21.11.2011 | 08:54
Arðsemi Landsvirkjunar
Landsvirkjun hefur tekið upp þá ánægjulegu nýbreytni að kynna stefnu sína og helstu áhersluatriðin í starfsemi fyrirtækisins á opinberum vettvang. Bæði í tengslum við ársfundi fyrirtækisins og með sérstökum fundum þess á milli.
Í vikunni sem leið fór fram haustfundur Landsvirkjunar fyrir fullu húsi í stórum sal í Hörpunni. Þar var einkum fjallað um arðsemi fyrirtækisins, með sérstakri áherslu á Kárahnjúkavirkjun, og mikilvægi þess að arðsemin aukist.
Það vakti athygli margra fundargesta og ekki síður fjölmiðla að skv. erindi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, hefur arðsemi Landsvirkjunar í gegnum tíðina verið afar lág. Og eigandi fyrirtækisins hefur notið sáralítilla arðgreiðslna. Verulegan hluta tímabilsins frá því Landsvirkjun var stofnuð, árið 1965, hefur arðsemin beinlínis verið neikvæð (sbr. grafið hér að ofan, sem er úr kynningu Harðar og má nálgast á vef Landsvirkjunar).
Það var reyndar svo að mest allan þennan tíma var varla raunhæft að raforkuvinnsla Landsvirkjunar skilaði miklum arði. Raforkuverð í heiminum var lágt, kaupendur íslensku raforkunnar voru fyrst og fremst álbræðslur og önnur stóriðja (sem beinlínis þrífst á mjög lágu orkuverði) og lítil samkeppni var um íslensku raforkuna.

Það er aftur á móti umhugsunarefni að munurinn á orkuverði til stóriðju á Íslandi og erlendis virðist hafa aukist talsvert um og upp úr aldamótunum. Árið 2000 tók raforkuverð til nýrra álvera í heiminum almennt að hækka. Í þessu sambandi má vísa til skýrslna ráðgjafafyrirtækisins CRU, sem sýna þetta svart á hvítu (sbr. glæran hér til hliðar). Á sama tíma sat raforkuverðið til álveranna á Íslandi eftir - og er í dag ennþá á sömu slóðum og var fyrir meira en áratug.
Það var einmitt á þessum árum (skömmu fyrir og í kringum aldamótin) sem Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka sömdu um raforkusölu til álvers Norðuráls í Hvalfirði. Orkubloggarinn hefur reyndar ítrekað heyrt að þar hafi umrædd fyrirtæki hreinlega undirboðið Landsvirkjun - sem alls ekki virðist fjarri lagi þegar afkoma þessara fyrirtækja er borin saman. Þarna slógu litlu stóru orkufyriryrtækin tón sem varð a.m.k. ekki til að styrkja samningsstöðu Landsvirkjunar.
Skömmu síðar kom svo að risasamningi Landsvirkjunar við Alcoa. Þar bættist við gífurlegur pólítískur þrýstingur frá þáverandi ríkisstjórn um að ná samningum. Það eitt og sér kann að hafa veikt samningsstöðu Landsvirkjunar verulega og gæti verið meginástæða þess að ekki náðist að semja um hærra raforkuverð.

Forstjóri Landsvirkjunar tók reyndar skýrt fram í erindi sínu að þarna hafi menn gert eins vel og þeir gátu á þeim tíma (þ.e. starfsfólk Landsvirkjunar). En forstjórinn nefndi það sérstaklega að raforkuverðið frá Kárahnjúkavirkjun væri of lágt - og ávinningur þjóðarinnar af virkjuninni væri óverulegur.
Í þessu sambandi má nefna að áður en samið var við Alcoa, þá hafði Norsk Hydro verið að skoða byggingu álvers á Reyðarfirði. En Norsk Hydro lagði þau áform til hliðar eftir að hafa ráðist í aðrar stórar fjárfestingar og taldi sér einfaldlega ekki unnt að bæta enn einu nýju og stóru álveri við að svo stöddu. Af nýlegum samtölum Orkubloggarans við tvo framkvæmdastjóra hjá Norsk Hydro virðist sem menn þar á bæ séu enn að skæla yfir því, að hafa ekki stokkið á byggingu álbræðslunnar á Íslandi. Að þeirra sögn mun jafn hagstæður raforkusölusamningur, eins og bauðst þá á Íslandi, aldrei bjóðast aftur í hinum vestræna heimi.

Það er svo sem auðvelt bæði fyrir Orkubloggarann og Norsk Hydro að vera vitur eftir á. Það er aftur á móti óumdeilanlegt að arðsemi Landsvirkjunar af Kárahnjúkavirkjun hefur enn sem komið er verið talsvert frá upphaflegum væntingum. Nú er bara að vona að álverð hækki brátt á ný (raforkuverðið til Alcoa er tengt álverði) og að vaxtakjör verði hógvær (vegna endurfjármögnunar lána). Að öðrum kosti mun Kárahnjúkavirkjun seint skila þeirri auðlindarentu til þjóðarinnar sem vænta mætti af þeirri miklu náttúruauðlind sem jökulárnar þarna eru.
Í stefnumótun sinni undanfarið hefur Landsvirkjun lagt mikla áherslu á að auka þurfi arðsemi fyrirtækisins. Þar er m.a. litið til þess að ná fram hækkunum á raforkuverði til núverandi stóriðju (jafnóðum og samningar losna eða endurskoðunarákvæði verða virk). Einnig hefur Landsvirkjun kynnt að í nýjum raforkusölusamningum verði miðað við verulega hærra verð en verið hefur fram til þessa.

Í dag er raforkuverðið til stóriðjunnar hér líklega nálægt 25 USD pr. hverja MWst (verðið frá Kárahnjúkavirkjun á síðasta ári var að meðaltali um 27 USD/MWst). Á haustfundinum kynnti Landsvirkjun að í dag bjóði fyrirtækið 12 ára raforkusamninga á 43 USD/MWst. Slíkur samningur fæli það bersýnilega í sér að þá myndi Landsvirkjun hagnast vel af raforkusölunni.
Sumum kann að finnast 43 USD/MWst hljóma sem ansið stórt stökk frá þeim 25-27 USD sem virkjanir Landsvirkjunar eru almennt að skila. En sennilega þurfa næstu virkjanir Landsvirkjunar a.m.k. 30-35 USD/MWst til að fjárfestingin sé réttlætanleg út frá arðsmissjónarmiðum. Nýlegur raforkusölusamningur Landsvirkjunar við Rio Tinto Alcan vegna stækkunar álversins í Straumsvík kann einmitt að hafa verið á þessum nótum. Þ.e. um eða rétt yfir 30 USD/MWst. Það mun einmitt vera algengt orkuverð í raforkusölusamningum vegna stækkunar álvera í heiminum í dag (sbr. glæran frá CRU hér að ofan).

Til að skila góðri arðsemi til framtíðar þurfa raforkusölusamningar Landsvirkjunar vegna nýrra virkjana því að vera ansið mikið hærri en verið hefur hjá fyrirtækinu til þessa. Stefna Landsvirkjunar er að hækka arðsemi fyrirtækisins með því að raforkuverðið hér hækki í átt til þess sem gerist á raforkumörkuðum í Evrópu. En að verðið hér verði þó talsvert lægra en í Evrópu. Miklar hækkanir hafa orðið á síðustu árum á evprópskum taforkumörkuðum. Þess vegna er nú svigrúm til að hækka raforkuverð hér verulega OG um leið bjóða mjög samkeppnishæft verð m.v. Evrópu.
Þetta svigrúm ætti að nýtast til að laða hingað ýmis iðnfyrirtæki og þá sérstaklega þau sem kjósa nálægð við Evrópumarkaði. Þar að auki álítur Landsvirkjun mögulegt að raforkuverð í Evrópu eigi enn eftir að hækka mikið á næstu árum. Sem gefi Landsvirkjun enn meiri tækifæri til aukinnar arðsemi í framtiðinni.

Í kynningum sínum um þróun raforkuverðs í Evrópu næstu árin og áratugina hefur Landsvirkjun birt spá frá finnska verkfræði- og ráðgjafafyrirtækinu Pöyry, sbr. grafið hér til hliðar (þessi glæra er úr kynningu Landsvirkjunar frá því í vor). Pövry gerir ráð fyrir að raforkuverð í Evrópu muni hækka mjög mikið - og Landsvirkjun sér tækifæri í þeirri þróun. Neðsta línan á grafinu sýnir hvernig Landsvirkjun sér möguleika á því að meðalverð á raforku sem Landsvirkjun framleiðir hækki í takt við verðþróunina í Evrópu, en verði um leið áfram talsvert miklu lægra en í Evrópu (sem líklega er nauðsynlegt til að draga raforkukaupendur til Íslands).
Skv. grafinu er algengt heildsöluverð á raforku til iðnaðar í Evrópu nú um 60 USD/MWst. Það er vel að merkja langtum hærra verð en álver almennt ráða við að greiða og þess vegna ekki skrítið að álbræðslum í Evrópu fer fækkandi. Pöyry álítur að árið 2025 verði raforkuverðið komið í 90-100 USD að núvirði. Ef íslenskt heildsöluverð á raforku yrði þá um 40% lægra en í V-Evrópu, yrði það um 50-60 USD/MWst að núvirði. Það myndi merkja að verðið hér yrði líklega um 20-25 USD umfram kostnaðarverð pr. MWst.

Það eru slíkar spár sem einkum réttlæta þá framtíðarsýn að raforkuframleiðsla Landsvirkjunar geti skilað gríðarlegri arðsemi til framtíðar. Þ.e. að síhækkandi raforkuverð í Evrópu muni styrkja samkeppnisstöðu Landsvirkjunar og gera það að verkum að veruleg eftirspurn verði eftir raforku fyrirtækisins á verði sem nemi allt að 60-70 USD/MWst árið 2025 (þ.e. hæsta verðið, en einnig væri boðið upp á mun lægri verð til stærstu kaupendanna). Þá yrði algengur hreinn hagnaður af hverri seldri MWst á bilinu 20-25 USD og í einhverjum tilvikum ennþá meiri.
Þetta myndi auka arðsemi Landsvirkjunar mjög. En þessar áætlanir eru auðvitað alls ekki í hendi. Það er t.a.m. óvíst hvort spár um hratt hækkandi raforkuverð í Evrópu gangi eftir. Það er vissulega svo að áherslur Evrópusambandsríkjanna um að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku og draga úr kolefnislosun eru líklegar til að hækka raforkuverð í Evrópu. Á móti kemur að mjög hröð uppbygging nýrra vind- og sólarorkuvera í Evrópu og aukið gasframboð (sem er líklegt vegna nýrrar gasvinnslutækni) kunna að valda offramboði á raforku eða getur a.m.k. dregið mjög úr verðhækkunum. Það verður líka að hafa í huga að ef/þegar núverandi stóriðja fer að flýja hátt raforkuverð í Evrópu í ennþá meira mæli en verið hefur, mun eftirspurn eftir raforku þar minnka talsvert. Það eitt og sér gæti orðið til þess að raforkuverð í Evrópu (þ.e. innan ESB og Noregs) hækki ekki jafn hratt eins og sumar spár gera ráð fyrir.

Þess vegna er kannski mögulegt að enn um sinn verði það fyrst og fremst stóriðja sem lítur til Íslands sem áhugaverðar staðsetningar. En síður þau meðalstóru iðnfyrirtæki sem Landsvirkjun er bersýnilega mjög að horfa til þessa dagana. Framtíðarsýn Landsvirkjunar er mjög áhugaverð og spennandi, en er háð margvíslegri óvissu.
Það er reyndar bersýnilegt að Landsvirkjun gerir sér fulla grein fyrir þessari óvissu. Og er þess vegna að skoða ýmsa aðra möguleika. Það var t.a.m. athyglisvert hversu rík áhersla var lögð á möguleikann á sæstreng milli Íslands og Evrópu á umræddum haustfundi. Þarna þótti Orkubloggaranum hann skynja nýjan og sterkari sæstrengstón.

Í stað þess að segja að rafstrengurinn væri einungis áhugaverður möguleiki, eins og verið hefur á fyrri kynningarfundum Landsvirkjunar, var nú sagt að þarna gæti verið um að ræða stærsta viðskiptatækifæri fyrirtækisins. Enda væri þá unnt að selja beint inn á spot-markað í V-Evrópu, þar sem raforkuverð er almennt gríðarlega hátt.
Af þessum orðum frummælanda má hugsanlega álykta sem svo að Landsvirkjun sé farin að huga að sæstengnum af mun meiri alvöru en verið hefur. Og að byrjað sé að skoða þann áhugaverða möguleika að etv. megi ná sérstaklega hagstæðum samningum um lagningu á rafstreng vegna þeirrar úlfakreppu sem sum ESB-ríkin standa frammi fyrir - til að geta staðið við bindandi markmið sín um að stórauka hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkubúskap sínum. Þar er nærtækt að líta til Bretlands, sem augljóslega mun þurfa að kaupa gríðarmikla endurnýjanlega orku erlendis frá til að geta uppfyllt afar metnaðarfullar skyldur sínar um hlutfallslega aukningu endurnýjanlegrar orku.

Vandamálið er bara að til að það verði áhugavert að leggja umræddan sæstreng, þarf sennilega að auka orkuframleiðsluna hérna ansið mikið. Það eitt að ætla að selja umframorku gegnum svona streng er varla nógu mikið til að gera hann áhugaverðan í augum Evrópu.
Í þessu sambandi er lógískt að Landsvirkjun virðist vera farin að verða mun áhugasamari um vindorku en verið hefur. Hér á landi er vindur með þeim hætti að stórar vindrafstöðvar á Íslandi kunna að geta skilað tvöfalt meiri nýtingu en gengur og gerist hjá evrópskum vindorkuverum. Og a.m.k. jafn mikilli framleiðslu (nýtingu) eins og vindrafstöðvar í sjó gera, þ.e. vindrafstöðvar utan við strendur landa eins og Danmerkur, Hollands og/eða Bretlands (vindorkuver úti í sjó eru geysilega dýr). Því gæti mögulega verið hagkvæmt að byggja hér stór vindorkuver á landi og um leið leggja sæstreng milli Íslands og Evrópu.
Þess vegna er ekki útilokað að það styttist í að við munum sjá stór vindorkuver rísa á Íslandi. Á haustfundinum kom fram að Landsvirkjun álítur íslensk vindorkuver verða orðin samkeppnisfær við vatnsafl eftir áratug. Ef slíkar spár ganga eftir má hugsa sér tugi eða jafnvel hundruði turna - hver með 5 MW túrbínu - standa keika í hópum við suðurströnd Íslands. T.d. nálægt og útfrá Skaftarósi og á flatlendinu í Meðallandi. Skv. vindkortinu sem Landsvirkjun sýndi á haustfundinum eru þær slóðir einmitt ákjósanlegar til að nýta vindorku.

En hvað sem líður þróun raforkuverðs í Evrópu og staðsetningu íslenskra vindorkuvera, þá blasa ýmis spennandi tækifæri við íslenska orkugeiranum. Landsvirkjun er bersýnilega að kalla eftir umræðu - bæði í þjóðfélaginu og meðal stjórnmálamanna - um mikilvægi orkuauðlinda Íslands. Um leið má segja að Landsvirkjun sé að benda á mikilvægi þess að stjórnvöld hér hugsi fram í tímann. Ekki ósvipað og Norðmenn gerðu á tíunda áratug liðinnar aldar, áður en frjáls samkeppni var innleidd á norska raforkumarkaðnum og áður en Norðmenn tengdust Hollandi með sæstreng. Höfum í huga það sem Hörður Arnarson sagði berum orðum á haustfundinum, þegar hann ræddi mikilvægi þess að auka arðsemi í orkuframleiðslunni og hækka raforkuverðið: "Ekkert eitt verkefni mun ráða jafn miklu um lífskjör á Íslandi í framtíðinni."
[Glærurnar í þessari færslu eru úr kynningum Landsvirkjunar, að undanskildum glærunum tveimur frá CRU].
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:22 | Facebook
Athugasemdir
Ef sæstrengur á að bera sig með fullnægjandi hætti þarf ekki að tengja hann raforkuuppbyggingu á austur grænlandi?
Stefna íslands hefur hingað til verið orka fyrir störf, ekki er víst að stuðningur fáist til að flytja störf úr landi. En með flutning á grænlenskri orku um Ísland þá lítur málið allt öðruvísi út.
Magnús (IP-tala skráð) 21.11.2011 kl. 11:36
Hörður Arnarsson er tvísaga varðandi ýmislegt um afkomu LV, sjá t.d. HÉR og HÉR.
Svo segir Hörður, og þú Ketill, étur gagnrýnislaust upp eftir honum, að raforkuverð til álvera hafi hækkað mikið upp úr aldamótum og með því er gefið í skyn að samningurinn til Alcoa Fjarðaáls hafi verið mikil mistök.
Þetta er rangt því raforkuverðið tók ekki að hækka að ráði, eins og sést á grafinu í næst efstu myndinni, fyrr en árið 2005. LV náði blábyrjun þeirrar hækkunar og raforkuverð til Alcoa er því hærra en til eldri álvera á Íslandi.
En hvaða "ný" álver ert þú að tala um, sem borga þetta hærra verð, Ketill? Ég veit ekki til þess að ný álver hafi verið byggð í Evrópu á þessum tíma. Það hafa þó eflaust verið endurnýjaðir eldri samningar við álfyrirtæki og þar kemur örugglega einhver hækkun inn.
Ég held að miðað við orkuverð, og þá ekki síður orkuskort, í Evrópu, USA og víðar, þá verði ekki byggður upp frekari orkufrekur iðnaður á Vesturlöndum. Sá iðnaður mun færast til ríkja sem boðið geta upp á gasorkuver, en eins og margir vita hafa mörg ríki yfir gríðarlegri vannýttri orku að ráða í jarðgasi.
Arðsemi LV er fullkomlega ásættanleg þó alltaf megi, og eigi að reyna að fá sem hæst verð fyrir orkuna. Það verður þó að gæta sanngirni og meta arðsemina út frá aðstæðum hverju sinni. Íslensk orkufyrirtæki hafa á undanförnum 40 árum fjárfest í nýframkvæmdum langt umfram önnur orkufyrirtæki á Vesturlöndum. "Arðurinn" hefur farið að mestu í þá uppbyggingu og á meðan egg hænunnar eru tekin til útungunar, verður húsfreyjan að bíða með baksturinn.
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.11.2011 kl. 13:49
Magnús (IP-tala skráð) 21.11.2011 kl. 11:36; það að nýta vatnsafl í stórum stíl á Grænlandi er áhugavert til framtíðar. Og þá sennilega fremur á vestur-ströndinni, þar sem er miklu meira land undan jökli og betri möguleikar á miðlunarlónum.
Ketill Sigurjónsson, 21.11.2011 kl. 14:28
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.11.2011 kl. 13:49; með nýjum álverum var ég ekki að vísa til álvera í Evrópu, heldur í heiminum öllum. Og ég er vel að merkja ekki að éta þetta um hækkanir á raforkuverði eftir Herði Arnarsyni, heldur eftir CRU. CRU fullyrðir að raforkuverð til álvera hafi byrjað að hækka verulega árið 2000. Og t.a.m. hafi orðið mikil hækkun 2000-2001 (þetta sést reyndar á grafinu). Þá hægði á hækkununum en svo tók verðið aftur við sér síðla árs 2002 og hækkaði hratt eftir það. Ég hef reyndar ekki heyrt Hörð segja að raforkuverðið í samningnum við Alcoa hafi verið mistök; hann segir einfaldlega að reynslan fram til þessa sé sú að orkusölusamningurinn sé ekki að skila nógu góðri arðsemi. Og segir líka að hann myndi ekki semja á þessum nótum í dag - sem er allt annar handleggur því nú er umhverfið í orkumálum ólíkt. Það er reyndar kannski best að við séum ekki að eyða orku í að kýta um það hvort arðsemi LV hefur verið góð eða slæm. Heldur fremur horfa til þess með hvaða hætti fyrirtækið og orkulindirnar geti skilað landsmönnum sem mestum ávinningi til framtíðar. Ef við setjum næstu 600 MW bara í álver er ég ansið hræddur um að arðsemin og langtímaávinningur verði lítill. Það væri svona álíka eins og ef Katar myndi ákveða að nýta allt gasið sem þeir framleiða til álvera heima fyrir. Þeir nýta það þannig að hluta til. En selja líka stóran hluta þess sem LNG til Japan og víðar. Við þurfum meiri fjölbreytni í raforkusöluna.
Ketill Sigurjónsson, 21.11.2011 kl. 14:53
Ég get tekið undir með þér þegar þú segir:
"Það er reyndar kannski best að við séum ekki að eyða orku í að kýta um það hvort arðsemi LV hefur verið góð eða slæm. Heldur fremur horfa til þess með hvaða hætti fyrirtækið og orkulindirnar geti skilað landsmönnum sem mestum ávinningi til framtíðar"
Það má samt ekki gleyma því að Landsvirkjun er ríkisfyrirtæki sem hingað til hefur hefur einnig haft það hlutverk að jafna lífskjör og gæði í landinu. Það hlutverk rækir fyrirtækið m.a. með því að virkja m.t.t. byggðasjónarmiða. þ.e. að nýta orkuna í heimahéraði. Það er arður í því í heildina séð fyrir þjóðina alla, þ.e.a.s. ef við viljum að landið allt sé í byggð.
Það er augljóst að Hörður er undir pólitískum þrýstingi þegar hann tjáir sig um arðsemi virkjana. Hann hefur viðskipta og rekstrarvit, ég held að engin velkist í vafa um það og þess vegna er líka undarlegt að hann taki út arðsemi Kárahnjúkavirkjunar eftir aðeins fjögurra ára rekstur. Slíkt gera menn ekki þegar um langtíma fjárfestingar er að ræða.
Langaði bara til að skjóta þessu hér inn.
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.11.2011 kl. 16:45
Flott samantekt að vanda. Sjálfur hef ég fjallað nokkrum sinnum um þennan arðsemisvanda vegna sölu raforku til stóriðju, en hef jafnframt varað við því að flytja raforku út um sæstreng. Tel mikilvægt að við fullvinnum eins mikið af auðlindum okkar hér innanlands. Innlenda raforku á að nota til atvinnusköpunar og hagvaxtar hér á landi. Vilji einhver kaupa af okkur raforku, þá verður viðkomandi að borga sjálfur fyrir flutning yfir hafið.
Marinó G. Njálsson, 22.11.2011 kl. 09:05
Góð Grein að vanda en þó nokkrar athugasemdir.
Miðað við grafið sem þú birtir finnst mér að Kárahnjúkasamningarnir séu ótrúlega góðir. Þeir eru gerðir árið 2002 þegar verð til nýrra álvera var um $20, en eru að gefa $27 sem er mitt á milli þess og sem ný álver eru að borga núna.
Ég hef sagt hér áður að ég tel að mestu mistökin sem hafi verið gerð í stóriðjusamningum voru árið 2003 þegar samið var um stækkun Norðuráls, en ekki fyrri samningarnir sem þú nefnir sem undirboð OR. Árið 2003 var orðin gjörbreitt staða frá árinu 2002 eins og kemur fram á grafinu þínu. Þá var Norks Hydro komið aftur til landsins að reyna að fá samning ásamt nær öllum stærstu álframleiðendum heimsins. Þá ákveður stjórn Landsvirkjunar að fresta Norðlingaölduveitu. Ástæðurnar eru sennilega tvær, Landsvirkjun hafði nóg undir með byggingu Kárahnjúkavirkjunar og treysti sér ekki í meiri framkvæmdir og/eða fékk ekki nægjanlega hátt orkuverð, vegna þess að Alfreð beið á línunni með sína stórveldiisdrauma. Áður en stjórnarfundi LV lauk var hann kominn í ríkisútvarpið og sagði að þessi frestun LV væri ekkert mál, OR gæti alveg skaffað þessa orku. Þó þetta hefði nú verið satt hefði þá ekki verið klókara vegna þeirra samningaviðræðna sem OR var að fara í við Norðurál að segja sem svo að OR gæti hugsanlega bjargað stækkuninni ef um semdist.
Nú vita hinsvegar allir að OR réð engan veginn við þetta, og ég tel alveg ljóst að Norðurál vissi fyrirfram hvað Alfreð ætlaði að bjóða þeim og þessvegna hækkuðu þeir sig ekki í samningunum við LV.
Já stórmennskudraumar litla mannsins Alfreðs voru þjóðinni dýrir, settu OR á hausinn stórhækkuðu heitavatns reikninga borgarbúa og komu í veg fyrir að LV fengi hátt orkuverð fyrir ódýrasta og umhverfisvænasta virkjunarkost landsins. Virkjunin væri sennilega að fullu uppgreidd núna og staða Landsvirkjunar (og OR) og lánskjör ólíkt betri en þau eru í dag.
Þeir hafa löngum verið þjóðinni dýrir framsóknarmennirnir í Reykjavík.
Þorbergur Steinn Leifsson
Þorbergur Steinn Leifsson (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 03:14
Flott samantekt Ketill. Ég komst því miður ekki á haustfundinn, þó ég hefði viljað fara.
Veistu hversu langir raforkusamningar álfyrirtækjanna eru og þá sérstaklega í tilviki Alcoa Fjarðaráls? Það er náttúrulega ekkert hlaupið að því að segja slíku fyrirtæki að nú eigi það að borga hærra verð, ég sé ekki að Alcoa kyngi því með já og amen.
Eins virðist sem landsmenn fari stundum framúr sér þegar verið er að tala um vænta arðsemi Landvirkjunar á komandi árum. Það eru ennþá mörg ef sem þurfa til og það virðist líka gleymast að það þarf mjög fjárfrekar framkvæmdir til að draumurinn geti orðið að veruleika
Hjalti Rognvaldsson (IP-tala skráð) 25.11.2011 kl. 23:22
Hjalti Rognvaldsson (IP-tala skráð) 25.11.2011 kl. 23:22; samningur LV við Alcoa mun hafa verið til 40 ára með endurskoðunarákvæði eftir 20 ár. Endurskoðunarákvæðið verður því væntanlega virkt um 2024, en ég veit ekki hversu mikið svigrúm það veitir til verðbreytinga (það hefur ekki verið gefið upp).
Ketill Sigurjónsson, 25.11.2011 kl. 23:56
Getum við þá nokkuð átt von á því að arðsemi Kárahnjúkavirkjunnar hækki fyrr en þá, nema þá að álverð hækki á næstu 13 árum?
Hjalti Rognvaldsson (IP-tala skráð) 27.11.2011 kl. 23:55
Hörður Arnarsson beitti alveg nýrri nálgun í arðsemisútreikningum varðandi Kárahnjúkavirkjun. Hann reiknaði út arðsemina af fyrstu fjórum árum rekstrarins, þegar fjármagnskostnaður er mestur og fær út úr því 3,5% arðsemi, sem er reyndar mjög svo fjarri fullyrðingum þeirra sem börðust gegn virkjuninni. Þeir gáfu sér fyrirfram niðurstöður þegar þeir settust niður með reiknisstokkinn. Til þess að fá óskaða niðurstöðu, urðu þeir auðvitað að gefa sér forsendur sem voru fjarri raunveruleikanum. Útreikninga sína fengu þeir Þorstein Siglaugsson, rekstrarhagfræðing og kennara við HR, til að gera fyrir sig og héldu að með slíkan "fræðing" á sínum snærum, léðu þeir trúverðugum blæ á fullyrðingar sínar.
En aftur að Herði; hann hefur verið margsaga í yfirlýsingum sínum varðandi stóriðju og arðsemi virkjana, frá því hann tók við starfi sem forstj. LV. Augljóst er að hann er undir pólitískum þrýstingi ríkisstjórnarinnar, eða a.m.k. hluta hennar. Sjá:
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.11.2011 kl. 00:25
Thad er svosem ekki skrytid ad vid bjodum laegra verd en adrir. Vid erum ekki tengtir einsog Nordmenn og thvi samanburdur i raun rangur og a sama tima er toluverd ahaetta folgin i nattururaski a Islandi, sem menn verdsetja.Vid thurfum einfaldlega ad byggja linu til Evropu, eda satsa a ad rafvaeda bilaflota landsins.
Nordmann eru ad selja rafmagnid sitt i kringum jadarkostnad a kolum eda gasi, en fer eftir lonstodum hja theim. Thad var og er enntha algengt storidjann er med langtimasaminga eda tvihlidasaminga tengtir vid eitthvad "index" .
Helgi (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 10:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.