22.8.2010 | 00:14
Skammsýni ASÍ og SA
Þeir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins og Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, eru með böggum Hildar þessa dagana. Og sortnar fyrir augu yfir þeirri tilhugsun að kannski verði ekkert af byggingu álvers Norðuráls í Helguvík.
Álbræðslur sækja þangað sem þau fá ódýrasta rafmagnið. Þar hefur Ísland um skeið boðið hvað best. Upplýsingar um raforkuverð til stóriðju sýna glögglega að raforkan hér hefur undanfarin ár verið seld jafnvel ódýrari en hjá vanþróuðum þjóðum Afríku. Og það þó svo hér fái álverin algerlega öruggt raforkuframboð, pólitískan stöðugleika og vel menntað vinnuafl í kaupbæti. Þetta er hinn nístingskaldi raunveruleiki, sem dregur svaðafyrirtæki eins og Glencore International, til Íslandsstranda. Harðjaxlagengið hjá Glencore eru einmitt aðaleigaendur Century Aluminum.
Orkubloggarinn á erfitt með að skilja af hverju menn sjá hagsmuni í því fyrir Íslendinga að fá tindáta frá mönnum, sem kallaðir hafa verið mestu blóðsugur þriðja heimsins, til að byggja álver suður í Helguvík. Bloggarinn er á því að þeir Gylfi og Vilhjálmur ættu fremur að tala fyrir því að það sé bæði hagur umbjóðenda þeirra og þjóðarinnar allrar að hætta að kyssa vöndinn! Við eigum að gera meiri arðsemiskröfu til nýtingar á íslenskum náttúruauðlindum, heldur en býðst með því að virkja fyrir álver. Vatnsaflið og jarðvarminn er fjöregg þjóðarinnar og verði áfram haldið á álbræðslubrautinni mun samningsstaða orkufyrirtækjanna gagnvart stóriðjunni versna enn frekar. Bygging fleiri álvera mun auka enn meira líkurnar á því að við verðum áfram föst í feni lágrar arðsemi í raforkuframleiðslunni til langrar framtíðar.
Miklu skynsamlegra væri að nýta tækifærin sem nú bjóðast til að margfalda tekjur bæði Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur. Gera bæði þessi opinberu fyrirtæki að öflugri uppsprettu að gallhörðum erlendum gjaldeyri; gjaldeyri sem ekki aðeins myndi duga fyrir afborgunum lána, heldur gæti myndað stofn að öflugum íslenskum fjárfestingasjóði í eigu almennings. Til að svo geti orðið, er einfaldlega skynsamlegast að fara strax að undirbúa og vinna að fullu í því að lagður verði rafstrengur milli Íslands og Evrópu.
Það er eiginlega með ólíkindum að stóru orkufyrirtækin þrjú skuli ekki hafa stofnað með sér samstarfsvettvang um þetta fyrir löngu. En það er kannski skiljanlegt að af þessu hafi enn ekki orðið; Friðrik Sophusson fráfarandi forstjóri Landsvirkjunar virtist hafa það sem sérstakt áhugamál sitt að selja rafmagn á gjafverði til álvera, Orkuveita Reykjavíkur er á hausnum og HS Orka hefur átt nóg með eigendavandræði sín.
Því miður er nýr forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, ennþá sá eini sem virðist hafa áttað sig á tækifærunum sem liggja í rafstreng til Evrópu. Ekki einu sinni hinn glænýi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, Haraldur Flosi Tryggvason, minnist einu orði á þetta í þeim fjölmörgu viðtölum sem fjölmiðlar hafa átt við hann síðustu dagana. Þetta er sérstaklega sorglegt í ljósi þess að Haraldur Flosi er nú byrjaður að boða einföldu lausnina; gjaldskrárhækkanir. Þær verðhækkanir munu vel að merkja eingöngu beinast að almenningi og venjulegum fyrirtækjum, en stóriðjan verður stikkfrí með sína langtíma raforkusamninga.
Stjórnarformaður OR þarf að gerast víðsýnni og ætti án tafar að fela hinum nýja "tímabundna" forstjóra Orkuveitunnar, Helga Þór Ingasyni, að leita samstarfs við evrópsk orkuframleiðslu- og raforkudreifingarfyrirtæki. Þeir Helgi Þór og Haraldur Flosi ættu jafnvel að leitast við að fá slík fyrirtæki inn sem eigendur að minnihluta í OR. Svo unnt verði að grynnka á skuldunum og gera eiginfjárstöðu Orkuveitunnar álitlega. Einnig væri upplagt fyrir lífeyrissjóðina að koma að Orkuveitunni - a.m.k. væri það lógískara heldur en að sjóðirnir séu að standa í braski með símafélög og byggingafyrirtæki.
Já - Orkuveitan þarf að fá í hópinn skynsama eigendur með langtímahugsun. Hin nýja stjórn og forstjóri OR þurfa að gera það að forgangamáli að finna góða framtíðarlausn fyrir OR. Stjórnendurnir mega ekki bara einblína á gjaldskrárhækkanir - þó þær séu auðvitað einfaldasta og auðveldasta leiðin til að bæta götin á hinu sökkvandi gráa skipi Orkuveitunnar. Byrja þarf strax að undirbúa það að fyrirtækið losni undan a.m.k. hluta af raforkusölunni til Norðuráls á Grundartanga og geti selt þá sömu orku á margfalt hærra verði til Evrópu. Þeir þurfa líka að skoða vandlega með hvaða hætti OR getur losnað undan raforkusölusamningi vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík (ef slíkur bindandi samningur er á annað borð kominn á). Vonandi er það í reynd svona stefna sem verið er að boða með nýjum forstjóra yfir Orkuveitunni.
Óneitanlega er Orkubloggarinn grænn af öfund útí Helga Þór. Af því varla er hægt að hugsa sér meira spennandi starf á Klakanum góða heldur en forstjórastarf hjá orkufyrirtæki á tímamótum.
Ísland er hvorki meira né minna en mesti orkubolta veraldarinnar. Þetta kann að skapa okkur mögnuð tækifæri til framtíðar. Engin þjóð framleiðir hlutfallslega jafn mikið af raforku eins og Íslendingar. Íslendingar framleiða nú rúmlega 50 þúsund kWst af rafmagni á ári per capita (þ.e. miðað við fólksfjölda). Og það allt saman með vatnsafli og jarðvarma - notar ekkert gas og engin kol til þessarar miklu raforkuframleiðslu.
Ekkert land í heiminum kemst nálægt því að vera þvílíkt ofsalegt grænt orkuveldi. Norðmenn komast næst okkur - með rétt rúmlega 35 þúsund kWst pr. mann (nánast allt frá vatnsafli). Í reynd kemst ekki nokkur þjóð nálægt því að framleiða eins mikið af raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum per capita, eins og við Íslendingar gerum.
Jafnvel þó svo við miðum ekki bara við raforkuframleiðslu, heldur teljum með alla orkuframleiðslu (bæði rafmagn og eldsneyti - alla endurnýjanlega orku svo og kol, gas og olíu) þá er Ísland þar í fararbroddi með örfáum öðrum þjóðum. Ríkjum eins og Noregi og olíuríkjunum svakalegu við Persaflóann. Það eru sem sagt bara örfá ríki í heiminum sem framleiða álíka mikið af orku per capita eins og Ísland og í raforkuframleiðslu er Ísland langfremst. Og sem fyrr segir byggir öll þessi mikla raforkuframleiðsla Íslands á endurnýjanlegum orkugjöfum.
Sérstaða Íslands í orkumálum er m.ö.o. æpandi mikil. Og tækniþróun í rafmagnsflutningum hefur nú skapað okkur einstakt tækifæri. Þar að auki hefur þróun orkumála innan ESB undanfarið verið eins og best verður á kosið, fyrir ríki með svo mikla endurnýjanlega raforkuframleiðslu eins og Ísland.
Nú á þessum síðustu og verstu tímum er þorsti ESB í meiri endurnýjanlega orku og í meiri orkuviðskipti við vinaþjóðir gríðarlega mikill. ESB horfist nú í augu við mörg vandasöm risaverkefni í orkumálum. Eitt er það að minnka þörf sína fyrir rússneskt gas. Annað að stórauka hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkubúskap aðildarríkjanna.
Til marks um erfitt ástand hjá bandalaginu má nefna að árið 2004 varð ESB í fyrsta sinn að flytja inn meira en helming allrar orkunnar sem notuð er innan sambandsins. Horfur eru á að þessi þróun muni halda áfram; að hlutfall innfluttu orkunnar hjá ESB eigi enn eftir að aukast. Þetta kemur ekki síst til af því hversu olíu- og gaslindirnar í Norðursjó eru að tæmast hratt. Þó svo kreppan hafi að vísu hægt aðeins á innflutningsþörfinni er ekkert annað í spilunum en að ESB þurfi i framtíðinni í æ meiri mæli að mæta bæði raforkuþörf sinni og eldsneytisþörf með innflutningi.
Þetta er það umhverfi sem nú ríkir í næsta nágrenni okkar. ESB leitar logandi ljósi að leiðum til að vingast við nágranna sína til að tryggja frá þeim orkuframboð í framtíðinni. Þess vegna er ESB nú t.d. farið að horfa til þess að taka þátt í að reisa rándýr sólarorkuver í N-Afríku. Og leggur höfuðáherslu á að byggð verði ný ofur-gasleiðsla (Nabucco) sem tengi ESB við gasríkin í Mið-Asíu. Allt gengur þetta þó mjög hægt og fyrir vikið eru vesalings framkvæmdastjórar sambandsins farnir að rugla um "meiriháttar tækifæri" aðildarríkjanna í virkjun sjávarorku - tækni sem er á fósturstigi og ómögulegt að segja hvernig muni þróast. Á maður að hlæja eða gráta?
Í reynd eru fáir raunverulegir góðir kostir í stöðunni fyrir ESB. En þeir eru þó til. Þess vegna er nú búið að leggja háspennustreng milli Noregs og Hollands. Og í undirbúningi að leggja annan slíkan streng milli landanna og líka verið að skoða það að leggja slíkan streng milli Noregs og Bretlands. Þarna er um að ræða þekkta tækni í formi mjög öflugra háspennustrengja - tækni sem veitir ESB aðgang að endurnýjanlegri raforku frá ríkjum sem eru þeim vinsamleg. Og verðið sem fæst í ESB fyrir raforkuna er vel að merkja margfalt á við það sem stóriðjan hér borgar.
Þar með er Orkubloggarinn ekki að tala fyrir því að hér eigi að reka álfyrirtækin á brott. Alls ekki. Bara það eitt að láta t.d. Búðarhálsinn og svo afgangsorku sem er í kerfinu malla inná svona streng þegar verðið er hátt (á álagstímum) myndi borga hann upp á undraskjótum tíma. Straumsvík, Norðurál og Fjarðarál þurfa bara að átta sig á því að þau fái ekki lengur orkuna á kostnaðarverði. Bloggarinn er þess fullviss að þessi fyrirtæki hafa öll borð fyrir báru til að greiða a.m.k. 50% hærra verð fyrir raforkuna en þau gera. Og þau myndu fljótt verða viljug til þess, þegar háspennustrengur væri kominn til Evrópu. Óskiljanlegt að ekki skuli vera komin af stað pólitísk umræða um þennan valkost.
Þó svo raforka frá Íslandi myndi auðvitað aldrei samsvara nema litlu broti af allri orkunotkuninni í ESB, er fráleitt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að kringumstæðurnar eru okkur afar hagstæðar. En í stað þess að nýta okkur þetta til að margfalda tekjurnar af raforkuframleiðslunni, eru sumir sem vilja barrrasta halda sig í gamla rassfarinu; selja raforkuna til þeirra sem þrífast á því að fá hana á verði sem ekki er hægt að kalla neitt annað en skít og kanil. Vonandi verður ekki meira klappað hér fyrir slíkum skelfilega gamaldags og stöðnuðum sjónarmiðum. Og vonandi fá hugmyndir um rafstreng frá Íslandi til Evrópu brátt öflugan stuðning hjá íslenskum stjórnmálamönnum og ríkisstjórninni. Sú strategía er hin eina rétta.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:31 | Facebook
Athugasemdir
Greinargott að vanda!
Mikið væri gaman að heyra rökstuðning þeirra sem eru andvígir þessari leið.
Hvað varðar SA og ASÍ þá er ég ekki viss um að rétt sé að leggja áherslu á þeirra "skelfilegu gamaldags og stöðnuðu sjónarmið", eins og þarna ráði ríkjum
íhalds- og afturhaldsseggir á heimsmælikvarða. Þarna er fyrst og fremst um að ræða vangetu fíkilsins til að bíða. Hann þarf skammtinn sinn strax, ef ekki þegar í gær, og heimtar í fráhvörfunum hvað sem hugsanlega getur komið honum út úr þeim, og spyr ekki um fórnarkostnaðinn. Ef atvinnuskapandi sæstrengur og virkjanaframkvæmdir væru í boði strax í fyrramálið, þá er ég viss um að Vilhjálmur og Gylfi yrðu fljótir að svissa yfir, jafnvel tilbúnir að kveðja álið fyrir fullt og allt. Gott að hafa það í hug að á bak við þá eru umbjóðendur í þúsunda tali sem eiga ekki fyrir skuldum og sjá sumir fram á gjaldþrot "ef hjólin fara ekki að snúast".
Magnús Jónsson (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 05:45
Frábær grein, þessi skoðun/hugmynd þarf að hald á lofti. Skora á þig að koma þér að hjá Agli Helga, hann er alveg örugglega áfjáður um að fá þig.
Eysteinn (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 08:58
Ansi áhugaverður pistill hjá þér. Það væri gaman að vita hversu langan tíma svona strengur væri að borga sig upp.
Hvað ætli þeir séu tilbúnir til að borga fyrir orkuna. Svo er það líka spurningin störf, þá á ég við hvað skilur þetta eftir mörg störf í landinu eftir að framkvæmdum líkur?
Ég tel að það sé mjög mikilvægt í þessu öllu saman.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 10:32
Möguleiki á svona rafstreng var athugaður snemma á tíunda áratugnum og svo aftur undir aldamótin, muni ég rétt. Þá var þetta ekki aðeins vafasamt tæknilega heldur einnig of dýrt. Síðan þá hefur tækninni fleygt fram og verð á raforku í ESB hækkað verulega. Fyrir vikið er það fyrst núna sem þetta er orðið svona borðleggjandi. Menn eru kannski bara ekki ennþá búnir að átta sig á því hvað þetta er brilljant kostur. En þeim mun mikilvægara er að orkufyrirtækin séu ekki að gera nýja langtímasamninga um raforkusölu á þeim ruslprís sem verið hefur. Ef menn hjá OR eru búnir að gera bindandi og fyrirvaralausan raforkusamning við Norðurál vegna Helguvíkur, er það alveg ferlegt. Sennilega væri þá besti kosturinn fyrir Norðurál að sleppa að byggja álver í Helguvík og leggja þess í stað streng og selja rafmagnið til Evrópu!
Ketill Sigurjónsson, 22.8.2010 kl. 10:36
"Síðan þá hefur tækninni fleygt fram og verð á raforku í ESB hækkað verulega"
Raforkuverd hefur i raun storlækkad sidustu misseri i Evropu og vid verdum lika i samkeppni vid LNG fra Qatar. I sambandi vid OR sem er hrædilegt , tha hefur peningastjornun Sedlabankans studlad ad helfor islenskra fyrirtækja.
grettirsterki (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 19:00
Ég er ansi hræddur um að sæstrengur til evrópu og þar af leiðandi íslensk þáttaka á evrópskum raforkumörkuðum myndi leiða til hærra raforkuverðs til almennings á Íslandi. Það væru jú aðrir til í að borga meira fyrir kW-stundina en þá upphæð sem almenningur á Íslandi gerir nú um stundir.
Einnig verður að hafa það í huga að virðisaukinn af raforkuframleiðsuna verður enginn, þ.e. engin ný störf eða útflutningsafurð verður til. Það má svo sem líta á orkuna sem útflutningsafurð, en virði hennar væri sennilega minna en þeirrar útflutningsafurðar sem framleidd væri hér á landi fyrir þá orku.
Það er svo annað mál hvort að Íslendingar mættu nú ekki fara að minnka við sig í orkunotkun. Hækkað verð til almennings vegna sæstrengs til Evrópu gæti leitt til minni orkunotkunar almennings á Íslandi. Þar af leiðandi væri hægt að selja meiri umframorku til evrópu og auka innflutningstekjur þjóðarbúsins.
Það eru að minnsta kosti nokkrar hliðar á þessu máli sem þarf að skoða.
Hjortur (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 19:06
grettirsterki (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 19:00; ég skal fyrstur manna viðurkenna vonleysi þess að reyna spá fyrir um framtíðina. En EF raforkuverð í norðvestanverðu meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum verður í framtíðinni í líkingu við það sem verið hefur síðustu árin, þá verður svona strengur mjög hagkvæmur. En þetta er vissulega óviss heimur!
Hugsun Orkubloggarans á bak við það að selja hluta af raforku framleiddri á Íslandi til Evrópu byggist vel að merkja annars vegar á því að slíkt "hvetji" álverin til að fallast á að greiða hærra verð og hins vegar að raforka héðan verði fyrst og fremst seld á spot-market þegar verðið fer hátt upp.
Vilji menn skoða hvað raforkuverðið er, er t.d. forvitnilegt að fylgajst með Nordpool Spot: http://www.nordpoolspot.com/
EEX líka skemmtilegur:
http://www.eex.com/en
Ketill Sigurjónsson, 22.8.2010 kl. 20:09
Hjortur (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 19:06 segir "Ég er ansi hræddur um að sæstrengur til evrópu og þar af leiðandi íslensk þáttaka á evrópskum raforkumörkuðum myndi leiða til hærra raforkuverðs til almennings á Íslandi."
Örugglega alveg hárrétt. En á móti kemur meiri arður af raforkusölu Landsvirkjunar og OR, sem eru í eigu... almennings. Þetta yrði nettó-ávinningur fyrir þjóðfélagið.
Líka: "Einnig verður að hafa það í huga að virðisaukinn af raforkuframleiðsuna verður enginn, þ.e. engin ný störf eða útflutningsafurð verður til. Það má svo sem líta á orkuna sem útflutningsafurð, en virði hennar væri sennilega minna en þeirrar útflutningsafurðar sem framleidd væri hér á landi fyrir þá orku."
Ég er reyndar alls ekki sammála þessu. En ég er vel að merkja ekki að segja í færslunni að það eigi að loka álverunum. Bara ekki byggja fleiri.
Ketill Sigurjónsson, 22.8.2010 kl. 20:19
Most recently, the financial advisory and asset management firm, Lazard,calculated LCOE for various alternative and conventional electric generating technologies.With tax incentives included, it estimated geothermal LCOE between $0.042 and $0.069per kWh depending on technology employed (See Figures 20). An earlier 2005 studyconducted by the California Energy Commission estimated geothermal LCOE between $0.0 and $0.09 per kWh with PTCs added (See Table 6). Despite the high upfront cost and risk, geothermal installation costs are lower than nuclear, solar, small hydro, and selected biomass technologies.
http://www.nrel.gov/analysis/pdfs/46022.pdf
Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 20:51
Þakka bloggið
Nýrrar hugsunar er þörf í orkusölu.Íslendingar geta selt fiskafurðir á hærra verði en flestar þjóðir.Orkuveitan þarf að fara í nauðasamninga strax hraða endurskipulagningu og opna eignarhald í framhaldinu. Reykvíkingar áttu þess kost þegar hitaveitan var og hét að kostnaður við húshitun var afar hagstæð enda HR stjórnað með aðhaldi og framsýni. Legg til að lög verði sett um þak á gjaldskrár og orkuframboð til almennra nota á íslandi samkvæmt vísitölu frá 2003. Síðan má setja þessi fyrirtæki á markað með ákveðnum skylirðum
Huckabee, 22.8.2010 kl. 21:23
Jarðhitinn er skv. þessu base fyrir ódýrustu endurnýjanlega raforkuna. Sbr. líka Orkubloggið!: http://askja.blog.is/blog/askja/entry/1067025/
Athyglisvert að á sama tíma og NREL segir levelized cost jarðhitarafmagns vera 42-60 mills pr. kWst fá álverin hér þetta á 25 mills. Sanngjarnt?
Ketill Sigurjónsson, 22.8.2010 kl. 21:27
Ágætur pistill Ketill en ég er ekki alveg jafn jákvæður gagnvart þessari lausn og þú.
1. Mér fannst athyglisvert það sem forstjóri LV sagði um að selja rafmagn sem við hreinlega nýtum ekki inn á kerfið í Evrópu. Þ.e. þegar lítil notkun væri á rafmagni hérna heima gætum við selt það út þar sem við getum hvort sem er ekki geymt það. Ágæt lausn - en þar get ég þó ekki séð að björninn sé unninn því við gætum fengið það í bakið á okkur (sjá lið 3).
2. Því ég segi eins og Hjörtur, Ísland hefur verið í frumvinnslu í áratugi og selt t.d. óunninn fisk til útlanda sem síðan hefur verið fullunninn þar og því hefur raunverulegur gildisauki orðið til erlendis en ekki hérna. Við höfum verið að vinna í því að koma okkur út úr frumvinnsluhlutverkinu. Með því að selja rafmagnið beint út (þrátt fyrir að verðið sé gott og fari örugglega hækkandi til lengri tíma) þá erum við að selja störfin með. Erum við þá ekki að pissa í skóinn hjá okkur? Er orka+starf ekki verðmætari til lengri tíma en bara orka?
3. Önnur hlið á þessu er sú að þegar sá möguleiki er orðinn raunhæfur að selja rafmagnið inn á sameiginlegan markað í Evrópu, þ.e. þegar strengurinn er kominn, þá er það örugglega í andstöðu við EES að "niðurgreiða" verð til heimila hérna heima í stað þess að selja það beint inn á evrópskan orkumarkað. Ég er ekki lögfræðingur sérhæfður í Evrópurétti en þetta væri alla vega ekki skv. anda EES samningsins. Orkuverð til heimila er miklu hærra í Bretlandi og á meginlandi Evrópu en hérna á Íslandi og orka miklu hærri hluti ráðstöfunartekna. Þetta gæti orðið verulegt högg á íslenskan almenning.
4. Niðurstaða mín: Ég held því að það þurfi að hugsa þetta mál mjög verulega og víðtækt. Ég er ekki jafn sammála því að þetta sé borðleggjandi þjóðhagslega hagkvæmt þegar á hólminn er komið.
Ég er hins vegar algerlega sammála því að við þurfum að selja orkuna okkar miklu dýrar en hefur verið gert því eftirspurn eftir grænni orku eykst með hverju árinu sem líður og við eigum ekki að hika við að hafna tilboðum sem okkur finnast ekki nægilega há. Það munu koma fleiri á eftir, hvort sem það er í álvinnslu eða öðrum greinum. Persónulega finnst mér nóg komið af álvinnslu og ekki ástæða til að setja of mörg egg í sömu körfuna. Það er hins vegar önnur umræða.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 22.8.2010 kl. 21:27
Sigurður Viktor Úlfarsson, 22.8.2010 kl. 21:27;
1. Held að kostnaðurinn við streng sé fullmikill til að standa eingöngu undir útflutningi á umframorku. Þess vegna vil ég eyrnamerkja Búðarháls HVDC-strengnum.
2. Raforkuverð hér myndi hækka )sbr. nr. 3). En ég er búinn að reikna það út að það yrði nettó-hagnaður af þessu fyrir þjóðfélagið. Og ég er ekki einn um að hafa komist að þeirri niðurstöðu. Skórinn er þurr!
3. Sammála. Sbr. nr.2.
4. Sammála. Þetta þarf mjög vandaðan undirbúning! Mínar stundum kærileysislega hljómandi blogg-færslur eru fyrst og fremst til að vekja menn til umhugsunar um tækifærin. En ég vanda undirbúninginn að þessum færslum og fullyrði að öllu jöfnu ekki neitt nema hafa góð gögn að styðjast við. Sem ég get lagt fram ef ég álít tilefni til.
Ketill Sigurjónsson, 22.8.2010 kl. 21:36
Að, altso, þegar maður fer inná linkinn ,,jafnvel ódýrari en hjá vanþróuðum þjóðum Afríku" í pistli, rekst maður á stöplarit frá einhverri stofnun um rekstrarkostnað álvera sýnist mér, orka, vinnuafl, carbon etc etc. - að þá sýnist manni í fyrstu að orkan sé svipuð og í Kanada.
Það er eiginlega annað sem maður rekur líka auga í í tilfelli Íslands. það er guli kubburinn. Labour. Hann er pínulítill! (annars þarf eg að skoða betur)
Þar fyrir utan er þetta örugglega rétt hjá þér að pólitíkusar hafa horft til svona ekki endilega arðsemi heldur atvinnuuppbyggingar og síns kjördæmis eftir atvikum. Svona pólitískt mótíveraðir eins og eigi er óþekkt á íslandi í gegnum tíðina.
Varðandi sölu til Evrópu, þá verðum við að skoða það. Er þetta ekki enn samt svo ófullkomið? Einhversstaðar sá eg að svo og svo mikið orkutap yrði á leiðinni. Man ekki alveg, talað um helming? Nei andsk. getur ekki verið. Minnir það samt. Allavega ótrúlega mikið. En kannski er tæknin orðin enn betri. Við skoðum þetta bara.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.8.2010 kl. 21:58
Nei nei. Hvaða vitleysa. Ekkert helmingur. Mestalagi 10-20% - og þá með gamla laginu.
Ný tækni að ryðja sér til rúms þar sem enn minna orkutap er. Og hvað? Þegar ,,under construction" á íslandi til uk! Það er rífandi gangur.
http://en.wikipedia.org/wiki/High-voltage_direct_current
Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.8.2010 kl. 22:49
Raforkutapið á streng milli Íslands og Evrópu yrði vissulega umtalsvert. Takmarka má raforkutapið með því að hækka spennuna. Framleiðendur telja góðar líkur á því að senn verði komnir 800 kV HVDC neðansjávarkaplar þar sem raforkutapið verði a.m.k. þriðjungi minna en hjá NorNed. Raforkutapið í streng milli Íslands og Evrópu yrði þá sennilega um 5%. Þessi tala er þó óviss.
Ketill Sigurjónsson, 22.8.2010 kl. 23:27
Þú segir það Ketill - búinn að reikna þetta út. Ég treysti því reyndar alveg að þeir útreikningar séu vandaðir. Ég er samt töluvert "skeptískur" gagnvart svona frumvinnslu yfirhöfuð. Við megum eiga ansi mikið til af störfum til að það sé þess virði að flytja þau svona út.
Það gæti hins vegar eins og þú segir verið raunhæft að tappa af eins og einni virkjun út á þetta kerfi og ná þannig að bæta nýtinguna á núverandi kerfi með því að selja umframrafmagnið þarna út þangað til við næðum að fullnýta það betur hérna innanlands.
Ef hins vegar djúpborunarverkefnið gengur, sem kemur í ljós eftir 10-15 ár eða svo, með allt að tíföldun þeirrar orku sem kemur úr hverri holu, þá munum við líklega eiga meiri orku en við getum sjálf notað. Það gæti stutt við þessar hugmyndir þínar...ef verkefnið gengur upp.
Það er ennþá pínuraki í skónum held ég. Kannski þornar hann...kannski. ;o)
Takk fyrir góða pistla.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 22.8.2010 kl. 23:35
Maður gæti ímyndað sér að rétt þrjuhundruðþúsund manna samfélag ætti að geta lifað sómasamlegu lífi af auðlindum sínum, ss físki og orku og vatni. Auk alls annars. Skattfrítt. Ef ég væri ríkur, eins og Fiðlarinn á þakinu söng, myndi ég kaupa hólmann með húð og hári. Og vera á undan þjóðverjunum, sem apro pro fá Hólmann ókeypis, Ekki nóg með það íslendingar verða að borga með honum. Alaskabúar lifa af orkunni sinni, olíunni. Hver einstaklingur fær borgaða álitlega upphæð árlega. Og ekki eru skattarnir að drepa þa. Islendingar ættu að taka sér til fyrirmyndar menn eins og Paul Allen og Bill Gates, Microsoft menn. Svo er tölvurisinn Google orðinn 100 sinnum stærri en bílfyrirtækin í Bandaríkjunum. Tekur þó ekkert gjald fyrir þjónustu sína.
Loks Ketill, þú ert einstakur í skrifum þínum. Betur ef menn hlustuðu á þig. Eitt stórmál vil ég þó minnast á.
Það er ´olía Islands´ vatnið. Oscar Wilde sagði fyrir löngu
síðan að vatn myndi verð dýrara en Whiskey. Hann hefur reynst sannspar. Hver hefði trúað því að vatn myndi verða dýrara en bensín á bílinn þinn. En sú er orðin raunin.
Vatnsátöppun er nú sú atvinnugrein sem eykst mest í heiminum. Ekki að furða. Vatnið er hreinlega að þurkast upp.
Vatnsból heimsins eru orðin meira og minna menguð. Vatnskortur er alvarlegasta vandamál heimsins í dag. Og þá er mikið sagt.
Eg kom nálægt þessum málum fyrir nokkrum árum. Eg var með áform um útflutning á isjaka-vatni frá Grænlandi. Verkið var stutt af Vestnorræna sjóðnum og Grönlandsbanken svo og fleiri aðilum frá Danmörku, svo sem Carlsberg og Tetra Pak.
Verkefnið var áhugavert, en kannske á undan tímanum. Nema hvað, þegar allt virtist vera orðið klappað og klárt til að hefjast handa, ákvað Heimastjórnin Grænlenska að leggja ekki blessun sína yfir verkið.
Norræni sjóðurinn vildi þó ekki gefast upp við svo búið. Mér var boðið til Islands og Færeyja til að halda verkinu afram.
Samstarf við sjóðinn datt þó fljótlega uppaf. Engin framtíð í vatni sögðu þeir. Byggðarstofnun fannst það heldur ekki góð hugmynd að gefa vatnið til þurfandi fátæklinga í fjarlægum vatnslausum löndum sem framlag Islands til þriðja heimsins.
Þá komu til skjalanna framsæknir menn í Texas, USA, annar þeirra islendingur, hinn lögfræðingur.Voru þeir að falast eftir vatni frá Islandi. Færustu menn. Jú eg gerði samkomulag við tvö fyrirtæki islensk sem tappa vatni í flöskur, um að senda tvo gáma af islensku vatni sem sýnishorn, til eins stærsta nylenduvöruafyrirtækis heims, í Texas, sem þessir menn fóru í umboði.
Tveir gámar voru sendir. Sendingunni var vel tekið og mikill áhugi fyrir frekari viðskiptum. Þá vildi svo illa til að þessi íslensku fyrirtæki höfðu sínar hugmyndir um hvernig viðskiptum skyldi háttað. Af þeirra hálfu var ekkert til fyrirstöðu að afgreiða vatnið frá sérstöku vöruhúsi í New York. Þeir myndu síðan útvega landflutninga á vatninu til Texas. En auðvitað þyrfti að borga aukalega fyrir þjónustuna. Verðið þyrfti líka að hækka, þar eð krafist var amerikiskt texta á vörumiðann .
Amerikanarnarir sögðu nei takk, höfðu aldrei heyrt annað eins. Þeirra áætlanir gerðu ráð fyrir flutningi á vatninu til Mið-austurlanda, annarsvegar með flugi ameriska hersins svo frá Keflavikurflugvelli og eiinig sjóflutningum frá Hafnarfirði. Þannig fór um sjóferð þá. Að lokum, allt tal um mikinn flutningskostnað frá Islandi er hljóm eitt. Vatnsfyrirtækið myndi eiga sin eigin skip, eða þá njóta aðstoðar Færeyinga.
Eins og ég segi, er vatnið sú tæra lind sem er meira verðmæti en allt annað á Islandi.
Björn Emilsson, 23.8.2010 kl. 01:02
Margt áhugavert kemur fram í þessari umræðu, sem sannar enn einu sinni að gott blogg kallar á góðar athugasemdir.
En hvað um kostnaðinn? Er þetta fjárhagslega raunhæft? Ég hef séð tölur frá 150 til 300 milljarða. Fer væntanlega eftir því hversu langur strengurinn yrði. En jafnvel 150 eru ekki til og fást varla á hagstæðum kjörum í dag hvað þá eftir ár eða tvö.
Er hugsanlegt að verðandi kaupendur kæmu að þessu verkefni, annað hvort sem eigendur að strengnum að hluta eða sem lánveitendur gegn góðum kjörum í ákveðinn tíma?
Magnús Jónsson (IP-tala skráð) 23.8.2010 kl. 02:37
Vid getum ekki byggt strenginn , vid verdum ad fa erlenda fjarfesta. Thad sem gleymist stundum, en vid getum lika flutt inn orku. Verd a rafmagni getur ordid td. i Thyskalandi vid akvædnar adstædur.
Nyjustu frettir hja OR ,vid ætlum ad hækka med tveggja stafa tolu. Menn eru ad rannsaka bankanna, lifeyridssjodina,sveitarfelogin og osv. Thad er svo sem ekkert ad rannsaka thetta, menn hafa i raun ekki skilid ahættuna sem their toku. Afhverju er buid ad vera svo mikill feluleikur med OR i 2 ar ?
grettirsterki (IP-tala skráð) 23.8.2010 kl. 09:55
Magnús Jónsson (IP-tala skráð) 23.8.2010 kl. 02:37; efri mörkin hjá þér eru fjarri lagi.
Þetta myndi gerast t.d. með því að íslensku orkufyrirtækin og jafnvel líka Landsnet ættu í strengnum ásamt a.m.k. einum öflugum raforkuseljanda í Evrópu. Til hliðsjónar má benda á að NorNed er í eigu norska Statnett og hollenska TenneT (hvort tveggja ríkisfyrirtæki).
Ketill Sigurjónsson, 23.8.2010 kl. 10:47
Góður pistill hjá þér Ketill sem sýnir ýmsa aðra möguleika á því að nýta orkuna sem best. það er getur verið meira vit að selja umframorku ódýrt en að gera risasamninga upp á áratuga framtíð og eiga svo ekki aðgang að orku sjálfir ef þarf.
Gunnar Sigfusson (IP-tala skráð) 23.8.2010 kl. 12:06
Sæll aftur, þú segir í einu svari þínu:
"Raforkuverð hér [til almennings] myndi hækka .... En ég er búinn að reikna það út að það yrði nettó-hagnaður af þessu fyrir þjóðfélagið."
Væri ekki hægt að beita sömu rökum fyrir skattahækkunum? Almenningur hefur minna milli handanna, en ríkisjóður fær meira - ergó nettó-hagnaður fyrir þjóðfélagið?
Það að segja að hærra verð fyrir rafmagn er sé í lagi vegna þess að þjóðfélagið/ríkið græði á því, er eins og að segja að hækkun skatta sé í lagi vegna þess að þjóðfélagið/ríkið græði á því.
Hjörtur (IP-tala skráð) 24.8.2010 kl. 10:44
Fyrirgefðu Ketill, ég skil ekki þessa endurteknu umræðu um orkuflutning um sæstreng frá Íslandi til Evrópu, og hef áður gert athugasemdir við þessa óraunsæu hugmynd.
Sæstrengur frá íslandi til Evrópu yrði mun lengri (ca helmingi) en lengsti strengur sem lagður hefur verið.
Ég hef séð upplýsingar frá Iðnaðarráðuneytinu að tap í streng frá Íslandi til Þýskalands sé ca 11%, síðan má reikna með tapi í breytistöðvum í sinn hvorn enda á strengnum (AC/DC-breyti og DC/AC-breyti - raforkan er flutt í strengnum sem jafnstraumur). Það er ekki ósennilegt að samanlagt tap sé á milli 20 til 30% frá framleiðanda til kaupanda.
Kosnaður við framkvæmdir til að flytja orkuna þessa löngu vegalengd ( ca. 1800 Km) er sá sami og að byggja orkuver til að framleiða þá orku sem á að flytja.
500MW orkuframleiðsla sem er verið að tala um til útflutnings gæti skapað ansi mörg innlend störf ef orkan væri notuð fyrir innlend fyrirtæki.
Að framansögðu þá þyrfti verðið fyrir orkusölu um sæstreng að vera meiri en tvöflat hærri en meðalverð á orkusölu innanlands til að borga upp strenginn og tapið í orkuflutningnum, og að auki myndi notkunin innanlands skapa mun fleiri störf. Hagkvæmni orkunotkunar innan lands mun alltaf vera meiri en til notkunar með orkuflutningi um sæstreng til Evrópu.
Ef það er hægt að fá tvöfalt hærra verð fyrir orkuna um sæstreng til Evrópu, þá er orkuverð selt á undirverði á Íslandi eins og þú hefur sjálfur gefið í skyn og ætti því orkuverð á Íslandi að hækka umtalsvert
Á tíu ára fresti fer af stað umræða um flutning orku um sæstreng til þess að skapa fyrirtækjum vinnu við athugun og skýrslugerð, og síðan kemur alltaf sama niðurstaðan að þetta borgar sig ekki.
Hvernig væri að dusta rykið af þessum eldri skýrslum og skoða niðurstöður áður en farið er af stað með nýjar rannsóknir? Hvað hefur breyst á 10 árum?
Með kveðju,
Garðar Garðarsson
Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 15:35
Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 15:35; það sem hefur breyst síðan þetta var athugað síðast er að raforkuverð hefur hækkað umtalsvert í NV-Evrópu. Einnig góð reynsla af NorNed strengnum. Loks eru horfur á að brátt verði tæknin það þróuð að spennan verði 800 kV. Og þar með minna raforkutap. Unnt væri að gera þetta án þess að hrófla við raforkuframboði til núverandi álvera. En líklegt er að strengurinn myndi leiða til þess að þegar raforkusölusamningarnir kæmu til endurskoðunar, myndu álverin sættast á miklu hærra verð.
Ketill Sigurjónsson, 26.8.2010 kl. 16:15
Sæll Ketill.
Ef orkuverð í Evrópu hefur hækkað svo mikið síðustu árin þá ætti verðið hér að fylgjast að gagnvart stóriðju og öðrum orkufrekum iðnaði sem hér vill koma, og ef það hefur ekki gerst þá þarf að breyta því.
Þú munt aldrei ná tapinu í flutningi orkunnar það mikið niður að þetta borgi sig. Og ef þú getur minnkað orkutapið með því að hækka spennuna inn á sæstrenginn upp úr öllu valdi, þá mun sá strengur verða mun dýrari en sá strengur sem hægt er að framleiða í dag, og aukinn framleiðslukosnaður þess strengs myndi verða margfallt meiri en það sem sparaðist í orkuflutninginum.
Auk þess sem ekki má gleyma því að það er betra að nýta orkuna hér á landi til þess að búa til verðmætar vörur til útflutnings og um leið fleiri störf sem mun gefa af sé skatta, og mynda þannig verðmæti fyrir okkur sem annars færi til útlanda.
Þessi hugsun þín og annara sem vilja flytja orkuna út um sæstreng er í stíl við þróunarlönd sem flyta út óunnin hráefni í stað þess að reyna að fullnýta hráefnið, eða í það minnsta að vinna það að stórum hluta. Við Íslendingar höfum gert þessa vitleysu í gegnum árin með fiskinn, en erum svo smátt að skilja nauðsyn þess að vinna hann sem mest hér á landi áður en við flytjum hann út.
Með kveðju.
Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 17:34
Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 17:34 segir: "Þessi hugsun þín og annara sem vilja flytja orkuna út um sæstreng er í stíl við þróunarlönd sem flyta út óunnin hráefni í stað þess að reyna að fullnýta hráefnið, eða í það minnsta að vinna það að stórum hluta".
Þetta finnst mér algerlega fráleitur málflutningur. Menn þurfa að skilja að hér er yfirgnæfandi hluti raforkunnar seldur til stóriðju og það á skelfilega lágu verði. Það sem við þurfum, er að brjótast út úr þróunarríkja-spennutreyjunni sem við erum í.
Rfaorkusamningarnir eru til langs tíma, en með endurskoðunarákvæðum. Þegar t.d. kemur að því að Alcoa-samningurinn vegna 690 MW Kárahnjúkavirkjunar (sem er til 40 ára og sennilega með endurskoðunarákvæði eftir 10 ár) kemur til endurskoðunar, hvað á þá Landsvirkjun að segja? Alcoa vill auðvitað áfram fá rafmagnið á gjafverði. Landsvirkjun segist vilja fá 50% hærra verð. Alcoa segir nei. Og bætir því við að ef Landsvirkjun semji ekki á svipuðum nótum áfram verði álverinu pakkað niður og flutt til Katar. Eða Kólaskagans. Landsvirkjun sæti þá uppi með kannski 120 milljarða króna skuld vegna Kárahnjúkavirkjunar og engan kaupanda að raforkunni. Hvers konar samningsstaða er það að hafa enga aðra leið til að selja alla þessa gríðarlegu raforku? Augljóslega mun stóriðjan alltaf hafa betur í slíkri aðstöðu.
Ef kapall væri fyrir hendi væri samningsstaða orkufyrirtækjanna miklu sterkari. Og orðið raunhæft að ná fram umtalsverðri hækkun á raforkuverði. Kannski ekki 50% strax. En alveg öruggleg umtalsverðri hækkun. Kapallinn myndi nýtast til að selja umframorku til Evrópu, sem annars fer að verulegu leyti til ónýtis. Og kapallinn væri líka til taks til að styrkja samningsstöðuna gagnvart stóriðjunni. Loks mætti bæta við virkjunum til að selja meira rafmagn um kapalinn. Þetta er strategía sem er algerlega nauðsynleg til að arðsemin af virkjununum verði eðlileg. Hugsunin er ekki sú að henda stóriðjunni úr landi. Heldur að stefna að fjölbreyttari kúnnahópi fyrir raforkuna og bæta arðsemina af núverandi orkuframleðlu. Halda menn í alvöru að það sé eitthvert vit í því að halda áfram að virkja hér fyrir álbræðslur? Bæta kannski 1.400 MW við bara handa áliðnaðinum? Við yrðum algerlega á valdi álfyrirtækjanna. Þá fyrst væri Ísland orðið eins og nýlenda eða þróunarríki!
Ketill Sigurjónsson, 26.8.2010 kl. 18:00
Ketill.
Þú gerir mér nánast upp skoðanir og færir rök gegn því sem ég segi með því að fara að ræða fáránlega stóriðjustefnu síðustu ára.
Ég er þeirrar skoðunar að við höfum hingað til selt álverum orkuna á alltof lágu verði og einnig er alltof stór hluti orkunnar seldur til álframleiðslu og þar með nánast öll eggin höfð í sömu körfu. Það er rétt að það vantar fjölbreytni. Lausnin er ekki að selja orkuna til útlanda, því dæmið er alltof dýrt og óraunhæft. Það á að nota orkuna hér innanlands og leyfa innlendum fyrirtækjum að njóta þess að að orkan getur verið hér eitthvað ódýrari en í nágrannalöndunum án þess þó að orkuverin séu rekin með tapi, heldur með eðlilegum hagnaði eins og tíðkaðist hér áður fyrr. Þetta myndi auka samkeppnisgetu okkar fyrirtækja, jafnt fyrirtækja í útflutningi sem og fyrirtækja sem keppa við innflutning.
Við hegðum okkur einmitt svipað og þróunarlöndin hvað varðar álið með því að senda það nánast allt út óunnið, í stað þess að framleiða úr hluta þess og búa til fleiri störf og verðmæti.
Miðað við rök þín Ketill þá ætlar þú að bæta fyrir ranga stóriðjupólitík með því að byggja 500 MW orkuver og síðan kosta til álíka miklum fjármunum til að leggja sæstreng og það kostar að byggja orkuverið, og síðan að flytja þessa orku út og þá væntanlega á meira en 50% hærra verði en hér fæst fyrir þessa miklu orku til að dæmið gangi upp. Og einnig myndir þú sætta þig við að fórna öllum þeim störfum sem hægt væri að skapa ef orkan væri nýtt hér heima fyrir og þeim skattpening sem því hefði fylgt.
Ketill þú verður að fyrirgefa, ég get ekki séð glóruna í þessu dæmi.
Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 22:00
Garðar - kannski sjáum við hvorgur glóruna í því sem hinn segir. Þú segist vera þeirrar skoðunar að við höfum hingað til selt álverum orkuna á alltof lágu verði og einnig sé alltof stór hluti orkunnar seldur til álframleiðslu og þar með nánast öll eggin höfð í sömu körfu. Hafðu í huga að áframhaldandi bygging álvera hér á landi mun einmitt festa þetta enn frekar í sessi. Ef þú vilt að þetta breytist og að hærra verð fáist fyrir raforkuna, get ég fullvissað þig um það að til þess er einungis ein leið: Rafstrengur til Evrópu. Álverin eru þvílíkir stórnotendur að þú getur aldrei selt allt þetta rafmagn til annarra hér á landi. Og eina leiðin til að fá álverin til að borga meira er að þau standi frammi fyrir raunverulegri samkeppni um orkuna. Rafstrengurinn býr til slíka samkeppni.
Það má rífast endalaust um hvort það yrði hagkvæmt eður ei að leggja svona steng. Að sjálfsögðu yrði aldrei ráðist í svona framkvæmd nema það borgi sig. Ég er sannfærður um að tölurnar hér á blaðsnifsinu hjá mér séu skotheldar. Þetta borgar sig.
Ketill Sigurjónsson, 26.8.2010 kl. 22:31
Fyrirgefðu Ketill. Útflutningur orku um sæstreng krefst þess að það þarf að selja orkuna á meira en 100% hærra verði en hún myndi kosta fyrir innlendan markað til að dæmið gangi upp. Ég sagði ranglega 50% hér að ofan, en var búinn að nefna réttilega tvöfallt verð í fyrri athugasemd.
Með kveðju.
Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 22:37
Ketill, þú gerir mér enn upp skoðanir. Hver talar um að segja upp samningum við álverin, og það öll á einu bretti?
Ef þú ert með reiknað dæmi sem gengur upp, þá sýndu það.
Ég er búinn að færa rök fyrir því með einföldu dæmi að orkan til útflutnings um sæstreng þarf að kosta meira en tvöfalt það verð sem orkan mun þurfa að kosta hér á landi, þar sem framleiðslukosnaður sæstrengs til að flytja út orku kostar það sama og virkjunin kostar til að framleiða þá sömu orku, og auk þess er 20 til 30% flutningstap frá framleiðanda hér heima til notanda í Evrópu.
Með kveðju.Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 23:09
Sæll Ketill,
Mér finnst þú hafa komið með sannfærandi rök fyrir rafstreng til útlanda, allavega ef þetta er rétt sem þú segir að flutningstapið yrði innan við 10%. Það er allt sem bendir til að orkuverð í heiminum eigi eftir að hækka töluvert á næstu árum og áratugum nema þá að kreppan í heiminum verði það slæm að eftirspurn eftir orku minnki mikið. Ál fyrirtækin eru komin með algert hreðjatak á íslensku orkufyrirtækjunum.
Ef rafstrengur verður ekki að veruleika er algerlega nauðsynlegt að fá aðra orkukaupendur en álver.
Páll F (IP-tala skráð) 27.8.2010 kl. 20:17
"...Og það þó svo hér fái álverin algerlega öruggt raforkuframboð, pólitískan stöðugleika og vel menntað vinnuafl í kaupbæti..."
Pólitískur stöðugleiki, já takk, hefur einhver orðið var við hann hér á landi undanfarið? Ég sé einungis ríkisstjórn þar sem hver höndin er upp á móti annarri. Ríkisstjórn þar sem sumir ráðherrar nota hvert tækifæri til að bregða fæti fyrir virkjun orku og stóriðjuframkvæmdir með hvort sem er löglegum eða ólöglegum hætti.
Þar fyrir utan berast fréttir af því að á Íslandi sé einna verst menntaða vinnuafl sem finna má í Evrópu.
Mér finnst að það verði að teljast býsna vel af sér vikið við þessar aðstæður að finna einhverja kaupendur að íslenskri orku, jafnvel á skítaverði, við þessar aðstæður.
Þó færa megi rök fyrir kostum þess að dreifa áhættu með því að selja til annarrar notkunar en álvera er þjóðarbúið í slíkri nauðvörn núna að það hefur ekki efni á að sleppa verkefni eins og Helguvík.
Finnur Hrafn Jónsson, 29.8.2010 kl. 14:22
Þótt ég sé LANGhrifnastur af að nyta orkuna sem til fellur á Íslandi til góðra verka hérlendis (m.ö.o að framleiða afleidd verðmæti) getur maður ekki annað en fallist á þessi sjónarmið.
Fáránlegt að reisa hér álver og gefa í þau orkuna í stað þess að leggja sæstreng til ESB eða USA og moka pening inn án nokkurra hundakúnsta og mengunar eins og álverin útheimta. Þetta er fáááráááánlegt.
Rúnar Þór Þórarinsson, 1.9.2010 kl. 02:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.