26.6.2011 | 02:34
Petoro
Í lögum nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis er að finna lauflétta lagagrein, sem heimilar iðnaðarráðherra að stofna félag sem komi að kolvetnisvinnslu á íslenska landgrunninu. Tekið er fram í viðkomandi lagagrein að ef slíkt félag verði sett á fót, skuli það alfarið vera eign ríkissjóðs og að það skuli ekki i starfa sem vinnslufyrirtæki. Það myndi sem sagt einungis vera hluthafi í vinnsluleyfum.
Þessi heimild til að stofna svona félag var reyndar ekki í umræddum lögum þegar þau voru upphaflega samþykkt snemma árs 2001. Ákvæðinu var ekki bætt inní lögin fyrr árið 2008. Því þá, sjö árum eftir setningu laganna, höfðu Alþingismenn og starfsfólk innan íslensku stjórnsýslunnar áttað sig á gífurlegri þýðingu norska ríkisfyrirtækisins Petoro. Fyrirtækisins sem er umfjöllunarefni Orkubloggsins í dag.
Þegar rætt er um ávinning Norðmanna af olíu- og gasvinnslunni á norska landgrunninu er jafnan mest talað um norska olíufélagið Statoil. Og norska Olíusjóðinn, sem í renna leyfisgjöld og skattgreiðslur frá kolvetnisvinnslufyrirtækjunum og arður vegna eignar norska ríkisins í Statoil. Vissulega er Statoil mikilvæg tekjulind fyrir norska ríkið - og sömuleiðir er Olíusjóðurinn risadæmi. En í reynd skiptir Petoro jafnvel ennþá meira máli, sökum þess að þetta feimnislega félag er stærsta tekjulind norska Olíusjóðsins.
Petoro er sem sagt ein mikilvægasta stoðin í norsku gullgerðarvélinni; vélinni sem 24 tíma á hverjum einasta sólarhring mokar til sín ómældum auðæfum af norska landgrunninu. Petoro er hvorki meira né minna en stærsti handhafinn að olíu- og gasvinnsluleyfum á landgrunni Noregs. Í gegnum þau leyfi ræður Petoro alls yfir um þriðjungi af öllum þekktum kolvetnisbirgðum í norsku lögsögunni. Og hlutfall þessa afslappaða ríkisfyrirtækis í olíu- og gasvinnslu á norska landgrunninu er um fjórðungur.
Það er að vísu ekki Petoro sjálft sem á vinnsluleyfin, heldur er Petoro bara umsýsluaðili. Vinnsluleyfin sem Petoro sér um, tilheyra sérstökum sjóði sem kallast Statens direkte økonomiske engasjement (SDØE) - eða State's Direct Financial Interest á ensku (þá skammstafað SDFI). Þessu mætti lýsa þannig að Petoro sé verktaki sem höndlar með eignir eignarhaldsfélagsins SDØE. Þó svo Orkubloggarinn þjáist af nákvæmnisáráttu, ætlar bloggarinn að gera líf lesenda sinna einfaldara með því að gera ekki of mikið úr skilunum milli Petoro og SDØE. Til einföldunar má segja að SDØE og Petoro sé eitt og hið sama, enda er norska ríkið eigandi að hvoru tveggja.
Það er sem sagt svo að Petoro sér um reksturinn á eignum SDØE, sem er stór hluthafi í miklum fjölda vinnsluleyfa á norska landgrunninu. Það þýðir þó ekki að Petoro sé sjálft að stússa í olíu- eða gasvinnslu (þ.e. ekki s.k. operator). Heldur er fyrirtækið einfaldlega rekstraraðili fyrir hönd SDØE, sem er bara hluthafi í viðkomandi vinnsluleyfum. Með SDØE er norska ríkið sem sagt beinn hluthafi í mörgum vinnsluleyfum. Og nýtur þá ágóðans í samræmi við eignarhald sitt og tekur sömuleiðis fjárhagslega áhættu í samræmi við eignarhald SDØE/Petoro í viðkomandi leyfum. Þeir sem svo vinna olíuna (og/eða gasið) skv. viðkomandi leyfum eru ýmis önnur fyrirtæki, sem eru einnig hluthafar í viðkomandi vinnsluleyfum (Petoro er aldrei 100% handhafi vinnsluleyfis). Þar má nefna fyrirtæki eins og Statoil, franska Total, bandaríska ExxonMobil o.s.frv.
Tilurð SDØE og Petoro má rekja til velgengni Statoil. Framan af norska olíuævintýrinu var olíuleit og -vinnsla á vegum norska ríkisins alfarið í höndum fyrirtækjanna Statoil og Norsk Hydro. Statoil var þá alfarið í eigu norska ríkisins og ríkið var að auki langstærsti hluthafinn í Norsk Hydro. Ýmis önnur útlend og einnig norsk olíufélög komu svo auðvitað líka að olíuvinnslu á norska landgrunninu. En Statoil var þar lang umsvifamest.
Á 9. áratugnum var hagnaður Norsk Hydro og þó enn frekar hagnaður Statoil af kolvetnisvinnslunni orðinn svo æpandi mikill, að menn sáu fram á að brátt yrði norska ríkið bara dvergur við hlið ofurfyrirtækisins Statoil. Margir norskir stjórnmálamenn töldu að yrði ekkert gert í málum myndi fyrirtækið nánast gleypa norska ríkið. Stærðarhlutföllin þarna á milli þóttu sem sagt orðin óheppileg. Þess vegna var nú ákveðið að breyta fyrirkomulaginu og skipta vinnsluleyfum Statoil milli félagsins annars vegar og sérstaks sjóðs í eigu norska ríkisins hins vegar. Sjóðurinn var nefndur Statens direkte økonomiske engasjement (SDØE) og skyldi hann verða hluthafi í kolvetnisvinnslu á norska landgrunninu til hliðar við Statoil.
SDØE-sjóðurinn var settur á stofn 1985 og við skiptingu á vinnsluleyfum Statoil milli fyrirtækisins og sjóðsins var almennt miðað við að 80% eignarhlutur féll í hlut SDØE og 20% til Statoil. Þrátt fyrir þessa aðgerð var Statoil falið að sjá um umsýslu eigna SDØE, þ.a. þetta breytti litlu fyrir daglega starfsemi Statoil.
En fljótlega eftir stofnun sjóðsins urðu þær raddir æ háværari í Noregi að skrá bæri Statoil á hlutabréfamarkað og gera það að alvöru einkareknu olíufélagi - félagi sem myndi keppa við önnur helstu olíufélög heimsins um víða veröld. Þetta gekk eftir um aldamótin - og árið 2001 var Statoil skráð á markað í Osló og New York. Norska ríkið er þó áfram langstærsti eigandinn að Statoil og einungis tæplega 30% hlutabréfa í fyrirtækinu eru á markaðnum.
Við þessa breytingu á Statoil þótti ekki lengur viðeigandi að fyrirtækið höndlaði með eignir SDØE. Þess vegna var Petoro sett á á fót samhliða einkavæðungunni á Statoil og skyldi þetta nýja fyrirtæki sjá um eignir SDØE. Og þangað rennur nú stille og roligt óhemju hagnaður á degi hverjum vegna eignarhaldsins í fjölmörgum vinnsluleyfum á norska landgrunninu.
Hagnaður SDØE er gríðarlegur og þar af leiðandi hefur sjóðurinn oft verið stærsti greiðandinn í norska Olíusjóðinn. Þetta sést einmitt vel á stöplaritinu hér að ofan (SDFI er skammstöfun á ensku heiti sjóðsins). Eins og sjá má er bláa súlan miklu stærri heldur en arður norska ríkisins af eign þess í Statoil. Og sum árin er blái arðurinn af SDØE meira að segja ennþá hærri tala heldur en allar skattgreiðslur af kolvetnisvinnslu á norska landgrunninu! Þetta griðarlega framlag frá SDØE/Petoro til norska Olíusjóðsins er athyglisvert í því ljósi að hluti af eignum SDØE í vinnsluleyfum á norska landgrunninu var lagður aftur til Statoil skömmu fyrir einkavæðinguna 2001. Engu að síður er Petoro bersýnlega með óhemjumikil verðmæti í höndunum og varla hægt að ímynda sér meira spennandi starfsvettvang fyrir fólk sem á annað borð hefur áhuga á að vera ríkisstarfsmenn.
Hér í upphafi þessarar færslu voru nefnd íslensku lögin um fyrirkomulag kolvetnisvinnslu á landgrunni Íslands. Sem voru upphaflega sett árið 2001 (lög nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis). Í þeim lögum var ekki að finna neitt ákvæði um svona beina aðkomu íslenska ríkisins að vinnsluleyfum. En árið 2008 var, sem fyrr segir, samþykkt ný lagagrein sem kveður á um heimild til handa iðnaðarráðherra að stofna hlutafélag í eigu ríkisjóðs um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisvinnslu á íslenska landgrunninu (og á öðrum stöðum þar sem Ísland á hlutdeild; eina dæmið þar um er líklega norski hluti Drekasvæðisins, þ.e. ákveðinn hluti norsku lögsögunnar sunnan við Jan Mayen).
Í umræddri lagagrein er sérstaklega tekið fram að félagið skuli ekki starfa sem vinnslufyrirtæki. Þarna er hugsunin bersýnilega mjög svipuð og gildir um SDØE/Petoro og augljóst að Alþingi gerir nú ráð fyrir því að mögulega gæti íslenskt Petoro orðið til. Þó svo það ætli að ganga heldur treglega að koma olíuleitinni þarna af stað, sbr. síðustu fréttir um að fresta þurfi öðru olíuleitarútboðinu. Vonandi sjáum við samt bráðum alvöru olíufyrirtæki sýna Drekasvæðinu áhuga.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:13 | Facebook
Athugasemdir
Ketill: Takk fyrir fróðlega grein, að vanda.
Mig langar að spyrja þig út í annað, ekki tengt færslu þinni hér að ofan. Ég rakst á myndband með fyrirlestri Albert Bartlett (þú kannast kannski við hann?) um reikning (m.a. vöxt), mannfjölda og orkumál (e. Arithmetic, Population and Energy), sjá hér (8 hlutar - hugsanlega er þetta langdregið á köflum). Mér þótti þetta fróðlegt, en er þó ekki nægilega vel að mér í orkumálum og rannsóknum á þeim til að álykta um áreiðanleika og efnistök Albert Bertlett. En þessi vinkill um vöxt og helmingunartíma er þó ansi umhugsunarverður.
Er þetta einhver hlið sem þú hefur velt fyrir þér Ketill og þá út frá m.a. "peak oil" og olíu og kolaforða framtíðarinnar? Jafnvel um hugsanlegt ofmat á orkuforðanum (hann kemur inn á það á nokkrum stöðum)? Vonandi hefurðu tækifæri til að skoða þetta (er dáldið langt í heildina) og kannski komið með einhverja athugasemd um þetta...enda tengist þetta orkumálum að einhverju leiti.
Sveinn Atli Gunnarsson, 30.6.2011 kl. 16:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.