Armstrong í Öskju

Earth_Rise_-Apollo8Í gærkvöldi þegar Orkubloggarinn (grútsyfjaður) minntist 40 ára afmælis fyrstu Tunglferðarinnar gleymdi hann aðalatriðinu! Sem er auðvitað æfingaferð Apollo-geimfaranna til Íslands.

Það mun hafa verið ári fyrir fæðingu Orkubloggarans að tíu af geimförunum í Apollo-áætluninni komu hingað norður á Klakann góða. Þetta var sumarið 1965. Það var jarðfræðingurinn góðkunni, Sigurður Þórarinsson, sem var leiðsögumaður þeirra hér á landi. Skyldi hann hafa sungið með þeim Þórsmerkurljóðið? Annar geimfarahópur kom svo á sömu slóðir árið 1967. Ásamt Sigurði Þórarinssyni mun Guðmundur E. Sigvaldason, jarðfræðingur, einnig hafa verið geimförunum innan handar hér á landi.

Ástæða þess að NASA sendi geimfaraefnin til Íslands var einföld. Ljúflingarnir hjá NASA töldu Ísland nefnilega þann stað á Jörðinni, sem mest minnir á Tunglið. Farið var með þá í Öskju (www.askja.blog.is!) og héldu þeir til í Drekagili. Þar skoðuðu þeir sig vel um og sérstaklega var athyglinni beint að jarðfræði svæðisins.

Geimfarar_AskjaÝmsar samsæriskenningar eru til um að í reynd hafi aldrei nokkur maður stigið fæti á Tunglið. Þetta hafi allt verið tóm blekking. Skemmtilegasta kenningin er auðvitað sú að "myndirnar frá Tunglinu" hafi hreinlega verið teknar upp í nágrenni Öskju. Alltaf gaman að svona rugli.

Myndin hér að ofan er einmitt tekin af geimförunum í Öskju. Þarna munu bæði vera þeir Buzz Aldrin og Eugene Cernan, sem nefndir voru í síðustu færslu Orkubloggsins. Og Neil Armstrong  er líka þarna, annar frá vinstri í fremri röð. Hér að neðan er aftur á móti ljósmyndi af Buzz á tunglinu sumarið 1969, tekin af Neil Armstrong.

apollo-11_buzzLeiðin lá sem sagt frá Bandaríkjunum til Tunglsins, via Iceland. Enda var þetta á blómaskeiði Loftleiða, þegar Ísland var algeng stoppistöð Bandaríkjamanna í ævintýraleit!


Bloggfærslur 21. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband