Orkuskattar

Nú hefur umræða um auðlinda- og umhverfisskatta sprottið upp í þjóðfélaginu. Sbr. t.d. þessi forvitnilega grein eftir Jón Steinsson, hagfræðing. Það eru þó sérstaklega orkuskattar sem stjórnmálamönnunum þykja spennandi, enda ein af þessum einföldu leiðum til að fá glás af viðbótarpening í ríkiskassann.

Straumsvik_raflina_masturSjálfur hefur Orkubloggarinn talið vera ýmsar vísbendingar um að álfyrirtækin séu að fá raforkuna á óeðlilega lágu verði og orkulindirnar ekki að skila þjóðinni þeim arði sem eðlilegt væri. En er rétta leiðin til að laga þetta, sú að leggja nýjan "orkuskatt" á stóriðjuna?

Nú vill svo til að stóriðjan er ekki sjálf í auðlindanýtingu hér á landi. A.m.k. ekki enn sem komið er. Það eru Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki sem nýta orkulindirnar og selja raforkuna. Ef leggja á nýjan "orkuskatt", er kannski eðlilegast að sá skattur leggist á þá sem fá að virkja orkuna! Slíkar álögur myndu svo vissulega enda á kaupendum raforkunnar í formi hærra raforkuverðs.

Rafmagnið er ekki aðeins selt til stóriðjunnar, heldur að sjálfsögðu til annarra fyrirtækja og alls almennings. Ef umræddur "orkuskattur" á að vera sérsskattur sem leggst á orkukaupendur er þetta einfaldlega sama og hækkun á raforkuverði.

Það er sem sagt nokkurn veginn sama hvernig pólitíkusarnir útfæra "orkuskatt". Hann merkir í raun hærra raforkuverð. Og kannski væri hið besta mál að orkukaupendur og þó einkum stóriðjan borgaði eitthvað meira fyrir raforkunotkun sína.

jon_SteinssonOrkubloggarinn tekur að mestu undir orð Jóns Steinssonar á Deiglunni.  En bloggarinn óttast samt að orkuskattur yrði einfaldlega skref að nýrri og lúmskri leið ríkissjóðs að því að skattleggja landsmenn í stórum stíl. Fáum við bráðum öll nefskatt sökum þess að við megum ganga um landið, drekka vatn úr læk eða fyrir að anda frá okkur hinu ógurlega koltvíildi? 

Bloggarinn aðhyllist fyrst og fremst einfalt skattkerfi. Og fær grænar bólur þegar ríkið hleður endalaust nýjum sköttum í fjárlögin, með þeim afleiðingum að öll yfirsýn hefur glatast og skattkerfið orðið ruglingskennt og æpandi ósanngjarnt. Hugmyndin um auðlinda- og umhverfisskatt er áhugaverð - en getur jafnframt verið varhugaverð vegna hættunnar á að henni verði misbeitt.

Gagnvart stóriðjunni hlýtur aðalatriðið að vera sanngirni. Að stóriðjufyrirtækin greiði eðlilegt verð fyrir raforkuna og eðlilega skatta af tekjum sínum - frá upphafi. En ekki að mislukkaðir stjórnmálamenn dulbúi íslenska orkulindir eins og ódýra mellu til að laða stóriðju að landinu - afsakið orðbragðið - og laumi svo nýjum "sköttum" inn á fyrirtækin. Það er einmitt sú bútasaums-skattastefna sem við ættum að forðast. Einfalt, skiljanlegt, sanngjarnt og tiltölulega stöðugt skattkerfi, vinsamlegast.

 


Bloggfærslur 8. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband