31.1.2010 | 00:18
Grænt Google
RE<C. Þannig lítur nýjasta markmið fjárfestingasjóðs Google út. Og þangað geta hugvitsamir Íslendingar kannski leitað, ef þeir eru með góðar lausnir í orkumálum.
RE merkir hér Renewable Energy og C stendur fyrir Coal. Það sem Google vill og ætlar sér er m.ö.o. að þróa aðferðir til að endurnýjanleg orka verði ódýrari en kolaorka. Markmiðið er að finna umhverfisvænan orkugjafa sem er ódýrari en kolaorkan, án þess að til þurfi að koma niðurgreiðslur, mengunarskattar eða gjald á kolefnislosun. Og tæknin á að vera nægjanlega einföld í sniðum svo hana megi nýta sem víðast um heim.
Þetta er gríðarlega metnaðarfullt markmið. Ef þetta tekst myndi loksins vera komin forsenda til að draga almennilega úr kolabrennslu. Kolaorka hefur í marga áratugi verið ódýrasta tegundin af raforkuframleiðslu um veröld víða. Á einstaka stað nálgast raforka frá gasi, vatnsafli og jafnvel vindi það sem kolaorkan kostar, en víðast eru kolin lang ódýrasti orkugjafinn. Oft hátt í helmingi ódýrari en bæði vindorka og jarðvarmi og a.m.k. fimmfalt ódýrari en sólarorka.
Og það er nóg til af kolum til margra áratuga og jafnvel í eina til tvær aldir. Þetta tvennt - lágt verð og mikið magn - gerir það að verkum að kol eru einfaldlega mikilvægasti orkugjafi mannkyns. Í dag kemur meira en 40 % allrar raforku veraldarinnar frá kolum (gas er í öðru sæti með um 20%). Kolaorkan er því miður líka mest mengandi orkugjafinn og losar einnig mest af gróðurhúsalofttegundum. Því væri talsvert mikið áunnið með því ef draumur Google gengi eftir.
Fyrirtækið hefur þegar sett 45 milljónir USD í græna orkutækni og þ.á m. bæði í sólarorku- og jarðhita. Þessi stefna hefur vakið talsverða athygli, enda er Google ekki neitt venjulegt fyrirtæki. Svo fór að á síðasta ári valdi Time yfirmann þessa græna orkuverkefnis Google, Bill Weihl, sem einn af umhverfishetjum ársins 2009 (Heroes of the Environment).
Bill Weihl viðurkennir fúslega að markmið Google um að endurnýjanlegir raforkugjafar leysi kolaorku af hólmi - innan tiltölulega fárra ára - kunni að hljóma léttgeggjað. En hann minnir á það, að ef nást eigi almennilegur árangur í að breyta orkubúskap jarðarbúa og minnka losun gróðurhúsalofttegunda umtalsvert, verði að loka stórum hluta kolaorkuveranna (eins og Orkubloggið hefur einmitt bent á).
Þetta telur Weihl að muni aldrei gerast með því eingöngu að skattleggja "skítugu" orkuna og/eða niðurgreiða grænu orkuna. Forsenda breytinga sé að raunverulegur kostnaður við að framleiða raforku með nýrri tækni verði jafn lítill eins og með kolum eða jafnvel lægri. Það verði að finna græna orku sem sé bæði auðveld i notkun og ódýrari en kolaorkan.
En hvaða möguleika telur Google þarna raunhæfasta? Bill Weihl og félagar telja mikilvægt að umbreytingin náist sem fyrst; helst að ný tækni nái að sanna sig innan 3ja-7 ára. Þess vegna ætlar Google ekki að eyða tíma í hugmyndir sem þykja fara full hressilega gegn lögmálum eðlisfræðinnar og/eða eru óhemju dýrar og tímafrekar í þróun. Þessi viðmiðun hefur leitt til þess að Weihl ætlar t.d. ekki að skoða möguleikana á raforkuframleiðslu með kjarnasamruna (fusion). Og til að gera langa sögu stutta, þá hefur fókusinn nú verið settur á þrjár mismunandi leiðir:
Einn kosturinn er sólarspeglatæknin (CSP). Sem hefur ítrekað verið fjallað um hér á Orkublogginu. Sjálfur átti Orkubloggarinn þátt í að vinna úttekt á þessari tækni árið 2008 og sá þarna mjög athyglisverða möguleika. Nýverið komu svo nokkur stærstu orku- og fjármálafyrirtæki Evrópu á fót sérstöku fyrirtæki, D II, til að vinna að uppbyggingu slíkra orkuvera. Sýnt hefur verið fram á að þetta er tiltölulega einföld tækni og vel framkvæmanleg, a.m.k. þegar notaðir eru íhvolfir speglar. Kostnaðurinn stendur þó svolítið í mönnum, en hjá Google trúa þeir því að lækka megi kostnaðinn með því m.a. að nota slétta spegla. Um þessa tækni má visa áhugasömum lesendum á fyrri færslur um CSP hér á Orkublogginu; t.d. þessa hér.
Önnur tækni í vistvænni raforkuframleiðslu þar sem Google telur mögulegt að lækka kostnaðinn umtalsvert, er vindorkan. Þar er framtíðarsýn þeirra afar einföld; að sækja orkuna hærra upp en gert hefur verið fram að þessu. Að finna leiðir til að turnar vindrafstöðvanna verði helst ekki minna en 200 m háir, í stað 80-100 m eins og hámarkið er í dag. Reyndar gæla þeir hjá Google einnig við að unnt verði að virkja hina firnasterku vinda í allt að 1-2 km hæð, en það eru kannski meira svona framtíðargælur. Hugmyndin um að virkja vindorkuna með tiltölulega hefðbundnum hætti í 200 m hæð er aftur á móti áhugaverð og alveg hægt að ímynda sér að þetta veri framkvæmanlegt innan fárra ára. Það myndi, að sögn Weihl, lækka framleiðslukostnað vindorkuvera um a.m.k. 20-30%. Þar með væru vindorkuver vissulega orðin einhver ódýrasta tegund grænnar raforkuframleiðslu sem völ er á, en samt engan veginn jafn ódýr og kolin. Þar að auki er vindurinn afar óstöðugur orkugjafi og kallar á mikið af öðru öruggu afli sem gripið er til þegar vindorkan er ekki að skila sér. Þannig að það er ennþá ansið langt í það að Google nái markmiði sínu um raunverulegan kost til að leysa kolaorkuna af hólmi.
Fyrir Íslendinga er þriðji kosturinn sem Google er að skoða, hvað mest spennandi. Jarðvarminn! Tæknin sem Weihl og félagar hans hrifust af er að bora djúpt niður í heitt berg, dæla þangað köldu vatni, sem þá hitnar snögglega og fá þannig upp gufuafl. Orkubloggið lýsti því einmitt nýlega hvernig þessi tækni fer nú sem eldur í sinu um Ástralíu. Vandamálið við jarðhitaverkefni Google er bara það, að þeir fóru útí að bora í nánd við þéttbýli. Þessari tækni getur fylgt talsverður órói og jafnvel jarðskjálftar upp á 3 á Richter eða svo. Sossum ekkert sem Íslendingar myndu kippa sér upp við, en getur verið tómt vesen þegar þetta er gert í nágrenni við byggð sem ekki er vön sífelldum jarðhræringum. Þess vegna er sennilega miklu farsælla að fjárfesta í þessari tækni suður í auðnum Ástralíu, fremur en í Kaliforníu eins og Google hefur gert. Klaufabárðar.
Þegar hafa all nokkur fyrirtæki notið góðs af orkumetnaði Google. Í sólarorkunni hefur Google sett pening í a.m.k. tvö fyrirtæki, eSolar og Bright Source. Sem bæði eru að þróa hitaþolnari CSP-tækni, sem byggir á einum brennipunkti uppi í turni. Sjálfur er Orkubloggarinn tortrygginn gagnvart turntækninni. Og er viss um að eina ástæðan fyrir áhuga Google á eSolar sé sú, að Weihl veit greinilega ekki jafn mikið um CSP eins og Orkubloggarinn! Turntæknin á kannski einhverntíma eftir að sanna sig - en varla innan þess tíma sem Goggle er að horfa til.
Sennilega er aðalástæðan fyrir því að eSolar fékk pening hjá Google fyrst og fremst sú, að heilinn á bak við eSolar er Bill nokkur Gross. Sá mikli frumkvöðull er t.d. aðaldriffjöðrin að baki tækniþróunarfyrirtækinu Idealab. Og ljósmyndahugbúnaðinum Picasa, sem Google einmitt keypti árið 2004. Google virðist treysta Gross.
Það hjálpar greinilega þegar fyrirtæki getur veifað Google sem hluthafa. eSolar hefur nú þegar samið um að reisa sólarorkuver upp á hundruð MW fyrir Kaliforníufylki. Og var fyrir nokkrum dögum að undirrita sannkallaðan risasamning við Kínverja - um smíði á nettum 2.000 MW sólarorkuverum (!), sem eiga að byggjast á turntækninni.
Magnaður fjandi! Ekki síst þegar haft er í huga, að það að nota turntæknina í CSP er ennþá hugmynd á brauðfótum og miklu líklegra að íhvolfu speglarnir verði sigurvegararnir í CSP. En málið er að eSolar telur sig geta gert þetta mun ódýrara með venjulegum speglum (sem er mjög rökrétt). Og segjast líka hafa náð tökum á því að geggjaður hitinn sem myndast með þessu móti í brennipunktinum stúti ekki öllu saman. "Trúi því þegar ég sé það", segir Orkubloggarinn barrrasta! Íhvolfa speglatæknin er a.m.k. ennþá sú eina sem hefur sannað sig í CSP; það er einfaldlega æpandi fjárhættuspil að veðja á turnana.
Minnumst þess líka að eSolar er ekki beint þjakað af reynslu. Það er varla liðið hálft ár síðan fyrsta sólarorkuver eSolar tók til starfa; skitin 5 MW turnvirkjun við borgina Lancaster rétt norður af LA. Þokkalegt fyrir svona start-up að gera 2.000 MW samning við Kínverja. Orkubloggarinn botnar satt að segja ekkert í því hvernig hann Bill Gross fer að því að sannfæra menn. Hann kann þetta greinilega - a.m.k. þegar Google og Kínverjar eiga í hlut. Kannski við ættum að fá kappann til að semja fyrir okkur um Icesave! Þetta er náttlega barrrasta ótrúlegt. En hvað eru sossem 2.000 MW í massaþjóðfélagi Kína!
Í jarðvarmanum hefur Google líka gerst hluthafi í tveimur fyrirtækjum; Potter Drilling og AltaRock. Þar hefur gengið svolítið brösuglega. AltaRock þurfti einmitt að loka borholunni sinni vestur í Kaliforníu skömmu fyrir jólin, vegna jarðhræringa sem boranirnar voru taldar hafa komið af stað. Vesen.
Google er þó enn mjög spennt fyrir jarðvarmanum - ekki síst vegna þess hversu það er stöðug raforkuframleiðsla sem jarðhitinn skilar. Bæði sólarorkan og vindurinn blikna gagnvart jarðhitanum þegar kemur að samanburði á stöðuleika orkuframleiðslunnar. Það væri upplagt fyrir íslenska jarðhitaþekkingu að kynna sig fyrir Bill Weihl og félögum - hvort sem það myndu vera Jarðboranir, Mannvit eða HS Orka. Silfurrefurinn Ross Beaty hjá Magma Energy er líka búinn að hjálpa til við að ryðja brautina fyrir Ísland og auka athygli manna á jarðvarmaþekkingu Landans. Það eru örugglega ýmis góð tækifæri fyrir íslenska jarðvarmatækni úti í heimi, ef menn halda vel á spöðunum.
Hér í lokin má svo nefna að í vindorkunni hefur Google m.a. veðjað á svolítið sérkennilega hugmynd, sem kallast Makani Power. Þetta furðufyrirbæri, sem eru eins konar flugdrekar og er ætlað að virkja vindinn í mikilli hæð, er eiginlega tilefni í sérstaka færslu og verða ekki höfð fleiri orð um þetta hér!
Þess í stað skulum við koma okkur niður á jörðina; það er nefnilega svo að þegar fjarar undan efnahagspakka Obama-stjórnarinnar síðar á þessu ágæta ári (2010), er hætt við að græni bandaríski orkugeirinn horfi beint niður hengiflugið. Ef ekki kemur þá til massíf ný fjárveiting í græna orku, mun þetta allt hugsanlega meira eða minna hrynja til grunna þarna vestra. Og bæði olíuklístruðu snillingarnir í Alaska og kolaiðnaðurinn hjá úrkynjuðum dreifbýlistúttunum í Appalachia horfa hlæjandi á. Undir dúndrandi banjó-takti!
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Mikið hef ég gaman af því að lesa greinarnar þínar. Newsweek hefur verið kvöldlesningin mín í fjöldamörg ár og margt hef ég lesið um orkumál í því ágæta riti. Orkubloggið jafnast á við það besta sem þar er að finna og skemmtanagildið er tvímælalaust meira.
Hólmfríður Pétursdóttir, 31.1.2010 kl. 00:39
Áhugavert. Það er nú oft þannig því miður að ný tækni sem menn hafa bundið vonir við eftir rannsóknir á rannsóknarstofu dugar ekki þegar komið er út fyrir rannsóknarstofuna. Það er nú hálffyndið að menn hafa verið að segja í yfir 50 ár að kaldur samruni sé rétt handan við hornið eða svona 25 ár. Það eru alltaf 25 ár í þessa frábæru nýju tækni sem á að bjarga okkur en aldrei kemur hún.
Í framhaldi af þessu veltir maður því fyrir sér hvernig íslenska djúpborunarverkefnið standi. Það síðasta sem maður heyrði var að þeir hefðu borað niður á kviku við Kröflu sem stoppaði verkefnið. Það er vonandi að þeir hafi ekki gefist upp eða að fjármagn til verkefnisins hafi gufað upp.
Hefur þú heyrt eitthvað um áframhald djúpborunarverkefnisins?
Páll F (IP-tala skráð) 31.1.2010 kl. 11:18
Það nýjasta í kjarnasamrunatalinu, þ.e.a.s. það sem menn horfa nú mikið til, er ekki kaldur samruni. Heldur heitur. Fróðlegir hlutir eru að gerast í þeirri tækni vestur í Bandaríkjunum. Kannski tilefni til að vera með færslu um þetta fljótlega.
Jarðfræðingar segja mér sumir að íslenska djúpborunarverkefnið hafi valið einn versta stað á Íslandi. Framtíð djúpborana felist í því að bora niður á köldum svæðum, í hita sem þar er alltaf að finna. Það að stunda slíkt á háhitasvæðum sé della - en það hafi verið pólitíkusar sem ákváðu staðarvalið. Dapurlegt ef satt er.
Ketill Sigurjónsson, 31.1.2010 kl. 11:59
Takk fyrir enn eina áhugaverða grein, Ketill. Turnarnir minna á Vindorku (hf.) á Íslandi, sem komu seint með prótótýpu af "einstöku" vindmyllunni sinni, sem ódýr samkeppnin virtist síðan mala. Eða veistu hvernig það fór annars?
Ívar Pálsson, 3.2.2010 kl. 00:55
Það fór eins og búast má við á Íslandi, þar sem ekki er fyrir hendi þolinmótt nýsköpunarfjármagn í þeim mæli að geta fylgt svona verkefnum eftir. Sem sagt strandaði verkefnið á fjárskorti og ekki tókst að finna útlendinga til að koma að þessu.
Nú er annað og ekki síður stórmerkilegt orkuverkefni í gangi hér, sem eru prófanir og þróun á straumhverfli Valdimars Össurarsonar hjá Valorku.
Ketill Sigurjónsson, 3.2.2010 kl. 08:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.