Heimalærdómur um Aramco

Færsla vikunnar hér á Orkublogginu, mun jú ekki birtast fyrr á morgun; sunnudag!

En það er upplagt fyrir lesendur bloggsins að undirbúa sig og renna yfir eldri færslu um ljósaskiptin í eyðimörkinni. Og svo líka horfa á þessa nettu umfjöllun fréttakonunnar Lesley Stahl frá CBS, um ríkisolíufélag Sádanna; Saudi Aramco (sjá myndböndin í lok þessarar færslu).

ali_al_naimi_cool_957838.jpg

Þar fjallar hún Lesley um hin nýju olíusvæði Sádanna kennd við Shaybah og Khurais. Og spjallar m.a. við þá ljúflingana Abdúlla Jumah, sem var forstjóri Saudi Aramco fram að janúar 2009, og Ali al-Naimi, olíumálaráðherra Sádanna og stjórnarformann Aramco.

Þeir fóstbræður tjá sig skemmtilega hlýlega... eða smeðjulega, allt eftir því hvernig áheyrandinn er stemmdur. En aðalatriðið hjá þeim er jú sáraeinfalt: Bandaríkin munu um ókomna framtíð verða gjörsamlega háð olíunni frá Saudi Arabíu og geta engu um það breytt. Og Sádarnir hlæja alla leið í bankann.

Orkubloggarinn vissi ekki alveg hvort hann ætti að fyllast sælu eða hrolli, þegar Olíu-Alí hlær við og segir: "By the way... NOTHING gets jammed down our throats" (sjá fyrra viðtalið; u.þ.b. 9:50). Nei - það getur enginn þvingað Saudi Arabíu til eins né neins. Ef minnsti hiksti yrði á olíuframboði frá Saudi Arabíu myndi olíuverð samstundis rjúka upp, með tilheyrandi hruni og dramatík fyrir allt efnahagslíf Vesturlanda.

Þar að auki er Saudi Arabía eina landið í heiminum, sem getur með tiltölulega auðveldum hætti aukið olíuframleiðslu sína verulega - ef á þarf að halda. Í dag er framleiðslugeta Sádanna líklega í kringum 12,5 milljón tunnur á dag, en eru "einungis" að framleiða um 9 milljón tunnur (því þeir vilja að olíuverðið sé a.m.k. 70-75 dollarar tunnan, svo þeir geti örugglega rekið ríkissjóðinn sinn hallalausan).

Við erum svo sannarlega öll á valdi þessara geðþekku hvítkuflklæddu manna; sonum eyðimerkurinnar. Það eina sem getur bjargað okkur er að minnka þörf okkar fyrir olíu. Það hefur reyndar verið að gerast á Vesturlöndum þessa dagana, vegna kreppunnar. Og þar að auki fer þeim sífellt fjölgandi sem álíta að olíueftirspurn Vesturlanda komi aldrei til með að verða jafn mikil eins og á árunum 2005-7. Vandamálið er bara að olíueftirspurnin frá Asíu á sennilega eftir að halda áfram að aukast talsvert hratt. Og það er ekkert sérstaklega skemmtilegt að þurfa að keppa við 2.500 milljónir Kínverja og Indverja um olíudropana.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband