7.11.2011 | 09:00
Tímamót í íslenskum orkumálum?
Stýrihópur um orkustefnu (Orkustefnunefnd) hefur lokið starfi sínu. Og birt skýrslu sem nú fer fyrir ríkisstjórn og verður svo væntanlega lögð fram sem þingsályktunartillaga á Alþingi
Iðnaðarráðherra segir stefnuna marka tímamót. Það er nú kannski ofmælt - þó vissulega sé gott að íslensk stjórnvöld marki sér skýra stefnu í orkumálum. Í reynd er umrædd stefna yfirleitt mjög almennt orðuð. Og þar að auki látið vera að taka á sumum mikilvægum álitamálum.
Þarna er t.d. nær ekkert fjallað um eignarhald á virkjunum eða orkufyrirtækjum. Samt var nefndinni beinlínis falið að taka eignarhald á orkufyrirtækjum til umfjöllunar og fara yfir helstu "leiðir varðandi eignarhald í orkuframleiðslu". Í þessu sambandi skyldi nefndin meta kosti og galla mismunandi eignarhalds og lýsa því hvaða leiðir séu þar vænlegastar.
Þess vegna bjóst Orkubloggarinn jafnvel við því að skýrslan myndi innihalda skýra stefnumörkun um eignarhald að orkufyrirtækjum og/eða stærri virkjunum. En svo er ekki. Þarna er því t.d. ekkert minnst á hugmyndir sem hafa komið fram um að allar stærri virkjanir á Íslandi skuli að meirihluta vera í opinberri eigu, en að einkaaðilar geti eignast í þeim allt að þriðjung.
Því má kannski segja að með orkustefnunni séu einfaldlega engar breytingar lagðar til á því fyrirkomulagi sem er í gildi um fjárfestingar í virkjunum á Íslandi. Þ.e. að slíkar fjárfestingar skuli heimilar öllum lögaðilum, hvort sem þeir séu opinberir eða einkaaðilar, og það eigi við um öll fyrirtæki innan EES-svæðisins. Og þar með leggi stýrihópurinn t.d. blessun sína yfir fjárfestingar eins og þegar Magma Energy Sweden keypti stóran hlut í HS Orku. Þetta eitt og sér er athyglisvert, þegar haft er í huga að VG átti væntanlega fulltrúa í stýrihópnum.
Eitt af þeim mikilvægu atriðum sem stýrihópurinn fjallaði um er hvort stytta eigi þann hámarksafnotatíma sem fyrirtæki geta skv. gildandi lögum haft að orkulindum í eigu hins opinbera. Í dag er hámarkstíminn þarna 65 ár í senn og framlengjanlegur. Meirihluti stýrihópsins álítur að stytta beri þennan hámarkstíma umtalsvert. Í skýrslunni er talað um "hóflegan tíma" og 25-30 ár nefnd í því sambandi.
Stýrihópurinn var þó ekki einhuga um þetta mikilvæga atriði. Einn nefndarmanna skilaði séráliti þess efnis að þetta þurfi að skoða mun betur áður en lögð verði fram tillaga um svo mikla styttingu á nýtingartímanum. Þetta er sennilega skynsamlegt sjónarmið.
Þó svo Orkubloggarinn álíti að eðlilegt geti verið að hafa afnotatímann almennt mun styttri en 65 ár, þá er svolítið hæpið af stýrihópnum að leggja til svona mikla styttingu - án þess að leggja fram ítarlegan rökstuðning fyrir slíkum styttri afnotatíma. Þarna hefði líka gjarnan mátt setja fram samanburð við önnur ríki. Vatnsaflsvirkjanir eru einmitt víða um heim byggðar á sjónarmiðinu um BOT (build - operate - transfer) og þar eru því mýmörg dæmi um hver afnotatíminn er. Í skýrslunni er því miður engan slíkan samanburð að finna. Og ennþá síður fjallað um hugsanlegt transfer eða leiðir í anda norsku hjemfall-reglunnar (þ.e. að virkjun skuli í lok afnotatímabils afhent ríkinu endurgjaldslaust).
Nefndin leggur ríka áherslu á að orkunýting skuli stuðla að hámarksarðsemi opinberu orkufyrirtækjanna og að raforkuverð hér eigi að færast nær því sem gerist á "meginlandsmörkuðum Evrópu". Í þessu sambandi veltir stýrihópurinn fyrir sér hversu mikið orkuverð hér geti mögulega hækkað og þar með arður opinberu orkufyrirtækjanna aukist (og þá auðvitað líka arður orkufyrirtækja í einkaeigu). Um þetta lætur nefndin nægja að vísa til kynninga Landsvirkjunar um þessi efni. Og bætir þar litlu sem engu við.
Þarna hefði nefndin hugsanlega átt að sýna örlítið meira sjálfstæði - og leita eftir fleiri sjónarmiðum um framtíðarþróun raforkuverðs í Evrópu. Það er nefnilega svo að talsvert mismunandi álit er uppi um það hvernig raforkuverð í Evrópu muni þróast á næstu árum.
Stýrihópurinn fjallaði einnig um það hvernig skuli standa að töku endurgjalds vegna nýtingu orkulinda í eigu hins opinbera. Bæði um leigu vegna auðlindanýtingar og um skattlagningu arðs af nýtingunni. Leggur nefndin til að stofnaður verði sérstakur Auðlindasjóður sem sjái um útleigu orkuauðlindanna og fái til sín endurgjald vegna nýtingarinnar.
Þó svo raforkuverðið hér hafi fram til þessa verið lágt og arður orkufyrirtækjanna því sáralítill er bæði forvitnilegt og nauðsynlegt að velta fyrir sér hvernig skynsamlegast sé að arðinum verði ráðstafað - þegar/ef hann myndast (þ.e. auðlindarentan). Í skýrslunni er lögð almenn áherslu á að í tilvikum sem hið opinbera er eigandi auðlindanna, skuli eigandinn njóta sem mest af auðlindarentunni þegar hún myndast. Í þessu sambandi eru nefnd nokkur dæmi um hvernig þetta megi gera, án þess að það sé nákvæmlega útfært. Að mati Orkubloggarans væri kannski nærtækt að fara þarna svipaða leiðir eins og gert er í Noregi. Vandinn er bara sá að arðsemin í orkuvinnslunni hér er sáralítil - og þar á verður vart mikil breyting í bráð vegna langtímasamninganna við stóriðjuna.
Það er vel að stjórnvöld hugi að þessum málum. Þær breytingar sem eru raunhæfastar og nærtækastar á íslenskum orkumarkaði í nánustu framtíð, eru þó sennilega af öðrum toga. Þar mætti nefna álitaefnið hvort hér skuli tekinn upp spot-markaður með raforku. Í huga Orkubloggarans er nánast borðleggjandi að taka upp slík markaðsviðskipti hér á landi, en um þetta er lítt fjallað í umræddri skýrslu stýrihópsins. Vonandi er þó Landsnet á fullu að huga að slíkum málum.
Eflaust má segja að þessi skýrsla sé prýðilegt innlegg í umræðu um íslensk orkumál. Og skýrslan gæti reyndar markað tímamót - ef henni verður fylgt eftir af krafti. Það sem Orkubloggaranum þótti athyglisverðast við skýrsluna eru þær áherslur skýrsluhöfunda að afnema skuli ríkisábyrgð af virkjanaframkvæmdum ríkisfyrirtækja fyrir stóriðju, að auka skuli fjölbreytni í orkunýtingu (bæði í hópi viðskiptavina og með því að kanna með nýtingu fleiri orkugjafa) og að skoða skuli ítarlega þann möguleika að tengja Ísland evrópskum orkumarkaði með sæstreng. Áherslur af þessu tagi gætu breytt miklu í íslenska orkugeiranum. Að því gefnu að hugmyndir af þessu tagi séu raunhæfar.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:08 | Facebook
Athugasemdir
Þeir hefðu kannski getað skoðað reynslu nágrannaþjóða af einkavæðingu. Reynsla þjóðverja er slæm, eins og þeir vilja koma þessu í ríkiseigu aftur. Forsendur eru m.a. þær sem varað hefur verið við hér og auðvitað dæmt sem kjaftæði.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2011 kl. 20:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.