21.11.2010 | 13:47
Orkubrúin Tyrkland
Það var svolítið kaldrifjað hvernig olíuskvísan hún Electra King var skotin með köldu blóði. En svona gerist í baráttunni um olíuauðlindirnar við Kaspíahaf. Og sem kunnugt er var stúlkan sú með slæmar ráðagerðar. Nefnilega að sprengja upp sjálfa Ceyhan-olíuleiðsluna.
Til allrar hamingju náðist að stöðva þessa harðsvíruðu orkuskutlu tímanlega. Reyndar er olíuleiðslan frá Kaspíahafi til Tyrklands nefnd allt annað þarna í James Bond myndinni The World is Not Enough. En augljóslega er átt við Ceyhan-leiðsluna - sem fullu nafni heitir Baku-Tbilisi-Ceyhan-leiðslan eða BTC.
BTC-leiðslan hefur gjörbreytt strategískri stöðu Tyrklands. Þetta gríðarstóra land, sem Evrópumenn hafa löngum haft tilhneigingu til að líta á sem heldur lítilsgilt jaðarsvæði eða í besta falli þægilegan stuðpúða milli vesturs og austurs, er allt í einu er orðið að mikilvægri orkubrú milli Evrópu og Mið-Asíu.
Þetta er þörf áminning um það hversu mikilvægt Tyrkland verður í framtíðinni - til að koma bæði olíu og gasi frá ofboðslegum orkuboltum Mið-Asíu til orkuþyrstrar Evrópu. Þar að auki er vert að hafa í huga spá Goldman-Sachs um að árið 2025 verði Tyrkir meðal stærstu efnahagsþjóða heimsins. Kannski fyllsta ástæða fyrir ESB að bjóða Tyrki velkomna í sambandið fyrr en seinna.
Gott samkomulag við Tyrkland kann að verða þýðingarmikið til að losa Evrópu undan orkuhrammi Rússa. Þarna er nærtækast að nefna olíugumsið sem dælt er upp í Kaspíahafslöndunum. Það var árið 2006 sem 1.800 km löng BTC-leiðslan opnaði, en um hana streymir olía alla leið frá Bakú á vesturströnd Kaspíahafsins og vestur til tyrknesku hafnarborgarinnar Ceyhan við Miðjarðarhaf. Þar fer olían á tankskip, sem svo sigla með hana til Evrópulandanna.
Og nú er horft til þess að líka verði lögð stór gasleiðsla, sem sniglist svipaða leið eins og BTC-olíuleiðslan. Alla leið frá Bakú og vestur til Evrópu og flytji þangað gríðarmikið af gasi á degi hverjum.
Þar erum að ræða hina margumtöluðu Nabucco. Leiðslan sú mun ekki aðeins færa Evrópu gas frá gasboltunum á Kaspíahafssvæðinu. Nabucco-gasleiðslan er nefnilega ennþá mikilvægari; hún er hugsuð sem hryggjarstykkið í frekari framtíðartengingum Evrópu við gaslindir í Írak og jafnvel líka í Íran. Gangi þær áætlanir eftir mun orkubrúin Tyrkland ekki aldeilis verða einbreið og gamaldags Fnjóskárbrú, heldur verður þetta sannkallað Energy-Freeway fyrir Evrópu.
Nabucco virðist svo sjálfsögð framkvæmd að það er í reynd með ólíkindum að eftir átta ára umræðu og samninga, er verkefnið ennþá á hugmyndastigi. Og ennþá allsendis óvíst hvort af því verði. Gasþorstinn í orkuhnignandi Evrópusambandinu er mikill og óvíða er að finna meiri gaslindir en í Mið-Asíu. Samt er engin - ekki ein einasta - gasleiðsla þarna á milli.
Ennþá fær Evrópa langmest af gasinu sínu frá Rússum og hefur ekki í aðra almennilega gas-sjoppu að fara. Til að Evrópa geti hrist af sér tangarhaldið sem þetta hefur gefið Rússum, er Nabucco borðleggjandi framkvæmd.
Byrjað var af alvöru að vinna í hugmyndinni um Nabucco árið 2002. Búið er að ganga frá samningum um legu leiðslunnar og komin eru nokkur afar öflug orkufyrirtæki að verkefninu. Risaskref var tekið þegar þýski orkuboltinn RWE varð hluthafi í verkefninu árið 2008. Það eina sem er eftir til að geta byrjað að leggja leiðsluna er bara "smámálið"; nefnilega það að tryggja gas í leiðsluna!
Enn hafa ekki náðst samningar þar um við Azerana og Túrkmenana. Þar að auki vantar ennþá gastenginguna þvert yfir Kaspíahafið; á milli Bakú og Túrkmenistans. Ómögulegt er að segja hvenær Trans-Kaspíahafsleiðslan verður lögð, eftir botni Kaspíahafsins, en hún mun bæði opna aðgang að gasinu í Túrkmenistan og að æpandi gaslindum Kazakhstan.
Það er sem sagt alls ekki víst að þessar stórhuga áætlanir um Nabucco og tengingar við gaslindirnar á Kaspíasvæðinu (og síðar Írak og Íran) verði að veruleika í bráð. Og samkeppnin er hörð. Kínverjar hafa verið afar duglegir undanfarin ár að tryggja sér aðgang að kolvetnisauðlindum Mið-Asíuríkjanna austan og sunnan Kaspíahafsins. Og Rússar ætla sér ekki að kyngja því þegjandi og hljóðalaust að Tyrkland verði í hlutverki orkubrúar milli Mið-Asíu og Evrópu. Baráttan milli Nabucco og South Stream er á fullu og ómögulegt að segja hvor leiðslan hafi vinninginn. Sú þeirra sem fyrr verður hafist handa við er líkleg til að ryðja hinni úr vegi.
Rússar hafa síðustu árin staðið sveittir í að tryggja sér samninga við gasveldin við Kaspíahaf um að kaupa frá þeim sem allra mest af gasi. Ekki til að nota í Rússlandi, enda nóg af gasi þar. Heldur til að þeir fái tekjurnar af því að flytja gasið áfram til annarra kaupenda - svo sem landa innan ESB.
Hugsunin þarna að baki byggir ekki bara á bissness. Miklu fremur er þetta útpæld strategía til að auka áhrif og völd Rússlands gagnvart Evrópusambandinu. Planið er sáraeinfalt; að gasið frá löndum eins og Kazakhstan, Túrkmenistan og Azerbaijan fari um leiðslur til Rússlands og Rússar svo selji það áfram til ESB um South Stream og aðrar gasleiðslur frá Rússlandi til Evrópu. Um leið myndu Rússar t.d. hafa í hendi sér að geta skrúfað fyrir gasið þegar þeim hentar! Sumir segja að þar með yrði Evrópa endanlega á valdi Rússlands.
Þó svo Orkubloggaranum þyki Moskva margfalt fallegri, glæsilegri og skemmtilegri borg en Brussel, veldur þessi þróun mörgum Evrópumönnum áhyggjum. Þeir hinir sömu líta svo á að það hafi gríðarlega pólitíska þýðingu fyrir Evrópu að Nabucco-leiðslan verði lögð.
Og takist ESB ekki fljótlega að tryggja lagningu Nabucco skapast líka ný hætta. Nefnilega sú að Tyrkland lendi í vandræðum með að fá gas til innanlandsnotkunar. Það gæti hrakið Tyrki endanlega í faðm Rússa, sem hefði afgerandi áhrif á pólitíska þróun mála ekki aðeins í Mið-Asíu heldur líka í Mið-Austurlöndum.
Rússar vilja ólmir að ESB fái gasið sitt austanfrá um South Stream fremur en Nabucco. Og að Tyrkir fái sitt gas líka beint frá Rússlandi. Rússland er nú þegar orðinn mikilvægasti gasbirgir Tyrkja, sem fá rússneskt gas um Blue Stream leiðsluna, sem lögð var milli landanna á árunum 2001-02 eftir botni Svartahafsins. Og nú hafa Rússar hug á að leggja aðra leiðslu þarna suður til Tyrklands, sem muni svo halda áfram til ríkjanna í Mið-Austurlöndum, þ.e. landanna sunnan Tyrklands.
Þá myndi gas streyma frá Rússlandi til landa eins og Sýrlands, Líbanon og Ísrael. Slíkt myndi væntanlega ekki alveg samrýmast bandarískum hagsmunum. Þess vegna kom það mörgum á óvart þegar sjálfur Obama Bandaríkjaforseti tók af skarið á liðnu ári og lýsti yfir stuðningi við lagningu South Stream. Þar með var hann í reynd að tala niður Nabucco, en fram að því hafði Bandaríkjastjórn lagt sérstaka áherslu á að Nabucco verði reist áður en South Stream komi til greina.
Umskiptin virðast einkum hafa komið til vegna þess að Bandaríkjastjórn hafi áhyggjur af því að Nabucco geti styrkt pólitíska stöðu Klerkastjórnarinnar í Íran. En í Brussel eru menn ekki aldeilis sama sinnis og þar ráku margir upp ramakvein við yfirlýsingu Rikharðs Morgunstjörnu f.h. bandarískra stjórnvalda.
Þetta sýnir glögglega hvernig Hvíta húsið westra lítur nú á Íran sem hinn eina sanna óvin. Að auki er hugsanlegt að Bandaríkjastjórn meti góð samskipti við Rússa jafnvel ennþá meira en velferð Evrópu. Það kann að stafa af áhyggjum Bandaríkjastjórnar af miklum uppgangi Kína. Kínverjar hafa verið að færa sig upp á skaftið gagnvart gömlu Sovétlýðveldunum við Kaspíahaf, þar sem bæði er að finna gríðarlegt gas og ekki síður olíu. Rússar hafa árangurslítið reynt að spyrna þar við fótum - en þurft að horfa upp á æ fleiri samninga milli Kínverjanna og Kaspíahafsríkjanna um sölu á bæði olíu og gasi þaðan og beint austur til Kína.
Byrjað er að reisa stórar gasleiðslur til Kína frá Túrkmenistan og öðrum ríkjum austan Kaspíahafsins og Bandaríkin skynja það, að til að eiga roð við Kínverjunum sé skynsamlegt að rækta gott samband við Rússa. Vegna þessa og vilja þeirra til að einangra klerkana í Tehran, virðist nú sem South Stream sé að hafa vinninginn umfram Nabucco. Á Evrópa öngvan vin?
En allt er í heiminum hverfult. Á síðustu misserum hefur orðið æ meira áberandi hvernig nýja shale-gas-tæknin virðist ætla að gjörbreyta þróuninni á gasmörkuðunum. Og þar með orkumörkuðunum eins og þeir leggja sig. Þessi nýja framleiðslutækni hefur stóraukið framboð af gasi í Bandaríkjunum. Það hefur valdið miklum verðlækkunum á gasi, sem er til þess fallið að hjálpa Evrópu og öðrum gaskaupendum að ná vopnum sínum á ný gagnvart Rússum og öðrum seljendum.
Þar að auki er væntanlega bara tímaspursmál hvenær þessi nýja tegund af gasvinnslu kemur til Evrópu. Þar eru svæði í Þýskalandi, Póllandi og Úkraínu hvað áhugaverðust. En orkuiðnaðurinn í Evrópu virðist miklu þunglamalegri en vestan hafs. Ennþá hefur shale-gas-tæknin furðu lítið sést hér í Gamla heiminum.
Hvað um það. Gasverð hefur lækkað ótrúlega mikið á stuttum tíma og engan veginn náð að halda í olíuverðið (eins og sést vel af myndinni hér að neðan, sem er beint af vef Orkubloggsins). Lægra verð á gasi eru góð tíðindi fyrir gaskaupendurna, en stærstu gasútflutningsríkin eru að fá mikinn skellinn. Þetta er afar vond þróun fyrir Rússa, sem eru langstærsti gasútflytjandi heimsins. Þeir eru bæði að missa af miklum tekjum og nýja gasvinnslutæknin gæti þar að auki dregið talsvert úr pólitískum áhrifum þeirra gagnvart Evrópu.
Sumir segja að gasið sem nú flæðir á markaðinn frá shale-vinnslusvæðunum valdi því að í reynd verði hvorki þörf fyrir South Stream né Nabucco - fyrr en eftir fjöldamörg ár. Þar að auki muni brátt streyma gas til Evrópu frá nýjum vinnslusvæðum í A-Evrópu. Það væri engu að síður mikið kæruleysi af ESB að setja Nabucco á ís. Það mun koma að því að aðgangur að orkulindum Mið-Asíu verður algert grundvallaratriði til að halda efnahagslífinu gangandi. Þess vegna væri afar óskynsamlegt af ESB að slaka á í viðleitni sinni til að efla tengsl sín við orkubrúna Tyrkland.
Það mælir sem sagt allt með því að Evrópa fjölgi tengingum sínum við helstu gasframleiðendur heimsins og forðist að lenda í úlfakreppu af hendi eins eða örfárra framleiðenda. En vissulega mun nýja gasvinnslutæknin gefa ESB smá umhugsunarfrest og valda umtalsverðum breytingum í orkujafnvægi heimsins.
Efnahagslega mun þessi nýja tækni líklega fyrst og fremst styrkja Bandaríkin og veikja Rússland. Þetta gæti líka komið Norðmönnum illa, sem hafa verið að byggja upp mikla og dýra gasvinnslu lengst norður í rassi. Norðmenn geta þó alltaf huggað sig við það að gasið fýkur ekki burt. Sama hvernig fer þá mun alltaf koma að því að þeir geti ráðist í enn meiri gasvinnslu í Barentshafi. Bara spurning umtíma.
Kannski má segja að ein stærsta orsökin fyrir hnignun og falli Sovétríkjanna hafi verið að olíuverð hrundi í upphafi níunda áratugarins og hélst ofurlágt allan áratuginn. Olían var Sovétríkjunum mikilvæg tekjulind og þetta lága olíuverð stráfelldi efnahag þeirra. Enda er sagt að Reagan og félagar hafi lagt hart að Sádunum að framleiða olíu eins og brjálaðir menn til að grafa undan Sovétríkjunum.
Eitthvað er óvíst hvort þessar sögur um olíustrategíu Washington DC gagnvart Rússum eigi við rök að styðjast. En lágt olíuverð var a.m.k. veruleiki allan 9. áratuginn og það kom Sovétríkjunum illa. Ef það sama gerist nú með gasið er ekki víst að Rússland sjái fram á bjarta tíma í nánustu framtíð. Lágt gasverð mun tvímælalaust veikja Rússland.
Þessi nýjasta vending í orkumálunum kann að hjálpa Evrópu að fá smá slaka á orkusnöruna, sem hefur verið að herðast að hálsi bandalagsins undanfarin ár. En menn mega ekki gleyma að hugsa til langs tíma. Gasleiðslur um Tyrkland eru bæði til þess fallnar að tryggja fjölbreyttara framboð OG aðgang að ódýrara gasi. Þess vegna ætti Evrópusambandið alls ekki að slaka á við að byggja upp Tyrkland sem orkubrú.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:19 | Facebook
Athugasemdir
Nokkrir punktar sem ég er ósammála.
"Þar að auki er vert að hafa í huga spá Goldman-Sachs um að árið 2025 verði Tyrkir meðal stærstu efnahagsþjóða heimsins" Huh? Ertu þá að meina í topp 30 eða eitthvað svoleiðis? Þessum tíma þá verða væntanlega á svipuðu róli og Spánverjar í Þjóðarframeliðslu, langt frá því að jafnast á við lönd eins og Ítalíu, Breta, Frakka eða Þjóðverja.
Þeir eru með gaslagnir sem eru mikilvægar fyrir Tyrki, ekki að Tyrki séu mikilvægir vegna þess að lagnirnar fara í gegnum Tyrkland. Nord Stream er til dæmis dæmi um gasleiðslu sem var smíðuð í kringum þjóðir sem héldu að þær væru "mikilvægari" en í raun var. Úkraína gerir varla annað en að stela gasi á leið frá Rússlandi til Evrópu, þetta skapar vandræði og því er gasleiðsla smíðuð framhjá Úkraínu.
Nabucco virðist vera eitthvað hobbý verkefna pólitíkusa og pólítískra "pundits". Þetta virðist vera algjörlega glatað verkefni og allt of dýrt í framvæmd. Rússar geta alltaf undirboðið gasið sem kemur frá nabucco því leiðslan verkefnið er svo stórt en löndin sem selja munu gasið frá nabucco eru nágrannar Rússlands. Yfir maður franska orku risans Total talar um Nabucco sem media stunt.
Enda þótt framleiðsla á gasi í ESB þyrfti að vera töluvert meiri þá er algjörlega út úr kortinu fréttaflutningur um gasviðskipti ESB og Rússa. Rússneskt gas er ekki nema 6,5% af orkuþörf ESB. Bretland er aðeins fyrir nokrum árum síðan orðinn nettó flytjandi af orku(og reyndar tala um að það sé ásæðan fyrir þessar hysteríu í Vestur Evrópu þegar Rússar skera á gasið til að reyna rukka Úkraínumenn því bretar hafa aldrei verið í þessari stöðu að vera nettó innflytjandi af orku og þó stjórna fjölmiðlaumræðunni í Evrópu), danmörk, holland og Rúmenía framleiða tvöfalt af sínu gasi. Frakkar nota nánast ekkert gas enda nánast að fullu keyrt á rafmagni með kjarnorku.
Það virðist því helst vera bandaríkjamenn og núna upp á síðkastið bretar sem eru mjög móðursjúkir út af þessum málum. USA hefur náttúrlega alltaf haldið uppi og kynt undir rússagrýluna. Rússar hafa reyndar reynst mjög áreiðanlegir í þessum viðskiptum enda þurfa þeir mjög á þessum gasviðskiptum að halda. Það er helst transit country eins og Úkraína sem eru að valda vandræðum hérna enda komast þau alltaf upp með að stela rússnesku gasi.
Jón Gunnar Bjarkan, 21.11.2010 kl. 23:23
Hobbý og hystería... kannski. En ESB fær nú um 40% af öllu innfluttu gasi frá Rússum. Vegna hnignandi gasframleiðslu innan ESB þykir mörgum líklegt að þetta hlutfall hækki, ef ekki koma til tengingar við Mið-Asíu. Þó svo Rússar séu háðir tekjum af gassölunni þykir sumum það ekki pólítískt klókt fyrir ESB að vera svo háð framboði frá Rússum. Þess vegna vilja sumir innan ESB fá fleiri leiðslur til annarra gasframleiðenda. Þar að auki er heimurinn fljótur að breytast. Ef Kínverjar færu að kaupa meira gas af Rússum gæti verðið hækkað. Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Stóra spurningin er áhættumat og hvort/hvernig menn vilja takmarka áhættuna.
Ketill Sigurjónsson, 22.11.2010 kl. 08:55
Já, það er hægt að setja þetta svoleiðis upp, 40% af innfluttu gasi frá Rússum. En svo framleiðir ESB nú líka eitthvað af gasi og svo eru nú fleiri orkugjafar en bara gas ekki satt. Minni svo á hvað þú hefur skrifað um þetta Shale gas. Var að fletta því upp á wikipedia, þar stendur að varfærasta matið um birgðir í Póllandi séu 200 ársframleiðslur Pólverja. Svo er að að sjá að Ísraelar voru að lenda á gríðarlegum gaslindum. Þegar maður hefur í huga Noregur er að bæta framleiðslu sína mikið, Ísraelar með þetta nýja gas og svo allur andskotinn af þessu shale bas gas megi finna í Evrópu, fyrir utan það að grænum orkukostum vext stöðugt fiskur um hrygg að þá stórlega efast ég um að Rússar séu að fara auka mikið við sig í markaðshlutdeild í Evrópu.
Ja Kínverjar vantar auðvitað mikið gas, og það er enginn að stöðva rússa um að selja gas til Kína, nema rússar sjálfir því að Kínverjar eru ekki tilbúnir nema að borga brot af því verði sem Evrópubúar borga.
Eins og ég segi, fjölmiðlafárið í kringum þetta rússafár er bara einhver hræðsluáróður. Maður eiginlega hálf vorkennir Rússum, allir verða brjálaðir út í þá ef þeir stöðva gasið í 2-5 daga til þess að reyna tukta Úkraínumenn til. Pútín talaði um þetta sem Úkraína væri að fjárkúga Rússlands.
Jón Gunnar Bjarkan, 22.11.2010 kl. 13:16
"Russia launched the South Stream pipeline not for energy reasons but to pull Ukraine eastward, a strategy that could spark a Cold War-like conflict between Europe and Russia, former German Foreign Minister Joschka Fischer has warned.
"South Stream is a project directed against Europe and especially Ukraine. It's used to pressure Ukraine into Russia's direction -- first economically and then politically," Fischer said Wednesday at the European Autumn Gas Conference in Berlin. Such a move, he added, would "completely change the geopolitical situation" between the European Union and Russia."
http://www.upi.com/Top_News/Special/2010/11/11/Next-Cold-War-heated-with-natural-gas/UPI-28561289507886/
Ketill Sigurjónsson, 23.11.2010 kl. 16:50
Þetta er sama gamla sagan um auðlindir og notkun þeirra.
Það skiptir ekki mestu máli hvort þú átt auðlindina , heldur hvernig þú stjórnar notkuninni.
Það sama á við um notkun peninga, sem er miklu skemmtilegra umræðuefni, þar erum við að tala um verðmæti ser eru ekki til en þau stjórna samt heiminum.
Sigurjón Jónsson, 23.11.2010 kl. 22:14
Langaði að benda ykkur á góða umfjöllum um Tyrkland í The Economist 23-29 okt.
Björn (IP-tala skráð) 24.11.2010 kl. 09:52
Málið með að Shale Gas er ekki eins mikið notað og í Bandaríkjunum er að því virðist tvær.
Eitt að það er ekki eins auðvelt að setja brunna (wells) í Evrópu, því enginn vill hafa jólatré í bakgarðinum eins og sagt er.
Hitt er að það er mjög umdeilt í USA og Evrópu því það er talið að aðferðin við að ná gasinu upp hafi áhrif á grunnvatnið. Að ég held bæði með efnunum sem þeir nota til að "frakka" jarðlögin og líka með því að frakka lögin hefur þú áhrif á hvernig það rennur.
Þannig þetta er ennþá frekar pólitískt mál, ekki svo auðvelt að byrja bara á þessu.
En þetta er bara það sem ég hef heyrt úr bransanum, þú hefur kannski betri upplýsingar og vit á þessu en ég?
Ingi (IP-tala skráð) 26.11.2010 kl. 14:07
Ingi (IP-tala skráð) 26.11.2010 kl. 14:07; held þetta sé allt hárétt hjá þér. Að auki er olíu- og gasiðnaðurinn í US mjög sterkur (gagnvart pólítíkusunum) og löng hefð þar fyrir vinnslu á landi. Í löndum eins og Þýskalandi, Hollandi og jafnvel Bretlandi er staðan ólík og menn miklu tregari að leyfa svona nema að mjög vel athuguðu máli. Shale-gas verkefni eru að fara af stað í Póllandi. Úkraína er einnig mjög álitlegur kostur. Þetta gerist samt ekki hratt þessa dagana einfaldlega vegna þess að gasverð er lágt og erfitt að fjármagna svona verkefni. Fyrir spekúlanta gæti verið áhugavert að kaupa upp land í A-Evrópu. Enda er Orkubloggarinn orðinn hagvanur í Kiev. [Ætti maður að bæta við broskalli hér?!]
Ketill Sigurjónsson, 26.11.2010 kl. 15:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.