Pippa & Percy eru sjóðandi heit

Nú styttist í áramótin. Það er því kannski viðeigandi að vera með efni í léttari kantinum. Þó svo öllu gamni fylgi jú alltaf nokkur alvara.

Pippa-Middleton-1

Í sumar sem leið var Filippía Middleton einhver umtalaðasta skutlan í slúðurpressu heimsins. Það ættu því allir að vita deili á stúlkunni. Ef einhverjir lesendur Orkubloggsins eru litlir aðdáendur slúðurfrétta, er rétt að geta þess að stelpan sú er litla systir Katrínar nokkurrar Middleton. Þeirri sem í vor giftist Vilhjálmi erfðaprinsi bresku krúnunnar; eldri syni þeirra Karls ríkisarfa og Díönu heitinnar.

Pippa er vissulega augnayndi og kannski ekki skrítið að fjölmiðlafólk hafi sýnt henni æpandi mikla athygli. En það sem Orkublogginu þykir athyglisverðast við Pippu, er að hún er komin á kaf í orkumálin! Og meira að segja í þann hluta orkugeirans hvar Íslendingar standa fremstir. Því Pippa Middleton er komin í vinnu hjá jarðvarmafyrirtæki! Fyrirtæki sem ætlar sér stóra hluti í framtíðinni.

cluff-Geothermal-logo

Nei; þetta hefur því miður ekkert að gera með mannabreytingar hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Því vinnuveitandi Pippu er ekki Or, heldur nýstofnað breskt jarðvarmafyrirtæki, Cluff Geothermal. Sem hyggst einbeita sér að jarðvarmaverkefnum í Bretlandi. Til framtíðar horfir Cluff Geothermal einnig til meginlands Evrópu, enda er þar víða að finna svæði þar sem góðir möguleikar eru til að nýta jarðvarma.

Eins og flest önnur ríki innan Evrópusambandsins hefur Bretland uppi áætlanir um mikla aukningu á nýtingu endurnýjanlegrar orku. Í dag er hlutfall endurnýjanlegrar orku á Bretlandseyjum um 3,5% (þar að baki eru árleg endurnýjanleg orkuframleiðsla sem nemur um 54 TWst). Markmið breskra stjórnvalda er að þetta hlutfall verði komið í 15% árið 2020 og á bilinu 30-45% árið 2030. Eðlilega er markmiðið vegna 2030 nokkuð loðnara en vegna 2020. En jafnvel til að ná hlutfallinu í 15% þarf risaátak.

UK-Renwables-2011

Til að ná markmiðinu um að árið 2020 verði hlutfall endurnýjanlegrar orku á Bretlandseyjum komið í 15%, er áætlað að þá muni Bretar þurfa að framleiða alls 234 TWst af endurnýjanlegri orku (árið 2020 er búist við að árleg orkuþörf Breta muni jafngilda 1.557 TWst). Í dag nemur endurnýjanleg orkuframleiðsla í Bretlandi, sem fyrr segir, um 54 TWst á ári (u.þ.b. helmingur þess er raforka en hinn helmingurinn aðallega lífmassi brenndur til upphitunar). Samkvæmt umræddu markmiði ætla Bretar því árið 2020 að vera búnir að rúmlega fjórfalda endurnýjanlega orkuframleiðslu sína og þá  framleiða 180 TWst meira af grænni orku en gert er árlega nú um stundir.

Til að setja þetta í íslenskt samhengi má nefna að þessi netta viðbót jafngildir rúmleg tífaldri raforkuframleiðslu á Íslandi í dag. Tíföld raforkuframleiðsla Íslands bara sem hrein viðbót í breska græna orkumengið. Og það ekki seinna en árið 2020. Þetta kann mörgum að þykja ansið hressileg aukning. Það verður þó að viðurkennast að allra síðustu árin hefur Bretum t.d. gengið nokkuð vel að byggja upp græn raforkuver. Þar hefur vindorkan leikið stærsta hlutverkið. Og þar á að halda áfram á fullri ferð - því mest af þessari nýju endurnýjanlegu orku á einmitt að verða raforka frá vindorkuverum.

Pippa-Percy-5

Einnig er áætlað að sjávarorkuver og lífmassi leiki þarna stórt hlutverk - sem virðist raunar byggt á hreinni óskhyggju. Loks er svo talað um að jarðvarmi og sólarorka (þetta tvennt er flokkað saman hjá Bretunum) komi einnig til með að aukast mikið og muni saman nema um 6% af aukningunni. Það merkir að samtals muni jarðvarmi og sólarorka skila 14 TWst árið 2020. Það er nánast jafn mikið eins og öll raforkuframleiðsla Landsvirkjunar í dag.

Í dag eru jarðvarmi og sólarorka einungis vel innan við 2 TWst af orkumengi Bretlands. Stærstur hluti þeirrar orku er nýting á sólarhita til að hita upp vatn (s.k. solar thermal). Ef ná á takmarkinu um að jarðvarmi og sólarorka skili 14 TWst árið 2020 þarf því mikil aukning að koma til í þessum geirum orkuframleiðslunnar.

Umræddar áætlanir breskra stjórnvalda um stórfellda aukningu í framleiðslu á endurnýjanlegri orku kalla á geysilega mikil fjárútlát ríkisins. Bæði í formi beinna fjárframlaga og alls konar niðurgreiðslna, óbeinna styrkja, skattaafslátta o.s.frv. Þó svo efndirnar eigi eftir að koma í ljós, virðist sem breskum stjórnvöldum sé full alvara. Og fyrir vikið sjá t.d. bæði sólarorkufyrirtæki og jarðvarmafyrirtæki nú möguleika á mikilli uppsveiflu á sínu sviði í Bretlandi.

Pippa-Percy-4

Enn sem komið er hefur jarðvarmi nær einungis verið nýttur til upphitunar í Bretlandi - og það í afskaplega litlum mæli. Enda er óvíða að finna aðgengilegan og góðan hita þar í jörðu og lághitasvæðin sem sumstaðar bjóða upp á einhverja möguleika eru ekkert í líkingu við það sem við þekkjum hér á eldfjallalandinu okkar.

Og raforkuframleiðsla fyrir tilstilli jarðvarma er þarna enn sem komið er óþekkt, þó svo núna sé reyndar verið að vinna að slíkum virkjanaverkefnum. Þar er um að ræða tvær fyrirhugaðar virkjanir á Cornwall; annars vegar 10 MW virkjun Geothermal Engineering og hins vegar 4 MW virkjun sem er hluti af s.k. Edensverkefni, en þar er á ferðinni risastórt ferðamannagróðurhús. Líklega hafa framkvæmdaaðilarnir átt ferð um Hveragerði áður en Eden brann; a.m.k. er hugmyndin af sama toga og nafnið líka hið sama. Skemmtilegt.

Pippa-Percy-6

Nýjasta jarðvarmaverkefnið á Bretlandi eru svo áætlanir Pippu og Cluff Geothermal. Ástæðan fyrir aðkomu Pippu að því verkefni, mun vera sú að annar stofnenda fyrirtækisins er náinn vinur hennar; maður að nafni George Percy. Sá hin sami og er að dúllast með Pippu á ljósmyndinni hér til hliðar og myndunum tveimur þar fyrir ofan.

Percy þessi, sem er vel að merkja af sannkölluðum heiðkóngabláum breskum aðalsættum, var einmitt hér á Íslandi í fyrrasumar (2010). Hann var þá að kynna sér nýtingu jarðvarmans á Íslandi. Og svo skemmtilega vill til að hann hefur líka verið í samskiptum við Orkubloggarann vegna verkefnisins. Því miður hefur bloggarinn aftur á móti ekki heyrt stakt orð frá Pippu!

Það er þó ekki hinn bráðungi Percy sem er aðaleigandinn að Cluff Geothermal. Þar er á ferðinni annar og reyndari bissnessmaður. Sá er nokkuð litskrúðugur amerískur auðmaður að nafni Algy Cluff

Cluff-algy-1

Algy Cluff hefur marga fjöruna sopið. Hann gerði það fyrst gott í gúmmíframleiðsu í Malasíu eftir seinna stríð. Síðar græddi hann vel á olíufjárfestingum í Norursjó. Eftir það tók hann til við að fjárfesta duglega í námavinnslu í Afríku og fann á 10. aratugnum einhverja stærstu gullnámu síðari tíma í Tansaníu. En núna á gamals aldri fannst honum bersýnilega viðeigandi að setja nokkra aura í endurnýjanlega orku.

Verkefnum Cluff Geothermal tengjast líka vísindamenn frá Newcastle-háskóla sem hafa sérhæft sig í jarðvarma. Og nú segjast þau Algy Cluff, Percy, Pippa og félagar þeirra, að þau ætli að bora 3ja km djúpa holu í Durhamsýslu (rétt sunnan við Newcastle). Þar stendur til að komast í 120 gráðu heitt vatn og nýta það til raforkuframleiðslu.

Það er nú samt svo að lítill fugl hvíslaði því að Orkubloggaranum að þetta geti orðið svolítið erfið fæðing hjá Cluff Geothermal. Það verður a.m.k. nóg að gera hjá Pippu ætli hún að gera Cluff Geothermal að alvöru jarðvarmafyrirtæki. Með raðgjaldþrotum sólarorkufyrirtækja nú síðsumars vestur í Bandaríkjunum virðist sem loftið sé byrjað að síga all hressilega úr grænu orkublöðrunni. Það er jafnvel hætt við því að þessi græni geiri atvinnulífsins rekist enn einu sinni á kolsvartan vegg raunveruleikans. Og að sagan frá níunda áratug liðinnar aldar endurtaki sig. 

kenya_geothermal_1

Það lítur þar að auki út fyrir að gamli Algy Cluff sé ekki sérstaklega trúaður á þetta jarðvarmaævintýri Cluff. Nýlegar fréttir af kallinum eru nefnilega þær að hann sé aftur kominn á fullt í alvöru sótsvört hrávöruverkefni suður í Afríku.

En reyndar herma ennþá nýrri fréttir að Cluff Gothermal hafi nú tekist að sameina jarðhita- og Afríkuáhuga þess gamla. Því Cluff mun vera komið í dúndrandi jarðvarmaverkefni í Kenýa. Og er þar m.a. í samstarfi við nokkuð kunnuglegt fyrirtæki, sem Cluff kallar Mannvitt á heimasíðu sinni. Og þar með leyfir Orkubloggarinn sér að líta svo á að Pippa Middleton sé orðinn Íslandsvinur! 

Pippa_middleton_-2

Hlutverk Pippu hjá Cluff Geothermal er sagt vera eins konar kynningarstjóri fyrirtækisins. En það er spurning hvort þau Percy og Pippa hafi í reynd einhverjar stundir aflögu til að sinna fyrirtækinu? Því það tekur jú dágóðan tíma að vera celeb og hertogasonur; hvort sem er að mæta á Wimbledon, láta mynda sig í dúllulegum róðratúrum í sveitinni eða allt partýstandið. En auðvitað vonum við samt að þau Pippa og Percy geti náð eyrum bæði breskra stjórnvalda og almennings, þ.a. jarðvarminn í Bretlandi komist í uppsveiflu. Þau eru a.m.k. bæði alveg sjóðandi heit!

-------------------------------------------

Vegna tímafrekra en skemmtilegra verkefna mun Orkubloggið líklega verða með stopulla móti næstu mánuðina. Orkubloggarinn óskar lesendum gleðilegs komandi árs.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Kærar þakkir fyrir stórmerkilegar, fræðandi og skemmtilegar greina um þetta höfuðmál, orkuna. Bestu nýársóskir.

Björn Emilsson, 26.12.2011 kl. 19:02

2 identicon

Ef Bretar og Evrópumenn ætla að ná alvöru árangri í því að hætta að nota kol, gas og olíu til rafmagnsframleiðslu er ekki augljóst að eini alvöru valkosturinn er kjarnorka.

Hefurðu kynnt þér Thorium kjarnaorfna:

http://www.youtube.com/watch?v=P9M__yYbsZ4

Egill (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 00:44

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Já; kannski er kjarnorkan eini raunhæfi valkosturinn. Þó svo hlutfall endurnýjanlegrar orku eigi eflaust eftir að vaxa mikið.

Smávegis um þórín/þóríum:

Indversk fullorðinsleikföng: http://askja.blog.is/blog/askja/entry/613115/

Norskt þórín : http://askja.blog.is/blog/askja/entry/613758/

Þrumuguðinn: http://askja.blog.is/blog/askja/entry/608681/

Ketill Sigurjónsson, 28.12.2011 kl. 06:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband