14.11.2011 | 09:17
Evrópa versus Gazprom
Evrópusambandið hefur á síðustu árum lagt mikla áherslu á græna orkustefnu. Í grófum dráttum felst stefnan í því að draga beri úr notkun á kolvetniseldsneyti (olíu, gasi og kolum), auka hlutfall endurnýjanlegrar orku, spara orku og minnka kolefnislosun.
ESB hefur náð talsverðum árangri að koma þessari stefnu í framkvæmd. Hlutfall grænnar orku hefur farið vaxandi og ESB- ríkin eru í fararbroddi við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Í reynd snýst þó meginatriðið í orkustefnu ESB um allt annað en græna orku. Því langmikilvægasta hagsmunamál ESB-ríkjanna felst í því að tryggja sér betri, fjölbreyttari og öruggari aðgang að orkulindum utan sambandsins.
Evrópusamabandið er gríðarlega háð innfluttri orku. Eða öllu heldur flest aðildarríki þess. Af öllum aðildarríkjunum 27 er einungis eitt ríki innan ESB sem framleiðir meiri orku en það notar (sem er Danmörk, en það geta Danir þakkað olíuvinnslu sinni í Norðursjó). Þar að auki fer olíu- og gasframleiðsla innan ESB hratt hnignandi. Þess vegna stendur ESB mun verr að vigi í orkumálum en t.a.m Bandaríkin. Þar vestra hefur gasframleiðsla aukist mikið á undanförnum árum og í Bandaríkjunum eru jafnvel líka góðar líkur á að unnt verði að auka olíuframleiðsluna.
Það er sem sagt svo að með hverjum degi sem líður verður ESB sífellt háðara innfluttum orkugjöfum (þó svo efnahagssamdráttur geti snúið þessu við tímabundið). Þetta er sennilega mesti veikleiki ESB. Enda fagna evrópskir stjórnmálamenn og leiðtogar sambandsins mjög, þegar áfangi næst í því að efla orkuöryggi ESB.
Slík fagnaðarlæti hafa reyndar orðið í tvígang núna í haust (2011). Þar var annars vegar um að ræða þau tímamót þegar fyrsti áfangi Nord Stream gasleiðslunnar var tekinn í notkun. Þar með byrjaði gas að streyma frá Rússlandi til Þýskalands, eftir 1.200 km langri gasleiðslunni sem nú liggur eftir endilöngum botni Eystrasaltsins. Gasið sem núna streymir um verkfræðiundrið Nord Steam er fyrsta gasið sem berst Þjóðverjum frá Rússum, án þess að þurfa að fara eftir gasleiðslum um lönd eins og Úkraínu eða Hvíta-Rússland. Þetta bætir afhendingaröryggi til muna, sem er fagnaðarefni fyrir bæði seljandann (Gazprom) og neytandann (í Þýskalandi og fleiri ESB-ríkjum).
Hitt tilefnið til að skála nú í haust af hálfu ESB var þegar aðildarríki sambandsins (utanríkisráðherraráðið) veittu framkvæmastjórn ESB umboð til að semja við stjórnvöld í Azerbaijan og Túrkmenistan um lagningu mikillar gasleiðslu eftir botni Kaspíahafsins. Leiðslan sú er oftast er kölluð Trans-Caspian Gas Pipeline, en um hana á að flytja gas þvert vestur yfir Kaspíahafið. Frá Túrkmenistan til Bakú í Azerbaijan og þaðan áfram eftir gasleiðslum gegnum orkubrúna Tyrkland og alla leið til Evrópusambandsins.
Náist samningar um þessa rosalegu Kaspíahafs-gasleiðslu aukast líkur á að ráðist verði í lagningu á hinni mikilvægu Nabucco-gasleiðslu (sem áður hefur verið fjallað um hér á Orkublogginu). Enda má segja að þessar tvær gasleiðslur séu svo nátengdar að annað hvort hljóti þær báðar að verða lagðar eða þá hvorug. Svo eru menn líka farnir að tala um að Kaspíahafsleiðslan muni ekki aðeins opna ESB aðgang að hinum gríðarlegu gaslindum í Túrkemistan, heldur einnig að miklu gasi norður í Kazakhstan.
Það eru þessir hagsmunir um framtíðaraðgang að orkulindum Mið-Asíuríkjanna sem valda því að þeir José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Günther Oettinger, framkvæmdastjóri orkumála, hafa undanfarið verið á ferðinni bæði í Bakú í Azerbaijan og handan Kaspíhafsins í Ashgabat, höfuðborg Túrkmenistans. Þar hafa þeir félagarnir f.h. ESB faðmað forsetana báða; þá Ilham Aliyev í Azerbaijan og Gurbanguly Berdimuhamedow í Túrkmenistan. Og komið heim til Brussel með glansandi viljayfirlýsingar um að þessi Mið-Asíuríki bæði séu æst í að selja gas til Evrópu.
Vandamálið er bara að bæði Kínverjar og rússneska Gazprom sækja líka mjög í risavaxnar gaslindirnar í Mið-Asíu. Stóra spurningin er hver verður á undan að byggja gasleiðslur til þessara landa?
Það eru risavaxnir hagsmunir af þessu tagi sem nú hafa orðið til þess að innan ESB eru menn byrjaðir að tala um það að framkvæmdastjórnin þurfi að fá allsherjarumboð til að semja um og höndla með öll orkumál sem snerta aðildarríkin. Þar með yrði til ein sameiginleg orkustefna ESB þar sem framkvæmdastjórnin fengi mikil völd í sínar hendur. Þetta yrði meiriháttar stefnubreyting af hálfu aðildarríkja ESB, en kann að vera nauðsynlegt til að tryggja aðgang þeirra að öruggri orku til framtíðar. Við eigum eflaust eftir að heyra meira af þessum tillögum síðar hér á Orkublogginu - þetta snertir jú beinlínis hagsmuni Íslands sökum þess að við erum umsóknarríki um aðild að ESB.
Það er sem sagt svo að það eru tvær neðansjávar-gasleiðslur sem eru mál málanna í orkustefnu ESB-ríkjanna þessa dagana. Leiðslur sem flytja munu gas til ESB frá löndum í austri; ríkjum sem búa yfir miklum gasauðlindum.
Önnur af þessum gasleiðslum er nú orðin að raunveruleika. Það er engu að síður augljóst að gasið frá Nord Sream mun ekki losa Þýskaland eða önnur Evrópuríki undan gashrammi Rússlands. Reyndar virðist Gerhard Schröder nokk sama um það. Þegar Schröder lét af embætti kanslara Þýskalands tók hann fagnandi boði Rússa um að setjast í stól stjórnarformanns Nord Stream. Þar er rússneski gasrisinn Gazprom vel að merkja langstærsti hluthafinn með 51% hlut (afgangurinn skiptist á milla nokkurra þýskra og fleiri evrópskra fyrirtækja). Hlutverk þessa fyrrum kanslara Þýskalands og formanns þýskra jafnaðarmanna sem stjórnarformanns Gazprom, er væntanlega fyrst og fremst að gæta hagsmuna hluthafa Gazprom. Sem að stærstu leyti er rússneska ríkið! Skemmtilegt evrópskt bræðraþel þarna á ferð.
Það var gaman að sjá hversu vel fór á með þeim ljúflingunum Schröder og Pútín þar sem þeir voru staddir austur í Skt. Pétursborg núna í september sem leið (2011). Tilefnið var að þá var byrjað að prófa hvernig gengi að láta gasið streyma eftir glænýrri Nord Stream leiðslunni. Frá rússnesku borginni með sænska nafnið (Vyborg, sem er skammt frá Pétursborg) og til þýska þorpsins Lubmin, sem er skammt vestan pólsku landamæranna.
Það var svo núna í vikunni sem leið (s.l. þriðjudag) að hin formlega opnunarathöfn Nord Stream fór fram - í þýska þorpinu Lubmin. Þar voru saman komnar margar helstu silkihúfur evrópskra stjórnmálamanna. Sem í sameiningu skrúfuða frá gríðarstórum krana til marks um vígslu á þessari tíu milljarða dollara gasleiðslu (sbr. myndin hér að neðan). Í fremstu röð voru þau Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, en meðal gestanna mátti einnig sjá forsætisráðherra Frakklands, Hollands og fleira mektarfólk. Þarna fengu stjórnmálamennirnir að njóta sín, en rússneski gasrisinn Gazprom hélt sig til hlés.
Þvi miður var lítill púki sem truflaði gleðina. Nefnilega sjálfur efinn. Það er því miður allt eins líklegt að vígsla Nord Stream sé fyrst og fremst skýr táknmynd um að ESB muni í framtíðinni þurfa sífellt meira gas frá Rússum og Gazprom. Jafnvel að Evrópa þurfi að kaupa gas frá Mið-Asíuríkjunum í gegnum Gazprom!
Það er nefnilega svo að hljóðleg en gríðarlega hörð barátta stendur nú yfir um aðgang að gaslindum Mið-Asíuríkjanna. Kína er á góðri leið með að tryggja sér þarna væna sneið af kökunni. Og Rússar ætla sér svo sannarlega að koma í veg fyrir að þessi fyrrum Sovétlýðveldi selji gasið beint vestur til Evrópu. Þess í stað vilja þeir að gasið fari fyrst til Rússlands og þaðan til Evrópu - um lagnir Gazprom! Þar með fengju Rússar ekki aðeins væn flutningsgjöld, heldur líka sterkan pólítískan ávinning með því að geta hvenær sem er lokað á gasstreymið til Evrópu.
Kapphlaupið um beinan aðang að gaslindum Mið-Asíuríkjanna er eitthvert hljóðlátasta en um leið mikilvægasta hagsmunamálið í gjörvöllum orkugeiranum um þessar mundir. EF Evrópusambandsríkin tapa þessu kapphlaupi mun það gera ESB svakalega háð gasflutningum um Rússland. Vegna bæði landfræðilegra, sögulegra og pólítískra aðstæðna er óneitanlega líklegt að þarna muni Gazprom hafa betur en ESB. Og þess vegna lítur út fyrir að þrátt fyrir að North Stream sé komin í gagnið, þá kunni Evrópusambandið að vera í arfaslæmum málum.
En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Á síðustu misserum hafa nefnilega orðið merkilegir atburðir í evrópska orkugeiranum, sem gætu hreinlega gjörbreytt aðgangi ESB að orku til langrar framtíðar - til hagbóta fyrir sambandið og á kostnað Gazprom! Það magnaða ævintýri snýst um hreint ótrúlegar gaslindir sem kann að vera að finna í austur í Póllandi, Búlgaríu og Úkraínu. Meira um þá dramatík síðar hér á Orkublogginu.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.