25.9.2011 | 11:04
ExxonMobil í gersku ævintýri?
Rússneska ríkisolíufélagið Rosneft hefur vaxið með ævintýralegum hraða síðustu árin.
Rosneft er í dag langstærsta olíufélagið í Rússlandi. En fyrir einungis örfáum árum var Rosneft nánast bara eins og hvert annað smápeð innan um einkareknu hákarlana; orkufyrirtæki rússnesku olígarkanna.
Á tímum Sovétríkjanna og fyrstu árin eftir hrun þeirra var olíuiðnaðurinn þar eystra allur á hendi ríkisins. Þetta gjörbreyttist á tímum ofurhraðrar einkavæðingarinnar í Rússlandi á 10. áratugnum. Fljótlega eftir að Boris Jeltsín varð forseti hins nýja rússneska ríkis um mitt ár 1991, réðust Jeltsín og menn hans í víðtæka endurskipulagning á efnahagslífinu. Þar hafði ríkið verið allt i öllu, en nú hófst hröð einkavæðing og þ.m.t. voru nær öll helstu orkufyrirtæki landsins. Brátt var svo komið að hin einkareknu Yukos, Sibneft, Lukoil og TNK réðu mestu í rússneska oliuiðnaðinum.
Eflaust var það þungavigtarmaðurinn Viktor Chernomyrdin sem var helsti arkitektinn að einkavæðingu rússneska orkugeirans. Chernomyrdin hafði verið ráðherra gasmála í sovéska stjórnarráðinui frá 1985. Og hann varð stjórnarformaður gasfyrirtækisins Gazprom þegar það var tekið út úr orkumálaráðuneytinu árið 1989 og gert að hlutafélagi í eigu ríkisins. Við fall Sovétríkjanna var Chernomyrdin því einhver valdamesti maðurinn í sovéska orkuiðnaðinum.
Fljótlega eftir valdatöku Jeltsin's var Chernomyrdin gerður að aðstoðarforsætisráðherra, með ábyrgð á orkumálum. Hann gjörþekkti rússneska orkugeirann og svo fór að það voru einmitt nokkrir samstarfsmenn Chernomyrdin's sem urðu hvað mest áberandi í einkavæðingu orkufyrirtækjanna.
Ferli Chernomyrdin's lauk aftur á móti snarlega við valdatöku Vladimir Pútín's um aldamótin 1999/2000. Pútín setti þá Chernomyrdin af sem stjórnarformann Gazprom og skipaði í hans stað lítt þekktan mann; Dmitry nokkurn Medvedev. Medvedev átti fljótlega eftir að verða lykilmaður í rússneskum stjórnmálum; varð forsætisráðherra Rússlands og er nú forseti landsins. Skemmtilegt. Nokkrum árum síðar átti hann svo eftir að hengja heiðursmerki á Chernomyrdin fyrir vel unnin störf fyrir Rússland. Engu að síður var frávikningin úr stóli stjórnarformanns Gazprom niðurlægjandi fyrir Chernomyrdin, sem lauk ferli sínum sem sendiherra Rússlands í Úkraínu. Kannski var það huggun harmi gegn að hann hafði þá önglað saman yfir einum milljarði dollara í sinn eigin vasa - í gegnum hlutabréf í Gazprom.
En höldum okkur við einkavæðinguna á rússnesku orkufyrirtækjunum. Sem fór fram í stjórnartíð Jeltsín's - og Chernomyrdin's. Í fyrstu var einkavæðingin framkvæmd með því móti, að hver ríkisborgari fékk hlut eða kauprétt í viðkomandi fyrirtækjum. Í framhaldinu gerðist það, að menn með góðan aðgang að fjármagni keyptu þessa litlu hluti í stórum stíl. Og eignuðust þannig brátt ráðandi hlut í mörgum fyrirtækjanna.
Þegar leið fram á miðjan 10. áratuginn var tekin upp ný aðferð við einkavæðinguna. Forsetakosningar nálguðust (2006), en rússneska ríkið var illilega fjárvana og rekið með miklum halla. Þá var gripið til þess ráðs að ríkið óskaði eftir lánum gegn veðum í hlutabréfum í útvöldum ríkisfyrirtækjum (á ensku var þetta nefnt loans for shares program). Á þessum tímapunkti hafði tiltölulega lítill hópur manna náð sterkum tökum á rússnesku efnahagslífi og ekki síst fjármálalífinu. Flestir voru þeir fyrrum embættismenn í lykilstöðum og/eða í innsta hring samstarfsmanna Jeltsin's. Þeir sáu sér nú leik á borði að nýta sér ráðandi stöðu sína innan hins einkavædda bankakerfis og tengsl sín við erlenda banka, til að fjármagna lánveitingar sínar til rússneska ríkisins gegn veðum í nokkrum mikilvægustu ríkisfyrirtækjum landsins. Þ.á m. voru flest stærstu orkufyrirtækin.
Að vísu höfðu stjórnvöld sett reglur í tengslum við lánaútboðið, sem áttu að tryggja að þessi fjármögnunarleið myndi ekki leiða til of mikillar samþjöppunar valds í efnahagslífinu. Reglurnar voru tvenns konar. Annars vegar skyldi tilboðsferlið vera opið og gagnsætt, þ.a. að allir áhugasamir kæmust þar að. Hins vegar var sett hámark á hversu stóran hlut í ríkisfyrirtækjunum hver lánveitandi gæti fengið veð í. Þetta síðastnefnda átti að koma í veg fyrir samþjöppun eignarhalds, ef lánin gjaldféllu og gengið yrði að veðunum.
Þegar á reyndi héldu þessi skilyrði auðvitað ekki vatni. Því í fyrsta lagi gátu menn stofnað mörg félög og látið hvert og eitt þeirra bjóða lánsfé gegn hámarksveði - og þannig safnað fjölda veða í sama ríkisfyrirtækinu á eina og sömu hendi. Í öðru lagi reyndist nánast engin samkeppni vera um að bjóða ríkinu lánsfé! Það var líklega þarna sem spillingin varð hvað mest áberandi. Einstakir menn eða hópar samstarfsmanna einbeittu sér að mismunandi fyrirtækjum og virtist jafnvel sem sú klíkustarfsemi ætti sér stað með þegjandi samþykki ríkisins.
Niðurstaðan varð sú að mörg helstu fyrirtæki Rússlands, þ.á m. flest stærstu og mikilvægustu orkufyrirtækin, urðu brátt alfarið á valdi örfárra manna. Þeir hinir sömu urðu svo fljótlega hinir formlegu eigendur orkufyrirtækjanna, því í flestum tilvikum gjaldféllu lánin og þá runnu fyrirtækin til lánveitandanna. Sem sjálfir höfðu útvegað lánsféð með aðgangi sínum að rússneskum einkabönkum og erlendum bönkum.
Eitthvert besta dæmið um þetta er hvernig tveir menn eignuðust þáverandi annað stærsta olíufélag Rússlands; Sibneft. Þrátt fyrir reglur um gagnsætt útboðsferli og markmið um dreifða veðhafa, náðu þeir tilvonandi Íslandsvinurinn Roman Abramovich og viðskiptafélagi hans Boris Berezovsky að eignast meirihluta í Sibneft. Bæði Abramovich og Berezovsky voru vel að merkja nánir samstarfsmenn Jeltsin's. Og verðið fyrir þennan rúmlega helmingshlut í Sibneft var einungis um 100 milljónir USD, þó svo fyrirtækið væri þá af flestum álitið nokkurra milljarða dollara virði. Þeir félagarnir þáverandi voru sem sagt með besta boðið um lán til ríkisins gegn veði í hlutabréfum í Sibnef; lán upp á einungis um 100 milljónir USD gegn veði í um helmingshlut í þessu risafyrirtæki. Af einhverjum dularfullum ástæðum bauð þar enginn betur.
Svipað gerðist með annað ennþá frægara rússneskt olíufélag, Yukos. Einnig komst Lukoil í einkaeigu. Það var hinn bráðungi Mikhail Khodorkovsky sem eignaðist Yukos og Vagit Alekperov varð stærsti eigandi Lukoil. Þeir voru báðir fyrrum aðstoðar-orkumálaráðherrar í ríkisstjórnum Rússlands og því nánir samstarfsmenn áðurnefnds Viktors Chernomyrdin. Loks náðu Mikhail Fridman og viðskiptafélagar hans í Alfa Group olíufélaginu TNK í sínar hendur. Fridman hafði þá um skeið verið í ýmsu samkrulli með nokkrum ráðherrum í ríkisstjórn Jeltsin's.
Þar með var rússneska ríkið búið að láta af hendi stærstan hluti rússneska olíuiðnaðarins til örfárra manna. Þeir áttu það flestir ef ekki allir sammerkt að hafa annað hvort verið hátt settir stjórnendur hjá sovéska framkvæmdavaldinu eða í innsta hring samstarfsmanna Borisar Jeltsín. Segja má að eina krúnudjásn orkugeirans sem var enn í höndum rússneska ríkisins hafi verið gasfyrirtækið Gazprom. Þar var rússneska ríkið ennþá stærsti hluthafinn, en var þó reyndar líka búið að selja meirihluta hlutabréfanna í Gazprom (hlutur ríkisins þar var á þessum tíma kominn undir 40%).
Sitt sýnist hverjum um það hversu mikil spillingin hafi verið í rússneska útboðsferlinu. Til eru þeir sem segja að þetta hafi reynst farsæl leið til að koma illa reknum félögum í lag. Það er vissulega staðreynd að einkavæðingin varð til þess að mörg rússnesku ríkisfyrirtækjanna sem höfðu verið að þroti komin, náðu nú að blómstra. Það er til marks um velgengnina að einungis örfáum árum síðar (2001) keypti Abramovich Berezovsky út úr Sibneft fyrir um 1,3 milljarða USD. Á þeim tíma var Berezovsky lentur illilega upp á kant við Pútín og var kominn í sjálfskipaða útlegð í London. Þar með varð lýðnum ljóst að Roman Abramovich var á örfáum árum orðinn einhver ríkasti maður veraldar. Rétt eins og Mikhail Khodorkovsky, aðaleigandi Yukos.
Það er kannski ekki hlaupið að því að einkavæða helstu ríkisfyrirtæki lands án þess að upp komi gagnrýni. Þetta gildir sjálfsagt bæði um Rússland og Ísland og eflaust fleiri lönd. En hvort sem rúsneska einkavæðingin var góð eða slæm, þá varð afleiðingin sú að á örskömmum tíma urðu örfáir menn handhafar að stórum hluta allra olíu- og gaslinda í Rússlandi. Nánast á augabragði varð til hin nýja stétt ofurauðugra manna í Rússlandi; s.k. ólígarkar.
Eftir stóð rússneska ríkið allsbert með sitt litla Rosneft. Meira að segja meirihlutinn í gasrisanum Gazprom hafði verið einkavæddur og þar var rússneska ríkið orðið minnihlutaeigandi. Og það var eiginlega bara tilviljun að Rosneft hafði ekki lika verið selt. Á tímabili virtist vera ríkur vilji til að koma Rosneft úr höndum ríkisins, en einnig voru uppi áætlanir um að sameina fyrirtækið Gazprom. Á endanum varð ekkert úr þessu og rússneska rikið var því áfram eigandi að Rosneft. Félagið skipti hvort sem er litlu; það samanstóð af nokkrum lélegustu eignunum sem verið höfðu innan sovéska orkumálaraðuneytisins. Þarna var einungis um að ræða tvær úr sér gengnar olíuhreinsistöðvar og fáeinar hnignandi olíulindir.
Skömmu fyrir aldamótin var sem sagt svo komið að örfáir menn höfðu stærstan hluta rússneska orkugeirans í sínum vösum. Árið 1998 fóru þar að auki að heyrast sögur um að þeir Abramovich og Khodorkovsky væru spenntir fyrir að sameina Sobneft og Yukos og búa þannig til langstærsta olíufélag Rússlands. Af þessu varð þó ekki, en þessar fyrirætlanir voru áfram í umræðunni. En þá gerðist það um áramótin 1999/2000 að ólíkindatólið Boris Jeltsín sagði skyndilega af sér sem forseti Rússlands. Og inn á sviðið steig fyrrum KGB-foringinn Vladimir Putin.
Pútín tók strax að vinna að því markmiði að Kreml yrði á ný ráðandi í olíuiðnaði landsins. Fyrstu árin gekk þetta hægt. Khodorkovski, aðaleigandi og forstjóri Yukos, þráaðist við og fór meira að segja að skipta sér af stjórnmálum og gagnrýndi Pútín af talsverðri hörku. Þegar svo hreyfing komst á ný á sameiningu Yukos og Sibneft var Kremlverjunum orðið nóg boðið. Þarna hefði orðið til rosalegur olíurisi, sem hefði haft tögl og haldir í rússneska olíuiðnaðinum - og alfarið verið í höndum einkaaðila. En þessar fyrirætlanir þeirra Khodorkovsky og Abramovich, sem þá voru tveir auðugustu menn Rússlands og þó víða væri leitað, gengu aldrei eftir.
Nú fór í gang hröð atburðarás, sem líktist um margt mera skáldsögu en raunveruleikanum. Khodorkovski var handtekinn með dramatískum hætti síðla árs 2003, dæmdur í langa fangelsisvist og Yukos fór í gjaldþrot í kjölfar meintra stórfelldra skattsvika. Um sama leyti féllust nokkrir aðrir ólígarkar snarlega á að selja 12% hlut sinn í Gazprom til rússneska ríkisfyrirtækisins Rosneftgaz. Þar með var rússneska ríkið komið með yfirráð yfir meira en helmingshlut í Gazprom (fyrir þessa sölu hafði ríkið verið minnihlutaeigandi í Gazprom með rétt tæp 39%). Þarna urðu Gazprom og rússneska ríkið nánast eitt - og síðan þá hefur fyrirtækið verið eitthvert mesta valdatækið í öllum evrópska orkugeiranum.
Um sama leyti féllst Abramovich á að selja Sibneft til ríkisins. Hann fór vellauðugur frá þeim viðskiptum; fékk rúmlega 13 milljarða USD fyrir liðlegheitin. Sibneft var látið renna inní Gazprom og varð olíuarmur þessa mikilvægasta orkufyrirækis Rússlands (nafni Sibneft var breytt í Gazprom Neft).
Eftir gjaldþrot Yukos voru risaeignir þrotabúsins seldar og flestar fóru þær til Rosneft. Skyndilega var þetta netta rússneska ríkisolíufélag orðið stærsta olíufyrirtækið í Rússlandi! Þar með voru bæði Yukos og Sibneft komin í umráð Kremlar og að auki hafði rússneska ríkið tryggt sér meirihluta í Gazprom. Eignarhaldið á rússneska orkugeiranum hafði nánast umturnast í einni svipan og Pútin komin með öll orkuspilin á hendi.
Þetta er líklega einhver dramatískasta ríkisvæðing í orkugeiranum sem um getur í veraldarsögunni. Sumir hafa reyndar kallað yfirtöku Rosneft á eignum Yukos mesta rán sögunnar. Því verðlagningin á eignum þrotabús Yukos þótti meira en lítið vafasöm. Þessir gjörningar voru hart gagnrýndir - ekki bara af andstæðingum Pútín's heldur af fjölmörgum þekktum erlendum orkusérfæðingum. En hvað svo sem til kann að vera í þeim ásökunum, þá er rússneska ríkið nú aftur orðið höfuðpaurinn í olíuiðnaði Rússlands.
Auk þess að ráða nú bæði Gazprom, gamla Sibneft og Rosneft, þá á rússneska ríkið einnig Transneft, en það fyrirtæki er eigandi að svo til öllum olíuleiðslum innan Rússlands. Og þó svo Lukoil og TNK (sem nú heitir TNK-BP) hafi fengið að vera í friði, er ljóst að Kremlverjar hafa náð yfirburðarstöðu í rússneska olíuiðnaðinum.
En jafnvel þó svo Rosneft sé orðið stærsta rússneska olíufélagið stendur það talsvert langt að baki alþjóðlegu risunum í orkuiðnaðinum; félögum eins og BP, ExxonMobil, Chevron eða Shell. Um skeið hefur ýmislegt bent til þess að í Kreml stefni menn að því að Rosneft vaxi áfram hratt, þ.a. félagið komist í hóp stærstu olíu- og orkufyrirtækja heimsins. Á tímabili var áætlunin bersýnlega að byggja upp náin tengsl við BP og jafnvel sameina Rosneft breska olíurisanum. En samstarfið við BP reyndist brösótt og að auki komu lagaflækjur í veg fyrir að BP gæti fjárfest í olíuvinnslu í Rússlandi í samstarfi við Rosneft.
Í vor varð svo endanlega ljóst að áætlanir um samstarf Rosneft og BP væru úr sögunni. Sumir töldu að þetta væri meiriháttar klúður af hálfu Rosneft, sem myndi kalla á hörð viðbrögð Kremlar. Á Vesturlöndum bjuggust menn jafnvel við því að nú myndu rússnesk stjórnvöld stokka upp spilin hjá Rosneft. Það var jafnvel farið að tala um að nýi orkukeisarinn Igor Sechin yrði settur af sem stjórnarformaður þessa rússneska olíurisa.
Þetta var orðið æsispennandi. Igor Sechin er vel að merkja ekki hver sem er. Líklega eru fáir ef þá nokkur í rússneska stjórnkerfinu sem hefur verið nánari Pútín. Sechin varð stjórnarformaður Rosneft árið 2004, nokkrum mánuðum eftir handtökuna á Khodorkovsky og skömmu áður en Rosneft keypti eignir Yukos. Hann hafði þá verið æðsti skrifstustjóri rússneska stjórnarráðsins allt frá þeim degi sem Pútin varð forseti (á gamlársdag 1999). Auk þess að vera stjórnarformaður Rosneft hefur Sechin líka verið aðstoðarforsætisráðherra í rússnesku ríkisstjórninni frá árinu 2008.
Samstarf Igor's Sechin við Pútín á sér reyndar ennþá lengri sögu. Sechin var háttsettur í St. Pétursborg á tíunda áratugnum þegar Pútín kleif þar upp metorðastigann, en þar varð Pútín meira að segja borgarstjóri um skeið. Þetta var einmitt á þeim tíma sem Björgólfur Thor og félagar hans voru að byggja upp bjórveldi í sömu borg. Þ.a. eflaust hefur Björgólfur Thor orðið var við þetta tvíeyki; tilvonandi forseta Rússlands annars vegar og tilvonandi stjórnarformann stærsta olíufélags landsins hins vegar.
Segja má að alla tíð síðan hafi þeir félagarnir Pútín og Sechin gengið í takt og hönd í hönd upp allt rússneska stjórnkerfið. Síðustu árin hefur Sechin oft verið kallaður þriðji maðurinn í rússneskum stjórnmálum, en líka nefndur Svarthöfði eða Orkukeisarinn. Hann er sagður hafa gríðarleg völd og áhrif. Sechin er af mörgum talinn vera helsti arkitektinn að baki því hvernig Kreml náði undir sig eignum bæði Yukos og Sibneft. Það má svo sem vel vera að Igor Sechin muni senn víkja úr stjórnarformannssæti Rosneft. En enginn skal halda að það þýði að hann sé að missa raunveruleg völd. Þeir Pútin munu vafalítið áfram ráða öllu því sem gerist í rússsneska orkugeiranum. Ekki síst þegar hafðar eru í huga síðustu fréttir um að Pútín stefni nú aftur á forsetaembættið í Rússlandi.
Það er til marks um styrk þeirra félaganna að varla hafði BP dottið úr skaftinu sem tilvonandi samstarfsaðili Rosneft, að Rosneft var komið á fullt í viðræður við ennþá stærri olíufyrirtæki. Eftir leynilegar viðræður nú sumar gerðist það nefnilega á síðustu dögum ágústmánaðar (2011), að þeir félagarnir lönduðu einhverjum mest spennandi díl sem hægt var að hugsa sér fyrir Rosneft. Því hinn nýi vinur og félagi rússneska ríkisolíufélagsins er enginn annar en mikilvægasta afkvæmi Standard Oil hans John's D: Rockefeller; sjálfur höfuðpaur kapítalismans: ExxonMobil.
Það að ExxonMobil með Texas-manninn Rex Tillerson í fararbroddi yrði helsti samstarfsaðili Rosneft kom mörgum mjög á óvart. Félögin hafa áður unnið saman, en langt í frá að það hafi verið í bróðerni. ExxonMobil og Rosneft hafa nefnilega síðustu 15 árin unnið að einhverju metnaðarfyllsta olíu- og gasverkefni veraldar við Sakhalin-eyju, austast í Rússlandi. Þar hafa fyrirtækin borað dýpstu brunna sem sögur fara af; allt að 12 km undir hafsbotninn. En þegar hlutirnir voru loks komnir á góðan skrið lentu þessi risafélög í miklum átökum um hvert selja eigi gasið og yrir vikið hefur logað í illdeilum milli Rosneft og ExxonMobil. Því þótti ýmsum það með miklum ólíkindum að félögin skyldu nú með svo skömmum fyrirvara gera nýjan risasamning um víðtækt samstarf á sviði orkumála.
Það er ekki nóg með að ExxonMobil hafi þarna samið við Rosneft um rúmlega 3 milljarða USD fjárfestingu í olíuleit og -vinnslu bæði suður í Svartahafi og norður í Karahafi. Heldur gengur samkomulagið líka út á að Rosneft fái hlutdeild í olíuvinnslu ExxonMobil innan Bandaríkjanna! Bandarískur almenningur hefur sem sagt loksins fullt tilefni til að skrækja: "The Russians are coming!". Þó svo það sé ekki alveg að gerast með þeim hætti sem fólkið óttaðist mest hér í Den, þegar sovéski kjarnorkusveppurinn vofði yfir.
Það eru svo auðvitað líka mikil tíðindi að menn ætli að fara af stað norður í kuldabola Karahafsins. Segja má að þetta sé táknmynd um það, að leiðin að heimsskautaolíunni utan Alaska sé loks að opnast. En þó svo Karahafið þyki eitthvert mest spennandi olíusvæði Norðurskautsins, verður vinnsla á þessum slóðum enginn barnaleikur.
Hvað um það; í framtíðinni munum við hér á landinu bláa hugsanlega sjá risaolíuskip í fjarska koma siglandi á leið sinni með svarta gullið frá Karahafi til Bandaríkjanna. Það hlýtur reyndar að vera sérkennilegt fyrir evrópsku olíufélögin og evrópska stjórnmálmenn að horfa upp á hinn ríkisvædda rússneska olíuiðnað og stærsta olíurisa Bandaríkjanna tengjast svona nánum böndum. Sumir eru verulega áhyggjufullir yfir þessari þróun mála og taka svo djúpt í árinni að segja að þarna sé Roxxon Energy raunveruleikans að fæðast. En kannski er þetta þvert á móti bara eðlilegt skref í framþróun orkugeirans. Eitt er víst; það er svo sannarlega aldrei nein lognmolla í olíuiðnaði veraldarinnar.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Russia, 2023. Putin and Medvedev are sitting in one of their kitchens, drinking and shooting the breeze. "Listen," slurs Putin. "I've lost track again. Which one of us is prime minister, and which is president?"
"You're the president now, I think," slurs Medvedev.
"Well," slurs Putin, "then it's your turn to go and get more beer."
http://www.foreignpolicy.com/articles/2011/09/24/the_return_of_the_king
Ketill Sigurjónsson, 25.9.2011 kl. 16:56
Þeir Medvedev og Pútín hafa verið duglegir við að byggja upp ímynd um mikinn vinskap sinn.
http://www.guardian.co.uk/world/gallery/2011/sep/25/putin-medvedev-russia-pictures?intcmp=239
Ketill Sigurjónsson, 26.9.2011 kl. 08:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.