Таван толгой

Ef einhver hefur áhuga á risatækifæri í orkuiðnaðinum getur Orkubloggarinn hvíslað eins og einni ábendingu að viðkomandi: Sem er sú kolsvarta tillaga að taka næstu flugvél til Ulan Bator, höfuðborgar Mongólíu. Og halda þaðan á traustum jeppa beint suður í Góbí-eyðimörkina - í átt að einhverju svakalegasta kolaævintýri veraldarinnar nú um stundir.

mongol-warriors

Já, í dag heldur Orkubloggið með lesendur sína á fjarlægar slóðir. Við förum alla leið austur til kolasvæðanna geggjuðu í Mongólíu, sem kennd eru við Tavan Tolgoi (sem á frummálinu er ritað Таван толгой). Fyrst skulum við þó líta aðeins um öxl.

Það var í upphafi 13. aldar að mongólski stríðsherrann  Genghis Khan lagði grunninn að stærsta heimsveldi allra tíma. Útþensla þessa mikla ríkis Mongóla náði hámarki um og upp úr miðri 13. öld, en þá voru Mongólar komnir djúpt inní Evrópu. Þar sigruðu mongólsku hersveitirnar m.a. bæði Pólverja og Ungverja og mongólska keisaradæmið þá orðið mesta stórveldi heims. Og jafnvel það víðfeðmasta í mannkynssögunni allri - allt til þessa dags.

Mongol-Empire-map-2

Hersveitir Gengis Khan ollu mikilli skelfingu, enda höfðu sögurnar af skefjalausri grimmd þeirra borist hratt vestur á bóginn. En þegar kom fram á 14. öld tók stórveldi Mongóla að hnigna - undir dökku skýi Svartadauða sem þá herjaði á fólk bæði í Asíu og Evrópu. Her Mongóla var smám saman hrakinn til baka og loks alla leið inn á grasslétturnar heima í Mongólíu.

Næstu sex aldirnar þótti Mongólía heldur ómerkur afkimi þessa heims - að margra mati utan Mongólíu. En nú hafa augu heimsins á ný beinst að Mongólum og Mongólíu. Eða öllu heldur að ofboðslegum málma- og náttúrauðlindum sem þar er að finna og liggja ennþá að mestu óhreyfðar. Í Mongólíu eru t.a.m. einhver allra stærstu kolasvæði heimsins. Og þó svo okkur hér í vestrinu þyki kol ekki beint "fínn pappír", þá er staðreyndin sú að kolaiðnaður heimsins er sá hluti orkugeirans sem vaxið hefur hvað hraðast undanfarin ár. Ástæða þess er fyrst og fremst efnahagsuppgangurinn í Kína og víðar í Asíu; eftirspurn frá Kína og mörgum fleiri ríkjum eftir kolum hefur stóraukist (sbr. grafið hér að neðan).

Coal-history-2

Kolanotkun Asíuþjóðanna hvorki meira né minna en tvöfaldast á einungis einum áratug! Það er sem sagt kolsvört staðreynd að kolaiðnaður er ekki bara áhugaverð sagnfræði, heldur eru kol ennþá bæði mikilvægasta stoð orkugeirans og helsti orkugjafinn i efnahagsuppgangi Kína og margra annarra ríkja. Þess vegna er kolavinnsla og -bruni nú um stundir meiri en nokkru sinni hefur verið í veröldarsögunni. Og það eru horfur á að eftirspurn eftir kolum eigi enn eftir að aukast mikið. Enda horfa nú helstu iðnríki heimsins, ásamt orku- og hrávörufyrirtækjunum, hungruðum augum til kolaauðlinda Mongólíu. Nánar tiltekið til kolasvæðanna í Tavan Tolgoi.

Og nú vex spennan vegna kolaauðlinda Mongólíu með degi hverjum. Því nýlega ákvað ríkisstjórn Mongólíu að bjóða út vinnsluréttinn að stórum hluta svæðisins kennt við Tavan Tolgoi. Þegar fréttist af þessum áformum Mongólanna, ætlaði hreinlega allt að verða vitlaust í alþjóðlega orku- og hrávöruiðnaðinum. Enda ekki á hverjum degi sem þvílíkt risatækifæri býðst í þessum orkuþyrsta heimi.

Peabody-Energy-logo

Meðal fyrirtækja sem hugsuðu sér gott til glóðarinnar og fengu kolsvartan glampa í augun, þegar fréttirnar bárust af áformum Mongólíustjórnar, má t.d. nefna hrávörufyrirtækið og fóstbróður Glencore International, þ.e. svissneska Xstrata. Og líka brasílíska orku- og námurisann Vale, stál- og hrávörursamsteypuna hans Lakshmi Mittal, þ.e. ArcelorMittal, og síðast en ekki síst hið fornfræga bandaríska kolafyrirtæki Peabody Energy (sem er þekkt fyrir að hafa umstaflað heilu fjallgörðunum í Appalachia-fjöllum og víðar um Bandaríkin). Að auki hafa stórfyrirtæki frá Rússlandi, Kína, Suður-Kóreu og Japan sýnt mikinn áhuga á að komast í kolafjöllin í Tavan Tolgoi. Þar á meðal eru hrávörusnillingar eins og sjálfur Rusal-konungurinn Oleg Deripaska.

Tavan-Tolgoi_Mongolia_MAP

Síðustu mánuðina hafa stjórnvöld í Mongólíu rætt við alla þessa áhugasömu aðila og leitast við að þrengja hópinn. Og nú í júlí sem leið (2011) tilkynntu þau að einungis þrír aðilar myndu koma til greina sem tilboðsgjafar i Tavan Tolgoi. Þar er um að ræða bandaríska Peabody og að auki tvær fyrirtækjasamsteypur; annars vegar rússneska og hins vegar kínverska.

Stjórnvöld í bæði Japan og Suður-Kóreu gengu hreinlega af göflunum við þessar fréttir. Enda töldu þau augljóst að þarna væru Mongólarnir að hygla rússnesku og kínversku fyrirtækjunum. Rússland og Kína eru jú næstu nágrannar Mongóla. Þarna eru geggjaðir hagsmunir á ferðinni; aðgangur að meira en milljarði tonna af kolum. Og það er kunn staðreynd að stjórnvöldum i Mongólíu er mjög í mun að halda góðu sambandi við báða þessa nágranna sína; Rússa og Kínverja. Þess vegna ætti engum að koma á óvart að rússnesk og kínversk fyrirtæki hafi fremur hlotið náð fyrir augum mongólskra stjórnvalda, fremur en fyrirtæki frá Japan eða Suður-Kóreu.

Mongolia-coal-mine-1

Það fór reyndar svo að Rússarnir sem þarna komust að, eru í samkrulli við bæði japönsk og kóreönsk fyrirtæki. Og Kínverjarnir eru í samstarfi við japanska fjármála- og hrávörurisann Mitsui & Co. Þannig að kannski má segja að það hafi allar nágrannaþjóðir Mongóla, ásamt vinum þeirra í Bandaríkjunum, fengið smá sneið af kökunni.

Stóru sigurvegararnir í kapphlaupinu um mongólsku kolaauðlindina eru engu að síður bandarísk, rússnesk og kínversk fyrirtæki. Það bendir sem sagt allt til þess að það verði tvær fyrirtækjasamsteypur auk Peabody Energy sem munu taka lokaslaginn um mongólsku kolanámurnar á austursvæði Tavan Tolgoi. Og þó svo Japan og S-Kórea hefðu viljað stærri skerf, þá eru það einkum fyrirtækin Vale, Xstrata og ArcelorMittal sem sitja með sárt ennið.

Mongolia_Tsakhia Elbegdorj-1

Rússnesku olígarkarnir Oleg Deripaska og Victor Vekselberg eru líka sársvekktir. Mongólskum stjórnvöldum þótti þeir félagarnir vera full vafasamir pappírar til að fá að vera með í lokaslagnum um þessar miklu náttúruauðlindir. Eða að mongólska forsetanum, honum Tsakhiagiin Elbegdorj, hafi bara ekki þótt þeir Deripaska og Vekselberg vera nógu stórir kallar til að taka þátt í svona risaævintýri.

Þetta sýnir okkur að jafnvel stærstu fyrirtæki heimsins og mestu auðmenn samtímans vinna ekki alltaf. En þeir vesalingar sem urðu útundan í þetta sinn, mega samt ekki missa móðinn. Því þó svo umrædd risafyrirtæki og ólígarkar hafi þarna misst af einhverjum allra stærstu kolasvæðum veraldarinnar, er ennþá af nógu að taka í Mongólíu. Landið hefur nefnilega líka að geyma mestu ónýttu gullsvæði heimsins og sömuleiðis er þar að finna nokkrar stærstu úrannámur veraldarinnar - sem flestar eru ennþá nær ósnertar.

Mongolia-coal-mine-6

Peabody og félagar sigruðu þessa mikilvægu lotu. Það merkir þó ekki að endanlegir samningar séu í höfn. Þar að auki munu þessir risar, þó stórir séu, ekki stille og roligt geta tiplað inní Mongólíu og drifið sig í að skafa gróðann burt. Því þótt vitað sé að umræddur hluti Tavan Tolgoi hafi að geyma meira en milljarð tonna af kolum, sem munu standa undir margra áratuga vinnslu, er langt í land með að þessi ofurvinnsla fari af stað.

Svæðið liggur djúpt inni í suðurhluta Góbí-eyðimerkurinnar og svo til engir innviðir eru fyrir hendi. Þarna vantar bæði vegi, járnbrautir, rafmagn, vatnsveitur og annað sem nauðsynlegt er til að hlutirnir komist í gang. Og frá vinnslusvæðunum eru meira en 1.500 km í næstu höfn (sem er í Kína, en frá Tavan Tolgoi eru 4.500 km í rússneska höfn). Þarna verður því þörf á sannkölluðum risafjárfestingum áður en kolamolarnir fara að hreyfast.

Mongolia-coal-mine-2

Samningarnir um þetta eina svæði innan Tavan Tolgoi munu þýða gríðarlega fjárfestingu í Mongólíu. Álitið er að allt að 7 milljarða USD þurfi bara í vegi, járnbrautir, háspennulínur o.þ.h. til að sjálf kolavinnslan geti hafist. Fyrirtækin eru sem sagt að taka þátt í risaveðmáli um þróun kolaverðs í framtíðinni. Áhættan er veruleg - en sömuleiðis er ávinningsvonin mikil.

Nefna mætti fyrirtækið Ivanhoe Mines sem dæmi um hvað getur gerst þegar fyrirtæki fær vinnsluleyfi í Mongólíu. Fyrir örfáum árum fékk Ivanhoe leyfi til að vinna gull og kopar í landinu - og á tveimur árum rúmlega fimmfaldaðist hlutabréfaverð fyrirtækisins. Aðgangur að náttúruauðlindum Mongólíu getur sem sagt jafngilt einhverjum stærsta lottóvinningi sem hægt er að hugsa sér.

Mongolia-roads

Kolasvæðin sem nú er verið að úthluta eru einungis lítill hluta af öllum kolaauðlindunum í Tavan Tolgoi. Samtals er þetta rosalega kolasvæði allt talið hafa að geyma á bilinu 6-7,5 milljarða tonna af kolum. Sem geti skilað árlegri framleiðslu upp á tugi milljóna tonna í meira en 150 ár. Samhliða samningunum við stóru erlendu orku- og hrávörufyrirtækin, eru mongólsk stjörnvöld að undirbúa kolavinnslu á öðru svæði þarna í grenndinni, sem verður í höndum ríkisfyrirtækisins Erdenes Tavan Tolgoi. Þar er nú stefnt að hlutafjárútboði sem áætlað er að skili allt að 10 milljörðum USD! 

Mongolia-US_Sukhbaatar-Batbold_Joe-Biden

Það er sem sagt allt að gerast þarna í mongólsku eyðimörkunum þessa dagana. Og það er gaman að sjá að bandaríska Peabody ætlar sér aldeilis ekki að láta sér þetta tækifæri sér úr greipum renna. Og vegna bandaríska Peabody skal tekið fram, að síðan kommúnistastjórnin i Mongólíu missti völdin i kjölfar falls Sovétríkjanna, hefur Bandarikjastjórn verið í afar nánu sambandi við mongólsk stjórnvöld. Það er því kannski ekkert skrítið að Peabody Energy hafi hlotið náð fyrir augum Mongólanna.     

Það er líka greinilegt að Peabody nýtur góðs stuðnings frá bandarískum stjórnvöldum, enda fá fyrirtæki jafn öflug í lobbýismanum í Washington DC. Til marks um þetta má nefna að sjálfur varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, var nýverið mættur til Mongólíu að hrista spaðann á ráðamönnum þar. Og fékk í staðinn fallegan mongólskan hest að gjöf.

Mongolian_Horse_Rider

Þar með er loks komin íslensk tenging við Tavan Tolgoi. Því mongólski hesturinn er ekki svo ósvipaður þeim íslenska. Enda munu vera uppi kenningar um að hann sé einmitt forfaðir íslenska hestsins og hafi á sínum tíma borist frá Mongólíu til Noregs í gegnum Rússland. Skemmtilegt.

En nú verða lesendur Orkubloggsins bara að bíða spenntir og sjá hvort og hvenær mongólska þingið samþykki samningana við Peabody og félaga. Upplýsingar þar um hljóta að birtast jafnskjótt á hinum leiftrandi skemmtilega vef Tavan Tolgoi. Alveg þess virði að kíkja þar inn á hverjum einasta morgni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband