Vesturlandahræsnin

libya-oil-exports.jpg

Líbýa er einn stærsti olíuútflytjandinn í Afríku. Er þar í hópi með Alsír, Angóla og Nígeríu. Þess vegna varð mörgum hér í Westrinu um og ó þegar óeirðir breiddust út þarna í ríki Gaddafi's. Truflun á olíuútflutningi frá Líbýu er miklu stærra efnahagslegt mál heldur en vesenið í Túnis eða Egyptalandi. Því olían stjórnar jú öllu.

Truflunin á olíuútflutningi frá Líbýu skýrir líka að miklu leyti þann svakalega verðmun sem undanfarið hefur verið á olíu á mörkuðum sitt hvoru megin Atlantshafsins. Í Bandaríkjunum er allt fljótandi í svarta gullinu þessa dagana og allar birgðageymslur að verða stútfullar. Olían frá olíusandinum í Kanada og nýju vinnslusvæðunum kennd við Bakken í Dakota stútfylla nú tankana í Cushing, Oklahóma. En í Evrópu er menn með böggum Hildar vegna minnkandi olíuframboðs frá Líbýu.

gaddafi-looking-up.jpg

Fyrir vikið kostar olíutunna á Lundúnamarkaði nú sem samsvarar rúmum 116 USD, meðan sama magn af olíu kostar einungis 105 USD á Nymex. Þetta er meiri munur en flestir olíusvolgrarar muna eftir. Hreint magnað. Maður ætti kannski að leigja nokkra dalla og sigla með fáeina farma frá Mexíkóflóanum og austur til olíusoltinnar Evrópu?

En það er ekki bara að Evrópa kaupi mikið af olíu frá Líbýu.  Líbýa er ekki aðeins mikilvægur olíuútflytjandi; landið býr nefnilega yfir langmestum olíubirgðum af Afríkuríkjunum öllum (sbr. stöplaritið hér að neðan sem sýnir vinnanlega olíu í jörðu). Þetta er einmitt helsta ástæðan fyrir ótrúlegum sleikjuskap og undanlátsemi Vesturlandaleiðtoganna gagnvart Gaddafi í gegnum tíðina.

libya-2010_african_oil_reserves.gif

Það er ekki eins og menn hafi verið að komast að því núna á þorranum eða góunni á því Herrans ári 2010 að maðurinn sé fauti. Í Líbýu hafa andstæðingar Gaddafi's iðulega horfið sporlaust og alþekkt er hvernig Líbýa hefur í áratugi stutt hryðjuverkastarfsemi hingað og þangað um heiminn.

Sumum var reyndar nóg boðið þegar farþegaþota PanAm var sprengd í loft upp af líbýskum terroristum yfir Skotlandi  skömmu fyrir jólin 1988. En olían er bara meira virði en svo að menn væru að erfa þetta of lengi við kallinn. Bresk stjórnvöld leyfðu sprengjumanninum að trítla úr bresku fangelsi og vera fagnað sem þjóðhetju við komuna til Trípólí; höfuðborgar Líbýu. Að baki lá díll Breta við Gaddafi um að BP fengi að leika sér í olíuiðnaði Líbýu.

gaddafi-blair-1.jpg

Olían verður bersýnilega ekki metin til mannslífa - a.m.k. ekki í augum breskra stjórnvalda. Einræðisherrar í olíuríkjum þykja einfaldlega hið besta mál, svo lengi sem þeir eru liðlegir til að flytja út olíu og leyfa olíufyrirtækjum Vesturlanda að koma þar að vinnslunni. Þá er allt fyrirgefið; jafnvel hryðjuverk og fjöldamorð.

Vesenið núna er í reynd ekki tilkomið út af því að þegnar Gaddafi's risu upp gegn honum. Ástæðurnar fyrir hörðum víðbrögðum Vesturlandaleiðtoganna eru miklu fremur að vegna uppþotanna í landinu er bæði olíuframleiðslunni í Líbýu ógnað og aukin hætta á að Gaddafi fleygi enn á ný erlendum olíufélögum út úr landinu. Þess vegna spretta ráðamenn Vesturlanda nú skyndilega fram og fordæma Gaddafi í hópum - eins og 40 ára harðstjórn hans sé eitthvert nýabrum.

gaddafi-brown.jpg

En öllum er þeim í reynd skítsama um líbýsku þjóðina. Málið er einfaldlega að þarna þarf að komast á jafnvægi hið fyrsta - svo við hér í Evrópu getum áfram drukkið svarta blóðið frá Líbýu truflunarlaust.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvert orð í þessum pistli er því miður satt og rétt,

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.3.2011 kl. 01:57

2 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þú virðist ekki vita, að Lýbía framleiðir nú aðeins um það bil 2% af heimsframleiðslunni af olíu. Verðhækkanirnar stafa fyrst og fremst af spákaupmennsku. Aðrir olíuframleiðendur geta hæglega aukið framleiðslu sína sem nemur þessum tveimur prósentum, en það breytir því ekki að til lengri tíma mun olía óhjákvæmilega hækka með aukinni eftirspurn einkum í Kína, Indlandi og fleiri Asíuríkjum.

Vilhjálmur Eyþórsson, 7.3.2011 kl. 21:35

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Hárrétt hjá þér Ketill.

Hækkanir á olíunni stafa ekki sérstaklega af ástandinu í Líbíu heldur vegna þess að markaðurinn reiknar með því að óróinn breiðist út til gjörspilltra leppríkja BNA og Ísraels við Persaflóann. Dagur reiðinnar er í Sádí Arabíu á föstudaginn og lepparnir þar hóta öllu illu en lítið hefur heyrst frá hræsnaradóti vesturlanda vegna þess.

Saudi Arabia's `Day of Rage' Lures Record Bets on $200 Oil

http://www.bloomberg.com/news/2011-03-07/saudi-arabia-s-day-of-rage-lures-record-bets-on-200-oil-chart-of-day.html

Baldur Fjölnisson, 7.3.2011 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband