónleika í Egilshöllinni. 

Og það er líka flott að gefa í skyn að maður ætli að sýna ábyrgð. En Guðlaugur Gylfi og félagar hans sáu samt ekki ástæðu til að setja eitt einasta orð í skýrslu stjórnarinnar, um það hvort þetta hrottalega tap Orkuveitu Reykjavíkur teljist eitthvert tiltökumál.

Sú staðreynd að hátt í helmingur af eigin fé Orkuveitunnar hreinlega fuðraði upp eftir að Guðlaugur Gylfi tók við stjórnarformennskunni, virðist ekki einu sinni verðskulda smá vangaveltur um hvernig brugðist hafi verið við þessu svakalega áfalli. Kannski var þetta ekkert áfall í hugum þeirra sem þarna ráða - þetta eru líkelga barrrasta einhver sýndarverðmæti í eigu almennings; skattborgara í Reykjavík og nokkurra annarra volaðra drottinssauða.

Nánast einu skýringarnar sem gefnar í skýrslu stjórnarinnar á þessu ofsatapi, eru eftirfarandi: "Þróun gengis íslensku krónunnar hefur orðið með allt öðrum hætti á árinu en áætlanir samstæðunnar gerðu ráð fyrir". Þetta er sem sagt ástæða þess að góðar rekstrarhorfur brettust í martröð. Gott fyrir okkur vitleysingana að fá að vita það. Eða eins og segir í ársskýrslunni: "Þessi þróun veldur því að fjármagnskostnaðurinn hækkar verulega á árinu og eigið fé rýrnar". Hvað getur Orkubloggarinn annað gert, en að kinka kolli íhugull á svip þegar svona mikil speki er framreidd?

OR_inni

Og að auki er það einfaldlega þannig, að tap OR er auðvitað ekki stjórn Orkuveitunnar að kenna, né gjörsamlega misheppnuðum áætlunum fyrirtækisins um gengisþróun og áhættudreifingu. Eins og alltaf þegar illa fer, er það auðvitað öðrum að kenna.

Þetta veit Guðlaugur Gylfi og líklega öll stjórn OR. Í skýrslu stjórnarinnar segir orðrétt: "Í fjárhagsáætlun Orkuveitunnar fyrir árið 2008 var gert ráð fyrir að gengisvísitalan yrði 155 í árslok og var það byggt á spám greiningadeilda bankanna og opinberra aðila" (leturbreyting hér).

Það var sem sagt ekki Orkuveitan sem brást - heldur greiningadeildir fallinna banka og einhverjir ótilteknir mistækir álfar hjá hinu opinbera. Hjá Orkuveitunni eru menn auðvitað stikkfrí og geta ekkert gert að því að aðrir séu svona vitlausir. Og eiga því auðvitað áfram að sjá um þetta fjöregg Reykjavíkurborgar og skattborgaranna.

Orkubloggið leyfir sér að ljúka þessari færslu um Orkuveitu Reykjavíkur með örfáum spurningum, sem lesendur geta kannski svarað hver í sínu hjarta: 

gufuorka

Er eðlilegt, að í skýrslu stjórnar fyrirtækis sem skilar þvílíku megatapi, sé ekki stafkrók að finna um horfurnar framundan og hvort þetta fyrirtæki almennings telji sig þurfa hafa áhyggjur af því að tapið jafnvel haldi áfram? Er ársskýrsla kannski bara eitthvert leiðinda formsatriði?

Eða er kannski ársskýrsla Orkuveitu Reykjavíkur vegna 2008, einhver besta vísbendingin um ömurlegt "corporate governance" sem finnst alltof víða í íslenskri fyrirtækjamenningu?

Eða er Orkubloggarinn bara einhver leiðinda tuðari? 


Silfrið II: Landsvirkjun

Eftirfarandi eru glærur sem birtust í Silfrinu í gær í tengslum við umfjöllun um Landsvirkjun.

Silfrid_Ketill_4

Þetta voru tvær glærur, sem birtust vegna Landsvirkjunar. Sú fyrri beindist að því hvert tap fyrirtækisins var á liðnu ári. Lítið hefur borið á því að mönnum þyki þetta umtalsvert tap. Litlir 40 milljarðar íslenskra króna. Þykir varla fréttnæmt. Jafnvel þó svo þetta nemi hátt í fjórðungi af öllu eigin fé fyrirtækisins um síðustu áramót. 

Ef litið er til afkomu íslenskra fyrirtækja í gegnum tíðina, kemur í jós að líklega er þetta tap Landsvirkjunar á síðasta ári einfaldlega eitt stærsta tap í Íslandssögunni. Áframhaldandi tap af þessu tagi myndi kíla all svakalega niður eigið fé Landsvirkjunar á tiltölulega stuttum tíma. Ennþá geta menn þó staðið keikir og bent á þá staðreynd að eiginfjárstaða fyrirtækisins er mjög sterk.

Samson_hopurinn

Íslendingar kunna reyndar að vera orðnir dofnir gagnvart svona háum taptölum. Ekki síst eftir hroðalega útreið fyrirtækja útrásarvíkinganna. Fyrirtækja eins og t.d. FL Group, Eimskips og Straums. Eins og sá má á glærunni hér að ofan, hefur Íslandsmetið í tapi verið slegið hratt undanfarin misseri - fyrir vikið þykir 40 milljarða tap kannski ekkert tiltökumál.

Svona eru tölur nú afstæðar og tilfinningin fyrir þeim breytileg. Ekki eru mjög mörg ár liðin frá því mönnum nánast lá við yfirliði, þegar Þorsteinn Vilhelmsson seldi hlut sinn í Samherja fyrir einhverja 3,5 milljarða eða svo. Var það ekki örugglega árið 2000? Og svo var það að þríeykið glæsilega seldi bjórfyrirtækið sitt í Skt. Pétursborg fyrir 400 milljónir dollara. Það jafngildir í dag næstum 48 milljörðum ISK, en nam á þáverandi gengi líklega um 35 milljörðum.

Silfrid_Ketill_5

M.ö.o. tapaði Landsvirkjun á liðnu ári álíka upphæð og söluverðið var á Bravo-bjórveldinu. En í dag þykja svona upphæðir bara smotterí eða hvað? Það er kannski ekki skrítið. Ógnin sem steðjar að Landsvirkjun er nefnilega önnur. Þó svo eigið fé fyrirtækisins rýrni hratt þessa dagana, er það ekki vandamál dagsins.

Ekki er hægt að horfa framhjá þeim möguleika, að Landsvirkjun lendi í greiðsluþroti. Þrátt fyrir öfluga eiginfjárstöðu. Að fyrirtækið geti ekki staðið við að greiða afborganir af skuldum sínum og lánin verði gjaldfelld. Staða Landsvirkjunar núna, er kannski ekki ósvipuð, eins og hjá íslenskri fjölskyldu sem notaði tækifærið í góðærinu og fékk sér bæði stærra húsnæði og öflugri jeppa. Á gengistryggðu láni. Munurinn er þó sá, að Landsvirkjun fær stóran hluta tekna sinna í dollurum, sem er eins gott. En á móti kemur gríðarleg lækkun á álverði. Landsvirkjunarfjölskyldan er sem sagt að sligast undan Kárahnjúkavillunni og Hummernum þar í heimreiðinni.

Það yrði ekki lítill skellur. Landsvirkjun skuldar u.þ.b. 3,2 milljarða USD; um 380 milljarða íslenskra króna! Fyrirtækið skuldar m.ö.o. sem nemur u.þ.b. tíu sinnum söluverð Bravo-veldisins í Rússlandi. Skuldin samsvarar næstum því 1,2 milljónum ISK á hvert einasta mannsbarn á Íslandi. Þar með taldir hvítvoðungarnir, sem fæddust nú í nótt.

Vonandi fyrirgefst Orkubloggaranum að þykja þetta hið versta mál. Ef Landsvirkjun lendir í greiðsluþroti, sem nú virðist alls ekki útilokað, fellur þessi skuldbinding á ríkið. Litlar 380 þúsund milljónir króna.

steingrimur_j_sigfusson

Undarlegast þykir þó bloggaranum kæruleysið sem fjármálaráðherra virðist sýna þessu máli. Hann ber hina pólitísku ábyrgð á velferð Landsvirkjunar. Ekki hefur heyrst af því að hann hafi minnstu áhyggjur af ástandinu. Enda er nú kosningabarátta á fullu og enginn tími til að vera a velta vöngum yfir vandræðum hjá Landsvirkjun. Vonandi er nýskipuð stjórn Landsvirkjunar meðvitaðri um þá miklu ógn sem nú steðjar að fyrirtækinu.


Silfrið I: Drekasvæðið

Hér eru glærur frá Silfrinu fyrr i dag. Í því spjalli var annars vegar fjallað um Drekasvæðið og hins vegar Landsvirkjun. Fyrst koma hér Drekaglærurnar:

Silfrid_Ketill_1

Sú fyrsta sýnir einfaldlega hvar Drekasvæðið er, á mörkum efnahagslögsögu Íslands og lögsögu Norðmanna kringum Jan Mayen.

 Drekasvæðið allt er nálægt 40 þúsund ferkílómetrar og þar ef er um 75% svæðisins innan íslensku lögsögunnar (rauða svæðið). Stór hluti svæðisins fellur innan marka landgrunnssamnings Íslands og Noregs og skv. honum eiga ríkin gagnkvæma hagsmuni innan lögsögu hvors annars.

Silfrid_Ketill_2

Næsta mynd sýnir í hnotskurn upphafið í olíuvinnslu á norska landgrunninu - og hvar fyrsta olían fannst (á Ekofisk-svæðinu). Fyrsta olían kom þar upp úr djúpinu árið 1971. 

Fram til þessa dags hafa alls um 30 milljarðar tunna af olíu skilað sér upp á landgrunni Noregs. Þar af er rúmlega 2/3 olía og tæplega 1/3 gas, þar sem magn þess er umreiknað í olíutunnur.

Forstjóri Sagex Petroleum hefur sagt að hugsanlega muni finnast allt að 20 milljarðar tunna af olíu á Drekasvæðinu, þar af séu 10 milljarðar tunna Íslandsmegin. Slíkt myndi samstundis gera Ísland að einni mestu olíuútflutningsþjóð í heimi - ekki síst miðað við höfðatölu.

Orkubloggið veit ekki hvort kalla ber spár Sagex bjartsýni eða ofurbjartsýni... eða hreina fantasíu. En stundum rætast vissulega draumar. Og stundum vinnur fólk í lottóinu. Vinningslíkurnar eru samt afar litlar - og það ættu menn að hafa í huga vegna Drekans. 

Einnig vill bloggið minna á að leitin og vinnslan á Drekasvæðinu verður dýr - væntanlega talsvert dýrari en almennt gerist í olíuvinnslu á norska landgrunninu. Bæði vegna dýpisins og svo verður olíuleitin eflaust mjög vandasöm vegna basaltsins á svæðinu. Það hefur reynst erfitt að finna lindirnar við slíkar aðstæður og eykur hættu á að hlutfall þurra brunna verði hærra en almennt þykir gott. Einnig má hafa í huga, að núverandi olíuverð er líklega talsvert of lágt til að vinnsla á Drekasvæðinu borgi sig. Svæðið verður ekki almennilega spennandi fyrr en olíutunnan fer aftur upp í 70 dollara. En engar áhyggjur;  það mun gerast. Fyrr eða síðar!

Silfrid_Ketill_3

Enn skal minnt á heildarolíuframleiðslu Norðmanna síðustu 38 árin; 30 milljarða tunna. Og spána um að 10 milljarðar tunna af olíu finnist Íslandsmegin á Drekasvæðinu; litla rauða svæðinu á kortinu. 

Orkubloggið vill líka vekja athygli á hinum þremur gríðarstóru olíusvæðum Norðmanna; Norðursjó, Noregshafi og Barentshafi. Eins og sjá má eru þau norsku hafsvæði margfælt stærri en Drekasvæðið. Helstu rökin fyrir því að hugsanlega finnist olía á Drekanum, er einmitt að svæðið (Jan Mayen hryggurinn) er jarðfræðilega náskyldur norska landgrunninu. Einfaldur stærðarsamanburður er ekki mjög vísindalegur, en gefur þó til kynna hversu gríðarleg tíðindi það væru, ef 10 milljarðar tunna af olíu myndu finnast Íslandsmegin á Drekasvæðinu. Jafnvel sviðsmynd Orkustofnunar um að þarna finnist allt að 2 milljarðar tunna, er mikið. Mjög mikið.

Tupi_Oil_Map

Til samanburðar þá kunna Brassar sér vært læti af tómri kæti þessa dagana, vegna Tupi-olíulindanna. Sem eru sagðar geyma allt að 5-8 milljarða tunna af olíu. Slíkar fréttir þykja stórtíðindi í olíubransanum. Nú er bara að bíða og sjá hvort Ísland verði næsta bomban í bransanum.

Staðreyndin er auðvitað sú að þessar bjartsýnu spár um Drekann eru barrrasta sölumennska. Það er verið að reyna að fanga athygli olíufélaga, svo þau slái til og loks verði byrjað af alvöru að leita að olíu á  íslenska landgrunninu. Íslendingum að kostnaðarlausu.

Þetta er kannski brilljant aðferðarfræði - en afar undarlegt að sumir íslenskir fjölmiðlar skuli nánast gleypa þessar ofurspár gagnrýnislaust.

Oil_Platform_joy

By the way; þetta var frumraun Orkubloggarans í beinni sjónvarpsútsendingu. Alltaf gaman að prófa nýja hluti. Og kannski getum við bráðum öll fagnað því að verða olíuþjóð. Aldrei að vita.


Björgunarsveit Landsvirkjunar

Steingrimur_profile

Í dag fékk Landsvirkjun nýja stjórn. Hún er valin af eiganda Landsvirkjunar, ríkissjóði, en hinn mannlegi hugur sem þessu réð er Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Stjórnina skipa:

Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst (stjórnarformaður). 
Sigurbjörg Gísladóttir, efnafræðingur við Umhverfisstofnun (varaformaður stjórnar).
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Póstsins.
Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi.
Stefán Arnórsson, prófessor við Háskóla Íslands.
 

Þau Bryndís, Ingimundur og Páll sitja sem sagt áfram í stjórninni, en Sigurbjörg og Stefán eru ný. Einnig sýnist Orkublogginu að alveg hafi verið skipt um varamennina, að undanskilinni Vigdísi Sveinbjörnsdóttur, bónda. Varamenn eru nú:

Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent við Háskóla Íslands.
Birgir Jónsson, jarðverkfræðingur við Háskóla Íslands.
Huginn Freyr Þorsteinsson, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri.
Jóna Jónsdóttir, viðskiptafræðingur við Háskólann á Akureyri.
Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir, bóndi á Egilsstöðum.

Jokulvatn

Óneitanlega finnst Orkublogginu sem þetta lykti örlítið af kjördæmahagsmunum og gagnkvæmum pólitískum skiptimyntaleik, sem enn virðist í hávegum hafður hjá sumum íslenskum ráðherrum.

Þetta er fólkið sem nú tekst á við einhverja mestu skuldahít sem sögur fara af. Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar vegna 2008 voru heildarskuldir Landsvirkjunar um síðustu áramót nettir 3,2 milljarðar USD. Eða sem samsvarar rúmlega 380 miljörðum ISK.

Já - Landsvirkjun skuldar meira en 380 þúsund milljónir króna. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru Íslendingar nú rétt tæplega 320 þúsund. Fjölskyldan hér á heimili Orkubloggarans ber skv. þessu ábyrgð á u.þ.b. 4.750.000 krónum af skuldum Landsvirkjunar. Hjón með tvö börn. Orkubloggarinn er satt að segja ekki alveg sáttur við þessa ábyrgð. En á allt eins von á að þessar skuldir muni brátt bætast við það skuldadíki sem bankarnir, Seðlabankinn, Björgólfsfeðgar, Jón Ásgeir og félagar hafa steypt íslensku þjóðinni útí.

Haspennumastur_ising

Það eina sem getur bjargað þjóðinni frá því að fá þessar ofsalegu skuldir mígandi blautar beint í fangið, er að lánsfjárkreppan leysist í síðasta lagi innan 20 mánaða eða svo. Stjórnendur Landsvirkjunar segjast ráða við allar afborganir og rekstrarkostnað fyrirtækisins út árið 2010, þó svo enginn aðgangur verði að nýju lánsfé á þessum tíma. Jafnframt viðurkenna stjórnendur Landsvirkjunar að erlendir lánadrottnar séu farnir að bjalla upp í Háleiti og spyrja menn þar á bæ, hvernig þeir ætli eiginlega að fara að því að leysa úr þessu.

Hin nýja stjórn og stjórnendur Landsvirkjunar standa frammi fyrir risaverkefni. Skuldir fyrirtækisins eru, sem fyrr segir, um 3,2 milljarðar bandaríkjadala eða um 380 milljarðar íslenskra króna. Og ábyrgðin vegna þessara skulda hvílir á ríkinu - á þjóð með tæplega 320 þúsund íbúa. Þetta er arfleifð Valgerðar á Lómatjörn og Kárahnjúkaævintýrisins ljúfa.

Valgerdur-Sverrisdottir

Já - það var eflaust gaman að vera ráðherra og veðsetja þjóðina. Til allrar hamingju erum við svo heppin að Steingrímur J. Sigfússon leitaði og fann hæfasta fólk landsins til að takast á við þennan vanda. Það hlýtur a.m.k. að hafa verið markmið hans.

Þó svo Orkubloggarinn geti nú líklega gengið rólegur til náða án þess að hafa áhyggjur af Landsvirkjun, er samt einhver óeirð í bloggaranum. Og þykir tilefni til að árétta þá skoðun sína að Landsvirkjun og ríkið eiga strax að hefja viðræður við ábyrg orkufyrirtæki erlendis um aðkomu þeirra að Landsvirkjun. Íslenska ríkið er rúið trausti - farsælasta leiðin til að tryggja að Landsvirkjun lendi ekki í greiðsluþroti er aðkoma nýrra eigenda. Sem njóta meira trausts en íslenska ríkið og eiga greiðari leið að lánsfjármagni. Annars er hætt við að illa fari.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband