Icesave-lögin hin síðari

"Íslendingar ætla ekki að greiða skuldir sínar".

Þessi fullyrðing birtist nú í fjölmiðlum um allan heim. Og er til komin vegna ákvörðunar forseta Íslands að vísa nýju Icesave-lögunum um ríkisábyrgð til þjóðaratkvæðagreiðslu. Komi til þess að lögin verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem virðist mjög líklegt þegar litið er til skoðanakannana, taka gildi fyrri Icesave-lög frá því í sumar. Sama yrði uppi á teningnum ef Alþingi dregur nýju Icesave-lögin til baka (með því að fella þau úr gildi líkt og gert var með Fjölmiðlalögin).

althingi-sett.jpg

Í fyrri Icesave-lögunum tók Ísland á sig að greiða Icesave-skuldirnar. Með tilteknum fyrirvörum. Það er því einfaldlega alrangt að Ísland hafi hafnað því að taka á sig ábyrgð vegna Icesave-skulda hins einkarekna Landsbanka Ísland. Þvert á móti eru fjórir mánuðir liðnir síðan hér tóku gildi lög þess efnis; lög nr. 96/2009. Þar segir í 1.g.r.:

Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna lána sjóðsins frá breska og hollenska ríkinu samkvæmt samningum dags. 5. júní 2009 til að standa straum af lágmarksgreiðslum, sbr. 10. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Ábyrgðin tekur til höfuðstóls lánanna eins og hvor um sig mun standa að sjö árum liðnum frá undirritun samninganna, 5. júní 2016, auk vaxta af lánsfjárhæðinni, með þeim fyrirvörum sem fram koma í lögum þessum og gildir til 5. júní 2024.

org_clinton_initative.jpg

Staðreyndin er sem sagt sú að ákvörðun forsetans snýst ekki um hvort greiða eigi Icesave-innistæðurnar eða ekki. Alþingi er löngu búið að samþykkja ríkisábyrgð vegna þessara innistæðna. Málið snýst einfaldlega um það hvort eðlilegt er að íslenska þjóðin taki á sig nánast óútfylltan tékka vegna þessara innistæðna. Ekkert er vitað hversu mikið mun fást upp í þetta af eignum Landsbankans. Það er heldur ekkert vitað hvernig efnahagsmál munu þróast á komandi árum. Það var ekki einu sinni full vissa um að innistæðutryggingakerfið eigi við þegar allsherjar bankahrun verður, líkt og varð hér á landi. Þess vegna var bæði eðlilegt og skynsamlegt að tilteknir fyrirvarar yrðu á greiðsluskyldu vegna Icesave-innistæðnanna.

Í sumar sem leið varð breið samstaða um það á Alþingi að veita ekki ótakmarkaða ríkisábyrgð vegna Icesave-innistæðnanna. Þess vegna voru settir í lögin ákveðnir fyrirvarar. Þar sem m.a. var litið var til þess að greiðslur skyldu taka tillit til efnahagsþróunar. Einnig var þar gert ráð fyrir þeim möguleika að þar til bærir dómstólar myndu geta fjallað um það hvort reglur um innistæðutryggingar gildi að fullu þegar kerfishrun verður á fjármálamarkaði, eins og hér varð.

dominique-strauss-kahn-meeting.jpg

Að mati Orkubloggsins voru þetta sjálfsagðir fyrirvarar. Þeir miðast við það að málefnið heyri undir úrlausn lögmætra dómstóla. Þeir miðast líka við það að forðast sé að stofna þjóðríki í gjaldþrot vegna slíkrar greiðsluskyldu.

Bretar og Hollendingar vildu aftur á móti ekki ganga að þessum sjálfsögðu og eðlilegu hlutum. Þar með var ekki aðeins allri sanngirni ýtt til hliðar og efnagaslífi þjóðarinnar til langrar framtíðar stefnt í voða, heldur einnig hafnað að mark sé takandi á íslenskum dómstólum. Þar að auki bendir flest til þess að Bretar hafi misbeitt stöðu sinni til að hafa óeðlileg áhrif á bæði Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og ýmis aðildarríki ESB til að einangra Ísland. Þar er bersýnilega fyrst og fremst verið að líta til hagmuna kröfuhafa og meingallaðs innistæðutryggingakerfis ESB, á kostnað íslensks almennings sem ekkert hafði með einkafyrirtækið Landsbanka Íslands að gera.

Þessi ömurlegu vinnubrögð breskra stjórnvalda eru í algerri andstöðu við það sem kallast geta eðlileg nútímasamskipti evrópskra lýðræðisríkja. Það er algerlega fráleitt að Ísland geti gengið að því að taka á sig skuldbindingar sem geta gert íslenska ríkið gjaldþrota og um leið afsalað sér þeim rétti að leita eftir bindandi niðurstöðu dómstóla um lögmæti þessarar samningsniðurstöðu, sem hefur verið þröngvað upp á ísland.

Þess vegna hefði Alþingi aldrei átt að afgreiða nýju Icesave-lögin. Og þess vegna var sjálfsagt mál að forseti Íslands vísaði þessu máli til þjóðarinnar.

Þar að auki voru fyrirvararnir í fyrri Icesave-lögunum einfaldlega til mikillar fyrirmyndar. Þeir ættu að vera leiðarljós í að breyta vinnubrögðum alþjóðlegra lánastofnana gagnvart skuldsettum þjóðríkjum. Í stað þess að þjóðir séu "aðstoðaðar" með lánveitingum sem byggjast á kverkataki, væri nær að alþjóðasamfélagið breytti um vinnubrögð og að slíkir efnahagslegir fyrirvarara yrðu einfaldlega venjubundin viðmiðun í flestum svona lánasamningum. Það er tímabært að fjármálaumhverfi veraldar þurfi að taka tillit til þess að peningar eigi ekki að stjórna öllu. Því miður skilja gömlu nýlenduveldin Bretland og Holland ekki slík sjónarmið, enda með langa sögulega reynslu af því að arðræna þjóðir í krafti ofbeldis.

gordon-brown-joyful.jpg

Misskilningur og vanþekking á málinu veður nú uppi í erlendum fjölmiðlum. Það er vissulega slæmt. En við getum ekki miðað ákvarðanir okkar við slíkt rugl. Þetta mál þarf að leysa eins og aðrar milliríkjadeilur milli siðaðra þjóða. Þar sem bæði er gætt að sanngirni og tillit tekið til þess að niðurstaðan sé í samræmi við lög og rétt.

Framtíð íslensku þjóðarinnar má ekki ráðast af taugaveikluðu kosningabrölti breskra stjórnmálamanna, ótta sumra íslenskra stjórnmálamanna um pólitískt ofbeldi erlendra ríkja, né vanþekkingu fáfróðra blaðamanna sem helst virðast vilja búa til æsifréttir. Orkubloggarinn vill ítreka orð sín í síðustu færslu hér á Orkublogginu og hvetja til þess að þaulvanur sáttasemjari komi að því að leysa þessa alvarlegu milliríkjadeilu. Kannski ætti Ólafur Ragnar að bjalla í Bill Clinton! Þetta mál snýst nefnilega um meira en bara peninga - þetta snýst líka um mannleg gildi og það að taka tillit til náungans.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ertu viss um hvað er misskilningur erlendra varðandi lögin sem forsetinn synjaði samþykkis og hvað er vísvitandi áróður og rangfærsla?

Sigurður Hreiðar, 6.1.2010 kl. 12:31

2 identicon

Ketill, þetta er bráðgóð grein hjá þér og góð úttekt á atburðarásinni undanfarið. Hún er það góð að ég legg til að hún verði þýdd á erlend tungumál og send til fjölmiðla og auðvitað helst í Bretlandi og Hollandi. Fyrir utan að hún ætti að koma fyrir augu sem flestra Íslendinga sem enn velkjast í vafa um ákvarðanir forseta vors.

Sigurður Ingólfsson (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 12:38

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Misskilningur - ekki áróður held ég.

Og ég þakka hrósið, en veit sossum ekki hvort ég á það skilið.

Mikil gleiðitíðindi berast nú frá Bretlandi, um að innan Verkamannaflokksins sé nú möguleiki á að menn þar losi sig við Gordon Brown. Farið hefur fé betra.

Ketill Sigurjónsson, 6.1.2010 kl. 13:08

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Var að sjá þessa grein á Huffington Post:

"People of Iceland Versus Global Economic Policymakers"

http://www.huffingtonpost.com/sheldon-filger/people-of-iceland-versus_b_412186.html

Ketill Sigurjónsson, 6.1.2010 kl. 15:39

5 identicon

Smá innlegg.  Má ekki bjóða Bretum úr því sem komið er að taka yfir eignir LÍ, sem stjórnvöld hér heima meta sem 90% uppí ICEsave og málið er dautt.  Talað er um umrædar innistæður komu aldrei til Íslands.  Gefa þeim fult umboð til að elstast við þarlenda og íslenska kaupsýslumenn til að ná í það sem á vantar.

kveðja, Sölvi R Sólbergsson 

Sölvi R Sólbergsson (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 16:27

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

"Forsetinn hefur tekið upp hanska helstu kapítalista heims..."

Þannig skrifar Sigmundur Ernir Rúnarsson á cefsíðu sína:

http://www.sigmundurernir.is/2010/01/06/forsetaræði/

Getur einhver upplýst hvað kom eiginlega fyrir vinstri menn á Alþingi? Hvernig getur sú ákvörðun forsetans að neita að skrifa undir svo umdeilda löggjöf, verið í anda "helstu kapítalista heims"???

Það að þvinga Icesave upp á íslensku þjóðina í skjóli hótana eins og Bretar hafa gert, er miklu fremur dæmigert fyrir það sem sumir vinstrimenn kalla stundum "hið alþjóðlega auðvald" eða "hinn alþjóðlega kapítalisma". En nú gerir þingmaður Samfylkingarinnar Ólaf Ragnar Grímsson að tákni fyrir vondan kapítalisma. Vegna þess að hann ákvað að leyfa þjóðinni að sýna hug sinn um vinnubrögðin með Icesave.

Orkubloggarinn sjálfur er líklega það sem kalla má dæmigerðan norrænan velferðarsinna. Þó svo í bloggaranum blundi líka hin sterka einstaklingshyggja, sem einkennir svo marga ef ekki flesta Íslendinga, hefur bloggarinn alltaf haft mikla samúð og skilning með málstað Samfylkingafólks. En nú er bloggarinn eiginlega alveg búinn að missa þráðinn. Vonandi fer Páll Óskar brátt í þingframboð, svo bloggarinn viti upp á hár hvern hann á að kjósa.

Ketill Sigurjónsson, 6.1.2010 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband