Áætlanir Alterra Power á Reykjanesi

alterra-presentation-cover-march-2011.png

Það er kominn nýr eigandi að HS Orku.

Magma Energy á ekki lengur HS Orku. Heldur kanadískt fyrirtæki sem kallast Alterra Power. Það varð til við sameiningu Magma Energy við annað kanadískt fyrirtæki sem heitir Plutonic Power. Ef einhver lesenda Orkubloggsins kannast ekki við Plutonic, þá skal tekið fram að þarna er á ferðinni fyrirtæki sem hefur verið að reisa vindorkuver og rennslisvirkjun vestur í Bresku Kólumbíu í Kanada. Og er skráð í kauphöllinni í Toronto, rétt eins og Magma.

Þessi sameining Magma og Plutonic fór þannig fram, að Magma eignast Putonic og skiptir um nafn í Alterra Power, en hluthafar Plutonic fá hlutabréf í hinu sameinaða fyrirtæki. Eigendur Magma eignast 66% í Alterra Power og hluthafar Plutonic eignast 34%.

plutonic-power_stock-price_2009-2011.png

Sem fyrr segir, hafa bæði Magma og Plutonic verið skráð í kauphöllinni í Toronto. Hlutabréfaverðið í þeim báðum hefur verið á hraðri niðurleið. Með því að renna saman í stærra og fjölbreyttara orkufyrirtæki vonast eigendurnir til þess að eiga kost á ódýrari fjármögnun til virkjanaframkvæmda - aðallega af því hið sameinaða fyrirtæki búi við minni áhættu en fyrirtækin gerðu sitt í hvoru lagi.

magma-energy_stock-price_2009-2011.png

Það að vera í fjölbreyttari starfsemi í endurnýjanlega orkugeiranum virðist m.ö.o. vera álitið áhættuminna, heldur en að fókusera bara á jarðvarma annars vegar (sbr. Magma) og vind og rennslisvirkjanir hins vegar (sbr. Plutonic). Að auki stendur væntanlega til að sameiningin spari eitthvað í skrifstofu- og starfsmannahaldi. En staða fyrirtækjanna í kauphöllinni í Toronto hefur verið frekar glötuð undanfarið. Magma er meira að segja orðið penny-stocks fyrirbæri. Sad but true.

reykjanesvirkjun-03.png

Í Alterra Power eru, sem fyrr segir, saman komin fjölbreytt orkuverkefni. Þarna eru fullbúnar jarðvarmavirkjanir og öll önnur starfsemi HS Orku, önnur jarðvarmaverkefni í eigu Magma (sem eru staðsett í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku) og vindorkuver og vatnsaflsvirkjun (rennslisvirkjun) i eigu Plutonic. Og loks önnur þau verkefni sem Plutonic hefur verið með í bígerð, en þ.á m. er eitt sólarorkuverkefni.

Samtals er Alterra Power nú með uppsett afl í virkjunum sínum sem nemur 366 MW. Þar af eru 175 MW hjá HS Orku (Svartsengi og Reykjanesvirkjun), 23 MW í einni bandarískri jarðvarmavirkjun (Soda Lake), 95 MW í vatnsafli (rennslisvirkjun í Kanada sem kallast Toba Monterose í Bresku Kólumbíu) og 73 MW í kanadísku vindorkuveri (Dokie 1, einnig staðsett í Bresku Kólumbíu).

plutonic-dokie_wind.jpg

Jarðvarminn innan Alterra Power kemur allur frá Magma, en vatnsaflið og vindorkan koma frá Plutonic. Það er bara örstutt síðan Plutonic hóf að fá einhverjar tekjur í kassann. Fyrsta og eina vindorkuver Plutonic (Dokie 1) hóf starfsemi fyrir einungis fáeinum vikum og fyrsta rennslisvirkjun fyrirtækisins (Toba Monterose) hóf raforkuframleiðslu seint á liðnu ári (2010). Sú síðastnefnda er sögð eiga að ná fullum afköstum í ár (2011).

Hingað til hefur Plutonic því verið með litlar tekjur. Líklega var fyrirtækið farið á sjá fram á lausafjárskort og afar kostnaðarsama ef ekki ómögulega fjármögnun á þeim verkefnum sem þar er unnið að. A.m.k. hefur hlutabréfaverð í Plutonic ekkert verið að rétta úr kútnum, þrátt fyrir hækkandi olíuverð (sem almennt virkar vel á hlutabréf orkufyrirtækja; líka þeirra sem eru í græna orkugeiranum).

Magma Energy er í svolítið öðruvísi stöðu heldur en Plutonic Power. Magma hefur eingöngu verið í jarðvarma og haft talsvert handbært fé til ráðstöfunar eftir nokkuð vel heppnað hlutafjárútboð. En líklega hefur Magma samt líka séð fram á að geta ekki fengið nauðsynlegt fjármagn til að koma verkefnum sínum í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku almennilega áleiðis. Eina raunverulega tekjulindin í eignasafni Magma er væntanlega HS Orka. Og þó svo HS Orka skili vonandi viðunandi arði, er hætt við að það fjármagn hrökkvi skammt til að reisa nýjar jarðvarmavirkjanir í Chile eða Argentínu. Og það getur verið ansið þungt að fjármagna nýjar jarðvarmavirkjanir meðan auðlindin og orkukaupandi er ekki hvort tveggja að fullu sannreynt.

alterra-presentation-2011-1.png

Með Alterra Power er vel að merkja langt í frá verið að stofna fyrirtæki sem ætlar að einbeita sér að arðbærri orkuframleiðslu frá þeim 366 MW sem fyrirtækið ræður nú yfir. Áætlanir stjórnenda Alterra Power eru mun metnaðarfyllri og satt að segja afar stórhuga. Það er nefnilega svo, að innan fimm ára á uppsett afl fyrirtækisins næstum því að þrefaldast. Fara úr 366 MW og í um 900 MW!

Þetta samsvarar því að reisa nýjar virkjanir upp á 530-540 MW á einungis fimm árum. Það afl slagar hátt í eina Kárahnjúkavirkjun. Þarna er því um að ræða miklar fyrirhugaðar framkvæmdir hjá Alterra Power.

En hvar eiga þessar virkjanir að rísa? Þetta er ekki skilgreint alveg nákvæmlega í kynningu fyrirtækisins (sem nú má nálgast á heimasíðu Plutonic). En svo virðist sem til standi að megnið af þessum 530-540 MW verði nýjar jarðvarmavirkjanir eða um 400 MW. Og þar af virðist hið íslenska Reykjanes eiga að standa undir um 250 MW. Og það á næstu fimm árum.

alterra-presentation-2011-3.png

Nánar tilrekið er gert ráð fyrir að umrædd 400 MW í viðbótarafli, sem Alterra Power ætlar að vera búið að reisa árið 2016 séu eftirfarandi virkjanir:

1)  Upper Toba; 62 MW rennslisvirkjun í Bresku Kólumbíu.

2)  Ontario Solar; 5 MW sólarorkuver í Kanada (PV).

3)  Dokie; stækkun á núverandi vinorkuveri um 80 MW.

4)  McCoy; 15 MW jarðvarmavirkjun í Bandaríkjunum.

5)  Maule; 50 MW jarðvarmavirkjun í Chile.

6)   Eldvörp; 50 MW jarðvarmavirkjun á Reykjanesi.

7)   Reykjanesvirkjun; stækkun um 80 MW.

8)   Önnur jarðvarmaverkefni upp á um 200 MW.

Það eru einmitt þessi síðustu 200 MW sem eru hvað athyglisverðust fyrir okkur Íslendinga. Af áðurnefndiri kynningu um Alterra Power er ljóst að auk samtals 130 MW viðbótar á Reykjanesi með stækkun á Reykjanesvirkjun og virkjun í Eldvörpum, á líka verulegur hluti af umræddum 200 MW að vera nýjar virkjanir á Reykjanesi. Í kynningunni eru þar sérstaklega nefndar virkjanir í Krýsuvík, við Sandfell og við Trölladyngju.

eldvorp.jpg

Sjálfsagt á eitthvað af þessu 200 MW afli líka að vera nýjar virkjanir í Chile og Argentínu. En a.m.k. hluti þess á að vera virkjanir á umræddum þremur svæðum; Krýsuvík, Sandfelli og Trölladyngju. Eigum við að segja helmingurinn? Þá hljóða áætlanir Alterra Power þannig að á næstu fimm árum hyggist fyrirtækið reisa alls 230 MW virkjanir á Reykjanesi. Þ.e. 50 MW við Eldvörp, 80 MW stækkun á Reykjanesvirkjun og svo samtals um 100 MW við Krýsuvík, Sandfell og Trölladyngju. Jafnvel meira.

Þetta eru að mati Orkubloggarans ansið brattar áætlanir. A.m.k. þegar einungis er litið fimm ár fram í tímann, eins og gert er í kynningu Alterra Power. Sumir myndu jafnvel kalla þetta skýjaborgir.

alterra-presentation-2011-4.png

En hvað um það. Þetta er a.m.k. sú framtíðarsýn sem væntanlegir kaupendur hlutabréfa í Alterra Power hljóta að treysta á. Þegar þeir trítla í kauphöllina í Toronto til að festa fé sitt í þessu nýja skærgræna orkufyrirtæki; Alterra Power. Hvort það er viturleg fjárfesting eða ekki skal ósagt látið.

Svo er reyndar líka eftir að svara spurningunni hvert Alterra Power ætlar að selja raforkuna frá öllum þessum nýju virkjunum, sem fyrirtækið hyggst reisa á Reykjanesi. Það er a.m.k. enn ekki ljóst hvort álver rísi í Helguvík. En það er kannski allt önnur saga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Glöggir lesendur taka sjálfsagt eftir því, að í færslunni segi ég að Alterra Power stefni að því að virkja 250 MW á Reykjanesi, en nokkru síðar segi ég 230 MW. Þarna hefði átt að vera samræmi, en þar sem nákvæm tala er óviss væri kannski eðlilegast að segja að virkjanaáætlanir Alterra á Reykjanesi til næstu fimm ára hljóði upp á ca. 200-250 MW.

Ketill Sigurjónsson, 15.5.2011 kl. 12:21

2 Smámynd: Steinar Þorsteinsson

Fín samantekt.

Steinar Þorsteinsson, 15.5.2011 kl. 14:15

3 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Ég nefndi það einhvern tíma í færslu hér á bolginu þínu Ketill að ég hefði illan bifur á þessu Magmafyrirtæki og Silfurrefnum sem stýrir því.

Núna er hann búinn að skapa sér fullkomið tækifæri til að pumpa peningum út úr HS Orku í önnur verkefni og skattaskjól erlendis.

Það kæmi mér ekki á óvart að HS Orka verði rekin á núllinu næstu árin þrátt fyrir hækkun orkuverðs.

Hafi íslenskir stjórnmálamenn skömm fyrir að láta HS Orku fyrir slikk.

Sigurjón Jónsson, 15.5.2011 kl. 15:21

4 identicon

Hvorugt þessara fyrirtækja hafa skilað hagnaði á undanförnum árum heldur gengið á eigið fé úr hlutafjárútboðum eins og þú bendir á.

Spurning hversu góður skuldunautur þetta er.   Skulda þeir ekki OR 7 jarda eftir kaupuin á HS orku?  Svo yfirtóku þeir skuldir Geysis Green við Reykjanesbæ. 

Það færi þá aldrei svo að OR og Reykjanesbær eignuðus HS orku aftur við greiðslufall Alterra (Magma). 

Björn (IP-tala skráð) 16.5.2011 kl. 10:16

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Úr ársreikningi OR vegna 2010: "Skuldabréf meðal fastafjármuna er gefið út í USD, ber 1,5% vexti. Það er eingreiðslulán með gjalddaga árið 2016. Skuldabréfið er tengt álverði að ákveðnu marki og er tryggt með veði í hlutabréfum í HS Orku hf."

Skv. þessu yrði OR væntanlega aftur eigandi að HS Orku, ef skuldabréfið gjaldfélli vegna vanskila. Og þá þyrfti OR væntanlega aftur að selja þennan eignarhlut, skv. skipunum Samkeppniseftirlitsins.

Ketill Sigurjónsson, 16.5.2011 kl. 11:42

6 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Svo er spurning hver skipar Samkeppniseftirlitinu fyrir verkum.

Sigurjón Jónsson, 19.5.2011 kl. 14:39

7 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Fréttatilkynning á vef Alterra Power í dag, sem m.a. vísar til áætlana fyrirtækisins um byggingu fleiri virkjana á Reykjanesi:

"HS Orka is the largest privately owned energy company in Iceland producing 9% of the country's power needs and 10% of the country's heating needs. Installed geothermal power capacity is 175 MW from the Svartsengi and Reykjanes power plants. In addition, HS Orka generates 150 MW of thermal energy for district heating. Expansions are planned that could increase HS Orka's geothermal power production to 405 MW by 2016."

Þessi texti er svolítið óljós; ekki augljóst hvort heitavatnsframleiðslan er innifalin í tölunni 405 MW framtíðarinnar eða hvort átt er við að auka eigi afl raforkuvirkjananna úr 175 MW í 405 MW.

Sjá má fréttatilkynninguna hér: http://www.alterrapower.ca/news/Press-Release/News-Releases/News-Releases-Details/2011/Alterra-Power-Sells-25-of-Iceland-Subsidiary-HS-Orka-to-Icelandic-Pension-Funds-and-Buys-15-from-Icelandic-Municipalities1125/default.aspx

Ketill Sigurjónsson, 31.5.2011 kl. 15:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband