Olían við Grænland

Nú er nánast slétt ár liðið frá því skoska Cairn Energy tilkynnti um að hafa fundið vísbendingar um olíu á landgrunni Grænalands. Nánar tiltekið um 4 km undir botni Baffinsflóa milli Grænlands og Kanada, um 400 km norðan við heimskautsbaug.

Cairn-Energy-webÞetta vakti vonir um að grænlenska olíævintýrið væri að hefjast fyrir alvöru. Í reynd skilaði þó umrædd borhola Cairn, frá sumrinu 2010, einungis óljósum vísbendingum um mögulega olíu. Og þær holur sem Cairn boraði í sumar sem leið (2011) reyndust allar vera skraufþurrar. Staðreyndin er því sú að enn hefur engin vinnanleg olía fundist við Grænland.

Upphaf olíuleitar við Grænland má rekja til þess þegar nokkrar rannsóknaholur voru boraðar á grænlenska landgrunninu fyrir meira en þremur áratugum, á vegum danskra rannsóknastofnana. Svo boraði norska Statoil eina lauflétta tilraunaholu árið 2001. Þetta átti sér allt stað á hafsbotninum vestan Grænlands.

USGS_Arctic-oil-gas-1

Þó svo engin olía fyndist í þessum rannsóknum var útkoman sú að þarna gæti mögulega verið talsvert af kolvetni (olíu og/eða gas) að finna. Væntingar manna þar um jukust svo enn frekar þegar bandaríska landfræðistofnunin (US Geological Survey eða USGS) tilkynnti árið 2001, að landgrunnið milli Grænlands og Kanada hefði mögulega að geyma allt að 17 milljarða tunna af olíu. Sem er geysimikið.

Til samanburðar þá er í dag álitið að landgrunn Noregs hafi að geyma um 7 milljarða tunna af vinnanlegri oliu (hafa ber í huga að miklu meiri líkur eru á að sú olía sé fyrir hendi, heldur en gildir um grænlensku olíuna - enn sem komið er). Niðurstöður USGS gáfu sem sagt vonir um að mjög mikla olíu sé að finna í lögsögu Grænlands, en engu að síður er mikil óvissa fyrir hendi um það hversu mikil olía þarna reynist vera. 

Það vor svo árið 2007 að ráðist var í fyrsta formlega olíuleitarútboðið á grænlenska landgrunninu. Áhuginn var talsverður. Og ekki var amalegt þegar USGS birti endurskoðaða spá sína um olíu á Norðurskautssvæðunum öllum árið eftir (2008). Enn og aftur voru tölurnar nánast svimandi háar. Landgrunnið út af V-Grænlandi fékk þarna að halda sínum 17 milljörðum tunna. Og að auki sagði USGS að landgrunnið við NA-Grænland væri eitthvert áhugaverðasta olíusvæði framtíðarinnar - jafnvel með um 34 milljarða tunna af vinnanlegri olíu. Samtals hefði lögsaga Grænlands því mögulega að geyma rúmlega 50 milljarða tunna af vinnanlegri olíu!

Greenland-Iceland-Satellite-1Reynist þetta rétt gæti Grænland orðið eitt af stærstu olíuríkjum veraldar. Eða með svipað magn af olíu í jörðu eins og í dag er talið að sé að finna í Rússlandi - eða Lýbíu (þau ríki bæði eru meðal mestu olíuframleiðenda heimsins). Munurinn er bara sá, að til að það borgi sig að bora eftir olíu í lögsögu Grænlands þarf olíuverð að vera a.m.k. á bilinu 50-70 USD tunnan. Meðan gumsið spýtist upp t.d. í Líbýu fyrir minna en 5 dollara á tunnuna. Þar að auki er olían við Grænland enn ekki sannreynd.

En hvað sem því líður þá er lögsaga Grænlands hugsanlega eitt af mikilvægari olíuvinnslusvæðum framtíðarinnar. Mat USGS er að um 13% af allri vinnanlegri olíu á heimskautasvæðunum (þ.e. norðan heimskautsbaugs) sé að finna í grænlenskri lögsögu. Og þá ekki síst á svæðum við NA-Grænland. Þetta er sérstaklega athyglisvert fyrir okkur Íslendinga. Vinnsla við NA-Grænland myndi augljóslega skapa Íslandi ýmsa möguleika; við erum jú næsta raunhæfa þjónustusvæðið við olíuiðnað á þessum norðlægu slóðum.

Greenland-Cairn-map-1Enn sem komið er er þó engin olíuleit hafin við NA-Grænland. Athygli olíufyrirtækja hefur fram til þessa beinst að vesturhlutanum, enda er hann mun aðgengilegri. Þar hefur áðurnefnt Cairn Energy verið í fararbroddi, en fyrirtækið fékk úthlutað um 50 þúsund ferkm leitarsvæði vestur af Grænlandi í fyrsta formlega olíuleitarútboði Grænlands . Árið 2009 bætti Cairn svo við sig leitaheimild á 20 þúsund ferkm til viðbótar. Stærstu svæðin þeirra eru vestur af Diskóeyju í Baffinsflóa, en sjávardýpið þarna er víðast á bilinu 400-1500 m (sem sagt víða miklu minna dýpi en á Drekasvæðinu milli Íslands og Jan Mayen).

Cairns-Greenland-Corcovado_offshore_Greenland_3_webCairn hefur nú verið að stússa á grænlenska landgrunninu í þrjú ár og borað einhverjar 6-7 holur. Fram til þessa hefur fyrirtækið líklega eytt sem nemur um 75 milljörðum ISK í boranirnar þar. Hver einasta hola kostar jú um 100 milljónir USD, sem jafngildir 11-12 milljörðum ISK. Hjá Cairn voru menn ansið brattir og sögðu að svæðin þeirra hefðu mögulega að geyma 4 milljarða tunna af olíu! Svo var bara að byrja að spreða. Holan sem var sögð bera merki um kolvetni var hola nefnd Alpha-1S1 og er á s.k. Sigguk-svæði (sjá kortið hér að ofan). Hún var þá rúmlega 4 km djúp. Nánari athuganir nú í sumar sem leið (2011) skiluðu engum viðbótarárangri og þegar allt kemur til alls virðist holan vera þurr. 

Áður en boranirnar hófust gaf Cairn Energy það upp að fyrirtækið teldi 10-20% líkur á að hitta í mark. Því miður hefur árangur Cairn við Grænland enn sem komið er verið lítill sem enginn. Og því eins gott að fyrirtækið skuli hafa af nógu taka eftir gríðarlega vel heppnað olíuævintýri sitt í Rajasthan á Indlandi undanfarin ár. Þar gekk Cairn á brott með hátt í tug milljarð dollara!

greenpeace-boarding-cairns-rig-2.jpgÞað er ábyrgðarhluti að bora eftir olíu - ekki síst á heimskautasvæðunum unaðslegu. Greenpeace hefur verið að gera Cairn lífið leitt með mótmælum á svæðinu og hafa truflað boranirnar. Hjá Greenpeace kalla menn olíuboranir við Grænland cowboy-drilling og segja áhættuna af olíumengun þarna skelfilegar. En áfram var borað og svo verður einnig næsta sumar (2012).

Alls segjast þau hjá Cairn ætla að setja um einn milljarð dollara í grænlenska verkefnið og hyggjast bora einhverjar holur í viðbót næsta sumar (2012). Kannski hitta þeir þá í mark - kannski ekki. Þarna þarf mikla þolinmæði og langtímasýn. Og ef ekkert gengur hjá Cairn, er vert að hafa í huga að brátt munu ExxonMobil, Chevron og Shell líka byrja olíuleit á svæðinu. Öll hafa þessi félög tryggt sér leitarsvæði vestur af Grænlandi (BP ætlaði líka að vera með í grænlenska ævintýrinu, en bökkuðu út eftir slysið á Mexíkóflóa). Olíuleitin við Grænland er rétt að byrja og ekki ólíklegt að a.m.k. 5-10 ár líði í viðbót uns menn verða almennilega varir þarna í þokunni á Baffinsflóa.

Baffin-Bay_FogÞað skemmtilegasta við þetta allt er kannski sú tilhugsun, að varla þarf nema einn eða í mesta lagi tvo vel heppnaða olíubrunna til að efnahagur Grænlands umsnúist á svipstundu. Í dag fá Grænlendingar u.þ.b. helminginn af öllum tekjum heimastjórnarinnar sem styrk frá Dönum. Eru m.ö.o. algerlega háðir dönskum peningum. En þetta eru ekki mjög háar fjárhæðir og ekki þarf að finnast mikil olía til að umsnúa efnahag Grænlendinga

Árlegi styrkurinn frá Danmörku er um 3,5 milljarðar DKK, en grænlensku fjárlögin eru alls u.þ.b. 7 milljarðar DKK eða rúmlega það. Samningar við olíufyrirtækin eru sagðir miðast við að um 60% af öllum olíuhagnaðinum renni til Grænlendinga. Grænlensk stjórnvöld hafa reiknað út að ein góð hola geti skilað Grænlendingum ca. 10 milljörðum DKK í hreinar tekjur - á hverju ári í fjöldamörg ár! Ein hola myndi skv. þessu samstundis veita Grænlendingum fjárhagslegt sjálfstæði og gott betur.

nuuk-kids-1_1116384.jpgÞessi tala um áætlaðar olíutekjur er ansið há - en kannski ekki fráleit ef olíuverð verður hátt og framleiðslukostnaður í hófi. Og hvað ef þarna verða brátt komnir svona eins og 2-3 brunnar í fulla vinnslu?! Það er kannski ekki furða að Grænlendingar séu sumir svolítið spenntir þessa dagana.

Olíuleit tekur oft fjöldamörg ár uns hún skilar árangri. Og skynsamlegast að stilla væntingum í hóf - hvað svo sem verður. En vonandi kemur að því að við Mörlandar getum samglaðst þessum góðu grönnum okkar í vestri vegna efnahagslegrar velgengni þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott færsla, alltaf gaman ad kilja her inn. Madur getur varla bedid eftir ad teir finni oliu tar eda i drekanum svo madur fai vinnu heima :)

Tessar staerdir hljoma samt otrulega, tessar tolur myndu tyda kringum 80.000 tunnur ur einum brunni sem er otrulegt. Finnst liklega ad verid se ad tala um ur einu svaedi. Min reynsla af deepwater brunn er svona 20-25.000 tunnur a dag se mjog mikid, framleidslan hrynur svo nidur fyrstu nokkur arin. Algeng staerd a FPSO er kringum 100-200k tunnur a dag.

Ingibjorn (IP-tala skráð) 8.11.2011 kl. 19:13

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Sammála að þetta er ansið bjartsýnt um tekjur af einni holu. Ég dró þá ályktun að Grænlendingarnir hafi þarna miðað við mjög hátt olíuverð.

Svo voru nýjar fréttir að birtast af árangri Cairn:

http://www.reuters.com/article/2011/11/08/us-cairnenergy-brief-idUSTRE7A72LJ20111108

Ketill Sigurjónsson, 8.11.2011 kl. 19:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband