Heimskautadraumur BP í uppnámi

Mörgum finnst notalegt að grípa með sér lauflétta glæpareifara í bólið á kvöldin. Öðrum þykir miklu skemmtilegra og ennþá meira spennandi að lesa um raunveruleikann. T.d. átökin sem nú standa yfir í rússneska olíubransanum.

bp-rosneft-aliance-3.png

Spennulesning dagsins snýst um heimskautasvæðin unaðslegu norður af Rússlandi. Nánar tiltekið Karahafið í nágrenni eyjunnar Novaya Zemlya. Eyjan sú var sem kunnugt er einn af helstu tilraunastöðunum fyrir kjarnorkusprengingar Sovétmanna. Og í nærri aldarfjórðung var Karahafðið ruslakista fyrir gamla kjarnaofna og úrelta kjarnorkukafbáta Rússanna. Líklega hefur einhver gamall þulur sannfært meistara Sovétsins í Kreml um að lengi taki hafið við. Sem er kannski rétt - ef maður sleppir því að hugsa um ófyrirsjáanlegar afleiðingarnar sem allur þessi kjarnorkuúrgangur í Karahafi kann að hafa fyrir kynslóðir framtíðarinnar.

En verum ekkert að svekkja okkur á því geislavirka sulli. Því núna hefur Karahaf fengið allt aðra og meira spennandi ásýnd en að vera barrrasta einhver kjarnorku-rustakista. Þar undir hafsbotninum og öllu draslinu sem á honum liggur, er nefnilega talið að gríðarlegar olíulindir sé að finna. Áætlað er að þarna sé að finna allt að 50-60 milljarða tunna af olíu og að þar af séu a.m.k. 10-15 milljarðar tunna af vinnanlegri olíu og jafnvel miklu meira. Reynist þetta rétt er Karahafið einfaldlega eitt mest spennandi olíusvæði framtíðarinnar.

rosneft_sign.jpg

Þess vegna er ekki að undra að mörg helstu olíufyrirtæki veraldarinnar litu öfundaraugum til rússneska olíurisans Rosneft, sem seint á liðnu ári fékk leyfi rússneskra stjórnvalda til að hefja olíuleit á stórum svæðum á Karahafi. Rosneft er vel að merkja stærsta olíufyrirtæki Rússlands. Og Rússland hefur undanfarin misseri verið mesti olíuframleiðandi heims. Ergo; Rosneft er stórt - mjög stórt.

Rússneska ríkið á um 75% af þessari risasamsteypu. Frá 2006 hefur Rosneft verið skráð í kauphöllinni London (og auðvitað líka í Moskvu) þar sem fjórðungur hlutabréfanna í fyrirtækinu gengur kaupum og sölum. Svo skemmtilega vill til að meðal helstu hluthafa Rosneft, fyrir utan rússneska ríkið, eru ljúflingar eins og Íslandsvinurinn Roman Abramovich og álbræðslumeistarann Oleg Deripaska.

mikhail_khodorkovsky-bars.jpg

Verulegur hluti af eignum Rosneft varð vel að merkja til þegar rússnesk stjórnvöld stungu milljarðamæringnum Mikhail Khodorkovsky í fangelsi, gerðu olíufélagið hans (Yukos) upptækt og "seldu" eigurnar til Rosneft. Sumir eru svo ruddalegir að segja að hlutabréfakaupendur að Rosneft séu í reynd að kaupa þýfi. Og visa þar til þess að málatilbúnaðurinn gegn Khodorkovsky og Yukos hafi verið meira en lítið vafasamur.

En auðvitað ætlar Orkubloggarinn ekki að fara að efast um réttlætið í Rússlandi - minnugur þess þegar bloggarinn var sjálfur á Moskvuflugvelli og var hótað handtöku ef hann greiddi ekki fyrir ímyndaða yfirvigt. Tveimur dögum áður höfðu alvopnaðir rússneskir lögregluþjónar stöðvað Orkubloggarann um kvöld á gangstétt í Moskvu og hótuðu dýflissu ef bloggarinn reiddi ekki af hendi "sekt" vegna "ólöglegs" vegabréfs! Í báðum tilvikum sigraði íslenska þrjóskan kerfislæga spillinguna - en samt var bloggarinn þó eiginlega hálf feginn þegar SAS-þotan lyftist frá flugbrautinni áleiðis til Köben. Engu að síður langar bloggarann mikið aftur til hinnar stórkostlegu Moskvu.

bp-rosneft-aliance-1.png

Já - það er stuð í Rússlandi. En dveljum ekki lengur við hlutabréfalista Rosneft. Nú skal kynntur til sögunnar nýlegur risasamningur Rosneft og breska BP um að standa saman að olíuleit- og vinnslu í Karahafi. Það var nefnilega svo, að varla var blekið þornað á samningi rússneskra stjórnvalda um aðgang Rosneft að Karahafi, að sá óvænti atburður gerðist seint á árinu 2010, að Rosneft og BP undirrituðu samning um aðkomu BP að þessu ævintýraverkefni. Sem átti að marka endurreisn BP eftir skelfilegt klúðrið í Mexíkóflóanum, þegar olíuborpallurinn Deepwater Horizon sprakk þar og sökk í apríl 2010.

Á olíumörkuðunum var talað um að BP hefi þarna fundið gylltan björgunarhring. Eftir slysið á Mexíkóflóa hefði fyrirtækið nú tryggt sér aðgang að einu mesta olíuvinnslusvæði framtíðarinnar. BP væri nú aftir komið á beinu brautina eftir stutt niðurlægingartímabil.

tnk-rosneft-deal.jpg

Þessi ljúfi díll Rosneft og BP var reyndar svolítið óvæntur í ljósi þess að að honum stendur hinn nýi forstjóri BP; Bob Dudley. Já - sá hinn sami sem fram á mitt ár 2008 var forstjóri olíuverkefnis BP í Rússlandi, TNK-BP, en þurfti þá að flýja landið í snarhasti vegna meiriháttar ágreinings við rússneska samstarfsmenn sína og fékk þar litla samúð rússneskra stjórnvalda. Eins og Orkubloggið sagði einmitt frá á sínum tíma.

En jafnskjótt og Dudley var orðinn forstjóri BP síðla árs 2010, eftir að Tony Hayward var látinn taka pokann sinn vegna stórskaðaðrar ímyndar BP í kjölfar slyssins á Mexíkóflóa, vaknaði áhugi hjá rússneska ríkisolíufélaginu Rosneft að eiga samstarf við BP. Og um sama leyti náðust að því er virtist sæmilegar sættir milli BP og rússneska armisins í TNK-BP. BP virtist aftur komið á beinu brautina austur í Rússlandi.

tnk-rosneft-ft-energy-blog-may-19-2011.png

Helsta ástæða þess að Rosneft vildi BP sem samstarfsaðila í Karahafi er mikil reynsla BP af olíuvinnslu á heimskautasvæðum, þ.e. í Alaska. Og það er til marks um gríðarlegt mikilvægi umrædds samnings BP við Rosneft, að t.d. voru allar sex efstu fréttirnar á orkubloggsíðu Financial Times s.l. fimmtudag um þennan samning - og óvissuna sem nú ríkir um hann.

Það fór nefnilega svo að jafnskjótt og BP og Rosneft höfðu fallist í faðma, brjáluðust ólígarkarnir í TNK-BP aftur. Það fór sem sagt svo að gömlu "vinirnir" og samstarsfélagar Dudley's í TNK-BP, sem er þriðja stærsta olíufélag þessa rosalega olíulands, hreinlega ærðust þegar fréttir bárust af samningnum milli Rosneft og BP.

Umræddir sameigendur BP að TNK-BP eru engir venjulegir kaupsýslumenn, heldur nokkrir auðugustu menn Rússlands. Fjárfesting BP í TNK-BP var á sínum tíma stærsta erlenda fjárfestingin sem leyfð hafði verið í Rússlandi. En nú ætlaði BP sér sem sagt að vaxa ennþá hraðar í Rússlandi, í samkrulli við Rosneft. Það leist olígörkunum sem eiga TNK-BP að jöfnu við BP (50/50), afleitlega á.

tnk-bp-players.jpg

Þessir "samherjar" BP í TNK-BP eru kannski engir fóstbræður, en þeir standa a.m.k. saman að félagi sem kallast Alfa-Access-Renova Group. AAR er sem sagt fjárfestingafyrirtæki sem á 50% hlut í TNK-BP. Þetta ofuröfluga fjarfestingafélag er þríhöfða þurs nokkurra af ríkustu ólígörkunum í Rússlandi. Þar fer fremstur í flokki rússneski auðjöfurinn Mikhail Fridman með fyrirtækið Alfa Group.Hinir stærstu ljúflingarnir í AAR eru Úkraínumaðurinn Viktor Vekselberg og rússnesk-bandaríski kaupsýslumaðurinn Leonard Blavatnik (sem nú er búsettur í London og talinn einn ríkasti maður Bretlandseyja). Fleiri milljarðamæringar tengjast AAR og má þar t.d. nefna Rússana German Khan og Alexei Kuzmichev. En stærsti laxinn í þessum grugguga hyl er tvímælalaust fyrstnefndur Fridman.

mikhail-fridman_1084941.jpg

Til marks um hagsmunina og leikarana sem þarna eru á sviðinu, þá eru auðæfi hins sviphreina og greindarlega Mikhail's Fridman metin á um 15 milljarða USD. Og hann þar með einn af ríkustu mönnum veraldarinnar. Þegar Fridman seldi BP hlut í TNK fékk hann litla 6 milljarða dollara fyrir. Áður hafði Fridman auðgaðst í einkavæðingunni á tímum Borisar Jeltsin og í dag er hann eigandi að einu mesta viðskiptaveldi í Rússlandi (Alfa Group). Sem samanstendur ekki aðeins af olíu og gasi heldur einnig bönkum, námafyrirtækjum, símafyrirtækjum, raforkufyrirtækjum, þungaiðnaði o.s.frv.

Orkubloggið ætlar að sleppa því hér að gera nánari skil á Fridman og vinum hans í AAR. En þó skemmtilegt að nefna að áðurnefndur Vekselberg státar m.a. af því vera sá af okkur dauðlegum mönnum sem á flest Fabergé-egg veraldarinnar. Vekselberg er nefnilega sagður eiga alls 13 af þessum makalausu eggjalaga skrautmunum, af þeim 57 sem vitað er að til séu.

rosebud_faberge_egg.jpg

En þessi eggjatínsla er ekki aðalmálið hér. Í hnotskurn snúast deilurnar vegna samnings BP við Rosneft um það að rússneski armur TNK-BP, þ.e. ólígarkarnir, segja að BP hafi verið óheimilt að semja um fjárfestingar í rússneska olíuiðnaðinum nema í gegnum TNK-BP. Með málaferlum og lögbannskröfum hefur AAR-hópurinn barist með kjafti og klóm gegn því að vinum þeirra hjá BP tækist að fá samning við Rosneft. Enn er ekki útséð hvernig fer í þeim raðmálaferlum, en síðustu mánuði og vikur hefur þar mjög hallað á BP.

Gangi samningur BP við Rosneft ekki eftir yrði það að mikið áfall fyrir BP; áfall sem fyrirtækið má illa við eftir allt það sem á undan er gengið. BP hefur þess vegna gert allt í sínu valdi til að fá æðstu stjornvöld í Rússlandi til að beita sér í málinu og lægja öldurnar gagnvart AAR. Einnig hefur BP boðið umræddum sameigendum sínum að TNK-BP að kaupa þeirra hlut - að því tilskildu að rússnesk stjórnvöld heimili það, því erlend fjárfesting í rússneskum olíufélögum má ekki fara yfir 50%. Tilboð BP til AAR vegna helmingshlutar í TNK-BP hækkaði smám saman úr 27 í 30 milljarða USD, en félagarnir ljúfu að baki AAR hafa verið lítt hrifnir og segja 35 milljarða USD vera lágmark.

arctic-bear.jpg

Vafasamt er að BP geti réttlætt svo hátt verð fyrir það eitt að geta átt viðskipti beint við Rosneft og fengið þannig að hnusa af rússnesku heimskautaolíunni. BP er í klemmu. Eins og staðan er núna virðist þeim óheimilt að semja við Rosneft nema í gegnum TNK-BP (sbr. nýfallinn dómur gerðardóms í málinu). Ólígarkarnir hóta öllu illu, m.a. bótakröfum uppá milljarða dollara, ef BP brjóti gegn réttindum TNK-BP. BP kann að geta leyst málið með því að kaupa þá út, en sem fyrr segir ber ennþá talsvert á milli um hver verðmiðinn þar ætti að vera.

Á meðan bíða fyrirtæki eins og Shell, Chevron og ExxonMobil slefandi átekta og vona að BP komist ekkert áleiðis. Eins og fyrr segir hefur landgrunn Karahafsins mögulega að geyma allt að 60 milljarða tunna af olía og þar af tugi milljarða af vinnanlegri olíu. Því er skiljanlegt að nettur græðgisglampi komi í augu gömlu vestrænu olíufélaganna, sem þyrstir í að komast í nýar risastórar olíulindir.

dudley-_putin.jpg

Dudley hefur mikið reynt að fá þá Pútín og Medvedev til að grípa í taumana. Að þeir beiti völdum sínum til að leysa úr flækjunni og tryggja að díllinn milli BP og Rosneft verði að veruleika. En þeir félagarnir, forsætisráðherrann og forsetinn, þykjast lítið geta gert. Því þeir séu bara stjórnmálamenn og hafi ekki bein afskipti af atvinnulífinu (sic).

Það flækir svo málið enn frekar, að það styttist mjög í næstu forsetakosningar í Rússlandi og virðist sem bæði Medvedev og Pútín séu spenntir fyrir framboði. Jafnvel þó svo BP kunni að vera afar mikilvægur strategískur partner fyrir ríkisolíufélagið Rosneft í Karahafi, bendir flest til þess að þeir sem öllu ráða þarna í Rússkí vilji barrarsta salta málið fram yfir kosningarnar (sem verða á næsta ári; 2012). Á meðan magnast óvissan í kringum BP og hætt við að svefnvandamálin hjá Bob Dudley aukist með hverjum sólarhring. Þetta er vel að merkja allt raunveruleiki - en ekki reifari eftir Arnald Indriðason eða Stig Larsson.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Ketill,

Vildi bara leiðrétta að Deepwater Horizon byrjaði að bora á Macondo svæðinu í 15. Febrúar 2010.  17. Apríl lauk hann borun, 43 dögum á eftir áætlun og með 21 milljóna dollara tapi fyrir BP.   Að morgni 20. Apríl 2010 hittust yfirmenn frá BP á pallinum til þess að halda upp á 7 ára starfsemi pallsins án slysa (eftir að þeir höfðu sparað nokkra tugi þúsunda dollara með að sleppa prófunum á steypunni í holunni og sleppa því að koma upp nauðsynlegum búnaði í holunni)  20. Apríl 2010, klukkan 21:45, gáfu steypuþétti sig og gas, olía og steypa sprengdi sér leið upp á yfirborð pallsins, þar sem kvikknaði í öllu saman. 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 23.5.2011 kl. 14:56

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Takk fyrir ábendinguna. Já; sprengingin á Mexíkóflóa var að sjálfsögðu í apríl en ekki í febrúar. Sbr: http://askja.blog.is/blog/askja/entry/1050207/

Ketill Sigurjónsson, 23.5.2011 kl. 15:24

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

MAY 24, 2011

BP-Rosneft Deal 'Dead' for Now

http://online.wsj.com/article/SB10001424052702304066504576341200040573390.html?mod=WSJ_Energy_leftHeadlines

Ketill Sigurjónsson, 24.5.2011 kl. 11:09

4 identicon

Góð færsla að vanda!

Hjalti Rögnvaldsson (IP-tala skráð) 25.5.2011 kl. 23:58

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Spennan eykst - eins og í öllum góðum reyfurum. Rosneft virðist komið í viðræður við Shell:

Royal Dutch Shell in Rosneft Arctic talks

By Rowena Mason 6:46PM BST 25 May 2011

http://www.telegraph.co.uk/finance/newsbysector/energy/oilandgas/8536556/Royal-Dutch-Shell-in-Rosneft-Arctic-talks.html

Tæknilega er BP samt væntanlega mun betri partner fyrir Rosneft á heimskautasvæðunum heldur en Shell. Líklegt að brátt muni heyrast af viðræðum Rosnef við ExxonMobil, sem eru líka miklir reynsluboltar á norðurslóðum.

Ketill Sigurjónsson, 26.5.2011 kl. 10:06

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Góð færsla, takk fyrir þennan reifara.

Ég fór í kjölfarið aðeins að grúska í tölunum, er ekki rétt að notkun í heiminum á olíu sé tæplega 90 milljón tunnur/dag? (sjá graf hér undir) Ef svo er, þá er heimsnotkunin um 30 milljarðar tunnar á ári. Þannig að þessi risaforði er um 2ja ára notkun í mesta lagi, kannski bara hálfsárs notkun? Mínar vangaveltur ganga svolítið út á hversu mikið af svona olíulindum hafa verið að finnast, og dugir það til að halda í eftirspurnina við til lengri tíma? Þú talar um að þetta sé eitt mest spennandi svæði framtíðarinnar, þar af leiðandi fór ég að skoða þetta. Hér undir er graf yfir framleiðsluna, fengið hér.


Sveinn Atli Gunnarsson, 26.5.2011 kl. 15:51

7 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Svatli, 26.5.2011 kl. 15:51; það hversu jafnvel ný risaolíulind er lítið magn miðað við alla olíunotkun í heiminum eru einmitt helstu rök peak-oil-spámanna um að brátt hljóti mikil olíukreppa skella á heiminum. Þeim mun meiri ástæða fyrir olíufyrrtækin að komast í stærstu ónortnu lindirnar.

Ketill Sigurjónsson, 26.5.2011 kl. 18:00

8 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Afhverju sækist BP ekki eftir Drekanum?

Kristján Sigurður Kristjánsson, 28.5.2011 kl. 14:14

9 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Kannski kemur BP að Drekasvæðinu. Kannski ekki. Drekasvæðið er mögulega með litla eða jafnvel enga vinnanlega olíu eða gas. Þetta er virgin-territory þar sem engar alvöru rannsóknir hafa átt sér stað. Jarðfræðilega er svæðið á mörkum þess að geta haft olíu að geyma. Þar að auki eru engin þekkt kolvetnisvinnslusvæði í nágrenninu. Þ.a. óvissan er æpandi mikil; kannski ekkert þar að hafa. Stóru olíufélögin hafa oftast valið "auðveldu" leiðina; fara þangað sem búið er að sýna fram á að góðar líkur séu á mikilli vinnslu. Láta litlu sérvitringana um að taka áhættuna, en koma svo og kaupa happdrættisvinningana. Þetta er auðvitað ekki algilt, en furðu algengt. Þess vegna voru það einmitt minni spámenn sem voru brautryðjendur í kanadíska olíusandinum og í shale-gasinu í Bandaríkjunum. Sama má segja um Mexíkóflóann og landgrunnsvinnsluna utan við Gíneu og Angóla. En um leið og hlutirnir fara að ganga koma stóru haukarnir og skófla til sín the jackpot.

Ketill Sigurjónsson, 28.5.2011 kl. 15:45

10 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Vandræði BP í Rússlandi ætla engan endi að taka:

July 20, 2011 10:50 pm

Minority shareholders set to sue TNK-BP

http://www.ft.com/intl/cms/s/0/5a82f61a-b2fa-11e0-86b8-00144feabdc0.html#axzz1SlW0wwbP

Ketill Sigurjónsson, 22.7.2011 kl. 10:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband