23.5.2010 | 20:42
HS Orka, GGE, Magma Energy, Ísland og orkustefna ESB
Hlutabréf í HS Orku voru nýverið að skipta um eigendur. Þ.e.a.s. að því gefnu að allir skilmálar kaupsamningsins gangi upp.
Seljandinn er Geysir Green Energy (GGE), sem hefur nú síðast verið eigandi að rúmlega 55% hlut í HS Orku. Eigendur GGE eru skv. vef fyrirtækisins einkum þrír stórir hluthafar; Atorka með 41% hlut, sjóður á vegum Íslandsbanka sem kallast Glacier Renewable Energy Fund með 40% hlut, og loks verkfræðifyrirtækið Mannvit með 7% hlut. Hver á þau 12% sem eftir standa hefur Orkubloggarinn ekki vitneskju um, en kannski það séu starfsmenn GGE. En af þessum þremur stóru hluthöfum má líklega segja að Mannvit sé eini "raunverulegi beini eigandinn"; Íslandsbanki er í höndum einhverra lítt þekktra kröfuhafa og Atorka mun vera í álíka stöðu.
Hverjir eru kröfuhafar GGE er óljóst, en þar standa íslensku bankarnir væntanlega fremstir. Og það virðist augljóst að bæði Íslandsbanki og kröfuhafar Atorku vilja losna við eigur GGE og greiða úr þeirri ævintýralegu skuldflækju sem þar var búin til, meðan fyrirtækið var eitt af draumadjásnum FL Group þeirra Hannesar Smárasonar og Jóns Ásgeirs.
Reyndar er það svo að skv. nýlegri kynningu GGE virðist fyrirtækið vera í mesta blóma. Það þykir Orkubloggaranum svolítið bratt. Ársreikningur GGE vegna 2009 hefur að vísu enn ekki verið birtur, þ.a. að það liggja afskaplega litlar upplýsingar fyrir um stöðu GGE. Fyrirtækisins sem til skamms tíma var aðaleigandi þriðja stærsta orkuframleiðanda á Íslandi. Eftir fyrstu einkavæðingu íslensks orkufyrirtækis, sem átti sér stað árið 2007 eins og flestum ætti að vera kunnugt. Í reynd virðist GGE hafa verið lítið annað en enn eitt innleggið í fjármálabóluna sem blásin var upp á Íslandi. Sennilega má þjóðin þakka forsjóninni fyrir að loksins sé kominn alvöru bissness-maður að jarðvarmarekstrinum á Suðurnesjum.
Já - þá erum við komin að kanadíska jarðvarmafjárfestinum Magma Energy. Sem er kaupandinn að hlut GGE í HS Orku og verður þar með eigandi að 98,53% hlut í HS Orku. Formlega er það reyndar sænskur armur Magma, sem kaupir bréfin. Sumir vilja endilega nefna þetta sænska fyrirtæki skúffufyrirtæki - væntanlega í háðungarskyni eða til að gera kaupin tortryggileg - en þessi leið er í reynd nauðsynleg til að fyrirtæki utan EES geti keypt íslenskt orkufyrirtæki. Af hverju Magma vildi fremur stofna millilið í Svíþjóð fremur en í einhverju öðru landi innan EES eða ESB er svo önnur saga. Staðreyndin er engu að síður sú að enginn annar en Magma Energy treysti sér til að kaupa hlut GGE í HS Orku. Hvorki önnur orkufyrirtæki útí heimi, íslensku lífeyrissjóðirnir né aðrir höfðu áhuga. Það er reyndar sérstakt umhugsunarefni af hverju í ósköpunum langtímafjárfestar eins og lífeyrissjóðirnir, höfðu ekki áhuga. En það er önnur saga og verður ekki velt vöngum yfir því hér að þessu sinni.
Af einhverjum ástæðum er talsverður fjöldi fólks á Íslandi afskaplega mikið á móti þessum eigendaskiptum. Þar sem einn einkaaðili er að selja öðrum einkaaðila hlut i HS Orku. Og tala um að það "verði að stöðva þetta". Þeir hinir sömu vilja þá væntanlega frekar að einhverjir ótilgreindir kröfuhafar nái yfirráðum yfir HS Orku, fremur en fyrirtæki sem sérhæfir sig í jarðvarmafjárfestingum og þarf t.a.m. að lúta öllu reglum kanadísku kauphallarinnar i Toronto um upplýsingaskyldu og annað. En þar er Magma Energy skráð.
Jamm - þetta veldur miklu uppnámi hjá sumum íslenskum stjórnmálamönnum. Þeir hinir sömu ættu kannski að minnast þess að Ísland er aðili að innri markaði ESB & EES. Þar af leiðandi er fátt sem gæti komið í veg fyrir að aðilar utan Íslands - en innan ESB eða EES - kaupi upp ekki aðeins íslensk orkufyrirtæki heldur líka land þar sem orku er að finna. Þessi staðreynd hefur legið fyrir í fjölda ára og þess vegna er upphlaupið núna svolítið hlægilegt.
Þar að auki ættu íslenskir stjórnmálamenn að minnast þess er það opinber stefna af hálfu ESB að öll gömlu ríkisorkufyrirtækin verði skráð á hlutabréfamarkað og einkavædd. Þetta er einfaldlega þáttur í einni mikilvægustu stoð ESB; að innan sambandsins verði einn sameiginlegur innri orkumarkaður sem njóti mikils viðskiptafrelsis
Undanfarin ár hefur mikil vinna verið lögð í það hjá stofnunum ESB og stjórnvöldum aðildarríkjanna að koma á þessum sameiginlega orkumarkaði. Og þetta er vel á veg komið. Einn þáttur í orkustefnu ESB gengur út á skráningu og sölu á orkufyrirtækjum innan ESB, sem áður voru í ríkiseigu. Af fljótlegri yfirreið fær Orkubloggarinn ekki betur séð en að einungis fimm af 24 stærstu orkufyrirtækjum í Evrópu séu enn í ríkiseigu. Það er sem sagt svo að núna eiga einkaaðilar hlut í næstum öllum stærstu orkufyrirtækjunum innan ESB. Og þó svo sum þeirra séu enn að talsverðu leyti í eigu ríkisins, eru þarna á meðal orkufyrirtæki sem eru komin í 100% eigu einkaaðila.
Og af því Orkubloggarinn er nú staddur í henni Kóngsins Köben má nefna að flest bendir til þess að danska ríkisorkufyrirtækið Dong Energi verði tuttugasta stórorkufyrirtækið í Evrópu sem ríkið selur meirihlutann stóran hluta í. Ekki bara af því slík sala sé eitthvert metnaðarmál Venstre, sem hér ráða ríkjum í Folketinget. Heldur einfaldlega vegna þess að þetta er hluti af frelsisvæðingu orkugeirans, sem er grundvallaratriði í stefnu ESB.
Á Íslandi situr ríkisstjórn sem hefur tekið þá gríðarlega stóru ákvörðun að sækja um aðild Íslands að ESB. Orkubloggarinn hefur vel að merkja ávallt verið Evrópusinnaður - þó svo sú skoðun bloggarans hafi hikstað nokkuð hressilega vegna framkomu Breta, Hollendinga og ESB í Icesave-málinu. Orkubloggarinn er sem sagt fremur jákvæður í garð ESB - en skilur samt líka vel þá sem sjá hættur í slíkri aðild. Og þ.á m. þá sem telja það grundvallaratriði að orkufyrirtækin á Íslandi verði í eigu "þjóðarinnar"; þ.e.a.s. ríkisins. En hvað sem líður skoðunum bloggarans á ESB-aðild, þá er nokkuð augljóst að aðild Íslands að ESB og skilyrðislaus eign íslenska ríkisins á orkufyrirtækjunum mun varla geta farið saman. Það væri a.m.k. algerlega á skjön við yfirlýsta orkustefnu sambandsins.
Einkennilegast er þó æpandi stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í málinu. Skipan orkumála hlýtur að vera eitthvert allra þýðingarmesta atriðið hjá sérhverri ríkisstjórn. Hvernig getur það gengið upp, að íslenska ríkisstjórnin sendi inn umsókn í ESB - á sama tíma og annar ríkisstjórnarflokkurinn virðist algerlega andsnúinn því að útlendingar eða jafnvel einkaaðilar yfirleitt geti átt í íslensku orkufyrirtækjunum? Er líklegt að ESB taki umsókn frá slíkri ríkisstjórn alvarlega? Menn hljóta satt að segja að veltast um af hlátri á skrifstofum ESB - og veitir sennilega ekki af smákátínu þar í hinni hrútleiðinlegu Brussel.
Þetta upphlaup út af Magma er í besta falli kjánalegt - en sýnir því miður að landið okkar er í reynd stjórnlaust. Kannski er ekki skrítið að stór hluti þjóðarinnar lýsi frati á fjórflokkafúskið á Íslandi og halli sér að grínistum.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 24.5.2010 kl. 17:24 | Facebook
Athugasemdir
Hvernig sérðu framhaldið fyrir þér?
Ef við gefum okkur að Magma Energy vilji fá út úr þessu hámarkshagnað og hann skjótan, þá virðist mér að þeir eigi sterka leiki í stöðunni. 1) Þeir semja ekki strax við Norðurál, nema þá til skamms tíma. 2) Þeir sækja um öll hugsanleg rannsóknar- og virkjanaleyfi, og þegar þeir sjá hvað þeir fá og hvað ekki, þá 3) bjóða þeir fyrirtækið til sölu.
Hverjir gætu þá haft getu og áhuga á að kaupa HS Orku?
Norðurál/Century Aluminium/Glencore?
Rusal - sem hefði þá kannski eignast Norðurál, sbr. ágæta færslu þína um gullmylluna Glencore - ?
Alcoa, sem væri þá með Norðurál í vasanum og gæti hugsanlega fengið það fyrir lítið?
Ross Beaty má vera staurblindur sjái hann ekki fyrir sér mikið fjör og háar fúlgur!
Því segi ég það: er ekki eitthvert misræmi á milli ánægju Orkubloggarans (sem mér finnst oft skarpur og vel upplýstur) með kaup ME á HS Orku og hans raunsæja mati á risunum Glencore og Rusal?
Með tilliti til þess að OR á ekki langt eftir í opinberri eigu, og að því mun koma, hvort sem gengið verður í ESB eða ekki, að Landsvirkjun verði einkavædd, þá er ég ekki alveg viss um að þetta sé óskastaða fyrir litla Ísland með allt á hælunum.
Magnús (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 06:12
Hvar eru heimildir um að Danir ætli að selja meirihlutann í Dong ? Td. segir wiki þetta,að beinlínis sé bannað að selja meirihluta nema með samþ. allra flokka:
The majority (73%) of DONG Energy is owned by the Danish Government. The rest of the shares are owned by former Elsam (16%) and Energi E2 11%) shareholders. According to a political agreement, the Danish
Government shall maintain a majority in the company until 2025. Reduction of the ownership below 50% requires political agreement of Danish parties. An IPO and listing at the Copenhagen Stock Exchange was expected in the spring of 2008, but was suspended due to the situation of the international financial markets. An IPO is still the plan, but the timeline is currently unknown (wiki)
Og þarna sko, að við erum ekkert að tala um neitt smá fyrirtæki þarna. Með starfsemi í mörgum löndum.
Hinsvegar virðst það nokkuð borðleggjandi að þegar búið er að einkavæða - þá er ekki hægt að koma í veg fyrir að úlendingar kaupi ef litið er til EES.
Það sem kemur etv. pínulítið á óvart er, að aðilar utan EES geti nýtt sér svæðið svo auðveldlega á þann óbeina hátt sem kemur í ljós í Magma tilfellinu. Kemur pínulítið á óvart.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 24.5.2010 kl. 14:02
Það er stefnt að einkavæðingu Dong. En Danir eru ekki blábjánar eins og íslenskir stjórnmálamenn, sem vilja alltaf einkavæða allt klabbið sem hraðast. Danir ætla að fara rólega í hlutina og einungis selja minnihlutann í Dong til að byrja með.
Það var 2004 að Folketinget ákvað að skrá skuli Dong á hlutabréfamarkað. Staðið hefur til að selja ca. 30% í fyrirtækinu, en þessu hefur ítrekað verið frestað vegna fjármálakrísunnar. Venstre hafa stefnt að því að ríkið haldi meirihlutanum í Dong a.m.k. næsta áratuginn. Stefnan er ennþá að skrá Dong og selja verulegan hluta þess.
Ketill Sigurjónsson, 24.5.2010 kl. 16:38
Ómar Bjarki; þarna varð smá missögn hjá Orkubloggaranum.
Þar sem segir í færslunni "flest bendir til þess að danska ríkisorkufyrirtækið Dong Energi verði tuttugasta stórorkufyrirtækið í Evrópu sem ríkið selur meirihlutann í"
átti að standa
"flest bendir til þess að danska ríkisorkufyrirtækið Dong Energi verði tuttugasta stórorkufyrirtækið í Evrópu sem ríkið selur stóran hluta í"! Danska ríkisstjórnin hefur ekki í hyggju að selja meirihlutann í Dong til að byrja með. Sbr. fyrri athugasemd.
Ketill Sigurjónsson, 24.5.2010 kl. 17:22
Þetta upphlaup G hlutans í VG er þeim mun kjánalegra að það er ekki gert fyrr en þau eru örugg um að blekið hafi þornað á samningi GGE og MAGMA. Svona til að vera viss um að skora stig hjá G arminum án þess að nokkuð verði gert sem kemur í veg fyrir samninginn.
Björn Hákonarson (IP-tala skráð) 25.5.2010 kl. 11:28
Las í Viðskiptablaðinu í dag að Norðurál hafi boðið í HS Orku. En þetta er óstaðfest frétt og virðist óljóst hvort hún sé rétt.
http://www.vb.is/frett/1/59943/nordural-baud-i-hs-orku
Ketill Sigurjónsson, 25.5.2010 kl. 21:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.