25.7.2010 | 01:39
Um eignarhald og arðsemi
Nú er rifist um það á Íslandi hvort heppilegast sé að öll raforkuvinnsla sé á hendi hins opinbera eða hvort gott sé að einkaaðilar komi líka að slíkum rekstri. Sumir þeirra sem aðhyllast aðkomu einkaaðila vilja setja sem minnstar skorður við aðkomu þeirra. Aðrir vilja búa svo um hnútana að einkaaðilar geti aldrei átt meirihluta í orkufyrirtækjunum og enn aðrir vilja að hið opinbera eigi einfaldlega öll orkufyrirtæki.
Umræðan virðist aðallega til komin vegna þess að kanadíska fyrirtækið Magma Energy, sem sérhæfir sig í því að fjárfesta í jarðhitaverkefnum og -fyrirtækjum, keypti í vor meirihluta hlutafjár í HS Orku. Seljandi bréfanna var annað einkafyrirtæki; Geysir Green Energy. Þá þegar voru liðin um þrjú ár frá því byrjað var að einkavæða Hitaveitu Suðurnesja, en það ferli hófst vorið 2007 þegar ríkið seldi hlut sinn í Hitaveitunni til Geysis Green Energy, sem var stofnað af FL Group og fleiri einkaaðilum snemma árs 2007.
Umræðan núna minnir ótrúlega mikið á þá sem varð í Noregi - fyrir heilli öld síðan! Þegar Norðmenn sáu erlenda peningamenn koma inní landið og kaupa upp fossa til að virkja. Þá brást hið unga Stórþing í Osló við með því að stöðva slík kaup með því að gera þau leyfisskyld. Flýtirinn við þá lagasetningu olli því að lögin, sem sett voru 1906, hafa síðan jafnan verið kölluð Panikkloven. Munurinn er þó sá að á Íslandi eru útlendingar ekki að kaupa auðlindirnar heldur einungis tímabundinn afnotarétt. Þar munar talsverðu.
Sem kunnugt er var Hitaveitu Suðurnesja skipt upp í HS Veitur og HS Orku í árslok 2008. Hafa má í huga að bæði við söluna 2007 á hlut ríkisins í Hitaveitunni og við skiptinguna 2008 fylgdi ekki bara nýtinga- eða afnotaréttur heldur líka eignaréttur að þeim jarðhita-auðlindum sem fyrirtækið nýtir. Það gerðist svo í tengslum við viðskipti Reykjanesbæjar og GGE sumarið 2009 að GGE fór út úr HS Veitum, en um leið eignaðist Reykjanesbær auðlindirnar sem HS Orka nýtir. Í dag hefur HS Orka því einungis afnotarétt af þessum jarðhita-auðlindum, en ekki beinan eignarétt. Auðlindin er í eigu sveitarfélagsins.
Fólk hefur verið duglegt við að gagnrýna Árna Sigfússon fyrir það að hafa selt hlut Reykjanesbæjar í HS Orku til GGE. En það var í reynd í tengslum við þá sölu að eignarhaldið á sjálfri auðlindinni var fært úr höndum fyrirtækisins og yfir til sveitarfélagsins. Orkubloggarinn er ekki að taka neina afstöðu til þess hvort kaupverðið var gott og eðlilegt fyrir sveitarfélagið; kannski var þetta ömurleg sala hjá Árna og félögum. En það var a.m.k. búið svo um hnútana að þarna var stöðvuð einkavæðingin á sjálfri jarðhita-auðlindinni. Og það í sveitarfélagi þar sem Sjálfstæðismenn ráða, en ekki Vinstri Grænir. Og það var ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem árið 2008 fékk lögfest ákvæði um að banna sölu ríkis og sveitarfélaga á orkuauðlindum sínum. Þar með er Orkubloggarinn ekki að dásama þessa stjórnmálaflokka - heldur bara svona rétt að minna VG á þessa staðreynd.
Magma Energy eignaðist fyrst hlut í HS Orku í júlí 2009; keypti þá um 10% hlut af GGE. Nokkru síðar keypt Magma hlut Orkuveitu Reykjavíkur í fyrirtækinu (tæplega 17%), hlut Hafnarfjarðabæjar (15%) og hlut Sandgerðis og var eignarhlutur Magma þá orðinn rúmlega 40%. Á árinu 2009 varð Magma sem sagt mjög stór hluthafi í HS Orku. En það er samt fyrst á vormánuðum í ár - eftir að Magma keypti allan eignarhlut GGE í maí 2010 og varð þar með meirihlutaeigandi i HS Orku - að upp kemur alvarlegur pólitískur ágreiningur um kaup Magma.
Andstæðingar kaupanna segja margir að þetta snúist um aðkomu einkaaðila að virkjanarekstri; að orkufyrirtækin eigi að vera í eigu hins opinbera. En reyndar hófst einkavæðingin í orkugeiranum fyrir þremur árum og þá var ekki einu sinni eignaréttur að auðlindunum undanskilinn. Á sínum tíma eignaðist FL Group beinan eignarétt í jarðhitanum á Suðurnesjum í gegnum hlut sinn í GGE. Eignarhlut Magma í HS Orku fylgir aftur á móti einungis tímabundinn afnotaréttur af þessum auðlindum.
Jamm - af einhverjum ástæðum er það fyrst núna - þegar þetta kanadíska fyrirtæki eignast meirihlutann í HS Orku - að málið verður eldfimt hér á Íslandi. Það hefur samt legið fyrir í mörg ár að lög leyfa útlendingum (af EES-svæðinu) svona kaup og það hefur líka legið fyrir nokkuð lengi að Magma var orðinn stór hluthafi í HS Orku og loks er ekkert nýtt að HS Orka sé í eigu einkaaðila. Sumir myndu segja þetta upphlaup nú bera vott um fordóma gagnvart útlendingum, en líklega sýnir þetta fyrst og fremst klofning í málinu innan VG og að nú sé órólegu deildinni þar nóg boðið. Og gagnrýni Bjarkar Guðmundsdóttur virðist að einhverju leyti byggjast á misskilningi; a.m.k. trúir Orkubloggarinn því tæplega að Björk vilji frekar að kröfuhafar GGE eignist HS Orku. En það væri líkleg niðurstaða ef það markmið undirskriftasöfnunar hennar um að stjórnvöld komi í veg fyrir söluna, gengur eftir.
Orkubloggaranum þykir tilefni til að minna VG enn og aftur á það að einkaaðilar frá bæði Íslandi OG EES geta fjárfest í raforkuframleiðslu hér að vild. Þannig eru gildandi lög. Hinu opinbera er óheimilt að framselja orkulindir sínar til einkaaðila með varanlegum hætti og það bann á bæði við um vatnsafl og jarðhita. En einkaaðilar geta fengið tímabundinn afnotarétt af slíkum orkulindum. Þetta er algert grundvallaratriði og þrátt fyrir að hafa setið í ríkisstjórn í meira en ár hefur VG ekki lagt fram breytingartillögu við þetta fyrirkomulag.
Salan á HS Orku til Magma hefur m.a. verið gagnrýnd með þeim rökum að þar hafi verið farið í kringum lög og Magma hafi nýtt sér hæpna smugu sem er til komin vegna aðildar Íslands að EES. Með því að stofna eignarhaldsfélag í öðru EES-ríki (Svíþjóð) hafi Magma farið í kringum bann við því að fyrirtæki utan EES mega ekki fjárfesta í orkufyrirtækjum á Íslandi.
Þó svo sjálfsagt sé að kanna til hlítar hvort kaup Magma í HS Orku standist íslensk lög, mun niðurstaða þess máls ekki með neinum hætti tryggja að afnotaréttur að orkuauðlindum á Íslandi komist ekki í eigu útlendinga. Íslensk löggjöf heimilar öllum einstaklingum og fyrirtækjum af EES-svæðinu slíkar fjárfestingar. Þau hjá VG og Íslendingar allir verða að horfist í augu við grundvallarspurninguna; gera það upp við sig hvort hið opinbera eigi að sjá um alla raforkuframleiðslu í landinu eða hvort einkaaðilar eigi einnig að hafa tækifæri til að koma þar að.
Sjálfur er Orkubloggarinn á því að þjóðin megi þakka fyrir að HS Orka hafi sloppið undan því að vera í íslenskri eigu FL Group og Glitnis. Það kann að vera hrein gæfa að fyrirtækið skyldi komast undir útlendingana hjá Magma Energy, áður en það yrði endanlega mergsogið af íslenskum eigendum sínum eða andlitslausum kröfuhöfum. En vissulega er alltaf uppi sá möguleiki að einn daginn verði ljúflingarnir hjá Glencore búnir að kaupa HS Orku handa Norðuráli. Þetta er óviss heimur!
Orkubloggarinn telur þó afar ólíklegt að Ross Beaty, aðaleigandi Magma Energy, muni selja HS Orku til Norðuráls eða annarra. Fjárfesting Magma í HS Orku er væntanlega til langs tíma rétt eins og Beaty hefur sjálfur margoft lýst í viðtölum. Nema auðvitað að andstæðingum hans takist að þreyta hann og hrekja á brott.
En af hverju eru menn svona ósáttir vð Beaty? Ekkert bendir til annars en þar á ferð sé vammlaus maður - a.m.k hefur eftirgrennslan Orkubloggarans ekki sýnt neitt annað. Í þokkabót er Beaty með svo farsælan viðskiptaferil að baki, að áhugi hans á að fjárfesta á Íslandi er líklegur til að vekja áhuga annarra sterkra og ábyrgra fjárfesta á landinu. Og veitir ekki af. Þar að auki er lítið mál að koma í veg fyrir brask með HS Orku, með því að tryggja ríkinu forkaupsrétt. Það er í raun sjálfsagður öryggisventill, en er enn ekki að finna í lögum.
Þannig væri unnt að leysa þetta mál með sáraeinföldum hætti; lögbinda forkaupsrétt ríkisins að öllum hlutabréfum í íslenskum orkufyrirtækjum. Ef Magma myndi gerast svo "ósvífið" að selja HS Orku til t.d. Norðuráls yrði einfaldlega hægt að beita forkaupsréttinum. Vissulega er beiting á slíkum forkaupsrétti háð vilja stjórnvalda á hverjum tíma og því ekki víst að honum yrði beitt þegar á reyndi. En að mati Orkubloggarans væri þetta viðunandi fyrirkomulag.
Það er aftur á móti varla skynsamlegt úr því sem komið er, að ráðast í óviss málaferli um lögmæti kaupa Magma, hvað þá að taka HS Orku eignarnámi. Slíkt þjónar tæplega hagsmunum þjóðarinnar; skynsamlegra er að búa þannig um hnútana að ríkið og sveitarfélög njóti eðlilegs hluta af arðinum af orkuvinnslunni í gegnum skattkerfið. Og allt tal um riftun ríkisins á samningunum er auðvitað útí hött - riftun er vanefndaúrræði og fáránlegt að stjórnmálamenn séu að rugla um riftun.
Í stað þess að vera að eyða tíma í þetta mál, væri nær að einbeita sér að því að styrkja og efla stóru orkufyrirtækin; Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun. Það er það sem stjórnmálamenn ættu að eyða tíma sínum í, fremur en að vera að hundelta Magma Energy.
Reyndar er líka vert að hafa í huga að raforkuframleiðslan á Íslandi er einhver sú mesta í heimi (per capita) og virkjanirnar kosta sitt. Umfangið í þessum bransa hér á landi er m.ö.o. margfalt meira en flestir virðast gera sér grein fyrir og einungis mestu olíu- og gasríki heims komast með tærnar þar sem Ísland hefur hælana að þessu leyti. Þessi sérstaða Íslands verður ennþá meira áberandi þegar haft er í huga að íslenska orkan kemur öll frá endurnýjanlegum náttúruauðlindum, meðan ríki með svipaða orkuframleiðslu eins og Ísland byggja stöðu sína að langmestu leyti á olíu og gasi. Þetta eru lönd eins og Abu Dhabu, Katar og Kuwait. Noregur kemst líka hátt á þeim lista, en er þó hlutfallslega með miklu minni raforkuframleiðslu en Ísland.
Ísland er sem sagt einhver mesti orkuframleiðandi í heimi (per capita). Hin löndin í þeim hópi eru fyrst og fremst olíu- og gasríki á svæðum þar sem slík vinnsla er með því ódýrasta sem gerist í heiminum (þ.e.a.s. við Persaflóann). Því miður hefur hin gríðarlega raforkuframleiðsla á Íslandi ekki skilað okkur sérstaklega miklum árangri. Vegna þess einfaldlega að við höfum verið að selja raforkuna til stóriðju nánast á kostnaðarverði.
Er skynsamlegt að ríkið og þar með þessi fámenna þjóð þurfi að binda allt þetta gríðarlega fjármagn í orkugeiranum, til þess eins að framleiða raforku handa stóriðju, sem borgar okkur afar lágt verð fyrir orkuna? Og það meira að segja ennþá lægra verð en stóriðja greiðir víðast hvar annars staðar í heiminum, eins og Orkubloggið hefur áður greint frá.
Kannski væri ráð að vera ekki með þessar miklu áhyggjur vegna Magma, heldur fremur huga að því sem mestu skiptir; að auka arðsemi í raforkuframleiðslu á Íslandi. Það er vissulega mikilvæg grundvallarspurning hvort orkufyrirtækin eigi öll að vera í opinberri eigu eða ekki. En í reynd er jafnvel miklu meira hagsmunamál fyrir þjóðina að leita leiða til að auka arðsemi af raforkusölunni. Og hugsanlega er mun einfaldara að ná slíkum markmiðum með því að hafa blandað eignarhald í raforkuvinnslunni.
A.m.k. hefur Ross Beaty sagt í viðtölum að stóriðjan sé að fá orkuna á alltof lágu verði og þannig gefið í skyn að hann kæri sig ekki um það að HS Orka haldi áfram að gefa álverum orkuna á kostnaðarverði. Hinn nýi forstjóri Landsvirkjunar hefur að nokkru leyti lýst sömu skoðun, en þögnin hjá forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur er æpandi. Er fýsilegt fyrir Íslendinga að orkugeirinn hér þróist eins og gerst hefur hjá OR? Þar sem stórveldisdraumar stjórnmálamanna eru nánast búnir að rústa fyrirtækinu fjárhagslega og það situr uppi með ömurlega orkusölusamninga við Norðurál - en forstjórinn boðar samt enga stefnubreytingu. Er ekki hætt við að allsherjar ríkisvæðing orkugeirans festi einmitt slíkan hugsunarhátt í sessi? Væri ekki betra að virkja líka einkaframtakið til að taka þátt í því með hinu opinbera að auka arðsemi í raforkuframleiðslunni?
Vinstri Grænir ættu kannski að slaka aðeins á gagnvart bæði HS Orku og Magma. Og fremur einbeita sér að því t.d. að styrkja stöðu Landsvirkjunar, þar sem VG myndar meirihluta í stjórn ásamt Samfylkingunni. Það getur VG gert með því að marka þá pólitísku stefnu að Landsvirkjun eigi nú þegar að hefja undirbúning þess að auka arðsemi sína með því að kanna til hlítar möguleikann á að leggja rafstreng til Evrópu. Þar liggja hugsanlega einhver bestu tækifæri Íslands til framtíðar.
Þó svo VG finnist kannski einfaldara að ríkið eða hið opinbera barrrasta eigi allt heila klabbið kann hin leiðin - sú að heimila einkaaðilum að fjárfesta í virkjanarekstri - að henta þjóðinni mun betur. Unnt er að haga lögum þannig að umframarður sem kann að verða til í raforkuframleiðslu framtíðarinnar, renni að stærstum hluta til þjóðarinnar, en ekki til sérhagsmunahópa. Já - með því að sýna fyrirhyggju og beita gjalda- og skattkerfinu er unnt að tryggja að umframarður í raforkuframleiðslunni renni til ríkis og sveitarfélaga, þó svo reksturinn verði að einhverju eða jafnvel umtalsverðu leyti í höndum einkaaðila. Um leið gæti ríkið einbeitt sér betur að því að vera eftirlitsaðili og gæta þess að orkulindirnar séu nýttar í hófi.
Það eru sem sagt til leiðir sem geta verið mun farsælli heldur en alger ríkisvæðing orkuframleiðslunnar. Leiðir sem geta skilað ríkinu og almenningi ennþá betri umgengni við orkulindirnar og ennþá meiri arði af nýtingu þeirra. Og þar með haft gríðarlega jákvæð áhrif fyrir Ísland. Leggjum áherslu á slíka stefnu, setjum ákvæði um forkaupsrétt ríkisins að orkufyrirtækjum í lög og hættum að bömmerast yfir aðkomu Magma Energy.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:52 | Facebook
Athugasemdir
takk fyrir þessar þörfu upplýsingar Ketill. ég smelli þessu á fésið :)
Óskar Þorkelsson, 25.7.2010 kl. 08:18
Áhugaverð sjónarmið hjá þér og hollt fyrir stjórnmálamenn að lesa skrif þín um orkumálin og aðkomu einkaaðila að þeim.
En það er eitt sem þú skautar léttilega framhjá í grein þinni. Kjarni Magma-umræðunnar nú er aðkoma Ross Beaty og félaga að kaupum HS-orku.Finnst þér sem sagt allt í lagi að menn fari á svig við íslensk lög bara af því að það hentar okkur Íslendingum að fá inn erlenda fjárfesta nú á tímum?
Umræðan um kaupin á Mamga og gegistryggðu lánin litast ansi mikið af 2007 hugarfarinu - allt leyfilegt ef menn bara græða á því!!
Verðum við ekki fyrst að moka út 2007 hugarfarinu áður en við tökum afdrifaríkar ákvarðanir varðani sölu/leigu auðlinda okkar Íslendinga til útlendinga. Verðum við ekki að byrja á réttum enda?
Þa (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 10:48
Góð grein, það besta sem ég hef séð um málið hinagð til.
En ég tek eftir því að þú leiðir hjá þér það sem fer mest í taugarnar á VG og fleirum, sem sé þau kjör sem Magma fær nýtingarréttinn á (samningstíminn meðtalinn). Fólk hefur einfaldlega á tilfinningunni að enn og aftur hafi Íslendingar samið af sér. Og síðan er það spurningin en útboðsferlið, hvort þar hafi verið maðkar í mysunni. Henni hefur ekki verið svarað. Allt fárið er m.ö.o. ekki ástæðulaust.
Magnús (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 10:50
Afar fróðlegt og yfirveguð röksemdafærsla. Takk fyrir Ketill. Kannski þessi orð þin mildi afstöðu mína gagnvart Magma.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 25.7.2010 kl. 10:56
Stórfínn pistill Ketill, takk fyrir. Það væri vonandi að VG liðarnir og hinir lesi þessi orð og taki þau amk til umhugsunar.
elmar (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 11:00
Fínir punktar hjá Katli einsog hans er von og vísa.
Hann gleymir hinsvegar að geta þess að orkufyrirtækin voru í eigu ríkis og sveitarfélaga til skamms tíma og fyrir tveimur áratugum voru þetta bestu fyrirtæki landsins, rekin af hófsemd, ráðdeild og framsýni og skiluðu miklum tekjum til eigenda sinna. Þá var lítið talað um að einkavæða þau nema kannski heima hjá Hannesi.
Það er brjálæði síðustu tveggja áratuga sem hefur komið orkufyrirtækjunum og okkur í þá stöðu sem við erum nú. Ég neita að trúa því að ríkið og sveitarfélögin geti ekki tekið góða siði á ný og tel að orkufyrirtækin séu best komin í opinberri eigu.
Baldur (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 11:03
Ég er nógu gamall til að muna eftir umræðunni 1945 um beiðni Bandaríkjamanna að fá þrjár herstöðvar á Íslandi í 99 ár.
Til voru þeir þá, sem voru þessu meðmæltir, þeirra á meðal Jónas Jónsson frá Hriflu.
Rök þeirra voru meðal annars þessi:
1. Aðeins er verið að biðja um afnotarétt af Miðnesheiði, Hvalfirði og Skerjafirði, ekki um eignarrétt.
2. Framundan eru mögur ár eftir góðæri stríðsgróðans. Okkur veitir ekki af tekjum af herstöðvastarfseminni. Við getum líka samið um drjúgar leigutekjur sem nýtast munu vel til að byggja upp vegakerfi, atvinnustarfsemi og innviði í landi, sem er í mörgu tilliti langt á eftir öðrum þjóðum i Því efni.
3. Augljóst er að framundan er togstreita Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Herstöðvarnar tryggja öryggi landsins og nýfengið sjálfstæði til langrar framtíðar.
1945 hafnaði þjóðin þessum gylliboðum, þótt það kostaði augljóslega höfnun á miklum tekjum sem brýn þörf var fyrir. 99 ára nýtingarréttur var talinn jafngilda ævarandi nýtingarrétti eins og raunin hefur orðið víða um lönd.
Í Magma-samningunum er rætt um 65 ára nýtingarrétt sem geti tvöfaldast upp í 130 ár.
Þetta er margfalt lengra en tíðkast í þessum geira í öðrum löndum.
Þjóðin hafnaði gyllyboðum Bandaríkjamanna 1945 vegna þess að henni var í fersku minni öll sú mikla og langvinna barátta sem það haði kostað að verða loks sjálfstæð þjóð í eigin landi með óskoruð yfirráð yfir auðlindum þess.
Framundan var 30 ára barátta fyrir því að öðlast yfirráð yfir fiskimiðunum, sem lauk 1976.
Síðan þá hefur heil kynslóð horfið af vettvangi og menn eru búnir að gleyma þeirri baráttu sem skilaði okkur skref fyrir skref óskoraðri eign á auðlindum landsins til lands og sjávar.
Ómar Ragnarsson, 25.7.2010 kl. 11:21
"Okkar auðlindum"? Eftir Kárahnjúka, eftir Þjórsá og hugsanlega Kerlinafjöll, Gjástykki, Norðlingaöldu osfrv. þá hljómar orðið "okkar auðlindir" eins og óráðshjal. Þótt það hljómi fallega hefur vandamálið við "okkar" varðandi auðlindanýtingu verið talsvert og það ætti t.d. Ómar að vita manna best. Ég þakka svo Katli fyrir skrifin. Frábært blogg og yfirvegað innlegg í umræðu sem maður skilur í raun ekkert í lengur.
Kristján B. Jónasson, 25.7.2010 kl. 11:32
Ómar; ég var ekki að fjalla um hvort afnotatíminn er langur eða stuttur. Er reyndar algerlega sammála þeim sem telja afnotatímann of langan. Og álít að Alþingi eigi tvímælalaust að stytta hann. Það myndi þvi miður ekki ná til samninganna milli Reykjanesbæjar og HS Orku - nema þá HS orka fallist á styttingu til að sýna að fyrirtækið vilji starfa í sátt við þjóðina.
Ketill Sigurjónsson, 25.7.2010 kl. 11:33
Þa (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 10:48; ég segi í færslunni að það sé sjálfsagt að skoða lögmætið. En ég held samt að það að ætla að stöðva söluna með málaferlum þar sem byggt yrði á að Magma Energy Sweden sé málamyndafyrirtæki - eða með eignarnámi - sé hvorugt góður kostur.
Ketill Sigurjónsson, 25.7.2010 kl. 11:40
Magnús (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 10:50; kannski var verðið lágt og kannski var Magma handvalið sem kaupandi. Ég hef sjálfur haldið því fram hér á Orkublogginu að verðið hafi verið lágt, en um það eru alls ekki allir sammála mér og segja verðið eðlilegt. Um söluferlið veit ég ekkert, en leyfi mér að ganga út frá því að það hafi verið eðlilegt, þar til menn sýna fram á annað.
Ketill Sigurjónsson, 25.7.2010 kl. 11:45
Sæll Ketill og takk fyrir áhugaverða grein. Ég held að arðsemi orkufyrirtækjanna hafi í gegnum tíðina verið betri en þú gefur í skyn. Arðurinn var einfaldlega greiddur út til eigandanna í formi lágs orkuverðs.
Ef við gefum okkur að einkaaðilar hefðu átt og rekið orkufyrirtækin síðustu áratugi síðustu aldar hefðu ársreikingarnir e.t.v. litið betur út, en þá hefði orkuverðið til hins almenna notanda líka verið miklu hærra.
Það er svo aftur annað mál hvort framlag stóriðjunnar hafi, í gegnum tíðiðna, verið viðunandi.
Bjarni (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 11:54
Takk fyrir upplýsandi grein Ketill. Það er hringlandi í umræðunni. Kv. Baldur
Baldur Kristjánsson, 25.7.2010 kl. 11:55
Þetta er hárrétt hjá Ómari, þér yfirsést Ketill að 130 ára nýtingarréttur jafngildir eignarrétti.
Spurningin um hvort lög voru brotin er því tvíþætt:
1) Mátti Kanadískt félag kaupa HS orku í gegnum sænskt skúffufélag
2) Er 130 ára afnotaréttur svo langur að hann jafngildir eignarrétti og því ólöglegur
Ef ég man rétt þá er hægt að taka alla orkuna úr þessum hverum á innan við 100 árum, og þar með er klárlega um eignarrétt að ræða ef Magma getur klárað alla auðlindina á samningstímanum.
Erlendis, s.s. í Englandi, tíðkast að selja húsnæði undir "leasehold" þar sem leigutíminn er 150 til 999 ár, og er það talið jafngilt því að kaupandinn eignist húsnæðið - eða hvað finnst þér?
Yfirvöld ættu að breyta lögunum og skýra hvar mörkin á milli eignarréttar og afnotarréttar liggja, líklega eru mörkin 30-35 ár í jarðvarma. Og þau eiga einnig að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort Magma samningurinn brýtur í bága við lög - sem hann hlýtur að gera sbr. texta og anda laganna.
Ég held að það sé því ekki rétt hjá þér að undirskriftasöfnunin á orkuaudlindir.is byggist á misskilningi, heldur er skynsamlegt að ólöglegir samningar fái ekki að standa og skýra þarf löggjöf í þessum málaflokki í sátt við þjóðina eftir upplýsta umræðu en ekki bara að rumpa þessu í gegn með gassagangi eins og oft er tilfellið í auðlindamálum á Íslandi.
Björn (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 11:56
Björn (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 11:56; ég minni bara á athugasemd mína hér að ofan, þar sem ég tók fram að í færslunni var ég ekki að fjalla um hvort afnotatíminn er langur eða stuttur. Er reyndar algerlega sammála þeim sem telja afnotatímann of langan. Og álít að Alþingi eigi tvímælalaust að stytta hann.
Ketill Sigurjónsson, 25.7.2010 kl. 12:05
Bjarni (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 11:54; orkuverðið til álveranna hér hefur varla slefað yfir kostnaðarverð. Það getur ekki skilað góðri arðsemi.
Ketill Sigurjónsson, 25.7.2010 kl. 12:07
Sæll aftur Ketill, ég er ekki að taka afstöðu til orkuverðs til sóriðju per se. Er sammála þér að svo virðist sem að arðsemi af sölu raforku til álveranna hafi aldrei verið neitt til að hrópa húrra fyrir.
En orkuverð til almenning (bæði heitt vatn og rafmagn) hefur lengst af verið lágt á íslandi, og ég lít svo á að þannig hafi menn greitt út arð til eigendanna. Orkufyrirtækin hefðu getað skilað meiri hagnaði með hærra orkuverði.
Þó það sé alls ekki einfalt fyrir stjórnmálamenn og -flokka að finna gott fólk til að reka orkufyrirtækin vel, þá er það í mínum huga mun skárri kostur en að þessi rekstur verði settur í hendur einkaaðila (auðlindin undanskilin) innlendra eða erlendra.
En takk aftur fyrir góða grein.
kv., Bjarni
Bjarni (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 14:39
Sæll Ketill, takk fyrir fín skrif.
Gætir þú sagt mér eitt? Er einhver staðar á Íslandi vottur af samkeppni í þessum geira? Býðst neytanda að kaupa rafmagn af fleiri aðillum? Hvað er framundan í þeim málum? Ef Magma myndi okra á rafmagni gæti annar aðili boðið á móti?
Hannes (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 15:53
Það er nú einu sinni þannig að það kostar nánast ekkert að framleiða rafmagn úr jarðvarma þegar að kerfið er komið upp.
Það knýr sig sjálfkrafa áfram í krafti hitagufuþrýstings úr iðrum Jarðar !
Það er okkar og fyrir okkur og við getum alveg litið á okkur sem aðila eða hluthafa í hinu mikla stórgróða orkufyrirtæki Íslands alveg eins og aðrar samsteypur í heiminum nema að þessi er okkar og fyrir okkur og á okkar forsendum !
Ef einhverjir útlendingar vilja kaupa rafmagn þá geta þeir keypt það af okkur.
Ísland er í raun leiðandi á sviði jarðvarma raforkuframleiðslu og þarf ekki á vafasömum magma fyrirtækjum sem eiga enga peninga að halda.
Þessi grein er full af mæringum á magma og raoss beaty þó svo að ferill hans, þáttaka og tengsl sé vægast sagt vafasöm við aðila í kopar-, gull-, demanta-, tungsten- og úraníumnámugreftri og hræðilega mannrétindabrjóta, arðræningja og stríðsmangara eða frekar borgarastríðsmangara í ríkjum suður ameríku og í afríkuríkjum eins og congó lýðveldunum, sierra leone, zair zimbabve, namibíu, suður afríku, níger, rwanda eða rúvanda, zambíu og mörgum öðrum.
Það er birt hér fegruð mynd af manni sem hefur ekki sagt sannleikann og hreinlega logið um tilkomu skúfunnar í Svíþjóð en þykist hafa misskilið eitthvað eftir á, kannski er það rétt en afar ólíklegt miðað við söluskrumaralega hundasálfræði sem hann í ósvífni sinni reynir að beita á Íslenska þjóð.
Það er alveg ljóst að gjörningarnir allir á undan og fram að sölunni til magma eru ekki LÖGLEGIR.
Skúffugjörningurinn er ekkert annað en tilraun til að beina sjónum fólks að einhverju öðru en lykilatriðinu en það er að einkaðilar mega ekki fjárfesta á Íslandi í orkugeiranum nema að eign, stjórn og yfirráð séu í höndum aðila á Íslandi eða innan EES !
Yfirráð, stjórn og eign magma eða skúffunnar eða annara hugsanlegra skúffa, er ekki í höndum á aðilum á Íslandi eða innan EES !
Fjöldinn og hringlið með skúffur skiptir bara engu máli !
Auk þess er einkaaðilum ekki heimilt að kaupa starfandi samfélaglega virkjun, hús og stöðvarhús sem er í fullum rekstri fyrir samfélagið eins og HS-Orku virkjunin er, þannig að allt þetta Geydir Green kjaftæði er gegn lögum einnig !
Það sem má leigja er aðgangur að auðlind sem þarf að sækja þá eða bora eftir eða nýta fyrri tilraunaborholur sem þykja fýsilegar. Þetta má magma samt ekki gera samkvæmt lögum og sem betur fer !
Spillingin og vitleysan sem hefur verið í gangi um tíma í opinberum Íslenskum orkufyrirtækjum fer ekki eitt né neitt þó að við förum að selja í einhverju fláræði !
Það þarf að hreinsa spillinguna út og opna þessa leynilegu samninga alla og pukur sem hefur verið í gangi með orkumálin og söluna, hafa allt uppi á borðum eins og oft er talað um.
Það eru óteljandi hlutir og gjörningar sem benda til stórtæks samsæris gegn hagsmunum Íslensku þjóðarinnar og það ber að rannsaka og heimila öllum aðgang að gögnum !
Það þarf að upplýsa eða afhjúpa glæpi og spillingu því að þeirri afhjúpun koma líklega fram tengsl hagsmunaaðila eða þeirra sem kaupa rafmagnið af okkur og þá gætum kmist í þá stöðu að rifta samningum og hækka rafmagnið á þessar alþjóðlegu vafasömu einokuarsamsteypur sem hafa orðið uppvís af glæpsamlegri framkomu við samfélög og umhverfi víða um heim !
Gestur (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 15:56
Svo er gott að minna á það að Íslenska þjóðin eða stjórnvöld geta stöðvað svona gjörninga í neyðartilfellumm og það efast enginn um neyðina í smfélaginu núna býst ég við.
Það er síðan hægt að bita fyrir sig því og það ætti að gera, það er ekki sppurning, að málið sé í eða að fara í rannsókn sem spilingar, samsæris og glæpamál !
Gestur (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 16:06
Gestur (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 15:56; ég hef þá stefnu að eyða helst engum athugasemdum. En ef menn ætla að vera með dylgur á vefnum um að tiltknir nafngreindir menn séu glæpamenn, bið ég þá um að gera það a.m.k. undir fullu nafni - og helst annars staðar en hér á athugasemdakerfi Orkubloggsins.
Ketill Sigurjónsson, 25.7.2010 kl. 16:32
Hannes (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 15:53.
Já, það er samkeppni í raforkusölunni. Sjá t.d. uppl. um þetta á vef Landsnets:
http://www.landsnet.is/raforkukerfid/raforkumarkadurinn/
Ketill Sigurjónsson, 25.7.2010 kl. 16:37
Gestur: Jú jú, vissulega ólýsanlega skelfilegur glæpur þegar Kanadabúar reyna að stela af okkur hlutum sem við vildum sko aldeilis bara að Svíar fengju.
Þetta landráðahjal jaðrar við rasisma og fer ekki einu sinni sérstaklega fínt í það.
Páll Jónsson, 25.7.2010 kl. 16:39
Sæll Ketill,
Takk fyrir upplýsandi og góða grein.
Rek þó augun í rökvillu hér í athugasemdunum sem Íslendingar eru gjarnir á að trúa - í einfeldni sinni eða í vondri trú.
Íslendingar líta svo á að ef 2 eða fleiri einkaaðilar komi að rekstri í tilteknum atvinnugeira, þá sé undantekningarlaust um "samkeppni" að ræða. Færa má sterk rök fyrir því að íslenski raforkumarkaðurinn sé ekki samkepnnismarkaður, heldur fákeppnismarkaður - þar sem gríðarháar inngönguhindranir eru til staðar. Það eru því allar forsendur til staðar, til að óformlegt verðsamráð eigi sér stað. Ég er ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir afleiðingum þess, þar sem Íslendingar eiga bágt með að viðurkenna tilvist fákeppni yfir höfuð.
Hvað varðar hugmyndir þínar um "að sýna fyrirhyggju og beita gjalda- og skattkerfinu er unnt að tryggja að umframarður í raforkuframleiðslunni renni til ríkis og sveitarfélaga, þó svo reksturinn verði að einhverju eða jafnvel umtalsverðu leyti í höndum einkaaðila", þá má benda á eftirfarandi.
Þar sem þú talar um að "umframarður" renni til hins opinbera, þá vænti ég þess að þú sért að tala um að ávöxtun umfram einhverja "eðlilega" ávöxtunarkröfu renni til almennings, m.ö.o að þannig sé heppilegt að hnýta fyrir möguleika orkufyrirtækja til þess að græða á því að ofrukka/okra á íslenskum orkuneytendum. Hugmyndin er í sjálfu sér góðra gjalda verð. Hinsvegar, þá hefur reynslan sýnt (m.a. hjá orkufyrirtækjum í UK), og rannsóknir innan hagfræðinnar staðfesta, að það leiði jafnan til offjárfestinga í viðkomandi geira. M.ö.o. þá er fjárfest langt umfram nauðsyn til þess að réttlæta umframarðinn og þar með ofrukkunina/okrið. Slíkt gefur augaleið að sé þjóðshagslega óhagkvæmt - bæði vegna þess að neytendur eru ofrukkaðar sem og vegna offjárfestingarinnar sjálfrar.
Haukur, 25.7.2010 kl. 17:19
Ég get tekið undir flest það sem þú segir, Haukur. Hér er reyndar ekki bara fákeppni á raforkumarkaði, heldur víðar. Okrið sem birtist svo víða á íslenskum neytendamarkaði stafar örugglega fyrst og fremst af fákeppni.
Ketill Sigurjónsson, 25.7.2010 kl. 18:02
Ketill !
Ég er ekki með neinar dylgjur heldur bendi á staðreynir og set upp sem dæmi og vek athygli á grunsemdum um tengsl og var það ekki tilgangurinn að fara nánar út í það en það hefur verið fjallað um þetta á Íslandi.
Ég var einmitt að reyna að fara eins varlega og hægt er gagnvert þér því þú augljóslega ert að mæra grunsamlega aðila með grunsamleg tengsl við stórhættulegar alþjóðlegar samsteypur.
Kannski mismæli ég mig eitthvað og ásakanir hljóma sem fullyrðingar en það var ekki ætlunin.
Ef svo er þá bið ég forláts en vona að þú leyfir því að standa því ekki sé ég neinn grundvöll til neins tepruskapar gagnvart mínum málflutningi.
Með fyrirfram þökk.
Páll Jónsson !
Þú vænir mig um að vera kynþáttahatari en Ketill gerir ekki athugasemd við það þó að sé augljóst og enginn vafi á því að þú ert að væna mig beint um kynþáttahatur !
Þínar dylgjur eru greinilegar en að sama skapi kjánalegar og benda ekki til þess að þú hafir lesið það sem ég skrifaði.
Það er ekki löglegt að aðili utan Íslands eða EES eigi eitt né neitt hér eins og í þessari magma svívirðu !
Vegna þess að lögin leyfa það ekki þó að það væru milljónir af skúffum með engann rekstur. Skúffurnar eru undir yfirráðum, í eign og er stjórnað af aðilum sem hafa ekki ríkisborgararétt, lögbúsetu eða lögheimili á Íslandi eða innan EES.
Þessi gjörningur er ÓLÖGLEGUR og það er reynt að fara í kringum það.
Ef ég hata ros beaty eða einhverja aðra "útlendinga" þá er þaðmér alveg frjálst.
Það eru nógu mikið af fordómum, tillitsleysi, virðingarleysi og hatri gagnvart Íslnedingum sjálfum af Íslendingum og útlendingum að það er að verða vandamál.
Það er ekki seinna vænna að snúa vörn í sókn gagnvart fólki sem er sama um velferð, lífsafkomu og lífshamingju Íslensku þjóðarinnar og talar falstungum fyrir þrönga hagsmunahópa sem hafa ekki hag, gleði og blessun Íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi.
Ég tel það ágætis hugmynd að við Íslendingar lítum á okkur sem risafyrirtæki með um 290.000 hluthöfum og gerum kröfu um arð til okkar og okkar framfara í friðsamlegum tilgangi á forsendum friðarríkis sem spyrðir sig ekki við alþjóðlega glæpa-, stríðsglæpa-, hryðjuveka-, og barnamorðingjastarfsemi !
Ef þið vitið það ekki hér þá er að minnsta kosti búið að myrða um hálfa milljón barna og unglinga og rúmlega eina og hálfa milljón mestmegnis varnarlausra gamalmenna, kvenna og manna í tilgangslausu stríði í afganistan, írak og pakistan.
Nei ég ber enga virðingu fyrir þessum jóðum sem taka þátt í þessu en þar á meðal er Svíþjóð, þannig að þína dylgjur falla hér með alfarið um sjálfa sig ef þannig má aðorði komast.
Gjörningurinn við magma er ÓLÖGLEGUR og það ber að stöðva !!
Allt annað mjálm er stuðningur við eða hvatning til lögbrota á kostnað Íslensku þjóðarinnar !
Gestur (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 18:22
Enn og aftur vil ég hvetja menn með ásakanir af þessu tagi að skrifa undir fullu nafni hér í athugasemdakerfi Orkubloggsins.
Ketill Sigurjónsson, 25.7.2010 kl. 18:36
Þetta er fín yfirferð hjá þér Ketill, eins og venjulega, en ég verð að vera þér algjörlega ósammála
Það er áhugavert að skoða þróun verðs á orku hér í Danmörku eftir að menn einkavæddu orkugeirann árið 1997. En sannkallað prisfest hefur átt sér stað. Heimilin búa við 107% hærri rafmagnsreikninga í dag miðað við fyrir einkavæðingu. Fyritæki koma öllu betur út en þurfa samt að greiða 60% meira en þeir gerðu. Ekki þarf að taka það fram að þessar hækkanir eru í engu samhengi við verðlagsþróun á tímabilinu.
Ég tek undir þau sjónarmið að við eigum að berjast með kjafti og klóm til að vernda okkar auðlindir. Ég vona að VG standi í lappirnar í þessu máli og láti ekki Sjálfstæðismen, Framsóknarmenn og Samfylkingarfólk leiða okkur í enn eina gloríuna.
Kveðja
Andrés Kristjánsson, 25.7.2010 kl. 18:58
Vandi islenska raforkugeirans liggur í því að mestur hluti framleiðslunnar fer til stóriðju. Miklu hærra hlutfall en í Danmörku eða annars staðar í Evrópu. Við þurfum að geta selt þessa raforku á hærra verði.
Ketill Sigurjónsson, 25.7.2010 kl. 19:49
Ég skil ekki hugtakið "umframarður". Hvernig kemur hann fram í þínu hlutabréfasafni?
Geir Ágústsson, 25.7.2010 kl. 22:51
Með umframarði er átt við það sama og kallað er auðlindarenta, þ.e. þann hluta hagnaðarins sem kemur af nýtingu náttúruauðlindar og er umfram eðlilega ávöxtunarkröfu. Slík renta er t.d. gríðarlega mikil víða í olíubransanum. Ef við gætum selt raforkuna á verði í líkingu við það sem gerist í Evrópu, mundi slíkur umframarður myndast (sökum þess að þá yrði raforkuverðið margfalt á við það sem stóriðjan hér borgar í dag og þar með tekjurnar af raforkusölunni miklu meiri og sömuleiðis hagnaðurinn; m.ö.o. meiri arður).
Þegar svona umframarður verður til, er óeðlilegt að bara þau fyrirtæki sem sitja að raforkuframleiðslunni njóti þess. Eðlilegt er að eigandi auðlindarinnar fái verulega hlutdeild í honum.
Á Íslandi þekkjum við reyndar svipaðan hlut: Þegar kvótaverð hækkaði mikið myndaðist mikill hagnaður í viðskiptum með kvóta (réttinn til að nýta fiskveiðauðlindina). Sá hagnaður rann allur til þeirra sem seldu kvóta - þ.e. til útgerðanna - en nánast ekkert af þeim umframarði kom í hlut eiganda auðlindarinnar (ríkisins). Þar stóð Alþingi sig illa að hafa ekki komið á fót skattkerfi sem leiddi til þess að ríkið fengi meiri hlutdeild í þessum umframarði. Það hefði verið hægt ef bara Alþingi hefði sýnt örlitla skynsemi og fyrirhyggju.
Vona að þetta skýri málið.
Ketill Sigurjónsson, 25.7.2010 kl. 23:50
Sæll Ketill og takk fyrir góða grein.
Það er þó eitt sem ég vildi gjarna fá betri skýringu á hjá þér. Þú segir:
"Já - með því að sýna fyrirhyggju og beita gjalda- og skattkerfinu er unnt að tryggja að umframarður í raforkuframleiðslunni renni til ríkis og sveitarfélaga, þó svo reksturinn verði að einhverju eða jafnvel umtalsverðu leyti í höndum einkaaðila"
Þetta er akkurat mergurinn málsins, en hvernig getur þú verið svo visss um að þetta sé hægt eftirá. Hingað til hefur enginn umframarður verið af framleiðslu rafmagns úr jarðvarma hér á landi, vegna þess hve lágt markaðsverð hefur verið fyrir raforku hér á landi. Þó furðulegt sé hefur vekki tekist að fá nein fyrirtæki til að koma hingað og borga hærra orkuverð. Þetta hlýtur þó að breitast og ég spái því að orkuverð tvöfaldist eða jafnvel fimmfaldist hér næstu 10 til 15 árin. Gallin er hinsvegar sá að ég sagði þetta líka fyrir 15 árum síðan en sáralítil hækkun á orkuverði hefur orðið á þeim tíma. "Ef " td. fimmföldun á orkuverði verður loksins að veruleika munu hugsanlega yfir 100 milljarðar ÍSKR streyma úr jörðu á nýtingarsvæði HS-orku umfram þann kostnað sem þarf til að reka kerfið og greiða niður stofnkostnað og eðlilegan arð (umframarður af 1000 MW rafafli, kostnaðarverð 3 kr/kWh en raforkuverð 15 kr/kWh), og jafnvel margfalt þetta takist að selja alla varmaorkuna einnig.
Hvernig er tekið á þessum unmframarð í núverandi samningum ??, er miðað við erlenda eða íslenska orkuverðs indexa ?? (hvar er hægt að sjá þá samninga sem gerðir voru milli eigenda orkulindanna og HS-orku???). Í dag er arðgreiðslan nær engin (enda umframarðurinn enginn). Auðvelt er að fela þennan hugsanlega framtíðar hagnað td. ef sami eigandi verður að HS-orku og orkukaupandanum.
Það er auðvita sjálgsagt að fá einkaaðila til að reka amk hluta af orkuframleiuðslukerfi landsins og skiptir engu hvort þeir séu íslenskir, frá EES eða Kanada. Það þarf hinsvegar að tryggja að eigandi orkulindarinnar fái stærsta hlutann af umframarðinum. Það að nýtingarétturinn sé til fáránlega langs tíma (65 ára) í stað 20 til 30 ára gerir góðan undirbúning að því hvernig meta eigi umframarðinn enn mikilvægari.
Kveðja Þorbergur
Þorbergur Leifsson (IP-tala skráð) 26.7.2010 kl. 00:09
Til að svara þessari síðustu athugasemd þyrfti helst talsverð skrif. En ég ætla að leyfa mér að skauta svolítið auðveldlega gegnum þetta, með því einfaldlega að fullyrða að langskynsamlegasti kosturinn til að stórauka arðsemina af raforkuvinnslu á Íslandi sé að tengja Ísland Evrópu með sæstreng (HVDC). Þannig vill til að þetta er nu loks orðið tæknilega gerlegt og fjárhaglega skynsamlegt. Ég vil líka taka undir það að 65 ár + framlenging er óeðlilega langur afnotatími. Sennilega er einmitt 20-30 ár passlegt og ef við förum í lengri tíma mætti hugsa sér að hafa endurskoðunarákvæði, sem verði virkt t.d. á 15 ára fresti.
Ketill Sigurjónsson, 26.7.2010 kl. 09:37
vantar einhvern í Kanada til að heimsækja höfuðstöðvar magma, eins og Teitur Atlason gerði í Svíþjóð, og athuga hvort að Magma sé skúffa hjá Pan Am. Silver (á svipaðan hátt og Lögheimtan er skúffa hjá Intrum á Íslandi), því bæði hafa sama heimilisfang í Vancouver, 3 sömu stjórnarformenn (Ross Beaty, Paul Sweeny og Robert Pirooz) og líka sömu verkfræðinga.
þetta setur langtímaplön þeirra hér á landi í nýtt samhengi miðað við það sem gömlu karlarnir í þýsku hugveitunni sögðu um hugsanlega ófundna málma hér við land og við Grænland og Færeyjar
Halldór C. (IP-tala skráð) 27.7.2010 kl. 10:40
Magma í Kanada er fyrirtæki sem fjárfestir í jarðvarmaverkefnum og -virkjunum og að því leytinu kannski best lýst sem business development kompaníi eins og t.d. tugþúsundir fyrirtækja út um alla Evrópu. Er sennilega ekki með marga starfsmenn; starfsfólkið er auðvitað fyrst og fremst hjá þeim fyrirtækjum sem Magma á eignarhlut í eins og t.d. starfsfólk HS Orku. Hér er listi yfir stjórnendurna: http://www.magmaenergycorp.com/s/Management.asp
Ketill Sigurjónsson, 27.7.2010 kl. 10:51
einmitt, og berðu hann saman við þennan lista:
http://www.panamericansilver.com/company/board14.php
Hc (IP-tala skráð) 27.7.2010 kl. 10:58
Hc (IP-tala skráð) 27.7.2010 kl. 10:58; þetta er stjórnin hjá PAS.
Hér er svo listi yfir stjórnendur PAS:
http://www.panamericansilver.com/company/management13.php
Nú sjá menn ægilegt samsæri í því að sömu nöfn megi sjá í stjórn PAS og Magma. En það vill svoleiðis til að PAS er fyrirtæki sem Ross Beaty er stjórnarformaður í og helsta fyrirtækið á hans vegum.
Beaty er sjálfur langstærst hluthafinn í Magma. Það er ofureðlilegt að tengsl séu milli Magma og Pan American Silver. Auðvitað leitar Beaty til manna sem hann þekkir og treystir, til að vera í stjórn Magma. Ætti hann frekar að biðja Hannes Smárason og Jón Ásgeir að vera í stjórninni; þeir hljóta að þekkja vel til HS Orku eftir að FL Group var aðaleigandinn þar!
Ég ætla ekki að taka frekar að mér að verja Beaty, enda þekki ég manninn ekki persónulega. En allar þessar samsæriskenningar eru hálf kjánalegar.
Ketill Sigurjónsson, 27.7.2010 kl. 11:17
orðið ,,samsæriskenningar" er marklaust, því að samsæri eru til.
atburðir síðustu ára eru gott dæmi um það, eins og allir vita.
notum þá frekar hið fleyga ,,samráð", eins og gert var með olíufyrirtækin og grænmetisfyrirtækin hér á landi fyrir nokkrum árum.
og hvers vegna er heimilisfang Magma og Pan American Silver Corpotation nákvæmlega það sama, 600 West Howe St., Vancouver, Bresku Kólumbíu í Kanada?
Hc (IP-tala skráð) 27.7.2010 kl. 12:19
Sökum þess að ég er hvorki hluthafi né starfsmaður þessara tveggja fyrrtækja veit ég ekki hvað ræður því hvaða skrifstofuhúsnæði þau hafa. En þar sem aðaleigandi fyrirtækjanna er sá sami, kemur sossum ekki á óvart að þau séu á sama stað.
Ketill Sigurjónsson, 27.7.2010 kl. 12:48
það er einmitt þetta ,,veit ekki" sem ég og margir aðrir erum hugsi yfir - og hreinlega hræddir við.
framtíð vatnsbirgða okkar og orku gæti legið undir geðþóttaákvörðunum eigenda vafasamra eignarhaldsfélaga.
Halldór C. (IP-tala skráð) 27.7.2010 kl. 18:25
Ok. Þá er varla um annað að ræða en að ríkið geri eignarnám í HS Orku. Fyrirtækið er í höndum einkaaðili og verði kaup Magma dæmd ólögmæt eða gangi til baka út af einhverju öðru, verður GGE aftur eigandi meirihlutans í HS Orku. GGE er í höndum kröfuhafanna, sem eru væntanlega bankar og ýmsir aðrir. Kannski einhverjir hedge funds, sem munu kannski samstundis taka tilboði frá íslenska fyrirtækinu Norðuráli. Eða selja HS Orku til einhvers allt annars; kannski einhvers fyrirtækis innan EES sem má lögum samkvæmt kaupa hlutabréfin. Þetta gerist ef kaupin ná ekki fram að ganga. Nema þá ríkið kaupi fyrirtækið. Þá þarf ríkið að bjóða GGE meira en aðrir - eða samþykkja lög um eignarnám.
Ketill Sigurjónsson, 27.7.2010 kl. 19:00
Takk fyrir mjög áhugaverð og málefnaleg skrif. Ég get tekið undir flest af því sem þú skrifar hér. Að vísu geri ég athugasemd við staðhæfingu þína um að á Íslandi séu útlendingar ekki að kaupa auðlindirnar heldur einungis tímabundinn afnotarétt og því «muni talsverðu» á kaupum (eignarétt) á auðlindum og afnotarétti.
Það má færa rök fyrir því að eftir því sem afnotarétturinn er lengri séu meiri líkur á því að hefðarréttur myndist og handhafi afnotaréttar öðlist eignarrétt. Að mínu mati er 65+ ár býsna langur tími og því alls ekki fráleitt að líta á það sem framsal á eignarétti eða að lágmarki möguleika (eða hættu, ef menn eru andsnúnir einkaeign á auðlindum) á að slíkt geti gerst.
Sjálfur er ég hlyntur því að orkuauðlindir getir verið í eigu einkaaðila m.a. af þeim ástæðum sem þú nefnir sjálfur í þinni grein - að þannig hámarkist verðmætasköpun. Einnig má benda á að óheppilegt sé að ríkið sé báðum megin við borðið þegar kemur að því að meta umhverfisáhrif - en það er önnur ella. Takk aftur fyrir góð skrif.
Sveinn Tryggvason, 4.8.2010 kl. 11:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.