6.6.2010 | 00:14
Orkuveitan á tímamótum?
Orkubloggaranum þykir umræðan um Orkuveitu Reykjavíkur þessa dagana svolítið undarleg.
Bæði stjórnarmaður Samfylkingarinnar í Orkuveitunni og varaformaður flokksins segja að nýkomið svar við fyrirspurn frá því í janúar sé til marks um að borgarstjórinn fráfarandi og meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi viljað leyna sannleikanum um afleita stöðu Orkuveitunnar fram yfir kosningar. Á sama tíma fullyrðir stjórnarformaður Orkuveitunnar að fyrirtækið sé öfundsvert og afneitar allri gagnrýni á rekstur OR.
Báðar þessar skoðanir eru sérkennilegar. Sannleikurinn um alvarlega fjárhagsstöðu OR hefur nokkuð lengi verið öllum ljós og væntanlega ekki síst stjórnarmönnum fyrirtækisins. Upplýsingarnar sem nú voru að birtast ættu ekki að koma neinum á óvart.
Enn sérkennilegri er sú afkáralega fagra mynd sem stjórnarformaður Orkuveitunnar dregur upp af stöðu OR. Það er vel þekkt staðreynd að Orkuveita Reykjavíkur hefur tapað gríðarlegum fjármunum á stuttum tíma; fyrst og fremst vegna lánastefnu fyrirtækisins þar sem veðjað var villt og galið á styrk og stöðugleika íslensku krónunnar. Afleiðingin er sú að stór hluti eigin fjár fyrirtækisins hefur þurrkast út og litlar horfur eru á að Orkuveitan skili viðunandi arðsemi á næstunni. Þó svo Orkuveitan sé kannski ekki á leið í þrot, þá þrengir þessi staða auðvitað mjög að fyrirtækinu og almennir viðskiptavinir OR kunna að fá að finna rækilega fyrir því á næstu árum. Hugsanlega er stóriðjan eini kúnni Orkuveitunnar sem sleppur við högg frá fyrirtækinu, enda á sérkjörum.
Þær upplýsingar sem nú eru komnar fram - í framhaldi af áðurnefndri fyrirspurn stjórnarmanns Samfylkingarinnar í OR - um það hversu miklar hækkanir Orkuveitan þyrfti að grípa til EF hún ætlaði sér að ná arðsemismarkmiðum með því einungis að hækka gjaldskrá, eru auðvitað bara fyrst og fremst talnaleikur. Niðurstaðan kemur ekki á óvart. En það er vissulega sláandi hversu arðsemismarkmið Orkuveitunnar eru í órafjarlægð. Það hlýtur að sýna svart á hvítu að eitthvað hefur brugðist illilega hjá yfirstjórn fyrirtækisins.
En þó svo hækkanir á rafmagni og vatni til almennra viðskiptavina OR séu hugsanlega framundan, þá myndi Orkuveitan aldrei nokkru sinni grípa til svo gríðarlegra hækkana sem fram koma í svari OR. Slík ákvörðun fengi varla pólitískan stuðning. Til að Orkuveitan nái viðunandi arðsemi þarf m.ö.o. miklu fjölbreyttari ráðstafanir. Eflaust verða hækkanir á bæði rafmagni og heitu vatni til almennings þar á meðal, en væntanlega verða þær þó hógværar og annarra leiða leitað til að laga fjárhagslega stöðu Orkuveitunnar.
Það áhugaverða við umræddar reikningskúnstir er kannski fyrst og fremst það að niðurstaðan sýnir hvernig hreint ótrúlega illa getur farið fyrir sterku fyrirtæki þegar það lendir í klóm ringlaðra stjórnmálamanna, sem leggja meira upp úr pólítískum fangbrögðum heldur en fagmennsku. Orkubloggið ætlar í dag ekki að blanda sér í rifrildið eilífa um það hvort upphafið að niðurlægingu OR megi rekja til Alfreðs Þorsteinssonar, R-listans, Sjálfstæðisflokksins eða einhverja enn annarra. En Orkuveitan hlýtur að skulda borgarbúum skýr svör um framtíðarstefnu fyrirtækisins og hvernig það ætlar sér að endurheimta fjárhagslegan styrk sinn. Sem er alger forsenda þess að OR geti boðið þá þjónustu og það verð sem eigendur hennar - almenningur í Reykjavík og nágrenni - ætlast til.
Nú í vikunni var stjórnarformaður Orkuveitunnar í löngu einkaviðtali hjá dægurmálaútvarpi Rúv. Hann má eiga það að hann er kotroskinn, nú þegar hann skilar af sér stjórnarformennsku í fyrirtæki sem er með lánsmat í ruslflokki. Hann fullyrðir að lántökustefna OR hafi verið hárrétt af því vaxtakjörin á erlendu lánunum hafi verið miklu hagstæðari en ef lán hefðu verið tekin í íslenskum krónum. Mjög athyglisvert sjónarmið!
Það er vissulega svo að undanfarin ár hafa vextir á íslenskum krónum verið margfalt hærri en t.d. vextir á USD, evrum eða svissneskum frönkum. Að fá lánaðar óverðtryggðar íslenskar krónur hefur þýtt allt að tíu sinnum hærri vexti eða jafnvel rúmlega það, heldur en lán í nokkrum helstu erlendu gjaldmiðlunum. Þess vegna þótti sumum freistandi að fjármagna allt með erlendum gjaldeyrislánum.
En stjórnarformaðuri OR virðist alveg hafa gleymt þeirri einföldu staðreynd að þegar teknar eru t.d. 50 milljónir evra að láni þarf ekki bara að borga vextina til baka. Heldur vill svo leiðinlega til að OR þarf þá líka að standa skil á höfuðstólnum. Og það er þess vegna sem vaxtakjör eru einungis lítill hluti áhættunnar og/eða skuldbindingarinnar. Gengisáhættan vegna vaxtaafborgananna og þó ekki síður vegna höfuðstólsins er æpandi og sú staðreynd hlýtur að vera grundvallaratriði þegar verið er að meta kosti og galla lánsins. Það að fókusera bara á vextina, eins og stjórnarformaður OR gerir, er ekki boðlegur málflutningur. Nema fyrir þá sem telja að OR eigi að hegða sér eins og spilafíkill í Vegas. M.ö.o. þá er ekki heil brú í málflutningi stjórnarformanns OR og hálf glatað að starfsfólk Rúv hafi látið hann komast upp með það að stilla hlutunum svona upp.
Öllum ætti að vera augljóst hvernig Orkuveitan virti gengisáhættuna að vettugi með þeim afleiðingum sem nú blasa við í efnahagsreikningi OR. Það má vel vera að EF gengisþróun verður Orkuveitunni mjög hagstæð í framtíðinni, þá komi í ljós að ofsaleg lántaka OR í erlendri mynt hafi verið "rétt". En slík niðurstaða væri þá barrrasta sambærileg við það þegar maður skreppur westur til Vegas og leggur allt undir á töluna 13 - og vinnur! Þetta var gambling í anda góðærisblindu og hreinlegast að stjórnendur OR viðurkenni það.
Til samanburðar þá er kannski nærtækast að benda á hvernig Landsvirkjun er nú í miklu mun betri stöðu en OR. Þar á bæ eru menn varkárari og hafa ekki dottið í rúlletturuglið eins og OR og hafa skynbragð á það hvernig haga á áhættustjórnun gagnvart bæði fjármögnun og gagnvart orkusölu til álvera.
Hvernig ætlar OR að rífa sig upp úr núverandi stöðu? Væntanlega sitja menn þar á bæ ekki bara og bíða og vona að krónan styrkist um tugi prósenta í viðbót. Og stjórnendur OR hljóta að leita allra leiða til að velta sem allra minnstum bagga yfir á almenning.
Stjórnarformaðurinn talar fjálglega um dugnað OR við hagræðingu og minnkandi rekstrarkostnað. En það eru hreinir smámunir miðað við þá tugi milljarða af eigin fé sem OR hefur tapað. Það skortir illilega á að stjórnendur Orkuveitunnar kynni stöðu og framtíð fyrirtækisins í heildarsamhengi fyrir borgarbúum.
Nýlega benti forstjóri Landsvirkjunar á að mikilvægt sé að auka arðsemi af orkusölu til stóriðjunnar. Og að raunhæfasta leiðin til þess kunni að vera uppsetning sæstrengs til Evrópu.
Það er æpandi athyglisvert, að ekki hefur heyrst hósti né stuna frá Orkuveitu Reykjavíkur um þessi ummæli forstjóra Landsvirkjunar. Flest bendir til þess að Orkuveitan sitji uppi með að hafa gert ömurlegan raforkusölusamning við Norðurál og auðvitað væri hið eina rétta að fyrirtækið tæki heilshugar undir orð forstjóra Landsvirkjunar og þannig auka þrýsting á stóriðjuna um að sætta sig við hærra raforkuverð. En nei - Orkuveitan þegir þunnu hljóði um það að arðsemi af raforkusölu til stóriðjunnar sé of lág.
Að mati Orkubloggarans er tímabært að Orkuveita Reykjavíkur staldri nú aðeins við, viðurkenni staðreyndir og taki jafnvel upp alveg nýja stjórnarhætti í anda þess sem gerst hefur hjá Landsvirkjun. Sennilega væri lang skynsamlegast fyrir OR að leggja höfuðáherslu á að styrkja eiginfjárstöðu sína verulega, áður en lengra verður haldið í framkvæmda- og skuldsetningargleðinni. Að öðrum kosti væri í reynd áfram verið að byggja upp skuldabólu innan OR og hreinlega veðja á að meiri lán og framtíðartekjur af nýrri stóriðju muni koma fyrirtækinu yfir hjallann. Slík áhætta með þetta gríðarlega mikilvæga opinbera fyrirtæki er vart réttlætanleg. Það er kominn tími á alvöru vorhreingerningu hjá OR.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Ég á soltið erfitt með að skilja. Landsvirkjun á eignir fyrir 620 miljarða og skuldar 420 miljarða þar af. Ef ég væri bóndi og ætti Lv., sem ég erfði frá pabba sem líka var bóndi, ætti Lv 700 miljarða og skuldaði kanske 90 miljarða sem ég væri að hugsa um að borga upp á næstu tveim árum.
Aftur á móti mundi Orkuveitan ekki skulda neitt.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 6.6.2010 kl. 17:56
Nei! bara Sogstöðvar, Búrfell, Sigalda og Hrauneyjar eiga að vera afskrifaðar. Þetta eru 720 mw. afl. Ca. 5.000 gwh. á ári. Það gæti gefið 150 miljarða kr. í tekjur í staðinn fyrir 44 miljarða kr. sem eru heildartekjur Landsvirkjunnar af 12.000 gwh.
Hvað á þetta að þýða?
Kristján Sigurður Kristjánsson, 6.6.2010 kl. 18:32
Business as usual hjá OR?
http://www.dv.is/frettir/2010/6/9/skuldsett-orkuveita-kaupir-benz/
Ketill Sigurjónsson, 9.6.2010 kl. 08:35
Væri nú ekki skemmtilegra ef það kæmi í fréttum að OR keppti að því að allir starfsmenn ækju um á vistvænum bílum, drifnum orku framleiddri af OR.
Hólmfríður Pétursdóttir, 9.6.2010 kl. 16:32
Ég held að ástæðan fyrir fjárhagsvandræðum OR nái langt aftur og erlendu lánin þeirra séu ekki eina ástæðan, enda eru vaxtakjörin einfaldlega svo miklu betri á þeim lánum að uppsafnaður vaxtasparnaður og gengishækkun mun að lokum réttlæta þær lántökur. Það er hinsvegar ástæða til þess að hafa áhyggjur af endurfjármögnun þeirra lána og þeim vaxtakjörum sem þá bjóðast en í því sambandi skiptir engu máli hvort upphaflegu lánin eru í dollurum eða ISK...vandamálið er ennþá það sama.
Þetta var fyrirtæki sem alltaf flaut í fjármagni og þurfti ekki að gæta að sér. Fyrir vikið var hreinlega spreðað, t.d. í höfuðstöðvar, rækjueldi, jarðakaup og launakjör æðstu stjórnenda sem á sér engan samanburð innan borgarkerfisins.
Þeir keyptu HS Orku alltof, alltof dýrt og seldu að því mér sýnist ódýrt og undir pressu.
Frysting á gjaldskrá einsog verið hefur undanfarin 2 ár veldur því að tekjur eru væntanlega 5-8% lægri en þær þyrftu að vera til þess að halda í við kostnaðarhækkanir.
Það lærði ég í viðskiptafræðinni á sínum tíma að á meðan nóg vatn(fjármagn) er í árfarveginum rennur áin lygn og róleg. Það er ekki fyrr en vatnið ferð að minnka að steinarnir fara að standa uppúr og vandræðin að byrja. OR er í þeirri stöðu núna.
Annars skylst mér að Besti flokkurinn ætli að auglýsa stöðu stjórnarformanns OR....ætlarðu ekki bara að sækja um ?
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 10.6.2010 kl. 20:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.