10.10.2011 | 08:04
Kolaiðnaður í Paradís
Manni nánast vöknar um augu. Þegar gamli sveitasöngvarann John Prine minnist óspjallaðrar sveitasælunnar við Grænuá í Kentucky. Gömlu paradísarinnar sem bandaríski kolaiðnaðurinn og kolanámur Peabody Energy eru fyrir löngu búin að eyðileggja:
And daddy won't you take me back to Muhlenberg County,
down by the Green River where Paradise lay?
Well, I'm sorry my son, but you're too late in asking,
Mister Peabody's coal train has hauled it away.
Já; Orkubloggarinn verður ansið meyr þegar kántrý-smellurinn Paradise hljómar úr spilaranum. Smábærinn Paradise við Green River í Muhlenberg-sýslu í Kentucky er löngu horfinn af yfirborði jarðar. Þar er ekkert eftir. Nema fáeinir gamlir legsteinar, þar sem kirkjugarður bæjarins var.
Síðustu íbúar Paradísar hurfu á braut þegar bandarísk yfirvöld létu jafna bæinn við jörðu árið 1967. Það var gert vegna hrikalegrar mengunar frá kolaorkuveri þar í nágrenninu; Paradise Fossil Plant. Dag og nótt jós orkuverið, sem kennt var við sjálfa Paradís, brennisteinsmenguðum útblæstri sínum yfir bæinn. Þarna brunnu endalausir kolahaugarnir, sem lestirnar báru frá námum kolavinnslufyrirtækisins Peabody í Appalachiafjöllum og nágrenni.
Og kolunum er ennþá brennt á fullu í Paradise Fossil Plant. Þvi þó svo bærinn Paradise sé nú löngu horfinn, þá lifir orkuverið góðu lífi. Þetta risastóra kolaorkuver er í dag um 2.300 MW og framleiðir litlar 14 TWst af rafmagni árlega. Sem er nokkru meira en öll raforkuver Landsvirkjunar til samans. Eða álíka mikið eins og þrjár Kárahnjúkavirkjanir. Nema hvað Kárahnjúkavirkjun og önnur íslensk raforkuver brenna jú ekki kolum. Og eru því óneitanlega talsvert betri kostur en bandarísku kolaorkuverin!
Paradise Fossil Plant er stærsta orkuverið í Kentucky-fylki. Kentucky er vel að merkja víðfrægt kolavinnslusvæði. Um 95% af öllu rafmagni fylkisins kemur frá kolabruna. Samtals framleiða kolaorkuverin bara í Kentucky einu um 90 TWst á ári. Sem er vel rúmlega fimmfalt meiri raforkuframleiðsla en öll orkuverin á Íslandi skila af sér.
Í gegnum tíðina hafa gamalgróin kolavinnslufyrirtæki eins og Peabody Energy jafnt og þétt skóflað upp kolunum og um leið slátrað friðsælum skógivöxnum hæðunum og fjalllendinu eftir endilöngum eystri hluta Bandaríkjanna. Þar má nefna svæði í fylkjum eins og Kentucky, Pennsylvaníu og síðast en ekki síst í Vestur-Virginíu.
"Almost heaven, West Virginia... mountain mama, take me home, country roads". Það verður ekki mikið fallegra en þetta dásamlega gæsahúðarlag ljúflingsins og náttúru-unnandans John's Denver. En þessi óður Denver's heitins til náttúrunnar í Vestur-Virginíu er sjálfsagt Peabody lítt að skapi. Því einhver mestu kolasvæði Bandaríkjanna er jú að finna innan Vestur-Virginíu, rétt eins og í Kentucky. Og kolaiðnaður og náttúruvernd eiga litla samleið.
Samtals standa kol nú undir hvorki meira né minna en u.þ.b. 48% af allri raforkuframleiðslu í Bandaríkjunum. Og áfram halda ofvaxnar risaskurðgröfur kolafyrirtækjanna að skafa burtu skóginn og fjöllin. Og moka upp kolahaugunum, sem knýja stóran hluta af efnahagskerfinu þar vestra. Frá kolasvæðunum liggur stanslaus straumur járnbrautalesta, hver með tugi vagna smekkfulla af kolum. Jafnvel á okkar grænu tímum er kolaiðnaðurinn áfram á fullri ferð, rétt eins og ekkert hafi í skorist. Þrátt fyrir að kol séu langversti orkugjafinn út frá bæði umhverfis- og heilsusjónarmiðum, bendir flest til þess að kol verði áfram helsti orkugjafi mannkyns. Ekki aðeins alla þessa öld heldur jafnvel einnig þá næstu!
Það vill jú svo til að kol eru ódýrasti raforkugjafinn í veröld okkar. A.m.k. ef umhverfis- og heilsutjón sem fylgir kolagreftri, -vinnslu og kolabruna er ekki tekið með í reikninginn. Og það er ennþá til ofboðslega mikið af kolum út um veröld víða. Þess vegna gerir t.a.m. upplýsingaskrifstofa bandaríska orkumálaráðuneytisins (EIA) ráð fyrir því að kol verði enn um langa framtíð mikilvægasti orkugjafi mannkyns. Meira að segja stóraukin gasvinnsla, sem hefur skilað sér í verulegum verðlækkunum á gasi, er ekki talin ógna yfirburðastöðu kolaiðnaðarins.
Í dag er hlutdeild kolanna í raforkuframleiðslu heimsins um 40%. Og í nýjustu orkuspá EIA er gert ráð fyrir að árið 2035 verði hlutfallið nánast óbreytt; hafi einungis lækkað um örfá prósent og nemi þá 37% allrar raforkuframleiðslu heimsins. Og að kol verði áfram þýðingarmesti raforkugjafinn, jafnvel þó svo bæði gas og endurnýjanleg orka klípi aðeins af kolunum.
Raforkunotkunin í heiminum öllum er nú samtals um 19.100 TWst á ári, en því er spáð að árið 2035 verði hún 35.200 TWst. Þetta er 84% aukning. Mestöll sú aukning verður, skv. spá EIA, utan Vesturlanda og þá sérstaklega í Kína. En þó svo Kínverjar leggi mikla áherslu á t.a.m. bæði vindorku og sólarorku, þá eru það blessuð kolin sem munu standa undir stærstum hluta aukinnar raforkuframleiðslu í Kína.
Í sjálfum Bandaríkjunum mun notkun á kolum aftur á móti fara heldur minnkandi hlutfallslega séð. Skv. spám EIA munu kolin í raforkumengi USA minnka úr núverandi 48% og niður í 43% sem hlutfall af raforkuframleiðslu viðmiðunarárin 2008 og 2035. Í spánni er gert ráð fyrir að sá orkugjafi sem fylli þetta skarð verði aðallega gas, en einnig vindorka. Kol verða þó enn sem fyrr mikilvægasti raforkugjafinn i Bandaríkjunum.
Svona spár eru auðvitað mjög óvissar. En vert er að hafa huga að bandaríski kolaiðnaðurinn er með eitthvert öflugasta lobbýistagengið í Washington DC. Fyrir vikið tala pólítíkusarnir þar vestra lítt um neikvæð umhverfisáhrif kolaiðnaðarins. En þeim mun meira um tækifærin i clean coal og að brátt verði kolaorkan nánast orðin skærgræn!
Þetta er sérstaklega skemmtilegt þegar haft er í huga að í gegnum tíðina hefur Peabody jafnan barist með kjafti og klóm gegn sérhverri nýrri umhverfislögjöf sem komið hefur til tals westur í Washington DC. Tímamótalöggjöf um að draga úr brennisteinsmengun frá kolaorkuverum (Clean Air Act) náði nú reyndar samt í gegn. Þrátt fyrir all svakalega andstöðu Peabody. Þeir vinna ekki alltaf, blessaðir.
Það er annars af Peabody Energy að frétta, að í dag er fyrirtækið stærsta einkarekna kolavinnslufyrirtæki veraldar. Kolin frá Peabody knýja nú u.þ.b. 10% af allri raforkuframleiðslu í Bandaríkjunum. Og þegar litið er til heimsins alls nemur raforkan frá kolum Peabody um 2% af allri raforku sem framleidd er á jörðu hér.
Í fyrra voru tekjur Peabody rétt um 7 milljarðar USD og hagnaðurinn hvorki meira né minna en rúmlega 1,8 milljarðar dollara. Fyrirtækið beitir nú öllum sínum áhrifum til að sannfæra bandaríska þingmenn og stjórnvöld um að samþykkja nýja orkustefnu, sem leggi megináherslu á að nýta bandarísk kol í enn meira mæli en hingað til hefur verið gert. Og að stefnt skuli að því að kolanotkun í Bandaríkjunum tvöfaldist fyrir árið 2025.
Í reynd verður þó vöxtur Peabody næstu árin sennilega mestur lengst austur í Asíu. Auk Bandaríkjanna er Peabody löngu orðið umsvifamikið í Ástralíu og fer hratt vaxandi í Kína. Að auki stendur nú til að fyrirtækið opni brátt einhverja allra stærstu kolanámu heims austur í Mongólíu. Þar er nefnilega að fara í gang ofsalegasta kolaævintýra allra tíma! Þar munu Peabody og félagar brátt geta sönglað "Almost heaven, South Mongolia!". Kannski meira um það magnaða Mongólíu-verkefni síðar hér á Orkublogginu.
Höfum hugfast að kol eru langmikilvægasti raforkugjafinn. Og að svo verður að öllum líkindum um langa framtíð. Það má því segja, að það sé svo sannarlega langt í frá að kolaiðnaðurinn sé á leið úr Paradís. Og varla ástæða til annars en að kolavinnslurisinn Peabody eigi bjarta framtíð fyrir höndum. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Áhugavert Ketill !
Komumst sennilega lítt áfram í þeirri viðleitni að draga úr brennslu kola á meðan orkuvinnslan er þetta ódýr og peningalegir hagsmundir ráða mestu um orkustefnu Bandarískra stjórnvalda.
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 10.10.2011 kl. 10:23
Því miður er tal þjóðarleiðtoga heimsins og stjórnmálamanna um vilja sinn til að draga úr kolefnislosun i heiminum, í engu eða a.m.k. litlu samhengi við raunveruleikann. Vissulega eru mörg kolaorkuver á Vesturlöndum orðin miklu minna mengandi en var fyrir 10-20 árum og losa æ minna kolefni. En umhverfistjónið af völdum kola á eftir að vaxa gríðarlega í Asíu. Og meira að segja í Evrópu eru horfur á að notkun kola muni aukast - þ.e. ef menn ætla sér að standa við loforð um að loka kjarnorkuverum. Það gæti þó orðið gas sem aðallega leysi kjarnorkuna af hólmi, t.d. í Þýskalandi. En gasið mun einnig valda aukinni kolefnislosun. Gas er þó betra en kol - heildaráhrif kolabruna og -vinnslu eru vægast sagt hrikaleg.
Ketill Sigurjónsson, 10.10.2011 kl. 10:42
Nöturlegt að leza, liggur við að maður leggji kolagrillinu & fjárfezdi í gazgrilli aftur.
& þó...
Steingrímur Helgason, 10.10.2011 kl. 23:34
Þetta á bara eftir að versna.
Á meðan umhverfissamtök berjar hatramlega gegna vatnsvirkjunum og raforkuvinnslu með kjarnorku, þá mun brennsla kola bara aukast.
Annars er þetta Peabody Energy dæmi smámunir við kolaorku-ævintýrið í Kína.
Kína brennir meira af kolum en Bandaríkin, Evrópa og Rússland til samans!
Kína brennir um 3 mia. tonna af kolum árlega!
Sú tala mun aukast í heilar 6 mia. tonna árið 2030 !!!!
Í Kína eru stærstu opnu kolanámur í heimi og þekja þær álíka stór svæði og flatarmál Íslands, eða um 100.000 ferkílómetra.
Hvergi í heiminum deyja jafn margir kolanámuverkamenn af slysförum og sjúkdómum og í Kína.
Kol knýja Kínverska "efnahagsundrið" áfram.
Hafið það í huga lesendur góðir næst þegar þið dáist að uppgangi Kína.
Kolbreinn Grímsson (IP-tala skráð) 11.10.2011 kl. 15:05
Takk fyrir fróðlegan pistil Ketill. Ef marka má spár um notkun kola og annarra jarðefna við orkuframleiðslu standast, þá er langt í að hægt verði að draga úr losun kolefnis á heimsvísu. Ekki síst gæti verið erfitt að berjast við peningaöfl sem dæla milljónum dollara í lobbýisma - hagsmunir heildarinnar fara ekki alltaf saman við hagsmuni einstakra aðila.
Sveinn Atli Gunnarsson, 12.10.2011 kl. 10:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.