Burt með feitu kettina!

"Rise up and take the power back, it’s time that
the fat cats had a heart attack, you know that
their time is coming to an end
We have to unify and watch our flag ascend"

Nú er Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (AGS) enn á ný kominn í hlutverk innheimtustofnunar. Í stað þess að uppfylla það hlutverk sitt að aðstoða ríki í greiðsluvandræðum, er sjóðurinn notaður sem þumalskrúfa á þjóð í vanda.

gordon_brown_darkness.jpg

Tafir sjóðsins á afgreiðslu lána til Íslands eru augljóslega til komnar vegna þrýstings frá Bretum um að Ísland skuldbindi sig fyrst til að greiða Icesave. Þessi ófaglega afstaða AGS er svo sem ekkert nýjabrum. Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz og fleiri mætir hagfræðingar hafa verið duglegir við að gagnrýna hvernig AGS hefur verið misnotaður í gegnum tíðina.

Bresk og hollensk stjórnvöld láta sér þó ekki nægja að beita AGS í þvingunaraðgerðum gegn Íslandi. Heldur hafa þessi gömlu nýlenduveldi líka fengið stuðning annarra ESB-ríkja til að taka Ísland hálstaki á vettvangi EES-samstarfsins. Reyna þannig að fá framgengt kröfu á hendur Íslendingum, sem byggir meira á pólitík en lögfræðilegum rökum.

Bæði embættismenn og stjórnmálamenn innan ESB tala nú fjálglega um að Íslendingar verði að "standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar". Virðast sem sagt ganga út frá því sem gefnum hlut að bankainnistæður upp að ákveðnu marki njóti sjálfkrafa ríkisábyrgðar. Staðreyndin er aftur á móti sú að í þessu deilumáli er uppi lagalegur ágreiningur og óvissa um greiðsluskyldu ríkisins.

clinton_handshake.jpg

Hvorki ESB né aðildarríki þess hafa rétt til að setjast í dómarasæti og taka einhliða ákvörðun um hverjar séu "alþjóðlegar skuldbindingar" Íslands - eða annarra ríkja - í málum af þessu tagi. Bæði samkvæmt EES-samningnum og þjóðarétti gilda þær skýru reglur að leysa beri úr deilumálum ríkja með atbeina þriðja aðila, hvort sem það er sáttasemjari eða t.d. gerðardómur. Bretland og önnur ríki innan ESB hafa aftur á móti farið þá leið að beita Ísland efnahagslegum þvingunum á vettvangi AGS til að ná fram þeirri niðurstöðu sem þeim er hagfelld. Þeim er í mun að fela ágallana á innistæðutryggingakerfi ESB til að varna áhlaupi á hið stórlaskaða evrópska bankakerfi. Og almenningur á Íslandi á að súpa seyðið af því.

Jafnvel þó svo hér hafi heilt bankakerfi fallið með fordæmalausum hætti, varpa talsmenn innistæðutryggingakerfis ESB allri sanngirni fyrir róða og taka ósveigjanlega stöðu með meingölluðu kerfi, kröfuhöfum og kærulausum lánveitendum. Svo sannarlega ömurleg afstaða af hálfu hins friðelskandi og lýðræðissinnaða ESB.

fitch_ratings_moodys_presidents_ceos_testifying.jpg

Það er ekki síður ömurlegt að sjá fjármálastofnanir eins og Fitch Ratings og Moody's nú keppast við að lýsa því yfir að Ísland nálgist greiðsluþrot. Þetta eru sömu fyrirtækin sem tóku fullan þátt í að blása í offjárfestingablöðruna og sáu þar engin alvarleg hættumerki. Fagleg hæfni þeirra og ímynd hefur beðið mikinn hnekki, en samt ætla menn að halda áfram að eltast við skoðanir þeirra og taka niðurstöðum þeirra án fyrirvara. Þessi fyrirtæki ættu kannski að reyna að vanda spásagnir sínar betur. Og t.d. beina meiri athygli að góðum langtímahorfum Íslands, fremur en að einblína á tímabundin fjármögnunarvandræði sem Ísland kann að lenda í ef þjóðin velur réttlæti umfram það að láta undan þvingunaraðgerðum.

Það væri óskandi að íslenska þjóðin (og fleiri) hafni illa rökstuddum sjónarmiðum Bretlands og ESB og lýsi frati í Fitch og félaga. Beina þarf athygli manna að því, að í samskiptum þjóða verður sanngirni og skynsemi að vera leiðarljósið - en ekki bara blindir hagsmunir kröfuhafa. Þess vegna ættu Íslendingar tvímælalaust að hafna gildistöku Icesave-laganna hinna síðari í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Jafnvel þó svo það geti haft óþægileg áhrif á íslenskt efnahagslíf til skemmri tíma. Látum hvorki Skrúðkrimma né Feita ketti þvinga okkur með ósanngjörnum hætti og spilla framtíð barna okkar.

They will not force us!
They will stop degrading us
They will not control us
We will be victorious!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Mikið er ég sammála þér.

Axel Þór Kolbeinsson, 15.1.2010 kl. 09:51

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Og "Uprising" með Muse ætti kannski að verða einkennislag íslensku samninganefndarinnar. Eða þá bara gamli góði Ísbjarnarblúsinn hans Bubba?

Ketill Sigurjónsson, 15.1.2010 kl. 10:02

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Hvað með London burning með Clash?

Axel Þór Kolbeinsson, 15.1.2010 kl. 10:13

4 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Það er orðið nokkuð ljóst að þessi þjóð er ekki að fara að samþykkja það í bráð að gerast meðlimur í ESB. Þessi kynni okkar af framkomu við smáþjóð af aðildarríkjum þess er ekki eftirsóknarverð til nánari kynna.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 15.1.2010 kl. 12:08

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Heyr! Heyr! Skýrt og greinargott og eins og út úr mínu hjarta. AGS hefur leikið lykilhlutverk í þessari aðför frá upphafi. Ef við sköffum einhver lánavilyrði framhjá þeim og bjóðum þeim að taka pokann sinn, þá láta þeir kannski segjst, en ef ekki, þá verðum við bara að töffa þetta af okkur og sjá hvað þeir ætla sér með hótunum sínum. Þeir verða grímulausari með hverri tilkynningunni.

Höfnum bara Icesave alfarið og heimtum dómstólaleiðina. Það væri gaman að sjá næsta leik þeirra þá. Hætta þeir við aðstoð? Það yrði ansi merkileg niðurstaða.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.1.2010 kl. 13:38

6 identicon

Ein skondin staðreynd um stóru matsfyrirtækin þrjú (S&P, Moodys og Fitch) er að þau settu ekki Enron í ruslflokk fyrr en eftir að það sprakk í loft upp !

Þau eru líka nýlega búin að lækka matið á kaliforníu og þó svo að Arnie haldi áfram að borga laun og reikninga með klósettpappír (eða þvísem næst, þessi svokölluðu IOU sem þeir hafa notað undanfarið) þá munu þeir ekki lækka kaliforníu meira í bráð því þeir vita að þá fá þeir ekki meiri bisness.

Örn Ingvar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 15.1.2010 kl. 17:26

7 Smámynd: Steingrímur Helgason

Einmitt,,,

Steingrímur Helgason, 15.1.2010 kl. 18:51

8 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Þetta mun kolfalla í atkvæðagreiðslu - verði hún haldin. Það er nefnilega þannig að pólitíkusum í öllum flokkum er afleitlega við að hægt sé að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um veigamikil mál. Hætt er við að þeir nái samkomulagi um að komast hjá henni þar sem hún væri væntanlega fordæmisgefandi.

Síðan situr væntanlega áfram þessi fáránlega forysta sem hefur engan áhuga á að taka slaginn vegna ESB trúarbragðanna. Í stað þess smúlar hún þjóðina með hræðsluáróðri um að að (í 17 sinn) fari sko allt til helvítis ef ekki verður samið í hvelli...

Svei þeim

Haraldur Rafn Ingvason, 15.1.2010 kl. 23:46

9 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Nú er haft eftir Steingrími J. að helst komi til greina að reyna að ná fram lægri vöxtum. Ég segi aftur á móti: Samninganefnd Íslands hefur eingöngu umboð skv. fyrri Icesave-lögunum og hlýtur að horfa til þeirra. Þar var m.a. kveðið á um hámarksgreiðslutíma og efnahagslegar viðmiðanir.

Það er algerlega óásættanlegt ef nu á að þreyta almenning og fá þjóðina til að samþykkja samning sem er eitthvað örlítið skárri en skv. Icesave-lögunum síðari. Þetta er reyndar mjög algeng aðferð - t.d. í kjölfar þess að nýjum samningum innan ESB hefur verið hafnað í þjoðaratkvæðagreiðslu. Við könnumst líka við þessa smjörklípuaðferð þegar íslensk launþegasamtök hafa fellt nýjan kjarasamning. Svo er samið um eina fría tannkremstúpu á mánuði og allir eru orðnir hundþreyttir á málinu og einhver drullusamningur samþykktur af þeim félagsmönnum sem nenna að greiða atkvæði aftur.

Sennilega væri skynsamlegast að breyta ferlinu í Icesave-málinu algerlega og byrja upp á nýtt. Það var vitlaust gefið í upphafi og best að fá bæði nýjan spilastokk og lika hlutlausan gjafara! Aðkoma sáttasemjara er forsenda skynsamlegrar lausnar í málinu. Þessar beinu og milliliðaslausu samningaviðræður við Breta og Hollendinga eru tóm vitleysa.

Ketill Sigurjónsson, 16.1.2010 kl. 12:16

10 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Alveg rétt Ketill, ef menn vilja á annað borð semja.  Ég telst hinsvegar til "öfgamanna" og vill fá úr málum skorið fyrir þeim dómstól sem er ætlaður til að taka til ágreinings um framkvæmd EES-samningsins; EFTA dómstólinn.

Axel Þór Kolbeinsson, 16.1.2010 kl. 15:55

11 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Held að báðir aðilar vilji fremur semja, en að taka áhættuna af dósmtólaleiðinni. Samningaleið með sáttasemjara er að mínu áliti besti kosturinn.

Ketill Sigurjónsson, 16.1.2010 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband