29.8.2010 | 00:03
Blikur á lofti í orkuframtíð ESB
Það er þetta með Evrópusambandið.
Um það leyti sem Orkubloggarinn útskrifaðist úr lagadeildinni fyrir... fyrir svo ótrúlega mörgum árum, var bloggarinn sannfærður um ágæti þess að Ísland yrði aðili að ESB. Taldi ESB eiga svo mikla framtíðarmöguleika, að það væri eiginlega alveg borðleggjandi að leita eftir aðild að sambandinu.
Þetta var vorið 1991.Og bloggarinn er reyndar ennþá svolítið spenntur fyrir Evrópusambandinu. En ekki verður framhjá þvi litið að ESB stendur nú frammi fyrir miklum vanda í orkumálum, sem kann að veikja mjög stöðu sambandsins til framtíðar. Þar er Orkubloggarinn að vísa til vatnaskilanna sem urðu árið 2004 í efnahagssögu ESB. Árið 2004 var nefnilega fyrsta árið í sögunni sem ESB fékk meira en helminginn af orku sinni frá innfluttum orkugjöfum.
Í dag er hlutfall innfluttrar orku hjá ESB um 54% og flest bendir til þess að hlutfall innfluttrar orku muni vaxa á næstu árum (þó svo kreppan hafi nú aðeins slakað á orkuþörfinni - tímabundið). ESB er sem sagt að verða æ háðara öðrum um orku. Það á bæði við um olíu á samgöngutækin og gas til raforkuframleiðslu og annarra daglegra nota.
Nú framleiða einungis 9 af aðildarríkjunum 27 svo mikla orku að það fullnægi meira en helmingi af orkuþörf viðkomandi landa. M.ö.o. þá þurfa 18 aðildarríkja ESB að flytja inn meiri orku en þau framleiða (hér er átt við alla orku; alla raforku, eldsneyti til raforkuframleiðslu og olíuafurðir á samgöngutækin). Og það sem enn verra er; í hópi hinna 18 ríkja sem eru rauðu megin við strikið eru nefnilega nær öll fjölmennustu löndin innan sambandsins. Nær allar fjölmennustu þjóðirnar - Frakkar, Ítalir, Spánverjar og Þjóðverjar - þurfa að flytja inn meira en helming orkunnar.
Af stóru þjóðunum er staða Ítala verst. Ítalía flytur inn hátt í 90% af allri orku sem notuð er í landinu! Spánverjar flytja inn meira en 80% og Þjóðverjar rúmlega 60%. Frakkar eru nánast á pari (50/50) þrátt fyrir öll kjarnorkuverin sín, en ekkert land framleiðir jafn mikið af rafmagni með kjarnorku eins og Frakkland.
Sjá má hlutfall innfluttrar orku hjá hverju aðildarríkjanna í töflunni hér að ofan. Einungis eitt af aðildarríkjum ESB framleiðir meiri orku en það notar. Það er Danmörk! Og sem fyrr sagði þá flytur ESB nú inn um 54% af allri sinni orku. Hlutfallið væri ennþá svartara (hærra) ef ekki vildi svo vel að eitt fjölmennasta landið innan ESB - Bretland - er ennþá gríðarlegur orkuframleiðandi.
Bretar fullnægja enn um 80% af orkuþörf sinni með eigin framleiðslu. Það geta þeir þakkað miklum kolanámum og gríðarlegum olíu- og gasauðlindunum í Norðursjó. Pólland er annað afar fjölmennt ríki sem er nokkuð vel sett með orkulindir. En það er vel að merkja nær eingöngu að þakka geggjuðum kolanámum landsins.
Stóra vandamálið er að á næstu árum mun staða Breta að öllum líkindum versna til muna. Allt frá 1980 hefur kolavinnsla í Bretlandi farið hnignandi og Bretar sífellt þurft að flytja meira inn af kolum. Olíu- og gasvinnslan innan breskrar lögsögu hélt þó áfram að vaxa enn um sinn, eftir að kolaframleiðslan hafði toppað. Þess vegna var einfalt mál að nota gasið sem orkugjafa í rafmagnsframleiðslunni og kom ekki að sök þó kolin væru farin að minnka.Fyrir vikið jókst hlutfall gass í raforkubúskapnum í réttu hlutfalli við það sem dró úr vægi kolanna.
En svo kom að því um aldamótin að einnig gasframleiðslan náði hámarki og síðustu tíu árin hefur bæði olíu- og gasframleiðsla Breta minnkað verulega. Í olíuvinnslunni hefur þetta gerst nánast með með ógnarhraða, en gasframleiðslan hefur ekki fallið alveg jafn hratt. En fer þó einnig hnignandi.
Nú eru að vísu vonir um að nýjar olíulindir finnist djúpt úti af Skotlandi. Samt sem áður er líklegast að Bretar hafa náð bæði Peak Oil og Peak Gas. Og næsta víst að innflutningsþörf Breta á olíu og gasi mun aukast jafnt og þétt á komandi árum. Í þessu sambandi er líka athyglisvert að Bretland er það land Evrópusambandsins, sem á lengst í land með að ná markmiðum um að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Einmitt þess vegna eru frábær tækifæri fólgin í því að Ísland bjóði Bretum raforku - á marföldu verði miðað við hvað stóriðjan hér er að borga. En það mun ekki breyta því að senn fer Bretland sömu leið og hin stóru Evrópusambandsríkin. Uns Bretland verður heldur ekki orkusjálfstætt.
Talandi um endurnýjanlega orku frá Íslandi, er ekki hægt að sleppa að nefna þá svakalegu staðreynd, að sá orkugjafi sem framleiðir hæsta hlutfallið af öllu rafmagninu innan ESB er sá Svarti sjálfur: Kol! Þar að auki nýtur evrópski kolaiðnaðurinn massífra niðurgreiðslna og ríkisstyrkja - þó meira sé talað um háleit markmið ESB í grænni orku. Evrópusambandið er m.ö.o. kolsvart og líka sífellt að verða öðrum háðara um gas og olíu.
Já - lindirnar í Evrópu eru smám saman að tæmast og spurningin bara hversu langan tíma það tekur. Líklegt er að orkusjálfstæði Breta mun minnka nokkuð hratt á næstu árum og þar með syrtir enn í álinn fyrir orkubúskap ESB. Jafnvel þó svo jafnvægi kunni að vera að komast á í orkunotkun margra ESB-ríkjanna (þ.e. að orkunotkunin haldi ekki áfram að vaxa eins og verið hefur fram til þessa), bendir allt til þess að bandalagið muni þurfa að flytja æ meira af orkunni inn. Enn sem komið er kemur stór hluti af þessari orku frá Norðmönnum, en flest bendir til þess að þörf ESB fyrir bæði arabíska olíu og rússneskt gas fari nokkuð hratt vaxandi.
Það að þurfa að flytja inn mikið af raforku eða orkugjöfum þarf sossum ekki að vera áhyggjuefni. A.m.k. ekki ef framboð af orku er nóg og verðið lágt. Vandamál Evrópu er aftur móti það, að álfan er mjög háð afar fáum orkubirgjum. Þar eru stærstu bitarnir olía og gas frá Noregi, olía frá Persaflóanum, olía og gas frá Rússlandi og gas frá Alsír og Katar. ESB fær sem sagt gríðarlega stóran hluta af allri sinni olíu og gasi frá einungis örfáum ríkjum. Þar eru Rússar langstærstir. Sérstaklega er þó athyglisvert að einungis einn af stóru olíu- og gasbirgjum ESB getur talist vera þeim viðunandi vinsamlegur. Nefnilega Noregur.
Já- í reynd er Noregur eini vinsamlegi orkuvinur Evrópu. En jafnvel þó svo Norðmenn nái að viðhalda gasframleiðslu sinni eða jafnvel auka hana eitthvað á næstu árum, er augljóst að ESB þarf að fá sífellt meira gas frá löndum eins og Rússlandi, Alsír, Líbýu og Katar. Jafnvel þó svo við myndum líta á gasviðskipti ESB og Rússa sem gagnkvæma hagsmuni þar sem allt er í góðu, þá eru margir sem telja að olíu- og gasframleiðsla Rússa sé búin að ná toppi og muni héðan í frá fara hnignandi. Það er m.ö.o. alls ekki víst að Rússar geti mætt innflutningsþörf ESB með þeim hætti sem nauðsynlegt er til að gasverðið rjúki ekki upp. Þess vegna horfa Evrópuþjóðirnar nú til tækifæra til að fá aðgang að nýjum olíu- og gaslindum. Og þar er einkum horft annars vegar til Mið-Asíuríkjanna við Kaspíahafið og hins vegar til Íraks.
Þess vegna hefur ESB undanfarin ár róið öllum árum að því að fá lagða nýja gasleiðslu sem tengi sambandið við gasveldin við Kaspíahaf. Hugsunin er líka sú að í framtíðinni geti leiðslan sú tengst annarri leiðslu sem myndi liggja frá Írak og jafnvel annarri leiðslu frá Íran. Þessi þýðingarmikla gasleiðsla, sem tengja á Evrópu við Kaspíahafsríkin og verða lykill að framtíðartengingu við Írak, er kölluð Nabucco.
Því miður kæra Rússar sig ekkert um að ESB leggi olíu- eða gasleiðslur beint austur eftir Tyrklandi og til Kaspíahafslandanna. Rússar vilja fá sem mest af þeirri olíu og þó sérstaklega gasinu, eftir leiðslum inn til Rússlands. Svo þeir geti flutt það áfram til ESB, tekið gjald fyrir og þar að auki haft þannig sterkara tangarhald á orkunni sem berst ESB. Og vegna sterkra pólitískra tengsla við Kaspíahafsríkin er eins víst að Rússum muni verða ágengt í að ná fram þessari stefnu sinni.
Í þessum tilgangi hafa Rússar undirbúið lagningu mikillar gasleiðslu beint frá Rússlandi og til ESB, eftir botni Svartahafsins. Sú leiðsla er kölluð South Stream og undanfarið hefur átt sér stað mikið kapphlaup um það hvort Nabucco eða South Stream muni hafa vinninginn. Nú síðast varð ESB fyrir því áfalli að sjálfur Obama Bandaríkjaforseti lýsti yfir stuðningi við lagningu South Stream. Og veikti þar með enn frekar vonir ESB um að Nabucco líti dagsins ljós. Á Evrópa öngvan vin lengur?
Þar að auki þarf ESB líka að horfast í augu við að undanfarin ár hafa Kínverjar verið öflugir við að styrkja tengsl sín við gasríkin á austurströnd Kaspíahafsins. Landa eins og Kazakhstan, Túrkmenistan og Úsbekistan. Kínverjarnir hafa látið athafnir fylgja orðum og eru nú þegar búnir að leggja leiðslur frá Kína og þarna vestur eftir. Það er því margt sem bendir til þess að Kaspíahafsgasið muni fyrst og fremst streyma til Kína og Rússlands, en að Evrópa fái lítinn beinan aðgang að þeim miklu auðlindum.
Nei- það blæs ekki byrlega þessa dagana í að tryggja ESB orku til framtíðar. Enda eru framkvæmdastjórarnir hjá ESB orðnir svo skelfilega ringlaðir að þeir eru farnir að tala um að orka frá öldu- og sjávarfallavirkjunum og lífmassa hafsins muni leysa orkuvandamál Evrópu. Þá fyrst er ástandið orðið alvarlegt þegar framkvæmdastjórar ESB láta út úr sér svona dómadags vitleysu. Þó svo virkjun sjávarorku sé mikil snilldarhugmynd, þá er þetta tækni á algeru frumstigi og ómögulegt að segja hvenær hún kemst á eitthvert flug. Það á við um allar tegundir sjávarorkuvirkjana. Og það á ekki síður við um þá hugmynd að framleiða fljótandi lífrænt eldsneyti úr sjávarlífi (þörungum). Það er einfaldlega svo að á næstu áratugum og jafnvel alla 21. öldina mun enginn orkugjafi geta leyst olíu, gas, kol og kjarnorku af hólmi svo neinu nemur. Að tala um sjávarorku sem leið fyrir Evrópu að losna undan gashrammi Rússa eða að slíkt muni minnka olíuþorsta Evrópu er í besta falli kjánalegt.
Orkubloggarinn er orðinn þreyttur á þessari vitleysu. Framkvæmdastjórn ESB verður að taka sig á. Og skilja það að skynsamasta leiðin til að tryggja öruggt orkuframboð í Evrópu er að byrja eins og skot að leggja Nabucco leiðsluna austur til Azerbaijan, áður en Kínverjarnir verða komnir þangað með enn eina leiðsluna. ESB þarf líka að stuðla að nánara sambandi við olíu- og gaslöndin í Norður-Afríku; Egyptaland, Líbýu og Alsír. Byggja þangað tengingar og auka þaðan framboð af bæði olíu og gasi.
Síðast en ekki síst þarf ESB að horfast í augu við það að þeir sem ráða munu yfir æpandi olíu- og gaslindunum í Írak verða í algerri lykilstöðu i alþjóðastjórnmálum framtíðarinnar. Það kann að vera bæði dýrt og erfitt að vera með herlið í Írak, en að skilja landið eftir í höndum Bandaríkjamanna og láta þá sitja uppi með að leysa úr vandanum væri galin niðurstaða.
Til að svo tryggja orkusjálfstæði Evrópusambandsins þarf risaátak og nánast æpandi framsýni stjórnmálamanna. Sennilega er eina vitið fyrir ESB að fara strax að huga í alvöru að stækkun bandalagsins til bæði austurs og suðurs. Þá myndi Evrópa enn á ný þróast í þá átt að verða bandalag allra ríkjanna í kringum Miðjarðarhaf, þar sem kristnir menn, arabar og gyðingar geta lifað í sátt og samlyndi.
Mörgum kann að þykja slíkur samhugur trúarbragðanna vonlaus og þetta vera barnaleg draumsýn hjá bloggaranum. En í reynd eru öll þessi lönd fyrst og fremst byggð velmeinandi fólki. Það þarf einfaldlega að finna leiðir til að auka menntun og útrýma fátæktinni, sem þarna er svo víða að finna. Og þar með eyðileggja jarðveginn fyrir ofsatrúarhópana, sem þrífast á misskiptingu, vanþekkingu, fátækt og fordómum. Ef það tekst ekki, er hætt við að staðnað ESB Evrópulandanna einna, muni í framtíðinni enda sem orkulítill þurfalingur. Og verða peð í valdatafli orkustórveldanna Bandaríkjanna, Rússlands og Kína.
----------------------------------
PS: Myndin hér að ofan er úr bíómyndinni dásamlegu, Sumar í Goulette, sem gerist í Túnis rétt áður en sex daga stríðið skall á. Kvikmynd sem minnir okkur á hvernig stjórnmálaruglið við botn Miðjarðarhafsins hefur í meira en 40 ár mengað allt mannlíf á svæðinu. Dapurlegt.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Hvað með Mjallhvíti og gazleiðslu þaðan suður Noreg?
Kristján Sigurður Kristjánsson, 29.8.2010 kl. 01:39
Já - gasið frá Mjallhvíti er meðal þess sem hjálpar Norðmönnum við að auka enn framboð sitt af gasi á næstu árum. Sannkölluð risaframkvæmd. En hnignunin í gasframleiðslunni innan ESB er ennþá hraðari em aukningin hjá Norge. Þetta gas er reyndar það langt i norðri að gasið er flutt fljótandi í tankskipum, en ekki með leiðslum:
http://askja.blog.is/blog/askja/entry/692402/
Ketill Sigurjónsson, 29.8.2010 kl. 10:20
Vegna þess sem stendur í færslunni um að Frakkland sé mesti kjarnorkuframleiðandi í heimi, ber að hafa í huga að átt er við per capita. Sé aftur á móti miðað við heildarframleiðslu eru Frakkar samt mjög ofarlega; nefnilega í 2. sæti í heimnum (á eftir Bandaríkjunum).
Ketill Sigurjónsson, 29.8.2010 kl. 10:43
Þakka þér fyrir, Ketill, þessi pistill sýnir kaldan raunveruleikann sem Evrópuþjóðir þurfa að horfast í augu við. Það þarf víst ekki marga taga af stoppi á leiðslunum inn til Ítalíu til þess að drjúgur hluti Evrópu lendi í verulegum orkuvandræðum.
Þetta leiðir hugann að hugsanlegum ófriðartímum. Fyrst ástandið er eins og að ofan greinir, þá myndi ESB alltaf enda með að samþykkja afarsamninga við birgjana ef í harðbakkann slær. Þar með líka eftirgjöf á þeim prinsippum sem reynt væri að fylgja ella. T.d. gæti ESB neyðst til þess að samþykkja Tyrkland inn í ESB, þrátt fyrir andstöðu almennings í ESB.
Ívar Pálsson, 29.8.2010 kl. 12:13
Best að fá Tyrkina inn sem fyrst. Þá væri strax hægt að fara að vinna í að taka líka einhverja Kákasusþjóðina inn. Og svo Azerana. En þaðan komu jú Æsirnir, þ.a. þetta eru okkar rætur! Grínlaust, þá held ég að ESB muni lenda í miklum vandræðum innan fárra ára ef sambandið fær ekki Tyrkland inn sem fyrst og gerir e.k. semi-aðildarsamning við löndin í N-Afríku. Tyrkirnir munu ekki skaffa ESB orku, en gótt samband við Tyrkland er lykilatriði vegna aðgangs að orkuríkjunum þar fyrir handan. Hvort sem það er Azerbaijan, löndin austan Kaspíahafs, Írak eða Íran. Tyrkland er hraðbraut ESB að Mið-Asíuríkjunum.
Ketill Sigurjónsson, 29.8.2010 kl. 12:25
Takk fyrir fína og upplýsandi færslu.
Það skyldi þó ekki vera að eitthvað sé til í ásökunum á hendur Breta um að hafa látið hryðjuverkamann úr haldi til liðka fyrir olíusamningum?
Jóhannes Björn kom inn á orkumál í Silfrinu fyrir nokkru. Þá talaði hann um að innan fárra ára yrðu hefðbundnar skiptingar þjóða úreltar; pólitísk skipting í austur-vestur og efnahagsleg skipting í norður-suður. Þá myndu þjóðir heims skiptast í þær sem eiga orku og þær sem eiga hana ekki.
Ólíkt ESB myndi Ísland falla í fyrri flokkinn. Mér sýnist upplýsingarnar í þessari færslu renna stoðum undir vangaveltur Jóhannesar. Spurningin er hvort við berum gæfu til að vara rétt og vel með auðlindirnar.
Haraldur Hansson, 29.8.2010 kl. 13:17
Sjálfur forðast ég almennt að mála skrattann á vegginn og er lítt gefinn fyrir dómsdagsspár. En það er augljóst að ESB stendur frammi fyrir vanda í orkumálum og það veikir pólítíska stöðu sambandsins. Ef ESB heldur rétt á spöðunum og leggst ekki í einangrunarstefnu, þá á sambandið bjarta framtíð. Hættan er sú að íbúar ESB telji sig betri en almenning í nágrannaríkjunum og vilji ekki múslímaríki í sambandið. Það er aftur á móti svo að múslímaríki þar sem trúin er bara aukaatriði, eru barrrasta að mörgu leyti brilljant samfélög.
Ketill Sigurjónsson, 29.8.2010 kl. 13:30
Haraldur Hansson, 29.8.2010 kl. 13:17; það er algerlega kristallstært að Líbýumaðurinn var látinn laus eingöngu til að liðka fyrir orkuhagsmunum Breta í Líbýu. Spruningin sem ESB stendur frammi fyrir er hvort sambandið vilji láta vaða þannig yfir sig eða reyna að þróa lönd eins og Líbýu í átt að samfélagi þar sem fólkið fær sjálft að ráða sínum málum og getur lifað mannsæmandi og frjálsu lífi. Eina vitið er að ESB stækki til bæðis suðurs og austurs.
Ketill Sigurjónsson, 29.8.2010 kl. 14:53
Sýnir þetta ekki að það algerlega óraunhæft hjá Þýskalandi að loka þessum kjarnorkuverum sem þeir stefna/stefndu á. Manni sýnist að Evrópu verði að stórauka raforkuframleiðslu með kjarnorku þó það eitt dugi að sjálfsögðu ekki.
Það er líka augljóst að Evrópa vill auka t.d. lestarnotkun (sama með Kína) sem samgöngukost þar sem hægt er að nota raforku þar í stað kolefnaeldsneytis. Semsagt aukin raforkunotkun í stað eldsneytis. Það er líklega gott fyrir Ísland. Evrópa þyrfti aukið base load eins og þeir segja en ekki bara ótrausta raforku eins og vindorku þótt hún sé góð upp að vissu marki.
Páll F (IP-tala skráð) 29.8.2010 kl. 17:57
Áhugaverð færsla. Þetta er líklega alveg rétt hjá þér að ESB þarf að taka Tyrkland inn og líka Kaspían löndin. Ég velti því fyrir mér hvernig ESB mun breytast eftir að Tyrkland er komið inn. Tyrkland er líklega valdamesta þjóðin í Mið-Austurlöndum og þegar þeir ganga í ESB mun ESB þurfa að skipta sér meira að málefnum Mið-Austurlanda. Því kæmi það mér ekki á óvart ef í kjölfar inngögnu Tyrklands myndi ESB fara að gera fleiri og dýpri fríverslunarsamninga við Mið-Austurlönd. Sérstaklega þar sem Tyrkland sjálft hefur sett fram hugmyndir um fríverslunarsvæði í Mið-Austurlöndum sem þeir gætu auðsýnilega ekki framkvæmt innan ESB án þess að ESB sjálft geri það.
Svo með Tyrkland innanborðs mun ESB þurfa að vinna nánar við Mið-Austurlönd.
Hugsið ykkur eitt með Tyrkland og ESB: Ef Tyrkland gegni í ESB og Schengen væru "landamæri" Íslands (þar sem maður þyrfti fyrst að sýna vegabréf ) við Íran, Írak og Sýrland.
Egill A. (IP-tala skráð) 29.8.2010 kl. 18:13
Páll F (IP-tala skráð) 29.8.2010 kl. 17:57; algerlega óraunhæft eins og þú segir. Þvert á móti munu Þjóðverjar þurfa fleiri kjarnorkuver og ég spái því að við sjáum brátt kúvendingu í kjarnorkustefnu þýskra stjórnvalda. Tímabundið kann þó að vera að ný gasvinnslutækni (shale gas technology) muni auka gasframleiðslu talsvert mikið á meginlandinu. Það ásamt kreppunni (minni eftirspurn eftir orku) mun valda því að ESB verður sennilega í sæmilegum málum í áratug eða svo. En svo mun orkukreppa mjög líklega dynja á ESB, nema sambandið hafi tryggt sér framboð frá fleiri ríkjum en nú er. Þess vegna má ekki bíða með Nabucco-gasleiðsluna.
Egill A. (IP-tala skráð) 29.8.2010 kl. 18:13; því miður er ólíklegt að aðildarþjóðir ESB muni samþykkja aðild Tyrklands. Óttin við hið óþekkta er einkennilegt fyrirbæri, sem fólk lætur oft stjórnast af. Sjálfur var ég talsvert stressaður þegar ég fór til Azerbaijan, en hef hvergi í veröldinni mætt jafn hjálpfúsu og ágætu fólki (og svo vill til að þar er mikið af Tyrkjum, enda náin söguleg og emnningarleg tengsl á milli landanna). Ég hef reyndar aldrei komið til Tyrklands en er engu að síður fullviss um það, að það væri bara gott fyrir ESB að fá Tyrkina í sambandið. Og líka N-Afríkuríkin. Fyrst þarf þó að koma á betra stjórnarfari í sumum þessara landa. Við getum ekki haft Gaddafi við háborð ESB! Jafnvel þó Erró hafi málað mjög töff málverk af kallinum.
Ketill Sigurjónsson, 29.8.2010 kl. 19:24
Annað áhugavert með Nabucco. ESB eru að borga fyrir leiðsluna (eða amk. að fjármagna hana). Stór hluti gasins fer í rafmagnsframleiðslu í Evrópu og því spyr ég: Er raunhæft að fá ESB til að borga (eða fjármagna) rafstreng til Íslands ef hann verður raunhæfur kostur tæknilega. Ég meina sæstrengur frá Íslandi gerir nákvæmlega sama og Nabucco þ.e. gerir Evrópu minna háð Rússlandi. Auk þess uppfyllir það markmið Evrópa 2020 strategíuna.
http://ec.europa.eu/eu2020/index_en.htm
Egill A. (IP-tala skráð) 29.8.2010 kl. 20:32
Þetta ætti að vera rakið dæmi fyrir t.d. Evrópska fjárfestingabankann. A.m.k. mikilvægara verkefni en að fleygja peningum í rándýrustu rafmagnsframleiðslu í heimi; sólarsellur:
http://europa.eu/rapid/pressReleasesAction.do?reference=BEI/10/119&format=HTML&aged=0&language=EN&guiLanguage=en
Ketill Sigurjónsson, 29.8.2010 kl. 20:46
Þessi grein þín rökstyður það líka ágætlega að orkuverð í Evrópu verði í framtíðinni hátt sem er án efa gott fyrir Ísland ef við flytjum út orku í gegnum sæstreng.
Kannski ættum við að setja okkur á móti því að Tyrkland fari í ESB ef við göngum þar inn, með það markmið að orkuverð verði sem hæst í Evrópu :)
Egill A. (IP-tala skráð) 29.8.2010 kl. 21:21
Eins og alltaf þakka fyrir afar góða og vel ígrundaða pistla.
En hvað segirðu um þessa frétt í Daily Telegraph um notkun thorium til raforku framleiðslu. Ef raunhæft er þetta hugmynd sem myndi breyta forsendum orkubúskapar í ESB og BNA. Þá einnig gera Rússland og ríki miðausturlanda áhrifa minni en þau eru núna?
Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 1.9.2010 kl. 14:30
Þóríum (eða þórín upp á meiri íslensku) gæti verið framtíðareldsneyti í raforkuvinnslu. Hugmyndir um slíkt eru ekki nýjar. Þetta er framtíðarmúsík sem lengi hefur verið talað um, en enginn veit hvort verður nokkru sinni að veruleika. Lesa má eitthvað um þetta í eldri færslum Orkubloggsins:
Þrumuguðinn:
http://askja.blog.is/blog/askja/entry/608681/
Indversk fullorðinsleikföng:
http://askja.blog.is/blog/askja/entry/613115/
Norskt þórín:
http://askja.blog.is/blog/askja/entry/613758/
Ketill Sigurjónsson, 1.9.2010 kl. 15:31
Takk fyrir fróðlegan og málefnalegan pistil.
En mig langar þó að spyrja hvers vegna þú virðist útiloka svona beint út að t.d. sjávarorkuver geti orðið hluti af þeirri orkulausn sem ESB mun nýta í framtíðinni. Er þetta ekki spurningin um að nýta þá sjálfbæru orkugjafa sem við höfum möguleika á, þá á ég einnig við vind-, sólar- og sjávarorku ásamt öðrum leiðum eins og m.a. kjarnorku. Er ekki hægt að gera ráð fyrir að við meiri framleiðslu að þá verði sólarsellur ódýrari (dæmi tölvur), er því ekki of snemmt að afskrifa hana sem of dýran kost af því að það sé hugsanlega of dýrt á núverandi tímapunkti? (reyndar hef ég lesið einhversstaðar um það nýlega að sólarsellur séu að verða ódýrari kostur en áður). Það hljóta að vera töluverðir möguleikar í þess slags orku í framtíðinni og því fyrr sem byrjað er að nota hana í einhverju magni því meiri ættu möguleikarnir að vera í framtíðinni. Það útilokar í sjálfu sér ekki að við Íslendingar getum selt orku erlendis ef það er eitthvað sem við ákveðum að gera.
Það er í raun ekki svo langt síðan að við fórum að nýta jarðefnaeldsneyti per se, og eins og tækninni hefur fleygt fram, þá hef ég nú töluverða trú á að hægt verði, tæknilega séð, að nýta fleiri orkumöguleika á næstu árum og áratugum ásamt því að nota orkusparandi tækni sem víðast. Kannski er þetta líka spurningin um að við verðum að fara að huga að öðrum orkugjöfum, þar sem "peak oil" og "peak gas" eru kannski ekki svo fjarlæg þrátt fyrir allt, ásamt svo því vandamáli sem skapast við aukin styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu vegna brennslu jarðefnaeldsneytis - Er það því ekki orðið nauðsynlegt að íhuga fleiri kosti, jafnvel þó að það kosti eitthvað til skamms tíma?
Þetta eru allavega mínar vangaveltur varðandi þetta, vonandi misskildi ég ekki pistilinn of mikið.
Sveinn Atli Gunnarsson, 2.9.2010 kl. 14:37
Þessu tengt þá er Þýski herinn greinilega að hugsa um þetta vandamál:
http://www.spiegel.de/international/germany/0,1518,715138,00.html
Páll F (IP-tala skráð) 2.9.2010 kl. 23:07
Athyglisvert sem Spiegel segir um Bretland:
"The leak has parallels with recent reports from the UK. Only last week the Guardian newspaper reported that the British Department of Energy and Climate Change (DECC) is keeping documents secret which show the UK government is far more concerned about an impending supply crisis than it cares to admit."
Bretar standa ráðþrota frammi fyrir óumflýjanlegum stórvandamálum. Kolin, olían og gasið - öll er þessi framleiðsla á dúndrandi niðurleið innan hins aldraða Bretaveldis og það eina sem gert er er að setja upp fáeinar vindrafstöðvar. Einhver myndi segja "hasta la vista, baby" - í anda Eastwood!
Ketill Sigurjónsson, 2.9.2010 kl. 23:27
Svatli, 2.9.2010 kl. 14:37; bygging vindrafstöðva á eftir að verða mikil. En það breytir litlu í heildarsamhenginu. Sólarsellurnar verða smám saman ódýrari. Þó gæti hráefnisþurrð gert mönnum þar erfitt fyrir. Þetta eru einfaldlega ekki jafn ódýrir orkugjafar eins og olía og gas. Og koma að litlum notum við að knýja samgönguflotann.
Vandamálið er EKKI að ólían sé á þrotum. Það er nóg af henni - t.d. í löndum eins og Írak, Kanada og Venesúela. Og líklega líka hjá Sádunum, þó svo villutrúarmenn eins og við fáum ekki að vita um stöðuna þar. Sem er best geymda leyndarmál veraldarinnar.
Ég álít ólíklegt að peak-oil skelli á okkur í formi gríðarlega hás olíuverðs. En það geta komið upp tímabundin vandamál. Og snögg. Þegar misræmi verður heiftarlegt milli framboðs og eftirspurnar vegna of lítilla fjárfestinga í olíu- og gasvinnslu á nýjum svæðum.
T.d. eru ofsalegar gaslindir undir íshafinu norður af Rússlandi. Þær eru þekktar og bíða bara eftir að verða sóttar. En nú hefur gasverð lækkað vegna meiri framleiðslu í US og minni eftirspurnar. Fyrir vikið borgar sig ekki að hefja vinnslu á svæðum sem eru í dýrari kantinum. Svo þegar verðið fer að skríða upp tekur tíma að hefja slíka vinnslu og þá fer allt í steik á meðan. Verðið rýkur upp.
Það að Evrópa sé svona háð Rússum um gas þarf ekki að vera vandamál. En áhættan er mikil. Hvað EF Rússar allt í einu loka fyrir kranann? Þetta mun stórveikja samningsstöðu ESB og draga úr mætti sambandsins. Gera það að þiggjanda með skert sjálfstraust. Og þá mun valdajafnvægið í heiminum raskast - völdin færast til annarra á kostnað Evrópu. Ekki endilega slæmt fyrir heiminn. En vont fyrir ESB.
Ketill Sigurjónsson, 2.9.2010 kl. 23:41
http://mbl.is/mm/frettir/erlent/2010/09/06/kjarnorkuver_afram_i_thyskalandi/
Erlent | mbl.is | 6.9.2010 | 06:35
Kjarnorkuver áfram í Þýskalandi
Ríkisstjórn Þýskalands hefur ákveðið að halda kjarnorkuverum landsins gangandi að meðaltali 12 árum lengur en áætlað var.
Kemur á óvart. Eða hittó.
Ketill Sigurjónsson, 6.9.2010 kl. 08:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.