11.4.2011 | 08:05
Gamalt stórveldi í orkuþurrð
Er ekki alveg upplagt að Orkubloggið beini sjónum að Bretlandi í færslu dagsins? Svona með atburði helgarinnar í huga. Og skoði hvernig orkutölfræðin spáir heldur illa fyrir Bretunum.
Iðnbyltingin (bresku kolin) og síðar aðgangur að hrávörum nýlenduþjóðanna gerðu Bretland að stórveldi. Eftir að nýlendurnar fengu sjálfstæði (flestar á 7. áratugnum) varð það Bretum til happs að um sama leyti fannst olía í Norðursjó. Og allt fram undir aldamótin 2000 var Bretland orkustórveldi, þökk sé olíunni og gasinu úr iðrum Norðursjávar-landgrunnsins.
Gríðarlegar kolvetnisauðlindirnar ollu því að mestallan 9. og 10. áratuginn framleiddi Bretlandi meiri orku en þjóðin notaði. Var m.ö.o. nettóútflytjandi að orku - og var það allt fram til 2003.
En nú er hnignunin hafin. Olíuframleiðsla Breta náði toppi 1999 og gasvinnslan toppaði skömmu síðar. Breska þjóðin er ekki lengur orkusjálfstæð og mun þurfa að flytja æ meira inn af gasi og olíu. Í dag kemur mest af þessum kolvetnisinnflutningi frá Noregi, en einnig frá löndum eins og Alsír og Líbýu. Bretland er sem sagt orðið nettóinnflytjandi að orku og allar horfur á að á næstu árum og áratugum verði breska þjóðin sífellt háðari innfluttum orkugjöfum.
Ennþá er Bretland þó í góðri stöðu miðað við næstum öll önnur aðildarríki ESB. Og þessi vaxandi innflutningsþörf væri sossem ekki vandamál ef markaðsverð á olíu og gasi væri lágt. En kaldhæðni örlaganna hagaði því svo, að einmitt um það leyti sem Bretland framleiddi og flutti út meiri olíu og gas en nokkru sinni, var verð á þessum afurðum í botni. Og árin sem Bretland hefur orðið æ háðara innfluttu eldsneyti/orkugjöfum hefur olíuverð hækkað hratt. Þarna er því kominn nýr og risastór útgjaldaliður fyrir bresku þjóðina - og kostnaðurinn mun að öllum líkindum vaxa hratt á næstu árum.
Sem fyrr segir voru vatnaskilin í orkusjálfstæði Bretlands um aldamótin 2000. Árið 2008 var svo komið að útgjöld Breta vegna umræddrar innflutningsþarfar voru um 15 milljarðar punda. Lækkandi olíuverð 2009 bættu stöðuna aðeins það árið, en 2010 rauk kostnaðurinn aftur upp og útlitið framundan er ekki bjart.
Þetta eru vel að merkja útgjöld sem ekki voru til staðar fyrir einungis örfáum árum síðan - þegar Bretar þvert á móti voru nettóútflytjendur að orku og orkuiðnaðurinn skapaði þeim miklar útflutningstekjur. Og vegna þess hversu olíulindunum í bresku lögsögunni fer hratt hnignandi, má búast við að orkuinnflutningur Breta margfaldist á næstu árum. Og það þrátt fyrir stórfelldar fjárfestingar í vindorkuverum og bjartsýni þeirra um að geta fljótlega beislað sjávarfallaorku til rafmagnsframleiðslu.
Svo skemmtilega vill til að Bretar eru nú um 185 sinnum fleiri en Íslendingar og eitt breskt pund kostar í dag einmitt um 185 ISK. Samsvarandi útgjöld fyrir Íslendinga væru því að þurfa að borga u.þ.b. 15 milljarða ISK á ári fyrir innflutta orku.
Í reynd erum við að borga miklu meira fyrir innflutta orkugjafa. Skv. Hagstofu Íslands eru það nú um 55 milljarðar ISK árlega! Bretar myndu því kannski segja sem svo, hvern fjandann Orkubloggarinn sé að derra sig. En í reynd er staða Íslendinga í orkumálum til framtíðar allt önnur og miklu betri heldur en Breta. Ástæða mikils eldsneytisinnflutnings Íslendinga er m.a. vegna íslenska fiskiskipaflotans, sem er jú mjög umfangsmikill og er notaður til að framleiða útflutningsvörur. Þess vegna er þetta viðráðanlegt fyrir Íslendinga.
Og öfugt við Íslendinga standa Bretar nú frammi fyrir því að þurfa að flytja inn æ meiri orku. Orkubloggarinn hefur séð spár þess efnis að strax árið 2013 verði kostnaður Breta vegna innfluttra orkugjafa orðinn á bilinu 25-50 milljarðar punda allt eftir því hvernig olíuverð þróast. Og færi svo áfram hratt vaxandi.
Þó svo að upphæðin sem þarna er nefnd sé miklu minni og jafnvel ekki nema hálfdrættingur á við það sem við Íslendingar erum að eyða í innflutt eldsneyti þessa dagana (þegar tekið er tillit til fólksfjölda) er þetta samt stórmál fyrir Breta. Staða Bretlands í orkumálum er svona ámóta eins og ef við Íslendingar sæjum fram á að bæði vatnsaflið og jarðvarminn væri senn að verða uppurið.
Menn geta rifist um það hvort þeir sem segja að Bretland stefni beint í þjóðargjaldþrot séu ruglukollar, svartsýnisálfar eða raunsæismenn. En það er staðreynd að Bretland stendur frammi fyrir miklum vanda í orkumálum.
Við Íslendingar erum hins vegar í þeirri ákjósanlegu stöðu að eiga miklar orkulindir, sem ekki aðeins eru endurnýjanlegar heldur munu mögulega að umtalsverðu leyti leysa innflutt eldsneyti af hólmi í framtíðinni. Orkan í vatnsföllum Íslands og iðrum jarðar (og prótínið sem svamlar í sjónum umhverfis Ísland) eru auðlindir sem gera það að verkum, að Íslendingar þurfa ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni. Hvað sem Icesave líður!
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:11 | Facebook
Athugasemdir
Vinir þínir í Glencore að skrá sig á markað! Er þetta ekki strong buy?
Björn (IP-tala skráð) 11.4.2011 kl. 11:20
Kannski. Nema að satt sé, að þeir schnillingarnir séu að nota eina mestu hrávörubólu allra tíma til að raka til sín seðlum áður en bólan springur. Reyndar skilst mér að helstu stjórnendur félagsins megi ekki selja bréfin sín næstu 3 árin, þ.a. sennilega er þetta funheitt. Samt spælandi að Glencore verði ekki áfram leynifélag. En þetta verður æsilegt, enda eitthvert allra stærsta IPO í Evrópu ever.
Ketill Sigurjónsson, 11.4.2011 kl. 11:48
Já kannski er Rich að casha út eftirlaunin sín (ekki það að hann sé á flæðiskeri peningalega séð). En vissulega væri gaman að teika kallinn, verst að Mao seðlabankastjóri bannar okkur almúganum að fjárfesta erlendis.
Björn (IP-tala skráð) 13.4.2011 kl. 10:10
Það er reyndar nokkuð langt um liðið síðan Marc Rich hvarf af hluthafaskrá Glencore og lét skósveina sína sjá um stússið. Skuggalegast ef að þessi Xstrata-Glencore-Rusal-BarrickGold klíka nær meiri tökum á íslensku efnahagslífi en þegar er orðið. Íslenskir stjórnmálamenn virðast alveg blindir á að velja sér þokkalega siðaða viðskiptafélaga.
Ketill Sigurjónsson, 13.4.2011 kl. 10:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.