Vongóður í landi Væringjanna

Pólland er land orkutækifæranna um þessar mundir. Eins og sagt var frá í nýlegri færslu Orkubloggsins, er þar nú að hefjast mikið gasgullæði. Enda streyma stóru orkufyrirtækin til Póllands til að festa sér land til að bora eftir gasi.

Ukraine-Shale-gas-map

Svo gæti farið að eftir nokkur ár verði kolalandið Pólland orðið einn mesti gasframleiðandi Evrópu. Ævintýrin gerast enn í orkuiðnaðinum. Meira að segja í gömlu Evrópu. 

En það er nú þegar búið að selja vinnslurétt á stórum hluta Póllands. Þess vegna eru spekúlantarnir strax farnir að svipast um eftir nýjum möguleikum. Svæðum sem eru líkleg til að verða næsta gasæði að bráð. Og þá beinast sjónir manna að löndum eins og Búlgariu og þó enn frekar Úkraínu.

Enn og aftur er það nýja gasvinnslutæknin sem er að valda straumhvörfum. Þ.e. sú aðferð að sprengja upp grjóthörð jarðlögin djúpt undir ökrunum með efnablönduðu háþrýstivatni - fyrst niður og síðan lárétt gegnum sandsteininn - og losa þannig um innikróuð lög af jarðgasi. 

Gas-shale-Seismology-exploration-trucks-Lugansk-Ukraine

Í Evrópu er vestanverð Úkraína hugsanlega mjög spennandi. Gasleitin þar er þó enn mjög skammt á veg komin þarna austan Karpatafjalla og rétt svo að fyrstu teymin séu farin að þreifa fyrir sér. Í sumar sem leið fréttist þó af fáeinum trukkum, sem mjökuðust um gamaldags sveitavegi vestarlega í Úkraínu með búnað til endurvarpsmælinga og fleira góðgæti.

Það sem gerir Úkraínu sérstaklega áhugaverða er að þar er samkeppnin um land miklu minni, heldur en í Póllandi Evrópusambandsins. Þarna er að vísu við það smávægilega vandamál að etja, að aðgangur útlendinga að úkraínsku landi er háður ýmsum takmörkunum. En með réttu samböndunum og þefskyn á lagaglufur er lítið mál að höndla það! Það geta lögfræðingarnir ljúfu á viðkunnalegum skrifstofum Salans við Volodymyrskagötu í Kænugarði eflaust staðfest við lesendur Orkubloggsins.

Europe-soccer-2012-poland-ukraine

Það er óneitanlega svolítið skemmtilegt að gasspekúlantar skuli nú horfa bæði til Póllands og Úkraínu. Þessi lönd stóðu nefnilega saman að boði um að halda næstu úrslitakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu - og höfðu þar á endanum sigur. Það verður næsta sumar (2012) að bestu knattspyrnumenn álfunnar koma saman í bæði Kiev og Varsjá og nokkrum örðum borgum Póllands og Úkraínu. Og etja þar kappi um sjálafan Evrópumeistaratitilinn.

Eftir að hafa kaflesið heilu skýrslubunkana og pælt gegnum háa gagnastafla um slétturnar austan Karpatafjalla, er niðurstaða Orkubloggarans sú að þarna séu tvímælalaust æpandi tækifæri fyrir hendi. Svo skemmir ekki fyrir að Úkraína er bæði fallegt og fjölbreytt land. Sjálf Kiev er líka bæði notaleg og falleg borg - þrátt fyrir að hafa orðið illa úti í stríðinu og þrátt fyrir það að vera einungis u.þ.b. 100 km frá kjarnorkuverinu alræmda í Chernobyl.

Í heimsstyrjöldinni ærðist Stalín þegar Kiev féll í hendur Þjóðverja. Moskva, Stalíngrad og Kiev voru hið heilaga þríeyki og stolt Stalíns, sem aldrei skyldu falla í hendur hersveita Hitlers. Kiev slapp reyndar miklu betur en Stalíngrad (og eins og allir vita komust Þjóðaverjar mjög nálægt Moskvu en máttu undan láta). En þó svo Kiev hafi ekki verið jöfnuð við jörðu, þá er borgin ævarandi minning um geðveiki styrjaldarinnar.

Kiev-Babi-Yar-memorial-4

Kiev varð nefnilega vettvangur einhverra hryllilegustu fjöldamorða í stríðinu öllu. Þegar þýski herinn og SS-sveitirnar slátruðu meira en þrjátíu þúsund gyðingum á tveimur sólarhringum í útjaðri borgarinnar, þar sem heitir Babi Yar. Um þessar mundir eru einmitt liðin nær slétt 60 ár frá þessum skelfilegu fjöldamorðum. Þetta var 30. og 31. september 1941. Og Babi Yar varð áfram vettvangur grimmdarverka Þjóðverja á Úkraínumönnum. Alls voru 100-150 þúsund Úkraínumenn myrtir við Baby Yar; mest gyðingar en einnig sígaunar, andspyrnumenn, stríðsfangar og almennir borgarar. Þjóðverjarnr voru duglegir að ljósmynda aðfarirnar og eru þær myndir skelfilegri en orð fá lýst. Orkubloggarinn hreinlega treysti sér ekki til að setja myndir af þeim hryllingi hér í færsluna (forvitnir og fróðleiksfúsir geta auðveldlega nálgast umrætt myndefni á Netinu).

Í dag er löngu búið að fylla Babi Yar með grjóti og jarðvegi og byggja blokkir þar yfir. Þarna eru þó faéin minnismerki. Sbr. höggmyndin af börnunum hér að ofan, sem er eitt minnismerkjanna um skelfinguna við Babi Yar.

Kiev-statue_Maidan-nezalezhnosti-3

Ja - sagan drýpur svo sannarlega af hverju strái þarna austur í Úkraínu. Og sjálf Kiev er hrein veisla fyrir sagnfræðiþyrsta. Hvort sem þeir hafa fyrst og fremst áhuga á hörmungum heimsstyrjaldarinnar síðari eða sögu víkinga. 

Sjálfum hlýnar Orkubloggaranum jafnan um hjartarætur þegar hann stendur framan við minnismerkið af væringjabræðrunum þremur á Sjálfstæðistorginu (Maidan Nezalezhnosti) í miðborg Kænugarðs. Þeir minna óneitanlega hressilega mikið á norræna víkinga og gætu vel verið náskyldir bæði Ingólfi Arnarsyni og Þorfinni karlsefni. Nema hvað flétturnar og yfirvaraskeggin minna kannski reyndar meira á Ástrík og félaga! En minnismerkið er flott engu að síður. 

Kiev_St-michael-monastery

Ekki síður skemmtilegt er að heimsækja hið gamla heimili rithöfundarins frábæra; Mikhail's Bulgakov (sbr. endurminningablogg Orkubloggarans). Fallegastar eru þó líklega gömlu grísk-kaþólsku kirkjurnar með gullin þök sín og klausturbyggingar allt í kring í sama stíl. Þær eru þarna út um allt og varpa dulúðugum glampa yfir borgina. Jafnvel á köldum og drungalegum vetrardegi getur Kiev verið sjarmerandi borg. Þegar æpandi fullt tungl speglast í kyrru en þungu Dnepr-fljótinu, sem rennur gegnum borgina í ótal sveigjum og bugðum.

Yfir þessu öllu vakir svo tíguleg verndargyðjan; sjálf Móðir Úkraínu (Berehynia). Hún stendur með brugðið sverð sitt á gríðarlega hárri súlu á Sjálfstæðistorginu miðju og gnæfir þar yfir miðborginni. Vonandi stendur hún sína plikt sem verndari Úkraínumanna allra á þessum erfiðu tímum efnahagssamdráttar þar í landi.

Kiev-old-woman-beggar-2

Það er reyndar hálf nöturlegt að sjá allar gömlu konurnar, sem liggja á hnjánum á flotta verslunarbreiðstrætinu Khreschatyk (Крещатик eða Хрещатик), hver og ein með litla skörðótta betlaraundirskál eða bolla fyrir framan sig. Þær drjúpa höfði og án þess að líta upp tauta þær ofurlágt nokkur blessunarorð ofan í gangstéttina, þegar smápeningur hafnar klingjandi í skálinni.

Þarna krjúpa þær endilanga kalda vetrardaga fyrir framan flottar tískubúðirnar og framhjá streyma jafnt Hummer'ar sem gamlar kolryðgaðar Lödur. Sagan hefur ekki farið vel með eldri kynslóðina í Úkraínu. Vonandi á unga fólkið bjartari framtíð fyrir höndum. Gallinn er bara hrikaleg spillingin sem þarna gegnsýrir stjórnkerfið og pólítíkina. Og þá ekki síst þann hluta sem snýr að orkumálum!

Kiev_Maidan-Nezalezhnosti

En það er sem sagt vel þess virði að sækja Kænugarð heim. Og hvað svo sem fátækt og gasdraumum líður, þá verður a.m.k. hægt að skemmta sér yfir fótboltanum. Á tímabili leit að vísu út fyrir að ekki tækist að ljúka framkvæmdum í tæka tíð. Platini, knattspyrnustjóri Evrópu, var meira að segja farinn að svipast um eftir nýju keppnislandi. En nú lítur út fyrir að allt verði tilbúið í tíma. Sjálfur úrslitaleikurinn á að fara fram í Kiev að kvöldi til þann 1. júlí n.k. (2012). Hver veit nema þá muni Andrés Shevchenko enda á toppnum?!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Gasæðið breiðist smám saman út:

http://www.marketwatch.com/story/poised-to-take-the-shale-gas-boom-abroad-2012-01-03?siteid=rss&utm_source=tf

Ketill Sigurjónsson, 3.1.2012 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband