18.4.2010 | 05:38
Æsilegt ævintýri Nóbelbræðranna
Öll þekkjum við þá sögu hvernig olíuiðnaðurinn varð upphaflega til. Vestur í Bandaríkjunum, þegar "brjálað" Drake notaði sérstakan bor til að ná olíu úr jörðu við bæinn Titusville í Pennsylvaníu.
Það var vel þekkt þarna í Pennsylvaníu á 19. öldinni að olía gubbaðist víða upp um holur og sprungur. Bændum til sárra leiðinda, þar sem þessum óþverra fylgdi megn ólykt, auk þess sem þetta mengaði vatnsból búsmala.
En einmitt vegna olíunnar sem þarna mátti víða finna í jarðveginum, varð Pennsylvanía fyrir valinu þegar menn sáu peningamöguleika i því að ná olíu úr jörðu. Til þess m.a. að keppa við hvallýsi sem lampaeldsneyti, en verð á því hafði hækkað mikið vegna fækkunar hvala afvöldum ofveiði. Þannig er upphaf olíuleitar í reynd nátengt Moby Dick.
Já - olíuvinnsla er oftast sögð eiga uppruna sinn í Bandaríkjunum. En eins og svo margt annað sem er fullyrt í heiminum, er þetta ekki alveg kórrétt. Þegar Drake hitti í mark var olíuvinnsla nefnilega komin á fullt á allt öðrum stað í veröldinni. Langt í austri við strendur hins landlukta og dularfulla Kaspíahafs. Í landinu þar sem Thor Heyerdahl taldi sjálfa æsina vera upprunna. Nánar tiltekið í þeim hluta rússneska keisaradæmisins sem liggur milli Rússlands og Íran - og nefnist Azerbaijan.
Það er óneitanlega svolítið sérstök tilfinning fyrir Orkubloggarann að vera kominn hér að ströndum Kaspíahafsins og einungis örstutt frá landamærunum að Íran. En það er sossum ekkert nýtt að orkuþyrstir Norðurlandabúar geiri sér erindi á þessar fjarlægu slóðir. Slóðir sem hafa að geyma einhverjar mestu og alræmdustu olíulindir veraldarinnar.
Það voru nefnilega einmitt náfrændur bæði Orkubloggarans og Thor's Heyerdahl, sem voru brautryðjendur í að leita og vinna olíu hér í Azerbaijan. Þar voru á ferðinni Svíar; sænski bræðurnir og athafnamennirnir Róbert og Lúðvík Nóbel.
Þeir Róbert og Lúðvík voru stóru bræður Alfreðs Nóbel, sem Nóbelsverðlaunin eru kennd við. Þetta voru allt saman miklir iðjuhöldar og uppfinningamenn og voru með mikil og góð viðskiptasambönd í Sankti Pétursborg og víðar í Rússlandi. Þau sambönd komu bæði til vegna ýmissa viðskipta þeirra sjálfra í Rússlandi, en þó ekki síður vegna viðskiptatengsla föður þeirra; Immanúels Nóbel.
Immanúel hafði hagnast vel á þeirri uppfinningu sinni að búa til krossvið og einnig hannaði hann og smíðaði gufuvélar í skip. En það var hergagnaiðnaðurinn sem skapaði fjölskyldunni mestu tekjurnar. Immanuel Nobel gerði það sérstaklega gott á tundurduflum sem hann þróaði og seldi Nikulási I Rússakeisara. Enda þurfti keisaraveldið á öllum nýjum hergögnum að halda í Krímstríðinu, sem geisaði um miðja 19. öldina og var eiginlega fyrsta tæknivædda styrjöld sögunnar.
Þannig má segja að Nóbel-fjölskyldan hafi snemma byrjað að maka krókinn á stríðsrekstri. Enda kannski lógískt að hugvitssamir menn reyndu fyrir sér í þeim bissness; 19. öldin var mikill óróatími víða í Evrópu og hönnun nýrra stríðstóla því ábátasamur bransi.
Reyndar fór svo að auðlegð Nóbelanna varð nánast að engu þegar Krímstríðinu lauk snemma árs 1856 og vopnasalan hrundi. Fyrirtæki föðurins í Skt. Pétursborg fór í þrot og var yfirtekið af kröfuhöfunum. Harmleikurinn varð þó enn meiri þegar yngsti sonur Nóbelhjónanna, litli bróðir þeirra Alfreðs, Róberts og Lúðvíks, fórst í sprengingu á vinnustofu í verksmiðju föðurins í Stokkhólmi árið 1864. Hann hét Karl Óskar og var aðeins tvítugur að aldri og var að vinna með föður sínum og Alfreð bróður sínum, að tilraunum með nítróglyserín. Þessi sorgaratburður fékk mjög á föðurinn, sem upp úr því varð heilsuveill en lifði þó fram til 1872.
Alfreð hélt engu að síður ótrauður áfram tilraunum með sprengiefni. Sem loks urðu til þess að hann fann upp dýnamítið árið 1867. Dapurleg örlög vopnafyrirtækis föður hans í Pétursborg - höfuðborg rússneska keisaraveldisins - þýddu því ekki aldeilis endalok á viðskiptaveldi Nóbelfjölskyldunnar. Alfreð var á góðri leið með að verða vellauðugur og ennþá stærra ævintýri var í fæðingu hjá bræðrum hans. Nefnilega æsilegt olíuævintýrið í Azerbaijan. Olía og dýnamít; er hægt að hugsa sér betri blöndu!
Í þeim hluta rússneska keisaraveldisins, sem lá að Kaspíahafi og nefndist Azerbaijan, voru aðstæður um margt svipaðar eins og vestur í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Allt hreinlega löðrandi í olíu! Enda var það svo, að alllöngu áður en hinir sænsku Nóbelar hófu olíuvinnslu sína við Bakú - sem nú er höfuðborg Azerbaijan - voru Rússar byrjaðir að þreifa sig þar áfram með að grafa eftir olíu.
Rétt er að geta þess að Azerbaijan var um aldir undir yfirráðum ýmissa múslímavelda í Mið-Asíu. En komst undir stjórn Rússlands í kjölfar stríðs Rússa og Persa í upphafi 19. aldar (s.k. Gulistan-friðarsamningur). Og sem fyrr segir, þá var þarna allt löðrandi í olíu og strax snemma á 19. öldinni stunduðu Rússar olíuvinnslu við Bakú. Frá brunnum sem grafnir voru með handafli; með hökum og skóflum!
Og svo farið sé ennþá lengra aftur í tímann, þá segir sjálfur Markó Póló frá kynnum sínum af logandi gosbrunnum og sérkennilegu svörtu glundri í nágrenni Bakú á leið sinni um Silkiveginn. Þá voru ennþá meira en 500 ár þangað til olíuævintýrið mikla myndi hefjast í Bakú. Strax á tímum Markó's Póló var fólk við Kaspíahafið þó byrjað að nota olíusullið í ýmsum tilgangi; fyrst og fremst sem einhvers konar lækningameðal. Ennþá var langt í að menn áttuðu sig á möguleikanum á að nýta það sem eldsneyti.
Allt gjörbreyttist þetta á 19. öldinni. Hvalalýsi var að verða svakalega dýrt og menn sáu að nýta mætti s.k. steinolíu, sem spýttist sumstaðar upp úr jörðinni, sem lampaeldsneyti. Og einnig hentaði þetta sull vel til að smyrja vélar í iðnríkjunum. Hugvitsamir menn sáu þess vegna tækifæri í því að finna leiðir til að safna þessu glundri saman og koma því á tunnur. Þar með varð stutt í að olíubrjálæði nútímans færi á fullt.
Árið 1846 boruðu rússneskir verkfræðingar fyrsta olíubrunn veraldar við Bakú. Ekki þurfti að bora meira en rétt um 20 metra, áður en olían gusaðist upp af miklum krafti í tignarlegum boga. Olíuvinnsla við Bakú í Azerabaijan var orðin að raunveruleika.
Þetta var vel að merkja meira en áratug áður en Edwin Drake auðnaðist að bora eftir olíu í Titusville vestur í Oklahóma í Bandaríkjunum. Olíuiðnaður nútímans á sem sagt í reynd upphaf sitt hér við Bakú við Kaspíahafið!
Þó svo nafn Edwin's Drake sé nú miklu þekktara en rússnesku verkfræðinganna í Bakú, var olíuæðið í Bakú engu minna en það sem varð í Bandaríkjunum. Nokkrar efnuðustu fjölskyldur heimsins - bæði í gamla heiminum og vestur í New York - voru fljótar að átta sig á peningalyktinni frá olíulindunum í Bakú. Um leið og einkaleyfakerfið í olíuvinnslu innan Azerbaijan (sem var hluti Rússneska keisaradæmisins) var afnumið af Rússakeisara upp úr 1870, tók fjármagnið að streyma þangað úr Vestrinu. Vinnsluleyfin (kvótinn) fóru á markað - eða öllu heldur til vildarvina keisarans - og útlendingar voru velkomnir að taka þátt í ævintýrinu.
Flugurnar runnu á peningalyktina og fé streymdi úr öllum áttum til fjárfestinga í olíuvinnslu við Bakú. Þeir sem áttu góðan aðgang að stærstu bönkum Evrópu og Bandaríkjanna voru margir snöggir að kaupa upp vinnsluréttindi og fljótlega urðu fáein fyrirtæki nánast allsráðandi í olíuvinnslunni kringum Bakú. Auk Nóbelanna komu peningar æðandi frá ekki minni spámönnum en Rothschild-fjölskyldunni og þangað hélt einnig nett breskt-hollenskt fyrirtæki að nafni Royal Dutch Shell.
Bakú varð sem sagt draumastaður kapítalismans nánast í einu vetfangi. Þar fór nýtt fyrirtæki þeirra bræðra Lúðvíks og Róberts Nóbel - Branobel - fremst í flokki.
Eftir ófarir föður þeirra í Pétursborg leituðu þeir nýrra viðskiptatækifæra og sú leit bar þá til Bakú. Þar reyndist allt hreinlega löðrandi í olíu. Fyrst og fremst voru þó Nóbelbræðurnir þarna á algerlega á hárréttum tíma - þegar keisarinn aflétti einokunarleyfum á olíuleitarsvæðunum. Ekki skemmdi fyrir að Lúðvík Nóbel var mjög vel tengdur Alexander II Rússakeisara, eftir að hafa um árabil framleitt og selt keisaranum skotvopn; afturhlaðninga sem hann framleiddi í verksmiðju sinni í Pétursborg.
Lykilatriðið í uppgangi Branobel var þó efnafræðiþekking bræðranna, sem nutu aðstoðar frá Alfreð litla bróður - en hann var jú líka ansið glúrinn í efnafræðinni sem kunnugt er. Þeim bræðrum tókst að þróa nýjar aðferðir við olíuhreinsun og fyrir vikið hafði Branobel verulegt forskot á flesta keppinauta sína.
Það var Róbert - með dyggri aðstoð frá Alfreð - sem átti heiðurinn af árangursríkri olíuhreinsun Branobel. Lúðvík var aftur á móti lykilmaður í að finna lausnir á því hvernig koma mætti olíunni frá Branobel á markað. Þá er enn ónefndur sjálfur undradrengurinn Emanúel Nóbel, sem var sonur Lúðvíks og var kominn á fullt að aðstoða föður sinn einungis 15 ára gamall. Lúðvík hafði þá misst konu sína og móður Emanuels - og tók unglinginn með sér í ævintýraleit sinni til Bakú.
Nóbelarnir kunnu svo sannarlega tökin á olíunni og viðskiptum með hana. Undir forystu Lúðvíks létu þeir fyrstir manna byggja sérstök olíuflutningaskip til að koma olíunni hraðar a markað. Það fyrsta var teiknað í Gautaborg strax á 8.áratugnum og kallaðist Saraþústra. Það sigldi svo með olíu milli hafna í Kaspíahafi frá árinu 1878, en gat einnig flutt olíu til Pétursborgar keisarans og alla leið til Svíþjóðar eftir vatnaleiðum Rússlands. Í anda gömlu víkinganna!
Branobel varð brátt stórtækasta olíufyrirtækið á svæðinu og Nóbelbræðurnir í hópi auðugustu manna veraldarinnar. Eftir andlát bræðranna (Lúðvík lést 1888 og þeir Róbert og Alfreð önduðust 1896) tók áðurnefndur sonur Lúðvíks, Emanuel Nobel, við stjórn Branobel og gerði fyrirtækið að ennþá meira viðskiptastórveldi.
Emanuel Nobel (f. 1859) varð svo sannarlega enginn eftirbátur afa síns, föður né frænda sinna. Hann var jú byrjaður með pabba sínum í olíubransanum nánast barn að aldri og varð náinn vinur næst síðasta Rússakeisarans, Alexanders III.
Emanuel var fljótur að koma auga á áhugaverðar nýungar. Þar má nefna þegar hann samdi við þýskættaða uppfinningamanninn Rúdólf Diesel árið 1889 og reisti fyrstu díselrafstöð heimsins í Skt. Pétursborg. Síðar áttu díselstöðvarnar eftir að verða mikilvægir viðskiptavinir Branobel og fyrirtækið græddi á tá og fingri.
Branobel óx hratt undir stjórn Emanuel og skömmu fyrir aldamótin 1900 kom sjálfur Alexander III keisari til Bakú til að skoða herlegheitin. Sagt er að hann hafi hrifist bæði af marmaraprýddum skrifstofum Branobel og olíuvinnslusvæðunum, sem jafnt og þétt dældu meiri olíu upp úr jörðinni við Bakú. Keisaranum var þó umhugað um að helstu eigendur þessa mikilvægasta fyrirtækis í Rússlandi væru ekki "útlendingar" og svo fór að Emanuel Nobel gerðist rússneskur ríkisborgari.
Upp úraldamótunum 1900 var Branobel stærsta olíufyrirtæki í Rússlandi og það næst stærsta í heiminum. Aðeins bandaríska Standard Oil hans John's D. Rockefeller var stærra. Þar á bæ stóðu menn nú í stappi við bandarísk samkeppnisyfirvöld, sem unnu hörðum höndum að því að búta fyrirtækið í nokkrar smærri einingar. Standard Oil hafði þegar hér var komið við sögu veitt Bakú litla athygli, enda nóg að stússa við að halda alræðinu í bandaríska olíuiðnaðinum.
Ekki er hægt a láta það ónefnt að Emanuel Nobel átti líka í merku samstarfi við annan þekktan olíubarón; Armeníumanninn Alexander Mantashev. Sá var einn ríkasti maður heims á þessum tíma og átti hvað stærstan þátt í að byggja stærstu olíuleiðslu veraldar. Það var rúmlega 800 km leiðsla sem náði frá Bakú við vesturströnd Kaspíahafs, þvert austur eftir Kákasushéruðunum og alla leið að hafnarborginni Batumi við Svartahaf! Leiðslan sú opnaði árið 1907 og hún, ásamt olíuskipunum og sérstökum olíuflutningavögnum sem Nóbelbræðurnir og Emanuel létu byggja fyrir járnbrautirnar, ollu algerri byltingu fyrir olíuviðskipti í Evrópu.
Fram að þeim tíma hafði olía aðallega verið flutt í timburtunnum, sem var mjög seinvirkt og kostnaðarsamt. Þetta voru sem sagt framsýnir bissnessmenn, sem umbyltu viðskiptum með olíu um alla Evrópu og víðar í heiminum. Þar að auki reyndust olíuhreinsunarstöðvar Branobel skila mun meiri gæðaolíu heldur en Standard Oil. Branobel var sem sagt eitthvert almikilvægasta og árangursríkasta fyrirtæki heimsins á þessum tíma.
Já - Branobel og tvö önnur olíufyrirtæki, félög í eigu áðurnefnds Alexander's Mantashev og Rothschild-fjölskyldunnar (sem var í samstarfi við Shell), báru höfuð og herðar yfir aðra í olíuiðnaðinum í Azerbaijan. En það voru líka nokkrir heimamenn meðal stóru olíufurstanna í Bakú.
Þó svo lesendur Orkubloggsins séu örugglega margir vel upplýstir um sögu olíunnar, kannast kannski fæstir þeirra við nöfn eins og Zeynalabdin Taghiyev, Musa Naghiyev eða Murtuza Mukhtarov. En á fyrstu áratugum 20. aldar voru allir þessir ljúfu Azearar í hópi mestu auðjöfra Evrópu. Og eins og hefur löngum verið tíska meðal auðmanna, þá veittu þeir miklu fé til velgjörðarmála og uppbyggingar í Bakú og víðar um Azerbaijan og voru frægir um veröld víða.
Eftir því sem olíuvinnslan við Bakú jókst urðu áhyggjur Standard Oil meiri. Þeir höfðu setið nánast einir að Evrópumarkaðnum fyrir steinolíu, en nú hreinlega hrundi markaðshlutdeild Standard Oil í Evrópu og Nóbelbræðurnir urðu jafn mikilvægir í efnahagslífinu þar eins og Rockefeller var í Bandaríkjunum. Þar að auki var olían frá Azerbaijan meira að segja farin að berast alla leið vestur til Bandaríkjanna.
Olíuauðurinn þarna við Kaspíahafið í kringum aldamótin 1900 gerði Bakú að einhverri nútímalegustu borg heimsins. Jafnaðist hún að mörgu leyti á við New York og í báðum tilvikum urðu borgirnar þekktar fyrir smartheit og hátísku; hvort sem var í klæðaburði eða arkitektúr. Meira að segja Art Deco náði að setja mark sitt á Bakú, jafnvel á undan New York. Bakú var einfaldlega heitasta borg heimsins á þessum tíma og var oft nefnd París Austursins.
Þessa sér enn merki í þessari stórmerkilegu borg, sem margir segja algjörlega einstaka upplifun. Þó svo nú sé liðin heil öld frá olíuævintýrinu mikla í Bakú, er Bakú dagsins í dag - þessi höfuðborg múslímaríkisins Azarbaijan - þekkt fyrir að vera ein af mestu stuðborgum veraldar. A.m.k. ef marka má Lonely Planet ferðabókaútgáfuna víðfrægu. Það er kannski ekki svo skrítið, því hér ríkir nú nefnilega nýtt olíuævintýri með tilheyrandi peningaflóði og velmegun.
En dveljum ekki lengur að þessu sinni við Bakú nútímans. Heldur höldum á ný til efnahagsuppgangsins þar fyrir hundrað árum síðan.
Það var ekki nóg með að fyrsti olíubrunnurinn hafi verið grafinn í Azerbaijan, heldur fór svo að þegar 20. öldin gekk í garð var Azerbaijan mesta olíuframleiðsluríki heimsins. Þar var þá framleiddur um helmingur allrar olíu veraldar og steinolían þaðan flutt út um veröld víða. Sennilega hefur hún líka ratað inn á skrifstofur íslensku Heimastjórnarinnar. Skyldi Hannes Hafstein hafa verið meðvitaður um það, að á lampanum brann olíu frá sjálfum Ásunum?
En sá tími að Bakú væri einhver mesta auðsuppspretta heimsins fékk snöggan endi. Í kjölfar febrúarbyltingarinnar í Rússlandi árið 1917 var þáverandi Rússakeisara, Nikulási II, steypt af stóli. Skömmu síðar var Lenín mættur til Pétursborgar úr útlegð sinni og Bolsévíkkarnir náðu undirtökunum í borginni og víðar um landið. Keisarafjölskyldan var myrt í júlí 1918 og smám saman breiddist byltingin út um gamla keisaradæmið.
Fall keisarastjórnarinnar olli að sjálfsögðu miklum titringi um öll Kákasushéruðin. Azearar eygðu möguleikann á sjálfstæði, en upp spruttu ýmsir sérhagsmunahópar og ringulreiðin varð alger. Herflokkar Bolsévíkka komu til Bakú og vorið og sumarið 1918 kom til harðra átaka víða um héraðið og hroðaleg fjöldamorð framin. Vestrænu stórveldin reyndu árangurslaust að miðla málum, enda höfðu stjórnmálamenn í vestrinu miklar áhyggjur af því hvað yrði um olíuauðlindirnar við Bakú. Tyrkir sendu þangað herlið og héldu þar til um skeið 1919, en þegar þarna var komið við sögu vissi enginn hvað gerast myndi í Bakú.
Í upplausnarástandinu sáu margir sér leik á borði til að hagnast á öllu saman. Sumarið 1919 virtist aðeins rofa til og allt í einu voru útsendarar bandaríska Standard Oil mættir til Bakú. Og gerðu þar samning við sitjandi stjórnvöld um olíuvinnsluréttindi í landinu - gegn hárri greiðslu. Þetta sama sumar, sem kannski má segja hafa einkennst af miklu svikalogni í Bakú, sá Emanuel Nobel aftur á móti sitt óvænna og taldi tímabært að koma sér burt og heim til Svíþjóðar.
Hann lét öðrum eftir að sjá um starfsemi Branobel í Bakú og er sagður hafa dulbúist sem rússneskur bóndi til að komast klakklaust gegnum Rússland og til Svíþjóðar. Hann lést árið 1932 og rétt eins og Alfreð, föðurbróðir hans, skildi Emanuel ekki eftir sig neina afkomendur. Enda er þeim frændum stundum lýst sem mest einmana milljarðamæringum sem veröldin hefur alið.
En þó svo Emanuel Nobel þætti bersýnilegt að lokastund erlends olíuiðnaðar í Azerbaijan væri runnin upp, virðist sem bæði Standard Oil og breska Anglo-Persian Oil Company (undanfari BP) hafi talið að ástandið myndi brátt batna. Og það jafnvel þó svo - eða kannski einmitt vegna þess - að hersveitir Bolsévíkka náðu Bakú á sitt vald snemma árs 1920.
Sérstaklega virðast æðstu stjórnendur Standard Oil hafa talið þessa þróun skapa tækifæri til að ná "stöðu" í olíuiðnaðinum í Bakú. Þessi skoðun virðist ekki síst hafa verið sterk hjá Walter Teagle, þáverandi forstjóra Standard Oil, sem Time hafði nýverið útnefnt mann ársins.
Kannski voru þeir hjá Standard barrrasta blindaðir af svekkelsi eftir að hafa misst af bestu dílunum í Azerbaijan, meðan Branobel mokaði til sín olíuverðmætunum í Azerbaijan og víðar um Mið-Asíu og Evrópu. En hver svo sem ástæðan var, þá voru þeir Teagle og félagar hans ekkert að tvínóna við hlutina og í apríl 1920 keypti Standard Oil hlutabréf Nóbelanna í Branobel!
Varla voru dollaramilljónirnar búna að skipta um hendur þegar Rockefellararnir áttuðu sig á því að hlutabréfin sem áttu að tryggja þeim yfirráð yfir stórum hluta allra ofurlindanna í Azerbaijan voru í reynd ekkert annað en gjörsamlega verðlausir pappírar. Bolsarnir voru komnir með tögl og haldir í borginni og fáeinum mánuðum eftir kaupin voru erlendu olíustarfsmennirnir reknir burt frá Bakú og olíufyrirtæki bæði útlendinga og heimamanna gerð upptæk. Meðal þeirra risafyrirtækja sem þá hurfu af sjónarsviðinu og inní gin Sovétsins var t.d. olíufélag áðurnefnds Alexander's Mantashev.
Mörgum hefur reynst erfitt að skilja þá ótrúlegu bjartsýni Standard Oil að þeir myndu fá að eiga og reka Branobel í friði. En mikið vill meira og Standard Oil, sem réð yfir öllum olíuiðnaði í Bandaríkjunum, vildi eðlilega ná restinni undir sig líka.
Reyndar segja sumir að Standard Oil hafi verið búið að semja við Lenín um samstarf um olíuvinnsluna í Azerbaijan, en að honum hafi svo snúist hugur. Þessi kenning leiddi til annarra samsæriskenninga um að Kalda stríðið hafi af hálfu Bandaríkjanna einungis haft einn tilgang; nefnilega þann að tryggja ExxonMobil og öðrum afkvæmum Standard Oil aftur yfrráð yfir olíuauðlindunum við Bakú! Alltaf gaman að samsæriskenningunum.
En það fór sem sagt svo að Í stað þess að Standard Oil tæki yfir starfsemi Branobel, var búið til sérstakt ráðuneyti hinna nýju kommúnísku stjórnvalda, sem þaðan í frá hafði olíulindirnar í Azerbaijan á sínum snærum. Og allt laut þetta ótakmörkuðu miðstjórnarvaldi hinna nýstofnuðu Sovétríkja. Kommúnisminn hafði haldið innreið sína í Azerbaijan, tekið þjóðina kverkataki og hélt þeim tökum sínum næstu sjö áratugina.
Nóbelfjölskyldan slapp óneitanlega betur frá innreið Bolsanna en flestir aðrir. Við valdatöku Bolsévíkkanna misstu olíubarónarnir í Bakú allar eigur sínar og margir í yfirstétt Azera voru ýmist drepnir eða sendir í útlegð. Skömmu eftir 1920 voru t.d. allir áðurnefndir þrír olíubarónar úr hópi Azera látnir og fjölskyldur þeirra tvístraðar og eignalausar. Þetta var þó aðeins lítið dæmi um yfirgengilegan harmleikinn sem fylgdi því sem átti að verða jafnræðisríki verkalýðsins - en varð í reynd eitthvert skelfilegasta einræðisríki í sögu heimsins. Sovétríki Stalíns voru í fæðingu.
Já - svo fór að olíulindirnar við Bakú runnu til sovéska ríkisins og urðu eitt veigamesta hjólið í hernaðarmaskínu Sovétríkjanna. Á tímum heimsstyrjaldarinnar síðari kom um 70% allrar olíu Rússa frá lindunum við Bakú og því ekki skrítið að þegar Hitler réðst inn í Sovétríkin, þá var aðalmarkmið hans að klippa á olíubirgðaflutningana frá Bakú til sovéska hersins á austurvígstöðvunum. Í framhaldinu átti þýski herinn að komast alla leið til Kaspíahafsins og þar með myndu Þjóðverjar komast yfir þessar gríðarlega þýðingarmiklu olíulindir. Þaðan yrði svo hægt að ráðast á Persíu og Írak og þar með yrði 1000 ára ríkið tryggt. Heimspólitíkin snerist um olíuna og svo er enn þann dag í dag.
Hernaðaráætlanir Htler's um innrás þýska hersins í Kákasus og töku Bakú, nefndust Fall Blau og Operation Edelweiß; sú síðarnefnda kennd við fjallablómið fallega, sem á íslensku nefnist alpafífill. Til er fræg ljósmynd af Hitler þar sem hann fær sér sneið af köku sem skreytt er landakorti af Austurvígstöðvunum. Kökusneiðin sem Hitler fær á diskinn er einmitt með Bakú! Að sjálfsögðu.
En Hitler virðist hafa orðið bumbult af sætindunum. Þó svo þýski herinn kæmist langt áleiðis í Kákasusfjöllunum og næði meira að segja að setja þýska fánan á Elbrustind í ágúst 1942, stóðust hersveitir Hitlers ekki bardagagrimmd Rússa við Stalíngrad.
Orrustan fræga um Stalíngrad var í raun orrusta um olíulindirnar við Kaspíahafið. Eftir hroðalegar mannfórnir við Stalíngrad veturinn 1942-43 gafst þýski hershöfðinginn Friedrich Paulus upp fyrir Rauðliðunum og Hitler ærðist af reiði. Þýski herinn var kominn á undanhald og olíulindirnar í Azerbaijan áfram utan seilingar Herraþjóðarinnar.
Þar með réðst framtíð Evrópu; einungis var tímaspursmál hvenær Þýskaland félli og Sovétríkin þar með búin að tryggja sér "ævarandi" áhrif í Evrópu og heiminum öllum. Og óheftan aðgang að olíulindum Azerbaijan, sem ennþá voru meðal þeirra mestu í heiminum. Þær áttu áfram eftir að verða Sovétríkjunum afar mikilvægar.
En Roosevelt var séður. Þrátt fyrir mikinn sjúkleika notaði hann tækifærið á leið heim frá Jalta-ráðstefnunni í febrúar 1945 og átti fund með Sádakonungi um borð í bandarísku herskipi á Súez-skurðinum. Þar tókst Roosevelt að tryggja Bandaríkjunum vináttu Sádanna og þar með aðgang að olíulindum Arabíuskagans, sem næstu áratugina áttu eftir að vera mikilvægasta auðsuppspretta bandarísku olíufyrirtækjanna og Vesturlöndum pólítískt afar mikilvægar. Og eru það enn.
Næstu áratugina eftir heimsstyrjöldina síðari voru olíulindirnar við Kaspíahafið líka meðal hinna mikilvægustu í veröldinni. Þó svo lítið væri um þær fjallað hér í Vestrinu rétt eins og gilti um ýmsa aðra merka hluti í hinum gráu Sovétríkjum.
Það var svo við fall Sovétríkjanna 1991 að Azerbaijan öðlaðist langþráð sjálfstæði og olíulindirnar þar opnuðust á ný vestrænum olíupeningum. Og þessa dagana er Azerbaijan ekki aðeins frjálst land á ný, heldur eru Azerarnir nú að upplifa jafnvel ennþá stærra olíuævintýri en þar var fyrir hundrað árum. Nýja olíuævintýrið við Bakú er ekki aðeins á landi, heldur miklu fremur úti á djúpi Kaspíahafsins, sem hefur reynst geyma sannkallaðar ofurlindir. Fyrir vikið er hér allt á floti í peningum og mikið að gerast.
Það sem sumum þykir kannski skemmtilegast við svarta gullæðið sem nú ríkir hér í Azerbaijan, er að Rockefellerarnir eru aftur mættir á svæðið. Og nú með mun betri árangri en fyrir 90 árum, þegar þeir máttu flýja burt með skottið milli fótanna.
Meðal þeirra fyrirtækja sem eiga hvað mesta hagsmuni í olíuvinnslunni í lögsögu hinna nýfrjálsu Azera er nefnilega einmitt ExxonMobil - sem kalla má elsta barnabarn Standard Oil samsteypunnar. Og nú er þetta afsprengi John's D. Rockefeller ekki að kaupa hér upp verðlaus hlutabréf, heldur að taka þátt í einhverri mestu olíufjárfestingu sem sögur fara af!
Kannski er olíubransinn bara leikur þar sem Rockefellarnir vinna alltaf að lokum? A.m.k. gera afsprengi Standard Oil það gott núna í Azerbaijan. Eru loksins komin með puttana í olíuna við Bakú - eftir að hafa beðið í næstum því heila öld. ExxonMobil er nefnilega eitt þeirra félaga sem á hlut í risaolíufélaginu Azerbaijan International Operating Company (AIOC), sem hefur með höndum nánast alla olíuvinnslu í lögsögu Azerbaijan. Samningurinn um stofnun þess hefur verið kallaður "samningur aldarinnar", enda hljóðar hann upp á litla 60 milljarða dollara fjárfestingu! Fyrir vikið getur gamli John D. Rockefeller væntanlega loks sofið vært í gröf sinni.
Og unga kynslóðin af Azerum getur vonandi líka glaðst yfir sjálfstæði þjóðarinnar, sem ætti nú loksins sjálf að fá að njóta arðsins af hinum mögnuðu olíuauðlindum landsins.
Olíuvinnslu sem því miður hefur gert sum svæði hér að einhverjum þeim mest menguðu á jörðinni allri. En krakkarnir láta það ekki aftra sér frá því að busla og leika sér í subbulegu Kaspíahafinu. Orkubloggarinn sendir lesendum sínum góðar kveðjur. Frá Bakú - í Azerbaijan.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Bjóst við magnaðri færslu um Landsvirkjun, raforkuverð, álver, spuna álveranna strax í kjölfar aðalfundarins, sæstreng og ég veit ekki hvað. En ókei.
Lesandi (IP-tala skráð) 18.4.2010 kl. 11:06
Skemmtileg færsla.
Kári Sighvatsson (IP-tala skráð) 18.4.2010 kl. 14:57
Hugurinn hefur meira verid vid oliuna i Azerbaijan, heldur en Landsvirkjun. En orugglega ekki langt i faerslu um islenska orkuverdid til alveranna. Orkubloggarinn er reyndar akkurat nuna strandaglopur i Kaenugardi i Ukrainu.
Ketill Sigurjónsson, 18.4.2010 kl. 14:58
Þessi færsla var skemmtileg, eins og við var að búast. Persónur sögunnar eru heldur ekki af lakara taginu.
Takk fyrir skemmtunina og fræðsluna.
Hólmfríður Pétursdóttir, 26.4.2010 kl. 12:18
Skemmtileg og fróðleg skrif. Takk fyrir. :)
Eyjólfur Ármannsson (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 20:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.